Janúar
|
01.01.2012 |
Forseti sæmir ellefu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fréttatilkynning. Mynd. |
01.01.2012 |
Nýársmóttaka forseta á Bessastöðum fyrir ráðherra, hæstaréttardómara, alþingismenn, sendiherra, ræðismenn, forystumenn ríkisstofnana og embættismenn, forystumenn félagasamtaka, stéttarsamtaka og atvinnulífs og aðra gesti. |
01.01.2012 |
Forseti flytur nýársávarp sem er útvarpað og sjónvarpað frá Bessastöðum. Ávarp forseta. Ensk þýðing. Flutningur |
03.01.2012 |
Jólatrésfagnaður á Bessastöðum fyrir börn starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi og börn núverandi og fyrrverandi starfsfólks embættisins, ýmissa samstarfsaðila og fjölskyldu forseta. |
05.01.2012 |
Forseti sækir athöfn ÍSÍ og íþróttafréttamanna þar sem útnefndur er íþróttamaður ársins og íþróttamenn ársins, karlar og konur, í fjölda íþróttagreina. Síðari hluti athafnarinnar er í beinni útsendingu og forseti flytur ávarp. Upptaka á vef RÚV. |
05.01.2012 |
Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni um framhald samstarfs um rannsóknir á bráðnun jökla, bæði á Himalajasvæðinu og Norðurslóðum. Á síðasta ári voru haldin á Íslandi tvö alþjóðleg rannsóknarþing um þessi efni sem sótt voru af sérfræðingum víða að úr veröldinni. |
06.01.2012 |
Forseti á fund með stjórnendum Marorku sem framleiðir hugbúnað fyrir skip en gæði hans fela í sér verulega minnkun á eldsneytisnotkun og draga úr mengun. Fyrirtækið hefur vaxið mjög á undanförnum árum og getur orðið að liði við að byggja upp umhverfisvænar samgöngur á sjó víða um heim. |
06.01.2012 |
Forseti afhendir fulltrúum frá landssambandi björgunarsveita Færeyja fé sem safnaðist í landssöfnun sem efnt var til á Íslandi 11. desember síðastliðinn í tilefni af fárviðri sem gekk yfir eyjarnar. Viðstaddir afhendinguna eru fulltrúar frá Björgunarsveitum Færeyja, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Friðrik Ómar og Jógvan Hansen sem stóðu fyrir samstöðutónleikunum í Hörpu, fulltrúar styrktaraðila, tónlistarmenn og aðrir sem stóðu að söfnuninni. Fréttatilkynning. |
07.01.2012 |
Forseti sækir hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumanna þar sem úrvalssveit íslenskra matreiðslumanna kynnir nýjungar í íslenskri matreiðslu. Kvöldverðurinn er jafnframt til styrktar þátttöku kokkalandsliðsins í erlendum mótum. |
07.01.2012 |
Forseti er heiðursgestur við setningu Íslandsmóts barna í skák sem haldið er í Rimaskóla. Forseti lék fyrsta leikinn í mótinu og flutti ávarp þar sem hann reifaði hugmynd um skákkeppni barna á Norðurslóðum en hann hafði rætt þá hugmynd við Anatoly Karpov, fyrrum heimsmeistara í skák, þegar hann heimsótti Ísland á síðasta ári. |
09.01.2012 |
Forseti á fund með Ingvari Eyfjörð um hvernig þekking og reynsla Íslendinga í sjávarútvegi getur nýst við þróun sjálfbærs sjávarútvegs víða um heim, einkum þar sem ríki eiga erfitt með að fylgjast með arðráni erlendra flota á sínum miðum. |
09.01.2012 |
Forseti ræðir við prófessor Ólaf Wallevik um rannsóknir á umhverfisvænni steypu, tækninýjungar á því sviði og samvinnuverkefni víða um heim. Framleiðsla slíkrar steypu getur dregið mjög úr mengun á heimsvísu í ljósi þess mikla magns sem framleitt er af steypu í veröldinni. |
09.01.2012 |
Forseti flytur ávarp við setningu ráðstefnu norrænna jarðfræðinga. Í ár eru þrír áratugir síðan slíkar vetrarráðstefnur voru fyrst haldnar en jafnframt verður á henni minnst þess að hundrað ár eru liðin frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar. Ráðstefnuna sækja einnig jarðvísindamenn frá öðrum þjóðlöndum. Ávarp forseta. |
10.01.2012 |
Forseti tekur á móti hópi frá Alþjóðlegum ungmennaskiptum sem veita ungu fólki tækifæri til að starfa við ýmis samfélagsleg verkefni og hjálparstarf víða um heim. Í hópnum voru bæði íslensk ungmenni sem sinnt hafa slíkum verkefnum í ýmsum löndum og erlend ungmenni sem starfa nú við samfélagsþjónustu af ýmsu tagi á Íslandi. |
10.01.2012 |
Forseti ræðir við þýsk-svissnesku sjónvarpsstöðina 3sat um komu ferðamanna til Íslands að hausti og yfir vetrarmánuðina, hvernig íslensk náttúra sé heillandi á öllum árstíðum og hvaða áhrif eldvirkni og nábýli við náttúruöflin hafa haft á menningu og hugmyndaheim Íslendinga. |
10.01.2012 |
Forseti ræðir við Lawrence Hislop um náttúrufar á Norðurslóðum, breytingar í kjölfar hlýnunar og þörfina á samstarfi við rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika á Norðurslóðum. Heimildamyndin er unnin í tengslum við Norðurskautsráðið. |
11.01.2012 |
Forseti ræðir við guðfræðinema frá Bandaríkjunum og kennara þeirra sem heimsótt hafa Ísland til að kynna sér trúarlíf í landinu, kirkjustarf, samfélagsþjónustu og menningu. |
12.01.2012 |
Forseti flytur ávarp þegar Mentor ýtti úr vör í Bretlandi hugbúnaði fyrir grunnskóla, foreldra, nemendur og kennara. Hugbúnaðurinn hefur frá upphafi verið þróaður á Íslandi og á síðari árum í samvinnu við skóla í Svíþjóð og Sviss. Fyrirtækið starfar nú undir heitinu InfoMentor og er áformað að fjöldi skóla í Bretlandi nýti sér þennan hugbúnað í þágu betri kennsluhátta og meiri námsárangurs. Kynningin fór fram á alþjóðlegri sýningu um menntahugbúnað sem haldin er í London. Vefsíða Mentors. |
13.01.2012 |
Forseti tekur um helgina þátt í hátíðarhöldum í Kaupmannahöfn í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því að Margrét Þórhildur varð drottning Danmerkur. Fréttatilkynning. |
14.01.2012 |
Forseti er viðstaddur hátíðartónleika í tónleikahöll Danska ríkisútvarpsins í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því Margrét Þórhildur varð drottning Danmerkur. Fjöldi tónlistarmanna kom fram, þar á meðal Eivör Pálsdóttir, og vakti flutningur hennar mikla hrifningu. Að því loknu var boðið til málsverðar í konungshöllinni. |
14.01.2012 |
Forseti er viðstaddur samkomu í Ráðhúsi Kaupmannahafnar í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því að Margrét Þórhildur varð drottning Danmerkur. Fjöldi kóra söng og þar á meðal kvennakór Íslendinga í Kaupmannahöfn. Að samkomunni lokinni bauð borgarstjóri Kaupmannahafnar til hádegisverðar. |
15.01.2012 |
Forseti sækir guðþjónustu í tilefni af krýningarafmæli Margrétar Danadrottningar í hallarkirkjunni í Kristjánsborg. |
15.01.2012 |
Forseti er viðstaddur þegar mikill fjöldi Kaupmannahafnarbúa hyllir Margréti Danadrottningu og situr síðan hádegisverð krónprinshjónanna í höll Friðriks VIII. |
16.01.2012 |
Forseti á fund með forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond, en þeir taka báðir þátt í Heimsþingi hreinnar orku sem nú er haldið í Abu Dhabi. Mynd. Fréttatilkynning. |
16.01.2012 |
Forseti á fund í Abu Dhabi með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, en þeir sækja báðir Heimsþing hreinnar orku sem þar er haldið. Á fundinum var einkum rætt um aukna nýtingu hreinnar orku til að hamla gegn loftslagsbreytingum. Fréttatilkynning. Mynd. |
16.01.2012 |
Forseti á fund með forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, en þeir taka báðir þátt í Heimsþingi hreinnar orku sem haldið er í Abu Dhabi. Á fundinum flutti forseti kveðju frá Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og ítrekaði fyrri boð til forsætisráðherra Kína um að heimsækja Ísland. Wen Jiabao þakkaði fyrir góðar kveðjur og heimboðið og kvaðst mundu gera sitt besta til að koma til Íslands á þessu ári. Myndir. Fréttatilkynning. |
16.01.2012 |
Forseti tekur þátt í Heimsþingi hreinnar orku, World Future Energy Summit, sem hófst í Abu Dhabi í morgun, mánudaginn 16. janúar. Heimsþingið sækja þjóðarleiðtogar, forystumenn í orkumálum, sérfræðingar, vísindamenn og stjórnendur stórfyrirtækja víða að úr veröldinni. Meðal þeirra eru forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, stjórnendur nokkurra stofnana Sameinuðu þjóðanna og ráðherrar frá ýmsum löndum, þar á meðal forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond. Fréttatilkynning. Myndir. |
17.01.2012 |
Forseti flytur ávarp þegar alþjóðlegu orkuverðlaunin Zayed Future Energy Prize eru afhent við hátíðlega athöfn í Abu Dhabi. Forseti er formaður dómnefndar. Orkuverðlaunin eru hin veigamestu á sínu sviði í veröldinni og eru veitt frumkvöðlum, umhverfissamtökum, orkufyrirtækjum og vísindamönnum sem markað hafa djúp spor í þróun hreinnar orku og þar með baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Ræða forseta. Vefsíða Zayed orkuverðlaunanna. |
17.01.2012 |
Forseti á fund með forsætisráðherra Suður-Kóreu, Kim Hwang-sik, í Abu Dhabi. Á fundinum kom fram ríkur áhugi Suður-Kóreu á að fá fast sæti sem áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðinu. Mikilvægi Norðurslóða væri nú slíkt að staða Kóreu sem siglingaþjóðar kallaði á virka þátttöku í þróuninni á Norðurslóðum enda fengjust rannsóknarstofnanir í Kóreu nú þegar við margvísleg verkefni á þessu sviði. Fréttatilkynning. Myndir. |
17.01.2012 |
Forseti ræðir við fulltrúa Marorku og samstarfsaðila þeirra í Mið-Austurlöndum um nýtingu hugbúnaðar til að draga úr orkunotkun skipa. Þessi búnaður sem Marorka hefur þróað og framleitt hefur þegar reynst vel í skipum af ýmsum gerðum og gæti því verið gagnlegur til að draga úr mengun vegna flutninga á sjó. |
17.01.2012 |
Forseti á fund með David Sandalow, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, og embættismönnum orkuráðuneytisins um frekari þróun samstarfs Íslands og Bandaríkjanna á sviði hreinnar orku, einkum jarðhita, og tækninýjunga til orkusparnaðar. Grundvöllur að slíku samstarfi var lagður fyrir nokkrum árum þegar forseti lagði m.a. fram greinargerð og sat fyrir svörum orkunefndar Öldungadeildar Bandaríkjaþings. Mynd. |
18.01.2012 |
Forseti á fund með Adnan Amin framkvæmdastjóra IRENA, International Renewable Energy Authority, nýrrar alþjóðastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem ætlað er að efla nýtingu endurnýjanlegrar orku. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Abu Dhabi og studdu íslensk stjórnvöld þá staðsetningu á sínum tíma. Rætt var um hvernig reynsla Íslendinga á sviði jarðhita og vatnsafls og fjölmörg verkefni, sem íslensk tækni- og verktakafyrirtæki hafa unnið að í Asíu, Afríku, Evrópu og öðrum heimshlutum, geta ásamt orkusparandi nýjungum, sem fram hafa komið á Íslandi á undanförnum árum, orðið efniviður í margvíslegum verkefnum og áherslum hinnar nýju stofnunar. Myndir. Vefsíða IRENA. |
18.01.2012 |
Forseti tekur þátt í vinnufundi um þróun alþjóðlegu orkuverðlaunanna Zayed Future Energy Prize sem á fáeinum árum hafa orðið ein hin virtustu í veröldinni. Í fundinum tóku þátt verðlaunahafar frá fyrri árum, dómnefndarfólk, sérfræðingar í matsnefndum og starfsmenn og stjórnendur verðlaunanna. Forseti er formaður dómnefndar. |
18.01.2012 |
Forseti er viðstaddur þegar Ólafur H. Wallevik prófessor kynnir nýja aðferð við gerð steinsteypu í samstarfi við ReadyMix fyrirtækið í Abu Dhabi. Steinsteypan hefur verið þróuð af honum og samstarfsmönnum hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og er talin sú umhverfisvænasta í veröldinni. Viðstaddir kynninguna voru fulltrúar borgaryfirvalda, byggingarfyrirtækja og fjölmiðla. Mynd. |
21.01.2012 |
Forseti á fund með Donald S. Reimer, athafnamanni frá Winnipeg í Kanada, og Þórði Ægi Óskarssyni sendiherra um rótgróin tengsl við Vestur-Íslendinga í Kanada, vaxandi mikilvægi Norðurslóða og möguleika á samstarfi Íslands, Grænlands, Kanada og annarra ríkja á Norðurslóðum í samgöngum, flutningum og orkunýtingu. |
21.01.2012 |
Forseti á fund með Svani Kristjánssyni prófessor um rannsóknir hans á stöðu forsetaembættisins í tíð fyrstu fjögurra forseta lýðveldisins, stöðu þess í lýðræðisþróun Íslendinga og samskipti við aðrar valdastofnanir. |
24.01.2012 |
Forseti er viðstaddur athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem afhentir voru styrkir úr Vísinda- og rannsóknasjóði Suðurlands. Styrkirnir eru veittir ýmsum vísindaverkefnum sem tengjast Suðurlandi, náttúru, menningu eða mannlífi. Þá voru veitt Menntaverðlaun Suðurlands en þau eru helguð fræðslustarfi í grunnskólum og leikskólum. Vefur Fræðslunets Suðurlands. |
25.01.2012 |
Forseti afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Í flokki fræðirita hlaut verðlaunin Páll Björnsson fyrir ritverkið Jón forseti allur?. Í flokki fagurbókmennta hlaut verðlaunin Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur. Forseti flutti ávarp við upphaf athafnarinnar og síðan hélt Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, ræðu. |
25.01.2012 |
Forseti á fund með Þorsteini Guðnasyni, sem nýlega sótti vatnsráðstefnu í Abu Dhabi, og Gísla Guðmundssyni athafnamanni um hvernig forðabúr vatns á Íslandi getur nýst í Mið-Austurlöndum. Stjórnvöld í Abu Dhabi tilkynntu í síðustu viku að árlega yrði þar haldið heimsþing um vatnsbúskap. |
25.01.2012 |
Forseti á fund með forseta þjóðþings Svartfjallalands, Ranko Krivokapic, og sendinefnd þjóðþingsins sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um stöðu smárra ríkja í Evrópu, breytingar við endalok kalda stríðsins, samskipti ríkjanna á Balkanskaga og hvaða lærdóma má draga af þróun Íslands frá heimastjórn til lýðveldis, frá fátækt til lífskjara nútímans. |
26.01.2012 |
Forseti setur alþjóðlegt bridgemót sem haldið er í Reykjavík. Þátttakendur eru um 300, þar af rúmlega hundrað sem koma víða að úr veröldinni. |
26.01.2012 |
Forseti á fund með fyrsta sendiherra Palestínu á Íslandi, Yasser Alnajjar, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um þróun mála í Miðausturlöndum, ástandið á Gasa og á Vesturbakkanum, lýðræðisþróun í Arabaheiminum og áhrif kosninga sem fram hafa farið í Egyptalandi og öðrum löndum í Norður-Afríku. Mynd. |
26.01.2012 |
Forseti tekur á móti Friðriki Ólafssyni stórmeistara, landsliði íslenskra barna, sem tekur þátt í Norðurlandamóti barna, og forystufólki í íslensku skáklífi í tilefni af því að haldinn er í fyrsta sinn Skákdagur Íslands. Að loknum ávörpum tefldu Friðrik Ólafsson og Nancy Davíðsdóttir Íslandsmeistari barna í skák. Í ávarpi minntist forseti á hve mikilvæg framganga Friðriks á alþjóðlegum skákvelli hefði verið á fyrstu áratugum lýðveldisins, veitt æsku landsins sjálfstraust og gefið þjóðinni nýja sýn. Framlag Friðriks væri því ekki aðeins til skákíþróttarinnar í landinu heldur væri það jafnframt mikilvægur þáttur í sögu Íslands frá lýðveldisstofnun. Fréttatilkynning. Myndir. |
28.01.2012 |
Flutt er ávarp forseta á sérstakri hátíðarsamkomu í tilefni af aldarafmæli ÍSÍ. Ávarpið var tekið upp nokkrum dögum fyrr. Vefur ÍSÍ. Ávarp forseta. |
30.01.2012 |
Forseti þiggur boð Al Gore, Nóbelsverðlaunahafa og fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, um að taka þátt í leiðangri vísindamanna og forystufólks í baráttunni gegn loftslagsbreytingum til Suðurskautslandsins. Markmið leiðangursins er að kanna hina hröðu bráðnun íss og ræða hvernig unnt er að fá þjóðir heims til að sameinast í raunhæfum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Hann er skipulagður af Loftslagsstofnun Al Gore, the Climate Reality Project, og hinu heimsþekkta náttúrutímariti National Geographic. Vefsíða Climate Reality Project. Vefsíða National Geographic. Fréttatilkynning. Myndir úr ferð forsetahjóna til Suðurskautslandsins. |
Febrúar
|
06.02.2012 |
Forseti sendir nýkjörnum forseta Finnlands, Sauli Niinistö, hamingjuóskir frá íslensku þjóðinni. Í kveðju sinni minnti forseti á trausta og langvarandi vináttu Finna og Íslendinga, þjóða sem báðar tilheyrðu hinni norrænu fjölskyldu. Forseti benti jafnframt á að málefni Norðurslóða væru sameiginlegt hugðarefni þjóðanna sem hafa mundi sívaxandi þýðingu á komandi áratugum. Fréttatilkynning. |
10.02.2012 |
Forseti á fund með Amy Pu um kynningu á Íslandi í Kína með ítarlegum upplýsingum á netmiðlum. Einnig var fjallað um aðra þætti í samstarfi Íslands og Kína en Amy Pu aðstoðaði Íslendinga við uppsetningu og starfrækslu sýningarskálans á Heimssýningunni í Shanghai, EXPO 2010. |
10.02.2012 |
Forsetasetrið að Bessastöðum er í dag, föstudaginn 10. febrúar, opið almenningi sem liður í Safnanótt 2012. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu og Bessastaðakirkju milli klukkan 16:00 og 20:00. Fréttatilkynning. Myndir frá opnu húsi á Bessastöðum 10.2. 2012. |
13.02.2012 |
Forseti tekur á móti félögum í Rótarýklúbbnum Görðum sem starfað hefur í 45 ár. Íbúar í nágrenni Bessastaða, Álftanesi og Garðabæ, eru félagar í klúbbnum. Forseti ræddi um sögu Bessastaða, Bessastaðaskóla, fornminjar á staðnum, gjafir frá ýmsum heimshlutum og byggðarlögum á Íslandi sem og annað sem tengist sögu og búnaði staðarins. Forseti Rótarýklúbbsins, Guðbjörg Alfreðsdóttir, rifjaði í ávarpi upp tengsl klúbbsins við fyrri forseta. |
13.02.2012 |
Forseti tekur á móti hópi ungmenna frá Spáni úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sem tengjast Evrópuverkefni ungs fólks um aukinn skilning á umhverfismálum, www.euf.is. Rætt var um bráðnun jökla í Evrópu og öðrum heimshlutum, lærdóma forseta af ferð til Suðurskautslandsins sem og árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku. |
14.02.2012 |
Forseti afhendir Nýsköpunarverðlaun við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Markmið verðlaunanna er að heiðra námsmenn sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Sex verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna. Verðlaunin hlaut Vilhjálmur Steingrímsson fyrir verkefnið 'Áhættureiknir fyrir hjarta- og kransæðasjúkdóma hjá öldruðum'. Heimasíða Rannís. |
15.02.2012 |
Forseti tekur á móti hópi norrænna laganema sem heimsækja Ísland á vegum Orators. Rætt var um íslenska stjórnskipun og framlag lögfræði og félagsvísinda til þróunar lýðræðis í veröldinni. |
15.02.2012 |
Forseti á fund með Gissuri Guðmundssyni, forseta Heimssamtaka matreiðslumanna, og Helga Einarssyni um væntanlegt heimsþing samtakanna sem haldið verður í Suður-Kóreu. Íslendingar hafa verið í forystu þessara samtaka undanfarin ár og hafa nýlega verið endurkjörnir til fjögurra ára. Í samtökunum eru yfir tíu milljónir matreiðslumanna frá flestum löndum heims. Helsta viðfangsefni þingsins í Kóreu verður að fjalla um sjálfbærari nýtingu matvæla og framlag matreiðslumanna í þeim efnum. |
15.02.2012 |
Forseti á fund með Bala Kamallakharan um ráðstefnuna "Building Sustainable Startups - Entrepreneurial Ecosystem" sem halda á á Íslandi í maí. Markmið hennar er að efla nýsköpun og styrkja sprotafyrirtæki á ýmsum sviðum. Meðal þátttakenda verða þekktir erlendir athafnamenn og hugsuðir á þessu sviði. Einnig var á fundinum fjallað um vaxandi samstarf Íslands og Indlands, m.a. í ferðaþjónustu. |
16.02.2012 |
Forseti sækir afmælishóf Klúbbs matreiðslumeistara í tilefni af 40 ára afmæli hans. Í ávarpi þakkaði forseti félögum klúbbsins fyrir framlag þeirra til að auka fjölbreytni íslenskrar matarmenningar, renna nýjum stoðum undir öflugan vöxt ferðaþjónustunnar og gera þjóðlífið fjölbreyttara. Með kunnáttu sinni hafi matreiðslumenn fléttað saman íslenskar hefðir, erlend áhrif og gæði íslensks hráefnis svo að maturinn sé nú, ásamt náttúru og menningu, það sem erlendir ferðamenn telja mikilvægast í heimsóknum til landsins. |
17.02.2012 |
Forseti tekur á móti hópi háskólanema sem taka þátt í IceMun verkefninu. Markmið þess er að kynnast starfsemi Sameinuðu Þjóðanna, einkum Öryggisráðsins, með því að taka til umfjöllunar mikilvæg viðfangsefni sem þar eru á dagskrá. Í samræðum forseta og nemenda var fjallað um baráttuna fyrir afnámi kjarnorkuvopna, stöðuna í Mið-Austurlöndum, mikilvægi Sameinuðu þjóðanna og þá lærdóma sem fólust í starfi forseta á vegum þingmannasamtaka á sínum tíma, þar sem sérstök áhersla var lögð á þessi mál. |
17.02.2012 |
Forseti tekur á móti þingmönnum Hreyfingarinnar sem óskuðu eftir fundi með forseta. Rætt var um stöðu mála á Alþingi og í þjóðlífinu, skuldastöðu heimila sem og ýmis mál sem flokkurinn hefur lagt áherslu á, stjórnskipun í ljósi tillagna Stjórnlagaráðs og nauðsyn breytinga í kjölfar hrunsins. |
17.02.2012 |
Forseti flytur erindi og svarar fyrirspurnum á hádegisfundi Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands í tengslum við tíu ára afmæli MBA náms við skólann. Efni fundarins var: "Viðskiptamöguleikar Íslendinga á næstu árum?" Í inngangi fjallaði forseti um auðlindir Íslendinga, kosti fjölþættrar menntunar, góð tengsl við Evrópu, Bandaríkin og rísandi ríki í Asíu sem og fjölþætt tækifæri á Norðurslóðum. Hann nefndi fjölda dæma um jákvæðan árangur á undanförnum árum. Að inngangserindi loknu svaraði forseti fyrirspurnum. Ávarp forseta, hljóðupptaka. Fyrirspurnir og svör, hljóðupptaka. |
18.02.2012 |
Forseti afhendir heiðursverðlaun Eddunnar á Edduhátíðinni. Verðlaunin hlaut Vilhjálmur Knudsen fyrir gerð heimildamynda, einkum um íslenska náttúru sem og kynningu á eldgosum og hamförum náttúrunnar með sýningum kvikmynda fyrir erlenda ferðamenn. |
18.02.2012 |
Eyrarrósin er afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og hlaut Safnasafnið á Svalbarðsströnd hana að þessu sinni. Viðstaddir athöfnina voru fulltrúar tilnefndra verkefna, Listahátíðar í Reykjavík og annarra aðila sem standa að Eyrarrósinni. Fréttatilkynning. Myndir |
19.02.2012 |
Forseti sækir hátíðartónleika Karlakórsins Þrasta sem haldnir eru í Hörpu í tilefni af aldarafmæli kórsins. Ávarp forseta í tónleikaskrá. |
19.02.2012 |
Forseti sækir skátamessu í Bessastaðakirkju. Í kjölfar hennar efnir skátafélagið Svanir á Álftanesi til kaffisölu í íþróttahúsinu til styrktar þátttöku þess í landsmóti skáta á Úlfljótsvatni. Í ár er öld liðin frá upphafi skátastarfs á Íslandi. |
20.02.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem þeir lögðu fram undirskriftir rúmlega 37.000 Íslendinga til stuðnings kröfunni um "almenna og réttláta leiðréttingu á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnám verðtryggingar". Einnig var fjallað á almennan hátt um baráttu samtakanna og hvernig íslensk stjórnskipun og réttarríki verndar hagsmuni einstaklinga og fjölskyldna, m.a. í ljósi úrskurða Hæstaréttar. |
20.02.2012 |
Forseti á fund með Ámunda Ólafssyni um bók þýska ljósmyndarans Olaf Otto Becker sem meðal annars sýnir myndir af bráðnun jökla á Íslandi á undanförnum árum. |
21.02.2012 |
Forseti er viðstaddur undirritun samkomulags Videntifier Technologies sem er vaxandi hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki í Reykjavík og breska fyrirtækisins Forensic Pathways. Markmið samvinnunnar er að koma á framfæri gagnagrunni, vinnslu og aðferð til að þekkja efni í vídeóskrám. Það getur hjálpað yfirvöldum til að hamla gegn ólöglegu efni, m.a. því sem tengist kynferðisofbeldi gegn börnum, hryðjuverkum eða höfundarétti. Í stuttu ávarpi fagnaði forseti aukinni samvinnu Íslands og Bretlands á þessu sviði og minnti á nýlega kynningu Mentors á sínum hugbúnaði á stórri sýningu í London. Jafnframt fælust í þessari samvinnu skilaboð til ungs fólks um að hægt væri að þróa tækni á heimavelli og gera hana gjaldgenga víða í veröldinni. Sendiherra Bretlands var einnig viðstaddur athöfnina. |
23.02.2012 |
Forseti á fund með forseta Singapúr Dr. Tony Tan Keng Yam. Á fundinum, sem fram fór í forsetahöllinni, var rætt um sameiginlega hagsmuni Íslands og Singapúr í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir verndun auðæva hafsins. Þessi brýnu verkefni fælu í sér aukna þörf á samstarfi eyríkja. Ísland og Singapúr gætu í þeim efnum, í ljósi sögu sinnar og árangurs, haft ákveðna forystu. Fréttatilkynning. Myndir |
23.02.2012 |
Forseti flutti setningarræðu á heimsþingi um höfin, World Oceans Summit, sem hið þekkta vikurit The Economist efnir til í Singapúr. Að ræðunni lokinni sat forseti fyrir svörum hjá ritstjóra The Economist John Micklethwait. Ræða forseta. Myndir. Fréttatilkynning |
24.02.2012 |
Forseti á fund í Singapore með Hauki Harðarsyni, stjórnanda OrkaEnergy, um eflingu jarðhitanýtingar í Kína, á Filippseyjum og víðar. Margvísleg verkefni eru þar komin á framkvæmdastig og mörg Asíulönd hafa vaxandi áhuga á nýtingu jarðhita og að njóta góðs af þekkingu og reynslu Íslendinga á þessu sviði. |
