Veftré Print page English

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta


Hér birtist skrá yfir ýmsa atburði í dagskrá forseta en auk þeirra sem hér eru nefndir er fjöldi annarra þátta sem ekki eru tilgreindir,  t.d. fundir með ráðherrum og embættismönnum, fulltrúum fyrirtækja og samtaka og fjölmörgum einstaklingum með margvísleg erindi og erlendum gestum sem til Íslands koma. Þá sækir forsetinn jafnframt fjölda menningarviðburða sem ekki eru raktir hér, s.s. leiksýningar, myndlistasýningar, tónleika og aðra mannfagnaði.

 

Árið 2011

 

Janúar

01.01.2011 Forseti sæmir ellefu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fréttatilkynning. Mynd.
01.01.2011 Nýársmóttaka forseta á Bessastöðum fyrir ráðherra, hæstaréttardómara, alþingismenn, sendiherra, ræðismenn, forystumenn ríkisstofnana og embættismenn, forystumenn félagasamtaka, stéttarsamtaka og atvinnulífs og aðra gesti.
01.01.2011 Forseti flytur nýársávarp sem er útvarpað og sjónvarpað frá Bessastöðum. Ávarp forseta. Flutningur. Ensk þýðing.
02.01.2011 Jólatrésfagnaður fyrir börn erlendra starfsmanna sendiráða á Íslandi, starfsfólks, fyrrum starfsfólks og samstarfsaðila forsetaembættisins og fjölskylduvini.
03.01.2011 Jólatrésfagnaðir í dag og á morgun á Bessastöðum fyrir börn úr ýmsum byggðarlögum í samvinnu við hjálpar- og samfélagssamtök.
05.01.2011 Forseti er viðstaddur útnefningu íþróttamanns ársins sem og íþróttakarla og íþróttakvenna í hinum ýmsu sérgreinum. Forseti flytur stutt ávarp í upphafi sjónvarpsútsendingar þar sem tilkynnt verður um valið á íþróttamanni ársins. Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands standa að athöfninni. Upptaka RÚV frá athöfninni.
05.01.2011 Forseti tekur við minnispeningi og heiðursviðurkenningu sem forseti Rússlands Dmitry Medvedev og sérstök minningarnefnd um síðari heimsstyrjöldina hefur ákveðið að veita forsetanum vegna stuðnings hans við viðburði og athafnir sem tengjast varðveislu sögu föðurlandsstríðsins mikla en svo nefna Rússar síðari heimsstyrjöldina. Fréttatilkynning. Mynd.
05.01.2011 Forseti tekur við ritum eftir Bretana C.H. Douglas og Anthony J. Miller en þau fjalla um nýjar áherslur í bankakerfi og peningamálum. Forseti átti á síðasta ári fund með þeim þegar þeir heimsóttu Ísland til að kynna hugmyndir sínar. Jón Lárusson afhenti ritin fyrir hönd höfundanna.
08.01.2011 Forseti sækir hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumanna sem haldinn er í Súlnasal Hótel Sögu. Þema kvöldsins var "Íslenskir réttir" og höfðu ýmsir af fremstu matreiðslumönnum landsins búið til rétti á grundvelli íslenskrar matarhefðar. Í lok hátíðarkvöldverðarins flutti forseti ávarp og þakkaði matreiðslumönnum fyrir framlag þeirra til nýrra þjóðfélagshátta, fjölþættari matarmenningar og uppbyggingar ferðaþjónustu.
09.01.2011 Forseti er viðstaddur nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra en þar kepptu börn og unglingar í flugsundi, skriðsundi og bringusundi.
10.01.2011 Forseti á fund með dr. Guðna A. Jóhannessyni orkumálastjóra um framlag Íslands til endurnýjanlegrar orku á alþjóðavísu.
11.01.2011 Forseti á fund með stjórnarmönnum í Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem þeir gerðu grein fyrir helstu áherslum og baráttumálum samtakanna, einkum varðandi lánastöðu heimila, greiðsluerfiðleika, breytingar á húsnæðislánakerfi, neytendavernd og önnur hagsmunamál.
11.01.2011 Forseti á fund með sendiherra Filippseyja á Íslandi, Elizabeth P. Buensuceso, sem senn lætur af störfum. Rætt var um aukna samvinnu landanna á sviði jarðhita, þróun lýðræðis og efnahagslífs í Filippseyjum og framlag filippseyska samfélagsins á Íslandi til íslensks þjóðfélags og menningar.
11.01.2011 Forseti er í viðtali vegna afmælismyndar sem gerð er í tilefni af 50 ára afmæli Öryrkjabandalags Íslands.
12.01.2011 Forseti á fund með Guðjóni Sigurðssyni formanni MND félagsins um baráttuna við sjúkdóminn, alþjóðlegt samstarf og rannsóknir og áhuga félagsins á að ná tengslum við fjölmenn ríki í von um að hægt sé að nýta sér þá reynslu sem skapast af því að fleiri séu þar að glíma við sjúkdóminn.
12.01.2011 Forseti tekur við fána með merki alþjóðlegs árs skóga og lýsir yfir að ár skóga er gengið í garð á Íslandi. Forystusveit skógræktarmanna afhendir forseta fánann og táknræna gripi úr íslenskum viði. Að athöfn lokinni fóru fram viðræður um árangur í skógrækt og ýmis verkefni sem blasa við á nýju ári. Alþjóðlegt ár skóga 2011 er haldið vegna hvatningar Sameinuðu þjóðanna.
13.01.2011 Forseti afhendir styrki úr Vísinda- og rannsóknasjóði Suðurlands. Þá hlutu doktorsnemarnir Sæmundur Sveinsson og Sigurður Unnar Sigurðsson. Einnig afhenti forseti Menntaverðlaun Suðurlands en Fjölbrautaskóli Suðurlands hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir nýja stefnu í forvarnar- og lýðheilsumálum. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Að henni stóðu Fræðslunetið Símennt á Suðurlandi og Háskólafélag Suðurlands.
13.01.2011 Forseti ræðir við Eyk Henning, blaðamann frá Wall Street Journal, um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi, reynslu undanfarinna ára, samskipti Íslands við ríki Evrópu og í öðrum heimsálfum, framtíðarhorfur, nýtingu auðlinda og eðli íslenskrar lýðræðisskipunar.
14.01.2011 Forseti tekur á móti hópi sjálfboðaliða sem starfað hafa á Íslandi á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta. Hópurinn kemur frá löndum í Afríku, Suður-Ameríku og Evrópu, auk íslenskra þátttakenda.
14.01.2011 Forseti á fund með Sólveigu Pétursdóttur formanni Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar og Birgi G. Björnssyni starfsmanni nefndarinnar um dagskrá á árinu 2011 í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar.
14.01.2011 Forseti er viðstaddur og flytur ávarp við opnun nýrrar verksmiðju Actavis í Hafnarfirði. Með henni eykst verulega framleiðslugeta fyrirtækisins á Íslandi og um 100 nýjum störfum verður bætt við. Verksmiðjan byggir á því rannsóknar- og þróunarstarfi sem unnið er á Íslandi og er veigamikill hlekkur í alþjóðlegri starfsemi fyrirtækisins. Í ávarpi sínu fagnaði forseti þessari opnun og benti á að hún fæli í sér mikilvæg skilaboð um bjartsýni og betri tíma, og um þau tækifæri sem menntun og rannsóknir sköpuðu í atvinnulífi Íslendinga. Mynd frá opnun verksmiðjunnar.
14.01.2011 Forseti flytur setningarræðu á málþingi um jarðhitanýtingu í Afríku en meðal þátttakenda eru fulltrúar frá Þróunarbanka Afríku, Þróunarsjóði Afríku og frá fyrirtækjum og opinberum stofnunum í Austur-Afríku. Ræða forseta.
15.01.2011 Forseti er viðstaddur opnun sýningarinnar "Óskabarn. Æskan og Jón Sigurðsson" sem haldin er í Þjóðmenningarhúsinu í tilefni af því að á þessu ári eru 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Sýningin er einkum ætluð börnum og unglingum.
15.01.2011 Forseti heimsækir alþjóðlegt íþróttamót sem fram fer í Reykjavík og skipulagt er af Íþróttabandalagi Reykjavíkur; fylgdist með keppni í frjálsum íþróttum, dansi og júdó.
15.01.2011 Forseti heimsækir söfnunarmót sem Skvassfélag Reykjavíkur og íslenska landsliðið í skvassi efndu til til að safna fjármunum til styrktar Umhyggju. Skvassað var í rúman sólarhring með þátttöku fjölmargra. Forseti er verndari söfnunarinnar.
18.01.2011 Forseti er í viðtali við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina CNN um árangurinn af Heimsþingi um hreina orku sem nú er haldið í Abu Dhabi, um framfarir í tækni og nýtingaraðferðum sem gætu fyrr leitt til viðamikilla breytinga en langdregnar alþjóðlegar samningaviðræður. Einnig var rætt um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og styrkleika útflutningsgreinanna.
18.01.2011 Forseti flutti í gær, mánudaginn 17. janúar, opnunarræðu á Heimsþingi hreinnar orku í Abu Dhabi. Þá átti hann fund með Ban Ki-moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en auk þeirra tveggja fluttu m.a. ræður við setningu þingsins Asif Ali Zardari forseti Pakistans, José Sócrates forsætisráðherra Portúgals, Sheikh Hasina Wazed forsætisráðherra Bangladess og Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar. Myndir. Fréttatilkynning. Setningarræða forseta.
20.01.2011 Forseti hefur á Heimsþingi um hreina orku sem nú er haldið í Abu Dhabi átt viðræður við fjölmarga aðila, ráðamenn erlendra ríkja og fulltrúa stofnana og fyrirtækja sem lýst hafa miklum áhuga á samvinnu við íslenska sérfræðinga, verkfræðinga, vísindamenn og tæknifólk um nýtingu hreinnar orku. Fréttatilkynning. Myndir.
23.01.2011 Forseti flytur ræðu í hátíðarkvöldverði á alþjóðaþingi um nýja strauma í tækni, menningu og þjóðfélagsháttum sem haldið er í München. Alþjóðaþingið sækir fjöldi forystumanna í upplýsingatækni, fjölmiðlun, hönnun, listum, menningu, viðskiptum og fleiri greinum sem eru að móta samfélög okkar á nýjan hátt, m.a. aðalstjórnendur frá Facebook, Google og fleiri fyrirtækjum sem áhrif hafa á heimsvísu. Þá eru þar einnig fulltrúar frá fjölmörgum fjölmiðlafyrirtækjum sem og listamenn og rithöfundar á borð við Paulo Coelho. Ræða forseta.
25.01.2011 Forseti sendir forseta Rússlands samúðarkveðjur vegna hryðjuverka sem framin voru á Domodedovo flugvellinum í Moskvu. Fréttatilkynning.
28.01.2011 Forseti var í dag í viðtali við Richard Quest í þættinum Quest Means Business hjá CNN. Þátturinn verður sendur út á mánudagskvöldið. Mynd. Viðtalið við forseta á vef CNN.
28.01.2011 Forseti sækir í dag og á morgun Alþjóða efnahagsþingið World Economic Forum sem haldið er í Davos í Sviss. Forseti tekur þátt í fjölda málþinga og samræðufunda þar sem verður m.a. fjallað um þróun efnahagsmála, eflingu viðbragða og viðvaranir vegna fjármálakreppu og náttúruhamfara, arðbæran sjávarútveg á grundvelli sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins og alþjóðlegt samstarf á þeim vettvangi. MyndirFréttatilkynningViðtal við forseta á CNBC.
29.01.2011 Forseti er meðal málshefjenda í málstofu á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos þar sem rætt er um hvernig efla þurfi viðvaranir vegna áhættu í fjármálakerfi og efnahagslífi þjóða, sem og hvernig alþjóðasamfélagið getur brugðist við náttúruhamförum: eldgosum, jarðskjálftum, flóðum og annarri náttúruvá. Hvernig Íslendingar hafa skipulagt almannavarnir, eflt sjálfboðastarf og nýtt upplýsingatækni gæti orðið öðrum þjóðum lærdómsríkt.
29.01.2011 Forseti tekur þátt í málstofu á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos þar sem rætt er um brýnustu viðfangsefni á sviði umhverfisverndar með sérstöku tilliti til hinnar alþjóðlegu umhverfisráðstefnu sem haldin verður í Ríó á næsta ári. Titill hennar Ríó+20 vísar til þeirra tímamóta sem urðu árið 1992 þegar lagður var grundvöllur að víðtækum samningum á sviði umhverfismála.
29.01.2011 Forseti er meðal málshefjenda í tveimur málstofum um auðlindir hafsins á Alþjóða efnahagsþinginu, World Economic Forum, sem haldið er í Davos. Fjallað var um nauðsyn aukinna rannsókna á lífríki hafsins, nýtingu upplýsingatækni til að festa í sessi sjálfbærar fiskveiðar og nauðsyn þess að allar þjóðir axli ábyrgð á verndun hafsins. Fjölmargir þátttakendur vísuðu til reynslu Íslendinga og hvernig upplýsingatækni hefur orðið grundvöllur að skipulagningu veiða sem byggðar eru á vísindalegri ráðgjöf. Mynd.
31.01.2011 Forseti tekur á móti hópi atvinnulausra sem eru á vegum Miðstöðvar símenntunar í Hafnarfirði og ræðir við þá um sögu Bessastaða.

Febrúar

02.02.2011 Forseti afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum, flokki fagurbókmennta og flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Í flokki fagurbókmennta hlaut verðlaunin ljóðabókin Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju. Í flokki fræðirita og bóka almenns efnis hlaut verðlaunin Sveppabókin – Íslenskir sveppir og sveppafræði eftir Helga Hallgrímsson.
02.02.2011 Forseti á fund með matreiðslumönnunum Gissuri Guðmundssyni og Helga Einarssyni um þann mikla árangur sem forysta íslenskra matreiðslumanna í Alþjóðasamtökum matreiðslumanna hefur skilað en Gissur Guðmundsson var kosinn forseti samtakanna fyrir nokkrum árum og íslenskir matreiðslumenn skipa stjórnina að öðru leyti. Um tíu milljónir matreiðslumanna víða að úr veröldinni eru félagsmenn.
02.02.2011 Forseti á fund með Steinþóri Jónssyni, formanni Félags íslenskra bifreiðaeigenda, um heimsókn Jean Todt, forseta Alþjóða bílasamtakanna FIA. Heimsóknin er liður í að efla alþjóðlegt átak gegn umferðarslysum en Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur verið í fararbroddi slíkrar baráttu; markmið hennar er að efla öryggi á þann hátt að engin slys verði í umferðinni.
03.02.2011 Forseti sendir kveðju á málþing sem haldið er í sendiráði Íslands í London um sjálfbæran sjávarútveg. Kveðja forseta.
04.02.2011 Forseti ræðir við hóp nemenda í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri um íslenska stjórnskipun, þróun hennar, forsetaembættið, breytingar í alþjóðamálum og áhrif upplýsingatækni á samfélög og veröldina.
05.02.2011 Forseti afhendir verðlaun og flytur ávarp á verðlaunahátíð Nýsveina sem haldin er í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Það er Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík sem heldur hátíðina og þar verða heiðraðir nýsveinar ýmissa iðngreina sem náð hafa einstæðum árangri í námi og störfum. Jafnframt verður tilkynnt um val á heiðursiðnaðarmanni ársins 2011 og afhent nýsköpunarverðlaun IMFR.
08.02.2011 Forseti á fund með forsvarsmönnum Garðarshólms verkefnisins á Húsavík. Rætt var um samstarf við innlendar og erlendar fræðastofnanir, möguleika í ferðaþjónustu sem byggir á þekkingu og rannsóknum, uppbyggingu fræðaseturs og nýtingu náttúruskilyrða í Þingeyjarsýslu.
09.02.2011 Forseti á fund í New York með William J. Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Rætt var um glímu Íslendinga við afleiðingar fjármálakreppunnar, þann árangur sem náðst hefur, mikilvægi hreinnar orku og rannsóknir íslenskra vísindamanna á bráðnun jökla og breytingum á náttúrunni. Þá var fjallað um þróun mála á norðurslóðum, opnun nýrra siglingaleiða milli Asíu, Evrópu og Ameríku en lega Íslands skapar landinu lykilsess í ljósi þeirra breytinga sem þá yrðu á heimsviðskiptum. Kínverjar, Indverjar og Rússar hafa því vaxandi áhuga á samstarfi við Ísland og mikilvægt sé að Ísland, Bandaríkin og aðrar þjóðir á norðurslóðum bregðist við þeim verkefnum sem bráðnun íss kallar á. Þá var og fjallað um mótmælin í Mið-Austurlöndum og hvernig ný upplýsingatækni eykur áhrifamátt almennings. Myndir.
09.02.2011 Forseti flytur setningarræðu á þingi Jarðhitasamtaka Bandaríkjanna sem haldið er í New York. Þingið sækir fjöldi sérfræðinga og forystumanna í jarðhitamálum, bæði frá Bandaríkjunum og öðrum löndum. Fréttatilkynning. Ræða forseta. Myndir.
10.02.2011 Forseti á fund með John Mroz, stjórnanda Austur-vestur stofnunarinnar, EastWest Institute, um verkefni stofnunarinnar á sviði alþjóðamála og bættrar sambúðar og um samvinnuverkefni sem tengjast Kína, Indlandi og Rússlandi. Einnig var rætt um mikilvægi þess að styrkja öryggi á sviði netvæðingar og tölvumála til að draga úr hættu á upplausn og átökum sem skortur á slíku öryggi gæti leitt af sér á komandi árum.
11.02.2011 Forseti opnar yfirlitssýningu á verkum Gunnars Magnússonar húsgagnahönnuðar sem haldin er í Hönnunarsafni Íslands. Safnið hefur unnið að viðamiklum rannsóknum á ferli Gunnars og verður síðar á árinu gefin út bók um ævistarf hans. Ávarp forseta
11.02.2011 Forseti tekur á móti sveit kvenna frá samtökunum Ladies Circle en haldinn er hátíðlegur alþjóðadagur félagsskaparins. Markmið samtakanna er að fræða meðlimi um umhverfi sitt og menningu og eru ellefu klúbbar starfandi á Íslandi.
11.02.2011 Forseti ýtir úr vör söfnuninni Börn hjálpa börnum en hún er á vegum ABC barnahjálpar. Hópur nemenda úr Kársnesskóla í Kópavogi kom með söfnunarbauka til Bessastaða og ræddu við forseta um verkefni söfnunarinnar en afrakstur hennar verður notaður til að kaupa borð og bekki fyrir börn í skólum í Pakistan og koma þaki yfir skólastarf götubarna í Nairóbí í Kenía.  Börn í grunnskólum um allt land taka þátt í söfnuninni. ABC barnahjálp
13.02.2011 Eyrarrósin afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum kl. 14:00. — Eyrarrósin er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni sem Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands hafa sett á stofn. Verndari Eyrarrósarinnar er Dorrit Moussaieff forsetafrú og mun hún afhenda viðurkenninguna og verðlaunagripinn. Þrjú verkefni hafa verið tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2011: 700IS Hreindýraland, Egilsstöðum, Sumartónleikar í Skálholtskirkju og Þórbergssetur, Hala í Suðursveit. Að þessu sinni var það verkefnið Sumartónleikar í Skálholtskirkju sem verðlaunin hreppti.
13.02.2011 Forseti ræðir við Egil Helgason í þættinum Silfur Egils í Ríkissjónvarpinu. Fjallað var um stjórnskipun Íslands, stjórnlagaþing, forsetaembættið, Icesave, stöðu þjóðarinnar, auðlindir og tækifæri í framtíðinni. Silfur Egils hjá RÚV.
14.02.2011 Forseti ræðir við Bob Correll, heimskautafræðing og forystumann starfshóps um stjórnunarhætti á Norðurslóðum, Arctic Governance Project, Þorstein Gunnarsson, sérfræðing hjá Rannsóknamiðstöð Íslands, og Hallgrím Jónasson, forstöðumann Rannís. Fjallað var um aukið mikilvægi Norðurslóða, sess þeirra í stjórnkerfi Bandaríkjanna og annarra landa Norðurskautsráðsins, tillögur forystumanna Rússlands sem og nauðsyn víðtækra vísindalegra rannsókna og samstarfs sérfræðinga og háskólastofnana.
14.02.2011 Forseti á fund með Kristni Péturssyni athafnamanni varðandi tækifæri Íslands, m.a. vegna legu landsins, til að þjónusta flutninga og önnur lönd með hreina orkugjafa.
14.02.2011 Forseti á fund með Jakobi Þór Haraldssyni um hugmyndir hans um mannrækt og samstarf Íslands og Kína.
14.02.2011 Forseti á fund með forystumönnum EKRON, atvinnutengdrar endurhæfingar. Markmið starfseminnar er að auðvelda fólki, sem glímt hefur við eiturlyf og setið í fangelsum, að fóta sig á ný í daglegu lífi og festa í sessi heilbrigða lífshætti.
14.02.2011 Forseti á fund með forystumönnum Íþróttasambands fatlaðra um Heimsmót þroskahefta og seinfærra, Special Olympics, sem haldið verður í Grikklandi í sumar. Fjöldi íslenskra þátttakenda frá mörgum byggðarlögum mun sækja mótið ásamt þjálfurum og aðstandendum. Einnig var rætt um starfsemi sambandsins á öðrum sviðum.
15.02.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Gana, frú Hajia Fati Habib-Jawulaa, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun sjávarútvegs í Gana en námsmenn þaðan hafa hlotið þjálfun í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Þá var einnig fjallað um aukna hlutdeild kvenna í stjórn landsins, nýtingu olíuauðlinda sem nýlega hafa fundist sem og þróun mála í Afríku. Mynd.
15.02.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Suður-Kóreu, hr. Byong-hyun Lee, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um farsæl viðskiptatengsl landanna, vaxandi áhuga í Suður-Kóreu á samstarfi í orkumálum og væntanlega heimsókn viðskiptasendinefndar til Íslands. Einnig var fjallað um erfiðleika í sambúð Suður- og Norður-Kóreu og það að á næsta ári verður hálf öld liðin frá því Ísland og Suður-Kórea tóku upp stjórnmálasamband. Mynd.
15.02.2011 Forseti á fund með Jean Todt, forseta Alþjóða bílasamtakanna FIA, og forystumönnum Félags íslenskra bifreiðaeigenda um aukið öryggi í umferðinni og það markmið að Ísland verði án dauðsfalla af völdum umferðarslysa. Jean Todt heimsækir Ísland til að leggja þessari baráttu lið og miðla af reynslu sinni. Einnig var rætt um nýtingu hreinna orkugjafa fyrir bifreiðar og möguleikana á að Ísland geti byggt umferð sína í náinni framtíð á hreinum orkugjöfum.
17.02.2011 Forseti ræðir við Konstantín II, fyrrum konung í Grikklandi, um forystu hans í Alþjóða siglingasambandinu og störf hans í Ólympíunefndinni en þar hefur hann átt sæti í marga áratugi og fylgst náið með alþjóðlegri þróun íþrótta. Einnig var rætt um þróun mála í Evrópu og þær breytingar sem orðið hafa í heimalandi hans á undanförnum áratugum. Hann tekur þátt í stjórnarfundi Alþjóða siglingasambandsins sem haldinn er á Íslandi.
17.02.2011 Forseti ræðir við fulltrúa félaga laganema á Norðurlöndum en þeir taka þátt í málþingi sem Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, hefur skipulagt. Fjallað var um stjórnskipun landsins, endurnýjanlega orku og lýðræðisþróun í nútímasamfélögum.
17.02.2011 Forseti á fund með fulltrúum InDefence hópsins um hinn nýja Icesave samning, greinargerð hópsins til fjárlaganefndar og afstöðu til málsmeðferðar á Alþingi, lærdóma af sögu málsins og þjóðaratkvæðagreiðslu.
18.02.2011 Forseti tekur á móti þátttakendum í stjórnarfundi Alþjóða siglingasambandsins og íslenskum forystumönnum á þessu sviði og ræðir um þróun íþróttarinnar, siglingasögu Íslendinga og mikilvægi hafsins fyrir menningu og þjóðfélagshætti í landinu.
18.02.2011 Forseti afhendir steinsteypuverðlaunin og fór sú athöfn fram á þingi Steinsteypudagsins. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi gæði og listrænan árangur við notkun steinsteypu í byggingum. Þau hlaut að þessu sinni hin nýja sundlaug á Hofsósi. 
18.02.2011 Forseti heimsækir hugbúnaðarfyrirtækið Clara og hlýðir á kynningu á nýjungum þess á sviði upplýsingatækni. Hugbúnaður þeirra gerir kleift að meta áherslur í umræðum á netinu, flokka þær og greina og fá þannig betri mynd af ríkjandi straumum í þjóðfélaginu.
18.02.2011 Forseti tekur við undirskriftalistum söfnunarinnar kjósum.is þar sem skorað er á forseta að vísa nýju Icesave frumvarpi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að afhendingarathöfninni lokinni ræddi forseti við nokkra forystumenn söfnunarinnar um framkvæmd hennar og áreiðanleikaprófanir sem framkvæmdar hefðu verið.
19.02.2011 Forseti afhendir heiðursverðlaun Eddunnar á hátíð þar sem veitt eru verðlaun fyrir árangur við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis. Heiðursverðlaunin hlaut Hrafn Gunnlaugsson.
20.02.2011 Á blaðamannafundi á Bessastöðum birti forseti yfirlýsingu sína um frumvarp um nýja Icesave samninga sem Alþingi afgreiddi 16. febrúar síðastliðinn. Yfirlýsing forseta. President's declaration in English translation.
20.02.2011 Forseti boðar til blaðamannafundar á Bessastöðum í dag kl. 15:00.
22.02.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bangladess, hr. A.F.M. Gousal Azam Sarker, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um alvarlegar afleiðingar sem hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga mundi hafa fyrir Bangladess. Þar gætu rúmlega þrjátíu milljónir manna misst heimili sín og grundvöllur efnahagslífs og samfélagsgerðar kollvarpast. Samstarf vísindamanna um rannsóknir á bráðnun íss, bæði á Himalajasvæðinu og í norðri, er því mikilvægt verkefni. Einnig var fjallað um samstarf í sjávarútvegi, þjálfun fólks frá Bangladess í Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem og hugsanlegt samstarf í skipasmíðum og lyfjaiðnaði.
22.02.2011 Forseti heimsækir Lækjarskóla í Hafnarfirði sem hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2010. Nemendur skólans munu taka á móti forsetahjónum á skólalóðinni og síðan munu þau fylgjast með viðburðum í íþróttahúsi og sundlaug skólans sem og heimsækja kennslustofur og taka þátt í hátíðardagskrá þar sem nemendur og forráðamenn skólans kynna starfsemi hans, nýjungar og áherslur í skólastarfi. Myndir frá heimsókninni.
23.02.2011 Forseti ræðir við alþjóðafréttaveituna Bloomberg um ákvörðun sína í Icesave málinu, væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu, deilurnar við Breta og Hollendinga og þróun efnahagslífsins á Íslandi, styrkleika fyrirtækja í mörgum greinum.
23.02.2011 Forseti sendir landstjóra Nýja Sjálands, samúðarkveðjur vegna jarðskjálftanna í Christchurch sem kostað hafa tugi mannslífa og valdi gríðarlegu eignatjóni. Hugur okkar sé með fjölskyldum og vinum þeirra sem látið hafa lífið og með þeim sem slasast hafa sem og öðrum íbúum landsins sem nú glímir við mikla erfiðleika. Fjölmargir Íslendingar eigi ættingja og vini í Christchurch og því fylgist þjóðin náið með fréttum af hinum hörmulegum atburðum.
23.02.2011 Forseti á fund með fulltrúum pólsku orkufyrirtækjanna PG-EO, sem er stærsta orkufyrirtæki Póllands, og Eko Effekt sem leggur áherslu á umhverfisvæna orkunýtingu. Þeir heimsækja Ísland í samvinnu við Landsvirkjun og Verkís til að kynna sér árangur Íslendinga í nýtingu vatnsafls og jarðhita. Rætt var um tækifæri til samvinnu íslenskra og pólskra sérfræðinga, einkum til að kanna nýtingu jarðvarma í Póllandi, m.a. til húshitunar.
23.02.2011 Forseti afhendir Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Markmið verðlaunanna er að heiðra námsmenn sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnin eru byggð á samstarfi háskóla og rannsóknarstofnana, sveitarfélaga og atvinnulífs.

