Veftré Print page English

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta


Hér birtist skrá yfir ýmsa atburði í dagskrá forseta en auk þeirra sem hér eru nefndir er fjöldi annarra þátta sem ekki eru tilgreindir,  t.d. fundir með ráðherrum og embættismönnum, fulltrúum fyrirtækja og samtaka og fjölmörgum einstaklingum með margvísleg erindi og erlendum gestum sem til Íslands koma. Þá sækir forsetinn jafnframt fjölda menningarviðburða sem ekki eru raktir hér, s.s. leiksýningar, myndlistasýningar, tónleika og aðra mannfagnaði.

 

Árið 2014

Janúar

01.01.2014 Forseti flytur nýársávarp sem er útvarpað og sjónvarpað frá Bessastöðum. Ávarp forseta. Ensk þýðing.
01.01.2014 Forseti sæmir ellefu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fréttatilkynning. Mynd.
01.01.2014 Forseti tekur á móti ráðherrum, dómurum, alþingismönnum, sendiherrum, ræðismönnum, forystumönnum ríkisstofnana og embættismönnum, forystumönnum félagasamtaka, stéttarsamtaka og atvinnulífs sem og forystufólki íþrótta, menningar og lista.
02.01.2014 Forseti á fund með Árna M. Mathiesen, yfirmanni sjávarútvegsmála hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, um víðtækan áhuga á að nýta reynslu Íslendinga á mörgum sviðum sjávarútvegs, áform um þurrkun matvæla í ýmsum löndum Asíu og Afríku og alþjóðlegt samstarf um slíkt verkefni.
02.01.2014 Forseti á fund með sendiherra Íslands á Indlandi, Guðmundi Eiríkssyni, um víðtækt samstarf landanna sem eflst hefur mjög á undanförnum árum bæði á sviði jöklarannsókna, nýtingar jarðhita, upplýsingatækni og á fleiri sviðum. Fjallað var um þjálfun indverskra jöklafræðinga á Íslandi og áhuga Indverja á að nýta fræðilega þekkingu Íslendinga við uppbyggingu jöklarannsóknastofnunar í landinu. Þá var einnig rætt um þróun mála á Indlandi, væntanlegar þingkosningar og þjóðfélagshræringar.
03.01.2014 Forseti á fund með Guðmundi Þóroddssyni og öðrum forystumönnum Reykjavík Geothermal um árangur þeirra í þróun jarðhitaverkefna í Afríku en nýlega náðist samkomulag um að reisa þúsund megavatta jarðhitavirkjun í Eþíópíu. Einnig hefur verið unnið að verkefnum í fleiri ríkjum Afríku og vaxandi áhugi er á jarðhita í álfunni. Þá var einnig greint frá verkefnum fyrirtækisins í Mexíkó og ýmsum öðrum löndum. Einnig sat hluta fundarins Nejib Abbabiya, athafnamaður og áhrifamaður frá Eþíópíu sem tekið hefur virkan þátt í þróun jarðhitaverkefnanna þar í landi. Greindi hann frá miklum áhuga stjórnvalda í Eþíópíu á að efla slíkt samstarf við íslenska aðila.
03.01.2014 Forseti á fund með Þorsteini Ingólfssyni sendiherra, sem er fulltrúi Íslands í Norðurskautsráðinu, um þær breytingar sem eru að verða á ráðinu með áheyrnaraðild áhrifaríkja í Evrópu og Asíu sem og hin fjölþættu verkefni sem ráðið sinnir. Þá var einnig rætt um mikilvægi þessa starfs fyrir Ísland, bæði varðandi tengsl við önnur aðildarríki Norðurskautsráðsins sem og samstarf Íslands við ríki í Evrópu og Asíu. Einnig gæti Norðurslóðastarfið orðið vaxandi þáttur í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Þá var einnig fjallað um árangurinn af alþjóðaþingi Arctic Circle – Hringborði Norðurslóða sem haldið var á Íslandi í október og undirbúning að öðru þingi Arctic Circle sem einnig verður haldið á Íslandi í september.
03.01.2014 Forseti á fund með Pétri Ásgeirssyni sendiherra, sem stýrir sendiskrifstofu Íslands á Grænlandi, um vaxandi samstarf landanna á fjölmörgum sviðum, breytingar í efnahagslífi og þjóðmálum Grænlendinga, sameiginlega hagsmuni Íslendinga og Grænlendinga á komandi árum og aukna þátttöku íslenskra fyrirtækja í efnahagslífi Grænlands. Einnig var fjallað um þátttöku Grænlendinga í Arctic Circle – Hringborði Norðurslóða og vaxandi áhuga á alþjóðlegri þátttöku meðal forystumanna á Grænlandi.
04.01.2014 Forseti er heiðursgestur í hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna og flytur ávarp í lok hans. Í því þakkaði forseti framlag matreiðslumanna til að efla gæði og fjölbreytileika matarmenningar þjóðarinnar og treysta getu landsmanna til að taka vel á móti þeim fjölda ferðamanna sem nú heimsækja Ísland. Menning, náttúra og matur eru meðal þeirra þátta sem í vaxandi mæli stuðla að ánægju þeirra hundruð þúsunda ferðamanna sem heimsækja Ísland.
04.01.2014 Forseti heldur jólatrésfagnað fyrir börn starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi, börn núverandi og fyrrverandi starfsmanna forsetaembættisins, þeirra sem aðstoða embættið á ýmsan hátt og fleiri.
06.01.2014 Forseti á fund með framkvæmdastjóra Norðurskautsráðsins, Magnúsi Jóhannessyni, um starfsemi ráðsins, einkum eftir að samþykkt var að veita forysturíkjum í Evrópu og Asíu áheyrnaraðild að því. Þá var rætt um málefnastarf á vegum ráðsins sem fram fer í fjölmörgum nefndum sérfræðinga og vísindamanna. Einnig var rætt um árangurinn af alþjóðaþinginu Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík í október og hvernig sá vettvangur getur nýst Norðurskautsráðinu.
06.01.2014 Forseti á fund með forstjóra Landhelgisgæslunnar, Georg Lárussyni, um vaxandi hlutverk Landhelgisgæslunnar á Norðurslóðum og hvernig reynsla, tækjabúnaður og kunnátta stofnunarinnar gegnir lykilhlutverki í þágu aukins öryggis sjófarenda á þessu svæði, einkum með tilliti til vaxandi siglinga, bæði skemmtiferðaskipa og vöruflutningaskipa. Einnig var fjallað um samstarf við systurstofnanir Landhelgisgæslunnar í öðrum ríkjum Norðurslóða og hvernig hægt sé að auka þekkingu almennings og áhrifaaðila á mikilvægu hlutverki Landhelgisgæslunnar á þessu sviði.
06.01.2014 Forseti á fund með sendiherra Íslands í Kína, Stefáni Skjaldarsyni, um fjölþætt samstarf landanna, bæði á sviði jarðhitanýtingar, jöklarannsókna og loftslagsbreytinga sem og um áhrif fríverslunarsamnings landanna.
06.01.2014 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni og Sigríði Huld Blöndal um undirbúning að öðru þingi Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle
sem haldið verður í Reykjavík 5.-7. september næstkomandi. Fyrsta þingið, sem haldið var í október, sóttu um 1.200 fulltrúar frá um 40 þjóðlöndum. Vefsíða Arctic Circle.
07.01.2014 Forseti sækir fyrirlestur Sunnu Pam Furstenau um íslensku arfleifðina í Norður-Dakóta, sögu og menningu landnemanna og hvernig afkomendur þeirra hafa varðveitt íslensku arfleifðina á fjölþættan hátt. Fyrirlesturinn var fluttur í hátíðasal Háskóla Íslands.
08.01.2014 Forseti á fund með Róbert Wessmann um þróun líftækni og nýjar starfsstöðvar Alvogen þar sem ætlunin er að þróa lyf. Byggingin verður reist í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og stefnir fyrirtækið að því að vera í fararbroddi varðandi nýtingu líftækni við þróun nýrra lyfja. Einnig var rætt um aðferðir til að ná tökum á afnámi gjaldeyrishafta og uppgjöri bankanna til að treysta fjárhagslegan stöðugleika og grundvöll íslensks atvinnulífs.
08.01.2014 Forseti á fund með nýjum formanni orðunefndar, Guðna Ágústssyni fv. ráðherra þar sem rætt var um málefni fálkaorðunnar, verkefni orðunefndar, vinnulag og venjur.
08.01.2014 Forseti á fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem veitt hefur forstöðu UN Women í Afganistan og verður nú svæðisstjóri með aðsetur í Tyrklandi. Rætt var um stöðu kvenna í þessum heimshluta og reynsluna af starfi UN Women. Þá var einnig rætt um þróun þjóðmála á Íslandi og mikilvægi þess að sagnfræðilegar heimildir um umbrotaskeið síðustu 20 ára væru til reiðu fyrir komandi kynslóðir.
08.01.2014 Forseti á fund með dr. Ágúst Þór Árnasyni við Háskólann á Akureyri og Arngrími Jóhannssyni um þróun kennslu og rannsókna í Norðurskautsrétti en á undanförnum árum hafa verið haldnar alþjóðlegar ráðstefnur á vegum þeirra og Guðmundar Alfreðssonar um heimskautarétt, Polar Law, og var sú síðasta á Íslandi í tengslum við Arctic Circle í október. Við Háskólann á Akureyri hefur einnig verið kennsla í heimskautarétti en þróun hans, einkum Norðurslóðaréttar, er mikilvægur þáttur í auknu alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.
09.01.2014 Forseti er viðstaddur hátíðarfund í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem veittir voru vísinda- og rannsóknarstyrkir Suðurlands og afhent menntaverðlaun Suðurlands. Í ávarpi hvatti forseti til þess að Sunnlendingar kynntu öðrum landshlutum árangurinn af þeim fræðslu- og vísindastyrkjum sem veittir hafa verið á undanförnum árum og hvernig hægt er þannig að efla vísindi og rannsóknir í byggðarlögum landsins.
09.01.2014 Forseti á fund með Helga Björnssyni prófessor, Dagfinni Sveinbjörnssyni og Sigríði Huld Blöndal um næsta áfanga í þjálfun indverskra jöklafræðinga á Íslandi en fyrsti hópurinn lauk þjálfun fyrir rúmu ári og annar hópur er væntanlegur á næstu vikum. Helgi Björnsson mun svo stýra námskeiði í jöklafræði í samvinnu við Vísindafélag Indlands og verður það haldið í Bangalore í vor. Fyrsta námskeið Helga í Bangalore var á árinu 2013. Indversk stjórnvöld stefna að stofnun jöklafræðiseturs í Dehradun og leita eftir víðtækri samvinnu við Íslendinga um undirbúning að stofnun þess.
10.01.2014 Forseti hittir hóp nemenda í guðfræði frá Wartburg Seminary í Dubuque í Iowa sem heimsækja Ísland til að kynna sér trúarlíf og kirkjustarf. Rætt var um eðli íslensku þjóðkirkjunnar, fjölmenningarsamfélag síðustu ára, lýðræðislegt val á prestum sem og sess kirkjunnar í sögu, skáldskap og menningu.
10.01.2014 Forseti á fund með formönnum og fulltrúum ýmissa viðskiptaráða, sem sinna samskiptum Íslands við önnur lönd, um þær breytingar sem orðið hafa í íslensku atvinnulífi og tækifæri á sviði orku, upplýsingatækni og Norðurslóða. Einnig var rætt um mikilvægi þess að atvinnulíf, fjölmiðlar og þjóðin öll átti sig á þeim hröðu breytingum sem á næstu árum munu hafa mikil áhrif á stöðu Íslands.
14.01.2014 Forseti á fund með sendifulltrúa Japans á Íslandi Tatsukuni Uchida. Rætt var um vaxandi samstarf landanna en Japan mun væntanlega skipa sérstakan sendiherra með aðsetur á Íslandi síðar á þessu ári. Þá var einnig rætt um nýtingu jarðhita í Japan og reynslu Íslendinga á því sviði; og um framlag Japans til málefna Norðurslóða en Japan er nú áheyrnarríki í Norðurskautsráðinu. Þátttaka japanskra vísindamanna og viðskiptalífs í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, var einnig á dagskrá.
15.01.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Sambíu, frú Edith Mutale, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um margvísleg vandamál sem landið glímir við, erfiðleika í efnahagsþróun, fátækt og baráttu gegn spillingu. Einnig lýsti sendiherrann miklum áhuga á að nýr jafnréttisráðherra Sambíu gæti kynnt sér hvernig staða kvenna hefur verið styrkt á Íslandi í lögum og reglum. Einnig var rætt um möguleika á nýtingu jarðhita í Sambíu í ljósi slíkra verkefna í ýmsum öðrum löndum Afríku. Mynd.
15.01.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ítalíu, hr. Giorgio Novello, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um langvarandi samstarf þjóðanna á sviði viðskipta og menningar og innan margvíslegra alþjóðastofnana sem og framlag Ítalíu til þróunar Norðurslóða í ljósi áheyrnaraðildar landsins að Norðurskautsráðinu. Einnig lýsti sendiherrann miklum áhuga á þátttöku fulltrúa frá Ítalíu í væntanlegu Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í september. Mynd.
15.01.2014 Forseti á fund með forystumönnum Sjávarklasans og samstarfsvettvangsins Ocean Excellence um nýtingu þeirrar tækni og kunnáttu sem Íslendingar hafa þróað við þurrkun matvæla í þágu aukins fæðuöryggis víða um heim. Unnið hefur verið að alþjóðlegu samstarfsverkefni í þessu skyni og á sama tíma hafa stjórnendur Ocean Excellence og verkfræðistofunnar Mannvits unnið að mismunandi samsetningum tæknibúnaðar sem hægt væri að nýta við ólíkar aðstæður.
16.01.2014 Forseti afhendir Íslensku bjartsýnisverðlaunin við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum en þau hlaut að þessu sinni Ragnar Kjartansson myndlistarmaður.
16.01.2014 Forseti á fund með Engilbert Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, um margvísleg jarðhitaverkefni, sem unnið er að í Afríku, samstarf Þróunarsamvinnustofnunar við Afríkusambandið og ýmsar aðrar alþjóðastofnanir. Einnig var rætt um alþjóðlegt samstarfsverkefni um þurrkun matvæla sem byggt yrði á reynslu og tækniþekkingu Íslendinga.
16.01.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Úganda, hr. Zaake Kibedi, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um árangur af þróunaraðstoð Íslendinga á sviði sjávarútvegs sem stuðlað hefur að því að sjávarútvegur er nú orðin önnur mikilvægasta útflutningsgrein Úganda. Þá var einnig rætt um athuganir á nýtingu jarðhita sem og heimsókn forseta Úganda til Íslands árið 2008. Sendiherrann flutti kveðju frá forsetanum og þakkir fyrir árangursríkt samstarf við Íslendinga. Mynd.
17.01.2014 Forseti sækir hátíðarsamkomu sem haldin er í Hörpu í tilefni af hundrað ára afmæli Eimskipafélags Íslands. Á undan henni hitti forseti sendinefndir frá grænlenska skipafélaginu Royal Arctic Line og kínverska skipafélaginu COSCO sem komnir eru til Íslands til að taka þátt í hátíðarhöldunum.
17.01.2014 Forseti á fund með sendinefnd frá Maine ríki í Bandaríkjunum sem heimsækir Ísland til að undirbúa ferð ríkisstjórans Paul LePage til Íslands í vor ásamt sendinefnd frá viðskiptalífi Maine. Heimsóknin er í framhaldi af viðræðum forseta við ríkisstjórann í Portland á síðasta ári þegar Eimskip hóf reglubundnar siglingar til borgarinnar. Rætt var um aukið viðskiptasamstarf á Norðurslóðum og áform Maine ríkis um víðtæka þátttöku í þróun þess.
18,01,2014 Forseti tekur á móti félögum í Kiwanisklúbbnum Heklu í tilefni af hálfrar aldar afmæli Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi. Í ávarpi rakti forseti hvernig hreyfingin og aðrar slíkar alþjóðlegar hreyfingar hefðu átt ríkan hlut í að efla samstöðu og gagnkvæman skilning meðal þjóðar sem fyrir hálfri öld var klofin í margvíslegar andstæðar fylkingar.
20.01.2014 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu í Abu Dhabi þegar afhent eru Zayed orkuverðlaunin, Zayed Future Energy Prize, en forseti er formaður dómnefndar verðlaunanna. Verðlaunin eru veitt í nokkrum flokkum og er verðlaunaféð samtals rúmur hálfur milljarður íslenskra króna. Að þessu sinni bárust tilnefningar til verðlaunanna frá nærri 100 löndum. Ávarp forseta. Myndir á vef verðlaunanna.
20.01.2014 Forseti á fund með dr. José Graziano da Silva, framkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um reynslu Íslendinga á sviði sjávarútvegs, vinnslu og tækni, sem og alþjóðlegt átak um þurrkun matvæla sem byggt væri á reynslu Íslendinga af þurrkun sjávarfangs með jarðhita. Þá var einnig fjallað um nýtingu auðlinda hafsins á Norðurslóðum, en ný hafsvæði munu opnast þar á næstu áratugum. Fundinn sat einnig Árni Mathiesen, yfirmaður sjávarútvegsmála hjá FAO, og aðrir embættismenn stofnunarinnar. Fundurinn var haldinn í Abu Dhabi í tengslum við alþjóðaþing sem þar eru nú haldin.
20.01.2014 Forseti sækir Heimsþing hreinnar orku, World Future Energy Summit, sem haldið er í Abu Dhabi og tekur þátt í opnunarathöfn þingsins. Ásamt Heimsþingi um nýtingu vatns og sérstöku þingi um málefni hafsins, Blue Economy, er Heimsþing hreinnar orku meðal helstu viðburða á viku sem helguð er sjálfbærni, Abu Dhabi Sustainability Week. Þessa viðburði sækir mikill fjöldi forystumanna víða að úr veröldinni, sérfræðingar og stjórnendur stofnana og fyrirtækja.
21.01.2014 Forseti sækir vináttulandsleik Íslands og Svíþjóðar í knattspyrnu sem fram fer á bin Zayed leikvanginum í Abu Dhabi.
21.01.2014 Forseti á fund í tengslum við Heimsþing hreinnar orku í Abu Dhabi með Adnan Amin framkvæmdastjóra Irena, International Renewable Energy Agency, um alþjóðlegt samstarfsverkefni um þurrkun matvæla sem byggt verður á reynslu og tæknikunnáttu Íslendinga við þurrkun sjávarfangs. Fundinn sátu einnig aðrir stjórnendur Irena og Árni Mathiesen, yfirmaður sjávarútvegsmála hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna.
21.01.2014 Forseti á fund í tengslum við Heimsþing hreinnar orku í Abu Dhabi með dr. Sultan Ahmed Al Jaber, ráðherra og forstjóra Masdar, um margvíslegt samstarf Íslands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna varðandi nýtingu hreinnar orku, þurrkun matvæla, tækninýjungar í glímunni við sykursýki. Á fundinum var einnig rætt um aukinn áhuga ríkja í Asíu og Evrópu á þróun Norðurslóða, en Masdar var meðal þátttakenda í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið var í Reykjavík á síðasta ári.
21.01.2014 Forseti á fund í tengslum við Heimsþing hreinnar orku í Abu Dhabi með stjórnendum Orka Energy og dótturfyrirtækis Masdar um samstarf á sviði jarðhitanýtingar.
21.01.2014 Forseti á fund í tengslum við Heimsþing hreinnar orku í Abu Dhabi með dr. Ólafi Wallevik prófessor um samkomulag sem unnið er að við Tæknistofnun byggingariðnaðarins í Kína. Aðilar að samkomulaginu eru Háskólinn í Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöð Íslands og er markmiðið að draga verulega úr kolefnisáhrifum af steinsteypuframleiðslu í Kína, en stærsta steypufyrirtæki landsins framleiðir meiri steinsteypu en framleidd er í Evrópu samanlagt.
21.01.2014 Forseti afhendir viðurkenningarskjöl Zayed orkuverðlaunanna til þeirra sem tilnefndir voru til verðlaunanna en hlutu þau ekki. Athöfnin fór fram á sýningarsvæði Heimsþingsins um hreina orku í Abu Dhabi að viðstöddum dr. Sultan Ahmed Al Jaber ráðherra og stjórnanda verðlaunanna.
21.01.2014 Forseti á fund með Mahinda Rajapaksa, forseta Srí Lanka, sem einnig sækir alþjóðaþing um hreina orku og vatnsbúskap í Abu Dhabi. Á fundinum var rætt um alþjóðlegt samstarfsverkefni sem byggt verður á reynslu og kunnáttu Íslendinga við þurrkun sjávarfangs. Forseti Srí Lanka var áður sjávarútvegsráðherra og heimsótti þá Ísland til að kynna sér veiðar og vinnslu sem og starfsemi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum gerði forseti Srí Lanka einnig grein fyrir þeim vandamálum sem við er að glíma í kjölfar vopnaðra átaka sem um áraraðir geisuðu í norðurhluta landsins.
22.01.2014 Forseti er viðstaddur opnun svæðisskrifstofu hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail í Dubai en henni er ætlað að sinna Miðausturlöndum, Indlandi og Afríku. Þúsundir verslana á þessu svæði nýta nú þegar hugbúnað sem LS Retail hefur þróað á undanförnum árum, m.a. fjöldi verslana í flugstöðinni í Dubai og hinum stóru verslunarmiðstöðvum borgarinnar. Í ávarpi rakti forseti þróun hugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi og hvernig þau hefðu nýtt samvinnu við aðila á heimamarkaði til að þróa vöru sem gjaldgeng væri á heimsvísu.
22.01.2014 Forseti stjórnar málstofu um þróun Zayed orkuverðlaunanna sem haldin er í tengslum við Heimsþing um hreina orku í Abu Dhabi. Málstofuna sóttu stjórnendur og starfsmenn verðlaunanna sem og ýmsir fulltrúar í valnefnd og dómnefnd þeirra.
22.01.2014 Forseti sækir málstofu um ungt fólk og sjálfbærni sem haldin er á vegum Zayed orkuverðlaunanna og í tengslum við Heimsþing um hreina orku í Abu Dhabi. Rætt var um vaxandi áhuga ungs fólk víða um heim á sjálfbærni og hreinni orku og hvernig menntastofnanir og stjórnvöld geta brugðist við þeim áhuga.
24.01.2014 Forseti sækir málstofu, sem haldin er í tengslum við World Economic Forum í Davos, þar sem rætt er um þróun friðarviðræðna sem nýlega hófust að frumkvæði utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, milli stjórnvalda í Ísrael og Palestínu. Á málstofunni töluðu m.a. Tzipi Livni, aðalsamningamaður Ísraelsmanna, Martin Indyk, samningamaður Bandaríkjastjórnar, Yossi Vardi og Munib al-Masri, forystumenn í atvinnulífi Ísraels og Palestínu sem unnið hafa að friðarumleitunum í rúmt ár.
24.01.2014 Forseti flytur ávarp um þróun Norðurslóða í hádegisverði sem Washington Post heldur í tengslum við Alþjóða efnahagsþingið, World Economic Forum, í Davos. Hádegisverðinn sóttu fjölmargir áhrifamenn í bandarískum stjórnmálum, fjölmiðlum og atvinnulífi ásamt ýmsum forystumönnum á alþjóðavettvangi. Einnig fluttu ávarp í hádegisverðinum forseti Mexíkós Enrique Peña Nieto, forseti Ísraels Shimon Peres, Rania drottning Jórdaníu, forseti Rúanda Paul Kagame og öldungadeildarþingmaðurinn John McCain.
25.01.2014 Forseti sækir málþing um friðarviðræður milli Ísraels og Palestínu sem haldið er á vegum frumkvæðisins Breaking the Impasse í tengslum við World Economic Forum í Davos. Málþingið sækja samningamenn stjórnvalda í Palestínu og Ísrael og fjölmenn sveit forystumanna úr atvinnulífi landanna sem og ýmsir áhrifamenn á alþjóðavettvangi. Málþinginu var fram haldið næsta dag, sunnudaginn 26. janúar.
28.01.2014 Forseti heimsækir gagnaverin Verne Global í Ásbrú á Keflavíkurflugvelli og Thor Data Center í Hafnarfirði til að kynna sér þróun gagnavera á Íslandi, vöxt þeirra á undanförnum árum og tækifæri í framtíðinni. Fjöldi erlendra og innlendra aðila nýtir sér nú þjónustu þessara gagnavera og vaxandi áhugi er á því að geyma gögn á Íslandi og vinna með þau í íslenskum gagnaverum en slíkt styrkir einnig önnur hugbúnaðarfyrirtæki, verkfræðistofur og framkvæmdaaðila. Bæði fyrirtækin eru um þessar mundir að stækka húsnæði sitt og stefna að enn frekari vexti á næstu árum. Mynd.
30.01.2014 Forseti afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum. Í flokki barna- og unglingabóka hlaut verðlaunin Andri Snær Magnason; í flokki fræðirita og bóka almenns efnis hlaut verðlaunin Guðbjörg Kristjánsdóttir; í flokki fagurbókmennta Sjón. Meðal gesta við athöfnina voru fjölmargir rithöfundar og útgefendur og fyrri verðlaunahafar.
31.01.2014 Forseti á fund með fulltrúum Rannsókna og greiningar og Actavis um reynsluna af Forvarnardeginum undanfarin ár og undirbúning að framkvæmd hans í haust. Afgerandi árangur hefur náðst við að draga úr áfengisneyslu, reykingum og fíkniefnaneyslu ungmenna í 10. bekk grunnskóla og mikilvægt sé að ná hliðstæðum árangri í framhaldsskólum sem á síðustu þremur árum hafa einnig tekið þátt í Forvarnardeginum.
31.01.2014 Forseti hefur þegið boð um að vera viðstaddur upphaf Vetrarólympíuleikanna í Sochi. Forsetahjónin munu sækja móttökuathöfn fyrir íslensku keppendurna, setningarhátíð leikanna og fylgjast með keppnisgreinum fyrstu dagana. Jafnframt mun forseti eiga fundi með nokkrum þjóðarleiðtogum sem einnig sækja leikana. Fréttatilkynning.