24.02.2012 |
Forseti tekur þátt í öðrum degi Heimsþings um höfin sem vikuritið The Economist efnir til. Í ræðu sem bankastjóri Alþjóðabankans, Robert Zoellick, hélt kynnti hann nýja áætlun bankans til björgunar höfunum. Áætlunin felur í sér að bankinn muni í samvinnu við aðra verja sem nemur um 200 milljörðum íslenskra króna til að hrinda áætluninni í framkvæmd. Hún felur í sér margþættar aðgerðir: Eflingu rannsókna, skipulag sjálfbærra veiða, betri nýtingu aflans, fræðslu og fjárfestingar. Í lok heimsþingsins var gerð grein fyrir niðurstöðum málstofa sem þar störfuðu og fólu þær í sér margvíslegar tillögur um aðgerðir og úrbætur. |
25.02.2012 |
Forseti tekur á móti þátttakendum í ráðstefnu um starfsemi Special Olympics á Íslandi sem haldin var á vegum Íþróttasambands fatlaðra. Á ráðstefnunni var fjallað um þann mikla árangur sem náðst hefur í íþróttastarfi seinfærra og þroskaheftra og áherslur í stefnumótun og starfi á komandi árum. Myndir frá móttöku forseta fyrir Special Olympics á Íslandi og forystusveit Íþróttasambands fatlaðra. |
26.02.2012 |
Forseti er viðstaddur setningu Búnaðarþings þar sem Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fluttu ræður. Einnig voru veitt Landbúnaðarverðlaun ársins 2012 og formaður Bændasamtakanna fagnaði því í ræðu sinni að Ferðaþjónusta bænda hefði í fyrra hlotið Útflutningsverðlaun forseta Íslands. |
27.02.2012 |
Forseti tekur við áskorunum sem rúmlega þrjátíu þúsund Íslendingar hafa undirritað um að gefa áfram kost á sér í embætti. Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, hafði orð fyrir aðstandendum söfnunarinnar. Að lokinni afhendingu ræddi forseti lengi við fulltrúa fjölmiðla og svaraði fjölmörgum spurningum. Frásagnir fjölmiðla af fundinum: visir.is, RÚV, Stöð 2, Rás 2, mbl.is, dv.is. |
27.02.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Svartfjallalands, dr. Ljubis Stankovic, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um mikilvægi aukins samstarfs smárra og meðalstórra ríkja í Evrópu, tengsl landanna sem fyrrum tilheyrðu Júgóslavíu sem og reynslu Svartfjallalands af því að nota evrur sem mynt án þess að vera aðili að Evrópusambandinu. Þá vísaði forseti til starfsemi Smáríkjaseturs við Háskóla Íslands og hvatti til þátttöku fræðimanna og námsmanna frá Svartfjallalandi í sumarskóla þess. Mynd. |
27.02.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Srí Lanka, hr. Oshadhi Alahapperuma, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um þátttöku Íslendinga á sínum tíma í friðargæslu á Srí Lanka sem og áhuga forseta landsins á að læra af reynslu og þekkingu Íslendinga í sjávarútvegi en í tíð sinni sem sjávarútvegsráðherra heimsótti hann Ísland. Einnig var rætt um mikilvægi verndunar auðlinda hafsins og þátttöku forseta nýlega í Heimsþingi um höfin sem haldið var í Singapore. Mynd. |
27.02.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Ungverjalands, hr. Géza Jeszenszky, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna á sviði jarðhitanýtingar en Íslendingar vinna nú að uppbyggingu hitaveitu í Ungverjalandi. Einnig var fjallað um þá lærdóma sem draga má af fjármálakreppunni og hvernig Ísland hefur brugðist við henni sem og þróun mála í Ungverjalandi og samskipti þess við önnur aðildarríki Evrópusambandsins. Mynd. |
28.02.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Tyrklands, frú Sanivar Olgun, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukið samstarf á sviði jarðhitanýtingar en grundvöllur að því var lagður í heimsókn forseta til Tyrklands fyrir nokkrum árum og viðræðum við þarlend stjórnvöld sem og heimsókn orkumálaráðherra Tyrklands fyrir fjórum árum. Stjórnvöld í Tyrklandi hafa nú mótað skýr áform um aukna nýtingu jarðhita og sækjast eftir samstarfi við íslensk tæknifyrirtæki, verkfræðistofur og aðra aðila á því sviði. Einnig var fjallað um margháttaða nýtingu jarðhita í þágu matvælaframleiðslu, bæði gróðurhúsaræktunar og þurrkunar matvæla. |
28.02.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Jórdaníu, hr. Mazen Homoud, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um áhuga stjórnvalda í Jórdaníu á að nýta þekkingu Íslendinga á sviði jarðhita en það var m.a. meginþáttur í heimsókn Abdullah II til Íslands á síðasta áratug og viðræðna forseta við konung í Amman. Orkuskortur er eitt helsta vandamál Jórdaníu og mikilvægt að kanna til hlítar jarðhitasvæði landsins. Einnig var rætt ítarlega um stöðu mála í Miðausturlöndum, vandann í samskiptum Palestínumanna og Ísraels, viðurkenningu Íslands á Palestínu sem sérstöku ríki og viðhorf annarra ríkja í Evrópu. |
28.02.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Marokkós, frú Saadia El Alaoui, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukna samvinnu á sviði sjávarútvegs, m.a. í ljósi athugana og undirbúnings sem fram fór fyrir nokkrum árum og einnig í krafti áhuga íslenskra aðila á að leggja lið aukinni nýtingu sjávarafurða í Marokkó. Einnig var fjallað um lýðræðisþróunina í Arabaheiminum, breytingar á stjórnarskrá Marokkós og reynsluna af fjölflokka lýðræði. |
29.02.2012 |
Forseti sækir hátíð Íslensku tónlistarverðlaunanna sem haldin er í Hörpu. Veitt voru verðlaun í mörgum flokkum tónlistar og hlaut Mugison flest verðlaun á hátíðinni. |
29.02.2012 |
Forseti á fund með Þorsteini I. Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar, um margvíslega nýsköpun í umhverfismálum, bæði varðandi bætta framleiðsluhætti í ýmsum atvinnugreinum og eyðingu úrgangsefna sem fljóta á úthöfunum. Einnig var fjallað um samvinnu við vísindasamfélagið í Rússlandi en Þorsteinn hlaut fyrir nokkrum árum hin virtu orkuverðlaun sem forseti Rússlands veitir. |
29.02.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Marorku um nýtingu hugbúnaðar í þágu orkusparnaðar skipa og hvernig hægt er að tryggja framgang hans, einkum í stórum skipasmíðastöðvum, svo sem í Kína. |
29.02.2012 |
Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu Félags lesblindra á Íslandi. Heiti ráðstefnunnar er: "Verður skólinn án bóka?" Á ráðstefnunni er fjallað um þau nýju tækifæri sem spjaldtölvur og aðrar nýjungar í upplýsingatækni skapa lesblindum. |
Mars
|
01.03.2012 |
Forseti ræðir við tímarit stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands um þróun fræðigreinarinnar frá því að kennsla hófst í henni við Háskólann, ýmis viðfangsefni hennar á okkar tímum sem og umfjöllun um forsetaembættið og aðra þætti stjórnkerfisins, bæði sögulega og í nútímanum. Tímaritið, sem ber heitið Íslenska leiðin, kemur út fljótlega. |
01.03.2012 |
Forseti ræðir við fréttamanninn Amy Guttman frá Monocle magazine um lærdómana, sem draga má af glímu Íslendinga við efnahagshrunið, sem og ýmsa þætti í íslenskri samfélagsgerð. |
02.03.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Icelandic Water Line um útflutning á vatni með skipum til fjarlægra heimshluta eða á neytendamarkað á Vesturlöndum. Unnið hefur verið að útfærslu hugmyndanna á undanförnum árum í samvinnu við tæknifyrirtæki og aðra aðila. |
02.03.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Marine Stewardship Council um gæðavottun sjávarafurða og umsvif þeirra í löndum við Norður-Atlantshaf og í öðrum heimshlutum til að tryggja neytendum gæðavottun sjávarafurða. Ýmis íslensk sjávarútvegsfyrirtæki taka þátt í þessu samstarfi. |
03.03.2012 |
Forseti tekur á móti hópi erlendra matreiðslumeistara og blaðamanna sem sækja matarhátíðina Food and Fun og skipuleggjendum hátíðarinnar. Hún hefur orðið mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri matargerð og til eflingar ferðaþjónustunni. Í móttökunni voru bornir fram ýmsir réttir frá ólíkum landshlutum, sumir byggðir á aldagömlum hefðum og allir gerðir úr hráefnum sem byggjast á hreinleika náttúru Íslands. |
04.03.2012 |
Forseti birtir yfirlýsingu um framboð. Yfirlýsing. |
06.03.2012 |
Forseti á fund með Fjólu Hilmarsdóttur hönnuði sem m.a. hannaði og prjónaði kápu sem Guðrún Katrín forsetafrú klæddist við vígslu Karls Sigurbjörnssonar biskups. |
06.03.2012 |
Forseti á fund með kvikmyndagerðarkonunum Vilborgu Einarsdóttur og Hlín Jóhannesdóttur sem hafa ásamt Ragnari Axelssyni ljósmyndara unnið að hugmyndum um margvísleg barnaefni sem segir sögu loftslagsbreytinga, snjókomu, íss og vatns. |
07.03.2012 |
Forseti afhendir heiðursverðlaun DV á árlegri hátíð menningarverðlauna blaðsins. Heiðursverðlaunin hlaut að þessu sinni Ingibjörg Björnsdóttir, listdansari og danshöfundur, fyrir framlag sitt til íslenskrar danslistar í um hálfa öld. |
07.03.2012 |
Forseti á fund með Ríkharði Ibsen, fulltrúa kvikmyndafyrirtækisins Blái demanturinn, um gerð efnis til kynningar á jarðhitanýtingu og þróun orkumála á Íslandi, m.a. með tilliti til þeirra tækifæra sem slík nýting skapar víða um heim. |
07.03.2012 |
Forseti ræðir við frönsku sjónvarpsstöðina France 2 um lærdómana sem draga má af bankahruninu, endurreisn efnahagslífsins, samspil lýðræðis og markaðar sem og um þjóðaratkvæðagreiðslurnar vegna Icesave. |
08.03.2012 |
Forseti á fund með Andrew Zolli, stofnanda og stjórnanda PopTech Institute, um alþjóðlega ráðstefnu sem fyrirhuguð er á Íslandi í lok júní. Þar verður fjallað um hvernig nýting upplýsingatækni gerir samfélögum kleift að glíma við margvíslega erfiðleika, svo sem vegna efnahagslegra áfalla eða náttúruhamfara. PopTech ráðstefnurnar hafa á undanförnum árum vakið mikla athygli og margvísleg verkefni víða um heim tengjast þeim. Á Íslandi verður fjallað bæði um lærdóma sem draga má af reynslu Íslendinga á síðustu árum sem og um lausnir á ýmsum vandamálum sem þjóðir heims glíma við. Vefur PopTech. |
08.03.2012 |
Forseti ræðir við blaðamann netmiðilsins Mashable um nýtingu upplýsingatækni í þágu íslenskrar ferðaþjónustu og landkynningar sem og áhrif hennar á stefnumótun og lýðræði. Blaðamaðurinn tekur þátt í ráðstefnunni Reykjavík Internet Marketing Conference sem hefst á morgun. Vefsíða Mashable. Vefsíða RIMC 2012 ráðstefnunnar. |
08.03.2012 |
Forseti flytur ávarp á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands sem haldin er í tilefni af hundrað ára afmæli félagsins. Ráðstefnan fjallar um framtíðarnýtingu orkuauðlinda á Íslandi. Ávarp forseta. |
09.03.2012 |
Forseti flytur fyrirlestur á námskeiði um þróunarsamvinnu og hjálparstarf sem haldið er af Þróunarsamvinnustofnun Íslands og fleiri aðilum. Í fyrirlestrinum fjallaði forseti um þróun Norður-Suður umræðunnar frá því um 1980 og til okkar daga sem og á hvern hátt gætu helst orðið að liði í framtíðinni. Mikilvæg reynsla hefði skapast við lausn margvíslegra vandamála, bæði á sviði stjórnsýslu, heilbrigðismála, orkunýtingar og hjálparstarfs sem sérstaklega smærri og meðalstór ríki gætu nýtt sér við þróun efnahagslífs og samfélags. Vefsíða ÞSSÍ. |
09.03.2012 |
Forseti er um helgina gestur norsku konungshjónanna á Holmenkollen skíðahátíðinni. Hún er einn helsti skíðaviðburður Noregs og fjölsótt af almenningi enda fara þar fram Heimsleikar í norrænum greinum. Fréttatilkynning. |
09.03.2012 |
Forseti flytur ávarp í upphafi alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er á Nordica um áhrif Internetsins á viðskiptalíf og samfélagsgerð. Ráðstefnan ber heitið Reykjavík Internet Marketing Conference og meginþema hennar er "You are not in control". Vefur ráðstefnunnar. Ræða forseta |
12.03.2012 |
Forseti á fund með Michael Frendo, forseta Þjóðþings Möltu, og sendinefnd þingsins sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um aukið samstarf smárra ríkja í Evrópu og sameiginlega hagsmuni eyríkja. Einnig var fjallað um árangur Íslendinga í nýtingu hreinnar orku, mikilvægi alþjóðlegs samstarfs um verndun hafanna sem og tengsl milli háskóla landanna og viðskiptalífs. |
13.03.2012 |
Forseti er viðstaddur lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er í Hafnarborg í Hafnarfirði og veitir viðurkenningar þeim nemendum sem kepptu til úrslita. Skáld keppninnar var Gyrðir Elíasson. Vefsíða keppninnar. |
13.03.2012 |
Forseti afhendir stjórnunarverðlaun Stjórnvísi fyrir árið 2012. Rúmlega 70 stjórnendur í fjölmörgum fyrirtækjum voru tilnefndir til verðlaunanna fyrir framlag þeirra og árangur í starfi. Verðlaunin eru veitt af Stjórnvísi, félagi um framsækna stjórnun. Forseti flutti einnig ávarp þar sem hann ræddi um nauðsyn þess að vekja athygli á árangri fyrirtækja í ólíkum greinum og hamla gegn hinni neikvæðu umræðu sem um of setti svip sinn á íslenskt atvinnulíf og sendi röng skilaboð til ungra kynslóða. Vefur Stjórnvísi. |
14.03.2012 |
Forseti afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins en þau eru veitt í fjórum flokkum: hvunndagshetja; frá kynslóð til kynslóðar; til atlögu gegn fordómum og sérstök samfélagsverðlaun. Auk þess voru veitt heiðursverðlaun fyrir lífsstarf í þágu betra og réttlátara samfélags. |
14.03.2012 |
Forseti ræðir við fulltrúa Háskólans í Reykjavík um framtíð hreinnar orku og tækifæri Íslendinga á því sviði í krafti þekkingar, vísinda og reynslu. Viðtalið mun birtast í Tímariti Háskólans í Reykjavík. |
15.03.2012 |
Forseti afhendir Íslensku þekkingarverðlaunin sem veitt eru af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þrjú fyrirtæki voru tilnefnd til verðlaunanna: Eimskip, Landspítali og Marel sem hlaut verðlaunin. Fyrirtækið hlaut þau einnig fyrir tíu árum. Þá voru viðskiptafræðingi ársins veitt sérstök verðlaun og hlaut þau Skúli Gunnar Sigfússon. |
15.03.2012 |
Forseti sækir ársfund Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þar sem kynnt var fjölþætt starfsemi miðstöðvarinnar svo og fjölmargar nýjungar sem unnið er að í íslensku atvinnulífi. Heimasíða Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. |
16.03.2012 |
Forseti er viðstaddur frumsýningu Íslensku óperunnar á La Bohème eftir Puccini en sýningin er í hinu nýja tónlistarhúsi Hörpu. |
16.03.2012 |
Forseti tekur á móti hópi AFS skiptinema sem dvalið hafa á Íslandi undanfarna mánuði. Þeir koma frá löndum í Evrópu og Asíu sem og frá Bandaríkjunum. Einnig voru í hópnum Íslendingar sem notið hafa þeirra tækifæra sem skiptinemakerfi AFS býður upp á. Hinir erlendu skiptinemar lýstu áhrifum sínum af dvöl í íslenskum skólum og ýmsum byggðarlögum landsins. |
16.03.2012 |
Forseti heimsækir Laugafisk á Akranesi og fræðist um þurrkun sjávarafurða. Fyrirtækið hefur um árabil notað jarðhita til að þurrka þorskhausa og aðrar sjávarafurðir sem áður fyrr var hent. Þær eru síðan fluttar út til Nígeríu. Heimsóknin er liður í athugun á nýtingu jarðhita til að styrkja matvælaframleiðslu víða um heim. |
18.03.2012 |
Forseti sækir uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem haldin er í Hörpu. Í ávarpi áréttaði forseti framlag tónlistarskólanna til að þróa og styrkja íslenskt tónlistarlíf. Starf þeirra á komandi árum væri forsenda þess að hið nýja tónlistarhús Harpa myndi gegna á árangursríkan hátt hlutverki sínu. Þá afhenti forseti viðurkenningar og verðlaunagrip Nótunnar. Þær voru veittar í þremur flokkum: grunnnámi, miðnámi og framhaldsnámi. Auk þess var afhentur farandgripur Nótunnar. Vefsíða Félags tónlistarkennara. |
18.03.2012 |
Forseti afhenti framhaldsskólanemendum og framhaldsskólum viðurkenningar fyrir sigur í keppninni „Vertu til! – Lifum af í umferðinni” sem Umferðarstofa efndi til. Síðastliðið haust setti Umferðarstofa af stað verkefnið „Vertu til!” sem er hugmyndasamkeppni nemenda í framhaldsskólum um fræðslu- og áróðursefni fyrir jafnaldra þeirra. Nemendur allra framhaldsskóla landsins gátu tekið þátt í verkefninu. Myndir |
19.03.2012 |
Forseti á fund með stjórnendum Landsvirkjunar um þróun orkumála á Íslandi og í Evrópu, orkunýtingu, orkuverð og hugsanlegan sæstreng milli Íslands og annarra landa. |
19.03.2012 |
Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni um ýmis rannsóknarverkefni á sviði umhverfismála og loftslagsbreytinga, m.a. í framhaldi af alþjóðlegum ráðstefnum um Norðurslóðir og Himalajasvæðið, sem haldnar voru á Íslandi á síðasta ári, og heimsráðstefnu um höfin sem breska tímaritið The Economist efndi til í Singapore. |
19.03.2012 |
Forseti ræðir við fulltrúa háskóla, samtaka atvinnulífs og fyrirtækja um nýjar leiðir til að kynna ungu fólki tækifæri sem nám í fjölþættum tækni- og iðngreinum skapar á komandi árum. Síaukin fjölbreytni fyrirtækja og nýsköpunar á þessum sviðum felur í sér margþætta möguleika á störfum. |
20.03.2012 |
Forseti heimsækir þrjár sýningar sem tengjast HönnunarMars: Stefnumót hönnuða og bænda; Phobophobia; Nýjar höfuðstöðvar og konseptverslun Farmers Market. HönnunarMars verður formlega 22.-25. þessa mánaðar. |
20.03.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Georgíu, hr. Nikoloz Rtveliashviti, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um breytingar í orkukerfi Georgíu en bæði Landsvirkjun og Verkís hafa tekið þátt í hönnun og byggingu smárra vatnsaflsvirkjana þar í landi. Þá var einnig rætt um möguleika í ferðaþjónustu sem og um deilur Rússa og Georgíumanna. |
20.03.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Lúxemborgar, hr. Alphonse Berns, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um traustan grundvöll vináttu landanna; sendiherrann var á sínum tíma þátttakandi í samningum um flugrekstur og þróun Cargolux þegar Íslendingar voru umsvifamiklir í flugi til Lúxemborgar. Þá var fjallað um aukið samstarf smárra ríkja í Evrópu, þróun Evrópusambandsins og makríldeiluna. |
21.03.2012 |
Forseti heimsækir Haustak. Fiskþurrkun á Reykjanesskaga þar sem jarðhiti hefur verið notaður um árabil til að þurrka sjávarafurðir. Margvísleg nýsköpun hefur farið fram í fyrirtækinu og hafa um tíu fisktegundir verið þurrkaðar á þeirra vegum og útbúnar á ýmsan hátt til að þjóna matarmarkaði í borgum og héruðum Nígeríu. Myndir. Vefur Haustaks. |
22.03.2012 |
Forseti sækir opnunarhátíð Hönnunarmars sem haldin er í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi. Vefsíða Hönnunarmars. |
23.03.2012 |
Forseti ræðir við Pascale Harter, fréttamann BBC World Service, um afleiðingar fjármálakreppunnar á Íslandi, viðbrögð þjóðarinnar og endurreisn efnahagslífsins, Icesave deiluna og þau grundvallarsjónarmið sem settu svip á afstöðu Íslendinga sem og hvaða áhrif glíman við náttúruöflin hefur haft á menningu og viðhorf þjóðarinnar. |
23.03.2012 |
Forseti afhendir rannsóknarverðlaun, kennsluverðlaun og þjónustuverðlaun Háskólans í Reykjavík á sérstakri athöfn sem haldin var í miðrými skólans. Vefsíða HR. |
23.03.2012 |
Forseti heimsækir Háskólann í Reykjavík og kynnist sérstaklega starfsemi tölvunarfræðideildar og námi í orkuvísindum auk þess sem hann á fund með framkvæmdastjórn skólans um þróun hans á komandi árum og þau rannsóknarsvið þar sem Íslendingar hafa sérstaklega gert sig gildandi. Myndir frá heimsókninni. |
23.03.2012 |
Forseti setur Fyrirlestramaraþon Háskólans í Reykjavík. Þar eru fluttir fjölmargir fyrirlestrar um rannsóknarverkefni sem unnið er að á vegum háskólans. |
24.3.2012 |
Forseti afhendir verðlaun vöruþróunarsamkeppni háskólanema í sköpun nýrra, vistvænna vörutegunda á matvælasviði. Námskeiðið var haldið í samvinnu íslenskra háskóla, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Matís. Úrlausnir nemenda eru sýndar í Listaháskóla Íslands í tengslum við HönnunarMars. Vinningsliðið tekur síðan þátt í Evrópukeppninni EcoTrophelia. |
24.03.2012 |
Forseti sækir Skrúfudaginn, uppskeruhátíð og kynningu hjá nemendum Stýrimannaskólans og Véltækniskólans. Skrúfudagurinn er nú haldinn í 50. sinn. Í ávarpi áréttaði forseti framlag sjómanna og vélstjóra til uppbyggingar sjávarútvegs, bæði flota og vinnslu, sem og hlutdeild tæknifólks í starfsemi fjölmargra fyrirtækja. Sjávarútvegurinn myndi á komandi árum verða, eins og á síðustu öld, burðarás í íslensku atvinnulífi og mikilvægt væri að vanda vel til menntunar á þessu sviði. Skrúfudagurinn sýndi í senn samhengið í þessari sögu og þá nýsköpun sem nú fer fram í skólunum. Að lokinni hátíðarsamkomunni kynnti forseti sér margvíslega starfsemi sem fram fer í skólunum. |
24.03.2012 |
Forseti tekur á móti fjölmörgum þátttakendum í HönnunarMars, hönnuðum, stjórnendum hönnunarmiðstöðva á Norðurlöndum sem og erlendum fréttamönnum og fjölmiðlafólki. Í ávarpi fagnaði forseti þeim árangri sem HönnunarMars hefur náð. Hann birti aukinn kraft í íslenskri hönnun, fjölbreytni og nýsköpun, og væri ánægjulegt hve margir erlendir aðilar hefðu vaxandi áhuga á þessum hönnunardögum. |
24.03.2012 |
Forseti ræðir við sjónvarpsrás BBC World Service um endurreisn efnahagslífsins og viðbrögð Íslendinga við fjármálakreppunni. |
25.03.2012 |
Forseti ræðir við John Kerry, formann utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, um málefni Norðurslóða, nauðsyn á öflugri þátttöku Bandaríkjanna sem og áhrif loftslagsbreytinga á bráðnun íss, efnahagslíf og þjóðfélagshætti á Norðurslóðum. John Kerry flutti upphafsræðu á ráðstefnu um Norðurslóðir sem forseti tekur þátt í í Tufts háskólanum í Boston. |
25.03.2012 |
Forseti á fund með vararíkisstjóra Alaska, Mead Treadwell, um aukna samvinnu við Ísland, svo sem í málefnum Norðurslóða og við nýtingu jarðhita sem finna má víða í Alaska. Stjórnvöld í Alaska hafa lengi haft áhuga á að nýta tæknikunnáttu, reynslu og þekkingu Íslendinga á þessu sviði. Í heimsóknum forseta til Alaska á undanförnum árum hefur verið rætt um form slíkrar samvinnu og áhugi er á að fulltrúar bæði ríkis og sveitarfélaga í Alaska heimsæki Ísland. Forseti tekur ásamt Mead Treadwell þátt í ráðstefnu um Norðurslóðir sem haldin við Tufts háskólann í Boston. |
25.03.2012 |
Forseti á fund með Alice Rogoff, útgefanda Alaska Dispatch og stjórnanda Alaska Imperative, um aukið samstarf í ráðstefnuhaldi og skipulagningu málþinga á Norðurslóðum sem og áherslur á málefni frumbyggja og ný tækifæri til fjárfestinga, svo sem á sviði hreinnar orku og flutninga. Forseti tekur ásamt Alice Rogoff þátt í ráðstefnu um Norðurslóðir sem haldin er við Tufts háskólann í Boston. Vefsíða Alaska Dispatch. |
25.03.2012 |
Forseti á fund með Þorsteini Egilssyni, fulltrúa Icelandair í Boston, um aukin umsvif félagsins í Bandaríkjunum, fjölgun farþega til Íslands og ný tækifæri í ferðaþjónustu, einkum á sviði ráðstefnuhalds og viðburða sem tengjast náttúruunnendum og fólki í upplifunar- og tæknigreinum. |
26.03.2012 |
Forseti flytur í lokaræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um framtíð Norðurslóða sem haldin er af Fletcher School við Tufts háskólann í Boston. Ræða forseta ber heitið „The Arctic: A New Model for Global Cooperation“. Upphafsræðu ráðstefnunnar flutti í gær John Kerry, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og forsetaframbjóðandi demókrata árið 2004. Þátttakendur í ráðstefnunni eru sérfræðingar og áhrifamenn í málefnum Norðurslóða, svo og prófessorar og nemendur við Tufts háskólann. Fréttatilkynning. Myndir. Ávarp forseta. |
27.03.2012 |
Forseti heimsækir Harvard háskóla og MIT háskólann í Boston og átti viðræður við vísindamenn og sérfræðinga skólanna um umhverfismál, loftslagsbreytingar, bráðnun íss á norðurslóðum, orkumál, jarðhita og þróun úthafanna. Fréttatilkynning. Myndir. |
28.03.2012 |
Forseti er viðstaddur sýningu á nýrri heimildamynd um verndun villtra laxa í Kanada, Rússlandi, Noregi og á Íslandi. Í myndinni er gerð grein fyrir baráttu Orra Vigfússonar og þeim árangri sem hún hefur skilað varðandi verndun laxastofnsins í Norður-Atlantshafi. |
29.03.2012 |
Forseti sækir sýningu nemenda í fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Þar sýna þeir afrakstur fimm vikna námskeiðs og er sýningin hluti af Reykjavik Fashion Festival. |
29.03.2012 |
Forseti tekur á móti hópi eldri borgara á Seltjarnarnesi og ræðir við þá um sögu Bessastaða, bæði á fyrri öldum og lýðveldistíma. |
30.03.2012 |
