Veftré Print page English

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta


Hér birtist skrá yfir ýmsa atburði í dagskrá forseta en auk þeirra sem hér eru nefndir er fjöldi annarra þátta sem ekki eru tilgreindir,  t.d. fundir með ráðherrum og embættismönnum, fulltrúum fyrirtækja og samtaka og fjölmörgum einstaklingum með margvísleg erindi og erlendum gestum sem til Íslands koma. Þá sækir forsetinn jafnframt fjölda menningarviðburða sem ekki eru raktir hér, s.s. leiksýningar, myndlistasýningar, tónleika og aðra mannfagnaði.

 

Árið 2013

 

Janúar

01.01.2013 Nýársmóttaka forseta á Bessastöðum fyrir ráðherra, hæstaréttardómara, alþingismenn, sendiherra, ræðismenn, forystumenn ríkisstofnana og embættismenn, forystumenn félagasamtaka, stéttarsamtaka og atvinnulífs og aðra gesti.
01.01.2013 Forseti sæmir tíu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fréttatilkynning. Mynd.
01.01.2013 Forseti flytur nýársávarp sem er útvarpað og sjónvarpað frá Bessastöðum. Ávarp forseta. Flutningur. Ensk þýðing.
03.01.2013 Forseti á fund með Árna Mathiesen, yfirmanni sjávarútvegsdeildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), um nýtingu hreinnar orku til þurrkunar á matvælum, m.a. í ljósi reynslu Íslendinga við þurrkun á sjávarafurðum.
03.01.2013 Forseti heldur jólatrésfagnað fyrir börn erlendra starfsmanna sendiráða á Íslandi, börn og barnabörn starfsmanna og fyrrverandi starfsmanna forsetaembættisins og fjölskyldu.
05.01.2013 Forseti situr hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumanna sem haldinn er í Hörpu. Í ávarpi þakkaði forseti matreiðslumönnum fyrir fjölþætt framlag þeirra til að efla matarmenningu þjóðarinnar og styrkja ferðaþjónustu og orðspor Íslands í veröldinni; vakti athygli á grein í Huffington Post þar sem gæði matarins auk náttúrufegurðar og menningar voru sögð ein helsta ástæðan til að heimsækja Ísland.
05.01.2013 Forseti á fund með sendiherra Íslands á Indlandi, Guðmundi Eiríkssyni, um samstarf landanna, einkum á sviði nýtingar jarðhita, jöklarannsókna og upplýsingatækni. Fyrirhuguð er ráðstefna sérfræðinga í jöklum Himalajasvæðisins í framhaldi af ráðstefnu sem haldin var á Íslandi fyrir rúmu ári síðan í boði Háskóla Íslands og forseta.
07.01.2013 Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni, sérfræðingi hjá Kínversku heimskautastofnuninni (PRIC), um leiðangur Snædrekans til Íslands á liðnu ári, rannsóknir stofnunarinnar á Norðurslóðum og Suðurskautslandinu, áformaða ráðstefnu í Kína í sumar og áhrif bráðnunar íss á Norðurslóðum á veðurfar í Kína.
08.01.2013 Forseti á fund með Engilbert Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, um margvísleg verkefni í samstarfi Íslands við þróunarlönd, svo sem við þjálfun á sviði stjórnsýslu, þurrkun matvæla, nýtingu jarðhita og í fleiri slíkum verkefnum.
08.01.2013 Forseti á fund með Daníel Leifson frá Utah sem þátt tók í Snorraverkefninu fyrir nokkrum árum. Rætt var um aukin tengsl og samskipti við fólk af íslenskum ættum í Utah og öðrum svæðum í Bandaríkjunum og Kanada, samstarf háskóla og nemendaskipti, tengsl listafólks og möguleika sem kvikmyndagerð skapar, bæði nýjar íslenskar kvikmyndir og fjöldi bandarískra kvikmynda sem teknar hafa verið á Íslandi.
09.01.2013 Forseti á fund með Heiðari Má Guðjónssyni um þróun Norðurslóða, framkvæmdir á Grænlandi, tækifæri Íslands á þessu sviði og hugmyndir um samvinnu við Kanada í gjaldmiðilsmálum.
13.01.2013 Forseti tekur þátt í pallborðsumræðum á vegum Financial Times og IRENA, Alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orku, í tengslum við ársþing stofnunarinnar í Abu Dhabi. Umræðuefnið er þróun endurnýjanlegrar orku á veraldarvísu; framkvæmdir á grundvelli nýrrar tækni í héruðum, borgum og löndum. Umræðuna má nálgast á vefsíðu Financial Times. Að þeim loknum sat forseti hátíðarkvöldverð í boði Adnan Amin, framkvæmdastjóra IRENA, og voru þar fulltrúar fjölmargra þjóðríkja sem sækja ársþingið. Heimasíða IRENA, Facebook síða. Mynd.
14.01.2013 Forseti á fundi í Abu Dhabi um vatnsskort og flutning á vatni milli landa, þurrkun matvæla með jarðhita á grundvelli íslenskrar reynslu, hitaveitur og jarðhitaverkefni í Asíu og áform um heimssýningu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum árið 2020. Fundirnir eru í tengslum við Heimsþing um hreina orku og vatnsbúskap jarðar sem haldin eru í Abu Dhabi.
15.01.2013 Forseti tekur þátt í Heimsþingi um hreina orku og vatnsbúskap veraldar sem haldið er í Abu Dhabi og flytur ræðu á hátíðarsamkomu sem haldin var þegar Zayed orkuverðlaunin (Zayed Future Energy Prize) voru afhent. Ræða forseta. Myndir. Fréttatilkynning.
15.01.2013 Forseti á fund með Christina Figueres framkvæmdastjóra Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNFCCCI, um samspil bráðnunar íss, ofsaveðra og loftslagsbreytinga, mikilvægi þess að efla rannsóknir og vitund um samhengið á milli bráðnunar íss og jökla á Norðurslóðum og hamfara í veðrakerfum veraldarinnar eins og nýlegir atburðir í Bandaríkjunum og Kína eru til vitnis um. Fundurinn fór fram á Heimsþinginu um hreina orku og vatnsbúskap sem haldið er í Abu Dhabi. Forseti lýsti m.a. á fundinum hugmyndum um nýjan samráðsvettvang um þróun Norðurslóða.
16.01.2013 Forseti á fund með Ólafi H. Wallevik prófessor og samstarfsaðilum hans í Abu Dhabi, ReadyMix, um þróun umhverfisvænnar steypu og nýtingu hennar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og síðar á veraldarvísu. Verkefnið er m.a. unnið í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hefur forseti fylgst með þróun verkefnisins á undanförnum árum.
16.01.2013 Forseti flytur ávarp á kynningarfundi sem haldinn var á heimsþingi um hreina orku og vatnsbúskap. Á fundinum var ýtt úr vör ráðgjafahópi um orku og öryggi, Task Force on Energy and Security, sem starfa mun á vegum Alþjóðlegu friðarstofnunarinnar, International Peace Institute. Auk forseta töluðu á fundinum Terje Röd-Larsen forseti Alþjóðlegu friðarstofnunarinnar og fyrrum fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Mið-Austurlöndum, Kandeh K. Yumkella framkvæmdastjóri UNIDO sem senn verður sérstakur sendimaður framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í orkumálum, Maria van der Hoeven framkvæmdastjóri Alþjóðlegu orkustofnunarinnar, IEA, og Dr. Sultan Al Jaber stjórnandi heimsþingsins um hreina orku og vatnsbúskap. Forseta hefur verið boðið að taka þátt í ráðgjafahópnum.
16.01.2013 Forseti afhendir ásamt Dr. Sultan Al Jaber stjórnarformanni Zayed Future Energy Prize skólum, almannasamtökum og nýsköpunarfyrirtækjum viðurkenningarskjöl fyrir að hafa verið tilnefnd til orkuverðlaunanna. Verðlaunahafar voru tilkynntir á hátíðarsamkomu í gærkvöldi. Viðurkenningarskjölin voru afhent á sýningarsvæði orkuverðlaunanna í tengslum við heimsþingið um hreina orku og vatnsbúskap veraldar.
17.01.2013 Forseti stýrir fundi sem haldinn er í höfuðstöðvum Alþjóðastofnunar um hreina orku (IRENA) um þurrkun matvæla á grundvelli reynslu Íslendinga við að þurrka þorskhausa, beinagarða og aðra hluta sjávarfangs sem áður voru ekki nýttir til manneldis. Fundinn sátu fulltrúar frá IRENA, Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO) og frá Masdar stofnuninni í Abu Dhabi sem sérhæfir sig í nýtingu hreinnar orku. Rætt var um hvernig hin íslenska aðferð gæti einnig nýst við þurrkun á kjöti, ávöxtum og grænmeti og með þeim hætti styrkt þróun, atvinnulíf og fæðuöryggi í hinum fátækari löndum heims.
17.01.2013 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum á málþingi ungra leiðtoga á sviði orku- og umhverfismála (Young Future Energy Leaders) sem haldið er í Abu Dhabi í tengslum við heimsþing hreinnar orku. Forseti lýsti reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita, hagnýtingu orkunnar til raforkuframleiðslu, húshitunar, ylræktar og í þágu ferðaþjónustu og aukinna lífsgæða. Málþingið sækir ungt fólk frá löndum í Asíu, Mið-Austurlöndum og Evrópu. Myndir.
18.01.2013 Forseti sendir Vilborgu Örnu Gissurardóttur eftirfarandi heillaóskir: "Vilborg Arna Gissurardóttir, Suðurskautinu. Við Dorrit óskum þér til hamingju með einstakt afrek, árangur einbeitni, kjarks og þjálfunar. Íslendingar samgleðjast þér innilega; erum stolt og glöð. Þú ert ungu fólki frábær fyrirmynd og ferð þín vekur okkur öll vonandi til aukinnar vitundar um mikilvægi heimskautanna fyrir loftslag jarðar og framtíðarheill mannkyns." Fréttatilkynning.
21.01.2013 Forseti sækir DLD ráðstefnuna, Digital-Life-Design, sem fjallar um nýja strauma í tækni, menningu og þjóðfélagsháttum. Ráðstefnan er haldin í München og sækir hana fjöldi forystumanna, sérfræðinga og hugsuða á sviði upplýsingatækni, lýðræðis, menningar, lista, viðskipta, heilbrigðis og lífshátta. Loftslagsbreytingar, ofsaveður og bráðnun íss á Norðurslóðum eru einnig meðal umræðuefna og tekur forseti þátt í pallborðsumræðum um þau efni.
22.01.2013 Forseti sendir Barack Obama forseta Bandaríkjanna heillaóskir í tilefni af embættistöku hans. Í bréfinu ítrekaði forseti trausta vináttu og langvarandi tengsl þjóðanna og fagnaði sérstaklega yfirlýsingum Obama í ræðunni sem hann flutti við embættistökuna, hvatningu hans til öflugrar baráttu gegn loftslagsbreytingum og víðtækra breytinga á orkukerfum á grundvelli sjálfbærrar nýtingar. Fréttatilkynning
23.01.2013 Forseti á fund á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos með sendinefnd frá nýjum forseta Suður-Kóreu sem kynnti áhuga lands síns á málefnum Norðurslóða og þátttöku í víðtækri stefnumótun en ríkið hefur sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Forseti lýsti hvernig rannsóknarstofnanir, háskólar og fyrirtæki í ýmsum löndum Asíu væru í auknum mæli að láta til sín taka í málefnum Norðurslóða og mikilvægt væri að efnislegt framlag hvers og eins væri skýrt.
23.01.2013 Forseti á fund með framkvæmdastjóra Alþjóða efnahagsþingsins, World Economic Forum, um þörfina á víðtækri þátttöku í rannsóknum, og stefnumótun á Norðurslóðum, m.a. til að efla styrk þeirra samtaka og stofnana sem nú þegar láta málefni Norðurslóða til sín taka og jafnframt skapa vettvang þar sem aðilar frá öðrum ríkjum geta kynnt áhugaefni sín og framtíðarsýn varðandi Norðurslóðir.
23.01.2013 Forseti sækir í þessari viku Alþjóða efnahagsþingið, World Economic Forum, sem haldið er í Davos í Sviss. Þingið sækja þjóðarleiðtogar víða að úr veröldinni, sérfræðingar, forystumenn í atvinnulífi og viðskiptum, fulltrúar almannasamtaka og baráttuhreyfinga sem og stjórnendur margra alþjóðastofnana. Forseti ræddi í morgun við alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarnar CNN, Bloomberg, Fox og Sky og mun einnig ræða við ríkissjónvarpið í Kína CCTV, arabísku sjónvarpsstöðina Al Jazeera og fleiri fjölmiðla, m.a. um þróun efnahagslífs á Íslandi, samspil lýðræðis og markaða og málefni Norðurslóða. Fréttatilkynning. Myndir. Myndskeið úr viðtali við Fox Business News.
24.01.2013 Forseti flytur ávarp í málstofu sem National Geographic efnir til í tengslum við Alþjóða efnahagsþingið í Davos. Umræðuefnið var verndun auðlinda hafsins, reynslan af sérstökum verndarsvæðum og sjálfbær nýting fiskistofna. Forseti lýsti reynslu Íslendinga varðandi útfærslu landhelginnar, eftirlit með veiðum og hvernig upplýsingatækni hefur gert fólki og fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að sannfæra neytendur um að sjávarafurðir eru unnar á grundvelli vísindalegs eftirlits og sjálfbærrar nýtingar. Í málstofunni tóku þátt ýmsir sérfræðingar og forystumenn almannasamtaka sem unnið hafa að samstöðu um fjölgun verndarsvæða í hafinu, einkum í ljósi þess að fjölmargir fiskistofnar eru í útrýmingarhættu.
24.01.2013 Forseti á fund með Nicolas Berggruen, höfundi bókarinnar Intelligent Governance for the 21st Century, um nýsköpun lýðræðis og stjórnkerfis í ljósi helstu vandamála sem við er að glíma á hinni nýju öld. Í bókinni eru settar fram nýjar hugmyndir um samspil vestræns lýðræðis og kínverskra stjórnsýsluhefða. Sú samvinna, sem þróast hefur á Norðurslóðum frá endalokum kalda stríðsins, og ný tengsl Rússlands, Bandaríkjanna, Norðurlanda og Kanada eru forvitnileg dæmi um árangursríka nýsköpun í samstarfi, þar sem margháttuð þátttaka ólíkra aðila, bæði ríkja og samtaka frumbyggja hefur ráðið för.
24.01.2013 Forseti á fund með Helen Clark, framkvæmdastjóra Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP), um þurrkun matvæla í þágu fæðuöryggis og atvinnuþróunar bænda og sjómanna á grundvelli reynslu Íslendinga við þurrkun sjávarfangs.
24.01.2013 Forseti sækir málstofu á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos um menntabyltingu í krafti upplýsingatækni og netvæðingar. Málstofan bar heitið RevolutiOnline.edu - Online Education Changing the World og var haldin á vegum Victor Pinchuk stofnunarinnar. Umræðum stjórnaði Thomas L. Friedman, blaðamaður við New York Times og höfundur þekktra bóka um breytta heimsmynd. Auk hans tóku þátt í þeim meðal annarra Bill Gates, stofnandi Microsoft, Larry Summers, fyrrum rektor Harvard háskóla og fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og aðrir forystumenn í upplýsingatækni og menntamálum. Lýst var gríðarlegum árangri sem náðst hefur á undanförnum árum með því að veita milljónum ungmenna um allan heim aðgang í gegnum netið að námskeiðum og kennslu hjá ýmsum fremstu háskólum heims og öðrum menntastofnunum. Mikilvægt sé að mynda bandalag öflugra aðila til þess að flýta þessari byltingu í menntun ungs fólks, bæði á Vesturlöndum og í þróunarlöndum.
24.01.2013 Forseti á fund með fulltrúum sérstaks vinnuhóps á vegum Alþjóða efnahagsþingsins, World Economic Forum, sem settur hefur verið upp að fjalla ítarlega um málefni Norðurslóða, breytingar á loftslagi, nýtingu auðlinda og samvinnu fjölmargra, ólíkra aðila sem í vaxandi mæli vilja láta til sín taka á Norðurslóðum. Vinnuhópurinn hélt sinn fyrsta fund í Dubai fyrir nokkrum vikum og mun á þessu ári vinna að ítarlegri efnisöflun.
24.01.2013 Forseti tekur þátt í sérstökum fundi, sem Alþjóða efnahagsþingið efndi til í Davos, þar sem þjóðarleiðtogar frá ýmsum löndum í Evrópu, bæði innan Evrópusambandsins og utan, stjórnendur alþjóðastofnana og fulltrúar alþjóðlegra fyrirtækja ræddu stöðu mála í Evrópu, glímuna við efnahagskreppuna, lýðræðisvandann og með hvaða hætti væri hægt að stuðla að félagslegri og efnahagslegri endurreisn álfunnar.
25.01.2013 Forseti hefur á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos rætt við sjónvarpsstöðvarnar Al Jazeera, Bloomberg, CCTV, China Business News TV, CNN, Fox og Sky. Auk þess hefur forseti rætt við China Daily, Hub Culture, blaðið China Business News, BBC News og fleiri. Myndir. Sjá einnig eldri myndir.
25.01.2013 Forseti á fund með Albert II, fursta í Mónakó, um þátttöku umhverfisstofnunarinnar, sem starfar á hans vegum, í samstarfi um rannsóknir og ábyrga stefnumótun á Norðurslóðum. Fundinn sat einnig Alice Rogoff, útgefandi netmiðilsins Alaska Dispatch og stjórnandi Norðurslóðaráðstefnunnar Arctic Imperative sem haldin hefur verið í Alaska undanfarin tvö ár.
25.01.2013 Forseti situr hádegisverð á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos sem bandaríska stórblaðið Washington Post efnir til. Hádegisverðinn sátu fjölmargir þjóðarleiðtogar, forystumenn í atvinnulífi og viðskiptum auk blaðamanna og sjónvarpsfréttamanna. Í hádegisverðinum flutti forseti ávarp um aukið samstarf á Norðurslóðum.
25.01.2013 Forseti tekur þátt í pallborðsumræðum á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos um alþjóðlegt samstarf um verndun auðlinda úthafanna og sjálfbæran sjávarútveg sem í senn væri arðbær, atvinnuskapandi og í samræmi við sjálfbæra nýtingu auðlindanna. Auk forseta tóku þátt í umræðunum m.a. Albert II Mónakófursti og Rachel Kyte, varaforseti Alþjóðabankans og yfirmaður sjálfbærrar þróunar á vegum bankans. Mynd.
25.01.2013 Forseti tekur þátt í pallborðsumræðum sem arabíska sjónvarpsstöðin Al Jazeera efnir til á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos. Umræðuefnið var reynslan af glímunni við afleiðingar efnahagskreppunnar, hætturnar sem fylgja víðtæku atvinnuleysi ungs fólks og hvernig nýting upplýsingatækni getur auðveldað menntun og þjálfun fólks í atvinnuleit. Fyrri hluti umræðnanna verður sendur út á enskumælandi rás Al Jazeera næstu daga en í síðari hlutanum báru áheyrendur fram fjölmargar spurningar. Umræðum stjórnaði Kamahl Santamaria, fréttamaður sjónvarpsstöðvarinnar. Auk forseta tóku þátt í umræðum m.a. forsætisráðherra Malasíu, framkvæmdastjóri Alþjóða vinnumálastofnunarinnar og efnahagsráðherra Tyrklands. Mynd.
26.01.2013 Forseti ræðir við fréttamann Samræðusjónvarps Alþjóða efnahagsþingsins WEF í Davos um reynsluna af glímu Íslendinga við efnahagskreppuna, samspil lýðræðis og markaðar, vilja almennings í vestrænum lýðræðisríkjum og þær kenningar sem ráðið hafa för á undanförnum áratugum varðandi mótun fjármálamarkaða og efnahagslífs. Í sjónvarpi WEF eru viðtöl við ýmsa þátttakendur á efnahagsþinginu og hlustendum boðið að nýta viðtölin til samræðna sín á milli.
26.01.2013 Forseti ræðir við Marne Levine um samspil lýðræðis og upplýsingatækni í sérstakri útsendingu Facebook frá Alþjóða efnahagsþinginu í Davos en Marne Levine er einn af stjórnendum Facebook. Mynd.
26.01.2013 Forseti sækir málstofu um öryggismál á nýrri öld, "Creating Agile Security Stragegies for the 21st Century", sem haldin er á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos. Forseti lýsti hvernig Norðurslóðir, sem á áratugum kalda stríðsins hefðu verið helteknar af vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna, hefðu breyst í svæði samvinnu og friðar þar sem bæði ríki með aðild að Norðurskautsráðinu og samtök frumbyggja, rannsóknarstofnanir, fræðasamfélag, atvinnulíf og almannasamtök hefðu öll með ólíkum hætti orðið aðilar að fjölþættu neti samvinnu sem á fáeinum árum hefði skilað miklum árangri. Norðurslóðir væru því dæmi um hvernig vígbúnaðarsvæði og átakasvæði gætu á tiltölulega skömmum tíma orðið vettvangur víðtækrar samvinnu, öryggis og friðar.
26.01.2013 Forseti flytur ávarp í málstofu um heilbrigði og holla lífshætti sem haldin er á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos. Þörfin á víðtæku samstarfi stjórnvalda, félagasamtaka, almennings, fyrirtækja og fjölmiðla til að kynna hollar breytingar á lífsháttum og mataræði væri vaxandi nauðsyn, bæði til þess að auka velsæld og draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu á komandi áratugum. Málstofuna sóttu sérfræðingar í heilbrigðismálum, forystumenn ýmissa alþjóðlegra stórfyrirtækja og fulltrúar almannasamtaka. Einnig flutti Helen Clark, framkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ávarp í málstofunni og tók ásamt forseta þátt í umræðum. Mynd.
28.01.2013 Forseti á fund með Tim Ward og Kristjáni Andra Stefánssyni úr málflutningshópi Íslands um niðurstöður EFTA dómstólsins í Icesave málinu, sterkan málstað Íslands, afleiðingar fyrir umræður og stefnumótun innan Evrópusambandsins og á vettvangi alþjóðlegs fjármálasamstarfs. Einnig var rætt um mikilvægi hinnar lýðræðislegu samstöðu, hreyfingarnar sem kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu og hvernig Icesave hafi í hugum fólks víða í Evrópu og annars staðar í veröldinni orðið brennidepill glímunnar milli hagsmuna fjármálamarkaðar annars vegar og lýðræðislegs vilja og réttar fólksins hins vegar. Niðurstaðan væri sigur fyrir íslensku þjóðina og lýðræðið í landinu. Mynd.
31.01.2013 Forseti sækir hátíðarfund Vísinda- og rannsóknasjóðs Suðurlands sem haldinn var í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Þar voru veittir styrkir til rannsókna og einnig Menntaverðlaun Suðurlands. Forseti afhenti verðlaunin og áréttaði í ávarpi hve mikilvægt væri að ungt fólk á landsbyggðinni væri hvatt til náms og rannsóknarstarfa.
31.01.2013 Forseti sækir afmælishátíð Samhjálpar í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá stofnun hennar. Í ávarpi þakkaði forseti Samhjálp fyrir fórnfúst starf í þágu velferðar þeirra sem eiga ekki vísan samastað að kvöldi eða máltíðir að degi. Þrátt fyrir samstöðu þjóðarinnar um velferð allra hefur Samhjálp þjónað þeim sem utangarðs eru. Forseti færði Samhjálp því þakkir þjóðarinnar og óskaði öllum aðstandendum og starfsfólki heilla á komandi árum.

