Veftré Print page English

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta


Hér birtist skrá yfir ýmsa atburði í dagskrá forseta en auk þeirra sem hér eru nefndir er fjöldi annarra þátta sem ekki eru tilgreindir,  t.d. fundir með ráðherrum og embættismönnum, fulltrúum fyrirtækja og samtaka og fjölmörgum einstaklingum með margvísleg erindi og erlendum gestum sem til Íslands koma. Þá sækir forsetinn jafnframt fjölda menningarviðburða sem ekki eru raktir hér, s.s. leiksýningar, myndlistasýningar, tónleika og aðra mannfagnaði.

 

Árið 2010

 

Janúar

01.01.2010 Nýársmóttaka forseta á Bessastöðum fyrir ráðherra, hæstaréttardómara, alþingismenn, sendiherra, ræðismenn, forystumenn ríkisstofnana og embættismenn, forystumenn félagasamtaka, stéttarsamtaka og atvinnulífs og aðra gesti.
01.01.2010 Forseti sæmir tíu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Fréttatilkynning
01.01.2010 Forseti flytur nýársávarp sem sjónvarpað er frá Bessastöðum. Ensk þýðingFlutningur
02.01.2010 Forseti á fund með fulltrúum InDefence hópsins eftir að þeir afhentu forseta undirskriftir rúmlega 58.000 Íslendinga þess efnis að forseti synji nýjum IceSave lögum staðfestingar. Á fundinum fjölluðu fulltrúar hópsins um þau sjónarmið og rök sem áskorunin styðst við.
05.01.2010 Forseti er viðstaddur val á íþróttamanni ársins við hátíðlega athöfn þar sem einnig voru heiðraðir þeir sem voru valdir íþróttamenn ársins í einstökum keppnisgreinum. Á hátíðinni voru fjölmargir sem áður höfðu verið valdir íþróttamenn ársins, afreksfólk í íþróttum og forystufólk íþróttahreyfingarinnar auk íþróttafréttamanna. Ólafur Stefánsson var valinn íþróttamaður ársins. Athöfninni var sjónvarpað og í upphafi hennar flutti forseti ávarp. Vefur RÚV.
05.01.2010 Forseti afhendir Íslensku bjartsýnisverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó en þau hlaut að þessu sinni Vikingur Heiðar Ólafsson píanóleikari.
05.01.2010 Forseti flutti yfirlýsingu um niðurstöðu sína varðandi hin svonefndu Icesave lög á blaðamannafundi á Bessastöðum. Yfirlýsing forseta. English translation.
06.01.2010 Forseti ræðir við Jeremy Paxman aðalstjórnanda breska fréttaþáttarins Newsnight á BBC um ákvörðun forseta, stöðu Icesave málsins, afstöðu Íslendinga og farsæla sambúð við aðrar þjóðir. Viðtalið á YouTube.
06.01.2010 Forseti ræðir við fjölmarga fjölmiðla í Bretlandi, Hollandi og öðrum Evrópulöndum, m.a. BBC, CNN, Financial Times og hollenska útvarpið.
06.01.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi Timo Summa en Evrópusambandið hefur nú opnað sendiráð á Íslandi. Rætt var um samstarf Íslands við Evrópusambandið á undanförnum árum, bæði innan EES samningsins og Schengen, þróun mála á Norðurslóðum,  umræður á Íslandi um aðildina að Evrópusambandinu og stöðu efnahagsmála. Mynd
07.01.2010 Forseti á samræður við fulltrúa íslenskra fjölmiðla, sjónvarpsstöðva, útvarpsstöðva og blaða á Bessastöðum þar sem ítarlega var rætt um ákvörðun forseta, atburði síðustu daga og viðbrögð hérlendis og erlendis.Hljóðupptaka frá fundinum á vef RÚV.
07.01.2010 Forseti ræðir við morgunþætti á tveimur rásum BBC, bæði BBC 4 Today og BBC 5 Live þar sem forseti svaraði meðal annars spurningum frá hlustendum. Þá ræddi forseti einnig við fréttamenn norska sjónvarpsins og danska sjónvarpsins. Fjallað var um ákvörðun forseta, stöðu Icesave málsins, viðbrögð á alþjóðavettvangi og á Íslandi, stuðning við málstað Íslendinga og framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi. Þá ræðir forseti við fulltrúa Sunday Times blaðsins í Bretlandi en það kemur út um helgina.
08.01.2010 Forseti ræðir við fréttamann Bloomberg, í beinni útsendingu í morgunþætti þessarar alþjóðlegu viðskiptasjónvarpsstöðvar. Þá ræddi forseti einnig við blaðamann frá Aftenposten í Noregi.
09.01.2010 Forseti sækir árlegan hátíðarkvöldverð klúbbs matreiðslumeistara þar sem úrvalssveit íslenskra matreiðslumanna bar á borð nýja rétti byggða á íslensku hráefni, fiski, kjöti, gróðri og grösum. Í lok hátíðarkvöldverðarins flutti forseti ávarp, þakkaði fyrir hönd gesta frábæra frammistöðu íslenskra matreiðslumanna á undanförnu ári og árum en íslensk matargerð væri orðin öflugur þáttur í vaxandi ferðaþjónustu sem skapaði Íslandi mikilvægan gjaldeyri á erfiðum tímum.
09.01.2010 Forseti tekur þátt í hátíð vegna sextíu ára afmælis skátafélagsins Landnema, heimsækir skátaheimilið og er viðstaddur skemmtun í kvöldvökustíl. Forseti var á sínum yngri árum félagi í Landnemum og er nú verndari Skátahreyfingarinnar.
12.01.2010 Opinber heimsókn forseta til Indlands hefst; sjá nánar í fréttatilkynningu.
14.01.2010 Forsetahjónin og aðrir íslenskir gestir sitja hátíðarkvöldverð sem forseti Indlands Pratibha Patil býður til í hinni sögufrægu forsetahöll Rashtrapati Bhavan. Ræða forseta.
14.01.2010 Opinber heimsókn til Indlands: Forseti Indlands frú Pratibha Patil afhenti fyrr í dag forseta Nehruverðlaunin við hátíðlega athöfn í Delí að viðstöddum forsætisráðherra Indlands Manmohan Singh, varaforsetanum Mohammad Hamid Ansari, ráðherrum og fjölda indverskra áhrifamanna ásamt Soniu Gandhi leiðtoga Kongressflokksins. Ræða forsetaFréttatilkynning. Myndir 
14.01.2010 Opinber heimsókn til Indlands: Indland: samvinna og stuðningur, sjá nánar í fréttatilkynningu. Myndir
15.01.2010 Opinber heimsókn til Indlands: Forseti átti fund með Ratan Tata, forstjóra Tata samsteypunnar sem er eitt öflugasta fyrirtæki Indlands á heimsvísu, umsvifamikið í margvíslegum iðnaði, upplýsingatækni, bílaframleiðslu og fleiri greinum , bæði í Asíu, Evrópu og Ameríku. Ratan Tata þáði boð forseta um að heimsækja Ísland til að kynna sér nánar árangur landsins á ýmsum sviðum. Sjá nánar í fréttatilkynningu. Myndir
16.01.2010 Á síðasta degi opinberrar heimsóknar á Indlandi heimsækir forseti samstarfsaðila ýmissa íslenskra fyrirtækja í Bangalore. 

Dagurinn hófst með heimsókn til InfoSys, eins stærsta upplýsingatæknifyrirtækis í veröldinni, með um 100.000 starfsmenn. Þar var rætt um stofnun gagnavera á Íslandi og þróun og prófun hugbúnaðar á Íslandi sem nýta má á alþjóðlegum markaði í samstarfi við öfluga aðila. Forseti skoðaði einnig hið nýja og glæsilega svæði InfoSys í Bangalore þar sem er fjöldi nýrra bygginga en fyrirtækið rekur átta slík svæði á Indlandi. Meðalaldur starfsmanna fyrirtækisins er 26 ár.

Þá heimsótti forseti Hindustan Turbomachinery þar sem er verið að smíða jarðhitaver sem kemst fyrir í einum gámi og er nokkur megavött. Jarðhitaverið er þróað af íslenska tæknifyrirtækinu Kaldara sem falið hefur Indverjum smíði þess. Það fyrsta verður sett upp í Kenía í apríl og það næsta prófað við Hellisheiðarvirkjun á Íslandi. Gerð slíkra smárra jarðhitavera getur valdið byltingu í nýtingu jarðhita víða um heim. Íslenska fyrirtækið Alvar er einnig að ræða við Hindustan Turbomachinery um smíði bora sem auðveldað geta fyrstu stig við könnun á jarðhita.

Að því loknu heimsótti forseti Lotus rannsóknafyrirtækið sem prófar og þróar ný lyf á vegum Actavis en fyrirtækið hefur þrefaldað stærð sína frá því forseti var viðstaddur undirritun samnings Lotus og Actavis fyrir fimm árum. Fyrirtækið gegnir lykilhlutverki í framtíðarþróun Actavis.

Einnig tók forseti þátt í málþingi á vegum stofnunarinnar Mobility India sem hjálpar fötluðu fólki í þorpum og í fátækari hverfum Bangalore að lifa eðlilegu lífi. Íslenska fyrirtækið Össur hefur gerst samstarfsaðili Mobility India og var því samstarfi fagnað sérstaklega á málþinginu. Forseti skoðaði einnig verkstæði og starfsemi stofnunarinnar og hélt ræðu á málþinginu um mikilvægi þess að slíkt samstarf gæti orðið til að auðvelda fólki að njóta lífsins á nýjan leik.

Um kvöldið sat forseti hátíðarkvöldverð í boði ríkisstjóra Karnatakafylkis Hans R. Bhardwaj þar sem viðstaddir voru fulltrúar margra íslenskra aðila sem eiga í samstarfi í Bangalore.
19.01.2010 Forseti á fund með forseta Maldíveyja, Mohamed Nasheed, í Abu Dhabi þar sem báðir sóttu Heimsþing hreinnar orku. Fréttatilkynning. Mynd.
20.01.2010 Forseti sækir Heimsþing Heimsþingi hreinnar orku (World Future Energy Summit) í Abu Dhabi. Heimsþingið sækir fjöldi forseta, forsætisráðherra, umhverfisráðherra og orkuráðherra víða að úr veröldinni auk vísindamanna, tæknimanna, sérfræðinga og forystumanna í atvinnulífi. Markmið þingsins er að vísa veginn í átt að byltingu í orkubúskap heimsins þar sem sólarorka, vindorka, jarðhiti, vatnsorka og aðrir hreinir orkugjafar yrðu ráðandi. Forseti hefur átt viðræður við fjölda ráðamanna sem sækja þingið. Einnig tók forseti þátt í hátíðlegri verðlaunaathöfn í gærkvöldi þar sem Zayed framtíðarorkuverðlaunin voru afhent. Verðlaunin eru meðal hinna veglegustu í heimi og á forseti sæti í dómnefnd verðlaunanna. Myndir.
21.01.2010 Forseti flytur lokaræðuna á Heimsþingi hreinnar orku (World Future Energy Summit) sem haldið er í Abu Dhabi. Ræða forseta.
27.01.2010 Forseti sækir Alþjóða efnahagsþingið í Davos. Fréttatilkynning.
29.01.2010 Forseti sækir fundi og ræðir við fjölmiðla í Davos. Fréttatilkynning.
30.01.2010 Frásögn CNN af viðtali við forseta Íslands. Frásögn Vísis.is og Pressunnar af málinu. Upptaka af viðtalinu á vef CNN.  Viðbrögð Darlings fjármálaráðherra Breta við ummælum forseta (endursögn á pressan.is). Frétt Bloomberg af viðtali við forseta. Viðtal við forseta á BBC.
31.01.2010 Forseti er viðstaddur leik Íslands og Póllands á Evrópumótinu í handbolta sem haldið er í Vín, heilsar upp á leikmenn að loknum sigri þeirra, er viðstaddur verðlaunaathöfn mótsins og ræðir við forystumenn handknattleikssambandsins og ÍSÍ sem einnig voru á þessum lokadegi mótsins. Þá var forseti viðstaddur úrslitaleik mótsins þar sem Frakkar og Króatar áttust við

Febrúar

01.02.2010 Forseti birtir kveðju vegna andláts Steingríms Hermannssonar fyrrverandi forsætisráðherra. Kveðja.
05.02.2010 Forseti sækir frumsýningu Halaleikhópsins á verkinu Sjöundá - Svartfugl en það er byggt á verki Gunnars Gunnarssonar í nýrri leikgerð Ágústu Skúladóttur og Þorgeirs Tryggvasonar. Leikhópurinn samanstendur af ólíkum einstaklingum, fötluðum sem ófötluðum, og var hann stofnaður árið 1992 og hefur haft að markmiði að iðka leiklist fyrir alla. Meðal styrktaraðila leikhópsins eru Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalag Íslands.
06.02.2010 Forseti sækir Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags í Reykjavík þar sem fjölmargir iðnsveinar voru heiðraðir fyrir góðan námsárangur og meisturum þeirra afhentar viðurkenningar. Einnig var tilkynnt um val á iðnaðarmanni ársins og var það Björgvin Tómasson orgelsmiður. Forseti flutti ávarp við atöfnina en einnig fluttu ræður Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson forseti borgarstjórnar.
08.02.2010 Forseti tekur á móti eintaki af nýrri sögu Kaupfélags Skagfirðinga en stjórnarformaður Kaupfélagsins og kaupfélagsstjóri færðu forseta hana á Bessastöðum
08.02.2010 Forseti á fund með forráðamönnum ráðstefnunnar Driving Sustainability sem haldin hefur verið á Íslandi á undanförum árum en hún er helguð alþjóðlegri umfjöllun um umhverfisvænar samgöngur. Rætt var um þróun ráðstefnunnar, möguleika Íslendinga til að gera bílaflota sinn vistvænni og uppbyggingu umfjöllunar um þessi efni í öðrum löndum.
09.02.2010 Forseti tekur á móti hópi einhverfra barna á Bessastöðum og fylgdarfólki þeirra og sýnir þeim staðinn og margvíslega gripi sem þar er að finna.
09.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Möltu hr. Paul Bonello sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um stöðu eyríkja í Evrópu, sjávarútveg og reynslu Möltu af aðild sinni að Evrópusambandinu. Mynd.
09.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kólumbíu á Íslandi hr. Rafael Nieto Navia sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samvinnu á sviði menningar og lista, hugsanlega þátttöku í lista- og bókmenntahátíðum á Íslandi, sem og nýtingu hreinnar orku í Kólumbíu í samstarfi við nágrannalönd í Mið- og Suður-Ameríku. Mynd.
09.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Austurríkis dr. Daniel Krumholz sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um Evrópumótið í handbolta sem haldið var í Austurríki, möguleika á samvinnu á sviði hreinnar orku í Mið- og Austur-Evrópu, samstarf Íslands og Austurríkis á alþjóðavettvangi sem og viðhorf Austurríkis til umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Mynd.
10.02.2010 Forseti afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Í flokki fagurbókmennta hlaut þau Guðmundur Óskarsson fyrir skáldsöguna Bankster. Í flokki fræðirita og rita almenns efnis hlaut verðlaunin Helgi Björnsson fyrir ritið Jöklar á íslandi.
11.02.2010 Forseti afhendir Íslensku þekkingarverðlaunin við hátíðlega athöfn en Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga stendur að verðlaununum og er forseti verndari þeirra. Forseti flutti einnig ávarp á samkomunni.
11.02.2010 Forseti sækir afmælishátíð Félags heyrnarlausra í tilefni af fimmtíu ára afmæli félagsins. Forseti tekur við fyrsta eintakinu af bókinni Saga heyrnarlausra á Íslandi og flytur ávarp. Ávarp forseta.
12.02.2010 Forseti sækir hátíðarsamkomu á vegum Fræðslunets Suðurlands á Selfossi og afhendir styrki úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Fræðslunetsins. Á samkomunni var lýst vaxandi starfsemi Fræðslunetsins og samvinnu við Háskólafélag Suðurlands. Einnig voru afhent Menntaverðlaun Suðurlands sem veitt eru á vegum Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.
15.02.2010 Eyrarrósin, sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, var afhent á Bessastöðum. Verndari Eyrarrósarinnar er Dorrit Moussaieff forsetafrú og var það hún sem afhenti viðurkenninguna og verðlaunagripinn. Að þessu sinni var það tónlistarhátíðin Bræðslan sem hlaut Eyrarrósina. Myndir.
15.02.2010 Forseti ýtir úr vör söfnun ABC-barnahjálpar með því að taka á móti fjörutíu grunnskólabörnum úr Álftanesskóla sem eru fulltrúar þeirra barna sem munu á næstu dögum og vikum safna fé til hjálpar börnum á Indlandi og Burkina Faso. Söfnunin ber heitið Börn hjálpa börnum og verður söfnunarfénu varið til að byggja skóla á Indlandi sem þjóna mun 250 börnum í Tamil Nadu og til að safna fyrir 150 sólarofnum fyrir fátækar fjölskyldur í Burkina Faso en þeir ofnar munu bæði spara tíma og peninga, draga úr óæskilegu skógarhöggi og jarðvegseyðingu og gera íbúunum kleift að nýta sólarorku á nýjan hátt.
16.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Makedóníu frú Marija Efremova sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um áhuga Makedóníumanna á aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu, þörfina á lausn deilumála við Grikkland sem og ýmsa möguleika í aukinni samvinnu Íslands og Makedóníu. Mynd 
16.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Venesúela hr. Jose de Jesus Sojo Reyes sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun orkumála í veröldinni, hvernig olíuríki eins og Venesúela leggja aukna áherslu á verkefni á sviði endurnýjanlegrar orku en vatnsorka er nýtt á öflugan hátt í Venesúela. Rætt var um möguleika á samvinnu við íslenska verkfræðinga og orkufyrirtæki, einnig á sviði jarðhita. Þá var og rætt um tækifæri til aukinnar samvinnu á sviði menningar og lista, m.a. með þátttöku í listahátíðum, bókmenntahátíðum og kvikmyndahátíðum. Mynd
16.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bangladess á Íslandi hr. Imtiaz Ahmed sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun stjórnarfars í Bangladess, verkefni nýrrar lýðræðislega kjörinnar stjórnar, áherslur á fæðuöryggi og hvernig hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga ógnar öryggi og lífsháttum í Bangladess. Mynd
17.02.2010 Forseti sækir frumsýningu Menntaskólans við Sund á leikritinu Aladdin sem fram fór í Norðurpólnum, nýrri listamiðstöð í gamalli verksmiðju á Seltjarnarnesi.
18.02.2010 Forseti ræðir við hóp norrænna laganema sem eru á Íslandi á vegum Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, um stjórnskipun landsins og forsetaembættið.
18.02.2010 Forseti á viðræður við Skúla Barker sem færði forseta að gjöf bókina Tragedy and Hope eftir bandaríska sagnfræðinginn Carroll Quigley.
18.02.2010 Forseti tekur á móti hópi nemenda í sögu frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ræðir við þá um sögu Bessastaða og forsetaembættið.
19.02.2010 Forseti var heiðursgestur á árshátíð Politica, félags stúdenta í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands en í ár eru 40 ár liðin síðan kennsla hófst í stjórnmálafræði við skólann og forseti tók doktorspróf í greininnni. Forseti flutti ávarp og tók við viðurkenningu félagsins.
19.02.2010 Forseti afhendir Steinsteypuverðlaunin á málþingi sem helgað er steinsteypudeginum. Verðlaunin eru veitt til að vekja athygli á frumlegri hönnun og til að efla samvinnu arkitekta og verkfræðinga á sviði steinsteyptra mannvirkja svo og að stuðla að framsæknu viðhorfi í íslenskum byggingariðnaði. Í dómnefnd verðlaunanna eru fulltrúar frá Steinsteypufélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Listaháskóla Íslands, Arkitektafélagi íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
22.02.2010 Forseti situr kvöldverð í boði sendiherra Indlands á Íslandi, Sivaraman Swaminathan, þar sem rætt var um árangur af ferð forseta til Indlands  í janúarmánuði og hvernig ýmis samstarfsverkefni verði þróuð á næstunni.
22.02.2010 Forseti sendir samúðarkveðjur til forseta Portúgals vegna hinna hörmulegu náttúruhamfara á Madeira þar sem tugir manna hafa látið lífið. Fréttatilkynning.
23.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Afganistans frú Manizha Bakhtari sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um stöðuna í Afganistan, baráttuna við Talibana, þróunina frá síðustu kosningum og þátttöku alþjóðasamfélagsins í endurreisn og uppbyggingu. Mynd
23.02.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Króatíu hr. Ladislav Pivcevic sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun mála í Króatíu, glímuna við margvíslega erfiðleika og samskipti við Evrópusambandið, svo og möguleika á aukinni samvinnu Íslands og Króatíu á sviði menningarmála. Mynd
24.02.2010 Forseti og forsetafrú heimsækja Norðlingaskóla í Reykjavík. Norðlingaskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2009 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun í fræðslustarfi. Fulltrúar nemenda, skólastjórnendur og kennarar Norðlingaskóla taka á móti forsetahjónunum í Björnslundi, útiskólastofu skólans þar sem boðið er upp á skógarkakó og flatkökur. Í kjölfarið heimsækja forsetahjón kennslustofur, kynna sér kennsluhætti og aðbúnað, viðhorf nemenda og starfsfólks. Farið er m.a. í leikhússmiðju, ritunarsmiðju og rúmfræðismiðju. Myndir. Umsögn dómnefndar. Fréttatilkynning
25.02.2010 Forseti er viðstaddur minningarathöfn um Neil Bardal, fyrrum aðalræðismann Íslands í Winnipeg. Minningarathöfnin er í Þjóðmenningarhúsinu.
25.02.2010 Forseti sækir frumsýningu á frumsömdum rokksöngleik sem leikfélag Fjölbrautaskóla Garðabæjar setur upp. Rokksöngleikurinn ber heitið Déjà Vu og sömdu nemendur verkið en sýningin er á vegum leikfélags skólans Verðandi.
27.02.2010 Forseti er viðstaddur þegar Edduverðlaunin eru afhent en þau eru heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Sjónvarpað er frá athöfninni.
27.02.2010 Forseti er viðstaddur brautskráningu stúdenta við Háskóla Íslands. Um 480 stúdentar voru brautskráðir frá öllum deildum háskólans.
28.02.2010 Forseti er viðstaddur setningu Búnaðarþings. Þar fluttu ræður Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands og Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Einnig voru veitt Landbúnaðarverðlaun. Kjörorð Búnaðarþings er "Aftur kemur vor í dal".