Forseti sækir fagnað í tilefni af 30 ára afmæli Íshesta sem unnið hafa ötullega að kynningu á náttúru landsins og íslenska hestinum fyrir tugþúsundir ferðamanna. Slík starfsemi hefur á síðari árum orðið ein af grunnstoðum ferðaþjónustunnar en var á sínum tíma mikilvægt brautryðjandastarf. Vefur Íshesta. |
30.03.2012 |
Forseti situr ársfund Orkustofnunar og hlýðir á ávörp iðnaðarráðherra og orkumálastjóra og kynningarerindi um jarðhitaverkefni, Jarðhitaskólann, vefsjár Orkustofnunar og bókasafn sem og yfirlit yfir rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og framtíðarsýn. Vefur Orkustofnunar. |
30.03.2012 |
Forseti flytur ávarp í upphafi ungmennaráðstefnu sem UMFÍ efnir til um ungt fólk og lýðræði en hún er haldin á Hvolsvelli. Í ávarpi sínu rakti forseti þróun lýðræðis, allt frá upphafi sjálfstæðisbaráttunnar til okkar daga. Bylting í upplýsingatækni hefði á síðari árum skapað ný tækifæri á vettvangi lýðræðis. Nú gætu allir, hvar sem væri í veröldinni, myndað sambönd og hreyfingar til stuðnings einstökum málefnum. Lýðræði væri ekki aðeins form kosninga á nokkurra ára fresti heldur lifandi vettvangur frá degi til dags þar sem ungt fólk gæti látið til sín taka. Slíkum tækifærum fylgdi líka mikil ábyrgð. |
31.03.2012 |
Forseti á fund með Nikolay Patrushev, formanni Öryggisráðs Rússlands, og sendinefnd hans sem heimsækir Ísland til að styrkja samstarf á Norðurslóðum. Rætt var ítarlega um fjölmarga þætti þess samstarfs, bæði þá sem snerta tvíhliða tengsl Íslands og Rússlands og samstarf allra landanna á Norðurslóðum. Efling Norðurskautsráðsins, þróun siglingaleiða, nýting auðlinda, fjölgun ferðamanna, m.a. með skemmtiferðaskipum, þróun flugsamgangna og vísindarannsókna til að fylgjast með bráðnun íss og freðmýra eru meðal þeirra verkefna sem brýn eru á komandi árum. Nikolay Patrushev lagði fram fjölmargar hugmyndir um þessi verkefni. Auk þess fjallaði hann um hætturnar af aukinni spennu í Miðausturlöndum og átökin í Afganistan og Sýrlandi. |
31.03.2012 |
Forseti á fund með dr. Guðmundi Alfreðssyni um þróun fræðilegs samstarfs á Norðurslóðum en hann hefur haft forystu um málþing sem helguð hafa verið Norðurskautsrétti. Miðstöð þess samstarfs hefur verið við Háskólann á Akureyri. |
31.03.2012 |
Forseti ræðir við fréttamanninn Adam Taylor frá netmiðlinum Businessinsider um lærdómana sem draga má af viðbrögðum Íslendinga við fjármálakreppunni og þróun samstarfs á Norðurslóðum í ljósi aukins mikilvægis þeirra á heimsvísu. |
Apríl
|
02.04.2012 |
Forseti heimsækir Guðmund Odd Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands og fræðist um rannsóknir hans á myndmáli lýðveldisins, gerð íslenska skjaldarmerkisins og áhrif innlendra og erlendra teiknara á þá túlkun myndmáls sem tengt hefur verið sjálfstæðisbaráttunni, lýðveldinu og skjaldarmerki íslenska lýðveldisins. |
02.04.2012 |
Forseti er í viðtali við Fanneyju Frisbæk um samspil hönnunar og matvæla og áhrif slíkrar þróunar á efnahagslíf og ferðaþjónustu. Viðtalið er í framhaldi af samkeppni í vistvænni nýsköpun matar- og drykkjarvara sem Listaháskólinn, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís stóðu að og sýningu nemenda Listaháskólans, EcoTrophelia Iceland. Forseti afhenti verðlaun í lok þeirrar sýningar. |
02.04.2012 |
Forseti ræðir við hóp breskra blaðamanna sem heimsækja Ísland í boði easyJet. Rætt var um fjölþætt tækifæri ferðamanna á Íslandi, einstæða náttúru landsins sem veitir erlendum ferðamönnum tækifæri til að skynja náttúruöflin og fjölbreytileika landslags á nýjan hátt. Þá var einnig rætt um Icesave málið, þjóðaratkvæðagreiðslurnar og endurreisn íslensks efnahagslífs. |
02.04.2012 |
Forseti á fund með Carolyn McCall, forstjóra easyJet, og sendinefnd flugfélagsins sem heimsækir Ísland í tilefni þess að easyJet hefur nú reglulegt flug milli Bretlands og Íslands. Rætt var um tækifæri ferðaþjónustunnar á Íslandi, náttúru, menningu og samfélag, aukinn fjölda ferðamanna á síðari árum og fjölþætta upplifun sem í boði er á Íslandi. easyJet er tíunda stærsta flugfélag í veröldinni með um tvö hundruð flugvélar sem fljúga á 600 flugleiðum til þrjátíu landa. |
03.04.2012 |
Forseti sækir afmælishátíð Þjóðskjalasafns Íslands sem haldin er í tilefni af 130 ára afmæli safnsins. Settur þjóðskjalavörður og starfsmenn kynntu ýmsa þætti starfseminnar, varðveislu gagna sem snerta sögu lands og þjóðar, starfsemi stofnana og réttindi borgara. Þá opnaði mennta- og menningarmálaráðherra nýjan vef safnsins og afhent var skjalasafn Sögufélagsins. Að dagskrá lokinni skoðaði forseti verðmæt og söguleg skjöl sem varðveitt eru í safninu. |
03.04.2012 |
Forseti á fund með Sturlu Jónssyni og Arngrími Pálmasyni þar sem þeir greindu frá baráttu sinni og annarra borgara við að ná fram rétti sínum gagnvart fjármálastofunum og uppboðsaðilum, einkum í ljósi lagaákvæða um lánasamninga og afsöl. |
12.04.2012 |
Forseti flytur ávarp í upphafi heimsmeistaramóts í íshokkí sem fram fer í Skautahöllinni í Laugardal. Liðin sem mynda þann riðil sem keppt er í á Íslandi eru frá Íslandi, Nýja Sjálandi, Króatíu, Serbíu, Eistlandi og Spáni. Í ávarpi sínu minntist forseti m.a. á hina frækilegu framgöngu Fálkanna, liðsins sem Vesturíslendingar mynduðu í Winnipeg á öðrum áratug síðustu aldar en það lið vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum 1920. Ánægjulegt væri í ljósi þessarar sögu hve íshokkííþróttin hefði eflst hér á landi á síðustu árum. |
12.04.2012 |
Forseti afhendir Útflutningsverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þau hlaut að þessu sinni fyrirtækið Trefjar í Hafnarfirði sem flutt hefur út sérstaka gerð fiskibáta og annarra báta til margra landa. Sérstaka viðurkenningu hlaut Ragnar Axelsson, RAX ljósmyndari, sem einstaklingur sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð. Við athöfnina fluttu forseti og Friðrik Pálsson, formaður stjórnar Íslandsstofu, ávörp. |
13.04.2012 |
Forseti flytur erindi i málstofu sem menntastofnunin Keilir á Vallarsvæðinu efndi til. Í erindinu lýsti forseti áhrifum af ferð til Suðurskautslandsins þar sem áhrifaríkir vísindamenn sem stundað hafa rannsóknir á svæðinu í áratugi lýstu breytingum á meginlandsjöklum Suðurskautslandsins. Einnig flutti Sigurður Eyberg fyrirlestur á vegum Climate Reality Project sem Al Gore fyrrum varaforseti Bandaríkjanna veitir forystu. Nemendur Keilis og annað áhugafólk á Suðurnesjum sótti málþingið. Að erindunum loknum svaraði forseti fyrirspurnum. |
13.04.2012 |
Forseti flytur ávarp í upphafi Seed Forum ráðstefnunnar. Þar fer fram kynning á nýsköpun og ýmsum sprotafyrirtækjum og umfjöllun um margvíslegan stuðning við þá sem vilja þróa nýjar hugmyndir og tækni. Í ávarpi sínu rakti forseti fjölmörg dæmi um vöxt íslenskra nýsköpunarfyrirtækja og þá lærdóma sem draga má af ferli þeirra. Nýsköpun væri nú þegar helsti drifkrafturinn í hagkerfi 21. aldarinnar og samkeppnishæfni þjóða myndi ráðast einkum af því hve vel væri að henni búið. Vefsíða sprotaþingsins. |
14.04.2012 |
Forseti er heiðursgestur á Íslandsglímunni og Sveitaglímu Íslands yngri en 16 ára og grunnskólamóti Íslands sem fram fara í íþróttahúsinu á Ísafirði. Glímusamband Íslands og knattspyrnufélagið Hörður á Ísafirði standa fyrir mótinu. Um er að ræða fjölmennasta glímumót ungs fólks sem fram hefur farið. Á Íslandsglímunni er að venju keppt um Grettisbeltið og Freyjumenið. Forseti situr svo hátíðarkvöldverð sem haldinn er í húsakynnum Menntaskólans á Ísafirði. |
15.04.2012 |
Forseti afhendir Ásgeirsbikarinn fyrir mesta afrekið á Íslandsmeistaramótinu í sundi sem fram fór um helgina. Bikarinn var gefinn í minningu um Ásgeir Ásgeirsson forseta Íslands en hann var mikill stuðningsmaður sundíþróttarinnar. Að þessu sinni hlaut Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Sundfélaginu Ægi bikarinn en hún hefur sett nokkur Íslandsmet og vann sér inn rétt til þátttöku í Ólympíuleikunum. Mörg Íslandsmet féllu á Íslandsmeistaramótinu og sýndi það mikinn árangur af starfi Sundsambandsins a´undanförnum árum. |
16.04.2012 |
Forseti á fund með stjórnendum Icelandair um vaxandi samvinnu í ferðamálum á Norðurslóðum, m.a. í kjölfar viðræðna forseta við vararíkisstjóra Alaska, Mead Treadwell, og funda með Sven-Olof Lindblad, stjórnanda Lindblad Excursions, en það fyrirtæki sérhæfir sig í náttúruskoðun víða um heim. Einnig var fjallað um kosti Íslands sem fundarstaðar og ráðstefnulands í kjölfar samvinnu forseta við Andrew Zolli sem efnir til PopTech! ráðstefnunnar á Íslandi í lok júní. |
16.04.2012 |
Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, stjórnanda Orka Energy, um jarðhitaverkefni í Kína og öðrum löndum Asíu, samvinnu við Sinopec, eitt stærsta orkufyrirtæki heims sem jafnframt er í forystu í orkumálum Kína. Tækniþekking og reynsla Íslendinga í nýtingu jarðhita er forsenda slíkrar samvinnu en gríðarleg áform eru í mörgum löndum Asíu um framkvæmdir á þessu sviði. |
16.04.2012 |
Forseti ræðir við blaðamann frá portúgalska tímaritinu Expresso um reynslu Íslendinga af bankahruninu og hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, togstreituna milli hagsmuna fjármálamarkaðar og lýðræðislegs vilja almennings, Icesave deiluna og forsendur fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. |
19.04.2012 |
Forseti sækir afmælishátíð Verkfræðingafélags Íslands þar sem heiðraðir voru frumkvöðlar og forystumenn á sviði tækni, verkfræði og vísinda. Í lok hátíðarinnar flutti forseti ávarp og þakkaði verkfræðingum fyrir framlag þeirra til að þróa og treysta nútíma samfélag á Íslandi. Jafnframt áréttaði forseti að þeir frumkvöðlar og forystumenn sem heiðraðir hefðu verið á samkomunni og þau fyrirtæki sem þeir hafa ýtt úr vör og eflt ættu að auka með þjóðinni bjartsýni um tækifæri á komandi árum. |
19.04.2012 |
Forseti sækir hátíð í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands, Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi þar sem afhent voru verðlaun fyrir forystu og frumkvæði í garðyrkju. Auk þess afhenti forseti Grunnskólanum í Hveragerði Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar. |
19.04.2012 |
Forseti sækir skátamessu í Hallgrímskirkju sumardaginn fyrsta. |
20.04.2012 |
Forseti á fund með forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, og fjölmennri sendinefnd sem heimsækir Ísland. Í henni eru m.a. ráðherrar utanríkismála, auðlinda, landnýtingar, viðskipta og fleiri ráðuneyta. Forseti Íslands fagnaði komu Wen Jiabao til Íslands en hann væri fyrsti forsætisráðherra Kína sem heimsækti landið. Forseti þakkaði Wen Jiabao fyrir eindreginn stuðning við samvinnu Íslands og Kína en forseti hefur á undanförnum árum átt þrjá fundi með forsætisráðherranum auk funda með forseta Kína, Hu Jintao. Samvinna landanna hefði vaxið mjög og væri dæmi um hvernig stórar þjóðir og smáar gætu unnið saman á farsælan hátt.
Forseti ræddi síðan ítarlega þá öflugu jarðhitasamvinnu sem ákveðin hefði verið milli kínverska fyrirtækisins Sinopec, eins stærsta fyrirtækis heims, og fyrirtækisins Orka Energy um stórfelldar hitaveituframkvæmdir í Kína. Þar yrði byggt á íslenskri reynslu, tækni og þekkingu. Forsætisráðherra Kína lýsti yfir eindregnum stuðningi við þessa samvinnu og vænti mikils af henni. Einnig áréttaði hann nauðsyn samvinnu á sviði rannsókna og tækni við nýtingu jarðhita. Forseti benti á að með hitaveitum í kínverskum borgum yrði hægt að draga til muna úr mengun. Auk þess nýttist jarðhiti til ræktunar matvæla, þróunar heilsulinda og þurrkunar matvæla eins og Íslendingar hefðu gert varðandi þorskhausa og annan fiskúrgang. Með þurrkun matvæla væri hægt að auka fæðuöryggi í Kína á komandi áratugum sem og margra annarra landa í veröldinni. Forsætisráðherra Kína taldi þessa hugmynd mjög athyglisverða.
Þá nefndi forseti ýmis svið tækniþekkingar sem þróuð hefðu verið á Íslandi og gætu nýst í Kína. Nefndi hann sem dæmi hina nýju verksmiðja Carbon Recycling í Svartsengi og orkustýringarkerfi fyrir skip sem Marorka hefur þróað. Þá vakti forseti athygli á áhuga Flugakademíunnar hjá Keili á að þjálfa kínverska flugmenn enda hin breytilegu veðurskilyrði á Íslandi hentug til slíkrar þjálfunar. Þá væri einnig ánægjulegt að kínverskir rafbílar, bæði einkabílar og hópferðabílar, gætu á komandi árum gert bæði umferð og ferðaþjónustu á Íslandi mun umhverfisvænni. Gaman yrði að aka hinum mikla fjölda kínverska ferðamanna, sem vonandi kæmi til Íslands á næstu árum, í rafmagnsrútum sem framleiddar væru í Kína.
Á fundinum var rætt ítarlega um Norðurslóðir. Forsætisráðherrann ítrekaði áhuga Kínverja á að öðlast áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þakkaði íslenskum stjórnvöldum stuðning við þá ósk. Mikilvægt væri fyrir Kína að fylgjast með þróun mála á Norðurslóðum. Stefnt væri að því að kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn myndi senn sigla frá Kína yfir Norðurskautið til Íslands. Forseti minnti á rannsóknarþingið um "Þriðja pólinn" sem haldið var á Íslandi á síðastliðnu ári en þar komu saman íslenskir og kínverskir jöklafræðingar og náttúruvísindamenn sem og vísindamenn frá öðrum löndum Himalajasvæðisins. Mikilvægt væri að stunda rannsóknir á öllum jöklasvæðum heims. Fjallaði forsætisráðherrann um mikilvægi jöklanna á Himalajasvæðinu fyrir vatnsbúskap Kínverja enda ættu stærstu ár landsins þar upptök sín.
Þá fagnaði forseti því sérstaklega að Wen Jiabao myndi á morgun heimsækja Þingvelli þar sem Alþingi Íslendinga hefði verið stofnað fyrir rúmum þúsund árum. Þingvellir væru helgur staður í augum Íslendinga, vagga lýðræðis, laga og réttar. Gat forseti þess að fyrir nokkrum árum hefði rektor kínversks háskóla nefnt á fundi á Bessastöðum hugsanlega samvinnu við íslenska fræðasamfélagið um rannsóknir á þróun mannréttinda. Hvatti forseti til þess að komið væri á samvinnu og samræðum milli íslenskra fræðimanna sem og félagssamtaka og áhugasamtaka við kínverska aðila enda mannréttindi grundvöllur æskilegrar þjóðfélagsþróunar. Forsætisráðherra Kína lýsti því yfir að kínversk stjórnvöld væru reiðubúin að stuðla að slíkri samvinnu og samræðum við Íslendinga um mannréttindi. Sagan sýndi að mikilvægt væri að efnahagsleg þróun og þróun mannréttinda héldust í hendur. Forseti ítrekaði að í hugum Íslendinga væru mannréttindi lykilatriði í samskiptum þjóða og þróun þeirra á Íslandi gæti á ýmsan hátt verið lærdómsrík í slíkri samræðu við kínverska aðila. Þegar skólinn var á Bessastöðum fyrir tæpum tveimur öldum hefðu Íslendingar verið án allra mannréttinda í nútíma skilningi en þjóðinni hefði tekist að þróa þau stig af stigi. Það væri reynsla sem við gjarnan vildum deila með Kína. Þakkaði forseti Wen Jiabao fyrir frumkvæði hans að umbótum í Kína og óskaði honum og samstarfsmönnum hans góðs gengis í þeim efnum.
Forsætisráðherra Kína flutti forseta kveðjur frá forseta Kína Hu Jintao og þakkaði forseta Íslands fyrir að hafa í forsetatíð sinni stuðlað á margvíslegan hátt að aukinni samvinnu milli Íslands og Kína. Slík viðleitni væri mikils metin og sú vinátta sem í því væri fólgin. Heimsóknin nú væri staðfesting á þessu starfi.
Á fundinum áréttaði forsætisráðherra Kína áhuga Kínverja á fjárfestingum á Íslandi og margvíslegri samvinnu á sviði efnahagsmála og viðskipta. Kína vildi gera fríverslunarsamning við Ísland og yrði Ísland þá fyrsta landið í Evrópu í beinu fríverslunarsambandi við Kína. Myndir.
|
20.04.2012 |
Forseti á fund með alþjóðaforseta Lions, Wing-Kun Tam, sem heimsækir Ísland ásamt sendinefnd í tilefni af 60 ára afmæli Lionshreyfingarinnar á Íslandi. Hann er fyrsti alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar sem kemur frá Kína en á undanförnum árum hafa verið stofnaðir um 500 Lionsklúbbar í Kína. Rætt var um árangur af starfi Lions á Íslandi, framlag hreyfingarinnar til margvíslegra velferðarmála sem og öflugt starf hennar í mörgum byggðarlögum. Þá greindi alþjóðaforsetinn frá framlagi hreyfingarinnar til baráttu gegn loftslagsbreytingum með því að gróðursetja nokkrar milljónir trjáa víða um heim. Þátttaka Lions í baráttunni gegn blindu og augnsjúkdómum sem og nýleg barátta gegn mislingum í þróunarlöndum hefur einnig sett svip á starf hreyfingarinnar. Á fundinum var einnig fjölmennur hópur forystumanna Lionshreyfingarinnar á Íslandi. |
20.04.2012 |
Forseti tekur upp ávarp sem flutt verður á Heimsþingi matreiðslumanna sem haldið verður í Kóreu í byrjun næsta mánaðar. Heimssamtökin telja um tíu milljónir matreiðslumanna í rúmlega 90 löndum og hefur Gissur Guðmundsson verið forseti þeirra undanfarin ár. Ávarpið verður flutt í tengslum við umræður um fæðuöryggi, "How to feed the planet?" Auk forseta munu Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, forseti Slóveníu, Danilo Türk, og tónlistarmaðurinn Bono flytja ávörp í upphafi umræðnanna. Ávörpin verða flutt í vídeóformi. Ávarp forseta |
20.04.2012 |
Forseti á fund með stjórnarformanni Sinopec, Fu Chengyu, og fjölmennri sendinefnd sem heimsækir Ísland í tengslum við komu Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. Orka Energy og Sinopec hafa samið um gríðarlegar hitaveituframkvæmdir í Kína, sem m.a. felur í sér stærstu hitaveitur heims. Þessi samvinna hefur verið á dagskrá í viðræðum forseta við ráðamenn Kína, allt frá heimsókn Jiang Zemin, þáverandi forseta Kína til Íslands, og á mörgum fundum forseta með Hu Jintao, forseta Kína, og Wen Jiabao forsætisráðherra. Á fundinum var fjallað um samstarf á sviði rannsókna og þróunar, tækni og vísinda, til að efla og breikka nýtingu jarðhita á komandi árum. Slíkar rannsóknir yrðu bæði á Íslandi og í Kína. Þá var fjallað um fjölþætta nýtingu jarðhita: til húshitunar, raforkuframleiðslu, ylræktar, heilsulinda, sundlauga, þurrkunar matvæla og fleiri þátta. Stjórnarformaður Sinopec lýsti því yfir að fyrirtækið, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum heims, hefði ákveðið að gera samvinnu við Ísland, Orka Energy og vísinda- og tæknisamfélagið á Íslandi, að forgangsmáli í orkustefnu fyrirtækisins á komandi árum og áratugum. |
21.04.2012 |
Forseti sækir hátíðarkvöldverð Lions í tilefni af 60 ára afmæli hreyfingarinnar á Íslandi. Kvöldverðurinn var haldinn að loknu afmælisþingi samtakanna. Í ávarpi þakkaði forseti Lionshreyfingunni fyrir viðamikið framlag hennar til íslensks samfélags, velferðar og mannlífs í byggðum landsins. Fulltrúar hreyfingarinnar hefðu líka borið víða hróður Íslands í hinni öflugu samvinnu sem Lionsfélagar um heim allan hafa staðið fyrir á undanförnum áratugum. Einnig flutti ávarp Wing-Kun Tam, heimsforseti Lionshreyfingarinnar. |
21.04.2012 |
Forseti flytur ávarp í upphafi málþings sem haldið er til heiðurs Þráni Eggertssyni, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands. Málþingið bar heitið Economic Behaviour and Institutions Revisited. Sjö vísindamenn við bandaríska og evrópska háskóla, sem verið hafa í forystu á þessu sviði hagfræðinnar, fluttu erindi á málþinginu. Málþingið var haldið af Hagfræðideild og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ávarp forseta. |
24.04.2012 |
Forseti tekur þátt í sjávarútvegssýningu í Brussel. Þar kynna um 30 íslensk fyrirtæki, ásamt forystumönnum í sjávarútvegi, árangur og reynslu þjóðarinnar í veiðum, vinnslu og tækniþróun. Sýningin er einn helsti vettvangur sjávarútvegs í Evrópu. Fréttatilkynning. Myndir. Ræða forseta. |
26.04.2012 |
Forseti á fund með Manuel Hinds, fyrrum fjármálaráðherra El Salvador og aðalráðgjafa forseta landsins er El Salvador tók einhliða upp bandaríkjadollar sem gjaldmiðil landsins. Sú ákvörðun var tekin fyrir rúmum áratug og hefur að dómi Hinds treyst efnahagskerfi landsins í sessi og bætt lífskjör alls almennings. Lýsti hann meðal annars óformlegum viðræðum við stjórnvöld í Bandaríkjunum áður en ákvörðunin var tekin. Einnig áréttaði hann nauðsyn þess að lífskjör almennings og ævisparnaður venjulegs fólks væri tryggður með gjaldmiðli sem héldi gildi sínu þrátt fyrir áföll og sveiflur í hagkerfinu. Manuel Hinds hefur skrifað bækur um þessa reynslu sem hlotið hafa lof forystumanna og sérfræðinga í efnahagsmálum og hagsögu, eins og t.d. Lawrence Summers, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Niall Ferguson, prófessors við Harvard háskóla sem er höfundur heimsþekktra bóka um þróun peningakerfa og alþjóðlega hagþróun. Hinds heimsækir Ísland í boði VÍB. |
26.04.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Víetnams á Íslandi, Vu Van Luu, sem flutti forseta boð forseta Víetnams og stjórnvalda um að koma í opinbera heimsókn til landsins til að treysta samvinnu Íslands og Víetnams m.a. á sviði sjávarútvegs, orkumála og annarra viðskipta. Tengsl Íslands og Víetnams væru einnig mikilvæg í ljósi aukinna samskipta Íslands og Kína við Kína og önnur lönd í Asíu. Einnig var vikið að samkomulagi milli Orka Energy og Sinopec, eins stærsta orkufyrirtækis Kína, um stórfelldar jarðhitaframkvæmdir en Haukur Harðarson, stjórnandi Orka Energy, stýrir starfsemi þess í Asíulöndum frá Víetnam. |
27.04.2012 |
Forseti kynnir Donald Miller, prófessor í skipulagsfræði við University of Washington, sem heldur fyrirlestur í röðinni Nýir straumar sem forseti stofnaði til fyrir nokkrum árum. Fyrirlesturinn er auk þess haldinn í boði Landbúnaðarháskóla Íslands, Norræna hússins og Skipulagsfræðingafélags Íslands. Fyrirlesturinn fjallaði einkum um þá lærdóma sem skipulagsyfirvöld í öðrum löndum gætu dregið af tveggja áratuga skipulagsstarfi í Seattle, m.a. hvernig sjálfbærni og lýðræðisleg þátttaka íbúanna verða í auknum mæli grundvöllur borgarskipulags. Fréttatilkynning. |
27.04.2012 |
Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni sem vinnur að rannsóknum hjá Heimskautastofnun Kína í Shanghai. Rannsóknir hans beinast einkum að þróun Norðurslóða og hugsanlegri samvinnu Íslands og Kína og tengslum Kína við önnur ríki Norðurslóða. Rannsóknirnar eru unnar í samvinnu við starfsmenn Heimskautastofnunarinnar og háskóla í Shanghai. |
29.04.2012 |
Forseti tekur á móti hópi athafnamanna frá Bandaríkjunum en þeir eru félagar í Entrepreneur Organization of Boston. Rætt var um nýsköpun í mörgum greinum íslensks atvinnulífs, hvernig nýjungar á sviði upplýsingatækni hafa sprottið upp á Íslandi og fjöldi fyrirtækja sem fyrir um 20 árum voru annaðhvort ekki til eða eingöngu bundin við Ísland láta nú að sér kveða á heimsmarkaði. Einnig var fjallað um nýtingu jarðhita á Íslandi og í Bandaríkjunum og ávinning af samvinnu íslenskra og erlendra frumkvöðla. |
30.04.2012 |
Forseti sækir Hængsmótið á Akureyri en það er nú haldið í þrítugasta sinn. Á þessu íþróttamóti keppa fatlaðir, þroskaheftir og seinfærir íþróttamenn og hefur Lionsklúbburinn Hængur staðið fyrir því frá upphafi en mótið er árlega aðalviðburður í viðamiklu sjálfboðastarfi klúbbsins. Forsetahjónin voru heiðursgestir á mótinu og fylgdust með keppni í íþróttahúsinu, bæði fyrir hádegi og eftir hádegi, og sóttu hátíðarsamkomu um kvöldið. |
Maí
|
01.05.2012 |
Forseti sækir lokakeppni á sundmóti í tilefni af 85 ára afmæli Sundfélagsins Ægis. Mótið var haldið í Laugardalslauginni og á eftir sat forseti afmælisfagnað félagsins í íþróttahúsi Þróttar. |
02.05.2012 |
Forseti á fund með Hallmari Halldórssyni, stjórnanda Íslandsvetnis, um nýja tækni við þróun vetnistanka fyrir bifreiðar og aðra eldsneytisgeyma sem nýst geta í þágu sjálfbærari orkukerfa. |
02.05.2012 |
Forseti á fund með Eiríki Hrafnssyni, stjórnanda GreenQloud, um þróun tölvuskýjafyrirtækja á Íslandi og möguleika þeirra í byltingu upplýsingatækni og alþjóðlegri þróun hennar á komandi árum. Fyrirtækið er nú þegar í samskiptum við þau gagnaver sem stofnuð hafa verið á Íslandi og mikill áhugi er erlendis á þeirri tækni og þeim hugmyndum sem eru í þróun. Vefur GreenQloud. |
02.05.2012 |
Forseti á fund með Birni Zoéga Björnssyni og Heiðdísi Hrafnkelsdóttur um skuldavanda, samskipti við lífeyrissjóð og hve erfiðlega gengur hjá fólki, sem vill standa við sitt, að fá þannig úrlausn sinna mála að því sé það kleift; finna þurfi jafnvægi milli hagsmuna almennings og stöðu lánastofnana. |
02.05.2012 |