Febrúar

02.02.2013 Forseti er heiðursgestur í kvöldverðarboði forseta Alþingis sem haldið var fyrir Alþingismenn á kjörtímabilinu 2009-2013.
02.02.2013 Forseti afhendir verðlaun og flytur ávarp á verðlaunahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík þar sem nýsveinar voru heiðraðir fyrir góðan árangur á sveinsprófum og Eyjólfur Pálsson húsgagnasmiður og innanhúsarkitekt var útnefndur iðnaðarmaður ársins. Í ávarpi áréttaði forseti framlag iðngreina til framfara og menningar í íslensku samfélagi, mannvirkja og daglegs lífs. Samfélag nútímans bæri svipmót alúðar, aga og þekkingar ólíkra stétta iðnaðarmanna. Athöfnin fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur og voru meistarar nýsveinanna einnig heiðraðir.
03.02.2013 Forseti flytur ávarp á fagnaðarsamkomu í Hörpunni þar sem Vilborg Arna Gissurardóttir greindi frá ferð sinni á Suðurpólinn og afhenti söfnunarfé til Lífs styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans. Í ávarpi lýsti forseti aðdáun á áræðni, þreki og úthaldi Vilborgar Örnu og hvatti til þess að henni yrði gert kleift að heimsækja grunnskóla og framhaldsskóla um allt land til að kynna ungu kynslóðinni hvernig hægt væri að ná markmiðum í lífinu. Hún væri frábær fyrirmynd unga fólksins en ferð hennar minnti einnig á hvernig bráðnun íss og jökla á heimskautasvæðum knýr á um aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
05.02.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Tékklands, hr. Milan Dufek, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um trausta vináttu landanna, árangur af opinberri heimsókn forseta til Tékklands á síðasta ári og vinsemd fyrstu forseta Tékklands Václav Havel og Václav Klaus í garð Íslands. Þá var fjallað um aðild Tékklands að Evrópusambandinu og þá breiðu samstöðu sem ríkir í landinu milli allra stjórnmálaflokka, stjórnvalda og atvinnulífs um að það þjóni ekki hagsmunum Tékklands að taka upp evru sem gjaldmiðil. Landið mun hafa sína eigin mynt á næstu árum og í nýafstöðnum forsetakosningum kom fram sá almenni vilji að evru-aðild yrði ekki á dagskrá fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2017. Mynd
05.02.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Víetnam, hr. Lai Ngoc Doan, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um fjölmörg tækifæri í samvinnu Íslands og Víetnam, m.a. á sviði sjávarútvegs og vinnslu sjávarafla. Þá ítrekaði sendiherrann boð til forseta Íslands um að koma í opinbera heimsókn til Víetnam. Stuðningur Íslendinga við Víetnam þegar styrjöld hrjáði landið væri enn mikils metin og einnig skipti miklu að þeir Víetnamar sem sest hafa að á Íslandi hefðu fengið góðar móttökur og notið hér fjölmargra tækifæra til menntunar og atvinnu. Mynd
05.02.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Lesótó, hr. Paramente Phamotse, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um möguleika á nýtingu vatnsorku í Lesótó og útflutning á rafmagni til Suður-Afríku. Nýlegt samkomulag íslenskra aðila við Alþjóðabankann um nýtingu jarðhita í Austur-Afríku gæti verið fyrirmynd slíks þríhliða samstarfs þar sem íslensk verkfræðifyrirtæki og orkufyrirtæki miðluðu þekkingu og reynslu sem fengist hefði við virkjun vatnsafls á Íslandi. Mynd
05.02.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Páfagarðs, Henryk Józef Nowacki erkibiskupi, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um framlag kaþólsku kirkjunnar til aðlögunar þeirra þúsunda frá Póllandi, Filippseyjum og öðrum kaþólskum löndum sem sest hafa að á Íslandi á undanförnum árum. Kaþólska kirkjan ætti ríka hlutdeild í að greiða götu þeirra í íslensku samfélagi. Einnig var fjallað um sögulega arfleifð kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, ferðir Guðríðar Þorbjarnardóttur og heimsókn forseta í Páfagarð með styttu af henni árið 2011. Mikilvægt væri að efla rannsóknir á hlut Norður-Evrópu í miðaldasögu kirkjunnar og tengja saman fræðastofnanir kirkjunnar og rannsóknarstofnanir á Íslandi. Mynd
06.02.2013 Forseti afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Í flokki fræðirita hlaut verðlaunin Eiríkur Örn Norðdahl fyrir bókina Illska. Í flokki fagurbókmennta hlaut verðlaunin Gunnar F. Guðmundsson fyrir bókina Pater Jón Sveinsson – Nonni. Forseti flutti ávarp við upphaf athafnarinnar og síðan hélt Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, ræðu auk verðlaunahafa.
06.02.2013 Forseti á fund með sendiherra Indlands á Íslandi Ashok Das um samvinnu við Indland á sviði jöklarannsókna, orkunýtingar, þurrkun matvæla og þróun Norðurslóða. Í apríl verður haldin ráðstefna sérfræðinga frá Indlandi, Kína og öðrum löndum á Himalayasvæðinu og sérfræðingar frá Bandaríkjunum, Íslandi og öðrum Evrópulöndum um þróun jökla og vatnsbúskapar á Himalayasvæðinu en sams konar ráðstefna var haldin á Íslandi fyrir rúmu ári í boði forseta og Háskóla Íslands.
06.02.2013 Forseti á fund með Gísla Erni Lárussyni um hugmyndir hans varðandi þróun heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi.
07.02.2013 Forseti tekur á móti hópi ungs fólks sem glímt hefur við krabbamein, fjallar um sögu Bessastaða og kynnir þeim muni og minjar frá liðinni tíð.
07.02.2013 Forseti er viðstaddur opnun greiningarstöðvar Mentis Cura en hún er helguð rannsóknum á sviði heilabilunarsjúkdóma svo sem Alzheimer. Einnig verður á næsta ári hafin greining á ADHD hjá börnum. Við opnunina flutti forseti ávarp þar sem hann fagnaði þessum árangri af samstarfi vísindamanna, tæknifólks og heilbrigðisstofnana. Mentis Cura væri eitt af mörgum dæmum um hvernig Íslendingar gætu nýtt upplýsingatækni og náið samstarf við heilbrigðisstofnanir og menntastofnanir til að stuðla að framförum í þágu almennings.
07.02.2013 Forseti á fund með Helga Björnssyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Dagfinni Sveinbjörnssyni um þjálfun indverskra jöklafræðinga á Íslandi en fyrstu nemendurnir dvöldu hér í fyrra, og um samstarf sérfræðinga á Himalajasvæðinu og alþjóðlegra fræðimanna um rannsóknir á jöklum Himalajasvæðisins. Ráðstefna um það efni var haldin á Íslandi fyrir rúmu ári síðan í boði forseta og Háskóla Íslands og sú næsta verður í apríl á Indlandi.
07.02.2013 Forseti ýtir úr vör gerð listaverks á netinu. Listamaðurinn Ingvar Björn Þorsteinsson hefur hannað gerð þess. Verkið byggist á þátttöku fjölda fólks í gegnum Facebook og er ætlunin að slá fyrra met hvað þátttöku snertir. Gerð listaverksins mun taka 66 daga og verður það síðan boðið upp; ágóðinn rennur til UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Athöfnin fór fram í Listasafni Reykjavíkur.
07.02.2013 Forseti ræðir við Melkorku Kristinsdóttur frá Háskólanum á Akureyri um málefni Norðurslóða, þróun þeirra, áhuga annarra ríkja og eðli þess stjórnkerfis og lagaramma sem orðið hefur kjarninn í samvinnu ríkja á Norðurslóðum. Viðtalið mun birtast í Lögfræðingi, tímariti lögfræðinema.
08.02.2013 Forseti flytur ávarp á samkomu í Hörpu þar sem Íslensku vefverðlaunin eru afhent. Samtök vefiðnaðarins standa að verðlaununum og eru þau veitt í mörgum flokkum. Í ávarpi sínu þakkaði forseti samfélagi vefiðnaðarins fyrir sköpunarkraft og sóknarhug; greinin hefði skapað nýjan vettvang fyrir ungt fólk og gert því kleift að nýta hæfileika sína á heimavelli og gera sig jafnframt gildandi á vettvangi sem óðum er að umbylta veröldinni. Forseti afhenti síðan verðlaun fyrir aðgengilegasta vefinn.
08.02.2013 Forseti afhendir upplýsingatækniverðlaun Skýrslutæknifélags Íslands á upplýsingatæknimessu sem haldin er í Hörpu. Verðlaunin hlaut Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, og í ávarpi þakkaði forseti honum frumkvæði og forystu sem sýnt hefði á áhrifaríkan hátt hvað íslensk nýsköpunarfyrirtæki geta náð langt á þessu sviði.
08.02.2013 Í dag verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi sem liður í Vetrarhátíð og Safnanótt 2013. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu og Bessastaðakirkju milli klukkan 16:00 og 20:00. Auk hinna merku steinhúsa frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér fjölbreytt sýnishorn gjafa, sem forseta og þjóðinni hafa borist, og merkar fornleifar sem veita innsýn í sögu búsetu og starfsemi á Bessastöðum frá landnámstíð. Þá hefur kirkjan ýmsa merka gripi að geyma og fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar, mun standa í hlaði Bessastaða en bifreiðin er ríflega sjötug, árgerð 1942. Sérfræðingar verða til leiðsagnar auk þess sem nemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands munu aðstoða starfsfólk við að taka á móti gestum. Séra Hans Guðberg Alfreðsson prestur í Garðaprestakalli, Margrét Gunnarsdóttir djáknakandídat og María Birna Sveinsdóttir á Jörva á Álftanesi verða í Bessastaðakirkju og segja frá kirkjunni sem er meðal elstu steinhúsa landsins. Rakel Pétursdóttir deildarstjóri fræðsludeildar á Listasafni Íslands segir frá þeim fjölmörgu málverkum sem prýða veggi forsetasetursins. Halldóra Pálsdóttir, sem var starfsmaður forsetaembættisins í áratugi, allt frá tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta, tekur á móti gestum á lofti Bessastaðastofu og segir frá þeim fjölmörgu gripum sem þar má sjá, sýnishornum gjafa til forseta og þjóðarinnar undanfarna áratugi. Þá mun Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur og fagstjóri fornleifa hjá Þjóðminjasafni Íslands segja frá fornleifauppgreftinum á Bessastöðum og leiðsegja gestum um fornleifakjallarann undir Bessastaðastofu.
08.02.3013 Forseti tekur á móti hópi sjónskertra og blindra, ættingjum þeirra og vinum sem heimsækja Bessastaði í tilefni af Safnanótt. Þau kynna sér sögu staðarins, húsakynni og kirkju.
08.02.2013 Forseti á fund með stjórnendum Eimskips um flutninga félagsins milli landa á Norðurslóðum: Bandríkjanna, Kanada, Grænlands, Noregs, Rússlands og Íslands. Rætt var um þau tækifæri sem aukin umsvif á Norðurslóðum skapa íslensku atvinnulífi, einkum skipafélögum, flugfélögum, ferðaþjónustu, verktakastarfsemi og sjávarútvegi. Einnig var fjallað um hugmyndir um öflugt málþing þar sem ýmsir áhrifaaðilar sem áhuga hafa á Norðurslóðum geta kynnt sjónarmið sín og hagsmuni. Mynd
09.02.2013 Forseti tekur á móti hópi breskra framhaldsskólanema frá Bishop Vesey's skólanum og ræðir við þá um reynslu Íslending af nýtingu hreinnar orku, hvernig bráðnun jökla endurspeglar hraðar loftslagsbreytingar sem og einkenni hins lýðræðislega samfélags sem þróast hefur á Íslandi.
11.02.2013 Forseti á fund með Cameron Buchanan, ræðismanni Íslands í Edinborg, um samvinnu Íslendinga og Skota og boð til forseta um að taka þátt í ýmsum viðburðum í Edinborg.
11.02.2013 Forseti á fund með Alice Rogoff, útgefanda Alaska Dispatch og stjórnanda Arctic Imperative ráðstefnunnar í Alaska, um þörfina á víðtækum samráðsvettvangi hinna fjölmörgu aðila, samtaka og sérfræðinga sem láta málefni Norðurslóða til sín taka. Rætt var um skipulag slíks vettvangs, efnisþætti og þátttakendur. Mynd.
12.02.2013 Forseti á fleiri fundi með Alice Rogoff, útgefanda Alaska Dispatch og stjórnanda Arctic Imperative ráðstefnunnar í Alaska, og samstarfsfólki hennar um skipulagningu samráðsvettvangs um málefni Norðurslóða. Viðræðurnar voru framhald af fundi í gær og fyrri viðræðum á undanförnum mánuðum um þörfina á slíkum samráðsvettvangi samtaka, sérfræðinga og hinna fjölmörgu aðila sem láta málefni Norðurslóða til sín taka.
14.02.2013 Forseti á fund með Alexander Borodin, fyrrum formanni Vináttufélags Íslands og Rússlands, um ýmsa atburði sem tengjast 70 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Rússlands sem og um aukna samvinnu á Norðurslóðum og þátttöku Rússa í henni.
15.02.2013 Forseti tók á móti skáksveit frá Kína sem heimsækir Ísland í boði Skáksambands Íslands og Kínversk-íslenska menningarfélagsins, KÍM, sem nú fagnar 60 ára afmæli. Skáksveitin mun taka þátt í Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu. Í ávarpi fagnaði forseti þessari viðbót við fjölþætt samstarf Íslands og Kína.
15.02.2013 Forseti afhendir Steinsteypuverðlaunin í lok málþings Steinsteypudagsins. Verðlaunin hlutu samstarfsaðilar um endurbyggingu Nýja bíós. Forseti fagnaði því að verðlaunin væru að festast í sessi enda endurspegluðu verðlaunaverkin nú og áður mikla fjölbreytni nýsköpunar á sviði steinsteypu og byggingarlistar.
15.02.2013 Forseti tekur á móti hópi íslenskra og erlendra námsmanna sem taka þátt í IceMUN verkefninu. Á þess vegum kynnast nemendur starfsemi Sameinuðu þjóðanna, einkum Öryggisráðsins, með því að fjalla um átakaefni sem þar er til meðferðar. Forseti ræddi þróun Sameinuðu þjóðanna, bætta sambúð þjóða í kjölfar Kalda stríðsins og þróunina á Norðurslóðum.
15.02.2013 Forseti á fund með Hannesi Lárussyni og Kristínu Magnúsdóttur um íslenska torfbæinn en þau hafa um árabil unnið að uppbyggingu torfbæjaseturs í Austur-Meðalholti. Ætlunin er að þar verði miðstöð fyrir fræðslu og kynningu á hinum merka menningar- og söguarfi sem felst í íslenska torfbænum, húsakynnum, verkfærum, handverki og samspili við náttúruna.
16.02.2013 Forseti afhendir Kristínu Jóhannesdóttur heiðursverðlaun Eddunnar á hátíðarsamkomu sem fram fór í Hörpunni.
16.02.2013 Forseti ræðir við Vladimir Safatele, prófessor við háskóla í Sao Paolo í Brasilíu, sem vinnur að sjónvarpsþætti um Ísland, glímuna við efnahagskreppuna, endurreisn hagkerfisins og hvernig Icesave málið endurspeglar glímuna milli fjármálamarkaða og lýðræðis.
18.02.2013 Forseti á fund með hópi einstaklinga sem lýsa glímu sinni og hundruða annarra við slitastjórn Dróma, skorti á jafnræði í meðferð lána einstaklinga og fjölskyldna í kjölfar bankahrunsins sem og margvíslegum erfiðleikum í viðskiptum við slitastjórn Dróma sem heldur til streitu óhagstæðari kjörum en gilt hafa hjá öðrum fjármálastofnunum. Einnig var fjallað um þá hættulegu þróun að stjórnstofnunum reynist ekki unnt að taka á slíkum vanda á grundvelli jafnræðis þegnanna og venjulegt fólk sé neytt til þess að fara kostnaðarsama dómstólaleið sem mörgum heimilum er fjárhagslega ofviða.
18.02.2013 Forseti á fund með stjórnendum Icelandair um tækifærin, sem felast í áætlunarflugi félagsins til allra ríkja á Norðurslóðum, en Icelandair verður í sumar fyrsta flugfélagið sem sinnir svo víðtæku Norðurslóðaflugi. Einnig var fjallað um samstillingu málþinga og ráðstefna sem fjalla um Norðurslóðir.
18.02.2013 Forseti á fund með Sturlu Jónssyni, sem lýsti reynslu sinni og annarra í glímunni við banka og stjórnstofnanir í kjölfar bankahrunsins, og ræddi spurninguna um ábyrgð stjórnenda fjármálafyrirtækja og stjórnsýslustofnana við töku ákvarðana sem ráðið geta úrslitum um fjármál einstaklinga og heimila, einkum þegar vafi leikur á um lögmæti slíkra ákvarðana, m.a. í ljósi neytendalaga.
18.02.2013 Forseti á fund með stjórnendum Eimskips um samgöngur á Norðurslóðum, bæði á sjó og í lofti, árangur íslenskra fyrirtækja á þessu sviði, samvinnu á komandi árum og eflingu alþjóðlegs málþings um málefni Norðurslóða.
19.02.2013 Forseti afhendir Nýsköpunarverðlaun við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Markmið verðlaunanna er að heiðra námsmenn sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Fimm verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna. Verðlaunin hlaut Úlfur Hansson fyrir verkefnið OM - Hönnun, þróun og smíði nýs hljóðfæris.
19.02.2013 Forseti á fund með Jóhannesi Reykdal og Garðari Cortes um verkefnið Blái naglinn sem tengist baráttunni gegn krabbameini í blöðruhálskirtli, þörfinni á vitundarvakningu um þann sjúkdóm og víðtækri samstöðu um fræðslu og kynningu.
19.02.2013 Forseti er í viðtali við fréttamann suðurkóreska ríkissjónvarpsins um glímuna við efnahagskreppuna á Íslandi, samspil fjármálamarkaða og lýðræðis og áhrif fjöldasamtaka og mótmælenda á atburðarásina. Einnig var fjallað um endurreisn efnahagslífsins og fjármálakreppuna í Asíu fyrir nokkrum áratugum.
20.02.2013 Forseti er viðstaddur athöfn í Hörpu þar sem Íslensku tónlistarverðlaunin eru veitt í mörgum flokkum.
20.02.2013 Forseti afhendir þekkingarverðlaun Félags Viðskipta- og hagfræðinga og heiðursviðurkenningu til viðskiptafræðings ársins. Verðlaunaafhendingin fór fram á Íslenska þekkingardeginum að lokinni ráðstefnu um þróun ferðaþjónustu. Þrjú fyrirtæki voru tilnefnd til verðlaunanna, Icelandair, TrueNorth og Bláa lónið sem hlaut verðlaunin. Það var Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Já upplýsingaveitna, sem hlaut heiðursverðlaunin.
20.02.2013 Forseti flytur ræðu á skólaþingi sem haldið er í Norðlingaskóla þar sem fjallað var um áhrif upplýsingatækni, einkum spjaldtölva og þráðlausra samskipta, á skólastarf, kennsluhætti og þróun menntunar. Þingið sóttu nokkur hundruð kennarar í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins og þar fjallaði Abdul Chohan, kennari í Bolton á Bretlandi, um reynslu ESSA skólans af því að gerbreyta kennsluháttum með notkun sérhvers nemanda og kennara á spjaldtölvu. Í ræðu sinni rakti forseti hvernig þróun upplýsingatækni á síðustu árum hefði gerbreytt kennslu og skólastarfi og mikilvægt væri að íslenskir skólar sköpuðu nemendum sínum, kennurum og starfsfólki aðstöðu til að njóta í námi og starfi kosta þessarar nýju tækni.
20.02.2013 Forseti á fund með Lassi Heininen, Þorsteini Gunnarssyni og Hjalta Jóhannessyni um starfsemi Rannsóknaþings Norðursins og alþjóðlega ráðstefnu sem haldin verður á þess vegum í ágúst um áhrif loftslagsbreytinga á byggðarlög og búsetu á Norðurslóðum. Einnig var fjallað um þátttöku Rannsóknaþingsins í víðtækari vettvangi um málefni Norðurslóða.
21.02.2013 Forseti ræðir við Maarten van Wijk, blaðamann frá hollenska dagblaðinu Algemeen Dagblad um glímu Íslands við fjármálakreppuna, lærdómana af Icesave málinu, endurreisn efnahagslífsins og þróun mála í Evrópu.
22.02.2013 Forseti tekur á móti Sögu skáta í 100 ár sem skátahöfðingi afhendir á Bessastöðum eftir að hafa siglt með verkið yfir Skerjafjörðinn og komið að landi í fjörunni á Bessastöðum. Ferðin og útgáfa bókarinnar var liður í hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli skátastarfs Íslandi en þau hófust formlega á gamlársdag 2011 með því að skátar báru forseta kveðju skátahöfðingja sem send var með ljósmerkjum yfir Skerjafjörðinn á sama hátt og gert var fyrir 50 árum þegar skátar þá fögnuðu stórafmæli.
22.02.2013 Forseti á fund með forseta norska Stórþingsins, Dag Terje Andersen, og sendinefnd hans sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um tengsl Bessastaða við sameiginlega sögu Íslands og Noregs, Snorra Sturluson, sjálfstæðisbaráttuna og Bessastaðaskóla sem og sameiginleg verkefni Íslands og Noregs á nýrri öld, einkum með tilliti til aukins samstarfs á Norðurslóðum. Mikilvægt væri að styrkja tengsl þjóðþinganna í aðildarríkjum Norðurskautsráðsins svo að lýðræðislega víddin í stefnumörkun Norðurslóða yrði öflug og sterk. Einnig var fjallað um viðræður Íslands við Evrópusambandið og stöðu ríkjanna í Norður Evrópu gagnvart sambandinu og Evrusvæðinu.
24.02.2013 Forseti sækir dagskrá í Þjóðminjasafninu í tilefni af 150 ára afmæli safnsins og er viðstaddur opnun sýningar á íslenskum silfurmunum, Silfur Íslands.
25.02.2013 Forseti er heiðursgestur í móttöku sem sendiherra Íslands í Frakklandi, Berglind Ásgeirsdóttir, heldur í bústað sendiherrans; fyrst fyrir ýmsa franska embættismenn og þingmenn, sendiherra erlendra ríkja í Frakklandi og fjölmiðlafólk; þvínæst fyrir Íslendinga sem búsettir eru í París og nágrenni.
25.02.2013 Að lokinni móttökuathöfn í París á forseti fund með Michel Rocard í utanríkisráðuneyti Frakka en hann er sérstakur sendimaður Frakklandsforseta í málefnum Norðurslóða. Rætt var um vaxandi samvinnu á Norðurslóðum, áhuga ríkja í Evrópu og Asíu á þátttöku í stefnumótun og rannsóknum sem og þörfina á víðtækum alþjóðlegum umræðuvettvangi um málefni Norðurslóða. Þá var einnig fjallað um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og stöðuna í viðræðum við Evrópusambandið. Myndir (ljósmyndari: RAX).
25.02.2013 Forseti hóf í dag heimsókn til Parísar í boði franskra stjórnvalda. Hann mun á morgun, þriðjudaginn 26. febrúar, eiga fund í Elysée höll með François Hollande forseta Frakklands þar sem m.a. verður rætt um glímuna við fjármálakreppuna, þróun Norðurslóða og nýtingu hreinnar orku. Fréttatilkynning.
26.02.2013 Forseti heimsækir franska þjóðþingið og ræðir við hóp þingmanna frá Assemblée nationale, og síðan við Íslandsdeild franska þingsins sem skipuð er hópi þingmanna sem sinnir sérstaklega tengslum við Ísland. Að því loknu heimsótti forseti öldungadeildina (Sénat) og ræddi þar við forseta og varaforseta hennar og hóp þingmanna. Á öllum fundunum var fjallað um lærdómana af endurreisn efnahagslífsins, samvinnu Íslendinga og Frakka í málefnum Norðurslóða og nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita í Frakklandi. Mikill áhugi er á auknum tengslum við Ísland og rætt er um hugsanlegar heimsóknir franskra þingmanna til landsins. Þá var einnig fjallað um stöðu mála í Evrópu, erfiðleikana á Evrusvæðinu og ólíkar áherslur einstakra landa varðandi lausnir á komandi árum. Myndir frá heimsókn forseta í Þjóðþingið (ljósmyndari: RAX).
26.02.2013 Forseti átti síðdegis í dag fund með François Hollande, forseta Frakklands, í Elysée höll þar sem rætt var um aukna samvinnu á Norðurslóðum, nýtingu hreinnar orku, glímuna við fjármálakreppuna í Evrópu og reynslu Íslendinga á undanförnum árum. Forseti Frakklands lýsti miklum áhuga á þeim árangri sem Íslendingar hefðu náð í kjölfar bankahrunsins og rakti forseti Íslands að aðferðir Íslendinga hefðu á ýmsan hátt verið aðrar en beitt hefði verið á síðustu árum í Evrópu og fyrir tveimur áratugum í fjármálakreppunni í Asíu. Leitast hefði verið við að verja eftir föngum velferðarkerfið, heilbrigðisþjónustu og menntun. Auk þess hefði áhersla verið lögð á umbætur á sviði stjórnsýslu og lýðræðis, sem og eflingu réttarkerfis enda hefði fjármálakreppan haft í för með sér margvíslegan þjóðfélagslegan vanda. Fréttatilkynning. Myndir frá fundi forsetanna (ljósmyndari: RAX). Fleiri myndir.
26.02.2013 Forseti flutti í morgun fyrirlestur um framtíð Norðurslóða og loftslagsbreytingar við Pierre et Marie Curie háskólann í París. Fyrirlesturinn sóttu sérfræðingar, vísindamenn og stúdentar auk sérstaks sendimanns Frakklandsforseta í málefnum heimskautasvæðanna, Michel Rocard, sem einnig flutti ávarp. Fréttatilkynning. Fyrirlestur. Myndir.
27.02.2013 Forseti flutti í morgun ræðu um hagkerfi hreinnar orku, sjálfbærni og glímu Íslands við efnahagskreppuna á fundi með sendiherrum aðildarríkja OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, í París. Á undan átti forseti fund með Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD, og nokkrum æðstu embættismönnum stofnunarinnar. Að lokinni ræðu forseta tóku ýmsir sendiherrar til máls sem og fulltrúi Alþjóða orkustofnunarinnar. Í kjölfarið svaraði forseti fjölda fyrirspurna. Þá ræddi forseti í hádeginu við aðalfréttamann Evrópuþáttar alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarinnar France 24 og verður viðtalið sýnt í næstu viku. Þar var rætt um lærdómana af glímu Íslands við efnahagskreppuna, niðurstöðu Icesave málsins, makríldeiluna og Evrópusambandið. Fréttatilkynning. Ræða. Myndir (ljósmyndari: RAX); myndir frá OECD (Julien Daniel / OECD).
28.02.2013 Forseti flytur ræðu á ráðstefnu Fransk-íslenska viðskiptaráðsins í París og lýsir hvernig Ísland sé óðum að verða miðstöð vöruflutninga og flugs á Norðurslóðum í krafti reglulegra siglinga íslenskra skipafélaga og áætlunarflugs Icelandair. Ræða forseta. Fréttatilkynning. Myndir.
28.02.2013 Forseti sækir ráðstefnu Fransk-íslenska viðskiptaráðsins sem haldin er í höfuðstöðvum viðskiptaráðs Parísar og nágrennis þar sem auk forseta fluttu ræður og erindi Michel Rocard, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Þá sátu fulltrúar nokkurra íslenskra fyrirtækja, Marels, Össurar, Icelandair og CCP fyrir svörum í pallborðsumræðum sem stjórnað var af aðalritstjóra Nouvel Observateur, Laurent Joffrin. Myndir.
28.02.2013 Forseti á fund bæjarstjóra fiskibæjarins Paimpol og bæjarstjóra Gravelines um samskipti franskra sjávarbyggða við Ísland í aldanna rás og vaxandi vináttutengsl við Fáskrúðsfjörð og Grundarfjörð og uppbyggingu gamalla, franskra húsa á Fáskrúðsfirði á vegum Minjaverndar. Einnig var rætt um framlag þessara frönsku bæja til uppbyggingar safna sem varðveita þessa sögu og um víðtæk menningarsamskipti á komandi árum.
28.02.2013 Forseti situr hádegisverð sem sendiherra Íslands í Frakklandi, Berglind Ásgeirsdóttir, heldur fyrir ræðismenn Íslands í Frakklandi og fleira áhrifafólk í samskiptum Íslands og Frakklands. Rætt var um jákvæða stöðu Íslands í augum Frakka, fjölgun franskra ferðamanna og víðtæk samskipti á sviði menningar og vísinda. Myndir (RAX).
28.02.2013 Forseti á fund með Irina Bokova, framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), þar sem rætt var um framlag íslenska vísinda- og fræðasamfélagsins til starfsemi UNESCO, þátt menningar og nýsköpunar í glímu Íslendinga við efnahagskreppuna og hvernig UNESCO leggur vaxandi áherslu á eflingu kunnáttu á sviði hreinnar orku og rannsóknir á jöklum og heimshöfum. Þá var einnig fjallað um möguleika á fjölþættara framlagi Íslendinga til heimsminjaskrár UNESCO, m.a. að íslenski torfbærinn yrði flokkaður sem heimsminjar. Einnig var rætt um hinar einstöku ljósmyndir Ragnars Axelssonar af frumbyggjum á Norðurslóðum og hvernig sýningar á þeim, t.d. á vegum UNESCO, gætu eflt skilning á örlögum fólks á tímum loftslagsbreytinga og bráðnunar íss og jökla. Sýning Ragnars ber heitið Veiðimenn norðursins (Last Days of the Arctic). Myndir (RAX). Sjá einnig umfjöllun á vef UNESCO.

Mars

03.03.2013 Forseti er viðstaddur setningarathöfn Búnaðarþings í Súlnasal Hótels Sögu þar sem formaður Bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson, og Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, fluttu ræður og afhent voru landbúnaðarverðlaun.
04.03.2013 Forseti á fund með dr. Sultan Al Jaber, forstjóra Masdar og ráðherra umhverfismála og loftslagsbreytinga í utanríkisráðuneyti Sameinuðu arabísku furstadæmanna, um fjölmarga þætti í samvinnu við Íslendinga á sviði jarðhita og annarrar hreinnar orku, tækni og vísinda sem og um þróunina í málefnum Norðurslóða og samstarf ríkja á Himalajasvæðinu varðandi vatnsbúskap og áhrif af bráðnun jökla. Forseti hefur á undanförnum árum sótt Heimsþing um hreina orku, sem Masdar hefur skipulagt í Abu Dhabi, og situr í dómnefnd Zayed orkuverðlaunanna sem stofnað var til af stjórnvöldum í Abu Dhabi.
04.03.2013 Forseti á fund með borgarstjóra Hull og sendinefnd hans sem heimsækja Ísland til að efla samvinnu borgarinnar og svæðisins þar í grennd í Norður-Englandi við stjórnvöld á Íslandi, m.a. forsetaembættið og Reykjavíkurborg, og einnig til að styrkja starfsemi íslenskra fyrirtækja á svæðinu. Bauð borgarstjóri forseta að heimsækja Hull síðar á þessu ári og taka þátt í fjölmörgum viðburðum sem þar eru á döfinni.
04.03.2013 Forseti ræðir við fréttamann dönsku útvarpsstöðvarinnar den2radio.dk um glímu Íslendinga við efnahagshrunið, lærdómana sem draga má af Icesave málinu, stöðuna í Evrópu, togstreitu milli markaða og lýðræðis og önnur grundvallaratriði vestrænna samfélaga sem efnahagskreppan hefur sett í brennidepil.
05.03.2013 Forseti ræðir við fulltrúa Alþjóðabankans og IRENA, Alþjóðastofnunar um hreina orku, sem sækja alþjóðlega jarðhitaráðstefnu sem hefst í Reykjavík á morgun. Rætt var um framlag Íslands og reynslu í nýtingu jarðhita og samstarf við þróunarlönd á þessu sviði en í samræðunum tóku einnig þátt fulltrúar nokkurra íslenskra stofnana og fyrirtækja.
05.03.2013 Forseti á fund með fulltrúum fjárfesta og atvinnulífs í Alaska um aukna samvinnu við Ísland og hvernig íbúar og fyrirtæki í Alaska og á Íslandi geta í sameiningu nýtt sér fjölmörg tækifæri sem blasa við á Norðurslóðum. Sendinefndin heimsækir nú Ísland í þriðja sinn og mun á næstu mánuðum einbeita sér að frekari könnun á slíkum tækifærum með nýjum heimsóknum til Íslands. Jafnframt vænta þeir mikils af þeim þáttaskilum sem verða í maí þegar Icelandair hefur beint flug til Alaska.
06.03.2013 Forseti ræðir við hóp erlendra blaðamanna sem sækja jarðhitaráðstefnuna sem haldin er í Hörpu. Fjallað var um þátt jarðhitans í þróun atvinnulífs og lífskjara á Íslandi, fjölþætta nýtingu hans, hvernig vísindi og tækni sköpuðu grundvöll að nýjum fyrirtækjum þar sem jarðhitanýting væri lykilatriði. Þá var einnig rætt um nýtingu jarðhita í þágu matvælaframleiðslu, bæði á sviði ylræktar og þurrkunar matvæla.
06.03.2013 Forseti á fund með Roland Horne, forseta Alþjóðlega jarðhitasambandsins, International Geothermal Association, og skipuleggjendum jarðhitaráðstefnunnar, sem haldin er í Hörpu, um vaxandi áhuga víða um heim á nýtingu jarðhita. Sérstaklega var fjallað um tækifæri á þessu sviði víða í Bandaríkjunum, svo sem í Kaliforníu og Alaska, og áhuga ríkja í Afríku og Asíu, eflingu jarðhitanýtingar í Kenía og hvernig Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hefur á undanförum áratugum lagt mörgum löndum lið. Þá var einnig rætt um hvernig jarðhitaráðstefnan gæti orðið grundvöllur að reglulegum jarðhitaþingum sem haldin yrðu á Íslandi á komandi árum.
06.03.2013 Forseti er viðstaddur setningu alþjóðlegrar jarðhitaráðstefnu, Iceland Geothermal Conference, sem haldin er í Hörpu. Ráðstefnuna sækir fjöldi sérfræðinga og áhrifafólks á sviði jarðhita frá nokkrum tugum þjóðlanda ásamt íslenskum sérfræðingum, vísindamönnum, tæknimönnum og fulltrúum orkufyrirtækja, verkfræðifyrirtækja og fjármálastofnana sem og rannsóknarstofnunum og háskólum. Á setningarfundinum fluttu ræður Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Sri Mulyani Indrawati, framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Alþjóðasamtök á sviði jarðhita eiga aðild að ráðstefnunni og er forseti verndari hennar. Vefsíða ráðstefnunnar.
07.03.2013 Forseti flytur lokaræðuna á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu sem haldin er í Hörpu en hana sækja rúmlega tvö hundruð erlendir sérfræðingar og tæknimenn og athafnafólk frá meira en 40 löndum auk mörg hundruð starfsmanna íslenskra orkufyrirtækja, verkfræðifyrirtækja, háskóla og rannsóknarstofnana. Í ræðunni fjallaði forseti um samspil loftslagsbreytinga og breytinga á orkukerfum, hvernig bráðnun íss á Norðurslóðum, Suðurskautslandi og í Himalajafjöllum knýr á um víðtækar aðgerðir í orkumálum allra landa. Jafnframt lýsti forseti með fjölmörgum dæmum hvernig Íslendingum hefði tekist að skapa fjölmörg hagkvæm og árangursrík viðskipta- og atvinnutækifæri á ýmsum sviðum í krafti nýtingar á hreinni orku.
08.03.2013 Forseti á fund með Jefferson Tester, prófessor við Cornell háskólann í New York ríki og meginhöfundi MIT skýrslunnar um jarðhitaauðlindir Bandaríkjanna, og Þorsteini Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar. Rætt var um aukna samvinnu vísinda- og tæknisamfélagsins á Íslandi við háskóla í Bandaríkjunum og stjórnvöld í einstökum fylkjum og borgum varðandi nýjar leiðir í nýtingu jarðhita í Bandaríkjunum, einkum hitaveitur og ylrækt, m.a. í ljósi greinargerðar sem forseti lagði á sínum tíma fyrir Orkunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.
08.03.2013 Forseti á fund með sendiherra Bretlands á Íslandi, Stuart Gill, um samvinnu ríkjanna á fjölmörgum sviðum, vaxandi áherslu á nýsköpun og upplýsingatækni sem og aukið mikilvægi Norðurslóða og áhuga í Bretlandi á að kanna möguleika á nýtingu jarðhita, einkum til húshitunar.
08.03.2013 Forseti á fund með forsvarsmönnum Samskipa um þróun vöruflutninga á Norðurslóðum og tækifæri Íslendinga í ljósi aukinna verkefna og umsvifa í þessum heimshluta.
09.03.2013 Forseti er viðstaddur LÍFStöltið sem haldið er í reiðhöll Harðar í Mosfellsbæ til styrktar kvennadeild Landspítalans.
09.03.2013 Forseti sækir setningu þings Íþróttasambands fatlaðra og flytur ávarp; hann óskaði sambandinu til hamingju með glæsilegan árangur á heimsmótinu í London og þakkaði framlag þess á undanförnum áratugum til að auka skilning þjóðarinnar á getu og hæfileikum fólks þrátt fyrir fötlun. Íþróttastarf fatlaðra hefði eflt samhug landsmanna og aukið skilning okkar á samhjálp, hæfileikum allra til að ná árangri. Vefur Íþróttasambands fatlaðra.
11.03.2013 Forseti tekur á móti hópi nemenda og kennara frá Framhaldsskólanum á Laugum og ræðir við þau um sögu Bessastaða, Bessastaðaskóla og þær breytingar sem orðið hafa á stöðu og kjörum Íslendinga frá því skólahald var í Bessastaðastofu.
12.03.2013 Forseti afhendir stjórnunarverðlaun Stjórnvísi í hátíðarmóttöku í Turninum. Í stuttu ávarpi nefndi forseti hvernig verðlaunahafar og fyrirtæki þeirra sýndu þann árangur sem verið væri að ná víða í íslensku atvinnulífi þrátt fyrir erfiðleika undanfarinna ára. Samskip, Össur og Actavis væru fyrirtæki sem ættu sér uppruna í íslenskum veruleika og hefðu öðlast trausta stöðu á alþjóðlegum vettvangi. Vefur Stjórnvísi.
12.03.2013 Forseti er viðstaddur athöfn í Iðnó í tilefni af útgáfu sögu Alþýðusambands Íslands sem stofnað var 1916. Í ávarpi fagnaði forseti þessari útgáfu. Ritverkið væri mikilvægt framlag til þjóðarsögu, hvernig Ísland hefði breyst úr einu fátækasta landi í Evrópu í samfélag velferðar, réttinda og framfara. Forseti nefndi ýmsa forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, sem hann hefði kynnst fyrir nokkrum áratugum, og hefðu þau kynni verið eins konar háskóli í sögu stéttabaráttunnar. Þegar ný kynslóð væri óðum að taka við forystu á Íslandi væri mikilvægt að hún hefði þekkingu á sögu verkalýðshreyfingarinnar svo að mikilvægir þræðir í samfélagsgerðinni yrðu áfram heilir.
12.03.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Hondúrass, herra Roberto Flores Bermúdez, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um möguleika Hondúrass á að þróa jarðhita og vatnsafl og samstarf við íslensk tækni- og verkfræðifyrirtæki á því sviði sem og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hugsanlega þjálfun sérfræðinga frá Hondúras í Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Þá var einnig rætt um hvernig uppbygging Íslendinga á almannavörnum, þátttaka sjálfboðaliða og nýting upplýsingatækni gæti nýst Hondúras og öðrum smærri og meðalstórum löndum sem búa við hamfaraveður með reglulegu millibili. Mynd.
12.03.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Rúmeníu, herra Matei-Viorel Ardeleanu, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um verkefnin, sem einkum voru á dagskrá í opinberri heimsókn forseta til Rúmeníu fyrir nokkrum árum, aukinn áhuga á jarðhitanýtingu í Rúmeníu og þátttöku íslenskra tæknifyrirtækja í könnun, áætlanagerð og framkvæmdum. Þá var einnig fjallað um þróun stjórnmála í Rúmeníu, samskipti forseta landsins og viðhorf til breytinga á stjórnarskrá. Mynd.
12.03.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Panama, frú Ana Irena Delgado, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um reynsluna af Panamaskurðinum og þær breytingar sem hugsanlega verða á alþjóðlegum siglingum þegar norðurleiðirnar opnast sem og hlutverk Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar IMO. Þá var einnig fjallað um stöðu mála í Mið-Ameríku, samskipti einstakra landa og stjórnmálalegan og efnahagslegan stöðugleika. Mynd.
13.03.2013 Forseti er viðstaddur opnun sýningarinnar Norræn hönnun, sem haldin er í Hönnunarsafni Íslands, en þar sýna ýmsir þekktir norrænir hönnuðir verk sín: húsgögn, skartgripi og fatnað.
13.03.2013 Forseti afhendir heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV á samkomu í Iðnó. Þau hlaut Gísli B. Björnsson og í stuttu ávarpi áréttaði forseti framlag Gísla til íslenskrar hönnunar, uppeldis á nýjum kynslóðum grafískra hönnuða um árabil sem og framlag hans til að skapa þann nútíma sem setur svip sinn á íslenskt samfélag.
14.03.2013 Forseti setur tískuhátíðina Reykjavík Fashion Festival en þar sýnir fjöldi íslenskra hönnuða verk sín. Í ávarpi áréttaði forseti aukna fjölbreytni á vettvangi íslenskrar tísku og hönnunar og velti fyrir sér ýmsum ástæðum að baki þessari ánægjulegu þróun. Sköpunarkrafturinn væri greinilega ráðandi og skorturinn á ráðandi "yfirstétt" í tískuheiminum hér heima opnaði ungu fólki aðgang á auðveldari hátt en í ýmsum öðrum löndum.
14.03.2013 Forseti er viðstaddur setningarathöfn HönnunarMars, sem fram fer í Reykjavík og nágrenni á næstu dögum, en mikill fjöldi hönnuða, fyrirtækja og annarra aðila tekur þátt í dagskrá HönnunarMars.
14.03.2013 Forseti á fund með bandaríska fræðimanninum Laurence C. Smith, höfundi bókar sem fjallar um stöðu Norðurslóða í heimsmyndinni um miðbik þessarar aldar. Einkum var rætt um nauðsyn þess að styrkja áhuga stjórnvalda í Bandaríkjunum á framtíð Norðurslóða og hvernig allt bendi til að siglingar um Norðurslóðir muni aukast á næstu árum og áratugum en Laurence Smith hefur undanfarið einkum sinnt rannsóknum á slíkri þróun siglinga.
14.03.2013 Forseti á fund með sendinefnd frá tyrknesku verslunarráði sem heimsækir Ísland til að kynna sér nýtingu jarðhita, einkum í tengslum við ferðaþjónustu, en verslunarráðið sinnir einkum auknum samskiptum Tyrklands við Norðurlönd.
14.03.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu um fjármögnun heilbrigðisþjónustu sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu efna til. Í ávarpinu rakti forseti breiða samstöðu þjóðarinnar um öflugt heilbrigðiskerfi en hún birtist m.a. í stuðningi fjölmargra félagssamtaka við heilbrigðiskerfið og samstöðu allra flokka um grundvallarþætti þess. Almannasamtök hefðu allt frá baráttunni við berklana og til okkar daga verið virk á vettvangi margvíslegra sjúkdóma og mætti þar nefna Krabbameinsfélagið, SÁÁ og Hjartavernd. Einnig hefði vakið athygli erlendis að í kjölfar bankahrunsins hefði verið meiri samstaða á Íslandi en í öðrum löndum um að vernda heilbrigðisþjónustuna.
14.03.2013 Forseti sendir nýkjörnum páfa Frans I heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni. Í kveðjunni áréttaði forseti tengsl Íslendinga við hina kaþólsku kirkju, bæði á fyrri öldum og með vaxandi fjölda kaþólskra íbúa landsins á undanförnum árum. Ennfremur minntist forseti heimsóknar til Páfagarðs fyrir tveimur árum þegar hann ásamt Snæfellingum afhenti Páfagarði styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur, tákn um náin söguleg tengsl kirkju og þjóðar. Fréttatilkynning.
15.03.2013 Forseti tekur á móti hópi nemenda frá ýmsum þjóðlöndum sem dvelja á Íslandi á vegum AFS samstarfsins og ræðir við hann um sögu, menningu og þjóðfélagshætti Íslendinga.
15.03.2013 Forseti á fund með Jian Song, fyrrum formanni Verkfræðistofnunar Kína, Chinese Academy of Engineering, og sendinefnd hans um samvinnu við vísinda- og tæknisamfélagið á Íslandi, einkum á sviðum sem dregið geta úr mengun og útblæstri koltvísýrings. Nefnd voru fjölmörg dæmi um árangur íslenskrar nýsköpunar á þessu sviði.
15.03.2013 Forseti flytur ræðu við opnun sýningarinnar Green Marine Technology sem haldin er á vegum Íslenska sjávarklasans í tengslum við HönnunarMars. Fjölmörg fyrirtæki á ólíkum sviðum tækni og nýjunga í sjávarútvegi og fiskvinnslu hafa tekið höndum saman til að styrkja nýsköpun og markaðssókn. Í ræðunni hvatti forseti eindregið til frekari samvinnu í þessum efnum enda hefðu fræðilegar rannsóknir sýnt að slíkt klasasamstarf ólíkra fyrirtækja væri vænlegt til árangurs. Framlag og reynsla Íslendinga á sviði sjávarútvegs væri líka mikilvægt framlag til alþjóðlegrar umræðu og stefnumótunar um sjálfbæra nýtingu á auðlindum hafsins.
15.03.2013 Forseti á fund með dr. Huigen Yang forstöðumanni Heimskautastofnunar Kína, Yuanyuan Ren aðstoðarprófessor við Heimskautastofnunina, Þorsteini Gunnarssyni sviðsstjóra hjá Rannís og Halldóri Jóhannssyni framkvæmdastjóra Arctic Portal um rannsóknir á Norðurslóðum, vísindalegan árangur af ferð Snædrekans á síðasta ári og Norðurslóðaráðstefnu sem áformað er að halda í Shanghai í sumar. Ennfremur var fjallað um samvinnu íslenskra og kínverskra vísindamanna um rannsóknir á norðurljósum og öðrum fyrirbærum háloftanna en unnið er að stofnun slíkrar rannsóknarmiðstöðvar á Íslandi.
15.03.2013 Forseti tekur á móti hópi erlendra nemenda sem stunda nám í íslensku og ræðir um þróun tungumálsins, nýyrði, skólahald á Bessastöðum, samspil menningar og þjóðlífs.
16.03.2013 Forseti tekur á móti hönnuðum, sýningarstjórum, erlendu fjölmiðlafólki og tískusérfræðingum ásamt aðstandendum og stjórnendum HönnunarMars sem haldinn er í Reykjavík og nágrenni um helgina.
17.03.2013 Forseti er viðstaddur vísitasíu nýs biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, í Bessastaðakirkju að viðstöddum prófasti, prestum og sóknarnefnd. Að lokinni athöfn í kirkjunni bauð forseti til samræðna í Bessastaðastofu sem fyrr voru húsakynni Bessastaðaskóla sem lengi var prestaskóli Íslendinga.
18.03.2013 Forseti á fund með sendiherra Rússlands á Íslandi, Andrey Tsyganov, um margvíslega viðburði í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá því stjórnmálasamband var tekið upp milli landanna svo og hugmyndir um víðtækan samráðsvettvang um málefni Norðurslóða.
18.03.2013 Forseti á fund með Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar, um þróun íslensks atvinnulífs og horfurnar á alþjóðavettvangi, einkum í Evrópu og Bandaríkjunum.
18.03.2013 Forseti hefur sent nýjum forseta Kína, Xi Jinping, heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni. Í kveðjunni minnist forseti Íslands funda þeirra á undanförnum árum þar sem fram hefði komið eindreginn stuðningur Xi Jinping við aukna samvinnu Íslands og Kína. Í þeim efnum væru lagning hitaveitna í kínverskum borgum og rannsóknir vísindamanna á bráðnun íss á Norðurslóðum meðal brýnna verkefna. Fréttatilkynning.
19.03.2013 Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegri ráðstefnu um málefni Norðurslóða, Trans Arctic, sem haldin er í Reykjavík og ræðir um ýmis þau verkefni sem blasa við í samvinnu á Norðurslóðum og þá lærdóma sem draga má af viðræðum við fjölmörg ríki, bæði innan Norðurskautsráðsins og utan, um stöðu Norðurslóða í heimsmynd nýrrar aldar.
19.03.2013 Forseti er viðstaddur fyrri hluta lokahátíðar Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fer í Hafnarfirði.
19.03.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Lettlands, hr. Indulis Abelis, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um traust tengsl Íslands við Eystrasaltsríkin, mikilvægt samstarf þeirra og Norðurlanda, sem mynda öflugan ríkjahóp í Norður-Evrópu, sem og þátttöku íslenskra fyrirtækja í efnahagslífi í Lettlandi og þær fórnir sem þjóðin hefur fært í glímunni við efnahagserfiðleika síðustu ára þar sem hrun varð í þjóðartekjum og fjöldi ungs fólks flutti úr landi. Mynd.
19.03.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bosníu og Hersegóvínu, hr. Emir Poljo, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um áherslu Bosníu og Hersegóvínu á að efla stöðu landsins gagnvart NATO og Evrópusambandinu, margvíslega erfiðleika í kjölfar þeirra átaka sem áður ríktu í þessum hluta Evrópu sem og þá lærdóma sem draga má af glímu smárra og meðalstórra ríkja Evrópu við vandamál í efnahagslífi og alþjóðamálum. Mynd.
19.03.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Rúanda, frú Venetia Sebudandi, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um uppbyggingu samfélagsins í kjölfar hinna hatrömu átaka á fyrri árum og áherslu stjórnvalda í Rúanda á að efla nýtingu hreinnar orku og tæknivæða efnahagslífið. Nú þegar sinna íslenskir sérfræðingar í jarðhitanýtingu könnun á möguleikum í Rúanda og námsmenn þaðan hafa hlotið þjálfun í Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Mynd.
19.03.2013 Forseti á fund með sendiherra Frakklands á Íslandi þar sem rætt var um ýmis verkefni í kjölfar opinberrar heimsóknar forseta til Frakklands í síðasta mánuði. Frönsk-íslensk orðabók á netinu, samvinna vinabæja á Íslandi og í Frakklandi, einkum í ljósi sögu franskra fiskimanna á Íslandsmiðum, þýðing íslenskra bóka á frönsku, íslenskukennsla í frönskum háskólum og frönskukennsla í íslenskum skólum, nýting jarðhita í Frakklandi og samvinna við íslensk tæknifyrirtæki og aukið mikilvægi Norðurslóða eru meðal þeirra viðfangsefna sem unnið verður að í kjölfar heimsóknarinnar.
20.03.2013 Forseti tekur þátt í dagskrá Háskólans í Reykjavík þar sem afhent eru verðlaun fyrir rannsóknir, kennslu og þjónustu. Þá hlýddi forseti á nokkra fyrirlestra fræðimanna skólans í svonefndu fyrirlestramaraþoni. Á samkomu nemenda og kennara í Sólinni flutti forseti ávarp þar sem hann hvatti háskólasamfélagið til rannsókna og umræðu um þau fjögur meginsvið sem einkenna myndu þróun á komandi áratugum: upplýsingatækni, stöðu Norðurslóða í nýrri heimsmynd, breytingar í orkukerfum og glímuna milli fjármálamarkaða og lýðræðis.
21.03.2013 Forseti á fund með Bala Karamallakharam um árangur íslenskra sprotafyrirtækja í nýsköpun og áform um að halda aðra alþjóðlega "Startup" ráðstefnu í júní næstkomandi.
21.03.2013 Forseti situr ársfund Landsvirkjunar sem bar heitið Orka til framtíðar en þar var m.a. fjallað um athuganir á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands og hvaða áhrif það gæti haft á arðsemi raforkukerfisins á Íslandi.
21.03.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi Evrópuþings ungmenna, Model European Parliament, þar sem ungt fólk frá ýmsum Evrópulöndum fjallar um brýn þjóðfélagsmál og kynnist vinnubrögðum við stefnumótun og ákvörðun á löggjafarþingum. Í ávarpinu rakti forseti uppruna Alþingis, sjálfstæðisbaráttu sem háð var með umræðum og tillöguflutningi á þeim vettvangi og hvernig upplýsingatækni hefði á síðari árum gjörbreytt stöðu lýðræðis og starfsháttum kjörinna fulltrúa; almenningur hefði nú tækifæri til áhrifa á margbrotinn hátt og mikilvægt væri að löggjafarþing löguðu sig að hinum nýju aðstæðum. Hin unga kynslóð myndi því á komandi áratugum þurfa að sinna lýðræðislegu sköpunarstarfi.
22.03.2013 Forseti á fund með Frosta Sigurjónssyni um hugmyndir hans og annarra um nýtt peningakerfi sem drægi úr verðbólgu og skuldasöfnun þjóðarinnar með því að setja nýjar reglur um starfsemi banka og peningastofnana. Hugmyndirnar hafa verið til umræðu á alþjóðlegum vettvangi, m.a. á vettvangi samtakanna Positive Money og hliðstæðar hugmyndir voru á dagskrá í Bandaríkjunum í kjölfar heimskreppunnar.
22.03.2013 Forseti á fund með Pétri Valdimarssyni og Baldri Ágústssyni, fulltrúum samtakanna Samstaða þjóðar, um hugmyndir samtakanna um hvernig minnast bæri þess árangurs sem þjóðin hefði náð í Icesave málinu.
22.03.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu leiðtoga stúdentafélaga á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sem haldin er í Háskóla Íslands. Þar er fjallað um atvinnuhorfur og frumkvöðlaþjálfun í ljósi breytinga á upplýsingatækni og þróun hagkerfa samtímans. Í ávarpinu hvatti forseti til endurskoðunar á grunnforsendum háskólastarfsemi til að auðvelda námsmönnum að hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum og nýsköpun enda sláandi dæmi að nokkur stærstu fyrirtæki heims hefðu verið stofnuð af námsmönnum. Einnig væri athyglisvert hvernig þjóðirnar í Norður-Evrópu hefðu á undanförnum áratugum verið frjór vettvangur fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf.
23.03.2013 Forseti sækir tónleika í Hörpu þar sem KALAK, vinafélag Íslands og Grænlands, stóð fyrir söfnun í þágu íbúanna í Kulusuk svo hægt verði að reisa nýtt tónlistarhús í stað þess sem nýlega brann. Mikið fjölmenni var á tónleikunum og stuðningur við Grænlendinga.
25.03.2013 Forseti á fund með Rögnu Árnadóttur, formanni Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem settur var á laggirnar fyrir nokkru síðan. Þar koma saman fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs, fræðasamfélags til að vega og meta markmið sem æskilegt væri að íslenskt þjóðfélag setti sér á komandi árum.
25.03.2013 Forseti á fund með forráðamönnum Sjávarútvegsklasans og samstarfsverkefnisins Codland í höfuðstöðvum klasans. Rætt var um samstarf fjölmargra aðila á vettvangi sjávarútvegs, fullnýtingu afla, nýjar vörutegundir og þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum.
26.03.2013 Forseti ræðir við fréttamann kóresku sjónvarpsstöðvarinnar KBS um glímu Íslendinga við afleiðingar bankahrunsins, eflingu ferðaþjónustu og mikilvægi íslenskrar náttúru en ljóst er að vaxandi fjöldi fólks í Asíu hefur áhuga á að kynnast henni af eigin raun.
26.03.2013 Forseti tekur á móti nýrri sögu Alþýðusambands Íslands sem gefin hefur verið út í tilefni af væntanlegu hundrað ára afmæli samtakanna. Forystumenn ASÍ og höfundur ritverksins afhentu það á Bessastöðum.
27.03.2013 Forseti tekur á móti hópi nemenda frá Stanford háskólanum í Bandaríkjunum og ræðir við þá um þróun íslensks samfélags, samspil markaðar og velferðarkerfis, lærdómana af glímunni við fjármálakreppuna og hvernig nýsköpun hefur átt ríkan þátt í endurnýjun íslensks efnahagslífs.
27.03.2013 Forseti á fund með prófessor Ómari H. Kristmundssyni og Margréti S. Björnsdóttur, verkefnisstjóra við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, um hugmyndir varðandi stofnun Stjórnsýsluseturs smáríkja innan háskólans sem gæti verið framlag Íslands í þróunarsamvinnu við lítil ríki víða um heim.
31.03.2013 Forseti ræðir við indverska kvikmyndaleikstjórann Shekar Kapur sem vinnur að efni í heimildamynd um vatn á jörðinni og margvíslega þætti vatnsbúskapar á heimsvísu. Viðtalið birtist á vefsíðu hans en í því var meðal annars fjallað um bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum og Himalajasvæðinu, þróun úthafanna og áhrif loftslagsbreytinga á vatnsbúskap þjóða heims.
31.03.2013 Forseti á fund með hópi indverskra þingmanna í Delhi um samstarf við Ísland á ýmsum sviðum, m.a. um jöklarannsóknir og þjálfun ungra indverskra jöklafræðinga, nýtingu jarðhita og þurrkun matvæla í ljósi þeirrar reynslu sem Íslendingar hafa aflað sér um þurrkun á sjávarafurðum. Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Shashi Tharoor, Milind Deora og Sachin Pilot.

