Veftré Print page English

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta


Hér birtist skrá yfir ýmsa atburði í dagskrá forseta en auk þeirra sem hér eru nefndir er fjöldi annarra þátta sem ekki eru tilgreindir,  t.d. fundir með ráðherrum og embættismönnum, fulltrúum fyrirtækja og samtaka og fjölmörgum einstaklingum með margvísleg erindi og erlendum gestum sem til Íslands koma. Þá sækir forsetinn jafnframt fjölda menningarviðburða sem ekki eru raktir hér, s.s. leiksýningar, myndlistasýningar, tónleika og aðra mannfagnaði.

 

Árið 2015

Janúar

01.01.2015 Forseti flytur nýársávarp sem er útvarpað og sjónvarpað frá Bessastöðum.Ávarp forseta. Ensk þýðing.
01.01.2015 Forseti sæmir ellefu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fréttatilkynning. Mynd.
02.01.2015 Forseti afhendir Íslensku bjartsýnisverðlaunin við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum en þau hlaut Hugi Guðmundsson tónskáld. Río Tinto Alcan er bakhjarl verðlaunanna en til þeirra var stofnað fyrir rúmum þrjátíu árum.
03.01.2015 Forseti sækir hátíðarsamkomu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og íþróttafréttamanna þar sem tilkynnt er um val á íþróttamanni ársins og heiðraðir íþróttamenn sem skarað hafa fram úr á íþróttasviði aðildarsambanda ÍSÍ. Forseti flutti einnig ávarp í upphafi beinnar útsendingar.
03.01.2015 Forseti sækir hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumeistara og flytur ávarp í lok hans þar sem hann þakkaði matreiðslumönnum fyrir að auðga matarmenningu Íslendinga og auka fjölbreytni veitingahúsa og matsölustaða og reisa þannig trausta stoð undir eflingu ferðaþjónustunnar bæði nú og á komandi árum.
04.01.2015 Forseti heldur jólatrésfagnað fyrir börn erlendra starfsmanna sendiráða á Íslandi, börn núverandi og fyrrverandi starfsmanna forsetaembættisins, þeirra sem aðstoða embættið á ýmsan hátt og fleiri.
05.01.2015 Forseti á fund með Geir H. Haarde, verðandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, um samstarf landanna á fjölmörgum sviðum og um aukið mikilvægi Norðurslóða en Bandaríkin taka við formennsku í Norðurskautsráðinu á þessu ári. Einnig var fjallað um samstarf á sviði orkumála og hlutdeild ýmissa bandarískra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi sem og aukinn áhuga á gerð bandarískra kvikmynda á Íslandi.
05.01.2015 Forseti á fund með sendiherra Alsírs á Íslandi, hr. Fatah Mahraz, sem senn lætur af störfum. Rætt var um áhuga stjórnvalda í Alsír á að nýta tækni og þekkingu Íslendinga á sviði jarðhita og sjávarútvegs sem og þróun mála í ýmsum nágrannaríkjum Alsírs og vaxandi vanda vegna umsvifa hryðjuverkahópa og öfgahópa.
06.01.2015 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni og Sigríði Blöndal um undirbúning að næsta þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið verður í október.
06.01.2015 Forseti er viðstaddur útför Tómasar Árnasonar en hann var ráðherra í ríkisstjórn Íslands 1978-1983.
06.01.2015 Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, stjórnanda OrkaEnergy, um uppbyggingu hitaveitna í Kína og fleiri löndum Asíu. Nú þegar hefur OrkaEnergy í samvinnu við Sinopec byggt hitaveitur og undirbúið byggingu annarra í Kína.
07.01.2015 Forseti afhendir nýjum ökumönnum fyrstu einktökin af umferðarsáttmála sem þau hafa undirritað. Sáttmálinn er ávöxtur samstarfs fjölmargra aðila um bætta umferðarmenningu og er áformað að fólk undirriti hann um leið og það fær ökuskírteini í hendur. Í ávarpi minnti forseti á þann fórnarkostnað sem samfara væri þeim þægindum og hagræði sem ökutæki skapa. Árlega lætur ákveðinn fjöldi Íslendinga lífið í umferðarslysum og enn fleiri glíma við alvarleg meiðsli um lengri eða skemmri tíma. Mikilvægt sé að fækka slysum í umferðinni. Minnti forseti í því sambandi á þann mikla árangur sem náðst hefur í öryggismálum sjómanna á undanförnum áratugum en áður fyrr drukknuðu iðulega nokkrir tugir sjómanna við Íslands strendur.
08.01.2015 Forseti sendir samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til forseta Frakklands vegna hinnar hræðilegu hryðjuverkaárásar í París. Fréttatilkynning.
09.01.2015 Forseti á fund með sendiherra Japans á Íslandi, Mitsuko Shino, um samstarf landanna á ýmsum sviðum, gagnkvæm viðskipti í áraraðir sem og aukinn áhuga Japana á þróun Norðurslóða en sérstök sendinefnd frá landinu tók þátt í Hringborði Norðurslóða í fyrra. Mitsuko Shino er fyrsti sendiherra Japans gagnvart Íslandi sem hefur aðsetur í Reykjavík og var einnig fjallað um reynslu hennar af landi og þjóð.
09.01.2015 Forseti á fund með Guðna Ágústssyni, fyrrum landbúnaðarráðherra og framkvæmdastjóra Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, um þróun íslenskrar matvælaframleiðslu og stöðu hennar á innlendum og erlendum mörkuðum sem og nauðsyn víðtæks samstarfs allra þeirra aðila sem sinna margvíslegri matvælaframleiðslu í landinu, bæði á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, ylræktar, veitingareksturs og iðnaðarframleiðslu.
13.01.2015 Forseti á fund með sendinefnd frá Noregi sem kynnti þróun nýrrar tækni við nýtingu ljóss og geisla í þágu umhverfisvænni og sjálfbærra fiskveiða. Unnið hefur verið að þróun þessarar tækni á undanförnum árum og áhugi er á samstarfi við íslenskar stofnanir og vísindasamfélag.
14.01.2015 Forseti á fund með sendiherra Þýskalands á Íslandi Thomas Meister um framlag Þýskalands til Norðurslóða og þátttöku í væntanlegu þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle, en fulltrúar þýskra vísindastofnana og fyrirtækja hafa tekið þátt í fyrstu þingum þess.
17.01.2015 Forseti sendi í gær samúðarkveðju til samkoma sem haldnar voru í Súðavík og í Guðríðarkirkju í Reykjavík til að minnast snjóflóðsins í Súðavík. Kveðja frá forseta ÍslandsFréttatilkynning.
18.01.2015 Forseti á fund í tengslum við Heimsþing hreinnar orku, sem haldið er í Abu Dhabi, með Hauki Harðarsyni, stjórnanda Orku Energy, og Fanglu Wang, framkvæmdastjóra kínverska fjárfestingarsjóðsins CITIC Capital um þróun hitaveituverkefnanna í Kína og gildi þeirrar reynslu fyrir hitaveituframkvæmdir í öðrum Asíulöndum. Vaxandi áhugi er á hinum fjölþættu möguleikum á því að nýta jarðhita, bæði í þágu orkuframleiðslu sem og ylræktar og matvælaframleiðslu, og byggja í þeim efnum á hagnýtri reynslu Íslendinga.
18.01.2015 Forseti á fund með fulltrúum Reykjavik Geothermal og stjórnvalda í Abu Dhabi um möguleika á nýtingu lághitasvæða í Abu Dhabi og annars staðar í Mið-Austurlöndum til loftkælingar. Stórum hluta orku í þessum heimshluta er varið til loftkælingar, bæði í borgum og smærri bæjum. Með nýtingu jarðhita í þessu skyni væri í senn verið að knýja loftkælingu með hreinni orku og stuðla að hagkvæmari nýtingu annarra orkulinda. Reykjavik Geothermal boraði fyrir nokkrum árum tvær tilraunaholur á Masdar svæðinu í Abu Dhabi.
19.01.2015 Forseti tók í morgun, mánudaginn 19. janúar, þátt í setningarathöfn Heimsþings hreinnar orku, World Future Energy Summit, sem haldið er í Abu Dhabi. Á setningarathöfninni fór einnig fram afhending Zayed orkuverðlaunanna en þau eru viðamestu verðlaun sinnar tegundar í veröldinni, kennd við stofnanda Arabísku furstadæmanna og veitt forystumönnum í alþjóðamálum, vísindamönnum, rannsóknarstofnunum, baráttusamtökum og fyrirtækjum sem rutt hafa brautir breytinga í orkubúskap og leitt baráttu gegn loftslagsbreytingum. Forseti er formaður dómnefndar verðlaunanna en alls nemur verðlaunaféð fjórum milljónum Bandaríkjadala eða um tæpum hálfum milljarði íslenskra króna.FréttatilkynningMyndir.
 19.01.2015 Forseti stjórnar blaðamannafundi þar sem handhafar Zayed orkuverðlaunanna sitja fyrir svörum. Fundurinn var haldinn í kjölfar verðlaunaathafnarinnar í Abu Dhabi. 
19.01.2015 Forseti á fund með Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna og Nóbelsverðlaunahafa, sem tók við sérstökum heiðursverðlaunum Zayed orkuverðlaunanna. Rætt var um baráttuna gegn loftslagsbreytingum, hið alþjóðlega samningaferli og horfurnar á samkomulagi á Parísarfundinum í lok ársins.
19.01.2015 Forseti tekur þátt í sérstökum fundi sem Ségolène Royal, orku- og umhverfisráðherra Frakklands, efndi til í Abu Dhabi þar sem rætt var um myndun alþjóðlegs bandalags um jarðhita, Global Geothermal Alliance. Orkuráðherra Frakka áformar að beita sér sérstaklega fyrir aukinni nýtingu jarðhita og efna til sérstakrar kynningar á kostum hans í tengslum við loftslagsráðstefnuna sem haldin verður í París síðar á þessu ári.
20.01.2015 Forseti stýrir vinnufundi starfsfólks og sérfræðinga, sem vinna að úthlutun Zayed orkuverðlaunanna, um ferli tilnefninga og úrvinnslu á þeim, en á undanförnum árum hafa borist tilnefningar frá um 100 löndum. Forseti er formaður dómnefndar verðlaunanna. Mynd.
20.01.2015 Forseti flytur ávarp við opnun nýrrar norrænnar skrifstofu á Masdar svæðinu en þar hafa allar byggingar verið reistar á grundvelli reglunnar um enga mengun og enga sóun – "zero waste, zero emission". Skrifstofunni er ætlað að veita norrænum fyrirtækjum aðstöðu og liðsinni við að kynna nýjungar sínar, tækni og framleiðslu í Mið-Austurlöndum. Mun starfræksla hennar m.a. nýtast við kynningu á jarðhitatækni Íslendinga, verkfræðireynslu á ýmsum sviðum og nýjungum í upplýsingatækni og umhverfismálum. Myndir.
21.01.2015 Forseti á fund með Sultan Al Jaber, stjórnanda Stofnunar Zayed orkuverðlaunanna og ráðherra loftlagsmála í utanríkisráðuneyti Sameinuðu arabísku furstadæmanna, um þróun verðlaunanna á næstu árum, mikilvægi hreinnar orku og Norðurslóða á samningaráðstefnunni um loftslagsmál sem haldin verður í París undir lok ársins.
24.01.2015 Forseti sækir Þorrablót sem Kvenfélag Álftaness og Lionsklúbbur Álftaness halda í íþróttahúsi byggðarlagsins.
27.01.2015 Forseti á fund með Valdimar Össurarsyni sem unnið hefur að þróun nýrrar tækni við að virkja sjávarföll. Tilraunirnar hafa verið á vegum Valorku og fela í sér nýja nálgun við virkjun strauma við útnes.
27.01.2015 Forseti er viðstaddur athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands þar sem ýtt er úr vör Ári ljóssins á Íslandi. Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga árið 2015 ljósinu, hlutverki þess í mannlífi og náttúru með áherslum á tækniþróun og aðra þætti í nýtingu ljóssins. Fjölmargir atburðir verða á Íslandi og koma Háskóli Íslands, Félag Sameinuðu þjóðanna og Íslenska UNESCO nefndin að skipulagi þeirra. Forseti er verndari ársins.
28.01.2015 Forseti tekur á móti hópi nemenda og kennara í gull- og silfursmíði frá Tækniskólanum og sýnir þeim ýmsa gripi og búnað sem varðveittir eru á Bessastöðum, ræðir um ákvarðanir Sveins Björnssonar varðandi húsbúnað á Bessastöðum og ýmsar gjafir sem borist hafa á lýðveldistímanum.
28.01.2015 Forseti tekur á móti börnum, foreldrum og þjálfurum frá Hlaupafélaginu Treysti í Klakksvík í Færeyjum sem eru í heimsókn á Íslandi.
28.01.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi Robert C. Barber sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um langvarandi og traust samband ríkjanna, söguleg tengsl allt frá miðöldum og landnám Íslendinga í Vesturheimi á 19. öld sem og margvísleg samskipti á sviði viðskipta og varnarsamstarfs á síðari hluta 20. aldar. Þá var einnig fjallað um þær breytingar sem felast í auknu mikilvægi Norðurslóða, væntanlega formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og hugmyndir um björgunarmiðstöð á Íslandi sem reist yrði á grundvelli þess samkomulags sem gert var innan Norðurskautsráðsins fyrir nokkrum árum. Mikilvægt væri einnig að treysta tengsl við einstök ríki í Bandaríkjunum eins og Alaska og Maine sem hafa átt í auknu samstarfi við Ísland og efla kynningu á kostum jarðhita í Bandaríkjunum, einkum til húshitunar. Mynd.
29.01.2015 Forseti á fund með stjórnendum Norðurslóðanetsins á Akureyri um þróun verkefna á þessu ári, víðtæk alþjóðleg tengsl og hugmyndir um útgáfu sérstaks tímarits sem helgað væri Norðurslóðarannsóknum og annarri starfsemi á Íslandi.
29.01.2015 Forseti á fund með rektor Háskólans á Akureyri og forstöðumönnum einstakra deilda og fræðasviða um margvísleg rannsóknarverkefni sem unnin eru á vegum skólans og tengjast þróun Norðurslóða, svo sem í heilbrigðismálum, menntamálum, félagsmálum, byggðaþróun og á sviði heimskautaréttar. Fundurinn fór fram í Háskólanum á Akureyri.
29.01.2015 Forseti á fund með bæjarstjóra Akureyrar, bæjarfulltrúum, rektor Háskólans á Akureyri og öðrum fulltrúum háskólans sem og fulltrúum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, Arctic Services, Norðurslóðanetsins og annarrar starfsemi sem tengist Norðurslóðum á Akureyri. Rætt var um þau þáttaskil sem orðið hafa á nýliðnum árum þegar fjöldi ríkja í Asíu og Evrópu beinir athygli sinni að Norðurslóðum og samvinna Norðurskautsríkjanna hefur eflst á margvíslegan hátt. Baráttan gegn loftslagsbreytingum hefur einnig varpað nýju ljósi á mikilvægi Norðurslóða. Í ávarpi sínu lagði forseti áherslu á þá sérstöðu sem Akureyri hefði öðlast á sviði Norðurslóðamálefna. Hin fjölþætta starfsemi sem þar færi fram fæli í reynd í sér að Akureyri væri orðin eins konar miðstöð Norðurslóðamálefna og æ fleiri víða að úr veröldinni hefðu áhuga á að tengjast starfseminni sem þar færi fram.
29.01.2015 Forseti er viðstaddur og flytur ávarp á athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi þar sem Háskólafélag Suðurlands og Fræðslunetið afhenda styrki úr Vísinda- og rannsóknasjóði Suðurlands og veitt eru menntaverðlaun Suðurlands. Í ávarpi áréttaði forseti mikilvægi þess að samtök byggðarlaga og atvinnulífs í einstökum landshlutum efldu vísindastarf, rannsóknir og menntastofnanir. Styrkir rannsóknasjóðsins á undanförnum árum sýndu mikla fjölbreytni og grósku og gætu orðið öðrum landshlutum fyrirmynd um nýjar leiðir til að styrkja vísinda- og rannsóknastarf ungs fólks.
30.01.2015 Forseti afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Í flokki barna- og ungmennabóka hlaut Bryndís Björgvinsdóttir verðlaunin fyrir bókina Hafnfirðingabrandarinn. Í flokka fræðirita og rita almenns efnis hlaut verðlaunin Snorri Baldursson fyrir bókina Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar. Í flokki fagurbókmennta Ófeigur Sigurðsson fyrir bókina Öræfi.
31.01.2015 Forseti afhendir verðlaun og flytur ávarp á Nýsveinahátíð sem Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík heldur í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Einnig afhendir forseti Össuri Kristinssyni viðurkenningu sem heiðursiðnaðarmaður ársins. Í ávarpi áréttaði forseti framlag iðnarmanna til uppbyggingar íslensk þjóðfélags, þróunar menningar og mannlífs. Þau verk sem staðist hafa tímans tönn, byggingar og handverk, eru á margvíslegan hátt framlag iðnaðarmanna. Í ljósi breyttrar þjóðfélagshátta kæmi vel til skoðunar að leggja niður þá orðanotkun að tala um bóknám annars vegar og verknám hins vegar; fara í stað þess að beina athyglinni að fjölþættu námi sem á sérhverju sviði væri í senn bóklegt og verklegt.

Febrúar

05.02.2015 Forseti flutti í morgun, fimmtudaginn 5. febrúar, setningarræðu á samráðsþingi sem haldið er í Bútan um hætturnar sem hraðar loftslagsbreytingar skapa á Himalajasvæðinu og þá lærdóma sem farsæl og vaxandi samvinna ríkja á Norðurslóðum getur fært þjóðunum í þessum heimshluta.Samráðsþingið sækja vísindamenn, sérfræðingar og embættismenn frá Indlandi, Kína, Pakistan, Afganistan, Nepal, Bangladess, Mjanmar og Bútan. Auk þess taka ýmsir sérfræðingar og umhverfissinnar frá Evrópu og Bandaríkjunum þátt í þinginu. Forseti er verndari þess og hefur á undanförnum misserum haft frumkvæði að því ásamt öðrum að þróa þessa samvinnu. MyndirFréttatilkynningRæða forseta.
06.02.2015 Forseti flytur lokaávarp á samráðsþingi um Himalajasvæðið, sem haldið er í Bútan, og lýsir ánægju með þann árangur sem náðst hefur á þinginu. Á grundvelli hugmynda og tillagna sem sérfræðingar, vísindamenn og aðrir fulltrúar á þinginu hefðu lagt fram yrði unnið að mótun næstu áfanga í þessu samstarfi. Forseti sat að því loknu kvöldverðarboð sem forsætisráðherra Bútans hélt þátttakendum í þinginu. Þar lýsti forsætisráðherrann mikilli ánægju með árangur þingsins. Ýmsir ráðherrar í ríkisstjórn Bútans og forystumenn umhverfissamtaka landsins sátu einnig kvöldverðinn.
06.02.2015 Forseti á fund með ferðamálastjóra Bútans og öðrum stjórnendum ferðamálaráðs landsins. Rætt var um þá lærdóma sem draga má af uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi á síðustu áratugum, einkum síðustu árum. Bæði löndin búa við vaxandi áhuga ferðamanna á náttúru, óbyggðum, landslagi fjalla og jökla og menningu þjóðanna. Stjórnendur ferðamálaráðs Bútans hafa áhuga á samstarfi við aðila í íslenskri ferðaþjónustu og vilja læra af reynslu Íslendinga. Fundinn sat einnig fulltrúi WWF, World Wildlife Fund.
07.02.2015 Forseti situr hádegisverð í boði Jigyel Ugyen Wangchuck prins og annarra meðlima konungsfjölskyldunnar í Bútan þar sem m.a. var fjallað um góðan árangur samráðsþingsins í Bútan um Himalajasvæðið. Hádegisverðinn sátu einnig Tshering Tobgay forsætisráðherra landsins og aðrir ráðherrar.
07.02.2015 Forseti á fund með embættismönnum utanríkisráðuneytis Bútans þar sem rætt var um afar góðan árangur samráðsþingsins í Bútan um Himalajasvæðið og eindreginn vilja stjórnvalda í landinu til að taka áfram virkan þátt í þróun samstarfsins. Einnig var fjallað um samstarf Íslands og Bútans á ýmsum sviðum, m.a. í nýtingu jarðhita og skipulagningu ferðaþjónustu. Heimamenn höfðu ríkan áhuga á því að ungir vísindamenn frá Bútan gætu hlotið þjálfun í jöklafræði á Íslandi og sótt Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ennfremur að Bútan gæti kynnt sér reynslu Íslendinga sem smárrar þjóðar við að byggja upp utanríkisþjónustu og virk tengsl við ríki víða um heim.
10.02.2015 Forseti á fund með fulltrúum nýrrar ríkisstjórnar á Indlandi, Suresh Prabhu ráðherra, dr. Vinay Sahasrabuddhe, varaforseta BJP flokksins og stjórnanda rannsóknarmiðstöðvarinnar Public Policy Center og embættismönnum þeirra. Rætt var um þátttöku Indlands í samstarfi á Norðurslóðum, en Indland fékk árið 2013 áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, hið nýja samstarf á Himalajasvæðinu sem fjallað var um á samráðsþinginu í Bútan og þjálfun ungra indverskra jöklafræðinga á Íslandi en það verkefni var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum í samvinnu við Háskóla Íslands. Þá var einnig rætt um nýtingu jarðhita á Indlandi en íslenskir aðilar hafa unnið að slíkum áformum í samvinnu við heimamenn. Fundinn sat einnig Þórir Ibsen sendiherra Íslands á Indlandi.
14.02.2015 Forseti á fund með Arun Narendhranath og Sumeet Bhasin, stjórnendum rannsóknarstofnunarinnar Public Policy Research Centre sem vinnur að stefnumótun fyrir hina nýju ríkisstjórn á Indlandi. Rætt var um þróun samstarfs á Norðurslóðum, en Indland á nú áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, árangur og niðurstöður samráðsþingsins um Himalajasvæðið sem haldið var í Bútan fyrr í þessum mánuði, sem og þjálfun ungra indverskra jöklafræðinga á Íslandi og áframhaldandi samstarf ríkjanna í nýtingu jarðhita.
17.02.2015 Forseti átti í dag fund með Filippusi VI Spánarkonungi og mun á morgun og á fimmtudag taka þátt í fjölþættri dagskrá Íslandsdaga sem haldnir verða í Barcelona. Forsetahjónin hittu Filippus VI Spánarkonung síðdegis í Zarzuela höllinni í Madrid. Á fundinum með forseta var rætt um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og lærdómana sem draga má af glímu þjóðarinnar við afleiðingar bankahrunsins. Þá var fjallað um erfiðleika í efnahagslífi Spánar og stöðuna á evrusvæðinu, aukið mikilvægi Norðurslóða, árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Þá ræddu forseti og konungur einnig um langvarandi vináttu Íslendinga og Spánverja, vinsældir saltfisksins á Spáni og aukið mikilvægi bókmennta og lista í samstarfi landanna. Fundinn sátu einnig utanríkisráðherra Spánar José García-Margallo y Marfil, sendiherra Íslands gagnvart Spáni, Berglind Ásgeirsdóttir, og sendiherra Spánar gagnvart Íslandi, Antonio López Martínez. FréttatilkynningMyndir.
18.02.2015 Forseti heimsækir eina af verslunum spænsku keðjunnar La Sirena sem sérhæfir sig í sölu á sjávarafurðum. Verslunin er í miðborg Barcelona og verslunarkeðjan skipuleggur nú víðtæka kynningu á íslenskum sjávarafurðum. Mynd.
18.02.2015 Forseti flytur fyrirlestur við hinn kunna IESE viðskiptaháskóla í Barcelona. Fyrirlesturinn fjallaði um þá lærdóma sem draga má af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna, togstreituna milli lýðræðis og markaða í efnahagslífi Evrópu sem og alþjóðlegt samhengi þeirra erfiðleika sem Íslendingar glímdu við. Að fyrirlestrinum loknum svaraði forsetinn fjölmörgum spurningum. Myndir.
18.02.2015 Forseti ræðir við hóp spænskra blaðamanna í Barcelona um þróun íslenskrar ferðaþjónustu sem og kynningu á náttúru og menningu landsins.Mynd.
18.02.2015 Forseti heimsækir verksmiðju Iceland Seafood í úthverfi Barcelona þar sem fjölþættar afurðir eru unnar úr íslensku sjávarfangi, einkum saltfiski, fyrir spænskan neytendamarkað. Verksmiðjan vinnur úr afurðum ýmissa íslenskra framleiðenda og hefur framleiðsla hennar sterka stöðu á markaðnum í Katalóníu. Mynd.
18.02.2015 Forseti heimsækir höfuðstöðvar spænska fjölskyldufyrirtækisins Copesco Sefrisa sem selt hefur afurðir úr íslenskum saltfiski í um 120 ár. Fyrirtækið hefur lagt sérstaka áherslu á gæðafisk frá Íslandi. Myndir.
18.02.2015 Forseti flytur ávarp við upphaf bókmenntakynningar sem haldin er í einni af stærstu bókaverslunum Barcelona en þar sátu rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir og Óttar Norðfjörð fyrir svörum um verk sín. Mynd.
19.02.2015 Forseti ræðir við útvarpsstöðina Catalunya Radio og fréttamann frá dagblaðinu Ara um endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar bankahrunsins, lærdómana sem draga má af þeirri reynslu, glímu lýðræðis og markaða sem og tengsl Íslands og Katalóníu á sviði viðskipta og menningar.
19.02.2015 Forseti heimsækir lyfjafyrirtækið Invent Farma sem Íslendingar stofnuðu í Barcelona fyrir nokkrum árum og fræddist um vöxt þess og framleiðslu.Myndir.
19.02.2015 Forseti heimsækir höfuðstöðvar íslenska sjávarútvegsfyrirtækisins Icelandic í Barcelona og kynnir sér sölu þess á íslenskum sjávarafurðum á Spáni og víðar í Suður-Evrópu. Mynd.
19.02.2015 Forseti heimsækir Santa Caterina fiskmarkaðinn í miðborg Barcelona og ræðir við sölumenn þriggja verslana sem um áraraðir hafa boðið neytendum íslenskan saltfisk. Jafnframt tók forseti við viðurkenningu frá samtökum saltfisksala í Barcelona en samtökin eiga sér langa sögu og sterkar hefðir. Margir aldnir forystumenn þeirra hafa í áratugi átt samskipti við Ísland á þessu sviði. Myndir.
19.02.2015 Forseti sækir móttöku sem Íslensk-spænska viðskiptaráðið efnir til í Barcelona og ræðir við fjölmarga fulltrúa íslenskra framleiðenda sem staddir eru í borginni sem og forsvarsmenn margra spænskra fyrirtækja sem um langt árabil hafa selt íslenskar sjávarafurðir á Spáni. Mynd.
19.02.2015 Forseti á fund með Xavier Trias borgarstjóra Barcelona þar sem einkum var rætt um stöðu borgarinnar, vaxandi áhuga almennings í Katalóníu á aukinni sjálfstjórn og efnahagslegt framlag Barcelona og Katalóníu til fjárlaga landstjórnarinnar á Spáni. Borgarstjórinn taldi að framundan væru örlagaríkir tímar í þessum efnum og mikilvægt væri að finna leiðir sem breið samstaða yrði um. Þá heimsótti forseti hinn sögufræga lýðræðissal borgarinnar þar sem forystumenn hennar komu saman á fyrri öldum og skrifaði í gestabók borgarstjórnar. Myndir.
19.02.2015 Forseti heimsækir höfuðstöðvar Viðskiptaráðs Barcelona og ræðir um stöðu viðskiptalífs í borginni og viðhorf forystumanna í atvinnulífi til framtíðarstöðu og þróunar borgarinnar og Katalóníu. Myndir.
19.02.2015 Forseti flytur ávarp við upphaf málþings um viðskipti og menningu sem haldið er í salarkynnum Viðskiptaráðs Barcelona við lok heimsóknar forseta til Barcelona. Í ávarpinu fjallaði forseti um djúpar rætur viðskipta með íslenskan saltfisk og þá hollustu sem spænskir viðskiptaaðilar og almenningur hafa sýnt þessari íslensku framleiðslu. Tengsl landanna væru um þessar mundir efld með sívaxandi fjölda íslenskra bóka sem þýddar eru á spænsku og vaxandi áhuga spænskra ferðamanna á að heimsækja Ísland. Á málþinginu fjallaði Kristinn R. Ólafsson um stöðu saltfisksins í íslensku þjóðlífi og Enrique Bernández prófessor og þýðandi ræddi um samhengið í íslenskum bókmenntum frá Snorra Sturlusyni til höfunda samtímans. Þá kynntu Sigurgeir Guðlaugsson forstjóri Zymetech og Guðmundur Sigurjónsson forstjóri Kerecis lyf og heilsuvörur sem unnar eru úr fiskroði og fiskúrgangi. Inga Hlín Pálsdóttir kynnti ferðamannalandið Ísland og málþinginu stjórnaði Iðunn Jónsdóttir prófessor við IESA háskólann í Barcelona. Friðrik Steinn Kristjánsson formaður Spænsk-íslenska verslunarráðsins flutti ávarp við upphaf málþingsins. Mynd.
20.02.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi sjónvarpsútsendingar íslensku tónlistarverðlaunanna og þakkaði íslensku tónlistarfólki  fyrir framlag þess og þá margþættu nýsköpun á ólíkum sviðum sem nú einkennir íslenskt tónlistarlíf. Tónlistin á sér ekki langa sögu í íslensku menningarlífi, en er nú orðin ásamt bókmenntunum burðarás í íslenskri menningu og orðspori okkar meðal þjóða heims.
21.02.2015 Forseti er viðstaddur brautskráningu stúdenta frá Háskóla Íslands sem fram fer við hátíðlega athöfn í Háskólabíói.
21.02.2015 Forseti afhendir Ómari Ragnarssyni heiðursverðlaun Eddunnar á Edduhátíðinni sem fram fer í Hörpu.
22.02.2015 Forseti afhendir Nýsköpunarveðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum en þau eru samstarfsverkefni háskólasamfélagsins, atvinnulífs, ríkis og borgar. Verðlaunin eru á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna og voru fimm verkefni tilnefnd að þessu sinni. Verðlaunin hlaut Benedikt Atli Jónsson fyrir verkefnið Sjálvirkt gæðamat augnbotnamynda.
22.02.2015 Forseti tekur þátt í afmælisfagnaði skátafélagsins Hraunbúa í Hafnarfirði sem heldur upp á 90 ára afmæli sitt. Hraunbúar eru meðal elstu skátafélaga landsins. Í ávarpi óskaði forseti félaginu til hamingju og áréttaði mikilvægi þess í mannlífi og sögu Hafnarfjarðar sem og framlag Hraunbúa til skátahreyfingarinnar í landinu.
24.02.2015 Forseti sækir fyrirlestur Þorsteins Sæmundssonar, vísindamanns við Háskóla Íslands, og Najat Bhiry sem haldinn er í Laval háskólanum um rannsóknir á bráðnun túndru og jarðvegssig í Kanada og á Íslandi vegna hlýnunar loftslags. Á síðustu árum hafa orðið afgerandi breytingar af þessu tagi á Íslandi en mikilvægt er að efla enn frekar kortlagningu og rannsóknir.
24.02.2015 Forseti á fund með Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec, við upphaf heimsóknar til fylkisins. Forsætisráðherra sótti í fyrra þing Arctic Circle í Reykjavík ásamt þátttakendum frá háskólasamfélaginu í Québec.  Á fundinum ákváðu forsætisráðherra og forseti að Québec yrði formlegur aðili að Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle. Þátttaka Québec í Arctic Circle myndi fyrst og fremst miðast við að efla framlag háskóla og rannsóknarstofnana, styrkja þátttöku samtaka frumbyggja og umhverfissinna og kynna hina merku Norðuráætlun, Plan Nord, sem fylkið samþykkti fyrir fáeinum árum. Þá ræddu forseti og forsætisráðherrann einnig um þá hugmynd að á næsta ári myndi Arctic Circle efna til málþings í Québec í samvinnu við stjórn fylkisins þar sem fyrst og fremst yrði fjallað um svæðaþróun á Norðurslóðum og árangurinn af Plan Nord lagður til grundvallar. Myndir.
24.02.2015 Forseti og Philippe Couillard,  forsætisráðherra Québec, ræða við fulltrúa sjónvarpsstöðva og blaða í Québec um þróun samstarfs á Norðurslóðum, þátttöku í Arctic Circle sem og ráðstefnu um þróun Norðurslóða sem nú er haldin í Québec. Einnig  var fjallað um stöðu Íslands, hreina orku og árangur í þjóðfélagsþróun á undanförnum áratugum. Myndir.
25.02.2015 Forseti er viðstaddur setningu alþjóðlegrar ráðstefnu um Norðurslóðir sem haldin er í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar, Québec fylkis og Laval háskóla en í henni taka þátt m.a. vísindamenn og sérfræðingar frá Kanada og Norðurlöndum.
25.02.2015 Forseti var í gær, þriðjudaginn 24. febrúar, gerður að heiðursdoktor við Laval háskólann í Québec við hátíðlega athöfn í höfuðsal skólans. Í ræðu Denis Brière rektors kom fram að forseti væri gerður að heiðursdoktor vegna framlags hans til þróunar Norðurslóða, forystu um samstarf háskóla og vísindastofnana og frumkvæði að víðtækri þátttöku í mótun framtíðar Norðurslóða þar sem rannsóknir og þekking væri lögð til grundvallar.MyndirFréttatilkynningRæða forseta.
25.02.2015 Forseti heimsækir þing Québec fylkis og er viðstaddur þingfund þar sem forseti þingsins og þingmenn buðu forseta sérstaklega velkominn með lófataki. Forseti skoðaði síðan hið sögufræga þinghús og átti fund með Jacques Chagnon, forseta þingsins, þar sem rætt var um þátttöku þingmanna Québec í Hringborði Norðurslóða og aukna áherslu fylkisins í samstarfi á Norðurslóðum. Myndir.
26.02.2015 Forseti er viðstaddur setningu alþjóðlegrar ráðstefnu um Norðurslóðir sem haldin er í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar, Québec fylkis og Laval háskóla en í henni taka þátt m.a. vísindamenn og sérfræðingar frá Kanada og Norðurlöndum.
26.02.2015 Forseti situr morgunverðarfund í Québec sem Philippe Couillard, forsætisráðherra fylkisins, boðar til þar sem einkum var rætt um þátt vísinda og rannsókna í stefnumótun á Norðurslóðum. Fundinn sátu einnig framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfin Høybråten, og fulltrúar háskóla og rannsóknarstofnana í Québec.
26.02.2015 Forseti á fund með Vincent Rigby, fulltrúa kanadíska utanríkisráðuneytisins í málefnum Norðurskautsráðsins, um helstu áherslur í formennskutíð Kanada í ráðinu og stöðu áheyrnarríkja innan þess á komandi árum. Fundinn sat einnig sendiherra Íslands í Kanada, Sturla Sigurjónsson.
26.02.2015 Forseti flytur ræðu um alþjóðlega stöðu Norðurslóða á hádegisverðarfundi ráðstefnu um Norðurslóðir sem Norræna ráðherranefndin, stjórnvöld í Québec og Laval háskóli efna til. Ráðstefnuna sækja um 400 þátttakendur frá Kanada og Norðurlöndum.
26.02.2015 Forseti á fund með fulltrúum Québec stjórnar um þátttöku fylkisins í þingum og annarri starfsemi Arctic Circle, en forsætisráðherra Québec og sendinefnd frá fylkinu tók þátt í þingi Arctic Circle í Reykjavík í fyrra. Fundinn sat einnig Dagfinnur Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Circle.