Forseti á fund með Albert Wium Sigurðssyni og Steinari Sörenssyni um greiðslur sanngirnisbóta til þeirra sem urðu fyrir misgerðum sem höfðu varanlegar andlegar og líkamlegar afleiðingar á upptöku- og meðferðarheimilum á fyrri tíð. Lýstu þeir framgangi máls Alberts og hve langan tíma hefur tekið að fá endanlega niðurstöðu; einnig greindu þeir frá samskiptum við tengilið vegna vistheimila, sýslumann og úrskurðarnefnd. |
04.05.2012 |
Forseti tekur á móti hópi sænskra stjórnenda í atvinnu- og fjármálalífi sem heimsækja Ísland til að kynna sér nýtingu hreinnar orku, glímuna við afleiðingar fjármálakreppunnar og þau tækifæri sem felast í íslenskri náttúru. |
04.05.2012 |
Forseti á fund með Baldri Ágústssyni um stjórnarskrá lýðveldisins og tillögur um breytingar á henni, þróun þjóðmála og mikilvægar ákvarðanir sem blasa við þjóðinni í náinni framtíð. |
04.05.2012 |
Forseti tekur á móti hópi nemenda í Landnemaskólanum en hann er ætlaður erlendum ríkisborgurum, sem dvelja á Íslandi, til að kynna þeim sögu, menningu og þjóðfélagshætti. |
06.05.2012 |
Forseti skoðar sýninguna Handverk og hönnun sem haldin er í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem fjöldi hönnuða og handverksmanna víða að af landinu sýna verk sín. |
07.05.2012 |
Forseti sendir François Hollande, nýkjörnum forseta Frakklands, heillaóskir og kveðjur frá íslensku þjóðinni í tilefni af sögulegum sigri. Í kveðjunni áréttaði forseti að samvinna Íslendinga og Frakka ætti sér djúpar sögulegar rætur; frönsk menning, listir og vísindi hefði haft ríkuleg áhrif á íslenskan samtíma. Á vettvangi Evrópu og Atlantshafsbandalagsins hefðu löndin lengi átt farsælt samstarf og fjölmörg brýn verkefni blöstu við, svo sem á sviði loftslagsbreytinga og umbyltinga í þágu hreinnar orku. Fréttatilkynning. |
08.05.2012 |
Forseti tekur á móti borgarstjóra Denver, Michael B. Hancock, og fleiri embættismönnum borgarinnar ásamt stjórnendum Icelandair. Borgarstjórinn heimsækir Ísland í tilefni af nýrri áætlunarleið Icelandair til Denver. Í ávarpi fagnaði forseti gríðarlegri fjölgun bandarískra ferðamanna og að æ fleiri bein flug væru nú milli Íslands og Bandaríkjanna. Þá var rætt um hliðstæður Íslands og Coloradoríkis, fjöllin, náttúruna og skíðasvæðin ásamt áherslu bæði Denver og Colorado á aukna nýtingu hreinnar orku. Myndir. |
08.05.2012 |
Forseti tekur á móti hópi félaga í Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu og ræðir um sögu Bessastaða, áhrif menningar og náttúru. Fulltrúarnir heimsækja Álftanes í boði Kvenfélags Álftaness |
08.05.2012 |
Forseti á fund með borgarfulltrúum Þórshafnar í Færeyjum þar sem rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Færeyja, breytingar á Norðurslóðum og aukinn áhuga ferðamanna á að heimsækja Ísland, Færeyjar og nágrannalönd. Einnig var rætt um breytingar í sjávarútvegi og hvaða áhrif þróun orkumála með nýjum sæstreng gæti haft á framtíð Íslands og Færeyja. |
09.05.2012 |
Forseti á fund með indversku jöklafræðingunum Vinay Kumar Gaddam og Yogesh Karyakarte sem stunda framhaldsþjálfun við Háskóla Íslands. Fundinn sátu einnig jöklafræðingarnir Helgi Björnsson og Þorsteinn Þorsteinsson sem og Dagfinnur Sveinbjörnsson þróunarhagfræðingur. Þegar forseti tók við Nehruverðlaununum árið 2010 tilkynnti hann að verðlaunafénu yrði varið til að þjálfa unga, indverska jöklafræðinga á Íslandi í því skyni að efla þekkingu og rannsóknir á bráðnun jökla og vatnsbúskap á Himalajasvæðinu. Vinay og Yogesh eru fyrstu þátttakendurnir í þessu verkefni og eru afar ánægðir með þá þjálfun og fræðslu sem þeir hafa hlotið við Háskóla Íslands. |
09.05.2012 |
Í dag verður sendur út í Bandaríkjunum sjónvarpsþáttur Mörthu Stewart þar sem Dorrit Moussaieff forsetafrú stendur fyrir margvíslegri Íslandskynningu. Fjallað er um ferðaþjónustu, hönnun, hollustu, íslenska hestinn og mat, m.a. þorskalifur, fisk og íslenskt súkkulaði. Þættirnir, sem eru afar vinsælir í Bandaríkjunum, eru einnig sýndir í yfir 50 löndum. Myndir. Fréttatilkynning. |
11.05.2012 |
Forseti sækir afmælistónleika í Hörpu í tilefni af 80 ára afmæli verkfræðistofunnar Verkís. |
11.05.2012 |
Forseti tók í gærkvöldi við heiðursverðlaunum evrópskra borga fyrir baráttu sína gegn fíkniefnum og forystu í forvarnarmálum, bæði á Íslandi og á evrópskum vettvangi. Mynd. Fréttatilkynning. |
12.05.2012 |
Forseti á fund með framkvæmdastjóra IRENA, Alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orku, Adnan Amin, sem heimsækir Ísland til að kynna sér nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita. Forsetinn hefur nokkrum sinnum átt fund með Amin í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Abu Dhabi og hvatt hann til að heimsækja Ísland enda megi marga lærdóma draga af þróun orkunýtingar á Íslandi, sérstaklega fyrir þróunarlönd. Á fundinum var rætt um enn frekari samvinnu íslenskra sérfræðinga, stofnana og fyrirtækja við IRENA og verkefni víða um heim. Einnig kynnti forseti Amin greinargerð um nýtingu jarðvarma til að þurrka sjávarafurðir. Mynd. |
15.05.2012 |
Forseti flytur ávarp og afhendir verðlaun þegar Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni, LBVRN, veittu nemendum fjögurra skóla verðlaun fyrir bestu lausnir verkefnisins "Heimabyggðin mín, nýsköpun, heilbrigði og forvarnir". Grunnskóli Vesturbyggðar, Patreksskóli; Reykhólaskóli; Grunnskólinn á Raufarhöfn og Lækjarskóli í Hafnarfirði hlutu verðlaunin. |
15.05.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Kósóvó, hr. Lulzim Peci, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Hann er fyrsti sendiherra Kósóvó á Íslandi og var á fundinum rætt um þróun mála þar í landi og tækifæri til samvinnu á ýmsum sviðum, m.a. varðandi nýtingu jarðhita og menningartengsl. |
16.05.2012 |
Forseti og forsetafrú héldu í morgun í opinbera heimsókn til Tékklands. Forseti mun þar m.a. eiga fundi með Václav Klaus, forseta Tékklands, Petr Nečas forsætisráðherra og fleiri ráðamönnum auk þess sem hann sækir ferðamálakynningu sem Íslandsstofa stendur að í Prag. Í sendinefnd Íslands verða einnig Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, embættismenn frá utanríkisráðuneyti og skrifstofu forseta og fulltrúar fræða og menningar. Fréttatilkynning |
17.05.2012 |
Forseti Íslands heldur ræðu í hátíðarkvöldverði í opinberri heimsókn forsetahjóna til Tékklands. Ræða forseta. |
17.05.2012 |
Forseti á fund með forseta Tékklands Václav Klaus um þróun mála í Evrópu, afleiðingar fjármálakreppunnar fyrir efnahagslíf álfunnar og hvort stöðugleiki kunni að skapast á evrusvæðinu. Fundurinn, sem haldinn var í Pragkastala, var upphaf opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Tékklands. Fréttatilkynning. Myndir. |
18.05.2012 |
Forseti flytur fyrirlestur við Karlsháskólann í Prag, einni af elstu menntastofnunum Evrópu. Fyrirlesturinn fjallaði um hólmgöngu lýðræðis og fjármálamarkaða, togstreituna milli vilja fólksins og hagsmuna fjármálastofnana sem verið hefði kjarninn í glímunni við afleiðingar bankakreppunnar, bæði á Íslandi og víðar í Evrópu. Fréttatilkynning. Myndir. Ræða forseta. |
21.05.2012 |
Dorrit Moussaieff forsetafrú hélt áleiðis til Svíþjóðar í dag til að sækja skírn prinsessunnar Estelle, dóttur Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins, í boði sænsku konungshjónanna. Fréttatilkynning. |
23.05.2012 |
Forseti sækir móttöku sem herra Karl Sigurbjörnsson biskup heldur í Biskupsgarði fyrir forystumenn þeirra trúfélaga sem starfa á Íslandi. Samstarfsvettvangur þeirra hefur skilað góðum árangri og auknum skilningi á undanförnum árum. |
24.05.2012 |
Forseti ræðir við fulltrúa frá Noregi, Kanada, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi um samstarf fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Samstarf þeirra innan svonefndra klasa hefur verið að eflast á undanförnum árum. Árangur fiskveiðiþjóða í Norður-Atlantshafi er merkilegur sem og hvernig fjölmörg tæknifyrirtæki og hugbúnaðarfyrirtæki hafa eflst í nábýli við sjávarútveg. |
24.05.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Póllands Wojciech L. Kolańczyk sem senn lætur af störfum. Rætt var um farsæla samvinnu landanna, framlag íbúa af pólskum uppruna til íslensks samfélags og þann árangur sem Pólland hefur náð á sviði efnahagsmála. |
25.05.2012 |
Forseti tekur á móti athafnamönnum frá Suður-Kóreu sem heimsækja Ísland og Grænland og kanna möguleika á þróun Norðurslóða. Í hópnum eru stjórnendur sumra helstu fyrirtækja Suður-Kóreu. |
26.05.2012 |
Forseti tekur á móti stjórnendum og þátttakendum í Listahátíð en fjölmargir viðburðir setja svip á hana þessa dagana. |
27.05.2012 |
Forseti sækir tvenna tónleika á Listahátíð, ljóðatónleika Christoph Prégardien og tónleika Brian Ferry og hljómsveitar hans. Báðir tónleikarnir voru í Hörpu. |
28.05.2012 |
Forseti afhendir indversku jöklafræðingunum Yogesh Balwantrao Karyakarte og Vinay Kumar Gaddam viðurkenningu fyrir árangur þeirra í námi og þjálfun. Þeir hafa dvalið á Íslandi undanfarna mánuði og er þjálfun þeirra samvinnuverkefni forsetaembættisins, Háskóla Íslands og Indversku vísindastofnunarinnar. Dvöl þeirra byggist á Nehruverðlaununum sem forseti hlaut 2010. |
29.05.2012 |
Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegri ráðstefnu um nýsköpun og sprotafyrirtæki sem hefst í Keili á morgun. Verkefni ráðstefnunnar er að fjalla um umhverfi nýsköpunar og hvernig hægt er að stuðla að vexti sprotafyrirtækja og efla árangur þeirra. |
29.05.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Indlands á Íslandi, hr. Ashok Das, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um verulega aukningu samstarfs landanna síðan sendiráðið var opnað fyrir þremur árum, verkefni á sviði tækni, vísinda, orku, ferðaþjónustu og kvikmyndagerðar. Einnig var rætt um samstarf landanna á Himalajasvæðinu varðandi rannsóknir á bráðnun jökla og áhrif hennar á vatnsbúskap fjölmennustu ríkja jarðar, Indland, Kína og fleiri ríki í Asíu. Á eftir var móttaka fyrir fulltrúa stofnana, samtaka og fyrirtækja sem átt hafa samskipti við Indland. |
29.05.2012 |
Forseti á fund með Carl Hahn, fyrrum forstjóra Volkswagen og forystumanni í þýsku atvinnulífi, um eflingu jarðhitanýtingar í krafti íslenskrar tækni, áhrif Kína á hagkerfi heimsins, einkum Evrópu, á komandi árum og áratugum sem og horfurnar í málefnum Evrópusambandsins og Þýskalands. |
29.05.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Filippseyja, hr. Bayani S. Mercado, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um samstarf landanna á sviði jarðhita, m.a. til þurrkunar á matvælum. Einnig var fjallað um framlag filippeyska samfélagsins á Íslandi til aukinnar fjölbreytni í landinu með þátttöku á sviði menningar, atvinnulífs og velferðar. Þá var og rætt um þróun lýðræðis og stjórnmála á Filippseyjum og hið brýna verkefni að koma í veg fyrir vaxandi fólksfjölgun. |
29.05.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Pakistans, hr. Syed Ishtiaq Hussain Andrabi, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um rannsóknir á jöklum og vatnabúskap á Himalajasvæðinu og hugsanlegt samstarf um nýtingu jarðhita í Pakistan, m.a. til að þurrka matvæli og stuðla þannig að auknu fæðuöryggi. |
30.05.2012 |
Forseti flytur ávarp við setningu alþjóðlegu ráðstefnunnar Startup Iceland sem haldin er í Keili. Þátttakendur eru frumkvöðlar og stjórnendur fyrirtækja, aðallega á sviði upplýsingatækni. Í ávarpinu rakti forseti ýmsa kosti Íslands sem þjónustumiðstöðvar á sviði nýsköpunar og í samstarfi frumkvöðla. |
31.05.2012 |
Forseti afhendir heiðursviðurkenningar JC hreyfingarinnar til ungra Íslendinga sem skarað hafa fram úr á ýmsum sviðum. |
Júní
|
01.06.2012 |
Forseti er viðstaddur skólaslit Menntaskólans í Reykjavík og flytur ávarp fyrir hönd 50 ára stúdenta. Ávarp forseta. |
02.06.2012 |
Forseti tekur á móti rektor Menntaskólans í Reykjavík, fyrrverandi kennurum og 50 ára stúdentum og sækir síðan fagnað nemendasambands skólans á Hótel Sögu þar sem fjöldi nýstúdenta var á meðal gesta. |
03.06.2012 |
Forseti sækir messu á sjómannadaginn í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem minnst var látinna sjómanna |
08.06.2012 |
Forseti flytur ávarp við setningu Landsmóts 50+ sem UMFÍ heldur í Mosfellsbæ. Þetta er annað landsmót sinnar tegundar og er tilgangur þess að efla íþróttir og heilbrigt líf eldri aldursflokka. Í ávarpinu þakkaði forseti UMFÍ fyrir forystu þess í íþróttum og ungmennastarfi. Nú væri nýr þáttur að bætast við hin fjölþættu verkefni hreyfingarinnar. Nefndi hann einnig kynni sín af héraðsmótum vestur á fjörðum og af ýmsum forystumönnum ungmennahreyfingarinnar. |
08.06.2012 |
Forseti á fund með sendinefnd frá Google sem heimsækir Ísland í boði hans. Tilgangur ferðarinnar er að kanna grundvöll að samstarfi sem tryggt getur ábyrgara eftirlit með veiðum á höfum heims og hvernig upplýsingatækni og reynsla Íslendinga getur nýst í þessum efnum. Sendinefndin átti viðræður við fyrirtæki á sviði upplýsingatækni og í sjávarútvegi, Siglingamálastofnun, Hafrannsóknastofnun, Vaktstöð siglinga og fleiri aðila. Niðurstaða heimsóknarinnar var að vinna grundvöll að áætlun um slíkt samstarf á næstu mánuðum og misserum. |
09.06.2012 |
Forseti tekur á móti fulltrúum á þingi norrænna kvenfélaga sem haldið er á Íslandi í boði Kvenfélagasambands Íslands. Í ávarpi minntist forseti á Theodóru Thoroddsen og baráttu hennar og Skúla þegar þau sátu á Bessastöðum fyrir réttindum kvenna og þátttöku þeirra í stjórnmálum og félagsstörfum. |
09.06.2012 |
Að lokinni háskólahátíð Háskólans á Akureyri afhendir forseti styrki úr háskólasjóði KEA og flytur stutt ávarp. |
09.06.2012 |
Forseti er viðstaddur hátíð Háskólans á Akureyri þegar brautskráðir eru stúdentar frá öllum fræðasviðum skólans. |
12.06.2012 |
Forseti tekur við fyrsta eintaki sögu handknattleiks á Íslandi á árunum 1920-2010 á Bessastöðum. Verkið er tvö veigamikil bindi og höfundur þess, Steinar J. Lúðvíksson, flutti ávarp við þetta tækifæri. Það gerði einnig Júlíus Hafstein, heiðursforseti HSÍ, en fyrrverandi formenn HSÍ hafa haft forgöngu um ritun sögunnar. Í ávarpi sagði forseti að saga handknattleiksins væri einnig þjóðarsaga því engin íþrótt hefði náð að sameina þjóðina jafn vel. Sigur landsliðsins á Ólympíuleikunum hefði einnig verið viðburður í sögu leikanna því aldrei fyrr hefði fámenn þjóð unnið til verðlauna í liðsíþrótt. Vefsíða HSÍ. |
16.06.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Póllands, hr. Stefan Czmur, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt um þá vináttu og stuðning sem Pólland sýndi Íslendingum í kjölfar bankahrunsins, mikilvægt framlag Pólverja sem búsettir eru á Íslandi til atvinnulífs, menningar og mannlífs í fjölda byggðarlaga. Þá var einnig rætt um efnahagslíf í Póllandi og horfurnar í þróun Evrópusambandsins. Mynd |
16.06.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Tékklands, hr. Lubos Nový, sem senn lætur af störfum. Rætt var um góðan árangur að nýlegri opinberri heimsókn forseta Íslands til Tékklands, trausta vináttu landanna, ríkan áhuga á fjölgun tékkneskra ferðamanna enda voru mörg íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu með í heimsókninni. Einnig var fjallað um að auka samskipti á sviði menningar og lista, m.a. með útgáfu tékknesk-íslenskrar orðabókar. |
16.06.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Lettlands, hr. Andris Sekacis, sem senn lætur af störfum. Rætt var um baráttuna við afleiðingar fjármálakreppunnar, samskipti Eystrasaltsríkja og Norðurlanda og stöðuna í Evrópusambandinu. |
16.06.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Eistlands, hr. Arti Hilpus, sem senn lætur af störfum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna, árangur af opinberri heimsókn forseta Eistlands til Íslands og þátttöku forseta Íslands í hátíðarhöldum í tilefni af sjálfstæði landsins. |
17.06.2012 |
Forseti tekur á móti fjölmennri sveit sendiherra erlendra ríkja sem komið hafa til landsins til að taka þátt í hátíðarhöldunum 17. júní. Einnig voru viðstaddir þeir sendiherrar sem búsettir eru á Íslandi. Í kjölfar ávarps forseta flutti sendiherra Bretlands Ian Whitting ávarp fyrir hönd sendiherra. |
17.06.2012 |
Forseti sæmir ellefu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Mynd. Fréttatilkynning. |
17.06.2012 |
Forseti sækir guðsþjónustu í Dómkirkjunni, tekur þátt í hátíðarhöldum á Austurvelli og leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að styttu Jóns Sigurðssonar. |
28.06.2012 |
Forseti flytur ávarp við setningu Landsmóts hestamanna í Víðidal. Ávarp |
28.06.2012 |
Forseti flytur ræðu við setningu PopTech ráðstefnunnar sem haldin er í Hörpu. Ráðstefnan fjallar um þrautseigju þjóða í glímu við margvíslegan vanda, bæði efnahagslegan og af völdum náttúrunnar og sækir hana fjöldi erlendra áhrifamanna og fólk úr ýmsum greinum, vísindum, hugbúnaði, listum og hönnun. |
30.06.2012 |
Forseti tekur á móti hópi breskra þingmanna en þeir sinna sérstaklega tengslum við Ísland í breska þinginu. Rætt var um samskipti Breta og Íslendinga, bæði fyrr og á nýliðnum árum. Þingmennirnir voru ötulir málsvarar Íslands í kjölfar bankahrunsins og þakkaði forseti fyrir framlag þeirra. Einnig var rætt um sæstreng milli Íslands og Bretlands sem styrkt gæti orkubúskap Evrópu. Á fundinum var einnig Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. |
Júlí
|
01.07.2012 |
Að loknum kosningum ræðir forseti við fjölmiðla: Sigurjón M. Egilsson í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni, fréttamenn RÚV og Stöðvar 2, og blaðamenn Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og DV. |
02.07.2012 |
Forseti ræðir við Judith Rodin, forstjóra Rockefellerstofnunarinnar um alþjóðlegt samstarf og aðgerðir til að efla nýtingu hreinnar orku, stuðla að verndun úthafanna og styrkja fæðuöryggi, m.a. með nýtingu þurrkunar á matvælum eins og tíðkast hefur í íslenskum sjávarútvegi. Rodin sótti PopTech ráðstefnuna sem haldin var í Hörpu í síðustu viku og flutti þar setningarræðu ásamt forseta. |
04.07.2012 |
Forseti á fund með sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands Darin King sem heimsækir Ísland til að kynna sér skipulag veiða og vinnslu. Rætt var um samstarf landanna á þessu sviði, uppbyggingu byggðarlaga sem byggjast á fiskveiðum og hvernig sjávarútvegur geti verið grundvöllur fyrir þróun hátæknigreina. Fundinn sat einnig sendiherra Kanada á Íslandi Alan Bones og fulltrúar íslenskra aðila með starfsemi í Kanada. |
06.07.2012 |
Forseti á fund með Andrew Zolli, stofnanda og stjórnanda PopTech, um árangur ráðstefnunnar sem haldin var í Hörpu í lok síðasta mánaðar. Einnig var rætt um hvernig Ísland geti í auknum mæli orðið vettvangur fyrir umræður og samskipti þeirra sem vinna að nýsköpun, upplýsingatækni eða hönnun og vilja á einhvern hátt leggja grunn að farsælli framtíð. Aðstandendur PopTech hafa ríkan áhuga á að halda fleiri ráðstefnur á Íslandi og efna hér til margvíslegra atburða. |
08.07.2012 |
Forseti er viðstaddur leik Íslands og Ungverjalands í handbolta á Ólympíuleikunum í London. |
08.07.2012 |
Forseti ræðir við Karl Th. Birgisson sem hefur unnið að bók um forsetakosningarnar. Fjallað var um aðdraganda kosninganna og ýmsa lærdóma sem draga má af úrslitunum. Karl skrifaði einnig bók um forsetakosningarnar 1996. |
08.07.2012 |
Forseti afhendir Íslensku safnaverðlaunin við hátíðlega athöfn sem hefst á Bessastöðum í dag kl. 14:00 en í dag er íslenski safnadagurinn. Í ár eru Byggðasafn Suður-Þingeyinga, Listasafn Einars Jónssonar og Þjóðminjasafn Íslands tilnefnd til verðlaunanna. Verðlaunin hlaut Byggðasafn Suður-Þingeyinga fyrir grunnsýninguna Mannlíf og náttúra - 100 ár í Þingeyjarsýslum. Greinargerð. Fréttatilkynning. |
09.07.2012 |
Forseti á fund með Swaminathan, fyrrum sendiherra Indlands á Íslandi, um tækifæri á sviði nýsköpunar, hugbúnaðar, tækni og orku. |
10.07.2012 |
Forseti tekur á móti hópi fyrrum starfsmanna Alþjóðabankans og ræðir við þá um þróun íslensks samfélags og efnahagslífs, frá fátækt fyrri tíma til fjölþætts atvinnulífs, velferðar, alhliða framfara og nýtingu hreinnar orku. |
10.07.2012 |
Forseti ræðir við stjórnendur Seed Forum um þróun þessa vettvangs til að efla tengsl milli frumkvöðla, sprotafyrirtækja og fjárfesta. Starfsemi Seed Forum á Íslandi hefur skilað verulegum árangri og skapað ný tækifæri. Svo er einnig um starfsemi þess í öðrum löndum. |
10.07.2012 |
Forseti ræðir við fréttamenn frönsku sjónvarpsstöðvarinnar 24 um forsetakosningarnar, þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave, samspil lýðræðis og markaðar og endurreisn íslensks efnahagslífs. |
22.07.2012 |
Forseti er við setningu Landsmóts skáta sem haldið er á Úlfljótsvatni og flytur ávarp. Í því færði forseti skátahreyfingunni heillaóskir í tilefni af aldarafmæli hreyfingarinnar á Íslandi, þakkaði framlag skáta til þjóðlífs og mannlífs í byggðarlögum, uppeldis og þjálfunar nýrra kynslóða. Jafnframt minntist forseti þátttöku sinnar í skátastarfi á yngri árum, bæði í skátahreyfingunni á Ísafirði og í Landnemum í Reykjavík. Áður en setningin hófst heilsuðu forsetahjónin upp á fjölda skáta í tjaldbúðum en rúmlega 600 erlendir skátar og um 700 íslenskir sækja mótið. |
23.07.2012 |
Forseti ræðir við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir um starf hennar í Afganistan, stöðu mála og þróun í landinu. Ingibjörg veitir forstöðu skrifstofu kvennastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UN Women í Afganistan. |
23.07.2012 |
Forseti á fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir og Svanhildi Konráðsdóttur um ráðstefnu, Spirit of Humanity Forum, sem haldin verður í Reykjavík í september. Þar verður fjallað um nýjar leiðir við mótun samfélaga, friðsamlega sambúð þjóða og alþjóðlega þróun. |
24.07.2012 |
Forseti á fund með frumkvöðlum Snjókorna-verkefnisins sem ætlað er að kynna börnum og fullorðnum hlýnun jarðar og hvetja til aðgerðar gegn loftslagsbreytingum. |
24.07.2012 |
Forseti ræðir við fréttamann franskrar útvarpsstöðvar um þróun efnahagslífs og lýðræðis á Íslandi í kjölfar bankakreppunnar, þróun mála á Norðurslóðum og hvernig lega landsins skapar ný tækifæri í framtíðinni. |
24.07.2012 |
Forseti á fund með Bjarna Tryggvasyni geimfara sem heimsækir Ísland. Rætt var um möguleika á samvinnu við íslenska aðila á sviði tækni og vísinda. Bjarni var fyrsti maðurinn fæddur á Norðurlöndum til að fara út í geiminn og kom til Íslands í boði forseta í kjölfar þeirrar ferðar. |
24.07.2012 |
Forseti tekur á móti ættingjum Rannveigar Sommer sem lengi hefur búið í Flórída. Þeir fluttu forseta kveðju hennar. |
25.07.2012 |
Forseti á fund með Antonio Villaraigosa borgarstjóra Los Angeles. Rætt var um árangur við endurreisn íslensks efnahagslífs, nýtingu jarðhita og annarra hreinna orkugjafa og stöðu mála í Bandaríkjunum. Antonio Villaraigosa hefur verið formaður samtaka borgarstjóra í Bandaríkjunum og mun stjórna þingi demókrataflokksins sem haldið verður í aðdraganda forsetakosninganna. |
25.07.2012 |
Forseti á fund með Björgu Thorarensen prófessor við Háskóla Íslands um stjórnskipun Íslands og stjórnarskrá, tillögur til breytinga og umræður sem fram hafa farið um þau efni. |
25.07.2012 |
Forseti flytur ræðu við upphaf ráðstefnu um framtíð bygginga og skipulag, nýtingu upplýsingatækni í þágu árangurs og sjálfbærni. Ráðstefnuna Product and Process Modelling sækir fjöldi sérfræðinga frá mörgum löndum. Ávarp forseta. |
26.07.2012 |
Forseti er viðstaddur athöfn á torgi Ólympíuþorpsins þegar íslensku keppendurnir voru boðnir velkomnir, leikinn var þjóðsöngurinn og íslenski fáninn dreginn að húni. Nemendur úr leiklistarskóla í Lundúnum settu litríkan svip á athöfnina. |
26.07.2012 |
Forseti heimsækir íslensku keppendurna í Ólympíuþorpinu í London, skoðar aðbúnað og ræðir við keppendur, þjálfara, fararstjóra og forystusveit ÍSÍ um undirbúning leikanna. |
26.07.2012 |