Apríl

01.04.2013 Forseti á fund með Jaipal Reddy, ráðherra vísinda og tækni í ríkistjórn Indlands, en hann sinnir m.a. eflingu jarðvísinda. Ráðherrann flutti ásamt forseta ræðu við setningu ráðstefnu um jökla Himalajafjalla sem haldin er í Wadia jarðvísindastofnuninni í Dehradun. Á fundinum var rætt um þá lærdóma sem draga má af þróun rannsóknarsamstarfs á Norðurslóðum, víðtækara samstarf um rannsóknir á náttúrufari og aukna samvinnu milli þeirra þjóða sem byggja Himalajasvæðið. Þá kynnti forseti ráðherranum skýrslu sem unnin hefur verið um þurrkun matvæla með sjálfbærum orkugjöfum.
01.04.2013 Forseti flutti í morgun, mánudaginn 1. apríl, setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um bráðnun jökla í Himalajafjöllunum. Ráðstefnuna, sem haldin er í Wadia jarðvísindastofnuninni í Dehradun á Indlandi, sækja vísindamenn og sérfræðingar frá Kína, Indlandi, Nepal, Pakistan, Mjanmar, Tadsjikistan og fleiri löndum á Himalajasvæðinu ásamt forystumönnum í jöklafræði frá Evrópu og Bandaríkjunum. Meðal þátttakenda eru íslenski jöklafræðingurinn Helgi Björnsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Þá hefur Dagfinnur Sveinbjörnsson stjórnmálahagfræðingur tekið þátt í undirbúningi ráðstefnunnar. Myndir. Fréttatilkynning.
02.04.2013 Forseti heimsækir hinn þekkta heimavistarskóla Doon og ræðir við stjórnendur skólans um hlutverk menntunar í samfélagi ólíkra trúarbragða, stéttaskiptingar og félagslegrar mismununar. Skólinn hefur ætíð lagt áherslu á að laða til sín nemendur af ólíkum þjóðfélagsstigum. Fjölmargir nemendur skólans hafa á undanförnum áratugum gegnt forystustörfum í indversku samfélagi. Mynd.
02.04.2013 Forseti á fund með Aziz Qureshi, ríkisstjóra Uttarakhand, þar sem rætt var um sambúð Indlands við helstu nágrannaríki, stjórnmálaþróun á lýðveldistíma Indlands en ríkisstjórinn gekk ungur í Kongressflokkinn á valdatíma Nehru og hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum á opinberum vettvangi. Að fundinum loknum efndi ríkisstjórinn til móttöku til heiðurs forseta þar sem m.a. voru rektorar nokkurra háskóla í fylkinu og forystufólk á sviði vísinda og rannsókna. Myndir.
02.04.2013 Forseti á fund með Vijay Bahuguna, forsætisráðherra Uttarakhand, um virkjun vatnsafls í fylkinu en fulltrúar Landsvirkjunar og Verkís hafa kannað möguleika á smærri vatnsaflsvirkjunum og indverskir sérfræðingar hafa vaxandi áhuga á samstarfi við Ísland á þessu sviði. Einnig var fjallað um mikilvægi náttúruverndar, verndun hinna miklu skóga fylkisins og hætturnar sem felast í bráðnun jökla á Himalajasvæðinu. Myndir.
02.04.2013 Forseti á fund með dr. Lonny Thompson, prófessor og forstöðumanni jöklarannsókna við Ohio State háskólann í Bandaríkjunum. Hann var ásamt Yao Tandong helsti hvatamaður að Third Pole Environment samstarfinu og hélt fyrir tæpum tveimur árum opinberan fyrirlestur í boði forseta og Háskóla Íslands um rannsóknir sínar á jöklum í ýmsum heimsálfum. Á fundinum var einkum rætt um margvíslegt framlag Íslands til alþjóðlegrar samvinnu í jöklarannsóknum.
02.04.2013 Forseti á fund með Yao Tandong, forstöðumanni kínverskrar rannsóknarstofnunar um Himalajasvæðið, en hann var meðal frumkvöðla þeirrar ráðstefnu sem nú er haldin í Dehradun á Indlandi. Yao Tandong flutti fyrir fáeinum árum opinberan fyrirlestur í boði forseta Íslands og Háskóla Íslands og átti ríkan þátt í að haldin var á Íslandi árið 2011 þriðja ráðstefnan um jökla á Himalajasvæðinu undir heitinu Third Pole Environment Workshop. Rætt var um aukinn áhuga á rannsóknum á Norðurslóðum og þróun rannsókna á Himalajasvæðinu.
02.04.2013 Forseti á fund með dr. David J. Molden, forstöðumanni ICIMOD stofnunarinnar sem er alþjóðleg stofnun með aðsetur í Katmandu í Nepal og komið var á fót til að efla vísindasamvinnu milli þjóðanna á Himalajasvæðinu. Á fundinum var einkum fjallað um hvernig efla mætti tengsl stofnunarinnar við rannsóknarsamfélög á Norðurslóðum og aðstoð hennar við að þjálfa unga jöklafræðinga, sérstaklega frá smærri ríkjum á Himalajasvæðinu. Mynd.
02.04.2013 Forseti á fund með dr. Anil Gupta, forstöðumanni Wadia jarðvísindastofnunarinnar í Dehradun, um samstarf við Ísland á sviði jarðskjálftarannsókna en Ragnar Stefánsson fyrrverandi prófessor hefur haft forgöngu um það. Þá var einnig rætt um þjálfun ungra indverskra jöklafræðinga á Íslandi en henni var komið á í kjölfar þess að forseti var sæmdur Nehru verðlaununum í Delhi árið 2010. Þá var einnig rætt um hvernig koma mætti á víðtækara samstarfi milli þjóða og vísindasamfélaga á Himalajasvæðinu, m.a. í ljósi reynslunnar af slíku samstarfi á Norðurslóðum. Mynd.
03.04.2013 Forseti ræðir við Farooq Abdullah, ráðherra endurnýjanlegrar orku í ríkisstjórn Indlands, en hann heimsótti Ísland fyrir þremur árum og kynnti sér þá einkum nýtingu jarðhita. Í viðræðunum tóku einnig þátt m.a. R. K. Pachauri, formaður Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), Montek Singh Ahluwalia, yfirmaður efnahagsáætlana á Indlandi, Omar Abdoullah, forsætisráðherra Kasmírs, og Preneet Kaur, varautanríkisráðherra Indlands, sem einnig hefur heimsótt Ísland. Rætt var um framlag Íslendinga til aukinnar nýtingar hreinnar orku á Indlandi og þörfina á því að stórauka þurrkun matvæla með hreinni orku í anda þeirrar reynslu sem skapast hefur í íslenskum sjávarútvegi. Þá var einnig rætt ítarlega um þörfina á að efla jöklarannsóknir á Indlandi og hætturnar sem bráðnun Himalajajökla skapar fyrir vatnsbúskap og fæðuöryggi Indlands á komandi áratugum. Myndir.
03.04.2013 Forseti á fund með utanríkisráðherra Indlands, Salman Khurshid, um vaxandi samvinnu landanna á sviði vísinda og tækni. Íslensk orku- og verkfræðifyrirtæki, t.d. Reykjavik Geothermal, Verkís og Landsvirkjun, hafa kannað möguleika á nýtingu hreinnar orku á Indlandi. Íslenskir jöklafræðingar og náttúruvísindamenn hafa tekið þátt í Third Pole samstarfinu og lýsti ráðherrann ánægju með árangurinn af ráðstefnunni sem haldin hefur verið í Dehradun undanfarna daga. Þá var fjallað um áhuga Indlands á að fá áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og áréttaði forseti að mikilvægt væri að fjarlæg ríki, sem áhuga hefðu á Norðurslóðum, tækju virkan þátt í rannsóknum og vísindasamstarfi. Þá var einnig rætt um aukið samstarf þjóða á Himalajasvæðinu og hvernig framganga hins svonefnda BRIC ríkjahóps væri að breyta hlutföllum í efnahagslífi veraldar. Myndir.
03.04.2013 Forseti heimsækir Welham skólann í Dehradun, flytur erindi um loftslagsbreytingar og fæðuöryggi og svarar að því loknu fyrirspurnum nemenda. Myndir.
04.04.2013 Forseti heldur fyrirlestur við TERI háskólann í Delí um hagkerfi hreinnar orku og framlag þess til að efla fæðuöryggi í veröldinni. Eftir fyrirlesturinn svaraði forseti fyrirspurnum nemenda og kennara. Þá átti forseti fund með dr. R. K. Pachauri, forstöðumanni TERI og formanni Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, dr. Leena Srivastava og fleiri leiðtogum háskólans um samstarf hans við íslenskar menntastofnanir en TERI háskólinn og Háskóli Íslands undirrituðu samkomulag um samstarf fyrir nokkrum árum. Myndir.
04.04.2013 Forseti á fund með Shashi Tharoor, þingmanni og ráðherra sem fyrrum var aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, um þróun þjóðlífs og stjórnmála á Indlandi, lýðræðishefðir og árangur á sviði efnahagsmála. Þá var einnig rætt um nýskipan á vettvangi alþjóðamála en Tharoor hefur einnig á undanförnum árum skrifað nokkrar bækur um nútímasögu Indlands og stöðu landsins í heimsskipan nýrrar aldar.
05.04.2013 Forseti flytur fyrirlestur við Indlandsdeild Aspen stofnunarinnar og situr fyrir svörum. Fyrirlesturinn, sem bar heitið 'The AHA-Moment: India and Our Ice-Covered World', fjallaði um áhrif bráðnunar íss og jökla á heimskautasvæðum og í fjöllum Himalaja og nauðsyn þess að efla alþjóðlegt samstarf um rannsóknir á þessu sviði. Þar hefði Indland mikilvægu hlutverki að gegna. Upptaka Aspen stofnunarinnar á fyrirlestrinum.
05.04.2013 Forseti ræðir við Krishna Rasgotra, Mani Shankar Aiyar og Chinmaya Gharekhan, sem allir voru um árabil áhrifamenn í indverskum utanríkismálum, um þróun sambúðar þjóðanna sem tengjast um Himalajafjöllin og hvernig hægt er að þróa samræður um aukið samstarf, sameiginlegar rannsóknir á bráðnun jökla, vatnsbúskap og hætturnar sem hraðar loftslagsbreytingar skapa fyrir efnahagslíf, menningu og siði.
05.04.2013 Forseti átti fund með Manmohan Singh forsætisráðherra Indlands í gær, fimmtudaginn 4. apríl. Þá átti forseti einnig fund með Pranab Mukherjee forseta Indlands síðdegis í dag, föstudaginn 5. apríl. Einnig hefur forseti Íslands átt viðræður við fjölmarga aðra indverskra forystumenn undanfarna daga. Forsætisráðherra Indlands, Manmohan Singh, fagnaði því sérstaklega að Indverjar ættu nú kost á því að ungir indverskir jöklafræðingar sæktu þjálfun og reynslu til Háskóla Íslands og íslensks vísindasamfélags. Forsætisráðherrann þakkaði forseta Íslands og íslenskum vísindamönnum fyrir aðstoð þeirra við að koma á ráðstefnu um þróun jökla á Himalajasvæðinu sem haldin var fyrr í vikunni í Dehradun. Myndir. Fréttatilkynning.
05.04.2013 Forseti á fund með stjórnendum Thermax orkufyrirtækisins sem ásamt Reykjavik Geothermal hefur unnið að jarðhitaverkefnum í Kasmír og Maharashtra. Vaxandi áhugi er á nýtingu jarðhita á Indlandi og verulegur árangur hefur náðst frá því verkefni á þessu sviði voru rædd í opinberri heimsókn forseta Íslands til Indlands árið 2010.
05.04.2013 Forseti á fund með forstöðumanni Heimskautastofnunar Indlands og indverskum embættismönnum þar sem lýst var rannsóknum Indverja á Svalbarða og Suðurskautslandinu sem og áhuga indverskra stjórnvalda á áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Forseti áréttaði á fundinum nauðsyn samstarfs um rannsóknir á öllum jökla- og íssvæðum veraldar. Samanburðarrannsóknir á Norðurslóðum og Himalajasvæðinu gætu skilað miklum árangri og mikilvægt væri að ríki í fjarlægum heimsálfum, sem áhuga hefðu á Norðurslóðum, væru virkir þátttakendur í rannsóknum og þekkingaröflun.
05.04.2013 Forseti á fund með Sharad Pawar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Indlands, um áhuga Indverja á að nýta reynslu og aðferðir Íslendinga við að efla sjálfbæran og arðbæran sjávarútveg á Indlandi, m.a. með beitingu upplýsingatækni og betri nýtingu sjávarafla með þurrkun og öðrum slíkum aðferðum.
05.04.2013 Forseti á fund með dr. Anil Kulkarni, stjórnanda Indversku vísindastofnunarinnar, um árangurinn sem náðst hefur í þjálfun indverskra jöklafræðinga með samvinnu við Háskóla Íslands og íslenska vísindasamfélagið. Grundvöllurinn að þeirri þjálfun var lagður í kjölfar Nehru verðlaunanna, sem forseti tók við árið 2010 á Indlandi, og nú er rætt um verulega eflingu þessa samstarfs á komandi árum.
06.04.2013 Forseti tekur þátt í hringborðsumræðum við Jindal háskólann um áhrif netvæðingar á þróun lýðræðis, breytta skipan ríkisvalds og möguleika almennings og einstaklinga til að hafa áhrif á stefnu og aðgerðir stjórnvalda. Í hringborðsumræðunum rakti forseti m.a. hvernig félagsmiðlar hefðu verið áhrifaríkt tæki mótmælenda í kjölfar bankahrunsins á Íslandi og hvernig netvæðing hefði gert þúsundum landsmanna kleift að hafa afdrifarík áhrif á þróun Icesave deilunnar.
07.04.2013 Forseti á fund með Larry Brilliant, forstöðumanni Skoll Global Threats Fund sem lengi starfaði á Indlandi, og samstarfsfólki hans. Rætt var um þróun aukins samstarfs meðal samfélaga og þjóða á Himalajasvæðinu í ljósi áhrifa bráðnunar jökla og loftslagsbreytinga á vatnsbúskap, fæðuöflun og lífshætti en ýmsir stjórnendur Skoll Global Threats Fund hafa víðtæka þekkingu á þessu svæði.
08.04.2013 Forseti ræðir við Boris Petzold, fréttamann frönsku sjónvarpsstöðvarinnar ARTE, um lærdómana af glímunni við fjármálakreppuna, Icesave málið, samspil lýðræðis og markaðar og efnahagserfiðleikana í Evrópu.
09.04.2013 Forseti á fund með Mani Shankhar Aiyar, þingmanni og fyrrum ráðherra á Indlandi, sem sækir The Reykjavík Congress on Human Rights 2013, ráðstefnu sem haldin verður á Íslandi í vikunni. Rætt var um þróun efnahagslífs og stjórnmála á Indlandi, sambúð þjóðanna á Himalajasvæðinu og nauðsyn aukinna samræðna þeirra á milli um áhrif bráðnunar jökla á vatnsbúskap og efnahagslíf.
10.04.2013 Forseti afhendir Útflutningsverðlaun við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og komu þau í hlut sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda hf. Verðlaunin voru veitt fyrir einstakt framlag fyrirtækisins til vinnslu og sölu íslenskra sjávarafurða og forystu þess í nýsköpun á þessu sviði. Þá afhenti forseti einnig sérstaka heiðursviðurkenningu til Jóhanns Sigurðssonar bókaútgefanda fyrir framlag hans til að auka hróður Íslands á erlendri grundu með heildarútgáfu Íslendingasagna, fyrst á ensku og nú á Norðurlandamálum. Fréttatilkynning.
10.04.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu Félags prófessora við ríkisháskólana og Fræðagarðs, félags háskólamanna, um framtíð og málefni háskólanna í landinu. Í ávarpinu rakti forseti hvernig upplýsingatækni og netvæðing eru að gjörbylta öllu starfi og skipulagi háskólanna, opna ungu fólki í öllum álfum nýjar leiðir til menntunar. Nefndi hann sem dæmi tólf ára stúlku í Pakistan sem í gegnum netið hefði sótt nám í Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Þá ítrekaði forseti nauðsyn á samvinnu allra háskólanna á Íslandi svo að erlendar vísindastofnanir og aðrir áhrifaaðilar ættu greiða leið að samstarfi við Ísland. Einnig þyrfti að veita íslenskum stúdentum tækifæri til að stunda í senn nám við alla háskóla í landinu, velja sér leiðir að eigin vali. Í reynd þyrfti að verða til nýr "Háskóli Íslands'' með aðild allra stofnana sem þó gætu haldið sínu stjórnsýslulega sjálfstæði.
11.04.2013 Forseti á viðræður við þátttakendur í alþjóðlegri ráðstefnu um mannréttindi og menningu sem haldin er í Reykjavík í samvinnu innanríkisráðuneytisins og Institute for Cultural Diplomacy í Berlín. Á ráðstefnunni, sem ber heitið "Human Rights Protection & International Law" er rætt um eflingu mannréttinda og baráttu minnihlutahópa, hvernig þjóðir heims geta stuðlað að auknu frelsi og réttlæti allra. Í ráðstefnunni taka þátt ýmsir forystumenn frá ríkjum Evrópu og öðrum heimshlutum sem og ungt fólk sem leggur stund á mannréttindarannsóknir. Vefur stofnunarinnar.
11.04.2013 Forseti ræðir við fréttamann spænska ríkissjónvarpsins TVE um lærdómana af endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og glímuna við hrun bankanna, togstreituna milli fjármálamarkaðar og lýðræðis og hvernig hún endurspeglast í ýmsum löndum Evrópu um þessar mundir.
12.04.2013 Forseti heimsækir Rannsóknarstöð hreinnar orku, National Renewable Energy Laboratory, sem Orkuráðuneyti Bandaríkjanna starfrækir í Denver. Rannsóknarstöðin er meðal hinna fremstu í veröldinni og vinna þar rúmlega þúsund vísindamenn og sérfræðingar að nýsköpun, rannsóknum og þróun. Dr. Dan Arvizu, stjórnandi rannsóknarstöðvarinnar, kynnti forseta ýmis verkefni á sviði endurnýjanlegrar orku, áætlanir um aukna nýtingu hennar í Bandaríkjunum á næstu áratugum, nýsköpun í samtengingu orkukerfa og tilraunir um orkusparnað og nýja orkutækni fyrir ýmis stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna. Þá var rætt um þörfina fyrir breyttar áherslur í stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs og möguleika á samstarfi við Íslendinga, einkum á sviði jarðhita. Myndir (ljósmyndari: Dennis Schroeder/NREL).
15.04.2013 Forseti ræðir við BBC World Service um þróun samstarfs á Norðurslóðum, mikilvægi umhverfisverndar, leit að olíu á Drekasvæðinu, endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og glímuna við fjármálakreppuna í Evrópu.
15.04.2013 Forseti á fund með Dianne Feinstein öldungadeildarþingmanni á skrifstofu hennar í Öldungadeild Bandaríkjaþings. Rætt var um aukna nýtingu jarðhita í Bandaríkjunum, m.a. í heimaríki hennar, Kaliforníu, og samvinnu við íslenska vísindamenn og tæknifyrirtæki á því sviði. Þá var einnig rætt um aukið mikilvægi Norðurslóða í utanríkisstefnu Bandaríkjanna og áhuga ríkja í Asíu og Evrópu á auðlindanýtingu og nýjum siglingaleiðum á svæðinu, breytt viðhorf í öryggismálum og þörfina á víðtæku rannsóknarsamstarfi. Mynd.
15.04.2013 Forseti á fund með Tom Harkin öldungadeildarþingmanni á skrifstofu hans í Öldungadeild Bandaríkjaþings. Rætt var um þróun mála á Norðurslóðum og stefnumótun Bandaríkjanna þegar þau taka við formennsku í Norðurskautsráðinu eftir tvö ár. Einnig var rætt um áhrif bráðnunar íss á veðrakerfi veraldar, loftslagsbreytingar og aukna nýtingu hreinnar orku. Mynd.
15.04.2013 Forseti kynnir í National Press Club í Washington nýjan alþjóðlegan vettvang sem ætlað er að efla samstarf um málefni Norðurslóða. Fréttatilkynning. Mynd.
16.04.2013 Forseti flytur ræðu á kvöldverðarfundi sem haldinn er í sendiráði Kanada í Washington í tilefni af ráðstefnu um málefni Norðurslóða sem Brookings stofnunin efnir til. Einnig fluttu ræður Gary Doer, sendiherra Kanada og fyrrum forsætisráðherra Manitoba fylkis, Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður og Martin Indyk, stjórnandi utanríkismáladeildar Brookings stofnunarinnar. Myndir.
16.04.2013 Forseti á fund með Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmanni frá Alaska, á skrifstofu hennar í bandaríska þinginu. Rætt var um aukið mikilvægi Norðurslóða, væntanlega formennsku Kanada og Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og þau tækifæri til víðtækrar umræðu um málefni Norðurslóða sem hið nýja Hringborð Norðurslóða gæti skapað en Lisa Murkowski er meðal þeirra sem hafa ýtt því úr vör. Myndir.
16.04.2013 Forseti á fund með Jon Tester öldungadeildarþingmanni á skrifstofu hans í Öldungadeild Bandaríkjaþings. Á fundinum var m.a. fjallað um nauðsyn þess að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap Bandaríkjanna, m.a. í heimaríki hans, Montana, og samvinnu við íslenska vísindamenn og tæknifyrirtæki í því skyni. Mynd.
16.04.2013 Forseti situr fyrir svörum á hádegisverðarfundi í Utanríkismálaráði Bandaríkjanna, Council on Foreign Relations, sem haldinn var í Washington, og svaraði spurningum Scott Borgerson fundarstjóra og fundarmanna um margvísleg málefni Norðurslóða. Myndir (ljósmyndir: Sardari Group/Council on Foreign Relations).
16.04.2013 Forseti á ásamt Alice Rogoff, útgefanda AlaskaDispatch, og Kuupik Kleist, fyrrum forsætisráðherra Grænlands, fund með ritstjórn Washington Post þar sem rætt var um þróun Norðurslóða, vaxandi áhuga ríkja í Asíu og Evrópu á málefnum svæðisins, væntanlega formennsku Kanada og Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og hvernig hinn nýi vettvangur, Hringborð Norðurslóða, getur nýst í þágu víðtækrar og lýðræðislegrar umræðu um stefnumótun á svæðinu.
16.04.2013 Forseti á fund með fyrrum forsætisráðherra Grænlands, Kuupik Kleist, sem sækir ásamt forseta Norðurslóðaráðstefnu Brookings stofnunarinnar í Washington. Rætt var um væntanlega starfsemi Hringborðs Norðurslóða en Kuupik Kleist hefur ásamt forseta og öðrum þátttakendum í málefnum Norðurslóða átt hlutdeild í stofnun þess.
17.04.2013 Forseti ræðir við ritstjórn Washington Times um samvinnu á Norðurslóðum, bráðnun íss og áhrif þess á veðurkerfi veraldar, áhuga ríkja í Evrópu og Asíu á Norðurslóðum, nýtingu jarðhita í Bandaríkjunum og reynslu Íslendinga af glímunni við fjármálakreppuna. Mynd.
17.04.2013 Forseti flytur setningarræðu á Norðurslóðaráðstefnu Brookings stofnunarinnar í Washington þar sem einkum var fjallað um aukna samvinnu á Norðurslóðum, þróun Norðurskautsráðsins, orkumál og réttindi frumbyggja og þátttöku þeirra í ákvarðanatöku um málefni Norðurslóða. Á ráðstefnunni, sem var hin fyrsta sem Brookings stofnunin efnir til um Norðurslóðir, fluttu einnig ræður Kuupik Kleist fyrrverandi forsætisráðherra Grænlands, fulltrúar ýmissa ríkja sem sæti eiga í Norðurskautsráðinu, áhrifafólk í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og ríkisstjórn Alaska auk forystufólks frumbyggjasamfélaga í Alaska. Ráðstefnan er liður í undirbúningi Brookings stofnunarinnar að víðtækri stefnumótun í málefnum Norðurslóða í samvinnu við Hoover stofnunina en Bandaríkin munu eftir tvö ár taka við formennsku í Norðurskautsráðinu. Upptökur frá fundinum hjá Brookings. Myndir (ljósmyndari: Sharon Farmer/sfphotoworks).
17.04.2013 Forseti átti í gær þriðjudaginn 16. apríl fund í Washington með Harry Reid, leiðtoga demókrata í Öldungadeild Bandaríkjaþings, og Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í Öldungadeildinni. Á fundinum var rætt um aukið mikilvægi Norðurslóða, samstarf í Norðurskautsráðinu og áhuga forystuþjóða í Asíu og Evrópu á þátttöku í stefnumótun og framtíðarþróun Norðurslóða. Bandaríkin munu taka við formennsku í Norðurskautsráðinu eftir tvö ár og því skiptir miklu að forystusveitir beggja flokkanna á bandaríska þinginu gefi málefnum Norðurslóða aukið vægi og verði virkir þátttakendur í stefnumótun. Fréttatilkynning. Myndir.
18.04.2013 Forseti ræðir við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina Bloomberg í beinni útsendingu frá Washington um Hringborð Norðurslóða, The Arctic Circle, þróun samstarfs á þeim slóðum, bráðnun íss og áhrif hennar á veðurkerfi veraldar, glímu Íslendinga við efnahagskreppuna og umræðuna um Evrópusambandið.
18.04.2013 Forseti á fund með Rachel Kyte, Juergen Voegele og öðrum stjórnendum Alþjóðabankans um möguleika á þurrkun matvæla á grundvelli þeirrar reynslu sem Íslendingar hafa aflað sér við þurrkun sjávarfangs. Víðtækur áhugi er á tilraunum með þurrkun margvíslegra matvæla á nokkrum stöðum í Asíu og Afríku. Á grundvelli þeirrar reynslu yrði rætt um alþjóðlegt átak á þessu sviði. Mynd.
18.04.2013 Forseti á fund með Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um málefni Norðurslóða, þróun Norðurskautsráðsins, hugsanlegt framlag Hringborðs Norðurslóða til víðtækrar umræðu og ábyrgrar stefnumótunar á þessum vettvangi sem og vaxandi áhuga ríkja í Evrópu og Asíu á málefnum Norðurslóða. Fundinn sat einnig Alice Rogoff, útgefandi AlaskaDispatch og hvatamaður að stofnun Hringborðs Norðurslóða. Mynd.
18.04.2013 Forseti á fund með ritstjórn tímaritsins The Atlantic um málefni Norðurslóða, tilganginn með stofnun The Arctic Circle, viðfangsefni ríkja á Norðurslóðum og áhuga stjórnvalda í Evrópu og Asíu á þróun Norðurslóða.
18.04.2013 Forseti á fundi í Þinghúsinu í Washington með öldungadeildarþingmönnunum Mark Udall, Ron Wyden og Mark Begich þar sem rætt var um Hringborð Norðurslóða, The Arctic Circle, sem mun koma saman í Reykjavík í október næstkomandi, margvísleg málefni Norðurslóða sem og væntanlega forystu Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu. Einnig var fjallað um nýtingu jarðhita og áhuga þingmannanna á því að kynna sér reynslu og tækni Íslendinga á því sviði. Myndir.
19.04.2013 Forseti á fund með nokkrum embættismönnum Hvíta hússins um stefnumótun í málefnum Norðurslóða, einkum með tilliti til aukins áhuga þjóða víða um heim, árangurs Norðurskautsráðsins, réttinda frumbyggja, bráðnunar íss og nýtingar auðlinda.
19.04.2013 Forseti á fund með dr. David Danielsson, ráðherra sjálfbærrar orku, í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna, um framhald á jarðhitasamvinnu við Íslendinga, einkum með tilliti til jarðhitanýtingar á tilteknum svæðum í Bandaríkjunum og tækninýjungar á þessu sviði. Fundinn sátu einnig ýmsir embættismenn orkumálaráðuneytisins. Myndir (ljósmyndir: Ken Shipp/DOE Photo).
19.04.2013 Forseti hefur að ósk Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og Jim Yong Kim, framkvæmdastjóra Alþjóðabankans, tekið sæti í nýrri ráðgjafanefnd um sjálfbæra orku sem þeir hafa sett á laggirnar. Fyrsti fundur ráðgjafanefndarinnar hófst í morgun í höfuðstöðvum Alþjóðabankans í Washington með ræðum Ban Ki-moon og Jim Yong Kim. Fréttatilkynning. Mynd.
21.04.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi samkomu í Háskólabíói í tilefni af Degi Jarðar. Ráðstefnan er skipulögð af Grænum apríl og eru þar flutt margvísleg erindi um hlýnun Jarðar, bráðnun íss á heimskautasvæðum og áhrifin á veðurfar og lífsskilyrði. Í ávarpinu áréttaði forseti nauðsyn þess að Íslendingar sinntu skyldum sínum í hinu alþjóðlega samfélagi, m.a. í ljósi þess að rannsóknir á íslenskum jöklum og náttúru væru mikilvægt gagnasafn og framlag til upplýstrar umræðu. Vefsíða Græns apríls.
21.04.2013 Forseti flytur ávarp við setningu alþjóðlegrar ráðstefnu á sviði fornleifafræði, Nordic TAG, sem haldin er í Háskóla Íslands. Fulltrúum frá þjóðminjasöfnum Grænlands og Færeyja hefur verið boðið til ráðstefnunnar og verður þar m.a. fjallað um menningararf og minjavörslu á Norðurslóðum. Í ávarpinu áréttaði forseti nauðsyn þess að virða menningu og sögu frumbyggja á Norðurslóðum og varasamt væri að telja Norðurslóðir til jaðarsvæða því í hugum þeirra sem byggt hefðu þau um þúsundir ára væru þær sú veröld sem þá skipti mestu. Hefðin á Vesturlöndum væri að líta á frumbyggja sem jaðarfólk; mikilvægt væri að rannsóknir í fornleifafræði minntu menn á mikilvægan menningararf og sögu þeirra sem byggt hafa Norðurslóðir löngu áður en Norðurslóðaríkin urðu til. Vefur ráðstefnunnar.