Sex verkefni eru tilnefnd til verðlaunanna í ár:
1. MindGames – Hugþjálfunartölvuleikur sem unnið er af Hamid Pourvatan, Jóni Trausta Arasyni, Kötlu Rós Völudóttur og Ragnari Má Nikulássyni.
2. Pantið áhrifin frá Móður Jörð sem unnið er af Auði Ösp Guðmundsdóttur, Emblu Vigfúsdóttur, Katharínu Lötzsch og Robert Petersen.
3. Vistland – Rannsókn á möguleikum sjálfbærni í íslenskum arkitektúr og húsagerð sem unnið er af Björgvin Óla Friðgeirssyni, Darra Úlfssyni, Kötlu Maríudóttur, Snorra Þór Tryggvasyni og Baldri Helga Snorrasyni.
4. Neðansjávarlágtíðnihljóðbylgjuaflgjafi sem unnið er af Jóni Val Valssyni.
5. Umhverfiskostnaður sem hluti af reiknilíkani jarðhitavirkjana sem unner er af Kristrúnu Gunnarsdóttur.
6. Vindhraðamælingar og sambreytni vinds á Íslandi sem unnið er af Jóni Blöndal og Teiti Birgissyni.

Við athöfnina munu forseti Íslands, formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs námsmanna og formaður dómnefndar flytja ávörp.   
24.02.2011 Forseti flytur ávarp við setningu heimsráðstefnu golfvallarstjóra sem samtökin Federation of European Golf Greenkeeper Associations halda á Íslandi. Þar eru saman komnir stjórnendur golfíþróttarinnar víða að úr veröldinni, einkum frá Evrópu. Í ávarpi sínu lýsti forseti hvernig íslensk náttúra, samspil hafs, hrauns, dala og fjarða, skapaði einstæðar aðstæður fyrir golfvelli eins og sjá mætti hringinn í kringum landið. Einnig væri golfíþróttin á Íslandi meiri almenningsíþrótt en víða annars staðar. Hvatti hann til þess að skipulagðar yrðu ferðir erlendra golfáhugamanna til Íslands þar sem þeir gætu leikið á fjölmörgum gerólíkum golfvöllum.
24.02.2011 Forseti flytur ávarp og afhendir verðlaun í lok Íslenska þekkingardagsins. Þrjú fyrirtæki voru tilnefnd til þekkingarverðlaunanna: Icelandair, sem hlaut verðlaunin, sem og Rio Tinto Alcan og Samherji. Þá afhenti forseti einnig viðskiptafræðingi ársins verðlaun en valinn var Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair. Í ávarpi sínu áréttaði forseti nauðsyn þess að haldið yrði á lofti þeim góða árangri sem væri að nást víða í íslensku atvinnulífi eins og þessi þrjú fyrirtæki sýndu. Varasamt væri að vera aðeins með eina sögu í umræðunni, sögu erfiðleika og afturfarar, þegar ljóst væri að á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins væri að nást til muna betri árangur en áður. Hvatti hann samtök atvinnulífsins til að halda á lofti hinum fjölmörgu árangurssögum því mikilvægt væri að unga kynslóðin í landinu fengi slík skilaboð.
24.02.2011 Forseti heldur blaðamannafund á Bessastöðum til að kynna fyrirhugaða ferð sína á fund Benedikts XVI páfa og gjöf Snæfellinga til Páfagarðs. FréttatilkynningMynd af gjöfinni, styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði Þorbjarnardóttur,
25.02.2011 Forseti er gerður að heiðursfélaga Sundsambands Íslands á þingi sem haldið er í tilefni af sextíu ára afmæli þess. Jafnframt var forseti sæmdur gullmerki sambandsins. Á sínum tíma varð Ásgeir Ásgeirsson, fyrrum forseti, heiðursfélagi Sundsambands Íslands og við athöfnina kom fram að nú var það í annað sinn sem valinn var heiðursfélagi þess. Myndir (ljósmyndari: Birgir Þór Harðarson).
25.02.2011 Forseti tekur á móti þátttakendum í IceMUN verkefninu þar sem námsmenn við háskóla gegna hlutverkum ríkja sem sitja í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og glíma við úrlausn alþjóðlegra vandamála. Forseti ræddi áhrif nýrrar upplýsingatækni á samskipti ríkja, hefðbundnar venjur í starfi alþjóðastofnana svo og nýja stöðu leiðtoga, bæði ríkja og stofnana. Atburðirnir í Miðausturlöndum og þróun nýrrar upplýsingatækni sýna að áhrifamáttur fólksins er orðinn afgerandi hreyfiafl á alþjóðavettvangi.
26.02.2011 Forseti er viðstaddur brautskráningu stúdenta frá Háskóla Íslands. Í ár eru 100 ár liðin frá stofnun háskólans og er þetta fyrsta brautskráningin á afmælisárinu.
28.02.2011 Forseti á fund með prófessor dr. Norbert Lammert, forseta þýska þingsins, sem ásamt sendinefnd sinni heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um langvarandi samvinnu Íslands og Þýskalands á sviði menningar, mennta og viðskipta; breytingar á Norðurslóðum og áhrif nýrra siglingaleiða og orkunýtingar á hagkerfi Evrópu sem og viðræður Íslands við Evrópusambandið og þróun Icesave málsins, afstöðu Breta og Hollendinga og stuðning Evrópusambandsríkja við fyrri samninga.
28.02.2011 Forseti á fund með Hafsteini Helgasyni og Jóhannesi Rúnari Helgasyni frá verkfræðistofunni Eflu um nýjungar í nýtingu jarðhita, verkefni víða um heim og hvernig Íslendingar geta best nýtt sér þá þekkingu og reynslu á þessu sviði sem byggst hefur upp í landinu á undanförnum áratugum, m.a. með alþjóðlegu samstarfi og aukinni menntun ungs fólks.
28.02.2011 Forseti á fund með biskupi kaþólskra á Íslandi, herra Peter Bürcher, séra Jakobi Rolland og Gunnari Erni Ólafssyni formanni Félags kaþólskra leikmanna. Rætt var um væntanlega för forseta í Páfagarð, afhendingu styttunnar af Guðríði Þorbjarnardóttur, vöxt kaþólska safnaðarins á Íslandi og helstu viðfangsefni kirkjustarfsins. Einnig var rætt var um rannsóknir á sögu kaþólskrar trúar á Íslandi og samvinnu íslenskra rannsóknarstofnana við Háskóla heilags Tómasar í Vatíkaninu.
28.02.2011 Viðtal við forseta, sem tekið var á jarðhitaráðstefnunni í New York 9. febrúar 2011, er birt í vefmiðlinum Media Global sem leggur einkum áherslu á málefni þróunarlanda. Viðtalið tók Kamma Thordarson. Viðtalið.

Mars

01.03.2011 Forseti sendir kveðju á alþjóðlega ráðstefnu doktorsnema í jarðhitafræðum sem haldin er á Íslandi. Kveðja forseta.
03.03.2011 Forseti heimsækir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í boði dr. Jacques Diouf, framkvæmdastjóra hennar, á fund með honum sem og ýmsum forystumönnum einstakra deilda. Rætt var um hvernig nýta megi reynslu Íslendinga í sjávarútvegi, einkum upplýsingatækni, til að þróa ábyrgan sjávarútveg og hafa eftirlit með fiskveiðum víða um heim. Einnig var fjallað um nýtingu jarðhita í matvælaframleiðslu, bæði gróðurhúsaræktun og þurrkun matvæla sem og hvernig reynsla og tæknikunnátta Íslendinga á því sviði gæti nýst þjóðum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Þá snæddi forseti hádegisverð í boði forstjóra stofnunarinnar. Myndir frá heimsókn forseta til FAO.
03.03.2011 Forseti flytur setningarræðu á viðskiptaráðstefnu sem Íslandsstofa efnir til í Róm þar sem kynntir voru ýmsir þættir íslensks atvinnulífs: orkunýting, sjávarútvegur, ferðaþjónusta, hátækni og aðrar greinar. Einnig fluttu ávörp forystumenn úr ítölsku atvinnulífi og fulltrúar Íslandsstofu.
04.03.2011 Forseti á einkafund með Benedikt XVI páfa á skrifstofu hans í Vatíkaninu og afhenti síðan við sérstaka athöfn styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur sem varðveitt verður í Páfagarði. Styttan er gjöf frá íbúum á Snæfellsnesi, heimabyggð Guðríðar, og var hópur Snæfellinga viðstaddur athöfnina ásamt dr. Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Síðar í dag verður svo málþing um miðalda- og kirkjusögu á fyrstu öldum Íslandsbyggðar í Háskóla heilags Tómasar frá Akvínó. Fréttatilkynning. Myndir frá heimsókn í Páfagarð (ljósmyndari: Maríanna Friðjónsdóttir). Myndir frá heimsókn í FAO (ljósmyndir: FAO). Frétt og viðtal við forseta á Rome Reports.
08.03.2011 Forseti er viðstaddur afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna en athöfnin fór fram í Þjóðleikhúsinu og var sjónvarpað af Ríkissjónvarpinu.
08.03.2011 Forseti á fund með Hákoni Gunnarssyni og Þóru Þorgeirsdóttur um þróun samstarfs sem miðar að formlegri myndun Íslenska jarðvarmaklasans. Á ráðstefnu sem haldin var í nóvember 2010 hvatti bandaríski prófessorinn Michael Porter eindregið til slíks samstarfs en alþjóðlegar rannsóknir hans við Harvard háskóla hafa leitt í ljós hvaða árangri það getur skilað.
08.03.2011 Forseti á fund með Andrew P. Feinberg, forstöðumanni erfðafræðirannsókna við John Hopkins háskólann í Bandaríkjunum, um alþjóðlegt samstarf á þessu sviði og framlag Íslenskrar erfðagreiningar sem og Hjartaverndar til rannsókna en slíkt sé bandarísku vísindasamfélagi mikils virði
08.03.2011 Forseti heimsækir félagsheimili Sjálfsbjargar og snæðir sprengidagssúpu með vistmönnum og öðrum gestum sem taka þátt í félagsstarfi Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu.
10.03.2011 Forseti ræðir við fulltrúa Icelandic í Bandaríkjunum og Long John Silver veitingahúsakeðjunnar um vaxandi markað fyrir íslenskar sjávarafurðir í Bandaríkjunum, líklegar breytingar í neyslumynstri sem og aukna eftirspurn eftir sjávarafurðum á veraldarvísu á komandi árum.
10.03.2011 Forseti á fund með herra Peter Bürcher, séra Jakobi Rolland og Gunnari Erni Ólafssyni formanni Félags kaþólskra leikmanna. Gerð var grein fyrir viðræðum forseta í Páfagarði, bæði við Benedikt páfa og aðra æðstu stjórnendur kaþólsku kirkjunnar sem og hugmyndum um fræðasamstarf til að kanna íslenska miðaldasögu, m.a. kirkjusögu.
10.03.2011 Forseti á símafund með Rattan Lal, prófessor við Ohio State háskólann í Bandaríkjunum og einn helsta sérfræðing veraldar í jarðvegsfræðum. Rætt var um alþjóðlega vísindasamvinnu með þátttöku íslenskra sérfræðinga, með sérstakri áherslu á gróðurfar vegna bráðnunar jökla og loftslagsbreytinga.
11.03.2011 Forseti sendi í morgun sent Hans Hátign Akihito Japanskeisara samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni. Hinar hræðilegu afleiðingar jarðskjálftanna og flóðbylgnanna hafi vakið djúpa samúð og hugur okkar sé með fjölskyldum og vinum þeirra sem látist hafa og einnig þeim sem misst hafa heimili sín og búa nú við óvissa framtíð. Vinátta Íslands og Japans sé byggð á langvarandi samvinnu og Íslendingar þekki jarðskjálfta og náttúruhamfarir af eigin raun þótt reynsla okkar hafi blessunarlega ekki verið eins sár og sú sem nú þjáir hina japönsku þjóð. Fréttatilkynning.
11.03.2011 Forseti tekur á móti sveit matreiðslumanna frá mörgum löndum sem taka þátt í Food and Fun hátíðinni sem haldin er um þessar mundir. Rætt var um gæði íslensks hráefnis, bæði úr hafinu og landbúnaði, nýjar aðferðir til að matreiða hráefni sem Íslendingar hafa nýtt um aldir, samspil náttúru, gæða og sjálfbærni.
14.03.2011 Forseti flytur ávarp á ráðstefnu um viðskiptasamvinnu milli Indlands og Íslands. Þar fluttu erindi Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, sendiherra Indlands á Íslandi S. Swaminathan og forystumenn úr indversku og íslensku atvinnulífi. Forseti lagði áherslu á hve fjölþætt tækifæri byðust á þessu sviði, bæði í ljósi góðrar reynslu íslenskra fyrirtækja sem starfað hafa með indverskum aðilum og þeirra breytinga sem eru orðnar á hagkerfi heimsins. Þar mætti nefna upplýsingatækni, orkunýtingu, lyfjaframleiðslu, ferðaþjónustu og aðrar greinar. Ísland væri líka kjörinn samstarfsaðili við indversk fyrirtæki og lega landsins væri mikilvæg í flutningakerfi nýrrar aldar, bæði á sjó og í lofti.
15.03.2011 Forseti tekur á móti félögum í Lionsklúbbnum Eik og ræðir við þá um sögu Bessastaða.
15.03.2011 Forseti sækir lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er í Hafnarborg í Hafnarfirði og afhendir verðlaun. Myndir (ljósmyndari: Vigfús Hallgrímsson).
15.03.2011 Forseti á fund með Baldvini Jónssyni og Guðna Ágústssyni um eftirspurn eftir íslenskum gæðamatvælum og nauðsyn þess að efla samvinnu smárra framleiðenda víða um land, svo og um tækifæri á markaði í Bandaríkjunum.
15.03.2011 Forseti á fund með Gísla Guðmundssyni um vatnsbúskap víða um heim, vaxandi þörf veraldarinnar á drykkjarvatni og möguleika Íslands á þessu sviði.
17.03.2011 Forseti afhendir Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2011 á hátíðarmóttöku í Kópavogi. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum. Í flokknum fjármálastjórnun hlaut verðlaunin Björn Zoega forstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í flokknum gæðastjórnun hlaut verðlaunin Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar. Í flokknum markaðsstjórnun hlaut verðlaunin Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova. Í ávarpi sínu ræddi forseti um nauðsyn þess að halda til haga þeim mikilvæga árangri sem stjórnendur fjölmargra fyrirtækja og stofnana hefðu náð á undanförnum misserum. Hættulegt væri að halda að þjóðinni "einsögum" um  erfiðleika og afturför því að reynslan sýndi að hundruð stjórnenda á mörgum stigum stofnana og fyrirtækja væru með atorku, hugmyndaauðgi og faglegum vinnubrögðum að skila verulegum árangri. Slíkt hefði m.a. komið fram í erindum sem Björn Zoega, forstjóri LHS, og Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, hefðu flutt á hátíðarmóttökunni áður en verðlaunaafhendingin fór fram. Vefur Stjórnvísi.
18.03.2011 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni um alþjóðlegt rannsóknasamstarf um bráðnun íss og áhrif hennar á loftslag, gróður og efnahagslíf. Vaxandi áhugi er á slíku samstarfi, bæði meðal ríkjanna sem liggja að Norðurskautinu, í Evrópu, Ameríku og Asíu.
18.03.2011 Forseti á fund með Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Jóni Sigfússyni frá Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík um rannsókn á áfengisnotkun meðal framhaldsskólanema á Íslandi en rannsóknin var framkvæmd í öllum framhaldsskólum og niðurstöður hennar verða birtar á næstunni. Einnig var rætt um reynsluna af Forvarnardeginum og vaxandi umsvif verkefnisins Youth in Europe en það er forvarnarsamstarf fjölmargra borga í Evrópu og er forseti verndari verkefnisins.
18.03.2011 Forseti ræðir við Mark Raskino, fulltrúa markaðsrannsóknafyrirtækisins Gartner, um kosti Íslands sem þróunarvettvangs í upplýsingatækni, reynsluna á undanförnum árum og nýtingu þeirra kosta sem smæðin felur í sér. Einnig var fjallað um þátt upplýsingatækni í vexti nútíma bankakerfis og í fjármálakreppunni, bæði með tilliti til íslensku bankanna og fjármálastofnana í Ameríku og Evrópu. Loks var rætt um kosti Íslands fyrir gagnaver og hvernig upplýsingatæknin styrkir stöðu almennings, bæði til lýðræðislegrar þátttöku og mótmæla.
18.03.2011 Forseti afhendir Upplýsingatækniverðlaun Skýrslutæknifélags Íslands fyrir árið 2011. Verðlaunin hlaut Reiknistofa bankanna fyrir margháttað framlag sitt á undanförnum áratugum. Athöfnin fór fram á UT messunni. Forseti gerði grein fyrir þróun Reiknistofunnar og aðkomu hennar að mörgum áföngum í íslensku þjóðlífi og viðskiptalífi, m.a. hvernig Reiknistofan tryggði landsmönnum eðlilega greiðslumiðlun þrátt fyrir hamfarirnar sem gengu yfir fjármála- og efnahagslíf landsins árið 2008. Þá fjallaði forseti í stuttu ávarpi um hin víðtæku áhrif nýjunga í upplýsingatækni og það hvernig heimsmyndin væri að breytast af þessum sökum og þau tækifæri sem Íslendingar gætu nýtt sér á komandi árum. Vefur Skýrslutæknifélagsins.
19.03.2011 Forseti heimsækir sýningu upplýsingatækni- og sprotafyrirtækja sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík í tengslum við UT messuna. Fjöldi fyrirtækja í ólíkum greinum hugbúnaðar kynntu starfsemi sína og árangur en mörg þeirra hafa vaxið mjög á undanförnum árum. Einnig var kynning á menntunarleiðum og námsframboði á þessu sviði. Myndir (ljósmyndari: Aldís Geirdal Sverrisdóttir).
21.03.2011 Forseti á fund með forsvarsmönnum Háskólans á Akureyri og Rannsóknarþings norðursins, Northern Research Forum, um þing þess sem nú hefur verið ákveðið að haldið verði á Íslandi í september en áður hafði verið áformað að það yrði í Noregi. Yfirskrift þingsins er "Our Ice-Dependent World" og stefnt er að þátttöku vísindamanna, sérfræðinga og forystumanna í stefnumótun frá löndum á Norðurslóðum svo og öðrum heimshlutum þar sem ör bráðnun íss skapar verulega vandamál.
21.03.2011 Forseti á fund með Auði Guðjónsdóttur, forsvarsmanni Mænuskaðastofnunar Íslands, og Ólafi Guðmundssyni frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda um alþjóðlegt samstarf til að leita lækninga við mænuskaða og efla rannsóknir og áhuga á því viðfangsefni. Málefnið var einnig rætt í heimsókn Jean Todt, forseta Alþjóða bílasamtakanna FIA, til Íslands fyrir nokkrum vikum.
21.03.2011 Forseti tekur á móti hópi nemenda frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ræðir við þá um sögu Bessastaða, forsetaembættið og ýmsa þætti íslenskrar lýðræðisþróunar.
22.03.2011 Forseti á fund með hópi kvenna sem stofnað hafa samtökin Drekaslóð en þeim er ætlað að aðstoða einstaklinga sem orðið hafa fyrir margvíslegu ofbeldi og glíma við erfiðleika af þeim sökum. Samtökin eru sjálfboðaliðasamtök sem sinna mikilvægri þjónustu sem skort hefur í íslenska velferðarkerfinu. Fram kom á fundinum að slíkt ofbeldi er mun algengara í íslensku samfélagi, bæði gagnvart börnum og fullorðnum, konum og börnum, en almennt er talið.
22.03.2011 Forseti á fund með Sigríði Kristjánsdóttur, lektor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, um þróun kennslu í skipulagsfræði og samstarf við bandaríska háskóla á því sviði en nýlega hefur hafist fjölþætt nám í þeirri grein á Íslandi.
22.03.2011 Forseti ræðir við bandaríska prófessorinn Jesse Byock sem stjórnað hefur víðtækum fornleifarannsóknum á Mosfelli á undanförnum árum en þær hafa leitt í ljós fjölþætta búsetu og einstæðar fornminjar frá víkingatímum. Fjölmargir fræðimenn, íslenskir og erlendir, hafa tekið þátt í rannsóknunum og fyrirhuguð er ráðstefna um þær við Kaliforníuháskóla.
22.03.2011 Forseti á fund með sendiherra Rúanda, frú Jacqueline Mukangira, sem senn lætur af störfum, um möguleika á samstarfi Íslands og Rúanda, einkum á sviði jarðhitanýtingar, fiskveiða og skipulagningar stjórnsýslu.
22.03.2011 Forseti ræðir við Guðmund Ólafsson hagfræðing um stöðu efnahagsmála og framtíðarskipan gjaldmiðilsmála sem og þróun íslensks atvinnulífs í kjölfar bankakreppunnar.
22.03.2011 Forseti ræðir við Sten Sjögren, blaðamann frá Göteborgs-Posten, um endurreisn íslensks efnahagslífs, lærdómana sem draga má af bankakreppunni, styrkleika Íslands og mikilvægi auðlinda á komandi áratugum sem og aðra þætti í atburðarás síðustu missera. Sjögren vinnur nú að bók um endurreisn íslensks efnahagslífs.
23.03.2011 Forseti heimsækir sendiskrifstofu Japana á Íslandi og ritar samúðarkveðju í minningabók vegna þeirra hörmunga sem jarðskjálftar og flóðbylgjur hafa haft í för með sér í Japan. Forseti hafði áður sent Japanskeisara samúðarkveðjur.
23.03.2011 Forseti ræðir við Claudi Pérez Pallejá, blaðamann frá spænska dagblaðinu El País, um lærdómana sem draga má af bankakreppunni, hvernig Íslendingar hafa brugðist við erfiðleikum í efnahagslífi, bæði með aðgerðum á vettvangi lýðræðis og efnahagsmála; og um viðbrögð og aðgerðir á Íslandi í ljósi þess sem gerst hefur á Spáni og í öðrum löndum Evrópu.
23.03.2011 Forseti ræðir við Styrmi Gunnarsson, fyrrum ritstjóra, um ýmsa þætti þjóðmála og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, mikilvægi Norðurslóða og lýðræðisþróunina í landinu.
24.03.2011 Forseti á fund með stjórnmálafræðingnum og hagfræðingnum prófessor Mark Blyth frá Brown háskólanum í Bandaríkjunum en hann heimsækir Ísland í boði stjórnvalda. Rætt var um nauðsyn þess að endurskoða þær kenningar og þau fræðilegu viðmið sem hafa sett meginsvip á hagfræði og efnahagslega stefnumótun á undanförnum 30 árum og tengja þá endurskoðun við umrótið sem finna má í lýðræðiskerfum víða um heim. Prófessor Blyth hefur skrifað fjölda fræðigreina og bóka um þessi efni.
24.03.2011 Forseti flytur ávarp á málþingi sem haldið er við upphaf HönnunarMars. Málþingið fjallar um hlutverk hönnuða á tímum breytinga og stjórnar Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands dagskránni. Í ávarpi sínu fjallaði forseti um áhrif hönnunar til breytinga á samfélögum og mikilvægi HönnunarMars í íslensku menningarlífi og vék einnig að DLD ráðstefnunni sem forseti sótti í München í janúar. Þá fjallaði hann um áhrif náttúrunnar á verk ýmissa íslenskra hönnuða og þá þjóðfélagslegu ábyrgð sem fylgdi auknum áhrifum hönnuða. Fyrirlesarar á málþinginu eru arkitektarnir Winy Maas sem stýrir The Y Factory, rannsóknarstofu um borgir framtíðarinnar, og Ilkka Suppanen, stofnanda Studio Suppanen. Einnig voru frummælendur vöruhönnuðurinn Jerszy Seymour og Siggi Eggertsson, ungur grafískur hönnuður frá Akureyri sem vakið hefur mikla athygli á alþjóðavettvangi og starfað fyrir fjölmörg alþjóðleg fyrirtæki. Ávarp forseta (á ensku).
26.03.2011 Forseti ræðir við dr. Guðmund Alfreðsson um þróun heimskautaréttar, kennslu í þeim fræðum við Háskólann á Akureyri og alþjóðlega ráðstefnu sem haldin verður á Grænlandi í haust. Einnig var fjallað um stjórnarskrár og kennslu í mannréttindum en Guðmundur, sem áður var forstöðumaður Raoul Wallenberg mannréttindastofnunarinnar, kennir nú nokkrum sinnum á ári mannréttindafræði við Beijingháskóla í Kína.
26.03.2011 Forseti tekur á móti hópi hönnuða sem sýna á HönnunarMars og stjórnendum og aðstandendum hönnunardaganna ásamt allmörgum blaða- og fréttamönnum.
26.03.2011 Forseti afhendir verðlaun í Framhaldsskólamótinu í innanhússknattspyrnu en fjórtán skólar tóku þátt í mótinu.
31.03.2011 Forseti er viðstaddur leik FH og Hauka í handknattleik í íþróttahúsinu Kaplakrika í Hafnarfirði.