Mars

01.03.2015 Forseti er viðstaddur setningu Búnaðarþings í Hörpu þar sem formaður Bændasamtakanna Sindri Sigurgeirsson, forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson fluttu ræður. Þá voru og veitt landbúnaðarverðlaunin.
01.03.2015 Forseti á fund með David Breashears sem farið hefur margar ferðir á Everest og myndað bráðnun Himalajajökla í mörg ár. Fjallað var um nauðsyn þess að efla alþjóðlega samvinnu á Himalajasvæðinu og vekja athygli umheimsins á því hvernig bráðnun jökla endurspeglar hraðar loftslagsbreytingar. David Breashears hefur ásamt samstarfsmönnum sínum og samtökunum GlacierWorks gert einstakt myndefni af þessari þróun á svæðinu. Fundinn sátu einnig Tómas Guðbjartsson læknir, fulltrúi Félags íslenskra fjallalækna, og Dagfinnur Sveinbjörnsson sem stýrt hefur samstarfsverkefni á Himalajasvæðinu.
01.03.2015 Forseti sækir jöklakvöld í Hörpu þar sem David Breashears kynnti glímuna við Everest, Baltasar Kormákur lýsti gerð nýrrar kvikmyndar um voveiflega atburði á fjallinu, kynntur var nýr vefur Jöklarannsóknafélagsins um bráðnun íslenskra jökla, áform um nýjar gönguleiðir í kringum Vatnajökul og David Breashears sýndi fjölþætt myndaefni um bráðnun jökla á Himalajasvæðinu.
02.03.2015 Forseti á fund með dr. Friðrik Larsen, sérfræðingi í orkumörkuðum, um þau áform að halda á Íslandi alþjóðlega ráðstefnu þar sem áhersla væri lögð á markaðsímynd hreinnar orku, meðal annars í ljósi rannsókna í vörumerkjafræðum. Slík ráðstefna yrði nýjung á vettvangi fræða og atvinnulífs og gæfi tækifæri til að varpa ljósi á árangur Íslands í nýtingu orku, einkum jarðvarma.
03.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ómans á Íslandi, Khalid S. Baomar, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um áhuga Ómans á að nýta tækni og kunnáttu Íslendinga á sviði jarðhita og kynnast skipulagi sjávarútvegs og hvernig Íslendingar hafa aukið verðmæti afla með fullvinnslu og margvíslegri hátækni. Þá var einnig rætt um stöðu mála í Miðausturlöndum, samskipti einstakra ríkja og nauðsyn þess að koma á varanlegum friði. Mynd.
03.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Grikklands á Íslandi, Ekaterini Loupas, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um trausta vináttu landanna, opinberar heimsóknir forseta Íslands til Grikklands og Grikklandsforseta til Íslands fyrir nokkrum árum sem og vinarhug Íslendinga gagnvart Grikkjum á tímum efnahagslegra erfiðleika. Þá var einnig ítarlega fjallað um hvernig Íslendingar glímdu við afleiðingar bankahrunsins, hvernig beitt var öðrum aðgerðum en hefðbundið hafði verið í glímu við fjármálakreppur, reynt að hlífa hinum verst settu og dreifa byrðunum, sem og að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Fjölmargir aðilar á Íslandi, bæði frá fræðasamfélagi, stjórnsýslu og úr þjóðmálum og viðskiptalífi, væru eflaust reiðubúnir til að deila þessari reynslu með Grikkjum ef að gagni mætti koma nú þegar þeir standa frammi fyrir djúpstæðum erfiðleikum. Mynd.
03.03.2015 Forseti ræðir við Gianni Carta, blaðamann frá Brasilíu, um þá lærdóma sem draga má af bankahruninu á Íslandi, togstreituna milli lýðræðis og fjármálamarkaða, sem enn setur svip á vanda ýmissa ríkja í Evrópu, sem og þróun lýðræðis á undanförnum árum og áratugum í ljósi aukinnar almennrar menntunar og framfara í upplýsingatækni.
03.03.2015 Forseti ræðir við prófessorana Helga Björnsson og Þóru Ellen Þórhallsdóttur um rannsóknir á jöklum, gróðurfari og vatni í ljósi vaxandi loftslagsbreytinga, m.a. á Íslandi, Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu en þau hafa tekið öflugan þátt í auknu samstarfi vísindamanna og annarra í þessum heimshlutum.
04.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Búlgaríu á Íslandi, Roumiana Mitreva, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samskipti landanna á undanförnum árum og áratugum, stöðu mála í Mið- og Austur-Evrópu og áhrif átaka og efnahagserfiðleika í nágrannaríkjum á stöðu Búlgaríu og þjóðlíf þar. Fjöldi flóttamanna sem kemur inn í landið hefur vaxið á undanförnum árum.
04.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Keníu á Íslandi, Joseph Kiprono Sang, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun jarðhitanýtingar í Keníu sem skilað hefur miklum árangri á undanförnum árum og er landið í áttunda sæti á heimsvísu í nýtingu jarðhita. Áhugi er einnig hjá stjórnvöldum í landinu að efla samvinnu við Ísland á sviði sjávarútvegs og kynnast reynslu Íslendinga við að nýta jarðhita til að þurrka sjávarfang. Ennfremur var fjallað um margvísleg tækifæri til samstarfs milli landanna við að kynna öðrum þjóðum kosti og árangur jarðhitanýtingar, m.a. með tilliti til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og væntanlegra viðræðna um þau efni sem fram fara í París síðar á þessu ári.
04.03.2015 Forseti tekur á móti hópi kvenna í Lionsklúbbnum Seylu á Álftanesi og gestum þeirra og ræðir við þau um sögu Bessastaða, muni og minjar.
05.03.2015 Forseti flytur ávarp við opnun ljósmyndasamkeppninnar „Blindir sjá“ sem haldin er á vegum JC hreyfingarinnar á Íslandi í samstarfi við Blindrafélagið. Tilgangur keppninnar er að vekja athygli á málefnum blindra og sjónskertra og réttindum þeirra sem og allra annarra til að taka fullan þátt í þjóðfélaginu. 
05.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Gíneu, Paul Goa Zoumanigui, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun mála í landinu sem og vaxandi samvinnu Íslendinga við ríki í Afríku til að efla nýtingu jarðhita og sjálfbæra og tæknivædda nýtingu sjávarauðlinda. Þá gæti Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna einnig gegnt mikilvægu hlutverki við að þjálfa sérfræðinga frá Gíneu a´sviði sjávarútvegs. Mynd.
05.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Sádi Arabíu, Ibrahim S.I. Alibrahim, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum og flutti forseta sérstaka kveðju nýs konungs Sádi Arabíu, Salman bin Abdulaziz Al Saud. Rætt var um áhuga íslenskra aðila á að kanna jarðhita í Sádi Arabíu, einkum með tilliti til kælingar húsa. Fjallað var um þróun mála í Mið-Austurlöndum og vaxandi átök á svæðinu. Þá greindi sendiherrann frá því að Sádi Arabía styddi byggingu væntanlegrar mosku í Reykjavík, myndi leggja fram rúmlega eina milljón Bandaríkjadala til byggingar hennar og að hann hefði í gær skoðað lóðina þar sem moskan myndi rísa. Mynd.
05.03.2015 Forseti flytur ávarp og afhendir Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi fyrir árið 2015 á málþingi í Turninum í Kópavogi. Á málþinginu voru fluttir fyrirlestrar í tengslum við þema þess: Ísland, land tækifæranna, verðmætasköpun til framtíðar. Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með tæplega 3000 félagsmenn.
06.03.2015 Forseti heimsækir skákmaraþon í Hörpu sem tengt er söfnun í þágu sýrlenskra flóttamanna. Að söfnuninni standa meðal annars UNICEF á Íslandi og Fatimusjóðurinn.
07.03.2015 Forseti á fund með rektor Háskólans á Akureyri Eyjólfi Guðmundssyni um þróun skólans og verkefni á næstu árum, samstarf íslenskra háskóla, mikilvægi Norðurslóða fyrir íslenskt vísindasamfélag og rannsóknarstofnanir, en fjölmargir erlendir háskólar hafa áhuga á samstarfi við Íslendinga á þeim vettvangi. Þá var einnig fjallað um möguleika íslenskra háskóla til að byggja upp saman alþjóðlegan orkuskóla þar sem reynsla Íslendinga á sviði nýtingar vatnsafls og jarðhita, orkuframkvæmda og náttúruverndar eru lögð til grundvallar.
10.03.2015 Forseti hóf í morgun opinbera heimsókn til Litháens í boði forseta landsins Dalia Grybauskaitė. Á morgun mun forseti Íslands halda hátíðarræðu á afmælisfundi litháenska þingsins í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að landið öðlaðist sjálfstæði.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytis og forsetaskrifstofu taka einnig þátt í heimsókninni og forseti Alþingis Einar K. Guðfinnsson verður viðstaddur hátíðarfund þingsins.
Opinber heimsókn forseta hófst með hátíðlegri athöfn við forsetahöllina í Vilnius þar sem forsetar landanna könnuðu heiðursvörð og þjóðsöngvar Íslands og Litháens voru leiknir. Að loknum viðræðufundi forsetanna og fundi íslensku sendinefndarinnar með forseta Litháens og embættismönnum héldu forsetarnir blaðamannafund.
Um hádegisbil leggur forseti blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða um þá sem létu lífið í baráttunni fyrir sjálfstæði Litháens. Að því loknu býður forsætisráðherra Algirdas Butkevičius forsetahjónunum og íslensku sendinefndinni til hádegisverðar.
Forseti mun svo síðdegis eiga fund með forseta litháenska þingsins Loreta Graužinienė og flytja fyrirlestur við Mykolas Romeris háskólann í Vilnius. Fyrirlesturinn fjallar um glímu lýðræðis og markaða í kjölfar hinnar evrópsku fjármálakreppu. Í kvöld býður forseti Litháens Dalia Grybauskaitė til hátíðarkvöldverðar í forsetahöllinni til heiðurs íslensku forsetahjónunum.
Á morgun flytur forseti Íslands hátíðarræðu á sérstökum fundi þings Litháens sem haldinn er í tilefni þess að þá verða 25 ár liðin frá því landið endurheimti sjálfstæði sitt. Ræðumenn á hátíðarfundinum verða, auk forseta Íslands, forseti Litháens Dalia Grybauskaitė, forseti þingsins Loreta Graužinienė, erkibiskup Vilniusborgar Gintaras Grušas og Vytautas Landsbergis, helsti forystumaður í sjálfstæðisbaráttu landsins. Fréttatilkynning. Myndir.
10.03.2015 Forseti á fund með forseta Litháens Dalia Grybauskaite í upphafi opinberrar heimsóknar til Litháens þar sem rætt var um viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litháens, aðild landsins að NATO, stöðu mála í Úkraínu og Evrópu og aukin samskipti milli Íslands og Litháens á sviði menningar og viðskipta. Að loknum viðræðufundi forsetanna hófst fundur með sendinefnd Íslands og sátu hann m.a. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands gagnvart Litháen.
10.03.2015 Forseti situr hádegisverðarboð forsætisráðherra Litháens Algirdas Butkevicius þar sem einkum var rætt um árangur landsins á sviði efnahagsmála, aðgerðir í orkumálum til að efla sjálfstæði landsins á því sviði og sambúðina við önnur Eystrasaltsríki, sem og aukinn áhuga á útflutningi til Kína og annarra Asíulanda. Mynd.
10.03.2015 Forseti heimsækir litháenska þingið og á fund með Loreta Grauziniene forseta þess og fulltrúum allra þingflokka þar sem rætt var um þátt Alþingis í sjálfstæðisbaráttu Litháens, aðildina að NATO og afstöðu Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu. Fundinn sat einnig Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytis og forsetaskrifstofu. Mynd.
10.03.2015 Forseti flytur fyrirlestur í Mykolas Romeris háskólanum í Vilnius þar sem fjallað var um togstreitu lýðræðis og markaða, grundvallarþátta í vestrænum samfélögum, í kjölfar fjármálakreppunnar í Evrópu og Bandaríkjunum. Á undan ræðu forseta flutti rektor háskólans Alvydas Pumputis ávarp og kór skólans flutti þjóðsöngva Íslands og Litháens. Mynd.
10.03.2015 Forseti situr hátíðarkvöldverð sem Dalia Grybauskaite forseti Litháens heldur til heiðurs íslensku forsetahjónunum. Ávarp forsetaÁvarp forseta á litháensku.
11.03.2015 Forseti flytur ræðu á hátíðarfundi litháenska þingsins í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að landið fékk sjálfstæði. Auk þingmanna og ríkisstjórnar Litháens voru m.a. viðstaddir þeir sem samþykktu sjálfstæðisyfirlýsingu þingsins á sínum tíma. Að lokinni athöfn í þinghúsinu fór fram fánahylling á torginu fyrir utan þar sem fánar Eystrasaltsríkjanna þriggja, Litháens, Lettlands og Eistlands, voru dregnir að húni á sérstökum viðhafnarfánastöngum sem þar hafa verið reistar. Ræða forsetaMyndir.
12.03.2015 Forseti ræðir við fréttamenn BBC, bæði útvarps og sjónvarps um þróun Norðurslóða, nýtingu auðlinda, breytta stöðu Íslands sem og áhuga forysturíkja í Evrópu og Asíu á þátttöku í þróun Norðurslóða. Viðtölin eru liður í dagskrárgerð BBC um Norðurslóðir.
13.03.2015 Forseti er heiðursgestur í árlegri veislu Alþingis og flytur ávarp í lok dagskrár.
14.03.2015 Forseti tekur á móti hópi AFS skiptinema frá ýmsum löndum sem dvalið hafa á ýmsum stöðum landsins undanfarna mánuði, sótt skóla og kynnst samfélagi og fjölskylduháttum. Rætt var um lærdóma þeirra af Íslandsdvölinni.
14.03.2015 Forseti tekur á móti þátttakendum í HönnunarMars og stjórnendum hátíðarinnar ásamt stórum hópi erlendra blaðamanna og forystumanna í hönnun sem kynna sér árangur og verk íslenskra hönnuða.
16.03.2015 Forseti á fund með Höskuldi Þórhallssyni alþingismanni og formanni Norðurlandaráðs um aukið vægi alþjóðamála á vettvangi Norðurlandaráðs, einkum vegna margvíslegra málefna Norðurslóða en Norðurlönd skipa saman meirihluta aðildarríkja Norðurskautsráðsins.
16.03.2015 Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi þar sem rætt var um vaxandi samvinnu landanna, einkum á sviði jarðhitanýtingar og rannsókna á jöklum og náttúru, bæði Norðurslóða og Himalajasvæðisins. Kínverskar vísindastofnanir og fyrirtæki hafa verið öflugir þátttakendur í þingum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, og áformað er að Kína verði á þinginu í október með sérstaka kynningu á stefnu sinni og áherslum í málefnum Norðurslóða, líkt og Frakkland, Bretland og Japan voru með á þinginu í fyrra. Þá var einnig fjallað um góðan árangur af samráðsfundi um Himalajasvæðið sem haldinn var í Bútan í febrúar sem og væntanlega ráðstefnu Norrænu-kínversku Norðurslóðamiðstöðvarinnar sem haldin verður í Sjanghæ í júní.
16.03.2015 Forseti á fund með Unni Brá Konráðsdóttur alþingismanni sem í fyrra var formaður Vestnorræna þingmannaráðsins og er nú formaður Íslandsdeildar ráðsins. Rætt var um vaxandi starfsemi ráðsins og aukinn áhuga á samvinnu Íslands, Færeyja og Grænlands, t.d. á sviði atvinnulífs, ferðaþjónustu og heilbrigðismála sem og að samstarf þjóðanna þriggja yrði eflt með sérstöku tilliti til vaxandi mikilvægis Norðurslóða en Vestnorræna ráðið skipulagði sérstaka málstofu á þingi Arctic Circle í fyrra.
17.03.2015 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni og Sigríði Blöndal, skipuleggjendum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um dagskrá þingsins sem haldið verður í Reykjavík í október, alþjóðlega þátttöku í því sem og vaxandi áhuga á málefnum Norðurslóða. Einnig var fjallað um niðurstöður samráðsfundarins um Himalajasvæðið sem haldinn var í Bútan í febrúar.
17.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kósóvó, Ilir Dugolli, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um stöðu landsins, erfiðleika í efnahagsmálum og áhuga á aðild að ýmsum samtökum í Evrópu og á alþjóðavettvangi. Mynd.
17.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ísraels, Raphael Schutz, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um hugsanlega þróun í Ísrael og Miðausturlöndum í kjölfar kosninganna sem fram fara í Ísrael í dag, skort á árangri í friðarviðræðum undanfarinna ára sem og vaxandi gagnrýni í Evrópuríkjum á stefnu Ísraels og afstöðu stjórnvalda þar til sérstaks ríkis Palestínumanna. Mynd.
18.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Síles, José Miguel Cruz, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun lýðræðis og markaðskerfis í Suður-Ameríku og þann stöðugleika sem náðst hefur í álfunni á undanförnum áratugum, áhuga Síles á að læra af reynslu Íslendinga á sviði sjávarútvegs og jarðhita og á að nýta tækni og aðferðir sem hér hafa gefist vel. Þá var einnig fjallað um kynningu á menningu og listum í Síle og öðrum löndum Suður-Ameríku á hinum ýmsu listahátíðum sem haldnar eru á Íslandi. Mynd.
18.03.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Nígeríu, Bolere Elizabeth Ketebu, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um traust tengsl landanna á sviði viðskipta með sjávarafurðir, einkum þurrkað sjávarfang, en fjölmörg fyrirtæki á Íslandi hafa í áratugi nýtt hausa og hryggi sem áður var hent, þurrkað þá og sent til Nígeríu þar sem þessar afurðir eru seldar á útimörkuðum af konum og öðrum smásölum. Þá var einnig fjallað um það hjálparstarf sem íslenskir framleiðendur hafa eflt í Nígeríu í baráttu gegn blindu. Á fundinum var einnig rætt um aukna samvinnu ríkja í Afríku, eflingu Afríkusambandsins og markvissar aðgerðir í þágu lýðræðis og í baráttu gegn hryðjuverkahópum og skæruliðum. Mynd.
19.03.2015 Forseti afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins en Stígamót hlutu verðlaunin að þessu sinni. Þá voru og veitt verðlaun í ýmsum öðrum flokkum og þess minnst að tíu ár eru síðan stofnað var til Samfélagsverðlaunanna. Í stuttu ávarpi þakkað forseti Fréttablaðinu fyrir að hafa á þennan hátt vakið athygli á því hve víða í íslensku samfélagi er á hljóðlátan hátt unnið að góðum málefnum og bættu samfélagi.
20.03.2015 Forseti ýtir úr vör söfnun ABC barnahjálpar með því að taka á móti börnum úr Fossvogsskóla en grunnskólabörn munu næstu daga leita til landsmanna um framlag til ABC hjálparstarfsins.
20.03.2015 Forseti afhendir Íslensku þekkingarverðlaunin sem Félag viðskipta- og hagfræðinga stendur að. Verðlaunin voru afhent í lok málþings um framtíð og tækifæri á sviði nýsköpunar í íslensku atvinnulífi. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Kerecis.
21.03.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi Skrúfudagsins en í ár er þess minnst að öld er liðin frá upphafi vélstjórnarmenntunar á Íslandi en athöfnin fór fram í Véltækniskólanum. Í ávarpinu áréttaði forseti framlag vélstjóra til uppbyggingar atvinnulífs, útgerðar, vöruflutninga, rafvæðingar og iðnaðar en það hefði gert Íslandi kleift að þróast frá fátæku samfélagi fyrri tíðar í velmegun nútímans. Að athöfninni lokinni skoðaði forseti kennsluaðstöðu í ýmsum greinum vélstjóranáms og skipstjórnar- og siglinganáms.
21.03.2015 Forseti tekur á móti hópi kínverskra þátttakenda í Fanfest sem skipulögð er á vegum CCP. Rætt var um útbreiðslu EVE Online og annarra tölvuleikja í Kína og uppbyggingu CCP í landinu en forseti heimsótti verkstöð fyrirtækisins í Sjanghæ árið 2010. Einnig greindu kínversku þátttakendurnir frá reynslu sinni af Fanfest og dvöl á Íslandi.
23.03.2015 Forseti á fund með Gissuri Guðmundssyni, fyrrum forseta Alþjóðasamtaka matreiðslumeistara, um starf samtakanna í forsetatíð hans og nýjar leiðir í matvælaframleiðslu, m.a. með ræktun skordýra til prótínframleiðslu, bæði í matvæli og til fiskeldis.
23.03.2015 Forseti á fund með forráðamönnum Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum um fjölgun brota á banni gegn áfengisauglýsingum en slíkum auglýsingum er í vaxandi mæli beint að börnum og unglingum. Einnig var fjallað um reynslu erlendra þjóða þar sem áfengisneysla, m.a. unglinga, hefur aukist í kjölfar þess að aðgengi að áfengi er gert auðveldara. .
24.03.2015 Forseti á fund með rektorum Háskólans á Akureyri og Western Kentucky háskólans í Bandaríkjunum og öðrum forystumönnum háskólanna um þá samvinnu þeirra en sendinefnd Western Kentucky háskólans hefur í heimsókn sinni til Íslands unnið að mótun verkefnaskrár fyrir þessa samvinnu. Stefnt er að samskiptum nemenda, kennara og vísindamanna við báðar stofnanir, m.a. með tilliti til rannsókna á Norðurslóðum, loftslagsbreytingum, breytingum á náttúrunni, heilbrigðisþjónustu í dreifbýli og á fleiri sviðum. Samvinnan gæti líka tengst smærri ríkjum í Karíbahafi og þróun Golfstraumsins en Western Kentucky háskólinn hefur komið á fót slíkri samvinnu við samfélögin í Karíbahafi.
24.03.2015 Forseti á fund með sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton Vasiliev, um þróun samvinnu á Norðurslóðum, þing Hringborðs Norðurslóða næsta haust og vaxandi áhuga á að varpa ljósi á þróun svæða innan ríkja á Norðurslóðum. Þá greindi sendiherra frá fyrirhugaðri ráðstefnu um stjórnskipun og réttarfar sem halda á í Pétursborg í lok maí; loks var rætt um þróun mála í Úkraínu í kjölfar samkomulagsins sem gert var í Minsk að tilstuðlan forystumanna Rússlands, Þýskalands og Frakklands.
24.03.2015 Forseti afhendir heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV á samkomu í Iðnó en þau hlaut Guðrún Helgadóttir rithöfundur. Í ávarpi rakti forseti hvernig bækur Guðrúnar væru orðnar að sígildum bókmenntum Íslendinga. Sérhver ný kynslóð tileinkaði sér sögurnar og þær myndu lifa um langan aldur. Þakkaði hann Guðrúnu fyrir framlag hennar til íslenskra bókmennta og menningar.
25.03.2015 Forseti ræðir við Troy Jónsson um réttindi samkynhneigðra á Íslandi, áherslur í baráttu hans og þátttöku í alþjóðlegri keppni sem haldin verður í Suður-Afríku í lok apríl.
25.03.2015 Forseti á fund með forráðamönnum skipulagsstjórnar og umhverfismála í Garðabæ í tilefni af því að unnið er að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið. Rætt var um stöðu Bessastaða, forsetasetrið og náttúrufar og fuglalíf á Bessastaðanesi sem og vaxandi áhuga erlendra ferðamanna og almennings á að heimsækja staðinn og skynja sögu hans og náttúru.
25.03.2015 Forseti og forsetafrú sitja kvöldverðarboð sendiherra Kína, Zhang Weidong, og konu hans. Rætt var um kynni þeirra af landi og þjóð, þróun íslensks samfélags og samvinnu landanna, einkum á sviði vísinda og rannsókna, jarðhita, loftslagsmála, Norðurslóða og á fleiri sviðum. Samvinnan tæki nú til fjölmargra sviða og hefði einkum vaxið síðan þáverandi forseti Kína, Jiang Zemin, kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 2002.
26.03.2015 Forseti situr ársfund Seðlabanka Íslands þar sem fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson og Már Guðmundsson seðlabankastjóri fluttu ræður.
27.03.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi kynningarfundar Startup Energy Reykjavík en þar kynna ýmis ný frumkvöðlafyrirtæki hugmyndir og tækni á mörgum sviðum orkumála. Að kynningunni standa Arion banki, Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Georg, samtök um jarðhitatækni.
27.03.2015 Forseti tekur á móti sendinefnd frá CECEP, ríkisstofnun í Kína sem ætlað er að bæta nýtingu grænnar orku og verndun umhverfis. Sendinefndin hefur heimsótt Ísland til að kynna sér árangur í nýtingu jarðhita og margvíslegar leiðir til að efla umhverfisvæna orku í orkubúskap þjóða. Rætt var um árangurinn í jarðhitasamvinnu Íslands og Kína og hvernig nýta má jarðhita til ylræktar og fiskeldis sem og til að þurrka matvæli og þannig stuðla að fullnýtingu þeirra.
30.03.2015 Forseti á fund um eflingu tengsla Íslendinga og Færeyinga m.a. með útgáfu orðabóka en fyrir nokkrum árum kom út íslensk-færeysk orðabók sem Jón Hilmar Magnússon hafði unnið að og gefin var út af Hinu íslenska bókmenntafélagi. Hann hefur síðan á undanförnum árum unnið að efnissöfnun í færeysk-íslenska orðabók.
30.03.2015 Forseti ræðir við Marie Charrel, blaðakonu frá franska dagblaðinu Le Monde, um endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar fjármálakreppunnar, fjölþætta nýtingu jarðhita og mikilvægi hreinnar orku fyrir íslenskt efnahagslíf. Einnig var rætt um breytingar á Norðurslóðum og áhrif þeirra á stöðu Íslands en Frakkland hefur sýnt sérstakan áhuga á málefnum Norðurslóða frá því Sarkozy, þáverandi Frakklandsforseti, skipaði Michel Rocard, fv. forsætisráðherra, sérstakan sendimann Frakklands í málefnum heimskautanna.
 30.03.2015 Forseti heimsækir nýsköpunarfyrirtækið Alice sem vinnur að ræktun þörunga með nýjum aðferðum þar sem kostir jarðhita og koltvísýringur frá borholum eru notaðir til að ná fram hagkvæmni í hugsanlegri stórræktun þörunga. Framleiðslan yrði síðan m.a. nýtt í fæðubótarefni og snyrtivörur. Verkefnið er unnið í samvinnu við fjárfesta á Norðurlöndum en hinir íslensku stofnendur fyrirtækisins komu fyrir nokkrum árum á fót fyrirtæki sem sérhæfði sig í litlum jarðvarmavirkjunum og nokkrar slíkar hafa verið reistar í Kenía í framhaldi af því. Bæði verkefnin hafa verið unnin af íslenskum sérfræðingum og fyrrum kennurum við Háskóla Íslands. Myndir.