23.04.2013 Forseti á fund með stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda þar sem rætt var um stöðu sauðfjárræktar, þátt framleiðslu lambakjöts í ferðaþjónustu komandi ára, nýjar leiðir í ferðamennsku til sveita og nýliðun í sauðfjárbúskap.
23.04.2013 Forseti afhendir Íslensku þýðingaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Formaður dómnefndar, Jórunn Sigurðardóttir, kynnti verkin sem tilefnd voru en verðlaunin hlaut Kristín Guðrún Jónsdóttir fyrir verkið Svarti sauðurinn eftir Augusto Monterroso.
23.04.2013 Forseti tekur á móti hópi eldri borgara á vegum Félagsmiðstöðvarinnar á Vesturgötu og ræðir við þá um sögu Bessastaða, minjar frá landsnámstíð og síðari öldum, Bessastaðaskóla og gripi sem endurspegla sögu lýðveldisins.
24.04.2013 Forseti á fund með fulltrúum Háskólans í Fairbanks í Alaska og íslenskum samstarfsaðilum þeirra um samstarf í rannsóknum sem einkum beinist að því að nýta litlar ómannaðar flugvélar í þágu rannsókna á fjölmörgum þáttum náttúru og lífríkis. Aðstæður í Alaska og á Íslandi eru hentugar til slíks þróunarstarfs og hafa í þessu skyni verið viðræður bæði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
24.04.2013 Forseti á fund með skipuleggjendum Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle en fyrsta þing þess verður haldið í Reykjavík um miðjan október þar sem fjallað verður um margvísleg málefni Norðurslóða með þátttöku fjölmargra aðila. Sjá vefsíðu Arctic Circle.
25.04.2013 Forseti afhendir verðlaun á Evrópumóti í glímu sem haldið er í íþróttamiðstöðinni Laugabóli, húsnæði Glímufélagsins Ármanns. Keppendur frá tíu þjóðum og héruðum í Evrópu taka þátt í mótinu.
25.04.2013 Forseti afhendir umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar á sumarsamkomu í Garðyrkjuskólanum þar sem einnig voru veitt verðlaun fyrir margvíslegt framlag til garðyrkju í landinu. Umhverfisverðlaunin hlaut Björn Pálsson fyrrverandi skjalavörður fyrir framlag til náttúruverndar og umhverfismála.
25.04.2013 Forseti sækir skátamessu í Hallgrímskirkju í tilefni sumardagsins fyrsta.
26.04.2013 Forseti á fund með sendinefnd ÖSE sem fylgist með Alþingiskosningunum. Rætt var um formlegar kröfur til framboðs, hve opið íslenska kerfið er fyrir nýjum framboðum, umfjöllun fjölmiðla og tækifæri ólíkra aðila til að koma málefnum á framfæri. Slíkt mat þyrfti einnig að taka mið af stöðu mála í öðrum löndum og almennum kröfum um þróað lýðræði.
26.04.2013 Forseti á fund með þjóðminjaverði Margréti Hallgrímsdóttur um málefni Þjóðminjasafnsins og viðburði í tilefni af 150 ára afmæli þess, m.a. útgáfu á riti um íslenska silfursmíði.
27.04.2013 Forseti tekur á móti hópi frumkvöðla frá Bandaríkjunum sem heimsótt hafa Ísland til að kynna sér atvinnulíf, nýsköpun og samfélagshætti. Í umræðunum var m.a. fjallað um hvernig uppbygging velferðarþjónustu og menntunar hefur styrkt efnahagslíf og samkeppnishæfni á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum, dæmi voru tekin af ýmsum fyrirtækjum sem sprottið hafa úr jarðvegi nýsköpunar á Íslandi og orðið áhrifarík á heimsvísu, vöxt ýmissa atvinnugreina í kjölfar fjármálakreppunnar og hvernig Íslendingum hefur tekist að varðveita samfélag lýðræðis og friðsældar.
27.04.2013 Forseti á fund með Helga Björnssyni jöklafræðingi og Dagfinni Sveinbjörnssyni um framhald þjálfunar indverskra jöklafræðinga á Íslandi og samstarf um rannsóknarverkefni vaðandi jökla Himalajafjalla og jökla og ísbreiður á Norðurslóðum sem og væntanlegan fund Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle í haust. Fundurinn var haldinn í framhaldi af viðræðum sem forseti átti á Indlandi og í Washington fyrr í þessum mánuði.
27.04.2013 Forseti á fund með Tracey Foster, Robyn Engibous og Dagfinni Sveinbjörnssyni um undirbúning vegna þings Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í október. Vefsíða Hringborðs Norðurslóða.
28.04.2013 Forseti ræðir við fréttamenn í kjölfar fundar með fráfarandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og greindi frá niðurstöðum fundarins og jafnframt að hann myndi á morgun eiga viðræður við formenn flokka sem setu eiga á Alþingi í kjölfar Alþingiskosninganna.
28.04.2013 Forseti á fund með forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Forseti féllst á lausnarbeiðnina en bað ríkisstjórnina jafnframt að sitja áfram þar til ný ríkisstjórn tekur við.
29.04.2013 Forseti ræðir niðurstöður alþingiskosninga og viðhorf til stjórnarmyndunar á fundum með formönnum flokkanna sem fulltrúa eiga á Alþingi. Til fundar við forseta komu: formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson, formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Samfylkingarinnar - Jafnaðarmannaflokks Íslands Árni Páll Árnason, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs Katrín Jakobsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar Guðmundur Steingrímsson og Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður flokksins, og að síðustu kapteinn Pírata, Birgitta Jónsdóttir.
30.04.2013 Forseti á fund með formanni Framsóknarflokksins Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kl. 11:30 á Bessastöðum. Fréttatilkynning.
02.05.2013 Forseti kaupir fyrsta armbandið sem ADHD samtökin selja í því skyni að efla þjónustu í þágu barna og fullorðinna með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir og til að auka skilning í samfélaginu. Söfnunin ber kjörorðið "Ég er gimsteinn - hvað með þig?"
02.05.2013 Forseti á fund með rektor Háskólans í Reykjavík Ara K. Jónssyni, Höllu Hrund Logadóttur og Ágústi Valfells um þróun alþjóðlegs orkuskóla á vegum Háskólans í Reykjavík en hann byði fjölþætt nám í nýtingu hreinnar orku og tækifærum sem hún skapar fyrir þróun atvinnulífs. Slíkur skóli byggði á þekkingu og reynslu Íslendinga og samvinnu við stofnanir og fyrirtæki á sviði orkunýtingar.
03.05.2013 Forseti tekur á móti hópi einstaklinga sem afhenda undirskriftir nokkurra þúsunda Íslendinga sem mótmæla þeim breytingum sem gerðar hafa verið á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði. Í samræðum lýstu þau hvernig kröfur um greiðslu sjúklinga komi í veg fyrir að einstaklingar með langvarandi og alvarlega sjúkdóma geti greitt fyrir lyf sín og lyfjabúðir séu jafnvel farnar að taka upp lánasamninga til að gera fólki kleift að fá nauðsynleg lyf.
03.05.2013 Forseti flytur ávarp á minningarathöfn sem haldin er í Andrews Theater á Ásbrú á Keflavíkurflugvelli þar sem minnst var Frank Maxwell Andrews hershöfðingja og áhafnar og farþega B-24D sprengjuflugvélarinnar Hot Stuff sem fórst í Fagradalsfjalli í nágrenni Grindavíkur 3. maí 1943. Andrews hershöfðingi var þá yfirmaður heraflans í Evrópu og hafði tekið við því verkefni af Dwight D. Eisenhower og hefði stjórnað frelsun Evrópu hefði hann lifað. Útför hans, áhafnar og farþega var á sínum tíma gerð með viðhöfn í Reykjavík en jarðneskar leifar hans síðan fluttar til Bandaríkjanna þar sem hann hvílir í heiðurskirkjugarðinum í Arlington í Washington D.C. Auk forseta fluttu ávörp við athöfnina sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga, Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup, Hjálmar Árnason, stjórnandi Keilis, Friðþór Eydal, George M. Morrison, fyrrum foringi Massachusetts herdeildarinnar, og Jim Lux sagnfræðingur sem sýndi kvikmynd frá flakinu í Fagradalsfjalli og útförinni í Reykjavík sem nýlega fannst í skjalasafni bandaríska hersins.
06.05.2013 Forseti tekur á móti hópi frá Safnaðarfélagi Grafarvogskirkju og ræðir um sögu Bessastaða að fornu og nýju, skólahald á fyrstu áratugum 19. aldar, þróun lýðveldis og hvernig munir og minjar á staðnum endurspegla ólík skeið í sögu Bessastaða og þjóðarinnar.
06.05.2013 Forseti á fund með sendiherra Ítalíu, Antonio Bandini, sem senn lætur af störfum. Rætt var um langvarandi samband Íslands og Ítalíu, samstarf forseta á fyrri áratugum við nýjan utanríkisráðherra Ítalíu Emmu Bonino, þróun mála í Evrópusambandinu og á Norðurslóðum sem og áhrif nýliðinna alþingiskosninga á viðræður Íslands við Evrópusambandið.
06.05.2013 Forseti á fund með rektor Háskóla Íslands Kristínu Ingólfsdóttur um þróun háskólans á komandi árum og mikilvæg svið fræða og vísinda þar sem skólinn getur verið öflugur þátttakandi í þróun alþjóðlegrar þekkingar. Einnig var fjallað sérstaklega um Norðurslóðir og skipulag þátttöku íslenska háskólasamfélagsins á því sviði sem og kennslu og þjálfun á sviði orkumála.
06.05.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Singapúrs, hr. Thambynathan Jasudasen, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Hann er fyrsti sendiherra Singapúrs á Íslandi, skipaður í ljósi vaxandi áhuga stjórnvalda í Singapúr á þróun Norðurslóða en Singapúr hefur sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Rætt var um framlag Singapúrs á þessu sviði og þar á meðal rannsóknir þeirra á þróun íss og jökla í ljósi hættunnar á hækkun sjávarborðs sem myndi hafa hrikalegar afleiðingar fyrir Singapúr. Fyrirtæki og stjórnvöld í Singapúr hafa áhuga á opnun nýrra siglingaleiða um norðurhöf og þróun hafna þar og hafa rannsóknarstofnanir og vísindasamfélagið í Singapúr einbeitt sér í vaxandi mæli að rannsóknum á Norðurslóðum. Þá hefur nýlega verið lokið við byggingu tveggja ísbrjóta í Singapúr og landið hefur einnig sérhæft sig í styrkingu olíuborpalla vegna íss á Norðurslóðum. Mynd.
06.05.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Taílands, frú Vimon Kidchob, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um hið öfluga samfélag Taílendinga á Íslandi en sendiherrann hafði áður heimsótt hóp Taílendinga á Akureyri og kynnst ánægju þeirra með störf, aðbúnað og þjóðfélagshætti á Íslandi. Þá var einnig rætt um aukin samskipti Íslands við ríki í Asíu og möguleika á nýtingu hreinnar orku í Taílandi. Mynd.
06.05.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Spánar, hr. Antonio López Martinez, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um efnahagserfiðleikana á Spáni og áhrif fjármálakreppunnar í Evrópu, lærdómana sem draga má af reynslu Íslendinga og mikilvægi þess að varðveita lýðræðishefðir Evrópu á tímum efnahagslegra erfiðleika. Þá var einnig fjallað um horfurnar í viðræðum Íslands við Evrópusambandið. Mynd.
07.05.2013 Forseti á fund með sendiherra Bandaríkjanna Luis E. Arreaga um árangurinn af viðræðum og fundum forseta í Washington í síðasta mánuði, einkum varðandi samvinnu í málefnum Norðurslóða, m.a. með tilliti til væntanlegrar formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu frá og með árinu 2015 og Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í október. Fjallað var um fundi með fjölmörgum þingmönnum Öldungadeildarinnar, málþing Council on Foreign Relations og Brookings stofnunarinnar sem og sérfræðingum opinberra stofnana. Einnig var rætt um viðræður um frekari samvinnu á sviði jarðhitanýtingar.
07.05.2013 Forseti tekur við fyrsta eintakinu af útgáfu rómverskrar messubókar á íslensku að lokinni helgistund í Landakotskirkju. Biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, Pétur Bürcher, afhenti forseta bókina og þakkaði honum fyrir framlag hans í þágu kaþólska safnaðarins á undanförnum árum. Messubókin kemur nú í fyrsta sinn út á íslensku og hefur vinnan að útgáfunni staðið í rúmlega 40 ár. Áður fyrr voru messubækur kaþólsku kirkjunnar á latínu en nú er lögð áhersla á að þær séu einnig til á ýmsum þjóðtungum. Í ávarpi fjallaði forseti um hlutdeild kaþólsku kirkjunnar í íslenskri sögu og menningu, fagnaði útgáfu bókarinnar og sagði að eintakið yrði varðveitt í bókhlöðunni á Bessastöðum.
07.05.2013 Forseti ræðir við fréttaritara vikuritsins Time, Jay Newton-Small, um bráðnun íss á Norðurslóðum og tengsl hennar við hamfaraveður í ýmsum heimsálfum, opnun nýrra siglingaleiða og nauðsyn alþjóðlegrar samræðu og samvinnu um áhrifin af bráðnun íss á efnahagslíf og samfélög um allan heim en þau málefni verða meðal annars til umfjöllunar á Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle sem fundar í Reykjavík um miðjan október.
07.05.2013 Forseti ræðir við fréttamann hollenska ríkissjónvarpsins, Eelco Bosch van Rosenthal, um endurreisn efnahagslífsins í kjölfar bankahrunsins, lærdómana sem draga má af reynslu Íslendinga, fjármálakreppuna í Evrópu og lyktir Icesave málsins.
08.05.2013 Forseti á fund með sendiherra Indlands Ashok Das um árangur af ferð forseta til Indlands, þróun verkefna varðandi áframhaldandi þjálfun indverskra jöklafræðinga á Íslandi, samstarf þjóða og samfélaga á Himalajasvæðinu, nýtingu jarðhita á Indlandi og þátttöku í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í haust.
11.05.2013 Forseti sækir afmælishátíð Föroyingafélagsins í tilefni af 70 ára afmæli þess. Í ávarpi rakti forseti náin tengsl og vináttu Færeyinga og Íslendinga, ríkan vilja til samstöðu og samhjálpar, sameiginlega sögu að fornu og nýju; rifjaði einnig upp minningar frá æskuárum vestur á fjörðum þegar sjómenn af færeyskum skútum voru tíðir gestir í byggðarlaginu. Menntamálaráðherra Færeyja flutti einnig ávarp í afmælishófinu.
11.05.2013 Forseti tekur á móti Kirkjukór Keflavíkur og ræðir við kórfélaga um sögu Bessastaða og forsetasetrið. Kórinn söng svo í sal Bessastaða og einnig í Bessastaðakirkju.
15.05.2013 Forseti á fund með Rannveigu Rist, forstjóra álversins í Straumsvík, og nokkrum æðstu stjórnendum Rio Tinto um tæknilega endurnýjun álverksmiðjunnar í Straumsvík, framtíðarhorfur á álmarkaði í veröldinni sem og þá birgðasöfnun sem nú þegar setur svip á álrekstur víða um heim í ljósi erfiðleika á mörkuðum.
15.05.2013 Forseti á fund með sendinefnd frá Alaska, sem skipuð er fulltrúum stofnana og viðskiptasamtaka, en hún hefur átt viðræður við fjölmarga aðila í íslensku atvinnulífi: ferðaþjónustu, fiskiðnaði og orkuframleiðslu. Rætt var um vaxandi tengsl Íslands og Alaska og hvernig hægt er að virkja á skipulegan hátt áhuga fjölmargra aðila til samvinnu á ýmsum sviðum. Fundinn sat einnig sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
16.05.2013 Forseti sækir tískusýninguna Heklugos þar sem kynnt er fjölbreytt hönnun á Suðurnesjum. Tískusýningin er samstarfsverkefni ýmissa fyrirtækja á Suðurnesjum, Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Einnig tóku SKASS, samtök kraftmikilla, alvöru, skapandi Suðurnesjakvenna og Duty Free Fashion þátt í sýningunni sem fram fór í kvikmyndaverinu Atlantic Studios. Þá skoðaði forseti einnig sýningar ýmissa hönnuða á Suðurnesjum í frumkvöðlasetrinu Eldey.
17.05.2013 Forseti er viðstaddur setningu Listahátíðar í skemmu Brims og fylgist með upphafsverki hennar sem leikið er á skipsflautur við Reykjavíkurhöfn.
20.05.2013 Forseti sækir Alþjóðlegan leiðtogafund, Global Leadership Summit, sem Viðskiptaskóli Lundúna, London Business School, og sjónvarpsstöðin CNN efna til. Lokaþáttur fundarins verða viðræður Richard Quest, stjórnanda viðskiptafrétta hjá CNN, við forseta um reynslu Íslendinga af glímunni við efnahagskreppuna og lærdómana sem hún felur í sér fyrir alþjóðlegar umræður og stefnumótun. Fréttatilkynning.
22.05.2013 Forseti tekur á móti íslenskum og erlendum listamönnum sem taka þátt í Listahátíð í Reykjavík, stjórnendum hátíðarinnar og fulltrúum styrktaraðila.
22.05.2013 Á morgun verða haldnir tveir fundir í ríkisráði á Bessastöðum. Fréttatilkynning.
22.05.2013 Forseti á fund með formanni Framsóknarflokksins Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem greindi forseta frá niðurstöðum viðræðna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í kjölfarið var ákveðið að ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar verði á morgun kl. 11:00 og að ný ríkisstjórn taki síðan við á Bessastöðum á ríkisráðsfundi kl. 15:00 sama dag.
23.05.2013 Forseti á fund með fulltrúum Iceland Petroleum sem fengið hefur leyfi til rannsókna og olíuleitar á Drekasvæðinu. Rætt var um tímaáætlun varðandi frekari rannsóknir og gagnaöflun en ljóst er að nokkur ár munu líða þar til skýrari mynd fæst af hugsanlegum auðlindum á svæðinu. Einnig var rætt um samstarf við Noreg og aðra aðila og fyrirtæki á alþjóðlegum vettvangi.
23.05.2013 Forseti stýrir fundi ríkisráðs þar sem ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, tók við og skipað var í embætti ráðherra.
23.05.2013 Forseti flytur ræðu um hagkerfi hreinnar orku á afmælisráðstefnu ÍSOR. Í ræðunni áréttaði forseti hve mikilvægur árangur Íslendinga í nýtingu jarðvarma og vatnsorku væri, ekki aðeins fyrir Íslendinga sjálfa heldur líka sem skilaboð til annarra þjóða um að hægt væri að breyta orkukerfum á þann veg að hamla gegn alvarlegum loftslagsbreytingum sem sívaxandi bráðnun íss og jökla bæri vitni um. Í ræðunni nefndi forseti einnig fjölmörg dæmi um hvernig nýting hreinnar orku hefði skapað ný tækifæri og nýjar atvinnugreinar í íslensku efnahagslífi og væri ein af ástæðum þess að Íslendingum hefði tekist betur en öðrum að glíma við afleiðingar fjármalakreppunnar.
23.05.2013 Forseti stýrir fundi ríkisráðs þar sem afgreidd voru lög og stjórnarmálefni fráfarandi ríkisstjórnar, annars ráðuneytis Jóhönnu Sigurðardóttur. Lausnarbeiðni þess var staðfest á fundi ríkisráðs.
24.05.2013 Forseti á fundi á Akureyri með rektor Háskólans á Akureyri, Stefáni B. Sigurðssyni, og Guðrúnu Þórsteinsdóttur, sem unnið hefur fyrir Rannsóknarþing Norðursins, og með Emblu Eir Oddsdóttur, stjórnanda nýs vettvangs Norðurslóðanetsins, um undirbúning að Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi um miðjan október.
24.05.2013 Forseti tekur á móti hópi nemenda í jarðhitafræðum sem heimsækja Ísland á vegum Jefferson Tester, prófessors við Cornell háskólann, en hann er einn fremsti jarðhitasérfræðingur Bandaríkjanna. Rætt var um árangur Íslendinga við fjölþætta nýtingu jarðhita, hvernig hann sé burðarás í þróun hagkerfis sem byggist í vaxandi mæli á hreinni orku og hvaða lærdóma Bandaríkin og aðrar þjóðir geta dregið af þessari þróun á Íslandi.
24.05.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem sett var við hátíðlega athöfn á Akureyri. Í ávarpinu þakkaði forseti samtökunum fyrir fjölþætt framlag þeirra, bæði á vettvangi björgunar og til að efla samstöðu og samhjálp meðal Íslendinga. Forseti rifjaði upp hve þakklátir bændur á Norðurlandi hefðu verið fyrir aðstoð björgunarsveitanna í kjölfar hamfaraveðursins í vetrarbyrjun og árangur Íslendinga í sjálfboðastarfi á þessu sviði vekti nú æ meiri athygli víða um heim, einkum í ljósi þess að hamfaraveður verða að öllum líkindum algengari í kjölfar loftslagsbreytinga.
25.05.2013 Forseti á fund með Kevin Wall, framleiðanda tónlistarviðburða og þátttakanda í baráttunni fyrir nýtingu hreinnar orku í Bandaríkjunum, en Wall hefur einnig um áraraðir verið öflugur liðsmaður í baráttu Al Gore gegn loftslagsbreytingum. Rætt var um hvernig reynsla Íslendinga af margvíslegri nýtingu hreinnar orku gæti komið að gagni í Bandaríkjunum, sem og um vaxandi hamfaraveður og bráðnun íss á Norðurslóðum. Fundinn sátu einnig Susan Smalley Wall, prófessor í geðlækningum og erfðafræðingur, og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi.
25.05.2013 Forseti tekur á móti sendinefnd frá Tyrklandi, formanni félags kjúklingaframleiðanda þar í landi og samstarfsaðilum Marels en stjórnendur þess voru einnig á fundinum. Rætt var um langa og góða reynslu kjúklingaframleiðenda af tækjabúnaði Marels, notkun hans í nýjum verksmiðjum, sem byggðar verða á næstunni, og kosti sífelldra tækninýjunga sem Marel kappkostar að bjóða. Þá var einnig fjallað um vaxandi markaði í nágrannalöndum Tyrklands svo sem í Íran, Írak og fleiri löndum í vesturhluta Asíu.
25.05.2013 Forseti tekur á móti hópi nemenda og kennara frá Grunnskólanum í Tálknafirði og ræðir við þá um sögu Bessastaða.
26.05.2013 Forseti afhendir verðlaun og flytur ræðu á hátíðarsamkomu Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Fjöldi skóla tekur þátt í keppninni og samhliða henni opnuðu forseti og hugmyndasmiðir sýningu á afrakstri vinnusmiðju sem efnt var til fyrir höfunda þeirra tillagna sem sérstaklega voru heiðraðar. Afhending verðlaunanna fór fram í Háskólanum í Reykjavík.
27.05.2013 Forseti á fund með dr. Carl Hahn, fyrrum forstjóra Volkswagen og áhrifamann í þýsku efnahagslífi, um fjölþætt tækifæri Íslands á nýrri öld, auðlegð í jarðhita, tæknikunnáttu og ferskvatni. Fjallað var um væntanlega opinbera heimsókn forseta til Þýskalands og málþing sem þar verða haldin. Fundinn sat einnig Ingimundur Sigfússon, fyrrum sendiherra Íslands í Þýskalandi.
27.05.2013 Forseti flytur setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um jarðveg, loftslagsbreytingar og fæðuöryggi, Soil Carbon Sequenstration for Climate, Food Security and Ecosystem Services sem haldin er í Reykjavík en hana sækja um tvö hundruð vísindamenn og sérfræðingar, einkum frá Evrópu. Í ræðunni áréttaði forseti nauðsyn þess að flétta saman umræðu og rannsóknum á bráðnun íss og jökla, jarðvegsnýtingu og vatnsbúskap. Einnig vék hann að reynslu Íslendinga í glímunni við eyðimerkur og svarta sanda, samstarfi sérfræðinga í landgræðslu við bændur og almenning.
28.05.2013 Forseti Íslands býður forseta Finnlands og eiginkonu hans Jenni Haukio og sendinefnd forseta Finnlands til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum þar sem einnig voru ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands, forsetar Hæstaréttar og Alþingis, rektorar háskóla og ýmsir embættismenn. Ræða forseta Íslands á íslensku; á ensku; á finnsku.
28.05.2013 Forseti stjórnar málþingi um Norðurslóðir sem haldið er í hátíðarsal Háskóla Íslands í tengslum við opinbera heimsókn forseta Finnlands. Í kjölfar ávarpa forsetanna fluttu prófessor Lassi Heininen og prófessor Paula Kankaanpää frá Háskólanum í Lapplandi, Ingibjörg Jónsdóttir frá Háskóla Íslands, Héðinn Valdimarsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Tero Vauraste, forstjóri Arctia Shipping, Guðmundur Nikulásson frá Eimskip og Pertti Torstila ráðuneytisstjóri stuttar kynningar. Í kjölfarið voru almennar umræður þar sem fram komu margvísleg sjónarmið um þróun laga, siglingar, loftslagsbreytingar, bráðnun íss og fleiri þætti í framtíð Norðurslóða.
28.05.2013 Forseti ræðir ásamt forseta Finnlands við blaðamenn að loknum fundi forsetanna. Einkum var spurt um loftrýmisgæslu Finna og Svía, málefni Norðurslóða og endurreisn í kjölfar efnahagskreppu.
28.05.2013 Forseti tekur á móti forseta Finnlands og fylgdarliði hans í upphafi opinberrar heimsóknar. Viðstaddir athöfnina voru ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands og embættismenn. Að henni lokinni áttu forsetarnir fund þar sem m.a. var rætt um samstarf á vettvangi Norðurslóða, þróun mála í Evrópu og eflingu tengsla Íslands og Finnlands.
29.05.2013 Forseti heimsækir ásamt forseta Finnlands og fylgdarliði jarðhitasvæðið á Reykjanesi og hlýðir á kynningar Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra og Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS Orku, um orkubúskap Íslendinga og nýtingu jarðhita. Þá skoðuðu forsetarnir og aðrir gestir virkjunina í Svartsengi, Bláa lónið með leiðsögn Gríms Sæmundsen og gróðurhús líftæknifyrirtækisins ORFs þar sem dr. Einar Mäntylä kynnti forseta Finnlands framleiðslu fyrirtækisins.
29.05.2013 Forseti sækir hádegisverð sem forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson heldur á Þingvöllum til heiðurs forseta Finnlands. Áður höfðu forsetarnir ásamt fylgdarliði skoðað Þingvelli og gengið niður Almannagjá.
29.05.2013 Forseti sækir kynningu á upplýsinga- og hátækni sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík í tengslum við opinbera heimsókn forseta Finnlands. Fundinum stjórnaði Ari Jónsson rektor háskólans og þar fluttu kynningar Þorsteinn I. Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Jón Ágúst Þorsteinsson frá Marorku, Vilborg Einarsdóttir frá Mentor, Sigmar Guðbjörnsson frá Stjörnu-Odda og Pétur Guðjónsson frá Marel.
31.05.2013 Forseti ræðir við fréttamenn sjónvarpsstöðva og blaða í Portland í Maineríki í tengslum við þátttöku hans í Viðskiptadegi ríkisins og ræðir um nýtt samgöngukerfi og vöruflutninga á Norðurslóðum. Viðtölin voru m.a. við sjónvarpsstöðvarnar WCSH6, News 8 ABC og WGME13 og við Portland Press Herald, Daily News, Bloomberg Businessweek og Bangor Daily News. Myndir
31.05.2013 Forseti flytur í dag, föstudaginn 31. maí, ræðu á hádegisverðarfundi í Alþjóðlegri viðskiptamiðstöð Maine ríkis í Bandaríkjunum. Ræða forseta fjallar um framlag Íslands til þróunar vöruflutninga og flugsamgangna á Norðurslóðum. Með siglingum Eimskips til Portland í Maine og flugi Icelandair til Alaska verður Ísland fyrsta ríkið á Norðurslóðum til að sinna reglubundnum vöruflutningum og farþegaflugi milli allra ríkja á svæðinu. Aukin umsvif setja nú þegar mark sitt á Norðurslóðir, bæði vegna nýtingar margvíslegra auðlinda, vaxandi ferðaþjónustu og eftirspurnar eftir sjávarafurðum. Fréttatilkynning. Myndir