Apríl

01.04.2011 Forseti ræðir við hóp nemenda frá Viðskiptaskóla Harvard, Harvard Business School, um lærdómana sem draga má af efnahagskreppunni á Íslandi, stefnuna sem ríkti í hagstjórn Vesturlanda á undanförnum áratugum og þörfina á endurskoðun hennar, styrkleika Íslands í krafti auðlinda og menntunar sem og aukið mikilvægi Norðurslóða og samskiptin við Kína, Indland og Rússland annars vegar og Bandaríkin hins vegar.
05.04.2011 Forseti á fund með forráðamönnum Félags skólameistara um forvarnir í framhaldsskólum á grundvelli þess árangurs sem náðst hefur með Forvarnardeginum í grunnskólum og þeirra aðferða sem þar hefur verið beitt.
06.04.2011 Forseti heimsækir Microsoft á Íslandi og kynnir sér samskipti Microsoft við fjölda fyrirtækja á Íslandi, í hugbúnaði, tæknigreinum, iðnaði og á fleiri sviðum, sem og vöxt sprotafyrirtækja og þá möguleika sem felast í því að nota Ísland sem þróunarmiðstöð í upplýsingahagkerfi nýrrar aldar.
06.04.2011 Forseti ræðir við forystumenn Reuters fréttaveitunnar um þróun gagnavera, nýtingu hreinnar orku og áhrif loftslagsbreytinga. Reuters fréttaveitan hefur undanfarna daga verið með hóp á Íslandi til að undirbúa leiðangur yfir Suðurskautið og prófa umhverfisvæna bifreið, þá fyrstu sinnar tegundar, sem notuð verður í þeim leiðangri.
07.04.2011 Forseti er viðstaddur ársfund Seðlabanka Íslands og hátíðardagskrá í tilefni af 50 ára afmæli bankans. Aðalræður á fundinum fluttu Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra.
08.04.2011 Forseti er viðstaddur setningu þings Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og flytur ávarp. Í því lagði forseti áherslu á félagslegt hlutverk íþróttahreyfingarinnar, sjálfboðastarfið í félögunum vítt og breitt um landið allt, uppeldi æskunnar og hvernig íþróttaviðburðir hefðu þjappað þjóðinni saman og auðveldað henni að efla samstöðu á erfiðleikatímum. Ávarp forseta (eftirrit).
10.04.2011 Forseti ræðir við þáttagerðarmann NPR, National Public Radio í Bandaríkjunum, um þjóðaratkvæðagreiðsluna, þróun beins lýðræðis, lýðræðisskipan Vesturlanda og hvernig bylting í upplýsingatækni og menntun hefur gert almennum borgurum kleift að taka þátt í ákvörðunum sem áður voru fyrst og fremst í verkahring kjörinna fulltrúa.
10.04.2011 Forseti ræðir við fréttaritara alþjóðlegu fréttaveitunnar Reuters um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, stöðu Íslands í samskiptum við Bretland og Holland og þær gríðarlegu upphæðir sem Bretar og Hollendingar munu fá út úr þrotabúi Landsbankans.
10.04.2011 Forseti birtir á blaðamannafundi á Bessastöðum yfirlýsingar um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Yfirlýsing. Yfirlýsing til erlendra fjölmiðla.
10.04.2011 Forseti boðar heldur blaðamannafund á Bessastöðum um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar Icesave.
11.04.2011 Forseti ræðir við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina Bloomberg um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, greiðslur til Breta og Hollendinga úr þrotabúi Landsbankans sem gætu numið allt að 9 milljörðum Bandaríkjadala, fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi og samskipti við aðrar þjóðir.
12.04.2011 Forseti ræðir við fréttaritara Bloombergs í Danmörku um lærdómana sem draga má af fjármálakreppunni og ástæður þess að íslenskt efnahagslíf er að ná sér á strik á nýjan leik, sem og mikilvægi auðlinda landsins í hagvexti komandi ára.
12.04.2011 Forseti er í viðtali við helsta fréttaþátt danska sjónvarpsins, Deadline, um þjóðaratkvæðagreiðsluna, greiðslur til Breta og Hollendinga úr þrotabúi Landsbankans, vaxandi styrk íslensks efnahagslífs og samskiptin við aðrar þjóðir. Viðtalið, sem Nynne Bjerre Christensen tók, verður sýnt annað kvöld ásamt víðtækri umfjöllun um Ísland.
12.04.2011 Forseti flytur ræður á ársþingi Stjórnunarstofnunar dansks atvinnulífs. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
12.04.2011 Forseti ræðir við morgunþátt BBC útvarpsstöðvarinnar um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar, greiðslur til Breta og Hollendinga, túlkun evrópskra reglna og ábyrgð almennings á fjármálastofnunum.
13.04.2011 Forseti sækir styrktartónleika fyrir Ólaf Þórðarson tónlistarmann en mikill fjöldi íslenskra tónlistarmanna, vinir hans og félagar, stóðu að tónleikunum.
14.04.2011 Forseti afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins en þau voru veitt í fjórum flokkum: Hvunndagshetja, Frá kynslóð til kynslóðar, Til atlögu gegn fordómum og hin eiginlegu Samfélagsverðlaun. Auk þess voru veitt sérstök heiðursverðlaun og hlaut þau Jenna Jónsdóttir, kennari og rithöfundur. Um tilnefningar og verðlaunahafa er nánar fjallað í Fréttablaðinu.
15.04.2011 Forseti flytur ávarp við upphaf atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar sem haldin er á Akureyri. Einstaklingum og hópum með hugmyndir um nýsköpun er boðin þátttaka og sérfræðingar og kunnáttumenn miðla af reynslu sinni. Síðan eru hugmyndir metnar og þróaðar og fjallað um þær sem skara fram úr í lok helgarinnar. Vefsíða verkefnisins: ana.is. Ávarp forseta.
16.04.2011 Forseti afhendir Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar á sumarsamkomu sem haldin er hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi. Á samkomunni afhenti menntamálaráðherra einnig garðyrkjuverðlaun í þremur flokkum.
17.04.2011 Forseti ræðir við Sigurjón M. Egilsson blaðamann í fréttaþætti Bylgjunnar Sprengisandi. Fjallað var um forsetaembættið og þróun þess, þjóðaratkvæðagreiðsluna og lærdómana sem draga má af henni, viðbrögð alþjóðasamfélagsins og tækifæri þjóðarinnar á komandi árum, sterkar auðlindir og öfluga sókn fyrirtækja á mörgum sviðum sem og aukið mikilvægi legu landsins vegna þróunar á Norðurslóðum. Hlusta má á viðtalið á vefnum visir.is (1. hluti, 2. hluti, 3. hluti).
19.04.2011 Forseti opnar sýningu í Gerðarsafni í Kópavogi sem helguð er verkum Barböru Árnason í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu hennar. Ávarp forseta.
19.04.2011 Forseti ræðir við blaðamann Visão vikuritsins í Portúgal um þjóðaratkvæðagreiðslurnar, viðbrögðin við bankahruninu, afleiðingar bankakreppu á alþjóðavettvangi og endurreisn efnahagslífsins á Íslandi.
19.04.2011 Forseti ræðir við blaðamann frá hinu útbreidda tímariti XL Semanal á Spáni en það tengist einnig rúmlega 20 landshlutablöðum þar í landi. Fjallað var um þjóðaratkvæðagreiðsluna og lærdómana sem draga má af glímu Íslendinga við afleiðingar bankakreppunnar, endurskipulagningu fjármálakerfa og hvernig reynslan á Íslandi getur nýst öðrum ríkjum.
23.04.2011 Forseti sækir útskriftarsýningu nemenda úr myndlistadeild og hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Sýningin er haldin í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi.
27.04.2011 Forseti ræðir við dr. Guðmund Alfreðsson um þróun heimskautaréttar, kennslu í þeim fræðum við Háskólann á Akureyri og alþjóðlega ráðstefnu sem haldin verður á Grænlandi í haust. Einnig var fjallað um stjórnarskrár og kennslu í mannréttindum en Guðmundur, sem áður var forstöðumaður Raoul Wallenberg mannréttindastofnunarinnar, kennir nú nokkrum sinnum á ári mannréttindafræði við Beijingháskóla í Kína.
28.04.2011 Forseti afhendir sérstökum sendiherrum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skírteini. Landssamtökin Þroskahjálp hafa í samstarfi við Fjölmennt menntað sjö einstaklinga til að kynna á Íslandi Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd í mars 2007.
29.04.2011 Forseti tekur á móti fulltrúum á landsþingi Zontasambands Íslands en félög þess hafa haft mikil áhrif á málefni kvenna og velferðar.
29.04.2011 Forseti skipar nýja dómnefndarmenn fyrir Íslensku menntaverðlaunin en samkvæmt reglum verðlaunanna eru dómnefndir endurnýjarðar með reglulegu millibili. Í hvora dómnefnd koma þrír nýir nefndarmenn en tveir eru fyrir.
29.04.2011 Forseti á fund með forstjóra álsviðs Rio Tinto og yfirmanni Evrópudeildar þess ásamt stjórnendum álversins í Straumsvík um uppbyggingu og endurnýjun sem fyrirtækið hefur þegar ákveðið á Íslandi. Um 60 milljörðum íslenskra króna verður varið til þeirra framkvæmda. Einnig var fjallað um styrkleika íslensks efnahagslífs á komandi árum og áratugum og endurreisn í kjölfar áfalla undanfarinna ára.
30.04.2011 Forseti sækir landsmót kvennakóra sem haldið er á Selfossi og hlýðir á flutning kvennakóra úr ýmsum byggðarlögum.
30.04.2011 Forseti afhendir Íslensku þýðingarverðlaunin við athöfn sem fram fer á Gljúfrasteini. Að þessu sinni var það Erlingur E. Halldórsson sem verðlaunin hlaut fyrir þýðingu sína á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante.

Maí

01.05.2011 Forseti tekur þátt í hátíðarsamkomu á Húsavík í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá því að skipulögð verkalýðsbarátta hófst í héraðinu. Hátíðarhöldin eru á vegum Framsýnar – stéttarfélags Þingeyinga. Ávarp forseta.
02.05.2011 Forseti Slóveníu dr. Danilo Türk og eiginkona hans frú Barbara Miklič Türk koma í opinbera heimsókn til Íslands á morgun, þriðjudaginn 3. maí og munu dvelja hér í tvo daga. Með forsetanum koma þrír ráðherrar í ríkisstjórn Slóveníu, frú Darja Radić efnahagsráðherra, frú Irma Pavlinič Krebs, ráðherra opinberrar stjórnsýslu, og Roko Žarnić umhverfis- og skipulagsmálaráðherra auk embættismanna. Þá fylgja forseta Slóveníu viðskiptasendinefnd, með fulltrúum ríflega 20 slóvenskra fyrirtækja, og blaðamenn.

Heimsóknin hefst á morgun, þriðjudaginn 3. maí með hátíðlegri athöfn á Bessastöðum kl. 14:30. Þar munu íslensku forsetahjónin ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum taka á móti hinum erlendu gestum. Í kjölfarið fylgir viðræðufundur forseta landanna. Þeir munu síðan ræða við blaðamenn kl. 15:35.
   
Frá Bessastöðum heldur forseti Slóveníu í heimsókn til Alþingis. Þar verður hann ávarpaður úr forsetastóli en síðan munu forsetinn og ráðherrar eiga fund með fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi og forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hinir slóvensku ráðherrar munu jafnframt eiga sérstaka fundi með íslenskum starfsbræðrum sínum síðdegis þriðjudaginn 3. maí.
   
Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bjóða forseti Íslands og forsetafrú til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Slóveníu og forsetafrú.
   
Heimsóknardagana mun Barbara Miklič Türk, forsetafrú Slóveníu, m.a. heimsækja Hönnunarsafn Íslands, vinnustofur ungra listamanna, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi og handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu.
   
Að morgni miðvikudagsins 4. maí munu forseti og fylgdarlið hans vera við opnun viðskiptastefnu sem Íslandsstofa hefur skipulagt. Hún verður á Radisson Blu Hótel Sögu og hefst kl. 8:40 með ávörpum forseta Íslands og forseta Slóveníu. Þá fylgir stutt athöfn þar sem skrifað verður undir tvo viðskiptasamninga milli íslenskra og slóvenskra aðila.
   
Eftir viðskiptastefnuna mun forseti Slóveníu hitta Slóvena sem búsettir eru á Íslandi stutta stund en síðan liggur leiðin í Háskóla Íslands.
   
Dr. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tekur á móti forseta Slóveníu í anddyri Aðalbyggingar háskólans kl. 09:30 en í kjölfarið verður haldið í Gimli, hús félagsvísindadeildar. Þar stýrir dr. Ólafur Þ. Harðarson, sviðsforseti félagsvísindasviðs, málstofu sem hefst með inngangserindi forseta Slóveníu um efnið Slóvenía í Evrópusambandinu og alþjóðasamfélaginu. Slóvenía fór með forsæti í Evrópusambandinu fyrir þremur árum.
   
Frá Háskólanum halda forsetinn og fylgdarlið hans áleiðis til Þingvalla þar sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tekur á móti hinum slóvensku gestum kl. 11:50 við Ráðherrabústaðinn á Þingvöllum. Eftir viðræðufund forseta Slóveníu og forsætisráðherra bjóða forsætisráðherra og maki til hádegisverðar.
   
Eftir hádegi miðvikudaginn 4. maí verður efnt til málþings um reynsluna af nýtingu jarðhita á Íslandi og þá lærdóma sem Slóvenar gætu af henni dregið við framkvæmdir í sínu heimalandi. Málþingið verður haldið í Hellisheiðarvirkjun og hefst kl. 14:35. Þar munu flytja stutt erindi Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Ólafur Flóvenz forstjóri ÍSOR, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntadeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, Guðjón Magnússon, verkefnisstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur, og Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits.
   
Að kvöldi miðvikudagsins 4. maí mun forseti Slóveníu ásamt forseta Íslands sækja opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.
03.05.2011 Forseti býður til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs Danilo Türk, forseta Slóveníu, og Barbara Miklič Türk forsetafrú. Meðal gesta eru ráðherrar og embættismenn í fylgdarliði forseta Slóveníu, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, forsetar Alþingis og Hæstaréttar, sem og embættismenn og sérfræðingar sem taka þátt í ýmsum viðburðum í opinberri heimsókn forseta Slóveníu.
03.05.2011 Forseti á fund með Danilo Türk, forseta Slóveníu, þar sem rætt var um ný tækifæri í samskiptum landanna, einkum á sviði jarðhita og orkunýtingar. Einnig var fjallað um reynsluna af fjármálakreppunni, bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu, og nauðsyn þess að regluverk Evrópusambandsins taki mið af reynslu einstakra landa. Forseti Slóveníu lagði ríka áherslu á að í umræðum innan Evrópusambandsins gætu menn lært mikið af viðbrögðum Íslands og þeim aðgerðum sem framkvæmdar hefðu verið á undanförnum árum. Þá var og fjallað um samstarf smárra og meðalstórra ríkja í Evrópu.
03.05.2011 Forseti tekur á móti forseta Slóveníu, Danilo Türk, og fylgdarliði hans í upphafi opinberrar heimsóknar. Að lokinni kynningu á ráðherrum úr ríkisstjórnum beggja landanna og embættismönnum var efnt til móttöku á Bessastöðum.
04.05.2011 Forseti sækir opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu og ritar ávarp í dagskrá. Ávarp forseta.
04.05.2011 Forseti sækir málþing um jarðhita sem haldið er í Hellisheiðarvirkjun en þar kynntu íslenskir sérfræðingar og vísindamenn forseta Slóveníu og sendinefnd hans þróunina í nýtingu jarðhita á Íslandi og þann árangur sem hún hefur skilað á fjölmörgum sviðum íslensks atvinnulífs og þjóðlífs. Á málþinginu töluðu fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnunar, ÍSOR, Landbúnaðarháskóla Íslands og Mannvits.
04.05.2011 Forseti situr hádegisverð á Þingvöllum sem forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir heldur til heiðurs forseta Slóveníu, Danilo Türk.
04.05.2011 Forseti sækir málstofu í Háskóla Íslands þar sem Danilo Türk, forseti Slóveníu, flutti inngangserindi um reynsluna af þátttöku Slóveníu í Evrópusambandinu og framgöngu landsins á alþjóðavettvangi. Síðan svaraði forseti Slóveníu fyrirspurnum frá þátttakendum sem voru m.a. frá Háskóla Íslands og ráðuneytum.
04.05.2011 Forseti flytur ávarp ásamt forseta Slóveníu á viðskiptastefnu sem efnt er til í tengslum við opinbera heimsókn. Viðskiptastefnan var skipulögð af Íslandsstofu og sóttu hana fulltrúar fjölmargra fyrirtækja frá Slóveníu og Íslandi. Í ávarpi sínu fjallaði forseti um mörg tækifæri til aukinnar samvinnu, m.a. í nýtingu jarðhita, og nefndi dæmi um árangur íslenskra fyrirtækja á ýmsum sviðum.
05.05.2011 Forseti sækir afmælishátíð Öryrkjabandalags Íslands í tilefni af 50 ára afmæli bandalagsins. Forseti flytur ávarp á hátíðinni en einnig er birt kveðja frá forseta í afmælisriti. Ávörp fluttu og innanríkisráðherra og formaður Öryrkjabandalagsins og sýnd var ný heimildarmynd „Eitt samfélag fyrir alla“ um baráttuna í 50 ár.
06.05.2011 Forseti er viðstaddur samkomu í Ísaksskóla í tilefni af því að 85 ár eru liðin frá stofnun skólans. Nemendur fluttu tónlistaratriði og að því loknu heimsótti forseti kennslustofur og ræddi við nemendur.
07.05.2011 Forseti tekur á móti fulltrúum á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands en um þessar mundir eru liðin 60 ár frá stofnun þess.
07.05.2011 Forseti flytur ávarp við opnun sýningar á ævistarfi Einars Þorsteins, arkitekts, hönnuðar og hugsuðar en hann hefur verið brautryðjandi í gerð húsa og varpað nýju ljósi á samspil bygginga og umhverfis. Einnig hefur samvinna hans við Ólaf Elíasson verið merkileg. Listaverkið sem umlykur Hörpu byggir Ólafur á margvíddarsýn Einars Þorsteins.
09.05.2011 Forseti tekur á móti K-lyklinum en Kiwanishreyfingin gengst um þessar mundir fyrir fjársöfnun meðal þjóðarinnar. Andvirðinu verður varið í þágu geðhjálpar.
10.05.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kúbu, hr. Francisco Graupera, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Fjallað var um breytingar sem orðið hafa í stjórnkerfi og efnahagslífi Kúbu, samvinnu landsins við fjölmörg ríki Evrópu og möguleika á batnandi sambúð við Bandaríkin. Sendiherrann lýsti áhuga á að auka ferðamannastraum frá Íslandi sem og samvinnu í flugrekstri og á öðrum sviðum. Mynd.
10.05.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Tansaníu,  hr. Muhammed Mwinyi Mzale, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um möguleika á nýtingu jarðhita í Tansaníu en Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hefur þjálfað sérfræðinga frá ýmsum löndum í Afríku og íslenskir sérfræðingar hafa sinnt verkefnum í þessum heimshluta. Stjórnvöld í Tansaníu hafa mikinn áhuga á að auka hlutdeild hreinnar orku í orkubúskap landsins. Einnig var fjallað um samstarf forseta á fyrri árum við Julius Nyerere þáverandi forseta Tansaníu og ýmsa forystumenn landsins í tengslum við alþjóðlegt friðar- og afvopnunarátak. Mynd.
11.05.2011 Forseti sækir hátíðahöld í tilefni af 100 ára afmæli Vals og flytur ávarp. Forseti ritaði jafnframt kveðju í afmælisrit félagsins. Ávarp forseta í afmælisritinu.
11.05.2011 Forseti tekur á móti og ræðir við hóp starfsmanna og sérfræðinga Fornleifastofnunar Íslands sem skoðuðu fornminjar á Bessastöðum og árangur hinna ítarlegu fornminjarannsókna sem þar voru framkvæmdar fyrir 15-20 árum.
11.05.2011 Forseti á fund með Mead Treadwell, vararíkisstjóra Alaska, um málefni Norðurslóða og samvinnu milli Íslands og Alaska, aukið mikilvægi siglingaleiða, möguleika á nýtingu jarðhita í Alaska sem og þörf á samstarfi vísindamanna og sérfræðinga til að leggja grundvöll að farsælli stefnumótun. Mead Treadwell, sem fyrrum var formaður Norðurskautsráðs Bandaríkjanna, hefur um langt árabil verið öflugur þátttakandi í umræðum um málefni Norðurslóða og starfsemi Rannsóknarþings norðursins sem hefur höfuðstöðvar sínar hjá Háskólanum á Akureyri.
11.05.2011 Forseti flytur ávarp þegar ýtt er úr vör samstarfsverkefninu Áratugur aðgerða, herferð um umferðaröryggi 2011-2020. Átakið er að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og fer fram í öllum aðildarlöndum þeirra. Hér hafa innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum sem sinna umferðaröryggismálum skipulagt fræðslu og verkefni. Markmiðið er að draga verulega úr banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Í ávarpi sínu minnti forsetinn á þann mikla árangur sem náðst hefði á undanförnum árum við að draga úr dauðaslysum á sjó en það sýndi að hægt væri að ná árangri í slíkri varnarbaráttu. Það væri mikil mannfórn fyrir litla þjóð að á þriðja hundrað Íslendinga hefðu á síðustu tíu árum látist í umferðinni.
12.05.2011 Forseti á fund með sendinefnd frá rússneska þinginu, Dúmunni, en Liubov K. Sliska, varaforseti þingsins, fer fyrir henni. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Rússlands, meðal annars varðandi málefni Norðurslóða, svo sem siglingar, sjávarauðlindir, orkunýtingu og umhverfisvá. Þá var fjallað um jarðhitaverkefni í Rússlandi en þau hafa komist á dagskrá í framhaldi af heimsókn forseta Íslands til Rússlands á síðasta ári. Einnig mikilvægi þess að auka menningartengsl og gagnkvæmar heimsóknir listamanna sem og samvinnu menntastofnana og fræðasamfélags.
12.05.2011 Forseti er viðstaddur þegar lagður er hornsteinn fyrstu rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi. Biskup kirkjunnar og prestar önnuðust athöfnina að viðstöddum biskupi Íslands og biskupi kaþólskra. Fyrsta var rætt um slíka kirkjubyggingu á Íslandi á fundum forseta með Putin þáverandi forseta Rússlands í opinberri heimsókn forseta Íslands árið 2002.
12.05.2011 Forseti á fund með Júlíusi Hafstein um útkomu sögu handboltans á Íslandi en áætlað er að ritverkið komi út síðar á þessu ári.
13.05.2011 Forseti sækir opnunarhátíð Hörpu, nýs tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar. Á hátíðinni kemur fram fjöldi íslenskra listamanna. Hátíðinni er sjónvarpað í Ríkissjónvarpinu.
13.05.2011 Forseti tekur á móti hópi erlendra blaðamanna menningartímarita frá ýmsum löndum, fulltrúum tónlistarhúsa víða í Evrópu og fulltrúum þeirra aðila sem standa að hinu nýja tónlistarhúsi Hörpu. Móttakan er haldin í tilefni af opnunarhátíð Hörpu. Í ávarpi sínu fjallaði forseti um mikilvægi hússins fyrir íslenskt tónlistarlíf og menningu sem og tengsl okkar við umheiminn.
13.05.2011 Forseti á fund með Sidsel Ramson og Lars Olesen sem færa Listasafni Íslands að gjöf málverk eftir Carl-Henning Petersen en hann var ásamt Svavari Guðnasyni áhrifamaður í hinum þekkta Cobra hópi. Sumar myndanna eru málaðar í heimsóknum listamannsins til Íslands.
14.05.2011 Forseti flytur ávarp á þingi Evrópska sundsambandsins og afhendir við það tækifæri Þjóðminjasafni Íslands Pálsbikarinn sem Ásgeir Ásgeirsson forseti gaf fyrir rúmum 50 árum. Bikarinn hefur í hálfa öld verið afhentur þeim sundmanni sem unnið hefur mest afrek og hafa 26 íslenskir sundmenn hlotið bikarinn á þessu tímabili. Þjóðminjavörður Margrét Hallgrímsdóttir tók við bikarnum og verður hann varðveittur í Þjóðminjasafninu. Forseti gaf fyrir tveimur árum nýjan bikar kenndan við Ásgeir Ásgeirsson sem tók við hlutverki Pálsbikarsins. Vefsíða Sundsambands Íslands.
16.05.2011 Forseti afhendir Útflutningsverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin hlaut Ferðaþjónusta bænda. Einnig var afhent sérstök heiðursviðurkenning til einstaklings sem aukið hefur hróður Íslands á erlendri grundu. Slík heiðursviðurkenning er nýmæli. Viðurkenninguna hlaut Kristinn Sigmundsson óperusöngvari. Íslandsstofa hefur nú tekið við hlutverki Útflutningsráðs sem ábyrgðar- og umsjónaraðili Útflutningsverðlaunanna. Fréttatilkynning.
17.05.2011 Forseti á fund með Halldóri Guðmundssyni um bókmenntasýninguna sem haldin verður í Frankfurt í október. Þar verður Ísland í heiðurssæti og víðtæk og fjölbreytt kynning verður á íslenskum bókmenntum, Íslendingasögurnar koma út í nýrri þýskri útgáfu og yfir hundrað ritverk eftir íslenska höfunda hafa verið þýdd á þýsku af þessu tilefni.
19.05.2011 Forseti er viðstaddur útskrift nemenda úr Flutningaskóla Samskipa. Skólinn hefur starfað í þrjú ár og er merkileg nýjung í starfsfræðslu fyrirtækja. Í ávarpi áréttaði forseti að  mikilvægt væri að forystumenn í atvinnulífi skoðuðu vel það fordæmi sem flutningaskólinn hefur skapað og ræddi þýðingu öflugra flutningafyrirtækja fyrir samskipti Íslands við umheiminn. Með opnun nýrra siglingaleiða fælist í reynslu slíkra fyrirtækja og þekkingu starfsfólks mikilvæg auðlind. Fyrir útskriftarathöfnina kynnti forseti sér starfsemi Samskipa og heimsótti ýmsar starfsstöðvar fyrirtækisins á hafnarsvæðinu.
20.05.2011 Forseti er viðstaddur Listahátíðar sem fram fór í Hörpu.
21.05.2011 Forseti sækir ýmsa viðburði á Listahátíð; sýningar í Listasafni Reykjavíkur, útiatriði á Austurvelli og tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Jonas Kaupfmann í Hörpu.
21.05.2011 Forseti opnar vorsýningu Iðnskólans í Hafnarfirði þar sem nemendur í ýmsum deildum sýna afrakstur vetrarins, nýjungar á mörgum sviðum og fjölmarga kjörgripi. Iðnskólinn byggir á grunni hefðbundins iðnnáms en hefur einnig haslað sér völl sem listnámsskóli.
23.05.2011 Forseti sækir sýningu nemenda Garðaskóla í Garðabæ á söngleiknum Footloose. Nemendur hafa sýnt söngleikinn nokkrum sinnum og hefur ágóða af einni sýningu verið varið til að styrkja dreng sem glímir við hvítblæði.
23.05.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Brasilíu, hr. Carlos Henrique Cardim, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukið vægi Brasilíu í efnahagslífi heimsins eins og umfjallanir um ríkjahópinn sem kenndur er við BRIC (Brasilía, Rússland, Indland og Kína) gefa til kynna. Einnig skipti þróunin á Norðurslóðum Brasilíu miklu máli sem og loftslagsbreytingar vegna bráðnunar íss. Í Brasilíu eru stundaðar rannsóknir á Suðurskautinu og nauðsynlegt er að efla tengsl þarlends fræðasamfélags við rannsóknir á Norðurslóðum. Einnig hafa stjórnvöld í Brasilíu áhuga á að kynna sér skipulag fiskveiða og nýtingu hreinnar orku á Íslandi. Mynd.
24.05.2011 Forseti tekur á móti sveit ungs fólks sem mun halda í alþjóðlegar sumarbúðir barna í ýmsum löndum, m.a. í Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku.
24.05.2011 Forseti ræðir við fréttamann í hádegisþætti bresku útvarpsstöðvarinnar BBC4 og einnig við fréttamann alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarinnar BBC World News um eldgosið í Grímsvötnum, áhrif þess á Íslandi og á flugsamgöngur í Evrópu sem og rannsóknir vísindamanna á eldfjöllum, samstöðu íbúanna á svæðinu og starf björgunarsveita. Einnig var fjallað um samanburð á þessu gosi og því í Eyjafjallajökli í fyrra og nefnt að áhrifin á flugumferð í Evrópu verða að öllum líkindum mun minni.
24.05.2011 Forseti ræðir við Pierce Morgan í bandarískri og alþjóðlegri útgáfu frétta sjónvarpsstöðvarinnar CNN um eldgosið í Grímsvötnum, áhrif þess á íbúa svæðisins og á flugsamgöngur í Evrópu.
24.05.2011 Forseti ræðir við stjórnanda aðalfréttaþáttar heimsútvarpsstöðvarinnar BBC World Service um gosið í Grímsvötnum, þróun þess í dag og horfurnar á næstunni, áhrifin á íbúana og flugsamgöngur bæði á Íslandi og í Evrópu. Einnig var fjallað um ferðaþjónustuna á Íslandi en síðasta ár hefði verið metár þrátt fyrir gosið í Eyjafjallajökli og væntanlega yrðu aðeins tímabundin áhrif af gosinu í Grímsvötnum.
25.05.2011 Forseti heimsækir miðstöð Almannavarna og hjálparstarfs á Kirkjubæjarklaustri og kynnir sér samhæfingu aðgerða en fulltrúar lögreglu, Landsbjargar, heimamanna og heilbrigðisþjónustu hafa starfað ötullega saman frá því gosið hófst. Þá kynnti forseti sér störf slökkviliða sem komið hafa víða að til þess að ryðja ösku af þökum og hreinsa til. Einnig ræddi forseti við fulltrúa sveitarstjórnar og heimsótti bændur sem glímt hafa við afleiðingar gossins.
25.05.2011 Forseti á fund með Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Guðjóni Inga Eiríkssyni um væntanlega útkomu bókar um Íshafsskipalestirnar sem fóru frá Hvalfirði til Rússlands í síðari heimsstyrjöldinni. Bókin fjallar einnig um sjóhernað í Norður-Íshafi á árunum 1940-1943. Varpar hún nýju ljósi á stöðu Íslands í síðari heimsstyrjöldinni.
26.05.2011 Forseti heimsækir á ný miðstöð almannavarna á Kirkjubæjarklaustri og ræðir við fólk úr björgunarsveitum, slökkviliðum og lögreglu sem voru að halda á hina ýmsu bæi austar í sýslunni til að hjálpa til við hreinsunarstörf og taka þátt í öðrum aðgerðum. Þá fer forseti um sveitir og skoðar áhrif gossins á landbúnað og ræðir við bændur. Fréttatilkynning.
26.05.2011 Forseti ræðir við fréttamenn alþjóða sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera í beinni útsendingu frá Kirkjubæjarklaustri um viðbrögðin við gosinu í Grímsvötnum, styrk hins samhæfða almannavarna- og hjálparkerfis sem þróað hefur verið á Íslandi sem og líkur á aukinni tíðni gosa á þessari og næstu öldum í kjölfar bráðnunar jökla.