Mars

01.03.2010 Forseti sendir forseta Síles, Michelle Bachelet, samúðarkveðjur sínar og íslensku þjóðinnar vegna jarðskjálftanna í landinu. Fréttatilkynning.
02.03.2010 Forseti afhendir Nýsköpunarverðlaun á Bessastöðum. Markmið verðlaunanna er að heiðra námsmenn sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Fimm verkefni eru tilnefnd til verðlaunanna í ár. Verðlaunin hlýtur Ásgeir Bjarnason fyrir verkefnið Súrefnismettunar- og hjartsláttarnemi.  Fréttatilkynning 
02.03.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Alsírs hr. Fatah Mahraz sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um nýtingu jarðhita í Alsír og nauðsyn þess að gera áætlun um slíka þróun, hvernig íslenskir sérfræðingar og verkfræðifyrirtæki geti tekið þátt í þróun byggðar sem tekur mið af vörnum gegn jarðskjálftum. Einnig var fjallað um deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sviði jarðhita, fiskveiða og landgræðslu. Mynd
04.03.2010 Forseti afhendir Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi við hátíðlega athöfn en um fimmtíu stjórnendur hafa verið tilnefndir til verðlaunanna. Nánar, sjá stjornvisi.is.
04.03.2010 Forseti á fund með prófessor Kevin L. Keller, sérfræðingi í markaðsmálum, og forystumönnum ÍMARKS, félags markaðsfólks á Íslandi, um áherslur í landkynningu og sérstöðu Íslands, bæði í nútíð og framtíð.
05.03.2010  Forseti tekur á móti hópi stúdenta í verkefninu IceMUN þar sem þeir kynna sér starfsemi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna með því að gegna hlutverkum ýmissa ríkja sem sitja í ráðinu. Rætt var um þróun Öryggisráðsins og ýmis vandamál sem það tekur til meðferðar sem og lærdómana af baráttu Íslands fyrir sæti í ráðinu.
05.03.2010 Forseti ræðir við erlenda fjölmiðla um þjóðaratkvæðagreiðsluna og stöðuna í viðræðum Íslendinga við Breta og Hollendinga: Hollenska fréttaþáttinn Nova og hollenska ríkissjónvarpið, Bloomberg sjónvarpsstöðina, BBC sjónvarp og Richard Quest á alþjóðarás CNN.
06.03.2010 Forseti ræðir við Joseph Melillio leikhúsfrömuð frá New York og fulltrúa Vesturports um íslenskt leikhús í alþjóðlegu ljósi, framlag þess til nýsköpunar í leikhúsi og einstakar sýningar eins og Rómeó og Júlíu, Hamskiptin og Fást.
06.03.2010 Forseti ræðir í beinni útsendingu við þrjár útvarpsstöðvar BBC, BBC5, Today's Program á BBC4 og BBC World Service. Þá ræddi forseti við norska og hollenska blaðamenn, Al Jazeera sjónvarpsstöðina, AFP fréttastofuna og öðru sinni við Bloomberg sjónvarpsstöðina. Loks ræddi forseti við Ríkisútvarpið og Stöð 2/Bylgjuna. Hlusta á viðtal við Ríkisútvarpið á vef RÚV.
07.03.2010 Forseti ræðir við BBC World Service í umræðuþætti um heimsmálin, er í viðtali við BBC TV News og ræðir síðdegis við fréttamann BBC World Service News and Current Affairs. Þá ræðir forseti einnig við blaðamann Financial Times, þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ARD og fréttamann frá alþjóðlegu fréttastofunni Ritzau sem og við Ríkissjónvarpið.
08.03.2010 Forseti ræðir við fréttamann japanska stórblaðsins Nikkei um þjóðaratkvæðagreiðsluna, lærdómana sem draga má af henni og stöðu Icesave málsins, bæði frá sjónarhóli viðsemjenda og í alþjóðlegu samhengi
10.03.2010 Forseti afhendir heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV fyrir árið 2009 við hátíðlega athöfn í Iðnó. Verðlaunin hlaut Jórunn Viðar tónskáld og flutti forseti stutt ávarp um störf hennar og tónsmíðar, framlag til íslenskrar tónlistar í meira en hálfa öld.
11.03.2010 Forseti afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins en þau eru veitt í fjórum flokkum auk heiðursverðlauna. Flokkarnir eru: Hvunndagshetjan, Frá kynslóð til kynslóðar, Til atlögu gegn fordómum og Samfélagsverðlaunin. Athöfnin fer fram í Þjóðmenningarhúsinu.
12.03.2010 Forseti tekur þátt í heimsókn forseta Maldíveyja, Mohameds Nasheed til fyrirtækisins TrackWell sem sérhæfir sig í þróun upplýsingatækni. Fyrirtækið hefur hannað eftirlitskerfi með túnfiskveiðum á Maldíveyjum, þar sem boð um ferðir veiðiskipanna  eru send um gervihnetti til aðalstöðva fyrirtækisins á Íslandi.  Þannig er fylgst með veiðum á Maldíveyjum sérhverja klukkustund alla daga ársins. Rætt um framlag upplýsingatækni til þróunar sjálfbærs sjávarútvegs.
12.03.2010 Forseti tekur þátt í kynningarfundi um nýtingu jarðhita sem haldinn er í Hellisheiðarvirkjun fyrir forseta Maldíveyja Mohamed Nasheed og fylgdarlið hans. Þar var fjallað um þróun Orkuveitu Reykjavíkur, möguleika á nýtingu jarðhita á Maldíveyjum, bindingu kolefnis og starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.
12.03.2010 Forseti á fund með Mohamed Nasheed forseta Maldíveyja sem er í heimsókn á Íslandi. Rætt var um samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs og orkumála sem og nauðsyn þess að efla baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Ísland og Maldíveyjar fela í sér mikinn efnivið í slíka baráttu. Bráðnun jökla á Íslandi og norðurslóðum og hækkun sjávarborðs á Maldíveyjum sýna hvernig örlög veraldar eru nú samtvinnuð.
Nýting Íslendinga á hreinni orku í stað olíu og kola sannar að hægt er að breyta orkukerfi þjóða og draga þannig úr hættunni á loftslagsbreytingum. Þá var rætt um skipulag sjávarútvegs á Íslandi og tækniþróun á því sviði og hvernig það getur nýst Maldíveyjum. Þá lagði forseti Maldíveyja til að hann og forseti Íslands myndu í sameiningu hvetja aðrar þjóðir til að grípa til raunhæfra aðgerða í baráttunni geng loftslagsbreytinum.
13.03.2010 Forseti er viðstaddur afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna sem fram fer við hátíðlega athöfn í Óperunni.
13.03.2010 Forseti kynnir forseta Maldíveyja Mohamed Nasheed í upphafi fyrirlestrar sem hann heldur í boði Háskóla Íslands og forseta. Efni fyrirlestursins er loftslagsbreytingar og baráttan gegn þeim.
13.03.2010 Forseti tekur þátt í kynningarfundi sem haldinn er fyrir forseta Maldíveyja Mohamed Nasheed í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Þar kynntu vísindamenn rannsóknir á jöklum á Íslandi og á Grænlandi sem og rannsóknir á hafstraumum í Norður Atlantshafi.
13.03.2010 Forseti tekur þátt í kynningarfundi fyrir forseta Maldíveyja Mohamed Nasheed þar sem fjallað er um íslenskan sjávarútveg og hafrannsóknir. Á fundinum fluttu erindi og svöruðu fyrirspurnum stjórnendur Hafrannsóknarstofnunar, Fiskistofu og Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna.
14.03.2010 Forseti ræðir við hóp franskra blaðamanna sem heimsækja Ísland til að kynna sér land og þjóð og framleiðslu á heilsuvörum.
16.03.2010 Forseti á fund með fulltrúum bandarískra fyrirtækja sem kanna möguleika á að koma á fót gagnaverum og tæknigörðum í upplýsingaiðnaði sem nýta myndu raforku framleidda með jarðhita.
17.03.2010 Forseti á fund með Þorsteini Gunnarssyni og Lassi Heininen um sjötta Rannsóknarþing Norðursins sem haldið verður í Noregi í október. Heiti þingsins er "Our Ice Dependent World" og mun fjöldi fræðimanna, forystumanna á alþjóðavettvangi og áhrifamenn frá þeim átta löndum sem liggja að Norðurskautinu taka þátt í þinginu.
17.03.2010 Forseti á fund með forystumönnum JC hreyfingarinnar um starfsemi hennar á Íslandi og á alþjóðavettvangi,
18.03.2010 Forseti er viðstaddur hátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í tilefni af sextugsafmæli hljómsveitarinnar. Ávarp forseta í dagskrá.
18.03.2010 Forseti er viðstaddur setningu HönnunarMars 2010 í Listasafni Reykjavíkur en fjölþætt dagskrá verður næstu daga.
18.03.2010 Forseti er viðstaddur hátíðardagskrá í tilefni af 250 ára afmæli Landlæknisembættisins. Athöfnin fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands og var efnt til hennar í samvinnu við Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og Læknaminjasafnið.
18.03.2010 Forseti tekur á móti landlækni og starfsliði Landslæknisembættisins í tilefni af því að í dag eru 250 ár liðin frá stofnun embættisins en fyrsti landlæknirinn Bjarni Pálsson var um hríð á Bessastöðum. Rætt var um sögu Landlæknisembættisins og breytingar á íslenskri heilbrigðisþjónustu.
19.03.2010 Forseti tekur á móti hópi AFS skiptinema sem dvelja á Íslandi en þeir eru frá átján löndum.
19.03.2010 Forseti ræðir við fréttamann kínversku sjónvarspsstöðvarinnar CCTV-Channel 2 um þátttöku Íslands í Heimssýningunni í Shanghai og um áherslur landsins: Hrein orka, heilbrigði, náttúrufegurð og hönnun. Forseti mun taka þátt í Íslandsdeginum á Heimssýningunni í september.
21.03.2010 Forseti tekur á móti fulltrúum hinna ýmsu greina sem aðild eiga að HönnunarMarsi og fjölmiðlafólki frá ýmsum löndum.
21.03.2010 Forseti afhendir Ásgeirsbikarinn en hann er veittur árlega fyrir mesta afrek sem unnið er í sundi. Forseti gaf bikarinn til minningar um Ásgeir Ásgeirsson forseta Íslands sem var mikill hvatamaður og áhugamaður um sundíþróttina.
22.03.2010 Forseti á fund með rektor Háskóla Íslands Kristínu Ingólfsdóttur og formanni afmælisnefndar Guðrúnu Nordal til að ræða viðburði í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands 2011.
23.03.2010 Forseti er viðstaddur lokaathöfn Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði og afhendir keppendum frá skólum í Hafnarfirði og á Álftanesi viðurkenningar fyrir þátttökuna.
23.03.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Rússlands á Íslandi Andrey Vasilyevich Tsyganov sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um farsæla samvinnu landanna um langt árabil, aukið mikilvægi norðurslóða, möguleika á auknu samstarfi á sviði menningar og lista sem og aðra þætti í samstarfi landanna. Mynd.
23.03.2010 Forseti á fund með Lassi Heininen, Þorsteini Gunnarssyni og Dagfinni Sveinbjörnssyni um Rannsóknarþing norðursins sem haldið verður í Noregi í október en það ber heitið Our Ice-Dependent World.
23.03.2010 Forseti á fund með Davíð Stefánssyni og Þorsteini Gunnarssyni um málefni RES orkuskólans og þróun hans. Skólinn hefur á fáum árum orðið öflugur vettvangur til að mennta fólk víða að úr veröldinni á sviði hreinnar orku.
23.03.2010 Forseti tekur á móti hópi heyrnarskertra eldri borgara og kynnir þeim sögu Bessastaða.
24.03.2010 Forseti flytur ávarp við upphaf alþjóðlegrar ráðstefnu um nýsköpun, hugvit og græna orku sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við bandaríska háskólann MIT og Nýsköpunar- og frumkvöðlasetrið Innovit. Ráðstefnan ber heitið MIT Global Startup Workshop og sækja hana um 370 manns frá mörgum löndum. Ávarp forseta.
25.03.2010 Forseti ræðir við sérfræðinga og skipuleggjendur alþjóðlegrar ráðstefnu um nýsköpun, hugvit og græna orku. Rætt var um árangur Íslendinga á undanförnum áratugum og á hvaða sviðum framlag landsins á alþjóðavettvangi geti helst orðið.
25.03.2010 Forseti á fund með kínverskri sendinefnd sem kynnir sér hreina orku, stöðu Íslands og árangur landsins á ýmsum sviðum.
31.03.2010 Forseti sendir Dimitry Medvedev forseta Rússlands samúðarkveðjur sínar og íslensku þjóðarinnar vegna hryðjuverkaárásarinnar í Moskvu. Fréttatilkynning.  

Apríl

07.04.2010 Forseti á fund með sendiherra Rússlands á Íslandi Andrey Vasilyevich Tsyganov um fyrirhugaða þátttöku forseta í ráðstefnu um norðurslóðir sem haldin verður í Moskvu síðar í þessum mánuði.
08.04.2010 Forseti á fund með Sigríði Gunnarsdóttur listfræðingi um myndlistarsafn Fjallabyggðar, verk Höllu Har og ritgerð um nokkra af frumkvöðlunum í íslenskri málaralist.
08.04.2010 Forseti ræðir við undirbúningshóp orkuráðstefnu sem haldin verður í tengslum við Íslandsdaga á heimssýningunni í Shanghai í september. Á ráðstefnunni verður kynntur árangur Íslendinga í nýtingu hreinnar orku og hvernig aðrar þjóðir, sérstaklega Kína og þróunarríki, geta nýtt sér hann.
08.04.2010 Forseti ræðir við fulltrúa Íslensku leiðarinnar, tímarits stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands. Rætt var um upphaf og þróun stjórnmálafræðinnar á Íslandi, hlutverk fræðigreinarinnar á komandi tímum, stjórnskipun landsins og stöðu forsetaembættisins innan hennar. Viðtalið mun birtast í næsta tölublaði tímaritsins.
09.04.2010 Forseti sækir tónleika til heiðurs Jóni Nordal tónskáldi sem nýlega hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Á tónleikunum flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands eitt af helstu verkum Jóns
Adagio auk þess sem flutt verða verk eftir fleiri íslensk tónskáld.
09.04.2010 Forseti á fund með forsvarsmönnum Garðarshólmsverkefnisins á Húsavík. Að undanförnu hafa hugmyndir um verkefnið verið ræddar við stofnanir og sérfræðinga víða um heim og lagður grundvöllur að víðtækri samvinnu um framkvæmd þess. Í tengslum við opnun Garðarshólms er rætt um siglingu flota gamalla skipa frá Norðurlöndum til Húsavíkur.
10.04.2010 Forseti er viðstaddur Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fór í Íþróttahöllinni á Akureyri og var sjónvarpað á Stöð 2. Forseti tilkynnti úrslitin í keppninni en hún var nú haldin í tuttugasta sinn. Í keppninni tóku þátt fulltrúar um þrjátíu framhaldsskóla víða á landinu og bar Borgarholtsskóli sigur úr býtum.
10.04.2010 Forseti sendir Bronis?aw Komorowski, forseta pólska þingsins og starfandi forseta landsins, samúðarkveðjur Íslendinga til pólsku þjóðarinnar vegna hins hörmulega flugslyss þar sem Lech Kaczyn'ski forseti Póllands, Maria Kaczyn'ski eiginkona hans og fjölmargir aðrir forystumenn landsins og nánir samverkamenn forsetans létu lífið. Sjá fréttatilkynningu.
14.04.2010 Forseti á fund með Martti Ahtisaari fyrrverandi forseta Finnlands og handhafa friðarverðlauna Nóbels sem kominn er til Íslands vegna ráðstefnu sem haldin er í tilefni af afmæli Vigdísar Finnbogadóttur.
14.04.2010 Forseti ræðir við Útvarp Sögu, síðdegisútvarp Rásar 2, Ríkissjónvarpið, Skjáinn og Morgunblaðið um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankakerfisins og skýrslu nefndar um starfshætti og siðferði.Viðtöl í síðdegisútvarpi Rásar 2 og Ríkissjónvarpinu. Frétt Morgunblaðsins. Viðtal á Skjá einum. Umfjöllun á Pressunni.
14.04.2010 Forseti flytur ræðu við setningu ráðstefnu norrænna bankastarfsmanna, Nordic Financial Unions. Á ráðstefnunni er fjallað um bankakreppuna víða um veröld, þá lærdóma sem draga má af henni og breytingar sem þurfa að verða á starfsháttum og regluverki. Ræða forseta. 
15.04.2010 Forseti er viðstaddur setningu alþjóðlegrar ráðstefnu, Varðveisla framtíðar: Sjálfbærni tungumáls, menningar og náttúru, sem haldin er af Háskóla Íslands í tilefni af 80 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur. Martti Ahtisaari fyrrverandi forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels flutti upphafsfyrirlestur ráðstefnunnar í hátíðarsal Háskólans.
15.04.2010 Forseti er viðstaddur afmælishátíð til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur sem haldin er í Háskólabíói.
17.04.2010 Forseti er viðstaddur minningarathöfn í katólsku kirkjunni um forseta Póllands Lech Kaczynski, Maríu Kaczynski forsetafrú og aðra þá sem létust í flugslysinu í Smolensk. Minningarathöfnin var á vegum pólska samfélagsins á Íslandi.
18.04.2010 Forseti heimsækir hamfarasvæðið á Suðurlandi og ræðir við stjórnendur almannavarna og hjálparsveita: sýslumann, lögreglu, fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða krossins. Forseti sat fundi í stjórnstöðvunum á Hellu og Hvolsvelli, kynnti sér afleiðingar öskufalls á sveitabæjum og ræddi við ýmsa erlenda fjölmiðla.
19.04.2010 Forseti er í viðtali í fréttaþættinum Newsnight á BBC2 þar sem hann ræðir við Jeremy Paxman um afleiðingar gossins í Eyjafjallajökli, bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu sem og víðar um heim; nauðsyn þess að stjórnvöld og flugmálayfirvöld vinni viðbragðsáætlanir vegna áhrifa gosa í framtíðinni á alþjóðlegar flugsamgöngur, einkum með tilliti til hugsanlegs Kötlugoss.
19.04.2010 Forseti á fund með Ólafi Rafnssyni forseta ÍSÍ og Líney Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ um málefni íþróttahreyfingarinnar, þátttöku í Ólympíuleikunum 2012 og Smáþjóðaleikunum 2011.
20.04.2010 Forseti er í viðtali við ýmsa þætti á alþjóðlegu útvarpsstöðinni BBC World Service, bresku útvarpsstöðina BBC5, BBC Washington, bandarísku sjónvarpsstöðvarnar NBC og Fox, írsku sjónvarpsstöðina RTE og íslenskar útvarps- og sjónvarpsstöðvar um eldgosið í Eyjafjallajökli, viðbrögð almannavarna og íbúa, einkum bænda; daglegt líf þjóðarinnar og þá samstöðu sem einkennt hefur aðgerðir á svæðinu sem og þá erfiðleika sem skapast hafa í Evrópu og annars staðar í veröldinni. Viðtal á BBC World News America (Matt Frei). Viðtal hjá BBC (Lorna Gordon). Viðtal hjá PRI (The World). Viðtal hjá NBC.
20.04.2010 Forseti afhendir Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Hugbúnaðarfyrirtækið CCP hlaut verðlaunin og veitti Hilmar Veigar Pétursson forstjóri þeim viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins. Vefur Útflutningsráðs.
20.04.2010 Forseti á fund með sendiherra Pakistans á Íslandi, hr. Rab Nawaz Khan, sem senn lætur af störfum. Rætt var um þróun mála í Pakistan og sambúðina við nágrannaríkin Afganistan og Indland, baráttuna gegn hryðjuverkaöflum og breytingar á stjórnkerfi landsins.
20.04.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Indónesíu Esti Andayani sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um væntanlegt heimsþing jarðhitasérfræðinga sem haldið verður í Indónesíu síðar í þessum mánuði, samvinnu landanna á sviði hreinnar orku og sjávarútvegs, sem og kynni forseta af Indónesíu á árum áður.
21.04.2010 Forseti ræðir við Philip Sherwell fréttamann Sunday Telegraph í Bretlandi og Sally Magnusson þáttastjórnanda hjá bresku sjónvarpsstöðinni BBC í Skotlandi.
21.04.2010 Forseti heimsækir stjórnstöð Almannavarna og fræðist um þróun eldgossins í Eyjafjallajökli, viðbrögð og starfsemi ýmissa aðila og samtaka sem koma að Almannavörnum, samvinnu íslenskra vísindamanna og stofnana á þessu sviði við alþjóðasamfélagið og horfurnar í þróun eldgossins.
21.04.2010 Forseti sækir skátaguðþjónustu í Hallgrímskirkju í tilefni sumardagsins fyrsta.
21.04.2010 Forseti ræðir við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC sem sjónvarpar víða um heim, alþjóðlega útgáfu sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera og fréttaritara þýsku sjónvarpsstöðvanna RTL, NTV og Vox um viðbrögð við gosinu í Eyjafjallajökli, tækifæri ferðaþjónustunnar á komandi mánuðum og árum og þá lærdóma sem draga má af hamförum náttúrunnar sem og viðbragðsáætlanir. Auk þess ræddi forseti við CNBC um endurreisn íslensks efnahagslífs í ljósi nýrrar álitsgerðar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Viðtal á CNBC.
24.04.2010 Forseti er í viðtali við helgarblað DV um gosið í Eyjafjallajökli, viðbrögð við því og samstöðu með íbúunum sem og hugsanlegt Kötlugos.
26.04.2010 Forseti flytur ræðu við setningu Heimsþings um jarðhita (World Geothermal Congress) sem haldið er á Bali í Indónesíu en slík þing eru á fimm ára fresti. Susilo Bambang Yudhoyono forseti Indónesíu flutti einnig ræðu við setninguna en áður höfðu forsetarnir átt árangursríkan fund um samvinnu Íslands og Indónesíu þar sem einkum var lögð áhersla á jarðhita og framtíðarmöguleika hans á heimsvísu sem og samvinnu á sviði sjávarútvegs. Alþjóðasamtök um jarðhita (International Geothermal Association) buðu forseta Íslands að sækja þingið og flytja ræðu við setninguna. Fréttatilkynning. Myndir.
27.04.2010 Forseti sækir ýmsar málstofur á heimsþingi um jarðhita sem haldið er á Bali á Indónesíu. Þá sótti forseti móttöku sem Útflutningsráð Íslands bauð til í samvinnu við íslensk verkfræði- og jarðhitafyrirtæki. Móttakan var haldin í sýningaraðstöðu þessara íslensku aðila á þinginu. Þá flutti forseti ávarp á samkomu sem Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna efndi til og sótt var af um 100 sérfræðingum og vísindamönnum sem stundað hafa nám við skólann á Íslandi. Þá ræddi forseti við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina BBC World News um árangur Íslendinga á sviði jarðhita.
28.04.2010 Forseti hlýðir á umræður í málstofu á Heimsþingi um jarðhita þar sem fjallað var um tækifæri í nýtingu jarðhita á 21. öld. Fjallað var um hvernig jarðhiti getur orðið veigamikill þáttur í orkukerfi nýrrar aldar í öllum heimsálfum og kynntar áætlanir sem sýna enn meiri framleiðslugetu á grundvelli jarðhita en áður var gert ráð fyrir. Guðni Jóhannesson orkumálastjóri var meðal frummælenda í málstofunni og lýsti samstarfi stjórnvalda á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Ástralíu í þróun nýrrar jarðhitatækni. Niðurstöður frummælenda um tækifæri í jarðhitanýtingu voru hliðstæðar þeirri sýn sem lýst var í ræðu forseta á opnun Heimsþingsins. Vefsíða þingsins.