Júní

02.06.2013 Forseti sækir lokatónleika Listahátíðar í Hörpu þar sem þýska sópransöngkonan Diana Damrau og franski hörpuleikarinn Xavier de Maistre komu fram.
02.06.2013 Forseti flytur ávarp við vígslu nýrrar frystigeymslu HB Granda en henni var gefið nafnið Ísbjörninn. Fyrirtækið hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands fyrr á þessu ári. Í ræðunni minntist forseti þess að 75 ár eru liðin frá því að sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur og rakti áfanga í baráttu Íslendinga fyrir yfirráðum yfir fiskimiðunum við landið. Sjómenn, fiskvinnslufólk og fyrirtæki í sjávarútvegi hefðu verið burðarásar í þróun þeirrar velferðar sem Íslendingar njóta nú. Þar hefði Grandi og fyrirrennarar þess verið í fararbroddi. Bygging frystigeymslunnar á aðeins nokkrum mánuðum væri vitnisburður um sóknarhug.
02.06.2013 Forseti sækir messu í Dómkirkjunni á sjómannadaginn þar sem biskup Íslands Agnes Sigurðardóttir predikaði og minnst var látinna sjómanna
03.06.2013 Forseti á fund Brent Hartley, stjórnanda Evrópuskrifstofu bandaríska utanríkisráðuneytisins, um samstarf Íslands og Bandaríkjanna, sérstaklega með tilliti til verkefna á Norðurslóðum, m.a. í ljósi væntanlegrar forystu Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu frá og með árinu 2015. Rætt var um þær breytingar sem nýlega urðu á Norðurskautsráðinu með áheyrnaraðild fjölmargra ríkja í Evrópu og Asíu. Þá var einnig fjallað um samstarf ríkjanna á sviði jarðhita, vísinda og tækni.
04.06.2013 Forseti ræðir við blaðamanninn Stephen Leahy um loftslagsbreytingar og þróun mála á Norðurslóðum, mikilvægi alþjólegra rannsókna á jöklum og ísiþöktum svæðum í öllum heimshlutum og hvernig hægt sé að skapa nýjan og árangursríkari grundvöll alþjóðlegra samvinnu um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Stephen Leahy skrifar m.a. fyrir breska blaðið Guardian og Inter Press News Service. Á fundinum var einnig Andrés Arnalds fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins.
04.06.2013 Forseti er viðstaddur opnun nýs húsnæðis Fjölskylduhjálparinnar sem er í Breiðholti en með því batnar mjög aðstaða til að sinna þeim sem leita aðstoðar. Húsnæðið er stærra, kæligeymslur fyrir matvæli og rými fyrir föt. Í ávarpi þakkaði forseti Fjölskylduhjálpinni fyrir margvíslegt framlag á undanförnum árum og hvatti til samstarfs allra þeirra sem sinna þeim sem búa við minnst efni í íslensku samfélagi.
04.06.2013 Forseti flytur ávarp á málþingi Startup Iceland í Hörpu en það sækja frumkvöðlar og áhrifafólk frá Íslandi, Bandaríkjunum og fleiri löndum. Í ávarpinu rakti forsetinn framlag nýsköpunar og frumkvöðla til endurreisnar íslensks efnahagslífs í kjölfar bankahrunsins, hvernig hin nýja öld skapaði tækifæri til stofnunar nýrra fyrirtækja og gæfi einstaklingum tækifæri að sækja fram í krafti frjórra hugmynda. Forseti rakti ýmis dæmi þessu til staðfestingar og reifaði hugmyndina um að Ísland yrði vettvangur fyrir reglubundið samráð um þróun upplýsingatækni í þágu lýðræðis, frelsis og framfara.
06.06.2013 Forseti veitir verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar sem árlega eru veitt af JCI á Íslandi en þau eru hvatningarverðlaun til ungs fólks sem vakið hefur athygli fyrir árangur og framgöngu á ólíkum sviðum. Forseti er verndari verkefnisins. Hátt í þriðja hundrað tilnefninga bárust og voru sérstaklega valdir tíu ungir Íslendingar sem tóku við viðurkenningunum í athöfn sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík.
06.06.2013 Forseti setur Alþingi að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Alþingi kemur nú saman í kjölfar nýafstaðinna kosninga. Ræða. Ensk þýðing.
07.06.2013 Forseti sækir landsleik Íslands og Slóveníu í knattspyrnu á Laugardalsvelli en i upphafi hans var minnst Hermanns Gunnarssonar.
07.06.2013 Forseti tekur á móti krökkum og unglingum sem taka þátt í Alþjóðlegum sumarbúðum barna bæði á Íslandi og ýmsum löndum í Evrópu, Ameríku og Mið-Austurlöndum.
07.06.2013 Forseti er viðstaddur opnun norrænnar frímerkjasýningar NORDIA 2013 sem haldin er í Garðabæ. Á sýningunni gefur að líta fjölmörg merk frímerkjasöfn frá ýmsum löndum, m.a. fræg söfn íslenskra frímerkja. Forseti ritar ávarp í sýningaskrá. Ensk þýðing.
07.06.2013 Forseti á fund með Aleqa Hammond, nýjum forsætisráðherra Grænlands. Rætt var um samstarf Íslands og Grænlands, fjölmörg tækifæri til að auka það á næstu árum, mikilvægi norðurslóða og samskipti við ríki í Evrópu og Asíu sem sýna aukinn áhuga á Norðurslóðum, svo og samstarf við ríki innan Norðurskutsráðsins. Forsætisráðherrann bauð forseta að heimsækja Grænland á næstu mánuðum. Forsætisráðherra Grænlands hefur þegið boð um að flytja ræðu við setningu Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust.
08.06.2013 Forseti er viðstaddur opnun sýningar í Þjóðminjasafninu á ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar sem var á sínum tíma frumkvöðull íslenskra ljósmyndunar. Verk hans geyma einstæða sýn á íslenskan veruleika og samfélag á síðustu áratugum nítjándu aldar.
08.06.2013 Forseti sækir Geysisdaginn sem er skemmti- og fjölskyldudagur Klúbbsins Geysis sem stuðlar að því að veita fólki fjölbreytta þátttöku í samfélaginu.
10.06.2013 Forseti á fund með Alice Rogoff, Kuupik Kleist, Robyn Engibous og Tracey Foster um dagskrá og skipulagningu Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem heldur fyrsta þing sitt í Reykjavík í október en meðal þátttakenda verða sérfræðingar og áhrifafólk frá ríkjum og samfélögum á Norðurslóðum sem og ríkjum í Evrópu og Asíu sem nýlega fengu áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
12.06.2013 Forseti á fund með Benoit Battistelli, forstjóra Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar, og öðrum stjórnendum hennar ásamt fulltrúum Einkaleyfastofu en um þessar mundir er haldið á Íslandi alþjóðlegt þing evrópskra ríkja um þau viðfangsefni sem hæst ber á sviði einkaleyfa, einkum í kjölfar byltingar í upplýsingatækni og hraðra breytinga á því sviði. Rætt var um stöðu ýmissa ríkja á sviði einkaleyfa, ólíkan lagaramma í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu, mikilvægi nýsköpunar og frjáls flæðis upplýsinga í framþróun þjóðfélaga og lýðræðis.
12.06.2013 Forseti tekur þátt í lokadegi viðræðna um undirbúning að Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi í haust. Rætt var um dagskrá Hringborðsins og þátttakendur sem og samstarf við fjölmargar stofnanir, samtök og aðila sem þegar hafa lýst áhuga á þátttöku í Hringborðinu og samstarfi við það í framtíðinni. Einnig var rætt við fulltrúa Norðurslóðastarfs sem tengist Akureyri, Háskólanum á Akureyri, Rannsóknarþingi Norðurslóða og Norðurslóðanetinu.
14.06.2013 Forseti tekur á móti hópi athafnamanna frá Kanada, m.a. Íslendingabyggðum í Manitoba, og frá Bandaríkjunum sem heimsækja Ísland til að kynnast þjóðfélagi, menningu og atvinnulífi. Athafnamennirnir eru félagar í WPO samtökunum.
15.06.2013 Forseti tekur á móti fulltrúum á Evrópuþingi Round Table samtakanna en Íslendingar hafa tekið öflugan þátt í samtökunum á undanförnum áratugum.
15.06.2013 Forseti tekur á móti stjórn og félögum Heimilisiðnaðarfélags Íslands í tilefni af aldarafmæli félagsins. Félagsmenn klæddust íslenskum búningum frá ýmsum tímum og í ávarpi þakkaði forseti félaginu fyrir framlag þess til að varðveita þjóðbúninginn og efla þekkingu og vitund landsmanna um hinar ýmsu gerðir hans frá fyrri tímum.
16.06.2013 Forseti er viðstaddur landsleik Íslands og Rúmeníu í handbolta en í kjölfar hans var hátíðleg athöfn þar sem Ólafi Stefánssyni var þakkað framlag hans og forysta í íslenskum handbolta en leikurinn var síðasti landsleikur hans.
17.06.2013 Forseti er viðstaddur guðsþjónustu í Dómkirkjunni, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að styttu Jóns Sigurðssonar og tekur þátt í hátíðarhöldum á Austurvelli.
17.06.2013 Forseti sæmir níu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Fréttatilkynning. Mynd.
18.06.2013 Forseti ræðir við hóp ungverskra athafnakvenna sem heimsækja Ísland til að kynnast atvinnulífi, viðskiptum, samfélagi og menningu sem og endurreisn efnahagslífsins í kjölfar bankahrunsins.
18.06.2013 Forseti á fund með forseta og varaforseta Íslendingadagsins í Gimli, Janice Arnason og Cameron Arnason, um starfsemi íslenska samfélagsins í Kanada, hin árlegu hátíðahöld á Íslendingadaginn en á næsta ári verða 125 ár frá stofnun hans. Dagurinn er helsta hátíð Vesturíslendinga. Einnig var fjallað um Snorraverkefnið, samstarf á sviði menningar og háskólastarfs.
18.06.2013 Forseti á fund á Akureyri með fulltrúum samstarfsvettvangsins Arctic Services en fjöldi íslenskra fyrirtækja, sem áhuga hafa á auknum umsvifum á Norðurslóðum, einkum með tilliti til samstarfs Íslands og Grænlands, eiga aðild að vettvanginum. Rætt var um tengsl Arctic Services við Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi í október.
18.06.2013 Forseti á fund með fulltrúum ýmissa Norðurslóðastofnana á Akureyri, sem m.a. starfa í tengslum við Háskólann á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, um undirbúning Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi í haust.
19.06.2013 Forseti tekur á móti ungmennum frá byggðum Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum, sem taka þátt í Snorraverkefninu, en markmið þess er að kynna ungmennum af íslenskum ættum í Vesturheimi sögu og menningu þjóðarinnar, Ísland nútímans og skapa tengsl við ættmenn þeirra á Íslandi.
19.06.2013 Forseti tekur á móti hópi félagsmanna í Kvenfélagi Keflavíkur sem heimsækir Bessastaði.
19.06.2013 Forseti ræðir við Edmund Phelps, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, um þróun efnahagslífs á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum og um mikilvægi nýsköpunar í þróun hagkerfa en Phelps hefur lagt aukna áherslu á þann þátt í rannsóknum sínum og fræðastarfi á undanförnum árum.
20.06.2013 Forseti flytur setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um efnahagslíf og hagfræði, "Wehia, 2013 - 18th Annual Workshop on the Economic Science with Heterogenous Interacting Agents", sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík, en hana sækja hagfræðingar, félagsvísindamenn, verkfræðingar, tölvunarfræðingar, eðlisfræðingar og aðrir fræðimenn. Í ræðunni fjallaði forseti um samspil markaða og lýðræðis og hvaða lærdóma fræðasamfélagið gæti dregið af glímu Íslendinga við afleiðingar bankahrunsins; hvort þau líkön og kenningar sem ráðið hafa för á undanförnum áratugum í fræðilegri umræðu og stefnumörkun hefðu staðist próf reynslunnar.
24.06.2013 Forseti tekur þátt í samkomu í verkstöð Ólafs Elíassonar sem sótt var af miklum fjölda listafólks, fjölmiðlamanna og öðru áhrifafólki í menningarlífi Berlínar. Þar var leikin íslensk tónlist og Ólafur Elíasson, Halldór Guðmundsson og Guðný Guðmundsdóttir ræddu í pallborði um íslenska nútímamenningu og samskipti landanna. Myndir (Ljósmyndari: Rut Sigurðardóttir)
25.06.2013 Forseti og forsetafrú sækja hátíðarkvöldverð í boði Joachim Gauck, forseta Þýskalands, og frú Daniela Schadt. Kvöldverðinn sátu m.a. ýmsir Þjóðverjar sem stuðlað hafa að auknu samstarfi þjóðanna á liðnum áratugum. Í ávarpi, sem forseti flutti við þetta tækifæri, lagði hann áherslu á að þjóðirnar hefðu átt samleið og samstarf um margra alda skeið og væri Þýskaland nú eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslands. Þá væri athyglisvert hve sterk menningartengsl hefðu verið milli landanna á liðnum tímum og mætti nefna sem dæmi þau áhrif sem þýskir rithöfundar höfðu á Fjölnismenn, áhrif þýskrar tónlistar á Íslandi og áhrif Þjóðverja á trúarlíf Íslendinga. Ræða forseta. Þýsk þýðing. Ensk þýðing.
25.06.2013 Forseti heimsækir Humboldt háskólann þar sem stjórnendur skólans, kennarar og nemendur í íslenskum fræðum lýsa námi í íslensku, rannsóknum á íslenskum bókmenntum, samfélagi og stjórnmálaþróun. Fundinn sátu einnig kennarar í íslensku við tvo aðra háskóla í Þýskalandi. Forseti áréttaði þakkir til allra þeirra sem stunduðu íslensk fræði og kenndu íslensku við þýska háskóla; mikilvægt væri að efla þau á komandi árum, einkum í ljósi vaxandi áhuga í Þýskalandi á íslenskum nútímabókmenntum, náttúru, tónlist og menningu sem og víðtæks áhuga á íslenska hestinum. Þessi þróun hefði í för með sér nýja stöðu Íslands í Þýskalandi og mikilvægt væri að móta sameiginlega stefnu um hvernig hún gæti nýst í þágu þróunar íslenskra fræða við þýska háskóla. Myndir
25.06.2013 Forseti á fund með dr. Norbert Lammert, forseta Sambandsþings Þýskalands, á fyrsta degi opinberrar heimsóknar. Á fundinum var rætt um margþætt og traust tengsl landanna en forseti Sambandsþingsins heimsótti Ísland fyrir tveimur árum. Ennfremur var fjallað um mikilvægi Norðurslóða og margvísleg verkefni sem það færir Íslandi og Þýskalandi sem og hvernig tækniþekking Íslendinga við nýtingu jarðhita getur nýst víða í Evrópu. Fundinn sat einnig Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sem og embættismenn og gerði ráðherra grein fyrir afstöðu nýrrar ríkisstjórnar til viðræðna við Evrópusambandið. Forseti Sambandsþingsins lýsti skilningi á þeirri afstöðu og rakti sýn sína á líklega þróun Evrópusambandsins á næstu árum, hvers vegna margt bendi til að sambandið muni skiptast í tvær sveitir ríkja þar sem skipulegt samstarf innan annarrar myndi aukast án þátttöku hinna ríkjanna. Myndir
25.06.2013 Á fundi forseta með forseta Þýskalands Joachim Gauck, sem haldinn var í upphafi opinberrar heimsóknar í dag, 25. júní, var ítrekað að hin traustu tengsl Íslands og Þýskalands, byggð á menningu, vísindum og viðskiptum, myndu á komandi árum efla samstarf þjóðanna um málefni Norðurslóða og nýtingu jarðhita víða Evrópu. Fréttatilkynning. Myndir (Ljósmyndari: Rut Sigurðardóttir)
26.06.2013 Forseti á fund með fulltrúum verkfræðistofunnar EFLU og stjórnendum Bremenports, opinbers fyrirtækis sem rekur hina geysistóru umskipunarhöfn í Bremerhaven. Á fundinum var fjallað um möguleika á því að reisa stóra umskipunarhöfn í Finnafirði á Austurlandi norðanverðu sem talið er hentug staðsetning fyrir slíka höfn vegna vaxandi siglinga um norðurhöf á komandi áratugum. EFLA er samstarfsaðili Bremenports við gerð fýsileikakönnunar á slíkum framkvæmdum en þær yrðu jafnframt gerðar í samstarfi við Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp. Mynd
26.06.2013 Forseti á fund með borgarstjóra Bremen, Karoline Linnert, þar sem rætt var um ýmis sameiginleg málefni. Í framhaldi af fundinum, sem haldinn var í aldagömlu ráðhúsi borgarinnar, bauð borgarstjórinn til hátíðarkvöldverðar og sóttu hann fulltrúar hafnaryfirvalda í Bremen og Bremerhaven, þýskir Íslandsvinir, embættismenn og fleiri gestum. Í ávarpi fjallaði forseti um langa sögu samskipta milli Bremen og Íslands og ræddi möguleika á samstarfi Íslendinga og Bremenhafnar um uppbyggingu stórhafnar sem nýtast mundi við sjóflutninga um Norðurslóðir. Ræða forseta. Ræða forseta á þýsku. Mynd
26.06.2013 Forseti flytur ávarp á fjölsóttri kynningu á íslenskum fyrirtækjum sem haldin er í húsi norrænu sendiráðanna í Berlín. Í ávarpi sínu ræddi forseti m.a. um margvíslega vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi og tók jafnframt dæmi af íslensku fyrirtækjum sem orðin eru í forystu á alheimsvísu. Fluttar voru kynningar um Hörpu, IMX, 66 gráður norður, Marel, Össur, Sif Cosmetics, CCP og Pegasus en Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins stjórnaði fundinum. Á eftir kynningum og ávarpi forseta bauð sendiráðið í samvinnu við Þýsk-íslenska viðskiptaráðið og íslensk fyrirtæki til móttöku í sendiráðinu. Ræða forseta. Mynd
26.06.2013 Forseti situr málþing um orkumál í boði Íslandsstofu og sendiráðs Íslands í Þýskalandi. Auk forseta fluttu þar ávörp fulltrúar ýmissa fyrirtækja, PCC SE, GTN, Orka Energy, Reykjavík Geothermal, Landsvirkjunar, verkfræðistofunnar EFLU og GEKON en Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri stjórnaði umræðum. Einnig flutti Ilke Hartmann, framkvæmdastjóri hjá Commerzbank, ávarp en málþingið var haldið í húsi bankans við Brandenborgarhliðið í Berlín. Ávarp forseta. Myndir
26.06.2013 Forseti á fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ásamt Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra og íslenskum embættismönnum. Fréttatilkynning. Myndir
27.06.2013 Forseti á fund með forsætisráðherra Saxlands, Stanislaw Tillich, og sækir kvöldverð sem hann heldur til heiðurs forseta Íslands í sögufrægu veitingahúsi, Auerbachs Keller. Í ávarpi rakti forseti nokkur atriði úr sögu menningarsamskipta milli Íslands og Leipzig en þangað sóttu margir íslenskir tónlistarmenn sér menntun á fyrri tíð, svo sem Jón Leifs og Páll Ísólfsson, auk þess sem rithöfundar á borð við Jóhann Jónsson og Halldór Laxness komu þar einnig við sögu.
27.06.2013 Forseti flytur ávarp á málþingi um sjávarútveg Íslendinga sem fram fór í Sjóferðasafninu í Bremerhaven (Schiffahrtsmuseum). Í ávarpi sínu lagði forseti áherslu á að Íslendingar kappkostuðu að beita vísindalegum sjónarmiðum við nýtingu auðlinda hafsins. Í öðrum erindum var m.a. gerð grein fyrir grunnþáttum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og sjónarmiðum kaupenda íslensks fisk í Þýskalandi. Ræða forseta. Mynd
27.06.2013 Forseti heimsækir Alfred Wegener heimskauta- og hafrannsóknastofnunina í Bremerhaven og kynnir sér starfsemi hennar. Á fundinum kom fram að sérfræðingar stofnunarinnar hafa mikla þekkingu á rannsóknum á hafís á Norðurslóðum og töldu stjórnendur hennar að mikill fengur gæti verið að auknu samstarfi við íslenskar rannsóknarstofnanir. Myndir
27.06.2013 Forseti skoðar hafnarsvæðið í Bremerhaven ásamt fylgdarliði og á svo fund með borgarstjóra borgarinnar, Melf Grantz, og embættismönnum. Forystumenn borgarinnar hafa áhuga á að borgin eigi hlut í sjóflutningum um Norðurslóðir og vilja gjarnan vinna með Íslendingum að því verkefni en höfnin í Bremerhaven er næststærsta gámahöfn Evrópu. Eftir fundinn var rætt við íslenska og þýska fjölmiðla. Myndir
28.06.2013 Forseti heimsækir Nikulásarkirkju í Leipzig þar sem vikuleg bænastund á mánudögum varð vettvangur friðsamlegs en árangursríks andófs gegn alræðisstjórninni í Austur-Þýskalandi sem hrökklaðist frá völdum árið 1989. Mynd.
28.06.2013 Forseti afhjúpar skjöld til minningar um Jóhann Jónsson skáld í Körnerstrasse 14-16 þar sem Jóhann bjó í nokkur ár uns hann andaðist árið 1932, ungur að árum. Myndir.
28.06.2013 Forseti á fund með borgarstjóra Leipzig og situr hádegisverð með honum og fleiri fulltrúum borgarinnar. Í ávarpi minntist forseti nokkurra íslenskra listamanna sem lærðu og störfuðu í borginni. Þá vék forseti einnig að því friðsamlega andófi sem stigmagnaðist á árinu 1989 m.a. með fundum sem haldnir voru á þessum stað. Myndir.
28.06.2013 Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson lauk opinberri heimsókn sinni til Þýskalands með margvíslegum atburðum á söguslóðum íslenskra tónlistarmanna og rithöfunda í Leipzig.
Í morgun var sérstök samkoma í Tónlistarháskólanum í Leipzig þar sem minnst var frumkvöðla íslenskrar tónlistar, m.a. Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, Páls Ísólfssonar, Jóns Leifs, Sigurðar Þórðarsonar og Helgu Guðjónsdóttur, sem stunduðu nám á fyrstu áratugum 20. aldar við Tónlistarháskólann í Leipzig. Í ávarpi þakkaði forseti þessari merku menntastofnun í evrópsku tónlistarlífi fyrir þau áhrif sem hún hefði haft á frumkvöðla íslensks tónlistarlífs og rakti ýmsa þætti í ævi tónskáldanna og hvernig þeir hefðu markað djúp spor við mótun upphafs þess tónlistarlífs sem við lok 20. aldarinnar var orðið öflugur þáttur í menningarlífi Íslendinga.
Á samkomunni voru flutt verk m.a. eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Jón Leifs og Pál Ísólfsson og meðal flytjenda voru orgelleikarinn Eyþór Franzson Wechner og tenórsöngvarinn Benedikt Kristjánsson.
Einnig fluttu ávörp á samkomunni Halldór Guðmundsson rithöfundur sem fjallaði um tengsl Halldórs Laxness og annarra íslenskra rithöfunda við Leipzig. Þá flutti sendiherra Íslands í Þýskalandi, Gunnar Snorri Gunnarsson, ræðu um þrjú þeirra íslensku tónskálda sem menntun hlutu í Leipzig.
Að lokinni athöfn í ráðhúsi Leipzig afhjúpaði forseti minningarskjöld um Jóhann Jónsson skáld, höfund hins þekkta kvæðis Söknuðar, sem lifði og starfaði í Leipzig eftir að hann kom frá Íslandi og þar til hann lést úr berklum í borginni ungur að árum. Skjöldurinn er á húsinu þar sem Jóhann bjó og andaðist, Körnerstrasse 12-14. Í stuttu ávarpi minntist forseti á eftirminnilega frásögn Halldórs Laxness af heimsókn hans til Jóhanns.
Um morguninn flutti forseti fyrirlestur í Háskólanum í Leipzig um átök lýðræðis og markaða. Að honum loknum svaraði forseti fyrirspurnum en mikill fjöldi stúdenta sótti fyrirlesturinn.
Heimsókninni lauk svo í Nikulásarkirkjunni sem var vettvangur bænastunda og friðsamlegra mótmæla íbúa borgarinnar þegar lýðræðishreyfingin 1989 var að velta alræðisstjórninni úr sessi.
28.06.2013 Forseti hittir íslenska iðnaðarmenn sem komnir eru til að vera dómarar í alþjóðlegri keppni iðnaðarmanna sem fram fer í borginni.
28.06.2013 Forseti heimsækir Háskólann í Leipzig sem er annar elsti háskóli Evrópu og flytur fyrirlestur um átök lýðræðis og markaða, greinir frá glímu Íslendinga við efnahagshrunið og hvaða lærdóma má draga af henni. Heiti fyrirlestrarins er Democracy or Financial Markets: Are We at Historic Crossroads? Að honum loknum svaraði forseti fyrirspurnum en áður hafði hann átt fund með rektor skólans og vísinda- og listamálaráðherra Saxlands. Ræða forseta.

Júlí

02.07.2013 Forseti efnir til kvöldverðar til heiðurs Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og sendinefnd sem fylgir honum í heimsókninni til Íslands. Meðal gesta voru ráðherrar og forystumenn í stofnunum og samtökum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Myndir.
02.07.2013 Forseti á fund með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þar sem rætt var um glímuna við loftslagsbreytingar, þróun mála á Norðurslóðum, einkum í kjölfar þess að forysturíki í Asíu og Evrópu eru nú áheyrnarfulltrúar að Norðurskautsráðinu. Fjallað var um þátttöku Sameinuðu þjóðanna í stefnumótun á Norðurslóðum, Hringborð Norðurslóða sem haldið verður á Íslandi í haust og reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarfangs með jarðhita en hún gæti nýst til að efla fæðuöryggi í veröldinni. Framkvæmdastjórinn lýsti miklum áhuga á að vinna með íslenskum aðilum á þessum sviðum, svo og varðandi nýtingu hreinnar orku. Myndir.
02.07.2013 Forseti er viðstaddur fyrirlestur framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, í hátíðarsal Háskóla Íslands. Í fyrirlestrinum, sem bar heitið Iceland and the United Nations: Building a Sustainable Future for All, fjallaði framkvæmdastjórinn um margvíslegt framlag Íslendinga til framfara og sjálfbærni í veröldinni, ræddi glímuna við loftslagsbreytingar og fátækt, sem og stöðuna á ýmsum átakasvæðum. Hvatti hann Íslendinga til enn víðtækari þátttöku í verkefnum Sameinuðu þjóðanna.
03.07.2013 Forseti á fund með Guðmundi Eiríkssyni, sendiherra Íslands á Indlandi, um árangur af heimsókn forseta til Indlands fyrr á þessu ári og þau verkefni sem rætt var um á fundum með fulltrúum stjórnvalda, vísindamönnum og sérfræðingum í alþjóðamálum.
03.07.2013 Forseti ræðir við fréttamenn rússnesku fréttastofunnar ITAR-TASS um samstarf Íslands og Rússlands í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá því að löndin tóku upp stjórnmálasamband. Rætt var um menningu og tungumál, margvísleg viðskipti, stuðning Rússa þegar Íslendingar glímdu við útfærslu landhelginnar og í fjármálakreppu síðustu ára, ný verkefni á Norðurslóðum, stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, samspil lýðræðis og markaða og ýmsa viðburði sem efnt verður til á þessu afmælisári. Viðtalinu verður sjónvarpað í Rússlandi síðar á árinu.
04.07.2013 Forseti á fund með sendiherra Þýskalands á Íslandi, Thomas Meister, um opinbera heimsókn forseta til Þýskalands og fjölmörg verkefni sem á dagskrá eru í kjölfar viðræðna við forystumenn Þýskalands, forseta, kanslara, borgarstjóra Berlínar og stjórnvöld í Bremen og Saxlandi. Þá var einnig fjallað um samstarf í málefnum Norðurslóða og á sviði menningar og lista.
05.07.2013 Forseti er viðstaddur setningu Landsmóts UMFÍ á Selfossi og flytur ávarp þar sem hann áréttaði ríka hlutdeild ungmennahreyfingarinnar í framförum Íslendinga, íþróttum og æskulýðsstarfi í rúmlega hálfa öld. Hreyfingin ætti traustar rætur í byggðum landsins og enn á ný kæmi vösk sveit nýrrar kynslóðar til landsmóts.
05.07.2013 Forseti á fund með þingflokki Pírata sem óskaði eftir viðræðum um þróun beins lýðræðis, sess þjóðaratkvæðagreiðslna í lýðræðisskipan nýrrar aldar, áhrif nýjunga í upplýsingatækni og aukin réttindi almennings sem og lög um veiðigjald, Icesave og fjölmiðla.
06.07.2013 Forseti sækir Landsmót UMFÍ á Selfossi og fylgist með keppni í ýmsum greinum.
06.07.2013 Forseti tók á móti forsvarsmönnum undirskriftasöfnunar vegna laga um veiðigjald sem Alþingi hefur nýlega afgreitt. Undirskriftasöfnunin hefur farið fram undanfarnar vikur og eftir að forseti hafði tekið við nafnalistum ræddi hann við forsvarsmenn söfnunarinnar um veiðigjöld, arð af auðlindum þjóðarinnar, þróun beins lýðræðis og stjórnskipunar.
09.07.2013 Forseti flytur á blaðamannafundi yfirlýsingu vegna laga um veiðigjöld sem Alþingi hefur nýlega samþykkt. Að lokinni yfirlýsingunni svaraði forseti spurningum fréttamanna. Þær samræður voru sendar beint út í útvarpi og á netmiðlum.Yfirlýsing. Ensk þýðing.
09.07.2013 Forseti boðar til blaðamannafundar á Bessastöðum. Fréttatilkynning.
10.07.2013 Forseti á fund með Dr. Ólafi Ísleifssyni um rannsóknir hans á íslenska lífeyrissjóðakerfinu en hann varði nýlega doktorsritgerð um það efni við Háskóla Íslands.
21.07.2013 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu í Skálholtskirkju þar sem minnst er þess að fimmtíu ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar en þá var þjóðkirkjunni einnig afhentur Skálholtsstaður. Ávarp forseta.
21.07.2013 Forseti sækir hátíðarmessu í Skálholti í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar.
21.07.2013 Forseti flytur ávarp á setningu heimsþings esperantista sem haldið er í Hörpunni í Reykjavík en það sækja fulltrúar víða að úr veröldinni. Ávarp forseta. Ávarpið á esperanto.
22.07.2013 Forseti sendir heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni til nýs konungs Belgíu, Filipusar I.
22.07.2013 Forseti á fund með sendiherra Svíþjóðar á Íslandi Anders Ljunggren sem senn lætur af störfum. Rætt var um traust samband landanna og viðburðaríka tíð á undanförnum árum, samskipti á svið viðskipta lista, hönnunar og stjórnmála.
23.07.2013 Forseti á fund með sendiherra Danmerkur á Íslandi Sören Haslund sem senn lætur af störum. Rætt var um langvarandi tengsl Íslands og Danmerkur, sögulegar minjar víða um land, væntanleg hátíðarhöld tileinkuð Árna Magnússyni sem og góð tengsl við dönsku konungsfjölskylduna. Þá var einnig fjallað um viðburðarík ár meðan sendiherrann hefur gegnt embætti á Íslandi, lærdóma af þeirri reynslu, bæði fyrir Ísland og önnur ríki í Evrópu.
25.07.2013 Forseti á fund með Milind Deora siglingamálaráðherra og tæknimálaráðherra í indversku ríkisstjórninni og sendinefnd hans sem heimsækir Ísland til að kynna sér viðhorf gagnvart nýjum siglingaleiðum um Norðurslóðir. Í sendinefndinni er m.a. forstjóri stærsta skipafélags Indlands sem og embættismenn siglingamálaráðuneytisins. Rætt var um vaxandi mikilvægi Norðurslóða og áhuga Indlands á virkri þátttöku í þróun þeirra en Indland fékk nýlega áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
26.07.2013 Forseti sendi Jóhanni Karli konungi Spánar og spænsku þjóðinni samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni í kjölfar hins skelfilega lestarslyss. Hugur Íslendinga væri með fjölskyldum og vinum þeirra sem látist hafa og einnig þeim sem nú berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsum.
29.07.2013 Forseti á fund með Árna M. Mathiesen, yfirmanni málefna sjávarútvegs, fiskveiða og úthafanna hjá Alþjóða matvæla- og landbúnaðarstofnuninni FAO. Rætt var um fjölþætt verkefni sem unnið er að á vegum stofnunarinnar, framlag Íslendinga á fjölmörgum sviðum þessa mikilvæga málaflokks og hugmyndir um nýtingu reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarfangs til að styrkja fæðuöryggi í veröldinni.
30.07.2013 Forseti ræðir við blaðamann China Daily um samvinnu Íslands og Kína, nýtingu jarðhita, samning um fríverslun, þróun Norðurslóða sem og samvinnu á sviði tækni og vísinda.
30.07.2013 Forseti á fund með sendiherra Kanada á Íslandi um þing Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi í október en þar verður fjallað um margvísleg málefni Norðurslóða.
30.07.2013 Forseti á fund með Antonio Villaraigosa, sem nýlega lét af störfum sem borgarstjóri Los Angeles, en hann beitti sér fyrir margvíslegum breytingum í umhverfis- og orkumálum borgarinnar. Breyttir starfshættir í mörgum stærstu borgum heims væru vísbendingar um árangur í glímunni við loftslagsbreytingar þótt seint miðaði í alþjóðlegum samningum. Rætt var um framlag Íslendinga til nýtingar hreinnar orku, samstarf á Norðurslóðum, tengsl við Kína og Indland og þróun mála í Bandaríkjunum á næstu árum.
30.07.2013 Forseti flytur ávarp á samkomu í Hörpu í tilefni samkomulags milli íslenska fyrirtækisins Carbon Recycling International og kanadíska fyrirtækisins Methanex um eflingu á vinnslu metanóls á grundvelli þeirrar tækni sem þróuð hefur verið á Íslandi. Í ávarpinu fagnaði forseti þessum áfanga sem gæfi vísbendingar um hvernig ný tækni gæti auðveldað glímuna við loftslagsbreytingar og bráðnun íss á Norðurslóðum. Í þeim efnum væru tengsl Kanada og Íslands mikilvæg. Einnig rakti forseti hvernig hann hefði fylgst með þróun CRI frá fyrstu hugmyndum; árangurinn væri byggður á sterkri framtíðarsýn og óbilandi trú á samspil tækni, vísinda og frumkvæðis í viðskiptum.