Apríl

01.04.2015 Sendiherra BandaríkjannaForseti á fund með nýjum sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Robert C. Barber, þar sem rætt var um samstarf landanna á ýmsum sviðum og tækifæri til að efla það í framtíðinni. Einkum var fjallað um reynslu Íslendinga á sviði jarðhita og hvernig hægt er að nýta hana í Bandaríkjunum, ekki síst til húshitunar. Þá var og fjallað um margvíslegt samstarf bandarískra háskóla og rannsóknarstofnana við íslenska vísindasamfélagið. Þá eru Norðurslóðir vaxandi þáttur í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna enda taka Bandaríkin innan tíðar við formennsku í Norðurskautsráðinu og þátttakendur frá Bandríkjunum hafa verið fjölmenn sveit á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle. Stofnun Hringborðsins á sínum tíma var meðal annars árangur af samstarfi bandarískra og íslenskra aðila.
01.04.2015 Forseti heimsækir hús Sjávarklasans á Grandanum þar sem fagnað er stækkun Sjávarklasans en nú taka um fimmtíu fyrirtæki þátt í þessari nýsköpunarmiðstöð íslensks sjávarútvegs.
04.04.2015 Forseti er viðstaddur afhendingu Eyrarrósarinnar sem veitt er fyrir menningarfrumkvæði á landsbyggðinni. Athöfnin fór fram um borð í Húna II í Ísafjarðarhöfn. Eyrarrósina hlaut að þessu sinni menningarmiðstöðin Frystiklefinn á Snæfellsnesi.
04.04.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi heimkomuhátíðar sem haldin er í húsnæði Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði. Á heimkomuhátíðinni kynnir fjöldi nýsköpunarfyrirtækja verkefni sín og framleiðslu og fluttir eru margir örfyrirlestrar um ýmiss konar nýsköpunarstarfsemi sem fram fer í byggðarlögunum. Í ávarpi fagnaði forseti þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum árum með því að fjöldi nýsköpunarfyrirtækja nýta sér nálægð við sjávarútveg og aðrar atvinnugreinar og byggja starfsemi sína á sögu, menningu, náttúru og samfélagi Vestfjarða.
07.04.2015 Forseti tekur á móti hópi eldri borgara úr Garðabæ sem á undanförnum árum hafa myndað áhugahóp um ættfræði og sögu sem kemur saman reglulega í bókasafni Garðabæjar. Rætt var um sögu Bessastaða og skoðaðir munir og minjar á staðnum.
09.04.2015 Forseti á fund með Lassi Heininen, prófessor og stjórnarformanni Rannsóknarþings Norðurslóða, Þorsteini Gunnarssyni hjá RANNÍS og Guðrúnu Rósu Þórsteinsdóttur frá Háskólanum á Akureyri um rannsóknasamstarf á Norðurslóðum, ný verkefni á þessu sviði, fyrirhugað málþing um norræna-kínverska samvinnu sem haldið verður í Sjianhæ sem og þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í október.
09.04.2015 Forseti á fund með Steingrími Erlingssyni um þróun skipasiglinga á Norðurslóðum, tækifæri Íslendinga á því sviði og mikilvægi þess að viðhalda kunnáttu í sjómennsku og tryggja skráningu skipa á Íslandi sem og um tækifæri vegna nýtingar náttúruauðlinda og vaxandi umferðar ísbrjóta um Norðurslóðir.
10.04.2015 Forseti á fund með stjórnarmönnum Loftslagsrannsókna, Climate Research Foundation, Dagfinni Sveinbjörnssyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Brynhildi Davíðsdóttur, um alþjóðlegt samstarf varðandi Norðurslóðir og Himalajasvæðið sem og þjálfun erlendra stúdenta í jöklafræði og tengdum fræðigreinum.
10.04.2015 Forseti tekur á móti hópi nemenda og kennara frá Thornton Donovan skólanum í New York fylki og ræðir við þau um náttúru Íslands, samspil eldfjalla og jökla, nýtingu hreinnar orku og loftslagsbreytingar sem og ýmsa þætti í sögu þjóðarinnar. Hópurinn er í námsferð til Íslands.
12.04.2015 Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnu Fletcher skólans við Tufts háskólann í Boston um Norðurslóðir, Warming Arctic International Inquiry, en hana sækja vísindamenn, sérfræðingar og fulltrúar stjórnvalda í Washington. Forsetinn mun einnig eiga fundi með stjórnendum Fletcher skólans og Kennedy skólans við Harvard háskóla um aukið samstarf að rannsóknum á Norðurslóðum.
Þá mun forseti eiga fund með dr. Daniel Schrag, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Harvard, Harvard University Center for the Environment (http://environment.harvard.edu/), og viðræður við prófessora, sérfræðinga og doktorsnema á sviði orku- og umhverfismála sem og í hafrannsóknum.
Ari Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og aðrir fulltrúar HR munu taka þátt í ráðstefnunni við Fletcher skólann en fundirnir með fulltrúum Fletcher og Harvard sýna vaxandi áhuga helstu háskóla í Bandaríkjunum á rannsóknum og vísindasamstarfi á Norðurslóðum. Nýlega var og undirritað samkomulag milli Háskólans á Akureyri og Kentucky háskóla um Norðurslóðasamstarf.
Innan fáeinna vikna munu Bandaríkin taka við formennsku í Norðurskautsráðinu og forseti mun í tengslum við ráðstefnuna í Boston eiga viðræður við John Holdren, stjórnanda vísinda- og tæknimála í Hvíta húsinu og formann bandarísku framkvæmdanefndarinnar í málefnum Norðurslóða, og David Balton sendiherra og aðstoðarráðherra í málefnum hafsins og fiskveiða.
Háskólarnir á Boston svæðinu hafa tekið virkan þátt í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, og undirbúa nú enn frekari þátttöku í næsta þingi þess sem haldið verður 16.-18. október í Hörpu.
12.04.2015 Forseti flytur ávarp í kvöldverði sem rektor Tufts háskólans í Boston hélt til heiðurs þátttakendum í ráðstefnu um Norðurslóðir.
13.04.2015 Forseti á fund með dr. Daniel Schrag, prófessor við Harvard háskóla og stjórnanda umhverfisstofununar háskólans. Rætt var um þörf á víðtækri samvinnu um öflun gagna varðandi þróun Norðurslóða og hvernig slíkt alþjóðlegt átak gæti orðið meðal mikilvægra þátta í formannstíð Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu.
13.04.2015 Forseti á fund með James Stavridis rektor Fletcher skólans, en hann var áður flotaforingi í Landhelgisgæslu Bandaríkjanna, US Coast Guard. Rætt var um ákvörðun Fletcher skólans um að efla rannsóknir og samstarf í málefnum Norðurslóða og nýta þátttöku í Hringborði Norðurslóða í þessu skyni. Fundinn sátu einnig Ari Kristinn Jónsson og Halla Hrund Logadóttir og gerðu grein fyrir samstarfi Háskólans í Reykjavík við Fletcher skólann.
13.04.2015 Forseti á fund með Rafe Pomerance, forsvarsmanni samtakanna Arctic 21, en það er bandalag umhverfissamtaka og annarra áhugasamtaka um ábyrga og sjálfbæra þróun Norðurslóða sem og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
13.04.2015 Forseti á fund með prófessorum og nemendum við Fletcher skólann sem sérhæfa sig í rannsóknum og námi á sviði orku og umhverfismála. Mynd.
13.04.2015 Forseti á fund með dr. John Holdren, stjórnanda vísinda- og tækniskrifstofu forseta Bandaríkjanna (White House Office of Science and Technology), sem nýlega var skipaður formaður sérstakrar samhæfingarnefndar í málefnum Norðurslóða innan bandaríska stjórnkerfisins. Rætt var um þátt vísinda og rannsókna í þróun Norðurslóða og mikilvægi þróunarsamstarfs á því sviði í væntanlegri formannstíð Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu. Einnig var rætt um hvernig kynna má stefnu og áherslur Bandaríkjanna í málefnum Norðurskautsráðsins á væntanlegu þingi Hringborðs Norðurslóða í Reykjavík í október. Mynd.
13.04.2015 Forseti á fund með David Balton, sendiherra og aðstoðarráðherra í málefnum hafsins og sjávarútvegs í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, en hann mun stýra samstarfsfundum fulltrúa Norðurskautsríkjanna í væntanlegri formannstíð Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu. Sendiherrann hafði áður flutt ítarlega ræðu á ráðstefnu Fletcher skólans þar sem hann gerði grein fyrir helstu áherslum og mikilvægustu stefnuþáttum í væntanlegri formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu.
13.04.2015 Forseti tekur við sérstakri heiðursviðurkenningu sem Fletcher skólinn veitti honum í kvöldverði sem haldinn var í tengslum við Norðurslóðaráðstefnu skólans. Ásamt sérstöku skjali var forseta af þessu tilefni afhent að gjöf franskt kort af Norðurslóðum frá miðri 18. öld þar sem Ísland skipar miðlægan sess í sýn Frakklands á Norðurslóðir. Mynd.
13.04.2015 Forseti er viðstaddur undirritun yfirlýsingar um samstarf Fletcher háskólans í Boston, Háskólans í Reykjavík og Arctic Circle á sviði málefna Norðurslóða, rannsókna og kennslu.
14.04.2015 Forseti á fund með prófessorum og nemendum Kennedy skólans við Harvard, John F. Kennedy School of Government, þar sem rætt var um þróun Norðurslóða og rannsóknir á því sviði sem og tækifærin sem Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle, veitir háskólanemendum, kennurum og vísindamönnum en Kennedy skólinn tók þátt í þingi Arctic Circle í Reykjavík sem haldið var í fyrra. Á fundinum kom fram ríkur áhugi nemenda og kennara að halda því samstarfi áfram á næstu árum. Fundinn sátu einnig rektor Háskólans í Reykjavík, Dagfinnur Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri Arctic Circle og Mead Treadwell fyrrum vararíkisstjóri Alaska sem á sínum tíma var einn af stofnendum Arctic Circle.
14.04.2015 Forseti á fund með David T. Ellwood, rektor Kennedy skólans við Harvard, þar sem fjallað var um samstarf skólans við Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle. Fundinn sátu einnig fulltrúar Háskólans í Reykjavík.
14.04.2015 Forseti á fund með Tarja Halonen, fyrrum forseta Finnlands, en hún dvelur nú við Harvard háskóla. Fjallað var um þróun Norðurslóða og samstarf við háskóla og rannsóknarstofnanir í Bandaríkjunum en Halonen studdi í forsetatíð sinni ásamt forseta Íslands Rannsóknarþing Norðurslóða, Northern Research Forum, sem á vissan hátt var undanfari Hringborðs Norðurslóða.
15.04.2015 Forseti situr í kvöld hátíðarkvöldverð í Kristjánsborgarhöll í tilefni af 75 ára afmæli Margrétar II Danadrottningar. Hátíðarkvöldverðinn sækja einnig aðrir þjóðhöfðingjar frá Norðurlöndum og víðar úr Evrópu.
16.04.2015 Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnu sem Fransk-íslenska viðskiptaráðið heldur í París. Ráðstefnan, sem haldin er í höfuðstöðvum Viðskiptaráðs Parísar (CCIP), fjallar um samstarf landanna á sviði jarðhitanýtingar en vaxandi áhugi er í Frakklandi á þeim þætti orkumála. Ráðstefnuna sækja sérfræðingar og fulltrúar franskra og íslenskra fyrirtækja. Á ráðstefnunni fluttu Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Laurent Fabius utanríkisráðherra Frakklands einnig ræður og fulltrúar íslenskra og franskra jarðvarmafyrirtækja tóku þátt í pallborðsumræðum. Myndir.
16.04.2015 Forseti á fund með Laurent Fabius utanríkisráðherra Frakklands í tengslum við ráðstefnu um jarðhitanýtingu sem haldin er í París. Einkum var fjallað um hvernig Ísland getur orðið að liði varðandi árangur loftslagsráðstefnunnar sem haldin verður í París í desember á þessu ári. Slíkt liðsinni gæti m.a. beinst að þeim rannsóknum á bráðnun jökla sem stundaðar hafa verið á Íslandi á undanförnum áratugum, árangri landsins á sviði endurnýjanlegrar orku, auknu mikilvægi Norðurslóða þar sem hlýnun jarðar er sérstaklega hröð sem og hvernig íslenskir aðilar hafa á undanförnum misserum stuðlað að auknu samstarfi á Himalajasvæðinu en hlýnun jarðar mun hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir þann stóra hluta mannkyns sem þar býr. Utanríkisráðherra Frakka lýsti sérstökum áhuga á samvinnu við Íslendinga á þessum sviðum og hvatti til þess að samstarf landanna um nýtingu jarðhita yrði eflt á komandi árum. Fundinn sátu einnig Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra Íslands í Frakklandi. Myndir.
17.04.2015 Forseti á fund með Ségolène Royal, orku- og umhverfisráðherra Frakklands þar sem rætt var um aukið samstarf milli landanna á sviði jarðhitanýtingar, bæði í Frakklandi og í öðrum heimshlutum, einkum í Afríku. Sérstök áhersla var lögð mikilvægi hitaveitna í þróun borga á komandi áratugum og þá fjölþættu atvinnustarfsemi, bæði í ylrækt og fiskeldi, sem byggja má á jarðhita. Þá ítrekaði Ségolène Royal áform um að beita sér fyrir sérstakri kynningu á jarðhita í tengslum við loftslagssamningana sem fram fara í París í desember. Fundinn sátu einnig Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og sendiherrar Íslands í Frakklandi og Frakklands á Íslandi. Myndir.
17.04.2015 Forseti átti í dag, föstudaginn 17. apríl, fund með François Hollande forseta Frakklands í Élysée höll í París. Á fundinum áréttaði forseti Frakklands mikilvægi loftslagsráðstefnunnar sem haldin verður í París í desember, COP21, þar sem gerð verður úrslitatilraun til að ná víðtæku samkomulagi um áhrifaríkar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Forsetarnir voru sammála um að bráðnun íss á Norðurslóðum og þróun mála í þeim heimshluta fæli í sér mikilvægar röksemdir fyrir nauðsyn alþjóðlegs samkomulags í loftslagsmálum. Forseti Frakklands lýsti áhuga á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík 16.-18. október, nokkrum vikum fyrir Parísarfundinn, sem skapað gæti margvísleg tækifæri til að styrkja samstarf þjóða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. MyndirFréttatilkynning.
19.04.2015 Forseti á fund í Houston með stjórnendum alþjóðlega orkuþingsins CERAWeek, Daniel Yergin, James Rosenfield og Kate Hardin. Þingið sækja um 2800 stjórnendur orkufyrirtækja, sérfræðingar og forystumenn ríkja og alþjóðastofnana en það hefur á undanförnum árum þróast í að verða ein helsta samkoma orkuiðnaðarins í veröldinni. Forseti mun taka þátt í málstofum og fundum á þinginu, einkum varðandi aukið mikilvægi Norðurslóða. Á fundinum í dag var rætt um samvinnu IHS þekkingarfyrirtækisins sem myndar kjarnann í stjórnun og skipulagningu CERAWeek og Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle. Mynd.
20.04.2015 Forseti sækir alþjóðlega orkuþingið CERAWeek sem haldið er í Houston í Texas. Þingið er skipulagt af IHS Energy og er sótt af 2800 stjórnendum orkufyrirtækja, sérfræðingum og forystumannum ríkja og alþjóðastofnana. Þingið var á sínum tíma stofnað af hugveitu Daniels Yergin sem þekktur er víða um heim fyrir rannsóknir sínar og ritstörf á sviði orkumála. Hann hlaut á sínum tíma Pulitzer verðlaunin og nýjasta bók hans The Quest er talin grundvallarrit um samspil orku-, öryggis- og loftslagsmála. Forseti mun taka þátt í málstofu um Norðurslóðir og annarri um sjálfbærni sem og eiga fundi með ýmsum þátttakendum í þinginu. Vefsíða þingsins.
20.04.2015 Forseti flytur inngang í upphafi málstofu um sjálfbærni og nýtingu hreinnar orku sem haldin er á alþjóðlega orkuþinginu CERAWeek í Houston. Á málstofunni var fjallað um aukið vægi sjálfbærni í mótun orkustefnu og hagkerfi borga og ríkja sem og fjölþætt tækifæri í nýtingu hreinnar orku sem tækniþróun síðustu ára hefur skapað. Í málstofunni tóku þátt Jason Bordoff stjórnandi Center on Global Energy Policy við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, Eric Spiegel forstjóri Siemens í Bandaríkjunum og John Knight einn af aðalstjórnendum Statoil. Mynd.
21.04.2015 Forseti flytur upphafsávarp á málstofu um framtíð Norðurslóða sem haldin er á alþjóðlega orkuþinginu CERAWeek í Houston og tekur þátt í pallborðsumræðum með m.a. James Bellingham, stjórnanda Center for Marine Robotics við Woods Hole hafrannsóknarstofnunina og Elizabeth Sherwood-Randall Deputy Secretary of Energy í ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þá situr forseti fyrir svörum á sérstökum kynningarfundi um Norðurslóðir sem haldinn var á vegum CERAWeek en ýmsir vísindamenn og fulltrúar rannsóknarstofnana sátu þann fund. Myndir.
21.04.2015 Forseti situr fundi á alþjóðlega orkuþinginu CERAWeek sem haldið er í Houston þar sem forstjórar olíufélaganna ExonMobil, Total, BP og Statoil sitja fyrir svörum.
22.04.2015 Forseti á fund með Henry M. Paulson, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, um samvinnu við Kína en hann hefur nýlega gefið út bók um það efni, Dealing with China, og fjallaði um hana í gær á alþjóðlega orkuþinginu CERAWeek í Houston. Einnig ræddu forseti og Paulson um þróun Norðurslóða og loftslagsbreytingar en Paulson var í fyrra meðhöfundur að skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Bandaríkin. Þá var rætt um Himalajaverkefnið, sem forseti hefur beitt sér fyrir, og fundinn i Bútan í febrúar. Lýsti Paulson áhuga á að stofnun hans gæti fylgst með bæði Himalajaverkefninu og Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle.
23.04.2015 Forseti sækir skátamessu sem haldin er í Hallgrímskirkju á sumardaginn fyrsta.
23.04.2015 Forseti veitir umhverfisverðlaun Hveragerðis á sumarhátíð í Garðyrkjuskólanum, Landbúnaðarháskóla Íslands, að Reykjum í Ölfusi. Verðlaunin hlaut Skógræktarfélag Hveragerðis. Þá voru á hátíðinni einnig veitt garðyrkjuverðlaunin sem forsætisraðherra afhenti og umhverfisverðlaun Ölfuss sem mennta- og menningarmálaráðherra afhenti.
23.04.2015 Forseti afhendir íslensku þýðingarverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini en verðlaunin hlaut Gyrðir Elíasson.
24.04.2015 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um skipulag þingsins sem haldið verður í Reykjavík í október, einkum í kjölfar ákvörðunar forseta Frakklands François Hollande að taka þátt í þinginu og flytja opnunarræðu.
25.04.2015 Forseti flytur ávarp við setningu þings Íþróttasambands fatlaðra og þakkaði sambandinu fyrir framlag þess í íþróttamálum fatlaðra og jafnframt fyrir að hafa breytt viðhorfi þjóðarinnar til fötlunar og hafa verið öflugir fulltrúar Íslands í alþjóðastarfi íþróttahreyfingarinnar.
25.04.2015 Forseti sækir útskriftarsýningu nemenda Listaháskóla Íslands sem haldin er í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Á sýningunni eru verk nemenda í myndlist, hönnun og arkitektúr.
26.04.2015 Forseti flytur ávarp í guðsþjónustu eldri borgara sem haldin er í Vídalínskirkju, en prestur var sr. Jóna Hrönn Bolladóttir. Í ávarpi fjallaði forseti um mikilvægi þess að nýta reynslu, þekkingu og getu hinna eldri sem og um mikilvægi þjóðkirkjunnar í menningu, sögu og lýðræðissamfélagi Íslendinga.
26.04.2015 Forseti sendir samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til dr. Ram Baran Yadav forseta Nepals vegna hörmunganna sem hinir hrikalegu jarðskjálftar hafa haft í för með sér.  Fréttatilkynning
26.04.2015 Forseti sækir útskriftarsýningu nemenda af leikarabraut sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands. Sýnt var verkið Að eilífu eftir Árna Ibsen í leikstjórn Stefáns Jónssonar.
27.04.2015 Forseti á fund með stjórnarmönnum Heimssýnar um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, þróun umsóknarferils, lærdómana sem draga má af viðræðum í opinberri heimsókn forseta til Frakklands og Þýskalands árið 2013 sem og líklega afstöðu Evrópusambandsins á komandi árum í ljósi atburðarásar undarfarinna ára og innri stöðu sambandsins og afstöðu einstakra ríkja, bæði nú, á undanförnum árum sem og í framtíðinni.
27.04.2015 Forseti tekur við lágmynd sem höfundur verksins, Zdzislaw Rybak steinsmiður, færði honum. Rybak kom til Íslands frá Póllandi fyrir nokkrum árum, lærði steinsmíði og starfar nú við eigið fyrirtæki.
28.04.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi leikjaráðstefnunnar Slush PLAY sem haldin er í Gamla bíó en að henni standa m.a. Klak Innovit og fleiri íslenskir aðilar í samstarfi við finnsku Slush ráðstefnuna sem er meðal stærstu tækniráðstefna í Evrópu. Í ávarpinu ræddi forseti þróun leikja- og upplýsingatækninnar á Íslandi og hvernig nýsköpun á þessu sviði hefði nýtt sér ýmsa kosti íslensks samfélags. Reynslan af glímunni við fjármálakreppu undanfarinna ára væri einnig dýrmætur reynslusjóður og hefði fjöldi íslenskra fyrirtækja náð árangri á þessu sviði á nýliðnum árum.
28.04.2015 Forseti á fund með ýmsum fulltrúum sjávarklasa, fiskvinnslufyrirtækja og verkfræðistofa um hagnýtingu íslenskrar reynslu, tækni og þekkingar á sviði þurrkunar sjávarfangs en hún gæti gagnast við þurrkun ýmissa annarra matvæla víða um heim. Á undanförnum árum hafa ýmsar alþjóðastofnanir eins og FAO, IRENA og UNDP haft vaxandi áhuga á að þessi íslenska þekking sé nýtt í öðrum heimshlutum.
28.04.2015 Forseti á fund með forstjóra Landsvirkjunar Herði Arnarsyni um tímamót í sögu fyrirtækisins en 1. júlí verða 50 ár frá stofnun Landsvirkjunar. Rætt var um þróun fyrirtækisins undanfarna áratugi, verkefni í næstu framtíð og nýja stöðu í orkumálum Íslendinga.
29.04.2015 Forseti sendir minningarkveðju sem lesin er við útför Magnúsar Ólafssonar í Norður Dakóta. Kveðja.
29.04.2015 Forseti á fund með sendiherra Þýskalands Thomas Meister um þátttöku Þýskalands í þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík 16.-18. október. Fundurinn er haldinn í kjölfar á bréfi frá kanslara Þýskalands Angelu Merkel og ákveðið hefur verið að í dagskrá þingsins verði sérstök kynning á framlagi Þýskalands til Norðurslóða, vísindarannsóknum og stefnumótun sem og áherslum í tengslum við efnahagsþróun og baráttu gegn loftslagsbreytingum.
29.04.2015 Forseti situr fund í Hörpu með ýmsum aðilum sem koma að undirbúningi þings Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldinn verður í Hörpu 16.-18. október næstkomandi.

Maí

04.05.2015 Forseti tekur á móti hópi ungra athafnamanna frá Colorado sem eru félagar í Young Presidents' Organization og heimsækja Ísland til að kynna sér þjóðlíf, náttúru og menningu.
05.05.2015 Forseti á fund með stjórnendum Reykjavík Geothermal Guðmundi Þóroddssyni og Michael Philipp um jarðhitaverkefni í Afríku, bæði í Eþíópíu og fleiri löndum Afríku, sem og í Mexíkó og fleiri ríkjum Ameríku.
05.05.2015 Forseti flytur ávarp á ársfundi Landsvirkjunar í tilefni þess að í sumar eru liðin fimmtíu ár frá stofnun fyrirtækisins. Ávarp
06.05.2015 Forseti á fund með sendiherra Rússlands Anton Vasiliev um samstarf á Norðurslóðum, m.a. vegna þingmannafundar Hinnar norðlægu víddar sem haldinn verður í Reykjavík í næstu viku í boði Alþingis og þings Hringborðs Norðurslóða sem haldið verður í Reykjavík í haust. Þá var fjallað um aðra þætti í samstarfi Íslands og Rússlands, m.a. þróun samræðu um réttarríkið og þrígreiningu ríkisvaldsins í framhaldi af heimsókn fulltrúa Rússneska lögmannafélagsins og réttarstofnana til Íslands fyrir nokkrum árum.
07.05.2015 Forseti á fund með Ababu Namwamba þingmanni og fyrrum ráðherra frá Keníu sem heimsækir Ísland til að kynna sér þjóðlíf, efnahagsþróun og náttúru. Hann er einnig þekktur í heimalandi sínu fyrir framlag sitt til lýðræðisþróunar og betra stjórnarfars. Fjallað var um þróun Íslands frá fátæku samfélagi bænda og sjómanna til velferðar samtímans, nýtingu jarðhita og samstarf við Keníu á því sviði en miklar jarðhitalindir eru í landinu. Þá var og rætt um þróun lýðræðis og stöðu mála í Afríku. Fundinn sat einnig Paul Ramses Oduor sem búið hefur á Íslandi undanfarin ár og unnið að tengslum landannna á sviði mennntunar ungmenna og mannúðarmála.
08.05.2015 Forseti tekur upp ávarp, bæði á ensku og íslensku, til stuðnings sameiginlegu átaki sem miðar að því að hvetja ríki Sameinuðu þjóðanna til að gera rannsóknir og lækningar á taugasjúkdómum og mænuskaða að einu af þúsaldarmarkmiðum samtakanna. Að áskoruninni standa ýmis félagssamtök á Íslandi og er leitað til íslensku þjóðarinnar um að styðja þessa málaleitan.
08.05.2015 Forseti tekur á móti starfsmönnum Setbergsskóla og ræðir við þá um skólahald á Bessastöðum og þróun Íslands frá þeim tíma sem og glímuna við að festa lýðveldið i sessi á fyrstu áratugu þess.
08.05.2015 Forseti sækir hátíðarsamkomu í tilefni af 120 ára afmæli Hjálpræðishersins á Íslandi. Í ávarpi þakkaði forseti Hjálpræðishernum fyrir framlag hans til íslensks þjóðfélags, sérstaklega þjónustu við þá sem glíma við mikla erfiðleika og eru á vissan hátt utangarðs í íslensku samfélagi. Jafnframt rifjaði forseti upp minningar frá æskuárum sínum á Ísafirði þegar Hjálpræðisherinn var virkur þátttakandi í bæjarfélaginu eins og hann hefur verið víða um land.
11.05.2015 Forseti flytur ræðu í upphafi þingmannafundar Hinnar norðlægu víddar en hana mynda þingmenn frá Íslandi, Noregi, Rússlandi og Evrópusambandinu. Fundurinn er haldinn í boði Alþingis. Í ræðunni ræddi forseti hinar miklu breytingar sem einkenna Norðurslóðir, aukinn áhuga ríkja í Evrópu og Asíu á þátttöku í stefnumótun sem og sess Norðurslóða í umræðunni um loftslagsbreytingar og auðlindanýtingu. Þess vegna væri áríðandi að efla þátt lýðræðislegrar samræðu og framlag þingmanna til stefnumótunar á Norðurslóðum. Lagði forseti til að þingmannafundir Hinnar norðlægu víddar yrðu því framvegis árlegir.
11.05.2015 Forseti á fund með arkitektunum Philip Enquist og Drew Wensley frá Bandaríkjunum og Kanada sem unnið hafa að hönnun og framtíðarskipulagi borga, m.a. með tilliti til sjálfbærni og hreinnar orku.
11.05.2015 Forseti tekur á móti hópi kennara frá Íslandi, Þýskalandi, Noregi, Spáni og Wales sem unnið hafa að samstarfsverkefni um hvernig fortíð og framtíð eru tvinnuð saman í námi nemenda. Hluti af umfjölluninni hefur einnig verið sérstakt vatnsverkefni sem miðar að því að auka skilning á hvernig aðstoða má vanþróuð samfélög sem skortir drykkjarhæft vatn. Kennararnir í verkefninu hafa í nokkur ár hist reglulega og heimsótt hverjir aðra og eru íslensku kennararnir nú gestgjafar.
11.05.2015 Forseti ræðir við hóp rússneskra þingmanna sem sækja þingmannafund Hinnar norðlægu víddar sem haldinn er í Reykjavík í boði Alþingis. Rætt var um fylki og svæði í norðurhluta Rússlands, vandamál þeirra og viðfangsefni sem og þátttöku fulltrúa þeirra í alþjóðlegri umræðu um Norðurslóðir en íbúarnir skynja betur en aðrir þau vandamál sem við er að glíma á Norðurslóðum. Þá var einnig fjallað um mikilvægi þátttöku þingmanna og kjörinna fulltrúa í stefnumótun á Norðurslóðum.
12.05.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Írlands, frú Cliona Manahan, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um reynslu landanna af glímunni við afleiðingar fjármálakreppunnar, rík tengsl í sögu og menningu sem og breytta stöðu á Norður-Atlantshafi í ljósi aukins mikilvægis Norðurslóða. Mynd.
12.05.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Úrúgvæs, hr. Fernando López-Fabregat, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um stöðu Úrúgvæs í Suður Ameríku, áherslur á sjálfstætt hlutverk landsins á alþjóða vettvangi sem og mikilvægi landbúnaðar og matvælaframleiðslu fyrir efnahagslíf landsins. Úrúgvæ leitar eftir stuðningi Íslands og annarra Norðurlanda við framboð sitt til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hefur einnig áhuga á að kynna sér sérstaklega nýtingu jarðhita á Íslandi. Mynd.
12.05.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kýpur, frú María Papakyriakou, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um reynslu landanna af glímunni við afleiðingar fjármálakreppunnar, nauðsyn samkomulags milli tyrknesku- og grískumælandi íbúa eyjarinnar og bindur sendiherrann miklar vonir við nýhafnar viðræður. Þá lýsti sendiherrann áhuga á að Kýpur gæti fylgst betur með umræðum um þróun mála á Norðurslóðum. Mynd.
12.05.2015 Forseti tekur á móti konum í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur en klúbburinn fagnar fjörtíu ára afmæli um þessar mundir. Kynnt voru markmið og starfsemi klúbbsins sem og gjöf til skólahalds í fátæku samfélagi þróunarlands. Forseti fjallað einnig um sögu Bessastaða og hvernig hún endurspeglar áfanga Íslendinga, bæði á fyrri öldum og á lýðveldistíma.
12.05.2015 Forseti á fund með Vladimir Torlopov þingmanni frá Rússlandi sem sækir þingmannafund hinnar Norðlægu víddar sem haldinn er í boði Alþingis. Fjallað var um nauðsyn þess að efla þekkingu á verkefnum og áherslum Rússlands á Norðurslóðum og auka þátttöku þingmanna og kjörinna fulltrúa í stefnumótun og umræðum.
13.05.2015 Forseti á fund með Michael Hebb og Lesley McClurg frá NPR um bráðnun íslenskra jökla og loftslagsbreytingar, um hvernig rannsóknir undanfarna ratugi hafa sýnt hraða þiðnun og bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum og í Grænlandi sem knýr á um nauðsynlegar aðgerðir í loftslagsmálum. Hluti úr viðtali við forseta hjá NRP, annar hluti úr viðtalinu.
13.05.2015 Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi Zhang Weidong sem flytur forseta sérstakar kveðjur frá forseta Kína þar sem meðal annars er áréttaður vilji til frekara samstarfs.
13.05.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Króatíu, hr. Frane Krnic, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um stöðu smárra og meðalstórra ríkja í Evrópu, þróun mála á Balkanskaga og hættu á frekari átökum á komandi árum, sem og nauðsyn þess að ríki Evrópu stuðli að farsælli þróun efnahagslífs, sérstaklega hinna smærri ríjka á svæðinu. Mynd.
13.05.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Gana fr. Edith Hazel, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um áhuga stjórnvalda í Gana á að kynna sér reynslu Íslendinga í sjávarútvegi og skipulag veiða og vinnslu en stjórnvöld í landinu leggja nú vaxandi áherslu á þróun sjávarútvegs, m.a. í krafti sérstaks sjávarútvegsráðuneytis sem þar hefur verið stofnað. Mynd.
13.05.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Laos,  hr. Sayakane Sisouvong, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um glímu Laos við afleiðingar langvarandi átaka  og styrjalda í landinu og nauðsyn efnahagslegrar og félagslegrar þróunar; sendiherrann lýsti sérstökum áhuga á að kynna sér reynslu Íslendinga í nýtingu náttúruauðlinda og skipulagningu ferðaþjónustu. Mynd.
13.05.2015 Forseti er viðstaddur setningu Listahátíðar í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
13.05.2015 Forseti tekur á móti hópi ungra sjálfboðaliða frá ýmsum löndum í Evrópu, Suður-Ameríku og Afríku og íslenskum gestgjöfum þeirra. Hópurinn hefur unnið m.a. á dvalarheimilum aldraðra, leikskólum og ýmsum góðgerðarstofnunum.
15.5.2015 Forseti flytur ávarp við setningu norræns skátaþings sem haldið er í Hörpu. Í ávarpinu ræddi forseti þátt skátahreyfingarinnar í menningu og samfélagi norrænna þjóða og framlag þeirra til þjálfunar og uppeldis ungs fólks. Þá lýsti forseti reynslu sinni af skátastarfi sem ungur drengur vestur á fjörðum og í Reykjavík og áréttaði framlag skáta til hátíðarhalda 17. júní og sumardaginn fyrsta.  Skátahreyfingin veitti ungu fólki í senn rætur á heimaslóð og tækifæri til þátttöku í alþjóðlegu starfi og mikilvægt væri að styrkja samstarf norrænu skátahreyfinganna. Að lokum lýsti forseti árangri af Forvarnardeginum þar sem skátahreyfingin á Íslandi tekur höndum saman við aðrar æskulýðs- og íþróttahreyfingar.
15.05.2015 Forseti tekur þátt í sérstakri athöfn Friends of Scouting in Europe sem haldin er í framhaldi af setningu norræns skátaþings en samtökin vinna að eflingu skátastarfs í Mið- og Austur Evrópu með einstaklingsbundnum framlögum frá skátum í öðrum Evrópulöndum. Við athöfnina afhenti forseti skírteini nýjum þátttakendum í þessu samstarfi, bæði frá Íslandi og öðrum Norðurlöndum.
15.05.2015 Forseti á fund með fulltrúum hóps íslenskra fyrirtækja sem eru sérstakir samstarfsaðilar Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um þær áherslur sem sett geta svip á framlag Íslands til þróunar Norðurslóða, svo sem varðandi málefni hafsins, hreina orku, vísindi og rannsóknir, samgöngur og framkvæmdir.
15.05.2015 Forseti tekur á móti sendinefnd frá Vináttufélagi Japans og Íslands en hún heimsækir Ísland í tengslum við áfanga í vináttusambandi landanna. Rætt var um vaxandi áhuga Japana á Íslandi, náttúru og hreinni orku sem og um rannsóknir á eldfjöllum og öðrum öflum náttúrunnar. Vináttufélagið hefur verið öflugur vettvangur til að styrkja sess Íslands í Japan og hafa fjölmargir forystumenn þess unnið að þessum tengslum í áraraðir. Mynd
15.05.2015 Forseti afhendir Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum en verðlaunin eru veitt í samvinnu við Íslandsstofu. Verðlaunin hlaut í ár fyrirtækið Icelandair Group og veitti Björgólfur Jóhannsson forstjóri verðlaununum móttöku fyrir hönd fyrirtækisins.
15.05.2015 Forseti veitir Arnaldi Indriðasyni rithöfundi sérstaka heiðursviðurkenningu Útflutningsverðlaunanna en hún er veitt einstaklingi sem með starfi sínu hefur borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð.
15.05.2015 Forseti er viðstaddur opnun samsýningar íslenskra listakvenna í Gerðarsafni en þær hafa unnið verk sín út frá steindum gluggum Gerðar Helgadóttur í Skálholtskirkju, Kópavogskirkju og víðar.
15.05.2015 Forseti ræðir við forsvarsmenn átaks um sykurlaust Ísland sem vinna að skipulagi ráðstefnu og kynningardags í þessu skyni.
16.05.2015 Forseti tekur á móti hópi athafnafólks frá Hong Kong sem er í kynnisheimsókn á Íslandi.
18.05.2015 Forseti á fund með Ababu Namwamba, þingmanni frá Keníu og fyrrum ráðherra, sem heimsótt hefur Ísland að undanförnu og lagði fram á fundinum hugmyndir sínar um tillögur um ýmis samstarfsverkefni Íslands og Keníu, bæði á sviði stjórnsýslu, lýðræðis, menntunar, íþrótta og fleiri sviðum.
19.05.2015 Forseti sækir Blæði, frumsýningu Íslenska dansflokksins, en sýningin er liður í Listahátíð.
19.05.2015 Forseti flytur ávarp við setningu evrópskrar ráðstefnu um rekstur flugvalla og flugstöðva. Í ávarpinu rakti hann fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands, vaxandi umferð um flugstöðina á Keflavíkurflugvelli og hvernig hún hefði farið fram úr bjartsýnustu spám þegar flugstöðin var reist á sínum tíma. Þá reifaði forseti einnig hvernig vaxandi áhugi í öðrum heimshlutum á ferðum til Evrópu myndi hafa áhrif á hlutverk svæðisbundinna flugstöðva. Einnig væri vaxandi umferð ferðamanna um Norðurslóðir dæmi um þær breytingar sem væru í vændum.
20.05.2015 Forseti tekur á móti Haraldi Noregskonungi sem kemur í stutta heimsókn til Íslands á leið sinni til Bandaríkjanna. Forseti sýndi konungi víkingaskipið Íslending sem varðveitt er í safninu í Reykjanesbæ og fræddi Gunnar Marel Eggertsson, sem smíðaði skipið og stjórnaði siglingu þess árið 2000, konung um skipið og ferðina sem farin var frá Íslandi til Grænlands, Kanada og Bandaríkjanna fyrir fimmtán árum. Myndir (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson).
21.05.2015 Forseti tekur á móti hópi kvenna frá  Center for Women and Democracy í Bandaríkjunum en þær heimsækja Ísland til að kynna sér stöðu kvenna, þróun jafnréttismála og þær breytingar sem orðið hafa á þátttöku kvenna í stjórnmálum sem og í félagslegri löggjöf og réttindum. Forseti lýsti niðurstöðu skýrslu sem gerð var fyrir um 40 árum og hann ritstýrði á fyrstu árum sínum í Háskóla Íslands. Í henni var kortlögð staða kvenna á ýmsum sviðum og spáð fyrir um horfurnar á komandi áratugum. Ísland væri líklega eina ríkið nú þar sem konur hefðu gegnt öllum æðstu stöðum bæði ríkis og kirkju. Þó mætti margt gera betur. Vefur stofnunarinnar.
21.05.2015 Forseti ræðir við Lewis Dolinsky blaðamann frá San Francisco sem heimsækir Ísland til að kynna sér land og þjóð og mun fara hringferð um landið.
22.05.2015 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um dagskrá þingsins sem haldið verður í Reykjavík í október og aðra þætti í undirbúningi þess. Fjöldi tillagna um málstofur á þinginu hefur þegar borist skrifstofu Arctic Circle.
22.05.2015 Forseti sækir tónleikauppfærslu í Hörpu á óperunni Peter Grimes eftir Benjamin Britten sem flutt var á vegum Sinfóníuljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar. Sýningin er liður í Listahátíð.
22.05.2015 Forseti er viðstaddur opnun myndlistarsýningarinnar Saga í Listasafni Íslands þar sem verk ýmissa íslenskra myndlistarmanna eru sett í samhengi við sögu og náttúru. Sýningin var upphaflega sett upp í Þýskalandi árið 2014.
26.05.2015 Forseti ræðir við Mary Pilon, blaðamann vefmiðilsins Politico í Bandaríkjunum og Evrópu, um endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar fjármálakreppunnar, lærdóma sem draga má af reynslu þjóðarinnar og samspil lýðræðis og markaða.
27.05.2015 orseti á fund með sendiherra Bretlands á Íslandi, Stuart Gill, um þátttöku Breta í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, bæði í fyrra og á þinginu sem haldið verður í október á þessu ári, stefnumótun breskra stjórnvalda í málefnum Norðurslóða, skýrslu Lávarðadeildarinnar sem og athuganir á kostum þess að flytja rafmagn um sæstreng milli Íslands og Bretlands.
27.05.2015 Forseti á fund með Viktoríu Sveinsdóttur um fyrirhugaða ráðstefnu um skipulag og fjárfestingar í ferðaþjónustu á Íslandi í því skyni að efla kunnáttu og faglega hæfni þjóðarinnar á þessu sviði.
27.05.2015 Forseti á fund með Michael Green sem unnið hefur ásamt prófessor Michael Porter við Harvard háskóla að þróun alþjóðlegra mælinga á félagslegum árangri, Social Progress Index, en hann heimsækir Ísland til að kynna nýtingu slíkra mælinga á ráðstefnu sem haldin verður á morgun.
28.05.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu um Auðlindagarð sem myndast hefur í kringum jarðhitafyrirtækin á Reykjanesi, þróun hans og tækifæri til víðtækara samstarfs, bæði innlendra aðila og erlendra. Í ávarpinu áréttaði forseti hve ríkur þáttur nýting jarðhitans væri orðin í ferðaþjónustu á Íslandi og í kynningu á hreinni orku, hvatti jafnframt til þess að leitað væri samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir í þróun Auðlindagarðsins.
28.05.2015 Forseti er viðstaddur útför Halldórs Ásgrímssonar sem lengi sat í ríkisráði Íslands sem forsætisráðherra, utanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra.
28.05.2015 Forseti flytur ávarp á málþingi um mælingar á félagslegum framförum, Social Progress Index, sem haldið er í höfuðstöðvum Arion banka. Þar voru kynntar mælingar á margvíslegum þáttum félagslegra framfara í fjölmörgum löndum heims og staða Íslands í því samhengi. Í ávarpi sínu áréttaði forseti að slíkar mælingar gætu breikkað umræðuna um velferð þjóða, framfarir og hvernig árangur í efnahagsmálum væri nýttur í þágu velferðar, heilbrigðis og félagslegs öryggis. Mikilvægt væri að þjóðin gerði sér grein fyrir hve vel hefði tekist á mörgum sviðum, jafnhliða því að vakin væri athygli á þörfinni á sérstökum aðgerðum.
28.05.2015 Forseti flytur ræðu á samkomu í Logalandi í Reykholtsdal. Dagskráin bar heitið "Hún söng dirrindí" og var helguð minningu Jónasar Árnasonar, rithöfundar og alþingismanns, og Guðrúnar Jónsdóttur konu hans. Ræða forseta.
29.05.2015 Forseti tekur á móti hópi athafnamanna og stjórnenda fyrirtækja frá Connecticut ríki í Bandaríkjunum. Þeir eru félagar í Young Presidents Organisation og heimsækja Ísland til að kynnast náttúru landsins, þjóðlífi og efnahagsmálum. Einkum var rætt um nýtingu hreinnar orku, bráðnun jökla og loftslagsbreytingar.
29.05.2015 Forseti á fund með Tom Harkin, fyrrum öldungadeildarþingmanni í Bandaríkunum sem nýlega lét af þingmennsku eftir áratuga setu í Öldungadeildinni. Rætt var um ýmsa þætti alþjóðamála, baráttuna gegn loftslagsbreytingum og þróun norðurslóða í tíð formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu, stöðuna í Evrópu og Mið-Austurlöndum.
30.05.2015 Forseti á fund með Frank I. Luntz um þróun orðræðu um loftslagsbreytingar, lærdómana sem draga  má af átökum síðustu ára og hvernig víðtæk samstaða um aðgerðir þarf að byggja á hugtökum og framsetningu sem nær eyrum sem flestra.
30.05.2015 Forseti er viðstaddur kynningu á þjóðbúningum í félagsmiðstöð eldri borgara í Grafarvogi en dagskráin er liður í Grafarvogsdeginum.
30.05.2015 Forseti heimsækir fjölmargar vinnustofur listamanna á Korpúlfsstöðum en þar er opið hús í tengslum við Grafarvogsdaginn.
31.05.2015 Forseti er viðstaddur útför Skúla Alexanderssonar fyrrum alþingismanns sem fram fór frá Ingjaldshólskirkju á Snæfellsnesi.