Maí

04.05.2010 Forseti ræðir við breska og íslenska stjórnmálafræðinga sem vinna við rannsókn á bankahruninu, fjármálakerfinu og samspili við stjórnkerfi og samfélag. Verkefnið verður kynnt á alþjóðlegu fræðaþingi síðar á þessu ári.
06.05.2010 Forseta eru kynntar hugmyndir um nýtt og víðtækt upplýsingakerfi sem hefur að markmiði að laða aukinn fjölda ferðamanna til Íslands.
06.05.2010 Forseti ræðir við hóp áhugamanna um aukna nýtingu hreinnar orku á norðurslóðum.
07.05.2010 Forseti flytur ávarp á hátíð í tilefni af þriggja ára afmæli Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú, fyrrum svæði bandaríska hersins. Aðilar að Keili eru m.a. Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, rannsóknarstofnanir, sveitarfélög og orkufyrirtæki. Ávarp forseta.
10.05.2010 Forseti heimsækir Lýsi hf. ásamt forystumönnum Útflutningsráðs og dómnefnd Útflutningsverðlaunanna en Lýsi hlaut þau árið 2007. Forstjóri fyrirtækisins Katrín Pétursdóttir kynnti þróun þess á undanförum árum, mikinn vöxt og fjölbreytta framleiðslu. Þá skoðuðu forseti og fylgdarlið verksmiðjuna og ræddu við starfsfólk.
11.05.2010 Forseti á fund með Georg Habsburg, formanni Rauða krossins í Ungverjalandi, og forystumönnum Rauða krossins á Íslandi um áhrif fjármálakreppunnar og þörfina fyrir félagslega aðstoð og samhjálp í Evrópu. Öll samtök Rauða krossins í Evrópu hafa dregið saman efni sem lýsir vaxandi þörf á samhjálp í álfunni. Þá var rætt um reynsluna af starfi Rauða krossins á Íslandi, einkum með tilliti til samhjálpar og náttúruhamfara.
11.05.2010 Forseti á fund með fræðimanninum Muhammed Cetin sem er sérfræðingur í rannsóknum á trúarbrögðum og menningu og áhugamaður um auknar samræður fólks úr ólíkum menningarhópum og frá mismunandi trúarsamfélögum. Á fundinum voru einnig fulltrúar Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland en dr. Cetin kemur til Íslands að frumkvæði þeirra og Háskóla Íslands.
12.05.2010 Forseti er viðstaddur setningu Listahátíðar sem fram fer í Listasafni Reykjavíkur en forseti er verndari hátíðarinnar.
12.05.2010 Forseti á fund með forráðamönnum Íslensku sjávarútvegssýningarinnar sem haldin verður á næsta ári en hún hefur um langt árabil verið vettvangur til kynningar á tækni og skipulagi í sjávarútvegi. Sýningin hefur öðlast sess meðal virtustu alþjóðasýninga af þessu tagi. Skipuleggjendur hafa einnig áhuga á að efna til sýninga eða alþjóðlegs ráðstefnuhalds þar sem fjallað verður um árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og hvernig hann getur gagnast öðrum þjóðum
12.05.2010 Forseti tekur á móti David Ashby forystumanni í íslenska samfélaginu í Spænskum forki í Utah og öðrum fulltrúum mormónatrúboðsins á Íslandi. David Ashby afhenti forseta rit sem hann hefur tekið saman um fyrstu íslensku landnemana í Utah. Rætt var um starfsemi samfélagsins í Utah sem og viðfangsefni mormónakirkjunnar á Íslandi en David Ashby starfar um þessar mundir ásamt konu sinni við kirkju safnaðarins á Selfossi.
13.05.2010 Forseti tekur á móti fjölmennri sveit listafólks sem tekur þátt í Listahátíð, bæði íslenskum listamönnum og listamönnum frá ýmsum þjóðlöndum, sem og forystumönnum Listahátíðar og erlendum blaðamönnum.
14.05.2010 Forseti á fund með dr. Christian Ketels hagfræðingi við Harvard Business School, Hákoni Gunnarssyni og Þóru Margréti Þorgeirsdóttur um rannsóknarverkefni sem felur í sér kortlagningu allra þeirra sem koma að nýtingu jarðhita, tækniþróun og virkjunum á Íslandi og hvernig slík kortlagning getur nýst við þróun jarðhitanýtingar víða um heim. Ætlunin er að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um slíka orkuklasa á næsta ári.
15.05.2010 Forseti ræðir við Ólaf Rafnsson forseta ÍSÍ og óskar honum til hamingju með glæsilegt kjör hans sem forseta Körfuknattleikssambands Evrópu, FIBA Europe. Kjörið er mikil viðurkenning fyrir Ólaf persónulega en jafnframt mikilvægur áfangi í íslenskri íþróttasögu og viðurkenning á starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.
15.05.2010 Forseti tekur á móti um 70 börnum sem munu dvelja í sumarbúðum í fimmtán löndum á vegum Samtaka alþjóðlegra sumarbúða barna, CISV
16.05.2010 Forseti heimsækir Vík í Mýrdal og bændur á þeim svæðum þar sem aska hefur fallið síðustu daga, kynnir sér hreinsunarstarf, ræðir við forsvarsmenn sveitarfélagsins og Almannavarna, slökkviliðsmenn frá ýmsum sveitarfélögum og aðra þátttakendur í hreinsunarstarfi. Einnig heimsækir forseti ýmsa sveitabæi í héraðinu þar sem mikið öskufall hefur orðið síðustu sólarhringana og ræðir við bændur um erfiðleika þeirra og viðbrögð við þessum hamförum.
18.05.2010 Forseti flytur setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu í boði Norður-Suður stofnunarinnar (North-South Centre) sem starfar á vegum Evrópuráðsins. Ráðstefnan bar heitið The 21st Century: A Century of Global Interdependence and Solidarity og var haldin í ráðhúsi Lissabonborgar í Portúgal. Norður-Suður stofnunin var sett á laggirnar fyrir tuttugu árum á grundvelli samþykkta þings Evrópuráðsins, en Ólafur Ragnar Grímsson skipulagði fyrir hönd Evrópuráðsins viðamikla evrópskra þingmannaráðstefnu sem haldin var í Lissabon árið 1984 þar sem sú stefna var mótuð. Forsetanum var boðið að halda setningarræðu ráðstefnunnar m.a. vegna hlutverks hans í þessari stefnumótun. Fréttatilkynning. Ræða forseta. Myndir.
20.05.2010 Forseti á fund með Donald Martin og Anthony Miller sem vildu færa íslensku þjóðinni afsökunarkveðju frá Bretlandi vegna ákvarðana bresku ríkisstjórnarinnar haustið 2008 að beita hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum. Þeir kynntu líka hugmyndir sínar um nauðsynlegar breytingar á bankakerfi, bæði í Bretlandi og á veraldarvísu, til að koma í veg fyrir að bankar yxu með óeðlilegum hætti og stefndu þannig hagsmunum almennings í hættu. Þeir hafa hitt fulltrúa ýmissa samtaka, alþingismenn og aðra, í heimsókn sinni til Íslands. Báðir hafa verið í forystusveit smærri fyrirtækja í Bretlandi.  Fundinn sat einnig Gústaf Adolf Skúlason sem er formaður samtaka smáfyrirtækja í Svíþjóð.
20.05.2010 Forseti tekur þátt í fagnaðarhátíð forystusveitar íþróttahreyfingarinnar vegna kjörs Ólafs Rafnssonar, forseta ÍSÍ sem forseta körfuknattleikssambands Evrópu, FIBA. Forseti flutti ávarp þar sem hann óskaði Ólafi og íþróttahreyfingunni til hamingju með kjörið en það væri líka mikilvægt fyrir íslenska þjóð. Í því fælist viðurkenning á starfi íþróttahreyfingarinnar og hæfileikum Ólafs Rafnssonar en það væri jafnframt vitnisburður um hvernig grasrótarstarf þessarar fjöldahreyfingar gæti eflt forystumenn til trúnaðar á evrópskum vettvangi. Ólafur Rafnsson mun sem forseti FIBA jafnramt eiga sæti í stjórn heimssamtaka körfuknattleiksfélaga.
21.05.2010 Forseti tekur á móti rúmlega 60 forystumönnum kanadískra fyrirtækja sem eru á Íslandi á vegum samtakanna World Presidents' Organization og ræðir við þá um áhrif fjármálakreppunnar á Íslandi, endurreisn efnahagslífsins, nýtingu hreinnar orku og tækifæri á nýrri öld.
21.05.2010 Forseti er viðstaddur og flytur ávarp við opnun fyrsta gagnaversins á Íslandi sem Thor Data Center hefur stofnsett í Hafnarfirði. Fyrirtækið nýtir nýja tækni á þessu sviði, hina hreinu orku sem fæst á Íslandi og hagstæð skilyrði til loftkælingar vegna hitastigs og vinds á Íslandi. Jafnframt var undirritaður samningur við Opera Software sem felur Thor gagnaveri að varðveita gögn sín en Opera er meðal öflugustu fyrirtækja í Evrópu á sínu sviði. Í ávarpi sínu vék forseti að nauðsyn þess að tvinna saman nýtingu hreinnar orku og atvinnutækifæri sem upplýsingatæknin skapar. Ísland væri á margan hátt kjörinn staður fyrir gagnaver. Fyrir rúmum þremur árum hefðu slík gagnaver verið umræðuefni á fundi forseta með Bill Gates, stofnanda Microsoft, og nú væri hið nýja fyrirtæki í Hafnarfirði að sanna og sýna hvað hægt væri að gera. Kynslóð ungra frumkvöðla hefði sýnt forystu og þjóðinni nýjar leiðir í atvinnumálum.
25.05.2010 Forseti hefur sent samúðarkveðjur til forseta Indlands vegna flugslyssins í Mangalore.
25.05.2010 Forseti er í viðtali við fréttamann rússnesku sjónvarpsstöðina TV Center í St. Pétursborg, Alexander Chizhenok, um viðbrögð Íslendinga við eldgosum, áhrif eldgosa á menningu og viðhorf sem og möguleika ferðaþjónustunnar á komandi árum. Auk þess var rætt um samvinnu Íslands og Rússlands á undanförnum áratugum, nauðsyn aukins samstarfs á norðurslóðum og um nýtingu hreinnar orku en miklar jarðhitaauðlindir eru í Rússlandi.
27.05.2010 Forseti er viðstaddur opnun Hönnunarsafns Íslands í Garðabæ og skoðar sýningarnar sem þar eru. Aðalsýningin ber heitið "Úr hafi til hönnunar" og sýnir ýmsa muni og tískuvörur sem hannaðar eru úr sjávarafurðum. Safnið verður í núverandi húsakynnum þar til sérstök bygging helguð safninu rís í Garðabæ.
27.05.2010 Forseti á fund með hagfræðingunum Charles Wyplosz, Alonso Perez Kakabadze og Ársæli Valfells um stöðu ýmissa mynta í veröldinni, reynslu Íslendinga af krónunni og stöðuna innan Evrusvæðisins sem og eðli gjaldeyrishafta og áhrifin af þeim en hinir erlendu hagfræðingar heimsækja Ísland til viðræðna við íslenskt fræðasamfélag á vegum Háskóla Íslands.
27.05.2010 Forseti á fund með þýska listamanninum Gert Hof og áhugamönnum um að listamaðurinn lýsi upp eldfjall og jökul til að minna heimsbyggðina á bráðnun jökla, loftslagsbreytingar og kraftinn í náttúruöflunum. Slík lýsingarlistaverk Gerts Hof hafa notið mikillar frægðar á undanförnum árum.
27.05.2010 Forseti á fund með Gissuri Guðmundssyni forseta Heimssambands matreiðslumanna og Helga Einarssyni um verkefni sambandsins en það lýtur nú forystu íslenskra matreiðslumanna sem kjörnir voru í stjórn þess á síðasta heimsþingi.
30.05.2010 Forseti sækir um helgina húslestra á heimilum nokkurra rithöfunda en lestrarnir eru liður í Listahátíð í Reykjavík.

Júní

01.06.2010 Forseti á fund með Ásmundi Friðrikssyni bæjarstjóra í Garði og þeim Mireyu Samper listamanni og Víði Árnasyni um verkefnið Ferskir vindar í Garði sem byggist á að nokkrir tugir listafólks víða að úr veröldinni taki að vetri til, í desember og janúar, þátt í víðtækri listasmiðju í Garðinum.
01.06.2010 Forseti á fund með forsvarsmönnum RES (Renewable Energy School) sem starfræktur er í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands og fulltrúum þriggja póskra verkfræði- og tækniháskóla en þeir hafa sent nemendur til RES skólans og hafa áhuga á að efla þá samvinnu enn frekar.
05.06.2010 Forseti er viðstaddur Óperuveislu Kristins Sigmundssonar í Háskólabíói. Auk Kristins komu þar fram Sinfóníuhljómsveit Íslands og Óperukórinn í Reykjavík og voru tónleikarnir lokaþáttur Listahátíðar í Reykjavík 2010.
05.06.2010 Forseti flytur ávarp á fjölskyldudegi UMFÍ. Dagskráin var á Miðfelli í Hrunamannahreppi og þar var ýtt úr vör sérstöku átaki UMFÍ sem ber heitið "Hættu að hanga! Komdu að hjóla, synda eða ganga!" Markmið þess er að fá fjölskyldur til að njóta íslenskrar náttúru og hollrar hreyfingar. Í ávarpi sínu þakkaði forseti UMFÍ fyrir forystu þess á undanförnum árum í að efla samvistir fjölskyldna, bæði með þessari herferð sem nú væri ýtt úr vör og unglingalandsmótunum sem haldin eru um verslunarmannahelgina.
06.06.2010 Forseti flytur setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er á Hellu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á öryggi þjóða á komandi árum og áratugum. Ráðstefnuna sækja vísindamenn í loftslagsmálum og sérfræðingar á sviði öryggismála frá ýmsum þjóðlöndum. Ræða forseta.
06.06.2010 Forseti er viðstaddur guðþjónustu í Dómkirkjunni í tilefni Sjómannadagsins þar sem Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur predikar og minnst er látinna sjómanna.
07.06.2010 Forseti á fund með þýska athafnamanninum Carl Hahn, fyrrum forstjóra Volkswagen, sem heimsækir Ísland til að kynna sér nýtingu jarðhita, hið mikla forðabúr af fersku drykkjarvatni sem Ísland býr yfir, möguleika í heilsuvörum, líftækni og ferðaþjónustu.
07.06.2010 Forseti ræðir við sveit blaðamanna og fréttamanna frá dagblöðum og tímaritum í Sviss um íslenskt samfélag, efnahagslíf, náttúru, menningu, landslag og fjölþætta ferðaþjónustu.
07.06.2010 Forseti ræðir við Ingu Dagfinnsdóttur um listasafn sem hannað væri með tilliti til samtímalistar og virkrar þátttöku listamanna.
08.06.2010 Forseti veitti Íslensku menntaverðlaunin í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi en þau eru bundin við grunnskólastarfið og eru veitt í fjórum flokkum. Fréttatilkynning
09.06.2010 Forseti á fund með fulltrúum frá alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin hefur verið á Íslandi um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á mannvirki og öryggismál. Rætt var um þá hugmynd að halda slíkar alþjóðegar ráðstefnur reglulega á Íslandi og þátttöku forseta í umræðum um þessi efni á vegum stofnana í Bandaríkjunum.
09.06.2010 Forseti á fund með kínverskri sendinefnd sem heimsækir Ísland. Sendinefndin er undir forystu He Guoqiang og í henni eru fulltrúar frá Seðlabanka Kína, Útflutnings-innflutningsbanka Kína og kínverskum orkufyrirtækjum. Að loknum fundinum býður forseti fulltrúum kínversku sendinefndarinnar til hádegisverðar á Bessastöðum.
09.06.2010
Opinber heimsókn forseta Eistlands Toomas Hendrik Ilves og frú Evelin Ilves hefst með hátíðlegri móttökuathöfn á Bessastöðum. Að henni lokinni er fundur forsetanna og síðan ræða þeir við fréttamenn. Þá verður haldið í Höfða þar sem borgarstjórinn í Reykjavík tekur á móti forseta Eistlands og að því loknu heimsækir hann Alþingi og á fund með fulltrúum stjórnmálaflokka. Nánar um dagskrá heimsóknarinnar í fréttatilkynningu.
10.06.2010 Í kvöldverði sem haldinn var á Bessastöðum til heiðurs forseta Eistlands Toomas Hendrik Ilves og frú frú Evelin Ilves flutti forseti Íslands ræðu þar sem hann fjallaði um samvinnu Íslands og Eistlands á alþjóðavettvangi og verkefni landanna á komandi árum. Ræða forseta Íslands: Íslenska, eistneska, enska. Ræða forseta Eistlands á ensku á vefsetri hans.
Í ræðu sinni við sama tækifæri fjallaði forseti Eistlands um þann stuðning sem Íslendingar hefðu veitt Eistum í sjálfstæðisbaráttunni, menningu þjóðanna, reynslu Eista af aðild að Evrópusambandinu og hvatti til enn nánari tengsla þjóðanna á komandi árum.
10.06.2010 Að loknum viðræðufundi forseta með forseta Eistlands Toomas Hendrik Ilves ræddu þeir við blaðamenn. Þar lagði forseti Eistlands áherslu á reynslu landsins af aðild að Evrópusambandinu og bauð Íslendingum til þátttöku í sérstökum hátíðarhöldum á næsta ári í tilefni af 20 ára afmæli sjálfstæðis Eista. Forseti Íslands þakkaði hið góða boð, lagði áherslu á góða samvinnu landanna og taldi vel við hæfi að fyrsta opinbera heimsóknin til Íslands eftir bankahrunið 2008 hefði verið heimsókn forseta slíkrar vinaþjóðar. Síðdegis heimsótti forseti Eistlands Alþingi, ræddi við fulltrúa stjórnamálaflokka og hélt síðan fyrirlestur í Þjóðmenningarhúsinu.
11.06.2010 Forseti sækir málþing um orku og umhverfismál sem haldið er í Hellisheiðarvirkjun. Málþingið er liður í opinberri heimsókn forseta Eistlands og þar fjalla íslenskir vísindamenn og sérfræðingar um nýtingu hreinnar orku á Íslandi, framlag Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, norðurslóðir og stefnumótun á þeim vattvangi, niðurdælingu koltvísýrings og bráðnun jökla.
12.06.2010 Forseti afhendir styrki úr Háskólasjóði KEA en þeir voru afhentir á sérstakri samkomu að lokinni Háskólahátíð. Í upphafi athafnarinnar flutti rektor Háskólans á Akureyri Stefán B. Sigurðsson ávarp auk forseta. Styrkir voru veittir til rannsóknarverkefna, tækjakaupa og einstakra deilda háskólans
12.06.2010 Forseti er viðstaddur Háskólahátíð á Akureyri þegar brautskráðir eru nemendur frá Háskólanum á Akureyri. Rúmlega 300 nemendur úr mörgum greinum fengu skírteini sín að þessu sinni.
13.06.2010 Forseti tekur þátt í opnunarhátíð torfbæjarlíkans sem nemendur úr 8. bekk Egilsstaðaskóla hafa reist í samvinnu við Minjasafn Austurlands. Torfbærinn á Galtastað í Hróarstungu er fyrirmynd líkansins og hafa nemendur kynnt sér gerð torfbæja og mannlíf á þeim tímum þegar þeir voru helsti húsakostur til sveita. Við athöfnina flutti forseti stutt ávarp þar sem hann fagnaði þessu framtaki, áréttaði mikilvægi þess að efla þekkingu á íslenska torfbænum enda væri nú rætt um að setja hann á heimsminjaskrá. Einnig nefndi forseti að slík samvinna grunnskóla og minjasafna gæti orðið veigamikill þáttur í fræðslu og varðveislu menningararfs í öllum landshlutum.
15.06.2010 Forseti á fund með Kathryn Neal forseta Íslendingadagsins í Gimli um starfsemi Íslendingasamfélaganna í Vesturheimi, hátíðahöldin í Gimli, árangur Snorraverkefnisins og mikilvægi þess að efla samskipti Íslendinga vestur um haf og samstarf Íslendingafélaganna í Norður-Ameríku innan Þjóðræknisfélagsins.
15.06.2010 Forseti á fund með stjórnendum Icelandic Group um útflutning á íslenskum sjávarafurðum og sterka markaðsstöðu þeirra víða um heim, bæði í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.
15.06.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Síles hr. Juan Aníbal Barría García sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samstarf þjóðanna á sviði menningar, hugsanlega þátttöku í lista- og menningarhátíðum, öflug tengsl landanna í sjávarútvegi og hugsanlega nýtingu jarðhita. Þá var rætt um viðbrögð Íslendinga við bankahruninu, stofnun rannsóknarnefndar og hvernig lýðræðisríki bregðast við áföllum á fjármálamörkuðum.
15.06.2010 Forseti opnar sýninguna Landspítali 80 ára. Úr sögu og samtíð Landspítalans en þar er að finna margvíslega gripi og tæki úr sögu Landspítalans sem og listaverk og aðra muni. Ávarp forseta.
15.06.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ástralíu á Íslandi hr. James Choi sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um alþjóðlegt samstarf Íslands, Ástralíu og Bandaríkjanna á sviði jarðhita sem stofnað var til fyrir nokkrum árum, þróun loftslagsbreytinga og reynslu Íslendinga í landgræðslu en Ástralír glíma við eyðimörkina og eyðingu jarðvegs.
15.06.2010 Forseti á fund með sendiherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna hr. Abdulrahman Ghanem A. Almutaiwee sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum en hann er fyrsti landsins á Íslandi. Rætt var um samstarf ríkjanna á sviði hreinnar orku, þátttöku forseta í heimsþingi í Abu Dhabi um framtíð orkumála, um borun Reykjavík Geothermal eftir jarðhita í Abu Dhabi og tækifæri til samstarfs á öðrum sviðum, svo sem ýmiss konar tækni og í útflutningi á drykkjarvatni frá Íslandi til Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
16.06.2010 Forseti tekur á móti þátttakendum í Snorraverkefninu en það veitir ungu fólki af íslenskum ættum í Kanada og Bandaríkjunum tækifæri til að dvelja á Íslandi, kynnast landi og þjóð og hitta ættmenn sína. Verkefnið sem nú er tólf ára hefur skilað miklum árangri og orðið burðarás í tengslum Íslands við samfélög Vesturíslendinga
16.06.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kúveits á Íslandi, Ali Ibraheem Mohammad Saad Al-Nikhailan sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukin samskipti Íslands við ríki í Miðausturlöndum, möguleika á útflutningi drykkjarvatns sem og á sviði tækniþróunar og orkumála.
16.06.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ítalíu Antonio Bandini sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um trausta samvinnu landanna, öflugan útflutning á íslenskum sjávarafurðum til Ítaliu í röska öld, fjölþætt samskipti á sviði menningar og lista, þróun Evrópusambandsins og lærdóma sem draga má af bankakreppu víða í álfunni.
16.06.2010 Forseti á fund með sendiherra Palestínu á Íslandi hr. Yasser M.Y. Al Najjar. Rætt var um friðarhorfur í Miðausturlöndum, nýliðna atburði og vandkvæði á að þróa árangursríka samninga milli Ísraels og Palestínu. Einnig var fjallað um hvernig alþjóðastofnanir og önnur ríki gætu stutt friðarferlið.
17.06.2010 Forseti tekur á móti um 50 erlendum sendiherrum sem taka þátt í hátíðarhöldunum 17. júní og heiðra Ísland á þjóðhátíðardaginn.
17.06.2010 Forseti sæmir tólf Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Fréttatilkynning Mynd
17.06.2010 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum 17. júní, guðþjónustu í Dómkirkjunni og athöfn á Austurvelli þar sem forseti leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar.
18.06.2010 Forseti ræðir við enska útgáfu alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera um ferðaþjónustuna á Íslandi, áhrif náttúruhamfaranna og þá aukningu sem orðið hefur í fjölda ferðamanna að undanförnu, sem og áhrifin á efnahagslíf landsins.
18.06.2010 Forseti og forsetafrú héldu í morgun, föstudaginn 18. júní, til Stokkhólms þar sem þau munu taka þátt í hátíðarhöldum vegna brúðkaups Viktoríu krónprinsessu og Daniels Westling. Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning buðu forsetahjónunum að sækja brúðkaupið. Í kvöld sitja forsetahjón og aðrir gestir kvöldverð sænsku ríkisstjórnarinnar en í kjölfar hans er boðið til hátíðartónleika í Tónlistarhúsi Stokkhólmsborgar. Vígsluathöfnin verður á morgun laugardaginn 19. júní og eftir hana er boðið til hátíðarkvöldverður í sænsku konungshöllinni. Fréttatilkynning.
19.06.2010 Forseti ræðir við fréttamann sænsku sjónvarpsstöðvarinnar TV4 um bætta efnahagsstöðu Íslands, mikilvægar auðlindir þjóðarinnar, viðbrögðin við eldgosinu, framlag ungu kynslóðarinnar til efnahagslegrar endurreisnar sem og góða samvinnu Íslands og Svíþjóðar og þjóðhöfðingjanna á Norðurlöndum. Viðtalið var tekið í Stokkhólmi þar sem forsetahjónin taka þátt í hátíðarhöldum vegna brúðkaups Viktoríu krónprinsessu og Daníels Westling.
24.06.2010 Forseti á fund með utanríkisráðherra Úkraínu hr. Kostyantyn Gryshchenko og sendinefnd hans en hann undirritaði í dag fríverslunarsamning milli EFTA og Úkraínu. Þessi samningur er mikilvægur áfangi í samskiptum landanna og var á fundinum lögð áhersla á að auka þau á komandi árum. Ráðherrann flutti forseta kveðju frá forseta Úkraínu Viktor Yanukovych ásamt boði um að koma í opinbera heimsókn til landsins. Þá var rætt um forn tengsl landanna sem birtast í Íslendingasögum, stjórnmálalega þróun í Úkraínu og aukinn stöðugleika, áform um aðild að Evrópusambandinu, sem og samskipti við Rússland, Kína og Miðausturlönd.
25.06.2010 Forseti á fund með sendiherra Kína, Su Ge, þar sem rætt var um árangur af nýlegri heimsókn kínverskrar sendinefndar til Íslands, samvinnu landanna við nýtingu hreinnar orku, og heimsókn forseta á Heimssýninguna í Shanghæ en hún er áformuð í september. Þá verður einnig haldið málþing um reynslu Íslendinga í orkumálum og forseti tekur þátt í sérstökum Íslandsdegi á Heimssýningunni.
26.06.2010 Forseti tekur þátt í Sólseturshátíð í Garði og afhjúpar listaverkið "Í Faðmi Vindanna" eftir Mireyu Samper og Víði Árnason. Þá var forseti viðstaddur upphaf fjölskyldudagskrár, skoðaði sýningar listamanna sem tengdar eru hátíðinni og heimsótti heimilisfólkið á elliheimilinu Garðvangi.
28.06.2010 Forseti á fund með sendinefnd frá franska þjóðþinginu sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um samstarf landanna, lærdómana sem draga má af alþjóðlegri fjármálakreppu og hruni bankanna á Íslandi. Þá var fjallað um endurreisn íslensks efnahagslífs, Icesave deiluna, viðbrögð við loftslagsbreytingum, málefni norðurslóða og árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku.
30.06.2010 Forseti tekur á móti þátttakendum í ráðstefnu Evrópusambands flugfélaga ECA sem haldin er í Reykjavík þar sem rætt er um ýmis málefni flugmanna og flugrekstrar, m.a. öryggiskröfur vegna öskufalls og þá lærdóma sem draga má af reynslu síðustu mánaða.
30.06.2010 Forseti tekur á móti hópi  krakka og eldri borgara sem starfa að verkefninu "Gleðidagar - Hvað ungur nemur, gamall temur" sem Rauði krossinn og Öldrunarráð Íslands hafa skipulagt.