Ágúst

02.08.2013 Forseti sækir hestamannamót í Berlín. Fréttatilkynning.
03.08.2013 Forseti sækir móttöku í sendiráði Íslands í Berlín til heiðurs íslenska landsliðinu sem tekur þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins.
04.08.2013 Forseti tekur þátt í opnunarhátíð Heimsmeistaramóts íslenska hestsins í Berlín en rúmlega 10.000 áhorfendur voru viðstaddir hátíðina. Í upphafi hennar var heiðursreið hestamanna víða að úr Evrópu og að henni lokinni ræddi hátíðarstjóri við forseta um íslenska hestinn, vináttutengsl sem hann skapar við fjölda fólks víða í Evrópu og sess hans í íslenskri sögu og menningu. Efnisatriði samræðnanna.
04.08.2013 Forseti flytur ávarp við Brandenborgarhliðið í Berlín til að fagna hópreið knapa á á fjórða hundrað íslenskra hesta sem komnir eru víða að úr Evrópu til þátttöku í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín. Borgarstjóri Berlínar flutti einnig ávarp og forsetafrú tók þátt í hópreiðinni. Ávarp forseta.
05.08.2013 Forseti heimsækir tjöld ýmissa íslenskra fyrirtækja sem kynna hestaferðir á Íslandi, vörur fyrir hesta og hestamenn og aðra þætti íslenskrar ferðaþjónustu í tengslum við Heimsmeistaramót íslenska hestsins sem haldið er í Berlín.
05.08.2013 Forseti ræðir við forsvarsmenn samtaka eigenda íslenska hestsins víða í Evrópu um hvernig efla megi kynningu á kostum hans og styrkja þjónustu við hin fjölmörgu félög hestamanna vítt og breitt um álfuna.
05.08.2013 Forseti ræðir við fulltrúa ýmissa fjölmiðla um íslenska hestinn og þátt hans í landkynningu, sögu og menningu.
09.08.2013 Forseti á fundi með fulltrúum íslenskra skipafélaga og verkfræðistofa um þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi í október, þar sem m.a. verður rætt um samgöngur og siglingar á Norðurslóðum sem og framkvæmdir í orkumálum, samgöngumannvirkjum og margvíslega samvinnu á sviði viðskipta og atvinnulífs.
12.08.2013 Forseti á fund með fulltrúa japanska sendiráðsins á Íslandi um þróun Norðurslóða, dagskrá Hringborðs Norðurslóða sem haldið verður á Íslandi í október og áherslur Japans og annarra ríkja sem hafa áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
12.08.2013 Forseti á fund með fulltrúa Nestlé um vatnsþörf á komandi áratugum, bæði vegna alþjóðlegra fyrirtækja í matvælaframleiðslu og vaxandi krafna í borgum og löndum um aðgang að hreinu og náttúrulegu vatni. Ísland er eitt helsta forðabúr slíks vatns á Vesturlöndum.
12.08.2013 Forseti á fund með Hafsteini Helgasyni frá EFLU um þróun siglinga um Norðurslóðir, samkomulagið sem gert var við höfnina í Bremerhaven og umfjöllun um framtíðarþróun á þessu sviði á Hringborði Norðurslóða sem haldið verður í Reykjavík í haust.
13.08.2013 Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi, Ma Jisheng, um þátttöku kínverskra vísindastofnana og annarra aðila í Norðurslóðaþinginu Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í haust. Heimskautastofnun Kína hefur stundað margvíslegar rannsóknir á bráðnun íss á Norðurslóðum og áhrifum hennar á aukna tíðni ofsaveðurs í Asíu og öðrum heimsálfum. Þá stefna kínversk skipafélög að auknum vöruflutningum um norðurleiðirnar þar eð siglingatíminn milli Asíu og Evrópu eða Asíu og Bandaríkjanna styttist til muna með því að fara leiðir sem opnast nokkra mánuði á ári vegna bráðnunar heimskautaíssins.
13.08.2013 Forseti á fund með Hauki Má Guðjónssyni um þróun viðskiptasamvinnu á Norðurslóðum, könnun á Drekasvæðinu og þátttöku fyrirtækja frá ýmsum ríkjum í Norðurslóðaþinginu Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í haust.
13.08.2013 Forseti á fund með rektor Háskólans í Reykjavík og starfsmönnum skólans um þróun Norðurslóða og Hringborðið, Arctic Circle, sem efnir til þings á Íslandi í október. Stefnt er að víðtækri þátttöku háskóla, fræðastofnana og vísindasamfélags í málstofum og umræðum.
13.08.2013 Forseti á fund með sendiherra Rússlands á Íslandi, Andrey Tsyganov, um þátttöku forseta í Norðurslóðaráðstefnu sem Rússneska landfræðifélagið heldur í Salekhard í september og margvíslega aðkomu rússneskra sérfræðinga, embættismanna og forystumanna í atvinnulífi að Hringborði Norðurslóða sem kemur saman í Reykjavík í október. Einnig var fjallað um samvinnu Íslands og Rússlands á sviði jarðhitanýtingar og menningarmála en í september verður opnuð sýningum á verkum Jóhannesar Kjarvals í Rússneska listasafninu í Pétursborg í tilefni þess að í ár eru 70 ár liðin frá því að löndin tóku upp stjórnmálasamband.
14.08.2013 Forseti ræðir við fulltrúa REYST orkuskólans, sem starfar á vegum Háskólans í Reykjavík, um kosti þess að stunda nám í orkufræðum á Íslandi, einkum með tilliti til samstarfs skólans við fjölmörg orku- og verkfræðifyrirtæki sem og þeirrar fjölbreytni í nýtingu hreinnar orku sem kynnast má á Íslandi. Ætlunin er að efla kynningu þessa náms á alþjóðlegum vettvangi.
14.08.2013 Forseti á fund með stjórnendum Landsvirkjunar um könnun fyrirtækisins á hagkvæmni þess að selja raforku um sæstreng til Bretlands. Könnuninni hefur miðað vel á undanförnum mánuðum og mikill áhugi er hjá stjórnvöldum í Bretlandi á að kanna málið til hlítar þar eð slík sala mundi henta mjög þörfum breska raforkukerfisins á komandi áratugum. Veruleg umframorka er líka til í íslenska raforkukerfinu og mætti því sinna breskri eftirspurn án verulegra nýframkvæmda. Áformað er að könnunin taki nokkur ár og þá fengist traustari grundvöllur til ákvarðana.
15.08.2013 Forseti á fund með rektor Háskóla Íslands Kristínu Ingólfsdóttur ásamt forystumönnum ýmissa fræðisviða um þróun rannsókna á Norðurslóðum, framlag íslensks vísindasamfélags og þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem kemur saman í Reykjavík í október.
16.08.2013 Forseti er viðstaddur frumsýningu á óperunni Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson en fjöldi hljóðfæraleikara og söngvara tekur þátt í sýningunni. Hljómsveitarstjóri er Petri Sakari.
16.08.2013 Forseti á fund með stjórnarformanni Eimskips um þróun vöruflutninga, kosti Íslands sem miðstöðvar, þátttöku erlendra aðila í íslensku efnahagslífi og styrkleika Íslands á komandi árum.
18.08.2013 Forseti tekur þátt í Hólahátíð. Í guðþjónustu í Hóladómkirkju var þess minnst að 250 ár eru liðin frá því kirkjan var byggð. Fjöldi presta af Norðurlandi sótti guðþjónustuna en þar flutti biskup Íslands Agnes Sigurðardóttir predikun og Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup þjónaði fyrir altari. Síðdegis var samkoma í kirkjunni þar sem Vilhjálmur Egilsson flutti Hólaræðu og Hjörtur Pálsson flutti frumsamið ljóð afmælishátíðar. Kristján Jóhannsson söng bæði í guðþjónustunni og í samkomunni í Hóladómkirkju.
19.08.2013 Forseti tekur á móti fyrsta eintaki af rómverskri messubók á íslenskri tungu sem Reykjavíkurbiskup Pétur Bürcher, séra Jakob Rolland og séra Jürgen Jamin færðu til Bessastaða en forseti hafði áður verið viðstaddur kynningu messubókarinnar í Landakoti í maí.
19.08.2013 Forseti á fund með Magnúsi Jóhannessyni framkvæmdastjóra Norðurskautsráðsins um þróun samvinnu á Norðurslóðum, eflingu ráðsins í kjölfar ákvörðunar um að veita ríkjum í Asíu og Evrópu áheyrnaraðild að ráðinu sem og um dagskrá og eðli Hringborðs Norðurslóða sem kemur saman í Reykjavík í október.
21.08.2013 Forseti á fund með fastafulltrúa Kanada hjá Norðurskautsráðinu Patrick Borbey og kanadíska sendiherranum á Íslandi en Kanada fer með formennsku í Norðurskautsráðinu á næstu tveimur árum. Rætt var um margvísleg verkefni ráðsins, jákvæða þróun þess á undanförnum árum, afleiðingar nýlegrar ákvörðunar um að veita forysturíkjum í Asíu og Evrópu áheyrnaraðild að ráðinu. Fastafulltrúinn gerði einnig grein fyrir sérstökum áherslum Kanada í formannstíð sinni á vaxandi viðskiptasamvinnu og aukna hagsæld frumbyggja á Norðurslóðum. Þá var einnig rætt um Hringborð Norðurslóða sem kemur saman til fundar í Reykjavík í október.
21.08.2013 Forseti á fund með ræðismanni Íslands í Chennai Kumar Sitaraman um vaxandi áhuga Indverja á þátttöku í íslensku atvinnulífi, bæði upplýsingatækni og ferðaþjónustu. Fyrirtæki Sitaramans var meðal hluthafa í íslenska sprotafyrirtækinu Clara sem náð hefur einstökum árangri á undanförnum misserum. Fyrirtæki hans hefur einnig gert samning um hugsanlega hótelbyggingu við Hörpu í Reykjavík.
22.08.2013 Forseti á fund með forsvarsmönnum Arctic Services sem er samstarfsvettvangur fjölmargra fyrirtækja, einkum á Norðurlandi, um ný tækifæri til atvinnusköpunar og viðskipta á Norðurslóðum.
22.08.2013 Forseti situr fund með rektor Háskólans á Akureyri Stefáni B. Sigurðssyni og forystumönnum ýmissa fræðisviða skólans um þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust, og um framlag háskólans til rannsókna og þekkingar á fjölmörgum sviðum Norðurslóða.
22.08.2013 Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnu sem haldin er í Háskólanum á Akureyri um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurslóðir. Ráðstefnan er haldin á vegum Rannsóknarþings Norðursins (NRF) og ESPON og sækja hana ýmsir fræðimenn og sérfræðingar frá aðildarríkjum Norðurskautsráðsins.
23.08.2013 Forseti flytur ávarp og opnar sýningu á verkum Ragnars Axelssonar ljósmyndara, Fjallalandið. Jafnframt kemur út bók um myndirnar sem hann hefur tekið á undanförnum tveimur áratugum í ferðum með smalamönnum og fjallamönnum í leit að kindum í íslenskum óbyggðum. Í ávarpinu lýsti forseti snilld Ragnars við að túlka samspil manns og náttúru á Norðurslóðum en sýning hans og bók Andlit Norðursins hefur vakið mikla athygli víða um heim. Með þessari nýju sýningu veitti Ragnar Íslendingum og fólki víða um heim ógleymanlega sýn á baráttu íslenskra bænda við hina óblíðu náttúru, sögu aldanna, í gegnum linsu myndavélar.
23.08.2013 Forseti á fund með Benedikt Guðmundssyni og Kristjáni B. Ómarssyni um reynsluna af viðskiptum í fjarlægum heimshlutum og árangur af uppfinningu Kristjáns sem er blöndungur fyrir smávélar sem í senn sparar orku og dregur úr mengun.
23.08.2013 Forseti á fund með Guðjóni Bjarnasyni arkitekt um sýningu á verkum hans á Indlandi árið 2015 þar sem jafnframt skapast tækifæri fyrir fjölþættari kynningu á íslenskri list og menningu.
23.08.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi kynningardags Startup Reykjavík þar sem sprotafyrirtæki í upplýsingatækni, hönnun og ferðaþjónustu kynna árangur af þróunarstarfi undanfarna mánuði. Í ávarpinu fjallaði forseti um kosti lítilla samfélaga sem vettvangs nýsköpunar, samstarfs og hugmynda og bar saman reynslu Íslands annarsvegar og Boulder í Colorado hinsvegar. Hann rakti síðan ýmis dæmi sem sýna breytt landslag og fjölþætt tækifæri.
24.08.2013 Forseti ræsir Reykjavíkurmaraþonið sem nú er haldið í þrítugasta sinn. Nokkur þúsund hlauparar, þeirra á meðal um 2000 erlendir hlauparar frá rúmlega 60 löndum. Hlaupið var bæði heilt og hálft maraþon.
25.08.2013 Forseti á fund með fyrrverandi forseta Finnlands og Nóbelsverðlaunahafanum Martti Ahtisaari sem heimsækir Ísland vegna NORIS ráðstefnunnar. Á fundinum var fjallað um stöðu mála í ýmsum heimshlutum, friðarumleitanir sem Ahtisaari tekur þátt í, óvissuna í Miðausturlöndum og samningaviðræður milli Ísraels og Palestínumanna sem og kynningu á alþjóðavettvangi á árangri Norðurlanda á sviði efnahagsmála, velferðar og lýðræðis.
25.08.2013 Forseti á fund með prófessor Lassi Heininen, stjórnarformanni Rannsóknarþings Norðursins NRF, sem hélt í síðustu viku málþing á Akureyri um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurslóðir. Á fundinum var fjallað um framhald samvinnu vísindamanna og kjörinna forystumanna á Norðurslóðum, Hringborð Norðurslóða og stöðu Norðurslóðamála í Finnlandi en Lassi Heininen er prófessor við Háskóla Lapplands.
26.08.2013 Forseti heimsækir nokkur fyrirtæki á Reykjanesi sem nýta jarðhita á sviði margvíslegra nýjunga.
26.08.2013 Forseti á fund með hópi vísindamanna frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni um þjálfun indverskra vísindamanna í jöklafræði á Íslandi en slík þjálfun væri framlag til uppbyggingar jöklarannsókna á Indlandi og samstarfs þjóða á Himalajasvæðinu.
27.08.2013 Forseti á fund með sendinefnd frá Bremen og Bremenhöfn, fulltrúum þýska sendiráðsins, sérfræðingum frá verkfræðifyrirtækinu Eflu og sveitarstjórnarmönnum frá Vopnafjarðarhreppi og Langanesbyggð um áhuga á ítarlegri könnun á kostum Finnafjarðar fyrir umfangsmikla alþjóðlega höfn sem þjóna myndi væntanlegum vöruflutningum milli Asíu og Evrópu þegar ný siglingaleið opnast um Norðurslóðir. Finnafjörður hefur marga kosti fyrir slíka staðsetningu. Verkefnið var á dagskrá í opinberri heimsókn forseta til Þýskalands í júní og rætt á fundum forseta og utanríkisráðherra í Bremerhaven. Í kjölfar þess fundar heimsótti forseti og fylgdarlið Bremenhöfn til að kynna sér umfang starfseminnar.
27.08.2013 Forseti flytur ræðu um lærdómana af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna, samspil lýðræðis og markaða á ráðstefnu evrópskra tryggingafélaga sem Sviss Re efnir til í Hörpu. Í ræðunni rakti forseti einnig hvernig ný upplýsingatækni veitir almenningi vald til verulegra áhrifa á stofnanir, fyrirtæki og stjórnvöld; í raun vari að skapast nýr grundvöllur í vestrænum lýðræðis- og markaðsríkjum. Ræðan var að efni til samhljóða ræðu sem forseti flutti í Leipzig háskóla í júní. Að henni lokinni svaraði forseti spurningum.
27.08.2013 Forseti á fund með Tom Harkin öldungadeildarþingmanni frá Bandaríkjunum um framtíðarþróun Norðurslóða, samstarf ríkja á þeim vettvangi, væntanlega forystu Bandríkjanna í Norðurskautsráðinu, áhrif bráðnunar íss og jökla og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
28.08.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Danmerkur á Íslandi Mette Kjuel Nielsen sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um nána samvinnu Danmerkur og Íslands, öflug menningartengsl, hátíðarhöld tengd Árna Magnússyni, aukið mikilvægi Norðurslóða, vaxandi samskipti Íslands og Grænlands á fjölmörgum sviðum sem og breytta afstöðu Íslands til Evrópusambandsins. Mynd
28.08.2013 Forseti tekur á móti fulltrúum þjóðþinga smáríkja í Evrópu sem koma saman til fundar á Íslandi. Rætt var um mikilvægi lýðræðis, þingræðis og mannréttinda og framlag Evrópu á því sviði þar sem reynsla smáríkja væri á margan hátt mikilvæg. Einnig sýndi fjöldi dæma að smáríki geta haft veruleg áhrif á gang mála á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi ef rödd þeirra og framtíðarsýn eru skýr og málflutningurinn vel rökstuddur.
28.08.2013 Forseti á fund með Agnieszka Legutko fræðimanni frá háskólanum í Kraká í Póllandi um hlutdeild Norðurlanda í þróun Norðurslóða og aðkomu annarra ríkja, almannasamtaka og frumbyggja að ákvarðanatöku á Norðurslóðum.
29.08.2013 Forseti flytur ræðu og tekur þátt í umræðum á Arctic Business Round Table sem haldið er í Fram safninu í Osló. Viðfangsefni málþingsins er að þróa aukna samvinnu á sviði viðskipta og efnahagslífs á Norðurslóðum með virkri þátttöku fyrirtækja, vísindastofnana sem og stjórnvalda. Að málþinginu standa Arctic Forum Foundation og Konrad Adenauer Stiftung. Þátttakendur eru einkum frá norður Rússlandi og Þýskalandi. Málþingið fer fram 29. og 30. þessa mánaðar.

September

15.09.2013 Forseti tekur ásamt þjóðhöfðingjum annarra Norðurlanda þátt í hátíðarhöldum í Stokkhólmi í tilefni af 40 ára krýningarafmæli Karls XVI Gústafs Svíakonungs.
16.09.2013 Forseti á fund með sendinefnd frá Abu Dhabi, sem kynnir sér reynslu Íslendinga af nýtingu á hreinni orku, og heimsækir fyrirtæki á Reykjanesi sem nýta jarðhita í þágu ferðaþjónustu, þurrkunar matvæla og framleiðslu á snyrti- og heilbrigðisvörum. Fulltrúar í sendinefndinni voru frá Masdar og Mubadala en Masdar hefur haft forystu á sviði fjölþættrar nýtingar hreinnar orku og skipulagt árlega heimsráðstefnu um þau efni, World Future Energy Summit.
17.09.2013 Forseti opnar saltverksmiðju Norður & Co á Reykhólum en hún nýtir jarðhita frá Þörungaverksmiðjunni til að framleiða sérstakt gæðasalt úr Breiðafirði. Í ávarpi fagnaði forseti þessari nýsköpun þar sem gamlar hefðir, hrein orka og óspillt náttúra féllu í sama farveg. Hugmynd að saltvinnslu við Breiðafjörð kom fyrst fram fyrir um 250 árum. Með þessu framtaki væri ný kynslóð hugmyndaríkra athafnamanna að senda mikilvæg skilaboð, að gæði náttúrunnar og hrein orka fælu í sér fjölda tækifæra. Myndir.
17.09.2013 Forseti heimsækir Bátasafnið á Reykhólum og skoðar báta- og hlunnindasýninguna sem þar hefur verið komið upp. Á henni eru kynntir verkþættir og handverk sem tíðkaðist við Breiðafjörð og margir bátar frá fyrri tíð varðveittir. Í bátasafninu er einnig unnið að því að varðveita og rannsaka það handverk sem bátasmíð fyrri alda byggðist á. Myndir.
17.09.2013 Forseti heimsækir hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð og ræðir við heimilisfólk og starfsmenn. Myndir.
17.09.2013 Forseti heimsækir Reykhólaskóla, kynnist kennsluháttum og ræðir við nemendur um nám og mannlíf í sveitarfélaginu. Reykhólaskóli er sameinaður grunn- og leikskóli. Myndir.
17.09.2013 Forseti á fund og snæðir hádegisverð í Bjarkarlundi með sveitarstjórn Reykhólahrepps þar sem kynnt voru helstu viðfangsefni sveitarstjórnarinnar og staða mála í byggðarlaginu. Mynd.
17.09.2013 Forseti heimsækir Reykhólahrepp, á fund með sveitarstjórnarmönnum og opnar nýja saltverksmiðju Norður & Co sem þar tekur til starfa. Þá mun forseti einnig heimsækja Reykhólaskóla, hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð og skoða sýningu í Bátasafninu.
18.09.2013 Forseti á fund með Adrienne Clarkson, fyrrum ríkisstjóra Kanada, um þróun mála á Norðurslóðum frá því hún sem ríkisstjóri beitti sér fyrir auknu samstarfi á þeim vettvangi. Clarkson kom í opinbera heimsókn til Íslands og fór einnig í sambærilegar heimsóknir til Rússlands og Noregs til að leggja áherslu á mikilvægi samstarfs á Norðurslóðum.
18.09.2013 Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, forstjóra Orka Energy, um jarðhitaverkefni í Kína, Filippseyjum og fleiri löndum, víðtækt samstarf við Sinopec um byggingu hitaveitna í kínverskum borgum sem og hugmyndir um að nýta jarðhita í þágu ylræktar til að spara flutningskostnað á matvælum. Fjölmörg íslensk verkfræði- og tæknifyrirtæki taka þátt í þessum verkefnum og mikill áhugi er á að efla þau frekar og nýta kunnáttu og reynslu Íslendinga.
18.09.2013 Forseti tekur við Umferðarsáttmála fyrir hönd þjóðarinnar sem afhentur var við hátíðlega athöfn. Sáttmálinn var unninn af fulltrúum almennings sem lögreglustjórinn í Reykjavík fékk til þátttöku við gerð hans. Í ávarpi hvatti forseti til þess að sérhverjum einstaklingi yrði kynntur sáttmálinn um leið og ökuskírteini er afhent og jafnframt væri hann til kynningar í framhaldsskólum, íþróttamiðstöðvum og á almennum vettvangi. Sáttmálinn geymir grundvallarreglur sem skapað geta öflugri umferðarmenningu og dregið úr slysum og dauðsföllum í umferðinni.
18.09.2013 Forseti flytur ávarp og afhendir Kjartani Erni Styrkárssyni, nemanda í Melaskóla, verðlaun í alþjóðlegri forritunarkeppni Microsoft fyrir börn. Athöfnin fór fram í Melaskóla. Verðlaunaverkefnið fólst í leik þar sem hvatt er til umhverfisverndar. Í ávarpinu áréttaði forseti að árangur Kjartans Arnar sýndi að nemendur í íslenskum grunnskólum gætu náð árangri á alþjóðlegum vettvangi þar sem keppt væri um kunnáttu í hugbúnaði og upplýsingatækni. Verðlaun hans væru mikilvæg skilaboð til ungrar kynslóðar, skólakerfisins og þjóðarinnar allrar. Vefsíða Melaskóla. Frétt á visir.is.
20.09.2013 Forseti á fund með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Fréttatilkynning. Mynd.
20.09.2013 Forseti á fund með nokkrum æðstu embættismönnum Sameinuðu þjóðanna um fæðuöryggi og þurrkun matvæla. Samtvinnun hreinnar orku og eflingar fæðuöryggis í veröldinni er eitt af meginviðfangsefnum Sameinuðu þjóðanna á nýrri öld. Íslendingar hafa í áratugi þurrkað þorskhausa, beinagarða og annað sjávarfang, sem áður var hent, og flutt út til Afríku þar sem þessar afurðir nýtast almenningi. Að undanförnu hefur fyrirtækið Haustak á Reykjanesi einnig þurrkað kjöt, ávexti og grænmeti í tilraunaskyni og sýnir sú reynsla að þurrkunaraðferðum Íslendinga má beita á margvíslegar afurðir. Fundinn sátu Robert Orr, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði stefnumótunar, Kandeh Yumkella, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í málefnum hreinnar orku, Sigrid Kaag, aðstoðarframkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP, David Nabarro, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á sviði fæðuöryggis, og Anthea Webb, stjórnandi á sviði fæðu- og næringarmála.
20.09.2013 Forseti ræðir við fréttamenn CNN, Bloomberg, Reuters, USA Today og PBS um þróun mála á Norðurslóðum, vaxandi áhuga ríkja í Asíu og Evrópu á samstarfi á þessum vettvangi, nýjar siglingaleiðir, nýtingu auðlinda, umhverfisvernd og alþjóðlegt þing, Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi 12.-14. október.
20.09.2013 Forseti á fund í New York með Tracey Foster um undirbúning alþjóðlegs þings um málefni Norðurslóða, Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi 12. -14. október, en Tracey Foster hefur á undanförnum árum undirbúið Arctic Imperative ráðstefnurnar í Alaska en þær hafa verið mikilvægur vettvangur samræðu um málefni Norðurslóða.
22.09.2013 Forseti á fundi í New York með Tracey Foster og Robyn Engibous um undirbúning alþjóðaþingsins Arctic Circle – Hringborðs Norðurslóða sem haldið verður í Hörpunni 12.-14. október. Mikil þátttaka verður í þinginu bæði frá ríkjum Norðurslóða og forysturíkjum í Asíu og Evrópu og munu sækja það forystumenn, vísindamenn, sérfræðingar, athafnamenn og fulltrúar frumbyggja og almannasamtaka. Rætt var um dagskrá Arctic Circle og málstofur sem þar verða haldnar á vegum ýmissa stofnana og samtaka.
23.09.2013 Forseti ræðir við fréttamann alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarinnar RT í höfuðstöðvum hennar í Moskvu. Þátturinn ber heitið Worlds Apart og var í viðtalinu m.a. fjallað um lærdómana, sem draga má af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna, samspil markaða og lýðræðis og þróun mála á Norðurslóðum, einkum í ljósi þátttöku forysturíkja í Asíu og Evrópu í störfum Norðurskautsráðsins. Viðtalið við forseta.
24.09.2013 Forseti situr í dag og á morgun, 24. og 25. september, ráðstefnu um málefni Norðurslóða, The Arctic: Territory of Dialogue, sem Rússneska landfræðifélagið efnir til í Salekhard í Yamal Nenets fylki í Norður-Rússlandi. Á ráðstefnunni, sem einkum er sótt af vísindamönnum, sérfræðingum, kjörnum fulltrúum og embættismönnum, verður aðallega fjallað um nauðsyn umhverfisverndar á Norðurslóðum og hvernig hin viðkvæma náttúra verður best varin fyrir auknum umsvifum, framkvæmdum og atvinnurekstri á svæðinu. Fréttatilkynning.
24.09.2013 Forseti er í ítarlegu viðtali á rússnesku sjónvarpsstöðinni Russia 24 þar sem m.a. er fjallað um fjölþætta og langvarandi samvinnu Íslendinga og Rússa, menningu, þjóðmál og efnahagslíf en í ár eru sjötíu ár frá því að löndin tóku upp stjórnmálasamband.
25.09.2013 Forseti á fund með forseta Finnlands, Sauli Niinistö, í tengslum við ráðstefnuna The Arctic, a Territory of Dialogue sem Rússneska landfræðifélagið heldur í Salekhard en forsetarnir fluttu báðir ræðu á ráðstefnunni. Á fundi sínum áréttuðu þeir eindreginn vilja til að efla samstarf sitt í málefnum Norðurslóða og ræddu m.a. undirbúning fyrir hið alþjóðlega þing Arctic Circle – Hringborð Norðurslóða sem haldið verður í Reykjavík 12.-14. október. Forsetarnir hafa á fyrri fundum sínum, á Íslandi og í Finnlandi, rætt um þá nýju nálgun í málefnum Norðurslóða sem skipulagning Arctic Circle felur í sér. Loks fjölluðu þeir um sérstakt framlag Finnlands og Íslands til málefna Norðurslóða og þau nánu tengsl sem þróast hafa, sérstaklega á milli Háskólans á Akureyri og Háskólans í Rovaniemi varðandi rannsóknir á málefnum Norðurslóða.
25.09.2013 Á fundi forseta með Vladimir Putin forseta Rússlands í Salekhard fyrr í dag, miðvikudaginn 25. september, kom fram ríkur áhugi forseta Rússlands á að efla samvinnu á Norðurslóðum, auka viðskipti við Ísland og heimsækja landið á næsta ári.Fréttatilkynning. Myndir.
26.09.2013 Forseti hittir nokkra aldraða sjómenn sem voru á rússneskum skipum í síðari heimsstyrjöldinni og tóku þátt í hinum mikilvægu norðursiglingum. Ísland gegndi sérstöku hlutverki í þessum siglingum og eru þær taldar hafa skipt sköpum í styrjöldinni. Nokkrir þessara öldruðu sjómanna sóttu ráðstefnu sem haldin var á Íslandi fyrir fáeinum árum þar sem fræðimenn víða að úr veröldinni fjölluðu um hlutverk þessara siglinga.
26.09.2013 Forseti situr fyrir svörum í þætti sjónvarpsstöðvarinnar Channel 5 og ræðir við fulltrúa fjölmargra rússneskra fjölmiðla sem voru viðstaddir opnun sýningar á verkum Jóhannesar Kjarvals í Rússneska ríkislistasafninu en sérstakur blaðamannafundur var haldinn áður en sýningin var opnuð. Þar tóku einnig til máls fulltrúar Listasafns Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytis Rússlands.
26.09.2013 Forseti á fund með stjórnvöldum Pétursborgar í Rússlandi um þróun samstarfs á Norðurslóðum, aukin viðskipti Íslendinga í Rússlandi, áætlunarflug Icelandair til Pétursborgar og mikilvægi þess að borgin rækti hlutverk sitt sem forystuborg á Norðurslóðum. Þá var einnig fjallað um samstarf evrópskra borga í baráttunni gegn fíkniefnum en Pétursborg hefur ásamt Reykjavík verið virkur þátttakandi í því samstarfi og forseti verið verndari þess.
26.09.2013 Forseti opnar yfirlitssýningu á verkum Jóhannesar Kjarvals í Rússneska ríkislistasafninu í Pétursborg. Sýningin, sem haldin er í tilefni af sjötíu ára afmæli stjórnmálasambands milli landanna, er ein veigamesta sýning á verkum Kjarvals sem sett hefur verið upp í höfuðlistasöfnum Evrópu. Fréttatilkynning. Myndir.
27.09.2013 Forseti á fund á Bessastöðum með Angel Gurría, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD, um ýmsa þætti íslensks efnahagslífs og samfélags sem stofnunin hefur kannað á undanförnum misserum, stöðuna í efnahagslífi landsins og helstu vandamál sem enn eru viðfangsefni eftir fjármálakreppuna þótt árangur hafi náðst á ýmsum sviðum. Rætt var um stefnumótun á sviði ríkisfjármála, heilbrigðismála, landbúnaðar og menntakerfis sem og baráttuna gegn loftslagsbreytingum, þörfina á eflingu hreinnar orku í hagkerfum heimsins og vaxandi mikilvægi Norðurslóða. Þá var einnig rætt um stöðu bankakerfisins, skuldavanda heimilanna, gjaldeyrishöftin og horfur í fjármálum ríkisins. Í heimsókn sinni til Íslands hefur framkvæmdastjórinn átt fundi með forystumönnum ríkisstjórnar og embættismönnum ráðuneyta og stofnana.
28.09.2013 Forseti afhendir Forsetamerki skátahreyfingarinnar við hátíðlega athöfn í Bessastaðakirkju. Merkið er veitt fyrir sérstakan árangur í skátastarfi og hlutu það að þessu sinni átján skátar frá Akureyri, Álftanesi, Garðabæ, Hveragerði og Kópavogi. Að lokinni athöfn var merkishöfum og fjölskyldum þeirra ásamt forystumönnum skátahreyfingarinnar boðið að þiggja veitingar í Bessastaðastofu.
30.09.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, Bosse Hedberg, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um trausta samvinnu landanna, aukið mikilvægi Norðurslóða í norrænni samvinnu og þátttöku forysturíkja í Asíu og Evrópu í rannsóknum og efnahagsþróun á Norðurslóðum. Að loknum fundinum var móttaka fyrir fulltrúa menningarlífs, stjórnkerfis og atvinnulífs, sem átt hafa margvísleg samskipti við Svíþjóð, sem og stjórnendur vináttufélags Íslands og Svíþjóðar. Mynd.
30.09.2013 Forseti á fund með Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra Íslands í Frakklandi og hjá OECD, um árangur heimsóknar framkvæmdastjóra OECD til Íslands í síðustu viku og þá ráðgjöf sem OECD getur látið í té. Jafnframt var rætt um formlega heimsókn forseta til Frakklands og hvernig henni hefur verið fylgt eftir á ýmsum sviðum.
30.09.2013 Forseti skrifar formála að nýrri árbók norðurslóða, The Arctic Yearbook, sem kemur út eftir fáeina daga. Viðfangsefni árbókarinnar er "Arctic of Regions versus the Globalized Arctic" og birtast í bókinni fjölmargar fræðigreinar eftir vísindamenn frá ýmsum löndum. Í formálanum lýsir forseti þeim samstarfsreglum sem þróast hafa á Norðurslóðum og ítrekar mikilvægi þess að þær þjóðir sem nú hafa öðlast áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu virði þær á komandi árum. Formálinn ber heitið "The Arctic House Rules". Vefur árbókarinnar.
30.09.2013 Forseti flytur ávarp á málþingi NorMER, Nordic Center for Research on Marine Ecosystems and Resources under Climate Change. Málþingið sækja vísindamenn og sérfræðingar, aðallega frá Norðurlöndum en NorMER felur í sér nokkurra ára samstarf um rannsóknir á fiskistofnum og auðævum hafsins í ljósi loftslagsbreytinga. Í ávarpinu áréttaði forseti mikilvægi slíkra rannsókna og nauðsyn þess að forystumenn ríkisstjórna og alþjóðastofnana mótuðu fiskveiðistefnu á grundvelli vísindalegra rannsókna. Aukinn hraði loftslagsbreytinga, þátttaka forysturíkja í Asíu og Evrópu í samstarfi á Norðurslóðum og það hættuástand sem skapast hefur í heimshöfunum knýr allt á um öflugra samstarf. Sá tími sem þjóðir hafi til að þróa farsælt samstarf á þessum vettvangi styttist óðum.