Júní

01.06.2015 Forseti heimsækir Heiðarskóla í Reykjanesbæ þar sem allir nemendur skólans dönsuðu Óla Skans en kennarar skólans hafa endurvakið kunnáttu í þessum dansi í kjölfar heimsóknar til Bessastaða. Í stuttu ávarpi þakkaði forseti skólanum fyrir að taka vel ósk um að viðhalda gömlum hefðum.
01.06.2015 Forseti tekur á móti þjóðhöfðingjum og öðrum fulltrúum stjórnvalda þeirra ríkja sem taka þátt í evrópsku Smáþjóðaleikunum og forystusveitum íþróttahreyfinganna í öllum þátttökulöndunum. Í ávarpði áréttaði forseti mikilvægi leikanna fyrir þjálfun íþróttafólks frá hinum smærri ríkjum í Evrópu. Smáþjóðaleikarnir væru fyrir fjölmarga keppendur fyrsta alþjóðamótið sem þau taka þátt í. 
02.06.2015 Forseti býður furstanum af Mónakó, Albert II, til hádegisverðar á Bessastöðum þar sem rætt var um mikilvægi íþrótta í samstarfi þjóða, samvinnu Íslands og Mónakós og þróun mála á Norðurslóðum en furstinn er einn af stofnendum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, og situr í heiðursráði þess. Hann hefur látið baráttuna gegn loftslagsbreytingum og umhverfismál mjög til sín taka á undanförnum árum.
03.06.2015 Forseti er viðstaddur þegar CCP afhendir Rauða krossinum afrakstur söfnunar meðal þeirra sem taka þátt í tölvuleiknum EVE Online víða um heim. Söfnunarfénu, sem nam rúmum 13 milljónum íslenskra króna, verður varið í þágu hjálparstarfs vegna jarðskjálftanna í Nepal.
03.06.2015 Forseti á fund með Sigurði Arnalds og Atla Rúnari Halldórssyni um kynningarrit sem ætlað er að lýsa margvíslegri nýtingu jarðhita á Íslandi, á sviði orkuvinnslu, húshitunar, marvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fleiri sviðum.
03.06.2015 Forseti tekur á móti stjórnendum og aðstandendum Listahátíðar sem og íslenskum og erlendum listamönnum sem taka þátt í hátíðinni. Í ávarpi fagnaði forseti fjölbreytileika hátíðarinnar og hvernig hún væri nú tengd sögulegum tímamótum í baráttu kvenna. Jafnframt væri hin sterka alþjóðlega vídd hátíðarinnar mikilvæg sem og sú nýsköpun sem jafnan setur svip á hana.
03.06.2015 Forseti býður ríkisarfa Lúxemborgar Guillaume prins og Stéphanie prinsessu til kvöldverðar á Bessastöðum. Guillaume sækir Smáþjóðaleikana sem haldnir eru í Reykjavík. Rætt var um margvíslegt samstarf Íslands og Lúxemborgar og stöðu smærri ríkja í Evrópu.
04.06.2015 Forseti tekur á móti hópi barna sem taka þátt í alþjóðlegum sumarbúðum í ýmsum löndum.
04.06.2015 Forseti fylgist með keppni í ýmsum greinum á Smáþjóðaleikunum sem haldnir eru í Reykjavík.
05.06.2015 Forseti tók við fyrsta eintaki af Sögu Garðabæjar sem er í fjórum bindum. Gunnar Einarsson bæjarstjóri afhenti eintakið ásamt öðrum fulltrúum bæjarstjórnar, ritnefnd sögunnar, höfundi verksins Steinari J. Lúðvíkssyni og öðrum aðstandendum þess. Myndir.
05.06.2015 Forseti á fund með Sturlu Jónssyni og Jóhannesi Þór Hilmarssyni um reynslu þeirra af baráttu við bankakerfi, opinberar stofnanir og réttarkerfið.
06.06.2015 Forseti ræðir við Helga Tómasson stjórnanda San Fransisco ballettsins í hádegisverði á Bessastöðum um fyrirhugaða heimsókn ballettsins til Íslands á næsta ári. San Fransisco ballettinn undir stjórn Helga Tómassonar hefur orðið einn af fremstu ballettflokkum heims. Þrjátíu ár eru síðan Helgi tók við stjórn ballettsins og hefur þess nýlega verið minnst sérstaklega í San Fransisco.
06.06.2015 Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni um þátttöku Kína í þróun Norðurslóða en Egill hefur í nokkur ár starfað hjá kínversku heimskautastofnuninni í Sjanghæ. Einnig var rætt um þróun Vestnorræna samstarfsins á Norðurslóðum en Egill Þór hefur verið sérstakur ráðgjafi Vestnorrænaráðsins í þeim efnum.
06.06.2015 Forseti er viðstaddur úrslitaleik í körfubolta á Smáþjóðaleikunum en þar eigast við Ísland og Svartfjallaland og afhendir forseti verðlaun.
06.06.2015 Forseti sækir styrktartónleika á vegum Rauða krossins og UNICEF til styktar hjálparstarfi í Nepal vegna hörmunganna sem komu í kjölfar jarðskjálftanna.
07.06.2015 Forseti sækir guðþjónustu í Dómkirkjunni sem haldin er í upphafi hátíðarhalda á sjómannadaginn.
07.06.2015 Forseti sækir minningartónleika sem haldnir eru í Grindavíkurkirkju á sjómannadaginn. Tónleikarnir voru helgaðir minningu Margrétar Sighvatsdóttur og Páls H. Pálssonar og fluttu börn þeirra lög og texta eftir Margréti sem og önnur sjómannalög.
09.06.2015 Forseti flytur fyrirlestur um stöðu Norðurslóða í nýrri heimsmynd við Miðstöð nýsköpunar í alþjóðasamstarfi, Center of International Innovation, í Ottawa. Mynd.
09.06.2015 Forseti á fund með Leona Aglukkaq umhverfisráðherra Kanada sem síðastliðin tvö ár var í forsæti Norðurskautsráðsins í formennskutíð Kanada. Á fundinum var m.a. rætt um sívaxandi áhuga forysturíkja í Asíu og Evrópu á þátttöku í stefnumótun og rannsóknum á Norðurslóðum. Þá var og rætt um hið nýja Efnahagsráð Norðurslóða, Arctic Economic Council, sem stofnað var í formennskutíð Kanada, og þing Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem árlega er haldið í Reykjavík og er nú þegar orðinn fjölsóttasti alþjóðavettvangur um málefni Norðurslóða. Mikilvægt væri einnig að hagsmunir og sjónarmið frumbyggja settu ríkulega svip á framtíðarþróun Norðurslóða. Mynd.
09.06.2015 Forseti situr hádegisverð sem David Johnston landstjóri Kanada heldur til heiðurs forseta Íslands á fyrsta degi heimsóknar hans til Kanada. Hádegisverðinn sitja ýmsir forystumenn úr stjórnkerfi, stjórnmálum og atvinnulífi Kanada. Ræða forsetaMyndir.
09.06.2015 Forseti heimsækir deildir kanadíska þingsins, Öldungadeild og Neðri málstofu, og er sérstaklega fagnað af þingheimi í báðum deildum.
09.06.2015 Forseti á fund með Andrew Sheer forseta Neðri málstofu kanadíska þingsins. Á fundinum var rætt um samskipti og vináttu þjóðanna sem á sér djúpar sögulegar rætur, samstarf á vettvangi Norðurslóða og í gagnkvæmum viðskiptum og ríkan áhuga öflugra þjóða í Asíu og Evrópu á því að taka þátt í vísindarannsóknum og stefnumótun á Norðurslóðum. Myndir.
09.06.2015 Forseti hittir fjölmarga Íslandsvini í móttöku sem sendiherra Íslands í Kanada, Sturla Sigurjónsson, efnir til í embættisbústað sínum.
09.06.2015 Forseti flytur ávarp í kvöldverði sem Gil Rémillard stofnandi og formaður Alþjóðaefnahagsþingsins í Montréal, International Economic Forum of the Americas, býður til við upphaf alþjóðaþingsins.
10.06.2015 Forseti hóf í gær fjögurra daga heimsókn til Kanada. Landstjóri Kanada, David Johnston, efndi á fyrsta degi heimsóknarinnar til hádegisverðar í Ottawa til heiðurs forseta Íslands. Þá heimsótti forseti í gær kanadíska þingið og átti fund með þingforsetanum Andrew Sheer. Áður hafði forseti verið viðstaddur fundi bæði í Öldungadeild og Neðri málstofu þingsins og var forseta sérstaklega fagnað af þingheimi í báðum deildum.
Aðalefni heimsóknar forseta til Kanada eru þróun samstarfs á Norðurslóðum og vöxtur atvinnulífs og viðskipta ásamt viðræðum um varðveislu sögulegra tengsla Íslands og Kanada en flestir íslensku landnemanna í Norður Ameríku settust að í Kanada.
Í Ottawa átti forseti einnig fund í gær með Leona Aglukkaq umhverfisráðherra Kanada sem síðastliðin tvö ár var í forsæti Norðurskautsráðsins í formennskutíð Kanada. Á fundinum var m.a. fjallað um sívaxandi áhuga forysturíkja í Asíu og Evrópu á þátttöku í stefnumótun og rannsóknum á Norðurslóðum sem og hið nýja Efnahagsráð Norðurslóða, Arctic Economic Council, sem stofnað var í formennskutíð Kanada. Þá var einnig rætt um þing Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem árlega er haldið í Reykjavík og er nú þegar orðinn fjölsóttasti alþjóðavettvangurinn um málefni Norðurslóða.
Í gærmorgun hélt forseti fyrirlestur um stöðu Norðurslóða í nýrri heimsmynd í Miðstöð nýsköpunar í alþjóðasamstarfi, Center of International Governance Innovation. Forseti mun einnig, við lok heimsóknarinnar flytja annan fyrirlestur um Norðurslóðir við háskólann í Toronto.
Þá mun forseti í dag og á morgun flytja ræður og taka þátt í málstofum á Alþjóðaefnahagsþinginu í Montréal, International Economic Forum of the Americas, en það er stærsti vettvangur forystufólks í kanadísku viðskiptalífi og sótt af stjórnendum fyrirtækja víða að úr Bandaríkjunum og Suður-Ameríku. Jafnframt mun forseti eiga sérstakan fund með Jean D’Amour samgönguráðherra Québec sem er ábyrgur fyrir stefnumótun á sviði vöruflutninga á sjó.
Forseti mun í heimsókninni einnig eiga viðræður við áhrifafólk á vettvangi samvinnu Íslands og Kanada, flytja ræðu á aðalfundi Íslensk-kanadíska viðskiptaráðsins sem haldinn verður á föstudag í Toronto og snæða hádegisverð með meðlimum í Íslensk-kanadíska vináttufélaginu í Toronto. Á fyrsta degi heimsóknar forseta til Kanada hitti hann einnig í Ottawa fjölmarga Íslandsvini á heimili sendiherra Íslands í Kanada, Sturlu Sigurjónssonar. Ræða forsetaMyndir.
10.06.2015 Forseti flytur ræðu og tekur þátt í umræðum á sérstakri málstofu um nýja hugsun í heimsviðskiptum sem haldin er á Alþjóðaefnahagsþinginu í Montréal, International Economic Forum of the Americas. Mynd.
10.06.2015 Forseti á fund með Robert Sauvé framkvæmdastjóra Plan de Nord í Québec í Kanada, en það er heildstæð áætlun um þróun hins víðfeðma norðurhluta fylkisins. Á fundinum var m.a. rætt um þátttöku Québec í þingi Hringborðs Norðurslóða í haust og fyrirhugaða ráðstefnu sem efnt verður til á næsta ári í Québec í samstarfi Hringborðs Norðurslóða og stjórnvalda í fylkinu.
10.06.2015 Forseti ræðir við Nathalie Collard blaðamann La Presse í Québec um viðreisn á Íslandi í kjölfar bankahrunsins, jafnréttismál og stöðu kvenna.
10.06.2015 Forseti flytur ræðu, sem tekin var upp fyrirfram, við opnun ráðstefnu norrænna svæfingarlækna og fleiri heilbrigðisstarfsmanna; ráðstefnan er haldin í Hörpu. Ræða forseta.
10.06.2015 Forseti flytur ræðu og tekur þátt í umræðum á sérstakri málstofu á Alþjóðaefnahagsþinginu í Montréal, International Economic Forum of the Americas, um þróun siglinga og sjóflutninga á Norðurslóðum. Mynd.
10.06.2015 Forseti situr kvöldverð sem Gil Rémillard, formaður Alþjóðaefnahagsþingsins í Montréal, International Economic Forum of the Americas, býður til með þátttöku um 200 forystumanna úr viðskiptalífi Kanada, Bandaríkjanna og Suður-Ameríku.
11.06.2015 Forseti á fund í Montréal með Robert J. Papp, flotaforingja og sérstökum fulltrúa John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða, um þátttöku sendinefndar frá Bandaríkjunum í þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í október á þessu ári og í málþingum Arctic Circle sem haldin verða í Alaska í ágúst og Singapúr í nóvember.
12.06.2015 Forseti flytur fyrirlestur í boði háskólans í Toronto um þróun samstarfs á Norðurslóðum og á Himalayasvæðinu. Í fyrirlestrinum, sem á ensku bar heitið The Arctic and the Himalayas: New Models of Cooperation, rakti forseti þróun samstarfs á Norðurslóðum og hvernig það gæti reynst lærdómsríkt fyrir þjóðir og samfélög á Himalayasvæðinu en þessir tveir heimshlutar munu, vegna áhrifa loftslagsbreytinga á bráðnun íss og jökla, hafa afgerandi áhrif á örlög allra jarðarbúa. Myndir
12.06.2015 Forseti situr hádegisverð i boði Íslendingafélagsins í Toronto og flytur ávarp um tengsl Íslands og Kanada, rætur þeirra í sögu og menningu, sem og mikilvægi Íslendingabyggðanna víða um Kanada fyrir tengsl og samskipti Íslands og Kanada. Þá tók forseti þátt í því að heiðra fjórar aldraðar konur sem ýmist voru fæddar á Íslandi eða áttu íslenska foreldra og hafa um áratugi verið ötulir þátttakendur í starfi Íslendingafélagsins. Myndir
13.06.2015 Forseti flytur ávarp á hátíðardagskrá í Hörpu í tilefni af 70 ára afmæli Tónskáldafélags Íslands. Á hátíðinni fluttu Caput, Kammersveit Reykjavíkur og Hamrahlíðarkórinn verk íslenskra tónskálda frá þessum 70 árum. Ávarp
15.06.2015 Forseti sækir fyrirlestur Ravi Batra prófessors í hagfræði sem haldinn er í hátíðarsal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn fjallar um samspil ójafnaðar og tíðni fjármálakreppa.
16.06.2015 Forseti afhendir heiðursverðlaun Grímunnar á verðlaunahátíð í Borgarleikhúsinu. Verðlaunin hlaut Edda Heiðrún Backman leikkona.
17.06.2015 Forseti leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að styttu Jóns Sigurðssonar. Áður en hátíðarhöldin hófust á Austurvelli sótti forseti guðsþjónustu í Dómkirkjunni. 
17.06.2015 Forseti sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Fréttatilkynning. Mynd
17.06.2015 Forseti tekur á móti sendiherrum erlendra ríkja sem heimsækja Ísland á þjóðhátíðardaginn og sendiherrum sem búsesttir eru á Íslandi. Í ávarpi þakkaði forseti margvíslegt samstarf og áréttaði vaxandi mikilvægi tengsla Íslands við ríki víða um heim, ræddi um lýðræðishefð Íslendinga, glímuna við fjármálakreppuna og samstarf á Norðurslóðum.
18.06.2015 Forseti heimsækir Sólheima í Grímsnesi, hlýðir á kynningu á sögu Sólheima og starfsemi, skoðar fræðslusetur og snæðir hádegisverð með íbúum Sólheima. Þá skoðar forseti sýninguna Íslandsganga Reynis Péturs, heimsækir kertagerð, trésmíðaverkstæði, listasmiðju, vefstofu, jurtastofu og leirgerð sem og garðyrkjustöð Sólheima, verslun og kaffihús. Í lok heimsóknarinnar gróðursetti forseti tré við Sólheimakirkju en í kirkjunni var síðan kveðjustund með íbúum Sólheima. Í ávarpi þakkaði forseti fyrir þá lærdóma sem Sólheimar færðu okkur öllum, bæði í mannlegum samskiptum og sjálfbærni í nýtingu jarðarinnar. Myndir
18.06.2015 Forseti á fund með forstjóra og fulltrúum kínversku umhverfisstofnunarinnar China Energy Conservation and Environment Protection Group (CECEP) sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku, orkusparnaði, sjálfbærni og fullnýtingu afurða og  úrgangs. Sendinefndin heimsækir Ísland til að kynna sér fjölþætta nýtingu jarðhita á sviði orkuframleiðslu, húshitunar, ylræktar, ferðaþjónustu og heilsueflingar. Sendinefndin heimsækir m.a. Auðlindagarðinn á Reykjanesi, gróðurhús á Suðurlandi og jarðorkuver.
19.06.2015 Forseti flytur ræðu á hátíðarfundi Alþingis í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt til Alþingis. Ræða. Myndir
19.06.2015 Forseti á fund með sendiherra Egyptalands hr. Ashraf Elmoafi sem senn lætur af störfum. Rætt var um umrót og breytingar í Egyptalandi á undanförnum árum. Vonir um framþróun í efnahagslífi og kjörum þjóðarinnar sem og átök og ágreining í Mið-Austurlöndum. Sendiherrann áréttaði nauðsyn þess að fjölmiðlar og almenningur í Evrópu og annars staðar fengju rétta mynd af stöðu mála í Egyptalandi, byggða á staðreyndum og raunsönnu mati.
19.06.2015 Forseti er viðstaddur hátíðarhöld á Austurvelli í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt til Alþingis. Þar var afhjúpuð stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konunni sem tók sæti á Alþing.
20.06.2015 Forsetri á fund með Scott Minerd, stjórnanda fjárfestinga hjá Guggenheim fjárfestingasjóðnum í Bandaríkjunum og samstarfsmönnum hans um uppbyggingu og atvinnulíf á Norðurslóðum, reglur sem vernda umhverfi og styrkja mannlíf og menningu sem og kynningu á víðtæku samstarfi á sviði atvinnulífs og mannvirkjagerðar sem fjallað yrði um á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust. Guggenheim hefur frá stofnun Hringborðsins verið meðal helstu samstarfsaðila þess.
20.06.2015 Forseti er viðstaddur brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands sem fram fer í Laugardalshöll en það er síðasta brautskráning í rektorstíð Kristínar Ingólfsdóttur.
22.06.2015 Forseti tekur á móti starfsfólki Múlalundar sem heimsækir Bessastaði, skoðar staðinn og ýmsa muni sem þar eru varðveittir.
22.06.2015 Forseti tekur á móti þátttakendum í Snorraverkefninu en þeir eru ungir Vestur-Íslendingar frá samfélögum fólks af íslenskum uppruna í Kanada og Bandríkjunum. Snorraverkefninu er ætlað að styrkja kynni þeirra af íslenskri sögu og menningu, þjóðfélagi og náttúru auk þess sem hver og einn þeirra dvelur hjá fjölskyldum frændfólksins á Íslandi.
23.06.2015 Forseti á fund með Rakel Garðarsdóttur um baráttuna gegn sóun matvæla, hvernig unnt er að breyta viðhorfum og tryggja að sú fæða sem framleidd er í veröldinni sé nýtt til fulls.
23.06.2015 Forseti tekur á móti Guo Jinlong, aðalritara stjórnarnefndar Kommúnistaflokks Kína í Beijing og meðlimi í aðalstjórn kínverska kommúnistaflokksins, og sendinefnd hans sem heimsækir Ísland til að kynna sér nýtingu jarðhita, hitaveitur í borgum og hvernig hrein orka gæti dregið úr mengun og bætt lífskjör í kínverskum borgum. Á fundinum var rætt um hið víðtæka samstarf Íslands og Kína á sviði jarðhita, baráttuna gegn loftslagsbreytingum, bráðnun jökla á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu sem og aukið samstarf á sviði lista og menningar. Að fundinum loknum bauð forseti sendinefndinni til kvöldverðar þar sem rætt var ítarlega um þær breytingar sem verið er að gera á stjórnkerfi Kína, baráttu gegn spillingu og fyrir bættum lífskjörum og auknum réttindum íbúanna, sem og vanda forystumanna í öllum löndum að halda sambandi við almenning og fara að vilja íbúanna við stjórn landa. Auk sendiherra Kína og kínverskra embættismanna sátu fundinn og kvöldverðinn embættismenn forsetaembættisins, forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Myndir.
24.06.2015 Forseti á fund með  Elhadj As Sy framkvæmdastjóra alþjóðahreyfingar Rauða krossins og forystumönnum Rauða kross Íslands, Sveini Kristinssyni formanni Rauða krossins og Hermanni Ottóssyni framkvæmdastjóra. Rætt var um fjölþætt framlag íslenska Rauða krossins til björgunarstarfa og samfélags á Íslandi sem og þátttöku hans í alþjóðlegu hjálparstarfi. Smærri ríki geta verið vettvangur nýjunga og verkefna sem síðar koma að notum á alþjóðlegum vettvangi. Framkvæmdastjórinn tekur þátt í fundi samtaka Rauða krossins í smærri ríkjum Evrópu sem haldinn er í Reykjavík. Þá var einnig fjallað um vaxandi vandamál vegna loftslagsbreytinga, ofsaveðra, stríðsátaka og upplausnar víða um heim og þann vanda sem lömuð stjórnkerfi, skortur á trausti og víðtæk spilling skapa þegar fulltrúar alþjóðlegra hjálparsamtaka koma á vettvang. Mynd.
24.06.2015 Forseti býður fulltrúum samtaka Rauða krossins í smærri ríkjum Evrópu til hádegisverðar á Bessastöðum en þeir taka þátt í samráðsfundi Rauða krossins sem haldinn er í Reykjavík; fundinn sækir einnig framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins Elhadj As Sy. Fulltrúarnir koma frá Færeyjum, Grænlandi, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Mónakó, Möltu og Svartfjallalandi. Mynd.
25.06.2015 Forseti á fund í London með Alexander Borodin, sem situr í ráðgjafaráði Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um samstarf varðandi siglingar á Norðurslóðum, könnun á hafsvæðum og þátttöku rússneskra aðila í samræðum um þróun Norðurslóða.
25.06.2015 Forseti á fund í London með Jo Ralling, stjórnanda fjölmiðlunarkerfis matreiðslumannsins Jamie Oliver, sem þekktur er fyrir sjónvarpsþætti sína og baráttu fyrir hollu mataræði. Rætt var m.a. um áhrif sykurneyslu meðal ungs fólks og annarra á aukna tíðni alvarlegra sjúkdóma og nauðsyn alþjóðlegs átaks gegn vaxandi sykurneyslu.
25.06.2015 Forseti situr kvöldverð í London sem Lakshmi Mittal, forstjóri ArcelorMittal, heldur til heiðurs stjórn Goldman Sachs bankans. Þar var m.a. rætt um glímuna við fjármálakreppuna, árangur Íslendinga og ákvarðanir varðandi fjármagnshöftin.
29.06.2015 Forseti á fund í London með þingmönnunum James Gray og Mark Prisk og fulltrúum breskra stjórnvalda um kynningu á framlagi breskra rannsókna til Norðurslóða á þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í október. Á þinginu í fyrra kynnti öflug sendinefnd breskra þingmanna áherslur Bretlands í málefnum Norðurslóða og nú er ríkur vilji til að leggja megináherslu á vísindi og rannsóknastarf. Bresk stjórnvöld undirbúa nú stefnumótun í málefnum Norðurslóða í kjölfar á sérstakri skýrslu sem nefnd á vegum Lávarðadeildarinnar kynnti fyrir nokkrum mánuðum.
30.06.2015 Forseti flytur ræðu við útför tengdaföður síns, Shlomo Moussaieff, sem fram fór síðdegis í hæðum Jerúsalem að viðstaddri fjölskyldu, ættingjum og fjölda vina. Shlomo andaðist í gærkvöldi og var jarðsettur í dag samkvæmt helgisiðum gyðinga.
30.06.2015 Forseti tekur á móti stjórnendum Carbon Recycling International, sem haft hefur frumkvæði um nýjar aðferðir í umhverfisvænni orkunýtingu, og kínverska bílaframleiðandans Geely sem undirritað hafa samkomulag um þróun þeirrar tækni sem íslenskir vísindamenn og sérfræðingar ásamt öðrum þátttakendum í CRI verkefninu hafa skapað á undanförnum árum. Sú reynsla sem fengist hefur af CRI verksmiðjunni á Reykjanesi gæti haft mikla þýðingu fyrir umhverfisvænni eldsneytisframleiðslu í Kína. Í samræðum rifjaði forseti upp fyrsta fundinn sem hann átti með hugvitsmönnum CRI fyrir um átta árum, heimsókn skömmu síðar til að skoða litla tilraunavél í iðnaðarhverfi í jaðri Reykjavíkur og upphaf framleiðslu í verksmiðjunni á Reykjanesi. Árangur þessa verkefnis væri ekki aðeins mikilvægur fyrir viðskipti og samstarf í orkumálum heldur varpaði hann einnig nýju ljósi á hvernig þjóðir gætu sameinað krafta sína í baráttunni gegn óafturkræfum loftslagsbreytingum.