Júní

02.06.2011 Forseti er viðstaddur hátíðarhöld í Róm í tilefni af því að 150 ár eru liðin frá sameiningu Ítalíu í eitt ríki. Fréttatilkynning. Mynd.
05.06.2011 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum í tilefni sjómannadagsins á Patreksfirði. Fyrir hádegi verður hann viðstaddur þegar blóm verða lögð að minnisvarða um látna sjómenn og sækir sjómannadagsmessu í Patreksfjarðarkirkju. Þá mun forseti flytja hátíðarræðu dagsins á útisamkomu sem hefst klukkan 14:00. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
08.06.2011 Forseti flytur ræðu á þingi Háskóla Norðurslóða í Rovaniemi í Finnlandi. Hátt á annað hundrað háskólar og rannsóknarstofnanir taka þátt í þessu samstarfi og eru þeir frá öllum Norðurlöndum, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi. Þingið var haldið í tilefni 10 ára afmælis samstarfs háskólanna. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
09.06.2011 Forseti tekur á móti fulltrúum English Speaking Union frá ýmsum löndum sem komið hafa til Íslands í tilefni þess að stofnuð verður Íslandsdeild samtakanna.
10.06.2011 Forseti afhendir viðurkenningar til ungra Íslendinga sem JC hreyfingin veitir árlega en forseti er verndari verðlaunanna. Þau voru að þessu sinni veitt Freyju Haraldsdóttur og Magnúsi Geir Þórðarsyni.  Vefsíða samtakanna.
10.06.2011 Forseti á fund með erlendum og íslenskum sérfræðingum sem taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um vímuefnafíkn sem haldin er af SÁÁ. Á ráðstefnunni hefur sérstaklega verið fjallað um amfetamín- og rítalínfíkn og alvarlegar afleiðingar vímuefnaneyslu, vaxandi fjölda sprautufíkla á Íslandi og nýjar tölur um útbreiðslu HIV sem gefa til kynna að faraldur kunni að vera í uppsiglingu hér ef ekki verður þegar gripið til varúðarráðstafana og meðferðar.  Vefsíða SÁÁ.
13.06.2011 Forseti er viðstaddur opnun Æðarseturs Íslands í Stykkishólmi og flytur stutt ávarp. Setrið er fyrsta safnið sem helgað er æðarfuglinum, sess hans í náttúru Íslands og hvernig dúnninn hefur verið nýttur í tímans rás. Forsetafrú er verndari Æðarsetursins og opnaði það formlega.
14.06.2011 Forseti á fund með hr. Katsuhiro Natsume, sendifulltrúa Japans á Íslandi, sem senn lætur af störfum, um samvinnu landanna á mörgum sviðum og aukin tækifæri á komandi árum.
14.06.2011 Forseti á fund með Geir Ólafssyni sem vinnur að rannsóknum á framlagi Íslendinga á sviði hreinnar orku, hvernig stjórnvöld, fræðasamfélag og fyrirtæki kynna reynslu landsins á alþjóðlegum vettvangi.
15.06.2011 Forseti á fund með sendiherra Rúmeníu á Íslandi, hr. Alexandru Victor Micula, sem senn lætur af störfum. Rætt var um samstarf á sviði orkumála, einkum nýtingu jarðhitasvæða í Rúmeníu, en það mál var á dagskrá í opinberri heimsókn forseta Íslands til Rúmeníu fyrir fjórum árum. Ennfremur var fjallað um stjórnmálaþróunina í landinu, áhrif efnahagskreppunnar í Grikklandi á nágrannalöndin og samstarfið innan Evrópusambandsins.
15.06.2011 Forseti á fund með sendiherra Búlgaríu á Íslandi, hr. Nikolas Karadimov, sem senn lætur af störfum. Rætt var um reynslu landanna á undanförnum árum, samvinnu á ýmsum sviðum og þá flóknu stöðu sem pólitískar breytingar í Búlgaríu hafa haft í för með sér sem og ýmis vandamál sem hafa verið samfara því að laga landið að reglum Evrópusambandsins.
15.06.2011 Forseti á fund með sendiherra Ungverjalands á Íslandi, hr. Lajos Bozi, sem senn lætur af störfum. Rætt var um reynslu Íslands í kjölfar fjármálakreppunnar og þá margvíslegu erfiðleika sem Ungverjar hafa glímt við á undanförnum árum, viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu og hitaveituverkefni sem verkfræðifyrirtækið Mannvit vinnur nú að í Ungverjalandi.
16.06.2011 Forseti tekur á móti fjölmennri sveit erlendra sendiherra, bæði þeim sem aðsetur hafa á Íslandi og mörgum tugum sendiherra erlendra ríkja sem komið hafa til Íslands í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní.
16.06.2011 Forseti sæmir ellefu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf þeirra í þágu þjóðarinnar. Fréttatilkynning. Mynd.
17.06.2011 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum á Hrafnseyri í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Forseti leggur blómsveig að minnisvarðanum á Hrafnseyri og flytur hátíðarræðu. Ræða forseta. Myndir (ljósmyndari: Gunnar Vigfússon). Myndir frá Hrafnseyrarhátíð 17. júní 1961, á 150 ára afmæli Jóns Sigurðssonar (ljósmyndari: Vigfús Sigurgeirsson).
17.06.2011 Forseti er viðstaddur athöfn í Alþingishúsinu þar sem þess er minnst að hundrað ár eru frá stofnun Háskóla Íslands.
17.06.2011 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum á Austurvelli og leggur blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar. Áður var guðþjónusta í Dómkirkjunni.
20.06.2011 Forseti flytur ræðu á setningarathöfn fjölþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er í Alaska. Viðfangsefni hennar er að ræða nauðsyn framkvæmda og sérstakra framtíðaráætlana með tilliti til nýrra siglingaleiða sem bráðnun íss á Norðurslóðum mun innan tíðar hafa í för með sér. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
22.06.2011 Á fundum forseta Íslands í Alaska undanfarna tvo daga hefur komið fram ríkur vilji forystumanna Alaska ríkis að auka samstarf við Ísland, nýta sér þekkingu á sviði jarðhita og rækta sameiginlega hagsmuni á sviði fiskveiða og samgangna á Norðurslóðum, bæði farþegaflugs og vöruflutninga. Fréttatilkynning. Myndir
23.06.2011 Á leið sinni heim frá Alaska dvaldi forseti rúman sólarhring í Seattle og tók þar þátt í málþingi, fundum og viðræðum um margvísleg tækifæri til aukinnar samvinnu milli Íslands og fyrirtækja, háskóla og rannsóknarstofnana á Seattle svæðinu. Hvarvetna kom fram mikill áhugi á að efla samvinnu við Íslendinga á fjölmörgum sviðum. Fréttatilkynning Myndir
24.06.2011  Forseti ræðir við sendinefnd þingmanna frá Indlandi um samstarf landanna á ýmsum sviðum, m.a. í nýtingu jarðhita, upplýsingatækni, jöklarannsóknum og á fleiri sviðum. Einnig var fjallað um hvernig breytingar á Norðurslóðum hafa aukið áhuga landa í Asíu á Íslandi, einkum með tilliti til hugsanlegra siglingaleiða. Sendinefndina skipa þingmann frá ýmsum flokkum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu og eiga þeir sæti í báðum deildum indverska þingsins.
26.06.2011 Forseti ræðir við fulltrúa bandaríska flugfélagsins Delta sem nýlega hefur hafið áætlunarflug til Íslands. Rætt var um hvernig fjölga mætti bandarískum ferðamönnum til Íslands, fjölbreytileika náttúrunnar, samfélag og menningu.
26.06.2011 Forseti á ræðir við Davíð Gíslason, bónda og forystumann í samfélagi Vestur Íslendinga í Kanada um aukin samskipti á undanförnum árum og hvernig hægt er að styrkja tengslin einkum með tilliti til yngri kynslóða.
28.06.2011 Forseti ræðir við fréttamenn frá portúgölsku útvarpsstöðinni Rádio Renascença um lærdómana sem draga má af bankakreppunni, endurreisn íslensks efnahagslífs og aðgerðir á sviði stjórnmála og samfélags. Þá var einnig rætt um bókmenntaarf Íslendinga og mikilvægi bókmennta í nútímanum og heiðursess sem Ísland mun skipa á bókasýningunni í Frankfurt.
28.06.2011 Forseti ræðir við prófessor Michael Porter frá Harvard háskóla en unnið hefur verið að samvinnu íslenskra fyrirtækja og rannsóknarstofnana á sviði jarðhitanýtingar með hliðsjón af kenningum prófessors Porters,  sóknarfærunum sem slík samvinna skapar. Í heimsókn hans nú var Iceland Geothermal formlega stofnað sem slíkur samstarfsvettvangur, m.a. á grundvelli tillagna sem settar voru fram á jarðhitaráðstefnu fyrir nokkrum mánuðum. Forseti var verndari þeirrar ráðstefnu.
29.06.2011 Forseti ræðir við forsvarsmenn Rannsóknarráðs Norðurslóða í Bandaríkjunum, US Arctic Research Commission en þeir tóku nýlega þátt í stórri ráðstefnu félagsvísindafólks á Norðurslóðum sem var haldin á Akureyri. Rætt var um rannsóknarsamstarf á Norðurslóðum, framlag íslenskra vísindamanna og aukið mikilvægi Norðurslóða. Þá var einnig fjallað um samstarf Alaska og Íslands en Fran Ulmer, formaður Rannsóknarráðsins hefur einnig verið forystumaður í málefnum Alaska.
29.06.2011 Forseti ræðir um væntanlegan Forvarnardag við fulltrúa Rannsókna og greiningar sem séð hafa um faglegan undirbúning dagsins og fulltrúa Actavis sem verið hefur styrktaraðili frá upphafi. Forvarnardagurinn verður væntanlega haldinn næstkomandi september með þátttöku skóla í öllum landshlutum.

Júlí

01.07.2011 Forseti verður viðstaddur brúðkaup Alberts II og Charlène Wittstock sem fram fer í Mónakó á morgun, laugardaginn 2. júlí. Að lokinni vígsluathöfn í dómkirkjunni er boðið til hátíðarkvöldverðar í höllinni. Albert prins hefur verið virkur þátttakandi í málefnum Norðurslóða sem og í alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar. Stofnun hans hefur styrkt fjölmörg verkefni á þeim sviðum, m.a. alþjóðleg málþing um heimskautarétt sem haldin hafa verið á vegum Háskólans á Akureyri. Þá hefur hann einnig verið mikill stuðningsmaður Smáþjóðaleikanna, íþróttahátíðar smæstu ríkja í Evrópu, og heimsótti m.a. Ísland þegar þeir voru haldnir hér.
12.07.2011 Forseti ræðir við blaðamann Reykjavík Grapevine um nýtingu jarðhita, árangur Íslendinga á því sviði og ávinning þjóðarbúsins sem og hvernig tækniþekking og kunnátta geta nýst öðrum þjóðum; breyting orkukerfa sé nauðsynlegur þáttur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
13.07.2011 Forseti tekur þátt í málþingi á vegum alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarinnar CNBC en það bar heitið Energy Opportunities. Rúmlega sextíu forystumenn ýmissa stórfyrirtækja, sérfræðistofnana og fjárfestingarsjóða tóku þátt í málþinginu en verkefni þess var að meta hvernig samgöngukerfi nútíðar og framtíðar gæti í auknum mæli byggst á nýtingu hreinnar orku. Forseti flutti ávarp á málþinginu og rakti m.a. sögu vetnisverkefnisins á Íslandi, en það byggðist meðal annars á samstarfi við Daimler Chrysler og Shell, sem og hugmyndir um að auka notkun rafbíla og annarra umhverfisvænna ökutækja á Íslandi.
13.07.2011 Forseti ræðir við fréttamann alþjóðlegu sjónvarpsstöðvarinnar CNBC um þróun hreinnar orku, árangur Íslands á því sviði og hvernig kunnátta og tækniþekking getur nýst öðrum þjóðum, m.a. með tilliti til nýlegra borana í Bretlandi. Einnig var rætt um alþjóðlegt samstarf í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og hvort áherslur eigi að vera á staðbundið frumkvæði eða alþjóðlega samninga.
14.07.2011 Forseti ræðir við rektor Ríkisháskólans í Ohio (Ohio State University) sem heimsækir Ísland ásamt hópi forystumanna háskólans. Ríkisháskólinn hefur áhuga á auknu samstarfi við íslenska háskóla og vísindasamfélag, m.a. á sviði orkumála, landgræðslu, landbúnaðar og loftslagsrannsókna. Sendinefndin kom til Íslands í framhaldi af heimsókn forseta til Ríkisháskólans fyrir rúmu ári. Gerðir hafa verið samningar um samvinnu við íslenska háskóla og tóku rektorar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri ásamt öðrum þátt í viðræðum forseta við rektor og forystumenn Ríkisháskólans.
15.07.2011 Forseti á fund með prófessor Rattan Lal og fulltrúum Ríkisháskólans í Ohio um samvinnu á sviði rannsókna á vatnsbúskap, jarðvegi, jöklum og loftslagi. Slík samvinna fæli í sér tengsl íslenskra og bandarískra vísindamanna við sérfræðinga í Afríku og Asíu.
15.07.2011 Forseti ræðir við blaðamann fylgirits ítalska dagblaðsins La Repubblica um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi, samanburð við erfiðleika ýmissa Evrópuríkja og samspil fjármálalegra og stjórnmálalegra umbóta. Fylgiritið sem ber heitið XL kemur út mánaðarlega og er einkum ætlað ungu fólki.
16.07.2011 Forseti ræðir við sendinefnd frá Kínversku vísindaakademíunni sem heimsótt hefur Ísland til undirbúnings alþjóðlegri vísindaráðstefnu sem haldin verður hér í næsta mánuði. Viðfangsefni hennar verður að fjalla um áhrif loftslagsbreytinga á jökla í Himalajafjöllum, gróðurfar og vatnsbúskap. Þátttakendur verða vísindamenn frá löndum Himalajasvæðisins, Evrópu og Bandaríkjunum. Ráðstefnan verður í boði Háskóla Íslands og forsetaembættisins.
16.07.2011 Forseti tekur þátt í málþingi sem haldið er í Skálholti. Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar skipulagði málþingið sem bar heitið Hlutverk trúar og trúarbragða í sáttargjörð. Þar fjölluðu dr. Magnús Þorkell Bernharðsson og dr. Susannah Heschel um sambúð ólíkra trúarbragða og þá lærdóma sem draga má af sögu kristni, gyðingatrúar og íslams.
17.07.2011 Forseti ræðir við Porfirio Muñoz Ledo, formann utanríkismálanefndar fulltrúadeildar þingsins í Mexíkó um þróun stjórnskipunar í Evrópu og Suður-Ameríku.
18.07.2011 Forseti ræðir við fréttamann  spænsku sjónvarpsstöðvarinnar TV3 um þróunina á Íslandi í kjölfar bankakreppunnar, endurreisn efnahagslífsins, aðgerðir á sviði stjórnkerfis og réttarfars. Einnig var fjallað um að hvaða leyti viðbrögð og reynsla Íslendinga væri forvitnileg fyrir Spánverja og aðrar þjóðir í Suður-Evrópu í ljósi þeirra erfiðleika sem þær nú glíma við.
19.07.2011 Forseti á fund með sendiherra Indlands á Íslandi, S. Swaminathan, um aukið samstarf landanna en ýmis verkefni eru nú á dagskrá, bæði á sviði upplýsingatækni, iðnaðar, ferðaþjónustu og heilsuverndar.
19.07.2011 Forseti á fund með Ajit Hutheesing og Sigrúnu Kristínu Baldursdóttur ræðismanni Íslands í Ástralíu sem skipulagði ferð Hutheesing til Íslands. Rætt var um þróun Indlands á undanförnum áratugum sem og framtíð landsins. Móðir Ajit Hutheesing var systir Nehru, fyrsta forsætisráðherra Indlands, en Ajit Hutheesing hefur haft margvísleg tækifæri til að fylgjast með þróun landsins bæði vegna þeirra tengsla sem og vegna starfa sinna á alþjóðavettvangi m.a. fyrir Alþjóðabankann.
19.07.2011 Forseti ræðir við Árna Mathiesen, stjórnanda sjávarútvegsmála hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, um verkefni stofnunarinnar, nauðsyn alþjóðlegs samstarfs við verndun fiskistofna sem og hvernig reynsla Íslendinga getur nýst öðrum þjóðum, einkum hvernig upplýsingatækni hefur auðveldað skipulag ábyrgra fiskveiða.
20.07.2011 Forseti tekur þátt í samræðum við Porfirio Muñoz Ledo, formann utanríkismálanefndar fulltrúadeildar þingsins í Mexíkó og fyrrum ráðherra og sendiherra, um samspil markaðsbúskapar og félagshyggju, lærdómana af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, þróun alþjóðamála, sambúð Bandaríkjanna og Mexíkó og baráttuna gegn eiturlyfjahringum.
20.07.2011 Forseti á fund með Birgittu Jónsdóttur alþingismanni um alþjóðlegt verkefni um verndun upplýsinga en unnið hefur verið að útfærslu tillagna og laga um slíka varðveislu á Íslandi. Mikill alþjóðlegur áhugi er á verkefninu.
20.07.2011 Forseti á fund með Fiann Paul sem róið hefur yfir Atlantshafið og áformar samskonar leiðangur yfir Indlandshaf. Rætt var um dvöl hans á Grænlandi og verkefni í Himalayjafjöllum þar sem hann m.a. styrkir byggingu skóla. Fiann Paul á tvö heimsmet í úthafsróðri. Hann hefur einnig unnið að ljósmyndun mannlífs og landslags á Íslandi,  Grænlandi og í Færeyjum.
21.07.2011 Forseti á fund með sendiherra Íslands í Kína, Kristínu A. Árnadóttur, um samvinnu landanna á ýmsum sviðum, aukinn áhuga á hreinni orku í Kína og viðbrögðum við jarðskjálftum. Samstarf á sviði vísinda og bókmennta hefur einnig verið að styrkjast og mörg íslensk fyrirtæki starfa í Kína.
21.07.2011 Forseti ræðir við þátttakendur í Snorraverkefninu, ungmenni af íslenskum ættum frá Kanada og Bandaríkjunum. Snorraverkefnið hefur átt mikinn þátt í að auka tengsl við byggðir Vestur-Íslendinga og hafa nokkur hundruð ungmenni tekið þátt í því á undanförnum árum.
23.07.2011 Forseti sendi samúðarkveðjur til Haraldar Noregskonungs og norsku þjóðarinnar. Í kveðjunni lýsti forseti djúpri samúð allra Íslendinga vegna hinna skelfilegu atburða í Noregi. Hugur okkar væri hjá fjölskyldum og vinum þeirra sem látist hefðu og við vonuðum að þau hefðu styrk til að glíma við hina miklu sorg. Fréttatilkynning
 24.07.2011  Forseti sækir lokatónleika Reykholtshátíðar þar sem flytjendur eru íslenskir og erlendir tónlistarmenn. Tónleikarnir voru sérstaklega tileinkaðir fimmtán ára afmæli Reykholtshátíðar.
 24.07.2011  Forseti sækir guðþjónustu í Reykholtskirkju í tilefni af fimmtán ára afmæli kirkjunnar. Þar var einnig lýst samstöðu Íslendinga með Norðmönnum. Uppbyggingin í Reykholti, Snorrastofan og kirkjan hafa notið margvíslegs stuðnings frá Noregi.
 24.07.2011  Forseti er viðstaddur guðþjónustu í Dómkirkjunni þar sem lýst var samstöðu og samhug Íslendinga gagnvart Norðmönnum í kjölfar hinna skelfilegu atburða í Noregi. Biskup Íslands flutti predikun og sendiherra Norðmanna ávarp.
 25.07.2011 Forseti tekur á móti stórum hópi ungs fólks frá fjórtán þjóðlöndum sem á næstu vikum mun ferðast um Norðurslóðir, m.a. Ísland, Grænland og Kanada. Tilgangurinn er að fræðast um þróun loftslagsbreytinga, mannlíf og þjóðfélagshætti. Leiðangurinn ber heitið Students on Ice Expeditions.
 25.07.2011  Forseti á fund með Hauki Harðarsyni sem búsettur er í Víetnam og unnið hefur að margvíslegum viðskiptum í Asíulöndum.
26.07.2011 Forseti ræðir við fréttamann BBC útvarpsins um viðbrögð Íslendinga við bankakreppunni, endurreisn efnahagslífisins, vanda Evrópuþjóða og lýðræðislegar og stjórnmálalegar umbætur.
26.07.2011 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni um undirbúning vegna fræðiráðstefnu um Þriðja pólinn en það er nafngift sem æ meir er notuð um Himalayasvæðið. Fræðaþingið munu sækja sérfræðingar frá löndum Himalayasvæðisins, Bandaríkjunum og Evrópu. Þar verður fjallað um bráðnun jökla, gróðurfar og vatnsbúskap.
27.07.2011 Forseti ræðir við borgarstjóra Los Angeles Antonio Villaraigosa og hóp áhrifamanna í viðskiptum og menningarlífi um viðbrögð Íslendinga við fjármálakreppunni, vanda kjörinna fulltrúa á krepputímum, þróun mála í Bandaríkjunum og Evrópu, lærdómana sem reynsla Íslendinga felur í sér. Einnig var fjallað um glímu borgarsamfélaga við að tryggja velferð íbúanna, menntun og þjónustu sem og þær stoðir í samgöngum og mannvirkjum sem nútímaborgarsamfélag verður að hvíla á.

