Veftré Print page English

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta


Hér birtist skrá yfir ýmsa atburði í dagskrá forseta en auk þeirra sem hér eru nefndir er fjöldi annarra þátta sem ekki eru tilgreindir,  t.d. fundir með ráðherrum og embættismönnum, fulltrúum fyrirtækja og samtaka og fjölmörgum einstaklingum með margvísleg erindi og erlendum gestum sem til Íslands koma. Þá sækir forsetinn jafnframt fjölda menningarviðburða sem ekki eru raktir hér, s.s. leiksýningar, myndlistasýningar, tónleika og aðra mannfagnaði.

 

Árið 2016

31.07.2016 Forseti ræðir við Ríkisútvarpið i sérstökum þætti um forsetatið sína. Þátturinn á vef RÚV.
28.07.2016 Forseti býður starfsfólki forsetaembættisins og mökum til kveðjukvöldverðar á Bessastöðum.
28.07.2016 Forseti tekur á móti fulltrúum Rauða krossins sem afhenda forseta sérstakt skjal til staðfestingar á þakklæti Rauða krossins fyrir samvinnu við forseta og framlag hans til margvíslegra starfa Rauða krossins og þeirra málefna sem samtökin hafa sett í öndvegi.
28.07.2016 Forseti býður ráðherrum, forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar ásamt mökum til hádegisverðar á Bessastöðum að loknum ríkisráðsfundi.
28.07.2016 Forseti stýrir ríkisráðsfundi á Bessastöðum þar sem staðfest eru lög og ýmsar stjórnarathafnir. Í lok fundarins flutti forseti stutt ávarp þar sem hann þakkaði ráðherrum fyrir samstarfið og vék að ýmsum málefnum sem einkennt hafa samstarf og samskipti forseta við ríkisstjórnir og einstaka ráðherra í 20 ára forsetatíð.
23.07.2016 Á Landsmóti skáta á Úlfljótsvatni veitti formaður Alþjóðanefndar skátahreyfingarinnar forseta sérstaka heiðursviðurkenningu Alþjóðasambands skáta fyrir störf hans í þágu skátarhreyfingarinnar og stuðning við íslensku skátahreyfinguna. Forseti tók við viðurkenningunni á hátíðasvæði landsmótsins.
23.07.2016 Forseti heimsækir Landsmót skáta að Úlfljótsvatni, fer í tjaldbúðir skátafélaga frá ýmsum byggðarlögum, ræðir við erlenda skáta sem heimsækja mótið og situr fund um alþjóðlegt skátamót sem haldið verður á Íslandi á næsta ári. Þá sæmdi skátahöfðingi forseta heiðursviðurkenningu skátahreyfingarinnar úr gulli fyrir stuðning forseta við skátahreyfinguna og þátttöku í störfum hennar.
21.07.2016 Erkibiskup grísku rétttrúnaðarkirkjunnarForseti á fund með erkibiskup grísku rétttrúnaðarkirkjunnar, Cleopas Strongylis, en Ísland er ásamt öðrum Norðurlöndum umdæmi erkibiskupsins. Rætt var um stöðu kirkjunnar, bæði á Norðurlöndum og á heimsvísu, og áhuga patríarkans í Miklagarði á baráttunni gegn loftslagsbreytingum og á málefnum Norðurslóða. Einnig var rætt um þróun mála í Grikklandi. Fundinn sat einnig ræðismaður Grikklands á Íslandi Rafn Alexander Sigurðsson.
16.07.2016 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum á Ísafirði í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins. Að lokinni skrúðgöngu frá Silfurtorgi var hátíðarsamkoma í Íþróttahúsinu þar sem forseti flutti ræðu. Síðdegis tók forseti einnig þátt í öðrum atburðum í tilefni afmælisins. Ræða forseta.
15.07.2016 Forseti tekur þátt í sérstakri athöfn á Bessastöðum þar sem ýtt var úr vör átaki til að endurheimta votlendi, en átakið tengist framlagi Íslands til skuldbindinga í loftslagsmálum sem staðfest var í París í fyrra. Undirritað var samkomulag milli embættis forseta Íslands annars vegar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Landgræðslu ríkisins hins vegar sem felur í sér endurheimt votlendis í Músavík og Sauðavík á Bessastaðanesi. Forseti, ráðherra og landgræðslustjóri fluttu ávörp við athöfnina og mokuðu síðan fyrstu moldinni í framræsluskurð neðan við Bessastaðastofu. Fréttatilkynning. Sjá einnig frétt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