Júlí

05.07.2015 Forseti sækir guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem helguð er minningu um Pétur Blöndal alþingismann sem lést í fyrri mánuði. 
06.07.2015 Forseti tekur á móti nemendum frá bandaríska háskólanum Bell State University í Indiana sem dvalið hafa á Íslandi til að kynna sér skipulag velferðarþjónustu, félagslegar stofnanir og menntun barna og ungmenna.
06.07.2015 Forseti tekur á móti þátttakendum í Nordjobb verkefninu sem dvelja á Íslandi við ýmis störf.
07.07.2015 Forseti ræðir við rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna, dr. David M. Mallone, og forstöðumenn þeirra fjögurra deilda skólans sem starfa á Íslandi, Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans, Landgræðsluskólans og Jafnréttisskólans. Fjallað var um þróun þessara deilda á Íslandi, hvernig sú reynsla getur nýst háskólanum í öðrum löndum og hvernig auka megi starfsemina, m.a. með því að bjóða sendinefndum stjórnenda ýmissa ríkja að sækja Ísland heim í sérstökum kynnisferðum sem skipulagðar yrðu af deildum háskólans á Íslandi. Í viðræðunum kynnti Dagfinnur Sveinbjörnsson einnig reynsluna af þjálfun indverskra jöklafræðinga á Íslandi og þann vísi að samstarfi á Himalajasvæðinu sem fundurinn í Bútan í febrúar fól í sér, en rektor Háskólans er þekktur fyrir fræðirit sín um Indland, Nepal og þjóðir á Himaalajasvæðinu.
07.07.2015 Forseti á fund með Vali Ragnarssyni, forstjóra Medis, dótturfyrirtækis Actavis, um breytingar á framleiðslu Actavis á Íslandi en áfram verður rekin hérlendis viðamikil starfsemi í rannsóknum, þróun og þjónustu við lyfjaframleiðslu. Einnig var fjallað um árangurinn af Forvarnardeginum, samstarfsvettvangi æskulýðshreyfinga, skóla og sveitarfélaga sem Actavis hefur stutt frá upphafi en forseti hafði á sínum tíma frumkvæði um það víðtæka samstarf sem Forvarnardagurinn grundvallast á.
07.07.2015 Forseti á fund með forystumönnum SÁÁ og Jeffrey Goldsmith, forseta samtaka bandarískra fíknilækna, um meðferð við áfengissýki og öðrum fíknisjúkdómum, þá lærdóma sem draga má af reynslunni á Íslandi og nauðsyn þess að viðurkenna fíknilækningar sem burðarás í heilbrigðisþjónustu landa.
08.07.2015 Forseti á fund með vísindaráði Kerecis og forsvarsmönnum fyrirtækisins sem hefur aðsetur á Ísafirði og hefur þróað lækningavörur úr fiskroði. Vísindaráðið skipa sérfræðingar á ýmsum sviðum heilbrigðisvísinda m.a. frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð. Rætt var um hina miklu möguleika til framleiðslu á lækninga- og heilsuvörum úr roði og innyflum fisks.
08.07.2015 Forseti á fund með starfsmönnum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um undirbúning þingsins sem haldið verður í Reykjavík í október og ráðstefnanna sem haldnar verða í Alaska og Singapúr í ágúst og nóvember. Einkum var rætt um hinn mikla fjölda málstofa sem vísindastofnanir, umhverfissamtök, stjórnvöld og aðrir aðilar hafa gert tillögur um á undanförnum mánuðum en alls hafa borist um 90 slíkar tillögur um málstofur á þinginu í Reykjavík í október.
08.07.2015 Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, stjórnanda Arctic Green Energy, um þann árangur sem náðst hefur í jarðhitaverkefnum í Kína en íslenskir sérfræðingar, verkfræðistofur og orkufyrirtæki hafa á undanförnum árum tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd þeirra. Kínversk stjórnvöld leggja nú vaxandi áherslu á uppbyggingu hreinnar orku í landinu til að draga úr mengun. Einnig var fjallað um áhuga víetnamskra stjórnvalda á að nútímavæða sjávarútveg í landinu og hefja nýtingu hreinnar orku en forseti Víetnams hefur boðið forseta að koma í opinbera heimsókn til landsins í nóvember á þessu ári.
09.07.2015 Forseti afhendir bandaríska geimfaranum Harrison Schmitt Könnunarverðlaun Leifs Eiríkssonar sem stofnuð hafa verið af Könnunarsafninu á Húsavík. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt og tók Harrison Schmitt við þeim í lok fyrirlestrar sem hann flutti í Háskólanum í Reykjavík. Í fyrirlestrinum rakti Schmitt m.a. það mikilvæga hlutverk sem þjálfun geimfaranna á Íslandi gegndi á sínum tíma, einkum þar eð jarðfræði Íslands nýttist vel sem undirbúningur að sýnatöku á tunglinu.
12.07.2015 Forseti snæðir kvöldverð á Akureyri með Ted Turner, stofnanda CNN, og þekktum baráttumanni fyrir umhverfisvernd og gegn hættunni af loftslagsbreytingum, fjölskyldu hans og starfsfólki Ted Turner stofnunarinnar. Í ávarpi og fyrirspurnatíma fjallaði forseti einkum um hvernig vaxandi samstarf á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu getur nýst í baráttu gegn loftslagsbreytingum.
12.07.2015 Forseti flytur fyrirlestur um borð í National Geographic Explorer í Akureyrarhöfn en skipið er á hringferð um Ísland. Frumkvæðið að fyrirlestrinum átti umhverfisstofnun Ted Turner, stofnanda CNN en hann er ásamt fjölskyldu sinni og fjölda umhverfissinna frá Bandaríkjunum meðal farþega í þessari ferð skipsins kringum Ísland. Skipið er sérhæft til ferða til einstakra svæða í náttúru jarðarinnar og er rekið í sameiningu af National Geographic tímaritinu og Lindblad Expeditions sem sérhæfir sig í sérstökum umhverfisferðum. Í fyrirlestrinum fjallaði forseti fyrst og fremst um þróun endurnýjanlegrar orku á Íslandi og skipulag fiskveiða, nýtingu auðlinda hafsins og þróun vísinda og tækni í tengslum við sjávarútveg. Fyrir þremur árum var forseti þátttakandi í ferð skipsins til Suðurskautslandsins en sú ferð var á sínum tíma skipulögð af Nóbelsverðlaunahafanum Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.
13.07.2015 Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi, Zhang Weidong, um þátttöku kínverskra stjórnvalda í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, en þing þess verður haldið í Reykjavík í október. Forseti Frakklands, Francois Hollande, hefur þegar tilkynnt þátttöku í þingi Arctic Circle og stjórnvöld í fjölmörgum öðrum löndum vinna nú að undirbúningi framlags þeirra til þingsins.
17.07.2015 Forseti á fund með Svend-Olof Lindblad sem stjórnar alþjóðlegu ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í ferðum á undrastaði í náttúru jarðar. Fyrirtækið hefur um árabil siglt skipum á Norðurslóðir og í sumar hefur National Geographic Explorer verið á hringferð um Ísland. Rætt var um margvísleg ný tækifæri í ferðaþjónustu á Norðurslóðum og möguleika Íslands í því sambandi.
18.07.2015 Forseti tekur á móti bandarísku geimförunum Walter Cunningham og Russell Schweickart og börnum og barnabörnum Neil Armstrong geimfara en þeir tóku þátt á sínum tíma í þjálfun á Íslandi til undirbúnings ferða til tunglsins. Heimsóknin var skipulögð af Könnunarsafninu á Húsavík og er liður í að efla varðveislu þeirrar sögu sem tengir Þingeyjarsýslurnar og Ísland sérstaklega við undirbúning tunglferða.
18.07.2015 Forseti sækir jarðarför Guðmundar Bjarnasonar fyrrum bæjarstjóra Neskaupsstaðar og Fjarðabyggðar og forystumanns í málefnum Austfirðinga. Útförin var frá Norðfjarðarkirkju. 
20.07.2015 Forseti tekur á móti forráðamönnum Gídeonfélagsins sem afhenda sérstaka hátíðarútgáfu af Biblíunni en sú útgáfa er afhent þjóhöfðingjum um tvö hundruð landa í tilefni þess sögulegs áfanga að alþjóðasamtök Gídeonfélaga hafa afhent tvo milljarða eintaka af Biblíunni og Nýja testamentinu. Þau hafa verið afhent í flestum löndum heims frá upphafi 20. aldar. Í tengslum við afhendinguna var rætt um starfsemi Gídeonfélagsins á Íslandi og þá löngu hefð að félagið hefur afhent íslenskum ungmennum Nýja testamentið.
20.07.2015 Forseti tekur á móti forsvarsmönnum undirskriftasöfnunar Þjóðareignar þar sem hvatt er til þess að forseti vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu lögum um ráðstöfun fiskveiðiauðlinda til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hafi verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra. Nöfn 53.571 Íslendinga fylgdu með áskoruninni. Forseti vísaði af þessu tilefni til yfirlýsingar sem hann gaf út 9. júlí 2013 þar sem stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn voru hvött til að ná varanlegri og víðtækri sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslu til þjóðarinnar. Jafnframt lýsti forseti hvernig undirskriftasafnanir og meðferð mála varðandi fjölmiðlafrumvarp, lög um Icesave og sú söfnun sem nú væri afhent sýndu allar hve lifandi málskotsrétturinn væri í hugum þjóðarinnar. Almenningur í landinu hefði áréttað hann með ólíkum hætti og þessi fjögur dæmi væru skýr staðfesting þess.
21.07.2015 Forseti ræðir við Sölva Tryggvason um nýsköpun í íslensku atvinnulífi en hann annast nú þætti um það efni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
24.07.2015 Forseti ræðir við Bill Weir, fréttamann CNN, sem vinnur að gerð þáttar um Ísland. Fjallað var um náttúru landsins og menningu þjóðarinnar, nýtingu hreinnar orku, bráðnun jökla og loftslagsbreytingar, þróun ferðaþjónustu og framtíð Norðurslóða.
24.07.2015 Forseti á fund með sendiherra Indlands, Ashok Das, sem nú lætur af störfum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna, aðild Indlands að Norðurskautsráðinu, þjálfun jöklafræðinga á Íslandi, vaxandi áhuga á viðskiptum og mikilvægi þeirra lýðræðishefða sem einkenna stjórnarfar í báðum löndunum.
26.07.2015 Forseti ræðir við Peter Seligmann, stjórnanda bandarísku umhverfissamtakanna Conservation International, sem mjög hafa látið til sín taka við verndun hafsvæða og baráttu gegn loftslagsbreytingum en áformað er að samtökin haldi stjórnarfund á Íslandi á næsta ári, einkum til að kynna sér nýtingu sjávarauðlinda, fiskveiðar og vinnslu sem og þróun margvíslegra tæknifyrirtækja sem sprottið hafa upp í tengslum við íslenskan sjávarútveg. Þá vinna samtökin að undirbúningi sérstakra kynninga á loftslagsráðstefnunni í París í desember sem frönsk stjórnvöld hafa falið þeim að gera. Nokkrir aðrir stjórnarmenn Conservation International, sem einnig heimsækja Ísland, tóku þátt í viðræðunum.
28.07.2015 Forseti á fund með Ségolène Royal, umhverfis-, sjálfbærni- og orkumálaráðherra Frakklands, sem heimsækir Ísland til að kynna sér fjölþætta nýtingu jarðhita og undirbúa umfjöllun um hreina orku á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í París í desember. Fréttatilkynning.
28.07.2015 Forseti á fund með Ségolène Royal, ráðherra umhverfis, sjálfbærni og orku í ríkisstjórn Frakklands, en hún heimsækir Ísland í boði utanríkisráðherra og iðnaðarráðhera og í framhaldi af fundum með forseta Íslands í Abu Dhabi og París fyrr á þessu ári. Á fundinum á Bessastöðum nú var áréttuð nauðsyn þess að halda áfram að efla samvinnu Íslands og Frakklands á sviði jarðhita og nýtingar endurnýjanlegrar orku, einkum með tilliti til kynningar á slíkum lausnum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í París í desember. Nýting jarðhita getur verið mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og styrkt sjálfstæði landa í orkumálum. Á fundinum kom fram ríkur vilji til að efla samstarf Íslands og Frakklands á þessu sviði og fagnaði forseti nýjum lögum í Frakklandi sem munu stuðla að breytingum í orkumálum í átt að hagvexti, byggðum á grænni orku. Jafnframt þakkaði hann ráðherranum og frönsku stjórninni fyrir metnaðarfullan og fjölþættan undirbúning að loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP21, sem haldin verður í París og féllst forseti á  að taka þátt í margvíslegum viðburðum og málstofum um jarðhita sem skipulagðar verða af frönskum stjórnvöldum og öðrum þátttakendum í ráðstefnunni. Ennfremur var ítarlega fjallað um myndun alþjóðlegs vettvangs sem styrkt gæti samstarf ríkja, rannsóknarstofnana, fyrirtækja og fjármálastofnana í því skyni að stórefla nýtingu jarðhita til húshitunar og orkuframleiðslu vítt og breitt um veröldina. Íslenskir og franskir aðlar munu á næstunni ræða ýmsar hugmyndir í þessu skyni.
29.07.2015 Forseti sendir forseta Indlands Pranab Mukherjee samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni vegna andláts fyrrum forseta Indlands, Abdul Kalam. Í kveðjunni minnist forseti á heimsókn Kalams til Íslands árið 2005 sem var fyrsta heimsókn indversks þjóðhöfðingja til Íslands, og reyndar til Norðurlanda, og þakkaði þá vináttu og stuðning sem hinn látni forseti hefði sýnt Íslendingum og samvinnu Íslendinga og Indverja. Fréttatilkynning.

Ágúst

09.08.2015 Forseti á fund með sendiherra Þýskalands Thomas Hermann Meister sem senn lætur af störfum. Rætt var um fjölþætta þróun í samvinnu landanna á undanförnum árum, þátttöku þýskra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi, samstarf á sviði menningar og lista, framlag Þýskalands til þróunar Norðurslóða, m.a. með athugun á hugsanlegri höfn í Finnafirði og sérstakri dagskrá á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust. Sendiherrann var einnig sæmdur hinni íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til aukinnar samvinnu landanna.
10.08.2015 Forseti á fund með Ágúst Þór Árnasyni prófessor við Háskólann á Akureyri, Eva-Kristine Varheim sérfræðingi við Eftirlitsmiðstöð fiskveiða í Noregi og samstarfsmönnum þeirra Jóhanni Ásmundssyni og Hjalta Ómari Ágústssyni um nýja tækni wem auðveldað getur eftirlit með sjálfbærum og ábyrgum fiskveiðum.
10.08.2015 Forseti situr hátíðarkvöldverð sem lögmaður Færeyja Kai Leo Holm Johannesen heldur til heiðurs forseta og Vestnorræna ráðinu í Runavik í Færeyjum í tilefni af 30 ára afmæli ráðsins. Ávarp forseta á dönsku; ávarpið á íslenskuMyndir.
10.08.2015 Forseti tekur við heiðursverðlaunum Vestnorræna ráðsins í fyrsta sinn sem þau eru veitt. Athöfnin fór fram í Runavik í Færeyjum í tengslum við 30 ára afmælisfund Vestnorræna ráðsins.  Fréttatilkynning. Ávarp forseta á íslensku; ávarpið á dönsku. Myndir.
11.08.2015 Forseti á fund í Þórshöfn í Færeyjum með Rúni Hansen og Odd Eliasen stjórnendum laxeldisfyrirtækisins Bakkafrosts sem nú er eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum í veröldinni. Rætt var um þróun laxeldis í Færeyjum, hvaða lærdóma Íslendingar geti dregið af henni, hvernig skipulag eldisins þarf að taka mið af umhverfisþáttum og nauðsyn þess að hvíla hafsvæði reglulega. Að dómi stjórnenda Bakkafrosts mun eftirspurn eftir eldislaxi vaxa mjög á komandi árum og sé staða þeirra á mörkuðum í Asíu og Bandaríkjunum mjög sterk. Þá varpar saga Bakkafrosts einnig ljósi á þróun atvinnu- og efnahagslífs í Færeyjum á undanförnum áratugum. Myndir.
11.08.2015 Forseti flytur hátíðarræðu á 30 ára afmælisþingi Vestnorræna ráðsins sem haldið er í Færeyjum en ráðið skipa þingmenn frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þingið sitja einnig forystumenn ríkisstjórna landanna þriggja. Í hátíðarræðunni lýsti forseti hinni nýju stöðu sem Ísland, Færeyjar og Grænland hefðu nú öðlast vegna aukins mikilvægis Norðurslóða og vaxandi áhuga allra helstu forysturíkja í efnahagslífi Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku á þátttöku í þróun nyrsta hluta jarðarinnar.FréttatilkynningMyndir. Ræða forseta á dönsku, ræðan á íslensku, ræðan á ensku.
11.08.2015 Forseti á fund með rektor Fróðskaparsetursins, háskóla Færeyja, Sigurð í Jákupsstofu og ýmsum fræðimönnum þar sem m.a. voru kynntar hafrannsóknir og rannsóknir á félagslegum hreyfanleika íbúa Færeyja. Einnig var kynnt nýtt meistaranám í vestnorrænum fræðum sem beinist að þróun stjórnarfars og sjálfbærni í efnahagslífi Færeyja, Íslands, Grænlands og Norður-Noregs. Þá var og rætt um þátttöku Fróðskaparsetursins í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, enda væri það kjörinn vettvangur til að kynna og styrkja rannsóknir og nám sem fram færi við Fróðskaparsetrið. Myndir.
11.08.2015 Forseti situr hádegisverð í boð borgarstjóra Þórshafnar Heðin Mortensen en hádegisverðinn sitja einnig borgarfulltrúar og embættismenn Þórshafnar. Rætt var um samstarf höfuðborga Færeyja, Grænlands og Íslands, þróun Þórshafnar og varðveislu gamalla húsa og menningarminja. Myndir.
11.08.2015 Forseti á fund með stjórnendum færeyskra orkufyrirtækisins SEV þar sem kynnt var framleiðsla á endurnýjanlegri orku í Færeyjum og áform um aukningu hennar á komandi árum uns allt orkukerfi Færeyja yrði byggt á grænni orku. Auk vatnsorku skiptar vindorka vaxandi sess í orkubúskap Færeyinga og hefur SEV verið virkur þátttakandi í alþjóðlegri tækniþróun á þessu sviði. SEV á einnig í margvíslegu samstarfi við Landsvirkjun, Landsnet, Orkuveitu Reykjavíkur og aðra aðila í íslenskum orkubúskap. Stjórnendur fyrirtækisins lýstu miklum áhuga á lagningu sæstrengs frá Íslandi um Færeyjar til Skotlands sem gæti í senn styrkt orkukerfi Færeyinga og verið mjög arðvænleg viðbót við orkubúskap landsins. Athuganir þeirra hafa einnig beinst að slíkri tengingu við Grænland og hugmyndum um að sæstrengur milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands gæti markað þáttaskil í mótun græns orkukerfis í Norður-Evrópu. Mynd.
11.08.2015 Forseti heimsækir eyjuna Koltur þar sem varðveitt eru hús úr hlöðnu grjóti og torfi sem um aldir voru bústaðir og gripahús bændanna sem bjuggu í eyjunni. Húsin eru á margan hátt einstæð á veraldarvísu og talin mikilvægur Byggðin veitir vísbendingu um líf og búskaparhætti íbúa eyjanna á fyrri öldum. Myndir.
11.08.2015 Forseti situr kvöldverð með lögmanni Færeyja Kaj Leo Holm Johannesen við lok heimsóknar sinnar til Færeyja þar sem rætt var um frekara samstarf Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga á komandi árum sem og hvernig alþjóðegt samstarf á Norðurslóðum getur nýst löndunum þremur, m.a. með virkri þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, en lögmaðurinn var meðal ræðumanna á fyrsta þingi Arctic Circle og stefnt er að enn frekari þátttöku Færeyinga á komandi árum.
13.08.2015 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um undirbúning að þingi þess sem haldið verður í Reykjavík í október og sérstökum fundum á vegum Arctic Circle sem haldnir verða í Alaska í lok þessa mánaðar og í Singapúr í nóvember.
13.08.2015 Forseti á fund með Joseph Davis, forystumanni Rótarýhreyfingarinnar í Alaska um þátttöku klúbba Rótarýhreyfingar á Norðurslóðum í umræðum um hagsmuni og líf fólks á Norðurslóðum, en Joseph Davis hefur beitt sér fyrir slíkum samræðum Rótarý félaga á þingum Arctic Circle og slík málstofa verður á þinginu í haust.
13.08.2015 Forseti á fund með Steingrími Erlingssyni um tækifæri Íslendinga til að efla siglingar á Norðurslóðum, einkum með rekstri skipa, m.a. ísbrjóta, sem þjónusta ýmiss konar starfsemi sem fram fer á fjarlægari hlutum Norðurslóða.
15.08.2015 Forseti er viðstaddur setningu Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju en fjöldi tónverka verður fluttur á hátíðinni. Sýning á myndum Helga Þorgils Friðjónssonar í kór kirkjunnar og forkirkju er einnig hluti af hátíðinni.
16.08.2015 Forseti á fund með Kuupik Kleist, fyrrum forsætisráðherra Grænlands, og einum af stofnendum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, um þróun efnahagsmála og atvinnulífs á Grænlandi og dagskrá Hringborðs Norðurslóða sem haldið verður í Reykjavík í haust þar sem Kuupik Kleist mun m.a. standa fyrir málstofu í samvinnu við Kaupmannahafnarháskóla.
18.08.2015 Forseti á fund með sendiherra Rússlands á Íslandi Anton Vasiliev um stöðuna í viðskiptum landanna og mikilvægi þess að tryggja framhald farsælla viðskipta sem í áratugi hafi verið báðum þjóðunum til hagsbóta; jafnvel skipt sköpum á örlagatímum í landhelgisbaráttu Íslendinga. Jafnframt sé virtur réttur ríkja til að taka afstöðu til einstakra deilna og átaka á alþjóðavettvangi með tilliti til alþjóðalaga, aðildar að bandalögum og viðhorfa grannþjóða. Á fundinum var og rætt um ýmsar leiðir sem gætu skref fyrir skref leitt til lausnar í ljósi þess að í báðum löndunum væri ríkur vilji til að varðveita langvarandi og gagnkvæma viðskiptahagsmuni þrátt fyrir tímabundinn ágreining um önnur mál. Söguleg átök á tímum kalda stríðsins, aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin hefðu ekki komið í veg fyrir að Íslendingar og Rússar kappkostuðu að varðveita í áratugi hin traustu viðskiptatengsl landanna.
19.08.2015 Forseti á fund með Mary Bruce Warlick, yfirmanni orkuskrifstofu bandaríska utanríkisráðuneytisins, Robert Barber sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og embættismönnum bandaríska utanríkisráðuneytisins um samvinnu landanna á sviði orkumála, einkum við nýtingu endurnýjanlegrar orku. Fjallað var um samstarfsverkefni á því sviði í öðrum heimshlutum, en íslenskir og bandarískir aðilar vinna nú að byggingu jarðhitavers í Eþíópíu, og um hin fjölþættu tækifæri á Norðurslóðum í nýtingu jarðhita, vatnsorku og vindorku. Samstarfsáætlun um nýtingu hreinnar orku á Norðurslóðum gæti verið veigamikill þáttur í formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu á næstu árum. Mary Bruce Warlick og samstarfsmenn hennar taka þátt í vinnufundi um orkumál sem haldinn er á Íslandi, en hann er liður í röð slíkra funda sem haldnir verða á næstu misserum.
20.08.2015 Forseti á fund með Auði Guðjónsdóttir, Guðlaugi Þór Þórðarsyni alþingismanni og dr. Ingimar Einarssyni fv. skrifstofustjóra um alþjóðlegt átak til að efla samstarf um rannsóknir á miðtaugakerfinu í þágu lækninga á margvíslegum sjúkdómum og áföllum vegna slysa. Sérstaklega hefur verið unnið að átakinu á undanförnum mánuðum og á fundinum var rætt um margvíslegar leiðir til að efla framhald þess á komandi misserum og árum.
23.08.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi málþings Arctic Circle, Arctic Circle Forum, sem haldið er í Anchorage í Alaska. Málþingið sem ber heitið Alaska Summit on Shipping and Ports er hið fyrsta í röð málþinga sem haldin eru á vegum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, í öðrum löndum. Hið árlega þing Arctic Circle Assembly er hins vegar haldið í Reykjavík í október á hverju ári. Auk forseta fluttu ávörp ríkisstjóri Alaska Bill Walker, öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski og Fran Ulmer, ráðgjafi John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða. Mynd.
Í ávarpi sínu lýsti forseti hvernig öll helstu forysturíki í efnahagslífi heimsins væru nú þátttakendur í mótun framtíðar Norðurslóða og hvernig dagskrá væntanlegs þings Arctic Circle í Reykjavík endurspeglaði þennan nýja alþjóðlega veruleika sem og málþingið í Alaska nú og næsta málþing sem haldið verður í Singapúr í nóvember. Þátttaka þjóðarleiðtoga og fjölmargra forystumanna í efnahagslífi og vísindum í þingi Arctic Circle væri vitnisburður um þessa grundvallarbreytingu á stöðu Norðurslóða. Þá birtist í mörgum myndum vaxandi áhugi á nýjum siglingaleiðum og byggingu hafna til að þjónusta þær en meðal þátttakanda í málþinginu í Alaska er Hafsteinn Helgason verkfræðingur og stjórnandi verkefnisins um hugsanlega höfn í Finnafirði. Þá tekur Unnur Brá Konráðsdóttir varaformaður Vestnorræna ráðsins, samstarfsvettvangs Íslands, Færeyja og Grænlands, þátt í málþinginu.
24.08.2015 Forseti situr málþing Arctic Circle í Anchorage í Alaska þar sem fjallað er um þróun siglinga á Norðurslóðum, einkum um Barentssundið, og uppbyggingu hafna til að þjónusta siglingar á Norðurslóðum. Málþingið sem ber heitið Alaska Summit on Shipping and Ports er hið fyrsta í röð sérstakra ráðstefna undir heitinu Arctic Circle Forum sem haldin eru í öðrum löndum en árlegt þing Arctic Circle er í Reykjavík. Fjöldi sérfræðinga og forystumanna í stjórnkerfi og atvinnulífi Alaska eru ásamt fulltrúum frá öðrum ríkjum Norðurslóða þátttakendur í málþinginu. Í dag verður fjallað um mannvirkjagerð og siglingar um Barentssundið, áform Alaskaríkis í uppbyggingu hafna sem og um stöðu strandsamfélaga.
26.08.2015 Forseti tekur þátt í málþingi Arctic Circle sem haldið er í Alaska þar sem Scott Minerd fjárfestingaforstjóri Guggenheim Partners, Sean O’Keefe fyrrum flotamálaráðherra Bandaríkjanna, Hugh Short stofnandi Pt Capital og David Van Slyke sérfræðingur frá Syracuse háskóla fjalla um nýskipan fjárfestinga og fjármögnunar á Norðurslóðum. Kynnt voru drög að nýju regluverki um fjárfestingar á Norðurslóðum þar sem m.a. áhersla væri lögð á umhverfisvernd, gagnsæi og samstarf við frumbyggja sem og áætlun til nokkurra ára um uppbyggingu öflugs fjárfestingasjóðs sem helgaði sig uppbyggingu og framförum á Norðurslóðum. Einnig var rætt um nýjar aðferðir til að fjölga ísbrjótum á Norðurslóðum, en skortur er á slíkum skipum í Bandaríkjunum.
26.08.2015 Forseti er viðstaddur lokafund málþings Arctic Circle í Alaska þar sem Robert Papp, sérstakur sendimaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða, gerði grein fyrir meginstefnu Bandaríkjanna í formennskutíð þeirra í Norðurskautsráðinu sem og tengslum þeirrar stefnu við baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
26.08.2015 Forseti situr fyrir svörum á sameiginlegum fundi Norðurslóðanefnda fulltrúardeildar og öldungadeildar Ríkisþingsins í Alaska. Fundurinn var haldinn í framhaldi af málþingi Arctic Circle um hafnir og siglingar á Norðurslóðum. Á fundinum hvatti forseti til þess að þingmenn á Norðurslóðum létu til sín taka í umræðum og stefnumótun því mikilvægt væri að styrkja hina lýðræðislegu vídd í þróun Norðurslóða. Mynd.
26.08.2015 Forseti á samráðsfund í Anchorage með Robert Papp, sérstökum sendimanni utanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða og fyrrum yfirmanni bandarísku strandgæslunnar, um málstofu á þingi Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í október þar sem gerð væri grein fyrir stefnu og áherslum Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða sem og þátttöku Roberts Papp í Arctic Circle Forum sem haldið verður í Singapúr í nóvember. Þá var og fjallað um sérstakan fund utanríkisráðherra og annarra sérfræðinga sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðar til í Alaska eftir nokkra daga og heimsókn Barack Obama forseta Bandaríkjanna til Alaska en í henni mun forseti Bandaríkjanna fjalla um stefnuáherslur stjórnar sinnar í málefnum Norðurslóða og í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
26.08.2015 Forseti á fund í Anchorage með Kemal Siddique sérstökum sendimanni stjórnvalda í Singapúr um málefni hafsins og Norðurslóða á málþingi Arctic Circle í Alaska. Fjallað var um dagskrá og skipulag málþingsins Arctic Circle Forum sem haldið verður í Singapúr í nóvember í kjölfar á þingi Arctic Circle í Reykjavík í október.
26.08.2015 Forseti á fund í Anchorage með stjórnendum Guggenheim Partners um þátttöku í þingi Arctic Circle í Reykjavík í október og Arctic Circle Forum í Singapúr í nóvember þar sem kynnt yrði regluverk um ábyrgar, umhverfisvænar og gagnsæjar framkvæmdaáætlanir á Norðurslóðum og samstarf um uppbyggingu sérstakrar fjárfestingastofnunar á Norðurslóðum.
26.08.2015 Forseti á fund í Anchorage með Mead Treadwell, fyrrum vararíkisstjóra í Alaska, og Hugh Short, stofnanda Pt Captial, um samstarf Íslendinga og Alaskabúa um nýtingu hreinnar orku, einum jarðhita, fullnýtingu sjárvarafurða og uppbyggingu mannvirkja.
26.08.2015 Forseti á fund með borgarstjóra Anchorage Ethan Berkowitz um uppbyggingu hitaveitna og nýtingu jarðhita til að efla atvinnulíf og auka lífsgæði íbúa og um framlag íslenskrar reynslu og tækniþekkingar á þessu sviði.
26.08.2015 Forseti á fund í Anchorage með Alice Rogoff, útgefanda Alaska Dispatch og einni af stofnendum Arctic Circle, um árangurinn af málþinginu sem haldið var í Anchorage og helgað höfnum og siglingum á Norðurslóðum. Það var hið fyrsta í röð Arctic Circle Forums um sérhæfð efni sem haldin eru í öðrum löndum til viðbótar við hin árlegu þing Arctic Circle í Reykjavík. Rætt var um hvernig Arctic Circle hefur nú þegar fest sig í sessi sem víðtækur alþjóðlegur vettvangur fyrir umræður og samstarf um þróun Norðurslóða. Þá var og rætt um að efla fréttaflutning um málefni Norðurslóða með nýtingu netmiðla, m.a. með tilliti til reynslu Alaska Dispatch.
27.08.2015 Forseti á fund í Anchorage með Fran Ulmer formanni Vísindaráðs Bandaríkjanna á Norðurslóðum, The US Arctic Research Commission, og sérstökum ráðgjafa utanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða um þróun vísindarannsókna á þessu sviði og áherslur Bandaríkjanna í formennskutíð þeirra í Norðurskautsráðinu.
27.08.2015 Forseti á fund með Nils Andreassen forstöðumanni Institute of the North í Alaska en rannsóknarstofnunin hefur í áratugi haft forystu um samræður, stefnumótun og rannsóknir á Norðurslóðum. Hún var á sínum tíma sett á laggirnar af Walter J. Hickel fyrrum ríkisstjóra Alaska og hefur lengi verið í fararbroddi á þessu sviði. Stofnunin skipulagði meðal annars sérstaka ráðstefnu um orkumál á Norðurslóðum sem haldin var á Íslandi fyrir tveimur árum.
27.08.2015 Forseti á fund í Anchorage með Bill Walker ríkisstjóra Alaska og Craig Fleener, ráðgjafa hans í málefnum Norðurslóða, um samstarf Íslands og Alaska, einkum á sviði nýtingar jarðhita og byggingar hitaveitna fyrir borgir og byggðarlög í Alaska, fullnýtingu sjávarafla á grundvelli nýrrar tækni og rannsókna sem og margvíslegt samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og háskóla í Alaska og á Íslandi í málefnum Norðurslóða. Mynd.
29.08.2015 Forseti flytur ávarp á matarmarkaði sem haldinn er í Hörpu og sem verður framvegis haldinn sem sérstök matarhátið með þátttöku fjölmargra íslenskra framleiðenda sem nýta sér afurðir lands og sjávar í fjölþætta framleiðslu. Í ávarpinu þakkaði forseti þeim fjölmörgu vítt og breitt um landið sem ynnu við nýsköpun og frumlega framleiðslu. Fjölskyldur og lítil fyrirtæki hefðu skapað litskrúðuga flóru á þessum vettvangi sem auðgaði íslenska matarmenningu og væri á vissan hátt ný stoð í ferðaþjónustu samtímans.
29.08.2015 Forseti flytur ávarp á hátíð sem haldin er í Hallgrímskirkju í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags. Ávarp.
29.08.2015 Forseti situr kvöldverð í boði biskups Íslands frú Agnesar M. Sigurðardóttur sem haldinn er í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags.
31.08.2015 Forseti tekur á móti nemendum frá Stanford háskóla og ræðir við þá um þróun íslensks samfélags, glímuna við fjármálakreppuna, þátt menntunar í framförum og ýmsa þætti alþjóðamála.
31.08.2015 Forseti tekur á móti hópi fólks úr byggðum Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum sem heimsækir Ísland til að kynnast landi og þjóð, heimsækja ættingja og fræðast um byggðarlögin þar sem ættmenn þeirra bjuggu áður en fólksflutningarnir vestur um haf hófust á 19. öld. Rætt var um vaxandi áhuga á sögu Vesturíslendinga og mikilvægi gagnkvæmra samskipta. Snorraverkefnið hófst með heimsóknum ungs fólks úr Íslendingabyggðum en Snorri+ hefur á undanförnum árum skipulagt heimsóknir fullorðins fólks til Íslands og komið á tengslum við ættmenn þess á Íslandi.