Forsetahjón heimsækja Ólympíuþorpið, heilsa upp á íslensku keppendurna, þjálfara og fararstjóra, og verða ásamt forystu Íþrótta- og Ólympíusambandsins viðstödd sérstaka athöfn þar sem Ísland er boðið velkomið til leikanna. |
27.07.2012 |
Forseti sækir setningarhátíð Ólympíuleikanna í London og fylgist með íslensku keppendunum sem gengu fylktu liði inn á leikvanginn. Opnunarhátíðin var fjölbreytt, byggð á ýmsum merkum köflum í sögu Bretlandseyja, bæði í nútíð og fortíð. |
27.07.2012 |
Forseti sækir móttöku Elísabetar II. Englandsdrottningar í Buckinghamhöll í tilefni af opnunarhátíð Ólympíuleikanna. |
28.07.2012 |
Forseti sækir kvöldverð sem forysta ÍSÍ heldur í tilefni af Ólympíuleikunum í London. Kvöldverðinn sátu auk forseta menntamálaráðherra og sendiherra Íslands í Bretlandi og forystusveit ÍSÍ. |
28.07.2012 |
Forseti fylgist með keppni í sundi á Ólympíuleikunum. Fyrstu Íslendingarnir, sem kepptu á þessum Ólympíuleikum, voru keppendur í sundi. |
29.07.2012 |
Forseti sækir móttöku mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og sendiherra Íslands í Bretlandi, Benedikts Jónssonar, fyrir íslensku keppendurna á Ólympíuleikunum, þjálfara, fararstjóra og forystu ÍSÍ. |
29.07.2012 |
Forseti skoðar nýjan glugga sem Leifur Breiðfjörð gerði í Southwark dómkirkjunni. Listamaðurinn vann samkeppni um gerð gluggans sem var settur í kirkjuna í tilefni af 60 ára krýningarafmæli Elísabetar Bretadrottningar. |
29.07.2012 |
Forseti er viðstaddur norræna guðþjónustu í Southwark dómkirkjunni í London en guðþjónustan var haldin í tilefni af Ólympíuleikunum. |
29.07.2012 |
Forseti er viðstaddur fyrsta leik íslenska handboltaliðsins á Ólympíuleikunum í London. Liðið lék gegn Argentínu og vann leikinn. |
31.07.2012 |
Forseti á fund með fulltrúa World Economic Forum, Alþjóða efnahagsþingsins, um helstu verkefni WEF á næstu árum og hvernig reynsla og árangur Íslendinga á ýmsum sviðum getur verið framlag til stefnumótunar og umræðu. Í því sambandi var einkum fjallað um reynsluna af glímunni við fjármálakreppuna, nýtingu hreinnar orku, Norðurslóðir, verndun auðæva hafsins, fæðuöryggi sem og nýsköpun í tækni, hugbúnaði, hönnun og menningu. |
Ágúst
|
01.08.2012 |
Forseti tekur á ný við embætti við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Eftir að forseti undirritar eiðstaf og tekur við kjörbréfi úr hendi forseta Hæstaréttar flytur hann ræðu. Ræða forseta. Ensk þýðing. |
02.08.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Þýskalands á Íslandi, Hermann Sausen, sem senn lætur af störfum. Rætt var um endurreisn íslensks efnahagslífs, umsókn um aðild að Evrópusambandinu, traust tengsl Íslands og Þýskalands og verkefni næstu ára. |
03.08.2012 |
Forseti flytur ávarp við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi. Mótið er stærsta íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina. |
03.08.2012 |
Forseti á fund með forsvarsmönnum Orkusýnar um þróun kynningar á nýtingu jarðhita en Orkusýn hefur á undanförnum misserum annast fræðslu og móttöku gesta í Hellisheiðarvirkjun og áætlað er að í ár muni um 50.000 gestir hljóta slíka kynningu þar: ferðamenn úr ýmsum heimshlutum, námsfólk, aðallega frá Evrópu, sérfræðingar og forystumenn í þjóðmálum og atvinnulífi. |
03.08.2012 |
Forseti á fund með stjórnendum Jarðborana um verkefni í ýmsum heimshlutum og hvernig nýta megi þekkingu og tækni Íslendinga á þessu sviði. |
07.08.2012 |
Forseti á fund með dr. Emiliano Duch, Hákoni Gunnarssyni og Árna Magnússyni um þróun jarðhitaklasans á Íslandi og ráðstefnu sem áformað er að halda á næsta ári. Þá tók dr. Emiliano Duch viðtal við forseta um þróun jarðhita á Íslandi vegna heimildarmyndar. Einnig var rætt um mikilvægi þess að nýta jarðhita víða um veröld til húshitunar, við ylrækt í gróðurhúsum og til að þurrka matvæli. |
09.08.2012 |
Forseti er viðstaddur keppni í spjótkasti og frjálsum íþróttum á aðalleikvangi Ólympíuleikanna í London. Ásdís Hjálmsdóttir tók þátt í úrslitakeppni í spjótkasti. |
12.08.2012 |
Forseti situr kvöldverð á Sauðárkróki í boði biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur. Í ávarpi fagnaði forseti þeim tímamótum sem fælust í vígslu Sólveigar Láru til Hólabiskups í kjölfar vígslu Agnesar Sigurðardóttur til biskups Íslands. Þá ræddi forseti sterk tengsl kirkju og samfélags. Táknrænt væri að tvær konur sem nú gegndu biskupsembættum hefðu þjónað í litlum sóknum; önnur í sjávarbyggð og hin til sveita. Þjóðkirkjan byggi að sterkri lýðræðishefð sem birtist í áhrifum safnaða og fólksins í landinu á kjör presta og biskupa. Mikilvægt væri að varðveita þessa lýðræðishefð kirkjunnar og byggja á hinum sterku tengslum samfélags og kirkju enda þjóðkirkjan samofin menningu, sögu og siðrænum viðhorfum Íslendinga. |
12.08.2012 |
Forseti er viðstaddur vígslu séra Sólveigar Láru Guðmundsdóttur til embættis vígslubiskups í Hólaumdæmi. Að vígslu lokinni var kaffisamsæti í húsakynnum Hólaskóla. |
14.08.2012 |
Forseti tekur þátt í hátíðarsamkomu í tilefni af 70 ára afmæli Golfsambands Íslands. Í ávarpi fjallaði forseti um hve vel hefði tekist að gera golf að almenningsíþrótt á Íslandi; fólk úr öllum stéttum kæmi saman á golfvöllum og íþróttin hefði eflt samstöðu í byggðarlögum allt í kringum landið. Íþróttin hefði því ríkulega skapað félagsauð og aukið skilning okkar á fjölbreytileika íslenskrar náttúru. |
14.08.2012 |
Forseti stendur ásamt bandaríska arkitektinum William McDonough fyrir samræðu um sjálfbærar borgir sem fram fer á Íslandi næstu daga. Þátttakendur í samræðunni eru sérfræðingar og áhrifamenn frá Bandaríkjunum og Evrópu og hópur forystumanna frá kínverskum borgum og rannsóknarstofnunum. Kínversku þátttakendurnir eru frá Beijing, Sjanghæ, Hong Kong og Wuxi. Fréttatilkynning. |
15.08.2012 |
Forseti tekur á móti íslensku þátttakendunum í Ólympíuleikunum í London: íþróttafólki, þjálfurum og öðrum starfsmönnum ásamt forystu ÍSÍ, formönnum sérsambanda þeirra íþróttagreina sem Íslendingar kepptu í sem og fréttamönnum og ljósmyndurum íslenskra fjölmiðla sem viðstaddir voru Ólympíuleikana. |
15.08.2012 |
Forseti ræðir við fréttamann þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ARD um lærdómana af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna og hvernig hagþróunin í Evrópu knýr þjóðir til að vega hagsmuni fjármálamarkaða annars vegar og lýðræðisvilja fólksins hins vegar. |
15.08.2012 |
Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, forstjóra OrkaEnergy, og athafnamanninum Richard Chandler um hagþróun í Asíu og breytingar á orkukerfum og aukinn áhuga á nýtingu jarðhita í mörgum Asíulöndum. |
15.08.2012 |
Forseti á fund með forystumönnum kínverska matvælafyrirtækisins Dalian Tianbao Green Foods sem gert hefur víðtæka samninga um kaup á tækjum frá Marel til notkunar við fiskvinnslu og aðra matvælaframleiðslu í Kína. Að þeirra dómi er íslensk tækni sú besta sem völ er á og getur stuðlað að betri nýtingu matvæla í Kína en framboð á matvælum verður eitt helsta vandamál Kínverja á komandi áratugum. |
16.08.2012 |
Forseti á fund með skátahöfðingja Braga Björnssyni og skipuleggjendum alþjóðlegs friðarþings skáta sem haldið verður í október í tilefni af hundrað ára afmæli skátahreyfingarinnar á Íslandi. Þingið sækja ungmenni frá ýmsum löndum og er forseti verndari þess. |
17.08.2012 |
Forseti ræðir við fréttamann kínversku sjónvarpsstöðvarinnar CCTV um gildi leiðangurs Xuelong fyrir vísindasamvinnu Íslendinga og Kínverja, hvernig hann getur aukið skilning okkar og annarra þjóða á bráðnun íss á Norðurslóðum og þeim hættum sem hún hefur í för með sér fyrir efnahagslíf og lífsskilyrði í öllum heimshlutum. Jafnframt þakkaði forseti Hu Jintao, forseta Kína, og Wen Jiabao forsætisráðherra sem og Xi Jinping varaforseta fyrir vináttuvott þeirra í garð Íslendinga og vísindasamfélagsins á Íslandi með því að taka þá ákvörðun að senda þennan vísindaleiðangur um norðurleiðina frá Kína til Íslands. |
17.08.2012 |
Forseti tekur á móti um 60 kínverskum vísindamönnum sem taka þátt í leiðangri ísbrjótsins Xuelong um Norðurslóðir og áhöfn skipsins. Þá eru einnig í móttökunni íslenskir vísindamenn og stjórnendur rannsóknarstofnana. |
17.08.2012 |
Forseti heimsækir kínverska ísbrjótinin Xuelong sem siglt hefur frá Kína til Íslands um norðausturleiðina og fer um Norðurpólinn til baka. Forseti ræddi við stjórnendur leiðangursins sem lýstu rannsóknum og vísindastarfi sem fram hefur farið á Xuelong. Bráðnun íss á Norðurslóðum og áhrif þeirra breytinga á veðurfar og efnahagslíf í Kína og öðrum heimshlutum eru meginskilaboð leiðangursmanna. Þá skoðaði forseti vistarverur skipverja, rannsóknarstofur og tækjabúnað. Ítrekaður var áhugi Heimskautastofnunar Kína á víðtæku samstarfi við íslenska vísindamenn. Myndir. |
17.08.2012 |
Forseti tekur þátt í málþingi íslenskra og kínverskra vísindamanna í tilefni af siglingu kínverska ísbrjótsins Snædrekans (Xuelong) um Norðurpólinn og norðausturleiðina. Um 60 kínverskir vísindamenn taka þátt í leiðangrinum og verða nokkur rannsóknarverkefni þeirra kynnt á málþinginu sem fram fer í hátíðasal Háskóla Íslands. Þar fjalla íslenskir vísindamenn einnig um rannsóknir sínar á hafís, eldvirkni og haffræði Norðurslóða. Tveir íslenskir vísindamenn taka þátt í ferð Snædrekans. Forseti flytur lokaávarp á málþinginu. Fréttatilkynning. |
17.08.2012 |
Skrifstofa forseta hefur birt svohljóðandi yfirlýsingu: Vegna umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga er rétt að árétta eftirfarandi:
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins fá handhafar forsetavalds – forseti Alþingis, forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar – í hendur að öllu leyti hlutverk forseta við setningu laga og önnur hlutverk forseta í stjórnskipun landsins um leið og forseti fer úr landi.
Málið snýst því ekki um hvort forseta er fylgt á flugvöll eða ekki heldur um það hvenær og hvernig forsetavaldið færist frá forseta til handhafanna. Stjórnskipun byggist ekki aðeins á formlegum reglum heldur líka á hefðum sem löng venja hefur helgað.
Allt frá stofnun lýðveldisins hefur þessi flutningur á forsetavaldinu verið í formi handabands við brottför forseta þar eð ekki hefur fundist annað form sem tryggði jafn vel að enginn vafi væri um stað og stund slíkrar breytingar á forsetavaldinu, valdi sem t.d. getur skipt sköpum við setningu laga. Þar til stjórnarskránni verður breytt eða þar til fram koma haldbærar tillögur um að haga þessum grundvallarþætti stjórnskipunarinnar með öruggum hætti á annan veg geta hvorki forseti né handhafar sett ábyrgðina á aðra enda geri stjórnarskrá lýðveldisins ekki ráð fyrir að embættismenn deili ábyrgð sem samkvæmt henni er forseta og handhafanna einna. |
20.08.2012 |
Forseti ræðir við fulltrúa baráttuhóps um gerð Norðfjarðarganga. Rætt var um grjóthrun í Oddsskarðsgöngum, slæmt ástand þeirra almennt og hættur sem íbúarnir búa við af þeim sökum. Fulltrúar baráttuhópsins ítrekuðu nauðsyn þess að vegafé væri varið til brýnna verkefna og rökin fyrir gerð Norðfjarðarganga væru að þeirra dómi afdráttarlaus ólíkt rökum fyrir öðrum framkvæmdum sem afráðnar hefðu verið. |
20.08.2012 |
Forseti ræðir við kvikmyndagerðarmann um framlag Ólafs Wallevik prófessors sem birtist í gerð umhverfisvænnar steypu sem vakið hefur athygli víða um heim. Verið er að vinna að heimildamynd um þessa tækni og það hvernig hún getur gert borgir framtíðarinnar umhverfisvænni. |
20.08.2012 |
Forseti tekur á móti þátttakendum í Snorri plús verkefninu sem koma frá byggðum Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Rætt var um varðveislu arfleifðar og sögu, tengsl við ættmenn á Íslandi og aðra þætti í heimsókn þeirra og kynnisferð á vegum Snorraverkefnisins. |
24.08.2012 |
Forseti tekur næstu daga þátt í Norðurslóðaþingi sem haldið er í Alaska. Þingið sækir fjöldi áhrifamanna frá Bandaríkjunum, bæði á vettvangi stjórnkerfis, atvinnulífs og fjölmiðla. Þá sitja þingið einnig forystumenn Alaskaríkis og fulltrúar samtaka og byggðarlaga frumbyggja á Norðurslóðum. Meðal umræðuefna á þinginu eru staða Bandaríkjanna á Norðurslóðum, efnahagsþróun svæðisins og kapphlaupið um nýtingu auðlinda, stjórnun fiskveiða, skipulag flugsamgangna og skipaflutninga, framlag Hafréttarsáttmálans við lausn deiluefna, samstarf Rússa og Bandaríkjamanna og vaxandi mikilvægi Norðurslóða á heimsvísu í alþjóðasamskiptum og efnahagslífi nýrrar aldar. Fréttatilkynning. |
26.08.2012 |
Við upphaf Norðurslóðaþings, Arctic Imperative Summit, sem nú er haldið í Alaska átti forseti fund með ráðherrum og æðstu stjórnendum Alaskaríkis, borgarstjóra Anchorage og öðrum ráðamönnum. Á fundinum kom fram mikill áhugi á að efla samvinnu Alaska og Íslands. Áætlunarflug Icelandair til Alaska á næsta ári er talið tákn um nýja tíma í ferðaþjónustu og samgöngum. Tækifærin séu einnig á öðrum sviðum, t.d. við nýtingu jarðhita og vatnsorku, í sjávarútvegi, rannsóknum og vísindum. Þá kalli vaxandi mikilvægi Norðurslóða á síaukna samvinnu Alaska og Íslands. Myndir. Fréttatilkynning. Ræða forseta. |
27.08.2012 |
Forseti flytur lokaávarp á Norðurslóðaþingi sem haldið er í Alaska, Arctic Imperative Summit. Í ávarpinu áréttaði forseti nauðsyn þess að finna skipulag til að tengja saman alla þá sem taka þátt í hinni víðtæku samræðu sem nú fer fram á fjölda sviða um framtíð Norðurslóða. Á þinginu kom fram ríkur vilji til að finna slíkar leiðir enda er brýn nauðsyn á að allir þeir mörgu aðilar sem nú láta til sín taka á sviði Norðurslóðamála geti ræðst við á opinn og lýðræðislegan hátt. |
29.08.2012 |
Forseti er viðstaddur tónleika í menningarhúsinu Hofi í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Þeir bera heitið Tónagjöf til Akureyringa og flutt eru ný verk sex tónskálda sem frumflutt eru af Afmæliskór Akureyrar. Það er Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju og bæjarlistamaður Akureyrar, sem hafði frumkvæði að þessari gjöf til bæjarins. |
29.08.2012 |
Forseti heimsækir Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá stofnun þess, heilsar upp á starfsfólk og vistmenn og aðra gesti sem fögnuðu þessum tímamótum. |
29.08.2012 |
Forseti er viðstaddur opnun sýningarinnar Ars borealis sem haldin er í Ketilhúsinu - sjónlistamiðstöðinni á Akureyri. Sýningin er helguð kynningu á sögu, menningu og list fólks sem býr á Norðurslóðum, lífi þess og baráttu við náttúruöflin. Í stuttu ávarpi þakkaði forseti Akureyringum fyrir að efna til slíkrar sýningar því mikilvægt væri að menning og listræn arfleifð íbúa Norðurslóða væri ríkur þáttur í umræðu um framtíðina. Í sýningunni taka þátt auk Íslendinga listamenn og hönnuðir frá Færeyjum, Grænlandi, Alaska og öðrum svæðum Norðurslóða. |
29.08.2012 |
Forseti er viðstaddur hátíðarfund bæjarstjórnar Akureyrar sem haldinn er í menningarhúsinu Hofi í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins. Í hófi að fundi loknum flutti forseti stutt ávarp, færði Akureyringum heillaóskir þjóðarinnar og lýsti hvernig saga Akureyrar endurspeglaði meginþætti í framförum Íslendinga, allt frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar til vaxandi hlutverks Akureyrar í þróun Norðurslóða. Bær sem hafi í upphafi borið svipmót danskra áhrifa hafi á síðustu áratugum orðið fyrirmynd á mörgum sviðum, bær mennta, íþrótta, umhverfisverndar, útivistar, vísinda og rannsókna. Einnig nefndi forseti þátt samvinnuhreyfingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar í sögu bæjarins. |
30.08.2012 |
Forseti flytur ávarp við setningu alþjóðlegrar ungmennaráðstefnu um lýðheilsu og blóðgjafir en markmið hennar er m.a. að ræða nýjar leiðir til að hvetja almenning til blóðgjafa og virkja ungt fólk í þágu lýðheilsu. |
30.08.2012 |
Forseti stjórnar ríkisráðsfundi á Bessastöðum þar sem staðfest voru lög, breytingar á stjórnarráði Íslands og skipun ráðherra. |
31.08.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Kanada, Alan Bones, sem senn lætur af störfum. Rætt var um vaxandi samskipti landanna, einkum í tengslum við málefni Norðurslóða. Lega Íslands, Grænlands, Kanada og Alaska á vestursvæði Norðurslóða skapaði fjölþætta sameiginlega hagsmuni. Hin ríku tengsl við íslensk samfélög í Kanada hefðu einnig á síðari árum veitt nýjum kynslóðum innsýn í sameiginlega arfleifð. Á fundinum kom fram ríkur áhugi stjórnvalda í Kanada á að styrkja sambandið við Ísland og efla samvinnu á mörgum sviðum. |
01.09.2012 |
Forseti sækir sýningu á sögulegu leikriti, Borgarinnan, sem flutt er í samkomuhúsinu á Akureyri í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins. Leikritið fjallar um ævi Vilhelmínu Lever sem uppi var á 19. öld og var fyrsta konan sem kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri. |
September
|
01.09.2012 |
Forseti er viðstaddur hátíðartónleika þriggja tenórsöngvara í Hofi í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. |
01.09.2012 |
Forseti fylgist með ýmsum viðburðum í miðbæ Akureyrar í framhaldi af hátíðardagskrá á Akureyrarvelli. Dansflokkar, kórar, listhópar og fjölmargir aðrir færðu afmælislíf og fjör í miðbæinn. |
01.09.2012 |
Forseti er viðstaddur hátíðardagskrá á Akureyrarvelli í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins. Flutt var tónlist og ýmsir hópar og samtök tóku þátt í dagskránni. |
01.09.2012 |
Forseti situr hádegisverðarboð bæjarstjórnar Akureyrar í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins. |
02.09.2012 |
Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu í tilefni af 25 ára afmæli Háskólans á Akureyri. Í ávarpinu þakkaði forseti frumkvöðlum að stofnun háskólans en þrír fyrrverandi menntamálaráðherrar, Sverrir Hermannsson, Ingvar Gíslason og Tómas Ingi Olrich, sem allir komu að stofnun skólans, voru viðstaddir athöfnina. Þá áréttaði forseti framlag Háskólans til þróunar landsbyggðar og til þjálfunar starfsmanna á sviði menntunar og heilsugæslu. Einnig hefur skólinn rutt brautir í rannsóknum á náttúru og atvinnulífi landsbyggðar og skapað sér mikilvægan sess í málefnum Norðurslóða. Sá þáttur væri nú þegar burðarás í stöðu Íslands á vettvangi Norðurslóða og myndi treysta mjög þennan nýja grundvallarþátt í utanríkisstefnu Íslendinga. |
03.09.2012 |
Forseti ræðir við Arjun Gupta, athafnamann og umhverfissinna af indverskum ættum sem búsettur er í Bandaríkjunum. Hann hefur látið mjög að sér kveða til að vekja athygli á breytingum á Suðurskautslandinu og Norðurskautinu, m.a. með ferðum til þessara heimshluta og þátttöku í alþjóðlegum umræðum um bráðnun jökla og loftslagsbreytingar. |
03.09.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Þýskalands á Íslandi, hr. Thomas Hermann Meister, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um trausta samvinnu landanna en einnig ný verkefni, m.a. með tilliti til nýtingar hreinnar orku, og þróun mála á Norðurslóðum. Að fundi loknum var móttaka fyrir fulltrúa ýmissa stofnana, samtaka og fyrirtækja sem hlutdeild eiga í samvinnu Íslands og Þýskalands. Mynd. |
03.09.2012 |
Forseti á fund með Páli Ásgeiri Davíðssyni og Bergljótu Arnalds um Vox Naturae jöklaverkefnið sem þau hafa unnið að að undanförnu. Markmiðið er að vekja athygli á bráðnun jökla og er verið að leggja grundvöll að alþjóðlegri samvinnu í þessu skyni. |
04.09.2012 |
Forseti ræðir við bandaríska þingmanninn Lisu Murkowski sem situr í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Alaskaríkis. Rætt var um vaxandi samstarf á Norðurslóðum, aukin tengsl Íslands og Alaska, nýtingu jarðhita í Alaska og áhuga ríkja í Asíu á málefnum Norðurslóða. Bandaríkin taka við formennsku í Norðurskautsráðinu árið 2015 og forystumenn Alaskaríkis hafa þegar hafið umræður um áherslur þess tímabils þegar Bandaríkin verða í forsæti ráðsins. Lisa Murkowski situr næstu daga fund þingmanna Norðurslóðaríkja sem haldinn er á Akureyri. Sendiherra Bandaríkjanna, Luis E. Arreaga, tók einnig þátt í viðræðunum. |
04.09.2012 |
Forseti kynnir Arjun Gupta, athafnamanni og umhverfisverndarsinna, nýtingu jarðhita á mörgum sviðum, til framleiðslu rafmagns, hitunar húsa, ylræktunar, þurrkunar matvæla og betri lífshátta. Heimsótt voru orkuver, bæði Svartsengi og Hellisheiðarvirkjun, Bláa lónið, gróðurhús og Haustak. |
05.09.2012 |
Forseti á fund með samstarfsaðilum Forvarnardagsins um skipulag hans í október. Forvarnardagurinn hefur í áraraðir verið haldinn í grunnskólum landsins og í fyrra bættust framhaldsskólarnir við. Aðilar Forvarnardagsins hafa að auki verið sveitarfélögin í landinu, Reykjavíkurborg, ÍSÍ, UMFÍ og Skátahreyfingin. Actavis hefur verið bakhjarl verkefnisins frá upphafi og Rannsóknir og greining við Háskólann í Reykjavík hafa skipulagt daginn á undanförnum árum og unnið úr þeim gögnum sem fram hafa komið á umræðufundum nemenda. Rannsóknir og greining vinnur reglubundið að mælingum á fíkniefnanotkun í skólum landsins. |
05.09.2012 |
Forseti á fund með alþjóðlegum samstarfsaðilum Vox Naturae verkefnisins um nauðsyn þess að vekja athygli á bráðnun jökla og vatnsbúskap veraldarinnar með nýstárlegum aðferðum á sviði lista og myndrænnar túlkunar. |
05.09.2012 |
Forseti á fund með Alice Rogoff, stjórnanda AlaskaDispatch og Arctic Imperative Summit, og samstarfsmanni hennar, Scott Borgerson, um samstarf þeirra mörgu aðila sem efna til málþinga og funda um málefni Norðurslóða. Mikilvægt sé að koma upp árlegum sameiginlegum vettvangi til að styrkja grundvöll stefnumótunar og lýðræðislegrar þátttöku á Norðurslóðum. |
06.09.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, í Danmörku og Noregi og embættismönnum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna og yfirvalda í varnarmálum um þróun mála á Norðurslóðum, nauðsyn aukinnar samvinnu og verkefnin sem bíða á Norðurslóðum og vaxandi áhuga ríkja í öðrum heimsálfum á aðild að ákvarðanatöku og þróun mála á Norðurslóðum. Forseti ítrekaði nauðsyn samvinnu Íslands og Bandaríkjanna á þess sviði auk hinna sérstöku hagsmuna sem tengja vesturhluta Norðurslóða, Ísland, Grænland, Kanada og Alaska saman á margan hátt. Myndir. |
06.09.2012 |
Forseti tekur á móti hópi eldri borgara frá Suðurnesjum og ræðir sögu Bessastaða. Hópurinn skoðaði staðinn, Bessastaðastofu og kirkjuna. |
07.09.2012 |
Forseti sækir lokadaga Ólympíumóts fatlaðra sem haldnir eru í London. Fyrir hádegi í dag, föstudaginn 7. september, fylgist hann með keppni í frjálsum íþróttum þar sem Helgi Sveinsson er meðal keppenda. Forseti mun einnig afhenda verðlaun og eftir hádegið heimsækja forsetahjónin Ólympíuþorpið og hitta íslensku keppendurna, þjálfara og forystumenn Íþróttasambands fatlaðra. Þá verður forseti viðstaddur lokahátíð leikanna á sunnudag. Fréttatilkynning. Myndir. |
09.09.2012 |
Forseti er viðstaddur lokahátíð Ólympíumóts fatlaðra í London. |
10.09.2012 |
Forseti á fund með Josef Motzfeldt, forseta grænlenska þingsins, um samstarf Íslands og Grænlands og tengsl landanna við Kanada og Alaska, framtíð Norðurslóða og margvísleg verkefni sem blasa við á þeim vettvangi, og um þörfina á samráði og víðtækri þátttöku í stefnumótun. |
10.09.2012 |
Forseti á fund með mexíkóska rithöfundinum Elena Poniatowska ásamt þýðanda og skipuleggjendum málþings um rithöfundinn en bók hennar, Jesúsa, kemur út á íslensku um þessar mundir. Rætt var um menningu og stjórnmál í Mexíkó, glímuna við margvísleg vandamál, arfleifðina frá tímum Spánverja og baráttuna gegn glæpum og spillingu. |
10.09.2012 |
Forseti á fund með stjórn og framkvæmdastjóra Century Aluminium og stjórnendum Norðuráls sem fyrirtækið rekur á Íslandi. Rætt var um árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og samstarf á því sviði við aðrar þjóðir, framtíð áliðnaðar og áherslur í íslensku atvinnulífi. |
11.09.2012 |
Forseti á fund með Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um hátíðahöld á næsta ári í tilefni þess að þá verða 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar, handritasafnara og fræðimanns. |
11.09.2012 |
Forseti setur Alþingi að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Ræða forseta. |
12.09.2012 |
Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni sem tók þátt í leiðangri kínversku heimskautastofnunarinnar um Norðurslóðir. Rætt var um komu leiðangursins og ísbrjótsins Snædrekans til Íslands og vísindaleg málþing sem haldin voru í Háskóla Íslands og á Akureyri, framtíðarverkefni í rannsóknum á Norðurslóðum og hvernig samstarf við vísindasamfélagið getur aukið þekkingu á bráðnun íss og breytingum á hafsvæðum. Slík þekking er afar mikilvægur þáttur í auknu samstarfi á Norðurslóðum. |
12.09.2012 |
Forseti tekur á móti hópi eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og kynnir þeim sögu Bessastaða. Að því loknu skoðaði hópurinn fornleifakjallarann og önnur húsakynni, sögulega gripi og annað sem tengist fornri sögu og nýrri á Bessastöðum. |
13.09.2012 |
Forseti á fund með Ruth Gylfadóttur, ræðismanni Íslands í Suður-Afríku, um störf hennar í landinu, þjónustu við Íslendinga í Afríkulöndum og hjálparverkefni í þágu menntunar og þjálfunar kvenna í fátækrahverfum stórborga. |
13.09.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Bretlands á Íslandi, Ian Whitting, sem senn lætur af störfum. Rætt var um margvísleg verkefni í samskiptum landanna á undanförum árum, aukin tengsl á sviði upplýsingatækni, stöðu Íslands á Norðurslóðum sem og framtíðarhorfur lands og þjóðar. |
14.09.2012 |
Forseti flytur hátíðarræðu á landsþingi Rótarý sem haldið er á Ísafirði. Umræðuefni þingsins er hafið og í ræðu sinni fjallaði forseti um mikilvægi nýtingar hafsins í sögu Vestfjarða og Íslendinga en reifaði ískyggilegar horfur á eyðingu auðlinda úthafanna vegna ofveiði og mengunar, vék að heimsþingi um höfin sem The Economist hélt fyrr á þessu ári og samstarfi við Google um eftirlit með veiðum. Þá nefndi forseti einnig upphaf Rótarýklúbbsins á Ísafirði og lýsti ýmsum persónum og atvikum frá æskudögum á Ísafirði þar sem stofnendur Rótarýklúbbsins komu við sögu. Ræða forseta |
14.09.2012 |
Forseti er viðstaddur þegar börn og afkomendur Kristjáns Eldjárns afhentu myntsafni Þjóðminjasafnsins og Seðlabankans safn minnispeninga sem dr. Kristján Eldjárn safnaði, fyrst sem þjóðminjavörður og síðar sem forseti Íslands. |
14.09.2012 |
Forseti á fund með jöklafræðingunum Guðfinnu Th. Aðalgeirsdóttur, Helga Björnssyni og Þorsteini Þorsteinssyni og Hilmari Braga Janussyni, sviðsforseta við Háskóla Íslands, og Árna Snorrasyni veðurstofustjóra um þjálfun ungra jöklafræðinga frá Himalajasvæðinu en tveir indverskir jöklafræðingar luku slíkri þjálfun á Íslandi fyrr á þessu ári. Einnig var rætt um víðtækt alþjóðlegt samstarf á sviði jöklarannsókna, Norðurslóðarannsókna og annarra rannsóknarverkefna sem fjalla um afleiðingar af hlýnun loftslags og bráðnun jökla og íss fyrir veðurfar og lífsskilyrði víða um heim. |
14.09.2012 |
Forseti flytur ávarp við setningu alþjóðlegu ráðstefnunnar Spirit of Humanity sem haldin er í Hörpu. Þema setningarfundarins var Resetting the Compass þar sem lögð var áhersla á ný viðmið og nýjar áttir í þróun samfélaga, samskipta menningarheima og einstaklinga. Ávarp forseta. |
15.09.2012 |
Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegu ráðstefnunni Spirit of Humanity sem haldin hefur verið í Hörpu en forseti flutti ávarp við upphaf hennar. |
15.09.2012 |
Forseti tekur á móti stórum hópi frá Félagi kvenna í atvinnurekstri sem heimsækir Bessastaði, og ræðir breytingar á íslensku þjóðlífi frá því að skóli var starfræktur á staðnum, baráttu Theodóru og Skúla Thoroddsen fyrir réttindum kvenna og veigamikið hlutverk kvenna í atvinnurekstri í nýsköpun og framþróun íslensks samfélags. |
15.09.2012 |
Forseti tekur á móti félögum í Lionsklúbbnum Æsu í Njarðvíkum og ræðir um sögu Bessastaða, að fornu og nýju. |
16.09.2012 |
Forseti heiðrar íslensku þátttakendurna á Ólympíumóti fatlaðra í London með sérstakri móttöku á Bessastöðum. Íþróttafólki og fjölskyldum þeirra, þjálfurum og öðrum starfsmönnum, sem voru á Ólympíumótinu, var boðið til móttökunnar ásamt forystu Íþróttasambands fatlaðra og ÍSÍ, svo og þeim sem áður höfðu unnið til gullverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra; einnig fulltrúum styrktaraðila og fréttamönnum og ljósmyndurum sem viðstaddir voru Ólympíumótið. |
18.09.2012 |
Forseti tekur á móti kaþólskum biskupum á Norðurlöndum sem halda samráðsfund í Reykjavík. Rætt var um stöðu kaþólsku kirkjunnar á Norðurlöndum, aukin verkefni vegna fjölgunar innflytjenda frá kaþólskum löndum og tengsl við ríki og aðrar kirkjudeildir. Þá var einnig fjallað um sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur og ferð forseta ásamt Snæfellingum til Rómar þar sem páfinn tók á móti sams konar styttu af Guðríði og er á heimaslóðum hennar á Snæfellsnesi. Forseti hvatti til þess að efnt yrði til málþinga um stöðu kirkju og trúar á Norðurlöndum fyrstu aldir eftir kristnitöku og samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir innan kaþólsku kirkjunnar í Evrópu. |
18.09.2012 |
Forseti tekur á móti sendinefnd frá Whole Food verslunarkeðjunni í Bandaríkjunum sem sérhæfir sig í gæðamatvælum. Rætt var um markað fyrir íslenskt lambakjöt, fisk og grænmeti vestanhafs þar sem neytendur meta sjálfbærni og tengsl við náttúruna æ meir. Hópurinn hefur heimsótt sveitir Íslands, fylgst með smölun af fjalli og vinnslu kjötafurða. |
19.09.2012 |
Forseti tekur á móti sendinefnd frá Argentínu sem skipuð er fulltrúum ýmissa fylkja í landinu. Þeir hafa kynnt sér fjölþætta nýtingu jarðhita á Íslandi en mikill áhugi er í Argentínu á að efla hlutdeild hreinnar orku í orkubúskap landsins. Íslenskir samstarfsaðilar sátu einnig fundinn. |
19.09.2012 |
Forseti á fund með Guðmundi Ágústi Sæmundssyni sem þróað hefur hugmyndir um lýðræði og þátttöku almennings í stefnumótun og lagasetningu. Byggja þær á upplýsingatækni sem hann hefur mótað í kerfi sem hann nefnir Hugveituna. |
19.09.2012 |
Forseti tekur á móti Sigurjóni Vilhjálmssyni sem þar með hefur tekið í höndina á öllum forsetum lýðveldisins en hann hitti Svein Björnsson sem ungur maður um 1950. |
19.09.2012 |
Forseti er viðstaddur þegar Lionshreyfingin afhendir Landspítalanum-Háskólasjúkrahúsi tæki til skurðaðgerða á augum. Fjársöfnun til gjafarinnar var í tilefni af afmæli hreyfingarinnar á Íslandi og einnig bárust framlög úr alþjóðasjóðum Lionshreyfingarinnar. Forseti gangsetti tækið og flutti stutt ávarp við athöfnina þar sem hann þakkaði Lionshreyfingunni höfðinglega gjöf. |
20.09.2012 |
Forseti á fund með Eiríki Rögnvaldssyni, Trausta Kristjánssyni og Jóni Guðnasyni um nauðsyn þess að Íslendingar geti nýtt móðurmálið í samskiptum við tölvur. Í þeim efnum þarf bæði að styrkja bein samskipti talaðs máls við tölvur en unnið hefur verið að þeim verkefnum í samvinnu við Google sem og að tryggja að málfarsforrit og samheitasöfn og önnur slík hjálpartæki séu til reiðu á íslensku máli. |
20.09.2012 |
Forseti tekur á móti Sæunni Vigdísi Sigvaldadóttur, Stellu Jórunni Levý og Ingibjörgu Jónsdóttur, sem færðu forseta handverk og gæðamat úr Húnaþingi, en fjöldi sveitaheimila, áhugafólks og lítilla fyrirtækja hefur aukið mjög á síðari árum fjölbreytni margvíslegrar matvælagerðar og heimilisiðnaðar í Húnaþingi. |
20.09.2012 |
Forseti á fund með Guðmundi Emilssyni um tónleika til að heiðra minningu argentínska skáldsins Jorge Luis Borges sem var mikill unnandi íslenskra fornbókmennta og heimsótti Ísland á sínum tíma. |
20.09.2012 |
Forseti á fund með Christina J. Colclough, framkvæmdastjóra Samtaka norrænna bankastarfsmanna, um þróun bankastarfsemi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum í kjölfar fjármálakreppunnar. |
20.09.2012 |
Forseti tekur á móti hópi nemenda frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki og ræðir við þá um sögu Bessastaða og þær breytingar sem orðið hafa á stöðu Íslendinga og þjóðlífi frá tímum Bessastaðaskóla. |
24.09.2012 |
Forseti á fund með Kristni Péturssyni, fyrrum alþingismanni, um opnun nýrra siglingaleiða á Norðurslóðum og viðbrögð byggða á Norðausturlandi við þeirri þróun sem og mikilvægi þess að koma á fót birgðastöðvum hreinnar orku á Íslandi, einkum metans. |
24.09.2012 |
Forseti á fund með Árna Magnússyni um jarðhitaverkefni í Bandaríkjunum og nýtingu á margvíslegri þekkingu og kunnáttu Íslendinga við framkvæmdir á því sviði og undirbúning þeirra. Vaxandi áhugi er í Bandaríkjunum á að nýta jarðhita landsins. |
24.09.2012 |
Forseti á fund með forseta finnska þingsins, Eero Heinäluoma, sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna og aukið mikilvægi Norðurslóða, þörfina á að þingmenn ríkja á Norðurslóðum stuðli að lýðræðislegum grundvelli ákvarðanatöku með nánara samstarfi. Einnig var fjallað um Evrópusambandið og ólíka afstöðu einstakra Norðurlandaþjóða til aðildar að því. Mynd. |
25.09.2012 |
Forseti á fund með David Miliband, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, sem heimsækir Ísland í boði forseta. Í heimsókninni mun Miliband heimsækja ýmsa íslenska ráðamenn og kynna sér nýtingu jarðhita og skipulag fiskveiða. Að fundinum loknum bauð forseti til kvöldverðar með hópi alþingismanna. |
25.09.2012 |
Forseti á fund með nýjum ræðismanni Íslands í Chennai á Indlandi sem heimsækir Ísland ásamt fjölskyldu sinni. Rætt var um vaxandi samskipti Íslands og Indlands, samvinnu á sviði ferðamála og upplýsingatækni. |
25.09.2012 |
Forseti flytur ræðu á 75 ára afmælisráðstefnu Icelandair. Þar hvatti hann til að gerð yrði þjóðaráætlun um hvernig taka ætti á móti 2 milljónum ferðamanna sem að öllum líkindum myndu árlega koma til Íslands áður en þessi áratugur rynni á enda. Ísland væri óðum að verða áfangastaður á veraldarvísu, m.a. vegna umfjöllunar í helstu miðlum veraldar og breytinga á heimsmyndinni. Fréttatilkynning. Ræða forseta. |
25.09.2012 |
Forseti á fund með sendinefnd frá Gvæjana um samstarf á sviði eftirlits með fjármálaviðskiptum og í nýtingu hreinnar orku. Fundinn sátu einnig fulltrúar Alþjóðabankans og Creditinfo. |
26.09.2012 |
Forseti kynnir David Miliband, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, margvíslega nýtingu jarðhita með heimsóknum í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, Svartsengi, Bláa lónið, Haustak, Hellisheiðarvirkjun og fleiri staði. Myndir. |
26.09.2012 |
Forseti flytur stutt ávarp í Hátíðarsal Háskóla Íslands áður en David Miliband flutti fyrirlestur um "Framtíð Evrópu, efnahagslíf, stjórnmál og sjálfsmynd." Í ávarpinu þakkaði forseti Háskóla Íslands fyrir samvinnu um fyrirlestraröðina Nýir straumar sem forseti stofnaði til fyrir nokkrum árum og þakkaði einnig Miliband fyrir að hafa þegið boðið um að ræða þessi mikilvægu málefni á Íslandi. |
27.09.2012 |
Forseti tekur á móti hópi grænlenskra skólabarna sem eru í heimsókn á Íslandi, m.a. til að læra sund og þjálfa sig í þeirri íþrótt, en sundkennsla er víða erfið á Grænlandi. |
27.09.2012 |
Forseti á fund með efnahagsnefnd NATO-þingsins sem heimsækir Ísland. Rætt var um mikilvægi Norðurslóða og þróun samstarfs á þeim vettvangi, breytta heimsmynd, stöðu Íslands og Evrópusambandið. |
28.09.2012 |
Forseti á fund með formanni og framkvæmdastjóra Rauða Krossins um landssöfnunina Göngum til góðs sem fram fer í næsta mánuði. Þá verða landsmenn heimsóttir og leitað stuðnings við hjálparverkefni í þágu barna í neyð. |
28.09.2012 |
Forseti á fund með Baldvini Jónssyni um kynningu á íslenskum gæðamatvælum, einkum kjötvörum og sjávarafurðum, í Bandaríkjunum, en Baldvin hefur um áraraðir unnið að átaksverkefnum á þessu sviði, m.a. í samvinnu við Whole Food verslunarkeðjuna. |
28.09.2012 |
Forseti flytur ávarp við upphaf landsþings Kvenfélagasambands Íslands sem haldið er í Keflavík. Umræðuefni þingsins er "Félagsauður og heilsa hönd í hönd". Í ávarpi fjallaði forseti um framlag kvenfélaga til samstöðu í byggðum landsins og meðal þjóðarinnar, í bæjum, þorpum og til sveita. Hann tók dæmi af Kvenfélaginu Von á Þingeyri og rakti einnig rannsóknir við Harvard háskóla sem sýna að félagsauður skiptir mestu máli þegar þjóðir þurfa að ná sér eftir áföll. Í þeim efnum hafa kvenfélög og störf þeirra skipt Íslendinga miklu máli. |
29.09.2012 |
Forseti afhendir verðlaun RIFF hátíðarinnar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi listfengi á vettvangi kvikmynda og bera heitið Creative Excellence of Awards. Þau hlaut að þessu sinni Susanne Bier sem verið hefur einn fremsti kvikmyndagerðarmaður Dana. Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri flutti ræðu um verðlaunahafann en viðstaddur var fjöldi erlendra og íslenskra þátttakenda í kvikmyndahátíðinni sem og fulltrúar erlendra og íslenskra fjölmiðla. |
29.09.2012 |
Forseti á fund með Gunnari Smára Egilssyni formanni S.Á.Á. um þörfina á nýrri herferð til að tryggja velferð þeirra þúsunda sem á einn eða annan hátt glíma við afleiðingar áfengisvandans. Þrátt fyrir mikinn árangur meðferða á undanförnum áratugum eru nokkrar þúsundir Íslendinga sem þurfa sérstaka langvarandi aðstoð. Í tengslum við afmælisár S.Á.Á. er rætt um sérstaka herferð í þessu skyni. |
29.09.2012 |
Forseti afhendir forsetamerkið sem veitt er skátum sem náð hafa sérstökum árangri í skátastarfi. Athöfnin fór fram í Bessastaðakirkju og að henni lokinni var skátum og fjölskyldum þeirra sem forsetamerkið hlutu boðið til Bessastaðastofu. Ásgeir Ásgeirsson stofnaði til forsetamerkisins í sinni tíð sem forseti og hefur það nú verið veitt rúmlega 1300 skátum. |
30.09.2012 |
Forseti er viðstaddur hátíðarhöld í Félagsheimili Sjálfsbjargar í tilefni afmælis Halaleikhópsins. Forseti flutti ávarp þar sem hann þakkaði leikhópnum ekki aðeins fyrir góða skemmtun á undanförnum árum heldur einnig fyrir að hafa breytt viðhorfum landsmanna til getu þeirra sem fatlaðir eru. Forseti nefndi einnig nokkrar leiksýningar hópsins sem væru honum sérstaklega minnisstæðar. |
Október
|
01.10.2012 |
Forseti stýrir fundi í ríkisráði þar sem Katrín Júlíusdóttir tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra af Oddnýju Harðardóttur. Myndir |
02.10.2012 |
Forseti á fund í Boston með Alice Rogoff, stjórnanda og stofnanda Norðurslóðaþingsins Arctic Imperative Summit sem haldið var í Alaska fyrr á þessu ári og árið 2011. Rætt var um skipulag reglubundins og víðtæks samráðs allra þeirra sem láta sig málefni Norðurslóða varða, m.a. með því að samstilla ýmsar ráðstefnur og málþing sem á undanförnum árum hafa verið haldin á ólíkum tímum og í ýmsum löndum. Á þann hátt mætti styrkja lýðræðislegan grundvöll stefnumótunar í málefnum Norðurslóða og auðvelda þátttöku sem flestra. Fundurinn var í framhaldi af viðræðum sem fram fóru í Alaska og á Íslandi fyrr á þessu ári. |
03.10.2012 |
Forseti á fund í Columbus með stjórnendum og vísindamönnum við Ohio háskólann um samvinnu skólans við íslenskt fræðasamfélag, einkum á sviði jarðvegsvísinda, vatnsbúskapar og loftslagsmála. Á grundvelli samnings sem gerður var fyrir nokkrum árum milli Háskóla Íslands og Ohio háskólans verði nemendum auðveldað að ljúka sameiginlegri prófgráðu frá báðum háskólunum. Mynd. |
03.10.2012 |
Forseti á fund í Columbus með dr. Lonnie Thompson, prófessor við Ohio háskólann sem er einn af fremstu jöklafræðingum veraldar. Rætt var um framhald samvinnu um rannsóknir á jöklum Himalajasvæðisins en ráðstefna um það efni, The Third Pole Environment Workshop, var haldin á Íslandi í fyrra í boði forseta og Háskóla Íslands. Ráðstefnuna sóttu m.a. vísindamenn frá Indlandi og Kína auk sérfræðinga frá Evrópu og Bandaríkjunum. Mynd. |
03.10.2012 |
Forseti átti í gær, 2. október 2012, fundi með dr. Nitin Nohria, forseta Harvard Business School, og dr. David T. Ellwood, forseta John F. Kennedy School of Government, um þróun Norðurslóða og nauðsyn víðtækrar samvinnu um rannsóknir á því sviði. Mikilvægt væri að fremstu háskólastofnanir Bandaríkjanna tækju höndum saman við fræðasamfélög annarra ríkja á Norðurslóðum. Þar gæti öflugt framlag Harvard háskóla skipt sköpum. Fréttatilkynning. Myndir. |
05.10.2012 |
Forseti ræðir í New York við kanadísku sjónvarpsstöðina Business News Network um lærdóma sem draga má af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna, endurreisn efnahagslífsins, mikilvægi nýsköpunar og tækni í hagkerfi 21. aldar sem og tengsl Íslands við Evrópu. Viðtalinu verður sjónvarpað þriðjudaginn 9. október. Viðtalið á vef stöðvarinnar. |
05.10.2012 |
Forseti á fund í New York með Sven-Olof Lindblad um framtíð ferðaþjónustu á Norðurslóðum, verndun umhverfis og glímuna við loftslagsbreytingar en aukin bráðnun íss og jökla gefur til kynna vaxandi hraða slíkra breytinga. Fyrirtæki Lindblads skipuleggur árlega ferðir um náttúruperlur veraldar, einstök landsvæði í öllum heimsálfum. Það hefur m.a. skipulagt ferðir til Íslands, Svalbarða og um önnur svæði Norðurslóða og Lindblad stjórnaði í ársbyrjun ferð til Suðurskautslandsins sem forseti tók þátt í. Ísland getur á margvíslegan hátt þjónað sem miðstöð ferða um Norðurslóðir þar sem sérstök áhersla er lögð á verndun umhverfis. Lindblad hefur áhuga á því að ræða við íslenska ferðaþjónustuaðila um framtíðarsýn í þessum efnum, sérstaklega með hliðsjón af margvíslegum verkefnum sem á komandi árum verða æ brýnni með vaxandi fjölda ferðamanna. |
05.10.2012 |
Forseti flutti í gær, fimmtudaginn 4. október, ræðu á Heimsþingi um umhverfismál, The 4th International EcoSummit, sem haldið er í Ohio í Bandaríkjunum. Þingið sækja um 1700 sérfræðingar, vísindamenn, umhverfissinnar og athafnamenn frá 76 löndum. Bandaríkin og Kína eru með flesta þátttakendur. Á Heimsþinginu er fjallað um fjölmarga þætti í verndun lífríkis og umhverfi jarðar sem og þær hættur sem nú steðja að vatnsbúskap og fæðuöryggi jarðarbúa, m.a. vegna yfirvofandi loftslagsbreytinga. Ræða forseta. Myndir. Fréttatilkynning. |
06.10.2012 |
Forseti flytur ávarp sem sýnt var á afmælishátíð SÁÁ í Háskólabíói. Í því flutti forseti þakkir þjóðarinnar til SÁÁ sem bjargað hefði þúsundum Íslendinga og glætt líf einstaklinga og fjölskyldna nýrri von. Mikilvægt væri að halda áfram á sömu braut því enn skapaði neysla á áfengi og fíkniefnum gríðarlegan vanda sem m.a. kæmi niður á börnum og fjölskyldum. Ávarp forseta. |
06.10.2012 |
Forseti á fund í New York með Vartan Gregorian, forseta Carnegie stofnunarinnar, um rannsóknir á bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum og Himalajasvæðinu, lærdómana sem árangursríkt samstarf ríkjanna á Norðurslóðum getur fært þjóðum í öðrum heimshlutum og hvernig hægt er að auka samstarf á þessu sviði, sérstaklega með tilliti til aukins samstarfs vísindastofnana og fræðasamfélaga. |
06.10.2012 |
Forseti á fund í New York með Sven-Olof Lindblad um framtíð ferðaþjónustu á Norðurslóðum, verndun umhverfis og glímuna við loftslagsbreytingar en aukin bráðnun íss og jökla gefur til kynna vaxandi hraða slíkra breytinga. Fyrirtæki Lindblads skipuleggur árlega ferðir um náttúruperlur veraldar, einstök landsvæði í öllum heimsálfum. Það hefur m.a. skipulagt ferðir til Íslands, Svalbarða og um önnur svæði Norðurslóða og Lindblad stjórnaði í ársbyrjun ferð til Suðurskautslandsins sem forseti tók þátt í. Ísland getur á margvíslegan hátt þjónað sem miðstöð ferða um Norðurslóðir þar sem sérstök áhersla er lögð á verndun umhverfis. Lindblad hefur áhuga á því að ræða við íslenska ferðaþjónustuaðila um framtíðarsýn í þessum efnum, sérstaklega með hliðsjón af margvíslegum verkefnum sem á komandi árum verða æ brýnni með vaxandi fjölda ferðamanna. |
07.10.2012 |
Forseti tekur á móti sveit evrópskra tónskálda sem sækja fund tónskáldasamtakanna ECSA sem haldinn er á Íslandi. Í ávarpi áréttaði forseti mikilvægi tónmenntunar strax á fyrstu skólaárum nýrra kynslóða. Sú ákvörðun fyrir nokkrum áratugum að gera tónlistarkennslu að skyldunámsgrein í grunnskólum hefði á okkar tíð skilað fjölþættu og skapandi tónlistarlífi. Slíkt væri vitnisburður um að í sérhverju samfélagi byggju hæfileikar til nýsköpunar og menningar. Með samstöðu og markvissri menntastefnu myndu slíkir hæfileikar nýtast til aukinnar fjölbreytni. |
08.10.2012 |
Forseti á fund með forseta FIFA, Joseph S. Blatter, sendinefnd hans og stjórnendum Knattspyrnusambands Íslands um þróun íþróttarinnar á Íslandi, framlag hennar til samfélagsins, einstakra byggðarlaga og þjóðarvitundar. Einnig var rætt um mikilvægi þjálfunar yngstu aldursflokka en FIFA hefur lagt æ meiri áherslu á þann þátt. Forseti FIFA lýsti síðan stefnu sinni um eflingu íþróttarinnar í öðrum heimsálfum, sérstaklega í Asíu og Afríku enda gæti knattspyrna eflt getu og sjálfstraust þjóða sem og stuðlað að alþjóðlegri vitund og samstöðu |
08.10.2012 |
Forseti á fund með Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra Reykjavík Geothermal, um jarðhitaverkefni í ýmsum þjóðlöndum, í Austur-Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, hvernig reynsla og þekking íslenskra vísinda- og tæknimanna getur nýst við virkjun hreinnar orku. |
09.10.2012 |
Forseti ræðir við András Nemeth, blaðamann ungverska tímaritsins hvg um glímu Íslendinga við afleiðingar fjármálakreppunnar, hvaða lærdóma má draga af reynslu síðustu ára og um samspil lýðræðis og fjármálamarkaðar, bæði í ljósi atburða á Íslandi og ástandsins í Evrópu. |
09.10.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Eistlands, hr. Simmu Tiik, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um nána samvinnu landanna og þátttöku forseta í hátíðahöldum í Tallinn á síðasta ári í tilefni af sjálfstæðisafmæli Eistlands. Einnig var fjallað um glímu Eista við fjármálakreppuna og tengslin við önnur ríki við Eystrasalt sem og samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Mynd. |
10.10.2012 |
Forseti á fund með Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands og sérstökum sendiherra forseta Frakklands í málefnum heimskautanna. Rætt var um þróun mála á Norðurslóðum, þörfina á aukinni samvinnu og hvernig hraðfara bráðnun íss hefur á síðustu árum skapað ný vandamál og viðfangsefni. |
10.10.2012 |
Forseti flytur ávarp á samkomu í Gamla bíói í tilefni af Alþjóða heilbrigðisdeginum. Á samkomunni voru veittir styrkir og viðurkenningar ýmsum aðilum fyrir störf að geðheilbrigðismálum og forseti afhenti Kiwanishreyfingarinnar sem byggðist á landssöfnun hennar í þágu geðheilbrigðismála. Í ávarpi sínu hvatti forseti sérstaklega til þess að vaxandi áhersla væri lögð á þarfir barna og unglinga og einnig að efla skilning aðstandenda, vina og vinnufélaga á geðrænum vandamálum nákominna einstaklinga og hvernig hægt sé að leggja þeim lið á braut til bata og farsæls lífs. |
10.10.2012 |
Forseti á fund með Nýsjálendingnum Matt Yallop sem starfað hefur við nýsköpun og sprotafyrirtæki í heimalandi sínu og dvalið á Íslandi undanfarnar vikur til að kynna sér nýsköpun og sprotafyrirtæki. Rætt var um tækifæri smárra þjóða til að vera uppspretta nýjunga í upplýsingatækni og á fleiri sviðum og fjallaði hann um ýmsar hliðstæður milli landanna og hvað Íslendingar og Nýsjálendingar gætu lært hvorir af öðrum. |
10.10.2012 |
Forseti á fund með Sturlu Jónssyni og Arngrími Pálmasyni þar sem þeir röktu reynslu sína og annarra einstaklinga af því að leita réttar síns í glímunni við lánastofnanir, stjórnsýslu og dómskerfi. Þeir hafa átt fjölda funda með fulltrúum lánastofnana og opinberum aðilum þar sem gildi lánasamninga og færslur í veðbókum hafa verið á dagskrá. |
10.10.2012 |
Forseti sækir fyrirlestur Michels Rocards, fyrrum forsætisráðherra Frakka, en hann hefur á undanförnum árum verið sendiherra forseta Frakklands í málefnum heimskautanna. Fyrirlesturinn var fluttur í Hátíðasal Háskóla Íslands og fjallaði um aðild alþjóðasamfélags og ríkja utan Norðurslóða að ákvörðunum um framtíð Norðurslóða, skipan á nýtingu auðlinda svo sem fiskistofna og hvernig tryggja megi verndun umhverfis. Rocard telur að opnun siglingaleiða vegna bráðnunar íss muni knýja á um víðtæka alþjóðlega samvinnu varðandi skipulag slíkra siglinga og byggingu mannvirkja sem þá yrðu nauðsynleg. |
10.10.2012 |
Forseti ræðir við Lísu Pálsdóttur um sögu Staðastaðar sem nú hýsir skrifstofu forsetaembættisins. Viðtalið birtist í útvarpsþættinum Flakki sem að þessu sinni fjallar um Sóleyjargötu en nýlegir þættir hafa fjallað um sögu húsa í nágrannagötum. |