Ágúst

02.08.2011 Forseti sendir Annie Mist Þórisdóttur heillaóskir í tilefni af sigri hennar á Heimsleikum í crossfit. Fréttatilkynning.
02.08.2011 Forseti á fund með Erni Arnar aðalræðismanni Íslands í Minneapolis um samskipti Íslands og Bandaríkjanna, fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum til Íslands og árangur af reglulegu flugi frá Minneapolis.
02.08.2011 Forseti á fund með Margréti Cela um stofnun, tilgang og þróun Rannsóknarþings Norðursins sem starfað hefur í rúman áratug. Þingið er samstarfsvettvangur fræðimanna, kjörinna fulltrúa, embættismanna og almannasamtaka á Norðurslóðum. Aðalskrifstofa ráðsins er hjá Háskólanum á Akureyri og næsta þing verður haldið á Íslandi n.k. september.
02.08.2011 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni um undirbúning að tveimur alþjóðlegum ráðstefnum sem haldnar verða á Íslandi síðar á þessu ári. Þær fjalla um bráðnun jökla, ísbreiður, loftslagsbreytingar, vatnsbúskap, mannlíf og náttúru. Önnur er helguð Himalayjasvæðinu og hin Norðurslóðum.
03.08.2011 Forseti birtir heiðurskveðju til dr. Guðmundar Alfreðssonar í ritinu Making Peoples Heard. Í ritinu er fjöldi greina eftir ýmsa fremstu fræðimenn veraldar á sviði mannréttinda og er það gefið út til heiðurs Guðmundi og sem þakkarvottur fyrir hans merka starf á þessu sviði. Kveðja forseta á íslensku, á ensku.
12.08.2011 Forseti á fund með Sid L. Scruggs, fyrrum alþjóðaforseta Lionshreyfingarinnar og nokkrum forystumönnum hennar á Íslandi um starf hreyfingarinnar víða um heim og hér á landi, einkum vaxandi áherslur á baráttu gegn fátækt, fyrir bættum lífskjörum og nýtingu hreinna orkugjafa í efnaminni samfélögum. Aðildarfélög Lionshreyfingarinnar leggja nú enn meiri áherslu á margvísleg velferðarverkefni í sínum heimabyggðum. Einnig var fjallað um öflugt framlag Lionshreyfingarinnar til íslensks samfélags.
 13.08.2011 Forseti flytur ávarp við vígslu hins endurgerða pakkhúss í Vatnshorni í Skorradal. Það var upphaflega reist úr norskum viði en nú hafa heimamenn endurgert það úr íslenskum skógviði. Það er í fyrsta sinn sem slíkt er gert og skapar fordæmi í varðveislu gamalla húsa. Ávarp forseta
14.08.2011 Forseti ræðir við William McDonough arkitekt og hóp erlends áhrifafólks um nýjar áherslur í sjálfbærni borga og bygginga, einkum með tilliti til endurnýtingar efnis og hreinnar orku. William McDonough er einn fremsti sérfræðingur veraldar á þessu sviði, höfundur grundvallarritsins Cradle to Cradle og deildarforseti arkitektadeildar Virgíníuháskóla í Bandaríkjunum.
15.08.2011 Forseti ræðir við Peter Ewart, blaðamann við Opinion 250 News í Kanada, og Dawn Hemingway, prófessor við Háskólann í British Columbia, um lærdómana sem draga má af fjármálakreppunni, þróun lýðræðis og stjórnmála í kjölfar efnahagslegra erfiðleika, samfélagsþróun á Íslandi og alþjóðlegar áherslur í umræðu síðustu ára.
16.08.2011 Forseti ræðir við Sigurð Sæberg Jónsson um gerð heimildarmynda og þróun fjölmiðlunar á Íslandi.
16.08.2011 Forseti á fund með Kjartani Ólafssyni og Benedikt Guðmundssyni um aukna notkun rafmagnsbíla, einkum hópferðabíla. Ísland er kjörinn vettvangur til að þróa slíka umferð og styrkja þannig stöðu landsins á sviði umhverfisverndar og hreinnar orku. Mikilvægt er að efla samstarf við önnur lönd á þessu sviði.
16.08.2011 Forseti tekur á móti börnum og unglingum frá dagvistarheimilinu Lyngási sem heimsækja Bessastaði ásamt starfsfólki.
17.08.2011 Forseti á fund með Jóhanni Einarssyni ræðismanni Íslands í Mónakó um samskipti landanna, eflingu þeirra á ýmsum sviðum sem og þróun verktakastarfsemi, fiskútflutnings til Bandaríkjanna og alþjóðlegan flugrekstur Íslendinga á síðari hluta tuttugustu aldar.
18.08.2011 Forseti er viðstaddur opnun sýningar á ljósmyndum sem varpa ljósi á líf og list mexíkósku málaranna Diego Rivera og Frida Kahlo. Sýningin er skipulögð af sendiherra Mexíkó á Íslandi Martha Bárcena Coqui og flutti hún ávarp við opnunina.
18.08.2011 Forseti á fund með Francis Burry, forstjóra Alþjóða hugverkastöðvarinnar, um þróun einkaleyfa fyrir hugverk og breytingar á framlagi einstakra landa, m.a. fjölgun hugverkaleyfa í Kína. Einnig var rætt hvaða áhrif ný upplýsingatækni hefur á útbreiðslu hugverka og þróun samfélaga, lýðræðis og stjórnmála.
19.08.2011 Forseti á fund með sjávarútvegsráðherra Brasilíu hr. Luiz Sergio Oliveira og sendinefnd hans sem heimsækir Ísland til að kynnast skipulagi og tækni í sjávarútvegi og hvernig Brasilía getur hagnýtt sér reynslu og þekkingu Íslendinga til að þróa áfram sjálfbæran og arðbæran sjávarútveg.
19.08.2011 Forseti tekur á móti sendinefnd frá Seattle, systurborg Reykjavíkur sem tekur þátt í Menningarnótt, og fulltrúum frá systraborgarsamtökunum í Reykjavík og sendiráði Bandaríkjanna. Með í hópnum voru fulltrúar Quileute indíána en þeir kappkosta að viðhalda lífsháttum og menningu frumbyggja á Seattlesvæðinu. Samskipti Reykjavíkur og Seattle hafa vaxið á undanförnum árum, tengsl milli háskóla hafa dafnað og þá hefur ferðamönnum þaðan fjölgað.
19.08.2011 Forseti ræðir við hóp íslenskra og erlendra athafnamanna um reynslu Íslendinga við að þróa sjálfbæran sjávarútveg og hvað aðrar þjóðir geta nýtt sér af aðferðum og tækni sem þróaðar hafa verið á Íslandi.
19.08.2011 Forseti mun setja Íslandsdag sem haldinn verður í Tallinn, höfuðborg Eistlands, sunnudaginn 21. ágúst, í tilefni þess að Íslendingar urðu fyrir 20 árum fyrstir allra þjóða til að viðurkenna fullt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.
Forsetinn mun flytja ávarp sitt á hinni árlegu sönghátíð „Söngvar frelsisins“ en slíkar hátíðir voru á Sovéttímanum mikilvægur vettvangur í  andófi og frelsisbaráttu Eistlendinga. Ávarpið verður flutt á miðnætti þegar Íslandsdagurinn gengur í garð.
Forseti Íslands mun síðdegis á morgun, laugardaginn 20. ágúst, eiga fund með forseta Eistlands, Toomas Hendrik Ilves, sem setur sönghátíðina síðar um kvöldið. Forseti Íslands mun einnig sitja kvöldverðarboð Eistlandsforseta.
Fjölmargir íslenskir tónlistarmenn og kórar taka þátt í Íslandsdeginum, opnaðar verða sýningar á íslenskri hönnun og ljósmyndum frá Íslandi. Einnig verður kynning á íslenskum mat. Viðburðirnir eru skipulagðir víða um Tallinn, höfuðborg Eistlands.
20.08.2011 Forseti setur Íslandsdag sem haldinn er í Tallinn, höfuðborg Eistlands í tilefni þess að Íslendingar urðu fyrir 20 árum fyrstir allra þjóða til að viðurkenna fullt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Myndir. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
21.08.2011 Forseti sækir minningarathöfn norsku þjóðarinnar um þá sem létu lífið í Útey og í sprengingunni við stjórnarráðsbyggingarnar. Athöfnin verður í Oslo Spektrum miðstöðinni í Ósló og hefst klukkan 15:00 að norskum tíma. Hana sækja þjóðhöfðingjar Noregs, Íslands og Finnlands og ríkisarfar Danmerkur og Svíþjóðar auk annarra norrænna og norskra ráðamanna. Fréttatilkynning.
22.08.2011 Forseti á fund með kínverska ljóðskáldinu og athafnamanninum Huang Nubo sem skipulagt hefur ljóðahátíðir á Íslandi og í Kína og áformar að efla straum ferðamanna frá Kína og Bandaríkjunum til Íslands. Mörg íslensk ljóðskáld munu sækja ljóðahátíð sem haldin verður í Háskólanum í Beijing í haust en hliðstæð hátíð var haldin á Íslandi í fyrra. Fundinn sátu einnig sendiherra Kína á Íslandi Su Ge og Íslendingar sem gengu með Huang Nubo á Norðurpólinn.
23.08.2011 Forseti á fund með sendinefnd sérfræðinga frá Heimskauta- og hafrannsóknastofnunum í Kína um samvinnu við Ísland með sérstöku tilliti til rannsókna á Norðurslóðum, bæði varðandi bráðnun íss, breytingar á náttúru og samfélög. Sendinefndin kemur til Íslands í framhaldi af viðræðum sem forseti átti í Kína í fyrra og tók hún þátt í fjölmörgum vinnufundum með íslenskum vísindastofnunum og sérfræðingum. Auk þess heimsækir sendinefndin Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólann á Akureyri.
23.08.2011 Forseti afhendir á Bessastöðum styrki til ýmissa góðgerðamála en þeir eru afrakstur af fjársöfnuninni Borðum til góðs sem haldin var í Garðinum í síðasta mánuði. Auk forseta flutti Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garðinum ávarp af þessu tilefni en Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins hefur einnig verið frumkvöðull að þessari styrktarstarfsemi. Vefsíða um verkefnið.
24.08.2011 Forseti Litháens dr. Dalia Grybauskaitė kemur í opinbera heimsókn til Íslands á morgun, fimmtudaginn 25. ágúst. Á öðrum degi heimsóknarinnar verða liðin nákvæmlega 20 ár frá því að Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna fullt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja. Í heimsókn forseta Litháens verður þeirra tímamóta minnst með ýmsum hætti, m.a. með sérstakri athöfn í Höfða að morgni föstudagsins 26. ágúst en þar undirrituðu utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands samkomulag þessa efnis 26. ágúst 1991.

Í fylgdarliði forseta Litháens er Audronius Ažubalis utanríkisráðherra landsins auk embættismanna frá embætti forseta og utanríkisráðuneyti Litháens.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka á móti dr. Dalia Grybauskaitė forseta Litháens á morgun, fimmtudaginn 25. ágúst kl. 15:00, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum að viðstöddum ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum. Í kjölfar athafnarinnar er viðræðufundur forsetanna og munu þau síðan ræða við blaðamenn á Bessastöðum kl. 16:00. Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bjóða forseti Íslands og forsetafrú til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Litháens.

Dagskrá föstudagsins 26. ágúst hefst með athöfn í Höfða til að minnast þess að þá verða liðnir nákvæmlega tveir áratugir frá því að utanríkisráðherrar landanna staðfestu að Íslendingar viðurkenndu fullt og óskorað sjálfstæði Litháens og annarra Eystrasaltsríkja með undirritun samkomulags um stjórnmálasamband ríkjanna. Athöfnin hefst kl. 09:15 en samkomulagið var undirritað kl. 09:30 26. ágúst 1991. Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík og forseti Íslands hafa boðið til þessarar athafnar m.a. þeim sem viðstaddir voru þennan atburð fyrir 20 árum auk þingmanna og embættismanna. Meðal dagskrárliða við athöfnina eru ávörp borgarstjórans í Reykjavík og forseta Litháens en jafnframt mun litháíski píanóleikarinn Mūza Rubackytė leika verk eftir landa sinn Mikalojus Konstantinas Čiurlionis og Arnór Hannibalsson ræðismaður Litháens á Íslandi taka við heiðursviðurkenningu frá forseta Litháens.

Frá Höfða liggur leiðin í samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð þar sem m.a. Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Magnús Tumi Guðmundsson prófessor, Margrét Laxdal varaformaður Landsbjargar og Kjartan Þorkelsson sýslumaður á Holsvelli kynna miðstöðina og viðbrögð við nýlegum eldgosum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Heimsóknin í Skógarhlíð hefst kl. 10:35.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis tekur á móti hinum litháísku gestum í Alþingi klukkan 11:40 og býður þeim til hádegisverðarfundar með fulltrúum stjórnmálaflokka í utanríkismála-nefnd.

Forseti Litháens flytur inngangserindi að hringborðsumræðum sem hefjast í Þjóðmenningarhúsinu kl. 13:20. Þátttakendur í umræðunum verða m.a. þingmenn, embættismenn, háskólafólk, fulltrúar félagasamtaka og fjölmiðla. Umræðunum stýrir Þóra Arnórsdóttir fréttamaður. Eftir hringborðsumræðurnar munu forseti Litháens og fylgdarlið skoða handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu undir leiðsögn Sigurgeirs Steingrímssonar fræðimanns á Árnastofnun.

Forseti Litháens mun opna sýningu í Norræna húsinu kl. 16:30 sem helguð er minningu litháíska tónlistar- og myndlistarmannsins Mikalojus Konstantinas Čiurlionis (1875-1911). Við það tækifæri mun Mūza Rubackytė pínóleikari jafnframt flytja verk eftir hann.

Formlegri dagskrá opinberrar heimsóknar forseta Litháens til Íslands lýkur á Þingvöllum að kvöldi föstudagsins 26. ágúst. Eftir skoðunarferð um þjóðgarðinn mun forsetinn eiga fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Í kjölfar fundarins býður forsætisráðherra til kvöldverðar á Þingvöllum.

Áður en forseti Litháens fer af landi brott laugardaginn 27. ágúst mun hún fyrri hluta þess dags heimsækja Hellisheiðarvirkjun og skoða Geysi og Gullfoss.
24.08.2011 Forseti ræðir við fréttamann Globus tímaritsins í Króatíu. Það helgar sig sérstaklega alþjóðlegum málefnum. Rætt var um þróun Íslands á undanförnum áratugum, árangur sjálfstæðisbaráttunnar, útfærslu landhelginnar, nýtingu hreinnar orku og ýmislegt annað sem einkennir sérstöðu Íslands. Þá var rætt um viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Króatíu, áhrif bankahrunsins, viðbrögð Íslendinga við því og breytingar á afstöðu þjóðarinnar til Evrópusambandsins.
25.08.2011 Forseti býður forseta Litháens dr. Dalia Grybauskaitė til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum. Meðal gesta eru sendinefnd forseta Litháens, ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands, forseti Alþingis, forseti Hæstaréttar, borgarstjórinn í Reykjavík, embættismenn og fulltrúar samtaka stofnana og menningar. Ræða forseta. - Myndir úr opinberri heimsókn Litháensforseta til Íslands.
25.08.2011 Forseti tekur á móti forseta Litháens og fylgdarliði við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Að loknum flutningi þjóðsöngva landanna er forseti Litháens kynntur fyrir íslenskum ráðherrum og embættismönnum. Síðan fer fram fundur forsetanna og að því loknu ræða þeir við fréttamenn.
25.08.2011 Forseti flytur setningarfyrirlestur á Evrópuþingi stjórnmálafræðinga sem haldið er í Reykjavík. Þingið sækja ríflega tvö þúsund stjórnmálafræðingar frá flestum löndum Evrópu og hefur Félagsvísindasvið Háskóla Íslands annast undirbúning þess. Fyrirlestur forseta.    
25.08.2011 Forseti á fund með Albert Jónssyni sendiherra, sem senn verður sendiherra Íslands í Rússlandi, um vaxandi samvinnu landanna á undanförnum árum, viðræður forseta á síðasta ári við Medvedev forseta Rússlands og Pútín forsætisráðherra, áhuga Rússa á að nýta þekkingu Íslendinga á sviði hreinnar orku og aukna samvinnu ríkja á Norðurslóðum.
26.08.2011 Forseti fylgir forseta Litháens til Þingvalla og situr kvöldverðarboð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til heiðurs forseta Litháens.
26.08.2011 Forseti sækir opnun sýningar á verkum Mikaloujus Konstantinas Čiurlionis í Norræna húsinu sem haldin er í tilefni opinberrar heimsóknar forseta Litháens. Mūza Rubackytė  flutti einnig píanóverk af þessu tilefni.
26.08.2011 Forseti opnar hringborðsumræður í Þjóðmenningarhúsinu en þar flutti forseti Litháens Dalia Grybauskaitė yfirlitsræðu um þróun Litháens frá því að sjálfstæði var í höfn og til fullrar þátttöku í Evrópusambandinu og NATO. Einnig lýsti hún kostum og göllum aðildar að Evrópusambandinu með sérstöku tilliti til Litháens.
26.08.2011 Forseti tekur á móti hópi danskra athafnamanna sem heimsækja Ísland til að kynna sér atvinnulíf og stöðu efnahagsmála.
26.08.2011 Forseti heimsækir Samhæfingarmiðstöð almannavarna ásamt forseta Litháens Dalia Grybauskaitė. Þar kynntu forystumenn ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunnar, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sýslumaðurinn á Hvolsvelli og Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur viðbrögð Íslendinga við náttúruhamförum.
26.08.2011 Forseti sækir athöfn í Höfða í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá því Ísland viðurkenndi fyrst ríkja fullt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Forseti Litháens Dalia Grybauskaitė og borgarstjórinn í Reykjavík Jón Gnarr fluttu ávörp.
27.08.2011 Forseti býður stjórn ECPR, Samtaka evrópskra stjórnmálafræðinga, til samræðukvöldverðar en rúmlega 2.000 stjórnmálafræðingar frá flestum löndum Evrópu koma nú saman á Íslandi. Um 500 málstofur eru á þinginu sem skipulagt er af félagsvísindasviði Háskóla Íslands með sérstöku tilliti til þess að hundrað ár eru liðin frá stofnun Háskóla Íslands.
27.08.2011 Forseti á fund með forseta öldungadeildar ríkisþingsins í Alaska, Gary Stevens, sem verið hefur á Íslandi til að kynna sér nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita. Forseti hefur um árabil lagt áherslu á samstarf við Alaska á þessu sviði og íslenskir sérfræðingar og verkfræði- og orkufyrirtæki hafa sýnt áhuga á samskiptum við Alaska á þessu sviði. Fyrr í sumar átti forseti fund með ríkisstjóra Alaska Sean Parnell um þessi efni.
27.08.2011 Forseti á fund með sendiherra Litháens á Íslandi Rasa Kairienė sem senn lætur af störfum um árangurinn af heimsókn forseta Litháens Dalia Grybauskaitė og áherslur í samstarfi landanna á komandi árum.
29.08.2011 Forseti flytur ávarp við setningu alþjóðlegrar ráðstefnu um jökla og loftslagsbreytingar á Himalajasvæðinu sem hefst á morgun í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Ráðstefnuna sækja vísindamenn og sérfræðingar frá Kína, Indlandi, Nepal, Pakistan og Tadsjikistan sem og frá háskólum og rannsóknarstofnunum á Íslandi, í Bandaríkjunum, Kanada og nokkrum Evrópulöndum. Hún stendur dagana 30. ágúst til 1. september og henni lýkur með vettvangsferð um jökla og gosstöðvar á Suðurlandi. Ráðstefnan er haldin í boði Háskóla Íslands og forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar. Fréttatilkynning. Setningarávarp forseta Íslands.
29.08.2011 Forseti tekur á móti fulltrúum, sérfræðingum og vísindamönnum frá veðurstofum í ýmsum löndum Evrópu sem sækja samráðsfund á Íslandi. Veðurstofa Íslands hefur verið virkur þátttakandi í HIRLAM verkefninu. Rætt var um loftslagsbreytingar og veðurfar og aukna tíðni óveðra og áhrif þeirra á borgir og samfélög. Alþjóðasamstarf í rannsóknum á veðurfari hefur orðið sífellt mikilvægara til að geta með öruggari hætti lagt fram spár.
29.08.2011 Forseti tekur á móti þátttakendum í Snorra plús verkefninu en það er ætlað fólki af íslenskum ættum í Bandaríkjunum og Kanada. Það heimsækir Ísland til að kynnast þjóðháttum og sögu, ná tengslum við ættingja og njóta menningar og náttúru. Verkefnið er byggt á góðri reynslu af Snorraverkefninu sem miðast við ungt fólk af íslenskum uppruna. Snorra plús verkefnið miðast hins vegar við eldra fólk af íslenskum uppruna.
30.08.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Serbíu, hr. Milan Simurdi, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um framlag fyrrum Júgóslavíu fyrir um fimmtíu árum til raforkuvæðingar á Íslandi en júgóslavnesk fyrirtæki áttu mikinn þátt í byggingu vatnsaflsvirkjana þá. Nú gæti Ísland hins vegar á sviði jarðvarma aðstoðað Serbíu við að nýta þá auðlind en íslensk verkfræðifyrirtæki og orkufyrirtæki hafa komið að ýmsum verkefnum á því sviði í Mið-Evrópu. Einnig var fjallað um jákvæða þróun í Serbíu með tilliti til samskipta við Evrópusambandið og aðrar alþjóðastofnanir.  Mynd.
30.08.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Taílands, hr. Piyawat Niyomrerks, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um framlag taílenska samfélagsins á Íslandi til menningar og þjóðfélags. Einnig var fjallað um aukin viðskipti Íslendinga við lönd í Asíu, tækifæri á því sviði sem og breytingar sem orðið hafa í stjórnmálum Taílands að undanförnu. Mynd.
30.08.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Hondúras, hr. Hernán Antonio Bermúdez Aguilar, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um möguleika jarðvarma í löndum Mið-Ameríku, áhuga íslenskra verkfræðifyrirtækja á slíkum verkefnum sem og stjórnmálaþróunina í Hondúras og sambúð við nágrannaríkin. Mynd.
30.08.2011 Forseti flytur setningarávarp á ráðstefnu um rannsóknir á umhverfi "þriðja heimskautsins" (Himalajasvæðisins). Ræða forseta.
31.08.2011 Forseti setur alþjóðlegt þing um hugræna atferlismeðferð en samtök evrópskra fræðafélaga á þessu sviði, European Association for Behavioural and Cognitive Therapies, koma nú saman á Íslandi. Þingið sækja á annað þúsund vísindamenn, sálfræðingar, læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn. Þingið er haldið í Hörpu. Ræða forseta.