September

01.09.2015 Forseti ræðir við framkvæmdastjóra OECD Angel Gurría um skýrslu stofnunarinnar um Ísland þar sem metinn er árangur í efnahagsmálum á undanförnum árum, staðan nú og helstu verkefni og vandamál. Einnig var fjallað um baráttuna gegn loftslagsbreytingum og nýtingu hreinnar orku en forseti flutti um það efni ræðu í aðalstöðvum OECD í París árið 2013. Mynd.
03.09.2015 Forseti á fund með starfsfólki Arctic Circle um undirbúning þingsins sem haldið verður í Reykjavík í október. Þegar hafa þátttakendur frá rúmlega 30 löndum tilkynnt komu sína og fjölþætt dagskrá hefur verið birt á heimasíðu Arctic Circle. Einnig var rætt um árangur málþings Arctic Circle sem haldið var í Alaska í ágúst og fjallaði um hafnir og nýjar siglingaleiðir.
03.09.2015 Forseti sækir upphafstónleika í vetrardagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands en á þeim flutti Kristinn Sigmundsson nokkrar uppáhaldsaríur sínar.
06.09.2015 Forseti er viðstaddur landsleik Íslands og Kasakstans á Laugardalsvelli þar sem íslenska landsliðið tryggði sér réttinn til þáttöku í EM í Frakklandi á næsta ári. Það er í fyrsta sinn sem íslenskt knattspyrnulið tekur þátt í stórmóti af því tagi.
07.09.2015 Forseti stýrir ríkisráðsfundi á Bessastöðum þar sem staðfest eru lög og aðrar stjórnarathafnir.
07.09.2015 Forseti á fund með sendiherra Pakistans á Íslandi Abdul Hamid, sem senn lætur af störfum, þar sem sendiherrann gerði ítarlega grein fyrir því hvernig síbreytileg stefna Vesturlanda gagnvart Pakistan og nágrannaríkjum þess og skortur á skilningi á eðli ættbálkasamfélaga og trúarhefða hefði skapað margvíslega erfiðleika og hættuástand, gróðrarstíu fyrir öfgaöfl. Allt þetta hefði verið Pakistan mjög erfitt og tafið eðlilega og farsæla þróun í landinu. Þekking á menningu, sögu, trúarhefðum og ættbálkasamfélögum væri nauðsynleg forsenda farsællar alþjóðastefnu í þessum heimshluta. Ennfremur var fjallað um samstarf ríkja á Himalajasvæðinu varðandi rannsóknir á bráðnun jökla og afleiðingum hennar fyrir vatnsbúskap og efnahagslíf landanna en forseti skipulagði ásamt öðrum sérstaka ráðstefnu um það efni í Bútan fyrr á þessu ári.
07.09.2015 Forseti á fund með sendiherra Víetnams á Íslandi Lai Ngoc Doan, sem senn lætur af störfum, um væntanlega opinbera heimsókn forseta til Víetnams og aukið samstarf landanna á sviði endurnýjanlegrar orku og ábyrgrar nýtingar sjávarauðlinda. Einnig var fjallað um farsæl áhrif víetnamska samfélagsins á Íslandi á íslenskt þjóðfélag en sendiherrann hafði í gær ásamt fjölskyldu sinni tekið þátt í samfagnaði Víetnama á Íslandi. Mynd.
07.09.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Þýskalands á Íslandi Herbert Ludwig Beck sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um trausta samvinnu landanna og aukinn áhuga stjórnvalda í Þýskalandi á málefnum Norðurslóða en sérstök kynning á stefnu Þýskalands í þessum efnum mun fara fram á þingi Arctic Circle í Reykjavík í næsta mánuði. Þá var einnig fjallað um samstarf íslenskra aðila og Bremenhafnar um athugun á hugsanlegri höfn við Finnafjörð og möguleika á samstarfi á sviði jarðhitanýtingar víða í Evrópu. Einnig var rætt um mikilvægi beinna samskipta Íslands og Þýskalands sem og víðtæk tengsl landanna á sviði menningar og lista. Mynd.
08.09.2015 Forseti setur Alþingi að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Ræða forsetaEnsk þýðing.
09.09.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi alþjóðlegrar ráðstefnu um jarðminjar, International ProGEO Symposium, þar sem fjallað er um aðferðir við að varðveita jarðminjar, einkum í Evrópu. Í ávarpi sínu fjallaði forseti um nauðsyn þess að efla skilning á þessu verkefni og þau viðfangsefni og vandamál sem Ísland þarf að leysa á næstu árum og áratugum í ljósi vaxandi fjölda ferðamanna ef hinar einstæðu jarðminjar landsins eiga áfram að vera í góðu horfi.
09.09.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Tansaníu á Íslandi, frú Dora Msechu, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um áhuga á vaxandi nýtingu jarðhita í Tansaníu, einkum í ljósi þróunar í ýmsum löndum Austur-Afríu. Þjálfun í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem og í Sjávarútvegsskólanum gæti gagnast Tansaníu á margvíslegan hátt enda býr landið í senn að möguleikum í nýtingu jarðhita og sjávarauðlinda. Mynd.
09.09.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kasakstans á Íslandi,  hr. Erzhan Kazykhanov, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um áhuga stjórnvalda í Kasakstan á að þróa endurnýjanlega orku og efna til sérstakrar kynningar á hlutdeild hreinnar orku í framtíðarorkubúskap veraldar á heimssýningunni sem haldin verður í Kasakstan 2017. Þá var einnig fjallað um þær breytingar sem eru að verða á viðskiptakerfi heimsins og birtast meðal annars í nánu samstarfi Kasakstans, Kína og Rússlands. Einnig var rætt um þjálfun ungs fólks í íþróttum, m.a. í ljósi reynslu Íslendinga og Kasakstana af þátttöku í undankeppni Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu. Þá lýsti sendiherrann áhuga stjórnvalda í Kasakstan á að gera rammasamninga við Ísland um skattgreiðslur og viðskipti sem greitt gætu götu frekara samstarfs í framtíðinni. Mynd.
09.09.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Alsírs á Íslandi, hr. Ahcene Kerma, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um hlutverk Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktir eru á Íslandi til að þjálfa fólk frá þróunarlöndum sem vilja þróa nýjar leiðir í sjávarútvegi og berjast gegn landeyðingu og vaxandi ásókn eyðimerkur. Þá var einnig rætt um lærdómana sem draga má af atburðum í Miðausturlöndum á undanförnum árum og birtast meðal annars í þeim erfiðleikum sem Alsír glímir við í kjölfar atburða í Líbíu og öðrum nágrannalöndum. Mynd.
10.09.2015 Forseti á fund með sérfræðingum og stjórnendum veðurstofa víða að úr veröldinni sem sitja fund samráðshóps um heimskauta- og háfjallasvæði en samráðshópurinn starfar á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, World Meteorological Organization. Veðurstofa Íslands hefur skipulagt samráðsfundinn á Íslandi. Rætt var um vaxandi mikilvægi heimskautasvæða og háfjallasvæða eins og Himalajasvæðisins í loftslags- og veðurkerfum veraldarinnar og hvernig umræðuvettvangur eins og Arctic Circle og Himalayan-Third Pole Circle geta nýst til að auka skilning á niðurstöðum þeirra rannsókna og athugana sem stundaðar eru á vegum veðurstofa og samtaka þeirra. WMO mun meðal annarra skipuleggja málstofu á þingi Arctic Circle í október.
10.09.2015 Forseti afhendir nýja heiðursviðurkenningu til þýðenda á íslenskum bókmenntum við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þar sem meðal gesta voru rithöfundar víða úr veröldinni sem taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík. Viðurkenninguna hlutu Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen sem þýtt hafa marga tugi íslenskra skáldverka og annarra ritverka. Fréttatilkynning.
12.09.2015 Forseti er viðstaddur opnun sýningar í Þjóðminjasafni Íslands á ljósmyndum sem Vilborg Harðardóttir blaðamaður tók á ferli sínum. Sýningin er liður í hátíðarhöldum vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.
12.09.2015 Forseti er viðstaddur opnun sýningar í Listasafni Reykjavíkur á verkum fjölda myndlistarkvenna sem sýndu á safninu fyrir þrjátíu árum. Sýningin ber heitið Kvennatími - Hér og nú. Þrjátíu árum síðar.
15.09.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Albaníu á Íslandi, hr. Ilir Abdiu, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samvinnu landanna á sviði orkumála, einkum varðandi virkjun vatnsafls í Albaníu en Landsvirkjun hefur tekið þátt í þarlendum verkefnum. Einnig var rætt um vanda flóttamanna í Evrópu og reynslu Albaníu af að taka á móti fjölda flóttamanna frá nágrannalöndum. Einnig var fjallað um hægfara aðlögun Albaníu að reglum Evrópusambandsins. Mynd.
15.09.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Norður-Kóreu á Íslandi, hr. Yong Dok Kang, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um áhuga þarlendra stjórnvalda á aukinni nýtingu hreinnar orku og reynslu Íslendinga á því sviði sem og á öðrum þáttum í efnahagsþróun Íslands. Þá var einnig fjallað um flókna sambúð Norður-Kóreu við nágranna sína og ágreiningsefni í viðræðum við Bandaríkin og önnur ríki á undanförnum árum og áratugum, allt frá því að Kóreustríðinu lauk á sínum tíma. Lýsti sendiherrann áhuga stjórnvalda á að efla árangursríka efnahagssamvinnu við önnur ríki. Mynd.
15.09.2015 Forseti á fund með nýjum rektor Háskóla Íslands Jóni Atla Benediktssyni um þróun alþjóðasamstarfs Háskóla Íslans á fjölmörgum fræðasviðum, með tilliti til almennt vaxandi áhuga víða í veröldinni á samstarfi við Íslendinga. Forseti hefur á undanförnum árum unnið með Háskóla Íslands og öðrum háskólum að slíkum verkefnum.
15.09.2015 Forseti tekur á móti hópi vesturíslenskra kvenna frá Manitoba sem sumar starfa í kvennasamtökum Háskólans í Winnipeg. Konurnar heimsækja Ísland til að kynna sér þjóðlíf og menningu og til að rækta tengslin milli Íslands og vesturíslenska samfélagsins í Kanada.
15.09.2015 Forseti tekur þátt í fundi í Hörpu til undirbúnings þingi Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík 15.-18. október næstkomandi. Í fundinum tók þátt starfsfólk Arctic Circle og Hörpu sem og fulltrúar ýmissa samstarfsaðila.
16.09.2015 Forseti tekur á móti hópi grænlenskra barna frá byggðum á austurströnd Grænlands sem stundað hafa sundnám á Íslandi en með þeim í för voru kennarar og forystumenn í vináttusamstarfi Íslendinga og Grænlendinga. Myndir
16.09.2015 Forseti tekur á móti stjórnarmönnum og öðrum stjórnendum Kaupfélags Skagfirðinga og ræðir við þá um þátt kaupfélagsins í atvinnulífi og byggðarþróun í Skagafirði sem og stöðu landsbyggðarinnar og tækifæri Íslendinga á komandi tímum.
17.09.2015 Forseti afhendir viðurkenningar sem Fjölskylduhjálp Íslands veitir fyrirtækjum og einstaklingum sem stutt hafa starfsemi hennar. Í ávarpi þakkaði forseti Fjölskylduhjálpinni fyrir ötult starf og umhyggju gagnvart þeim sem búa við kröpp kjör í landinu.
17.09.2015 Forseti veitir viðurkenninguna Framúrskarandi ungir Íslendingar sem JC hreyfingin á Íslandi veitir ungum Íslendingum sem skarað hafa fram úr á sviði samhjálpar, menningar, íþrótta, nýsköpunar og á fleiri sviðum. Tíu einstaklingar eru árlega tilnefndir til verðlaunanna en þau hlaut að þessu sinni Rakel Garðarsdóttir fyrir baráttu sína gegn sóun matvæla.
17.09.2015 Forseti er viðstaddur sýningu á kvikmyndinni Everest sem Baltasar Kormákur stýrði en fjöldi annarra Íslendinga kom að gerð myndarinnar.
25.09.2015 Forseti tekur þátt í alþjóðlegu málþingi, Weekend with Charlie Rose, sem einn helsti þáttastjórnandi í bandarísku sjónvarpi, Charlie Rose efnir til í Aspen. Þingið er sótt af forystufólki á vettvangi alþjóðamála, sérfræðingum, vísindamönnum, frumkvöðlum og stjórnendum alþjóðastofnana og fyrirtækja. Á dagskrá málþingsins eru ýmis brýn viðfangsefni á sviði alþjóðamála og hófst það í gærkvöldi fimmtudaginn 24. september og lýkur síðdegis á morgun laugardag.
28.09.2015 Framkvæmdir og fjárfestingar á Norðurslóðum. UmhverfisreglurForseti á fund í New York með Scott Minerd og öðrum stjórnendum Guggenheim Partners sem unnið hafa að regluverki um fjárfestingar og framkvæmdir á Norðurslóðum þar sem tekið er mið af umhverfisvernd og lífsháttum íbúa. Jafnframt hefur vinnan beinst að uppbyggingu víðtæks samstarfs um framkvæmdir og fjárfestingar í þessum heimshluta og fjármögnun þeirra. Hugmyndirnar hafa verið þróaðar innan vébanda Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, og verða kynntar á þingi þess í Reykjavík.
28.09.2015 Forseti sækir í dag og á morgun Heimsþing Clintons, fyrrum forseta Bandaríkjanna, Clinton Global Initiative, og tóku þátt í opnunarfundi þess í New York í gær. Í lok síðustu viku tóku forsetahjónin einnig þátt í alþjóðlegu málþingi sem einn helsti þáttastjórnandi í bandarísku sjónvarpi Charlie Rose efndi til í Aspen, Weekend with Charlie Rose.
Bæði Heimsþing Clintons og Samræðuhelgi Charlie Rose eru sótt af forystufólki á vettvangi alþjóðamála, sérfræðingum, vísindamönnum, frumkvöðlum og stjórnendum alþjóðastofnana og fyrirtækja sem og fulltrúum almannasamtaka og umhverfishreyfinga.
Á dagskrá fundanna eru ýmis brýn viðfangefni á sviði alþjóðamála, m.a. baráttan gegn loftslagsbreytingum, nýting hreinnar orku, þróun lýðræðis, alþjóðlegrar samvinnu og viðskipta, viðleitni til að draga úr átökum og stríðsógn, sem og uppgötvanir í vísindum og tækni sem geta á næstu árum orðið mannkyni til heilla.
Forseti mun einnig á morgun, þriðjudaginn 29. september, eiga fund með forsætisráðherra Bútans Tshering Tobgay um samvinnu landanna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, m.a. í framhaldi af þingi um þróun jökla og vatnsbúskapar á Himalajasvæðinu, Himalaya-Third Pole Circle, sem forseti átti frumkvæði að og haldinn var í boði stjórnvalda og konungsins í Bútan fyrr á þessu ári. Ríki á Himalajasvæðinu hafa vaxandi áhuga á að nýta sér reynsluna sem samvinna á Norðurslóðum hefur skapað á undanförnum áratugum.
29.09.2015 Forseti á fund í New York með forsætisráðherra Bútans Tshering Tobgay um samvinnu landanna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum m.a. í framhaldi af þingi um þróun jökla og vatnsbúskapar á Himalajasvæðinu, Himalaya-Third Pole Circle, sem forseti átti frumkvæði að og haldinn var í boði stjórnvalda og konungsins í Bútan fyrr á þessu ári. Ríki á Himalajasvæðinu hafa vaxandi áhuga á að nýta sér reynsluna sem samvinna á Norðurslóðum hefur skapað á undanförnum áratugum. Þá var einnig rætt um hvernig reynsla Íslendinga í nýtingu hreinnar orku, uppbyggingu ferðaþjónustu og stjórnsýslu gæti nýst Bútan í ljósi þess að ýmsar lausnir eru hagkvæmari fyrir smærri ríki en aðferðir hinna stærri.
29.09.2015 Forseti á fund í New York með bandaríska arkitektinum William McDonough um umhverfisvæna þróun borga, með tilliti til skipulags, fæðuöflunar og orkunýtingar en hann hefur um áraraðir verið meðal forystumanna í mótun nýrra hugmynda á þessu sviði og efnir árlega til samræðufunda á Íslandi.
30.09.2015 Forseti afhendir umhverfisverðlaun atvinnulífsins sem Samtök atvinnulífsins hafa stofnað til. Verðlaunin voru veitt í tveimur flokkum: 1. Framtak ársins en þau verðlaun hlaut Orka náttúrunnar fyrir framlag sitt til rafbílavæðingar. 2. Umhverfisfyrirtæki ársins er Steinull á Sauðárkróki sem hlaut verðlaunin fyrir framlag sitt á undanförnum áratugum. Í ávarpi þakkaði forseti Samtökum atvinnulífsins fyrir frumkvæði að þessum nýju verðlaunum en þau yrðu vafalaust fyrirtækjum hvatning til að gera betur á vettvangi umhverfismála. Þá væri einnig mikilvægt að halda til haga því sem vel væri gert.  Um leið og hlustað væri á gagnrýni væri mikilvægt að almenningur, einkum unga fólkið, kynni góð skil á því sem vel hefði tekist á Íslandi.
30.09.2015 Forseti afhendir heiðursverðlaun RIFF kvikmyndahátíðarinnar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum að viðstöddum fjölmörgum þátttakendum á hátíðinni, fjölmiðlafólki úr heimi kvikmynda, aðstandendum hátíðarinnar og íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. Verðlaunin hlutu þýska kvikmyndagerðarkonan Margrethe von Trotta og kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn David Cronenberg. Myndir

Október

01.10.2015 Forseti tekur þátt í kynningu á Forvarnardeginum sem haldinn er í Vættarskóla í Reykjavík en meðal þátttakenda voru nemendur og stjórnendur skólans auk fulltrúa þeirra aðila sem standa að Forvarnardeginum. Fréttatilkynning
01.10.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Aserbaídsjan, hr. Tahir Tofig oglu Taghizadeh sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um hugsanlegt samstarf landanna á sviði endurnýjanlegrar orku sem og þróun efnahagslífs í Aserbaídsjan og áform stjórnvalda um að gera landið að miðstöð fyrir flutninga og samskipti milli Evrópu og Asíu. Þá var einnig rætt um Íslendingasögur og uppruna Íslendinga og annarra norrænna manna en ýmsir hafa haldið fram að norrænir menn hafi á sínum tíma komið frá Aserbaídsjan. Sendiherrann er áhugamaður um íslenskar fornbókmenntir og var fjallað um möguleika á frekari rannsóknum á fornum tengslum norræna manna við Aserbaídsjan.
01.10.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Katar, hr. Yousef Ali Al Khater sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samvinnu landanna, m.a. á grundvelli opinberrar heimsóknar forseta fyrir nokkrum árum til Katar, einkum með tilliti til nýtingar hreinnar orku víða um heim og samstöðu smárra ríkja á alþjóðlegum vettvangi. Þá var einnig rætt um þróun mála í Mið-Austurlöndum, vaxandi átök og erfiðleika sem og baráttu gegn hernaðarmætti öfgaafla.
01.10.2015 Forseti á fund með Norðmanninum Geir Johan Bakke og íslenskum samstarfsaðilum hans um smíði  smærri ísbrjóta og hlutverk þeirra í samgöngum og flutningum á Norðurslóðum sem og um reynslu byggðarlaga í Norður-Noregi af samspili fiskveiða og þjónustu við borpalla.
02.10.2015 Forseti heimsækir Brekkubæjarskóla á Akranesi í tilefni af Forvarnardeginum og ræðir við nemendur um þær þrjár megin reglur sem boðskapur dagsins felur í sér: Að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, að verja klukkustund á dag með fjölskyldu og að bíða sem lengst með að neyta áfengis.
02.10.2015 Forseti heimsækir Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi í tilefni af Forvarnardeginum, ávarpar nemendur á sal skólans og skoðar verkefnavinnu ásamt því að heimsækja kennslustofur, bæði í bóknámi og verknámi. 
02.10.2015 Forseti heimsækir Fjölbrautaskólann í Breiðholti á Forvarnardaginn og í tilefni af 40 ára afmæli skólans, ræðir við nemendur á sal um mikilvægi forvarna og þær einföldu lífsreglur sem skila mestum árangri, svarar fjölmörgum fyrirspurnum um margvísleg málefni, heimsækir kennslustofur í ýmsum greinum og ræðir við kennara í mötuneyti þeirra.
03.10.2015 Forseti á fund með Annie S.C. Wu sem er meðal stjórnenda öflugrar fyrirtækjasamsteypu í Hong Kong og hefur jafnframt í áratugi haft náin tengsl við forystusveitina á meginlandi Kína. Hún hefur mikinn áhuga á auknu samstarfi við Ísland, bæði á sviði hreinnar orku og útflutningi matvæla sem og öflugum tengslum á sviði menningar og menntunar ungs fólks. Rætt var um þá hugmynd að skapa aðstöðu fyrir unga Íslendinga til að geta kynnst Kína af eigin raun með nokkurra mánaða dvöl í landinu.
03.10.2015 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu Siðmenntar sem haldin er í Salnum í Kópavogi í tilefi af 25 ára afmæli samtakanna. 
04.10.2015 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle um undirbúning að þinginu sem haldið verður í Reykjavík um miðjan þennan mánuð. Gefin hefur verið út fréttatilkynning um þingið.Fréttatilkynning.
05.10.2015 Forseti ræðir við blaðamann Morgunblaðsins um þróun Norðurslóða og sess Íslands á þeim vettvangi, m.a. með tilliti til væntanlegs þings Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle en Morgunblaðið mun gefa út sérstakt aukablað af því tilefni.
05.10.2015 Forseti tekur við undirskriftum vegna Ali al-Nimr sem  dæmdur hefur verið til dauða í Sádi Arabíu en Hrafn Jökulsson afhenti undirskriftirnar á Bessastöðum. 
06.10.2015 Forseti tekur á móti starfsmönnum Virk starfsendurhæfingarsjóðs og ræðir við þau um sögu Bessastaða og þróun lýðveldisins.
09.10.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi málþings sem haldið er á vegum kynningarstofunnar Meet in Reykjavík með fulltrúum ýmissa félagasamtaka og stofnana sem samþykkt hafa að vera sendiherrar ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur. Í ávarpi áréttaði forseti hinn nýja sess Reykjavíkur sem alþjóðlegur fundarstaður og mikilvægi þess að vandað væri til verka jafnframt því sem breyta þyrfti skipulagi menningarlífs á þann hátt að hinn mikli fjöldi erlendra gesta gæti yfir sumarmánuðina einnig kynnst íslensku tónlistarlífi, leikhúsi og kvikmyndum.
08.10.2015 Forseti á fund með Davíð Stefánssyni sem unnið hefur að uppbygginu Silicor Materials verksmiðjunnar á Grundartanga. Rætt var um hina nýju framleiðsluaðferð sem þar verður notuð, mat á umhverfisáhrifum sem og framlag framleiðslunnar til að efla nýtingu sólarorku, bæði í Kína og annars staðar í veröldinni.
09.10.2015 Forseti á fund með Erni Arnar, lækni og ræðismanni Íslands í Minneapolis, um varðveislu minja, um sögu og menningu frá tímum landnáms í Vesturheimi og um bækur og muni sem fólk hafði með sér frá Íslandi og eru nú varðveitt í ýmsum byggðum Vestur-Íslendinga.
09.10.2015 Forseti flytur ávarp á landsþingi Kvenfélagasambands Íslands sem haldið er á Selfossi og ræddi þar um merka sögu kvenfélaganna og framlag þeirra til sjálfstæðisbaráttu, félagsþróunar og uppbyggingar íslensks samfélags á lýðveldistíma. Kvenfélögin hefðu ætíð skapað ríkulegan félagsauð í byggðum landsins og verið grundvöllur samstöðu og umbóta á ýmsum sviðum.
09.10.2015 Forseti flytur ávarp í fagnaði í tilefni af 30 ára afmæli Kauphallarinnar en samkoman var haldin í Listasafni Reykjavíkur. Í ávarpi lýsti forseti þeim þáttaskilum sem urðu í íslensku þjóðfélagi í þann mund sem Kauphöllin var sett á laggirnar. Áður hafði nánast allt viðskiptalíf landsins verið háð fáeinum samsteypum og því væri samspil lýðræðis og frjáls markaðar enn tiltölulega ung reynsla Íslendinga. Mikilvægt væri á komandi árum að skapa tengsl frumkvöðla, ungs athafnafólks og nýsköpunarfyrirtækja við fjárfesta á almennum markaði.
10.10.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi hátíðarhalda í tilefni af Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum en forseti er verndari dagsins. Setningin fór fram í anddyri Útvarpshússins og þaðan var gengið í fylkingu í Kringluna þar sem dagskrá verður fram eftir degi. Í ávarpi fagnaði forseti auknum skilningi á geðsjúkdómum og þakkaði þeim sem hafa opnað umræðuna og skapað meira umburðarlyndi og þekkingu. Mikilvægt væri að árétta að þótt fólk glímdi við geðsjúkdóma gæti það lagt mikið af mörkum til samfélags, atvinnulífs, menningar og vísinda.
10.10.2015 Forseti sækir landsleik Íslands og Lettlands í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvelli en það er síðasti leikur íslenska landsliðsins á heimavelli í undanfara Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu á næsta ári.
10.10.2015 Forseti á fund með dr. Johan van Zyl, forstjóra Toyota í Evrópu, og fulltrúum fyrirtækisins á Íslandi um þróun bílaframleiðslu á komandi árum, rafbílavæðingu Íslands og viðhorf til umhverfisvænni umferðar. Heimsókn hans til Íslands er í tilefni af 50 ára afmæli Toyota á Íslandi.
11.10.2015 Forseti ræðir við Sigurjón Egilsson í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Sjónvarpsútsendingu að viðtalinu og hljóðupptöku má nálgast á visir.is.
11.10.2015 Forseti afhendir forsetamerki skáta í Bessastaðakirkju og tekur síðan á móti merkishöfum og fjölskyldum þeirra og forystusveit Skátahreyfingarinnar í Bessastaðastofu. Viðstaddir afhöfnina voru einnig nokkrir sem hlutu forsetamerkið þegar því var úthlutað í fyrsta sinn árið 1965 í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta.
13.10.2015 Forseti á fund með sendiherra Bretlands á Íslandi Stuart Gill um þátttöku Bretlands í Hringborði Norðurslóða þar sem megináhersla verður lögð á vísindaframlag Breta varðandi rannsóknir á Norðurslóðum. Einnig var rætt um frekari þátttöku Bretlands í Hringborðinu á komandi árum.
13.10.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Víetnams á Íslandi hr. Nguyen Truong Thanh sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um væntanlega opinbera heimsókn forseta til Víetnams en allmörg ár eru síðan þáverandi forseti landsins bauð forseta Íslands að koma í opinbera heimsókn. Megináhersla heimsóknarinnar verður á samvinnu á sviði sjávarútvegs og nýtingar auðlinda hafsins sem og samvinnu við að efla hlutdeild grænnar orku í ljósi þeirrar reynslu og tækniþekkingar sem Íslendingar hafa aflað sér. Einnig var rætt um árangur Víetnams á undanförnum árum á sviði efnahagslífs og tækniþróunar. Mynd.
13.10.2015 Forseti á fund með nýjum sendiherra Indlands á Íslandi Rajiv Kumar Nagpal sem afhenti trunaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna bæði á sviði margvíslegra viðskipta og nýtingar hreinnar orku, bæði jarðhita og vatnsafls. Þá var einnig fjallað um samvinnu á Himalajasvæðinu um rannsóknir á bráðnun jökla og breytingar á vatnsbúskap Asíuþjóða sem og þjálfun ungra indverskra jöklafræðinga á Íslandi. Indland varð fyrir fáeinum árum aðili að Norðurskautsráðinu og stefnir að vaxandi þátttöku í málefnum Norðurslóða en gagnlegt er að nýta reynsluna af samvinnu á Norðurslóðum til að bæta sambúð og rannsóknir þjóðanna á Himalajasvæðinu. Að fundinum loknum var móttaka á Bessastöðum fyrir ýmsa íslenska aðila sem eiga í margvíslegri samvinnu við Indland. Mynd.