Júlí

02.07.2010 Forseti ræðir við nemendur í sumarskóla Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands. Fjallað var um stöðu smáríkja í samtíð og framtíðm, Ísland, Færeyjar og Grænland, sem og smáríki í Evrópu, Evrópusambandið og norðurslóðir. Nemendur í sumarskólanum koma frá mörgum þjóðlöndum í Evrópu.
03.07.2010 Forseti ræðir við Chhaya Bhanti sem sérhæfir sig í sjálfbærri þróun og nýtingu hreinnar orku, einkum með tilliti til Indlands og Bandaríkjanna, um þá tækniþróun og stefnumótun sem felst í reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita á síðastliðnum 40-60 árum. Samstarf Íslendinga og Indlands á sviði hreinnar orku var meðal efnisatriða í opinberri heimsókn forseta Íslands til Indlands í janúar.
05.07.2010 Forseti hefur sent nýjum forseta Filipseyja Benigno Aquino III, nýjum forseta Póllands Bronislaw Komorowski og nýjum forseta Þýskalands Christian Wulff heillaóskir í tilefni af kjöri þeirra.
07.07.2010 Forseti opnar sýninguna Svipmyndir úr norðursiglingum í Sjóminjasafni Reykjavíkur, Víkinni. Á sýningunni eru sýndar myndir rússneska ljósmyndarans Robert Lvovich Diament sem hann tók í síðari heimsstyrjöldinni af skipalestum sem sigldu um Norður-Atlantshafið til norðurhluta Rússlands. Siglingarnar voru mikilvægur þáttur í síðari heimsstyrjöldinni og gegndi Ísland þar mikilvægu hlutverki. Fyrir nokkrum árum var haldin ráðstefna á vegum Háskóla Íslands um þessa sögu. Ávarp forseta.
08.07.2010 Forseti á fund með Svani Kristjánssyni prófessor um rannsóknir í stjórnmálafræði og þróun stjórnmálafræðikennslu.
11.07.2010 Forseti afhendir Íslensku safnaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag sunnudaginn 11. júlí kl. 15:00, en í dag er haldið upp á íslenska safnadaginn. Dómnefnd tilnefndi þrjú söfn til verðlaunanna, og eru þau Byggðasafn Skagfirðinga Glaumbæ, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og Nýlistasafnið í Reykjavík. Fréttatilkynning. - Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Nýlistasafnsins.
21.07.2010 Forseti á fund með Stefáni L. Stefánssyni sendiherra Íslands í Japan og fleiri ríkjum Asíu um tækifæri íslenskra fyrirtækja á sviði sjávarútvegs og jarðhita í þessum heimshluta.
21.07.2010 Forseti ræðir við hóp bandarískra stúdenta sem stunda nám við sumarskóla RES, Renewable Energy School, um árangur Íslendinga við nýtingu jarðhita og annarra orkulinda, nýjar áherslur á veraldarvísu í nýtingu hreinnar orku, einkum tækifæri Bandaríkjanna á komandi árum, sem og þann árangur sem tækniþróun og vísindarannsókir hafa skilað Íslendingum á þessum vettvangi.
21.07.2010 Forseti ræðir við fólk af íslenskum ættum frá Kanada sem heimsækir ættmenn sína á Íslandi.
26.07.2010 Forseti á fund með William Ravlin prófessor við Ohio State Háskólann í Bandaríkjunum og Guðrúnu Gísladóttur prófessor við Háskóla Íslands um samvinnu bandarískra og íslenskra vísindamanna á sviði jarðvegsrannsókna, gróðurfars og loftslagsbreytinga. Einnig var rætt um möguleika á víðtækari samvinnu svo sem rannsóknum á viðbrögðum við náttúruhamförum, t.d. eldgosum, flóðum, hvirfilvindum og jarðskjálftum.
28.07.2010 Forseti á fund með prófessor Roger Crofts sem er sérfræðingur í umhverfismálum og skipulagninu þjóðgarða. Rætt var um Vatnajökulsþjóðgarð og skipulagðan aðgang að íslenskri náttúru og vernd hennar í ljósi mikillar fjölgunar ferðamanna sem líkleg er á komandi árum og áratugum.
28.07.2010 Forseti ræðir við fjölskyldur frá Ísrael, foreldra, börn og unglinga sem á undanförnum vikum hafa ferðast hringinn í kringum landið. Rætt var um reynslu af slíkum fjölskylduheimsóknum til Íslands, aðbúnað og fyrirgreiðslu heimamanna sem og fegurð íslenskrar náttúru og fjölþætt tækifæri allra aldursflokka til að njóta Íslands.

Ágúst

06.08.2010 Forseti sendi Dmitry Medvedev forseta Rússlands samúðarkveðju vegna hörmunganna sem orðið hafa í Rússlandi. Fjöldi landsmanna, bæði almennir borgarar og björgunarfólk, hefur látið lífið í kjölfar hinna hörmulegu elda sem herjað hafa á landið.
10.08.2010 Forseti flytur ávarp á setningarathöfn alþjóðlegrar leiklistarhátíðar áhugaleikfélaga sem haldin er á Akureyri. Leikhópar frá ýmsum löndum í Evrópu taka þátt í hátíðinni en hún fer fram í hinu nýja menningarhúsi Hofi.
10.08.2010 Forseti á fund með sendiherra Noregs á Íslandi, Margit Tveiten, sem senn lætur af störfum. Rætt var um menningu og sögu sem tengja löndin saman, sem og samvinnu Íslands og Noregs á síðari árum, viðbrögð við efnahagskreppunni og tengslin við Evrópusambandið.
10.08.2010 Forseti á fund með David Speedie, fulltrúa Carnegie Council í New York, um rannsóknir á þátt siðfræði og öryggismála í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, áhrif náttúruhamfara á líf almennra borgara og hvernig hægt sé að skapa árangursríka alþjóðlega umræðu um þessi efni. Carnegie Council stefnir að því að koma á fót umræðuþingum með þátttöku fulltrúa og sérfræðinga frá Bandaríkjunum og ýmsum öðrum ríkjum, svo sem Indlandi, Kína, Rússlandi, Indónesíu og fleirum.
11.08.2010 Forseti ræðir við Vir Sanghvi, ritstjóra Hindustan Times sem gefið er út á Indlandi, og blaðakonuna Seema Goswami sem starfar við sama blað. Fjallað var um samvinnu Indlands og Íslands, þróun efnahagsmála á Íslandi í kjölfar bankahrunsins, tækifæri í ferðaþjónustu og framtíðarhorfur í indverskum efnahagsmálum og stjórnmálum.
12.08.2010 Forseti ræðir við Dagfinn Sveinbjörnsson um rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrif þeirra á öryggi þjóða, einkum í Asíu og öðrum þróunarlöndum.
13.08.2010 Forseti sendir forseta Kína samúðarkveðjur vegna náttúruhamfaranna að undanförnu. Einnig hefur forseti sent forseta Pakistans samúðarkveðjur vegna hinna hrikalegu flóða sem valdið hafa gríðarlegu flóði þar í landi. Fréttatilkynning.
14.08.2010 Forseti sækir kynningu þar sem sýndir eru nýir möguleikar fyrir þá sem þurfa að nota hjólastóla og eða göngugrindur við athafnir daglegs lífs. Í kynningunni var lögð áhersla á hjólastóla- og göngugrindadans undir stjórn þjálfara frá Danmörku. Námskeiðið var ætlað kennurum, einkum þeim sem starfa með eldri borgurum, en þessi þekking getur einnig nýst við kennslu fatlaðra.
16.08.2010 Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegri ráðstefnu um máltækni, IceTal, sem haldin er á Íslandi. Þátttakendur koma frá tæplega 30 löndum í sex heimsálfum. Á ráðstefnunni eru flutt fjölmörg erindi um máltækni,  m.a. talgreiningu, þýðingar, merkingarfræði og fleiri þætti málrannsókna.
17.08.2010 Forseti flytur ávarp á opnunartónleikum alþjóðlegs kóramóts en tónleikarnir fara fram í Laugardalshöllinni. Mótið sækir fjöldi kóra frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum. Alls munu um 1800 söngvarar taka þátt í mótinu. Fjölmargir tónleikar verða haldnir sem og námskeið og kynningar. Í dagskrá mótsins er einnig  að finna kveðju frá forseta. Kveðja á íslensku. Kveðja á ensku.
18.08.2010 Forseti er viðstaddur undirritun samkomulags um nýja stofnun sem helguð er sjálfbærri veröld. Stofnunin er byggð á hugmyndafræði bandaríska arkitektsins William McDonough en hann er aðalhvatamaður hennar. Stofnuninni er ætlað að votta byggðarlög, eyjasamfélög og þjóðir sem breyta lífsháttum sínum, byggingartækni og framkvæmdum í þágu sjálfbærrar veraldar. Kenningarnar og rannsóknir sem stofnunin mun styðjast við eru byggðar á grundvallarriti McDonoughs, Cradle to Cradle. Stofnunin hefur aðsetur í Kaliforníu í Bandaríkjunum en undirritunin fór fram á Íslandi að viðstöddum ýmsum sérfræðingum sem vinna munu með stofnuninni.
19.08.2010 Forseti tekur á móti söngstjórum frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum sem taka þátt í alþjóðlegu kóramóti sem haldið er á Íslandi. Nærri 70 kórar með um 1800 þátttakendum sækja mótið.
20.08.2010 Forseti ræðir við þátttakendur í stjórnarfundi ISCA, International Sport and Cultural Association. Stjórnarfundur þessara alþjóðlegu íþrótta- og menningarsamtaka er haldinn á Íslandi á vegum UMFÍ Samtökin vinna meðal annars að almenningsíþróttum og hafa hlotið styrki frá alþjóðasamtökum til aukins starfs meðal ungs fólks. Í stjórninni eiga sæti fulltrúar frá löndum í Evrópu, Suður-Ameríku og Asíu.
20.08.2010 Forseti flytur erindi á norrænu leiðtogamálþingi sem JCI hreyfingin efnir til á Íslandi. Nordic Academy innan JCI hreyfingarinnar er hinn alþjóðlegi skipuleggjandi málþingsins. Í erindi sínu fjallaði forseti um aðild þjóðhöfðingja að starfsemi fjöldasamtaka og þátttöku í margvíslegum verkefnum á þeirra vegum, mikilvægi JCI hreyfingarinnar á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Að erindi sínu loknu svaraði forseti fjölda fyrirspurna.
20.08.2010 Forseti á fund með fulltrúum Rannsókna og greiningar, Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Jóni Sigfússyni um forvarnaverkefnið Youth in Europe sem starfrækt hefur verið í fjölmörgum borgum í Evrópu. Forseti er verndari verkefnisins og hefur það skilað verulegum árangri á undanförnum árum. Undirstöður verkefnisins eru rannsóknir íslenskra félagsvísindamanna en þeir hafa svo haft forystu um hliðstæðar rannsóknir í þessum evrópsku borgum. Verkefnið er unnið í tengslum við samtök evrópskra borga gegn fíkniefnum ECAD, European Cities Against Drugs.
20.08.2010 Forseti á fund með Geir Guðsteinssyni, fulltrúa sambands sunnlenskra karlakóra, um kóramót, Kötlumótið, sem haldið verður að Flúðum í október. Í mótinu tekur þátt fjöldi karlakóra frá Suðurlandi og Vesturlandi auk þess sem finnskur karlakór MMITAR verður sératakur gestur sönghátíðarinnar.
21.08.2010 Forseti sækir lokatónleika fjölmenns kóramóts fólks frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum sem haldið er í Reykjavík. Tónleikarnir fóru fram í Laugardalshöll og sungu allir kórarnir, nær 70 talsins með um 1800 þátttakendum saman á tónleikunum.
21.08.2010 Forseti sækir landsleik Íslands og Frakklands í kvennaknattspyrnu en hann var liður í riðlakeppni vegna heimsmeistaramóts.
23.08.2010 Forseti tekur á móti og ræðir við hóp af fólki af íslenskum ættum frá Kanada, einkum Winnipeg, Manitoba og Saskatchewan. Rætt var um ferðir Íslendinga vestur um haf, reynslu landnemanna og þróun byggðanna í Vesturheimi. Einnig var fjallað um aukin tengsl fólks af íslenskum ættum við Ísland á síðari árum en Snorri plús verkefnið er liður í þeirri starfsemi. Þátttakendur í því eru fullorðið fólk af íslenskum ættum en verkefnið tekur mið af Snorra verkefninu sem ætlað er ungmennum.
24.8.2010 Forseti á fund með formanni Rauða kross Íslands Önnu Kristjánsdóttur og framkvæmdastjóra samtakana Kristjáni Sturlusyni um landsöfnunina Göngum til góðs sem fram mun fara í byrjun október. Líkt og í fyrri söfnunum munu sjálfboðaliðar heimsækja öll heimili á landinu og er hvatt til þess að fjölskyldur og vinahópar taki sig saman og gangi til liðsinnis góðum málstað. Söfnunin að þessu sinni er helguð hjálparstarfi í Afríku, aðstoð við þá sem búa við kröppust lífskjör, með sérstakri áherslu á hjálparverkefni í Malaví. Safnanirnar hafa á undanförnum árum skilað miklum árangri og gert Rauða krossi Íslands kleift að vera öflugur fulltrúi landsins í alþjóðlegu hjálparstarfi.
25.08.2010 Forseti ræðir við stjórnarmenn í Sambandi ungra Sjálfstæðismanna um þróun forsetaembættisins, verkefni þess og stöðu, lýðræðishugmyndir sem móta íslenska stjórnskipun, rétt þjóðarinnar sem kveðið er á um í stjórnarskrá og ýmsa þætti umræðunnar um stjórnlagaþing. Mynd
25.08.2010 Forseti ræðir við hóp af ungu fólki sem tekur þátt í starfi Ungmennaráðs Vesturbæjar í Reykjavík og jafnaldra þeirra frá Möltu sem taka þátt í verkefni um lýðræðislega þátttöku ungs fólks, stöðu eyþjóða og tækifæri smærri ríkja. Forseti fjallaði m.a. um hvernig hin nýja upplýsingatækni og kostir smæðarinnar gætu veitt ungu fólki á Íslandi og Möltu ný tækifæri til að láta að sér kveða og hafa áhrif á samfélag sitt.
25.08.2010 Forseti á fund með Þórólfi Þórlindssyni prófessor og fyrrum forstöðumanni Lýðheilsustöðvar um forvarnir og lýðheilsu ungmenna, nauðsyn þess að halda áfram því árangursríka starfi sem þróað hefur verið á undanförnum árum. Rannsóknir íslenskra félagsvísindamanna hafa verið grundvöllur þess starfs, samvinna sveitarfélaga og æskulýðssamtaka gegnt lykilhlutverki.
26.08.2010 Forseti á fund með sendinefnd frá bandarísku verslunarkeðjunni Whole Foods sem heimsækir Ísland til að kynna sér vistvæna framleiðslu sjávarafurða. Verslunarkeðjan sérhæfir sig í gæðamatvælum og hefur á undanförnum árum kynnt íslenskan landbúnað og sjávarafurðir. Baldvin Jónsson sem verið hefur frumkvöðull að þessu samstarfi sat einnig fundinn.
26.08.2010 Forseti á fund með nýjum forstjóra Actavis Claudio Albrecht og Hjördísi Árnadóttur fjölmiðlafulltrúa um vaxandi starfsemi fyrirtækisins, vöxt umsvifa þess á Íslandi og stuðning við verkefni í forvörnum sem miða að því að forða ungu fólki frá því að verða fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst verkefnið Youth in Europe sem fjöldi evrópskra borga tekur þátt í og Forvarnardaginn á Íslandi. Forseti er verndari beggja verkefnanna og eru þau byggð á rannsóknum íslenskra félagsvísindamanna.
26.08.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Þýskalands hr. Hermann-Josef Sausen sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aldalöng tengsl landanna, áhrif á sviði menningar, mennta, trúar og viðskipta. Í upphafi nýrrar aldar sé mikilvægt að leggja áherslu á samvinnu varðandi þróun norðurslóða og nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita í Þýskalandi og Mið-Evrópu. Bókasýningin í Frankfurt á næsta ári þar sem Ísland verður í heiðurssæti verði mikilvægur viðburður. Viðræður Íslands við Evrópusambandið skapi einnig ný verkefni í samskiptum landanna. Að loknum fundi forseta og sendiherra var móttaka fyrir fjölda fólks sem tengist samvinnu Íslands og Þýskalands. Mynd
26.08.2010 Forseti á fund með fulltrúum Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps um þróun norðurslóða, hvernig nýting orkulinda, nýjar siglingaleiðir, loftslagsbreytingar og samvinna ríkja og byggðarlaga á norðurslóðum geta fært íbúum á norðausturhluta Íslands ný tækifæri.
28.08.2010 Forseti sækir ýmsa viðburði á Akureyrarvöku, einkum í Listagilinu. Á Akureyrarvöku kemur fram mikill fjöldi listafólks sem og ungt fólk úr Menntaskólanum á Akureyri og önnur ungmenni sem koma að ýmsum verkefnum í bæjarlífinu.
28.08.2010 Forseti tekur við eintaki af nýrri bók um Akureyri og nágrenni í Eyjafirði. Höfundar hennar eru Anna Fjóla Gísladóttir og Gísli B. Björnsson og er í bókinni fjöldi mynda og frásagna um mannlíf, byggð og náttúru.
28.08.2010 Forseti er viðstaddur vígslu menningarhússins Hofs á Akureyri. Í því eru tveir salir ásamt margvíslegri annarri aðstöðu og verður húsið ný heimkynni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og annarra þátta í tónlistarlífi Akureyrar sem og nýr vettvangur fyrir Leikfélag Akureyrar og aðra menningarstarfsemi á Norðurlandi. Þá situr forseti kvöldverð í boði bæjarstjórnar Akureyrar sem haldinn er í Hofi.
28.08.2010 Forseti flytur ræðu við vígslu nýbyggingar Háskólans á Akureyri. Byggingin gerbreytir aðstöðu háskólans, bætir við nýjum fyrirlestrasölum og margvíslegum möguleikum fyrir nemendur og starfsfólk, sem og alþjóðlega starfsemi háskólans. Auk forseta flytja ávörp menntamálaráðherra og rektor og fulltrúar góðvina háskólans, nemenda og byggingaraðila. Að lokinni vígslunni er opið hús háskólans á Akureyri þar sem fram fer kynning á starfsemi sviða og rannsóknarstofnana háskólans sem og á starfsemi nemendafélagsins og á símenntun og alþjóðastarfi. Ávarp forseta.
29.08.2010 Forseti sækir hátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem haldnir eru í hinu nýja menningarhúsi Hofi. Það eru fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar í Hofi og flytur hljómsveitin m.a. nýtt verk eftir Hafliða Hallgrímsson tónskáld. Víkingur Heiðar Ólafsson mun síðan leika píanókonsert eftir Grieg og lýkur tónleikunum með flutningi á Níundu sinfóníu Dvoráks. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Guðmundsson.
29.08.2010 Forseti sækir Norðurlandamót U-20 á Akureyri og afhendir verðlaun. Á mótinu er keppt í frjálsum íþróttum og eru um 200 þátttakendur frá Norðurlöndum og um 250 þátttakendur frá Íslandi en aðildarfélög UMFÍ annast mótið.
30.08.2010 Forseti á fund með fulltrúum Rannsókna og greiningar um Forvarnardaginn sem fyrirhugað er að halda í haust. Skipulag dagsins yrði með sama hætti og áður og yrði það í fimmta sinn sem Forvarnardagurinn yrði haldinn. Dagskrá hans fer fram í 10. bekk í grunnskólum landsins og hafa ÍSÍ, UMFÍ og skátahreyfingin ásamt sveitarfélögum í landinu verið öflugir þátttakendur í deginum. Hann hefur og verið myndarlega studdur af Actavis.
31.08.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Rúanda, frú Jacqueline Mukangira, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um árangur þjóðarinnar við endurreisn mannlífs og stjórnkerfis í kjölfar hinna blóðugu átaka sem höfðu í för með sér þjóðarmorð og víðtækar hörmungar. Þá var einnig fjallað um ríkulega möguleika Rúanda til að nýta jarðhita, vatnsorku og aðrar auðlindir og óskir ráðamanna landsins um nána samvinnu við Ísland á því sviði. Rúanda hefur möguleika á að verða í fararbroddi ríkja í Afríku við nýtingu hreinnar orku, sem og að þróa upplýsingatækni sem þegar hefur verið lagður grundvöllur að. Mynd
31.08.2010 Forseti á fund með William Fitzhugh safnstjóra Smithsonian stofnunarinnar í Washington og Elizabeth Ward safnstjóra Víkingaheima í Reykjanesbæ. Rætt var um árangur af víkingasýningunni sem efnt var til árið 2000 í Bandaríkjunum en sú sýning fór til margra borga þar í landi og einnig til Kanada. Þá var fjallað um tækifæri sem hinir nýju Víkingaheimar í Reykjanesbæ fela í sér, bæði hvað varðar ferðaþjónustu, alþjóðlegar ráðstefnur og fræðslu fyrir nemendur og skólafólk á Íslandi. Mynd