Febrúar

01.02.2014 Forseti flytur ávarp og afhendir verðlaun á Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Heiðraðir voru 20 nýsveinar úr 15 iðngreinum. Jafnframt fengu meistarar þeirra sérstakar viðurkenningar. Þá var Eggert Jóhannsson feldskeri útnefndur Heiðursiðnaðarmaður IMFR árið 2014. Í ávarpi ræddi forseti um mikilvægi iðnnáms fyrir menningu og þjóðlíf og rakti ýmis dæmi úr sögu Íslendinga þessu til staðfestingar; forseti áréttaði hvernig hinar fjölmörgu iðngreinar hefðu verið hornsteinar í þróun þess nútímasamfélags sem Íslendingar byggju við og þær gerðu okkur kleift að taka á móti hinum mikla fjölda erlendra gesta, sem sækir landið heim, með sæmd og menningarbrag. Athöfnin var haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur.
06.02.2014 Forseti og forsetafrú voru í morgun fimmtudaginn 6. febrúar viðstödd móttökuathöfn fyrir íslenska keppnisliðið í Ólympíuþorpinu í Sochi. Forseti ÍSÍ, Lárus Blöndal, og framkvæmdastjóri, Líney R. Halldórsdóttir, voru einnig viðstödd athöfnina. Leikinn var þjóðsöngur Íslands og þjóðfáninn dreginn að húni í Ólympíuþorpinu. Að því loknu heimsóttu forsetahjónin íbúðir íslensku keppendanna, skoðuðu Ólympíuþorpið og snæddu hádegisverð með íslensku keppendunum í matsal þorpsins þar sem fjölbreyttir réttir víða að úr veröldinni eru á boðstólum. Myndir. Fréttatilkynning.
07.02.2014 Forseti á fund með forseta Finnlands, Sauli Niinistö, í tengslum við Vetrarólympíuleikana í Sochi. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Finnlands í málefnum Norðurslóða, mikilvægi þeirra í þróun norrænnar samvinnu, góðan árangur af Hringborði Norðurslóða – Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík 2013 og undirbúning að þingi Arctic Circle 2014. Þá átti forseti einnig fund með Albert II, fursta í Mónakó, sem á sæti í heiðursráði Hringborðs Norðurslóða. Rætt var um vaxandi alþjóðlegan áhuga á málefnum Norðurslóða sem m.a. birtist í þátttöku um 40 þjóða í þingi Arctic Circle í Reykjavík. Rætt var um þróun Hringborðsins á næstu árum og málefni sem yrðu á dagskrá þess í Reykjavík í haust. Þá átti forseti viðræður við forseta Tékklands, Miloš Zeman, um góða samvinnu ríkjanna í tíð tveggja fyrirrennara hans, Václav Havel og Václav Klaus, og árangur af opinberri heimsókn forseta til Tékklands 2012. Í viðræðum forseta við Xi Jinping, forseta Kína, þakkaði forsetinn Íslendingum fyrir framlag þeirra til þróunar hitaveitna í kínverskum borgum en slíkar framkvæmdir drægju mjög úr loftmengun. Þá lýsti forseti Kína ánægju með fríverslunarsamning landanna og vaxandi samstarf í málefnum Norðurslóða en vísindaferð rannsóknarskipsins Snædrekans um Norðurslóðir og til Íslands hefði skilað miklum árangri. Í viðræðum forseta við Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, kom fram mikil ánægja hans með árangurinn af heimsókn til Íslands nýlega og ósk um að Íslendingar tækju öflugan þátt í loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður árið 2015. Í viðræðum forseta við Friðrik krónprins Danmerkur og erkihertogann af Lúxembúrg, sem báðir sitja í stjórnarnefnd Alþjóðaólympíusambandsins, var og fjallað um hve víðtækur undirbúningurinn að Vetrarólympíuleikunum hefur verið á undanförnum árum. Myndir.
07.02.2014 Forseti er viðstaddur glæsilega opnunarathöfn Vetrarólympíuleikanna í Sochi. Á undan sat forseti hátíðarkvöldverð sem forseti Rússlands, Vladimir Putin, hélt til heiðurs hinum erlendu gestum.
09.02.2014 Forseti fylgist í dag og í gær með keppnisgreinum á Vetrarólympíuleikunum í Sochi ásamt menntamálaráðherra, forseta ÍSÍ og framkvæmdastjóra. Þá heimsótti forseti keppnissvæði og íbúðaþorp þeirra sem keppa í skíðagöngu og hitti fánabera íslenska keppnisliðsins, Sævar Birgisson, Birgi Gunnarsson föður Sævars, sem einnig er íþróttamaður, og Andra Stefánsson fararstjóra íslenska liðsins. Þá átti forseti einnig ásamt menntamálaráðherra og forystu ÍSÍ fróðlegar viðræður við forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar, Thomas Bach, um undirbúninginn að leikunum og þá alþjóðlegu umræðu sem farið hefur fram um þá. Myndir.
13.02.2014 Forseti mun á morgun og laugardag heimsækja Egilsstaði og Seyðisfjörð, skóla og menningarsetur, ræða við forystumenn sveitarfélaga og taka þátt í ýmsum viðburðum. Fréttatilkynning.
13.02.2014 Forseti afhendir Nýsköpunarverðlaun á Bessastöðum en þau hljóta námsmenn sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Fimm verkefni eru tilnefnd til verðlaunanna í ár. Fréttatilkynning. Verðlaunin hlutu Eva Dís Þórðardóttir og Gísli Rafn Guðmundsson fyrir verkefnið Hjólaleiðir á Íslandi.
13.02.2014 Forseti tekur á móti forystumönnum Sambands ungra sjálfstæðismanna og ræðir um þróun íslenskra þjóðmála, lærdóma af sögu lýðveldisins, stöðu Íslands á Norðurslóðum og á alþjóðlegum vettvangi sem og breytingar á samfélagsháttum nútímans sem áhrif hafa á lýðræðisþróun.
13.02.2014 Forseti á fund með forystumönnum ýmissa sviða í Háskólanum í Reykjavík um þróun Norðurslóða, reynsluna af þingi Arctic Circle, sem haldið var í Reykjavík í október, og áherslur og efnisþætti sem teknir yrðu fyrir á næsta þingi sem fram fer í september á þessu ári.
14.02.2014 Forseti situr kvöldverð á Hótel Hallormsstað í boði bæjarstjórnar sveitarfélagsins.
14.02.2014 Forseti heimsækir Sláturhúsið á Egilsstöðum þar sem ýmsir listamenn hafa starfsstöðvar og efnt er til sýninga og tónleika í húsakynnum sem áður þjónuðu fyrst og fremst landbúnaði héraðsins. Þar er einnig starfandi æskulýðsmiðstöð fyrir ungmenni á Egilsstöðum. Myndir.
14.02.2014 Forseti heimsækir Hitaveitu Egilsstaða og kynnist árangri borana sem þar hafa verið framkvæmdar, aukinni getu hitaveitunnar til að þjóna ekki aðeins byggðarlögum á Héraði heldur einnig Seyðfirðingum. Mun meiri orka hefur fundist við boranir en búist var við á fyrri árum. Jafnframt fékk forseti að gjöf ritverk um sögu hitaveitunnar. Mynd.
14.02.2014 Forseti heimsækir Egilsstaðabúið, skoðar fjósið og ræðir við bændur um búskap og ferðamennsku. Myndir.
14.02.2014 Forseti heimsækir Hugvang þar sem starfa nokkur fyrirtæki í tölvu- og hugbúnaðargeiranum og vinna að verkefnum fyrir innlenda og erlenda aðila en starfsstöðvar fyrirtækisins eru bæði á Egilsstöðum og víðar á landinu. Kynnt var starfsemi þessara mismunandi fyrirtækja og lýst góðum horfum um vaxandi verkefni þeirra á komandi árum. Myndir
14.02.2014 Forseti heimsækir Menntaskólann á Egilsstöðum, kynnist kennsluháttum, ræðir við nemendur og kennara og flytur ávarp á sal og svarar þar fyrirspurnum nemenda. Í ávarpinu lýsti forseti tækifærum Íslendinga á nýrri öld, fjölþættum auðlindum og sterkri stöðu menntunar og menningarlífs. Mikilvægt væri að ung kynslóð sæi kosti þess að hafa Ísland að heimavelli þó að menn kynntust veröldinni allri í námi og starfi. Þá ræddi forseti einnig um þær miklu breytingar sem orðið hafa á Austurlandi á undanförnum áratugum. Myndir.
14.02.2014 Forseti heimsækir Egilsstaðaskóla, ræðir við nemendur og kennara, flytur ávarp á sal og svarar fyrirspurnum nemenda. Myndir.
14.02.2014 Forseti heimsækir leikskólann Tjarnarland á Egilsstöðum, kynnist starfsemi skólans og hlýðir á söng krakkanna. Myndir.
15.02.2014 Forseti tekur þátt í lokahófi afmælissýningar Skaftfells, Hnallþórur í sólinni, og dæmir ásamt Birni Roth í hnallþórukeppni afmælisársins.
15.02.2014 Forseti er viðstaddur afhendingu Eyrarrósarinnar sem fram fór í Skaftfelli á Seyðisfirði. Verðlaunin hlaut Áhöfnin á Húna en auk þess voru Skrímslasetrið á Bíldudal og Verksmiðjan á Hjalteyri tilnefnd til verðlaunanna og var það forsetafrú sem afhenti verðlaunin. Mynd.
15.02.2014 Forseti snæðir hádegisverð í boði bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og ræðir um breytingar í bænum á undanförnum árum, verndun gamalla húsa og eflingu lista og menningar.
15.02.2014 Forseti tekur þátt í fjölskyldustund í íþróttahúsinu á Seyðisfirði þar sem foreldrar og börn nýta aðstöðu íþróttahússins á margvíslegan hátt. Mynd.
15.02.2014 Forseti heimsækir Grunnskólann á Seyðisfirði og hittir nemendur fyrst í gamla skólahúsinu, sem reist var 1907; þar kynntu nemendur sérstakt verkefni um snjóflóð á Seyðisfirði. Því næst var dagskrá í nýrra skólahúsinu þar sem yngri nemendur sungu og kynntu verk í myndmennt. Myndir.
17.02.2014 Forseti á fund með Óskari Steini Óskarssyni um ný samtök ungs fólks á Norðurslóðum, Youth Arctic Coalition, sem nýlega héldu fund í Kanada. Áhugi er á að stofna aðildarfélag þeirra samtaka á Íslandi og stuðla að aukinni þátttöku ungs fólks í stefnumótun á Norðurslóðum.
17.02.2014 Forseti á fund með fulltrúum breska fyrirtækisins RES sem sérhæfir sig í nýtingu á vindorku og annarri hreinni orku. Rætt var um möguleika Íslendinga á að nýta vindorku í ríkum mæli á komandi áratugum, áhuga í Bretlandi á kaupum á raforku gegnum sæstreng frá Íslandi sem og samstarf við íslenska aðila á sviði jarðhita í ýmsum löndum. Fundinn sátu einnig íslenskir samstarfsaðilar RES.
18.02.2014 Forseti á fund með fulltrúum ýmissa fræðasviða við Háskóla Íslands um þróun rannsókna og umræðu um Norðurslóðir, reynsluna af þingi Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík í október og undirbúning og efnisþætti næsta þings sem haldið verður í september á þessu ári. Margvísleg tækifæri og áhugaverð viðfangsefni skapa íslenska fræðasamfélaginu möguleika á að verða virkur þátttakandi í þróun rannsókna, vísinda og fræða á Norðurslóðum.
18.02.2014 Forseti á fund með Robert Bell, sendifulltrúa varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hjá NATÓ, um þróun samstarfs á Norðurslóðum, ný viðhorf í öryggismálum, vaxandi áhuga bandarískra stjórnarstofnana á þessum málaflokki sem og langvarandi tengsl Bandaríkjanna við Ísland og Grænland. Einnig var fjallað um Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og undirbúning að Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, en annað þing þess verður á Íslandi í haust. Á fyrri árum átti forseti náið samstarf við Robert Bell sem þá var meðal æðstu stjórnenda Öryggisráðs Bandaríkjanna í forsetatíð Clintons. Snerist það samstarf einkum um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn.
19.02.2014 Forseti ræðir við Fatimu Bhutto, rithöfund og blaðamann frá Pakistan, sem vinnur að greinaflokki um Ísland fyrir indverskt tímarit. Rætt var um áhrif íslenskrar náttúru, samfélags og menningar á ferðamenn og gesti frá Asíu. Þá var einnig fjallað um þróun mála í Pakistan, samband landsins við Indland og bók höfundar um örlög fjölskyldu hennar.
19.02.2014 Forseti ræðir við hóp af rússneskum blaðamönnum sem heimsækja Ísland um efnahagsleg samskipti landanna og menningartengsl á undanförnum áratugum, aukið mikilvægi Norðurslóða og nýja strauma í ferðamennsku á Norðurslóðum sem og lærdómana sem draga má af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna.
20.02.2014 Forseti á fund með sendiherra Singapúrs gagnvart Íslandi, T. Jasudasen, sem heimsækir landið til að kynna sér margvíslega þætti Norðurslóða. Sendiherrann hefur m.a. heimsótt Akureyri og átt viðræður við háskólann þar, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki. Rætt var um framlag Singapúrs til Arctic Circle – Hringsboðs Norðurslóða, sem haldið var í Reykjavík á síðastliðnu ári, og áhuga þeirra á að efla enn frekar þátttöku rannsóknarstofnana, fyrirtækja og stjórnvalda í Singapúr í samræðum og samstarfi um þróun Norðurslóða; Singapúr er nú eitt af nýjum áheyrnarríkjum Norðurskautsráðsins.
21.02.2014 Forseti afhendir verðlaun á Steinsteypudeginum en dagskrá í tilefni hans fór fram á Grand hóteli í Reykjavík. Þar voru flutt ýmis erindi um rannsóknir, skipulag og framkvæmdir á þessu sviði og gerð grein fyrir erlendu samstarfi íslenskra aðila, m.a. væntanlegu samstarfi við helstu rannsóknarmiðstöð byggingariðnaðarins í Kína.
22.02.2014 Forseti sækir Edduhátíðina þar sem veitt eru verðlaun í flokki kvikmynda og sjónvarpsefnis.
22.02.2014 Forseti er viðstaddur brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands en athöfnin fór fram í Háskólabíói.
24.02.2014 Forseti á fund með Heiðari Má Guðjónssyni um þróun mála á Norðurslóðum, árangurinn af Hringborði Norðurslóða, sem haldið var í Reykjavík í fyrra, og áform um dagskrárefni og áherslur á öðru þingi Hringborðsins sem haldið verður í september.
25.02.2014 Forseti á fund með Hafsteini Helgasyni, sviðsstjóra hjá Eflu, um þróun samstarfsins við Bremenhöfn varðandi víðtæka könnun á möguleikum hafnar við Finnafjörð en þær hugmyndir voru m.a. ræddar í opinberri heimsókn forseta til Þýskalands á liðnu ári. Einnig vær rætt um árangurinn af Hringborði Norðurslóða í Reykjavík í fyrra og áform um dagskrárefni þings þess sem haldið verður í september.
26.02.2014 Forseti á fund með prófessor Orra Vésteinssyni um alþjóðlegt rannsóknasamstarf íslenskra fornleifafræðinga, m.a. við rannsóknir á Grænlandi og Barbúdu, sem og tækifæri stúdenta í fornleifafræði til að taka þátt í slíkum verkefnum á komandi árum.
26.02.2014 Forseti á fund með stjórnendum Eimskips um þróun siglinga á Norðurslóðum og um alþjóðlegt samstarf, m.a. við Bandaríkin og Kína. Einnig var fjallað um árangur Hringborðs Norðurslóða og þau tækifæri sem bíða íslensks atvinnulífs á Norðurslóðum.
27.02.2014 Forseti á fund í húsakynnum Háskólans á Akureyri með stjórnendum skólans, fulltrúum ýmissa fræðasviða og fulltrúum stofnana og samtaka sem vinna að málefnum Norðurslóða á Akureyri. Rætt var um árangurinn af þingi Arctic Circle, Hringborðs Norðurslóða, í Reykjavík í fyrra, dagskrárefni næsta þings sem haldið verður í september og hvernig þessi vettvangur getur nýst íslensku fræðasamfélagi og öllum þeim sem beita sér í málefnum Norðurslóða.
27.02.2014 Forseti á fund í Háskólanum á Akureyri með fulltrúum Rannsóknarþings Norðursins, sem stofnað var fyrir fjórtán árum, en skrifstofa þess hefur verið innan vébanda háskólans. Rætt var um þátttöku Rannsóknarþingsins í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, og verkefni þess á komandi árum, einkum framlag þess til að greiða götu ungra vísindamanna og fræðimanna sem vilja helga sig Norðurslóðum.
28.02.2014 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum í tilefni af sjötíu ára afmæli Björgunarsveitarinnar Ársæls og vígslu hinnar stækkuðu björgunarmiðstöðvar Gróubúðar á Grandagarði. Forystumenn Ársæls, Slysavarnadeildarinnar í Reykjavík og Landsbjargar fluttu ávörp við athöfnina, biskup Íslands vígði björgunarmiðstöðina og karlakór Sjómannaskólans söng.
28.02.2014 Forseti tekur á móti forystumönnum Food and Fun hátíðarinnar, erlendum meistarakokkum og öðru áhrifafólki sem sækir hátíðina víða að úr veröldinni. Hátíðin hefur á undanförnum árum orðið öflugur vettvangur til kynningar á íslenskri matvælaframleiðslu, matargerð og öflugri veitingaþjónustu við vaxandi fjölda ferðamanna.
28.02.2014 Forseti á fund með Eyjólfi Árna Rafnssyni, forstjóra Mannvits, um reynslu Íslendinga við fjölþætta mannvirkjagerð á norðlægum slóðum, við erfiðar veðuraðstæður og í dreifbýli. Einnig var fjallað um vaxandi áhuga á þróun Norðurslóða, tækifæri íslensks atvinnulífs á þeim vettvangi og mikilvægi þess að efla í því skyni víðtæka, alþjóðlega samvinnu, m.a. með starfsemi Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle.

Mars

01.03.2014 Forseti heimsækir matarmarkað Búrsins sem haldinn er í Hörpu í tengslum við setningu Búnaðarþings en þar kynna á fimmta tug smáframleiðenda fjölbreyttar vörur.
01.03.2014 Forseti fylgist með keppni á matarhátíðinni Food and Fun sem fram fer í Hörpu.
01.03.2014 Forseti er viðstaddur Búnaðarþings Bændasamtaka Íslands sem fram fór í Hörpu. Formaður Bændasamtakanna Sindri Sigurgeirsson og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fluttu ávörp. Á setningarathöfninni voru einnig veitt landbúnaðarverðlaun í 18. sinn.
02.03.2014 Forseti sækir hátíðartónleika hljómsveitar Tónlistarskólans í Reykjavík sem haldnir eru til að minnast þess að 110 ár eru liðin frá fæðingu Ragnars Jónssonar í Smára en hann var einn af frumkvöðlum og stjórnendum Tónlistarfélagsins í Reykjavík.
05.03.2014 Forseti heldur fyrirlestur í boði ECSSR stofnunarinnar í Abu Dhabi, Emirates Center for Strategic Studies and Research, en fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við 20 ára afmæli stofnunarinnar. Hann fjallar um framlag hreinnar orku til endurreisnar efnahagslífs og þróunar fjölþættra atvinnuvega. Rakti forseti mörg dæmi um reynslu Íslendinga. Að fyrirlestrinum loknum fóru fram ítarlegar umræður á grundvelli fjölmargra fyrirspurna og var þá m.a. fjallað um þróun samvinnu á Norðurslóðum. Fyrirlestur. Myndir (ljósmyndari: Bobit V. Ceballos). Umfjöllun í The National.
05.03.2014 Forseti heimsækir ECSSR stofnunina í Abu Dhabi, Emirates Center for Strategic Studies and Research, og kynnir sér rannsóknir hennar í efnahagsmálum, orkuþróun, alþjóðasamskiptum og upplýsingamiðlun. Stofnunin heldur nú upp á 20 ára afmæli sitt en hún hefur orðið helsta hugveita stjórnvalda í Sameinuðu arabísku furstadæmunum; rannsóknir hennar leggja grundvöll að stefnumótun. Forseti skoðaði m.a. upplýsinga- og fjölmiðlamiðstöð stofnunarinnar þar sem unnið er úr fréttum sjónvarpsstöðva, blaða og netmiðla víða um heim. Einnig skoðaði forseti bókasafn stofnunarinnar sem er hið stærsta sinnar tegundar í landinu. ECSSR hefur á ferli sínum gefið út ríflega 1000 rit. Myndir (ljósmyndari: Bobit V. Ceballos).
06.03.2014 Forseti flytur fyrirlestur í Masdar tækniháskólanum um hagkerfi hreinnar orku og hið fjölþætta atvinnulíf sem skapast hefur á Íslandi vegna nýtingar jarðhita og vatnsorku. Að loknum fyrirlestri svaraði forseti fjölda fyrirspurna frá nemendum og kennurum. Tækniháskólinn sérhæfir sig í rannsóknum á sviði hreinnar orku og eru höfuðstöðvar hans á Masdar svæðinu í Abu Dhabi sem byggt hefur verið á grundvelli markmiðs um enga mengun og enga sóun. Fyrirlestur. Myndir.
06.03.2014 Forseti á fund með starfsfólki Zayed orkuverðlaunanna í Abu Dhabi um skipulag tilnefninga og alþjóðlega umfjöllun. Forseti er formaður dómnefndar verðlaunanna.
11.03.2014 Forseti sækir athöfn í Iðnó þar sem veitt eru menningarverðlaun DV í fjölmörgum greinum. Þá afhenti forseti heiðursverðlaun og flutti ávarp. Heiðursverðlaunin hlaut Ragnar Bjarnason tónlistarmaður.
11.03.2014 Forseti heimsækir Hús sjávarklasans á Grandanum í Reykjavík og kynnir sér starfsemi fjölmargra fyrirtækja sem þar hafa aðsetur. Þar er unnið að margvíslegri nýsköpun í sjávarútvegi og greinum sem þjónusta fyrirtæki á því sviði. Starfsemin hefur vaxið mjög á undanförnum árum og endurspeglar fjölþætt tækifæri til frekari sóknar á grundvelli styrkleika íslensks sjávarútvegs. Myndir.
11.03.2014 Forseti á fund með sendinefnd frá Edmonton í Kanada sem skipuð er fulltrúum fyrirtækja í ferðaþjónustu, samgöngum og öðrum greinum. Sendinefndin heimsækir Ísland í tengslum við upphaf áætlunarflugs Icelandair til Edmonton. Rætt var um tengsl Íslands og Kanada, fjölþætt tækifæri á Norðurslóðum, einkum í ferðaþjónustu, sem og nýtingu margvíslegra auðlinda. Fundinn sat einnig sendiherra Kanada á Íslandi Stewart Wheeler.
12.03.2014 Forseti afhendir stjórnunarverðlaun Stjórnvísi, félags um framsækna stjórnun. Á undan verðlaunaathöfninni voru fluttir fyrirlestrar um áhrif samfélagsmiðla og nýjunga í upplýsingatækni og fjölmiðlun á stjórnun í atvinnurekstri og hjá opinberum aðilum.
13.03.2014 Forseti á fund með Kristjáni Tómasi Ragnarssyni, stjórnarmanni í American-Scandinavian Foundation, sem eru samtök í Bandaríkjunum sem unnið hafa að málstað, menningu og hagsmunum Norðurlanda þar í landi um áratugi. Aðalsamkoma ASF verður haldin í byrjun maí í New York og verður Ísland þá í heiðurssessi. Einnig var á fundinum fjallað um tengsl við byggðir fólks af íslenskum ættum víða í Bandaríkjunum.
13.03.2014 Forseti hittir hóp AFS skiptinema sem dvalið hafa á Íslandi á mörgum stöðum vítt og breitt og um landið, kynnst þjóðlífi og menningu, sótt skóla og dvalið hjá íslenskum fjölskyldum. Ræddi forseti við þau um reynslu þeirra af dvölinni á Íslandi og hvað í fari þjóðarinnar og ungra Íslendinga þeim þætti athyglisverðast.
14.03.2014 Forseti sækir síðari hluta Íslensku tónlistarverðlaunanna sem fram fer í Eldborgarsal Hörpu.
14.03.2014 Forseti afhendir þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga og viðurkenningu tilviðskiptafræðings ársins. Verðlaunaafhendingin fór fram á Íslenska þekkingardeginum að lokinni ráðstefnu um nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum.
14.03.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bangladess, hr. Md. Golam Sarwar sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um samstarf ríkja á og í nágrenni Himalajasvæðisins varðandi bráðnun jökla og áhrif á vatnsbúskap, fæðuframleiðslu og orkuvinnslu. Einnig var fjallað um áhrif loftslagsbreytinga og hækkun sjávarborðs á búsetuskilyrði milljóna íbúa Bangladess. Sendiherrann gerði grein fyrir áhuga á auknum viðskiptum við Ísland. Mynd.
14.03.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Austurríkis, dr. Ernst-Peter Brezovszky sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um samskipti landanna á sviði menningar og alþjóðamála, vaxandi áhuga á nýtingu jarðhita í Mið- og Austur-Evrópu sem og framlag vísindastofnana Austurríkis til rannsókna á Norðurslóðum. Mynd.
14.03.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Mexíkó, hr. José Ignacio Madrazo Bolívar sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um breytingar í stjórnmálum, efnahagslífi og skipan orkumála í Mexíkó; áherslur á nýtingu hreinnar orku m.a. jarðhita. Þá var einnig fjallað um hvernig reynsla Íslendinga á sviði sjávarútvergs og fjölþættrar jarðhitanýtingar gæti nýst í samvinnu við stjórnvöld og fyrirtæki í Mexíkó. Sendiherra lýsti áhuga Mexíkó á að hljóta áheyrnaraðild að Norðursskautsráðinu. Mynd.
14.03.2014 Forseti er viðstaddur fyrri hluta afhendingar Íslensku tónlistarverðlaunanna sem fram fer í Hörpu.
19.03.2014 Forseti á fund í Bodö með Jan-Gunnar Winther, forstjóra Norsku heimskautastofnunarinnar, og Willy Østreng, forseta Norsku vísindaakademíunnar í heimskautarannsóknum, um þróun samstarfs um rannsóknir á Norðurslóðum og þátttöku norskra vísindamanna og fræðasamfélags í Hringborði Norðurslóða – Arctic Circle og í málstofum sem tengdar eru þeim vettvangi.
19.03.2014 Forseti situr hádegisverðarfund í boði bæjarstjórnar Bodö og fylkisstjórnar Nordland í Noregi þar sem rætt er um aukið samstarf héraða og svæða á Norðurslóðum, byggðarlaga sem byggja á sjávarútvegi og nýtingu náttúruauðlinda og eru í æ ríkara mæli áfangastaðir ferðamanna víða að úr veröldinni. Fram kom að auk samstarfs innan Norðurskautsráðsins væri mikilvægt að byggðarlög og svæði á Norðurslóðum, kjörnir fulltrúar fólksins sem þar byggi, bæru saman bækur sínar og áherslur í ljósi vaxandi áhuga á Norðurslóðum, þróunar atvinnulífs og nauðsynjar víðtækra rannsókna og fræðastarfs.
19.03.2014

Forseti flutti í dag, miðvikudaginn 19. mars, ræðu við setningu Norðurslóðaráðstefnu í Bodö í Noregi. Ráðstefnuna sitja fulltrúar ýmissa ríkja, sérfræðingar, fræðimenn og forystumenn í atvinnulífi. Heiti hennar er Arctic Dialogue - Samræður um Norðurslóðir. Í ræðunni, sem ber heitið The Nordic Countries in a Global Arctic, fjallaði forseti um hlutverk Norðurlanda í þróun samstarfs á Norðurslóðum, rakti hvernig langvarandi reynsla af norrænu samstarfi, gagnkvæmt traust Norðurlanda og ríkar hefðir um lýðræðislega umfjöllun og víðtæka félagslega þátttöku skiptu sköpum við mótun Norðurskautsráðsins, einkum á síðustu tíu árum þegar Norðurlöndin hafa gegnt þar formennsku. Fréttatilkynning. Ávarp forseta.

20.03.2014 Forseti ræðir við forystumenn Norðurslóðarannsókna við Nordland háskólann í Noregi um þátttöku þeirra í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, og hvernig rannsóknarsamstarf og Norðurslóðaumræða sem háskólinn hefur staðið fyrir á undanförnum árum getur nýtt sér þennan nýja alþjóðlega vettvang.
20.03.2014 Forseti sækir málstofur sem haldnar eru á ráðstefnu um Norðurslóðir, Arctic Dialogue, í Bodö. Málstofurnar fjalla um áhættustýringu á Norðurslóðum, framtíðarþróun í nýtingu olíu og gass, loftslagsbreytingar og aukinn hraða ísbráðnunar á Norðurslóðum sem og málstofu þar sem fjallað var um nýjar siglingaleiðir og undirbúning að nýtingu þeirra, bæði í Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína og Suður-Kóreu.
21.03.2014 Forseti er heiðursgestur í árlegri veislu Alþingis og flytur þar ávarp,
23.03.2014 Forseti og forsetafrú heimsækja Hólmavík og nágrenni á morgun, mánudaginn 24. mars. Fréttatilkynning.
23.03.2014 Forseti kynnir sér og fylgist með þjálfun björgunarhunda en æfingar á vegum Björgunarhundasveitar Íslands fara nú fram milli Drangsness og Hólmavíkur á Ströndum. Myndir.
24.03.2014 Forseti heimsækir Sauðfjársetrið á Ströndum og skoðar sýningarnar Sauðfé í sögu þjóðar og Álagablettir. Einnig hittir hann þar konur sem taka þátt í námskeiði um gerð þjóðbúninga. Þá fræðist forseti um uppbyggingu Sauðfjársetursins og áherslur heimamanna á varðveislu menningar- og atvinnuhátta á fyrri tíð. Myndir.
24.03.2014 Forseti heimsækir Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hólmavík,ræðir við starfsfólk um þjónustu við byggðarlög á Ströndum, hittir aldraða vistmenn og snæðir hádegisverð með þeim og með starfsmönnum. Mynd.
24.03.2014 Forseti heimsækir Þróunarsetrið á Hólmavík og kynnist fjölþættri starfsemi sem þar fer fram, m.a. Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélaginu, verkefnum menningarfulltrúans sem og vinnuaðstöðu háskólanema og fjarnáminu sem þar er stundað. Í húsakynnum setursins eru einnig skrifstofur sveitarfélagsins. Myndir.
24.03.2014 Forseti heimsækir útibú Orkubús Vestfjarða á Hólmavík og fræðist um orkukerfi svæðisins, um glímuna við bilanir vegna veðurs og annarra aðstæðna sem og kosti og galla samtengingar orkukerfisins við aðra landshluta. Mynd.
24.03.2014 Forseti heimsækir útibú Vegagerðarinnar á Hólmavík og kynnir sér þjónustu þess við umferð og íbúa á svæðinu, snjómokstur vetrarins og hið stóra umdæmi útibúsins. Mynd.
24.03.2014 Forseti heimsækir rækjuvinnsluna Hólmadrang á Hólmavík, skoðar framleiðsluna og ræðir um veiðar og vinnslu við stjórnendur og starfsfólk. Mynd.
24.03.2014 Forseti heimsækir leikskólann Lækjarbrekku á Hólmavík og fræðist um starfsemi hans og þjónustu við byggðarlagið. Mynd.
24.03.2014 Forseti heimsækir Grunn- og tónskóla Hólmavíkur, fræðist um starfsemi skólans og ræðir við nemendur um mannlíf og náttúru á Ströndum og kosti þess að alast upp í litlum samfélögum dreifðra byggða. Þá skoðaði forseti einnig skólastofur og kynntist starfsemi tónlistarfræðslunnar. Myndir.
25.03.2014 Forseti tekur á móti eldri borgurum frá Álftanesi og Vogum og ræðir við þá um sögu Bessastaða, muni og minjar á staðnum.
25.03.2014 Forseti á fund með Andrey Tsyganov, sendiherra Rússlands á Íslandi, sem senn lætur af störfum. Rætt var um alþjóðlegan ágreining og átök vegna atburðanna á Krímskaga, stöðu Úkraínu og nauðsyn þess að virða alþjóðalög. Einnig væri áríðandi að draga úr spennunni, koma í veg fyrir stigmögnun átaka og að leita lausna með samræðum og víðtæku samkomulagi. Mikilvægt væri að varðveita árangursríka samvinnu á öðrum vettvangi, m.a. á Norðurslóðum. Nefnt var að á síðasta ári hefðu Íslendingar og Rússar minnst 70 ára afmælis stjórnmálasamskipta með merkum menningarviðburðum, einkum tónleikum Vladimirs Spivakovs og hljómsveitar hans í Hörpu og stórri yfirlitssýningu á verkum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals í Rússneska ríkislistasafninu í Pétursborg.
26.03.2014 Forseti ræðir í kvöldverðarboði við Calvin Klein og aðra fyrirlesara á HönnunarMars sem og íslenska stjórnendur og forystumenn á þessu sviði um þróun hönnunar í nútímasamfélagi, möguleika skapandi fólks í smærri samfélögum til að gera sig gildandi á heimsmarkaði sem og um sögu Íslands, menningu og náttúru.
26.03.2014 Forseti á fund með stjórnarformanni Eimskips, Richard d'Abo, um þróun vöruflutninga á sjó, áform félagsins um auknar siglingar á Norðurslóðum, sem tengja munu saman hafnir og viðskipti frá norðursvæðum Noregs og Rússlands til Færeyja, Íslands, Grænlands, Kanada og Bandaríkjanna, og hvernig þær munu tengjast höfuðhöfnum á meginlandi Evrópu.
26.03.2014 Forseti á fund með stjórnendum Reykjavík Geothermal um jarðhitanýtingu í Afríku, einkum byggingu jarðhitavirkjunar í Eþíópíu, sem og verkefni í ýmsum löndum Asíu; fyrirhuguð er ferð þeirra til Bútans, lands sem glímir við bráðnun jökla og aðrar afleiðingar loftslagsbreytinga.
27.03.2014 Forseti setur Reykjavík Fashion Festival með ávarpi en það er haldið í tengslum við HönnunarMars. Í ávarpinu áréttaði forseti tengsl við gamlar hefðir og verkmenningu, samspil náttúru og sköpunar í listum; fagnaði jafnframt aukinni grósku í íslenskri tískuhönnun á undanförnum árum.
27.03.2014 Forseti er viðstaddur setningu HönnunarMars í Hörpu.
27.03.2014 Forseti sækir ársfund Seðlabanka Íslands sem haldinn er í húsakynnum bankans.
27.03.2014 Forseti á fund með Birgittu Wallace um rannsóknir á byggðum norrænna manna á L'Anse aux Meadows í Kanada og hvernig þær staðfesta dvöl íslenskra og grænlenskra íbúa á þessu svæði fyrir um þúsund árum. Einnig var fjallað um hvernig siglingar víkinga um norðurhöf og fljót Norður-Evrópu hefðu fyrir þúsund árum skapað samgöngur, viðskipti og verslun frá Rússlandi um Norðurlönd til Norður-Kanada, svæði sem nú hefur fengið nýjar áherslur í ljósi aukinnar samvinnu á Norðurslóðum.
27.03.2014 Forseti á fund með stjórnendum Eflu um þátttöku íslenskra verkfræði- og þekkingarfyrirtækja í Hringborði Norðurslóða – Arctic Circle og mikilvægi víðtæks samstarfs um þróun orkumála á Norðurslóðum, nýtingu íslenskrar þekkingar og reynslu á því sviði.
28.03.2014 Forseti á fund með Magnúsi Bjarnasyni, forstjóra Icelandic, um útflutning á íslenskum sjávarafurðum, endurskipulagningu sölustarfseminnar í mörgum löndum, vaxandi áherslu á markaði í Asíu sem og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar sjávarafurða á Norðurslóðum.
28.03.2014 Forseti á fund með Siddhartha Kaul, forseta alþjóðasamtakanna SOS Barnaþorp, og fulltrúum samtakanna á Íslandi um starfsemi samtakanna í þágu barna víða um heim sem og hinn öfluga stuðning sem þau hafa notið á Íslandi.
28.03.2014 Forseti flytur fyrirlestur um komu G20 ríkjanna á Norðurslóðir í röð maraþonfyrirlestra Háskólans í Reykjavík. Fyrirlestraröðinni er ætlað að kynna margvísleg svið vísinda og rannsókna og er hver fyrirlestur 6 mínútur.
28.03.2014 Forseti afhendir verðlaun sem Háskólinn í Reykjavík veitir árlega í þremur flokkum: vísindamenn, starfsfólk og kennarar. Í ávarpi áréttaði forseti hvernig mörk háskóla og samfélags tækju sífelldum breytingum, veggir og hindranir hyrfu og mikilvægt væri að tengja saman sköpun á ólíkum sviðum. HönnunarMars, sem stendur þessa daga, og rannsóknir í upplýsingatækni séu skyldari en margir halda eins og þróun Apple, spjaldtölvunnar og farsímans gefi til kynna.
29.03.2014 Forseti sækir lokasýningu Engla alheimsins í Þjóðleikhúsinu sem jafnframt er sjónvarpað.
30.03.2014 Forseti tekur á móti þátttakendum í HönnunarMars, hönnuðum, fulltrúum fyrirtækja, erlendu fjölmiðlafólki og fleirum.