Október

01.10.2013 Forseti setur Alþingi að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Ræða forseta. Ræðan á ensku (English version).
01.10.2013 Forseti stýrir fundi ríkisráðs á Bessastöðum þar sem staðfest voru lög og ýmsar stjórnarathafnir sem afgreiddar höfðu verið utan ríkisráðs.
02.10.2013 Forseti afhendir heiðursverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RIFF sem haldin er í Reykjavík. Verðlaunin hlutu Laurent Cantet og James Gray og gerði Jón Atli Jónasson grein fyrir ákvörðun íslenskra kvikmyndamanna og hátíðarinnar að heiðra Cantet og Gray. Í kjölfarið var móttaka fyrir innlenda og erlenda þátttakendur í hátíðinni, blaðamenn og kvikmyndagerðarfólk.
02.10.2013 Forseti á fund með Gunnlaugi Jónssyni um olíuleit á Drekasvæðinu og grundvallarþætti í ábyrgri efnahagsstjórn sem og um mikilvægi Norðurslóða fyrir Ísland, m.a. aukna samvinnu við Grænland.
02.10.2013 Forseti á fund með starfsmönnum True North sem taka þátt í undirbúningi vegna alþjóðaþings um Norðurslóðir, Arctic Circle, sem haldið verður í Hörpu um miðjan október.
02.10.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Slóvakíu, hr. Frantisek Kasický, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samskipti landanna, m.a. íslenskra stúdenta sem í vaxandi mæli sækja læknanám til Slóvakíu sem og áhuga stjórnvalda á að nýta kunnáttu Íslendinga á sviði jarðhita en slíkt samstarf var rætt þegar forseti Slóvakíu heimsótti Ísland fyrir nokkrum árum. Mynd.
02.10.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Norður-Kóreu, hr. Pak Kwang Chol, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um reynslu Íslendinga í sjávarútvegi og nýtingu jarðhita og hvernig þjóðir í Asíu og Afríku gætu lært af þeirri reynslu, m.a. með þjálfun fólks í Sjávarútvegsskóla og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktir eru á Íslandi. Mynd.
03.10.2013 Forseti ræðir við Jason Miks, fréttamann netmiðils CNN, um Norðurslóðir, hlutverk Bandaríkjanna í þróun þeirra og alþjóðaþingið Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík um miðjan mánuðinn. Viðtalið á CNN.
03.10.2013 Forseti tekur á móti hópi grænlenskra barna sem stunda sundnám á Íslandi. Börnin koma frá fimm byggðarlögum á Austur-Grænlandi.
03.10.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Hollands, frú Berendina Maria ten Tusscher, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um langvarandi samvinnu Íslands og Hollands og aukið mikilvægi Norðurslóða, sérstaklega áhuga á nýjum siglingaleiðum og þátttöku alþjóðlegra hafnaryfirvalda, bæði í Þýskalandi og Singapore, á að skoða þær nýju siglingaleiðir. Hollendingar hafa verið umsvifamiklir í alþjóðlegum flutningum og rekið öflugar þjónustuhafnir á alþjóðavísu.
03.10.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Suður-Afríku, frú Queen Anne Zondo, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um mikið samstarf Íslands við fjölmörg lönd í Afríku á sviði jarðhitanýtingar og áhuga á að beita hreinni orku við þurrkun matvæla en íbúar Suður-Afríku hafa lengi þurrkað kjöt með hefðbundnum aðferðum. Einnig var fjallað um þróun mála í álfunni og árangur Suður-Afríku frá því kynþáttastefnan var afnumin og almennt lýðræði og jafnrétti fest í sessi.
03.10.2013 Forseti á fund með Runólfi Ágústssyni um reynsluna af átaki undanfarinna ára til að auðvelda ungu fólki leiðina frá atvinnuleysi til menntunar og starfa. Samtök launafólks og atvinnulífs tóku ásamt stjórnvöldum og skólakerfi virkan þátt í þessu verkefni sem mjög hefur stuðlað að því að draga úr atvinnuleysi ungs fólks á undanförnum árum. Verkefnið er á margan hátt lærdómsríkt og áhugavert fyrir þau lönd sem glíma við viðvarandi atvinnuleysi ungs fólks.
04.10.2013 Forseti sækir tónleika Moscow Virtuosi sem haldnir eru í tilefni af 70 ára afmæli stjórnmálasambands Rússlands og Íslands. Stjórnandi er Valdimir Spivakov og einleikari Daniel Kharitonov.
05.10.2013 Forseti opnar sýningu á Kjarvalsstöðum á verkum Alexanders Rodchenko sem haldin er í tilefni af 70 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Rússlands. Jafnframt opnar forseti sýningu á verkum Kjarvals sem voru í eigu íslensku bankanna en sú sýning ber heitið Mynd af heild 2. Ræða forseta.
07.10.2013 Forseti á fund með vísindamönnum frá Wadia stofnuninni í Dehradoon í Indlandi um samstarf við íslenska vísindamenn á sviði jarðskjálftarannsókna, jöklafræði og annarra náttúruvísinda. Fundinn sátu einnig Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur, Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og Ingvar Kristinsson þróunarstjóri Veðurstofunnar auk sendiherra Indlands á Íslandi.
07.10.2013 Forseti á fund með sendiherra Suður-Kóreu á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um vaxandi samvinnu þjóðanna, m.a. með tilliti til vaxandi mikilvægis Norðurslóða en bæði vísindamenn og embættismenn frá Suður-Kóreu munu taka þátt í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem hefst í Reykjavík um næstu helgi.
07.10.2013 Forseti tekur þátt í blaðamannafundi, sem haldinn er í Háaleitisskóla við Álftamýri, þar sem kynnt er dagskrá Forvarnardagsins sem haldinn verður miðvikudaginn 9. október næstkomandi. Á blaðamannafundinum var fjallað um þann árangur sem náðst hefur í forvarnarmálum á Íslandi og töluðu þar fulltrúar ýmissa samtaka sem standa að deginum. Mynd.
08.10.2013 Forseti flytur ávarp við setningu Arctic Energy Summit þar sem fjallað er um þróun orkumála á Norðurslóðum, nýtingu, regluverk, framkvæmdir, samstarf, umhverfismál og fleiri þætti. Orkufundurinn er haldinn af Institute of the North í samvinnu við íslenska aðila og taka þátt í honum sérfræðingar og embættismenn frá ríkjum Norðurslóða. Í ávarpinu áréttaði forseti nauðsyn þess að ekki væri aðeins rætt um olíu og gas á Norðurslóðum heldur einnig hina fjölþættu möguleika á nýtingu hreinnar orku enda eru mörg ríki Norðurslóða nú þegar í fararbroddi á heimsvísu í nýtingu slíkrar orku. Vefur ráðstefnunnar.
09.10.2013 Forseti heimsækir Borgarholtsskóla í tilefni af Forvarnardeginum og ræðir við nemendur um þær lífsreglur sem reynst hafa best í baráttunni gegn fíkniefnum og rannsóknir sem staðfesta árangur þeirra. Að því loknu svaraði forseti fjölmörgum fyrirspurnum nemenda. Framhaldsskólar landsins taka nú í þriðja sinn þátt í Forvarnardeginum sem áður var eingöngu í grunnskólum. Myndir
09.10.2013 Forseti heimsækir Rimaskóla á Forvarnardaginn og ræðir við nemendur um þær lífsreglur sem reynst hafa best í baráttunni gegn fíkniefnum. Forseti svaraði einnig fyrirspurnum nemenda. Forvarnardagurinn er nú haldinn í 8. sinn í grunnskólum landsins. Myndir
10.10.2013 Forseti flytur ávarp á samkomu sem haldin er í Hörpu í tilefni af alþjóðadegi geðheilbrigðis. Í ávarpinu fagnaði forseti þeim margvíslega árangri sem náðst hefur á undanförnum árum en hvatti jafnframt til þess að áfram yrði ötullega unnið að því að bæta þjónustu við þá sem glíma við geðræn vandamál og efldur skilningur þjóðarinnar á aðstöðu þeirra og veikindum.
10.10.2013 Forseti á fund með Christina J. Colclough framkvæmdastjóra Sambands norrænna verkalýðsfélaga og Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ um samstarf samtaka launafólks á Norðurlöndum, árangur Norðurlanda í samtvinnun félagslegra réttinda og efnahagslegra framfara sem og þróun mála á Íslandi á undanförnum árum.
11.10.2013 Forseti flytur ávarp í móttöku sem haldin er í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi í aðdraganda Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle en það sækja um 1.000 þátttakendur frá 40 löndum. Forseti þakkaði öllum þátttakendum sem og fjölmörgum stofnunum og samtökum sem í sameiningu hafa gert Arctic Circle nú þegar að áhrifaríkum alþjóðlegum vettvangi í þróun Norðurslóða, vettvangi fyrir samræður og samstarf.
11.10.2013 Forseti ræðir við ritstjóra Foreign Affairs, Stuart Reid, um þróun mála á Norðurslóðum, nýja stöðu Íslands í því ljósi, efnisþætti og þátttöku í Hringborði Norðurslóða sem og lærdómana sem draga má af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna.
11.10.2013 Forseti á fund með Pema Gyamtsho, fyrrum landbúnaðarráðherra í Bútan, stjórnendum Reykjavik Geothermal og Dagfinni Sveinbjörnssyni um samvinnu við Bútan á sviði rannsókna á loftslagsbreytingum, þróun jökla, vatnsbúskap og nýtingu hreinar orku. Ráðherrann sækir Hringborð Norðurslóða sem haldið er í Reykjavík.
11.10.2013 Forseti flytur ávarp á alþjóðlegri ráðstefnu um heimskautarétt, Symposium on Polar Law, sem haldið er í Háskólanum á Akureyri. Í ávarpinu þakkaði forseti forystumönnum um þetta fræðasamstarf fyrir það hvernig þeir hefðu aukið skilning og þekkingu á Norðurskautsrétti, réttindum frumbyggja og beitingu alþjóðalaga til að efla samvinnu á þessu svæði. Jafnframt þakkaði forseti forystumönnunum fyrir þátttöku þeirra í að skapa Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle, sem heldur sitt fyrsta alþjóðlega þing í Reykjavík um helgina.
12.10.2013 Forseti á fund með sendinefnd Singapúrs sem tekur þátt í alþjóðaþinginu Arctic Circle. Rætt var um áhuga Singapúrs á að efla vísindi og rannsóknir, sem og menntun og þjálfun ungs fólks á Norðurslóðum og gerð var grein fyrir því á hvern hátt hugsanleg hækkun sjávarborðs gæti ógnað öryggi og tilvist Singapúrs á komandi áratugum.
12.10.2013 Forseti á fund með forstjóra kínverska skipafélagsins COSCO, sem er hið stærsta í veröldinni, en það hefur nú þegar hafið reynslusiglingar með gámaskip um norðurleiðina sem opnast hefur vegna bráðnunar íss á Norðurslóðum. Forstjórinn rakti reynslu skipafélagsins og sparnað á olíu og öðrum tilkostnaði enda ferðin um níu dögum styttri en ef farið væri um Súezskurðinn. Rætt var um samstarf við íslenska aðila til að meta reynsluna af þessum tilraunasiglingum. Forstjórinn tekur þátt í alþjóðaþinginu Arctic Circle sem haldið er í Reykjavík.
12.10.2013 Forseti tekur þátt í umræðum á stjórnarfundi University of the Arctic sem er net yfir hundrað háskóla og rannsóknarstofnana á Norðurslóðum en stjórnarfundurinn er haldinn í tengslum við alþjóðaþingið Arctic Circle.
12.10.2013 Forseti flytur ávarp í upphafi málstofu um samstarf á Norðurslóðum og lærdómana sem í því felast fyrir ríkin á Himalajasvæðinu. Málstofan er samofin alþjóðaþinginu Arctic Circle, sem haldið er í Reykjavík.
12.10.2013 Forseti flytur setningarræðu á Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið er í Hörpu en það sækja um 1.000 þátttakendur frá 40 löndum. Ræða forseta. Myndir.
13.10.2013 Forseti á fund með Turkson kardínála sem sækir Arctic Circle, Hringborð Norðurslóða sem sérstakur fulltrúi Frans páfa. Rætt var um vinnu í Páfagarði við mótun stefnu í málefnum jarðar vegna hættunnar á loftslagsbreytingum, samstarf við Hringborð Norðurslóða sem og reynsluna af þurrkun matvæla á Íslandi.
13.10.2013 Forseti stjórnar fundi í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, þar sem Artur Chilingarov, sérlegur sendimaður Putins Rússlandsforseta, flytur ræðu um sýn Rússa á framtíð Norðurslóða. Lagði hann sérstaka áherslu á vísindi og rannsóknir sem kjarna samstarfs á Norðurslóðum og reifaði hugmynd um sérstakan áratug rannsókna á heimskautunum, "Polar Decade". Þá svaraði hann fyrirspurnum m.a. frá framkvæmdastjóra Grænfriðunga, Kumi Naidoo, sem ásamt hópi annarra frá samtökunum sat þingið.
13.10.2013 Forseti sækir fundi og málstofur í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið er í Reykjavík
14.10.2013 Forseti tekur þátt í og stýrir málstofum á alþjóðaþinginu Arctic Circle - Hringborð Norðurslóða en þriggja daga fundum þess lýkur í dag í Reykjavík. Við lok þingsins áttu forseti og aðrir forráðamenn Arctic Circle viðræður við fulltrúa fjölmargra stofnana og samtaka sem tekið hafa þátt í Arctic Circle. Mikil ánægja var með árangurinn af þinginu og komu fram margar hugmyndir og tillögur um hvernig bæta mætti ýmislegt í framkvæmd og hvernig haga bæri samræðum og dagskrárefnum á næsta ári.
14.10.2013 Forseti á fund með sendinefnd Singapúrs á alþjóðaþinginu Arctic Circle um nánari útfærslur hugmynda um aukið samstarf Íslands og Singapúrs og framlag þeirra til þróunar Norðurslóða, sérstaklega á sviði menntunar og þjálfunar fyrir ungt fólk.
14.10.2013 Forseti á fund með forsætisráðherra Grænlands, Aleqa Hammond, þar sem rætt var um vaxandi samstarf Íslands og Grænlands, einkum með tilliti til aukins mikilvægis Norðurslóða. Þar blasa við mörg verkefni á sviði viðskipta, vísinda og rannsókna. Hammond flutti ræðu á opnunarfundi alþjóðaþingsins Arctic Circle sem haldið var í Hörpu og lýsti áhuga á að sú umræða sem þar fór fram gæti haldið áfram á Grænlandi á næsta ári.
14.10.2013 Forseti á fund með sendinefnd frá Suður-Kóreu sem tók þátt í alþjóðaþinginu Arctic Circle en Suður-Kórea leggur nú vaxandi áherslu á Norðurslóðir, eflir vísindalegar rannsóknir á þessu sviði og skoðar áhrifin sem nýjar siglingaleiðir kunna að hafa á heimsviðskiptin. Mikill áhugi er hjá nýjum forseta Suður-Kóreu og stjórnvöldum í landinu að efla samstarf við Íslendinga í málefnum Norðurslóða.
15.10.2013 Forseti er í viðtali við alþjóðlegu rússnesku sjónvarpsstöðina RT um árangur af alþjóðaþinginu Arctic Circle, sem haldið var í Reykjavík um helgina, um samstarf ríkja í málefnum Norðurslóða og árangur Íslendinga í glímunni við fjármálakreppuna.
16.10.2013 Forseti flytur opnunarfyrirlestur hinnar nýju stofnunar, Harkin Institute for Public Policy and Citizen Engagement, við Drake háskólann í Des Moines. Stofnunin er kennd við Tom Harkin öldungadeildarþingmann og flutti hann ávarp í upphafi og kynnti forseta. Fyrirlesturinn sem bar heitið "The AHA-moment in the Climate Debate" fjallaði um hvernig þróun jökla og ísilagðra svæði á Norðurskauti og Suðurskauti jarðar sem og á Himalajasvæðinu hefði áhrif á veðurkerfi, efnahagslíf og samfélög um allan heim. Þá rakti forseti einnig hvernig nýting hreinnar orku, vatnsafls og jarðhita, hefði styrkt stoðir íslensks efnahagslífs. Fyrirlestur forseta.
16.10.2013 Forseti á fund með Terry Branstad ríkisstjóra Iowa um eflingu hreinnar orku í ríkinu, aukna nýtingu jarðhita, vindorku og lífmassa en Iowa hefur verið í fararbroddi um nýtingu hreinnar orku í Bandaríkjunum. Ríkisstjórinn lýsti miklum áhuga á því að kynna sér hvernig nýting jarðhita hefði orðið undirstaða margvíslegrar atvinnustarfsemi á Íslandi. Mynd.
16.10.2013 Forseti ræðir við blaðamenn frá Bandaríkjunum og öðrum löndum sem sækja alþjóðlega ráðstefnu sem haldin er í Iowa í tilefni af veitingu World Food Prize. Ráðstefnan er kennd við Norman Borlaug, handhafa friðarverðlauna Nóbels og sérfræðing í landbúnaðarvísindum sem jafnan er nefndur höfundur Grænu byltingarinnar.
16.10.2013 Forseti á fund í Des Moines í Iowa með Kenneth Quinn, stjórnanda World Food Prize stofnunarinnar en forseti tekur þátt í alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er í tilefni af veitingu verðlaunanna.
17.10.2013 Forseti er heiðursgestur á verðlaunahátíð World Food Prize sem haldin er í sal fulltrúadeildar ríkisþings Iowa. Verðlaunin voru stofnuð af Norman Borlaug, handhafa friðarverðlauna Nóbels og frumkvöðli Grænu byltingarinnar. Meðal viðstaddra við athöfnina voru ríkisstjóri Iowa, þingmenn og forystumenn ríkisins, vísindamenn, sérfræðingar og fulltrúar almannasamtaka víða að úr veröldinni. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá 1987 vísindamönnum og baráttufólki, sem skipt hafa sköpum í glímunni gegn fátækt og hungri, fyrir árangur í að tryggja öllum íbúum jarðar næga fæðu. Vefsetur verðlaunanna.
17.10.2013 Forseti á fund með Peter Turkson, kardínála og sérlegum sendimanni Frans I páfa, en hann sækir einnig Borlaug málþingið. Rætt var um þátttöku kaþólsku kirkjunnar í alþjóðlegum umræðum um málefni Norðurslóða, bráðnun íss og loftslagsbreytingar sem og baráttuna gegn hungri í heiminum. Kynnti forseti kardínálanum reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarfangs og hvernig hún gæti gagnast til að tryggja betur nýtingu fæðu sem framleidd er í veröldinni.
17.10.2013 Forseti á fund með Jim Leach, fyrrum þingmanni í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sem nýverið lét af störfum sem forstöðumaður Mannvísindastofnunar Bandaríkjanna. Rætt var um nauðsyn þess að efla víðtækt alþjóðlegt samstarf í glímunni við loftslagsbreytingar og fæðuvanda þar sem fyrst og fremst yrði byggt á vísindum og þekkingu.
17.10.2013 Forseti flytur aðalræðu á Borlaug ráðstefnunni, alþjóðlegu málþingi sem haldið er í Iowa og kennt við vísindamanninn og nóbelsverðlaunahafann Norman Borlaug. Málþingið er haldið í tengslum við World Food Prize og sækja það fjölmargir vísindamenn og sérfræðingar, fulltrúar almannasamtaka og forystumenn frá ýmsum heimshlutum, einkum Bandaríkjunum og Afríku. Ræða forseta. Mynd.
17.10.2013 Forseti á fund með Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sem sækir einnig Borlaug ráðstefnuna sem haldin er í tengslum við World Food Prize. Á fundinum var rætt um árangur Arctic Circle þingsins sem haldið var í Reykjavík og nauðsyn víðtæks alþjóðlegs samstarfs um ábyrga þróun Norðurslóða sem og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Mynd.
17.10.2013 Forseti og forsetafrú halda í heimsókn til Fjarðabyggðar að morgni mánudagsins 21. október næstkomandi. Heimsóknin stendur í þrjá daga og verða margir skólar og vinnustaðir heimsóttir í stærstu byggðarkjörnum sveitarfélagsins, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Að kvöldi mánudagsins verður haldin fjölskylduhátíð í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði og þangað er öllum íbúum sveitarfélagsins boðið auk annarra gesta.Fréttatilkynning.
18.10.2013 Forseti á fund með Tom Harkin öldungadeildarþingmanni um árangurinn af alþjóðaþinginu Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík, væntanlega forystu Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu, samskipti við Kína á sviði rannsókna og félagslegra réttinda sem og starfsemi Harkin stofnunarinnar sem nýlega var sett á fót við Drake háskólann í Iowa. Þá heimsóttu forseti og Harkin heimabæ öldungadeildarþingmannsins, Cumming sem er lítið samfélag rúmlega eitt hundrað íbúa og þar sem landbúnaður hefur löngum verið aðalatvinnugrein. Myndir
19.10.2013 Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni sem starfar hjá Heimskautastofnun Kína og vinnur að sérstöku verkefni um vestnorræna sýna á framtíð Norðurslóða. Egill Þór var þátttakandi í undirbúningi að Hringborði Norðurslóða og vinnur hjá Heimskautastofnun Kína að mótun samstarfs Norðurlanda og Kínverja á þessu sviði.
19.10.2013 Forseti á fund með fræðimanninum Jesse Hastings sem vinnur að rannsókn á framlagi Singapúrs til Norðurslóða, einkum í ljósi vaxandi áhuga ríkja Asíu á Norðurslóðum sem og hvernig viðhorf ríkja á Norðurslóðum til Singapúrs og annarra Asíuríkja kunni að þróast á næstum árum. Rannsóknarverkefnið mun m.a. taka mið af umræðum sem fram fóru á Arctic Circle í Reykjavík fyrir skömmu.
21.10.2013 Forseti sækir Fjölskylduhátíð sem haldin er í Kirkju- og safnaðarheimilinu á Eskifirði. Þar fluttu heimamenn mörg tónlistaratriði auk þess sem forseti flutti ávarp og veitti sextán ungum Austfirðingum Hvatningu forseta Íslands fyrir margvíslegan árangur sem þau hafa náð.
21.10.2013 Forseti flytur ávarp á fundi um málefni Norðurslóða sem Austurbrú efnir til í Kirkju- og safnaðarheimilinu á Eskifirði í samstarfi við Fjarðabyggð og Norðurslóðanet Íslands. Á fundinum var rætt um tækifæri og áskoranir sem tengjast breyttu loftslagi, bráðnun íss, opnun siglingaleiða og aukinni umferð á Norðurslóðum.
21.10.2013 Forseti á fund með Vilhjálmi Hjálmarssyni fv. menntamálaráðherra frá Brekku í Mjóafirði en Vilhjálmur, sem er 99 ára gamall, hefur skrifað fjölda bóka og hefur lagt lokahönd á bók sem hann hyggst senda frá sér á næsta ári. Mynd.
21.10.2013 Forseti heimsækir ferðaþjónustuna á Mjóeyri og á fund með Sævari Guðjónssyni og Berglind Ingvarsdóttur sem reka hana. Rætt var um möguleika í þróun ferðaþjónustu á Austfjörðum og þá áfanga sem náðst hafa.
21.10.2013 Forseti skoðar gamalt nýuppgert hús sem Jens Garðar Helgason hefur látið gera upp og ætlað er m.a. til sýninga á íslenskri samtímalist. Fyrsta sýningin var haldin þar á liðnu sumri.
21.10.2013 Forseti heimsækir Grunnskóla Eskifjarðar og skoðar skólann í fylgd nemenda. Nemendur fluttu tónlistaratriði og sýndu skuggamyndaleikrit en að því loknu flutti forseti stutt ávarp og svaraði margvíslegum spurningum nemenda. Mynd.
21.10.2013 Forseti ávarpar starfsmenn Eskju og Egersund í nýju mötuneyti Eskju á Eskifirði. Á eftir svaraði forseti fyrirspurnum og ræddi við starfsfólkið um málefni líðandi stundar. Mynd.
21.10.2013 Forseti á fund með forsvarsmönnum Náttúrustofu Austurlands í Safnahúsinu í Neskaupstað og hlýðir á kynningu um fólkvanginn í Hólmanesi og skoðar safnið en þar er m.a. að finna sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar, safn málverka eftir Tryggva Ólafsson og náttúrugripasafn. Mynd.
21.10.2013 Forseti heimsækir Heilbrigðisstofnun Austurlands og kynnir sér starfsemi þess. Forseti flutti stutt ávarp og ræddi við starfsfólk í mötuneyti.
21.10.2013 Forseti heimsækir Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað og skoðar kennslustofur og ræðir við nemendur. Að því loknu heilsaði forseti upp á starfsfólk og flutti þvínæst ávarp á sal og ræddi við nemendur.
21.10.2013 Forseti heimsækir Nesskóla í Neskaupstað og hlýðir á kynningu nemenda á skóla sínum. Að loknum tónlistarflutningi flutti forseti ávarp og svaraði fyrirspurnum nemenda. Mynd.
22.10.2013 Forseti situr kvöldverðarboð bæjarstjórnar Fjarðabyggðar sem haldið er í Randulffssjóhúsi á Eskifirði.
22.10.2013 Forseti skoðar kirkju Stöðfirðinga með leiðsögn séra Gunnlaugs Stefánssonar og Ingibjargar Björgvinsdóttur, formanns sóknarnefndar. Öllum Stöðfirðingum var boðið að hitta forseta í safnaðarheimilinu við kirkjuna og flutti forseti þar ávarp og ræddi við viðstadda.
22.10.2013 Forseti heimsækir Sköpunarmiðstöðina í húsnæði þar sem áður var frystihús Stöðvarfjarðar. Rósa Valtingojer kynnti starfsemi miðstöðvarinnar en þar er búið að koma upp margháttaðri aðstöðu til listsköpunar og er stefnt að því að bjóða þangað listamönnum til vinnudvalar. Mynd.
22.10.2013 Forseti heimsækir Grunnskóla Stöðvarfjarðar þar sem börn skemmtu viðstöddum með söng og hljóðfæraleik. Að loknu ávarpi svaraði forseti spurningum nemenda og voru yngri börnin atkvæðamikil í umræðum. Mynd.
22.10.2013 Forseti heimsækir Loðnuvinnsluna Fáskrúðsfirði og ræðir við starfsfólk þar og flytur ávarp í matsal.
22.10.2013 Forseti skoðar gamla kaupfélagshúsið Tanga sem hefur verið sett í upprunalega mynd og skoðar hannyrðir og handverk sem íbúar Fáskrúðsfjarðar selja í Gallerí Kolfreyju.
22.10.2013 Forseti skoðar franska spítalann sem hefur verið fluttur á ný í bæinn í Fáskrúðsfirði og miðar viðgerðum á húsinu vel; ráðgert er að þar verði rekið hótel og höfð sýning um sögu franskra sjómanna sem stunduðu Íslandsmið fyrir röskri öld.
22.10.2013 Forseti heimsækir Skólamiðstöð Fáskrúðsfjarðar og hittir nemendur að máli við þemavinnu þeirra svo sem í saumastofu og leikherbergi. Á sal fluttu nemendur tónlist og forseti ávarpaði starfsmenn og nemendur og svaraði fyrirspurnum af margvíslegum toga. Skólamiðstöðin hýsir bæði leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar. Mynd.
22.10.2013 Forseti heimsækir Grunnskóla Reyðarfjarðar, skoðar aðstöðu skólans og er viðstaddur samkomu á sal þar sem sýndar voru efna- og eðlisfræðitilraunir auk tónlistarflutnings. Þá flutti forseti ávarp og svaraði spurningum nemenda. Mynd.
23.10.2013 Forseti á fund með sendinefnd skipaðri ráðherra og fylkisstjórum frá Papúu Nýju-Gíneu um samstarf við Íslendinga á sviði flugrekstrar, nýtingar jarðhita og fiskveiða. Dótturfélag Icelandair hefur eflt flugsamgöngur í landinu á undanförnum árum og Reykjavík Geothermal hefur unnið að könnun á nýtingu jarðhita. Sendinefndin hefur einnig áhuga á að kynna sér árangur Íslendinga í stjórnun fiskveiða en flotar frá ýmsum löndum eru athafnasamir á fiskimiðum við Papúu Nýju-Gíneu.
23.10.2013 Forseti heimsækir Alcoa Fjarðaál við Reyðarfjörð og flytur ávarp í matsal og ræðir við starfsmenn fyrirtækisins. Alls koma um 1.000 manns að starfsemi fyrirtækisins og er það því ein helsta stoðin í atvinnulífi Fjarðabyggðar. Mynd (ljósmyndari: Pétur Sörensson).
23.10.2013 Forseti heimsækir Slökkvilið Fjarðabyggðar og skoðar þar tæki og aðstöðu í fylgd Þorbergs Haukssonar aðstoðarslökkviliðsstjóra. Slökkviliðið er staðsett við álver Fjarðaáls og veitir því þjónustu auk almennrar þjónustu fyrir byggðarlögin. Mynd (ljósmyndari: Pétur Sörensson).
23.10.2013 Forseti heimsækir Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði og skoðar það í fylgd Þórodds Helgasonar, fræðslustjóra í Fjarðabyggð, og Péturs Sörenssonar, forstöðumanns Safnastofnunar sveitarfélagsins. Mynd (ljósmyndari: Pétur Sörensson).
24.10.2013 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu í tilefni af 75 ára afmæli SÍBS. Jafnframt tekur forseti við eintaki af sögu samtakanna Sigur lífsins. Í ávarpi áréttaði forseti hvernig SÍBS hefði rutt brautina fyrir samtök sjúklinga, aðstandenda og annarra velunnara sem nú setja svip sinn á íslenska heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt væri að sagan um glímuna við berklana væri varðveitt af þjóðinni. SÍBS hefði sýnt hvernig samtakamáttur fólksins væri mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu Íslendinga.
24.10.2013 Forseti á fund með formanni og framkvæmdastjóra Rauða krossins um ýmsa atburði í tengslum við væntanlegt 90 ára afmæli Rauða krossins á Íslandi sem og verkefni samtakanna bæði á Íslandi og í hjálparstarfi víða um heim, einkum í Sýrlandi og Afríku.
24.10.2013 Forseti flytur ávarp á alþjóðlegri hafísráðstefnu sem haldin er á Íslandi, International Ice-Charting Working Group. Í ráðstefnunni tekur þátt fjöldi vísindamanna sem vinnur að hafísrannsóknum, hafíseftirliti, ískortagerð og öryggismálum á sjó. Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslan, Siglingamálastofnun og fleiri aðilar hafa undirbúið ráðstefnuna. Í ávarpinu áréttaði forseti nauðsyn þess að vísindamenn tækju virkan þátt í umræðu og stefnumótun um málefni Norðurslóða enda þyrftu forystumenn í þjóðmálum og atvinnulífi á leiðsögn vísindanna að halda. Þá væri mikilvægt að koma þeim skilaboðum á framfæri að framtíð allra þjóða væri nú háð því hvað yrði um ís og jökla á Norðurslóðum.
25.10.2013 Forseti afhendir verðlaun Lagnafélags Íslands við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Verðlaunin hlutu iðnaðarfyrirtæki og verkfræðifyrirtæki sem stóðu að margvíslegu lagnaverki í Hofi auk þess sem húsið sjálft hlaut sérstaka viðurkenningu. Verðlaunin bera heitið Lofsvert lagnaverk 2012.
27.10.2013 Forseti á fund með Ma Kai, varaforsætisráðherra Kína og sendinefnd hans. Á fundinum var rætt um vaxandi samvinnu Íslands og Kína um nýtingu jarðhita og rannsóknir á bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu. Einnig hefði gerð samninga um fríverslun og gjaldeyrisskipti seðlabanka sýnt að þótt Ísland og Kína væru ólík á margan hátt hefðu löndin á undanförnum árum skapað fjölmörg fordæmi um nýjungar á sviði alþjóðlegrar samvinnu. Hin nýja öld gæti því orðið tími jákvæðra samskipta og árangurs í þágu allra þjóða. Fréttatilkynning. Myndir.
28.10.2013 Forseti á fund með sendiherra Singapúrs gagnvart Íslandi, T. Jasudasen, um árangur þings Arctic Circle sem nýlega var haldið í Reykjavík, áhuga stjórnvalda, vísindasamfélags og atvinnulífs í Singapúr á nánara samstarfi við Íslendinga og áframhaldandi þátttöku í starfi Arctic Circle á næstu árum.
29.10.2013 Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnu í London um Norðurslóðir, heimskautasvæðin, rannsóknir, loftslagsbreytingar og nýtingu auðlinda. Fréttatilkynning. Sjá nánar dagskrá ráðstefnunnar og þættir úr ræðu forseta.
30.10.2013 Forseti flytur setningarræðu á málþingi sem haldið er í Mansion House í London á vegum Lord Mayor og sendiráðs Íslands í Bretlandi. Það sækja ýmsir áhrifamenn úr bresku og íslensku fjármála- og atvinnulífi. Auk forseta flytja Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Cyrus Ardalan, varaforseti Barclays banka, framsöguræður á málþinginu. Bankastjórar íslensku viðskiptabankanna sitja fyrir svörum. Ræða forseta bar heitið “The Road to recovery – The Test of the Prevailing Wisdom”.
30.10.2013 Forseti er heiðursgestur í kvöldverði sem Lord Mayor heldur í Mansion House í London þar sem rætt er um endurreisn íslensks efnahagslífs og framtíðarhorfur. Meðal gesta voru Már Guðmundsson seðlabankastjóri og bankastjórar íslensku viðskiptabankanna sem og forystumenn úr bresku fjármálalífi.
31.10.2013 Forseti ræðir við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina Bloomberg um aukinn áhuga ríkja í Evrópu og Asíu á Norðurslóðum, tækifæri Íslands í ljósi þróunar á Norðurslóðum, athuganir á útflutningi rafmagns um sæstreng og samstarf Íslands og Bretlands.