September

01.09.2010 Forseti á fund með ráðherra utanríkismála á Indlandi, frú Preneet Kaur, þar sem rætt var um aukna samvinnu Indlands og Íslands að undanförnu, m.a. í kjölfar opinberrar heimsóknar forseta til Indlands í janúar. Nýting hreinnar orku, einkum jarðhita, og sú tækniþekking sem Íslendingar hafa yfir að ráða, samstarf á sviði vísinda og rannsókna, m.a. með tilliti til loftslagsbreyintga og bráðnunar jökla, framleiðsla lyfja og samvinna á sviði upplýsingatækni eru meðal þeirra þátta sem vaxandi áhersla er á í samskiptum landanna. Einnig hafa tengslin á vettvangi stjórnmála aukist og byggjast á þeim lýðræðishefðum sem bæði löndin búa að enda er Indland fjölmennasta lýðræðisríki veraldar og lýðræði á Íslandi á sér djúpar rætur í sögu þjóðarinnar. Að loknum fundinum bauð forseti til kvöldverðar til heiðurs hinum indverska ráðherra.
01.09.2010 Forseti er viðstaddur formlega opnun á nýju sendiráði Indlands á Íslandi. Við athöfnina fluttu ræður ráðherra utanríkismála á Indlandi frú Preneet Kaur og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
02.09.2010 Forseti er viðstaddur opnun nýrra höfuðstöðva hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail. Það hefur náð miklum árangri á undanförnum árum og er nú hugbúnaður þess notaður í yfir sextíu löndum í 27.000 verslunum. Meðal notenda hugbúnaðarins eru þekktustu fyrirtæki heims. Fulltrúar LS Retali tóku þátt í opinberri heimsókn forseta til Indlands í upphafi þessa árs en fyrirtækið hefur náð miklum árangri á Indlandi. Viðstaddir opnunina voru fulltrúar samstarfsaðila frá mörgum löndum. Í ávarpi fagnaði forseti árangri fyrirtækisins sem bæri vitni um þann kraft og sköpunargetu sem væri í íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum. Árangurinn væri mikilvæg skilaboð fyrir ungt fólk á Íslandi. Hægt væri að afla sér menntunar með það að markmiði að hafa rætur á Íslandi en tengjast athöfnum á heimsvísu.
02.09.2010 Forseti stýrir fundum ríkisráðs á Bessastöðum. Á fyrri fundinum létu fjórir ráðherrar af störfum og fyrrum félagsmálaráðherra var skipaðar efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá tóku tveir nýir ráðherrar sæti í ríkisstjórninni á seinni fundinum.
07.09.2010 Forseti er á ferð í Kína í tilefni af þjóðardegi Íslands og íslenskri dagskrá á Heimssýningunni í Shanghai og til að eiga fundi með kínverskum ráðamönnum og sérfræðingum ásamt því að taka þátt í tveimur alþjóðlegum þingum. Í morgun átti forseti árangursríkan fund með varaforseta Kína Xi Jinping en hann er ásamt Hu Jintao forseta og Wen Jiabao forsætisráðherra einn þriggja helstu ráðamanna Kína. Fundurinn fór fram í Xiamen þar sem forseti Íslands og varaforseti Kína fluttu setningarræður á alþjóðaþingi sem Viðskipta- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNCTAD, heldur í Kína. Ræðunum var sjónvarpað beint í ríkissjónvarpi Kína. Myndir.
08.09.2010 Forseti flytur setningarræðu á sérstökum fundi UNCTAD um ábyrga fjármálastjórn ríkja. Í ræðunni lagði forseti áherslu á að endurskipulagning hins alþjóðlega fjármálakerfis yrði byggð á ábyrgri fjármálastefnu ríkja, samvinnu og stöðugleika. Hann varaði við þeim hættum sem mikil skuldasöfnun hefði í för með sér. Þær hefðu áður fyrr verið bundnar við þróunarríki en settu nú svip á vanda ýmissa Evrópuríkja. Íslenska ríkið hefði ávallt staðið við allar sínar alþjóðlegu skuldbindingar og greitt að fullu þau lán sem það hefði tekið. Helstu orsakir fjármálakreppunnar á Íslandi hefðu verið bundnar við óábyrga lánastarfsemi þriggja einkabanka, einkum í öðrum löndum. Myndir.
09.09.2010 Forseti flutti setningarræðu á orkuráðstefnu sem haldin var í sýningarskála Íslands á heimssýningunni í Shanghai. Ráðstefnuna sóttu forystumenn orkumála víða að úr Kína ásamt stjórnendum orkustofnunar landsins sem og kínverskir sérfræðingar. Efni ráðstefnunnar var að kynna reynslu Íslendinga af nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita, sem gæti nýst Kínverjum, með sérstakri áherslu á lagningu hitaveitna í kínverskum borgum og bæjum, sem og með því að loftkælingarkerfi borganna yrðu að einhverju leyti knúin með jarðvarma. Myndir. Fréttatilkynning.
09.09.2010 Leiðrétting vegna fréttar Morgunblaðsins um sendinefnd forseta í Kína. Fréttatilkynning.
11.09.2010 Forseti var viðstaddur tónleika og móttöku í íslenska sýningarskálanum þar sem hann flutti ávarp og þakkaði öllum þeim, sem komið hafa að gerð íslenska sýningarskálans og verið fulltrúar Íslands í Shanghai frá því Heimssýningin opnaði, fyrir frábær störf og óskaði þeim til hamingju með árangurinn, hina miklu landkynningu sem Ísland hefði hlotið í Kína.
 11.09.2010 Forseti hélt blaðamannafund í íslenska sýningarskálanum á Heimssýningunni á þjóðardegi Íslands og svaraði spurningum margra kínverskra fjölmiðla. Auk þess ræddi forseti við kínverska ríkissjónvarpið og eitt helsta viðskiptablað í Kína. Umræðuefnin voru m.a. framlag Íslands á Heimssýningunni, nýting hreinnar orku, opnun siglingaleiðar um norðurhöf og  aukinn straumur ferðamanna frá Kína til Íslands.
11.09.2010 Forseti flytur ræðu á hátíðarsamkomu í upphafi þjóðardags Íslands á Heimssýningunni í Shanghai. Áður hafði íslenski fáninn verið dreginn að  húni við aðalbyggingu sýningarinnar og þjóðsöngurinn leikinn. Landbúnaðarráðherra Kína flutti einnig ræðu á athöfninni og Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari lék lög eftir fjögur íslensk tónskáld. Að því loknu sat forseti hádegisverð í boði landbúnaðarráðherra Kína og borgarstjórans í Shanghai. Að því loknu skoðuðu gestir kínverska sýningarskálann og íslenska sýningarskálann.
13.09.2010 Forseti ræðir við forsætisráðherra Papúa Nýju-Gíneu Michael Somare um nýtingu jarðhita en mikill áhugi er á samstarfi við íslensk tæknifyrirtæki. Papúa Nýja-Gínea er eyríki í hitabeltinu sem nýlega hlaut sjálfstæði og glímir við ögrandi verkefni í þróun efnahagslífs síns en býr yfir ríkulegum jarðhitaauðlindum. Nýting þeirra getur skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar. Mynd
13.09.2010 Forseti á efnisríkan og jákvæðan fund með forsætisráðherra Kína Wen Jiabao. Fundurinn fór fram í Tianjin þar sem forseti og forsætisráðherrann sækja þing World Economic Forum en það er auk þingsins í Davos veigamesti atburðurinn í starfsemi þess. Á fundinum með forseta ítrekaði kínverski forsætisráðherrann Wen Jiabao að kínversk stjórnvöld hefðu ákveðið að styðja Ísland sérstaklega á tímum efnahagslegra erfiðleika og væri gjaldeyrisskiptasamningurinn milli Seðlabanka Kína og Seðlabanka Íslands sem undirritaður var í sumar mikilvægur hornsteinn slíks samstarfs. Kínverjar myndu innan þess ramma leggja kapp á aukinn innflutning á íslenskum vörum og víðtækt samstarf við íslensk verkfræðifyrirtæki og orkufyrirtæki sem stuðla myndi að aukinni þátttöku þeirra í jarðhitavæðingu Kína. Það væri einlæg von kínverskra stjórnvalda að slíkt fjölþætt samstarf, bæði á sviði peningamála, viðskipta og framkvæmda, myndi auðvelda endurreisn íslensks efnahagslífs. Fréttatilkynning
14.09.2010 Forseti ræðir við alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarnar Bloomberg og CNN í lok heimsóknar sinnar til Kína.
14.09.2010 Forseti svarar spurningum á blaðamannafundi og tekur þátt í nokkrum málþingum á alþjóðaþingi World Economic Forum sem haldið er í Tianjin en það gengur undir heitinu Sumar Davos með tilvísun til þingsins í janúar í Davos í Sviss. Á málþingunum sem forseti tók þátt í var m.a. fjallað um sjálfbæra þróun, varðveislu viskerfis jarðar, vatnsbúskap og landnýtingu, fiskveiðar og nýtingu auðlinda hafsins, stöðu smárra ríkja og þróun þeirra í veröld sem býr við vaxandi samkeppni og alþjóðavæðingu.
15.09.2010 Forseti á fund með fulltrúum borgaryfirvalda í Beijing sem heimsótt hafa Ísland. Rætt var um árangur af ferð forseta til Kína og helstu áhersluatriði í samstarfi landanna sem og það sem einna helst vakti athygli hinna kínversku gesta í heimsókninni til Íslands.
16.09.2010 Forseti sækir samkomu í Salnum í Kópavogi sem haldin var í tilefni af sjötíu ára afmæli Ómars Ragnarssonar.
16.09.2010 Forseti flytur lokaræðu á alþjóðlegri ráðstefnu sem Keilir efndi til um gosið í Eyjafjallajökli, áhrif þess á alþjóðlega flugumferð, lærdóma sem draga má af þeirri reynslu og þær breytingar sem verður að gera á búnaði flugvéla og alþjóðlegu regluverki. Ráðstefnuna hefur sótt fjöldi sérfræðinga og forystumanna í flugmálum, fulltrúar alþjóðastofnana, flugvélaframleiðenda, samtaka flugmanna og margir aðrir áhrifaaðilar í flugrekstri. Ræða forseta.
16.09.2010 Forseti flytur opnunarræðu á alþjóðlegu ráðstefnunni Driving Sustainability sem haldin er í fjórða sinn í Reykjavík. Ráðstefnan er helguð umræðum um þróun vistvænna samgangna í borgum samtíma og framtíðar og sækja hana sérfræðingar, fulltrúar borgaryfirvalda og fyrirtækja frá ýmsum löndum. Vefur ráðstefnunnar. Ræða forseta
17.09.2010 Heimsókn forseta Slóvakíu. Fréttatilkynning.
18.09.2010 Forseti er viðstaddur opnun sýningar á verkum Errós í Listasafni Reykjavíkur. Á sýningunni eru einkum klippiverk listamannsins, m.a. frá námsárum hans í Myndlistaskólanum í Reykjavík og allt til síðustu ára.
19.09.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi Luis E. Arreaga-Rodas sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um að efla samvinnu Íslands og Bandaríkjanna á sviði hreinnar orku, menningar, vísinda og norðurslóða með sérstöku tilliti til legu Íslands í Atlantshafi, loftslagsbreytinga og nýrra siglingaleiða sem og langvarandi samstarfs ríkjanna. Að loknum fundinum var móttaka fulltrúa ýmissa samtaka, stofnana og fyrirtækja með náin tengsl við Bandaríkin.
19.09.2010 Forseti ræðir ásamt forseta Slóvakíu við fréttamenn að loknum fundi þeirra á Bessastöðum.
19.09.2010 Forseti á fund með forseta Slóvakíu Ivan Gašparovic( skömmu eftir að forsetinn kom til landsins. Með honum í för er utanríkisráðherra Slóvakíu Mikuláš Dzurinda og embættismenn sem einnig sátu fundinn. Rætt var um stöðu smærri þjóða í Evrópu, reynslu Slóvakíu af aðildinni að Evrópusambandinu, möguleika landsins til að nýta jarðhita í samvinnu við íslensk verkfræðifyrirtæki, aukin samskipti á sviði menningar og vísinda sem og um stöðu mannréttinda, einkum réttindi Roma-barna í skólakerfi Slóvakíu.
19.09.2010 Forseti flytur ávarp og afhendir verðlaun á Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Mikill fjöldi nemenda í grunnskólum víða um land sendi inn frumlegar hugmyndir og var unnið úr mörgum þeirra í sérstakri vinnusmiðju.
19.09.2010 Forseti er í ítarlegu viðtali við sunnudagsþátt Útvarps Sögu. Rætt var meðal annars um heimsókn forseta til Kína og þá lærdóma sem draga má af henni, þróun nýrrar siglingaleiðar um norðurslóðir sem tengir Asíu, Evrópu og Ameríku á nýjan hátt, stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og reynslu forseta af viðtölum við fjölda alþjóðlegra fjölmiðla á undanförnum mánuðum.
22.09.2010 Forseti á fund með Dmitry Medvedev forseta Rússlands. Að fundinum loknum buðu forseti Rússlands og eiginkona hans, Svetlana Medvedeva, íslensku forsetahjónunum til síðdegisverðar. Fundurinn var haldinn á sumarsetri forseta Rússlands í útjaðri Moskvu en um morguninn tók forseti Íslands þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um Norðurslóðir sem haldin er í dag og á morgun í Moskvu. Fréttatilkynning.
23.09.2010 Forseti á fund með Vladimir Putin forsætisráðherra Rússlands, en áður höfðu þeir báðir flutt ræður á Alþjóðaþingi um Norðurslóðir sem haldið er í Moskvu. Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu embættisins. Myndir. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
23.09.2010 Forseti er gerður að heiðursfélaga í Rússneska landfræðifélaginu við hátíðlega athöfn á Alþjóðaþingi um Norðurslóðir sem haldið er í Moskvu. Forsætisráðherra Rússlands, Vladimir Putin, afhenti forseta heiðursskjal og sérstakt innsigli úr bronsi þessu til staðfestingar.Mynd. Fréttatilkynning.
24.09.2010 Forseti á fund með sendiherra Indlands á Íslandi varðandi heimsókn dr. Farooq Abdullah ráðherra endurnýjanlegrar orku í indversku ríkisstjórninni, sem kemur til Íslands um helgina til þess að kynna sér margvíslega nýtingu jarðhita. Ráðherrann verður í boði iðnaðarráðuneytisins en heimsóknin er í framhaldi af opinberri heimsókn forseta til Indlands í byrjun ársins og ráðstefnu um samvinnu í orkumálum sem þá var haldin í Delhi.
25.09.2010 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu í íþróttahúsinu í Bolungarvík en hún er haldin í tilefni af vígslu hinna nýju Bolungaríkurganga. Ávarp forseta
25.09.2010 Forseti er viðstaddur vígsluathöfn Bolungarvíkurganga sem fór fram við gangamunnann í Bolungarvík. Síðan keyrðu forseti og núverandi og fyrrverandi samgönguráðherrar ásamt heimamönnum í gegnum hin nýju göng.
25.09.2010 Forseti er viðstaddur opnun sýningarinnar ,,Frá vegi til ganga í Óshlíð" sem er í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík. Á sýningunni eru ýmsar tegundir af bergi sem fannst við gerð ganganna og ítarleg lýsing á framkvæmdinni.
25.09.2010 Forseti ræsir hlaup í gegnum hin nýju göng frá Hnífsdal til Bolungavíkur. Mikill fjöldi íbúa tók þátt, sumir hlaupandi aðrir á reiðhjólum.
25.09.2010 Forseti er viðstaddur afhjúpun minnisvarða á Skarfaskeri sem helgaður er minningu ástvina sem farist hafa á leiðinni frá Bolungarvík til Ísafjarðar.
26.09.2010 Forseti á fund með dr. Farooq Abdullah, ráðherra endurnýjanlegrar orku í indversku ríkisstjórninni, sem dvelur á Íslandi næstu daga í boði iðnaðarráðherra, til að kynna sér fjölþætta nýtingu jarðhita og vatnsorku. Rætt var um þátttöku íslenskra aðila í verkefnum á Indlandi, sérstaklega í Kasmír og á Himalajasvæðinu. Að fundinum loknum bauð forseti til kvöldverðar þar sem fulltrúar íslenskra stofnana, stjórnvalda, verkfræði-, orku- og tæknifyrirtækja og Samtaka íslenskra garðyrkjubænda og Landbúnaðarháskóla Íslands kynntu starfsemi sína.
27.09.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Noregs á Íslandi, hr. Dag Wernö Holter, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um góða samvinnu landanna, ný verkefni á norðurslóðum og mikilvægi þess að efla rannsóknir og farsæla stefnumótun á því sviði. Einnig var rætt hvernig útkoma Íslendingasagna í nýrri heildarútgáfu á norsku gæti orðið tilefni til að styrkja vitund um sameiginlegan menningararf. Að loknum fundinum var móttaka fyrir fulltrúa ýmissa samtaka, stofnana og fyrirtækja sem náin tengsl hafa við Noreg. Mynd.
27.09.2010 Forseti á fund með prófessor Helga Björnssyni og Þorsteini Þorsteinssyni jöklafræðingi um árangur af heimsóknum forseta til jöklafræðistofnunarinnar Institute of Tibetan Plateau Research í Beijing og til heimskautastofnunarinnar Polar Research Institute of China í Shanghai. Rætt var um mögulegt samstarf við íslenska jöklafræðinga og náttúruvísindamenn.
27.09.2010 Forseti á fund með Paul Martin, yfirmanni lagadeildar við Háskólann á Nýja-Englandi í Ástralíu, Miriam Verbeek, sérfræðing í félagslegum hliðum umhverfisverndar og Andrési Arnalds, fagstjóra hjá Landgræðslu ríkisins. Fjallað var um alþjóðlegt samstarf sérfræðinga í þeim tilgangi að skerpa regluverk og sáttmála sem tryggt geta árangursríka verndun umhverfis og lífríkis.
28.09.2010 Forseti á fund með dr. Farooq Abdullah ráðherra endurnýjanlegrar orku í indversku ríkisstjórninni um árangurinn af heimsókn hans til Íslands undanfarna daga. Hann hefur sérstaklega kynnt sér nýtingu jarðhita og vatnsafls. Rætt var um mikilvægi þess að þróa alhliða nýtingu jarðvarma á ákveðnum svæðum á Indlandi sem sýnishorn af því hvað hægt væri að gera í landinu.
28.09.2010 Forseti sækir fyrirlestur sem Charles Emmerson höfundur bókarinnar The Future History of the Arctic heldur í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn fjallaði um stöðu mála á Norðurslóðum, hagsmuni einstakra ríkja, vaxandi samvinnu og áhrif þessarar þróunar á stöðu Íslands og verkefni og stefnumótun sem Íslendingar þyrftu að sinna. Forseti flutti ávarp áður en fyrirlesturinn hófst og fjallaði meðal annars um merkilegt framlag þessarar bókar til að lýsa viðhorfum íbúa og áhrifamanna á Norðurslóðum.
28.09.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Súdans á Íslandi, frú Ilham Ibrahim Mohamed Ahmed, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Fjallað var ítarlega um viðleitni til að treysta frið í landinu og bæta sambúð ættbálka og þjóðarbrota þar, sem og tilraunir til að koma í veg fyrir frekari vopnuð átök og styrkja almenn réttindi íbúanna og efla þar með efnahagslega og félagslega þróun. Önnur Norðurlönd hefðu átt hlut að árangursríkum verkefnum í Súdan og vonir væru bundnar við að Ísland gæti einnig rétt hjálparhönd og miðlað af reynslu sinni og þekkingu á komandi árum, enkum í ljósi aðstoðar Íslands við önnur ríki í Afríku. Mynd.
28.09.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Georgíu hr. David Kereselidze en hann er fyrsti sendiherra Georgíu gagnvart Íslandi. Rætt var um samskipti ríkjanna og möguleika á nýtingu jarðhita í Georgíu, sérstaklega til húshitunar og til að styrkja ferðaþjónustu. Einnig lýsti sendiherrann ýmsum þáttum deilnanna við Rússland og fjallaði um samskipti Georgíu við Evrópusambandið og NATO, sem og nauðsyn þess að leita friðsamlegra lausna á þeim vandamálum sem skapast hefðu á undanförnum árum. Mynd.
29.09.2010 Forseti á fund með forsvarsmönnum Loftleiða, dótturfélags Icelandair, sem annast flugrekstur í Jakútíu í Rússlandi, í Papúu Nýju-Gíneu og fleiri löndum. Rætt var um árangur af fundi forseta með forseta Rússlands Dmitry Medvedev og forsætisráðherranum Valdimir Putin sem báðir studdu eindregið að samvinna við Ísland á þessu sviði yrði efld, einkum vegna reynslu Íslendinga af flugrekstri á norðurslóðum og við erfið veðurskilyrði.
29.09.2010 Forseti stýrir ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Staðfest voru frumvörp og lög sem undrirituð höfðu verið utan ríkisráðsfundar.
29.09.2010 Dr. Yao Tandong, fremsti jöklafræðingur Kína og stjórnandi víðtækra rannsókna á Himalajasvæðinu, flytur fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 1. október kl. 12:00. Fyrirlesturinn er haldinn í boði forseta Íslands og í samvinnu við Háskóla Íslands. Heiti fyrirlestrarins er „Himalajajöklarnir: Þriðja heimskautið“.  Hann verður fluttur á ensku og er opinn öllum almenningi. Fréttatilkynning.
30.09.2010 Forseti tekur á móti hópi grænlenskra barna sem komið hafa til Íslands til að læra sund.
30.09.2010 Forseti ræðir við hóp af finnskum blaðamönnum frá útvarpi, sjónvarpi og blöðum um þróun efnahagslífsins á Íslandi, stöðu landsins í kjölfar bankakreppunnar, tækifæri sem felast í nýtingu hreinnar orku, norðurslóðir og Evrópusambandið.