September

01.09.2011 Forseti ræðir við blaðamann Financial Times, Andrew Ward, um samskipti Íslands við Indland og Kína, vaxandi samvinnu á ýmsum sviðum, svo sem nýtingu hreinnar orku, vísindarannsóknir og málefni Norðurslóða og Himalajasvæðisins. Grundvöllur að aukinni samvinnu við Kína var lagður í opinberri heimsókn Jiang Zemin 2002 og forseti Íslands hefur á undanförnum árum átt fjölda funda með helstu leiðtogum Kína þar sem samvinnuverkefni á ýmsum sviðum hafa verið á dagskrá. Kínversk stjórnvöld sýndu Íslandi líka mikla vinsemd í kjölfar bankakreppunnar eins og gjaldeyrisskiptasamningur Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Kína ber vott um.
02.09.2011 Forseti tekur á móti stjórnendum samtakanna European Association for Behavioural and Cognitive Therapies (EABCT) sem efna til alþjóðaþings á Íslandi sem og forsvarsmönnum íslenska aðildarfélagsins og hópi lykilfyrirlesara þingsins.
03.09.2011 Forseti ræðir við dr. Artur Chilingarov, sérstakan sendimann forseta Rússlands í málefnum Norðurslóða, um aukna samvinnu ríkja á Norðurslóðum, afstöðu Rússa til opnunar svonefndrar norðurleiðar sem gera mun skipum kleift að sigla frá Asíu til Evrópu og Ameríku meðfram ströndum Rússlands. Mikilvægt sé að efla rannsóknir og vísindasamstarf á Norðurslóðum, sérstaklega með tilliti til umhverfisverndar og afleiðinga loftslagsbreytinga og bráðnunar íss. Sendiherra Rússlands á Íslandi, Andrey V. Tsyganov, sat einnig fundinn.
03.09.2011 Forseti opnar sýningar á verkum Errós og austurríska listmálarans Attersee í Listasafni Reykjavíkur. Ávarp forseta.
03.09.2011 Forseti tekur á móti Erró og austurríska listamanninum Christian Ludwig Attersee og hópi áhrifafólks úr evrópsku myndlistarlífi sem og sveit íslensks myndlistarfólks og stjórnendum íslenskra menningarstofnana. Móttakan var haldin í tilefni sýningar á verkum Errós og Attersee í Listasafni  Reykjavíkur.
03.09.2011 Forseti ræðir við fréttastofu Ríkisútvarpsins og Ríkissjónvarpið sem og Stöð 2 um samstarf Íslands við Kína og hvernig það endurspeglar breytta heimsmynd í efnahagslífi sem og áhuga kínversks fjárfestis á að byggja upp ferðaþjónustu á Íslandi. Viðtalið í Ríkisútvarpinu. Viðtal á Stöð 2.
04.09.2011 Forseti á fund með sendinefnd frá Alaska, forystumönnum Institute of the North, sem sækja Rannsóknarþing Norðursins. Fjallað var um mikilvægi þess að efla samstöðu víða um veröld og að vernda þau svæði sem almenningur, þjóðir og heimsbyggðin eiga í sameiningu. Sú umræða tekur mið af hugmyndum og kenningum Walters J. Hickel, fyrrum ríkisstjóra Alaska, sem lést fyrir fáeinum árum.
04.09.2011 Forseti sækir afmælishátíð Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna sem nú fagnar tuttugu ára afmæli. Í ávarpi þakkaði forseti mikilvægt framlag félagsins, bæði til fjölskyldna sem glíma við þennan sjúkdóm sem og jákvæð áhrif félagsins á skilning þjóðarinnar.
04.09.2011 Forseti flytur ávarp við setningu Rannsóknarþings Norðursins (NRF) sem haldið er í Hveragerði en það sækir fjöldi vísindamanna, sérfræðinga og áhrifafólks frá ríkjum Norðurslóða ásamt sérfræðingum í bráðnun jökla á Himalajasvæðinu sem sótt hafa rannsóknaráðstefnuna Third Pole Environment sem haldin var á Íslandi í nýliðinni viku. Fyrsta Rannsóknarþing Norðursins var haldið á Akureyri og Bessastöðum árið 2000. Svo hafa þingin verið haldin í Rússlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Finnlandi. Þema þingsins nú er ”Our Ice-dependent World” og beinist athyglin einkum að áhrifum bráðnunar íss og jökla á mannlíf og náttúru á Norðurslóðum og víða um heimsbyggðina.  Þetta er í fyrsta sinn sem öflugar sveitir vísindamanna og sérfræðinga frá Norðurslóðum og Himalajasvæðinu bera saman bækur sínar. Ávarp forseta.
05.09.2011 Forseti er viðstaddur lokafund Rannsóknarþings Norðursins þar sem gerð var grein fyrir niðurstöðum umræðna í ýmsum málaflokkum. Forseti tók síðan á móti þingfulltrúum á Bessastöðum.
05.09.2011 Forseti ræðir við blaðakonuna Jane Qiu sem skrifar fyrir náttúrufræðitímaritið Nature. Rætt var um samvinnu íslenskra og kínverskra vísindamanna á sviði jöklarannsókna, Norðurslóða og á fleiri sviðum. Einnig hvernig öflugar rannsóknir á undanförnum áratugum hafa styrkt stoðir sjálfbærrar nýtingar Íslendinga á auðlindum hafsins sem og nýtingu á hreinni orku. Einnig var fjallað um góðan árangur funda vísindamanna frá Himalajasvæðinu, Íslandi, Evrópu og Bandaríkjunum, er verið hafa á Íslandi undanfarið, sem og tengingu þeirra við vísindasamfélagið á Norðurslóðum.
05.09.2011 Forseti ræðir við athafnamenn frá Barein sem áhuga hafa á útflutningi á vatni frá Íslandi til Miðausturlanda, bæði í flöskum og með tankskipum. Einnig reifuðu þeir hugmyndir sínar um framleiðslu ýmissa vörutegunda úr áli sem skynsamlegt gæti verið að framleiða á Íslandi í stað þess að flytja álið alfarið út sem hrávöru. Fyrirtæki þeirra framleiðir margvíslegar slíkar vörur í samvinnu við álverksmiðjur víða um heim.
05.09.2011 Forseti á fund með dr. Lonnie Thompson frá The Ohio State University um alþjóðlega samvinnu við rannsóknir á jöklum, einkum á Himalajasvæðinu, og hvernig reynsla og þekking íslenskra náttúruvísindamanna getur nýst í slíku samstarfi.
05.09.2011 Forseti flytur stutt ávarp í Hátíðasal Háskóla Íslands áður en hinn heimskunni jöklafræðingur Lonnie Thompson flytur fyrirlestur sinn um loftslagsbreytingar, veruleika og viðbrögð. Fyrirlesturinn var fluttur í boði forseta og Háskóla Íslands sem liður í fyrirlestraröðinni "Nýir tímar" sem forseti stofnaði til fyrir fáeinum árum. Lonnie Thompson er heimskunnur fyrir vísindastörf sín, ekki síst fyrir rannsóknir á borkjörnum úr jöklum heitra landa. Hann hefur farið í tugi rannsóknarleiðangra til Kína og Himalajasvæðisins sem og Suðurskautslandsins. Thompson er staddur á Íslandi í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu um rannsóknir á jöklum og náttúrufari Himalajasvæðisins.
06.09.2011 Forseti flytur ávarp í upphafi evrópskrar ráðstefnu um nýsköpun kvenna í hagkerfum samtímans. Ráðstefnuna, sem haldin er á vegum samtakanna European Women Inventors & Innovators Network, sækja konur frá mörgum löndum Evrópu og er þar á ýmsan hátt fjallað um aukna hlutdeild kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Þá er í tengslum við ráðstefnuna samkeppni sprotafyrirtækja víða úr Evrópu sem konur hafa stofnað á undanförnum árum. Ræða forseta.
06.09.2011 Forseti ræðir við forsætisráðherra Grænlands, Kuupik Kleist, um samvinnu landanna á fjölmörgum sviðum, áhuga íslenskra fyrirtækja á tækifærum í Grænlandi, hugsanlegt samstarf við nýtingu vatnsorku, heilbrigðisþjónustu, auknar flugsamgöngur, meðal annars í krafti góðrar reynslu af íslenskum fyrirtækjum í Grænlandi. Þá var einnig fjallað um vaxandi samvinnu á Norðurslóðum og tengsl við vísindasamfélög í öðrum heimshlutum varðandi rannsóknir á jöklum og náttúru Norðurslóða. Mynd.
06.09.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Finnlands á Íslands, frú Irma Kyllikki Ertman, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu þjóðanna á undanförnum árum og áratugum, mikilvægi norrænnar samvinnu og aukna áherslu á málefni Norðurslóða. Auk þess var fjallað um þátttöku Finna í íslensku tónlistarlífi og mikilvægi þess að efla samskipti á sviði menningar og lista. Þá tók forseti af þessu tilefni á móti ýmsum Íslendingum sem hafa haft margvísleg tengsl við Finnland. Mynd.
06.09.2011 Forseti á fund með forseta þjóðþings Króatíu og nefnd þingmanna sem heimsækja Ísland í boði Alþingis. Rætt var um framlag Íslands á sínum tíma til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu, viðræður landsins á undanförnum árum við Evrópusambandið og þróun Evrópu í komandi framtíð, einkum nauðsyn á vaxandi tengslum milli smárra og miðlungsstórra ríkja í Evrópu. Einnig var fjallað um möguleika á samvinnu á sviði jarðhitanýtingar, fiskveiða og ferðaþjónustu.
06.09.2011 Forseti á fund með Alice Rogoff, útgefanda Alaska Dispatch og frumkvöðli um víðtæka umræðu um framtíðarþróun Norðurslóða. Rætt var um samstarf Íslands og Alaska sem þróast hefur á undanförnum árum og þau tækifæri í tækni, fjárfestingu og vísindarannsóknum sem finna má á Norðurslóðum. Alice Rogoff sótti Rannsóknarþing Norðursins og hefur ríkan áhuga á að efla tengsl Íslands og Alaska í þágu samvinnu á Norðurslóðum.
06.09.2011 Forseti á fund með Anil V. Kulkarni frá Indian Institute of Science og sendiherra Indlands á Íslandi, S. Swaminathan, um samvinnu við íslenska jöklafræðinga og náttúrufræðinga til að efla rannsóknir á jöklum á Indlandi og nýta sér þar með vísindaþekkingu og fræðilega reynslu Íslendinga. Forseti hvatti til slíks samstarfs þegar hann tók við Nehruverðlaununum í opinberri heimsókn til Indlands í ársbyrjun 2010.
07.09.2011 Forseti heimsækir Loftslagsstofnun Grænlands í Nuuk og ræðir við sérfræðinga stofnunarinnar um rannsóknir á loftslagsbreytingum, ís og hafstraumum, m.a. með tilliti til samstarfs vísindamanna á Norðurslóðum og hugmynda um aukið alþjóðlegt samstarf á þessu sviði. Einnig greindi forseti frá árangri þinga sem nýlega voru haldin á Íslandi, bæði um Himalajasvæðið og Norðurslóðir.
08.09.2011 Forseti á fund með forseta grænlenska þingsins, Josef Motzfeldt, þar sem rætt var um framtíð Grænlands og þróun samvinnu á Norðurslóðum. Einnig var fjallað um sameiginlega sögulega arfleifð Íslendinga og Grænlendinga og nýlega viðurkenningu Páfagarðs á sessi Guðríðar Þorbjarnardóttur í sögu kristni og landafunda.
08.09.2011 Forseti flytur ræðu við setningu alþjóðlegs málþings um heimskautarétt og framtíð Norðurslóða, loftslagsbreytingar og nýtingu auðlinda sem haldið er í höfuðstað Grænlands, Nuuk. Myndir. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
09.09.2011 Forseti situr hádegisverðarfund með rektor Háskóla Grænlands, Tinu Pars, og nokkrum Íslendingum sem starfað hafa í Grænlandi um langa hríð. Rætt var um þróun háskólans og tækifæri í samstarfi Íslands og Grænlands á sviði menntunar og rannsókna með sérstöku tilliti til Norðurslóða.
10.09.2011 Forseti tekur á móti rithöfundum og útgefendum, innlendum og erlendum, sem sækja alþjóðlega bókmenntahátíð í Reykjavík. Þetta er í tíunda sinn sem bókmenntahátíðin er haldin og er hún nú helguð minningu Thors Vilhjálmssonar.
11.09.2011 Forseti sækir lokahóf Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda, flytur ávarp og afhendir verðlaun. Þetta er í tuttugasta sinn sem keppnin er haldin og bárust hátt á annað þúsund tillögur frá um fjörtíu skólum víða af landinu. Í ávarp sínu áréttaði forseti þann boðskap sem fellst í keppninni um mikilvægi nýsköpunar í atvinnulífi og framtíð þjóða og að sérhver einstaklingur hafi hæfileika til nýsköpunar, kappkosta þurfi að rækta þá hæfileika.
12.09.2011 Forseti ræðir við síðdegisútvarp Bylgjunnar um ýmsa þætti umræðunnar um forsetaembættið að undanförnu. Viðtalið hjá Bylgjunni.
12.09.2011 Forseti á fund með fulltrúum frá Rannsóknum og greiningu, ÍSÍ, UMFÍ, Skátahreyfingunni, samtökum framhaldsskóla, sveitarfélögum og Actavis um undirbúning vegna Forvarnardagsins sem haldinn verður 5. október. Áður hefur Forvarnardagurinn eingöngu verið í 10. bekk grunnskóla en verður einnig nú í fyrsta bekk framhaldsskóla.
12.09.2011 Forseti flytur ávarp í upphafi alþjóðlegrar ráðstefnu sem samtökin Worldwide Airline Customer Relations Association (WACRA) heldur á Íslandi í samvinnu við Icelandair. Í samtökunum eru starfsmenn flugfélaga víða að úr veröldinni. Í ávarpinu fjallaði forseti um mikilvægi alþjóðaflugs fyrir íslenskt efnahagslíf, vöxt ferðaþjónustunnar, frumkvæði sem Loftleiðir höfðu á sínum tíma í lággjaldaflugi sem og aðild Íslendinga að Cargolux sem mótaði nýjar aðferðir í vöruflutningum milli heimsálfa. Þá ræddi forseti um nýleg eldgos á Íslandi og hvernig brugðist hefði verið við þeim. Jafnframt nefndi hann að hið vaxandi framlag flugfélaga til íslensks efnahagslífs væri ein af ástæðum þess að landið væri á ný að ná sér á strik eftir hrun bankakerfisins.
13.09.2011 Forseti á fund með sendiherra Slóvakíu á Íslandi, Dušan Rozbora, sem senn lætur af störfum. Rætt var um árangur af heimsókn forseta Slóvakíu Ivan Gašparovič árið 2010 og áhuga Slóvaka á að nýta sér tæknikunnáttu Íslendinga við virkjun jarðhita. Einnig var fjallað um árangur Slóvaka í uppbyggingu efnahagslífsins meðal annars með því að nýta kunnáttu íbúanna á sviði tækni og iðnaðarframleiðslu.
13.09.2011 Forseti á fund með sendiherra Frakklands á Íslandi, Caroline Dumas, sem senn lætur af störfum. Rætt var um öflug tengsl landanna, samstarf á sviði menningar og vísinda, m.a. með tilliti til vaxandi mikilvægis Norðurslóða, og um heimsókn Michels Rocards, fv. forsætisráðherra og sérstaks sendimanns Frakklandsforseta, til Íslands fyrir nokkrum mánuðum. Einnig var rætt um breytingar sem eru að verða á lýðræðisskipan landa víða um heim og reynslu sendiherrans af dvölinni á Íslandi.
13.09.2011 Forseti á fund með Damien Degeorges um rannsóknir á þróun samvinnu á Norðurslóðum en hann tók nýlega þátt í Rannsóknarþingi Norðursins sem haldið var á Íslandi og alþjóðaþingi um heimskautarétt sem haldið var á Grænlandi.
13.09.2011 Forseti á fund með sendinefnd frá kínverska þinginu sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Kína, m.a. á sviði jarðhitanýtingar, jökla- og loftslagsrannsókna, viðvarana vegna jarðskjálfta, menningar, menntunar og viðskipta. Þá nefndi forseti nauðsyn þess að þróun lýðræðis taki mið af vilja fólksins sem í krafti upplýsingatækni geti verið þátttakandi í ákvörðunum ásamt kjörnum fulltrúum á þjóðþingum. Fulltrúar kínverskra háskóla hefðu og lýst áhuga á samvinnu við íslenska fræðasamfélagið varðandi rannsóknir á þróun mannréttinda. Hin nýja öld kallaði á ný viðhorf og aukna samvinnu varðandi þróun lýðræðis.
14.09.2011 Forseti flytur ávarp á ráðstefnu um beint lýðræði og aukna þátttöku íbúanna sem innanríkisráðuneytið efnir til í samvinnu við Reykjavíkurborg. Einnig fluttu Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri ávörp við upphaf ráðstefnunnar sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ræða forseta.
15.09.2011 Forseti ávarpar alþjóðlega ráðstefnu um leturhönnun, ATypI, sem haldin er á Íslandi. Ráðstefnuna sækja grafískir hönnuðir og letursérfræðingar víða úr veröldinni. Ræða forseta.
15.09.2011 Forseti er viðstaddur í Norræna húsinu þegar Ísland tekur þátt í dagskrá á netinu sem Al Gore, handhafi friðarverðlauna Nóbels og fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, efndi til í þeim tilgangi að efla skilning á þeim hættum sem stafa af loftlagsbreytingum í náinni framtíð. Sigurður Eyberg, verkefnisstjóri Garðarshólms, flutti frá Húsavík íslenska útgáfu dagskrárinnar og því næst tóku við umræður með ýmsum fremstu sérfræðingum veraldar auk Al Gore. Lönd í öllum heimsálfum tóku þátt í dagskránni sem að samanlögðu stóð í sólarhring. Vefur verkefnisins.
15.09.2011 Forseti á fund með Arngrími Jóhannssyni um nýjar reglur sem setja framtíð áhugamannaflugs og svifflugs á Íslandi verulegar skorður og draga úr möguleikum venjulegra borgara á að sinna slíkum áhugamálum. 
15.09.2011 Forseti á fund með Sturlu Jónssyni og Arngrími Pálmasyni um fjármál einstaklinga og samskipti þeirra við bankastofnanir og opinbera aðila.
16.09.2011 Forseti tekur á móti sendinefnd starfsmanna Whole Food verslanakeðjunnar í Bandaríkjunum sem sérhæfir sig í gæðamatvælum. Tilgangur heimsóknarinnar er að kynnast framleiðslu á lambakjöti, heimsækja sveitir og styrkja tengsl við framleiðendur á íslenskum matvælum sem seld hafa verið með góðum árangri í verslunum keðjunnar vítt og breitt um Bandaríkin. Verkefninu er stjórnað af Baldvin Jónssyni.
19.09.2011 Forseti tekur þátt í samræðum á kynningarfundi vikuritsins The Economist í New York þar sem fjallað var um nýja úttekt tímaritsins á atvinnuleysi og nýsköpun í atvinnumálum. Umræðum stjórnaði Matthew Bishop, viðskiptaritstjóri tímaritsins sem er höfundur úttektarinnar.
19.09.2011 Forseti situr fyrir svörum ásamt dr. Edmund Phelps, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði og prófessor við Columbia háskólann, á leiðtogafundi Blouin stofnunarinnar, Blouin Creative Leadership Summit. Samræðunum stýrði Matthew Bishop, viðskiptaritstjóri vikuritsins The Economist.
19.09.2011 Forseti á fund með Vartan Gregorian, stjórnanda Carnegie stofnunarinnar, og nokkrum samstarfsmanna hans um lærdómana sem draga má af bankahruninu, samspil lýðræðis og markaðar, þróun samstarfs á Norðurslóðum og aukin tengsl sérfræðinga á Himalajasvæðinu varðandi rannsóknir á bráðnun jökla og breytingar á náttúrufari.
20.09.2011 Forseti ræðir við Maríu Bartiromo, fréttamann alþjóða sjónvarpsstöðvarinnar CNBC, um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi, aðgerðir í ljósi ákvarðana annarra ríkja, alþjóðlega fjárfestingu og hvernig nýting hreinnar orku hefur skapað viðspyrnu á erfiðum tímum. Viðtalið var í beinni útsendingu frá Clintonþinginu í New York. Viðtalið á vef CNBC.
20.09.2011 Forseti tekur þátt í Clintonþinginu í New York, Clinton Global Initiative, og í málþingi sem ber yfirskriftina Blouin Creative Leadership Summit. Fréttatilkynning.
22.09.2011 Forsætisráðherra Rússlands, Vladimir Putin, bauð forseta að sækja ráðstefnu um norðurleiðina og önnur málefni Norðurslóða. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar er hvernig bráðnun hafíss kallar á nýja skipan og ábyrga stefnumótun. Ráðstefnan hófst í morgun í Arkangelsk í Rússlandi og síðdegis átti forseti fund með forsætisráðherra Rússlands. Áður höfðu báðir flutt ræður á ráðstefnunni sem sótt er af fjölda forystumanna, sérfræðinga og áhrifafólks frá ríkjum á Norðurslóðum. Fréttatilkynning. MyndirRæða forseta.
23.09.2011 Forseti flytur stutt ávarp við opnun Rannsóknarmiðstöðvar háskóla á Norðurslóðum sem aðsetur hefur í Háskólanum í Arkangelsk, Sambandsháskóla Norðurslóða. Þetta er fyrsta rannsóknarmiðstöðin sem samstarfsnet yfir 100 háskóla á Norðurslóðum kemur á fót en samstarfsnetið starfar undir heitinu University of the Arctic. Í ávarpinu áréttaði forseti að hin víðtæka samvinna háskóla og rannsóknarstofnana á Norðurslóðum, sem hófst að marki fyrir rúmum áratug, hefði lagt grunn að árangursríku samstarfi ríkjanna á Norðurslóðum og fest þar með Norðurskautsráðið í sessi sem öfluga alþjóðastofnun. Norðurslóðir væru eitt viðkvæmasta vistkerfi veraldar og því væri brýnt að efla þar til muna rannsóknir á öllum sviðum, einkum í ljósi aukins áhuga á að nýta auðlindir svæðisins.
23.09.2011 Forseti gróðursetur tré við aðalbyggingu háskólans í Arkangelsk til minningar um Norðurslóðaráðstefnuna, Arctic: Territory of Dialogue, sem þar er nú haldin. Rektor háskólans og forystumenn Rússnesku vísindaakademíunnar gróðursettu einnig slík tré.
24.09.2011 Forseti tekur á móti stjórn alþjóðlegu kvenréttindasamtakanna International Alliance of Women sem haldið hefur fund á Íslandi í boði Kvenréttindafélags Íslands. Samtökin voru stofnuð fyrir rúmlega 100 árum og hafa haft víðtæk áhrif á réttindabaráttu kvenna víða um heim.
25.09.2011 Forseti á fund með borgarstjóranum í Hull og sendinefnd sem heimsækir Ísland ásamt sendinefnd frá borginni. Í hópnum var einnig Alan Johnson, þingmaður Hull og fyrrum ráðherra í ríkisstjórn Bretlands. Rætt var um aldagömul samskipti Íslendinga og íbúa á Hull-Grimsby svæðinu í Bretlandi og áhuga borgaryfirvalda á að efla þau tengsl og nýta sér reynslu Íslendinga í þróun sjávarútvegs og hreinni orku. Einnig eru borgaryfirvöld staðráðin í að setja á ný upp styttu Steinunnar Þórarinsdóttur af manni sem horfir til hafs en systurstytta hennar er í Vík í Mýrdal.
26.09.2011 Forseti afhendir viðurkenningar Fjölskylduhjálpar Íslands til fyrirtækja og annarra aðila sem stutt hafa hjálparstarf og matargjafir Fjölskylduhjálparinnar. Jafnframt var kynnt skýrsla sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gert um fjölda einstaklinga og samsetningu þeirra hópa og fjölskyldna sem notið hafa aðstoðar Fjölskylduhjálparinnar. Forseti flutti stutt ávarp og þakkaði Fjölskylduhjálp Íslands fyrir ötult hugsjónastarf hennar á undanförnum árum. Mikilvægt væri einnig að allir ábyrgir aðilar sameinuðust um að draga úr fátækt í landinu svo Íslendingar þyrftu ekki á næstu árum að fá fleiri slíkar skýrslur í hendur. Vefsíða Fjölskylduhjálpar Íslands.
27.09.2011 Forseti tekur á móti hópi grænlenskra barna frá ýmsum byggðarlögum á Grænlandi sem dvelja á Íslandi til að læra sund og kynnast íslenskum skólum.
27.09.2011 Forseti á fund með formanni Rauða krossins Önnu Stefánsdóttur og Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra um starfsemi Rauða krossins og kynningarviku sem fyrirhuguð er í október.
27.09.2011 Forseti á fund með Kristni Ólasyni rektor Skálholtsskóla og fulltrúum Biblíufélagsins Ólafi Egilssyni og Stefáni Einari Stefánssyni um útgáfu safns fræðigreina sem helgaðar eru ýmsum sviðum testamentisfræða, Biblíurannsókna og fornleifafræði.
27.09.2011 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni, Guðrúnu Gísladóttur, Helga Björnssyni og Þóru Ellen Þórhallsdóttur um árangurinn af tveimur alþjóðlegum ráðstefnum sem haldnar voru á Íslandi í ágúst og september: ráðstefnu um Himalajasvæðið og Rannsóknarþingi Norðursins. Í kjölfar þeirra er mikill áhugi á að efla tengsl við íslenska vísindasamfélagið og koma á gagnkvæmum skiptum á stúdentum og sérfræðingum. Vaxandi alþjóðlegar áhyggjur af bráðnun íss og jökla knýja á um víðtækt vísindasamstarf. Þar hefur Ísland mikið fram að færa.
28.09.2011 Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni sem haldin er í Reykjavík. Við það tækifæri voru Béla Tarr afhent heiðursverðlaun hátíðarinnar. Ragnar Bragason fjallaði í stuttu ávarpi um verk Tarrs.
30.09.2011 Forseti flytur opnunarræðu Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar á Suðurnesjum sem skipulögð er af nýsköpunar- og frumkvöðlasetrinu Innovit. Íbúar með hugmyndir að nýjum atvinnutækifærum taka þátt í helginni þar sem hugmyndirnar eru þróaðar og ræddar. Um 200 manns taka þátt í nýsköpunarhelginni. Í opnunarræðu sinni rakti forseti þá breytingu sem orðið hefur á hagkerfum að hugmyndir og nýsköpun eru í æ ríkara mæli orðnar hreyfiafl framfara. Nefndi hann fjölmörg dæmi frá ýmsum byggðarlögum á Íslandi, m.a. af Suðurnesjum, þar sem hugmyndir einstaklinga hefðu orðið að öflugum atvinnuvettvangi. Einnig hefði upplýsingatækni skapað hverjum og einum tækifæri til að láta til sín taka. Auk forseta flutti Jónas Björgvin Antonsson framkvæmdastjóri Gogogic erindi við upphaf nýsköpunarhelgarinnar.
30.09.2011 Forseti ræðir við fréttamann TVE sjónvarpsstöðvarinnar á Spáni um endurreisn efnahagslífsins í kjölfar bankakreppunnar, auðlindir landsins, menntun og hæfni þjóðarinnar sem forsendur árangurs á komandi árum sem og hvaða lærdóma aðrir geti dregið af reynslu Íslendinga, m.a. í ljósi samspils markaðar og lýðræðis.
30.09.2011 Forseti ræðir við fréttamann frá Osona í Katalóníu um lærdómana sem draga má af fjármálakreppunni á Íslandi og viðbrögðum þjóðarinnar við henni.

