Veftré Print page English

Hin íslenska fálkaorða

 

Forseti Íslands sæmir íslenska ríkisborgara fálkaorðunni tvisvar á ári, 1. janúar og 17. júní. Orðuþegar hvert sinn eru að jafnaði ríflega tugur. Þá sæmir forseti árlega nokkra erlenda ríkisborgara fálkaorðu. Sérstakar reglur um orðuveitingar eru í gildi milli Íslands og örfárra ríkja í Evrópu um gagnkvæmar orðuveitingar í tengslum við opinberar heimsóknir þjóðhöfðingja. Samkomulag um þessar orðuveitingar er við öll Norðurlöndin, Þýskaland, Frakkland, Bretland, Ítalíu og fáein ríki önnur. Í tengslum við slíkar heimsóknir verða orðuveitingar til erlendra ríkisborgara talsvert fleiri en að ofan greinir.

Orðustigin eru nú fimm:

Fyrsta stig orðunnar er riddarakrossinn og flestir orðuþegar eru sæmdir honum. Annað stigið er stórriddarakross, síðan stórriddarakross með stjörnu og loks stórkross. Æðsta stig orðunnar er keðja ásamt stórkrossstjörnu en hana bera einungis þjóðhöfðingjar. Gefist tilefni til getur orðunefnd hækkað einstakling um orðustig.

Öllum er frjálst að tilnefna einstaklinga sem þeir telja verðuga orðuþega. Sérstök nefnd, orðunefnd, fjallar um tilnefningar til orðunnar og gerir tillögur til forseta um hverja skuli sæma henni. Nánari upplýsingar um starfsemi orðunefndar veitir orðuritari og hann veitir einnig viðtöku tillögum um orðuveitingar. Orðuritari er nú ávallt starfandi forsetaritari.
Tillögur með tilnefningum verða að berast með formlegum hætti, skriflegar og undirritaðar. Þar skal rekja æviatriði þess sem tilnefndur er og greina frá því starfi eða framlagi til samfélagsins sem talið er að sé þess eðlis að heiðra beri viðkomandi fyrir það með fálkaorðunni. Fleiri en einn geta undirritað tilnefningarbréf en aðalreglan er að undirskrift eins nægir. Orðunefnd berast á hverju ári um 80-100 tilnefningar. Við andlát þess er fálkaorðuna hefur hlotið ber erfingjum hans að skila orðuritara orðunni aftur.

Tilnefningar sendast orðunefnd:

Orðunefnd
Sóleyjargata 1
101 Reykjavík

 

Orðunefnd skipa eftirfarandi:

Guðni Ágústsson, fv. ráðherra, formaður orðunefndar
Ellert B. Schram, fyrrv. alþingismaður og fyrrv. forseti ÍSÍ
Rakel Olsen, framkvæmdastjóri
Ólafur Egilsson, fyrrv. sendiherra
Þórunn Sigurðardóttir, leikstjóri
Örnólfur Thorsson, orðuritari


Um orðuna gilda ákvæði forsetabréfs.

Nr. 145/2005 31. desember. Forsetabréf um hina íslensku fálkaorðu. 6.1.2006

Nr. 144/2005 31. desember. Forsetabréf um starfsháttu orðunefndar. 6.1.2006