15.07.2016 Forseti sendir forseta Frakklands François Hollande samúðarkveðju frá sér og íslensku þjóðinni vegna hinnar fólskulegu árásar í Nice í Frakklandi í gærkvöldi. Hugur okkar allra sé hjá hinum látnu, aðstandendum þeirra og vinum, sem og þeim sem nú berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsum. Fórnarlömb þessarar atlögu voru saklaust fólk, fjölskyldur og vinir, sem fögnuðu þjóðhátíðardegi Frakklands sem tileinkaður sé hinum sígildu hugsjónum um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það sé brýnna en nokkru sinni fyrr að þjóðir heims efli órofa samstöðu um samfélag lýðræðis og mannúðar en láti ekki árásir af þessum toga raska þeim grunngildum sem barátta undanfarinna alda hefur skilað þjóðum heims. Fréttatilkynning.
13.07.2016 Forseti afhendir Íslensku safnaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Byggðasafn Skagfirðinga.
13.07.2016 Forseti ræðir við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur um árin á Bessastöðum, verkefni forsetans og viðburði á undanförnum tuttugu árum. Þátturinn verður sýndur að kvöldi 31. júlí þegar forseti lætur af embætti.
12.07.2016 Forseti á fund með fulltrúum Marine Stewardship Council um vottun sjávarafurða og samstarf þeirra við fyrirtæki í sjávarútvegi bæði á Íslandi og í öðrum löndum.
06.07.2016 Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi, Zhang Weidong, um hvernig þess verður minnst að 10 ár eru liðin frá upphafi árangursríks jarðhitasamstarfs Íslands og Kína en markmið þess hefur verið að byggja hitaveitur í Kína sem komið hafa í stað kolakyndingar í kínverskum borgum. Sendiherrann tilkynnti um áhuga forseta Kína á að þessara tímamóta verði minnst á viðeigandi hátt.
06.07.2016 Forseti á fund með hópi bandarískra forystumanna um þróun samstarfs á Norðurslóðum og mikilvægi þess í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
06.07.2016 Forseti á fund Fanglu Wang, fulltrúa CITIC, um þróun samstarfs á Norðurslóðum og eflingu hreinnar orku en Fanglu Wang var meðal þátttakenda í þingi Arctic Circle sem haldið var á Grænlandi í maí.
05.07.2016 Forseti á fund með dr. Guðrúnu Marteinsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, um smíði þrívíddarlíkans af hafinu umhverfis Ísland og stækkun þess gagnvart hafsvæðum milli Grænlands, Íslands og Noregs sem og hagnýtingu slíks líkans í þágu sjálfbærra fiskveiða og rannsókna á hafstraumum og breytingum á hafinu.
05.07.2016 Forseti ræðir við Þorgeir Ástvaldsson um aðdraganda hátíðarhalda sem haldin voru árið 2000 í tilefni landafundaafmælisins og hlutdeild Dalamanna og Friðjóns Þórðarsonar í þeim atburðum, einkum með tilliti til uppbyggingar á Eiríksstöðum til minningar um landafundi Leifs heppna. Viðtalið mun birtast á vefsíðu Dalamanna.
04.07.2016 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum á Arnarhóli þar sem þúsundir Íslendinga hylla landsliðið. Ásamt forsætisráðherra þakkaði forseti hverjum og einum fyrir sögulega framgöngu og þá gjöf sem landsliðið hefur fært þjóðinni.
04.07.2016 Forseti ræðir við BBC World Service um árangur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á EM, stuðning þjóðarinnar við liðið og framgöngu íslensku áhorfendanna.