Október

01.10.2011 Forseti afhendir 18 skátum forsetamerki við hátíðlega athöfn í Bessastaðakirkju. Skátarnir komu frá níu skátafélögum víða að á landinu. Skátahöfðingi Bragi Björnsson afhenti einnig hverjum og einum skjal þessu til staðfestingar. Að athöfninni lokinni var skátum og fjölskyldum þeirra boðið til Bessastaðastofu.
01.10.2011 Forseti setur Alþingi að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Ræða forseta. Ræða forseta á ensku (English version).
03.10.2011 Forseti stýrir fundi ríkisráðs sem haldinn er á Bessastöðum þar sem staðfest eru lög og aðrar stjórnarathafnir sem ákveðnar hafa verið utan ríkisráðsfundar.
03.10.2011 Forseti sækir fyrirlestur Roberts D. Putnam, prófessors við Harvard háskóla, en fyrirlesturinn er liður í röð ´hátíðarfyrirlestra í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands.
03.10.2011 Forseti sækir kynningar- og blaðamannafund um Forvarnardaginn í Breiðholtsskóla. Viðstaddir kynninguna voru nemendur og stjórnendur skólans, sem og forsvarsmenn þeirra fjöldasamtaka og aðila sem standa að Forvarnardeginum sem haldinn verður miðvikudaginn 5. október 2011. Fréttatilkynning.
04.10.2011 Forseti á fund með sendinefnd frá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem heimsækir Ísland til að kynna sér nýtingu jarðhita í landbúnaði og við þurrkun á fiski og öðrum matvælum. Framkvæmdastjóri FAO ákvað að slík sendinefnd heimsækti Ísland í framhaldi af fundi með forseta í aðalstöðvum FAO í Róm í mars á þessu ári. Sendinefndin heimsækir stofnanir og fyrirtæki á þessu sviði, bændur í ylrækt og ræðir við sérfræðinga og embættismenn.
05.10.2011 Forseti og forsetafrú heimsækja skóla á Akureyri í tilefni þess að í dag er haldinn Forvarnardagur í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Heimsóknin hófst í morgun í Giljaskóla og þaðan fara forsetahjónin í Lundarskóla. Síðan munu þau fyrir hádegi heimsækja Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann.
06.10.2011 Forseti tekur á móti fyrsta eintaki bókarinnar Íslenskir fuglar sem Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal gerði á sínum tíma. Í bókinni eru teikningar hans og fróðleikur um íslenska náttúrufræðinga á 19. öld. Bókin er gefin út af Crymogæu í samvinnu við Náttúrufræðistofnun. Bókin var afhent á fæðingardegi Benedikts og tók forseti við henni við skrifpúlt föður hans Sveinbjarnar Egilssonar en það púlt var einnig í eigu Benedikts og hefur hann líklega notað það á sínum tíma við gerð bókarinnar.
06.10.2011 Forseti heldur blaðamannafund ásamt Kofi Annan, fyrrum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem kemur til Íslands síðdegis í dag. Áætlað er að blaðamannafundurinn hefjist kl. 17:00. Hann mun og sitja kvöldverð í boði forseta Íslands ásamt forráðamönnum Háskóla Íslands og ráðherrum. Fréttatilkynning. Myndir.
07.10.2011 Forseti sækir samkomu í tilefni af hundrað ára afmæli Lögmannafélags Íslands þar sem tilkynnt var um heiðursfélaga og fyrrum formönnum félagsins veitt gullmerki þess. Meðal stofnenda félagsins var Sveinn Björnsson sem síðar varð fyrsti forseti lýðveldisins.
07.10.2011 Forseti sækir 25 ára afmælishátíð Lagnafélags Íslands og afhendir viðurkenningar fyrir frábæran árangur í lagnamálum og störf í þágu félagsins.
07.10.2011 Forseti sækir Hátíðarmálþing Háskóla Íslands, "Áskoranir 21. aldar", sem haldið var í tilefni af aldarafmæli skólans. Í lok málþingsins dró forseti saman í ávarpi meginstef sem komið höfðu fram í ræðum og fyrirlestrum á málþinginu.
07.10.2011 Forseti heimsækir Hellisheiðarvirkjun ásamt Kofi Annan þar sem kynntur var árangur Íslendinga við nýtingu jarðhita og þau tækifæri sem felast í slíkri nýtingu fyrir mörg lönd í Afríku, bæði til raforkuframleiðslu, ylræktunar og þurrkunar matvæla. Jafnframt var fjallað um árangur Íslendinga á sviði landgræðslu og þá þjálfun sem deildir í Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa á Íslandi hafa veitt fólki frá fjölmörgum Afríkulöndum.
08.10.2011 Forseti tekur á móti Anatoly Karpov, fyrrum heimsmeistara í skák, sem heimsækir Ísland í tilefni af 111 ára afmæli Taflfélags Reykjavíkur en hann gekk nýlega í félagið. Ásamt honum sátu fundinn Friðrik Ólafsson og Björn Jónsson og var rætt um þróun skákiðkunar á Íslandi og í Rússlandi og hugmyndir um eflingu hennar í samfélögum á Norðurslóðum. Þá var einnig rætt um feril Bobbys Fischer og ævikvöld hans Íslandi sem og þróun stjórnmála í Rússlandi en Karpov er í framboði í væntanlegum þingkosningum. 
08.10.2011 Forseti sækir hátíðardagskrá Háskóla Íslands í Hörpu í tilefni af hundrað ára afmæli skólans. Yfirskrift hátíðarinnar var "Fjársjóður til framtíðar" og þar var fjallað um hina fjölþættu starfsemi háskólans og framlag hans til íslensks þjóðlífs.
09.10.2011 Forseti tekur á móti fyrirlesurum og forystumönnum alþjóðlegrar flugráðstefnu sem haldin er á vegum Keilis. Viðfangsefni ráðstefnunnar er að fjalla um flug að vetri til og hvernig flugvellir og flugfélög geta búið sig betur úr garði til að fækka truflunum vegna vetrarveðra.
09.10.2011 Forseti tekur upp ávörp á íslensku og ensku fyrir nýja herferð Inspired by Iceland, Ísland allt árið, sem miðar að því að fjölga ferðamönnum á Íslandi yfir vetrartímann. Fjölskyldur eru hvattar til að bjóða ferðamönnum í heimsókn og kynna þeim landið á persónulegan hátt.
10.10.2011 Forseti sækir tónleika og upplestrarkvöld í Gömlu óperunni í Frankfurt í tilefni bókasýningarinnar þar sem Ísland er í heiðurssæti. Meðal annars var flutt tónlist eftir Áskel Másson og lesið úr nýrri þýskri þýðingu Laxdælu.
10.10.2011 Forseti ræðir við Richard Quest, fréttamann á alþjóða sjónvarpsstöðinni CNN, um átak í landkynningu sem miðar að því að efla komu ferðamanna til Íslands að vetri til. Átakinu Ísland allt árið er ýtt úr vör um þessar mundir. Vefsíða Inspired by Iceland.
10.10.2011 Forseti sækir móttöku sem ræðismaður Íslands í Frankfurt, Helmut Holz, heldur í tilefni af bókasýningunni sem hefst í Frankfurt á morgun þriðjudag
11.10.2011 Forseti er viðstaddur opnun íslenska skálans á Bókasýningunni í Frankfurt ásamt utanríkisráðherra Þýskalands og forystumönnum bókasýningarinnar. Menntamálaráðherra Svandís Svavarsdóttir flutti ávarp og þvínæst skoðuðu gestir hvernig íslensk náttúra og risastórar veggmyndir frá heimilum íslenskra lesenda kallast á á svæðinu.
11.10.2011 Forseti flytur ræðu við setningu Bókasýningarinnar í Frankfurt þar sem Ísland skipar heiðurssætið. Auk forseta flytur Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, ræðu við setninguna sem og rithöfundarnir Arnaldur Indriðason og Guðrún Eva Mínervudóttir. Myndir. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
11.10.2011 Forseti heimsækir ráðhúsið í Frankfurt þar sem borgarstjórinn Petra Roth tekur á móti honum. Forseti og borgarstjóri flytja ávörp og forseti skráir sig í hina "gullnu bók" ráðhússins. 
11.10.2011 Forseti tekur þátt í blaðamannafundi sem haldinn er til að kynna forvarnarstarf í fjölmörgum evrópskum borgum en það ber heitið Youth in Europe. Það er byggt á þeirri reynslu sem Forvarnardagurinn á Íslandi hefur skilað og rannsóknum íslenskra félagsvísindamanna. Fyrirtækið Actavis hefur stutt þetta forvarnarstarf dyggilega.
11.10.2011 Forseti skoðar sýningar á verkum Ragnars Kjartanssonar, Gabríelu Friðriksdóttur og Erró sem haldnar eru í Frankfurt í tilefni af bókasýningunni. Þá skoðaði forseti einnig sýningu á íslenskum ljósmyndum og yfirlitssýningu á íslenskri hönnun.
12.10.2011 Forseti flytur ávarp á ráðstefnu um framtíð Norðurslóða sem haldin er í Brussel. Ráðstefnuna sækja forystumenn og fulltrúar aðildarríkja Norðurskautsráðsins sem og sérfræðingar og vísindamenn. Ráðstefnan er haldin af International Polar Foundation í Brussel. Meðal ræðumanna í morgun var Maria Damanaki, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í málefnum sjávarútvegs og sjávarauðlinda. Mynd. Fréttatilkynning. Ræða forseta.
13.10.2011 Forseti mætir á samræðukvöld í Frankfurt þar sem Óskar Guðmundsson og Karl Wetzig ræða um Snorra Sturluson og atburði Sturlungaaldar en ævisaga Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson hefur nú komið út á þýsku og ber heitið Homer des Nordens.
13.10.2011 Forseti ræðir við útvarpsstöð tímaritsins Monocle um nýtt landkynningarátak sem stuðla á að fjölgun ferðamanna yfir vetrartímann og felur í sér að Íslendingar bjóða ferðamönnum í heimsókn.
13.10.2011 Forseti ræðir við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina CNBC um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi, árangur í glímunni við afleiðingar bankahrunsins og hvaða lærdóma megi draga af reynslu Íslendinga, einkum í ljósi þróunarinnar um þessar mundir í álfunni. Viðtalið var tekið í Kauphöllinni í i Frankfurt.
13.10.2011 Forseti heimsækir sýningarbása á bókasýningunni í Frankfurt og hittir stjórnendur og fulltrúa hinna ýmsu þýsku útgáfufyrirtækja sem gefa út verk íslenskra höfunda. Margir íslenskir höfundar taka þátt í kynningu á verkum sínum á sýningunni. Auk þess heimsótti forseti sýningarbása íslensku útgáfufyrirtækjanna sem eru að kynna íslensk ritverk og skoðaði íslenska sýningarskálann þar sem mikill fjöldi gesta hlýddi á upplestur íslenskra höfunda og samræður  við þá og naut mynda af íslenskri náttúru og frá heimilum íslenskra lesenda.
13.10.2011 Forseti heimsækir Senckenberg náttúruvísindastofnunina í Frankfurt og á fund með forstjóra hennar, dr. Volker Mosbrügger. Einkum var fjallað um rannsóknir á bráðnun jökla og  þróun lífs og loftslags. Vísindamenn á vegum stofnunarinnar hafa í samvinnu við íslenska starfsbræður sína stundað rannsóknir á lífríki djúpsjávar. Fulltrúar hennar tóku líka þátt í ráðstefnum sem haldnar voru á Íslandi í sumar um Himalajasvæðið og Norðurslóðir. Þá skoðaði forseti hið merka safn stofnunarinnar. Myndir frá Þýskalandsferð forseta.
13.10.2011 Forseti hittir Óttar Sveinsson, höfund bókarinnar um Goðafoss, og þýska útgefendur hennar sem og Sigurð Guðmundsson sem var háseti á Goðafossi og Horst Koske sem var í áhöfn kafbátsins sem sökkti skipinu.
14.10.2011 Forseti ræðir við bandarísku útvarpsstöðina KEXP sem sendir beint út frá Iceland Airwaves hátíðinni. Rætt var um bókasýninguna í Frankfurt, þróun íslenskra bókmennta og tónlistar og hvernig Iceland Airwaves endurspeglar aðgang ungs tónlistarfólks á Íslandi að slíkum viðburðum. Einnig var rætt um íslenska náttúru og ferðaþjónustu. Svæði útvarpsstöðvarinnar er einkum kringum Seattle og á vesturströnd Bandaríkjanna.
14.10.2011 Forseti tekur á móti hópi norrænna fjölmiðlamanna og stjórnenda tónlistarhátíða sem taka þátt í Iceland Airwaves og ræðir við þá um hátíðina og menningarlíf á Íslandi.
15.10.2011 Forseti ræðir við fréttamann sænska útvarpsins um nýtt landkynningarátak sem miðar að því að efla ferðaþjónustu í upphafi vetrar, Iceland Airwaves hátíðina og glímuna við afleiðingar bankahrunsins.
15.10.2011 Forseti á fund með Gunnari Smára Egilssyni, formanni SÁÁ, um þá verðmætu reynslu sem starfsemi samtakanna hefur byggt upp, mikilvægi hennar fyrir íslenskt samfélag og alþjóðlegar rannsóknir á áfengissýki. Mikilvægt væri að koma á víðtæku samstarfi fjölmargra aðila til að styrkja meðferðarstarfið og efla forvarnir. Þá fælu bæði starfsemi SÁÁ um árabil og góð reynsla af Forvarnardeginum í sér ýmsa lærdóma. 
15.10.2011 Forseti sækir viðburði á opnu húsi Blindrafélagsins á degi Hvíta stafsins og afhendir Samfélagslampa Blindrafélagsins. Hann kom að þessu sinni í hlut Lionshreyfingarinnar, sem styrkt hefur starfsemi Blindrafélagsins um langa hríð, enda barátta gegn blindu mikilvægur þáttur í alþjóðlegu starfi Lionshreyfingarinnar. 
15.10.2011 Forseti er viðstaddur setningu 47. sambandsþings UMFÍ sem haldið er á Akureyri. Forseti flutti ávarp og fjallaði þar um hinn mikla árangur sem náðst hefur í starfi UMFÍ; hreyfingin hefði líklegast aldrei verið jafn sterk og öflug. Framlag hennar til forvarnarstarfs og eflingar heilbrigðra lífshátta væri ómetanlegt; það sýndu m.a. unglingalandsmótin um verslunarmannahelgina og þátttaka UMFÍ í Forvarnardeginum. Slíkar hreyfingar væru burðarásar í félagslegum auði Íslendinga en nýlega hefði heimsþekktur bandarískur prófessor sem hér var í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands sagt að ríkulegur félagslegur auður væri ein meginskýring á árangri þjóða.
17.10.2011 Forseti á fund með Julian Cribb og Andrési Arnalds um fæðuöryggi jarðarbúa og um reynslu Íslendinga af landgræðslu, ylrækt og nýtingu jarðvarma til geymslu á matvælum. Einnig var fjallað um yfirvofandi vatnsskort, einkum í löndum þar sem verulegur hluti jarðarbúa býr.
17.10.2011 Forseti á fund með Rakel Sigurgeirsdóttur, Ástu Hafberg, Daða Ingólfssyni og Kristni Má Ársælssyni um reynsluna af mótmælahreyfingum á Íslandi og víða um heim, starfi grasrótarhreyfinga og þörfina á skipulögðum samræðuvettvangi. Einnig var fjallað um vinnuferlið að nýrri stjórnarskrá.
17.10.2011 Forseti á fund með Lofti Altice Þorsteinssyni og Pétri Valdimarssyni, sem m.a. starfa innan vébanda samtakanna Samstaða þjóðar um málarekstur þeirra gagnvart Evrópusambandinu og Evrópudómstólnum vegna aðgerða Breta og Hollendinga 2008.
17.10.2011 Forseti sækir fyrirlestur Julian Cribb um fæðuöryggi jarðarbúa og hvernig nýta þarf betur land, vatn  og aðrar auðlindir til að tryggja nægilega fæðuframleiðslu í ljósi fjölgunar mannkyns á komandi áratugum.
17.10.2011 Forseti heimsækir Kópavogsdeild Rauða krossins og ræðir við ungt fólk sem sinnir sjálfboðastarfi á vegum deildarinnar. Forseti hefur skrifað ávarp í tilefni af sérstöku átaki Rauða krossins sem fram fer í þessari viku. Ávarp forseta í tilefni átaksins.
18.10.2011 Forseti á fund með Mininnguaq Kleist um vaxandi áhuga á málefnum norðurslóða, ráðstefnu um heimskautarétt sem haldin var í Nuuk en forseti flutti ræðu við upphaf ráðstefnunnar. Einnig var fjallað um samvinnu Íslands og Grænlands á mörgum sviðum.
18.10.2011 Forseti heimsækir Rauða krossinn og ræðir við sjálfboðaliða og starfsmenn hans um ýmis hjálparverkefni sem unnin eru á vegum Rauða krossins, svo sem um hjálparsímann, vímuefnaverkefnið frú Ragnheiði og félagsvini kvenna af erlendum uppruna. Fjöldi sjálfboðaliða kemur að þessum verkefnum og um þessar mundir er unnið að kynningu á sjálfboðaliðastarfi Rauða krossins.
18.10.2011 Skrifstofa forseta birtir bréf í kjölfar úrskurðar. Fréttatilkynning.
20.10.2011 Forseti ræðir við fréttamann CNN á PopTech ráðstefnunni í Camden um lærdómana sem draga má af bankahruninu og áhrif félagsmiðla og upplýsingatækni á þróun lýðræðis. Frétt hjá CNN. Viðtal við forseta á CNN og brot úr ræðu hans í Camden.
20.10.2011 Forseti heldur ræðu á ráðstefnu PopTech samtakanna í Bandaríkjunum. Ráðstefnuna sækja mörg hundruð forystumenn í upplýsingatækni, nýsköpun, náttúruvernd og efnahagslegri og samfélagslegri þróun. Meðal þátttakenda eru stjórnendur frá fyrirtækjum eins og Google, Microsoft, YouTube, National Geographic og fleiri slíkum.Ræða forseta. Fréttatilkynning. Upptaka af ræðu forseta.
21.10.2011 Forseti er í viðtali við alþjóðaútsendingu sjónvarpsstöðvarinnar CNN. Rætt var um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi í ljósi umræðunnar í Evrópu um þessar mundir, réttindi almennings og kröfur fjármálastofnana. Viðtalið var í þættinum Quest Means Business.
21.10.2011 Forsetahjónin tóku þátt í minningarathöfn á Ground Zero um þá sem létust í árásunum á Tvíburaturnana 11. september 2001. Auk þeirra tóku Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning, Karl Gústav Svíakonungur og Silvía drottning, Tarja Halonen, forseti Finnlands og Friðrik krónprins Danmerkur og Mary krónprinsessa þátt í athöfninni ásamt sendiherrum landanna og embættismönnum. - Í kvöld verður hátíðarsamkoma í tilefni af aldarafmæli Norrænu stofnunarinnar í Bandaríkjunum, American Scandinavian Foundation. Þjóðhöfðingjarnir munu ásamt um 1000 velunnurum Norðurlanda og áhrifafólki frá Norðurlöndum í Bandaríkjunum taka þátt í samkomunni.  Fréttatilkynning.
22.10.2011 Forseti á fund með Alice Rogoff, stjórnanda Alaska Dispatch, og bandarískum athafnamönnum um þróun atvinnulífs á Norðurslóðum, mikilvægi samvinnu um samgöngur og ábyrga nýtingu náttúruauðlinda sem og traust samband við frumbyggja og virðingu fyrir hagsmunum hinna smærri samfélaga. Vefsíða Alaska Dispatch.
24.10.2011 Forseti ræðir við Sigurð Snæberg Jónsson um gerð heimildamyndar.
24.10.2011 Forseti tekur á móti nýrri ævisögu Þórhalls Bjarnarsonar biskups, Brautryðjandinn. Höfundur bókarinnar, Óskar Guðmundsson, og hópur afkomenda Þórhalls afhentu bókina á Bessastöðum. Fjölskylda Þórhalls, m.a. faðir hans og dóttir, hefur á margan hátt verið tengd við Bessastaði. Myndir
24.10.2011 Forseti sendir forseta Tyrklands Abdullah Gül samúðarkveðjur vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi. Þar kemur fram að hugur Íslendinga sé hjá fjölskyldum og vinum þeirra sem látist hafa eða slasast. Þjóðir heims séu á slíkum tímum reiðubúnar að rétta  hjálparhönd; samstaða og samhjálp séu brýn þegar hamfarir náttúrunnar ógni lífi og heilsu. Fréttatilkynning.
25.10.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Laos, hr. Khouanta Phalivong, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi nýtingu vatnsafls í Laos og möguleika á að styðjast við reynslu og þekkingu Íslendinga á því sviði, m.a. með áherslu á smærri virkjanir og arðsemi dreifikerfis. Einnig var rætt um stöðu mála í nágrannalöndum og samskipti Laos við þau. Mynd
25.10.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Nígeríu, hr. Felix Yusufu Pwol, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um góðan árangur í viðskiptum með sjávarafurðir og óskir stjórnvalda Nígeríu um að efla þátttöku Íslendinga í þróun sjávarútvegs, m.a. með þjálfun í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er á Íslandi. Sendiherrann lýsti einnig áhuga á að heimsækja þau byggðarlög hér sem selja sjávarafurðir til Nígeríu og þróa þannig stuðning við enn frekari samskipti. Mynd
25.10.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Eþíópíu, hr. Berhanu Kebede, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna á sviði jarðhitanýtingar en íslenskir sérfræðingar vinna nú að slíkum verkefnum í Eþíópíu. Þá var einnig fjallað um efnahagslega þróun þar í landi, mikinn hagvöxt en um leið vandamál sem óvissa í ýmsum nágrannalöndum hefur skapað. Glíman við afleiðingar loftslagsbreytinga er líka knýjandi. Mynd
26.10.2011 Forseti á fund með Braga Björnssyni skátahöfðingja og Jenný Dögg Björgvinsdóttur um friðarþing sem skátahreyfingin stefnir á að halda á næsta ári í tengslum við 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi. Jenný Dögg er formaður undirbúningsnefndar. Munu bæði íslenskir og erlendir þátttakendur sækja þingið sem einkum verður miðað við ungt fólk.
26.10.2011 Forseti á fund með Jóni Sigfússyni forstöðumanni Rannsókna og greiningar og Héðni Björnssyni frá Landlæknisembættinu um forvarnarstarf í framhaldsskólum og verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli. Einnig var fjallað um árangur af forvarnardeginum sem haldinn var fyrr í október.
27.10.2011 Forseti tekur ásamt forstjóra Landhelgisgæslunnar, ráðherrum og öðrum á móti hinu nýja varðskipi Þór þegar það kom til hafnar í Reykjavík. Innanríkisráðherra flutti ávarp, dómkirkjuprestur blessaði skipið og áhöfn þess og að því loknu sýndi skipherrann forseta og öðrum ýmsa þætti í búnaði skipsins. Vefsíða Landhelgisgæslunnar.
27.10.2011 Forseti sækir ráðstefnu um endurreisn íslensks efnahagslífs sem Seðlabanki Íslands, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og stjórnvöld efna til. Þar fjalla innlendir og erlendir sérfræðingar um þá lærdóma sem draga má af reynslu Íslendinga frá hruni bankanna, ýmsa þætti í aðdraganda hrunsins og stöðuna í alþjóðlegum efnahagsmálum, einkum stöðu Evrusvæðisins. Dagskrá og efni ráðstefnunnar á vef Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Nóvember