Nóvember

01.11.2013 Forseti flytur ræðu á orkuþingi sem Bresk-íslenska viðskiptaráðið efnir til í samvinnu við Bloomberg í London en þingið var haldið í höfuðstöðvum Bloomberg. Fjallað var um orkubúskap Íslendinga og samvinnu við erlenda aðila sem og þörf Bretlandseyja fyrir vatnsaflsorku sem flutt yrði um sæstreng til að styrkja orkukerfi landsins. Einnig var gerð grein fyrir góðri reynslu af starfrækslu gagnavera á Íslandi, lærdómana af þróun jarðhitanýtingar og framtíð Norðurslóða. Upptaka af ræðu forseta.
04.11.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Matthias Brinkmann, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um fjölþætt tengsl Íslands við Evrópusambandið, EES samstarfið og Schengen, sem og breytta stöðu varðandi aðildarumsókn Íslands, afstöðu og hagsmuni þjóðarinnar. Þá var einnig fjallað um þróun mála á Norðurslóðum, áhuga Evrópusambandsins á aðild að Norðurskautsráðinu og mikilvægi vísindalegra rannsókna. Mynd.
05.11.2013 Forseti á fund með Ingimundi Sigfússyni, fyrrverandi sendiherra, um áhuga erlendra aðila á varðveislu stafrænna gagna á Íslandi, vegna framboðs á hreinni orku og hagkvæmra rekstrarskilyrða. Carl Hahn, fyrrum forstjóri Volkswagen og áhugamaður um reynslu Íslendinga við nýtingu jarðhita, hefur verið hvatamaður slíkrar gagnavörslu.
05.11.2013 Forseti á fund með Kristni Péturssyni um undirbúning Íslendinga að auknum siglingum um Norðurslóðir en Kristinn hefur um áraraðir verið mikill áhugamaður um þau efni, einkum vegna hagstæðrar legu sinna heimaslóða á Norðausturlandi.
05.11.2013 Forseti á fund með Luis E. Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem senn lætur af störfum. Rætt var um nýjar stoðir í samskiptum landanna, bæði á sviði jarðhitanýtingar og Norðurslóða. Á undanförnum árum hefur fjölbreytileiki þess samstarfs aukist til muna. Einnig hafa tengsl Íslands og Alaska gegnt mikilvægu hlutverki í að breikka samvinnu Íslands og Bandaríkjanna. Þá var einnig rætt um kynni sendiherrans af íslensku samfélagi, menningu og þjóðlífi.
06.11.2013 Hér má sjá myndir sem teknar voru í heimsókn forsetahjóna í Fjarðabyggð 21.-23. október 2013. Ljósmyndari: Pétur Sörensson.
06.11.2013 Forseti á fund með Páli Gíslasyni um reynslu og tæknikunnáttu Íslendinga varðandi fullnýtingu sjávarafla og hvernig þróa má samstarf við aðrar þjóðir um nýtingu þeirrar kunnáttu og tækni.
06.11.2013 Forseti á fund með Halli Hallssyni, Sigmari Guðbjörnssyni og Magnúsi Jónatanssyni um þróun nýrrar tækni sem felur í sér að með merkingum á hvölum er hægt að fylgjast með ferð þeirra um höfin og fræðast um leið um eðli hvalastofna, lífríki og náttúru. Sú tækni sem Stjörnu-Oddi hefur þróað liggur til grundvallar verkefninu.
06.11.2013 Forseti ræðir við nemendur í sagnfræði og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Rætt var um þróun forsetaembættisins, stöðu þess í íslenskri lýðræðisskipan, stjórnkerfi og þjóðlífi, breytingar sem orðið hafa á undanförnum áratugum og áhrif alþjóðavæðingar og fjölmiðlunar á nýrri öld á stöðu og verkefni forseta.
07.11.2013 Forseti á fund með Þorsteini I. Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og Ríkharði Ibsen kvikmyndagerðarmanni um gerð heimildamyndar til að kynna árangur Íslendinga í nýtingu jarðhita og mikilvægi breytinga á orkukerfi vítt og breitt um veröldina. Veruleg efnisöflun hefur farið fram og rætt var um næstu áfanga verkefnisins.
07.11.2013 Forseti tekur á móti alþjóðlegum hópi tæknimanna og verkfræðinga sem starfa á vegum sveitarfélaga en samtök þeirra halda fund á Íslandi. Forseti ræddi um nauðsyn þess að sveitarfélög huguðu að líklegri hækkun sjávarborðs og aukinni tíðni ofsaveðra vegna bráðnunar íss og jökla. Innviðir borga og sveitarfélaga, hafnir, vegir og aðrir grunnþættir nútíma þéttbýlis væru vart í stakk búnir til að bregðast við þeim hamförum sem loftslagsbreytingar gætu haft í för með sér í framtíðinni.
07.11.2013 Forseti á fund með Jakobi Ármannssyni, forstjóra Straums, um þau tækifæri sem þróunin á Norðurslóðum og nýting hreinnar orku skapa Íslendingum á komandi árum og áratugum.
07.11.2013 Forseti á fund með forystu ÍSÍ - Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands - um þátttöku í Vetrarólympíuleikunum, sem haldnir verða í Rússlandi á næsta ári, og undirbúning að Smáþjóðaleikunum sem haldnir verða á Íslandi árið 2015.
08.11.2013 Forseti tekur á móti hópi tónskálda og textahöfunda í tilefni af 30 ára afmæli FTT. Í ávarpi áréttaði forseti mikilvægi þeirra breytinga sem orðið hefðu í tónlistarlífi landsmanna á undanförnum áratugum og þakkaði þeim tónskáldum og textahöfundum sem átt hafa ríka hlutdeild í þeim stakkaskiptum. Þá nefndi forseti ýmsa textahöfunda sem búið hafa á Bessastöðum í aldanna rás, enda ýmis tónskáld gert alkunn lög við texta sem eiga sér rætur á staðnum.
09.11.2013 Forseti afhendir verðlaun í netratleik Forvarnardagsins sem haldinn var fyrir nokkrum vikum. Verðlaunin hlutu nemendur í Gunnskólanum á Þorlákshöfn, Háteigsskóla og Menntaskólanum við Hamrahlíð. Aðstandendur ratleiksins eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, UMFÍ og Skátahreyfingin. Þá þakkaði forseti Actavis fyrir ötulan stuðning við Forvarnardaginn allt frá upphafi. Mynd.
11.11.2013 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum á fundi með nemendum Háskólans á Bifröst sem skipulagður var af samtökum nemenda. Í ræðunni rakti forseti þróun íslensk samfélags á síðustu öld, tækifæri þjóðarinnar á komandi árum, einkum með tilliti til breyttrar heimsmyndar, aukins mikilvægis hreinnar orku og Norðurslóða sem og vaxandi áhuga víða um heim á ferðum til Íslands. Mikilvægt væri að háskólasamfélag, atvinnulíf, stjórnvöld og fjölmiðlar tækju til umræðu þær miklu breytingar sem hin nýja heimsmynd hefur í för með sér fyrir stöðu Íslands og tækifæri þjóðarinnar á nýrri öld. Myndir (ljósmyndari: Brynjar Þór Þorsteinsson).
11.11.2013 Forseti heimsækir Háskólann á Bifröst og ræðir við rektor, kennara og nemendur um starfsemi skólans, reynslu undanfarinna ára og þær áherslur sem mestu skipta í menntastefnu framtíðar, hvernig nýjar kynslóðir eru búnar undir alþjóðlegt samfélag breytinga og nýsköpunar. Þá var einnig á fundi forseta og rektors rætt um þróun fræðilegs samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir í Asíu.
12.11.2013 Forseti býður til kvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs Hennar Hátign Margrethe II Danadrottningu í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar. Kvöldverðinn sitja ráðherrar og íslenskir og danskir fræðimenn sem starfað hafa við Stofnun Árna Magnússonar sem og íslenskir og danskir embættismenn. Ræða forseta á íslensku. Ræða forseta á dönsku. Myndir.
12.11.2013 Forseti sendir samúðarkveðju til forseta Filippseyja, Benigno Aquino, vegna hrikalegrar eyðileggingar af völdum fellibylsins Haiyan. Þúsundir hafa látið lífið og fjöldi á um sárt að binda; börn og fjölskyldur glíma við mikinn harm. Fréttatilkynning.
13.11.2013 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu sem haldin er í Þjóðleikhúsinu í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara. Margrét II drottning Danmerkur var viðstödd hátíðarhöldin ásamt ráðherrum í ríkisstjórn Íslands, fjölda fræðimanna og öðrum gestum. Ræða forseta. Mynd.
13.11.2013 Forseti er ásamt Margréti Danadrottningu viðstaddur opnun á sýningu sem tileinkuð er Íslensku teiknibókinni en Guðbjörg Kristjánsdóttir, safnstjóri Gerðarsafns, hefur unnið að útgáfu handritsins i nýjum búningi og stundað rannsóknir á því. Hún flutti ásamt Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar, ávarp við opnun sýningarinnar en forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson opnaði hana. Mynd.
13.11.2013 Forseti á fund með forseta Alþjóðabankans, Jim Yong Kim, sem tekur þátt í fundum með stjórnarmönnum bankans sem haldinn er á Íslandi. Rætt var um margvíslegan árangur Íslendinga við nýtingu jarðhita, einkum við þurrkun matvæla, og möguleika þróunarlanda til að nýta jarðhita við orkuframleiðslu og til að tryggja matvælaöryggi. Fundurinn var haldinn í Svartsengi. Myndir frá Svartsengi (ljósmyndari: Randver Randversson) og frá Saltfisksetrinu í Grindavík (ljósmyndir: Þorsteinn Gunnarsson).
13.11.2013 Forseti skoðar handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu ásamt Margréti Danadrottningu en Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, kynnti sögu handritanna og lýsti þeim handritum sem þar eru til sýnis. Mynd.
13.11.2013 Forseti tekur ásamt Margréti Danadrottningu við fyrstu eintökum af nýju verki, Kaupmannahöfn: Höfuðborg Íslands í 500 ár, sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Höfundar verksins eru Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór. Í því er í fyrsta sinn rakin saga Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands og varpað nýju ljósi á fjölmarga þætti í sögu Íslands og samskiptum við Danmörku. Athöfnin fór fram í Þjóðmenningarhúsinu. Mynd.
14.11.2013 Forseti sækir stórtónleika, sem haldnir eru í Grafarvogskirkju af Lionsklúbbnum Fjörgyn, en allur ágóði af tónleikunum rennur til Barna- og unglingadeildar Landspítalans, BUGL. Fjöldi tónlistarmanna kom fram og gáfu þeir allir vinnu sína til styrktar málefninu.
14.11.2013 Forseti afhendir Íslensku markaðsverðlaunin sem veitt eru á vegum ÍMARK. Grímur Sæmundsen var valinn markaðsmaður ársins og Dominos markaðsfyrirtæki ársins en einnig hlutu Landsbankinn og Nova sérstaka viðurkenningu.
16.11.2013 Forseti situr fund í Abu Dhabi með starfsliði Zayed orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize, til undirbúnings dómnefndarfundi, en forseti er formaður dómnefndar. Alls bárust 552 tilnefningar frá 88 löndum og undanfarna mánuði hafa þær verið metnar af nefndum sérfræðinga.
17.11.2013 Forseti situr fyrir svörum ásamt öðrum dómnefndarmönnum á blaðamannafundi vegna Zayed orkuverðlaunanna. Tilkynnt verður um verðlaunahafa á hátíðarsamkomu 20. janúar næstkomandi sem haldin er í tengslum við Heimsþing hreinnar orku (World Future Energy Summit). Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum og nemur verðlaunaféð samtals fjórum milljónum bandaríkjadala. Vefsíða Zayed nýorkuverðlaunanna. Vefsíða WFES framtíðarorkuþingsins.
17.11.2013 Forseti stýrir fundi dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize, sem haldinn er í Abu Dhabi. Verðlaunin eru í nokkrum flokkum og eru m.a. veitt einstaklingi sem skilað hefur merku ævistarfi í þágu hreinnar orku, samtökum og fyrirtækjum sem skarað hafa framúr í slíkri orkunýtingu. Annað árið í röð voru framhaldsskólum, einum í hverri heimsálfu, einnig veitt verðlaun fyrir verkefni nemenda á sviði sjálfbærrar orkunýtingar í skóla sínum.
18.11.2013 Forseti á fund í Abu Dhabi með Adnan Amin, forstjóra IRENA, Alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orku, og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar um þau fjölmörgu jarðhitaverkefni sem unnin eru á vegum íslenskra aðila víða um heim. Einnig var fjallað ítarlega um alþjóðlegt tilraunaverkefni um þurrkun matvæla sem byggt yrði á reynslu Íslendinga við að þurrka þorskhausa og annað sjávarfang. Matvæli sem þurrkuð eru á þann hátt geta geymst í allt í tvö ár án sérstaks geymslubúnaðar. Vefsíða IRENA.
19.11.2013 Forseti á fund með forseta Króatíu, Ivo Josipovic, í Zagreb. Rætt var um árangur Íslendinga í endurreisn efnahagslífsins í kjölfar fjármálakreppunnar og möguleika á víðtækri jarðhitanýtingu í Mið- og Austur-Evrópu í samvinnu við íslensk verkfræði- og orkufyrirtæki. Þá var einnig fjallað um stöðu Króatíu og flókna sambúð við nágrannaríkin í kjölfar hinna miklu breytinga og átaka sem orðið hafa í þessum hluta Evrópu á síðustu 20 árum. Myndir.
19.11.2013 Forseti og forsetafrú koma uppúr hádegi í dag, þriðjudaginn 19. nóvember 2013, til Zagreb í Króatíu og verða í kvöld viðstödd landsleik Íslands og Króatíu í knattspyrnu sem fram fer í borginni. Forseti er á heimleið frá Abu Dhabi þar sem hann stjórnaði fundum dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna. Fréttatilkynning.
21.11.2013 Forseti afhendir viðurkenningar sem Fjölskylduhjálpin veitir fyrirtækjum sem gert hafa henni kleift að aðstoða fjölskyldur með mat, fatnaði og annarri aðstoð. Í ávarpi hvatti forseti til víðtækrar samstöðu til að draga úr þeirri neyð sem hinn mikli fjöldi hjálparbeiðna væri vísbending um.
21.11.2013 Forseti flytur setningarræðu á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin er með þátttöku aðila úr íslenskum sjávarútvegi. Í ræðunni hvatti forseti til aukins skilnings á þeim árangri sem íslenskur sjávarútvegur hefði náð á undanförnum áratugum, sem og kynningu á tækninýjungum og framförum. Á alþjóðavettvangi væri Ísland í vaxandi mæli dæmi um sjálfbæran og arðsaman sjávarútveg sem þjónaði heildarhagsmunum þjóðar. Því væri mikilvægt að á heimavelli yrði ekki ágreiningur, deilur og sundrung til að draga úr sóknarkrafti sjávarútvegsins.
22.11.2013 Forseti tekur á móti fulltrúum evrópskra samtaka sem berjast gegn fátækt, European Anti-Poverty Network, sem haldið hafa fund á Íslandi. Í ávarpi áréttaði forseti nauðsyn þess að horfast í augu við fátæktarvandann sem í æ ríkara mæli einkennir flest ef ekki öll lönd álfunnar. Glíman við fjármálakreppuna hefði afhjúpað þann vanda á skýran hátt og milljónir manna ættu sér litla von á komandi árum nema umtalsverðar breytingar yrðu á viðhorfum og stefnu í álfunni. Nefndi forseti ýmis dæmi úr íslenskri sögu og áréttaði að þrátt fyrir árangur síðustu ára í glímunni við fjármálakreppuna væru enn þúsundir Íslendinga sem þyrftu að treysta á matargjafir og aðstoð hjálparstofnana.
22.11.2013 Forseti á fund með sendiherra Sviss á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um samstarf landanna innan samtaka viðskipta og verslunar en jafnframt nauðsyn þess að efla tengslin á komandi árum þar eð margvíslega lærdóma mætti draga af stöðu þeirra og reynslu. Jafnframt kom fram áhugi á að Sviss gerðist áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu enda byggi Sviss að víðtækri reynslu á sviði jöklarannsókna.
28.11.2013 Forseti sækir málþing sem Seðlabanki Íslands heldur í Hörpu þar sem borin er saman staða Íslands og Írlands fimm árum eftir bankahrun.Erindi á málþinginu fluttu Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Patrick Honohan seðlabankastjóri Írlands, Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra og Franek Rozwadowski, fyrrverandi fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Desember

01.12.2013 Forseti býður Alþingi til kvöldverðar í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember en sú hefð hefur fest í sessi á undanförnum áratugum.
01.12.2013 Forseti tekur á móti stjórnendum háskólanna á Íslandi og fulltrúum stúdenta við háskólana í sérstakri móttöku á Bessastöðum sem haldin er í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember.
01.12.2013 Forseti sækir hátíð brautskráðra doktora, sem haldin er í Háskóla Íslands, og flytur ávarp við lok athafnarinnar þar sem hann fagnaði þeim fjölþætta árangri á sviði vísinda og fræða sem birtist í doktorsverkefnum við skólann. Jafnframt væri gleðilegt að samstarf háskólans við háskóla í öðrum löndum væri í vaxandi máli mæli þáttur í doktorsnámi. Einnig óskaði forseti nýdoktorum til hamingju með áfangann.
01.12.2013 Forseti á fund með prófessor Lassi Heininen, stjórnarformanni Rannsóknarþings Norðursins, Northern Research Forum, um árangurinn af þingi Arctic Circle, Hringborði Norðurslóða, sem haldið var í Reykjavík í október, undirbúning að þinginu í september á næsta ári sem og efni Árbókar Norðurslóða, Arctic Yearbook, fyrir 2014.
06.12.2013 Forseti sendi í morgun forseta Suður-Afríku samúðarkveðjur sínar og íslensku þjóðarinnar vegna andláts Nelsons Mandela, fyrsta lýðræðislega kjörna forseta Suður-Afríku. Fréttatilkynning.
07.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ástralíu á Íslandi, hr. Damien Patrick Miller, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukinn áhuga fræða- og vísindastofnana í Ástralíu á Norðurslóðum en á næsta ári verður haldið alþjóðlegt þing um heimskautarétt í Ástralíu og er það undirbúið m.a. af fræðimönnum við Háskólann á Akureyri. Þá var einnig rætt um reynslu Íslendinga af landgræðslu og glímunni við eyðisanda. Ennfremur gæti verið gagnlegt fyrir Íslendinga að kynnast reynslu Ástrala af víðtækum samskiptum við forystuþjóðir í Asíu enda eru vaxandi viðskipti við Kína nú mikilvægasti þáttur í utanríkisverslun Ástrala. Mynd.
07.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Írans á Íslandi, hr. Majid Nili Ahmadabadi, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um áhuga Írana á að leita í smiðju Íslendinga varðandi margvíslega nýtingu á jarðhita en stjórnvöld í landinu hafa nýlega ákveðið að setja um hálfan milljarð evra í uppbyggingu á jarðhitanýtingu. Þá væri einnig mikill á hugi á að kynnast reynslu Íslendinga í fiskveiðum sem og að efla þekkingu þjóðanna á menningu og sögu hvorrar annarrar. Þá flutti sendiherrann forseta kveðju Hassan Rouhani, forseta Írans, ásamt boði til forseta og forsetafrúar um að koma í opinbera heimsókn til Írans. Mynd.
08.12.2013 Forseti tekur ásamt biskupi Íslands við fyrstu diskunum af hljóðritun Passíusálma Hallgríms Péturssonar en það er í fyrsta sinn sem þeir eru gefnir út með þeim hætti. Athöfnin fór fram í Fríkirkjunni Kefas. Frumkvöðull útgáfunnar er Sverrir Gaukur Ármannsson en Páll E. Pálsson les sálmana.
09.12.2013 Forseti sækir jólatónleika Hvítasunnusafnaðarins sem haldnir eru í Fíladelfíukirkjunni. Tónleikarnir eru haldnir til styrktar hjálparstarfs meðal fátækra og eru þeir sýndir á RÚV um jólin.
09.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Mósambíks á Íslandi, fr. Frances Victória Velho Rodrigues, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um fjölþætta þróunaraðstoð Íslands í Mósambík sem einkum hefur miðað að uppbyggingu í sjávarútvegi, menntun og heilbrigðismálum. Stjórnvöld í Mósambík meta framlag Íslendinga mikils enda hefur fjölþættur árangur náðst en samstarfið hefur einnig veitt Íslendingum margvíslega lærdóma og reynslu sem nýtist í samstarfi við önnur lönd í Afríku. Mynd.
09.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Mongólíu á Íslandi, hr. Narkhuu Tulga, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um efnahagsþróun í landinu og fjölþætt samstarf og tengsl við nágrannalöndin Kína og Rússland. Einnig var fjallað um áhuga Mongólíu á að læra af reynslu Íslendinga í landgræðslu og baráttu við svarta sanda sem og hvernig jarðhiti hefur verið nýttur í þágu smærri byggða og héraða, bæði með hitaveitum, ylrækt og baðstöðum. Mynd.
10.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Botsvana á Íslandi, hr. Lameck Nthekela, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um árangur Botsvana á sviði lýðræðisþróunar, kynjajafnréttis og efnahagsmála og hvernig smærri lönd í Afríku geta lært af reynslu smárra og meðalstórra landa eins og Íslands. Þá var einnig fjallað um áform landsins um landgræðslu og jákvæða reynslu af víðtæku samstarfi við Norðurlönd á undanförnum áratugum. Mynd.
10.12.2013 Forseti opnar Neyðarmiðstöð Rauða krossins á samkomu sem haldin er í Húsi Rauða krossins. Miðstöðin mun efla mjög þjónustuhlutverk Rauða krossins og tengsl við aðra hjálparaðila. Á samkomunni var einnig undirritað samkomulag um skipulagningu áfallahjálpar á Íslandi þar sem Rauði krossinn, Ríkislögreglustjóri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landspítalinn, Landlæknir og Biskupsstofa taka höndum saman. Þá opnaði forseti nýjan vef, skyndihjalp.is, sem er sérstakt átak Rauða krossins í tilefni af 90 ára afmæli á næsta ári. Einnig tók forseti ásamt formanni Rauða krossins við framlagi CCP til hjálparstarfs á Filippseyjum.
10.12.2013 Forseti kveikir ásamt nemendum yngri bekkja Álftanesskóla og krökkum úr Holtakoti og Krakkakoti á tveimur jólatrjám fyrir utan Bessastaðastofu. Sungin voru jólalög og jólasveinar komu í heimsókn. Myndir
11.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Búrúndís á Íslandi, hr. Pascal Ruhomvyumworo, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum en hann er jafnframt fyrsti sendiherra landsins gagnvart Íslandi. Stjórnvöld í Búrúndí hafa mikinn áhuga á að nýta reynslu Íslendinga við fiskveiðar og nýtingu jarðhita en mikilvægt væri fyrir landið að greiða götu efnahagslegrar þróunar í kjölfar þeirra miklu erfiðleika sem glímt hefði verið við á undanförnum áratugum. Mynd.
11.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Perús á Íslandi, hr. José Beraún Araníbar, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þann mikla árangur sem náðst hefur í efnahagslífi Perús með auknum stöðugleika í stjórnarfari og áhuga landsins á að efla tengsl við Ísland og önnur ríki í Evrópu. Sjávarútvegur er mikilvægur báðum þjóðunum enda hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki lengi lagt rækt við tengsl sín við Perú. Jafnframt lýsti sendiherrann áhuga á auknum samskiptum á sviði menningar og lista og flutti forseta boð um að koma í heimsókn til Perús. Mynd.
11.12.2013 Forseti á fund með nýjum sendiherra Portúgals á Íslandi, frú Clara Nunes dos Santos, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um reynslu Íslands og Portúgals í glímunni við fjármálakreppuna en hún hefur haft hrikalegar afleiðingar fyrir efnahagslíf og lífskjör í Portúgal. Rakti sendiherrann áhuga fjölmargra aðila í Portúgal á að kynna sér þann árangur sem Íslendingar hafa náð og hvernig hér var litið á fjármálakreppuna ekki aðeins frá sjónarhóli fjármála heldur einnig lýðræðis og félagslegs réttlætis. Mynd.
11.12.2013 Forseti á fund með sendiherra Indónesíu á Íslandi, frú Esti Endayani, sem senn lætur af störfum. Rætt var um þann árangur sem náðst hefur varðandi samvinnu á sviði jarðhitanýtingar og áhuga stjórnvalda í Indónesíu á að efla hann enn frekar. Þá var einnig rætt um mikilvægi sjálfbærrar nýtingar á auðlindum hafsins en vegna stærðar og legu landsins býr það að víðáttumiklum hafsvæðum sem rík eru að sjávarfangi.
12.12.2013 Forseti ræðir við fulltrúa bindindissamtakanna IOGT um starfsemi samtakanna, nýjungar í bindindisstarfi og nauðsyn þess að endurvekja þá fræðslu og skemmtan fyrir ungt fólk sem barnablaðið Æskan var samnefnari fyrir á sínum tíma.
12.12.2013 Forseti á fund með Birni Zoega lækni um áhuga erlendra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana á að nýta þá tækni, hugbúnað og kunnáttu sem þróast hefur í tengslum við starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar og íslenskar rannsóknir. Einnig var fjallað um lærdómana af glímu heilbrigðiskerfisins við efnahagsvanda síðustu ára og þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera í nánustu framtíð.
12.12.2013 Forseti á fund með Sigurði Reyni Gíslasyni, vísindamanns við Háskóla Íslands, um árangurinn af kolefnisbindingarverkefninu CarbFix sem ýtt var úr vör fyrir nokkrum árum sem samstarfsverkefni íslensks fræðasamfélags við háskóla í Frakklandi og Bandaríkjunum. Verkefnið hefur sannað tilgátur íslenskra vísindamanna um möguleika á að binda kolefni í jarðlögum. Þá var einnig fjallað um bók Sigurðar Kolefnishringrásina sem út kom á síðasta ári og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
13.12.2013 Forseti á fund með sendinefnd stjórnvalda og atvinnulífs í Shaanxi héraði í Kína sem heimsækir Ísland í tilefni nýrra samninga við Orka Energy um jarðhitaframkvæmdir í Kína. Í sendinefndinni er einnig stjórnandi einnar stærstu ferðaskrifstofu í Kína sem hyggur á ferðir til Íslands. Rætt var um þróun jarðhitasamvinnunnar á undanförnum áratug og þau fjölþættu tækifæri sem blasa við í framtíðinni, bæði til að styrkja nýtingu hreinnar orku, draga úr mengun og bæta lífsgæði almennings í landinu.
14.12.2013 Forseti ritar nafn sitt í minningarbók vegna andláts Nelsons Mandela, fyrrum forseta Suður-Afríku, en ræðismaður Suður-Afríku á Íslandi, Jón R. Magnússon, kom með bókina til Bessastaða. Íslendingar geta vottað Mandela virðingu sína með því að skrá nafn sitt í bókina næstu daga.
14.12.2013 Forseti sækir aðventutónleika Karlakórs Reykjavíkur sem haldnir eru í Hallgrímskirkju en það er í 20. sinn sem kórinn efnir til slíkra tónleika.
16.12.2013 Forseti á fund með Jóni Atla Benediktssyni, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, og prófessor Einari Stefánssyni um verkefni þriggja sprotafyrirtækja á vegum Háskóla Íslands og Landspítala sem beint hafa sjónum sínum m.a. að sykursýki. Hugbúnaðurinn getur einnig nýst til árangurs og aukins hagræðis í glímunni við margvíslega aðra sjúkdóma. Sykursýki hefur vaxið svo á undanförnum áratugum að rætt er um heimsfaraldur en það stefnir í að um 500 milljónir manna þjáist af sykursýki á næstu 20 árum.
16.12.2013 Forseti á fund með Sigurjóni Arasyni, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingi hjá Matís, um reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarfangs með jarðhita en hann hefur verið einn helsti tæknilegur ráðgjafi þeirrar þróunar á undanförnum áratugum. Stefnt er að víðtæku alþjóðlegu samstarfi um þurrkun margvíslegra matvæla en forseti hefur unnið að því verkefni í samvinnu við ýmsar alþjóðastofnanir og íslensk fiskþurrkunarfyrirtæki.
17.12.2013 Forseti sendir heillaóskir sínar og íslensku þjóðarinnar til Michelle Bachelet sem kosin hefur verið nýr forseti Síles. Í bréfi sínu minntist forseti á traust vináttutengsl landanna tveggja og vaxandi samvinnu þeirra á fjölmörgum sviðum menningar og viðskipta. Hann þakkaði Michelle Bachelet jafnframt fyrir farsælt samstarf þeirra meðan hún gegndi forystu í hinum nýju kvennasamtökum Sameinuðu þjóðanna, UN Women. Fréttatilkynning.
17.12.2013 Forseti á fund með Carl Hahn, fyrrum forstjóra Volkswagen, og Yong Zhang, stjórnanda kínverska fyrirtækisins BGI-Shenzhen, ásamt fulltrúum Landsvirkjunar um reynsluna af rekstri gagnavera á Íslandi og möguleika landsins til þess að reiða fram aðstöðu til þess að varðveita á öruggan hátt margvísleg og umfangsmikil gagnasöfn sem óðum byggjast upp í veröldinni. BGI-Shenzen hefur verið í samstarfi við fjölmarga aðila í Bandaríkjunum og Evrópu.
18.12.2013 Forseti á fund með stjórnendum Marorku þar sem lýst var þeim mikla árangri sem fyrirtækið hefur náð á sviði hugbúnaðar í þágu orkusparnaðar og orkustýringar skipa. Fyrirtækið hefur náð samningum við fjölda skipafélaga í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Asíu. Saga þess sýnir einstæðan árangur nýsköpunar og upplýsingatækni á Íslandi, hvernig sprotafyrirtæki getur á tiltölulega fáum árum orðið umsvifamikið á alþjóðavettvangi og um leið stuðlað að umhverfisvænni atvinnuháttum. Einnig var fjallað um hugmyndir um nýtingu upplýsingatækni til að vernda hafsvæði á Norðurslóðum, einkum í ljósi aukinna siglinga á komandi áratugum.
18.12.2013 Forseti tekur á móti stjórnendum Mannvits og höfundi afmælisrits sem helgað er 50 ára sögu fyrirtækisins. Þar er fjallað um fjölþættan vöxt verkfræðikunnáttu á Íslandi og þátt hennar í framförum og framkvæmdum á fjölmörgum sviðum. Á fundinum var einnig fjallað um fjölda alþjóðlegra verkefna sem Mannvit á aðild að og tækifæri Íslands á því sviði. Jafnframt hvatti forseti til þess að tekin væri saman á ensku saga orkunýtingar á Íslandi, vatnsorku og jarðvarma, og hvernig hún hefur nýst til atvinnusköpunar á sviði iðnaðar, matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og til að bæta aðstöðu til heilsueflingar og íþrótta.
18.12.2013 Forseti á fund með franska þingmanninum André Gottolin sem vinnur að skýrslu fyrir öldungadeild franska þingsins um stöðu mála og þróun á Norðurslóðum. Fundinn sat einnig sendiherra Frakklands á Íslandi auk starfsmanna franska sendiráðsins. Fjallað var um þátttöku Frakklands í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle, framlag einstakra forysturíkja í Evrópu til vísindarannsókna og viðskiptalífs á Norðurslóðum sem og árangur af starfi Michels Rocard, fyrrum forsætisráðherra Frakklands og sérstaks fulltrúa Frakklandsforseta í málefnum Norðurslóða.
18.12.2013 Viðtal við forseta í bandaríska tímaritinu Foreign Affairs þar sem fjallað er um stöðu Íslands og framtíð Norðurslóða, fjármálakreppuna og lærdómana af henni, aðgerðir ríkisstjórnar Gordons Browns, WikiLeaks og áhrif upplýsingabyltingarinnar á stjórnmál og samfélög, samspil lýðræðis og markaða, réttindi samkynhneigðra og menningu og nýsköpun á Íslandi. Krækja á viðtalið. Fréttatilkynning.
19.12.2013 Forseti á fund með Magnúsi Norðdahl forstjóra LS Retail og Sveini Áka Lúðvíkssyni sölustjóra um umfangsmikinn vöxt fyrirtækisins á undanförnum árum, starfsemi í Asíu, Mið-Austurlöndum, Evrópu og víðar. Fyrirtækið er eitt glæsilegasta dæmið um árangur íslenskra fyrirtækja á sviði hugbúnaðar og upplýsingatækni en hugbúnaður þess er nú notaður í þúsundum fyrirtækja vítt og breitt um veröldina.
19.12.2013 Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni og Björgu Finnbogadóttur um þróun þjóðfélags og efnahagslífs í Kína. Egill Þór starfar á vegum Kínversku heimskautastofnunarinnar og Björg lærir kínversku og vinnur að undirbúningi á útflutningi á íslenskum afurðum til Kína. Þau hafa dvalið í Sjanghæ í nokkur ár og kynnst þeim víðtæku breytingum sem nú eiga sér stað í Kína, opnari umræðum í krafti netvæðingar og framkomu og áherslum nýrrar kynslóðar Kínverja sem og þeim margvíslegu vandamálum sem við er að glíma í landinu.
20.12.2013 Forseti er viðstaddur árlega úthlutun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Viðurkenninguna hlaut að þessu sinni Guðmundur Andri Thorsson og er hann hundraðasti rithöfundurinn sem hlýtur viðurkenningu úr sjóðnum frá upphafi.
20.12.2013 Forseti á fund með Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um nýleg hátíðarhöld í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar. Þátttaka listafólks í hátíðarsamkomunni í Þjóðleikhúsinu og ýmsir aðrir viðburðir sýndu á hvern hátt fornsögurnar og handritin geta auðgað menningu og listir nútímans og orðið nýjum kynslóðum jarðvegur nýsköpunar.
21.12.2013 Forseti er viðstaddur þegar afhjúpað er listaverkið Þúfa við Reykjavíkurhöfn, á athafnasvæði HB Granda. Listakonan Ólöf Nordal útskýrði verkið sem verða mun eitt af kennileitum höfuðborgarinnar
26.12.2013 Forseti sækir jólasýningu Þjóðleikhússins, Þingkonurnar eftir Aristófanes.
28.12.2013 Forseti sækir hátíð sem haldin er af ÍSÍ og samtökum íþróttafréttamanna þar sem útnefndur var íþróttamaður ársins, jafnframt þau sem skarað hafa framúr í ýmsum íþróttagreinum. Í ávarpi minntist forseti Ólafs Rafnssonar, forseta ÍSÍ sem lést á árinu í blóma lífsins. Enginn forystumaður íslenskrar íþróttahreyfingar hefði einnig verið kjörinn til forystustarfa í evrópskri og alþjóðlegri íþróttahreyfingu. Þá rakti forseti hve einstakt væri að lítil þjóð gæti ár eftir ár sent lið til keppni í mörgum hópíþróttum, einnig hefði fjölgað mjög þeim keppnisgreinum sem iðkaðar eru á Íslandi. Allt væru þetta mikilvæg skilaboð til ungrar kynslóðar. Fyrir það væri þjóðin þakklát.
28.12.2013 Forseti sækir athöfn í Voninni, félagsmiðstöð SÁÁ, í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá því að Vogur tók til starfa. Í ávarpi þakkaði forseti hið merka starf sem unnið hefði verið á Vogi og hvernig það hefði gefið þjóðinni nýja sýn á glímuna við áfengisbölið og neyslu fíkniefna. Jafnframt var birt ávarp forseta í hátíðarblaði í tilefni af afmælinu.
31.12.2013 Forseti stýrir fundi ríkisráðs þar sem staðfest eru lög og stjórnarathafnir.