11.10.2012 |
Forseti á fund með Stuart William Gill, nýjum sendiherra Bretlands á Íslandi, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samband landanna á undanförnum árum og áratugum, nýja stöðu á Norðurslóðum og tengsl ríkjanna sem liggja að Norður-Atlantshafi, áhuga ríkja í öðrum í heimsálfum á auðlindum í þessum heimshluta sem og áhrifin sem opnun nýrra siglingaleiða kunna að hafa á viðskiptalíf heimsins. Þá væri einnig mikilvægt að styrkja tengsl á sviði nýsköpunar í upplýsingatækni en ýmis íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum misserum stofnað til árangursríkrar samvinnu í Bretlandi. Mynd. |
11.10.2012 |
Forseti ræðir við Lieven Sioen, blaðamann belgíska dagblaðsins De Standaard, um endurreisn íslensks efnahagslífs og lærdómana sem draga má af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna, samspil lýðræðis og fjármálamarkaða og það að hinn stjórnmálalegi og félagslegi vandi sem efnahagserfiðleikar hafa í för með sér hafi rík áhrif á aðgerðir í þágu endurreisnar. |
12.10.2012 |
Forseti flytur ávarp við upphaf Friðarþings sem Skátahreyfingin á Íslandi efnir til í tilefni af 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi, Reykjavík Peace Þing 2012. Forseti tók síðan þátt í pallborðsumræðum um eflingu friðarstarfs. Skátar frá 7 löndum taka þátt í friðarþinginu. Í ávarpi sínu lýsti forseti hvernig Íslendingum hefði tekist að þróa stöðu sína og samfélag frá fátækt og erlendri stjórn um miðja 19. öld til lýðveldis og framfara á síðari hluta 20. aldar án þess að vopnavaldi eða ofbeldi væri beitt. Þá væri Ísland nútímans sönnun þess að þjóðfélög gætu þrifist vel og verið örugg án hernaðarstarfsemi. Í íslenskri reynslu fælust því mikilvæg skilaboð um að aðferðir friðar, lýðræðis og samstarfs skiluðu árangri. |
13.10.2012 |
Forseti afhendir verðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda en athöfnin fór fram í Háskólanum í Reykjavík. Þátttakendur í keppninni komu úr fjölda grunnskóla í öllum landshlutum. Í ávarpi áréttaði forseti mikilvægi nýsköpunar í samfélagi og hagkerfi 21. aldar. Hugsjónaríkir brautryðjendur hefðu ýtt þessari keppni úr vör fyrir allmörgum árum og nú væri verðlaunaafhendingin komin í Háskólann í Reykjavík. Þar með hefðu grunnskólarnir og háskólasamfélagið tekið höndum saman í nýsköpun. Það væru góð skilaboð til okkar allra. Vefsíða keppninnar. |
14.10.2012 |
Forseti á fund með fyrrum forseta Ghana, John Agyekum Kufuor, og aðstandendum verkefnis sem felur í sér flutning á vatni með skipum til miðstöðva flóttamannahjálpar. Verkefnið er unnið í samvinnu við flóttamannastofnanir, góðgerðasamtök og íslenskt vatnsfyrirtæki. |
16.10.2012 |
Forseti heimsækir höfuðstöðvar sjónvarpsstöðvarinnar Sky News Arabia sem tók til starfa fyrr á þessu ári og er þegar orðin meðal helstu sjónvarpsmiðla í Arabaheiminum. Á hennar vegum starfa nú þegar rúmlega 400 fréttamenn og er sjónvarpsstöðin samstarfsverkefni Sky fréttastöðvarinnar og Abu Dhabi. Markmiðið er að stuðla að traustri og alhliða fréttamennsku og dreifingu upplýsinga um viðburði víða um heim á arabísku. |
16.10.2012 |
Forseti tekur þátt í undirbúningsfundi með starfsfólki Zayed verðlaunanna, Zayed Future Energy Prize, til undirbúnings fundi dómnefndar sem haldinn verður í Abu Dhabi á morgun. Forseti er formaður dómnefndarinnar. Vefsíða verðlaunanna. |
16.10.2012 |
Forseti á fund í Abu Dhabi með dr. Sultan Al Jaber, stjórnanda Masdar og Heimsráðstefnu um hreina orku. Rætt var um samspil bráðnunar íss og jökla og þróunar orkukerfa í veröldinni, nauðsyn þess að efla þekkingu á hvernig bráðnun íss á Norðurslóðum, Himalajasvæðinu og Suðurskautinu hefur áhrif á loftslag um allan heim og hve mikilvægt er að efla nýtingu hreinnar orku. |
17.10.2012 |
Forseti situr fyrir svörum á blaðamannafundi í Abu Dhabi að loknum störfum dómnefndar og ræðir við blöð og sjónvarpsmiðla. Útvarpsviðtal við forseta. |
17.10.2012 |
Forseti stjórnar fundi dómnefndar Zayed verðlaunanna, The Zayed Future Energy Prize, sem haldinn er í Abu Dhabi. Verðlaunin eru veitt fyrir frumkvæði og forystu í nýtingu hreinnar orku og framlag til að auka sjálfbærni í veröldinni. Verðlaunaféð, sem samtals nemur fjórum milljónum Bandaríkjadala, skiptist á milli verðlaunahafa í fjórum flokkum: heiðursverðlaun til einstaklings vegna langrar þjónustu við framangreind markmið; verðlaun til almannasamtaka, baráttusamtaka og fræðastofnana; verðlaun til lítilla eða meðalstórra fyrirtækja sem rutt hafa nýjar brautir á þessu sviði; og verðlaun til unglingaskóla vegna verkefna í þágu sjálfbærni og hreinnar orku en valinn er einn skóli frá hverri heimsálfu. Auk þess hlýtur alþjóðlegt fyrirtæki sérstaka viðurkenningu fyrir framlag sitt á þessu sviði. Heimasíða verðlaunanna. |
18.10.2012 |
Forseti heldur ræðu í kvöldverði sem Adnan Amin, forstjóri Alþjóðastofnunar um hreina orku, IRENA, efnir til með meðlimum nýs viðskiptaráðs stofnunarinnar. Í því sitja áhrifamenn í viðskiptalífi frá ýmsum heimshlutum og er því ætlað að auka áhuga á þeim tækifærum sem felast í arðbærri nýtingu hreinna orkugjafa. Í ræðunni rakti forseti hvernig nýting jarðhita hefur styrkt lífskjör og efnahagslíf Íslendinga, dregið úr kostnaði við húshitun og skapað fjölþætt atvinnutækifæri svo sem í landbúnaði og ferðaþjónustu. Þá væri hlutdeild jarðhita í rafmagnsframleiðslu vaxandi og jarðhitanýtingin væri einnig orðinn grundvöllur verkefna íslenskra sérfræðinga og verkfræðinga í öðrum heimshlutum. |
18.10.2012 |
Forseti á fund með Adnan Amin, forstjóra Alþjóðastofnunar um hreina orku, IRENA (International Renewable Energy Agency), í nýjum höfuðstöðvum hennar í Abu Dhabi. Rætt var um árangur af heimsókn forstjórans til Íslands og áform um að tengja saman nýtingu jarðhita og annarra hreinna orkugjafa við eflingu fæðuöryggis og matvælaframleiðslu í þróunarlöndum. Reynsla Íslendinga af þurrkun sjávarafurða, sem áður var hent en eru nú fluttar út til Afríku, getur orðið grundvöllur að nýjum aðferðum í heitari löndum þar sem matvæli ónýtast oft innan fáeinna daga vegna skorts á geymsluúrræðum. Þá var einnig rætt um áætlanir stofnunarinnar um nýtingu hreinnar orku á fleiri sviðum og alþjóðlegt samstarf á þeim vettvangi. Mikill áhugi er á að nýta fjölþætta reynslu Íslendinga og tæknikunnáttu í þessum efnum. Mynd. |
18.10.2012 |
Forseti heimsækir sólarorkuverið Shams í Abu Dhabi sem verður hið stærsta í veröldinni þegar það tekur að fullu til starfa í byrjun næsta árs. Orkuverið mun framleiða 100 mW og er að flatarmáli á við um 280 fótboltavelli. Orkuverið er samstarfsverkefni Masdar, sem stofnað var á síðasta áratug í Abu Dhabi til að vinna að eflingu hreinnar orku í veröldinni, franska fyrirtækisins Total og spænska fyrirtækisins Abengoa Solar. Í verinu er á ýmsan hátt beitt nýrri tækni sem m.a. hefur verið þróuð á vegum Tækniháskóla Masdar. Forseti hefur um árabil unnið með Masdar að því að efla skilning á nauðsyn hreinnar orku en íslenskir verkfræðingar og tæknimenn unnu á sínum tíma að árangursríkum borunum eftir jarðhita í Abu Dhabi. Með forseta í heimsókninni voru nokkrir dómnefndarmenn Zayed orkuverðlaunanna. Myndir. |
19.10.2012 |
Forseti á fund í Moskvu með Vladimir G. Titov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, og Viktor Tatarinshev, yfirmanni Evrópudeildar rússneska utanríkisráðuneytisins og fyrrum sendiherra Rússlands á Íslandi. Rætt var um fjölmarga þætti í vaxandi samstarfi á Norðurslóðum, árangur af starfi Norðurskautsráðsins, áhrifin af nýjum siglingaleiðum á Norðurslóðum og þörfina á víðtæku samstarfi í þágu þeirra, sem og eflingu samráðsvettvangs fræðasamfélaga, almannasamtaka, vísindastofnana og kjörinna fulltrúa á Norðurslóðum. Þá var einnig rætt um samstarf Íslands og Rússlands á sviði jarðhita en áhugi á því kom fram á fundi forseta með þáverandi forseta Rússlands, Dmitri Medvedev, og þáverandi forsætisráðherra, Vladimir Putin, fyrir tveimur árum. Senn væru 70 ár frá því að Ísland og Rússland tóku upp formlegt stjórnmálasamstarf og fyrirhugaðir ýmsir viðburðir í tilefni af þeim tímamótum. Fundinn sat einnig sendiherra Íslands í Rússlandi, Albert Jónsson, og aðrir embættismenn. Myndin frá fundi forseta með aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands var tekin í salnum þar sem fyrstu viðræðurnar um stofnun Sameinuðu þjóðanna fóru fram. Mynd. |
20.10.2012 |
Forseti situr hádegisverð í boði landkönnuðarins Artur Chilingarov og annarra forystumanna Rússneska landfræðifélagsins þar sem rætt var um hvernig efla mætti samræður og samvinnu ólíkra aðila á Norðurslóðum, m.a. að efna árlega til fjölmenns Norðurslóðaþings þar sem ólíkar stofnanir og samtök gætu haldið fundi og efnt til atburða í eigin nafni um leið og þær tækju þátt í fjölmennari fundum sem opnir væru öllum þátttakendum. Slíkar hugmyndir hafa m.a. verið ræddar við áhrifafólk á sviði Norðurslóðamálaefna í Alaska. Mynd. |
20.10.2012 |
Forseti heimsækir Moskvuháskóla og á fund með Victor Antonovich Sadovnichy, rektor skólans, og stjórnendum vísindastarfs, einkum á sviði Norðurslóðarannsókna og jarðfræði. Rætt var um aukið rannsóknasamstarf á Norðurslóðum og þörfina á öflugri samræðu fræðasamfélags og kjörinna fulltrúa. Þá var einnig reifuð sú hugmynd að Moskvuháskóli héldi í samvinnu við íslenska háskóla og verkfræðifyrirtæki málþing um nýtingu jarðhita á norðursvæðum Rússlands. Rektor kynnti forseta sögu skólans og sýndi honum hátíðarsal og önnur merk salarkynni hinnar frægu byggingar sem mjög setur svip á Moskvuborg. Mynd. |
21.10.2012 |
Forseti á fund með nýjum forseta Finnlands Sauli Niinistö í Helsinki. Á fundinum var rætt um eflingu samstarfs á Norðurslóðum, heimsókn forsetans til Íslands á næsta ári og traust tengsl og vináttu norrænu lýðveldanna, Íslands og Finnlands. Fréttatilkynning. Mynd. |
21.10.2012 |
Forseti sendi í dag heillaóskir til landsliða í hópfimleikum kvenna og stúlkna. Fréttatilkynning. |
23.10.2012 |
Forseti á fund með sendinefnd frá Papúu Nýju Gíneu og fulltrúum Reykjavík Geothermal um nýtingu jarðhita í landinu og þau tækifæri til fjölþættrar efnahagslegrar þróunar sem hún gæti falið í sér. Jafnframt var fjallað um hvernig þróun Íslands frá fátækt fyrri tíðar, reynsla þjóðarinnar við lausn margvíslegra vandamála og glíman við náttúruöflin geti reynst smærri þróunarlöndum uppspretta lærdóms og hvatningar. |
23.10.2012 |
Forseti á fund með Reyni Ingibjartssyni þar sem gerð var grein fyrir sjónarmiðum Hraunavina og annars áhugafólks um verndun Gálgahrauns, náttúru og menningarminja. Mikilvægt sé að framkvæmdir á þessu svæði leiði ekki til þess að fórnað sé stöðum sem hafa mikið gildi í menningar- og listasögu Íslendinga og að hin einstæða náttúra Álftaness sé varðveitt í þágu komandi kynslóða. |
23.10.2012 |
Forseti á fund með stjórnendum Marorku sem unnið hefur hugbúnað til að stuðla að orkusparnaði og hagkvæmri orkunýtingu í skipum. Marorka á í viðræðum við stærsta skipafélag Kína, Cosco, en samvinna Íslands og Kína á þessu sviði var dagskrárefni fundar forseta með forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, í Abu Dhabi fyrr á þessu ári. Einnig var rætt um nýtingu búnaðarins á vegum annarra áhrifaríkra skipafélaga. |
24.10.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Kanada á Íslandi, Stewart Wheeler, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna og aukið mikilvægi Norðurslóða en Kanada tekur næst við formennsku í Norðurskautsráðinu. Margvísleg verkefni verða æ brýnni á þessum vettvangi. Ísland og Kanada, næstu nágrannar Grænlands, eiga einnig í vaxandi samskiptum við stjórnvöld og íbúa Grænlands. Sá háskóli í Kanada, sem Íslendingar hafa einna helst haft samskipti við, Manitobaháskóli, er jafnframt sú fræðastofnun í Kanada sem þróað hefur ítarlegust samskipti við nýjar fræðastofnanir í Nuuk á Grænlandi og háskólann þar. Þá kallar áhugi fjarlægra ríkja á Norðurslóðum á nánari samvinnu. Loks var fjallað um tengslin við Vestur-Íslendinga, Snorraverkefnin og mikilvægi þessarar sameiginlegu sögu fyrir samskipti á nýrri öld. |
24.10.2012 |
Forseti á fund með varautanríkisráðherra Rússlands, Vladimir G. Titov, sem heimsækir Ísland en forseti átti fund með honum í Moskvu í síðustu viku. Rætt var um víðtækt samstarf á Norðurslóðum í framhaldi af samræðum í Moskvu og tillögur um margvísleg verkefni rannsóknarstofnana og vísindasamfélags en ýmsar vísindastofnanir í Rússlandi hafa lýst miklum áhuga á samvinnu við íslenskt fræðasamfélag. Þá var einnig fjallað um undirbúning að opnun nýrra siglingaleiða og skipulag og ráðstafanir sem brýnt væri að taka til skoðunar í því sambandi. Á fundinum var einnig fjallað um jarðhitanýtingu í norðlægum héruðum Rússlands, samvinnu við íslensk verkfræðifyrirtæki, orkufyrirtæki og tæknifólk. Til greina kemur að skipuleggja heimsóknir forystumanna frá ýmsum norðlægum héruðum í Rússlandi til að kynna sér jarðhitanýtingu á Íslandi og efna til vísindaráðstefnu í samvinnu við Moskvuháskóla. Mynd. |
25.10.2012 |
Forseti flytur ræðu við opnun yfirlitssýningar á verkum Gísla B. Björnssonar í Hönnunarsafni Íslands. Ræða. |
25.10.2012 |
Forseti ræðir við Richard Taylor, framkvæmdastjóra Alþjóða vatnsorkusambandsins, International Hydropower Association, um nýtingu hreinnar vatnsorku víða um heim, horfurnar í nýtingu sólarorku og vindorku og vaxandi áhuga margra ríkja á vatnsafli. Einnig var fjallað um reynslu Íslendinga og nauðsyn þess að efla kynningu á eðli og nýtingu hreinnar orku, m.a. fyrir ferðamenn og námsfólk víða að úr veröldinni. Slíkt gæti verið mikilvægt framlag Íslands til umræðunnar á heimsvísu. Í samræðunum tóku einnig þátt stjórnendur Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Verkís en Taylor flutti ræðu á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 80 ára afmæli Verkís. |
25.10.2012 |
Forseti á fund með Anu Aga, aðaleiganda orkufyrirtækisins Thermax, en hún heimsækir Ísland ásamt hópi indverskra kvenna. Fjallað var um fjölþætta nýtingu jarðhita, bæði á sviði orkunýtingar og matvælaframleiðslu í ýmsum héruðum Indlands en Thermax og Reykjavík Geothermal vinna nú að slíku verkefni í Kasmírhéraði. Þá var og fjallað um þróun efnahagslífs á Indlandi. |
26.10.2012 |
Forseti leggur hornstein að Búðarhálsvirkjun og flytur ræðu á hátíðarsamkomu í stöðvarhúsinu. Ræða. Mynd. |
26.10.2012 |
Forseti skoðar undirstöður að tveimur vindmyllum sem Landsvirkjun er að reisa í nágrenni Sultartanga. Um er að ræða tilraunaverkefni sem ætlað er að kanna aðstæður og skilyrði fyrir framleiðslu rafmagns með vindorku á Íslandi. Verkefnastjórinn, Margrét Arnardóttir vélaverkfræðingur, útskýrði verkefnið en áformað er að vindmyllurnar verði komnar í notkun í byrjun næsta árs. Vindmyllurnar eru smíðaðar af þýska fyrirtækinu Enercon og mun hver þeirra framleiða tæplega 1 MW. Mynd. |
26.10.2012 |
Forseti ræðir við fréttamenn frönsku sjónvarpsstöðvarinnar France 24 sem einnig sendir út á ensku og arabísku. Rætt var um nýtingu jarðhita á Íslandi og verkefni íslenskra jarðhitasérfræðinga víða um heim og mikilvægi hreinnar orku fyrir baráttuna gegn loftslagsbreytingum. |
29.10.2012 |
Forseti á fund með Vijay Iyer frá Alþjóðabankanum um nýja áætlun bankans um nýtingu jarðhita í þróunarlöndum en hún er unnin í samvinnu við Íslendinga og með fjárhagslegum stuðningi víða að. Alþjóðabankinn hyggst nýta reynslu og kunnáttu Íslendinga á sviði jarðhita til að hvetja þróunarlönd í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku til að byggja á grundvelli jarðhita í senn framþróun og ný atvinnutækifæri. |
29.10.2012 |
Forseti á fund með forráðamönnum Aqua Omnis um þátttöku í alþjóðaráðstefnu um vatnsskort sem haldin verður í Abu Dhabi í byrjun næsta árs. Ráðstefnan er liður í umræðum um sjálfbærni og þróun hreinnar orku en samspil orku og vatns er eitt af helstu vandamálum margra þjóða heims á komandi áratugum. |
29.10.2012 |
Forseti heimsækir Hlíðaskóla í Reykjavík og tekur þátt í kynningu á Forvarnardeginum ásamt borgarstjóranum í Reykjavík og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, ÍSÍ, UMFÍ, Skátahreyfingarinnar, Félags framhaldsskóla sem og Actavis sem stutt hefur Forvarnardaginn myndarlega. Fréttatilkynning. Myndir. |
30.10.2012 |
Forseti tekur á móti Evrópumeisturum kvenna og stúlkna í hópfimleikum, öðrum þátttakendum í Evrópumótinu sem og forystusveit Fimleikasambands Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. |
30.10.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Brasilíu á Íslandi, hr. Flávio Helmold Macieira, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi ítök Brasilíu í efnahagslífi veraldar, árangur í nýtingu hreinnar orku og jafnframt mikilvægi Norðurslóða fyrir nýtingu auðlinda, siglinga og samskipti á þessari nýju öld. Jafnframt var minnst á íslensku landnemana sem settust að í Brasilíu en hópur afkomenda þeirra heimsótti Ísland fyrir nokkrum árum. Mynd. |
30.10.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Ekvadors á Íslandi, hr. Mario Aníbal Guerrero Murgueytio, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um áhuga á samstarfi við Ísland á sviði jarðhitanýtingar en mikil tækifæri eru á þeim vettvangi í Ekvador. Þá var fjallað um þróun efnahagslífs, einkum eftir að landið tók upp Bandaríkjadal sem mynt, sem og möguleika á samskiptum á sviði menningar og lista. Mynd. |
30.10.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Úrúgvæs á Íslandi, hr. Nestor Julio Moreira Morán, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um þróun efnahagslífs og stjórnmála í Úrúgvæ og samstarf ríkja í Suður-Ameríku, útflutning á íslenskri tækni til matvælaframleiðenda í Úrúgvæ og hugsanlega þátttöku listafólks í menningarhátíðum sem haldnar eru á Íslandi. Mynd. |
30.10.2012 |
Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu sem haldin er í samstarfi stjórnvalda, háskóla og rannsóknarstofnana. Forseti afhenti einnig nýsköpunarverðlaun og viðurkenningar fyrir nýjungar í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. |
31.10.2012 |
Forseti heimsækir á Forvarnardaginn skóla á Suðurnesjum: Grunnskólann í Sandgerði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Myllubakkaskóla. Fréttatilkynning. Myndir. Sjá einnig myndir og frásögn á vef Víkurfrétta. |
Nóvember
|
01.11.2012 |
Forseti ýtir úr vör í Smáralind sölu á Neyðarkallinum sem Slysavarnafélagið Landsbjörg selur þessa dagana um allt land í fjáröflunarskyni. Eftir að hafa keypt nokkra Neyðarkalla tóku forsetahjónin ásamt félögum Landsbjargar þátt í sölu Neyðarkallsins í Smáralind. |
02.11.2012 |
Forseti situr hátíðarkvöldverð Skátahreyfingarinnar á Íslandi í tilefni af aldarafmæli skátastarfs í landinu og flytur ávarp. Þakkaði hann Skátahreyfingunni fyrir framlag hennar til þjóðlífs og æskulýðsmála, uppeldis og mannræktar. Skátahreyfingin hefði í áratugi sett sterkan svip á hátíðarhöld þjóðarinnar, 17. júní og sumardaginn fyrsta, og væri þannig samofin sjálfsmynd þjóðarinnar og mannlífi í byggðarlögum. Skátahreyfingin væri einnig burðarás í þeim félagsauði sem nýst hefði Íslendingum vel og á síðari árum í æ ríkara mæli öflugur fulltrúi landsins í alþjóðlegu æskulýðs- og friðarstarfi. Forseti flutti Skátahreyfingunni þakkir Íslendinga fyrir framlag hennar. |
02.11.2012 |
Forseti tekur á móti hópi vísindamanna víða að úr veröldinni sem taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um fjarkönnun á vegum IEEE Geoscience and Remote Sensing Society. Prófessor Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, er forystumaður þessa alþjóðlega samstarfs sem meðal annars beinist að því að skapa áreiðanlegar upplýsingar um breytingar á loftslagi, hlýnun jarðar, jarðskjálfta og höfuðeinkenni í náttúru jarðar. |
02.11.2012 |
Forseti er viðstaddur athöfn á Kjarvalsstöðum í tilefni af aldarafmæli skátastarfs á Íslandi. Meðal ræðumanna voru Bragi Björnsson skátahöfðingi og Jón Gnarr borgarstjóri og viðstaddir voru margir af forystumönnum Skátahreyfingarinnar á undanförnum áratugum. |
02.11.2012 |
Forseti er viðstaddur samkomu í Gamla iðnaðarmannahúsinu þar sem Skátasamband Reykjavíkur minnist þess að 100 ár eru liðin frá stofnun fyrsta skátafélagsins á Íslandi. Samkoman var haldin að lokinni afhjúpun á minningarskildi á Fjósinu við Menntaskólann í Reykjavík. |
02.11.2012 |
Forseti er viðstaddur athöfn við Menntaskólann í Reykjavík þegar afhjúpaður er skjöldur á Fjósinu til minningar um að 100 ár eru í dag liðin frá því fyrsta skátafélagið á Íslandi var stofnað í því húsi. |
02.11.2012 |
Forseti tekur á móti hópi fólks frá Starfsmannafélagi Landspítalans og ræðir við hann um sögu Bessastaða og hvernig hún endurspeglar þróun samfélags og lífskjara. |
04.11.2012 |
Forseti sækir lokaviðburð Iceland Airwaves hátíðarinnar, tónleika Sigur Rósar í Laugardalshöll. |
07.11.2012 |
Forseti á fund með Hjálmari W. Hannessyni sendiherra, sem er fulltrúi Íslands í Norðurskautsráðinu, um margvísleg málefni sem þar eru til meðferðar, mikilvægi Norðurslóða í utanríkisstefnu Íslendinga á nýrri öld, samstarf við Norðurlönd, Rússland, Bandaríkin og Kanada á þeim vettvangi sem og áhuga ríkja í fjarlægum heimsálfum á þróun nýrra siglingaleiða og nýtingu auðlinda á Norðurslóðum. |
07.11.2012 |
Forseti á fund með Ómari H. Kristmundssyni, deildarforseta stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands sem einnig er stjórnarformaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við skólann. Rætt var um hvernig reynsla Íslendinga á sviði margvíslegrar stjórnsýslu gæti nýst smáum og meðalstórum ríkjum, einkum í þróunarlöndum, en forseti reifaði slíkar hugmyndir nýlega í ávarpi á ráðstefnu sem bar heitið "Nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Betri lausnir fyrir fólk og samfélag". Innan Háskóla Íslands er samstarfsvettvangur um málefni smárra ríkja og á þessu sviði gæti einnig skapast samstarf við alþjóðastofnanir og samtök sem vinna að þróunarmálum. Einnig var rætt um stöðu stjórnmálafræðinnar á Íslandi, þátttöku stjórnmálafræðinga í almennum umræðum og mikilvægi fræðilegs sjálfstæðis. |
07.11.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um árangur af vaxandi samstarfi þjóðanna, einkum á sviði loftslagsrannsókna, vísinda og nýtingar hreinnar orku. Heimsókn forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, fyrr á þessu ári hefði styrkt tengsl þjóðanna og lagt grundvöll að nýjum verkefnum, m.a. varðandi framtíð Norðurslóða. Sendiherrann lýsti ánægju með árangur Íslendinga í glímunni við fjármálakreppuna og samningur Seðlabanka Kína og Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisskipti hefði verið vísbending um aukið mikilvægi viðskipta og tækni í samskiptum landanna. |
07.11.2012 |
Forseti sendir forseta Bandaríkjanna heillaóskir frá sér, Dorrit og íslensku þjóðinni í tilefni af sigri hans í forsetakosningunum. Í kveðjunni áréttaði forseti Íslands að vinátta og samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna eigi sér djúpar rætur og hvetur til aukinnar samvinnu á komandi árum, einkum í málefnum Norðurslóða og um nýtingu hreinnar orku. Fréttatilkynning. |
08.11.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Fertil, sem er vettvangur áhugamanna um byggingu áburðarverksmiðju á Íslandi. Verksmiðjan myndi nýta myndi hreina orku og vatnslindir til að framleiða áburð, bæði til útflutnings og til að tryggja framboð á áburði innanlands, einkum í ljósi vaxandi eftirspurnar eftir áburði á veraldarvísu og þarfarinnar á að tryggja fæðuöryggi jarðarbúa. |
08.11.2012 |
Forseti á fund með hópi áhugamanna um stöðu þjóðarbúsins á komandi árum í ljósi framgöngu kröfuhafa bankanna, einkum erlendra vogunarsjóða. Rætt var um skipan gjaldeyrismála og gagnsemi gjaldeyrishafta sem varið geti þjóðarbúið gagnvart aðferðafræði kröfuhafanna. |
08.11.2012 |