01.11.2011 Forseti heimsækir nýsköpunarfyrirtækið Prokatín sem starfar í Vísindagörðum Orkuveitunnar við Hellisheiðarvirkjun. Heimsóknin var liður í nýsköpunarkynningu Samtaka iðnaðarins. Myndir.
01.11.2011 Forseti heimsækir Kjörís í Hveragerði og kynnir sér framleiðslu og starfsemi fyrirtækisins. Heimsóknin er liður í nýsköpunarkynningu Samtaka iðnaðarins. Myndir.
01.11.2011 Forseti heimsækir vinnslustöð Mjólkursamsölunnar á Selfossi og kynnir sér starfsemina undir leiðsögn Guðmundar Geirs Gunnarssonar útibússtjóra og Einars Sigurðssonar forstjóra. Fyrirtækið er burðarás í landbúnaði á Suðurlandi og endurnýjar framboð á ólíkum mjólkurafurðum á hverju ári. Heimsóknin er liður í nýsköpunarátaki Samtaka iðnaðarins. Myndir.
01.11.2011 Forseti heimsækir Flug- og herminjasafn Einars Elíassonar á Selfossi en þar er lögð áhersla á minjar frá tímum breska herliðsins sem hafði öfluga bækistöð í Kaldaðarnesi. Myndir.
01.11.2011 Forseti heimsækir iðnfyrirtækið Set á Selfossi sem framleiðir lagnapípur og rör m.a. fyrir hitaveitur, kalt vatn og fráveitur. Fyrirtækið hefur eflt útflutning sinn á undanförnum árum og býr nú að fjölþættri starfsemi. Heimsóknin var í tengslum við nýsköpunarátak Samtaka iðnaðarins. Bergsteinn Einarsson framkvæmdastjóri og aðrir fulltrúar fyrirtækisins kynntu forseta starfsemina. Myndir.
01.11.2011 Forseti heimsækir Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og kynnir sér nám í iðngreinum og flytur ávarp á fundi með nemendum skólans í tengslum við nýsköpunarátak sem Samtök iðnaðarins hafa skipulagt og er þar lögð áhersla á samspil menntunar og þróunar atvinnulífs. Orri Hauksson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins flutti einnig ávarp á fundinum. Heimasíða Samtaka iðnaðarinsMyndir.
02.11.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Frakklands, Marc Bouteiller, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um traust samband landanna, langvarandi samvinnu á sviði menningar og mennta og ný verkefni sem tengjast vísindum, nýtingu hreinnar orku og Norðurslóðum. Að því loknu var móttaka fyrir fulltrúa ýmissa samtaka og stofnana sem hafa náin tengsl við Frakkland. Mynd
02.11.2011 Forseti á fund með fulltrúum kínverska bílafyrirtækisins Yuton um notkun rafbíla í farþegaflutningum en fyrirtækið vinnur nú að þróun slíkra bifreiða til hópflutninga. Þær geta hentað vel sem framlag til að draga úr mengun vegna umferðar á Íslandi og stuðlað að enn frekari sjálfbærni Íslands.
03.11.2011 Forseti ýtir úr vör söfnunarátaki Slysavarnarfélagsins Landsbjargar  „Neyðarkarlinn“ og tekur þátt í sölu hans í Kringlunni.
03.11.2011 Forseti afhendir Íslensku markaðsverðlaunin sem veitt eru af ÍMARK. Markaðsmaður ársins er Jón Ásbergsson. Markaðsfyrirtæki ársins er Icelandair en auk þess voru Nova og Össur tilnefnd til verðlaunanna. Forseti flutti stutt ávarp þar sem hann áréttaði að árangur þessara þriggja fyrirtækja sýndi tækifærin sem búa í íslensku atvinnulífi. Þrátt fyrir margvíslega erfiðleika hefðu undanfarin ár verið þau bestu í sögu þessara þriggja fyrirtækja. Mikilvægt væri að kynna ungu fólki slíkan árangur til að efla bjartsýni þess og trú á framtíð Íslands. 
04.11.2011 Forseti á fund með Khalid Malik, stjórnanda hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), um nýja skýrslu stofnunarinnar, Human Development Report, og um hvernig reynsla Íslendinga á sviði  matvælaframleiðslu, sjávarútvegs og orkumála getur nýst í þróunarlöndum.
08.11.2011 Forseti á fund með Alexandr Grushko, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, en hann fer einkum með málefni Evrópu og Evrópusambandsins. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Rússlands á Norðurslóðum, við nýtingu hreinnar orku og á fleiri sviðum; einnig sameiginlega arfleifð frá tímum víkinga og landkönnuða fyrir þúsund árum sem og margvísleg og farsæl tengsl landanna á 20. öldinni, bæði á sviði menningar og viðskipta.
09.11.2011 Forseti heimsækir Grasrótarmiðstöðina þar sem fulltrúar ýmissa samtaka og málefnahópa kynna sjónarmið sín og starfsemi. Í stuttu ávarpi áréttaði forseti mikilvægi þess að efla grasrótarstarf. Í því fælist lífsmark lýðræðisins. Nútíma upplýsingatækni skapaði  nýja möguleika til að hafa áhrif.
09.11.2011 Forseti afhendir Íslensku menntaverðlaunin fyrir árið 2011. Verðlaunin voru afhent við fjölmenna athöfn í Sjálandsskóla í Garðabæ. Verðlaunin voru veitt í fjórum flokkum. Þau hlutu Sjálandsskóli í Garðabæ, Gunnlaugur Sigurðsson fyrrverandi skólastjóri, Karólína Einarsdóttir kennari og námsefnishöfundarnir Guðbjörg Pálsdóttir, Guðný Helga Gunnarsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Guðrún Angantýsdóttir. Fréttatilkynning. Myndir, ljósmyndari Erling Aðalsteinsson.
09.11.2011 Forseti er í viðtali við sjónvarpsstöðina Al Jazeera um stöðu Íslands þremur árum eftir hrun bankanna og um lærdómana sem draga má af reynslu Íslendinga og þeim aðgerðum sem beitt hefur verið hér. Viðtalinu verður sjónvarpað um helgina.
09.11.2011 Forseti ræðir við fréttamann gríska ríkissjónvarpsins um viðbrögðin við bankahruninu á Íslandi, endurreisn efnahagslífsins, áhrif ákvarðana í Icesave deilunni og stöðu og viðbrögð almennings á undanförnum árum.
10.11.2011 Forseti sækir styrktartónleika Lionsklúbbsins Fjörgyn til styrktar Barna- og unglingageðdeild Landspítalans BUGL. Fjölmargir tónlistarmenn komu þar fram og Lionsklúbburinn Fold annaðist veitingar. Styrktartónleikarnir voru í Grafarvogskirkju.
10.11.2011 Forseti heimsækir nýsköpunarfyrirtækið Kerecis á Ísafirði sem sérhæfir sig í lækningavörum úr fiskroði. Það hefur m.a. þróað græðslugrisjur fyrir sár og fótakrem. Ómega efni í fiskroðinu búa yfir eiginleikum sem annað hráefni hefur ekki og eru því miklar vonir bundnar við þessa nýsköpun í heilbrigðistækni. Fer vel á því að þessi nýja starfsemi sé í gömlum húsakynnum Íshúsfélags Ísfirðinga. Myndir.
10.11.2011 Forseti heimsækir Vestfirsku verslunina sem nýlega var sett á fót til að selja tónlist, bækur, skartgripi og ýmislegt annað sem hefur verið unnið og skapað af Vestfirðingum. Síðan heimsótti forseti Gamla bakaríið sem er í nágrenni við verslunina. Það hefur um langa hríð rekið öfluga starfsemi á Ísafirði. Nú starfa um tugur manna í bakaríinu. Þar gefur einnig að líta fjölda mynda af gömlum Ísfirðingum.
10.11.2011 Forseti heimsækir blikksmiðjufyrirtækið Ísblikk á Ísafirði sem hefur framleitt m.a. loftræstikerfi og unnið að klæðnaði á þökum og útveggjum húsa.
10.11.2011 Forseti heimsækir 3X Technology á Ísafirði sem framleiðir hátækni tækjabúnað fyrir matvælaframleiðslu, einkum í tengslum við sjávarútveg. Fyrirtækið selur framleiðslu sína víða um heim og hefur unnið nýja markaði í Asíu, m.a. í Kína. Starfsmönnum þess hefur fjölgað á ný í kjölfar vaxandi verkefna. Fyrirtækið hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2006 fyrir frábæran árangur.
10.11.2011 Forseti heimsækir TH trésmiðjuna á Ísafirði sem framleiðir innréttingar fyrir íbúðarhús og atvinnufyrirtæki. Fjallað var um stöðu þessarar framleiðslugreinar, erfiðleika og tækifæri bæði nú og á komandi árum, m.a. þörfina á endurnýjun eldra húsnæðis.
10.11.2011 Forseti heimsækir Menntaskólann á Ísafirði, skoðar verknámsstofur og ræðir þar við nemendur og kennara í margvíslegu iðnnámi. Þá ávarpaði forseti nemendur á sal og fjallaði um nýsköpun, samspil menntunar og atvinnulífs, þróun Ísafjarðar og framtíðartækifæri í íslensku atvinnulífi. Heimsóknin var liður í kynningarátaki um nýsköpun sem efnt er til í samvinnu við Samtök iðnaðarins.
10.11.2011 Forseti heimsækir Gámaþjónustu Vestfjarða.  Hún annast flokkun sorps og úrgangs og sendir plast, pappa og mjólkurfernur m.a. til Kína þar sem þessi úrgangur er notaður í iðnaðarframleiðslu. Myndir.
10.11.2011 Forseti heimsækir fyrirtæki og skóla á Ísafirði í tengslum við átak Samtaka iðnaðarins til að efla nýsköpun og styrkja tengsl skóla og atvinnulífs.
11.11.2011 Forseti tekur á móti hópi ferðamanna frá Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu og býður þeim íslenskar pönnukökur, grænmeti úr gróðurhúsum, osta og flatkökur með hangikjöti sem og Napóleonskökur og jólabrauð úr Gamla bakaríinu á Ísafirði. Heimsóknin er liður í landkynningarátaki sem stýrt er af Íslandsstofu en markmið þess er að auka straum ferðamanna til Íslands að vetri til.
11.11.2011 Forseti á fund með íslenskum sérfræðingum sem kannað hafa möguleika á nýtingu vatnsafls á Norðurslóðum, einkum á Grænlandi.
11.11.2011 Forseti tekur við enskri útgáfu af Sáðmenn sandanna: Saga landgræðslu á Íslandi 1907-2007. Roger Crofts hefur búið ritið í enska útgáfu og veitir það heildaryfirlit yfir árangur landgræðslu á Íslandi, baráttu við eyðimörk og uppblástur. Roger Crofts og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri afhentu forseta ritið. Ávarp forseta í bókinni.
11.11.2011 Forseti ræðir við hóp bandarískra blaðamanna sem heimsækja Ísland á vegum Iceland Express. Rætt var um náttúrufegurð Íslands, landnám og sögu, einkenni þjóðlífs og menningar og hvernig  hið fjölþætta landslag skapar tækifæri fyrir einstaka upplifun.
11.11.2011 Forseti er í viðtali við alþjóðlegu sjónvarpsstöðina BBC World um átak ferðaþjónustunnar í að auka fjölda ferðamanna til Íslands að vetri til og heimboðin sem fjöldi Íslendinga tekur þátt í.
14.11.2011 Forseti á fund með framkvæmdastjóra Genfarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNOG), Kassym-Jomart Tokayev (vefur UNOG). Skrifstofan samræmir starfsemi allra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem hafa aðsetur í Genf. Rætt var um ýmis verkefni hennar sem og framlag Íslands til þróunarverkefna, einkum á sviði hreinnar orku, sjávarútvegs og landgræðslu.
14.11.2011 Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnu Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNCTAD, í Genf. Ráðstefnuna sækir fjöldi forystumanna alþjóðastofnana, ráðherrar, sérfræðingar og embættismenn. Markmið hennar er að fjalla um nýjar reglur um ábyrga lánastarfsemi ríkja sem Viðskipta- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur unnið að síðastliðin tvö ár. Fjallað var um drög að þessum reglum á ráðstefnu í Kína í september 2010 en þar flutti forseti Íslands einnig ræðu og tók þátt í umræðum. Fréttatilkynning. Ræða forseta. Myndir.
17.11.2011 Forseti sækir málþing um jarðhita á Bretlandseyjum sem haldið er í sendiráði Íslands í London. Breskir sérfræðingar og fulltrúar fyrirtækja kynna ýmis jarðhitaverkefni sem unnið hefur verið að á Bretlandseyjum, einkum í Cornwall, Southampton, Newcastle og Manchester. Á málþinginu kynntu einnig íslenskir sérfræðingar og stjórnendur stofnana jarðhitanýtingu á Íslandi og tækifæri til samvinnu við önnur lönd. Forseti flutti ræðu í hádegisverði þar sem hann fjallaði um sögu jarðhitanýtingar á Íslandi og lýsti hvernig samvinna við ríki í Afríku, Asíu, Evrópu og Ameríku hefði þróast á undanförnum árum. Þau verkefni sem nú væri unnið að í Bretlandi gætu orðið grundvöllur að öflugri samvinnu við Ísland.
19.11.2011 Forseti tekur á móti hópi starfsmanna Icelandair í Bandaríkjunum sem unnið hafa að því að auka fjölda ferðamanna til Íslands, m.a. í tengslum við nýlega herferð í þágu vetrarferðamennsku. Gríðarleg fjölgun hefur orðið á bandarískum ferðamönnum til Íslands og eru góðar horfur á að hún muni halda áfram á næsta ári. Rætt var um hvað einkum höfðar til ferðamanna í slíkum heimsóknum til Íslands.
20.11.2011 Forseti tekur þátt í athöfn til að minnast fórnarlamba umferðarslysa. Viðstaddir athöfnina voru fulltrúar þeirra starfsstétta sem einkum sinna slíkum slysum: lögreglu, sjúkraflutningamanna, björgunarsveita, áhafna þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar, lækna og hjúkrunarfólks. Forseti flutti ávarp þar sem hann hvatti þjóðina til að sameinast í baráttunni gegn umferðarslysum, vottaði aðstandendum þeirra sem látist hafa samúð og þakkaði þeim starfsstéttum sem koma á vettvang. Forseti vakti athygli á því að frá því að hægri umferð var tekin upp á Íslandi árið 1968 hafa tæplega þúsund manns látið lífið í umferðinni og um 9.000 slasast alvarlega. Tekist hefði með samstilltu átaki að draga verulega úr fjölda þeirra sem drukkna og sá árangur væri hvatning til að sameinast um aðgerðir til að draga úr umferðarslysum. Í lok ávarps forseta var einnar mínútu þögn. Að henni lokinni heimsótti forseti starfsfólk bráðamóttökunnar og færði því sem þakklætisvott brauð og bakkelsi í tilefni dagsins.
21.11.2011 Forseti á fund með Bonnie J. Dunbar, geimfara og fyrrum sérfræðingi hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, um mikilvægi menntunar á sviði vísinda og tækni og hvernig unnt er að efla áhuga yngri kynslóðar á stærðfræði, verkfræði og fleiri greinum tækni og vísinda. Samkeppnishæfni þjóða muni m.a. ráðast af því hvort tekst að auka vinsældir slíkra greina meðal ungs fólks.
22.11.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Egyptalands, hr. Ashraf M. Mohieldin Elmoafi, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um lýðræðisbyltinguna í Egyptalandi, atburði síðustu daga, breytingar á stjórn landsins og kröfuna um nýja stjórnarskrá og lýðræðislega stjórnarhætti. Einnig var fjallað um hvernig bylting í upplýsingatækni og félagsmiðlar hafa gefið fólki vald til að beita sér á nýjan hátt og knýja fram grundvallarbreytingar. Atburðarás bæði í Egyptalandi, á Íslandi, í Bandaríkjunum og víða í Evrópu á undanförnum mánuðum og misserum fela í sér margvíslegan vitnisburð um slíkar grundvallarbreytingar. Mynd.
22.11.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Sviss, hr. Jean-Philippe Tissières, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samvinnu Íslands og Sviss í EFTA og afstöðu landanna á undanförnum árum og áratugum til Evrópusambandsins og aukinnar samvinnu Evrópuríkja. Mynd.
22.11.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Belgíu, hr. Michel Godfrind, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um stöðuna í Evrópu, stuðning Belgíu við að auka samrunann í álfunni og byggja upp sameiginlegar stofnanir aðildarríkja. Þá var einnig fjallað um endurreisn íslensks efnahagslífs og tengsl landsins við Belgíu og önnur ríki í Evrópu auk þess sem rætt var um sambúð ólíkra þjóðarbrota í Belgíu og hve langan tíma hefur tekið að mynda þar ríkisstjórn. Mynd.
23.11.2011 Forseti ræðir við fréttmanninn Rolf Tardell frá sænska ríkissjónvarpinu um endurreisn Íslands, auðlindir þjóðarinnar og tækifæri í framtíðinni, áhrif umrótsins á evrópskum fjármálamarkaði og hvernig hin alþjóðlega fjármálakreppa hefur skerpt línurnar milli lýðræðis og markaðar.
23.11.2011 Forseti ræðir við blaðamann frá Brasilíu um íslenskt þjóðlíf og efnahagslíf þremur árum eftir bankahrunið en blaðamaðurinn hafði heimsótt Ísland í árslok 2008. Einnig var rætt um stjórnskipun Íslands og stöðuna á alþjóðlegum fjármálamarkaði.
24.11.2011 Forseti tekur þátt í hátíðardagskrá Samráðsvettvangs trúfélaga í tilefni af fimm ára afmæli samtakanna. Dagskráin fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sextán aðilar eru að samráðsvettvanginum. Forseti flutti ávarp þar sem hann áréttaði mikilvægi þessa samstarfs, áríðandi væri að gagnkvæmur skilningur og umburðarlyndi ríkti í trúmálum landsmanna og varaði við þeirri hættu sem birtist nánast daglega víða um heim þar sem ólík trúarbrögð væru notuð til að réttlæta átök, hatur og ótta.
24.11.2011 Forseti tekur þátt í viðræðum í vísitasíuheimsókn séra Gunnars Kristjánssonar prófasts í Bessastaðakirkju og býður svo prófasti ásamt prestum kirkjunnar og fulltrúum safnaðarins á Álftanesi til Bessastaðastofu.
26.11.2011 Forseti afhendir verðlaun og viðurkenningar í ratleik og myndbandasamkeppni Forvarnardagsins 2011. Verðlaunahafar koma bæði frá grunnskólum og framhaldsskólum víða að af landinu, svo sem frá Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík. Meðal gesta verða foreldrar og fjölskyldur verðlaunahafa sem og fulltrúar frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, Skátahreyfingunni og öðrum aðstandendum Forvarnardagsins. Fréttatilkynning.
28.11.2011 Forseti tekur á móti stjórnarmönnum norrænna kennarafélaga sem funda á Íslandi, ræðir skólasögu Bessastaða og menntamál og kennsluhætti á nýrri öld.
28.11.2011 Forseti ræðir við blaðamann bandaríska blaðsins USA Today um vetrarferðir til Íslands, blæbrigði íslenskrar náttúru að hausti og vetri, lærdóma sem draga má af endurreisn íslensks efnahagslífs og glímunni við afleiðingar af hruni bankanna.
29.11.2011 Forseti á fund með stjórn samtaka norrænna bankamanna, Nordic Financial Unions. Rætt var um viðbrögð við hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, aðgerðir í kjölfar bankahrunsins á Íslandi og stöðu starfsmanna banka og fjármálafyrirtækja.
29.11.2011 Forseti ræðir við nemendur í stjórnmálafræði í Menntaskóla Borgarfjarðar um sögu Bessastaða, þróun íslenskrar stjórnskipunar, breytingar á stjórnarskránni í tímans rás, tillögur stjórnlagaráðs, grundvallarhugmyndir um lýðræði og stöðu forsetaembættisins.
30.11.2011 Forseti á fund með forsvarsmönnum Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, um þróun samvinnu á Norðurslóðum, nýjar siglingaleiðir sem opnast munu vegna bráðnunar íss sem og stöðu Íslands og aukið mikilvægi flutninga um þessar slóðir.
30.11.2011 Forseti á fund með Braga Björnssyni skátahöfðingja og Hermanni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra BÍS, um friðarþing sem Skátahreyfingin áformar að halda í Reykjavík haustið 2012. Þingið munu sækja skátar víða að úr veröldinni. Það er haldið í tengslum við 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi. Forseti verður verndari þingsins.
30.11.2011 Forseti tekur á móti nýrri bók, Dauðinn í Dumbshafi, sem fjallar um Íshafsskipalestirnar sem fóru frá Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni. Magnús Þór Hafsteinsson er höfundur bókarinnar og hefur hann unnið að víðtækri efnisöflun sem varpar nýju ljósi á stöðu og mikilvægi Íslands í síðari heimsstyrjöldinni.

Desember

01.12.2011 Forseti tekur á móti Alþingismönnum í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember.
01.12.2011 Forseti tekur á móti forystumönnum stúdenta og stjórnendum háskólanna í landinu. Fullveldisdagurinn hefur lengi verið dagur stúdenta og minntist forseti þess í ávarpi; áréttaði hann hve mikilvægt öflugt háskólastarf, rannsóknir og vísindi væru fyrir stöðu þjóðarinnar og velferð á komandi tímum.
01.12.2011 Forseti er viðstaddur Hátíð brautskráðra doktora við Háskóla Íslands en 50 doktorsefni hafa lokið prófi við skólann á þessu afmælisári. Í lok athafnarinnar flutti forseti stutt ávarp þar sem hann óskaði Háskólanum til hamingju með þennan glæsilega árangur. Hann væri sterk skilaboð um getu skólans á nýrri öld og framlag hans til þróunar vísinda á alþjóðavísu.
01.12.2011 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum stúdenta í tilefni af fullveldisdeginum. Lagður er blómsveigur að leiði Jóns Sigurðssonar, Háskólakórinn syngur og flutt er ræða dagsins. Þvínæst er guðþjónusta er Háskólakapellunni og að lokum hádegisfagnaður stúdenta á Háskólatorgi.
02.12.2011 Forseti afhendir Íslensku bjartsýnisverðlaunin við athöfn í Iðnó. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Sigrún Eldjárn, rithöfundur og myndlistarmaður. Bjartsýnisverðlaunin voru upphaflega stofnuð af danska athafnamanninum Bröste en á síðari árum hefur álverið í Straumsvík staðið að þeim. Verðlaunin hafa nú verið veitt í rúmlega þrjátíu ár.
02.12.2011 Forseti ræðir við fréttakonu úkraínskra ríkissjónvarpsins um stöðu Íslands, menningu og þjóðlíf, samskipti við þjóðir í Mið- og Austur-Evrópu sem og afleiðingar breyttrar heimsmyndar.
03.12.2011 Forseti veitir Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum og er þeim ætlað að heiðra þá sem eflt hafa hag öryrkja og aukið skilning samfélagsins á aðstöðu þeirra og hagsmunum. Í ávarpi sínu vísaði forseti til alþjóðlegra rannsókna á félagslegum auði sem skipti sköpum í endurreisn þjóðfélaga sem orðið hefðu fyrir áföllum. Öryrkjabandalagið væri mikilvægur þáttur í slíkri auðlind Íslendinga. Vefsíður ÖBÍ.
05.12.2011 Forseti ræðir við Jóhann J. Ólafsson, fyrrverandi forstjóra, um ný viðhorf til eignajöfnunar í íslensku samfélagi, hugmyndir um nýskipan efnahagsmála og þá lærdóma sem draga má af reynslu síðustu ára.
05.12.2011 Forseti á fund með nýjum sendiherra Slóvakíu á Íslandi, frú Barbara Illková, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um árangur af heimsókn forseta Slóvakíu til Íslands fyrir nokkrum árum, áhuga á jarðhitaframkvæmdum í Slóvakíu sem og þróun mála á evrusvæðinu og afstöðu stjórnvalda í Slóvakíu til frekari samruna innan Evrópusambandsins. Mynd.
06.12.2011 Forseti er viðstaddur frumsýningu í Ólafsvík á nýrri heimildamynd um það sem nefnd hefur verið önnur ferð Guðríðar Þorbjarnardóttur til Rómar þegar hópur heimamanna ásamt forseta Íslands afhenti Benedikt páfa XVI styttu af Guðríði til að staðfesta sögulega ferð hennar fyrir þúsund árum. Hún var fyrsta kristna konan sem kom til Vesturheims. Myndir.
06.12.2011 Forseti situr kvöldverð bæjarstjórnar Snæfellsbæjar í tilefni af frumsýningu nýrrar heimildamyndar um aðra ferð Guðríðar Þorbjarnardóttur til Rómar. Myndir.
07.12.2011 Forseti heimsækir dvalarheimilið Jaðar í Ólafsvík, borðar hádegismat með heimilisfólki og skoðar nýtt húsnæði. Þá fór forseti í félagsheimilið Klif þar sem eldri borgarar í Snæfellsbæ koma saman einu sinni í viku og sinna ýmsum verkefnum. Þar var forseta kynnt fjölþætt starfsemi eldri borgara í Snæfellsbæ. Myndir.
07.12.2011 Forseti heimsækir Fiskiðjuna Bylgju í Ólafsvík þar sem rúmlega 60 manns starfa við framleiðslu á margskonar sjávarafurðum. Fiskiðjan sérhæfir sig í vinnslu á ýmsum fisktegundum og vörutegundum sem seldar eru til Belgíu og Svíþjóðar. Allur fiskur er keyptur á markaði og byggist fyrirtækið á fjölþættri sérhæfingu í vinnslu sjávarafurða. Myndir.
07.12.2011 Forseti heimsækir Landsbankann í Ólafsvík og ræðir við stjórnendur hans og starfsfólk um rekstur bankans á undanförnum misserum, fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja í byggðarlaginu og þjónustu við fólk af erlendum uppruna sem starfa í fjölmörgum fyrirtækjum í héraðinu. Myndir.
07.12.2011 Forseti heimsækir Gamla pakkhúsið í Ólafsvík sem gert hefur verið upp. Þar er kynning á margvíslegu handverki og varningi sem framleiddur er af heimamönnum og einnig eru þar ýmiss konar samkomur sem skapa aukna fjölbreytni í bæjarlífinu. Myndir.
07.12.2011 Forseti heimsækir Fiskverkun KG á Rifi en hún sérhæfir sig í saltfiskvinnslu fyrir Spánarmarkað. Nýtt húsnæði var tekið í notkun fyrir fjórum árum og vinna þar rúmlega 20 starfsmenn við framleiðslu á hágæða saltfiski. Rætt var um stöðu fiskvinnslufyrirtækja og betri afkomu þeirra á síðari árum. Myndir.
07.12.2011 Forseti heimsækir Leikskólann Kríuból á Hellissandi og ræðir við starfsfólk og börnin sem þar eru, rúmlega 40 talsins, og hlýddi síðan á flutning barnanna á nokkrum þekktum sönglögum. Myndir.
08.12.2011 Forseti tekur á móti börnum úr Álftanesskóla, Krakkakoti og Holtakoti sem aðstoða við að kveikja á jólatrjám fyrir utan Bessastaðastofu. Börnin sungu jólasöngva og jólasveinar komu í heimsókn. Athöfin hefur verið árlegur viðburðir meðal barna í sveitarfélaginu.
08.12.2011 Forseti á fund með forystumönnum Reykjavik Geothermal um jarðhitaverkefni sem unnið er að víða um heim þar sem íslensk þekking og reynsla er lögð til grundvallar í samvinnu við heimamenn og alþjóðlega fjárfesta.
11.12.2011 Flutt er ávarp forseta í sérstakri dagskrá Ríkissjónvarpsins og Færeyska sjónvarpsins í tilefni þess að efnt er til söfnunar fyrir Færeyinga vegna fárviðris sem geisaði þar fyrir skömmu. Hljóðupptaka á vef kanadíska útvarpsins (Hour One).
11.12.2011 Forseti er í viðtali í sunnudagsþætti kanadísku sjónvarpsstöðvarinnar CBC Radio þar sem rætt er um viðbrögð Íslands við fjármálakreppunni, samspil lýðræðis og alþjóðlegs fjármálamarkaðar, lærdómana sem draga má af þeim aðferðum sem Ísland hefur beitt og hvernig auðlindir og sköpunarkraftur hefur lagt grundvöll að endurreisn.
12.12.2011 Forseti heimsækir Masdar háskólann í Abu Dhabi sem tók til starfa fyrir tveimur árum. Stjórnendur háskólans kynntu forseta árangur rannsókna og fræðastarfs sem og reynsluna af hinum umhverfisvænu háskólabyggingum sem ætlað er að draga verulega úr orku- og vatnsnotkun. Forseta var á sínum tíma boðið af stjórnvöldum í Abu Dhabi að vera viðstaddur vígslu háskólabygginganna sem teiknaðar voru af Norman Foster. Íslenskir stúdentar hafa stundað nám við skólann og forseti tók á sínum tíma þátt í mótun hugmynda um sjálfbærni sem liggja til grundvallar Masdar hverfinu. Að heimsókn lokinni átti forseti fund í höfuðstöðvum Masdar með starfsfólki Zayed orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize.
12.12.2011 Forseti ræðir við Sölva Tryggvason í þættinum Málið á Skjá einum. Fjallað var um störf forseta, eðli forsetaembættisins, ákvarðanir á síðustu árum, samskipti við ýmsa ráðamenn og framtíðaráform.
13.12.2011 Forseti er viðstaddur kynningu Ólafs H. Wallevik,  forstöðumanns grunnrannsókna við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og prófessors við Háskólann í Reykjavík, og samstarfsaðila hans í Abu Dhabi, ReadyMix steypufyrirtækisins, á umhverfisvænustu steypu sem framleidd hefur verið. Rannsóknirnar, sem m.a. hafa farið fram við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, fela í sér nýjungar í efnisnotkun og framleiðslu steypu þar sem losun koltvíoxíðs er orðin hverfandi. Steypan mun jafnframt uppfylla ýtrustu kröfur um styrk og varanleika. Samkomulag um þetta þróunarverkefni var undirritað fyrir ári þegar forseti sótti Heimsþing hreinnar orku, World Future Energy Summit, í Abu Dhabi. Myndir.
13.12.2011 Forseti tekur þátt í megindagskrá umhverfisráðstefnunnar Eye on Earth sem haldin er í Abu Dhabi en markmið hennar er að efla þróun upplýsingakerfa sem auka möguleika á því að fylgjast nákvæmlega með sjálfbærnistigi borga og samfélaga. Meðal ræðumanna var Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, en Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna er einnig aðili að ráðstefnunni. Í tengslum við hana var opnuð sýning á upplýsingatækni í þágu sjálfbærni. Myndir.
14.12.2011 Forseti tekur þátt í blaðamannafundi dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna ásamt öðrum dómnefndarmönnum og ræðir síðan við ýmsa fjölmiðla, m.a. alþjóðlegu sjónvarpsstöðina CNN. Myndir.
14.12.2011 Forseti féllst fyrir skömmu á að gegna formennsku í dómnefnd alþjóðlegu orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize, en þau hafa á skömmum tíma orðið hin virtustu sinnar tegundar í veröldinni. Meðal annarra dómnefndarmanna eru Mohammed Nasheed, forseti Maldíveyja, dr. Susan Hockfield, rektor MIT háskólans í Bandaríkjunum, Timothy Wirth, forseti Sameinuðu þjóða stofnunarinnar og fyrrverandi öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, Cherie Blair lögfræðingur, Leonardo DiCaprio, kvikmyndaleikari og umhverfissinni, og Elizabeth Dipuo Peters, orkuráðherra Suður Afríku. Forseti Íslands tók við formennsku í dómnefndinni af R. Pachauri Nóbelsverðlaunahafa og formanni Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Fréttatilkynning. Myndir: dómnefnd, ráðstefna, rannsóknarverkefni.
15.12.2011 Forseti birtir afmæliskveðju í ritinu Undir straumhvörfum, Saga Fiskifélags Íslands í hundrað ár. Afmæliskveðja forseta
19.12.2011 Forseti ræðir við blaðamenn frá Bandaríkjunum og Evrópu um ferðaþjónustu á Íslandi að vetri til, margbreytileika náttúrunnar og hvers vegna ferðir til Íslands hafa orðið sífellt vinsælli. Samræðurnar eru í tengslum við átakið Inspired by Iceland.
19.12.2011 Forseti sendir samúðarkveðjur til Benigno S. Aquino, forseta Filippseyja, vegna fellibyls og flóða á sunnanverðum eyjunum sem kostað hafa hundruð mannslífa. Í kveðjunni sagði forseti að Íslendingar fyndu sárt til með íbúum Filippseyja og væri hugur okkar hjá þeim sem misst hefðu ástvini sem og hjá björgunarsveitarmönnum. Á Íslandi eigi margir vini og ættingja á Filippseyjum og þau tengsl efli samúð okkar enn frekar. Fréttatilkynning.
27.12.2011 Forseti á fund með Hauki Harðarsyni um nýtingu jarðhita í Kína, á Filippseyjum og fleiri löndum í Asíu, bæði til húshitunar og kælingar, gróðurhúsaræktunar og til þurrkunar á matvælum.
27.12.2011 Forseti á fund með athafnamönnum sem unnið hafa að athugunum á útflutningi á vatni til landa og heimshluta sem búa við alvarlegan vatnsskort.
27.12.2011 Forseti á fund með Sturlu Jónssyni og Arngrími Pálmasyni um samskipti einstaklinga við stjórnsýslustofnanir og banka og nauðsyn þess að farið sé að lögum um öll formsatriði.
28.12.2011 Forseti tekur þátt í athöfn í KA-heimilinu á Akureyri þar sem afhentir voru samfélagsstyrkir Samherja hf. Alls nam upphæðin 75.000.000 króna og voru þeir veittir til íþróttafélaga, æskulýðsstarfs og annarra samfélagslegra verkefna. Þá var einnig tilkynnt um styrk til rannsókna á hverastrýtunum á botni Eyjafjarðar en forseti er verndari þess verkefnis. Mikill fjöldi starfsmanna Samherja, sjómenn og fiskvinnslufólk sótti athöfnina.
29.12.2011 Forseti á fund með Kristjáni Birni Ómarssyni um þróun umhverfisvæns blöndungs sem byggður er á íslensku hugviti, dregur verulega úr mengun og stuðlar að orkusparnaði. Forseti hefur fylgst með þróun hans á undanförnum árum.
30.12.2011 Forseti er í viðtali á Útvarpi Sögu í tilefni þess að hlustendur stöðvarinnar völdu hann mann ársins. Fjallað var um ýmsar ákvarðanir forseta, stöðu embættisins í stjórnskipun, tillögur stjórnlagaráðs og þróun lýðræðis.
31.12.2011 Forseti er í viðtali í Kryddsíld Stöðvar 2 þar sem fréttastofa Stöðvar 2 valdi hann mann ársins. Rætt var um forsetaembættið, atburði liðins árs, Icesave, stöðu þjóðarinnar og framtíðina. Vefur Stöðvar 2.
31.12.2011 Forseti stýrir fundi ríkisráðs á Bessastöðum þar sem staðfest voru lög og aðrar stjórnarathafnir sem afgreiddar höfðu verið utan ríkisráðs. Einnig urðu breytingar á ríkisstjórn, tveir ráðherrar létu af störfum og nýr ráðherra tók sæti í ríkisstjórninni.
31.12.2011 Forseti tekur á móti ungum skátum sem afhentu forseta kveðju skátahöfðingja í tilefni af því að árið 2012 verður hundrað ára afmæli Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Forseti lét þá síðan fá kveðju og árnaðaróskir til skátahöfðingja og var athöfnin í sama stíl og fyrir fimmtíu árum þegar Ásgeir Ásgeirsson tók við samsvarandi kveðju í tilefni af afmæli Skátahreyfingarinnar. Þeir sem afhentu Ásgeiri kveðjuna fyrir fimmtíu árum voru einnig viðstaddir athöfnina nú. Mynd. Heimasíða skáta.