Apríl

01.04.2014 Forseti tekur á móti þátttakendum í viðburðum á vegum Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins og Grænlandsdaga sem haldnir hafa verið á Íslandi. Í ávarpi áréttaði forseti mikilvægi vaxandi samvinnu Grænlendinga og Íslendinga, áhrifin af auknum umsvifum á Norðurslóðum og þau fjölmörgu tækifæri sem sú þróun felur í sér fyrir nágrananna í norðri.
01.04.2014 Forseti ræðir við fulltrúa undirbúnings Kristsdags sem haldinn verður í Hörpunni 27. september með þátttöku allra kristinna safnaða, kirkjudeilda og samtaka.
01.04.2014 Forseti ræðir við blaðamann afmælisblaðs Seltjarnarness en bæjarfélagið heldur senn upp á 40 ára afmæli sitt. Rætt var um mannlíf og náttúru á Seltjarnarnesi, fjölskyldulíf, skóla og íþróttastarf.
01.04.2014 Forseti á fund með Herði Oddfríðarsyni formanni Sundsambands Íslands um sundkeppni grunnskólanemenda sem ætlað væri að efla sundíþróttina meðal ungs fólks á Íslandi.
02.04.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Tyrklands, Esat Götürk, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi áhuga Tyrklands á að nýta ríkulegar auðlindir á sviði jarðhita og þátttöku íslenskra fyrirtækja í þeim sem og áhuga Tyrklands á þátttöku í þróun Norðurslóða og aukna samvinnu við Ísland. Þá var einnig fjallað um þróun mála í nágrenni Tyrklands, langvarandi átök og þörfina á víðtækum lausnum sem og samstarf ríkjanna við Svartahaf á sviði orkumála. Mynd.
02.04.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Lúxemborgar, Patrick Engelberg, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um árangursríka samvinnu Lúxemborgar og Íslands í flugrekstri á fyrri áratugum, þróun samstarfsins í Evrópu og þátt smærri ríkja í henni sem og Evrópumót smærri ríkja í fjölmörgum íþróttagreinum sem haldið verður á Íslandi á næsta ári. Mynd.
02.04.2014 Forseti á fund sem nýjum sendiherra Slóveníu, Tone Kajzer, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukin samskipti ríkjanna á síðari árum og umræður um jarðhitanýtingu í opinberri heimsókn forseta til landsins og í opinberri heimsókn þáverandi forseta Slóveníu til Íslands. Einnig var fjallað um möguleika ríkja í Mið- og Austur-Evrópu á nýtingu jarðhita til húshitunar en þau eru nú mjög nú mjög háð innflutningi á orkugjöfum. Mynd.
02.04.2014 Forseti á fund með Þóri Guðmundssyni, sem vinnur að skýrslu um þróunarsamvinnu Íslendinga, þar sem rætt var um lærdómana sem draga má af verkefnum víða um heim, hvernig sérstaða, þekking og reynsla Íslendinga getur nýst, einkum smærri þróunarríkjum. Þá var og fjallað um góða reynslu af því skipulagi sem framlag Íslands til Háskóla Sameinuðu þjóðanna á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála hefur fært okkur á undanförnum árum.
02.04.2014 Í tilefni af alþjóðadegi einhverfu verða Bessastaðir lýstir í bláum lit í dag, miðvikudaginn 2. apríl. Fréttatilkynning.
03.04.2014 Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðafundi Alþjóðlegra samtaka kvenþingmanna, Women in Parliaments Global Forum (WIP) en þessi samtök halda nú fund á Íslandi. Í ávarpi ræddi forseti aukna þátttöku kvenna á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, þróun í átt til jafnréttis á þessu sviði og þá lærdóma sem draga mætti af reynslu Íslendinga.
03.04.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Eþíópíu, Woinshet Tadesse, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um nýja áfanga í samstarfi landanna á sviði jarðhitanýtingar en Reykjavík Geothermal hefur nýlega gert samning um byggingu jarðhitavirkjunar í Eþíópíu sem gæti orðið allt að 1.000 megavött og þar með stærsta jarðhitavirkjun í Afríku. Einnig var fjallað um nýtingu jarðhita í þágu ylræktar og aukinnar hagsældar bænda sem og nýtingu jarðhita við þurrkun matvæla. Þá lýsti sendiherrann einnig áhuga á að efla samstarf við Ísland á sviði landgræðslu og landnýtingar en gróðureyðing er mikið vandamál í Eþíópíu og forgangsmál stjórnvalda að snúa þeirri þróun við á komandi árum. Mynd.
03.04.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Indónesíu á Íslandi, Yuwono Putranto, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu ríkjanna á sviði jarðhitanýtingar sem og sameiginlega hagsmuni af varðveislu auðlinda hafsins og eflingu alþjóðlegs samstarfs um málefni þess. Indónesía býr yfir ríkulegum jarðhita og efnahagslögsaga landsins er meðal stærstu yfirráðasvæða á hafi. Í þessu skyni gætu Jarðhitaskóli og Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi komið að góðum notum með þjálfun sérfræðinga og stjórnenda frá Indónesíu. Mynd.
03.04.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Pakistans á Íslandi, Abdul Hamid, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun mála í Pakistan og þá erfiðleika sem sambúðin við ýmis nágrannaríki hefur skapað á undanförnum árum. Einnig var rætt um áhrif bráðnunar jökla á Himalajasvæðinu á vatnsbúskap og fæðuöflun í Pakistan og öðrum ríkjum svæðisins og þörf á aukinni samvinnu allra ríkjanna um rannsóknir og aukna þekkingu á þessu sviði. Þar gæti reynslan af samvinnu á Norðurslóðum og við rannsóknir á íslenskum jöklum komið að notum. Mynd.
03.04.2014 Forseti sendir ávarp sem flutt er á ráðstefnunni Quel Avenir Pour L’Arctique? sem haldin er í öldungadeild franska þingsins í París. Ávarp forseta.
05.04.2014 Forseti ræðir við nemendur Háskóla Íslands sem taka þátt í sérstakri námsæfingu um starfsemi Öryggisráðsins og málefni Sameinuðu þjóðanna. Fjallað var um þróun Sameinuðu þjóðanna, aðkomu þeirra að lausn deilumála, baráttu Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar og viðurkenningu lýðveldis sem og stöðu mála í Úkraínu.
07.04.2014 Forseti ræðir við blaðamann tímaritsins Monocle um þróun samvinnu á Norðurslóðum, áhrif loftslagsbreytinga, stöðu Íslands í þeirri nýju heimsmynd sem og árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita. Þá var einnig fjallað um þróun lýðræðis og efnahagslífs á Norðurlöndum sem og aukinn alþjóðlegan áhuga á nýsköpun í norrænni menningu, bæði í bókmenntum, tónlist og kvikmyndum.
07.04.2014 Forseti á fund með Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims, um þróun sjávarútvegs á Norðurslóðum, lærdómana sem draga má af samvinnu Íslendinga og Grænlendinga á þessu sviði og þau tækifæri sem bíða þjóðanna tveggja á komandi árum. Brim hefur starfrækt fiskvinnslu og útgerð á Grænlandi og leggur aukna áherslu á þjálfun ungra Grænlendinga í greininni.
08.04.2014 Forseti á fund með Barry Palmer, alþjóðaforseta Lions, sem heimsækir Ísland, og forystusveit Lionshreyfingarinnar á Íslandi. Rætt var um starf hreyfingarinnar víða um heim sem og hlutdeild Lionshreyfingarinnar í íslensku samfélagi, samstarfi innan byggðarlaga og eflingu margvíslegra velferðarmála. Þátttaka í hreyfingunni hefur vaxið mjög í ýmsum löndum Asíu en Lionshreyfingin á Norðurlöndum hefur einnig unnið saman að ýmsum verkefnum.
08.04.2014 Forseti á fund með Sveini I. Ólafssyni, framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Verkís um aukin verkefni í öðrum löndum, m.a. á Norðurslóðum, samstarf um verkfræðiþjónustu við Grænland sem og aukna hlutdeild íslenskra þekkingar- og tæknifyrirtækja í þróun samstarfs á Norðurslóðum sem og þátttöku þeirra í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle.
09.04.2014

Forseti sækir tónleika í Seltjarnarneskirkju sem haldnir eru í tilefni af 40 ára kaupstaðarafmæli bæjarins.

09.04.2014

Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegu ráðstefnunni Spirit of Humanity sem haldin er í Reykjavík næstu daga en hana sækja áhrifamenn víða að úr veröldinni. Meðal umræðuefna eru nýjar áherslur í stjórn alþjóðasamfélagsins og mikilvægi siðrænna viðhorfa og vináttu í samskiptum þjóða.

09.04.2014 Forseti flytur ávarp á afmælissamkomu Seltjarnarness sem haldin er á Eiðistorgi í tilefni af 40 ára afmæli bæjarfélagsins. Ávarp forseta.
09.04.2014 Forseti er viðstaddur og flytur ávarp þegar árangur af söfnun nemenda í viðskiptafræði við Háskóla Íslands er afhentur Barnaspítala Hringsins. Átakið var liður í námskeiði við viðskiptafræðideild skólans og söfnuðust rúmlega níu milljónir króna. Með söfnuninni var lögð áhersla á nýtingu þekkingar í þágu raunhæfra verkefna, samfélagslega ábyrgð og samskipti við ýmis svið þjóðfélagsins.
09.04.2014 Forseti heimsækir Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi í tilefni af 40 ára kaupstaðarafmæli bæjarfélagsins. Nemendur og kennarar tóku á móti forseta á sal skólans þar sem kórar sungu, fluttur var leikþáttur um Snorra Sturluson og forseti flutti stutt ávarp. Á eftir skoðaði forseti sýningu nemenda um náttúru, mannlíf og sögu Seltjarnarness.
09.04.2014 Forseti og forsetafrú taka í dag og á morgun þátt í hátíðarhöldum á Seltjarnarnesi og í Grindavík í tilefni af fertugsafmæli kaupstaðanna tveggja. Heimsókn forsetahjóna á Seltjarnarnes hefst í dag miðvikudag klukkan 13:00 í Mýrarhúsaskóla. Heimsókn forsetahjóna til Grindavíkur hefst á morgun fimmtudag í Hópsskóla um klukkan 10:30. Fréttatilkynning.
10.04.2014 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu sem haldin er í Grindavíkurkirkju í tilefni af 40 ára afmæli bæjarfélagsins. Ávarp forseta.
10.04.2014 Forseti situr hátíðarfund bæjarstjórnar Grindavíkur sem haldinn er í tilefni af 40 ára afmæli bæjarfélagsins.
10.04.2014 Forseti sækir kaffisamsæti aldraðra borgara í Grindavík sem haldið er í Miðgarði í tilefni af 40 ára afmæli bæjarfélagsins. Í ávarpi ræddi forseti þróun Grindavíkur úr fátæku sjávarplássi í hið fjölþætta og kraftmikla okkar bæjarfélag okkar tíma, lýsti hvernig sjávarútvegur og fiskvinnsla hefði verið grundvöllur að framförum byggðarlagsins og þakkaði hinni eldri kynslóð fyrir veigamikið framlag þeirra til þessarar þróunar.
10.04.2014 Forseti heimsækir Grunnskóla Grindavíkur í tilefni af 40 ára afmæli bæjarfélagsins, ræðir við nemendur í skólastofum, skoðar kennsluefni og svarar síðan á sal fyrirspurnum nemenda. Forseti flutti einnig ávarp þar sem hann ræddi kosti þess að alast upp í sjávarplássi, kynnast mannlífi, náttúru og atvinnuháttum í návígi; og fjallaði um kosti Grindavíkur og þann árangur sem sveitarfélagið hefur náð.
10.04.2014 Forseti flytur ávarp við setningu Spirit of Humanity ráðstefnunnar sem haldin er í Hörpu. Þetta er í annað sinn sem ráðstefnan er haldin á Íslandi og eru þátttakendur frá 40 löndum. Í ávarpinu lagði forseti áherslu á samstöðu og gagnkvæman skilning þjóða í milli, mannúð og samhjálp; rakti hvernig Íslendingar bregðast við hamförum í náttúrunni með því að standa saman og styðja hverjir aðra, bæði í byggðarlögum og meðal þjóðarinnar allrar.
11.04.2014 Forseti situr kvöldverð MBA nemenda frá Cass Háskólanum sem undanfarið hafa stundað vettvangsrannsóknir á ýmsum sviðum íslensks viðskiptalífs, flytur ræðu og svarar fyrirspurnum nemenda. Kvöldverðurinn er haldinn í Hörpu.
11.04.2014 Forseti tekur á móti erlendum og íslenskum þátttakendum í rithöfundabúðum, Iceland Writers Retreat, sem nú eru starfræktar í fyrsta sinn á Íslandi. Í ávarpi ræddi forseti m.a. um þátt skálda og rithöfunda í sögu Bessastaða, allt frá Snorra Sturlusyni til Þórarins Eldjárns, sem og áhrif Bessastaðaskóla á þróun íslenskra bókmennta og endurreisn tungumálsins.
11.04.2014 Forseti á fund með stjórnendum Mannvits og Eimskip um vaxandi þátttöku íslenskra aðila, fyrirtækja og vísindasamfélags í þróun samstarfs á Norðurslóðum. Einnig var rætt um skipulag Hringborðs Norðurslóða og ýmis viðfangsefni sem verða á dagskrá þess í haust.
11.04.2014 Forseti á fund með forstjóra Microsoft á Íslandi Heimi Fannari Gunnlaugssyni um þróun upplýsingatækni, áhrif breytinga á ungar kynslóðir, nám, skólastarf og lífshætti. Einnig var fjallað um stöðu fyrirtækja í upplýsingatækni á Íslandi og möguleika á komandi árum.
12.04.2014 Forseti er viðstaddur keppni og verðlaunaafhendingu á Norðurlandamóti unglinga í hópfimleikum.
12.04.2014 Forseti tekur á móti innlendum og erlendum þátttakendum í samstarfi og verkefnum á vegum Ungmennaráðs Hafnarfjarðar.
12.04.2014 Forseti á fund með Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, um þróun ferðaþjónustu á Norðurslóðum og möguleika Íslands til að verða vettvangur víðtæks samstarfs og umræðu varðandi málefni Norðurslóða, m.a. með eflingu Hringborðs Norðurslóða sem hélt sitt fyrsta þing á Íslandi í fyrra.
13.04.2014 Forseti ræðir við hóp nemenda frá Harvard Business School um þróun íslensks atvinnulífs og þjóðfélags; hagkerfi hreinnar orku, opið lýðræðislegt samfélag og ýmsa lærdóma sem draga má af glímunni við fjármálakreppuna.
22.04.2014 Forseti flytur fyrirlestur í boði Alþjóðaráðs San Francisco og Samveldissamtaka Kaliforníu, World Affairs Council and Commonwealth Club of California. Fyrirlesturinn sem ber heitið People and Ice: The new global significance of the Arctic and the Himalayas, fjallaði um áhrif bráðnunar íss og jökla á Norðurslóðum og Himalajasvæðinu á samfélög, efnahagslíf og framtíðarhorfur. Forseti rakti þróun auknar samvinnu á Norðurslóðum, bæði innan vébanda Norðurskautsráðsins og á öðrum vettvangi, svo sem Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle. Þá rakti forseti hvernig reynsla íbúa Norðurslóða gæti nýst samfélögum og þjóðum á Himalajasvæðinu og lýsti hvernig á síðustu þremur árum hefði verið unnið að samræðu og samvinnu í þessu skyni, með fundum bæði á Íslandi og annars staðar. Að fyrirlestri loknum svaraði forseti fyrirspurnum. Fyrirlestur. Myndir.
23.04.2014 Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur setningarræðu á hafráðstefnu Google sem haldin er í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Kaliforníu. Ráðstefnan fjallar um verndun auðlinda hafsins, nýtingu upplýsingatækni til að efla sjálfbærar fiskveiðar og hvernig styrkja megi eftirlit með veiðum og vinnslu. Jafnframt eru á ráðstefnunni rakin ýmis dæmi um árangursríkar aðgerðir á þessu sviði og rætt hvernig stuðla megi að samvinnu stjórnvalda, atvinnulífs og almennings í þágu verndunar hafanna, bæði innan og utan efnahagslögsögu einstakra landa. Fréttatilkynning. Myndir. Ávarp forseta.
24.04.2014 Forseti ræðir við Larry Brilliant og aðra stjórnendur Skoll Global Threats Fund um samvinnu á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu, hvernig slík verkefni geta nýst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig var fjallað um hvernig Hringborð Norðurslóða og samráðsvettvangurinn Himalaya Third Pole Circle geta stuðlað að því að tengja saman bæði sérfræðinga, vísindamenn og fulltrúa samfélaga og þjóða.
24.04.2014 Forseti sækir málstofur á hafráðstefnu Google sem haldin er í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Kaliforníu og ræðir við einstaka þátttakendur um ýmiss konar tækni sem stuðlað getur að verndun hafanna og eftirliti með veiðum sem og tækni sem nýst getur á Norðurslóðum, m.a. varðandi siglingar skipa.
25.04.2014 Forseti heimsækir Helga Tómasson og San Francisco ballettinn í höfuðstöðvum hans, óperuhúsi San Francisco borgar, fylgist með kennslu í ýmsum deildum ballettskólans, skoðar húsakynni og fjölþætta aðstöðu og fylgist einnig með æfingum á aðalsviði óperuhússins. Á næsta ári hefur Helgi Tómasson verið stjórnandi San Francisco ballettsins í 30 ár og nýtur alþjóðlegrar virðingar fyrir að hafa komið ballettinum í fremstu röð. Um 800 manns starfa hjá San Francisco ballettinum og honum er boðið til sýninga víða um heim, verður m.a. í óperuhúsi Parísar í sumar.
25.04.2014 Forseti á fund með stjórnendum Planet Labs sem unnið hefur að gerð lítilla og ódýrra gervihnatta en markmið verkefnisins er að veita frjálsari aðgang að myndum sem teknar eru af jörðinni, en þær má m.a. nota til eftirlits með gróðureyðingu, breytingum á ís og jöklum sem og þróun byggðar og umhverfisskaða. Mynd.
25.04.2014 Forseti á fund með hópi stjórnenda hafverkefna Google um þau viðfangsefni sem aukin bráðnun íss á Norðurslóðum mun skapa á komandi árum, m.a. með stækkun hafsvæða. Einnig var fjallað um reynslu Íslendinga af fullnýtingu sjávarafla og framleiðslu margvíslegrar vöru úr innyflum og roði. Þá var einnig fjallað um tækni sem gert gæti almenningi kleift að fylgjast með ferðum hvala frá Íslandi til fjarlægra heimshafa.
26.04.2014 Forseti sækir kvöldverð sem haldinn er í upphafi Alþjóðaráðstefnu Milken Institute en hún fjallar um breytingar í alþjóðamálum, bæði stjórnmálum og efnahagslífi, rannsóknir í þágu læknavísinda sem og ýmis önnur alþjóðleg dagskrárefni. Þar mun forseti taka þátt í málstofu um framtíð Norðurslóða. Ráðstefnan er haldin í Los Angeles.
27.04.2014 Forseti sækir ásamt forseta Rúanda Paul Kagame og forystufólki í alþjóðamálum og atvinnulífi samræðukvöldverð í tengslum við Alþjóðaráðstefnu Milken stofnunarinnar sem haldin er í Los Angeles. Þar kynnti forseti framlag Íslendinga til nýtingar hreinnar orku víða um heim, einkum jarðhitaverkefni.
27.04.2014 Forseti á í tengslum við Milken Alþjóðaráðstefnuna fund með Scott Minerd, fjárfestingastjóra Guggenheim Partners, um aukið samstarf um fjárfestingar og atvinnulíf á Norðurslóðum. Scott Minerd flutti framsöguræðu á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið var í Reykjavík í fyrra, um viðskiptasamvinnu á Norðurslóðum en Guggenheim var meðal þátttökuaðila í Hringborði Norðurslóða. Einnig var fjallað um skipulag slíkra samræðna og tengsla á Norðurslóðum á komandi árum, m.a. þing Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í haust.
28.04.2014 Forseti á fund með fulltrúum Silicor Materials, Hudson Clean Energy Partners og Reykjavík Geothermal um byggingu sólarkísilverksmiðju á Grundartanga en afurðir hennar yrðu nýttar við virkjun sólarorku, einkum í Asíu. Slík verksmiðja á Íslandi, sem byggð væri á nýtingu hreinnar orku, væri því verulegt framlag til að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti og stuðla að umhverfisvænni orkunýtingu víða um heim.
28.04.2014 Forseti á fund með fulltrúum Afríkusambandsins og stjórnvalda í Eþíópíu um samvinnu við Íslendinga á sviði jarðhitanýtingar en Reykjavík Geothermal hefur gert samning við Eþíópíu um byggingu 1000 MW virkjunar og Afríkusambandið skipuleggur samstarf við önnur ríki í Afríku á þessu sviði.
28.04.2014 Forseti sækir málstofur sem haldnar eru á alþjóðaþingi Milken stofnunarinnar í Los Angeles, m.a. málstofur um breytingar á orkukerfi Bandaríkjanna og veraldar, aukna samvinnu Vesturlanda við ríki í Afríku, einkum á sviði orkunýtingar og grundvallarþátta í tækni og samgöngum, en Íslendingar hafa verið þátttakendur í jarðhitaverkefnum í Austur-Afríku. Einnig málstofur um breytingar í Kína og framtíðarhorfur í viðskiptalífi veraldar sem og hádegisverð þar sem ýmsir forystumenn á vettvangi stjórnmála og atvinnulífs sátu fyrir svörum. Alþjóðaþing Milken stofnunarinnar sækja 3.500 þátttakendur frá um 50 löndum, forystufólk í þjóðmálum, atvinnulífi, viðskiptum, heilbrigðismálum og tækni.
30.04.2014 Forseti á fundi með ýmsum þátttakendum á alþjóðaþingi Milken stofnunarinnar, sem haldið er í Los Angeles, um aukið samstarf á Norðurslóðum og sérstakar viðræður við Laurence C. Smith, prófessor við Kaliforníuháskóla, Terry Audla, forseta frumbyggjasamtaka Kanada, Torben Möger Pedersen, forstjóra PensionDanmark, og Michael Perkinson, skrifstofustjóra fjárfestingastjóra Guggenheim Partners, um þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, og um dagskrá annars þings þess sem haldið verður í Reykjavík í haust.
30.04.2014 Forseti tekur þátt í panelumræðum um Norðurslóðir í sérstakri málstofu sem helguð var því málefni á alþjóðaþingi Milken stofnunarinnar í Los Angeles. Fjallað var um aukinn áhuga ríkja í Asíu og Evrópu á Norðurslóðum, hlutverk Bandaríkjanna í ljósi væntanlegrar formennsku í Norðurskautsráðinu, atvinnulíf og fjárfestingar sem og málefni frumbyggja og nauðsyn vísindalegra rannsókna á bráðnun íss og jökla, m.a. í ljósi áhrifa á aukna tíðni ofsaveðra víða í veröldinni.

Maí

01.05.2014

Forseti er sæmdur gullmerki American-Scandinavian Foundation fyrir framlag sitt til samvinnu Íslands við Bandaríkin og forystu og framtíðarsýn í alþjóðamálum.American-Scandinavian Foundation eru aðalsamtök fólks af norrænum uppruna í Bandaríkjunum og hafa í rúma öld unnið að kynningu á menningu og þjóðlífi Norðurlanda í Bandaríkjunum.

American-Scandinavian Foundation eru aðalsamtök fólks af norrænum uppruna í Bandaríkjunum og hafa í rúma öld unnið að kynningu á menningu og þjóðlífi Norðurlanda í Bandaríkjunum.

Í ávarpi sem Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur flutti þegar hann afhenti forseta viðurkenninguna fyrir hönd American-Scandinavian Foundation lýsti hann m.a. langvarandi sambandi forseta og samstarfi við forystumenn á mörgum sviðum bandarísks þjóðlífs og stjórnkerfis, kynningu hans á árangri Íslendinga við nýtingu jarðhita og hreinnar orku, baráttu gegn loftslagsbreytingum og nýlega sérstakri áherslu á málefni Norðurslóða og stofnun Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, í samvinnu við áhrifafólk í Bandaríkjunum.

Í þakkarræðu forseta Íslands minntist hann m.a. hátíðarhaldanna árið 2000 víða um Bandaríkin í tilefni af 1000 ára afmæli landafundanna, sýningarinnar í þjóðminjasafni Bandaríkjanna, Smithsonian, á arfleifð víkinga og samskiptum þeirra við frumbyggja í Bandaríkjunum. Forseti rakti einnig hvernig vaxandi áhersla á Norðurslóðir væri að skapa ný og mikilvæg viðfangsefni í samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlanda.Fyrr í gær sat forseti fyrir svörum í viðtali sem sýnt verður á netsíðu hins virta tímarits Foreign Affairs. Í viðtalinu var einkum rætt um þróun samvinnu á Norðurslóðum, vaxandi áhuga ríkja í Asíu og fyrirtækja víða um heim sem og framlag Bandaríkjanna og Rússlands til þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum.