Forseti afhendir Íslensku markaðsverðlaunin á árlegri samkomu ÍMARK. Í ávarpi áréttaði forseti þau mikilvægu skilaboð um árangur og starf fyrirtækja sem verðlaunin fælu í sér á hverju ári. Einnig væri athyglisvert að þau þrjú fyrirtæki sem nú væru tilnefnd til verðlaunanna , Marel, Mjólkursamsalan og Ölgerðin ættu sér öll djúpar rætur og merkilegan feril í atvinnusögu Íslendinga. Markaðsmaður ársins var valin Liv Bergþórsdóttir framkvæmdastjóri NOVA. Marel var síðan valið markaðsfyrirtæki ársins. |
08.11.2012 |
Forseti á fund með Gissuri Guðmundssyni forseta alþjóðasamtaka matreiðslumanna, WACS og hinum þekkta matreiðslumanni Rick Moonen. Rætt var um alþjóðastarf matreiðslumanna í þágu fæðuöryggis og baráttunnar fyrir betri nýtingu matvæla og verndun lífríkis og náttúruauðlinda. Rick Moonen er meðal þekktustu matreiðslumanna í Bandaríkjunum og stjórnarmaður í frönsku matreiðslustofnuninni. |
09.11.2012 |
Forseti sækir málþing sem haldið er í Hátíðasal Háskóla Íslands en það er hið fyrsta í röð funda um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands. Að fundaröðinni standa auk Háskóla Íslands Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst. Upptaka frá málþinginu. |
09.11.2012 |
Forseti sækir árlega styrktartónleika Lionsklúbbsins Fjörgynjar og Lionsklúbbsins Foldar í Grafarvogskirkju sem haldnir eru til stuðnings Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL. |
13.11.2012 |
Forseti á fund með sendiherra Kólumbíu, frú María Dora Victoriana Mejía Marulanda, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um árangur Kólumbíu á sviði efnahagslífs og orkunýtingar, einkum á sviði vatnsorku, og möguleika á nýtingu jarðhita. Ennfremur var rætt um efnahagslega samvinnu ríkjanna í latnesku Ameríku og árangur af viðskiptatengslum ríkjanna beggja megin Kyrrahafs. Mynd. |
13.11.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Malasíu, hr. Dato' Badruddin Bin Ab. Rahman, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um fjármálakreppuna í Asíu á síðasta áratug 20. aldar þegar Malasía fylgdi annarri stefnu en þá var ríkjandi hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðum og öðrum alþjóðlegum fjármálastofnunum. Árangur Malasíu og Íslands í glímunni við fjármálakreppu sýndi að frávik frá þeim leiðum, sem voru ríkjandi í alþjóðlegri stefnumótun fyrri ára, hafa reynst farsæl. Þá var einnig rætt um samstarf á sviði orkumála og fiskveiða og áhuga ríkja í Asíu á framtíð Norðurslóða. Mynd. |
13.11.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Litháens, hr. Vytautas Pinkus, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samstarf Íslands við Litháen og önnur Eystrasaltsríki sem og samráð Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á alþjóðavettvangi. Einnig var fjallað um áherslu Litháens á breytingar á orkukerfi til að auka sjálfstæði og svigrúm landsins á því sviði. Mynd. |
14.11.2012 |
Forseti flytur ávarp í afmælishófi Heyrnarhjálpar sem haldið er í tilefni af 75 ára afmæli félagsins. Í ávarpinu þakkaði forseti Heyrnarhjálp fyrir brautryðjandastarf og forystu í fræðslumálum og rakti hve frábrugðið samfélagið var okkar tímum á fyrstu áratugum félagsins; nú væri fjölþætt aðstoð látin í té, m.a. á grundvelli þeirra tækninýjunga sem orðið hafa á undanförnum árum. |
15.11.2012 |
Forseti er viðstaddur opnun ATMO þar sem um sextíu íslenskir hönnuðir kynna og selja fatnað, húsmuni og aðrar afurðir íslenskrar hönnunar. Markmið ATMO er að auðvelda aðgang að íslenskri hönnun, auka veg hennar og virðingu og aðstoða íslenska hönnuði við að koma vörum sínum á framfæri. |
15.11.2012 |
Forseti afhendir Nýsköpunarverðlaun SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar og flytur ávarp um mikilvægi nýsköpunar í íslenskri ferðaþjónustu. Verðlaunin hlaut Pink Iceland sem sérhæfir sig í þjónustu fyrir samkynhneigða ferðalanga og kynningu á mannréttindum og öðrum félagslegum réttindum. |
15.11.2012 |
Forseti á fund með forsvarsmönnum Sjóminjasafnsins í Reykjavík og Hollvinafélags varðskipsins Óðins um varðveislu skipsins og um mikilvægi þess fyrir sögu sjávarútvegs og landhelgisbaráttu enda hefur skipið verið mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu og fræðslustarfsemi eftir að það kom í vörslu safnsins. |
15.11.2012 |
Loftslagsstofnun Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, The Climate Reality Project, stendur nú fyrir sólarhringsútsendingu frá öllum heimsálfum um samspil loftslagsbreytinga og hamfaraveðurs. Útsendingin hófst klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma með upphafsþætti frá New York og henni lýkur á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma. Forseti tók klukkan fimm í morgun þátt í beinni útsendingu þar sem fram fóru samræður sem helgaðar voru bráðnun íss á Norðurslóðum og breytingum á jöklum á Íslandi, Grænlandi og í Alaska. Forseti mun einnig klukkan níu í kvöld taka þátt í samræðum um Suðurskautslandið, bráðnun íshellunnar og áhrif á hækkun sjávarborðs en forsetinn fór í upphafi þessa árs í fræðsluleiðangur til Suðurskautslandsins sem Al Gore stjórnaði. Vefslóð útsendingarinnar. Fréttatilkynning. |
16.11.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum sveitarfélaga á Langanesi og verkfræðistofunnar Eflu um áhrif nýrra siglingaleiða um Norðurslóðir á stöðu Íslands og tækifæri til nýsköpunar í atvinnulífi á komandi áratugum. |
18.11.2012 |
Forseti sækir tónleika í Hofi á Akureyri sem efnt var til í tengslum við landssöfnun til styrktar sauðfjárbændum norðanlands sem urðu fyrir miklum búsifjum og tjóni í hamfaraveðrinu í september. Forseti flutti ávarp þar sem hann ítrekaði samstöðu landsmanna með sauðfjárbændum enda hefðu Íslendingar jafnan staðið við bakið á þeim sem þyrftu að glíma við afleiðingar hamfara í náttúrunni. |
18.11.2012 |
Forseti tekur þátt í athöfn við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í tilefni af alþjóðlegum minningardegi fórnarlamba umferðarslysa. Forseti flytur ávarp og að því loknu er einnar mínútu þögn klukkan 11:15. Fjölmargir aðilar standa að minningardeginum og eru landsmenn hvattir til þátttöku. Það sem af er þessu ári hafa sjö manns látist í umferð á Íslandi og á síðastliðnum tíu árum hafa 188 látist í umferðarslysum og um 1700 hlotið mikil meiðsli. |
19.11.2012 |
Forseti heimsækir Framhaldsskólann á Laugum og ræðir við nemendur um kosti skóla í dreifðum byggðum þar sem menn kynnast náttúru og mannlífi á annan hátt en í þéttbýlinu. Nemendur gerðu grein fyrir námi og félagslífi í skólanum, íþróttaiðkun og tónlistarlífi. Myndir. Sjá einnig frásögn á vefmiðli Þingeyinga, 641.is. |
19.11.2012 |
Forseti heimsækir sauðfjárbændur á Skútustöðum II, Björn Yngvason, Ástu Lárusdóttur og Ingibjörgu Björnsdóttur, og bændur á Baldursheimi, Eyþór og Böðvar Péturssyni, og kynnti sér viðbrögð bænda við illviðrinu í vetrarbyrjun, áföllin og tjónið sem fólk varð fyrir sem og hvaða lærdóma má draga af þessari reynslu. Myndir. Sjá einnig frétt á vefmiðlinum 641.is. |
19.11.2012 |
Forseti heimsækir Reykjahlíðarskóla við Mývatn þar sem fjölmörg börn úr sveitinni stunda nám. Rætt var um reynslu þeirra af hamförunum í vetrarbyrjun og kosti smærri skóla til sveita. Myndir. Sjá einnig frétt á vefmiðlinum 641.is og myndir á vef Reykjahlíðarskóla. |
19.11.2012 |
Forseti á fund í aðgerðamiðstöð sýsluskrifstofunnar á Húsavík með sýslumanninum Svavari Pálssyni og fulltrúum Landsbjargar, Rauða krossins og Samstarfshóps um áfallahjálp og fulltrúum fleiri aðila sem tóku saman höndum til að aðstoða bændur við að bjarga fé í kjölfar ofsaveðursins í byrjun september. Meðal annars var rætt að mikilvægt var að aðstoða fjölskyldur og íbúa til sveita vegna þess álags sem hamförunum fylgdi. Á fundinum voru einnig Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, og Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri sömu samtaka. Meginlærdómur aðgerðanna var að hin öflugu tengsl við marga þætti samfélagsins væri lykillinn að því að lögregla og aðrar opinberar stofnanir gætu náð árangri í glímunni við afleiðingar slíkra hamfara. Myndir. Sjá einnig frétt á vefmiðlinum 641.is. |
19.11.2012 |
Forseti og forsetafrú heimsækja í dag og á morgun þriðjudag sauðfjárbændur í Þingeyjarsýslu, Skagafirði og Húnaþingi sem glímt hafa við afleiðingar veðuráhlaupsins í vetrarbyrjun og háð harða baráttu við að ná fé úr fönn. Margir hafa misst verulegan hluta bústofns síns. Þá munu forsetahjónin heimsækja tvo grunnskóla til sveita sem og Framhaldsskólann á Laugum og Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki. Fréttatilkynning. |
20.11.2012 |
Forseti heimsækir sauðfjárbændur á Stóru-Giljá í Húnaþingi en þeir misstu á annað hundrað fjár í kjölfar óveðursins í september. Rætt var um vanda bænda í Húnaþingi, lærdóma sem draga má af viðbrögðum við veðurofsanum og fannferginu ásamt nauðsyn þess að gera ítarlegar áætlanir um samstillingu hinna ýmsu aðila sem þurfa að koma að slíkum björgunar- og hjálparverkefnum í framtíðinni. Myndir. |
20.11.2012 |
Forseti heimsækir Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og ræðir við nemendur og kennara á sal; hann áréttaði hve vel Fjölbrautaskólanum hefði tekist að nýta aðstöðuna í Skagafirði til að skapa fjölþætt námsframboð fyrir ungt fólk á Norðurlandi. Í samræðum nemenda og forseta bar margt á góma: samspil skóla og samfélags, auðlindir náttúrunnar, loftslagsbreytingar, Evrópusambandið og breytingar á stjórnarskránni. Myndir. |
20.11.2012 |
Forseti heimsækir Grunnskólann austan Vatna í Sólgörðum og fræðist um starfið í hinum litla sveitarskóla, ræðir við nemendur og kennara og hlýðir á dagskrá um sögu skólans. Í heimsókninni áréttaði forseti mikilvægi þess að styrkja skólastarf í dreifðum byggðum því að sveitarskólar af þessu tagi sköpuðu fjölbreytileika í námi og fælu í sér margvíslega lærdóma um samspil skóla, samfélags og náttúru. Myndir. |
20.11.2012 |
Forseti heimsækir Brúnastaði í Fljótum og ræðir við sauðfjárbændur um glímuna við veðurofsann í vetrarbyrjun, skipulag hjálparstarfs og aðstoðar og um fjárhagsvanda bænda jafnframt því sem heimilisfólk kynnti forseta ýmsar nýjungar í sauðfjárbúskapnum. Myndir. |
21.11.2012 |
Forseti á fund með Helen Ólafsdóttur, starfsmanni Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP), um hvernig reynsla Íslendinga af þurrkun sjávarfangs geti nýst í þróunarlöndum til að styrkja fæðuöryggi. Forseti lagði fram greinargerð sem tekin hefur verið saman um aðferðir Íslendinga og íslenskra fyrirtækja og þróun þeirra sem og samskipti við neytendur í Afríku. Verkefnið var einnig fyrir skömmu rætt við forstjóra IRENA, Adnan Amin, en þeirri stofnun er ætlað að efla nýtingu hreinnar orku í þágu efnahagslegra framfara, einkum í þróunarlöndum. |
22.11.2012 |
Forseti á fund með Felix H. Tschudi sem hefur beitt sér fyrir auknu samstarfi á Norðurslóðum með sérstakri áherslu á nauðsyn þess að skipuleggja nýjar siglingaleiðir og efla tengsl forystusveita í atvinnulífi, bæði í ríkjum Norðurslóða og í öðrum heimshlutum. Forseti gerði grein fyrir hugmyndum um nýjan samráðs- og samstarfsvettvang sem tengt gæti saman þá fjölmörgu aðila sem nú fjalla um málefni Norðurslóða. |
22.11.2012 |
Forseti flytur ávarp á afmælisráðstefnu Sjómannadagsráðs í tilefni af 75 ára afmæli þess. Á ráðstefnunni var fjallað um þjónustu við aldraða, lærdóma sem draga má af reynslu fyrri tíðar en einkum framtíðarsýn og skipulag í tengslum við breytt viðhorf og nýja samfélagshætti. |
24.11.2012 |
Forseti ræðir við Richard Quest, fréttamann alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarinnar CNN en hann sérhæfir sig í umfjöllun um efnahagslíf, viðskipti og ferðaþjónustu. Áformað er að gera nokkra þætti um íslensk málefni og ræddu forseti og Richard Quest m.a. um endurreisn íslensks efnahagslífs, framtíð þjóðarinnar og auðlindir og samspil lýðræðis og markaðar. Þá heimsóttu þeir einnig virkjanasvæðið í Svartsengi og Bláa lónið, skoðuðu gróðurhús ORFs og hlýddu á Mótettukórinn syngja í Hallgrímskirkju. Þættirnir verða sendir út á CNN í síðari hluta desember en Richard Quest hefur dvalið þrjá daga á Íslandi við þáttagerðina. |
27.11.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Rauða krossins á Akranesi og fulltrúum nokkurra samfélaga innflytjenda um vaxandi þátt fjölmenningar í íslensku samfélagi, vandamál sem innflytjendur glíma við og hvernig hægt er að greiða götu þeirra. Sérstaklega var rætt um mikilvægi þess að innflytjendur ættu greiðan aðgang að kennslu í íslensku og nytu til þess aðstoðar jafnframt því sem reynt væri að tryggja að þeim væri ekki mismunað við leit að atvinnu. |
27.11.2012 |
Forseti ræðir við hóp nemenda í stjórnmála- og félagsfræði frá Menntaskóla Borgarfjarðar sem heimsækja Bessastaði. Rætt var um stöðu forsetaembættisins og störf forseta í ljósi breytinga á íslensku samfélagi og alþjóðlegum samskiptum, tillögur um nýja stjórnarskrá sem og sögu staðarins. Myndir. |
27.11.2012 |
Forseti flytur ávarp og vígir nýjan umhverfisvænan bor Jarðborana og gaf honum nafnið Þór. Borinn er sá fyrsti sem knúinn er rafmagni og hefur einnig getu til að bora á þann hátt að dregið er úr jarðraski og áhrifum á umhverfi. Athöfnin fór fram á borsvæði HS Orku á Reykjanesi og að henni lokinni skoðaði forseti borinn. Myndir. |
27.11.2012 |
Forseti ræðir við Önnu Ingólfsdóttur sem afhendir honum bókina Makalaust líf sem hún hefur skrifað ásamt Guðfinnu Eydal og séra Jónu Hrönn Bolladóttur. Bókin fjallar um úrvinnslu sorgar og uppbyggingu við makamissi. |
27.11.2012 |
Forseti hefur tekið sæti í ritstjórn Árbókar Norðurslóða, Arctic Yearbook, sem ýtt var úr vör í gær með útgáfu fyrstu árbókarinnar. Árbók Norðurslóða er ætlað að vera vettvangur fyrir stefnumótandi greinar, umræðu og rannsóknir sem snúa að framtíð Norðurslóða. Ritstjórnina skipa fræðimenn frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kanada, Kína og Norðurlöndum auk formanns Norðurskautsráðsins. Fréttatilkynning. |
28.11.2012 |
Forseti ræðir við fjölmenna sendinefnd frá Alaska sem heimsótt hefur Ísland undanfarna daga til að kynna sér nýtingu hreinnar orku, fiskveiðar, stjórnsýslu og félagslega stefnumótun. Í sendinefndinni eru þingmenn af Alaskaþingi, athafnamenn, sérfræðingar og fræðimenn. Heimsóknin er skipulögð af Norðurstofnuninni í Alaska. Auk þeirra tók sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi þátt í samræðunum. |
28.11.2012 |
Forseti á fund með framkvæmdastjóra Norðurstofnunarinnar í Alaska, Institute of the North, sem stofnuð var á sínum tíma af Walter J. Hickel, fyrrum ríkisstjóra Alaska, til að efla samvinnu á Norðurslóðum. Rætt var um leiðir til að tengja saman þá fjölþættu starfsemi og stefnumótun sem nú fer fram á Norðurslóðum. |
28.11.2012 |
Forseti flytur ávarp og afhendir viðurkenningar og heiðursverðlaun á samkomu Lagnafélags Íslands. Viðurkenningar hlutu fjölmörg fyrirtæki sem komið hafa að lagnakerfi Hörpu auk þess sem Valdimar K. Jónsson og Steinn Þorgeirsson hlutu sérstök heiðursverðlaun. Heimasíða Lagnafélagsins. |
28.11.2012 |
Forseti á fund með forstjóra Hörpu, Halldóri Guðmundssyni, um starfsemi hússins, tónleikahald, menningarviðburði og ráðstefnur sem og tækifæri sem þetta allt skapar til að efla alþjóðlegt ráðstefnuhald á Íslandi. |
29.11.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Iceland Petroleum um olíuleit og möguleika á nýtingu íslenskrar verkfræðikunnáttu og rannsókna fræðasamfélagsins í þágu olíuleitar, bæði á Norðurslóðum og annars staðar í veröldinni. Á sama hátt og íslensk tækniþekking er nú nýtt víða um heim m.a. á sviði jarðhita gæti slík samvinna á vettvangi olíuleitar skapað íslenskum tæknifyrirtækjum ný tækifæri. Staða Íslands á Norðurslóðum sé einnig mikilvæg í þessu sambandi. |
29.11.2012 |
Forseti á fund með dr. Mustafa Barghouthi og stjórnendum félagsins Ísland-Palestína þar sem fjallað var um nýleg átök milli Ísraels og Gaza, nauðsyn þess að koma á sameiginlegri stjórn Palestínu og nýta næstu ár í þágu friðar og sjálfstæðis Palestínu. Jafnframt þakkaði Barghouthi fyrir stuðning Íslendinga við Palestínumenn, viðurkenninguna á rétti þeirra til sjálfstæðs ríkis og baráttu á alþjóðlegum vettvangi. |
29.11.2012 |
Forseti á fund með Andrew Zolli, stofnanda og stjórnanda PopTech! og höfundar bókarinnar Resilience sem fjallar um viðbrögð samfélaga við áföllum og hamförum. Rætt var um reynsluna af hamfaraveðrum víða um heim á undanförnum misserum og björgunar- og hjálparkerfið sem þróað hefur verið á Íslandi en stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa falið Zolli að gera tillögur um endurskipulagningu hjálparstarfs í kjölfar hamfaraveðra. Þá var einnig fjallað um lærdómana af PopTech! ráðstefnunni sem haldin var á Íslandi fyrr á þessu ári og möguleika Íslands til að vera vettvangur fyrir samræður og stefnumótun á sviði upplýsingatækni og nýsköpunar. |
30.11.2012 |
Forseti flytur ávarp og afhendir viðurkenningar Fjölskylduhjálpar Íslands til fyrirtækja og fjölmiðla sem stutt hafa við hjálparstarf hennar í þágu þeirra sem skortir mat, fatnað og aðrar nauðsynjar. Heimasíða Fjölskylduhjálparinnar. |
Desember
|
01.12.2012 |
Forseti tekur á móti Alþingismönnum í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember. |
01.12.2012 |
Forseti tekur á móti fulltrúum stúdenta við háskóla landsins og forystusveit skólanna í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember. |
01.12.2012 |
Forseti er viðstaddur hátíð brautskráðra doktora við Háskóla Íslands og flytur ávarp í lok hennar þar sem hann áréttaði mikilvægi doktorsnáms og rannsókna fyrir þróun háskólasamfélagsins á Íslandi og tengsl okkar við fræðastofnanir annarra landa. Mikil breyting hefði orðið í þessum efnum á undanförnum árum og sérstaklega gleðilegt hve margir erlendir fræðimenn kysu nú að ljúka doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Í því fælist mikil viðurkenning. |
10.12.2012 |
Forseti flytur ræðu um þróun mála á Norðurslóðum á hádegisverðarfundi sem Íslenskt kolvetni og Faroe kolvetni efndu til í London í tilefni af því að nýlega voru veitt leyfi til rannsókna á Drekasvæðinu. Í ræðunni fjallaði forseti um samvinnu á Norðurslóðum, samninga sem gerðir hafa verið á vegum Norðurskautsráðsins, meðal m.a. til að verjast mengun, áhuga ríkja í öðrum heimshlutum á nýtingu auðlinda á Norðurslóðum og hvaða áhrif nýjar siglingaleiðir gætu haft á heimsviðskipti. Þá áréttaði forseti árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku, vatnsafls og jarðhita. Mikilvægt væri að farið yrði varlega við nýtingu auðlinda á Norðurslóðum og áríðandi að víðtæk samvinna og umhverfisvernd væru leiðarljós á næstu árum. Að lokinni ræðu forseta kynnti yfirmaður rannsókna Faroe kolvetni jarðfræði Drekasvæðisins og áform um frekari rannsóknir. |
11.12.2012 |
Forseti á fund með fulltrúum Bremenhafna, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og verkfræðistofunnar Eflu um athuganir á þróun hafna á norðausturhluta Íslands með tilliti til aukinna siglinga um Norðurslóðir. Þær myndu stytta leiðina milli Asíu og Evrópu og milli Asíu og Bandaríkjanna verulega. Slíkar siglingar í kjölfar bráðnunar íss á Norðurslóðum gætu breytt grundvelli heimsviðskipta og flutninga á svipaðan hátt og Suezskurðurinn gerði á sínum tíma. Lega Íslands gæti á margan hátt verið hagkvæm fyrir hafnir sem myndu þjónusta vaxandi vöruflutninga um þessar leiðir. |
11.12.2012 |
Forseti á fund með Sigurði Jónssyni frá Ísafirði um ferðaþjónustu í formi skútusiglinga, jöklaferða og náttúruskoðunar á Jökulfjörðum vestra og meðfram ströndum Grænlands. Vaxandi áhugi víða um heim á ferðum um Norðurslóðir skapar fjölþætt tækifæri á þessu sviði. |
11.12.2012 |
Forseti á fund með Kára Stefánssyni og forsvarsmönnum Amgen lyfjafyrirtækisins um kaup þess á Íslenskri erfðagreiningu, framtíð rannsóknastarfsemi á hennar vegum og mikilvægi þess að Ísland verði áfram vettvangur mikilvægra rannsókna á þessu sviði. Einnig var rætt um áætlanir fyrirtækisins og þær vonir sem það bindur við starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar enda hafi sá árangur sem fyrirtækið hafi náð á undanförnum árum skapað því algjöra sérstöðu hvað snertir rannsóknir í mannerfðafræði og framlag á þeim vettvangi til þróunar lyfja og lækninga. |
11.12.2012 |
Forseti ræðir við Joe Lynem, fréttamann umræðuþáttarins Newsnight á BBC, um endurreisn efnahagslífsins í kjölfar bankahrunsins, lærdóma sem draga má af glímu Íslendinga við kreppuna, nýtingu hreinnar orku og samspil lýðræðis og markaðar. |
11.12.2012 |
Forseti tekur á móti börnum úr Álftanesskóla, Holtakoti og Krakkakoti sem taka þátt í því að kveikja á jólatrjám fyrir utan Bessastaðastofu. Myndir. |
12.12.2012 |
Forseti sækir Jólahátíð fatlaðra sem haldin er að frumkvæði André Bachman. Fjöldi tónlistarmanna kom fram og um þúsund gestir sóttu hátíðina, fatlaðir og fjölskyldur þeirra, og einnig aðstoðarfólk. Hátíðin er nú haldin í þrítugasta sinn og í ávarpi þakkaði forseti frumkvöðli hennar og öllum þeim sem að henni hafa staðið; hátíðin bæri í sér skilaboð um samstöðu og samhjálp, kærleika og vináttu; lærdóma sem allri þjóðinni væru mikilvægir. |
13.12.2012 |
Forseti á fund með nýjum sendiherra Kína, Ma Jisheng, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samskipti landanna, árangur funda með forseta og forsætisráðherra Kína á undanförnum árum, samstarf á sviði orkunýtingar, umhverfisrannsókna, m.a. á ís og jöklum Norðurslóða og Himalajafjalla, hátækni og upplýsingatækni og ferðaþjónustu. Þá var einnig fjallað um nauðsyn þess að ljúka samningum um fríverslun milli Íslands og Kína og efla tengsl í listum og menningu. Að loknum fundinum var móttaka fyrir fulltrúa fjölmargra aðila, stofnana, fyrirtækja og samtaka sem eiga samskipti við Kína. Mynd. |
14.12.2012 |
Forseti afhendir Íslensku bjartsýnisverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Helga Arnalds. |
16.12.2012 |
Forseti afhendir verðlaun Forvarnardagsins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum en þau eru veitt nemendum fyrir þátttöku í ratleik dagsins. Verðlaunahafar voru nemendur frá Akranesi, Neskaupstað og Reykjavík. Aðstandendur Forvarnardagsins, sem haldinn var 31. október, eru auk forseta Íslands Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, UMFÍ, Skátahreyfingin, sveitarfélög, grunnskólar og framhaldsskólar. Fyrirtækið Actavis hefur stutt Forvarnardaginn frá upphafi. |
16.12.2012 |
Forseti er viðstaddur 100. Skjaldarglímu Ármanns og flytur ávarp í upphafi hennar, áréttaði sess glímunnar í sögu og menningu Íslendinga, hlut handhafa Ármannsskjaldarins í eflingu glímunnar á undanförnum áratugum og óskaði þátttakendum glímunnar að þessu sinni til hamingju með hina sögulegu keppni. Sigurvegari Skjaldarglímunnar var Pétur Eyþórsson og að henni lokinni var sérstakur gullpeningur, sem sleginn hafði verið af þessu tilefni, afhentur þátttakendum, fyrrum handhöfum Ármannsskjaldarins, sem viðstaddir voru glímuna, sem og stjórnendum mótsins og forseta ÍSÍ. Forseta Íslands var einnig afhentur sérstakur skjöldur í tilefni þessara tímamóta. |
17.12.2012 |
Forseti á fund með Kristínu Árnadóttur, sendiherra Íslands í Kína, um samstarf landanna, árangur af heimsókn forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, til Íslands, sem og sérstök verkefni á sviði tækni og orkunýtingar. |
29.12.2012 |
Forseti flytur ávarp á hátíð ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í tilefni af kjöri íþróttamanns ársins. Í ávarpinu áréttaði forseti mikilvægi íþrótta í íslensku þjóðlífi; boðskapurinn um að samstaða og uppbygging skili árangri skipti ekki aðeins miklu máli á vettvangi íþróttanna heldur ætti líka erindi til þjóðarinnar allrar. Forseti minntist einnig á að nú væri að ljúka aldarafmælisári ÍSÍ og fjölmörg rit um sögu íþróttanna vörpuðu ljósi á hinar miklu breytingar sem orðið hefðu á undanförnum áratugum. Það var Aron Pálmarsson sem kjörinn var íþróttamaður ársins að þessu sinni. Útsending RÚV. |
31.12.2012 |
Forseti stýrir fundi ríkisráðs þar sem staðfest eru lög og stjórnarathafnir. |