14.10.2015 Forseti ræðir við hóp íslenskra og bandarískra áhugamanna um uppbyggingu björgunarmiðstöðvar á Íslandi sem ætlað væri að sinna björgunarstarfi á Norðurslóðum í samræmi við samning Norðurskautsráðsins.
14.10.2015 Forseti tekur á móti hópi fræðimanna frá ýmsum löndum sem heimsækja Bessastaði til að kynna sér sögu staðarins, íslenska menningu og þjóðlíf.
14.10.2015 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle um undirbúning að þingi Hringborðsins sem hefst í Hörpu síðar í þessari viku.
14.10.2015 Forseti ræðir í beinni útsendingu við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina BBC World News um siglingar á Norðurslóðum, umhverfisvernd og alþjóðlegt samstarf í tilefni af þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið er í Reykjavík í þessari viku.
15.10.2015 Forseti flytur ræðu á málþingi um hafsvæði Norðurslóða, Arctic High Seas Forum, sem haldið er í Háskólanum í Reykjavík í aðdraganda Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle. Málþingið sækja sérfræðingar frá ýmsum löndum í hafrétti og regluverki um nýtingu hafsvæða. Þá munu sendiherrar ýmissa ríkja á Norðurslóðum sitja fyrir svörum. Í ræðunni áréttaði forseti nauðsyn rannsókna og fræðilegrar umræðu um hafsvæðin á Norðurslóðum, einkum í ljósi þess hve skammt er síðan aðgangur mannkyns að þessum svæðum opnaðist á þann hátt að m.a. ríki í fjarlægum heimsálfum gætu nýtt þau til flutninga og annarrar starfsemi.
15.10.2015 Forseti situr fund ráðgjafaráðs Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldinn er í Hörpu í aðdraganda þings Hringborðsins. Formaður ráðgjafaráðsins er Alice Rogoff, útefandi Alaska Dispatch News.
15.10.2015 Forseti Frakklands François Hollande kemur á morgun, föstudaginn 16. október, í opinbera heimsókn til Íslands í boði forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og flytur stefnuræðu á þingi Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle í Hörpu. 
Í ræðunni mun forsetinn fjalla um tengsl Norðurslóða við alþjóðlegu loftslagssamningana sem fram fara í París í desember en frönsk stjórnvöld leggja nú ásamt öðrum forysturíkjum í veröldinni kapp á að ná árangri á þeim fundum.
Forseti Frakklands kemur til landsins í framhaldi af leiðtogafundi Evrópusambandsins. Í för með forsetanum er fjölmenn sendinefnd franskra embættismanna, vísindamanna og sérfræðinga auk Ségolène Royal umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands og Michel Rocard fyrrum forsætisráðherra Frakklands sem er sérstakur sendimaður forsetans í málefnum Norðurslóða. Auk þess koma til landsins og á þing Arctic Circle margir fulltrúar franskra fjölmiðla.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú munu fylgja forseta Frakklands og hluta af fylgdarliði hans í sérstaka skoðunarferð á íslenskt jöklasvæði þar sem vísindamenn munu útskýra áhrif loftslagsbreytinga á bráðnun jökla.
Að skoðunarferðinni lokinni verður fundur forseta Frakklands og forseta Íslands í Hörpu og því næst munu forsetarnir ávarpa blaðamenn klukkan 17:30. Í kjölfarið mun Frakklandsforseti eiga fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.
Forseti Frakklands flytur síðan stefnuræðu á allsherjarfundi þings Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle klukkan 18:15. Að ræðunni lokinni heldur forsetinn í Höfða þar sem hann hittir Frakklandsvini og annað áhrifafólk í samstarfi Íslands og Frakklands.
Að kvöldi föstudagsins 16. apríl kl. 20:00 bjóða íslensku forsetahjónin forseta Frakklands François Hollande og fylgdarliði hans til kvöldverðar á Bessastöðum. Þar verða einnig meðal gesta ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands, forseti Alþingis, fulltrúar íslenskra háskóla og menningarlífs auk forystumanna erlendra ríkja, vísindastofnana, umhverfissamtaka, frumbyggja og fyrirtækja sem sitja þing Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle.
Forseti Frakklands heldur síðan af landi brott að loknum kvöldverðinum.
15.10.2015 Forseti flytur ávarp við opnun málþings um orkuöryggi sem haldið er í Háskólanum í Reykjavík í tengslum við þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle.
15.10.2015 Forseti á fund með forsætisráðherra Québec, Philippe Couillard, sem sækir Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle ásamt sendinefnd frá fylkinu. Rætt var um aðild Québec að Arctic Circle og áform um að halda í Québec á næsta ári Arctic Circle Forum sem einkum fjallaði um svæðisbundna þróun á Norðurslóðum með hliðsjón af árangri af Norðurslóðaáætlun fylkisins, Plan Nord.
15.10.2015 Forseti opnar sýningu á ljósmyndum sem teknar voru í tengslum við samkeppni sem haldin var á vegum einnar af vísindanefndum Norðurskautsráðsins sem aðsetur hefur á Akureyri. Bæjarstjóri Akureyrar Eiríkur Björn Björgvinsson flutti einnig ávarp við opnunina.
15.10.2015 Forseti sækir opnunarmóttöku Hringborðs Norðurslóða sem haldin er í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu og flytur þar stutt ávarp.
16.10.2015 Forseti flytur setningarræðu á þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle í Hörpu en það sækja um 1900 þátttakendur frá rúmlega 50 löndunm.Ræða forseta.
16.10.2015 Forseti á fund með sendinefnd Þýskalands sem sækir þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle og flytur þakkir til kanslara Þýskalands Angelu Merkel fyrir þá ákvörðun að senda svo öfluga sveit forystumanna þýska ríkisins, vísinda og viðskipta á þingið og hvatti til að þátttakan yrði grundvöllur frekari samvinnu við Þýskaland á þessu sviði.
16.10.2015 Forseti á fund með Albert II Mónakófursta sem sækir þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle en hann situr einnig í heiðursráði Hringborðsins. Rætt var um frekari samvinnu á vettvangi Norðurslóða, m.a. með tilliti til þeirra umhverfisverkefna sem Mónakóstofnunin styrkir víða um heim.
16.10.2015 Forseti tekur á móti forseta Frakklands François Hollande sem kemur í opinbera heimsókn til Íslands og flytur stefnuræðu á Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle. Forsetarnir héldu síðan ásamt fylgdarliði Frakklandsforseta að rótum Sólheimajökuls þar sem gengið var yfir það svæði þar sem jökullinn hefur hopað á undanförnum áratugum og skoðuð áhrif loftslagsbreytinga á bráðnun jökulsins. Í samræðum við fjölda franska fjölmiðlamanna, sem voru með í för, útskýrði forseti Frakklands tengsl jökulsins og heimsóknarinnar til Íslands við undirbúning loftslagsráðstefnunanr í París.
16.10.2015 Forseti á fund með forseta Frakklands François Hollande í tengslum við heimsókn hans til Íslands og þátttöku í Arctic Circle. Rætt var um mikilvægi Norðurslóða fyrir árangur loftslagsráðstefnunnar í París og margvíslega sammvinnu Íslands og Frakklands á sviði vísinda, rannsókna og menningar.
16.10.2015 Forseti kynnir forseta Frakklands François Hollande á þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle og þakkar honum fyrir forystu og frumkvæði á sviði loftslagsmála og fyrir að tengja framtíð Norðurslóða með svo öflugum hætti við baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
16.10.2015 Forseti býður forseta Frakklands ásamt fylgdarliði til kvöldverðar á Bessastöðum en kvöldverðinn sitja líka ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, embættismenn, vísindamenn og forystufólk í menningarlífi ásamt fulltrúum sendinefnda og vísindastofnana fjölmargra ríkja sem sækja þing Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle.
17.10.2015 Forseti á fund með sendinefnd Kína á Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle þar sem fjallað var um þátttöku Kínverja í þróun Norðurslóða, einkum á sviði rannsókna og vísinda sem og í tengslum við þróun siglingaleiða. Kínverska sendinefndin kom til Íslands á grundvelli ákvörðunar forseta Kína og lýsti hún áhuga á frekari þátttöku í Hringborðinu á næstu árum. Þá var einnig fjallað um samvinnu Íslands og Kína á sviði jarðhitanýtingar sem og mikilvægi fríverslunarsamnings landanna en Ísland varð fyrsta ríkið í Evrópu til að gera slíkan samning við Kína.
  Forseti sækir allsherjarfundi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið er í Hörpu.
17.10.2015 Forseti á fund með sendinefnd frá Bandaríkjunum sem sækir Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle en hana skipa fulltrúar frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, Hvíta húsinu, öldungadeild Bandaríkjaþings og fleiri aðilum í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Rætt var um frekari þátttöku Bandaríkjanna í þingi og ráðstefnum Arctic Circle, m.a. til að kynna áherslur og stefnu Bandaríkjanna í formennskutíð þeirra í Norðurskautsráðinu.
17.10.2015 Forseti á fund með forsætisráðherra Grænlands Kim Kielsen um Arctic Circle Forum sem áformað er að halda á Grænlandi í maí á næsta ári sem og margvíslega þætti í vaxandi samvinnu Íslands og Grænlands, m.a. með tilliti til ferðaþjónustu, samgangna, heilbrigðismála og nýtingu sjávarauðlinda. Þá var einnig rætt um mikilvægi þess að fjalla um heilbrigðisvandamál á Norðurslóðum og nauðsyn þess að veita ungu fólki aðstöðu til víðtækrar verkþjálfunar og náms.
17.10.2015 Forseti á fund með Christoph Wolff framkvæmdastjóra European Climate Foundation um samvinnu stofnunarinnar við Hringborð Norðurslóða þar sem gæfist vettvangur til að kynna margvísleg verkefni stofnunarinnar á sviði umhverfis- og loftslagsmála.
17.10.2015 Forseti á fund með Ségolene Royal, umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands, um samvinnu í kjölfar árangursríkrar heimsóknar forseta Frakklands Francois Hollande til Íslands sem og sérstaka kynningu á jarðhitanýtingu og reynslu Íslendinga á því sviði í tengslum við loftslagsráðstefnuna sem haldin verður í París í desember.
17.10.2015 Forseti á fund með sendinefnd Rússlands sem sækir Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle þar sem rætt var um árangur af þátttöku rússneskra vísindamanna og embættismanna í þingum Arctic Circle og um mikilvægi kynningar sem fram fór á þinginu nú á regluverki og skipulagi sem Rússland er að festa í sessi varðandi öryggi og þjónustu við skip sem fara um nýjar siglingaleiðir um Norðurslóðir.
17.10.2015 Forseti á fund með Scott Minerd, stjórnanda Guggenheim Partners, um áætlun sem hann hefur haft forystu um varðandi uppbyggingu innviða á Norðurslóðum en hún var kynnt á þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle. Áætlunin verður áfram til umfjöllunar og þróunar á fundum Arctic Circle sem fyrirhugaðir eru bæði í Singapúr og Québec sem og á næsta þingi Hringborðs Norðurslóða. Áætlunin er byggð á regluverki um fjárfestingar á Norðurslóðum þar sem ríkulega er tekið tillit til umhverfisverndar og hagsmuna íbúanna.
17.10.2015 Forseti tekur þátt í umræðuþætti á vegum BBC sem fram fer í tengslum við þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle. Í þættinum er fjallað um hættuna á að bráðnun íss og loftslagsbreytingar umturni veðurfari um miðja þessa öld.
17.10.2015 Forseti á fund með sendiherra Brasilíu gagnvart Íslandi og öðrum vísindamönnum og sérfræðingum frá Brasilíu sem sitja þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle. Á fundinum var rætt um frekari þátttöku Brasilíu í Hringborðinu á komandi árum, einkum í ljósi áhrifa Norðurslóða og hafstrauma á loftslag og efnahagslíf í öðrum heimsálfum.
17.10.2015 Forseti á fund með nýjum lögmanni Færeyja Aksel V. Johannesen og sendinefnd hans en hann er meðal ræðumanna á þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle. Rætt var um mikilvægi Hringborðsins fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland og samvinnu þessara þriggja landa í ljósi breyttrar heimsmyndar og aukins mikilvægis Norðurslóða.
17.10.2015 Forseti flytur ávarp á fjölsóttri menningardagskrá sem skipulögð var af utanríkisráðuneyti Kóreu fyrir þátttakendur í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle. Þar komu fram tónlistarmenn og dansarar, bæði flytjendur þjóðlegrar tónlistar og frægur hópur sem sýndi "breikdans".
17.10.2015 Forseti ræðir ásamt Scott Minerd stjórnanda Guggenheim Partners við bandarísku sjónvarpsstöðina MSNBC um mikilvægi Norðurslóða og um samstarf stjórnvalda og viðskiptalífs við að leggja grundvöll að ábyrgum fjárfestingum á Norðurslóðum þar sem tekið er tillit til umhverfisverndar og hagsmuna íbúanna. Einnig var rætt um árangurinn af Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle.
18.10.2015 Utanríkisráðherra Páfagarðs Parolin kardínáli sendi í lok vikunnar forseta bréf með árnaðaróskum frá hans heilagleika Frans páfa til Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle. Fréttatilkynning.
18.10.2015 Forseti á fund með Nicolas Rémillard, framkvæmdastjóra Efnahagsþings Montréal, þar sem saman koma forystumenn úr viðskiptalífi Norður og Suður Ameríku en áformað er að auka vægi Norðurslóða í árlegum fundum þingsins í Montréal.
 18.10.2015 Forseti á fund með sendiherra Kóreu í málefnum Norðurslóða og fulltrúum sendiráðs Kóreu gagnvart Íslandi um þátttöku Kóreu í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle og væntanlega heimsókn forseta til Kóreu í nóvember en á dagskrá þeirrar heimsóknar er m.a. fundur í Heimskautastofnun Kóreu, KOPRI, sem og viðræður við forseta landsins og forystumenn í sjóflutningum og skipasmíði.
18.10.2015 Forseti á fund með sendiherra Japans á Íslandi, sendiherra landsins í málefnum Norðurslóða og forystumönnum vísindastofnana frá Japan sem sækja Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle. Rætt var um frekari þátttöku Japans í fundum Hringborðsins, bæði Arctic Circle Forum sem haldið verður í Singapúr í næsta mánuði og þing Arctic Circle á Íslandi á næsta ári. Þá var einnig rætt um hina nýju stefnu Japans í málefnum Norðurslóða.
18.10.2015 Forseti ræðir við fréttamann frá kínverska sjónvarpinu CCTV um Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle, þátttöku Kínverja í rannsóknum á bráðnun íss á Norðurslóðum og nýjar siglingaleiðir sem og samstarf Íslands og Kína og tengsl Kína og Evrópu.
18.10.2015 Forseti ræðir við sendiherra Breta á Íslandi Stuart Gill, Robin Grimes vísindaráðgjafa í breska utanríkisráðuneytinu og Jane Francis, einn helsta vísindamann Breta í rannsóknum á Norðurslóðum um frekari þátttöku Breta í Hringborði Norðurslóða á næstu árum og hið mikilvæga vísindaframlag breskra stofnana og háskóla á þessu sviði.
18.10.2015 Forseti ræðir við alþjóðlegu útvarpsstöðina BBC World Service um helstu dagskrárefni Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle, framgöngu Bandaríkjanna, Rússa og Kínverja á Norðurslóðum sem og aukið mikilvægi Norðurslóða fyrir efnahagslíf og siglingar. Jafnframt hefði rík áhersla á verndun náttúru Norðurslóða og vísindalegar rannsóknir verið leiðarljós í umræðum á þinginu.
18.10.2015 Forseti ræðir við sendiherra Þýskalands á Íslandi, Karin Lochte forstjóra þýsku Alfred Wegener rannsóknastofnunarinnar og aðra fulltrúa Þýskalands á Hringborði Norðurslóða um frekari þátttöku þýskra stjórnvalda og vísindastofnana í þróun Hringborðsins á næstu árum.
19.10.2015 Forseti á fund með Fanglu Wang framkvæmdastjóra kínverska fjárfestingasjóðsins CITIC um fjárfestingar á Norðurslóðum og Norðurlöndum en Fanglu Wang var meðal þátttakenda í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle.
19.10.2015 Forseti á fund með Denis Brière rektor Laval háskólans í Québec og Éric Bauce vararektor um hlutverk háskóla og vísindastofnana í samstarfi og þróun Norðurslóða. Laval háskóli sem var stofnaður fyrir 350 árum er á eftir Harvard annar elsti háskóli Norður Ameríku. Rætt var um þátttöku háskólans í Arctic Circle Forum sem haldið verður í Québec í mars á næsta ári í samstarfi við ríkisstjórn Québec, og aðkomu stúdenta og fræðimanna við háskólann að þeim fundi. Þá kynnti rektorinn einnig áform um myndun sérstaks sjóðs við háskólann og lýsti áhuga á frekara samstarfi við íslenska háskóla.
19.10.2015 Forseti á fund með Zhang Zhaoping, stjórnarformanni Sinopec Star, um árangurinn af jarðhitasamstarfi Íslands og Kína en nú þegar hafa verið byggðar á vegum þess hitaveitur í meira en 20 kínverskum borgum í 5 fylkjum. Meðal borganna er Xiongxian sem er fyrsta borgin í Kína sem er alfarið hituð með jarðhita og nú kynnt sem fyrsta kolareykslausa borgin í Kína. Í öllum þessum borgum koma hitaveitur í stað kolakyndingar. Sinopec, sem er stærsta orkufyrirtæki Kína, stefnir að stórauknum vexti í byggingu hitaveitna á grundvelli þeirrar reynslu sem samstarfið við Ísland hefur skapað. Jarðhitavæðing er mikilvægt framlag til að draga úr mengun í kínverskum borgum og minnka útblástur á koltvísýringi. Einnig kynnti Zhang áform um að hefja rafmagnsframleiðslu á grundvelli jarðhitanýtingar. Fundinn sat einnig Haukur Harðarson, stjórnandi Arctic Green Energy, sem skipulagt hefur þátttöku íslenskra jarðhitafyrirtækja, tækni- og verkfræðifyrirtækja í þessari uppbyggingu í Kína.Í opinberri heimsókn Jiang Zemin, þáverandi forseta Kína, til Íslands árið 2002 var lagður grundvöllur að þessu samstarfi sem síðan hefur verið meðal helstu viðfangsefna á fundum forseta Íslands með bæði eftirmanni hans Hu Jintao og núverandi forseta Kína Xi Jinping
19.10.2015 Forseti á fund með Byrganym Aitimova öldungadeildarþingmanni frá Kasakstan sem afhenti bréf frá forseta Kasakstans Nursultan Nazarbayev þar sem fjallað er um áherslur varðandi kjarnorkuafvopnun í ljósi reynslu landsins af kjarnorkutilraunum á tíma Sovétríkjanna sem og framboð landsins til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Einnig var rætt um heimssýningu árið 2017 í Kasakstan þar sem áhersla verður lögð á framtíðarþróun orkumála og möguleika á jarðhitanýtingu í landinu.
20.10.2015 Forseti á fund með íslenskum og bandarískum vísindamönnum og viðskiptaaðilum sem líftæknifyrirtækið Kerecis hefur tengt saman til að auka samvinnu í þágu rannsókna og þróunar til að annars vegar græða sár sem illa eru læknanleg og hins vegar að hægja á öldrun mannlíkamans. Sá árangur sem Kerecis hefur náð með framleiðslu lækningavara úr fiskroði hefur að dómi hinna bandarísku aðila víðtækt gildi fyrir frekari framfarir á þessum sviðum. Aukinn skilningur á lífríki jarðarinnar og uppgötvanir í læknisfræði og tækni geta leitt til byltingarkenndra breytinga varðandi heilsu manna.
21.10.2015 Forseti á fund með sendiherra Palestínu gagnvart Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um tilraunir til samninga milli Palestínu og Ísraels og vaxandi spennu að undanförnu sem og sífellt flóknari stöðu í Miðausturlöndum. Mikilvægt væri að stuðla að árangursríkum friðarviðræðum sem komið gætu í veg fyrir frekari átök á svæðinu og tryggt íbúum Palestínu örugga framtíð í eigin höndum.
21.10.2015 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle um árangur af þinginu sem haldið var um síðustu helgi og skipulagningu næsta þings.
22.10.2015 Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnu LÍSU, samtaka um landupplýsingar á Íslandi. Í ávarpinu áréttaði forseti að enn ætti eftir að kortleggja með viðeigandi hætti stóran hluta Norðurslóða, afla upplýsinga um landslag og náttúrufar og mikilvægt væri að íslenskir sérfræðingar og vísindamenn tækju þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði sem einnig myndi gefa okkur til muna ítarlegri gagnagrunn um íslenskt landslag og landkosti.
22.10.2015 Forseti á fund með framkvæmdastjóra UN Women en samtökin vinna á vegum Sameinuðu þjóðanna að því að styrkja stöðu kvenna víða um heim. Rætt var um árangur Íslendinga á undanförnum áratugum í að bæta stöðu kvenna með margvíslegum félagslegum, stjórnmálalegum og efnahagslegum aðgerðum. Einnig var fjallað um stöðu kvenna í ýmsum heimshlutum og verkefni UN Women.
22.10.2015 Forseti sæmir Austin Mitchell, fyrrum þingmann í Bretlandi, fálkaorðu fyrir stuðning hans við málstað og baráttu Íslendinga bæði á tímum landhelgisdeilnanna og í kjölfar fjármálakreppunnar.
22.10.2015 Forseti á fund með Halldóri Guðmundssyni, forstjóra Hörpu, um þróun hennar sem alþjóðlegrar menningarmiðstöðvar og ráðstefnuaðseturs, bæði í ljósi þeirra stórviðburða í tónlistarlífi sem verið hafa í Hörpu frá því hún var opnuð og reynslunnar af Arctic Circle sem stærstu alþjóðlegu Norðurslóðaráðstefnu veraldar.
22.10.2015 Forseti tekur á móti fyrirlesurum og aðstandendum á alþjóðlegri ráðstefnu um stöðu kvenna sem haldin er í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
23.10.2015 Forseti flytur kveðjuorð í útför Halldóru Pálsdóttur sem fram fór frá Bessastaðakirkju. Halldóra vann á Bessastöðum í tíð fjögurra forseta og var í áratugi meðhjálpari og umsjónarmaður Bessastaðakirkju. Í kveðjuorðum þakkaði forseti framlag Halldóru til farsældar forsetaembættisins og til kirkjunnar. Hún hefði verið tengd forsetaembættinu í um hálfa öld og verið kjölfesta og gleðigjafi í daglegri önn. Minningarorð
23.10.2015 Forseti afhendir Lagnaverðlaunin sem veitt voru nýbyggingu slökkviliðsins í Mosfellsbæ og þeim sem komið hafa að lagnaverki byggingarinnar.
26.10.2015 Forseti á fund með Höllu Hrund Logadóttur frá Háskólanum í Reykjavík um frekara samstarf háskóla innan vébanda Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle.
27.10.2015 Forseti ræðir við Óðin Jónsson í Morgunþætti Rásar 1 á RÚV um þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle og áhrif aukins mikilvægis Norðurslóða á stöðu Íslands sem og um loftslagsráðstefnuna í París.
27.10.2015 Forseti býður forystu Norðurlandaráðs, þingforsetum Norðurlanda og forsætisráðherrum ásamt fulltrúum flokkahópa til hádegisverðar á Bessastöðum í tilefni af þingi Norðurlandaráðs sem hefst í Reykjavík í dag. Ræða forseta (á norsku). Íslensk þýðing.
28.10.2015 Forseti stýrir undirbúningsfundi með starfsfólki Zayed orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize, sem haldinn er í Abu Dhabi. Á fundinum er fjallað um mat á þeim rúmlega eitt þúsund tilnefningum sem bárust og þá sem valdir hafa verið til umfjöllunar á fundi dómnefndar en forseti er formaður hennar.
28.10.2015 Forseti flytur fyrirlestur í Masdar tækniháskólanum í Abu Dhabi um tengslin milli þróunar á Norðurslóðum, bráðnunar íss og eflingu nýtingar hreinnar orku víða um heim sem og mikilvægi þessara tengsla varðandi árangur í samningum um loftslagsmál á ráðstefnunni sem fram fer í París í desember. Masdar hefur frá upphafi verið meðal samstarfsaðila í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle en rúmlega 400 nemendur í meistaranámi og doktorsnámi við háskólann stunda margvíslegar rannsóknir á tækninýjungum á ýmsum sviðum hreinnar orku. 
28.10.2015 Forseti á fund í Abu Dhabi með Sultan Al Jaber ráðherra og stjórnarformanni Masdar og Scott Minerd stjórnanda bandaríska fjárfestingasjóðsins Guggenheim Partners um tillögugerð varðandi þróun uppbyggingar á Norðurslóðum þar sem fjárfestingar tækju mið af verndun umhverfis og hagsmunum íbúanna. Scott Minerd kynnti þá tillögugerð á allsherjarfundi þings Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle í Reykjavík fyrr í þessum mánuði og áform eru um að kynna hana frekar á næstu mánuðum,  m.a. með kynningum í Kóreu, Singapúr, og á alþjóða efnahagsþinginu, World Economic Forum, í Davos sem og í Québec í Kanada og á Grænlandi á næsta ári.
29.10.2015 Forseti stýrir fundi dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna Zayed Future Energy Prize, sem haldinn er í Abu Dhabi þar sem valdir eru verðlaunahafar í fjórum flokkum. Verðlaunin eru hin veigamestu á sviði orkumála í veröldinni og verða þau afhent á opnunarhátíð Heimsþings hreinnar orku sem haldið verður í Abu Dhabi í janúar. 
29.10.2015 Forseti sækir fund sem haldinn er í Masdar tækniháskólanum þar sem Philip Hammond utanríkisráðherra Bretlands og Sir David King, sem er sérstakur ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, ræða ásamt Sultan Al Jaber ráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Ahmed Amin framkvæmdastjóra Alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orku, IRENA, um tengslin milli framfara í nýtingu hreinnar orku og árangurs á loftslagsráðstefnunni í París.
29.10.2015 Forseti ræðir við fjölmiðla í Abu Dhabi um Zayed orkuverðlaunin, Zayed Future Energy Prize, og störf dómnefndar, og víðtæka alþjóðlega þátttöku í tilnefningaferli verðlaunanna, en tilnefningar bárust frá rúmlega 90 löndum. 