01.05.2014 Forseti sækir ráðstefnu DLD samtakanna sem haldin er í New York. Á ráðstefnunni er m.a. fjallað um áhrif upplýsingatækni og hönnunar á þróun nútímasamfélaga en aðalráðstefna DLD er haldin í München ár hvert. Vefur DLD.
01.05.2014 Forseti flytur lokaræðu á ráðstefnu um stöðu kvenna og kynjajafnrétti á Íslandi og í Bandaríkjunum. Ráðstefnan er skipulögð af Íslensk-ameríska verslunarráðinu og American-Scandinavian Foundation og haldin í Norræna húsinu í New York (Scandinavia House). Vefsíða hússins. Mynd.
01.05.2014 Forseti er í viðtali við myndvarp heimasíðu Foreign Affairs sem er helsta tímarit Bandaríkjanna í alþjóðamálum. Viðtalið tekur Stuart Reid í höfuðstöðvum Council on Foreign Relations. Í viðtalinu var einkum rætt um þróun samvinnu á Norðurslóðum, vaxandi áhuga ríkja í Asíu og fyrirtækja víða um heim sem og framlag Bandaríkjanna og Rússlands til þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum.
03.05.2014 Forseti á fund með Alice Rogoff sem ásamt honum er einn af stofnendum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle. Rætt var um árangurinn af fyrsta þingi hringborðsins, helstu efnisþætti á öðru þingi þess sem haldið verður í Hörpu í lok október, sem og þá stefnumótandi ákvörðun að miðstöð hringborðsins og árlegt þinghald verði framvegis á Íslandi. Hliðarfundir verða þó haldnir í öðrum löndum, m.a í Bandaríkjunum á næsta ári þegar þau taka við formennsku í Norðurskautsráðinu.
05.05.2014 Forseti flytur ræðu í boði Alþjóðaráðs Chicago, Chicago Council on Global Affairs, en forseti þess er Ivo Daalder fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Nató. Ræða forseta bar heitið Ice and water in the 21st Century: The new importance of the Arctic and the Himalayas. Að henni lokinni svaraði forseti fjölmörgum spurningum um þróun mála á Norðurslóðum sem og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Meðal áheyrenda voru forsvarsmenn Íslendingafélagsins í Chicago. Ræða forseta. Myndir.
05.05.2014 Forseti á fund með stjórnendum alþjóðadeildar MacArthur stofnunarinnar í Chicago sem lengi hefur unnið að framgangi margvíslegrar samvinnu á alþjóðavettvangi. Rætt var um þróun mála á Norðurslóðum, árangur Arctic Circle, væntanlega formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og mikilvægi framlags háskóla, rannsóknarstofnana og hugveitna. Þá var einnig fjallað um hvernig árangur samvinnu á Norðurslóðum getur verið fordæmi fyrir aukin tengsl ríkja á Himalajasvæðinu þar sem hröð bráðnun jökla ógnar vatnsbúskap og fæðuöryggi milljarða manna.
06.05.2014

Forseti á fund með Arjun Gupta sem í fyrra tók þátt í Hringborði Norðurslóða í Reykjavík og sérstakri málstofu um þá lærdóma sem Norðurslóðir geta fært þjóðum á Himalajasvæðinu. Rætt var um framhald þessa samstarfs, bæði með þátttöku innan vébanda hringborðsins og á sérstakri ráðstefnu sem haldin verður í Bútan síðar á árinu.

07.05.2014 Forseti á fund með Daniel Schrag og öðrum stjórnendum og sérfræðingum við Umhverfisstofnun Harvard háskóla, Harvard University Center for the Environment, um þátttöku í vaxandi samstarfi á Norðurslóðum, m.a. fundum Hringborðs Norðurslóða, einkum með tilliti til væntanlegrar formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og mikilvægis þess að helstu háskólar og rannsóknarstofnanir Bandaríkjanna taki þátt í þekkingarleit og vísindaverkefnum á Norðurslóðum.
07.05.2014 Forseti á fund með Lawrence Susskind og fleiri forystumönnum Samningastofnunar Harvard háskóla, Program on Negotiation, sem aðrir háskólar á Bostonsvæðinu taka einnig þátt í. Rætt var um fjölmörg verkefni sem kalla á fjölþætta samninga og samstarf á Norðurslóðum, m.a. í tengslum við nýtingu náttúruauðlinda, fiskveiðar, siglingar og ferðaþjónustu. Samningastofnunin hefur áhuga á þátttöku í Hringborði Norðurslóða sem haldið verður í Hörpu í haust.
09.05.2014 Forseti á fund með stjórnendum Rannsóknarþings Norðursins, Lassi Heininen og Þorsteini Gunnarssyni og Guðrúnu Rósu Þórsteinsdóttur, um næstu verkefni þess, fundi sem skipulagðir hafa verið í Kanada og þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic, Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust. Á næstu misserum verður verkefnið „The Global Arctic“ meðal helstu viðfangsefna Rannsóknarráðsins og þegar hefur fjöldi rannsóknarstofnana og háskóladeilda lýst áhuga á að taka þátt í því.
10.05.2014 Forseti tekur þátt í kynningu á áformum um nýtt svæði efst og í norðurhlíðum Skálafells sem bæði gæti nýst sem spennandi viðbót við skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins og einnig opnað nýja möguleika í ferðaþjónustu að sumri til í ljósi hins mikla fjallaútsýnis sem blasir við efst í Skálafelli.
11.05.2014 Forseti tekur þátt í afmælisfagnaði Austurindíafélagsins en veitingahúsið hefur í tuttugu ár stuðlað að kynningu á indverskum mat og menningu og stutt þannig aukna samvinnu og tengsl milli Íslands og Indlands.
12.05.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Rússlands, hr. Anton Vsevolodovich Vasilyev, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum en hann var áður fastafulltrúi Rússlands í Norðurskautsráðinu. Rætt var um langvarandi samvinnu Íslands og Rússlands, viðskiptaþróun frá fyrstu árum lýðveldisins þegar útflutningur á sjávarafurðum til Rússlands skipti sköpum fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, sem og margvísleg menningartengsl fyrr og nú, m.a. listviðburði á Íslandi og í Rússlandi á síðasta ári þegar haldið var upp á 70 ára afmæli stjórnmálasambands landanna. Þá var einnig fjallað um stöðu mála í Úkraínu, mikilvægi þess að tryggja frið og góða sambúð allra sem hlut eiga að máli, framgang kosninga og lýðræðis og efla jákvæða samvinnu þeirra þjóða sem vilja stuðla að árangursríkri þjóðfélagsþróun í Úkraínu. Koma yrði í veg fyrir beitingu vopnavalds og tryggja framgang alþjóðlegra skuldbindinga. Söguleg tengsl Rússlands og Úkraínu, sem og sameiginleg menning og saga trúar ættu að hvetja þjóðirnar til friðsamlegrar sambúðar og gagnkvæms trausts í framtíðinni. Einnig var rætt um vaxandi samvinnu á Norðurslóðum, reynslu sendiherrans af þeim vettvangi, aukið mikilvægi Norðurslóða fyrir íslenska hagsmuni sem og nauðsyn þess að tryggja áframhald þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum. Mynd.
12.05.2014 Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegri ráðstefnu kvenradíóamatöra sem haldin er á Íslandi. Þar er fjallað um sameiginlega reynslu þátttakenda á þessu sviði og helstu verkefni á næstu árum.
12.05.2014 Forseti tekur á móti Björgu Finnbogadóttur og forystufólki samtaka ungra athafnamanna í Kína sem jafnframt veita forystu einu af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum Kína. Stefnt er að heimsókn hóps slíkra forystumanna til Íslands á næsta ári, aðallega frá Hong Kong. Einnig var fjallað um þróun sjávarútvegs á Íslandi, eftirlit með sjálfbærum veiðum og beitingu upplýsingatækni í þágu ábyrgs sjávarútvegs og fiskvinnslu.
13.05.2014 Forseti veitir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins en þau hafa á undanförnum árum varpað ljósi á margvíslegt framlag einstaklinga, hópa og samtaka í þágu mannúðar, velferðar og samfélags.
13.05.2014 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum við opnun alþjóðaráðstefnu hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail en fyrirrennari þess fékk árið 2001 Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Í ræðunni fjallaði forseti um hvernig upplýsingatækni hefði opnað fámennum þjóðum og samfélögum greiðar leiðir að alþjóðlegum mörkuðum og árangri á veraldarvísu. Saga LS Retail væri áhrifaríkur vitnisburður um þessa þróun en hugbúnaður fyrirtækisins er nú þegar notaður í flestum heimsálfum og á sumum fjölförnustu flugvöllum heims.
15.05.2014 Forseti afhendir Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum en verðlaunin eru veitt í samvinnu við Íslandsstofu. Verðlaunin hlaut í ár fyrirtækið TrueNorth og Magnús Scheving hlaut einnig sérstaka heiðursviðurkenningu.
15.05.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Suður Kóreu á Íslandi, hr. Lee Byung-hwa, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um trausta samvinnu þjóðanna á undanförnum áratugum og mikilvæg viðskiptatengsl sem og verulegan áhuga Suður Kóreu á virkri þátttöku í umræðum og samstarfi á Norðurslóðum en ríkið varð í fyrra áheyrnarríki að Norðurskautsráðinu og sendi sérstaka sendinefnd á þing Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík. Stjórnvöld í Suður Kóreu hafa mótað sérstaka áætlun varðandi Norðurslóðir og undirbúa með virkum hætti ásamt skipafélögum í landinu siglingar milli Suður Kóreu og Evrópu um norðurleiðina. Mynd.
15.05.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Makedóníu, hr. Jovan Donev, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um stöðu Makedóníu og viðleitni til að öðlast fulla viðurkenningu sem ríki, m.a. með lausn deilumála við nágranna og virkri þátttöku í alþjóðlegum stofnunum. Einnig var fjallað um fjölgun smárra og meðalstórra ríkja í Evrópu, reynslu ríkjanna á Balkanskaga og þá lærdóma sem draga má af þróun síðustu ára. Þá kom fram áhugi sendiherrans á að efla fjölþætt menningartengsl við Ísland, m.a. varðandi varðveislu tungumáls. Mynd.
15.05.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Nígers, hr. Illo Adani, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um gróðureyðingu og þurrka, sem herja á Níger, og áhuga landsmanna á að læra af reynslu Íslendinga við landgræðslu, m.a. með þátttöku í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfar á Íslandi. Þá var einnig fjallað um hrikaleg áhrif loftslagsbreytinga á Níger og nágrannalönd þess sem m.a. gætu leitt til vopnaðra átaka og vaxandi spennu. Á undanförnum árum hefur stjórnkerfi landsins verið endurbætt á margan veg, markvisst dregið úr spillingu og stuðlað að traustara lýðræði. Mynd.
16.05.2014 Forseti tekur á móti hópi erlendra þátttakenda í verkefninu Alþjóðleg ungmennaskipti sem sinnt hafa ýmsum velferðarverkefnum á Íslandi að undanförnu, m.a. þjónustu við geðfatlaða og aldraða.
16.05.2014 Forseti tekur á móti hópi ungra athafnamanna frá ýmsum löndum, Young Presidents Organization, sem heimsækja Ísland, og ræðir m.a. um árangur Íslendinga í glímunni við fjármálakreppuna, loftslagsbreytingar, nýtingu hreinnar orku og þróun mála á Norðurslóðum.
16.05.2014 Forseti ræðir við Todd Johnson sem vinnur að gerð heimildarmynda um bráðnun jökla, bæði á Íslandi, Grænlandi, Alaska og víðar í veröldinni. Hann hefur undanfarið rætt við íslenska vísindamenn og sérfræðinga á þessu sviði.
16.05.2014 Forseti á fund með þremur indverskum háskólanemum, sem tekið hafa þátt í námskeiðum og þjálfun í jöklafræði á Íslandi, og afhenti þeim viðurkenningarskjöl fyrir árangurinn. Þetta er annar hópurinn sem kemur frá Indlandi í slíka þjálfun en verkefnið er byggt á áætlun sem forseti kynnti þegar hann tók við Nehru verðlaununum á sínum tíma. Viðstaddir voru einnig Helgi Björnsson, prófessor við Háskóla Íslands, Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur í jöklarannsóknum hjá Veðurstofu Íslands, sem og Dagfinnur Sveinbjörnsson og Sigríður Blöndal frá Climate Research Foundation sem annast hafa skipulagningu dvalarinnar. Indversku nemendurnir munu síðan vinna að verkefnum á þessu sviði í tengslum við indverskar vísindastofnanir. Myndir.
17.05.2014 Forseti ræðir við Kristjönu Guðbrandsdóttur, blaðamann DV, um þróun Norðurslóða, áhrif hennar á stöðu Íslands, verkefni og tækifæri fyrir vísinda- og fræðasamfélag, atvinnulíf sem og stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.
19.05.2014 Forseti flytur setningarávarp á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er í Háskóla Íslands um ný viðhorf í efnahagslífi veraldar, einkum vegna aukinnar þátttöku fyrirtækja frá Asíu í atvinnulífi og fjárfestingum í Evrópu og Ameríku. Í ávarpinu rakti forseti breytingar í samskiptum Íslands við fjarlæga heimshluta, aukinn áhuga ríkja í Asíu á framtíð Norðurslóða sem og þá lærdóma sem hann hefur dregið af samskiptum sínum við forystumenn í Asíu.
20.05.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Palestínu, hr. Mufeed Shami, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um ástæður þess að lítill sem enginn árangur hefur náðst í þeim friðarviðræðum sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur undanfarið beitt sér fyrir milli Ísraels og Palestínu, vaxandi samvinnu PLO og Hamas og nauðsyn þess að búa til samhæfa stjórn fyrir bæði Vesturbakkann og Gasasvæðið. Þá lét sendiherrann í ljós þakklæti Palestínumanna fyrir þann stuðning sem Ísland hefur veitt þeim á alþjóðavettvangi. Mynd.
20.05.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Sviss, dr. Rudolf Knoblauch, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um reynslu Sviss og Íslands með tilliti til afstöðunnar til Evrópusambandsins og samvinnu Evrópuríkja, samstarf að fríverslunarmálum sem og nauðsyn þess að skiptast á upplýsingum um stöðu ríkjanna og málefni Evrópu. Þá var einnig fjallað um rannsóknir á jöklum á Íslandi og í Sviss, möguleika á þjálfun ungra jöklafræðinga frá Himalajasvæðinu og framlag slíkra rannsókna til samvinnu á Norðurslóðum. Mynd.
21.05.2014 Forseti flytur ávarp í upphafi afmælisráðstefnu norræns vinnumarkaðar sem haldinn með þátttöku fulltrúa frá öllum Norðurlöndum í tilefni þess að 60 ár eru liðin frá stofnun hans. Ávarp forseta (á norsku).
23.05.2014 Forseti er viðstaddur opnun yfirlitssýningar á verkum Sigurjóns Ólafssonar í Listasafni Íslands. Sýningin ber heitið Spor í sandi og á henni er fjöldi verka frá mismunandi tímum í ævi listamannsins.
23.05.2014 Forseti flytur ávarp við opnun Eldheima, safns í Vestmannaeyjum, sem helgað er gosinu í Heimaey 1973. Í ávarpinu minnti forseti á hvernig glíman við náttúruöflin hefði mótað sögu Íslendinga frá upphafi byggðar, safnið væri áminning um að kraftar náttúrunnar væru áfram herradómur jarðarinnar en jafnframt minnti það okkur á mikilvægi samstöðunnar í byggðarlögum og með þjóðinni allri; hún hefði verið grundvöllur endurreisnar Vestmannaeyja og baráttunnar við afleiðingar gossins. Jafnframt þakkaði forseti Vestmannaeyingum fyrir að færa þjóðinni þá dýrmætu gjöf og lærdómana sem safnið felur í sér.
24.05.2014 Forseti tekur á móti þátttakendum í ráðstefnu Lindar, félags fólks með ónæmisgalla.
24.05.2014 Forseti flytur ávarp og opnar á Húsavík nýtt safn um landkönnuði, geimfara og landnámsmenn, The Exploration Museum. Á safninu er að finna muni og minjar um þjálfun geimfara í Þingeyjarsýslum, leiðangra norrænna víkinga fyrir þúsund árum, kapphlaupið á pólana og margt annað sem tengist ferðum manna á ókunnar slóðir. Myndir.
25.05.2014 Forseti heldur kvöldverð til heiðurs framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Irina Bokova, sem heimsækir Ísland. Rætt var um sögu og menningu Íslendinga, varðveislu tungumálsins á öld upplýsingatækni og tölvuvæðingar, byggingararfleifð torfbæjanna, framlag Íslendingasagna til menningar og nútímabókmennta sem og glímuna við loftslagsbreytingar og hvernig rannsóknir á jöklum og ísi þöktum svæðum og menningu og lífsháttum fólks, sem hefur um aldir búið í nábýli við ísinn, geta breytt hinni alþjóðlegu umræðu.
25.05.2014 Forseti tekur á mót listafólki sem tekur þátt í Listahátíð í Reykjavík, stjórnendum hátíðarinnar og fulltrúum stuðningsaðila.
25.05.2014 Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Fjöldi skóla tekur þátt í keppninni og samhliða henni opnuðu forseti og hugmyndasmiðir sýningu á afrakstri vinnusmiðju sem efnt var til fyrir höfunda þeirra tillagna sem sérstaklega voru heiðraðar. Afhending verðlaunanna fór fram í Háskólanum í Reykjavík.
25.05.2014 Forseti afhendir verðlaun á alþjóðlegu skautamóti fatlaðra sem haldið er í Skautahöllinni í Reykjavík. Meðal þátttakenda var ungt fólk frá Íslandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada sem glímir ýmist við líkamlega eða andlega fötlun.
26.05.2014 Forseti flytur ávarp við setningu ráðstefnu um nýjungar í bókhaldi og upplýsingagjöf, 30th World Continuous Auditing and Recording Symposium, sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík. Ráðstefnan er skipulögð í samvinnu við Rutgers háskólann í Bandaríkjunum. Í ávarpi dró forseti ýmsa lærdóma af reynslu Íslendinga í kjölfar bankahrunsins, hvernig skortur á upplýsingum og bókhaldslegu eftirliti hefði aukið á erfiðleika sem bankar og fyrirtæki glímdu við. Þá ræddi forseti einnig hvernig breytingar í upplýsingatækni og kröfur nýrra kynslóða um gagnsæi og óheftan aðgang að upplýsingum breyttu starfsumhverfi fyrirtækja í grundvallaratriðum.
27.05.2014 Forseti tekur á móti hópi stjórnenda og fyrirlesara á alþjóðlegu máltækniþingi sem haldið er í samvinnu við sérfræðinga í íslensku og hagnýtingu upplýsingatækni í þágu varðveislu tungumála.
29.05.2014 Forseti flytur ávarp við guðsþjónustu í Kópavogskirkju í tilefni af degi aldraðra í þjóðkirkjunni. Í ávarpinu fjallaði forseti um þær breytingar sem orðið hafa á æviskeiði þeirra sem nú eru aldraðir, vegferð Íslendinga frá fátæku samfélagi bænda og sjómanna til velferðar og framfara á okkar tímum. Mikilvægt væri að sýna í verki þakklæti til þeirrar kynslóðar sem skilað hefði slíkum árangri.
29.05.2014 Forseti tekur á móti hópi nemendum og kennurum frá háskóla í Texas sem eru í námsferð á Íslandi til að kynna sér sögu og menningu þjóðarinnar, náttúru landsins og árangur við nýtingu hreinnar orku sem og lærdómana í glímunni við afleiðingar bankahrunsins.

Júní

02.06.2014 Forseti tekur á móti fulltrúum og forystusveit American-Scandinavan Foundation sem er helstu samtök fólks af norrænum uppruna í Bandaríkjunum og hefur í áratugi kynnt menningu og þjóðlíf Norðurlanda í Vesturheimi og annast nú rekstur Norræna hússins í New York.
02.06.2014 Forseti veitir viðurkenningar og verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar sem JC hreyfingin hefur staðið að á undanförnum árum. Athöfnin fór fram í Háskólanum í Reykjavík.
02.06.2014 Forseti á fund með landgræðslustjóra Sameinuðu þjóðanna Monique Barbut sem heimsækir Ísland til að kynna sér árangur í baráttu Íslendinga við uppblástur og eyðimerkur, starfsemi Landgræðslu ríkisins og samstarf við bætur. Reynsla Íslendinga á þessu sviði á að hennar dómi erindi við fjölmargar þjóðir í Afríku og Asíu þar sem uppblástur lands og jarðvegseyðing, vöxtur eyðimarka, ógnar í senn afkomu og öryggi hundruða milljóna manna.
02.06.2014 Forseti tekur á móti fulltrúum samtaka og stofnana og öðrum sem tengdust björgunarafrekinu í Vöðlavík 1994 en í síðustu viku var afhjúpaður minnisvarði um það afrek í Vöðlavík. Meðal gesta var Gary Copsey, sem var í áhöfn björgunarþyrlu varnarliðsins, sem og fulltrúar heimamanna, björgunarsveita og Landhelgisgæslunnar.
02.06.2014 Forseti flytur ávarp við setningu Startup Iceland ráðstefnunnar sem fjallar um nýjungar í upplýsingatækni og tækifæri íslenskra frumkvöðla á því sviði. Meðal þátttakenda eru ýmsir erlendir forystumenn í upplýsingatækni sem og fulltrúar frá fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum.
03.06.2014 Forseti á fund á Akureyri í tengslum við norrænu-kínversku rannsóknaráðstefnuna með sendinefnd frá Kína sem skipuð er fulltrúum vísindastofnana, fyrirtækja og stjórnvalda. Rætt var um vaxandi samvinnu í málefnum Norðurslóða, tækifæri sem felast í nýjum fríverslunarsamningi Íslands og Kína og þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle.
03.06.2014 Forseti er í viðtali við hollensku sjónvarpsstöðina VPRO sem vinnur að gerð heimildaþáttar um þróun samvinnu á Norðurslóðum, breytta stöðu Íslands og Grænlands í veröldinni, vísindarannsóknir, loftslagsbreytingar og orkunýtingu.
03.06.2014 Forseti er í viðtali við kínverska sjónvarpið CCTV um þróun samvinnu á Norðurslóðum, áhrif bráðnunar íss á ofsaveður og náttúruhamfarir í Kína, samvinnu Íslands og Norðurlanda við vísindastofnanir í Kína sem og nýtingu hreinnar orku á Norðurslóðum.
03.06.2014 Forseti flytur ávarp við setningu ráðstefnu, sem haldin er á Akureyri, um samvinnu Norðurlanda og Kína í vísindarannsóknum á Norðurslóðum. Þetta er önnur ráðstefna sinnar tegundar en samstarfsvettvangur þessa efnis var stofnaður í Sjanghæ í Kína. Rannsóknaráð Íslands, RANNÍS, hefur skipulagt ráðstefnuna í samvinnu við Heimskautastofnun Kína. Í ávarpinu lýsti forseti þróun þessarar samvinnu á undanförnum árum og áréttaði mikilvægi þess að vísindarannsóknir lægju til grundvallar stefnumótun á Norðurslóðum.
04.06.2014 Forseti situr vinnukvöldverð Ráðgjafanefndar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um hreina orku sem haldinn er í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York en forseti tók í fyrra sæti í nefndinni að ósk framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóra Alþjóðabankans.
04.06.2014 Forseti er viðstaddur útgáfu á nýrri heimsskýrslu um nýtingu hreinnar orku, Renewables 2014 Global Status Report. Athöfnin fer fram í höfuðstöðvum fastanefndar Þýskalands hjá Sameinuðu þjóðunum að viðstöddum fjölda áhrifamanna á sviði hreinnar orku. Um 500 fræðimenn og sérfræðingar hafa unnið að gerð skýrslunnar og rekur hún þann margvíslega árangur sem náðst hefur í aukinni nýtingu hreinnar orku eftir löndum og heimshlutum.
04.06.2014 Forseti situr alþjóðaþing sem helgað er samvinnu um sjálfbæra orku fyrir alla jarðarbúa en þingið er haldið í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og sækja það fjölmargir fulltrúar ríkja, vísindamenn og sérfræðingar, forystumenn fyrirtækja og alþjóðastofnana. Heimasíða þingsins.
04.06.2014 Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar og eiginmaður hennar Daníel prins heimsækja Ísland í boði forseta Íslands dagana 18. og 19. júní næstkomandi. Með þeim í för verða embættismenn sænsku hirðarinnar og utanríkisþjónustunnar. Fréttatilkynning.
05.06.2014 Forseti tók ásamt framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon og framkvæmdastjóra Alþjóðabankans Jim Yong Kim þátt í setningarathöfn Áratugar sjálfbærrar orku sem haldin var í morgun, fimmtudaginn 5. júní, í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, John Ashe, flutti einnig ávarp við athöfnina. Myndir. Fréttatilkynning. Ávarp forseta.
06.06.2014 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum á sérstökum kynningarfundi sem haldinn var í húsakynnum Alþjóðafriðarstofnunarinnar (International Peace Institute) í New York. Auk hennar stóð að fundinum Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og Vettvangur sjálfbærrar orku fyrir alla (SE4ALL) sem staðið hefur fyrir alþjóðaþingi undanfarna daga í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Í ræðunni rakti forseti þjálfun fjölmargra sérfræðinga frá Afríku hjá Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, samstarf Íslendinga við Alþjóðabankann og Afríkusambandið um þróun jarðhitaverkefna í Austur Afríku, samning Reykjavík Geothermal um byggingu 1000 MW orkuvers í Eþíópíu sem og áhuga fjölmargra annarra Afríkuríkja á því að nýta sér reynslu og þekkingu Íslendinga á sviði jarðhitanýtingar. Umræðum á fundinum stýrði Gréta Gunnarsdóttir sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.
06.06.2014 Forseti flytur ræðu á lokafundi alþjóðaþings um hreina orku sem haldið er í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Í ræðunni áréttaði forseti að nú þegar væri til reiðu tækni á sviði jarðhita, sólarorku og vindorku sem gæfi heimilum, þorpum, héruðum og borgum kleift að breyta orkunýtingu. Mikilvægt væri að gera lausnir og áætlanir ekki of flóknar og að virkja vilja og getu fólksins. Þingið hefur sótt fjöldi forystumanna á alþjóðavettvangi, sérfræðingar og stjórnendur fyrirtækja.
08.06.2014 Forseti á fund með Sundeep Waslekar og Ilmas Futehally, forstöðufólki indversku hugveitunnar og rannsóknastofnunarinnar Strategic Foresight Group, um þátttöku Indlands í þróun Norðurslóða og samvinnu ríkja á Himalajasvæðinu sem og um rannsóknir á mikilvægi aðgangs að vatni og hættum á að þverrandi vatnsból leiði til ófriðar og átaka.
08.06.2014 Forseti er viðstaddur guðþjónustu í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu þar sem fram fóru leiðtogaskipti safnaðarins.
09.06.2014 Forseti á fund með Huldu Guðmundsdóttur um mikilvægi þess að vernda sögu eyðibýla og nýta þau í þágu ýmiss konar atvinnustarfsemi. Einnig var rætt um sögu Skorradals og hugmyndir um Framdalsfélag Skorradals sem og möguleika á uppbyggingu Stálpastaða þar sem hægt yrði að kynna fjölþættan árangur í skógrækt.
10.06.2014 Forseti á fund með ríkisstjóra Maine, Paul LePage, sem heimsækir Ísland ásamt sendinefnd frá stjórnsýslu og atvinnulífi ríkisins. Rætt var um hlutverk Maine í vöruflutningum og siglingum á Norðurslóðum, góðan árangur af áætlunarsiglingum Eimskips til Maine sem og áhuga ríkisstjórans á að nýta tækni og kunnáttu Íslendinga á vettvangi sjávarafurða.
10.06.2014 Forseti flytur ávarp á fundi alþjóðlegra stjórnenda Actavis sem haldinn er í Reykjavík. Forseti ræddi þróun fyrirtækisins frá lítilli verksmiðju í Hafnarfirði í umfangsmikið forystufyrirtæki í lyfjaiðnaði á heimsvísu; sú vegferð hefði skapað tækifæri fyrir menntaða unga Íslendinga, sérfræðinga, vísindamenn og fleiri. Mikilvægt væri að sú umfangsmikla alþjóðlega samsteypa, sem nú bæri nafn Actavis, varðveitti þá eiginleika sem verið hefðu leiðarljós starfseminnar. Í því sambandi nefndi forseti Forvarnardaginn, mikilvægan vettvang þar sem allar íþrótta- og æskulýðshreyfingar í landinu, skólar og aðrir, hafa með stuðningi Actavis náð gríðarlegum árangri í baráttunni gegn fíkniefnum.
11.06.2014 Forseti ræðir við alþjóðlegu fréttaveituna Bloomberg í tengslum við International Economic Forum of the Americas sem haldið er í Montréal.
11.06.2014 Forseti tekur þátt í pallborðsumræðum um Norðurslóðir á alþjóðaþinginu International Economic Forum of the Americas sem haldið er í Montréal. Meðal annarra þátttakenda í umræðunum voru Hans Kristian Olsen, framkvæmdastjóri Nunaoil á Grænlandi, Jens-Peter Saul, framkvæmdastjóri Ramboil, og Wendy Watson-Wright, sérfræðingur í málefnum úthafanna hjá UNESCO.
11.06.2014 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum á hádegisverðarfundi alþjóðaþingsins International Economic Forum of the Americas sem haldið er í Montréal í Kanada. Þingið sækja um 3.000 fulltrúar, einkum frá Kanada, Bandaríkjunum og löndum rómönsku Ameríku. Í ræðunni rakti forseti vaxandi samvinnu á Norðurslóðum, þátttöku ríkja frá Asíu og Evrópu í stefnumótun, uppbyggingu og vísindarannsóknum og aukna áherslu á nýtingu náttúruauðlinda og nýrra siglingaleiða. Kanada, Ísland og önnur aðildarríki Norðurskautsráðsins hefðu því vaxandi hlutverki að gegna. Myndir (ljósmyndari: Jean-François Lemire).
11.06.2014 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum um þróun Norðurslóða á morgunverðarfundi með fulltrúum úr kanadísku viðskiptalífi en fundurinn var haldinn í tengslum við alþjóðaráðstefnuna International Economic Forum of the Americas sem haldin er í Montréal í Kanada. Viðskiptaráðherra Kanada Ed Fast flutti einnig ræðu á fundinum.
12.06.2014 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum á fundi stjórnar Carnegie stofnunarinnar í New York um þróun samstarfs á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu, hvernig það endurspeglar nýjar aðferðir á alþjóðavettvangi og hvernig samstarf fjölmargra ólíkra aðila getur lagt grundvöll að nýrri skipan.
13.06.2014 Forseti á fund með Terry Audla, forystumanni samtaka frumbyggja á norðurslóðum í Kanada, um réttindi frumbyggja, samtök þeirra og þátttöku í stefnumótun og alþjóðlegri samræðu um Norðurslóðir. Meðal umræðuefna var mikilvægi þátttöku fulltrúa frumbyggjasamfélagi á Norðurslóðum, allt frá Alaska til Rússlands, einkum frá Kanada og Grænlandi, í þingum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle.
13.06.2014 Forseti á þrjá fundi með fræðimönnum, vísindamönnum, háskólakennurum og stúdentum við háskóla í Montréal þar sem fjallað var um framlag vísindasamfélagsins til þróunar Norðurslóða, mikilvægi rannsókna í stefnumótun, bæði varðandi verndun umhverfis, réttindi frumbyggja og nýtingu auðlinda. Fundirnir voru skipulagðir af École nationale d’administration publique (ENAP-Montréal), Center for Interuniversity Research on the International Relations of Canada and Québec (CIRRICQ) og prófessor Lassi Heininen, stjórnarformanni Rannsóknarþings Norðurslóða (NRF).
13.06.2014 Forseti á fund með forystumönnum Efnahagsþingsins í Montréal, The International Ecocomic Forum of the Americas, um áhuga þeirra á að umfjöllun um Norðurslóðir verði á dagskrá Efnahagsþingsins á næstu árum. Mikilvægt sé að efla skilning forystumanna í efnahagslífi og þjóðmálum í Kanada á hve hratt staðan á Norðurslóðum hefur breyst og hvernig vaxandi áhugi forysturíkja í Evrópu og Asíu skiptir sköpum fyrir samvinnu á þessu sviði.
16.06.2014 Forseti er viðstaddur verðlaunaafhendingu Grímunnar sem haldin er í Borgarleikhúsinu.
16.06.2014 Forseti á fund með hr. Jose de Jesus Sojo Reyes, sendiherra Venesúela, sem senn lætur af störfum. Rætt var um möguleika á auknum tengslum landanna á sviði menningar og lista, einkum tónlistar sem og áhuga á að virkja jarðhita í Venesúela. Einnig var rætt um þróun efnahagslífs og stjórnmála í landinu á undanförnum misserum sem og samvinnu þess við önnur ríki í rómönsku Ameríku.
16.06.2014 Forseti á fund með ræðismanni Íslands í Barcelona, Sol Daurella Comadrán, og fulltrúum atvinnulífs í borginni um kynningu á íslenskum sjávarafurðum og ferðaþjónustu og tækifærum til annarra viðskipta sem áformað er að halda í Barcelona.
16.06.2014 Forseti á fund með sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton V. Vasilyev, um þróun samvinnu á Norðurslóðum, þátttöku vísindamanna, sérfræðinga og fulltrúa atvinnulífs og stjórnkerfis í málþingum um Norðurslóðir, m.a. þingi Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í haust.
17.06.2014 Forseti tekur á móti fjölda sendiherra erlendra ríkja sem taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af 70 ára lýðveldisins. Í ávarpi fjallaði forseti um þá lærdóma sem draga má af sögu lýðveldisins og baráttu þjóðarinnar sem og nýjan sess Íslands í ljósi þróunar Norðurslóða, en hún skapar fjölmörg ný samstarfsverkefni við aðrar þjóðir.
17.06.2014 Forseti sæmir níu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fréttatilkynning. Mynd.
17.06.2014 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum á Austurvelli vegna þjóðhátíðardagsins en 70 ár eru liðin frá stofnun lýðveldisins á Þingvöllum.
17.06.2014 Forseti ræðir við Morgunblaðið í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá stofnun lýðveldisins. Fjallað var um þá erfiðu glímu að festa lýðveldið í sessi, samskipti við erlend ríki, lærdómana sem draga má af sögu þessa tímabils sem og árangur Íslendinga á fjölmörgum sviðum, traustan grunn að framtíð þjóðarinnar.
18.06.2014 Forseti býður til kvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs Viktoríu krónprinsessu og Daníel prins. Hann sitja ásamt fylgdarliði krónprinsessunnar ýmsir forystumenn Alþingis og ríkisstjórnar ásamt fulltrúum atvinnulífs og menningarstofnana. Ræða forseta. Myndir.
18.06.2014 Forseti fylgir Viktoríu krónprinsessu og Daníel prins í heimsókn til fyrirtækisins Össurar þar sem fór fram kynning á því hvernig framleiðsla fyrirtækisins og tækniþróun nýtist fötluðum. Myndir.
18.06.2014 Forseti fylgir Viktoríu krónprinsessu og Daníel prins í Hellisheiðarvirkjun þar sem fram fór kynning á nýtingu jarðhita og fjölþættu alþjóðlegu samstarfi Íslendinga sem byggt hefur verið á kunnáttu, tækni og menntun á því sviði. Mynd.
18.06.2014 Forseti fylgir Viktoríu krónprinsessu og Daníel prins í Hörpu þar sem að lokinni skoðunarferð um húsið fór fram kynning á íslensku tónlistarlífi. Hana önnuðust ýmsir fulltrúar og stjórnendur í íslensku tónlistarlífi. Myndir.
18.06.2014 Forseti tekur á móti Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar og Daníel prins á Bessastöðum í upphafi heimsóknar þeirra til Íslands. Að loknum viðræðufundi fluttu forseti og krónprinsessan stutt ávörp á fundi með fréttamönnum. Frekari dagskrá heimsóknarinnar má sjá í fréttatilkynningu. Myndir.
19.06.2014 Forseti situr ásamt Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar málþing um Norðurslóðir sem haldið var í Háskólanum á Akureyri en þar kynntu ýmsir sérfræðingar og fræðimenn rannsóknir á mannlífi og náttúru á Norðurslóðum sem og hið víðtæka samstarfsnet sem fjölmargir aðilar á Íslandi og Norðurlöndum hafa skapað um frekari verkefni á þessu svæði. Mynd.
19.06.2014 Forseti fylgir Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar og Daníel prins í skoðunarferð um hverasvæðið í Námaskarði. Síðan var ekið meðfram Mývatni að Goðafossi og síðan haldið til Akureyrar. Myndir.
19.06.2014 Forseti fylgir Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar og Daníel prins í heimsókn til Húsavíkur þar sem bæjarbúar fögnuðu gestunum á hafnarbakkanum, farið var í hvalaskoðun og snæddur hádegisverður í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Myndir.
20.06.2014 Forseti á fund með sendiherra Singapúrs á Íslandi, T. Jasudasen, um áframhaldandi þátttöku Singapúrs í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, en á fyrsta þingi Hringborðsins kynnti sendinefnd frá Singapúr sjónarmið þeirra og fyrirætlanir gagnvart Norðurslóðum. Til skoðunar er að Arctic Circle efni á næsta ári til funda í Singapúr í samvinnu við þarlend stjórnvöld um þátttöku þjóða í Asíu í rannsóknum og þróun Norðurslóða. Þá er einnig til skoðunar að Singapúr styrki unga frumbyggja á Norðurslóðum til náms og starfsþjálfunar.
23.06.2014 Forseti á fund með Li Congjun, forseta Xinhua fréttastofunnar, og sendinefnd starfsmanna fréttastofunnar um vaxandi áhuga í Kína á fréttum frá Íslandi og Norðurslóðum en fréttastofan hefur ákveðið að hafa sérstakan fréttaritara starfandi á Íslandi. Fjallað var um þróun samfélags og efnahagslífs á Íslandi á undanförnum áratugum, nýtingu hreinnar orku og samvinnu við Kína á því sviði sem og samstarf á sviði rannsókna.
23.06.2014 Forseti á fund með sendinefnd frá Atlantic Superconnection Corporation um athuganir á hagkvæmni þess að selja rafmagn um sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Fundinn sat einnig Charles Hendry þingmaður sem í tíð sinni sem ráðherra í bresku ríkisstjórninni undirritaði ásamt íslenskum stjórnvöldum minnisblað um þessar athuganir.
25.06.2014 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum um þróun Norðurslóða á morgunverðarfundi í Walbrook Club í fjármálahverfi Lundúna. Sérstaklega var fjallað um þátttöku forysturíkja í Evrópu og Asíu, áheyrnaraðild þeirra að Norðurskautsráðinu og framlag Bretlands á þessu sviði, bæði hvað varðar vísindalegar rannsóknir, stefnumótun, auðlindanýtingu og siglingar.