Október

01.10.2010 Forseti á fund með dr. Yao Tandong, forystumanni í jöklarannsóknum í Kína og stjórnanda verkefnis sem kennt er við þriðja pólinn. Forseti heimsótti rannsóknastofnun hans í síðasta mánuði í ferð sinni til Kína og dr. Yao Tandong átti í dag fundi með jöklafræðingum og öðrum náttúruvísindamönnum við Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands. Rætt var um margvíslega möguleika á aukinni samvinnu, hvernig nýta mætti rannsóknir á íslenskum jöklum og á gróðurfari á jöklasvæðum við þróun hliðstæðra verkefna á Himalajasvæðinu.
01.10.2010 Forseti afhendir bandaríska kvikmyndagerðarmanninum Jim Jarmusch heiðursverðlaun RIFF kvikmyndahátíðarinnar sem nú stendur yfir í Reykjavík. Viðstaddur afhendinguna var fjöldi íslenskra kvikmyndagerðarmanna og erlendir gestir hátíðarinnar.
01.10.2010 Forseti á fund með Chen Lianzeng, stjórnanda Heimskautastofnunarinnar í Shanghai, sem jafnframt er ábyrgur fyrir hafrannsóknum, um rannsóknasamstarf á norðurslóðum. Kínverjar hafa á undanförnum árum sent leiðangra bæði til Suðurskautsins og Norðurskautsins og hafa mikinn áhuga á að efla margvíslega rannsóknasamvinnu á því sviði. Chen Lianzeng og sendinefnd hans hafa átt fundi með embættismönnum og sérfræðingum í utanríkisráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu og á Hafrannsóknastofnun; sendinefndin heimsækir á morgun Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólann á Akureyri.
01.10.2010 Forseti setur Alþingi að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Ræða forseta. Ræða forseta í enskri þýðingu.
01.10.2010 Forseti sækir fyrirlestur dr. Yao Tandong, helsta sérfræðings Kína í jöklarannsóknum, sem hann flutti í boði Háskóla Íslands og forseta. Fyrirlesturinn var liður í fyrirlestraröðinni Nýir straumar sem forseti stofnaði til fyrir nokkrum árum. Í upphafi flutti forseti stutt ávarp og fagnaði komu hins kínverska vísindamanns til Íslands og kvaðst vona að viðræður hans við íslenska jöklafræðinga og aðra náttúruvísindamenn leiddu til öflugs rannsóknasamstarfs. Bráðnun jökla í Himalajafjöllum, á norðurslóðum og á Suðurskautslandinu fælu í sér alvarlega ógn fyrir allar þjóðir heims.
01.10.2010 Forseti er viðstaddur og flytur ávarp á hátíðarsamkomu í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði þar sem ýtt var úr vör verkefninu "Heilsueflandi framhaldsskóli". Það felur í sér samstarf nemenda, skólayfirvalda og Lýðheilsustöðvar um fjögurra ára verkefni þar sem áherslurnar eru: hreyfing, næring, geðrækt og lífsstíll. Þegar hafa margir framhaldsskólar lýst vilja sínum til að taka þátt í verkefninu. Forseti afhjúpaði ásamt skólameistara Flensborgarskóla og forstjóra Lýðheilsustöðvar skilti sem helgað er þessu verkefni.
02.10.2010 Forseti tekur þátt í fjölsóttu kaffisamsæti bæjarstjórnar Fjallabyggðar og Vegagerðar ríkisins sem haldið er í Íþróttamiðstöðinni á Ólafsfirði að lokinni vígslu Héðinsfjarðarganga. Forseti flutti ávarp og fjallaði meðal annars um mikilvægi Héðinsfjarðarganga, ekki aðeins fyrir byggðarlögin nyrðra heldur einnig þjóðina alla, þau sköpuðu fjölda nýrra tækifæra í ferðaþjónustu og opnuðu öllum íbúum landsins paradís fyrir vetraríþróttir. Um eitt þúsund íbúar og gestir sóttu hátíðina. Ávarp forseta. Myndir.
02.10.2010 Forseti er viðstaddur opnun Héðinsfjarðarganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Hátíðardagskrá var í Héðinsfirði með þátttöku íbúa Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem sameinast hafa í sveitafélaginu Fjallabyggð.
02.10.2010 Forseti tekur við söfnunarbaukum Rauða krossins á Dalvík í átakinu Göngum til góðs. Nemendur í grunnskólanum höfðu daginn áður gengið í öll hús bæjarins til að safna framlögum.
02.10.2010 Forseti er viðstaddur vígslu nýrrar og glæsilegrar íþróttamiðstöðvar á Dalvík og flytur ávarp við það tækifæri. Íþróttamiðstöðin er tengd sundlaug bæjarins og gerbreytir allri aðstöðu til íþróttaiðkana og heilsubótar, bæði fyrir íþróttafélögin og bæjarbúa. Fjölþætt dagskrá var á opnunarhátíðinni og að henni lokinni hófst innanhússmót í frjálsum íþróttum. Ávarp forsetaMyndir.
02.10.2010 Forseti heimsækir um morguninn höfuðstöðvar Rauða krossins á Akureyri þegar ýtt var úr vör söfnunarátakinu Göngum til góðs í bænum. Forseti er verndari Rauða krossins. Birt er hvatningarávarp forseta í söfnunarblaðinu Hjálp sem dreift var í hvert hús á landinu.
03.10.2010 Forseti ræðir við Lísu Pálsdóttur um Bessastaði, söguna og náttúruna sem umlykur staðinn; Bessastaði sem vinnustað og heimili. Viðtalið verður í þætti hennar Flakki á Rás 1.
04.10.2010 Forseti tekur á móti sendinefnd þingmanna sem setu eiga á Evrópuþinginu sem komnir eru til Íslands ásamt embættismönnum þingsins til að kynna sér viðhorf til Evrópusamstarfsins, stöðu efnahagsmála og framtíðarhorfur.
04.10.2010 Forseti tekur á móti ljóðskáldum frá Kína, Japan og Norðurlöndum sem taka þátt í ljóðahátíð sem sett verður síðar í dag.
06.10.2010 Forseti á fund með Jóni Ásbergssyni framkvæmdastjóra Íslandsstofu og Þorleifi Þór Jónssyni forstöðumanni um verkefni á sviði hreinnar orku, ferðaþjónustu og samstarfs við mennta- og fræðslustofnanir í öðrum löndum. Einnig var rætt um sýningu sem halda á í Beijing í nóvember næstkomandi og helguð verður grænni tækni en forystumenn Kína buðu Íslendingum til þátttöku í henni í nýlegri heimsókn forseta til Kína.
07.10.2010 Forseti ræðir við John Ralston Saul forseta alþjóðlegu rithöfundasamtakanna PEN um starfsemi þeirra og baráttu í þágu rithöfunda sem eru í fangelsum eða búa við kúgun í sínu heimalandi. Einnig var rætt um þróun mála á norðurslóðum en John Ralston Saul hefur ásamt eiginkonu sinni Adrienne Clarkson, fyrrum ríkisstjóra Kanada, verið mjög virkur á því sviði og látið málefni norðurslóða sig miklu varða á undanförnum árum.
07.10.2010 Forseti ræðir við blaðamanninn Max Doyle frá írska blaðinu Sunday Independent um þróun efnahagsmála á Íslandi í kjölfar bankakreppunnar, Icesave málið, mótmælin undanfarið og kröfurnar um breytingar.
07.10.2010 Forseti á fund með bankastjóra Seðlabanka Kína, Zhou Xiaochuan, um vaxandi samskipti landanna, mikilvægi gjaldeyrisskiptasamningsins sem gerður var fyrr á þessu ári milli Seðlabanka Kína og Seðlabanka Íslands og hvernig sá samningur getur greitt fyrir auknum viðskiptum, útflutningi frá Íslandi, fjárfestingum, verkefnum á sviði jarðhita í Kína, ferðaþjónustu og fjölgun kínverskra ferðamanna til Íslands sem og stuðlað að sameiginlegum verkefnum á sviði hreinnar orku annars staðar í veröldinni. Fundinn sat einnig Már Guðmundsson seðlabankastjóri og embættismenn kínverska og íslenska seðlabankans en fyrr um daginn hafði seðlabankastjóri Kína átt fundi í Seðlabankanum og með ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.
07.10.2010 Forseti á fund með Birni Zoega forstjóra Landspítala-Háskólasjúkrahúss um heilbrigðisþjónustuna á Íslandi, árangur Landspítalans á erfiðum tímum og nauðsyn samræmis í aðgerðum á þessu sviði.
08.10.2010 Forseti á fund með forsvarsmönnum jarðhitafyrirtækisins Reykjavík Geothermal sem vinnur að verkefnum víða um heim. Rætt var meðal annars um árangur verkefnisins í Abu Dhabi þar sem íslensk jarðhitatækni skilaði tímamótaárangri varðandi möguleika í eyðimörk Miðausturlanda. Einnig var rætt um hugmyndir sem fram komu í heimsóknum forseta til Kína og Rússlands nýverið frá forystumönnum þessara landa um aukna samvinnu við Íslendinga. Einnig var fjallað um möguleika á jarðhitanýtingu í Austur-Afríku og víðar í veröldinni en vaxandi eftirspurn er eftir íslenskri tækniþekkingu á þessu sviði.
08.10.2010 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni þróunarhagfræðingi um alþjóðlegt vísindasamstarf og rannsóknir á bráðnun jökla og gróðurfari í framhaldi af heimsókn forseta til Kína og fundum með þarlendum sérfræðistofnunum og viðræðum Dagfinns við sérfræðinga og fulltrúa stofnana á Indlandi og í Nepal.
08.10.2010 Forseti á fund með áhugaaðilum um þátttöku í samvinnuverkefnum, sem einkum beinast að nýtingu hreinnar orku, vatnsbúskap og upplýsingatækni.
08.10.2010 Forseti á símafund með forsvarsmönnum Rannsóknarþings norðursins um undirbúning að væntanlegu þingi sem haldið verður í Osló í byrjun september á næsta ári. Jafnframt greindi forseti frá norðurslóðaþingi sem haldið var í Moskvu í síðasta mánuði en forseti var þar ræðumaður ásamt forsætisráðherra Rússlands Valdimir Putin.
09.10.2010 Forseti er viðstaddur afhendingu LennonOno friðarverðlaunanna í Höfða. Þar veitti Yoko Ono fjórum bandarískum baráttumanneskjum verðlaunin fyrir framlag þeirra.
11.10.2010 Forseti sendir hamingjuóskir til U21 landsliðisins í knattspyrnu eftir sigur í Edinborg. Fréttatilkynning.
11.10.2010 Skrifstofa forseta hefur sent svar við fyrirspurnum fjölmiðla vegna friðarverðlauna Nóbels.
12.10.2010 Forseti er viðstaddur landsleik Íslands og Portúgals í knattspyrnu karla á Laugardalsvelli.
12.10.2010 Forseti á fund með Rakel Sigurgeirsdóttur, Ástu Hafberg og Þórarni Einarssyni um mótmælin undanfarið, áherslur og efnisþætti; stöðuna í atvinnumálum og skuldavanda heimilanna.
13.10.2010 Forseti á fund með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga-Rodas, um samvinnu landanna á ýmsum sviðum svo sem í nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita, þróun Norðurslóða og á sviði vísinda og rannsókna.
14.10.2010 Forseti ræðir við rússneska netsjónvarpið GZT.ru um samstarf Íslands og Rússlands bæði nú og á fyrri tíð, verkefni á Norðurslóðum, árangur við nýtingu hreinnar orku sem og samskipti á sviði lista og menningar með sérstakri áherslu á íslenska nútímamenningu. Viötalið var tekið í samvinnu við sendiráð Íslands í Moskvu.
14.10.2010 Forseti tekur á móti hópi erlendra nemenda sem stunda íslenskunám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, ræðir við þá um sögu Bessastaða og hvernig hún endurspeglar áfanga á leið íslenskrar þjóðar frá landnámi til lýðveldisstofnunar.
14.10.2010 Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi Su Ge til að ræða úrvinnslu ýmissa verkefna og hugmynda sem rædd voru á fundum forseta í heimsókn hans til Kína 4.-15. september. Rætt var um verkefni á sviði jarðhitanýtingar í Kína, m.a. í Innri Mongólíu, Shaanxi og Yunnan, rannsóknir á jöklum á Himalajasvæðinu og samstarf íslenskra og kínverskra vísindamanna, þróun tengsla við Kínversku heimskautastofnunina, viðburði á sviði menningar og lista, sem og heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands á næsta ári þegar 40 ár verða liðin frá því Ísland og Kína tóku upp stjórnmálasamband. Þá var fjallað um viðbrögð við nýlegri  veitingu friðarverðlauna Nóbels, þróun mannréttinda í Kína og samstarf við íslenska fræðasamfélagið á því sviði, sem og nýja samþykkt hóps eldri áhrifamanna í Kommúnistaflokki Kína um tjáningarfrelsi.
14.10.2010 Forseti sendi samúðarkveðjur til forseta Haítí. Fréttatilkynning
15.10.2010 Forseti á fund með hópi íslenskra og erlendra athafnamanna sem áhuga hafa á alhliða verkefnum í nýtingu jarðhita víða um heim; hvernig íslensk tækniþekking og reynsla geta aukið hlut hreinnar orku í orkubúskap landa.
15.10.2010 Forseti á fund með forvígismönnum málþings um jarðhita, Iceland Geothermal 2010, sem haldið verður í byrjun nóvember. Meðal ræðumanna verður bandaríski prófessorinn Michael Porter frá Harvard háskóla en hann er meðal helstu sérfræðinga heims á sviði samkeppnishæfni. Rætt var um dagskrá málþingsins og efnisþætti en forseti mun í lok þess fjalla um niðurstöður.
15.10.2010 Forseti á fund með sendiherra Rússlands Andrey Vasilyevich Tsyganov um árangurinn af heimsókn forseta til Rússlands 21.-24. september, verkefni sem rædd voru á fundum forseta með forseta Rússlands Dmitry Medvedev og með forsætisráðherranum Valdimir Putin: samstarf á Norðurslóðum, jarðhitaverkefni í Rússlandi, nýjar siglingaleiðir og flugsamgöngur. Einnig var fjallað um væntanlega heimsókn orkumálaráðherra Rússlands og ríkisstjóra Kamtsjatka en sú heimsókn var ákveðin af Putin forsætisráðherra í framhaldi af viðræðum við forseta í Moskvu.
15.10.2010 Forseti ræðir við tvo blaðamenn frá Kyodo í Japan um reynslu Íslendinga í kjölfar bankahrunsins, þróun efnahagslífs og atvinnuvega, og mikilvægi auðlinda eins og hreinnar orku, sjávarafurða og vatns fyrir styrkleika íslensks hagkerfis á komandi áratugum. Einnig var rætt um áhuga Japana á að skoða ástæður langlífis Íslendinga og var í því sambandi rætt um uppbyggingu heilbrigðiskerfis og forvarnir sem felast í hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og banni við reykingum.
15.10.2010 Forseti ræðir við BBC útvarpið um eldgosið í Eyjafjallajökli og niðurstöðu alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var á Íslandi í september þar sem fram komu tillögur um aðgerðir og breytingar á flugsamgöngum. Einnig var fjallað um straum ferðamanna til Íslands og mögnuð áhrif eldfjalla og jökla í íslensku landslagi.
16.10.2010 Forseti sækir sönghátíð karlakóra, Kötlumótið, sem Samband sunnlenskra karlakóra efnir til að Flúðum. Forseti flytur ávarp í upphafi sönghátíðarinnar, sækir tónleika og tekur þátt í lokahófi og hátíðarkvöldverði söngmótsins. Ávarp forseta. Kveðja forseta í söngskrá.
16.10.2010 Forseti er sæmdur heiðursmerki Norræna söngsambandsins á kóramóti sunnlenskra karlakóra, Kötlumótinu, sem haldið er að Flúðum. Eyþór Eðvarðsson, formaður Norræna söngsambandsins, sæmdi forseta heiðursmerkinu sem veitt var fyrir öflugan stuðning forseta við starf íslenskra karlakóra, bæði hér heima og erlendis.
17.10.2010 Forseti á fund með Sergey Shmatko orkumálaráðherra Rússlands, Alexey Kuzmitsky ríkisstjóra Kamtsjatka, Evgeny Dod forstjóra RusHydro og sendinefnd þeirra sem heimsækja Ísland í framhald af viðræðum forseta við Medvedev forseta Rússlands og Putin forsætisráðherra í Moskvu í síðasta mánuði. Rætt var um þátttöku Íslendinga í jarðhitanýtingu í Rússlandi, sérstaklega í Kamtsjatka, með byggingu orkuvera, lagningu hitaveitna, þróun gróðurhúsaræktunar og heilsulinda. Forystumenn rússnesku sendinefndarinnar lýstu miklum áhuga á slíkri samvinnu við Íslendinga um einstök verkefni sem gæti orðið grundvöllur að víðtækari samvinnu, bæði í Rússlandi og í öðrum löndum, en RusHydro er eitt af stærstu orkufyrirtækjum heims. Að loknum fundinum bauð forseti til kvöldverðar þar sem fulltrúar ýmissa stofnana og fyrirtækja á Íslandi voru meðal gesta.
17.10.2010 Forseti á fund með þingflokki Hreyfingarinnar um erindi sem þingflokkurinn sendi forseta í síðustu viku þar sem fjallað var um stöðuna í skuldavanda heimilanna og í landstjórninni.
18.10.2010 Forseti ræðir við hóp fyrrverandi þingmanna á Evrópuþinginu sem heimsækja Ísland til að kynna sér þjóðlíf og atvinnuhætti, viðhorf Íslendinga til Evrópusamstarfsins, afleiðingar bankahrunsins og þróun efnahagslífsins. Forseti ræddi þessa þætti á fundinum sem og fiskveiðistefnu Íslendinga, þróun hennar, mikilvægi sjávarauðlinda sem og stöðu forsetans í íslenskri stjórnskipun.
19.10.2010 Forseti heimsækir jarðhitavirkjanirnar á Hellisheiði og í Svartsengi með indverskum athafnamönnum sem áhuga hafa á jarðhitaþróun en í opinberri heimsókn forseta til Indlands í upphafi árs var rætt um samstarf landanna á þessu sviði. Dr. Farooq Abdullah ráðherra endurnýjanlegrar orku á Indlandi kom í heimsókn til Íslands í síðasta mánuði til að hvetja til þess að sameiginlegum verkefnum á þessu sviði verði hrundið í framkvæmd í Indlandi.
19.10.2010 Forseti ræðir við fréttakonu Tyrkneska ríkissjónvarpsins TRT sem vinnur að heimildaþætti um Ísland um afleiðingar bankakreppunnar, endurreisn efnahagslífsins og stöðu Íslendinga á alþjóðavettvangi, sem og auðlindir landsins, undirstöður hagvaxtar á komandi árum.
20.10.2010 Forseti á fund með fulltrúum úr grasrótarsamtökunum Bót sem gerðu grein fyrir alvarlegri stöðu lífeyrisþega, öryrkja, félagsbótaþega og atvinnuleitenda en mikill fjöldi fólks getur ekki framfleytt sér og þarf að treysta á matargjafir. Fulltrúar hópsins afhentu forseta skjal þar sem hvatt er til aðgerða á grundvelli 13. og 24. greinar stjórnarskrárinnar.
21.10.2010 Forseti á fund með ritstjórum verksins Ísland 2010 - atvinnuhættir og menning. Í því verða yfirlitsgreinar um sögu og menningu, stjórnkerfi, atvinnuvegi, náttúru og ýmsa aðra þætti sem setja svip á Ísland í upphafi nýrrar aldar. Í tengslum við ritið verður unnið að upplýsingaveitu á netinu sem geyma mun margvíslegan fróðleik um alla þessa efnisþætti.
22.10.2010 Forseti ræðir við CNBC sjónvarpsstöðina um árangur Íslendinga í nýtingu hreinnar orku, loftslagsbreytingar og bráðnun jökla á Íslandi og gildi Zayed orkuverðlaunanna fyrir framfarir í nýtingu hreinnar orku og fyrir þróun sjálfbærs atvinnulífs og þjóðfélagshátta. Forseti er í dómnefnd verðlaunanna.
22.10.2010 Forseti á fund með áhugafólki af Snæfellsnesi um Guðríði Þorbjarnardóttur, hvernig saga hennar verður best kynnt.
23.10.2010 Forseti sækir styrktartónleika MND félagsins í Víðistaðakirkju en allur ágóði þeirra rennur til að efla þjónustu við þá sem glíma við þennan sjúkdóm.
23.10.2010 Forseti afhendir forsetamerki skáta við hátíðlega athöfn í Bessastaðakirkju að viðstöddum forystumönnum skátahreyfingarinnar og fjölskyldum þeirra sem merkin hlutu. Þau eru veitt fyrir sérstakan árangur í skátastarfi og voru viðtakendur frá ýmsum skátafélögum. Að athöfn lokinni bauð forseti skátunum og fjölskyldum þeirra til kaffisamsætis í Bessastaðastofu.
24.10.2010 Forseti tekur á móti fyrirlesurum á ráðstefnunni Konur gegn kynbundnu ofbeldi og forystusveit Skottanna, regnhlífasamtökum kvennahreyfingarinnar, sem skipulagði ráðstefnuna í tengslum við Kvennafrídaginn.
25.10.2010 Forseti flytur ávarp á málþingi Umhyggju, félags til stuðnings langveikum börnum. Málþingið er haldið í tilefni af 30 ára afmæli Umhyggju og ber heitið: Hver á þá að lækna mig? Þar verður einkum fjallað um heilbrigðisþjónustu langveikra barna á komandi árum. Ávarp forseta.
26.10.2010 Forseti sækir borgarafund um fátækt á Íslandi sem haldinn er á vegum Bótar, aðgerðarhóps um bætt samfélag. Á  fundinum fjölluðu talsmenn öryrkja, aldraðra, atvinnuleitenda og félagsbótaþega um erfiðleikana sem fólk glímir við í íslensku samfélagi, skort á matvælum og óvissu í húsnæðismálum. Á fundinum voru einnig fulltrúar ríkis og sveitarfélaga sem og ýmissa samtaka og stofnana.
26.10.2010 Forseti á fund með Ólafi Flóvenz forstjóra ISOR um þróun jarðhitatækni, verkefni í jarðhitanýtingu á Íslandi og víða um heim sem og samstarf íslenskra aðila í þessari grein.
26.10.2010 Forseti á fund með biskupi Færeyja Jógvan Friðrikssyni og fylgdarliði hans, Karli Sigurbjörnssyni biskupi og starfsmönnum Biskupsstofu og fulltrúum og prestum safnaðarins á Álftanesi. Færeyjabiskup er í heimsókn á Íslandi til að kynna sér starf kirkju og safnaða. Á fundinum var fjallað um samstarf og vináttu Íslendinga og Færeyinga, og sameiginlegan arf sagna og trúar.
26.10.2010 Forseti á fund með sendiherra Finnlands sem senn lætur af störfum. Rætt var um traust samband landanna, reynslu af efnahagskreppum í Finnlandi og á Íslandi sem og vaxandi mikilvægi samstarfs á Norðurslóðum.
26.10.2010 Forseti á fund með fulltrúum Samtaka iðnaðarins um Ár nýsköpunar sem ýtt verður úr vör síðar í þessari viku. Fjölþætt dagskrá næstu tólf mánuði miðar að því að kynna margvíslega nýsköpun í íslensku atvinnulífi, efla sóknarhug landsmanna og varpa ljósi á ný tækifæri. 
27.10.2010 Forseti ræðir við hóp nemenda í stjórnmálafræði frá Menntaskóla Borgarfjarðar. Rætt var um þróun íslenskrar stjórnskipunar, stjórnarskrána og stöðu forsetans, ríki og kirkju, mannréttindi, þjóðaratkvæði og aðra þætti stjórnarskrárinnar.
28.10.2010 Forseti er í viðtali í síðdegisþætti Bylgjunnar um ástandið í íslensku samfélagi, vaxandi fátækt, biðraðir eftir matargjöfum og breytingar sem orðið hafa á síðari árum, með tilliti til lýsingar í nýársávarpi forseta 2003. Einnig var rætt um stjórnarskrá og stjórnlagaþing.
28.10.2010 Forseti á fund með Birgittu Jónsdóttur alþingismanni um möguleika Íslands til að verða miðstöð fyrir upplýsingamiðlun og upplýsingageymslu sem nyti lagalegrar verndar og byggðist á afgerandi tjáningarfrelsi. Hópur þingmanna undir forystu hennar flutti þingsályktunartillögu sem samþykkt var síðasta vor um þetta efni og unnið er að framgangi hennar. Mikil alþjóðleg athygli er á þessu verkefni og hefur forseti verið spurður um það af fjölmörgum fréttamönnum og öðrum á ferðum sínum víða um heim.
28.10.2010 Forseti tekur á móti nemendum í sögu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ræðir við þá um sögu Bessastaða og forsetaembættið.
29.10.2010 Forseti á fund með Michel Rocard, sérlegum sendimanni forseta Frakklands í málefnum heimskautanna og fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands. Rætt var um vaxandi mikilvægi Norðurslóða, auðlindir og orkunýtingu, opnun nýrra siglingaleiða, sem og vaxandi hraða loftslagsbreytinga. Michel Rocard mun í heimsókn sinni flytja fyrirlestur í boði forseta Íslands og eiga viðræður við íslenska sérfræðinga og vísindamenn. Fréttatilkynning.
29.10.2010 Forseti flytur ávarp þegar Ári nýsköpunar er ýtt úr vör í höfuðstöðvum Marels í Garðabæ. Samtök iðnaðarins skipuleggja fjölþætta dagskrá á næstu tólf mánuðum. Markmið hennar er að kynna fjölþætt áhrif nýsköpunar í íslensku atvinnulífi og þau tækifæri sem hún getur skapað á komandi árum. Heimsóknir í fyrirtæki, margvísleg kynning og aðrir atburðir. Ávarp forseta.
29.10.2010 Forseti á fund með sendinefnd frá Hamfarastofnun Kyoto háskóla og fulltrúum Keilis - Miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Keflavíkurflugvelli. Sendinefndin heimsækir Ísland til að kynna sér niðurstöður alþjóðlegrar ráðstefnu um lærdómana sem draga má af gosinu í Eyjafjallajökli fyrir skipulag flugsamgangna. Keilir efndi til ráðstefnunnar og sóttu hana fjölmargir áhrifamenn og sérfræðingar víða að úr veröldinni. Hamfarastofnun Kyoto háskóla fjallar um afleiðingar náttúruhamfara af margvíslegum toga og munu fulltrúar hennar ræða við sérfræðinga hjá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Veðurstofu Íslands og Almannavörnum.
30.10.2010 Forseti opnar sýningu Ragnars Axelssonar, RAX, ljósmyndara á myndum sem hann hefur tekið síðastliðinn aldarfjórðung af frumbyggjum á Norðurslóðum. Myndirnar lýsa menningu sem þróast hefur í árþúsundir en er nú í hættu vegna loftslagsbreytinga. Einnig eru á sýningunni myndir af ísmyndunum sem minna á hina hröðu bráðnun. Ljósmyndirnar koma einnig út í bók sem gefin hefur verið út í Bretlandi og Þýskalandi. Sýningin ber heitið Veiðimenn norðursins - Andlit aldana og er í Gerðarsafni í Kópavogi. Ávarp forseta.