Nóvember

01.11.2015 Forseti hefur sent samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til Vladimirs Putin forseta Rússlands í kjölfar þess að rússnesk flugvél hrapaði til jarðar yfir Egyptalandi og 224 farþegar týndu lífi.
Hugur okkar og bænir séu hjá fjölskyldum þeirra sem létu lífið.
01.11.2015 Forseti flytur fyrirlestur við Utanríkisskóla Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Emirates Diplomatic Academy, um tengsl þróunar á Norðurslóðum við eflingu hreinnar orku og loftslagssamningana sem fram fara i París. Að fyrirlestri loknum svaraði forseti fjölda fyrirspurna um Ísland, m.a. þróun jafnréttis og stöðu kvenna, rannsóknir a jöklum og hvernig Ísland og Furstadæmin geta unnið saman að baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Skólinn annast þjálfun á verðandi starfsmönnum utanríkisþjónustu Furstadæmanna. Konur voru um helmingur þeirra sem sóttu fyrirlesturinn.
02.11.2015 Forseti á fund með Hans Hátign Mohammed bin Zayed Al Nahyan, krónprins Abu Dhabi um þróun Zayed orkuverðlaunanna, val á verðlaunahöfum sem tilkynnt verður við hátíðlega athöfn i janúar. Einnig var rætt um þróun samstarfs á Norðurslóðum, árangur Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle og mikilvægi þeirrar forystu sem Masdar í Abu Dhabi hefur haft á s.l. árum í þróun hreinnar orku og eflingu hennar víða um heim.
04.11.2015 Opinber heimsókn forseta Íslands til Víetnam hófst með móttökuathöfn við forsetahöllina þar sem Truong Tan Sang forseti Víetnam og forsetafrú tóku á móti íslensku forsetahjónunum og sendinefndinni, en hana skipuðu m.a. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, embættismenn forsetaskrifstofu og utanríkisráðuneytis, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, orkumálastjóri og rektor Háskólans í Reykjavík. Áður hafði forseti lagt blómsveig að minnismerki um þá sem létu lífið í frelsisbaráttu Víetnama og blómsveig við grafhýsi Ho Chi Minh. Eftir að þjóðsöngvar Íslands og Víetnams höfðu verið leiknir könnuðu forsetar landanna heiðursvörð.Mynd.
04.11.2015 Í kjölfar fundar forseta Íslands með forseta Víetnams greindu forsetarnir á blaðamannafundi frá helstu atriðum sem fram komu á fundi þeirra. Við upphaf blaðamannafundarins undirrituðu Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og viðskipta- og iðnaðarráðherra Víetnams samkomulag ríkjanna um samvinnu á sviði jarðhitanýtingar. Þá undirrituðu Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og rektor Þjóðarháskóla Víetnams samkomulag um samvinnu háskólanna. Myndir.
04.11.2015 Á fundi forseta með Truong Tan Sang forseta Víetnams á fyrsta degi í opinberri heimsókn til Víetnams var ítarlega rætt um eflingu samvinnu milli Íslands og Víetnams á fjölmörgum sviðum. Reynsla Íslendinga á sviði fiskveiða og fiskvinnslu sem og tækninýjungar og skipulag í sjávarútvegi gætu verið mikilvægt framlag til þróunar sjávarútvegs í Víetnam. Einnig lýsti forseti Víetnams áhuga á að nýta þekkingu Íslendinga á sviði jarðhita til að styrkja nýtingu grænnar orku í Víetnam en allar þjóðir heims þyrftu að endurskipuleggja orkukerfi sín til að hamla gegn óafturkræfum loftslagsbreytingum. Þá var einnig lögð áhersla á þátttöku Víetnams í Sjávarútvegsskóla og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem og að kynna sér þróun velferðarkerfis og þjónustu við fatlaða á Íslandi. Á fundinum kom einnig fram áhugi beggja landa á að ljúka fríverslunarsamningi. Á fundinum minntist forseti Víetnams á þátttöku forseta Íslands á yngri árum í baráttu vestrænna ungmenna gegn Víetnamstríðinu og forseti Íslands áréttaði að sú barátta gæfi heimsókn sinni til Víetnams djúpa persónulega merkingu. Sú saga væri áminning til valdhafa nútímans um að mótmælendur á okkar tímum gætu orðið forsetar í framtíðinni. Mynd.
04.11.2015 Forseti og forsetafrú hófu í dag þriggja daga opinbera heimsókn til Víetnams. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tekur einnig þátt í heimsókninni ásamt sendinefnd sem skipuð er embættismönnum frá utanríkisráðuneyti og forsetaskrifstofu auk forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, forstjóra Orkustofnunar og rektors Háskólans í Reykjavík. Í kjölfarið munu forseti og utanríkisráðherra einnig heimsækja Suður-Kóreu og Singapúr.
Í kjölfarið munu forseti og utanríkisráðherra einnig heimsækja Suður-Kóreu og Singapúr.Með heimsóknunum verður lagður grunnur að víðtækari tengslum Íslands við Asíu en löndin þrjú gegna ásamt forysturíkjum álfunnar sífellt ríkara hlutverki í efnahagslífi veraldar. Einnig hafa Kórea og Singapúr verið virkir þátttakendur í þróun aukins samstarfs á Norðurslóðum, m.a. með öflugum sendinefndum á þingum Hringborðs Norðurslóða í Reykjavík. Bæði löndin eiga og áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
Í fjölþættri dagskrá heimsóknarinnar til Víetnams verður einkum lögð áhersla á að efla samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu en Víetnamar leggja nú mikla áherslu á aukna tæknivæðingu í fiskirækt og vinnslu. Þá verður jafnframt gengið frá samkomulagi milli þjóðanna um aukna samvinnu á sviði jarðhitanýtingar en mikill áhugi er á því í Víetnam að efla þann þátt í orkubúskap landsins. Þá munu Þjóðarháskóli Víetnams og Háskólinn í Reykjavík einnig ganga frá samkomulagi um aukna samvinnu.
Í Kóreu verður m.a. rætt um samvinnu þjóðanna á Norðurslóðum, skipasmíðar og siglingar í ljósi breyttra aðstæðna í heimsviðskiptum vegna bráðnunar hafíss á Norðurslóðum.
Asíuferð forseta og utanríkisráðherra lýkur með opinberri heimsókn til Singapúrs þar sem dagskrárefni varða m.a. samstarf eyríkja, loftslagsbreytingar og hækkun sjávarborðs, samstarf á Norðurslóðum, rannsóknir og menntamál.
Íslandsstofa hefur skipulagt dagskrár viðskiptasendinefnda sem fylgja forseta og utanríkisráðherra í heimsóknum til Asíulandanna þriggja, einkum Víetnams og Kóreu.
Í upphafi dagskrár forsetahjóna og utanríkisráðherra í dag lagði forseti Íslands blómsveig að minnisvarða um hetjur og fórnarlömb frelsisstríðanna og jafnframt við grafhýsi Ho Chi Minh. Þaðan var haldið að forsetahöllinni þar sem Truong Tan Sang forseti Víetnams tók á móti hinum íslensku gestum. Í kjölfar opinberrar móttökuathafnar hófst fundur forseta Íslands og forseta Víetnams en þann fund sátu einnig utanríkisráðherra Íslands og embættismenn.
Eftir hádegi heimsótti forseti Þjóðþing Vietnams og ræddi við Nguyen Sinh Hung forseta þingsins og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti fund með starfsbróður sínum Pham Binh Minh sem auk þess að vera utanríkisráðherra er einnig aðstoðarforsætisráðherra. Síðdegis heimsóttu forseti og sendinefndin Þjóðarháskóla Víetnams þar sem forseti flutti fyrirlestur sem bar heitið: The Clean Energy Economy - the Example of Iceland. Eftir fyrirlesturinn svaraði forseti fyrirspurnum nemenda og kennara. Frá Þjóðarháskólanum var haldið til fundar við Nguyen Tan Dung forsætisráðherra Víetnams og í kjölfarið var fundur með Nguyen Phu Trong aðalritara Kommúnistaflokks Víetnams.
Dagskrá fyrsta dags opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Víetnams lauk með hátíðarkvöldverði forseta Víetnam. Ræðu forseta Íslands í hátíðarkvöldverðinum má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.
Í fyrramálið, fimmtudaginn 5. nóvember, hefst dagskráin með ráðstefnu um sjálfbæran orkubúskap undir heitinu: The Future of Clean Energy. Þar munu forseti og utanríkisráðherra halda ræður auk Hafsteins Helgasonar frá Eflu, Guðna Jóhannessonar forstjóra Orkustofnunar, Ara Kristins Jónssonar rektors Háskólans í Reykjavík og Hauks Harðarsonar stjórnarformanns Arctic Green Energy en Haukur hefur verið búsettur í Víetnam um langt árabil. Þá munu Hoang Trung Hai aðstoðarforsætisráðherra og Vu Huy Hoang iðnaðar- og viðskiptaráðherra einnig flytja ræður á ráðstefnunni auk þess sem aðrir fulltrúar víetnamskra stjórnvalda og fyrirtækja sitja hana. 
Síðdegis á morgun verður haldið frá Hanoi til Ho Chi Minh borgar. Myndir. Fréttatilkynning
05.11.2015 Forseti flytur erindi á málþingi um framtíð hreinnar orku sem haldið er í Hanoi í tengslum við opinbera heimsókn forseta. Í ræðunni rakti hann þróun orkunýtingar á Íslandi, einkum hvernig jarðvarmi hefur nýst til fjölþættrar atvinnusköpunar og til að draga úr mengun. Þá tengdi forseti nýtingu hreinnar orku á veraldarvísu við baráttuna gegn loftslagsbreytingum sem myndu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Víetnam síðar á þessari öld  ef ekki tekst að ná alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp á málþinginu en varaforsætisráðherra Víetnams og aðrir fulltrúar víetnamskra stjórnvalda fluttu einnig ræður. Þá kynntu orkumálastjóri og íslenskir sérfræðingar tækni og árangur Íslendinga á þessu sviði. Íslandsstofa undirbjó málþingið í samvinnu við Viðskiptaráð Víetnams. Myndir.
05.11.2015 Forseti heimsækir Bókmenntahofið í Hanoi þar sem stofnaður var háskóli fyrir þúsund árum og stunduð fræði Konfúsíusar í margar aldir. Hinar fornu byggingar og hofgarðarnir eru meðal helstu minja um menningu og byggingar í Víetnam á fyrri öldum. Í hofinu sló forseti þrjú högg í stórt hátíðargong en það hafa einnig gert forsetar Bandaríkjanna, sem heimsótt hafa Víetnam, eftir að sættir tókust með löndunum. Myndir.
05.11.2015 Forseti á fund með borgarstjóra Ho Chi Minh, Le Hoang Quan, sem að fundi loknum bauð forseta og fulltrúum Íslands til kvöldverðar. Fundurinn var upphaf að heimsókn forseta og íslensku sendinefndinnar til Ho Chi Minh borgar í lok annars dags opinberrar heimsóknar forseta til Víetnams. Á fundinum var m.a. rætt um hinn gríðarlega vöxt borgarinnar og þróun atvinnulífs og efnahags á þeim rúmu tuttugu árum sem liðin eru frá því forseti heimsótti borgina fyrst. Þá var einnig fjallað um margvíslega samvinnu við Ísland á grundvelli þeirra viðræðna sem fram fóru í Hanoi og með sérstöku tilliti til málþings um þróun sjávarútvegs sem verður fyrsti dagskrárliður heimsóknarinnar næsta dag. Myndir.
06.11.2015 Forseti flytur opnunarræðu á málþingi um þróun sjávarútvegs sem haldið er í Ho Chi Minh borg í tengslum við heimsókn forseta til Víetnams. Markmið málþingsins er að leggja grundvöll að auknu samstarfi Íslands og Víetnams á sviði sjávarútvegs og miðla reynslu og tækni Íslendinga til Víetnama. Auk forseta töluðu á málþinginu Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra Víetnams, forstjóri Hafrannsóknastofnunar og aðstoðarforstjóri sjávarútvegsstofnunar Víetnams. Auk þess töluðu fulltrúar íslenskra og víetnamskra fyrirtækja. Málþingið var undirbúið af Íslandsstofu í samvinnu við Viðskiptaráð Víetnams. Myndir.
06.11.2015 Forseti heimsækir ásamt íslensku sendinefndinni Cu Chi stríðsgöngin fyrir utan Ho Chi Minh borg sem notuð voru í fimmtán ár í átökum Víetnama við Bandaríkin. Göngin eru samtals um 250 kílómetrar á lengd og gegndu lykilhlutverki í árangri frelsisbaráttunnar. Myndir.
06.11.2015 Forseti situr kvöldverð sem nýr ræðismaður Íslands í Ho Minh borg Le Nu Thuy Duong hélt íslensku sendinefndinni og ýmsum fulltrúum annarra ríkja og atvinnulífs í borginni. Í kvöldverðinum tilkynnti utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson formlega um tilnefningu hins nýja ræðismanns og forseti flutti stutt ávarp.
07.11.2015 Forseti á morgunverðarfund með borgarstjóra Ho Chi Minh borgar Le Hoang Quan sem ítrekaði yfirlýsingar sínar frá fyrri fundi þeirra um samvinnu við Ísland og flutti sérstaka kveðju frá forseta Víetnams sem lýsti mikilli ánægju með heimsóknina. Víetnamar væntu mikils af samstarfi við Ísland, sérstaklega á sviði jarðhita, sjávarútvegs og tæknimenntunar. Í morguverðinum rakti borgarstjórinn einnig þátttöku sína í Víetnamstriðinu og lagði áherslu á að sigur hefði unnist í krafti baráttuvilja þjóðarinnar.
07.11.2015 Forseti heimsækir Mekong svæðið í Víetnam og kynnir sér atvinnulíf og lífshætti bænda og sjómanna, fiskeldi, ávaxtarækt sem og búsetuskilyrði við síkin í nágrenni hins mikla fljóts. Ljóst er að loftslagsbreytingar og hækkun sjávarborðs mundu hafa mikil áhrif á náttúru þessa svæðis sem er meðal gjöfulustu landbúnaðarsvæða landsins. Þessi heimsókn var síðasti liður í dagskrá opinberrar heimsóknar forseta til Víetnams.
09.11.2015 Forseti tekur í Seúl þátt í kynningu á nýju regluverki um framkvæmdir á Norðurslóðum þar sem tekið er tillit til umhverfis og hagsmuna íbúanna og á hugmyndum um þróun sérstakrar fjárfestingarsamvinnu á Norðurslóðum en Scott Minerd, stjórnandi Guggenheim, sem fjallaði um þessa þætti á þingi Arctic Circle í Reykjavík í október, tekur einnig þátt í kynningunni í Kóreu.
09.11.2015 Forseti situr kynningarfundi sem kóresk skipafélög og skipasmíðastöðvar, Daewoo (DSME) og Hyundai Glovis, héldu um margvísleg áform sem tengd eru breyttum aðstæðum á Norðurslóðum. Í máli forsvarsmanna DSME kom m.a. fram að þegar er unnið að byggingu allmargra sérstyrktra skipa sem siglt geta um hinar nýju siglingaleiðir á Norðurslóðum milli Asíu og Evrópu án þess að njóta liðsinnis ísbrjóta.
09.11.2015 Forseti flytur ræðu á hádegisverðarfundi sem Alþjóðaviðskiptaráð Kóreu, Korea International Trade Association (KITA), bauð til í tilefni af heimsókn forseta Íslands. Hádegisverðinn sátu fulltrúar fjölmargra öflugustu fyrirtækja í Kóreu. Í ræðu sinni fjallaði forseti m.a. um viðskiptasamvinnu og samskipti Íslands og Kóreu á umliðnum árum og þá hlutdeild sem Norðurslóðir munu eiga í efnahagsþróun á þessari öld með nýjum siglingaleiðum milli Asíu og Evrópu. Í málflutningi forystumanna KITA kom fram mikill áhugi á því að efla viðskiptasamvinnu milli Íslands og Kóreu, ekki síst á sviði sjávarafurða. Þá svaraði forseti spurningum og jafnframt tóku til máls Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Hafsteinn Helgason frá verkfræðistofunni Eflu og Scott Minerd frá Guggenheim. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti ávarp við lok dagskrár og hvatti til aukinnar viðskiptasamvinnu milli þjóðanna, m.a. í ljósi fríverslunarsamnings milli Kóreu og EFTA, og nefndi í því samhengi fullvinnslu sjávarafurða og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
09.11.2015 Forseti átti fund í Seúl með Park Geun-hye forseta Kóreu þar sem fram kom eindreginn vilji Kóreu til að efla siglingar og rannsóknir á Norðurslóðum og taka virkan þátt í samstarfi og stefnumótun á svæðinu. Þá lýsti Park forseti sérstakri ánægju með þing Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle sem nú er haldið árlega í Reykjavík og stefnir Kórea að áframhaldandi þátttöku í þingunum.
Forseti Kóreu lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að auka samvinnu Íslendinga og Kóreumanna á sviði viðskipta og fjárfestinga með tilliti til breyttra aðstæðna á Norðurslóðum og bauðst jafnframt til að greiða götu hvers konar hugmynda í þeim efnum. Hún nefndi einnig mögulega samvinnu á sviði hreinnar orku. Íslendingar væru forystuþjóð á sviði endurnýjanlegrar orku, Kóreumenn á sviði margvíslegra tæknilausna, jafnt með tilliti til orkusparnaðar, nýrra orkukerfa og nýrra orkulausna. Forsetinn hvatti til þess að hugmyndum um samstarf yrði fljótlega fundinn formlegur farvegur á vettvangi samskipta ríkjanna.
Forsetarnir voru sammála um að víðtækt samstarf á Norðurslóðum og efling hreinnar orku í efnahagslífi veraldar væru mikilvægt framlag til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Brýnt væri að samkomulag næðist á loftslagsráðstefnunni í París og nefndi forseti Kóreu að forseti Frakklands hefði nýlega heimsótt Kóreu í kjölfar þátttöku hans í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle.
Fundinn sátu einnig Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, embættismenn forsetaskrifstofu og utanríkisráðuneytis. Gerði íslenska sendinefndin m.a. grein fyrir áformum Íslendinga um uppbyggingu miðstöðvar fyrir björgun og leit sem yrði liður í auknu öryggi í siglingum á Norðurslóðum, en Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar er í fylgdarliði forseta og hefur kynnt þessar hugmyndir á ýmsum fundum.
Í hádeginu í dag bauð Alþjóðaviðskiptaráð Kóreu, Korea International Trade Association, til hádegisverðar í tilefni af heimsókn forseta Íslands. Hádegisverðinn sátu fulltrúar fjölmargra öflugustu fyrirtækja í Kóreu. Í ræðu sinni fjallaði forseti m.a. um viðskiptasamvinnu og samskipti Íslands og Kóreu á umliðnum árum og þá hlutdeild sem Norðurslóðir munu eiga í efnahagsþróun á þessari öld með nýjum siglingaleiðum milli Asíu og Evrópu. Í málflutningi forystumanna KITA kom fram mikill áhugi á því að efla viðskiptasamvinnu milli Íslands og Kóreu, ekki síst á sviði sjávarafurða. Þá svaraði forseti spurningum og jafnframt tóku til máls Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Hafsteinn Helgason frá verkfræðistofunni Eflu og Scott Minerd frá Guggenheim. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti ávarp við lok dagskrár og hvatti til aukinnar viðskiptasamvinnu milli þjóðanna, m.a. í ljósi fríverslunarsamnings milli Kóreu og EFTA, og nefndi í því samhengi fullvinnslu sjávarafurða og nýtingu endurnýjanlegrar orku. 
Í kjölfar hádegisverðarins kynntu kóresk skipafélög og skipasmíðastöðvar, Daewoo og Hyundai Glovis, fyrir forseta á sérstökum fundum margvísleg áform sem tengd eru breyttum aðstæðum á Norðurslóðum. Í máli forsvarsmanna Daewoo kom m.a. fram að þegar er unnið að byggingu allmargra sérstyrktra skipa sem siglt geta um hinar nýju siglingaleiðir á Norðurslóðum milli Asíu og Evrópu án þess að njóta liðsinnis ísbrjóta.
Á morgun mun forseti heimsækja Heimskautastofnun Kóreu, KOPRI, og kynna sér fjölþættar og viðamiklar rannsóknir sem vísindamenn stofnunarinnar stunda á náttúru og lífríki Norðurslóða.
Í heimsókn sinni til Kóreu tekur forseti einnig þátt í kynningu á nýju regluverki um framkvæmdir á Norðurslóðum þar sem tekið er tillit til umhverfis og hagsmuna íbúanna og á hugmyndum um þróun sérstakrar fjárfestingarsamvinnu á Norðurslóðum en Scott Minerd, stjórnandi Guggenheim, sem fjallaði um þessa þætti á þingi Arctic Circle í Reykjavík í október tekur einnig þátt í kynningunni í Kóreu. Myndir
09.11.2015 Forseti er sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við hátíðlega athöfn í Kookmin háskólanum í Seúl. Við það tækifæri flutti forseti jafnframt fyrirlestur og skrifað var undir samstarfssamning milli Háskólans í Reykjavík og Kookmin háskóla. Við athöfnina gat rektor háskólans sérstaklega framlags forseta til umhverfisverndar og friðsamlegrar samvinnu þjóða sem og frumkvæðis hans í málefnum Norðurslóða. Fyrrum forsætisráðherra Kóreu, dr. Hong-Koo Lee, flutti einnig ávarp við athöfnina. Fyrirlestur forseta bar heitið: Iceland's Clean Energy Economy - Lessons for a Global Transformation. Í fyrirlestri sínum fjallaði forseti um sjálfbæran orkubúskap Íslendinga og þá lærdóma sem aðrar þjóðir gætu dregið af reynslu Íslendinga í þeim efnum. Í kjölfarið svaraði forseti fyrirspurnum nemenda og kennara. FréttatilkynningMyndir.
10.11.2015 Forseti heimsækir Heimsskautastofnun Kóreu, KOPRI, sem er öflug vísindastofnun með rúmlega tvö vísindamenn og sérfræðinga. Forystumenn stofnunarinnar gerðu grein fyrir fjölþættum og viðamiklum rannsóknum á náttúru og lífríki á Norðurslóðum og öðrum ísilögðum hlutum veraldar. KOPRI hefur tekið virkan þátt í þingum Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle, frá stofnun þess. Fyrirhugað er að efla enn starfsemi Heimsskautastofnunarinnar á komandi árum. Myndir.  
10.11.2015 Forseti heimsækir höfuðstöðvar hins nýja loftslags- og umhverfissjóðs Green Climate Fund, sem stofnaður var með ákvörðun aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í  Cancun árið 2010. Græna loftslagssjóðnum er ætlað að leggja fjármuni til verkefna í þróunarríkjum sem tengjast loftslags- og umhverfismálum, ekki síst að styðja ríki til þess að endurskipuleggja orkubúskap sinn í átt til sjálfbærni og aðstoða þau ríki sem helst munu glíma við margvíslegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Á fundinum gerði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra m.a. grein fyrir ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að framlög Íslands til hans verði ein milljón Bandaríkjadala sem dreifast muni á árin 2016-20. Mynd
11.11.2015 Forseti heimsækir hafnarstjórn Singapúrs og hlýðir á kynningu á umfangsmikilli starfsemi þessarar heimshafnar sem kalla má meginundirstöðu atvinnulífs í Singapúr og gegnir lykilhlutverki í vöruflutningum veraldar. Hafnaryfirvöld lýstu sérstaklega þeim aðferðum sem þróaðar hafa verið til að glíma við olíumengunarslys á sjó. Singapúr hefur m.a. kynnt þá vinnu á fundum Norðurskautsráðsins en landið hefur áheyrnaraðild að ráðinu. Í fundunum með hafnaryfirvöldum tóku einnig þátt Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og fleiri fulltrúar Íslands.
11.11.2015 Forseti á fund með Tony Tan Keng Yam forseta Singapúrs þar sem m.a. var rætt um aukið samstarf á vettvangi Norðurslóða og mikilvægi þess að standa vörð um höfin og auðlindir þeirra. Báðar þjóðir byggðu afkomu sína á hafinu, þó með ólíkum hætti væri, og súrnun sjávar og ofnýting fiskistofna ógnaði heilbrigði og lífríki heimshafanna. Bráðnun jökla og íss á Norðurslóðum hefði einnig margvísleg áhrif á veðurfar, loftslag og hækkun sjávarborðs sem tefldi framtíð Singapúrs og annarra ríkja í tvísýnu. Mynd.
11.11.2015 Forseti á fund með Lee Hsien Loong forsætisráðherra Singapúrs. Á fundinum kom fram eindreginn vilji stjórnvalda í Singapúr til að auka samstarf við Íslendinga og efla þátttöku sína í málefnum Norðurslóða. Þá var einnig rætt um árangur Íslendinga í glímunni við afleiðingar fjármálakreppunnar. Myndir.
11.11.2015 Forseti situr hátíðarkvöldverð í boði forseta Singapúrs í Istana, forsetahöllinni í Singapúr, þar sem báðir forsetarnir fluttu ræður og ítrekuðu ríkan vilja til að auka samstarf þjóðanna, m.a. varðandi málefni og framtíð Norðurslóða. Ræða forseta. Myndir.Ræða forseta Singapúrs.
12.11.2015 Forseti flytur opnunarræðu á Arctic Circle Forum sem Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle heldur í samvinnu við stjórnvöld í Singapúr og Singapore Maritime Institute. Einnig flutti opnunarræðu Teo Chee Hean innanríkisráðherra Singapúrs. Á málþinginu er m.a. fjallað um lagalega umgjörð siglinga á Norðurslóðum, fjárfestingar í innviðum samfélaga á Norðurslóðum, alþjóðlega samvinnu á sviði vísinda og rannsókna á Norðurslóðum og hvernig auka megi og efla alþjóðlega samvinnu um málefni Norðurslóða. Meðal ræðumanna eru Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Sam Tan ráðherra mannauðsmála í Singapúr og sérstakur fulltrúi ríkisstjórnar Singapúr á vettvangi Norðurslóða, Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Hafsteinn Helgason frá verkfræðistofunni Eflu og Scott Minerd stjórnandi Guggenheim. Að auki taka þar þátt fulltrúar stjórnvalda í Singapúr, áhrifamenn um þróun siglingaleiða, vísindamenn og forystumenn á sviði stefnumótunar og fjárfestinga á Norðurslóðum. Þátttakendur koma m.a.  frá Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi, Japan, Kóreu, Noregi og Póllandi auk Íslands og Singapúr. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar má finna á heimasíðu Hringborðs Norðurslóða, www.arcticcircle.org.
12.11.2015 Forseti hóf í gær þriggja daga opinbera heimsókn til Singapúrs. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tekur einnig þátt í heimsókninni ásamt Stefáni Skjaldarsyni sendiherra Íslands gagnvart Singapúr, embættismönnum frá utanríkisráðuneyti og forsetaskrifstofu, Guðna Jóhannessyni orkumálastjóra og Georg Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar. Fréttatilkynning. Myndir.
Eftir opinbera móttökuathöfn við forsetahöllina Istana áttu forseti Íslands og Tony Tan Keng Yam forseti Singapúrs fund þar sem m.a. var rætt um aukið samstarf á vettvangi Norðurslóða og mikilvægi þess að standa vörð um höfin og auðlindir þeirra. Báðar þjóðir byggðu afkomu sína á hafinu, þó með ólíkum hætti væri, og súrnun sjávar og ofnýting fiskistofna ógnaði heilbrigði og lífríki heimshafanna. Bráðnun jökla og íss á Norðurslóðum hefði einnig margvísleg áhrif á veðurfar, loftslag og hækkun sjávarborðs sem tefldi framtíð Singapúrs og annarra ríkja í tvísýnu.
Þá átti forseti jafnframt fund með Lee Hsien Loong forsætisráðherra Singapúrs. Á fundinum kom fram eindreginn vilji stjórnvalda í Singapúr til að auka samstarf við Íslendinga og efla þátttöku sína í málefnum Norðurslóða. Þá var einnig rætt um árangur Íslendinga í glímunni við afleiðingar fjármálakreppunnar. 
Heimsóknin til Singapúrs hófst í gærmorgun þegar forsetahjón og fyldarlið heimsóttu Þjóðargrasagarð Singapúrs þar sem sérstakt afbrigði orkídeu var sýnt og nefnt eftir forsetahjónum Dendodrium Grímsson-Moussaieff. Hefð er fyrir því að nefna sérstök afbrigði í höfuð á þjóðarleiðtogum sem heimsækja Singapúr. Alls munu vera um 60.000 orkídeur í grasagarðinum, 2000 mismunandi afbrigði og af þeim hafa um 500 verið sérstaklega ræktuð í rannsóknarstofum garðsins en það ferli tekur um fimm ár.
Í kjölfarið heimsóttu forseti, utanríkisráðherra og íslenska sendinefndin höfnina í Singapúr og hlýddu á kynningu hafnarstjórnar og fulltrúa stjórnvalda á gríðarlega umfangsmikilli starfsemi þessarar heimshafnar sem kalla má meginundirstöðu atvinnulífs í Singapúr og gegnir lykilhlutverki í vöruflutningum veraldar. Hafnaryfirvöld lýstu sérstaklega þeim aðferðum sem þróaðar hafa verið til að glíma við olíumengunarslys á sjó. Singapúr hefur m.a. kynnt þá vinnu á fundum Norðurskautsráðsins en landið hefur áheyrnaraðild að ráðinu. Í fundunum með hafnaryfirvöldum tóku einnig þátt Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og fleiri fulltrúar Íslands. 
Í gærkvöldi buðu forsetahjón Singapúr til hátíðarkvöldverðar í forsetahöllinni til heiðurs forseta Íslands og forsetafrú. Ræðu forseta í kvöldverðinum má nálgast á heimasíðu embættisins. 
Í dag, fimmtudaginn 12. nóvember, hófst ráðstefna sem stjórnvöld í Singapúr og Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle bjóða til í sameiningu. Forseti Íslands flutti opnunarræðu ásamt Teo Chee Hean innanríkisráðherra Singapúrs. Á málþinginu er m.a. fjallað um lagalega umgjörð siglinga á Norðurslóðum, fjárfestingar í innviðum samfélaga á Norðurslóðum, alþjóðlega samvinnu á sviði vísinda og rannsókna á Norðurslóðum og hvernig auka megi og efla alþjóðlega samvinnu um málefni Norðurslóða. Meðal ræðumanna eru Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Sam Tan ráðherra mannauðsmála í Singapúr og sérstakur fulltrúi ríkisstjórnar Singapúr á vettvangi Norðurslóða, Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Hafsteinn Helgason frá verkfræðistofunni Eflu og Scott Minerd stjórnandi Guggenheim. Að auki taka þar þátt fulltrúar stjórnvalda í Singapúr, áhrifamenn um þróun siglingaleiða, vísindamenn og forystumenn á sviði stefnumótunar og fjárfestinga á Norðurslóðum. Þátttakendur koma m.a.  frá Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi, Japan, Kóreu, Noregi og Póllandi auk Íslands og Singapúr. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar má finna á heimasíðu Hringborðs Norðurslóða, www.arcticcircle.org.
Heimsókn forsetahjóna til Singapúrs lýkur á morgun, föstudaginn 13. nóvember með fjölþætti dagskrá. Forseti Íslands mun m.a. heimsækja Þjóðarháskóla Singapúrs, National University of Singapore, ræða við forystumenn skólans og loks flytja fyrirlestur og svara fyrirspurnum nemenda. Fyrirlestur forseta ber heitið Clean Energy, Climate and the Arctic.
12.11.2015 Forseti stýrir umræðum á lokafundi málþings Arctic Circle sem haldið er í Singapúr. Á lokafundinum fluttu einnig ræður Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Sam Tan ráðherra í ríkisstjórn Singapúrs og Chan-Woo Kim sendiherra Kóreu í málefnum Norðurslóða. Myndir
13.11.2015 Forseti heimsækir Þróunar- og skipulagsmiðstöð Singapúrs þar sem kynnt var hvernig Singapúr hefur þróast frá því að vera afar vanþróuð og fátæk borg um miðja síðustu öld í háþróaða viðskipta- og samgöngumiðstöð á 21. öldinni, hvernig kappkostað hefur verið að efla græn svæði og tryggja vatnsbúskap. Þróun Singapúrs felur í sér margvíslegar vísbendingar um hvernig hægt sé að þróa stórborgir á nýrri öld á grundvelli umhverfisverndar og sjálfbærni. Myndir
13.11.2015 Forseti heimsækir verndað náttúrusvæði þar sem ýmsir farfuglar úr norðri hafa viðkomu eða vetursetu. Svæðið er alfriðað og setur samspil regnskóga og árósa sterkan svip á lífríkið þar. Myndir
13.11.2015 Forseti heimsækir borpalla- og skipasmíðastöðina Keppel Offshore & Marine sem er helsta fyrirtæki heims á sínu sviði. Að lokinni skoðunarferð um athafnasvæði fyrirtækisins þar sem fjölmargir borpallar og skip voru ýmist til viðgerða eða nýsmíði var rætt um vaxandi áhuga Keppel á umsvifum á Norðurslóðum, bæði varðandi borpalla og skip sem siglt geta gegnum ís. Einnig var fjallað um hugsanlegt samstarf á sviði nýtingar jarðhita til húshitunar og kælingar. Myndir.
13.11.2015 Forseti flytur fyrirlestur í hinum nýja Yale-NUS háskóla sem er samstarfsvettvangur Yale háskóla í Bandaríkjunum og Þjóðarháskóla Singapúrs. Fyrirlesturinn bar heitið Clean Energy, Climate and the Arctic. Að honum loknum svaraði forseti fyrirspurnum nemenda. Myndir.
13.11.2015 Forseti hitti hóp Íslendinga sem búa í Singapúr og fjölskyldur þeirra við lok opinberrar heimsóknar til landsins. Myndir.
14.11.2015 Forseti Íslands sendir forseta Frakklands François Hollande samúðarkveðju frá sér og íslensku þjóðinni vegna hinnar hræðilegu hryðjuverkaárásar í París. Hugur okkar og bænir séu hjá hinum látnu, fjölskyldum þeirra og vinum, sem og hjá þeim sem særðust og aðstandendum þeirra. Árásin hafi verið bæði atlaga að frönsku þjóðinni og siðmenningu okkar tíma, frelsi, lýðræði og mannréttindum. Hún kalli á enn öflugri samstöðu þjóða heims gegn hinum skelfilegu öflum sem hiki ekki við að fórna lífi almennings, karla og kvenna sem ekkert hafa til saka unnið.
14.11.2015 Forseti ræðir við fréttastofu ríkisútvarpsins um hryðjuverkaárásina í París og viðbrögð við henni. Viðtal
16.11.2015 Forseti tekur í London þátt í viðtölum við unga háskólastúdenta frá ýmsum löndum Evrópu sem yrðu meðal nemenda við nýja menntastofnun sem ætlað verður að efla þekkingu og skilning nýrra kynslóða á Vesturlöndum og víðar í veröldinni á Kína, samfélagi, menningu, atvinnulífi og stjórnarháttum. Menntastofnunin, sem ber heitið Schwarzman Scholars, er byggð á aldarlangri hefð Rhodes Scholars prógrammsins og starfar í tengslum við einn helsta háskóla Kína, Tsinghua háskólann í Beijing. Forsetar Kína og Bandaríkjanna, Xi Jinping og Barrack Obama, lýstu stuðningi við þessa nýju menntastofnun þegar tilkynnt var um stofnun hennar og hún nýtur einnig stuðnings forystumanna víða um heim. Um 3000 umsóknir bárust og verða 100 valdir til að skipa fyrsta árganginn og munu þeir koma frá löndum í Evrópu, Afríku og Asíu sem og frá Bandaríkjunum. Í árganginum verða einnig kínverskir námsmenn. 
17.11.2015 Forseti ræðir við morgunþátt Bylgjunnar um viðbrögð við hryðjuverkaárásinni í París, nauðsyn á víðtækri alþjóðlegri samstöðu og mikilvægi þess að rætt sé á yfirvegaðan hátt um þau þáttaskil sem orðið hafa sem og um eðli vígasveita ISIS og atlögu þeirra að þeirri siðmenningu sem byggir á lýðræði og mannréttindum. Viðtal
19.11.2015 Forseti er sérstakur gestur Alberts II á þjóðhátíðardegi Mónakós, situr hádegisverð í höllinni og sækir hátíðarsýningu á óperunni Tosca. Albert II hefur um áraraðir verið samstarfsmaður forseta í málefnum Norðurslóða og flutti m.a. ræðu á setningarathöfn Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle í Reykjavík í október síðastliðnum.
20.11.2015 Forseti sendir kveðju á afmælishátíð Hafrannsóknastofnunar sem haldin er í tilefni af 50 ára afmæli hennar. Kveðja forseta.
21.11.2015 Forseti tekur þátt í söfnun Samhjálpar í þágu þeirra sem glíma við alvarlegan fíkniefna- og áfengisvanda. Viðtalið var í beinni útsendingu á Stöð 2, en dagskrá kvöldsins var helguð söfnuninni. Forseti er verndari landssöfnunarinnar.
22.11.2015 Forseti er í viðtali í sunnudagsþætti Hallgríms Thorsteinssonar á Rás 2 í Ríkisútvarpinu um nýlega ferð til Víetnams, Singapúr og Kóreu, þátttöku Asíuríkja í samstarfi á Norðurslóðum, baráttu gegn loftslagsbreytingum sem og viðbrögð í kjölfar hryðjuverkanna í París, alþjóðlega samstöðu og varðveislu hins opna og umburðarlynda samfélags um leið og horfst sé af hreinskilni og einurð í augu við þá ógn sem hryðjuverkin fela í sér. Viðtalið
23.11.2015 Forseti á fund með forstjóra Landsvirkjunar Herði Arnarsyni þar sem rætt var um þróun orkumála, vaxandi eftirspurn, verkefni fyrirtækisins, vöxt gagnavera, samskipti við álfyrirtæki og önnur stóriðjufyrirtæki sem og athugun á kostum sæstrengs milli Íslands og Bretlands.
24.11.2015 Forseti tekur á móti hópi eldri borgara frá Félagsmiðstöðinni Vesturgötu 7 og ræðir við þá um sögu Bessastaða, muni og minjar sem prýða staðinn.
26.11.2015 Forseti afhendir verðlaunin Markaðsmaður ársins sem ÍMARK samtökin standa að. Verðlaunin hlaut Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar. Verðlaunin eru nú veitt annað hvert ár.
27.11.2015 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle um árangur málþingsins Arctic Circle Forum, sem haldið var í Singapúr, og undirbúning að málþingum sem haldin verða í Québec og Grænlandi á næsta ári. Einnig var fjallað um frekari miðlun á umræðum sem voru á þingi Arctic Circle í október sem og ýmsar áherslur þingsins sem haldið verður í Hörpu í október 2016.
28.11.2015 Forseti afhendir á Bessastöðum verðlaun Forvarnardagsins nemendum úr grunnskólum og framhaldsskólum sem þátt tóku í ratleik dagsins. Forvarnardagurinn er samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, UMFÍ, Skátahreyfingarinnar, sveitarfélaganna og grunnskóla og framhaldsskóla. Forvarnardagurinn hefur frá upphafi verið studdur af Actavis. Vefsíða ForvarnardagsinsMynd(ljósmyndari Lárus Karl Ingason).
30.11.2015 Forseti afhendir viðurkenningar til nemenda sem tóku þátt í samkeppni sem tengd var verkefninu Aðgengi að lífinu en það miðast við að vekja athygli á úrbótum fyrir fólk í hjólastól, hvernig auðvelda megi því að komast leiðar sinnar, inn í byggingar og innan þeirra sem og yfir götur og um gangstéttir. Viðurkenningarnar hlutu nemendur úr Njarðvíkurskóa og Heiðarskóla í Reykjanesbæ, Garðaskóla í Garðabæ, Ölduselsskóla í Reykjavík og Hraunvallaskóla í Hafnarfirði.
30.11.2015 Forseti á fund með Eggert Guðmundssyni um þróun í íslenskum sjávarútvegi, þurrkun matvæla og kynningu og markaðsstarf sem miðar að því að efla þekkingu á þeim árangri sem náðst hefur í íslenskum sjávarútvegi sem og tækninýjungum og framleiðsluaðferðum.
30.11.2015 Forseti á fund með Geir Baldurssyni um sambúð Bandaríkjanna og Rússlands sem og ýmis önnur alþjóðleg vandamál en Geir er áhugamaður um þátttöku Íslands í lausn slíkra vandamála.
30.11.2015 Forseti á fund með ráðgjafahópi umboðsmanns barna, sem skipaður er unglingum á táningsaldri, þar sem þau gerðu grein fyrir hugmyndum sínum varðandi mannréttindi, lýðræði og jafnfrétti sem og baráttu gegn loftslagsbreytingum.

Desember

01.12.2015 Forseti flytur ávarp á fullveldishátíð stúdenta við Háskóla Íslands sem haldin er á Háskólatorgi. Í ávarpinu áréttaði forseti að árangur sem Íslendingar hafa náð á undanförnum áratugum væri traust undirstaða þegar ný kynslóð sækti fram á komandi árum og áratugum.
01.12.2015 Forseti flytur ávarp á hátíð brautskráðra doktora frá Háskóla Íslands sem haldin er í hátíðarsal skólans. Í ávarpinu fagnaði forseti því fjölþætta vísindastarfi og sterku alþjóðlegu tengslum sem doktorsverkefnin endurspegla. Hátíðin sýndi á hverju ári öflugt framlag skólans til íslenskrar og alþjóðlegrar þekkingarsköpunar.
01.12.2015 Forseti tekur á móti forystumönnum stúdenta frá háskólum sem og stjórnendum háskólanna í tilefni af fullveldisdeginum.
01.12.2015 Forseti býður Alþingi til kvöldverðar á Bessastöðum í tilefni af fullveldisdeginum. Tuttugu ár eru síðan sá siður var festur í sessi að árlegt boð forseta til Alþingis væri jafnan á fullveldisdaginn.
03.12.2015 Forseti á fund með Ragnari Axelssyni, RAX, ljósmyndara um gerð myndabókar sem helguð yrði mannlífi og náttúru á Norðurslóðum en hann hefur áður gefið út einstakar bækur um þessi efni.
03.12.2015 Forseti afhendir Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands á hátíðarsamkomu í Hörpu. Í ávarpi áréttaði forseti mikilvægt framlag verðlaunanna til að vekja athygli á því sem verið er að gera í þágu öryrkja á fjölmörgum sviðum þjóðfélagsins. Forseti er verndari verðlaunanna.
04.12.2015 Forseti tekur á móti krökkum úr Álftanesskóla og leikskólunum Krakkakoti og Holtakoti sem taka þátt í því að kveikja á jólatrjám við Bessastaðastofu.
05.12.2015 Forseti á fund í París með Nick Dunlop framkvæmdastjóra alþjóðlegra samtaka þingmanna sem helguð eru eflingu hreinnar orku og baráttu gegn loftslagsbreytingum, Climate Parliament, um þróun orkukerfis milli landa og heimsálfa sem miðlaði hreinni orku um alla veröldina. Tillögurnar byggjast á því að nýta á hverjum tíma þá hluta veraldar þar sem sól skín hverju sinni og vindar blása og tengja þá við önnur lönd, jafnhliða því sem kerfið nýtti vatnsafl og jarðhita. Fundurinn var haldinn í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, COP21.
06.12.2015 Forseti situr hádegisverð í boði Miguel Arias Cañete, framkvæmdastjóra orku og  loftslagsmálefna hjá Evrópusambandinu, Adnan Amin framkvæmdastjóra IRENA og annarra forystumanna í orku- og umhverfismálum. Hádegisverðurinn er í tengslum við ráðstefnuna Re-Energising the Future, sem er haldin er í tengslum við COP21 loftslagsráðstefnuna í Paris. Á þessari ráðstefnu er lögð áhersla á afgerandi framlag endurnýjanlegra orkugjafa til baráttunnar gegn óafturkræfum loftslagsbreytingum. Myndir.
06.12.2015 Forseti flytur ávarp á ráðstefnu World Climate Summit sem haldin er í tengslum við COP21 loftslagsráðstefnuna í París. Á ráðstefnunni er áhersla lögð á að kynna margvíslegar lausnir, tækninýjungar og raunhæf viðbrögð við loftslagsbreytingum. Þátttakendur eru m.a. ráðherrar, borgarstjórar, vísindamenn og fjölmargir fulltrúar fyrirtækja. Í ræðu sinni fjallaði forseti um þá lærdóma sem draga mætti á heimsvísu af þróun íslensks orkubúskapar á undanförnum áratugum, frá olíu og kolum til þess að nú er húshitun og framleiðsla rafmagns að öllu leyti byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Myndir.
06.12.2015 Forseti tekur við fyrsta eintaki viðamikillar skýrslu um áætlun stjórnvalda í Dubai um sköpun græns hagkerfis á næstu áratugum. Saeed Al Tayer, yfirmaður orkustofnunar Dubai, afhenti forseta eintakið ásamt Sultan Ahmed Al Jaber, ráðherra í ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Afhendingin fór fram að loknu ávarpi forseta á World Climate Summit í París. Ákveðið hefur verið að halda næsta haust í Dubai Heimsþing um hagkerfi grænnar orku. Mynd.
06.12.2015 Forseti ræðir við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC um loftslagsráðstefnuna í París og hvers vegna megi vænta meiri árangurs af henni en fyrri ráðstefnum vegna vilja ríkja heims sem og forystumanna í viðskiptum, vísindum og umhverfismálum að leggja nú grundvöll að umtalsverðum árangri. Þá var einnig fjallað um baráttu Íslendinga við afleiðingar fjármálakreppunnar og hve mikilvæg uppbygging hreinnar orku á fyrri áratugum hefði verið í viðspyrnu þjóðarinnar. Mynd.
06.12.2015 Forseti er viðstaddur verðlaunaathöfn Sustainia umhverfissamtakanna sem haldin er í tengslum við World Climate Summit í París. Frumkvöðlar á ýmsum sviðum sem og borgir og samtök voru tilnefnd til verðlaunanna og Ted Turner, stofnandi CNN sjónvarpsstöðvarinnar, var heiðraður fyrir fjölþætt framlag hans til umhverfismála og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum á undanförnum áratugum. Mynd.
07.12.2015 Forseti flytur ávarp á sérstökum orkudegi sem haldinn er í tengslum við COP21 loftslagsráðstefnuna í París þar sem fagnað var stofnun alþjóðlegs bandalags um nýtingu jarðhita, Global Geothermal Alliance. Ísland hefur ásamt Frakklandi og IRENA haft forystu um stofnun Alþjóða jarðhitabandalagsins en nú þegar eru rúmlega 40 aðilar að bandalaginu, ríki, alþjóðasamtök, alþjóðlegar fjármálastofnanir og bankar. Aðrir ræðumenn voru m.a. Segoléne Royal umhverfis- og orkuráðherra Frakklands, Adnan Z. Amin framkvæmdastjóri IRENA, Börge Brende utanríkisráðherra Noregs og Rachel Kyte framkvæmdastjóri SE4All átaksins sem Alþjóðabankinn og Sameinuðu þjóðirnar standa saman að. Í ræðu sinni rakti forseti hvernig reynsla Íslendinga af því að nýta jarðhita gæti gagnast öðrum þjóðum til að þróa orkubúskap sinn til sjálfbærni og þannig orðið veigamikið framlag í baráttunni gegn óafturkræfum loftslagsbreytingum. Um leið fagnaði forseti sérstaklega stofnun Jarðhitabandalagsins og þakkaði umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands fyrir framgöngu hennar og stuðning við stofnun bandalagsins. Myndir.
07.12.2015 Forseti flytur ræðu við upphaf málstofu um endurnýjanlega orku sem haldin er á Sustainable Innovation Forum sem m.a. er skipulagt af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og haldin er í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 í París. Í ræðu sinni lýsti forseti orkuþróun Íslands frá olíu og kolum til hreinnar orku og hvernig Íslendingar hafa miðlað þekkingu sinni og tækni með því að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum og taka þátt í verkefnum m.a. í Asíu, Afríku og Evrópu. Að lokinni ræðu forseta fóru fram pallborðsumræður. Meðal þátttakenda voru Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. MyndirUpptaka af ávarpi forseta.
07.12.2015 Forseti ræðir við ýmsar sjónvarpsstöðvar og netmiðla í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 sem haldin er í París.
08.12.2015 Forseti flytur ræðu á málþingi sem þingmannasamtökin Climate Parliament efna til í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 í París. Málþingið sækja þingmenn frá Evrópu, Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum. Í ræðunni lýsti forseti árangri Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og fjölþættum atvinnugreinum sem byggðar væru á þeirri nýtingu. Einnig lýsti forseti framlagi Íslendinga til jarðhitaþróunar víða um heim, þjálfun sérfræðinga í Jarðhitaskólanum á Íslandi og orkuverkefnum í Asíu og Afríku. Að ræðunni lokinni svaraði forseti fjölmörgum fyrirspurnum. Mynd.
08.12.2015 Forseti flytur ræðu á málþingi um gagnaver og sjálfbærni sem Bellona umhverfisstofnunin efnir til á loftslagsráðstefnunni COP21 í París en aðalstöðvar stofnunarinnar eru í Noregi. Í ræðunni lýsti forseti uppbyggingu gagnavera á Íslandi, hinni sterku stöðu sem nýting hreinnar orku skapar þessari grein sem og þeim kostum sem fylgja varðveislu upplýsinga í frjálsu lýðræðissamfélagi. Hinn gríðarlegi árlegi vöxtur gagna í veröldinni knýr á um að gagnaver verði í vaxandi mæli knúin með hreinni orku.
08.12.2015 Forseti sækir móttöku sem Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi, býður til í tilefni af þátttöku Íslendinga í loftslagsráðstefnunni COP21 í París. Móttökuna sækja auk forseta ráðherrar, þingmenn, embættismenn og sérfræðingar sem og fulltrúar atvinnulífs og umhverfissamtaka.
08.12.2015 Forseti situr kvöldverð í boði sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi, Jane D. Harley, og Cathy Calvin framkvæmdastjóra Stofnunar Sameinuðu þjóðanna, UN Foundation. Kvöldverðurinn er haldinn í embættisbústað sendiherrans í París og sækja hann m.a. margir háttsettir bandarískir þátttakendur í loftslagsráðstefnunni COP21 í París sem og stjórnendur alþjóðastofnana.
11.12.2015 Forseti tekur við Walter J. Hickel orðunni sem samtök fylkja og borga á Norðurslóðum, Northern Forum, sæma hann fyrir framlag til þróunar Northern Forum og Norðurslóða og er, eins og segir í viðurkenningarskjali, tákn um djúpt þakklæti fólks á Norðurslóðum. Orðan er kennd við Walter J. Hickel, fyrrum ríkisstjóra Alaska og ráðherra í ríkisstjórn Bandaríkjanna, sem var á sínum tíma frumkvöðull í samvinnu á Norðurslóðum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, afhenti forseta orðuna á Bessastöðum en hann tók við henni á ársfundi Northern Forum sem haldinn var nýlega í Jakútsk í Rússlandi. Orðan var nú veitt í fyrsta sinn. Mynd.
21.12.2015 Forseti á fund með stjórnendum Stofnunar múslíma á Íslandi og í Svíþjóð, Karim Askari og Hussein Aldaoudi, um starfsemi stofnunrinnar á Íslandi, aðlögun að íslensku samfélagi, menningu og lýðræðishefðum, umræður í íslenskum fjölmiðlum sem og um kaupin á Ýmis húsinu og fjárstyrk frá Sádi Arabíu og samskipti þeirra við sendiráð þess lands.
21.12.2015 Forseti á fund með forstjóra Landspítalans Páli Matthíassyni um stöðu þjóðarsjúkrahússins, starfsemi og fjármögnun, hið mikla framlag starfsfólksins á erfiðum tímum og nauðsyn þess að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum Íslendinga sem studd væri breiðri og varanlegri samstöðu.
22.12.2015 Forseti heimsækir Fjölskylduhjálpina í Reykjanesbæ í aðdraganda jólanna og tekur þátt í úthlutun matvæla til þeirra sem þurfa á slíkri aðstoð að halda.
29.12.2016 Forseti er viðstaddur hátíðarfund sem haldinn er í Þjóðminjasafninu þar sem veitt eru heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright. Verðlaunin eru veitt árlega íslenskum vísindamanni sem skarað hefur framúr í sinni fræðigrein.
30.12.2015 Forseti er viðstaddur hátíðarathöfn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og íþróttafréttamana þar sem tilkynnt var um val á íþróttamanni ársins og íþróttamönnum ársins í einstökum keppnisgreinum. Forseti fluttir ávarp í upphafi beinnar útsendingar í sjónvarpi frá athöfninni þar sem hann vakti sérstaklega athygli á þeim merkilega áfanga að Íslendingar væru nú fyrstir fámennra þjóða til að eiga keppnislið á alþjóðlegum stórmótum í þremur hópíþróttum: handbolta, knattspyrnu og körfubolta.
31.12.2015 Forseti stýrir fundi ríkisráðs á Bessastöðum þar sem staðfest voru lög og ýmsar stjórnarathafnir.