Júlí

01.07.2014 Forseti á fund með Andy Karsner, fyrrum varaorkumálaráðherra Bandaríkjanna sem á sínum tíma vann ötullega að alþjóðlegri samvinnu á sviði jarðhitanýtingar, um aukna hlutdeild Íslendinga í slíkum verkefnum víða um heim, ýmsar nýjungar og framfarir í upplýsingatækni sem og mikilvægi þess að efla rannsóknir á Norðurslóðum, Suðurskautinu og Himalajasvæðinu.
01.07.2014 Forseti ræðir við hóp breskra blaðamanna sem kynna sér ferðaþjónustu á Íslandi, tækifæri á sviði náttúruskoðunar og mannlífs, m.a. með tilliti til vaxandi fjölda ferðamanna frá Bretlandi til Íslands og fjölgunar flugferða milli landanna en á næstunni hefst áætlunarflug milli Birmingham og Keflavíkur.
01.07.2014 Forseti á fundi með Eggert Benedikt Guðmundssyni, forstjóra N1, og Vilhjálmi Vilhjálmssyni, forstjóra HB Granda, um þróun atvinnulífs á Norðurslóðum, einkum með tilliti til ferðaþjónustu, fiskveiða og vinnslu sjávarafurða. Einnig var fjallað um vaxandi alþjóðlega samvinnu á þessu sviði og áhuga forysturíkja í efnahagslífi Asíu og Evrópu á þróun Norðurslóða sem og þing Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust.
02.07.2014 Forseti tekur á móti nemendum og kennurum í sumarskóla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og ræðir við þá um hvernig reynsla Íslendinga frá stofnun lýðveldisins færir okkur ýmsa lærdóma um stöðu smáríkja. Einnig var fjallað um þróun Norðurslóða, stöðu Evrópu og samskipti við Kína; hve erfitt geti verið á vettvangi félagsvísinda að spá fyrir um þróun þjóða og alþjóðamála.
02.07.2014 Forseti tekur á móti hópi ungra ljósmyndara sem tímaritið National Geographic hefur boðið til Íslands til að taka myndir af náttúru og mannlífi. Hópurinn er skipaður ungu fólki frá ýmsum löndum og var rætt um fjölbreytileika íslenskrar náttúru og hvernig sýnin á hana hefði breyst á undanförnum árum og áratugum.
03.07.2014 Forseti á fund með Þorvaldi Kristjánssyni og nokkrum forystumönnum kvikmyndafyrirtækja í Bandaríkjunum um góða reynslu erlendra kvikmyndafyrirtækja af töku mynda á Íslandi og hvaða tækifæri slík starfsemi felur í sér á komandi árum, m.a. fyrir íslenskt kunnáttufólk á þessu sviði.
03.07.2014 Forseti á fundi með Steinþóri Pálssyni bankastjóra Landsbankans og Kolbeini Kolbeinssyni forstjóra Ístaks um þróun atvinnulífs og framkvæmda á Norðurslóðum, þátttöku forysturíkja í efnahagslífi Evrópu og Asíu í þróun svæðisins, tækifæri íslensks atvinnulífs með þátttöku í samræðum og samstarfi á þessu sviði. Einnig var fjallað um Hringboð Norðurslóða, Arctic Circle, en þing þess verður haldið á Íslandi í haust.
04.07.2014 Forseti á fund með Paul Oquist ráðherra frá Nikaragúa og sendinefnd hans ásamt fulltrúum Jarðhitaklasans og Margréti Björnsdóttur ræðismanni Nikaragúa um nýtingu jarðhita í Nikaragúa og hvernig íslensk tæknikunnátta og reynsla getur komið að liði í þeim efnum. Einnig var rætt um samvinnu á sviði sjárvarútvegs og áform Nikaragúa um að byggja nýjan skipaskurð sem kæmi til viðbótar Panamaskurðinum.
04.07.2014 Forseti á fund með Auði Guðjónsdóttur, Ólafi Kr. Guðmundssyni og Ingimar Einarssyni um baráttu þeirra fyrir því að Ísland verði miðstöð fyrir alþjóðlegt samstarf lækna og vísindamanna í glímunni við mænuskaða og aðra taugasjúkdóma.
04.07.2014 Forseti á fundi með Birni Óla Haukssyni forstjóra ÍSAVÍA og Ásgeiri Pálssyni yfirmanni flugleiðsögu á Norðurslóðasvæði Íslands og með Höskuldi H. Ólafssyni bankastjóra Arion banka um þróun og umsvif atvinnulífs á Norðurslóðum, vaxandi áhuga á viðskiptalífi svæðisins sem og möguleika Íslendinga til þess að leiða saman ýmsa aðila og veita þjónustu á þessu svæði, einkum með tilliti til hinnar miklu þátttöku í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, en annað þing þess verður á Íslandi í haust.
06.07.2014 Forseti afhenti Íslensku safnaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, en í dag er haldið upp á íslenska safnadaginn. Dómnefnd tilnefndi þrjú söfn til verðlaunanna, og eru þau Hafnarborg, menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar, Rekstrarfélag Sarps og Þjóðminjasafn Íslands. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Rekstrarfélags Sarps. Fréttatilkynning.
07.07.2014 Forseti ræðir við rússneska kvikmyndagerðarmanninn Juri Salnikov sem vinnur að gerð heimildarmyndar um Ísland en hann var á sínum tíma félagi Magnúsar Jónssonar kvikmyndagerðarmanns. Myndinni er ætlað að fjalla um þróun umhverfisverndar á Íslandi, bæði varðandi landgæði, sjávarauðlindir og orkunýtingu.
07.07.2014 Forseti á fund með varautanríkisráðherra Japans Takao Makino og sendinefnd hans sem heimsækja Ísland. Rætt var um aukna samvinnu á sviði jarðhitanýtingar, Norðurslóða og tækniþróunar í sjávarútvegi. Stjórnvöld í Japan munu kynna stefnu þeirra og framlag til Norðurslóða á þingi Arctic Circle í haust. Japan mun skipa sérstakan sendiherra á Íslandi í sumar sem m.a. er ætlað að sinna þessum málaflokkum. Einnig var fjallað um langvarandi viðskipti milli landanna og framlag japanskra tæknifyrirtækja til jarðhitanýtingar á Íslandi.
07.07.2014 Forseti á fund með Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka um þróun atvinnulífs og samstarfs á Norðurslóðum, m.a. með tilliti til vaxandi áhuga forysturíkja í efnahagslífi í Evrópu og Asíu á svæðinu.
07.07.2014 Forseti á fund með bandaríska athafnamanninum Jared Carney sem á sínum tíma var stjórnandi Milken þinganna í Bandaríkjunum en hann hefur á síðari árum tekið virkan þátt í umræðum um þróun Norðurslóða, m.a. í Alaska. Rætt var um fjölmörg tækifæri til aukinnar samvinnu milli Íslands, Alaska og Grænlands sem og nauðsyn þess að efla skilning og þekkingu í Bandaríkjunum á málefnum Norðurslóða.
07.07.2014 Forseti tekur á móti hópi ungra mæðra sem sækja námskeið og fræðslu á vegum Kvennasmiðjunnar, en í kjölfarið skoðuðu þær Bessastaði.
08.07.2014 Forseti á fund með Herði Arnarsyni forstjóra Landsvirkjunar um þróun orkumála á Norðurslóðum, m.a. með tilliti til vaxandi áhuga á nýtingu vatnsorku og vindorku. Einnig var fjallað um aukna eftirspurn eftir íslenskri orku, bæði í ljósi áforma um ný iðnfyrirtæki, stækkun gagnavera og hugsanlegs sæstrengs milli Íslands og Bretlands.
08.07.2014 Forseti á fund með Peter Vigue forystumanni í atvinnulífi Maine ríkis sem heimsækir Ísland í framhaldi af heimsókn ríkisstjóra Maine í júní. Rætt var um áhuga á auknu samstarfi og tengslum Maine og Íslands, m.a. með tilliti til aukinnar umsvifa á Norðurslóðum. Fulltrúar frá Maine munu taka þátt í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle. Fundinn sátu einnig fulltrúar Eimskips.
09.07.2014 Forseti á fund með Hauki Harðarsyni stjórnanda OrkaEnergy um þróun hitaveituframkvæmda í Kína og önnur jarðhitaverkefni í Asíu. Hitaveituframkvæmdirnar í hinum kínversku borgum, sem unnar eru í samvinnu við Sinopec, eru viðamestu hitaveituframkvæmdir í veröldinni og leysa af hólmi kolakyndingar. Einnig var fjallað um vaxandi áhuga í Asíu á hreinum matvælum frá Norðurslóðum, fiski, grænmeti, kjöti og vatni.
10.07.2014 Forseti á fund með Carl Hahn fyrrum forstjóra Volkswagen og Ingimundi Sigfússyni fyrrum sendiherra um vaxandi áhuga á gagnaverum á Íslandi, nýjar leiðir við lýsingu sem og aukna samvinnu Íslands og Þýskalands.
10.07.2014 Forseti á fund með Guðmundi Þóroddssyni forstjóra Reykjavík Geothermal og Michael Philips stjórnarformanni um virkjun jarðhita í Eþíópíu en þar er unnið að því að reisa þúsund MW orkuver sem yrði stærsta jarðhitaverið í Afríku. Einnig var fjallað um vaxandi áhuga stjórnvalda í Mexíkó á nýtingu jarðhita í landinu en slík tækifæri voru meðal helstu dagskrárefna í opinberri heimsókn forseta til Mexíkó. Einnig var fjallað um samvinnu við Bútan á ýmsum sviðum, m.a. í ljósi væntanlegra ráðstefnu þar um bráðnum jökla og vatnsbúskap á Himalajasvæðinu. Fundinn sat einnig Dagfinnur Sveinbjörnsson stjórnandi Climate Research Foundation sem vinnur að skipulagningu þess fundar.
10.07.2014 Forseti á fund með Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja um þróun sjávarútvegs á Norðurslóðum og mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á því sviði, styrk íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og tæknifyrirtækja og möguleika á að efla sjávarútveg á vettvangi Norðurslóða m.a. innan Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle.
12.07.2014 Forseti opnar alþjóðlega myndlistarsýningu í Bræðslunni á Djúpavogi en hún er haldin á vegum kínversku-evrópsku myndlistarstofnunnar, CEAC sem Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður og kona hans Ineke hafa starfrækt í Xiamen um árabil. Sýningin sem ber nafnið Rúllandi sjóbolti er hin fyrsta sem haldin er utan Kína og taka þátt í henni þrjátíu myndlistarmenn, frá Íslandi, Kína og Hollandi. Í ávarpi nefndi forseti að merkilegt væri að í sama mánuði og fríverslunarsamningur Íslands og Kína, hinn fyrsti við Evrópuríki, tæki gildi væri einnig haldin á hinum gamla verslunarstað Djúpavogi fyrsta myndlistarsýningin þessarar tegundar í Evrópu. Þannig færu saman frjáls listsköpun og frjáls verslun.
12.07.2014 Forseti heimsækir Arfleifð á Djúpavogi og kynnir sér hvernig hönnuður hennar og klæðskeri hafa skapað tískuvörur úr íslensku skinni og roði.
12.07.2014 Forseti skoðar steinasafn Auðuns Baldurssonar á Djúpavogi en hann hefur á undanförnum árum komið upp einstæðu safni steina sem fundist hafa í nágrenni Djúpavogs. Safnið varpar skýru ljósi á einstaka jarðsögu svæðisins og er vitnisburður um hverju atorka eins manns getur áorkað.
12.07.2014 Forseti heimsækir Teigarhorn í nágrenni Djúpavogs, skoðar gömlu húsin og steinasafn, kynnir sér áform um fræðslusetur helgað einstæðum náttúruminjum og sögu svæðisins.
14.07.2014 Forseti á fund með Þór Sigfússyni, stjórnanda Íslenska sjávarklasans, um þróun sjávarútvegs og fiskveiða á Norðurslóðum og tækifæri íslenskra framleiðenda og tæknifyrirtækja, m.a. með tilliti til samstarfs á vettvangi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle.
14.07.2014 Forseti á fund með Jóhanni Sigurjónssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, um fiskveiðar á Norðurslóðum og rannsóknir á fiskistofnum, m.a. með tilliti til breyttra aðstæðna í hafinu og nýjar leiðir flökkustofna sem og mikilvægi rannsóknasamstarfs á þessu sviði.
16.07.2014 Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni sem starfað hefur undanfarin ár á vegum Heimskautastofnunar Kína og hefur unnið sérstaka skýrslu fyrir Vestnorræna ráðið um þróun þess og vaxandi samstarf á Norðurslóðum. Fjallað var um þátttöku Heimskautastofnunar Kína í Hringborði Norðurslóða í fyrra og öðru þingi þess í haust sem og nýjan rannsóknaleiðangur stofnunarinnar á Norðurslóðir sem nú er að hefjast en rúmlega 60 vísindamenn taka þátt í honum.
19.07.2014 Forseti á fund með Stuart Gill sendiherra Bretlands á Íslandi um þátttöku Bretlands í samstarfi á Norðurslóðum, einkum með tilliti til væntanlegs þings Arctic Circle í haust. Þá var einnig rætt um vaxandi áhuga breskra stjórnvalda á þeim möguleika að kaupa raforku um sæstreng frá Íslandi.
21.07.2014 Forseti sendir samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til Willem-Alexander, konungs Hollands, og Yang di-Pertuan Agong, konungs Malasíu. Fréttatilkynning.
21.07.2014

Forseti á fund með Ashok Das sendiherra Indlands á Íslandi þar sem rætt var um þátttöku Indlands í þróun samstarfs á Norðurslóðum en í fyrra varð Indland áheyrnarríki að Norðurskautsráðinu. Einnig var fjallað um undirbúning að Arctic Circle þinginu í haust, væntanlegan fund í Bútan þar sem fjallað verður um samstarf ríkja á Himalajasvæðinu, einkum með tilliti til rannsókna á jöklum og vatnsbúskap. Sá fundur verður í framhaldi af fyrri fundum sem m.a. voru haldnir á Íslandi.

22.07.2014

Forseti á fund með Heiðari Má Guðjónssyni og Dagfinni Sveinbjörnssyni um þróun atvinnulífs á Norðurslóðum, einkum á sviði orkumála, mannvirkjagerðar og samgangna. Fjallað var um tækifæri Íslands í ljósi aukinna umsvifa og áhuga á málefnum Norðurslóða og dagskrárefni Arctic Circle í haust.

22.07.2014

Forseti á fund með Anton Vasiliev sendiherra Rússa á Íslandi um undirbúning að Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í haust. Einnig var fjallað um viðbrögð við hinu hræðilega flugslysi í Úkraínu, nauðsyn alþjóðlegrar rannsóknar og náins samstarfs með hagsmuni fjölskyldna og ættingja þeirra sem létu lífið að leiðarljósi.

23.07.2014

Forseti heimsækir Landsmót skáta sem haldið er á Hömrum á Akureyri, skoðar búðir einstakra skátafélaga, ræðir við þátttakendur, snæðir kvöldverð í tjaldbúð og er viðstaddur upphaf kvöldvöku. Mynd.

23.07.2014

Forseti á fund með Antonio Villaraigosa fyrrum borgarstjóra Los Angeles og forseta samtaka borgarstjóra í Bandaríkjunum og fylgdarmönnum hans sem heimsækja Ísland. Fjallað var um fjölmarga þætti á sviði alþjóðamála, samstarf Íslands og Bandaríkjanna og brýn verkefni á alþjóðavettvangi.

24.07.2014 Forseti á fund með Jóhannesi Frank ljósmyndara sem afhenti forseta eintak af ljósmyndabókinni Hross sem helguð er íslenska hestinum, einkum eins og hann birtist í óblíðri náttúru landsins. Forseti skrifar formála að bókinni. Formáli forseta (á ensku).
24.07.2014 Forseti á fund með sendiherra Finnlands á Íslandi, Irma Ertman, sem senn lætur af störfum. Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Finnlands, m.a. á vettvangi Norðurslóða, en mikill áhugi er í Finnlandi á þátttöku í þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust. Í opinberri heimsókn forseta Finnlands í fyrra var efnt til sérstaks málþings um Norðurslóðir í hátíðarsal Háskóla Íslands.
25.07.2014 Forseti sækir tónleika í Fáskrúðsfjarðarkirkju sem haldnir eru við upphaf Franskra daga. Þar fluttu Brynhildur Guðjónsdóttir og Bergþór Pálsson íslensk og frönsk lög við undirleik Kjartans Valdemarssonar. Mynd.
25.07.2014 Forseti er viðstaddur jarðarför Vilhjálms Hjálmarssonar, fyrrum menntamálaráðherra, sem fram fór frá kirkjunni í Mjóafirði. Að athöfn lokinni var erfidrykkja á Egilsstöðum.
26.07.2014 Forseti er viðstaddur opnun sýningar í Wathnehúsi á Fáskrúðsfirði um ferðir franska sjóliðsforingjans Kerguelens til Íslands á síðari hluta 18. aldar. Ferðir hans voru fyrstu skipulögðu könnunarleiðangrarnir á vegum franskra stjórnvalda til Íslands og átti Kerguelen meðal annars ítarlega fundi með Eggert Ólafssyni um náttúru landsins og landshagi.
26.07.2014 Forseti er viðstaddur vígslu trébryggjunnar sem byggð hefur verið við hinn endurreista Franska spítala á Fáskrúðsfirði.
26.07.2014 Forseti er viðstaddur og flytur ávarp við opnunarathöfn Franska spítalans á Fáskrúðsfirði en með henni lýkur endurgerð frönsku húsanna á staðnum sem verið hefur samvinnuverkefni Minjaverndar og Fjarðarbyggðar á undanförnum árum. Viðstaddir athöfnina voru fulltrúar vinabæja í Frakklandi og franska þingsins auk sendiherra Frakka á Íslandi. Í húsunum hefur verið komið fyrir mjög fróðlegu safni um frönsku sjómennina og veiðar þeirra við Ísland sem og um læknisþjónustu á fyrri tíð.
26.07.2014 Forseti er viðstaddur athöfn í Litlu kapellunni á Fáskrúðsfirði sem nýlega hefur verið endurgerð á vegum Minjaverndar. Kapellan var á sínum tíma reist til að þjóna frönskum sjómönnum og var hún blessuð bæði af prestum kaþólsku kirkjunnar og prestum lútersku kirkjunnar.
26.07.2014 Forseti er viðstaddur minningarathöfn um franska sjómenn sem haldinn var í grafreitnum á Fáskrúðsfirði. Þar hvíla franskir sjómenn sem létu lífið við Íslandsstrendur og var athöfnin tengd Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði.
27.07.2014 Forseti afhendir verðlaun í síðustu keppnisgreinum, bæði ungmenna og fullorðinna, á Íslandsmóti í hestaíþróttum sem fram fer á félagssvæði Fáks.
28.07.2014 Forseti tekur á móti hópi jarðfræðinema frá Ríkisháskólanum í Utah í Bandaríkjunum en þeir eru í námsferð á Íslandi. Rætt var um náttúru Íslands, eldfjöll, jökla og loftslagsbreytingar ásamt sögu íslensku landnemanna í Utah og tengsl þeirra við Ísland.
28.07.2014 Forseti á fund með forseta norska Stórþingsins sem heimsótt hefur Ísland undanfarna daga og tekið þátt í hátíðardagskrá í Reykholti og Sturluhátíð í Dölum. Rætt var um sameiginlega sögu Noregs og Íslands, uppbyggingu í Reykholti og þátttöku Norðmanna í henni sem og mikilvægi sagnaarfsins fyrir norrænar þjóðir. Þá var einnig rætt um ný verkefni í norrænni samvinnu, sem þróun Norðurslóða hefur í för með sér, og mikilvægi þess að efla styrk Norðurlanda á þeim vettvangi, einkum í ljósi vaxandi áhuga ríkja í Asíu og Evrópu á Norðurslóðum. Einnig var rætt um viðbrögð Norðmanna undanfarna daga vegna hugsanlegrar hryðjuverkaárásar og þær breytingar sem vöxtur hryðjuverkahópa gæti haft í för með sér. Myndir.