Nóvember

01.11.2010 Forseti flytur lokaávarp á ráðstefnunni Iceland Geothermal en hún fjallaði um tækifæri Íslendinga í jarðhitanýtingu bæði hér á landi og víða um heim. Aðalræðumaður ráðstefnunnar var hagfræðingurinn Michael Porter, prófessor við Harvard Business School, sem þekktur er fyrir rannsóknir sínar á samkeppnishæfni þjóða og kenningar um myndun fyrirtækjaklasa þar sem sérstakar aðstæður og þekking nýtast í innbyrðis samvinnu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem geta komið fram sem heild í samkeppni útávið. Porter telur að Íslendingar hafi mikið fram að færa á sviði jarðhitavinnslu og geti aukið tækifæri sín á því sviði með myndun jarðhitaklasa. Auk þess töluðu á ráðstefnunni erlendir sérfræðingar í klasamyndunum og forystumenn í orkuvinnslu og fjármálaþjónustu. Ávarp forseta.
01.11.2010 Forseti kynnir Michel Rocard, sérlegan sendimann forseta Frakklands um málefni heimskautanna og fyrrverandi forsætisráðherra, á samkomu í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Þar hélt Rocard fyrirlestur um stjórnun Norðurheimskautssvæðisins í boði skólans og forseta Íslands, og var fyrirlesturinn hluti af fyrirlestraröð forseta undir heitinu Nýir straumar.
02.11.2010 Forseti á fund með Michel Rocard, sérstökum sendimanni Frakklandsforseta í málefnum heimskautanna, um niðurstöður heimsóknar hans til Íslands og helstu atriði sem fram hafa komið í viðræðum hans við ráðamenn, vísindamenn og sérfræðinga. Rætt var um áframhaldandi samstarf og sameiginleg áhugaefni í málefnum Norðurslóða.
02.11.2010 Forseti á fund með Steinþóri Jónssyni formanni FÍB um stefnuna "Ísland án banaslysa í umferðinni 2015". Á vegum FÍB hefur verið unnið mikið starf í þessum tilgangi, vegir mældir og greindir. Reynslan af Reykjanesbrautinni sýnir að hægt er að útrýma banaslysum en þar hefur ekkert slys orðið síðastliðin sex ár. "Núllsýn FÍB" er eins konar kjörorð þessa öfluga starfs.
02.11.2010 Forseti á fund með prófessor Michael Porter frá Harvardháskóla sem í gær flutti aðalerindið á ráðstefnunni Iceland Geothermal 2010. Rætt var um hvernig efla mætti samstarf hinna fjölmörgu íslensku fyrirtækja, stofnana, skóla og samtaka sem starfa á þessu sviði, svo að nýta megi hin fjölmörgu tækifæri sem blasa við á komandi árum. Ísland, sem nýtur þess orðspors að vera forystuland á þessu sviði, verður í sívaxandi mæli eftirsóttur samstarfsaðili fjölmargra ríkja í ólíkum álfum heims.
02.11.2010 Forseti ræðir við fulltrúa samtaka sem undirbúa alþjóðaþing á Íslandi. Heiti þess er Spirit of Humanity Forum og verður þar fjallað um bætta sambúð þjóða heims og grunngildi í alþjóðlegu samstarfi. Boðið verður leiðtogum víða að úr veröldinni.
02.11.2010 Forseti heldur á Bessastöðum hádegisverð til heiðurs Norðurlandaráði. Meðal gesta voru forsætisráðherrar Norðurlanda og oddvitar landstjórna, samstarfsráðherrar Norðurlanda og norrænir þingmenn sem sæti eiga í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og gegna formennsku í nefndum þess. Ávarp forseta: Á íslensku, á norsku. Mynd
02.11.2010 Forseti er viðstaddur kynningu á Forvarnardeginum í Foldaskóla og flutti þar ávarp. Á kynningunni fluttu einnig stutt ávörp Jón Gnarr borgarstjóri, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir forstjóri Actavis á Íslandi, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ og Bragi Björnsson skátahöfðingi. Forvarnardagurinn verður haldinn í grunnskólum landsins á morgun. Sýnt verður myndband í hverjum skóla og nemendur ræða áherslur í forvarnarstarfi. Sjá vefsíðu dagsins: forvarnardagur.is.
03.11.2010 Forvarnardagurinn er haldinn í grunnskólum landsins. Forseti og forsetafrú heimsækja í dag Grunnskólann í Borgarnesi klukkan 10:15 og Klébergsskóla á Kjalarnesi klukkan 11:45. Vefur Forvarnardagsins. Fréttatilkynning. Myndir frá heimsókn í skólana.
04.11.2010 Forseti tekur á móti starfsfólki forsætisráðuneytisins og kynnir þeim sögu Bessastaða og staðhætti.
04.11.2010 Forseti tekur á móti sendinefnd frá Læknaskólanum og Háskólasjúkrahúsinu í Pennsylvaniu í Bandaríkjunum sem heimsækir Landspítalann og heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Átta prófessorar í læknisfræði eru í sendinefndinni en öflugt vísindasamstarf hefur verið milli Landspítalans og læknadeildar HÍ og Pennsylvaníuháskóla. Rætt hefur verið um frekari samstarfsverkefni og nýjar leiðir í klínískum rannsóknum á Íslandi.
04.11.2010 Forseti afhendir Íslensku markaðsverðlaunin á samkomu ÍMARKS. Markaðsmenn ársins 2010 voru tvíeykið Simmi og Jói, Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson. Markaðsfyrirtæki ársins 2010 var Borgarleikhúsið en auk þess voru tilnefnd Icelandair og ÁTVR-Vínbúðir.
05.11.2010 Forseti er í dag, föstudaginn 5. nóvember, viðstaddur útför Jonathans Motzfeldt, fyrrum formanns landstjórnar Grænlands. Útförin fer fram í Nuuk og verður á vegum grænlensku landstjórnarinnar. Fréttatilkynning.
09.11.2010 Forseti á fund með hópi íslenskra og erlendra athafnamanna sem hyggja á samstarf um jarðhitanýtingu víða um heim, einkum í þróunarlöndum. Slík nýting hreinnar orku getur orðið framlag til efnahagsþróunar í þeim ríkjum og stuðlað að árangri í baráttu við loftslagsbreytingar. Reynsla Íslendinga af víðtækri nýtingu jarðhita hentar vel aðstæðum í þróunarríkjum, svo sem í Afríku, Asíu og Mið-Ameríku.
09.11.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Japans hr. Akiko Shirota sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um gamalgróin viðskiptatengsl landanna, bæði á sviði sjávarútvegs og tækni, en japönsk fyrirtæki hafa framleitt vélbúnað í íslenskar virkjanir og öflugur innflutningur hefur verið á japönskum bílum til Íslands. Áhugi er á að efla samvinnu landanna á sviði jarðhita, m.a. með sameiginlegri aðkomu að verkefnum í öðrum löndum. Þá var og fjallað um væntanlega heimsókn utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar til Japans og jarðhitaráðstefnu sem haldin verður í tengslum við heimsóknina. Mynd.
09.11.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Írlands hr. Brendan Scannell  sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um sameiginlega sögu landanna, menningararfleifð og aukið mikilvægi Norðurslóða, sem og reynslu landanna tveggja í kjölfar fjármálakreppunnar. Mynd.
09.11.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Írans hr. Seyed Hossein Rezvani sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastööðum. Rætt var um áhuga á samstarfi á sviði jarðhita og sjávarútvegs, aðgang ungs menntafólks að Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktir eru á Íslandi. Þá var einnig rætt um þróun mála í Miðausturlöndum, og samskipti Írans við nágrannalönd. Mynd.
09.11.2010 Forseti á fund mem nýjum sendiherra Ómans frú Zainab Ali Said Al-Qasmiah sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um jarðhitaauðlindir í Óman og möguleika á að nýta íslenska tæknikunnáttu á því sviði sem og reynsluna af alhliða jarðhitanýtingu á Íslandi. Íslensk sérfræðifyrirtæki hafa á undanförnum misserum komið að nýtingu jarðhita í þessum heimshluta. Mynd.
09.11.2010 Forseti tekur við nýútkominni sögu Félags íslenskra atvinnuflugmanna í sextíu ár og Flugmannatali sem fulltúar FÍA afhentu forseta á Bessastöðum.
10.11.2010 Forseti er viðstaddur minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar sem fluttur var í lok ráðstefnu um Norðurslóðir. Fyrirlesturinn flutti Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor og  bar hann heitið Vísindamaðurinn í náttúrunni og náttúra vísindarannsókna; um hlutverk og samfélagslegar skyldur vísindamanna. Áður en fyrirlesturinn var fluttur minntist Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, Evelyn Stefánsson-Nef, sem lést í desember á síðastliðnu ári. Hún var eiginkona Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar og öflugur stuðningsmaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
10.11.2010 Forseti er viðstaddur pallborðsumræður sem fram fara á ráðstefnu sem tileinkuð var Norðurslóðadeginum. Á henni var fjallað um breytingar á Norðurslóðum, vöktun umhverfis og samfélags, og var í pallborðsumræðunum einkum fjallað um stöðu rannsókna og alþjóðlegrar samvinnu á Norðurslóðum.
11.11.2010 Forseti sækir styrktartónleika sem Lionsklúbburinn Fjörgyn efnir til í Grafarvogskirkju til styrktar barna- og unglingageðdeildinni, BUGL, en þar er tekið á móti börnum upp að átján ára aldrei sem eiga við geðræna erfiðleika að stríða.
11.11.2010 Forseti flytur ávarp við vígslu nýbyggingar Háskólans í Reykjavík. Ávarp forseta.
11.11.2010 Forseti á fund með nýjum formanni orðunefndar, Helgu Jónsdóttur lögfræðingi og fyrrum bæjarstjóra, um málefni fálkaorðunnar og störf nefndarinnar.
12.11.2010 Forseti sækir fyrirlestur sem Kunda Dixit, ritstjóri og útgefandi Nepali Times, flutti við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn fjallaði um vanda fréttamanna á tímum þjóðfélagslegra átaka og stríðs og lýsti Dixit ítarlega hvernig borgarastríðið í Nepal hefði leikið samfélagið og erfiðleikunum við að koma á á ný eðlilegum þjóðfélagsháttum. Kunda Dixit hefur einnig fjallað ítarlega um loftslagsbreytingar á Himalajasvæðinu sem meðal annars birtast í bráðnun jökla og kreppu í vatnsbúskap. Hann flutti annan fyrirlestur um það efni við Háskóla Íslands.
12.11.2010 Forseti heimsækir Ekron, þar sem fram fer starfsþjálfun og endurhæfing fyrir fólk með skerta vinnufærni, einkum skjólstæðinga sem hafa neytt fíkniefna eða átt í öðrum erfiðleikum. Markmiðið er að auðvelda þeim að eiga afturkvæmt í samfélagið og útskrifast í vinnu eða skóla. Starfsemin skiptist í ýmis svið, svo sem áfengis- og vímuefnasvið, heilsusvið, atvinnusvið og skólasvið.
12.11.2010 Forseti á fund með Ellert B. Schram, fyrrum forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, um fálkaorðuna og störf orðunefndar, en hann hefur nú tekið sæti í orðunefnd.
15.11.2010 Forseti tekur á móti hópi ungra sjálfboðaliða frá ýmsum löndum sem starfað hafa á Íslandi á vegum SEEDS verkefnisins. Þessi sjálfboðaliðar hafa komið að margvíslegum verkefnum í umhverfisvernd í fjölmörgum byggðarlögum á Íslandi. Á morgun verður haldin ráðstefna um árangurinn af þessu fjölþætta starfi.
15.11.2010 Forseti tekur á móti Óttari Sveinssyni og flugstjóranum Eric Moody en þeir afhentu forseta fyrsta eintakið af bókinni Útkalli - Pabbi. Hreyflarnir loga, en í henni er fjallað bæði um afleiðingar gossins í Eyjafjallajökli og viðbrögð bænda og annarra íbúa á Suðurlandi við því, sem og hið fræga flug Erics Moody þegar hann stýrði farþegaþotu í gegnum öskuský yfir eynni Jövu.
15.11.2010 Forseti á fund með Berglind Johansen og Pétri A. Haraldssyni um árangur ráðstefnunnar Driving Sustainability sem haldin hefur verið árlega undanfarin ár. Markmið hennar er að efla alþjóðlegar samræður um umhverfisvænt skipulag borga og umferðar með þátttöku sérfræðinga og forystumanna í borgum og viðskiptalífi.
16.11.2010 Forseti sækir útgáfutónleika í Kristskirkju þar sem Kammerkór Suðurlands ásamt einsöngvurum og kammersveit flytur verkið Iepo Oneipo - Heilagur draumur eftir breska tónskáldið Sir John Tavener. Tónskáldið er viðstatt flutninginn. Stjórnandi er Hilmar Örn Agnarsson.
16.11.2010 Forseti á fund með Helga Björnssyni prófessor, Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor, Þorsteini Þorsteinssyni jöklafræðingi og Dagfinni Sveinbjörnssyni þróunarhagfræðingi um umræður og niðurstöður samráðsfundar vísindamanna og sérfræðinga frá ýmsum löndum sem nýlega var haldinn í Katmandu í Nepal. Á fundinum var fjallað um rannsóknir á jöklum, náttúru og vatnabúskap á Himalajasvæðinu og meðal þátttakenda voru sérfræðingar frá Kína, Indlandi, Nepal, Bútan og fleiri löndum, auk vísindamanna frá Evrópu og Bandaríkjunum. Þá var einnig fjallað um ferð Helga, Þóru og Dagfinns til Bútans en þar er mikill áhugi á samvinnu við íslenskt fræðasamfélag, einkum með tilliti til vöktunar jökullóna sem myndast í kjölfar bráðnunar jökla.
17.11.2010 Forseti á fund með Lassi Heininen, stjórnarformanni Rannsóknarþings norðursins (NRF), Stefáni B. Sigurðssyni rektor Háskólans á Akureyri, Þorsteini Gunnarssyni fyrrverandi rektor og starfsmönnum háskólans um væntanlegt Rannsóknarþing norðursins sem haldið verður í Noregi í september á næsta ári. Yfirskrift þess verður Our Ice-Dependent World og munu þar koma saman sérfræðingar, vísindamenn, stjórnmálamenn, embættismenn, fulltrúar almannasamtaka og námsmenn frá aðildarríkjum Norðurskautsráðsins sem og sérfræðingar frá löndunum sem liggja á Himalajasvæðinu. Skrifstofa Rannsóknarþings norðursins er hjá Háskólanum á Akureyri.
17.11.2010 Forseti á fund með dr. Barry Goodison, jöklafræðingi sem starfar við Alþjóða veðurmálastofnunina WMO, og bandaríska sérfræðinginn dr. Jeff Key frá Wisconsinháskóla í Madison um alþjóðlegt samstarf við vöktun jökla og íss um alla veröld, Global Cryosphere Watch, en slíkt vöktunarkerfi yrði lykilatriði til að meta hraða loftslagsbreytinga og áhrif á veðurfar. Einnig var rætt um nýja skýrslu á vegum Norðurskautsráðsins um loftslagsbreytingar á norðursvæðum en sú skýrsla yrði framhald tímamótaskýrslu sem Norðurskautsráðið gaf út fyrir nokkrum árum. Á fundinum voru einnig Árni Snorrason veðurstofustjóri og Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur.
18.11.2010 Forseti ræðir við fréttamenn frá netmiðlinum NetGreen News sem sérhæfir sig í umfjöllun um umhverfismál og hreina orku. Rætt var um árangur Íslendinga í nýtingu jarðhita og samvinnu við önnur lönd vítt og breitt um veröldina, fjölgun ferðamanna og hvernig það getur ógnað einstökum náttúruperlum landsins, kosti þess að Ísland sé áfram opið og menn geti notið hinnar einstöku náttúru á frjálsan og ábyrgan hátt.
23.11.2010 Forseti er heiðursgestur við vígslu Masdar tækniháskólans í Abu Dhabi. Byggingin, sem teiknuð er af hinum heimsþekkta arkitekt Norman Foster, er talin sjálfbærasta bygging veraldar þar sem mengun og úrgangur eru komin niður að núll-markinu. Fréttatilkynning. Myndir.
24.11.2010 Forseti ræðir við blaðamenn í Abu Dhabi um framlag Masdar byggingarinnar til nýrrar sýnar á sjálfbærni, hvernig ný tækni geri okkur kleift að draga markvisst úr mengun.  Framtíðarsýn Masdar sé mikilvægt framlag til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum, einkum vegna þess að bygging tæknihákólans sýni í verki hvað hægt sé að gera.
24.11.2010 Forseti flutti fyrirlestur á fundi með starfsfólki nýrrar alþjóðastofnunar um hreina orku, IRENA. Stofnunin hefur nýlega tekið til starfa og hafa fjölmörg ríki staðfest aðild sína að henni. Höfuðstöðvar hennar eru í Abu Dhabi. Myndir. Fréttatilkynning. Vefsíða IRENA.
25.11.2010 Forseti ræðir við BBC World Service, sjónvarp og útvarp, um endurreisn íslensks efnahagslífs, lærdóma sem draga má af fjármálakreppunni, reynslu Íslands samanborið við önnur lönd og hvernig auðlindir landsins, menntun og þekking, geta orðið burðarásar í viðspyrnu og endurreisn. Einnig var rætt um áhrif fjármálakreppu á lýðræði og stjórnarfar og þá grundvallarspurningu hvort almenningur í hinum ýmsu löndum eigi að bera byrðar af tapi banka.
26.11.2010 Forseti á fund með Richard Taylor, framkvæmdastjóra REN Alliance, en það er bandalag alþjóðlegra heildarsamtaka á hinum ólíku sviðum hreinnar orku. Rætt var um samstarf REN Alliance við IRENA, hina nýju alþjóðastofnun hreinnar orku, en forseti hafði fyrr á þessu ári frumkvæði að viðræðum milli REN Alliance og IRENA sem fram fóru á World Future Energy Summit í Abu Dhabi. Rætt var um samstarf þessara aðila sem og hina ýmsu alþjóðlegu fundi sem fyrirhugaðir eru á næsta ári á sviði hreinnar orku, m.a. alþjóðaþing um vatnsorku sem haldið verður í Brasilíu en síðast var það haldið á Íslandi; einnig samráðsfund um nýtingu hreinnar orku í Afríku þar sem mikill áhugi er á að nýta sér reynslu Íslendinga á sviði jarðvarma og vatnsorku.
26.11.2010 Forseti hefur í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun um viðtal á alþjóðlegu sjónvarpsstöðinni Bloomberg í morgun sent fjölmiðlum yfirlýsingu. Fréttatilkynning.
26.11.2010 Forseti ræðir við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina Bloomberg um endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar fjármálakreppunnar og þá lærdóma sem draga má af henni, einkum í ljósi þeirra vandamála sem ýmis lönd í Evrópu glíma við um þessar mundir. Þá var einnig rætt um stöðuna í Icesave deilunni og þjóðaratkvæðagreiðsluna á sínum tíma sem og þróun viðræðna við Evrópusambandið.
26.11.2010 Forseti ræðir við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina CNBC um endurreisn íslensks efnahagslífs, lærdómana sem draga má af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu og kostina sem fólgnir eru í auðlindum Íslands.
29.11.2010 Forseti á fund með sendiherra Rússlands á Íslandi, Andrey Tsyganov, sem færir forseta bréf frá Dmitry Medvedev forseta Rússlands. Í því ítrekar forseti Rússlands áhuga á aukinni samvinnu landanna, bæði með tilliti til nýsköpunar í orkumálum, nútímavæðingar, fjárfestingarverkefna og málefna Norðurslóða
30.11.2010 Forseti ræðir við hóp sænskra stjórnmálafræðinema frá Uppsala Association of International Affairs en þeir heimsækja Ísland til að kynna sér stjórnkerfi landsins og viðhorf til ýmissa alþjóðamála. Forseti ræddi sögulega þróun íslenska stjórnkerfisins, sjálfstæðisbaráttuna, grundvallareinkenni íslenskrar stjórnskipunar, stöðu forsetaembættisins, samspil menningar og stjórnmála, sem og viðhorf þjóðarinnar til ýmissa mála sem efst eru á baugi.
30.11.2010 Forseti ræðir við Elís Paulsen um jólahald, bæði á æskuárum fyrir vestan og á Bessastöðum, jólasiði Íslendinga og þær venjur sem fastar eru í sessi, matarvenjur og fjölskylduvenjur. Einnig var fjallað um komur færeyskra sjómanna til Dýrafjarðar þegar forseti ólst þar upp. Þátturinn verður liður í jóladagskrá færeyska sjónvarpsins. Í lok viðtalsins flutti forseti Færeyingum jólakveðjur og þakkir fyrir góðan stuðning við Íslendinga.

