Veftré Print page English

Auk núverandi forseta, Ólafs Ragnars Grímssonar, hafa fjórir gegnt embættinu frá því það var sett á laggirnar á Þingvöllum árið 1944. Þeir eru þessir:

 

Sveinn Björnsson, forseti Íslands 1944-1952

 

Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands 1952-1968

 

Kristján Eldjárn, forseti Íslands 1968-1980

 

Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996


Forsetakosningar 1952-2012

 


1944-1952

Sveinn Björnsson var fyrst kjörinn forseti Íslands á Alþingi 1944. Var hann þjóðkjörinn án atkvæðagreiðslu tvisvar, árið 1945 og aftur 1949.

 


1952-1968

Ásgeir Ásgeirsson var fyrst kjörinn forseti 1952 og hlaut þá 32.924 atkvæði eða 46,7% greiddra atkvæða. Mótframbjóðendur hans voru Bjarni Jónsson, sem hlaut 31.045 atkvæði eða 44,1% og Gísli Sveinsson sem hlaut 4.255 atkvæði eða 6,0% greiddra atkvæða. Auðir og ógildir seðlar voru 2.223 talsins eða 3,2%.

 

Ásgeir var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1956, 1960 og 1964.

 


1968-1980
 

Kristján Eldjárn var fyrst kjörinn forseti 1968 og hlaut hann 67.544 atkvæði eða 65% greiddra atkvæða. Mótframbjóðandi hans var Gunnar Thoroddsen sem hlaut 35.428 atkvæði eða 34,1%. Auðir og ógildir seðlar voru 918 talsins eða 0,9%.

 

Kristján var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1972 og 1976.

 


1980-1996

Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti 1980 með 43.611 atkvæðum eða 33,6% greiddra atkvæða. Mótframbjóðendur hennar voru þeir Guðlaugur Þorvaldsson, sem hlaut 41.700 atkvæði eða 32,2%, Albert Guðmundsson sem hlaut 25.599 atkvæði eða 19,8% og Pétur J. Thorsteinsson sem hlaut 18.139 atkvæði eða 14,0%. Auðir og ógildir seðlar voru 546 talsins eða 0,4%.

 

Vigdís var endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984 en 1988 kom fram mótframboð gegn henni. Í kosningum þá hlaut Vigdís 117.292 atkvæði eða 92,7% greiddra atkvæða en mótframbjóðandi hennar, Sigrún Þorsteinsdóttir hlaut 6.712 atkvæði eða 5,3%. Auðir og ógildir seðlar voru 2.531 talsins eða 2,0%.

 

Vigdís var endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1992.

 


1996-

Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti árið 1996 með 68.370 atkvæðum eða 40,86% greiddra atkvæða. Mótframbjóðendur hans voru Pétur Kr. Hafstein sem hlaut 48.863 atkvæði eða 29,20%, Guðrún Agnarsdóttir sem hlaut 43.478 atkvæði eða 26,04% og Ástþór Magnússon sem hlaut 4.422 atkvæði eða 2,64%. Auðir seðlar og ógildir voru 2.101 eða 1,26%.

Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 2000 en 2004 kom fram mótframboð. Í þeim kosningum hlaut Ólafur Ragnar 90.662 atkvæði eða 67,5% greiddra atkvæða, Baldur Ágústsson hlaut 13.250 atkvæði eða 12,5% og Ástþór Magnússon Wium hlaut 2.001 atkvæði eða 1,5%. Auðir seðlar og ógildir voru 28.461 eða 21,2%. Árið 2008 var Ólafur Ragnar Grímsson endurkjörinn án atkvæðagreiðslu þar sem enginn annar gaf kost á sér til embættisins. Í forsetakosningum árið 2012 var Ólafur Ragnar kjörinn forseti með 84.036 atkvæðum eða 52,8% gildra atkvæða. Aðrir hlutu atkvæði sem hér segir: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir 2.867 atkvæði (1,8% gildra atkvæða), Ari Trausti Guðmundsson 13.764 atkvæði (8,6%), Hannes Bjarnason 1.556 atkvæði (1,0%), Herdís Þorgeirsdóttir 4.189 atkvæði (2,6%) og Þóra Arnórsdóttir 52.795 atkvæði (33,2%). Auðir og ógildir kjörseðlar voru 4.044.

 


Úrslit forsetakjörs 1952, 1968, 1980, 1988, 1996 og 2004.