Ágúst

06.08.2014 Forseti á fund með sendiherra Noregs á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um aukna samvinnu norrænna þjóða, sérstaklega Íslands og Noregs, m.a. með tilliti til vaxandi mikilvægis Norðurslóða. Þá var einnig fjallað um sameiginlega sögu og menningararf og nýleg hátíðahöld í Reykholti og í Dölum.
06.08.2014 Forseti á fund með Ashish Saraf um samvinnu Indlands og Íslands, tækifæri í nýtingu jarðhita sem og samstarf á sviði jöklarannsókna, Norðurslóða og Himalajasvæðisins. Einnig var fjallað um nýja stöðu á Indlandi í kjölfar stjórnarskipta.
07.08.2014 Forseti ræðir við hóp umhverfissinna frá Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu um nýtingu hreinnar orku, loftslagsbreytingar, nýjar aðferðir við byggingu borga og híbýla sem og þróun Norðurslóða. Hópnum veitir forystu William McDonough arkitekt, höfundur Cradle-to-Cradle sýnarinnar í byggingarlist nútímans.
07.08.2014 Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, stjórnanda OrkaEnergy, og Fanglu Wang, fulltrúa Citic fjárfestingasjóðsins, um jarðhitavæðingu í Kína, bæði í þágu hitaveitna í borgum og til ræktunar í gróðurhúsum. Samvinna OrkaEnergy og Sinopec hefur opnað nýjar leiðir til að draga úr mengun og bæta fæðuframleiðslu með öflugri nýtingu jarðhita.
09.08.2014 Forseti heimsækir Háafell í Hvítársíðu og skoðar íslensku geiturnar sem þar hafa verið ræktaðar en landnámsgeitin er talin hafa borist hingað með landnámsmönnum frá Noregi og var fyrir nokkrum áratugum komin nánast í útrýmingarhættu.
10.08.2014 Forseti afhjúpar minnisvarða um Guðmund Ólafsson á Fitjum í Skorradal en hann var um miðja nítjándu öld meðal frumkvöðla í íslenskum landbúnaði, alþingismaður Borgfirðinga og samverkamaður Jóns Sigurðssonar. Að lokinni afhjúpun flutti forseti ávarp þar sem hann minntist frumherja íslenskrar endurreisnar og sjálfstæðisbaráttu, ítrekaði mikilvægi þess að efla skilning á árangursríkri vegferð þjóðarinnar til framfara og sjálfstæðis og minntist fólksins sem á sínum tíma hefði búið í Skorradal en þeim hefði hann kynnst í frásögnum föður síns sem ólst upp í Bakkakoti. Að lokinni athöfn var samkoma í skemmunni, tónlistarflutningur og erindi um Guðmund Ólafsson og opnun á söguvefnum framdalur.is sem tengdur er stofnun Framdalsfélagsins.
11.08.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Japans frú Mitsuko Shino, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Hún er fyrsti sendiherra Japans með búsetu á Íslandi. Forseti fagnaði þessum nýja áfanga í samstarfi þjóðanna sem styrkja myndi til muna tækifæri til aukinnar samvinnu á grundvelli þess góða árangurs sem þjóðirnar hefðu í áratugi náð á sviði gagnkvæmra viðskipta. Japan hefði verið mikilvægur markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir og auk innflutnings á bílum hefði vélakostur frá japönskum fyrirtækjum átt veigamikla hlutdeild í nýtingu jarðvarma á Íslandi. Þá var fjallað um mikilvægi Norðurslóða en Japan leggur ríka áherslu á þátttöku í samstarfi þjóða á því svæði og mun m.a. kynna sérstaklega áherslur sínar og framtíðarsýn í norðurslóðamálum á þingi Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í haust. Að fundinum loknum var móttaka fyrir fulltrúa fjölmargra aðila á sviði vísinda, menningar og viðskipta sem átt hafa samstarf við Japan. Mynd.
11.08.2014 Forseti á fund með sendinefnd frá Rússlandi sem skipuð er fulltrúum Lögfræðingafélags Rússlands og dómurum, sem og fulltrúum embætta saksóknara og annarra réttarfarsstofnana og laganefnda rússneska þingsins. Rætt var um þróun réttarríkisins á Vesturlöndum, þróun þrígreiningar ríkisvalds á Íslandi á 20. öld sem og skipan mannréttinda og grundvallarreglna um sjálfstæði dómstóla og lagaleg réttindi almennings. Þá var einnig rætt um fjölda dómstiga, mikilvægi sjálfstæðs dómsmálaráðuneytis og hlutverk stjórnarskrár í þróun lýðræðis, mannréttinda og réttarfars í ólíkum löndum. Sendinefndin heimsækir einnig innanríkisráðuneytið, Embætti ríkissaksóknara, Héraðsdóm Reykjavíkur og Alþingi og á fund með fulltrúum Lögfræðingafélags Íslands.
12.08.2014 Forseti á fund með Árna M. Mathiesen, aðstoðarframkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og yfirmanni málefna hafsins hjá stofnuninni, um þróun alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði, einkum með tilliti til opnunar nýrra hafsvæða á Norðurslóðum og nýtingar fiskistofna þar. Einnig var rætt hvernig reynsla Íslendinga í skipulagningu veiða og vinnslu og fullnýtingu afla gæti gagnast öðrum þjóðum.
12.08.2014 Forseti á fund með Magnúsi Jóhannessyni, framkvæmdastjóra Norðurskautsráðsins, um þróun samstarfs á Norðurslóðum, uppbyggingu aðalskrifstofu Norðurskautsráðsins og þátttöku aðildarríkja í vísindasamstarfi og vinnuhópum. Einnig var fjallað um hlutverk Arctic Circle í að efla samstarf og samræður til stuðnings ábyrgri stefnumótun á Norðurslóðum sem og tækifæri Íslands í þessum efnum.
13.08.2014 Forseti setur norræna ráðstefnu um steinsteypurannsóknir, sem haldin er í Hörpu, og standa m.a. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskólinn í Reykjavík að henni. Á ráðstefnunni koma saman þrír norrænir vettvangar á þessu sviði og er sérstök áhersla lögð á þróun umhverfisvænnar steinsteypu. Ávarp forseta.
14.08.2014 Forseti á fund með Vilhjálmi Egilssyni, rektor Háskólans á Bifröst, um samspil menntunar og dreifbýlisþróunar, vaxandi áhuga byggðarlaga á Norðurslóðum á samspili upplýsingatækni og menntunar í þágu atvinnulífs heimabyggðar sem og reynslu Háskólans á Bifröst á þessu sviði. Einnig var fjallað um hvernig Hringborð Norðurslóða getur nýst íslenskum háskólum og rannsóknarstofnunum.
14.08.2014 Forseti tekur á móti háskólanemendum frá Bandaríkjunum, Evrópu og Mið-Austurlöndum sem taka þátt í Græna verkefninu, The Green Program, en það er skipulagt af Háskólanum í Reykjavík og fleiri íslenskum aðilum. Nemendur kynna sér árangur af nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi og ræddi forseti ýmsa þætti hennar og framtíðarhorfur, m.a. með tilliti til virkjana, húshitunar, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu.
15.08.2014 Forseti á fund með Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor Listaháskóla Íslands um vaxandi áhuga á menningu, list, hönnun og lífsháttum íbúa Norðurslóða og hvernig hann getur tengst menntun og verkefnum nemenda Listaháskólans og alþjóðlegu samstarfi skólans. Virðing fyrir menningu frumbyggja hefur verið ríkur þáttur í samstarfi á Norðurslóðum og er það meðal verkefna Arctic Circle að styrkja hana um leið og lögð er vaxandi áhersla á aukið menningarsamstarf.
15.08.2014 Forseti á fund með Karli Þráinssyni forstjóra Íslenskra aðalverktaka um þá reynslu sem Íslendingar hafa aflað sér við framkvæmdir í ýmsum löndum Norðurslóða og hvernig hún getur orðið grundvöllur að þátttöku í alþjóðlegum verkefnum á komandi árum. Slík samvinna er meðal dagskrárefna Arctic Circle sem heldur þing sitt á Íslandi í haust.
19.08.2014 Flutt er ávarp forseta á myndbandi á hátíðarsamkomu Blindrafélagsins í tilefni af 75 ára afmæli þess. Ávarp.
26.08.2014 Forseti flytur ávarp í hátíðarsal Háskóla Íslands við upphaf alþjóðlegrar ráðstefnu um kolefni, International Carbon Conference. Ráðstefnuna sækir fjöldi vísindamanna víða að úr veröldinni og standa að henni fimm samtök, m.a. norræn samstarfssamtök á sviði kolefnisbindingar og CarbFix verkefnið sem lýtur forystu vísindamanna við Háskóla Íslands. Í ávarpinu rakti forseti þróun umræðunnar um loftslagsbreytingar á síðustu árum, aukna samstöðu innan vísindasamfélagsins og hvernig reynsla Íslendinga af nýtingu hreinnar orku og margvíslegum vísindaverkefnum gæti nýst í þessu sambandi. Rakti hann hvernig CarbFix verkefnið hefði fyrir átta árum sprottið upp úr samræðum íslenskra og bandarískra vísindamanna og ítrekaði hve mikilvægt væri að hið alþjóðlega vísindasamfélag gerði sig gildandi í umræðunni um loftslagsbreytingar.
27.08.2014 Forseti á fund með Elvari Eyvindssyni um möguleika á að nýta betur land til ræktunnar, m.a. í þágu útflutnings á heyi fyrir nautgripi og sauðfé.
27.08.2014 Forseti á fund með Sveini Kristinssyni formanni Rauða krossins og Hermanni Ottóssyni framkvæmdastjóra um verkefni Rauða krossins, landssöfnun sem fram fer í næsta mánuði og kynningu á margvíslegu framlagi Rauða kross Íslands til hjálparstarfs á Íslandi.
28.08.2014 Forseti á fund með hópi ungra fjárfesta frá Svíþjóð og íslenskum gestgjöfum þeirra um þróun íslensks atvinnulífs, nýsköpun og fjárfestingar sem og reynsluna af glímunni við efnahagserfiðleika undanfarinna ára. Mynd.
28.08.2014 Forseti á fund með Wally Broecker, prófessor við Columbia háskólann í Bandaríkjunum, um þróun rannsókna á loftslagsbreytingum en hann hefur um áraraðir stjórnað slíkum rannsóknum við háskólann og á alþjóðavettvangi.
29.08.2014 Forseti á fund með forsvarsmönnum Samtaka um framfærsluréttindi sem vilja leiðrétta margvíslega annmarka á bóta- og velferðarkerfinu. Fátækt fólk og láglaunafólk á víða á brattann að sækja í þessum efnum og mætir margvíslegum erfiðleikum þegar það reynir að leita réttar síns.
29.08.2014 Forseti flytur ávarp við upphaf kynningarráðstefnu Startup Reykjavík sem haldin er í húsakynnum Arion banka, en bankinn hefur ásamt Klak Innovit verið bakhjarl þróunar nýsköpunarverkefna. Í ávarpi fjallaði forseti m.a. um hvernig reynsla síðustu tuttugu ára sýndi að Ísland er frjór jarðvegur fyrir margvíslega nýsköpun sem getið hefur af sér fjölda traustra fyrirtækja.
30.08.2014 Forseti á fund með forsætisráðherra Grænlands Aleqa Hammond sem heimsækir Ísland í tilefni af fundum Vestnorræna þingmannasambandsins. Rætt var um þróun mála á Grænlandi, aukið samstarf við Ísland á ýmsum sviðum, bæði á vettvangi atvinnulífs, samgangna og heilbrigðisþjónustu. Einnig var rætt um samstarf á Norðurslóðum og hvernig Íslendingar og Grænlendingar bregðast við sívaxandi áhuga annarra ríkja, bæði í Evrópu og Asíu á svæðinu.

September

01.09.2014 Forseti efnir til kvöldverðar til heiðurs Vestnorræna ráðinu en það skipa þingmenn frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og heldur ráðið ársfund sinn á Íslandi næstu daga. Kvöldverðinn sátu einnig forsætisráðherrar landanna og þingforsetar. Myndir.
01.09.2014 Forseti á fund með lögmanni Færeyja, Kaj Leo Johannesen, um áhrif vaxandi mikilvægis Norðurslóða á stöðu Færeyja og Íslands og samvinnu landanna á komandi árum, m.a. með tilliti til fjölþættrar þátttöku frá Færeyjum í þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður á Íslandi í haust.
01.09.2014 Forseti á fund með fulltrúum Fylgið hvalnum verkefnisins sem byggir á að nýta tækni sem m.a. hefur verið þróuð af Stjörnu-Odda og sérfræðingum við Háskóla Íslands og gerir einstaklingum, börnum, nemendum og fjölskyldum kleift að fylgjast í snjallsímum og tölvum með ferðum hvala um úthöfin og fræðast um leið um margvíslega eiginleika hafanna.
01.09.2014 Forseti á fund með fulltrúum fyrirtækisins Íslenskt eldsneyti og sænskum samstarfsaðilum þeirra um nýtingu þörunga og lífrænna efna til framleiðslu á eldsneyti, m.a. með því að nota koltvísýring frá verksmiðjum, og stuðla þannig að umhverfisvænni umferð og orku.
02.09.2014 Forseti á fund með Reyni Adolfssyni um þróun verkefnis sem helgað er jaðarsvæðum Norðurslóða, Borderlands, en hann hefur um árabil unnið að eflingu samstarfs vestnorrænu landanna og frumbyggja á Norðurslóðum.
02.09.2014 Forseti á fund með fulltrúum verkefnahóps sem gert hafa ítarlega skýrslu um hagkvæmni hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur, rekstrargrundvöll, framkvæmdatíma, arðsemi og legu brautarteina, m.a. með tilliti til reynslu af slíkum hraðlestum við evrópska flugvelli.
02.09.2014 Forseti á fund með Katrínu Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, um útflutning á Lýsi, einkum til Kína, en fyrirtækið sinnir nú öflugum útflutningi til fjölmargra landa og hefur tvöfaldað framleiðslugetu sína á undanförnum árum. Í heimsókn sinni til Kína árið 2010 tók forseti þátt í málþingi um hollustu Lýsis og mikilvægi þess í lýðheilsu þjóða.
03.09.2014 Forseti á fund með sendiherra Frakklands á Íslandi Marc Bouteiller, sem senn lætur af störfum, um vaxandi samvinnu landanna, m.a. í kjölfar opinberrar heimsóknar forseta til Frakklands á síðasta ári. Rætt var um mikinn áhuga Frakklands á Norðurslóðum, uppbyggingu frönsku húsanna á Fáskrúðsfirði, vinabæjasamstarf ýmissa bæjarfélaga á Íslandi við bæjarfélög í Frakklandi sem og kynningu á sögu samskipta Íslands og Frakklands á fyrri öldum.
03.09.2014 Forseti á fund með Guðmundi Eiríkssyni sem nýlega lét af störfum sem sendiherra Íslands á Indlandi um vaxandi samstarf landanna, m.a. á sviði hreinnar orku og jöklarannsókna. Einnig var fjallað um breytingar á Indlandi í kjölfar nýliðinna kosninga og þróun landsins á komandi árum.
03.09.2014 Forseti sækir fund í Listaháskóla Íslands til að ræða við stjórnendur skólans og fulltrúa ýmissa sviða um þátttöku Listaháskólans í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, en þar verður m.a. lögð áhersla á menningu, hönnun, tísku og samspil manns, menningar og náttúru. Fjölmörg verkefni innan Listaháskólans tengjast þessari sýn á Norðurslóðir.
05.09.2014 Forseti á fund með prófessor Werner E.G. Müller frá Mainz háskólanum í Þýskalandi og Ragnari Jóhannssyni, fagstjóra hjá Matís, um rannsóknir á lífverum hafsins, einkum svömpum og erfðafræðieiginleikum þeirra, sem nýst geta til þess að endurnýja bein mannslíkamans. Verkefnið ber heitið BlueGenics.
05.09.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Noregs á Íslandi, Cesilie Landsverk, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um traustan grundvöll samstarfs landanna, sameiginlega sögu og menningu, uppbyggingu Snorrastofu sem og sameiginlega hagsmuni Íslands og Noregs á undanförnum áratugum. Þá var einnig rætt um hvernig aukið mikilvægi Norðurslóða hefur skapað Íslandi, Noregi og öðrum Norðurlöndum ný verkefni sem kalla á náið samráð og afgerandi forystu. Einnig gerði sendiherrann grein fyrir áherslum norskra stjórnvalda varðandi þróun Evrópu og samvinnu á Atlantshafi. Mynd.
05.09.2014 Forseti heimsækir höfuðstöðvar Rauða krossins og ræðir við skipuleggjendur og starfsfólk söfnunarinnar Göngum til góðs sem fram fer næstu daga en henni er ætlað að styrkja fjáröflun í þágu margvíslegra hjálparverkefna Rauða krossins á Íslandi. Síðan tók forseti þátt í fjársöfnun Rauða krossins í Smáralind.
05.09.2014 Forseti á fund í húsakynnum Háskólans í Reykjavík með fulltrúum fjölda íslenskra fyrirtækja sem taka þátt í mótun Hringborðs Norðurslóða, dagskrá og áherslum ásamt því að skipuleggja þátttöku starfsmanna sinna og annarra. Norðurslóðir fela í vaxandi mæli í sér fjölþætt tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf enda munu fulltrúar frá helstu forysturíkjum í efnahagslífi Evrópu og Asíu ásamt fulltrúum frá Norðurskautsríkjunum taka þátt í Hringborðinu.
05.09.2014 Forseti flytur ávarp og setur alþjóðlega ráðstefnu um stam sem haldin er í fundarsal Þjóðminjasafnsins en að henni standa samtök á Norðurlöndum og í nokkrum öðrum Evrópulöndum. Í ávarpinu rakti forseti reynslu sína af stami á yngri árum og lagði áherslu á að kynna fyrir ungu fólki, fjölskyldu og aðstandendum þann árangur sem náðst hefur í glímu við slíka fötlun.
06.09.2014 Forseti tekur á móti forsvarsmönnum og þátttakendum í átaki gegn matarsóun sem Kvenfélagasamband Íslands, Landvernd og Vakandi standa að. Fyrr um daginn var haldin fjölskylduhátíð í Hörpu til að opna almenningi nýja sýn á nýtingu matvæla. Í ávarpi þakkaði forseti samtökunum þetta þarfa framtak því brýnt væri að breyta lífsháttum í þessum efnum. Allar þjóðir heims þyrftu að nýta að fullu afurðir lands og sjávar; ella stefndi í óefni í framtíðinni með vaxandi fjölgun íbúa jarðar. Mikilvægt væri að Íslendingar tækju höndum saman á grundvelli framtaks þessara samtaka.
06.09.2014 Forseti heimsækir söfnunarstöð Rauða krossins á Selfossi þar sem unnið er að Göngum til góðs söfnuninni sem helguð er verkefnum Rauða krossins á Íslandi; ræðir við sjálfboðaliða og tekur síðan þátt í söfnun Rauða krossins í verslunarmiðstöðinni Kjarnanum á Selfossi.
07.09.2014 Forseti heimsækir Fjölskylduhjálpina og ræðir við stóran hóp sjálfboðaliða frá Bandaríkjunum sem hafa undanfarna daga endurbætt húsakynni Fjölskylduhjálparinnar. Um hundrað sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í þessu starfi nú. Forseti þakkaði þeim í ávarpi fyrir framlag þeirra og færði þeim þakkargjöf frá Fjölskylduhjálpinni. Aðstaða Fjölskylduhjálparinnar hefur batnað mjög og stækkað á undanförnum misserum og hefur framlag sjálfboðaliðanna gert hana enn betri.
08.09.2014

Forseti á fund með nýjum sendiherra Finnlands, Valtteri Hirvonen, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna, einkum vegna aukins mikilvægis Norðurslóða. Sérstök málstofa um þau efni var haldin í opinberri heimsókn forseta Finnlands til Íslands en forsetinn mun í haust flytja opnunarræðu á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle. Þá var einnig fjallað um samstarf á sviði atvinnulífs, norrænnar samvinnu sem og þátttöku Finnlands ásamt Svíþjóð í loftvarnaeftirliti við Ísland. Einnig var rætt um þróun mála í Úkraínu, framtíðarhorfur og tengsl við Rússland. Mynd.

08.09.2014 Forseti stjórnar fundi ríkisráðs á Bessastöðum þar sem staðfest eru lög og aðrar stjórnarathafnir.
09.09.2014 Forseti á fund með forystumönnum Landssambands hestamannafélaga um nauðsyn stefnumótunar varðandi framtíð íslenska hestsins, þróun hans, ræktun og nýtingu sem og hlutverk hans í ferðaþjónustu og í íslensku samfélagi. Einnig var fjallað um Heimsmót íslenska hestsins sem haldið verður í Danmörku á næsta ári og alþjóðlegt málþing um íslenska hestinn.
09.09.2014 Forseti setur Alþingi að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Ræða forseta. Ensk þýðing.
10.09.2014 Forseti á fund með forsvarsmönnum Arctic Services sem er samstarfsvettvangur fjölmargra fyrirtækja bæði á Akureyri og annars staðar á landinu sem áhuga hafa á þróun Norðurslóða, efnahagslífi og atvinnuþróun svæðisins. Rætt var um þátttöku Arctic Services í Hringborði Norðurslóða sem og aðkomu samtakanna að ýmsum málstofum.
10.09.2014 Forseti á fund með bæjarstjóranum á Akureyri, Eiríki Birni Björgvinssyni, og Sigríði Stefánsdóttur verkefnastjóra um stöðu Akureyrar í ljósi vaxandi áhuga á málefnum Norðurslóða, margvíslega starfsemi í bæjarfélaginu sem tengist þeim vettvangi sem og þátttöku í Hringborði Norðurslóða. Einnig var rætt um þing Northern Forum sem haldið verður á Akureyri í nóvember en það eru samtök borga og héraða á Norðurslóðum.
10.09.2014 Forseti á fund á Akureyri með rektor og stjórnendum Háskólans á Akureyri um þátttöku nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans í Hringborði Norðurslóða sem haldið verður á Íslandi í haust. Einnig var rætt um þátttöku skólans í þeim vettvangi á komandi árum.
11.09.2014 Forseti á fund með rektor og ýmsum stjórnendum Háskólans í Reykjavík um þátttöku skólans í Hringborði Norðurslóða, rannsóknarefni og áhugasvið, og aðild nemenda, kennara og annarra sérfræðinga að ýmsum málstofum Hringborðsins.
11.09.2014 Forseti setur norræna ráðstefnu búsetafélaga og samvinnubyggingarfélaga á Norðurlöndum sem haldin er í Reykjavík. Að henni standa aðildarfélög NBO samtakanna og er þar fjallað um framtíðarhorfur félagslega húsnæðiskerfisins. Í ávarpi rakti forseti sögu félagslegra íbúða á Norðurlöndum, frá verkamannabústöðum á fyrri hluta 20. aldar til búsetuíbúða við lok hennar. Þá reifaði hann nýjar áskoranir sem felast í kröfum ungrar kynslóðar sem byggir daglegt líf sitt og störf á upplýsingatækni og á kost á að flytja milli byggðarlaga og landa oft á sínum æviferli. Einnig myndu loftslagsbreytingar á komandi áratugum hafa afgerandi áhrif á borgir og byggðarlög og krefjast nýrra lausna í skipulagi. Áríðandi væri að slíkar áskoranir og vandamál væru rædd á opinn hátt og að svörin yrðu grundvöllur stefnumótunar á komandi áratug.
12.09.2014 Forseti sækir Karlsvöku, tónleika í Hörpu í minningu Karls Sighvatssonar.
12.09.2014 Forseti tekur á móti hópi íslenskra og erlendra þátttakenda sem sem situr fund á Íslandi um alþjóðlega samvinnu til að efla rannsóknir og þekkingu á mænuskaða. Auður Guðjónsdóttir hefur verið frumkvöðull þessa samstarfs og er nú stefnt að víðtækum norrænum tengslum og viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna varðandi hin nýju þúsaldarmarkmið samtakanna. Ýmsir erlendir vísindamenn tóku þátt í málþinginu auk forystumanna íslenskra heilbrigðisstofnana.
12.09.2014 Forseti á fund með forystumönnum SÁÁ um þátttöku í alþjóðlegu rannsóknarstarfi og fyrirhugað alþjóðlegt málþing sem halda á næsta sumar.
12.09.2014 Forseti á fund með forystumönnum ýmissa fræðasviða við Háskóla Íslands um þátttöku nemenda og kennara í Hringborði Norðurslóða en ýmsar málstofur þess eru skipulagðar af sérfræðingum við skólann. Auk þess mun fjöldi nemenda taka þátt í Hringborðinu, Arctic Circle.
19.09.2014 Forseti tekur þátt í málþingi um alþjóðamál og nýsköpun í vísindum og tækni sem bandaríski sjónvarpsmaðurinn og þáttastjórnandinn Charlie Rose efnir til í Aspen. Meðal þátttakenda eru fjölmargir forystumenn úr bandarískum stjórnmálum og viðskiptalífi, frumkvöðlar og vísindamenn, stjórnendur háskóla sem og forystumenn alþjóðlegra stofnana og fyrirtækja. Málþingið stendur í tvo daga.
20.09.2014 Forseti sendir á myndbandi afmæliskveðju til Ragnars Bjarnasonar sem flutt var á tónleikum sem haldnir voru í tilefni af 80 ára afmæli hans í Hörpu. Kveðja forseta.
21.09.2014 Forseti tekur þátt í umræðum um loftslagsbreytingar og efnahagsþróun á málþinginu The New York Forum sem haldið er í bókasafni borgarinnar, The New York Public Library. Meðal annarra þátttakenda í umræðunum er Henry Paulson, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna og einn af höfundum nýrrar skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á efnahagslíf í Bandaríkjunum.
22.09.2014

Forseti tekur þátt í Heimsþingi Clintons, fyrrum forseta Bandaríkjanna, Clinton Global Initiative, sem haldið er í New York. Á þinginu mun forseti vera meðal frummælenda í sérstökum málstofum um nýtingu hreinnar orku í þágu sjálfbærni og efnahagsþróunar og um hvernig áföll og kreppur geta leitt til nýsköpunar og framfara.

Í gær, sunnudaginn 21. september, tók forseti þátt í umræðum um loftslagsbreytingar og efnahagsþróun á málþinginu The New York Forum sem haldið var í bókasafni borgarinnar, The New York Public Library. Meðal annarra þátttakenda í umræðunum var Henry Paulson, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna og einn af höfundum nýrrar skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á efnahagslíf í Bandaríkjunum.

Í lok síðustu viku tóku forsetahjónin þátt í málþingi sem bandaríski sjónvarpsmaðurinn og þáttastjórnandinn Charlie Rose efndi til í Aspen. Meðal þátttakenda í málþinginu voru fjölmargir forystumenn úr bandarískum stjórnmálum og viðskiptalífi, frumkvöðlar og vísindamenn, stjórnendur háskóla sem og forystumenn alþjóðlegra stofnana og fyrirtækja.

Forseti mun í New York einnig eiga fundi um þróun Norðurslóða, framlag Íslendinga til nýtingar hreinnar orku í öðrum heimshlutum sem og þátttöku ýmissa bandarískra aðila í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í lok næsta mánaðar. Myndir.