Desember

01.12.2010 Móttaka á Bessastöðum til heiðurs Alþingi á fullveldisdaginn.
01.12.2010 Forseti er viðstaddur athöfn í hátíðasal Háskóla Íslands þegar Álfrún Gunnlaugsdóttir, Matthías Johannessen og Thor Vilhjálmsson eru gerð að heiðursdoktorum.
01.12.2010 Forseti ræðir við Hallgrím Thorsteinsson þáttarstjórnanda á Rás 2 Ríkisútvarpinu um fullveldið, þróun stjórnskipunar, beint lýðræði og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Viðtalið á vef Ríkisútvarpsins.
01.12.2010 Forseti tekur á móti fulltrúum stúdenta og forystumönnum háskólanna í landinu í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember.
01.12.2010 Forseti tekur þátt í hátíðahöldum stúdenta við Háskóla Íslands í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember. Samkoman var á Háskólatorgi og flutti forseti ávarp. Ávarp forseta.
01.12.2010 Forseti tekur við skrifpúlti Sveinbjarnar Egilssonar, sem afkomendur og ættingjar Ragnars Ásgeirssonar afhenda að viðstöddum fulltrúum Grikklandsvinafélagsins. Sveinbjörn var kennari í Bessastaðaskóla á fyrstu áratugum 19. aldar og einn helsti áhrifamaður um endurreisn íslenskrar tungu. Hann var mjög afkastamikill þýðandi og íslenskaði meðal annars kviður Hómers. Skrifpúltið eignuðust síðar Benedikt Gröndal sonur Sveinbjarnar og svo Einar Benediktsson skáld. Fréttatilkynning. Myndir.
02.12.2010 Forseti sækir samkomu í Odda, Háskóla Íslands, í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því kennsla í félagsvísindum hófst við skólann, en þá tók til starfa Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum. Flutt voru stutt erindi um aðdraganda kennslunnar og upphaf og í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður. Kennarar og fyrrum nemendur voru viðstaddir athöfnina. Forseti var meðal fyrstu kennara í þessum fræðum við skólann og fyrsti prófessorinn í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
02.12.2010 Forseti ræðir við alþjóðlega sérfræðinga í skuldaskilum og uppgjörum á alþjóðlegum fjármálamarkaði.
03.12.2010 Forseti afhendir Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands á hátíðarsamkomu í Salnum í Kópavogi. Verðlaunin eru veitt einstaklingum, stofnunum, samtökum og öðrum aðilum sem aukið hafa skilning á stöðu öryrkja og bætt aðbúnað þeirra á ýmsan hátt. Forseti flutti ávarp þar sem hann fjallaði um framlag Öryrkjabandalagsins til að breikka lífssýn Íslendinga, efla velferðarsamfélagið og leggja grunn að þeim áföngum sem náðst hafa í margvíslegri réttindabaráttu.
05.12.2010 Forseti afhendir verðlaun í ratleik Forvarnardagsins 2010 á Bessastöðum. Verðlaunahafarnir komu frá Árskóla á Sauðárkróki, Flúðaskóla á Flúðum og Vallaskóla á Selfossi. Fréttatilkynning. Nöfn verðlaunahafa: Guðný Sif Gunnarsdóttir (Árskóla), Halldóra Íris Magnúsdóttir (Vallaskóla) og Sandra Dögg Eggertsdóttir (Flúðaskóla).
07.12.2010 Forseti sækir jólatónleika Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu en ágóðinn af sex tónleikum sem Hvítasunnukirkjan heldur rennur til jólahjálparinnar sem ýmis hjálparsamtök standa að.
07.12.2010 Forseti á fund með fulltrúum úr miðstjórn Ungra jafnaðarmanna. Rætt var um endurreisn efnahagslífsins, alþjóðamál, málefni Norðurslóða, gjaldeyrisskipan, Evrópusambandið og stöðu Íslands í veröldinni.
07.12.2010 Forseti á fund með forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands Ólafi Rafnssyni og framkvæmdastjóra ÍSÍ Líney Rut Halldórsdóttur um Smáþjóðaleikana sem haldnir verða á næsta ári, hátíðarsamkomu Íþróttamanns ársins og nýja möguleika í vetraríþróttum með tilkomu Héðinsfjarðarganga sem tengja saman skíðasvæði á Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði.
08.12.2010 Forseti afhendir starfsmenntaverðlaun við hátíðlega athöfn í BSRB húsinu. Verðlaunin sem eru á vegum Starfsmenntaráðs eru veitt þeim aðilum sem vinna að framúrskarandi verkefnum í fræðslumálum og starfsmenntum og stuðla þannig að nýsköpun og framfaraþróun á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: fyrirtæki, skóli og fræðsluaðilar, félagssamtök og einstaklingar.  Vefsíða Starfsmenntaráðs.
08.12.2010 Forseti sækir jólahátíð fatlaðra sem haldin er á Hilton Nordica. Hátíðin er ætluð fötluðum og fjölskyldum þeirra og taka fjölmargir listamenn þátt í henni. Frumkvöðull hátíðarinnar er André Bachmann.
08.12.2010 Forseti flytur ávarp í upphafi útsendingar Lífæðarinnar en það er vestfirskt menningarútvarp í Bolungarvík. Útvarpsstöðin hefur sendingar 8. desember og standa þær til 8. janúar og er þetta í fimmta sinn sem stöðin starfar. Henni er ætlað að vera vettvangur fyrir umfjöllun um mannlíf, menningu, atvinnulíf og önnur áhugamál Vestfirðinga. Í ávarpi sínu fjallaði forseti um breytingarnar sem orðið hafa á Vestfjörðum frá því hann ólst þar upp ungur, tækifæri Vestfirðinga meðal annars vegna aukins ferðamannastraums og nýrra samgöngumannvirkja sem og hvernig mannlífið og náttúran fyrir vestan hafa fylgt honum og öðrum alla ævi. Ávarp forseta.
09.12.2010 Forseti á fund með borgarfulltrúunum Júlíusi Vífli Ingvarssyni og Óttari Proppé um skipulag og starfsgrundvöll sérstakrar stofnunar sem nýtti sér stöðu Reykjavíkur sem borgar friðar vegna mikilvægis leiðtogafundar Reagans og Gorbachevs. Einnig skapaði árangurinn í nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita, tækifæri til að leggja áherslu á sjálfbæra þróun.
09.12.2010 Forseti á fund með nýjum sendiherra Pakistans á Íslandi, hr. Faiz Muhammad Khoso, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um afleiðingar flóðanna í Pakistan, stöðugleika í stjórnarfari, sambúðina við nágrannaríki, bæði Indland og Afganistan, og baráttu gegn hryðjuverkaöflum. Mynd.
09.12.2010 Kveikt er á jólatrjám við Bessastaðastofu með þátttöku krakka úr leikskólunum Krakkakot og Holtakot og úr fyrstu bekkjum Álftanesskóla.
10.12.2010 Forseti flytur ávarp á samkomu í Víkinni, Sjóminjasafninu í Reykjavík, þar sem fagnað er útkomu nýrrar bókar um varðskipið Óðin, björgun og baráttu í 50 ár. Jafnframt var gefin út heimildarkvikmynd um sögu Óðins. Í bókinni er fjöldi greina og viðtala við skipverja á Óðni og aðra sem tengdir eru þessari merku sögu. Ávarp forseta.
13.12.2010 Forseti á fund með norrænum þjóðskjalavörðum sem þinga í Reykjavík. Rætt var um ný viðhorf í varðveislu skjala og sögulegra heimilda, einkum með tilliti til byltingar í upplýsingatækni og þeirra áherslna sem nú eru lagðar á gegnsæi og aðgang að heimildum stofnana og stjórnkerfis.
14.12.2010 Forseti ræðir við BBC World Service um atburði liðins árs, þróun efnahagslífs á Íslandi, gosið í Eyjafjallajökli og stöðu landsins í veröldinni. Viðtalið verður hluti af áramótaþáttum BBC World Service síðar í þessum mánuði.
15.12.2010 Forseti á fund með Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands og fulltrúum afmælisnefndar háskólans um dagskrá á árinu 2011 í tilefni af aldarafmæli háskólans.
15.12.2010 Forseti á fund með Tom Albanese, forstjóra Rio Tinto, og Rannveigu Rist, forstjóra ÍSAL, um þróun áliðnaðarins, reynsluna af starfsemi á Íslandi og víða um heim, sérstaklega mikil umsvif Rio Tinto í Kína. Einnig var fjallað um vaxandi mikilvægi hreinnar orku, nauðsyn á að draga úr kolefnisnotkun vegna yfirvofandi hættu á loftslagsbreytingum, sem og þróun samvinnu á Norðurslóðum og hugsanlegar siglingar sem munu tengja Asíu við Evrópu og Ameríku á nýjan hátt. Tom Albanese hafði fyrr um daginn veitt ÍSAL sérstök verðlaun Rio Tinto fyrir árangur í öryggismálum starfsfólks.
16.12.2010 Forseti á fund með fulltrúum Samherja um alþjóðaþróun í sjávarútvegi, umsvif íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi, einkum undan ströndum Afríku og í öðrum heimshlutum. Starfsemi Samherja var upphaflega bundin við Íslandsmið og fiskveiðar á Norðurslóðum en fyrirtækið hefur nú haslað sér völl víða um heim.
16.12.2010 Forseti á fund með fulltrúum KPMG á Íslandi sem afhenda nýja skýrslu um jarðhitanýtingu á heimsvísu, markað fyrir jarðhita og líklega þróun nýtingarinnar á komandi árum. Í skýrslunni er fjallað um þau landsvæði í veröldinni þar sem jarðhiti hefur helst verið á dagskrá og möguleg verkefni á komandi árum. Skýrslan ber heitið World Geothermal Market and Outlook.
17.12.2010 Forseti ræðir við Ragnhildi Guðmundsdóttur, formann Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, um hjáparstarf í aðdraganda jóla, hina ýmsu hópa  sem leita aðstoðar, fá matargjafir og aðrar nauðsynjar. Einnig var rætt um breytta samsetningu hópanna og samstarf hinna ýmsu hjálparsamtaka.
20.12.2010 Forseti situr fund í dómnefnd Zayed orkuverðlaunanna en þau eru veigamestu orkuverðlaun sem veitt eru í veröldinni og verða afhent á heimsþingi um orkumál sem haldið verður í Abu Dhabi í janúar. Mörg hundruð einstaklingar, stofnanir, fyrirtæki og samtök hafa verið tilnefnd til verðlaunanna, bæði frá Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu, Mið-Austurlöndum og víðar að. Verðlaunin eru þrískipt og eru kennd við fyrrum þjóðarleiðtoga Abu Dhabi, Sheikh Zayed bin Sultan al Nahyan, sem lagði grundvöllinn að þeirri stefnu um sjálfbæra þróun sem verið hefur leiðarljós þjóðarinnar.
27.12.2010 Forseti er viðstaddur athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands þegar afhjúpuð er brjóstmynd af Gylfa Þ. Gíslasyni, fyrrum prófessor og ráðherra. Flutt voru erindi um störf Gylfa og tónlist eftir hann. Brjóstmyndina gerði Erlingur Jónsson myndhöggvari.
27.12.2010 Forseti er viðstaddur verðlaunaafhendingu úr minningarsjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright. Verðlaunin hlaut Inga Þórsdóttir prófessor fyrir rannsóknir sínar, vísindastörf og margvíslegt framlag á sviði næringarfræði. Athöfnin fór fram í Þjóðminjasafninu að viðstöddum ýmsum fyrri verðlaunahöfum.
30.12.2010 Forseti tekur við viðurkenningarskjali sem Íslendingur ársins 2010 en Steingrímur Sævar Ólafsson ritstjóri Pressunnar afhenti forseta skjalið á Bessastöðum. Það voru lesendur Pressunnar sem tóku þátt í kosningunni.
31.12.2010 Forseti stýrir fundi ríkisráðs þar sem staðfest eru ýmis lög og stjórnarathafnir, einnig skipunarbréf ráðherra sem stýra munu nýjum ráðuneytum frá 1. janúar 2011: innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti.