Fáni forseta Íslands er hinn íslenski tjúgufáni, þ.e. þjóðfáninn klofinn að framan. Í honum, þar sem armar krossmarksins mætast, er skjaldarmerki Íslands og skjaldberar í hvítum, ferhyrndum reit.
Tjúgufáninn er að því leyti frábrugðinn hinum almenna þjóðfána að ytri reitir hans eru þrefalt lengri en stangarreitirnir og klauf upp í hann að framan, skorin eftir beinum línum, dregnum frá ytri hornum fánans inn að miðlínu hans. Línur þessar skera innjaðra ytri reitanna, þar sem saman koma 4/7 ytri og 3/7 innri hlutar lengdar þeirra. Þar, sem línur þessar nema við arm rauða krossins, er hann þverskorinn.
Notkun fána forseta Íslands fer eftir ákvörðun forsetaembættisins.
|
|
Samkvæmt lögum nr 39, 8. júlí 1944, á forseti Íslands sérstakt merki. Það er skjöldur, að lögun og lit sem skjöldurinn í skjaldarmerki Íslands, en þar sem armar krossmarksins mætast er hvítur, ferhyrndur reitur og í honum skjaldarmerki Íslands og skjaldberar.
|
|