23.09.2014 Forseti sækir móttöku á vegum Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins sem haldin er í New York í aðdraganda fundar ráðsins í borginni.
23.09.2014 Forseti ræðir við kanadísku sjónvarpsstöðina Kitko um reynslu Íslendinga af glímunni við fjármálakreppuna sem og baráttuna fyrir lýðræði og mannréttindum víða í veröldinni.
23.09.2014 Forseti á fund með forsætisráðherra Eþíópíu, Hailemariam Desalegn, um framlag Íslendinga til nýtingar jarðhita í landinu en Reykjavík Geothermal vinnur nú að upphafi framkvæmda við 1.000 MW orkuver þar í landi sem yrði hið stærsta sinnar tegundar í Afríku. Forseti Eþíópíu lýsti eindregnum stuðningi við þetta verkefni og aðra þætti í samvinnu við Ísland, m.a. varðandi landgræðslu og baráttu gegn eyðimörkum. Loks var rætt um opinbera heimsókn forseta Íslands, sem ráðgerð er á næsta ári, en boð um slíka heimsókn barst fyrir nokkrum mánuðum. Áformað er að efna til málþinga með fulltrúum frá ýmsum löndum í Afríku um jarðhita og landgræðsla í tengslum við heimsóknina.
23.09.2014 Forseti á fund með forseta Tansaníu, Jakaya Kikwete, um nýtingu jarðhita í Austur Afríku, hvernig tækniþekking og reynsla Íslendinga gæti nýst Tansaníu til að byggja upp jarðvarmaver. Einnig var fjallað um framlag Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna til að efla þekkingu í löndum Afríku og Asíu. Forseti Tansaníu lýsti ennfremur áhuga á að heimsækja Ísland, t.d. í fyrirhugaðri ferð sinni til Norðurlanda á næsta ári.
24.09.2014 Forseti ræðir við BigThink vefstöðina í New York sem sjónvarpar viðtölum og þáttum um alþjóðamál og bandarískt samfélag. Rætt var um reynsluna af glímu þjóða við fjármálakreppur, samspil lýðræðis og markaða, baráttuna gegn loftslagsbreytingum, þróun Norðurslóða og hlutverk Bandaríkjanna á þeim vettvangi.
24.09.2014 Forseti ræðir við þáttagerðarmenn bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar PBS sem um árabil hafa annast sérstaka þætti um þróun alþjóðamála þar sem leitast er við að varpa nýju ljósi á ýmis alþjóðleg vandamál. Rætt var um þróun samstarfs á Norðurslóðum, árangur Norðurskautsráðsins, tækifærin sem felast í Hringborði Norðurslóða og þátttöku ríkja í Asíu og Evrópu í því samstarfi. Einnig var fjallað um framlag Íslendinga til nýtingar jarðhita í Asíu og Afríku sem og áhuga margra á að efla Ísland sem bækistöð fyrir varðveislu gagna, m.a. í ljósi hagkvæmni þess að reka gagnaver á Íslandi og í krafti þess lýðræðis og opinnar umræðu sem einkennt hefur landið.
24.09.2014 Forseti á fund með Carter Roberts, stjórnanda alþjóðlegu umhverfisverndarsamtakanna WWF, um þátttöku þeirra í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, í þágu víðtæks samstarfs um verndun náttúru og umhverfis Norðurslóða. Einnig var fjallað um þátttöku WWF í samstarfsvettvangi um bráðnun jökla og vatnsbúskap á Himalajasvæðinu en hann er byggður á árangri málþinga sem haldin hafa verið á Íslandi og á Indlandi á undanförnum árum. Ákveðið hefur verið að næsti áfangi þess samstarfs verði ráðstefna í Bútan í byrjun næsta árs í boði þarlendra stjórnvalda.
24.09.2014 Forseti á fund með forstjóra og stjórnarformanni Reykjavík Geothermal um jarðhitavirkjun í Eþíópíu og samstarf við önnur ríki í Austur Afríku um nýtingu jarðhita í þágu efnahagslegra framfara. Einnig var fjallað um verkefni í rómönsku Ameríku, einkum í Mexíkó, en jarðhitasamstarf við Ísland var eitt af helstu efnisatriðum í opinberri heimsókn forseta til Mexíkó árið 2008. Í væntanlegri opinberri heimsókn forseta til Eþíópíu er áformað að efna til sérstakrar ráðstefnu um víðtækt jarðhitasamstarf í Austur Afríku.
25.09.2014 Forseti á fund með Kuupik Kleist, fyrsta forsætisráðherra Grænlands eftir að landið fékk sjálfstjórn sinna mála. Rætt var um stöðu mála á Grænlandi, nýtingu auðlinda sem og fyrirhugaðan fund Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, á Grænlandi á næsta ári en Kuupik Kleist er meðal stofnenda Arctic Circle.
25.09.2014 Forseti flytur ávarp á kynningarfundi, sem samstarfsvettvangurinn Meet in Reykjavík efndi til í Hörpu, þar sem fjallað var um tækifæri einstaklinga sem starfa í margvíslegum alþjóðlegum og norrænum samtökum sem og á vettvangi viðskipta og menningar til að kynna þá einstöku aðstöðu sem skapast hefur á Íslandi til að halda ráðstefnur og alþjóðleg þing og viðburði. Rakti forseti í ávarpi sínu ýmis dæmi sem sýna að þáttaskil hafa orðið í þessum efnum.
25.09.2014 Forseti á fund með fulltrúum National Geographic, eins elsta og virtasta tímarits um náttúru og umhverfi á Vesturlöndum, sem jafnframt rekur sjónvarpsstöð og áhrifaríkan vefmiðil. Rætt var um aukinn áhuga á náttúru Íslands, ferðir um Norðurslóðir og hvernig hægt er að skipuleggja heimsóknir þar sem ferðamenn kynnast í senn náttúru Íslands og Grænlands.
25.09.2014 Forseti er viðstaddur opnun Íslensku sjávarútvegssýningarinnar og skoðar kynningarstöðvar ýmissa íslenskra og erlendra fyrirtækja, bæði í nýtingu sjávarafla, framleiðslu veiðarfæra, hátækni og öðrum greinum nútíma sjávarútvegs.
26.09.2014 Forseti ræðir við ritnefnd blaðs Framtíðarinnar, málfundafélags Menntaskólans í Reykjavík, og forseta félagsins um námsár sín í skólanum, blæ félagslífs og skólahalds, verkefni Framtíðarinnar og þá vináttu og samheldni sem skapaðist á skólaárum. Jafnframt áréttaði forseti að mikilvægt væri að sú kynslóð sem nú væri í skólanum varðveitti rætur sínar á Íslandi un leið og hún gæti haft allan heiminn að athafnasvæði. Viðtalið mun birtast í blaði Framtíðarinnar.
27.09.2014 Forseti flytur ávarp á samkomu sem haldin er í tilefni þess að 130 ár eru liðin frá stofnun Góðtemplarareglunnar IOGT á Íslandi. Forseti rakti fjölþætt áhrif hreyfingarinnar á íslenskt samfélag. Hún hefði fyrstu áratugina verið í reynd félagsmálaskóli sem þjálfað hefði forystufólk sem síðar gerði sig gildandi á vettvangi verkalýðshreyfingar og stjórnmála. Einnig lýsti forseti þeim jákvæðu breytingum sem orðið hefðu á síðari árum í viðhorfum til neyslu áfengis á opinberum vettvangi og viðhorfsbreytingum meðal æskufólks í grunnskólum; nefndi hann í því sambandi árangur Forvarnardagsins.
27.09.2014 Forseti flytur ávarp á stofnfundi nýrra samtaka um tækifærin sem felast í bókabæjunum austan fjalls en fundurinn var haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Að samtökunum standa bókasöfn, sveitarfélög og fleiri og er þeim ætlað að nýta erlenda reynslu af bókabæjum til að efla ferðaþjónustu og auðga mannlíf á svæðinu. Í ávarpi rakti forseti hvernig Íslendingar hefðu á undanförnum áratugum skapað fjölþætta starfsemi á sviði ferðaþjónustu og menningar á grundvelli bókmennta og rithöfunda sem tengdust ákveðnum héruðum eða bæjum. Ánægjulegt væri einnig hvernig skólabókasöfn og bæjarbókasöfn hefðu eflst á undanförnum árum og yrði forvitnilegt að fylgjast með hvernig þessi nýjung um bókabæi austan fjalls gæti orðið öðrum byggðarlögum fordæmi að nýsköpun.
27.09.2014 Forseti flytur ávarp í upphafi Kristsdags, sem haldinn er í Hörpu en að honum standa allir kristnir söfnuðir í landinu. Í ávarpi áréttaði forseti þátt kristninnar í sögu, menningu og siðferðisvitund íslensks samfélags. Forseti lýsti áhrifum kristninnar á fyrri öldum og mikilvægi hennar á okkar tímum; umburðarlyndi og friðsæld í íslensku samfélagi ætti sér djúpar rætur í kristnum boðskap.
29.09.2014 Forseti tekur á móti hópi grænlenskra barna frá sex byggðarlögum á austurströnd Grænlands sem stundað hafa sundnám á Íslandi. Slíkir hópar hafa komið árlega til Íslands að undanförnu þar eð ekki er aðstaða til sundkennslu í þessum byggðarlögum. Hópnum fylgdu kennarar og aðrir fulltrúar hinna grænlensku byggða ásamt gestgjöfum þeirra á Íslandi.
29.09.2014 Forseti ræðir við bandaríska útvarpsmanninn Peter Greenberg en þáttum hans er útvarpað um Bandaríkin og fjölda landa og beinast þeir einkum að áhugasviðum ferðamanna, náttúru, menningu og þjóðlífi. Rætt var um fjölgun ferðamanna á Íslandi, sérkenni íslenskrar náttúru og þá kynningu sem landið hefur öðlast á undanförnum árum.
29.09.2014 Forseti flytur ávarp á kynningarfundi Forvarnardagsins en fundurinn er haldinn í Ölduselsskóla. Í ávarpinu áréttaði forseti þann árangur sem náðst hefur í forvarnarstarfi meðal nemenda í grunnskólum og hvatti til þess að hliðstæður árangur setti svip á framhaldsskólana á komandi árum. Að Forvarnardeginum standa fjölmargir aðilar, m.a. íþrótta- og æskulýðssamtök í landinu, og verður hann haldinn í grunnskólum og framhaldsskólum miðvikudaginn 1. október. Myndir.
30.09.2014 Forseti á fund með Daniel Levin, sérstökum fulltrúa Hans-Adams II, fursta af Liechtenstein, um framlag smærri ríkja í Evrópu til að þróa friðsamlega sambúð og stuðla að umræðum og nýjungum í alþjóðlegu samstarfi.
30.09.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kína, Zhang Weidong, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi samvinnu landanna, samning um fríverslun sem tók gildi á þessu ári, aukna nýtingu jarðhita í þágu hitaveitna í Kína sem og rannsóknir á þróun íss og jökla á Norðurslóðum. Heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands, t.d. heimsókn Wen Jiabao forsætisráðherra árið 2012 og heimsóknir forseta Íslands og ráðherra til Kína, hafa eflt þessi tengsl á undanförnum árum. Áhersla hins nýja forseta Kína, Xi Jingping, á vináttu og samstarf við Ísland skipti einnig miklu máli. Einnig var fjallað um sölu á matvælum til Kína sem og samvinnu á sviði lista og menningar. Mynd.

Október

01.10.2014 Forseti tekur á móti innlendum og erlendum þátttakendum í RIFF kvikmyndahátíðinni og afhendir Mike Leigh sérstök heiðursverðlaun hátíðarinnar. Athöfnin fór fram á Bessastöðum og ræddi forseti í ávarpi um þróun íslenskrar kvikmyndagerðar á undanförnum árum og mikilvægi samstarfs við kvikmyndagerðarfólk í öðrum löndum.
01.10.2014 Forseti heimsækir Menntaskólann við Sund á Forvarnardeginum og flytur ávarp á samkomu nemenda um þann árangur sem náðst hefur við að minnka áfengisneyslu og fíkniefnaneyslu í grunnskólum. Mikilvægt sé að sá árangur haldist þegar nemendur færast í framhaldsskóla og rakti forseti niðurstöður rannsókna á þessum vettvangi. Síðan fylgdist forseti með undirbúningi nemenda undir þátttöku í umræðuhópum. Tillögum nemenda í öllum framhaldsskólum verður síðan safnað saman í greinargerð. Myndir.
01.10.2014 Forseti heimsækir Vogaskóla á Forvarnardeginum og ræðir við nemendur um þann árangur sem náðst hefur meðal grunnskólanemenda á undanförnum árum. Að lokinni athöfn og samræðum á sal skólans fylgdist forseti með þátttöku nemenda í níunda bekk en umræðuhópar í sérhverjum grunnskóla munu skila tillögum um aðbúnað og breytingar í þágu heilbrigðara lífs nemenda. Forvarnardagurinn er haldinn í grunnskólum í öllum landshlutum. Þá ræddi forseti við kennara skólans á kennarastofu. Myndir.
02.10.2014 Forseti tekur á móti hópi kvikmyndaframleiðenda sem aðild eiga að alþjóðasamtökunum IQ en þau koma saman á Íslandi. Forseti ræddi um þróun kvikmyndagerðar á Íslandi og hvernig Ísland hefur orðið vettvangur fyrir töku margvíslegra erlendra mynda. Saga Film annaðist skipulagningu þingsins á Íslandi.
02.10.2014 Forseti á fund með forstjóra Rio Tinto Alcan, Alfredo Barrios, og Rannveigu Rist, forstjóra Ísals, um þróun áliðnaðar, bæði á Íslandi og annars staðar, tæknilega endurnýjung í Straumsvík og rekstur fyrirtækisins.
02.10.2014 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu í tilefni af 50 ára afmæli Háskólans í Reykjavík. Ávarp forseta.
03.10.2014 Forseti tekur á móti ræðismönnum Íslands frá fjölmörgum löndum sem setið hafa ræðismannaráðstefnu sem haldin hefur verið undanfarið. Ræðismennirnir komu til Bessastaða í hópum sem tengdir voru einstökum löndum eða heimshlutum og fór móttakan fram um eftirmiðdaginn og fyrri hluta kvölds.
04.10.2014 Forseti afhendir forsetamerki skáta við hátíðlega athöfn í Bessastaðakirkju og tekur svo á móti skátum og fjölskyldum merkishafa í Bessastaðastofu. Forsetamerki er veitt fyrir framúrskarandi árangur í þjálfun og starfi innan skátahreyfingarinnar.
05.10.2014 Forseti á fund með Robbie Schingler og Andrew Zolli, stjórnendum Planet Labs, fyrirtæki sem vinnur að því að setja á loft mikinn fjölda lítilla gervihnatta sem mynda munu sérhvern stað á landi á jörðinni einu sinni á sólarhring og veita almenningi aðgang að slíkum myndum. Þetta nýja net gervihnatta og áhrif þess á umræður og aðgang að upplýsingum verður kynnt á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í lok mánaðarins.
07.10.2014 Forseti á fund með Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðingi um rannsóknir á stjórnskipun Íslands, stöðu og samspili þings og forseta.
08.10.2014 Bandaríska vefþjónustan BigThink birtir fyrsta hluta viðtals við forseta sem tekið var í New York. Þessi hluti viðtalsins fjallar um Norðurslóðir. Viðtalið á vef BigThink.
08.10.2014 Forseti á fund með Rögnu Árnadóttur, formanni Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, en Samráðsvettvangurinn skilaði á sínum tíma ítarlegum hugmyndum og tillögum.
10.10.2014 Forseti tekur á móti innlendum og erlendum þátttakendum í barnabókmenntahátíð og áréttar í ávarpi mikilvægi þess að efla lestur meðal ungs fólks og hlutdeild barnabókmennta í uppeldi og menningu.
10.10.2014 Forseti tekur þátt í göngu, sem farin er frá Hallgrímskirkju í Bíó Paradís í tilefni af Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum, en að göngunni standa ýmis samtök um geðvernd. Í kjölfarið á göngunni fer fram samkoma þar sem veitt eru verðlaun og viðurkenningar fyrir margvíslegt framlag á þessum vettvangi.
10.10.2014 Forseti flytur ræðu við upphaf umdæmisþings Rótarý, sem haldið er í Garðabæ, og rakti hvernig hreyfingin hefði með starfsemi klúbbanna vítt og breitt um landið stuðlað að samstöðu og sameiginlegum verkefnum; nefndi dæmi frá Ísafirði og Seltjarnarnesi. Á fyrri hluta 20. aldar hefðu verið djúpstæð átök í íslensku samfélagi en Rótarýhreyfingin hefði ásamt öðrum slíkum hreyfingum átt ríka hlutdeild í að byggja brýr og auka gagnkvæman skilning í samfélaginu.
13.10.2014 Landsleikur: Ísland-Holland
14.10.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Frakklands, Philippe O'Quin, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um fjölþætt tengsl landanna, árangur af opinberri heimsókn forseta til Frakklands í fyrra, uppbyggingu frönsku húsanna á Fáskrúðsfirði, áhuga á nýtingu jarðhita í Frakklandi sem og þátttöku Frakklands í umræðu og samstarfi á Norðurslóðum. Einnig var fjallað um margvísleg tengsl landanna á sviði menningar og lista sem og söguleg tengsl við Vestfirði. Mynd.
14.10.2014 Forseti á fund með Mansoor Ahmad Malik, sem leiðir sérstakan söfnuð sem hafið hefur starfsemi á Íslandi. Rætt var um boðskap hans og tengsl við aðra hópa og hreyfingar innan Íslam, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.
14.10.2014 Forseti sækir athöfn á Barnaspítalanum þar sem Lionshreyfingin afhendir Landspítalanum tvö tæki að gjöf og ýtt er úr vör alþjóðlegum sjónvarnardegi Lionshreyfingarinnar. Hreyfingin hefur í áratugi stutt baráttu gegn blindu og stuðlað að augnlækningum víða um veröld. Í ávarpi þakkaði forseti Lionshreyfingunni fyrir margvíslegt framlag hennar til íslensks samfélags og fyrir að vera öflugur fulltrúi Íslands á alþjóðlegum vettvangi hreyfingarinnar.
15.10.2014 Forseti er viðstaddur setningarathöfn Evrópumeistaramóts í hópfimleikum, flytur ávarp og fylgist með fyrstu keppnisþáttum á mótinu. Mótið er skipulagt af Fimleikasambandi Íslands (heimasíða sambandsins). Forseti þakkaði Fimleikasambandinu fyrir frábær störf í undirbúningi mótsins og óskaði þátttakendum til hamingju með þann árangur sem þjálfun og agi á undanförnum árum hefði skilað. Fimleikafólk frá 14 Evrópulöndum tekur þátt í mótinu.
15.10.2014 Forseti afhendir Lagnaverðlaunin sem veitt eru af Lagnafélagi Íslands verkfræðistofum og byggingaraðilum sem skilað hafa sérstaklega vönduðu lagnaverki í byggingum. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Lýsis og framkvæmdaaðila við nýbyggingu fyrirtækisins.
15.10.2014 Forseti á fund með alþjóðaforseta Lions Joe Preston og forystusveit Lionshreyfingarinnar á Íslandi en forsetinn kom til Íslands í tilefni
af sjónverndardeginum sem haldinn var hátíðlegur í gær. Rætt var um starf Lionshreyfingarinnar á Íslandi og framlag hennar til íslensks samfélags, bæði á landsvísu og í einstökum byggðarlögum.
15.10.2014 Forseti á fund með skipuleggjendum Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle um undirbúning alþjóðaþingsins sem haldið verður í Hörpu í lok október. Þingið munu sækja rúmlega 900 fulltrúar frá 34 löndum en í gær var gefin út fréttatilkynning Arctic Circle um þingið. Fréttatilkynning frá Arctic Circle.
16.10.2014 Forseti tekur á móti stjórnendum og starfsfólki Listasafns Íslands, myndlistarfólki og öðrum velunnurum safnsins og forystufólki á sviði íslenskrar myndlistar. Móttakan er haldin í tilefni af 130 ára afmæli listasafnsins.
16.10.2014 Forseti er viðstaddur opnun Vasulka-stofu í Listasafni Íslands en hún er helguð verkum og lífsstarfi Steinu og Woody Vasulka. Stofan er liður í áformum safnsins um frekari varðveislu og skráningu raf- og stafrænnar myndlistar.
16.10.2014 Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, stjórnanda OrkaEnergy, sem hefur í samstarfi við kínverska fyrirtækið Sinopec unnið að uppbyggingu á annað hundrað hitaveitna í Kína. Fjallað var um áhuga kínverskra stjórnvalda á víðtækari samvinnu við Ísland á sviði jarðhita, m.a. í ylrækt og á fleiri sviðum. Þá getur nýting jarðhita í landinu einnig orðið grundvöllur að uppbyggingu gagnavera.
19.10.2014 Forseti stýrir undirbúningsfundi sem haldinn er í Abu Dhabi vegna dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize. Starfslið verðlaunanna fór yfir hið ítarlega matsferli sem skilar lokatilnefningum til verðlaunanna. 1114 tilnefningar bárust frá ríflega hundrað löndum.
19.10.2014 Forseti er viðstaddur vígslu nýs umhverfisverkefnis í Sheikh Khalifa Banglesi Islamia skólanum í Abu Dhabi. Skólinn er barna- og unglingaskóli sem á síðasta ári hlaut Zayed orkuverðlaunin, Zayed Future Energy Prize, en forseti er formaður dómnefndar verðlaunanna. Verkefnið er vindturn og felst í því að beita nýrri tækni við loftkælingu sem ekki krefst neinnar orku. Skólinn hefur á umliðnum árum innleitt margar nýjungar á sviði umhverfis- og orkumála. Forseti flutti ávarp við þetta tækifæri og hrósaði kennurum og nemendum skólans fyrir forystu á sviði orkusparnaðar, aukinnar endurnýtingar og nú síðast með því beita nýjum búnaði við loftkælingu. Myndir.
20.10.2014 Forseti ræðir við ýmsa fjölmiðla að loknum blaðamannafundi um Zayed orkuverðlaunin og svarar spurningum um störf dómnefndar, eðli verðlaunanna og árangur Íslendinga á vettvangi hreinnar orku.
20.10.2014 Forseti situr fyrir svörum ásamt öðrum dómnefndarmönnum á blaðamannafundi sem haldinn er í Abu Dhabi að loknum störfum dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna. Tilkynnt verður um verðlaunahafa á hátíðarsamkomu sem haldin verður í upphafi Heimsráðstefnu um hreina orku, World Future Energy Summit, í janúar á næsta ári í Abu Dhabi.
20.10.2014 Forseti stýrir fundi dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize, sem haldinn er í Abu Dhabi. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum: fyrir ævistarf; fyrir forystu fyrirtækis á alþjóðavísu; til almannasamtaka; til smárra fyrirtækja; og loks til framhaldsskóla í öllum heimsálfum. Þau eru veitt fyrir nýsköpun og forystu um nýtingu hreinnar orku og er verðlaunaféð samtals fjórar milljónir Bandaríkjadala. Nánari upplýsingar um verðlaunin, skipan dómnefndar og verðlaunahafa má nálgast á heimasíðu þeirra.
22.10.2014 Forseti situr fyrir svörum á hádegisverðarfundi sem haldinn er á vegum Lundúnadeildar Young Presidents Organisation en það eru alþjóðleg samtök stjórnenda fyrirtækja á ýmsum sviðum efnahagslífs. Rætt var um þróun Norðurslóða, nýtingu auðlinda og nýjar siglingaleiðir, breytta stöðu Íslands, þróun hreinnar orku sem og lærdómana af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna. Vefur samtakanna.
27.10.2014 Forseti tekur þátt í fundum til undirbúnings Arctic Circle - Hringborði Norðurslóða en alþjóðaþing þess hefst í Reykjavík í lok vikunnar.
28.10.2014 Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnu sem Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands stendur fyrir. Ráðstefnan ber heitið "The Trans-Arctic Agenda: Challenges of Sustainability, Co-operation and Governance". Sækja hana vísindamenn og fulltrúar stjórnvalda, félagssamtaka og atvinnulífs, einkum frá ríkjum á Norðurslóðum. Í setningarræðunni rakti forseti þær breytingar sem orðið hafa á stöðu Norðurslóða á undanförnum áratugum og hve mikilvægt væri að vel tækist til með þróun þeirrar alþjóðlegu samvinnu sem þar fer nú fram, einkum eftir að meirihluti forysturíkja í efnahagslífi veraldar tekur nú þátt í stefnumótun á Norðurslóðum. Einnig áréttaði forseti réttindi og hagsmuni frumbyggja og nauðsyn þess að umræðan yrði lýðræðisleg og opin öllum.
29.10.2014 Forseti á fund með Alice Rogoff, útgefanda Alaska Dispatch, sem ásamt forseta var einn af stofnendum Arctic Circle, Hringborðs Norðurslóða. Rætt var um alþjóðaþing Hringborðsins sem haldið verður um helgina og framhald starfsins á næsta ári.
29.10.2014 Forseti á fund með Tony Repa, Árna Gunnarssyni og Herbert Pedersen um þróun íslensks atvinnulífs á undanförnum árum, grósku og tækifæri á fjölmörgum sviðum og hvernig margvísleg fyrirtæki hafa eflst þrátt fyrir erfiðleika í kjölfar fjármálakreppunnar. Einkum var fjallað um ferðaþjónustu, upplýsingatækni og nýtingu jarðvarma.
29.10.2014 Forseti á fund með bandarískum og íslenskum fulltrúum hóps sem vinnur að undirbúningi tillagna um að koma upp á Íslandi miðstöð björgunar og leitar á Norður-Atlantshafi og því svæði Norðurslóða sem er að þessu leyti á ábyrgð Íslands en miðstöðin gæti líka annast þjálfun flugmanna og annarra sem sinna björgunar- og leitarstarfi.
30.10.2014 Forseti flytur ávarp í móttöku Arctic Circle sem haldin er í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Móttakan er haldin fyrir þátttakendur í alþjóðaþingi Arctic Circle en setningarathöfn þess verður að morgni næsta dags. Í ávarpinu lagði forseti áherslu á mikilvægi mannlegra samskipta, vináttu og gagnkvæms trausts sem jafnan hefði sett svip sinn á mannlíf og menningu Norðurslóða. Sú arfleifð væri mikilvæg forsenda þess að hin vaxandi alþjóðlega þátttaka í þróun Norðurslóða skilaði jákvæðum árangri.
30.10.2014 Forseti á fund með Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmanni í Bandaríkjunum, og sendinefnd hennar um Arctic Circle - Hringborð Norðurslóða en hún situr í heiðursráði þess og var meðal hvatamanna að stofnun Hringborðsins á sínum tíma. Fjallað var um þann árangur sem Arctic Circle hefur náð, hina víðtæku alþjóðlegu þátttöku í þingum þess og hvernig þessi vettvangur getur nýst til að skýra áherslur Bandaríkjanna í væntanlegri formennsku þeirra í Norðurskautsráðinu. Murkowski þakkaði Íslendingum sérstaklega fyrir framgöngu þeirra í eflingu þessa nýja vettvangs umræðu og stefnumótunar í málefnum Norðurslóða. Mynd.
30.10.2014 Forseti á fund með Patrick Van Klaveren, sendimanni Mónakófursta Alberts II, á alþjóðaþingi Arctic Circle - Hringborðs Norðurslóða, en Albert fursti situr í heiðursráði Hringborðsins og hefur stutt stofnun þess frá upphafi. Rætt var um áhuga furstans á málefnum Norðurslóða og þátttöku hans í baráttunni gegn loftslagsbreytingum sem og framlag Mónakóstofnunarinnar til margvíslegrar starfsemi á þessum vettvangi. Mynd.
30.10.2014 Forseti á fund með sendinefnd frá Singapúr sem sækir Arctic Circle - Hringborð Norðurslóða, en hana skipa háttsettir fulltrúar utanríkisráðuneytis landsins. Rætt var um aukinn áhuga Singapúrs á málefnum Norðurslóða, m.a. vegna hættunnar á hækkun sjávarborðs í kjölfar loftslagsbreytinga. Þá bjóða stjórnvöld í Singapúr Arctic Circle að halda ráðstefnu í Singapúr á næsta ári í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu um málefni heimshafanna. Mynd.
30.10.2014 Forseti á fund með nýjum sendiherra Singapúrs á Íslandi, frú Chih Hsia Foo, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukið samstarf ríkjanna, þátttöku Singapúrs í Hringborði Norðurslóða og fyrirhugaða ráðstefnu um Norðurslóðir í Singapúr. Mynd
30.10.2014 Forseti flytur ávarp í upphafi málstofu sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík í tilefni af samstarfi skólans við m.a. Harvard háskóla og Tufts háskólann í Bandaríkjunum um nýjungar í nýtingu hreinnar orku. Á fundinum ýtti forseti úr vör samstarfsneti þessara aðila, Future Arctic Energy Network. Málstofan er haldin í tengslum við Arctic Circle og í ávarpi sínu áréttaði forseti mikilvægi hreinnar orku fyrir framtíð Norðurslóða og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Að því loknu fluttu kennarar og doktorsnemar frá Harvard og Tuft háskólunum erindi um rannsóknir sínar.
30.10.2014 Forseti tekur á móti hópi frá Námsflokkum Reykjavíkur sem sótt hefur sérstakt námskeið til að undirbúa fólk undir þátttöku í atvinnulífinu á nýjan leik. Rætt var um sögu Bessastaða og skoðaðar minjar um fyrri tíð, fornleifar og ýmsa gripi sem borist hafa á lýðveldistímanum.
31.10.2014 Forseti á fund með sendinefnd Bretlands á Arctic Circle en hún er skipuð þingmönnum úr báðum deildum breska þingsins, vísindamönnum og forystumönnum fyrirtækja. Sendinefndin kynnti ítarlega framlag Bretlands og áherslur í málefnum Norðurslóða á sérstökum fundi Arctic Circle og þakkaði forseti sendinefndinni fyrir hve vel hefði verið staðið að þeirri kynningu. Rætt var um áframhaldandi þátttöku breskra fulltrúa í fundum Arctic Circle á komandi árum. Mynd.
31.10.2014 Forseti á fund með Vincent Rigby, aðalfulltrúa Kanada í Norðurskautsráðinu en Kanada gegnir formennsku í ráðinu um þessar mundir. Rætt var um mikilvægi þess að nýta Arctic Circle sem vettvang fyrir kynningu á áherslum og stefnumótun einstakra ríkja og þátttöku Kanada í alþjóðaþingum Arctic Circle bæði nú og á stofnþinginu í fyrra sem og möguleika til frekari þátttöku á komandi árum. Mynd.
31.10.2014 Forseti á fund með fulltrúum bandaríska utanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneytisins sem sitja alþjóðaþing Arctic Circle. Robert J. Papp aðmíráll, sérstakur sendimaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða, var oddviti hópsins en fundinn sat einnig Fran Ulmer, formaður Vísindaráðs Bandaríkjanna í Norðurslóðarannsóknum, en hún er jafnframt sérstakur ráðgjafi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Rætt var um mikilvægi Arctic Circle, alþjóðavettvangs til að kynna áherslur og stefnu einstakra ríkja. Bandaríkin munu taka við formennsku í Norðurskautsráðinu á næsta ári. Mynd.
31.10.2014 Forseti á fund með forystumönnum samtaka frumbyggja í Kanada sem sækja Arctic Circle. Rætt var um mikilvægi þess að reynsla, hagsmunir og framtíðarsýn frumbyggja væri leiðarljós í umræðum um framtíð Norðurslóða. Efla þyrfti þátttöku fulltrúa samfélaga frumbyggja í stefnumótun og alþjóðlegri umræðu. Sendiherra Kanada á Íslandi, Stewart Wheeler, sat einnig fundinn. Mynd.
31.10.2014 Forseti flytur ræðu í upphafi setningarfundar Arctic Circle - Hringborðs Norðurslóða sem haldið er í Hörpu en rúmlega 1400 þátttakendur frá 34 löndum sækja þingið. Ræða forseta. Myndir. Fleiri myndir eru á vef ráðstefnunnar.

Nóvember

01.11.2014 Forseti á fund með fjölmennri sendinefnd Kína á Arctic Circle en hún er skipuð fulltrúum stjórnvalda, vísindastofnana og skipafélagsins COSCO, stærsta skipafélags heims. Rætt var um framlag Kínversku heimskautastofnunarinnar til rannsókna á bráðnun íss og jöklum á Norðurslóðum, undirbúning COSCO undir aukna vöruflutninga um norðurleiðina og þátttöku Kína í næstu þingum Arctic Circle. Mynd.
01.11.2014 Forseti á fund með Nicolas Remillard, stjórnanda hinnar svonefndu Montrealráðstefnu, International Economic Forum of the Americas, um áhuga þeirra á samstarfi við Arctic Circle um að kynna þróun Norðurslóða og helstu viðfangsefni á þeim vettvangi á væntanlegum Ameríkuþingum ráðstefnunnar en Montrealráðstefnuna sækja að jafnaði um 3000 þátttakendur frá fjölmörgum fyrirtækjum í Norður- og Suður-Ameríku. Mynd.
01.11.2014 Forseti á fund með Christiana Figueres, framkvæmdastjóra Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Framework Convention on Climate Change, en samningar ríkja heims um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum fara fram á vegum hennar. Christiana Figueres var aðalræðumaður á sérstökum fundi Arctic Circle um bráðnun íss á Norðurslóðum og loftslagsbreytingar. Á fundi hennar og forseta var einkum rætt um hvernig framlag vísindastofnana, sem fást við Norðurslóðarannsóknir, gæti styrkt grundvöll væntanlegra samninga um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Mynd.
01.11.2014 Forseti á fund með forsætisráðherra Quebec og sendinefnd hans um nánara samstarf stjórnvalda, vísindastofnana og atvinnulífs í Quebec við Arctic Circle og frekari kynningu á áherslum og stefnumótun ríkisins á næstu árum. Norðuráætlun Quebec var kynnt á sérstökum allsherjarfundi Arctic Circle. Mynd.
01.11.2014 Forseti á fund með Michael Jones, einkum af stjórnendum Google, um frekari þátttöku fyrirtækisins í Arctic Circle, einkum með tilliti til aukins samstarfs um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins á Norðurslóðum og hvernig skipulag veiða og vinnslu þar gæti verið fordæmi fyrir ábyrga nýtingu hafsins í öðrum heimshlutum. Google hefur frá upphafi stutt Arctic Circle og var stjórnarformaður fyrirtækisins, Eric Schmidt, meðal ræðumanna á fyrsta þinginu í fyrra.
01.11.2014 Forseti á fund með Scott Minerd, forstjóra Guggenheim Partners, um áframhaldandi samstarf á vettvangi Arctic Circle, einkum í ljósi vaxandi áhuga á að samræma fjárfestingu og framkvæmdir á sviði hafnarmála, siglinga, samgangna á landi og fleiri sviðum. Guggenheim Partners hafa frá upphafi verið öflugur þátttakandi í Arctic Circle.
01.11.2014 Forseti á fund með sendinefnd Rússlands á Arctic Circle en hana skipuðu m.a. Artur Chilingarov, landkönnuður og sérstakur sendimaður forseta Rússlands í málefnum Norðurslóða, og forystumenn Sakha lýðveldisins í Rússlandi. Rætt var um mikilvægi Arctic Circle fyrir samstarf og samræður á Norðurslóðum, einkum fyrir einstök landsvæði og sjálfstjórnarhéruð á Norðurslóðum. Fram kom sú hugmynd að efnt yrði innan vébanda Arctic Circle til samstarfs landsvæða á Norðurslóðum sem glíma við þiðnun freðmýra en hún hefur í för með sér að magn metans í andrúmsloftinu eykst með stórfelldri hættu fyrir loftslag jarðar. Myndir.
01.11.2014 Forseti á fund með sendinefnd Japans á Arctic Circle - Hringborði Norðurslóða en þar fer fram sérstök kynning á framlagi Japans til Norðurslóða, einkum á sviði vísinda og víðtæks samstarfs. Á fundinum var rætt um frekari þátttöku Japans í Arctic Circle á næstu árum og lýsti sendinefndin miklum áhuga á að styrkja og breikka þátttöku stjórnvalda, vísindastofnana og viðskiptalífs. Mynd.
02.11.2014 Forseti á fund með Kuupik Kleist, fyrrum forsætisráðherra Grænlands, og Alice Rogoff, stofnanda fréttamiðilsins Alaska Dispatch, um þróun Arctic Circle og væntanlega fundi í Grænlandi og Alaska á næsta ári en þau voru bæði, ásamt forseta, meðal stofnenda Arctic Circle.
02.11.2014 Forseti ræðir við Björn Inga Hrafnsson, þáttastjórnanda Eyjunnar, m.a. um Arctic Circle og málefni Norðurslóða.
02.11.2014 Forseti á fund með Paul Holthus, framkvæmdastjóra World Ocean Council, um samtengdar ráðstefnur World Ocean Council og Arctic Circle í Singapúr á næsta ári en boð um þær ráðstefnur hafa borist frá stjórnvöldum í Singapúr. Áformað er að ráðstefnurnar verði í byrjun nóvember á næsta ári.
02.11.2014 Forseti á fund með sendinefnd Þýskalands, sem sækir þing Arctic Circle, og þakkaði fyrir að kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hefði flutt ræðu af myndbandi á opnunarfundinum. Jafnframt hefði Alfred Wegener stofnunin, sem er öflugur aðili í rannsóknum á Norðurslóðum, tekið þátt í samráðsfundum vísindastofnana á þinginu. Rætt var um aukna þátttöku Þýskalands í þinginu á næsta ári. Mynd.
02.11.2014 Forseti á fund með Barbara Ryan, stjórnanda alþjóðlegra samtaka um aukna nýtingu gervihnatta til eftirlits með þróun umhverfis og náttúru á Norðurslóðum, Group on Earth Observations. Rætt var um frekari þróun samstarfs á þessu sviði en sérstök málstofa var um þetta efni á Arctic Circle þar sem stjórnendur bandaríska fyrirtækisins Planet Labs kynntu þróun þess á nýrri gervihnattatækni sem gæti nýst almenningi og byggðarlögum, stórum sem smáum. Mynd.
02.11.2014 Forseti á fund með sendinefnd Frakklands á Arctic Circle en Michel Rocard, fyrrum forsætisráðherra Frakklands og sérstakur sendimaður Hollandes forseta í málefnum Norðurslóða, er oddviti hennar. Sérstök málstofa var á þingi Arctic Circle um framlag Frakklands til rannsókna og þróunar á Norðurslóðum. Rætt var um frekari þátttöku Frakka í fundum Arctic Circle á næstu árum. Mynd.
02.11.2014 Forseti á fund með prófessor Anatoly Zolotukhin um rannsóknir á nýtingu á orkulindum í norðurhéruðum Rússlands en prófessor Zolotukhin hefur veitt forstöðu rannsóknum á því sviði og verið þátttakandi í alþjóðlegum umræðum um framtíðarnýtingu þessara orkulinda. Mynd.
02.11.2014 Forseti á fund með sendinefnd Suður Kóreu á Arctic Circle þar sem rætt var um áhuga þeirra á að efla enn frekar þátttöku Kóreu, einkum vísindastofnana og viðskiptalífs, í næstu þingum Arctic Circle en stefna Kóreu gagnvart Norðurslóðum var til umfjöllunar á fyrsta þingi Arctic Circle og ennfremur á þinginu nú. Mynd.
03.11.2014 Forseti tekur á móti hópi kennara og starfsmanna Heiðarskóla í Reykjanesbæ og ræðir við þá um sögu Bessastaða og hlut staðarins í menningararfi þjóðarinnar.
03.11.2014 Forseti flytur ávarp við setningu samráðsfundar Northern Forum, sem haldinn er á Akureyri, en það eru samtök héraða, fylkja og borga á Norðurslóðum. Í ávarpinu þakkaði forseti Northern Forum fyrir að hafa rutt brautina fyrir samstarf á Norðurslóðum en samtökin hafa starfað í nokkra áratugi og byggt brýr milli íbúa og forystusveita fjölmargra héraða og svæða í fjarlægum hlutum Norðurslóða.
03.11.2014 Forseti á fund á Akureyri með Alice Rogoff, stofnanda Alaska Dispatch, og Mead Treadwell, vararíkisstjóra Alaska, en hann flutti einnig ávarp á fundi Northern Forum. Rætt var um árangur af þingi Arctic Circle og skipulag sérstaks málþings sem haldið verður í Alaska síðla sumars á næsta ári.
04.11.2014 Forseti á fund með starfsliði Arctic Circle og þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa að skipulagningu og undirbúningi þingsins og miðlun efnis. Rætt var um framkvæmd fjölmargra atriða á þinginu og verkefni næsta árs.
05.11.2014 Forseti á fund með Agli Þór Níelssyni sem starfar hjá Heimskautastofnun Kína í Sjanghæ og unnið hefur skýrslu fyrir vestnorræna ráðið. Fjallað var um vísindarannsóknir Kínverja á Norðurslóðum sem og aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands sem byggja má á farsælum ferli vestnorræna ráðsins, samtaka þingmanna í löndunum þremur.
05.11.2014 Forseti ræðir við fréttamann norska ríkissjónvarpsins um mikilvægi íþrótta í uppeldi æskunnar og samstöðu þjóðarinnar, einkum með tilliti til árangurs landsliðsins í fótbolta að undanförnu.
05.11.2014 Forseti á fund með Paul O'Friel, forstöðumanni bandaríska sendiráðsins, og Blake McBryde, sérfræðingi hjá bandarísku landhelgisgæslunni í málefnum Norðurslóða. Rætt var um árangur af þingi Arctic Circle og fyrirhugaða fundi í Alaska og Singapúr. Einnig var rætt um hve vel Ísland hentar sem miðstöð leitar og björgunarstarfs á þeim hluta Norðurslóða sem nær frá Grænlandi yfir Atlantshafið til Noregs.
06.11.2014 Forseti tekur í Smáralind þátt í söfnun Slysvarnafélagsins Landsbjargar sem ber heitið Neyðarkall björgunarsveita. Forseti hefur undanfarin ár verið með forystumönnum Landsbjargar við að ýta söfnuninni úr vör. Söfnunin fer fram um allt land næstu daga. Heimasíða Landsbjargar.
06.11.2014 Forseti afhendir Íslensku markaðsverðlaunin sem veitt eru af ÍMARK. Markaðsmaður var valinn Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Nova var valið markaðsfyrirtæki ársins en auk þess voru fjögur önnur fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna. Heimasíða ÍMARK.
07.11.2014 Forseti á fund með Steve Leifson, bæjarstjóra í Spanish Fork, og dr. Fred Woods sem lagt hefur rækt við rannsóknir á sögu þeirra Íslendinga sem settust að í Utah. Rætt var um fjölþætta ráðstefnu og hátíðarhöld á næsta ári í Utah þar sem sérstök áhersla verður lögð á sögu, arfleifð og menningu íslensku landnemanna.
07.11.2014 Forseti á fund með Þorsteini Inga Sigfússyni, Albert Albertssyni, Ingvari Eyfjörð og Ríkharði Ibsen um hugmyndir varðandi samstarf um jarðhitagarð á Reykjanesi sem einkum væri ætlaður til að kynna ungu fólki og almenningi, erlendum og innlendum gestum fjölþætta nýtingu jarðhita sem og að vera vettvangur fyrir nýsköpun og rannsóknir á þessu sviði.
07.11.2014 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum á GLS leiðtogaráðstefnunni í Neskirkju um stöðu leiðtoga í lýðræðisríkjum nútímans. Í ræðunni lagði forseti áherslu á mikilvægi samræðna og opinna samskipta við almenning, hlutverk sannfæringar í mikilvægum ákvörðunum og að leiðtogar skoruðust ekki undan ábyrgð.
07.11.2014 Forseti á fund með forsvarsmönnum og starfsliði Hörpu og starfsliði Arctic Circle þar sem farið var yfir árangursríka samvinnu við undirbúning og skipulag þings Arctic Circle sem haldið var um síðustu helgi.
10.11.2014 Forseti er viðstaddur athöfn í London þar sem ýtt var úr vör námsstyrkjum sem kenndir eru við Steve Schwarzmann og ætlað er að styrkja námsmenn frá Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku til náms í Kína. Tilgangurinn er að efla skilning og þekkingu á kínversku samfélagi í ljósi aukins mikilvægis landsins í efnahagslífi og heimsskipan. Fjölmargir háskólar víða um heim munu eiga aðild að þessu nýja kerfi en kennslan mun fara fram við einn helsta háskóla Kína.
13.11.2014 Forseti sækir tónleika sem Lionsklúbburinn Fjörgyn efnir til í Grafarvogskirkju til styrktar Barna og unglingageðdeild Landspítalans.
13.11.2014 Forseti á fund með Þórólfi Gíslasyni, kaupfélagsstjóra um íslenska matvælaframleiðslu, einkum í sjávarútvegi og landbúnaði, og möguleika á útflutningi íslenskra matvæla á komandi árum, einkum með tilliti til vaxandi krafna um sjálfbærni og hreinleika matvæla á mörkuðum í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum.
13.11.2014 Forseti flytur ávarp á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands um rafbílavæðingu á Íslandi. Í ávarpinu hvatti forseti til víðtækrar samstöðu um það markmið að Ísland yrði á næstu áratugum meðal fyrstu landa þar sem öll umsvif á landi, lýsing, kynding og samgöngur, byggðust á endurnýjanlegri orku. Árangur Íslendinga við virkjun vatnsafls og jarðhita fæli í sér að slíkt markmið væri raunhæft ef bílaframleiðendur í öðrum löndum legðu í auknum mæli áherslu á framleiðslu hagkvæmra rafbíla.
14.11.2014 Forseti ræðir við Stein Kuhnle, prófessor í stjórnmálafræði frá Noregi, og rithöfundinn Arild Stubhaug, sem vinnur nú að ritun ævisögu Stein Rokkan sem á sínum tíma var einn fremsti stjórnmálafræðingur Evrópu. Rætt var um tengsl forseta við Stein Rokkan og þátttöku í rannsóknaverkefninu Smaller European Democracies fyrir rúmum 40 árum.
14.11.2014 Forseti tekur á móti ungum fulltrúum Skoppu og Skrítlu sem bjóða til sérstakrar jólasýningar.
14.11.2014 Forseti ræðir við hóp nemenda í stjórnmálafræði frá Menntaskólanum að Laugarvatni um stjórnskipun lýðveldisins, sögu íslensks lýðræðis, stöðu forsetaembættisins og kjör Íslendinga og framtíðarhorfur í samanburði við ýmsar aðrar þjóðir heims.
15.11.2014 Forseti sækir síðustu sýningu Íslensku óperunnar á Don Carlo eftir Verdi og ræðir við Stefán Baldursson óperustjóra um framtíð Óperunnar og nauðsyn þess að leysa fjárhagserfiðleika hennar til frambúðar.
15.11.2014 Forseti á fund með sendinefnd kínverska ráðgjafaþingsins sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um þróun efnahagslífsins í Kína, hagvöxt og framtíðarhorfur, sem og áherslur nýrra stjórnvalda á lýðræðisþróun og umbætur á sviði laga og réttar, uppbyggingu réttarríkis í Kína. Formaður sendinefndarinnar reifaði þá hugmynd að komið yrði á samræðum við Íslendinga um áfanga í þróun réttarríkis og mannréttinda í ljósi breytinga á Íslandi á undanförnum áratugum. Þá var rætt um vaxandi samvinnu Íslands og Kína, fríverslunarsamning sem nú hefur tekið gildi, uppbyggingu hitaveitna í kínverskum borgum, útflutning á landbúnaðarvörum og sjávarafurðum til Kína sem og nýtingu ýmissa tækninýjunga og uppgötvana á Íslandi. Loks var rætt ítarlega um þróun Norðurslóða, og þátttöku kínverskra sendinefnda í alþjóðaþingum Arctic Circle. Myndir.
16.11.2014 Forseti tekur á móti bókmenntaklúbbnum Hana-nú en hann skipa eldri borgarar í Kópavogi og ræðir við þá um hlut Bessastaða í íslenskum bókmenntum, skáldin og rithöfundana sem búið hafa á staðnum og stunduðu nám í Bessastaðaskóla.
16.11.2014 Forseti flytur ávarp á athöfn sem haldin er við Landspítalann í Fossvogi til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum. Í ávarpinu vottaði forseti fjölskyldum og ættingjum þeirra, sem látist hafa, samúð þjóðarinnar og þakkaði einnig björgunarsveitum, lögreglunni, læknum og hjúkrunarfólki en fulltrúar þeirra voru einnig viðstaddir athöfnina. Þá hvatti forseti til aukinnar árvekni í umferðinni þar sem hver og einn bæri mikla ábyrgð.
17.11.2014 Forseti á fund með Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, um þróun háskólans á undanförnum árum og áætlanir um uppbyggingu fræðasviða, stöðu háskólans í alþjóðlegu samhengi og tækifæri til samstarfs ólíkra vísindagreina, atvinnulífs og samfélags.
18.11.2014 Forseti afhendir viðurkenningar sem Fjölskylduhjálp Íslands veitir fyrirtækjum og öðrum aðilum sem sérstaklega hafa stutt hjálparstarf samtakanna. Í ávarpi þakkaði forseti Fjölskylduhjálpinni fyrir ötult starf á undanförnum árum. Því miður væru enn margir í okkar samfélagi sem þyrftu reglulega á slíkri aðstoð að halda. Athöfnin fór fram í Ráðhúsinu í Reykjavík.
18.11.2014 Forseti á fund með formanni og stjórnendum Íþróttasambands fatlaðra um væntanlegt heimsmót, Special Olympics, íþróttaleikja seinfærra og þroskaheftra. Áætlað er að um 40 keppendur fari frá Íslandi en forseti hefur sótt þrjú önnur heimsmót Special Olympics. Einnig var fjallað um starfsemi sambandsins og fjölmörg
verkefni á næstu misserum. Fatlað íþróttafólk hefur tekið öflugan þátt í alþjóðlegum mótum, bæði í Evrópu og á heimsvísu.
21.11.2014 Cornell háskólinn í Bandaríkjunum veitti á föstudaginn 21. nóvember 2014 forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni og íslensku þjóðinni heiðursverðlaun fyrir forystu á sviði endurnýjanlegrar orku og sjálfbærni. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt og fór athöfnin fram í Íþöku í New York ríki. Verðlaunin, sem bera heitið The Atkinson Center Award for Global Leadership in Sustainable Development, eru tengd sérstakri stofnun við Cornell háskóla, sem einbeitir sér að eflingu endurnýjanlegar orku, umhverfismálum og sjálfbærni. Stofnunin hefur starfað frá árinu 2008 en Cornell hefur lengi verið meðal fremstu háskóla í Bandaríkjunum.Fréttatilkynning. Mynd (frá Cornell University Photography).
21.11.2014 Forseti flytur fyrirlestur við Cornell háskóla í Bandaríkjunum. Heiti fyrirlestrarins er Iceland’s Clean Energy Economy: Lessons for a Global Transformation og má nálgast hann á vef Cornell háskóla innan fárra daga. Að fyrirlestrinum loknum svaraði forseti fjölda fyrirspurna frá kennurum og nemendum skólans. Myndir frá Cornell University Photography. Vídeóupptaka með fyrirlestri forseta.
21.11.2014 Forseti á fund með ýmsum vísindamönnum og stjórnendum nokkurra deilda við Cornell háskólann í Bandaríkjunum, einkum á sviði endurnýjanlegrar orku, verkfræði og jarðvísinda. Fundinum stjórnaði prófessor Lance Collins, deildarforseti verkfræðideildar Cornell háskóla. Rætt var um fjölþætta nýtingu Íslendinga á jarðhita og samstarf við fjölmargar þjóðir heims um slík verkefni. Mynd.
21.11.2014 Forseti á samræðufund með stúdentum við Cornell háskóla í Bandaríkjunum sem stunda nám og rannsóknir á ýmsum sviðum alþjóðamála. Einkum var rætt um þróun mála á Norðurslóðum, lærdómana sem draga má af glímu Íslendinga við fjármálakreppuna, áhrif kalda stríðsins á íslensk þjóðmál og breytingar á alþjóðamálum í upphafi 21. aldar. Samstarf Íslands við ýmsar þjóðir í Asíu væri dæmi um þær breytingar sem orðið hefðu á undanförnum árum; lítil þjóð í Evrópu gæti átt árangursríkt samstarf við ýmsar af forystuþjóðum Asíu. Mynd.
21.11.2014 Forseti heimsótti safn íslenskra bókmennta og sögu við Cornell háskólann í New York ríki. Safnið ber heitið The Fiske Icelandic Collection og hefur í rúma öld verið einn helsti vettvangur rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum í Bandaríkjunum. Við þetta tækifæri sæmdi forseti Patrick J. Stevens, stjórnanda safnsins, riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir áratuga framlag hans til kynningar á íslenskum bókmenntum og sögu. Stofnandi safnsins, Daniel Willard Fiske, var pennavinur Jóns Sigurðssonar forseta á upphafsárum sjálfstæðisbaráttunnar og fleiri íslenskra forystumanna á sviði menningar og stjórnmála. Patrick Stevens vitnaði í þakkarræðu sinni m.a. í ávarp sem Fiske flutti í Reykjavík árið 1879 á sérstakri samkomu sem þá var haldin honum til heiðurs. Fjölmargir fræðimenn hafa starfað á vettvangi Fiske safnsins en þar hefur munað mest um forystu Halldórs Hermannssonar prófessors sem flutti safnið til Bandaríkjanna og stjórnaði því á fyrri hluta síðustu aldar. Cornell háskóli er meðal fremstu háskóla í Bandaríkjunum og þakkaði forseti skólanum fyrir þá alúð sem hann hefði lagt við Fiske safnið.Í heimsókninni skoðaði forseti fjölmörg merk og sjaldgæf rit sem varðveitt eru í Fiske safninu. Fréttatilkynning. Myndir.
22.11.2014 Forseti heimsótti um helgina rannsóknarstöð dýralæknadeildar Cornell háskóla í Bandaríkjunum þar sem stundaðar eru rannsóknir á íslenskum hestum. Markmið rannsóknanna er að kanna orsakir sumarexems eða ofnæmis sem hrjáir marga íslenska hesta eftir að þeir hljóta ný heimkynni í öðrum löndum. Slík veikindi hafa verið alvarlegt vandamál á undanförnum árum og áratugum. Myndir frá Cornell University Photography. Fréttatilkynning.
22.11.2014

Forseti situr fund íslenskra sérfræðinga og ýmissa vísindamanna við Cornell háskóla um samstarf skólans og íslenskra aðila á sviði jarðhitanýtingar, verkfræði og jarðvísinda. Mynd.

22.11.2014 Forseti á fund með íslenskum stúdentum, sem stunda nám við Cornell háskóla, og öðrum stúdentum við skólann sem einkum leggja stund á rannsóknir á sviði jarðhitanýtingar, kolefnisbindingar og hreinnar orku. Ýmsir þeirra höfðu heimsótt Ísland í sérstökum námsferðum. Mynd.
24.11.2014 Forseti tekur á móti nýrri myndabók sem ljósmyndarinn Marco Mescher frá Liechtenstein hefur gert. Ásamt honum var viðstaddur Haraldur Diego sem unnið hefur texta bókarinnar. Í henni er fjöldi landslagsmynda sem nær allar eru teknar úr lofti í ólíkum hlutum landsins. Forseti skrifar formála að bókinni. Formáli forseta á íslensku, á þýsku.
25.11.2014 Forseti sækir haustfund Landsvirkjunar þar sem stjórnendur fyrirtækisins kynntu stöðu þess, aukinn áhuga erlendra fjárfesta á íslenskri orku, viðhorf til rammaáætlunar sem og stöðuna varðandi virkjanir vatnsafls, vinds og jarðvarma.
27.11.2014 Forseti tekur á móti hópi indverskra kvenna, sem heimsótt hafa Ísland til að skoða norðurljós og náttúruna að vetrarlagi, og ræðir við þær um reynslu þeirra af ferð um Suðurland, að Jökulsárlóni og að Hala í Suðursveit.
27.11.2014 Forseti tekur á móti hópi íslenskra og erlendra fræðimanna sem sækja ráðstefnu sem haldin er í tilefni þess að 800 ár eru liðin frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar. Að ráðstefnunni standa Árnastofnun, Háskóli Íslands og nokkrir erlendir háskólar. Í ávarpi minnti forseti á hve lifandi sagnaarfurinn er í bókmenntum nútímans og mikilvægan þátt hans í menningu og þjóðarvitund Íslendinga.
28.11.2014 Forseti afhendir nemendum úr Njarðvíkurskóla, Víkurskóla og Grunnskólanum á Hólmavík verðlaun fyrir verkefni þeirra í átakinu Aðgengi að lífinu sem MND félagið efndi til með stuðningi SEM samtakanna. Samtökin efndu til kynningar í fjölmörgum grunnskólum í öllum landshlutum til að vekja athygli á nauðsyn þess að bæta aðgengi fatlaðra, einkum fólks í hjólastólum, að opinberum stofnunum, samkomuhúsum, verslunum og öðru húsnæði. Verðlaunaathöfnin fór fram í húsi Orkuveitu Reykjavíkur og voru einnig sýnd myndbönd sem nemendur verðlaunaskólanna höfðu unnið um verkefni sín.

Desember

01.12.2014 Forseti býður Alþingi til kvöldverðar á Bessastöðum á fullveldisdaginn 1. desember. Sá siður á sér djúpar rætur í sögu lýðveldisins og hefur á undanförnum áratugum verið bundinn við fullveldisdaginn. Í upphafi kvöldverðarins fluttu forseti og forseti Alþingis ávarp.
01.12.2014 Forseti tekur á móti stúdentum og stjórnendum frá háskólum landsins í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember.
01.12.2014 Forseti opnar tvær sýningar sem haldnar eru í Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá opnun Þjóðarbókhlöðunnar. Önnur sýningin er helguð teikningum Tryggva Magnússonar af íslenska skjaldarmerkinu og þakkaði forseti Guðmundi Oddi Magnússyni, prófessor við Listaháskólann, fyrir rannsóknarstarf hans í sögu skjaldarmerkisins. Jafnframt hvatti forseti til þess að á 75 ára afmæli lýðveldisins yrði gefið út öndvegisrit um skjaldarmerkið, teikningarnar og aðdraganda merkisins sem fylgt hefur lýðveldinu frá stofnun þess. Hin sýningin er um aðdragandann að byggingu Þjóðarbókhlöðunnar fyrir 20 árum.
01.12.2014

Forseti flytur ávarp á hátíð brautskráðra doktora sem haldin er í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Á þessu ári hafa 79 nemendur lokið doktorsprófi frá skólanum. Í ávarpi lýsti forseti þeim mikla árangri sem háskólinn hefði náð með þróun doktorsnáms á svo mörgum sviðum. Þátttaka andmælenda frá fjölmörgum virtum, erlendum háskólum sýndi þann sess sem skólinn hefði náð í alþjóðlegu fræðasamfélagi. Mikilvægt væri að þjóðin viðurkenndi það sem vel væri gert en ágreiningur og deilur á hverri tíð byrgðu ekki sýn. Þessi athöfn sýndi á ríkulegan hátt hvað Íslendingar gætu gert vel.

01.12.2014 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum stúdenta við Háskóla Íslands í tilefni af fullveldisdeginum. Í ávarpi sem forseti flutti á Háskólatorgi fagnaði hann þeim árangri sem Íslendingar hefðu náð og lýsti þeim tækifærum sem biðu nýrrar kynslóðar sem nú gæti verið athafnasöm á heimsvísu um leið og hún treystir rætur sínar á Íslandi.
02.12.2014 Forseti á fund með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrrum forseta Alþingis, um hátíðarhöld og viðburði sem fram fara á næsta ári í tilefni þess að þá verða hundrað ár frá því konur á Íslandi fengu kosningarétt. Sérstök nefnd vinnur að undirbúningi hátíðarhaldanna og er Ásta Ragnheiður starfsmaður hennar. Einnig eru fjölmörg samtök og aðilar víða um land að skipuleggja málþing, sýningar, samkomur og aðra atburði í tilefni þessara tímamóta.
03.12.2014 Forseti afhendir Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands við hátíðlega athöfn í Hörpu. Verðlaunin eru veitt stofnunum, fyrirtækjum, samtökum og einstaklingum sem lagt hafa sérstaka rækt við að bæta aðbúnað og þjónustu við öryrkja. Í ávarpi á samkomunni þakkaði forseti Öryrkjabandalaginu fyrir að hafa breikkað og dýpkað skilning Íslendinga á hagsmunum og þörfum öryrkja. Hvatningarverðlaunin sýndu einnig hve víða væri vel að verki staðið til að bæta þjónustu við öryrkja. Mikilvægt væri að þrátt fyrir deilur og ágreining um ýmis mál gleymdist ekki að hampa því sem vel væri gert. Vefur ÖBÍ.
03.12.2014 Forseti á fund með orðunefnd um málefni fálkaorðunnar.
04.12.2014 Forseti stýrir fundi í ríkisráði þar sem Ólöf Nordal tók við embætti innanríkisráðherra í kjölfar á lausnarbeiðni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
05.12.2014 Forseti afhendir verðlaun og viðurkenningar í samkeppni Forvarnardagsins en verðlaunahafar komu frá grunnskólum í Reykjavík, Kópavogi og á Selfossi. Fréttatilkynning.
07.12.2014 Forseti tekur á móti hópi fyrrum nemenda við Menntaskólann í Reykjavík, sem tók stúdentspróf árið 1955, og ræddi við þau um sögu Bessastaða að fornu og nýju, þróun lýðveldisins og stöðu þjóðarinnar. Guðrún Katrín heitin var í þessum árgangi.
08.12.2014 Forseti á fund með fulltrúum fyrirtækja úr ýmsum greinum íslensks atvinnulífs, sem stutt hafa og tekið þátt í þingi Arctic Circle, um reynsluna af þinginu og áformin á næsta ári. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Háskólans í Reykjavík.
10.12.2014 Forseti sækir afmælisfagnað Rauða krossins sem haldinn er í tilefni þess að 90 áru eru liðin frá því að deild Rauða krossins var stofnuð á Íslandi. Í ávarpi þakkaði forseti samtökunum fyrir hönd íslensku þjóðarinnar störfin á undanförnum áratugum, hjálparstarf og aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur sem og í að efla vitund um mannúð og alþjóðlegt hjálparstarf. Rauði krossinn hefur verið öflugasti fulltrúi Íslands á hamfarasvæðum vítt og breitt um veröldina og í aðstoð við flóttamenn og þá sem glíma við skæðar farsóttir. Jafnframt hefur Rauði krossinn með öflugu sjálfboðaliðastarfi treyst samstöðu Íslendinga, bæði þjóðarinnar í heild sem og einstakra byggðarlaga.
11.12.2014 Forseti sækir jólahátíð fatlaðra sem haldin er af frumkvæði André Bachmann. Fjölmargar hljómsveitir og tónlistarmenn komu fram á hátíðinni sem haldin er á Nordica hótelinu. Í ávarpi þakkaði forseti öllu því góða fólki sem kæmi að þessari hátíð á hverju ári en rúmlega þúsund manns sóttu hana nú.
11.12.2014 Forseti á fund með Michael Goodsite prófessor og Rasmus Gjedssø Bertelsen um þróun samstarfs á Norðurslóðum, tengsl vísindastofnana við rannsóknarstarf í Kína sem og tækifæri til að efla samstarf á þessum vettvangi. Prófessor Michael Goodsite er stjórnandi Nordic Center of Excellence og sérstaks verkefnis um samvinnu Norðurlanda og Kína í Stokkhólmi. Rasmus Gjedssø Bertelsen hefur lengi sinnt málefnum Norðurslóða og kennir nú við háskólann í Tromsö.
12.12.2014 Forseti tekur á móti fyrsta bindi af Flateyjarbók í nýrri norskri þýðingu. Alls verður útgáfan sjö bindi og eru þau ríkulega myndskreytt. Forseti ritaði formála að verkinu og það gerðu einnig Haraldur Noregskonungur og Margrét Danadrottning. Bindið afhentu feðgarnir Torgrim og Bård Titlestad en fyrirtæki þeirra Saga Bok er útgefandi verksins. Að lokinni afhendingu verksins var rætt um útgáfur á íslenskum fornritum í Noregi en nýlega komu Íslendingasögurnar í heildarútgáfu einnig út á norsku. Formáli forseta.
12.12.2014 Forseti tekur þátt í því að kveikja ljós á jólatrjám við Bessastaðastofu með aðstoð barna úr Álftanesskóla og leikskólunum Krakkakoti og Holtakoti.
30.12.2014 Forseti er viðstaddur athöfn í Þjóðminjasafni þar sem afhent eru verðlaun kennd við Ásu Guðmundsdóttur Wright en þau hljóta íslenskir vísindamenn sem skarað hafa framúr á alþjóðlegum og íslenskum fræðavettvangi. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Gísli Pálsson prófessor.
31.12.2014 Forseti er viðstaddur úthlutun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins en verðlaunin hlaut að þessu sinni Hrafnhildur Hagalín.
31.12.2014 Forseti stýrir fundi ríkisráðs á Bessastöðum þar sem staðfest voru lög og stjórnarathafnir sem afgreiddar höfðu verið utan ríkisráðsfundar. Jafnframt var undirritað skipunarbréf nýs ráðherra, Sigrúnar Magnúsdóttur, og viðhlítandi breytingar á stjórnarráði Íslands.