03.07.2016 Forseti er viðstaddur leik Íslands og Frakklands í knattspyrnu á þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France. Forseti átti einnig viðræður við forseta Frakklands, Francois Hollande, og forsætisráðherra Frakka, Manuel Valls, sem báðir voru viðstaddir leikinn.
03.07.2016 Forseti minntist Michels Rocards, fyrrum forsætisráðherra Frakka og sérstaks sendimanns forseta Frakklands í málefnum Norðurslóða, í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina BFMTV.
03.07.2016 Forseti ræðir við frönsku sjónvarpsstöðina BFMTV í aðdraganda leiks Íslands og Frakklands. Fjallað var um glæsilegan árangur íslenska liðsins, þjálfun ungs fólks í knattspyrnu á Íslandi og viðbrögð þjóðarinnar. Forseti ræddi einnig um sama efni við útvarpsrás stöðvarinnar.
01.07.2016 Forseti tekur á móti Ingrid Erasme og Willibald Rücker sem afhenda forseta ljósmyndaalbúm til minningar um sýningu á verkum ísfirska listamannsins Jóns Sigurpálssonar sem haldin var í galleríi hjónanna í Lúxemborg árið 2000. Forseti opnaði þá sýninguna.
01.07.2016 Forseti á fund með hópi breskra þingmanna sem sinna samskiptum við Ísland. Flestir þeirra eru fulltrúar kjördæma í Skotlandi. Rætt var um aukið mikilvægi Norðurslóða og Norður-Evrópu á komandi árum, ólík tengsl ríkja á þessu svæði við Evrópusambandið, reynsluna af Evrópska efnahagssvæðinu sem og þau tækifæri sem landfræðileg lega Skotlands skapar á aukinni samvinnu við nágrannaríki í norðri.
29.06.2016 Forseti á fund með sendiherra Finnlands Valtteri Hirvonen um þátttöku Finnlands í væntanlegu þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle en Finnar taka við formennsku í Norðurskautsráðinu á næsta ári þegar formannstíð Bandaríkjanna lýkur.
28.06.2016 Forseti ræðir við fréttamenn RÚV og BBC um hinn einstæða og sögulega sigur íslenska landsliðsins í gær.
27.06.2016 Forseti er viðstaddur leik íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Englandi á EM og fagnaði ásamt þúsundum Íslendinga sögulegum sigri. Að leik loknum óskaði forseti leikmönnum og þjálfurum liðsins til hamingju með mesta sigur í sögu íslenskra knattspyrnu. Leikurinn hefði verið meðal stærstu stunda í sögu lýðveldisins.
27.06.2016 Forseti ræðir við íslenska og erlenda fjölmiðla í Nice í aðdraganda leiks Íslands og Englands á EM.
26.06.2016 Forseti sendi í morgun Guðna Th. Jóhannessyni eftirfarandi bréf: „Bessastöðum 26. júní 2016.Kæri Guðni.Ég óska þér til hamingju með að vera kjörinn forseti Íslands og vona að farsæld fylgi þér í þeim ábyrgðarmiklu störfum sem senn taka við. Það er mikil gæfa að njóta slíks trausts íslenskrar þjóðar og geta með störfum forseta stuðlað að heill hennar og velgengni á komandi árum. Við Dorrit óskum fjölskyldu þinni góðrar tíðar á Bessastöðum. Fegurð staðarins, andi sögunnar og svipmikil náttúra búa daglegu lífi einstæða umgjörð og við vonum að þið hjónin og börn ykkar munið njóta hér góðra stunda. Með bestu óskum um farsæld á nýrri vegferð.“ Fréttatilkynning.
25.06.2016 Forseti tekur þátt í hátíðinni Blóm í bæ í Hveragerði og skoðar ýmis útilistaverk sem gerð hafa verið í tilefni hátíðarinnar og heimsækir ýmsa sýningarstaði.
25.06.2016 Forseti afhendir Menningarverðlaun Hveragerðisbæjar á sérstakri hátíð bækjarins í Lystigarðinum. Verðlaunn hlaut Listvinafélagið í Hveragerði fyrir að halda á lofti og kynna þá listamenn sem búið hafa í bænum.
25.06.2016 Forseti er viðstaddur útskriftarhátíð Háskóla Íslands. Brottskráðir eru þeir sem lokið hafa meistara- og kandídatsprófi. Í ræðu þakkaði rektor háskólans forseta fyrir samstarf við skólann.
24.06.2016 Forseti á fund með Adrienne Clarkson, fyrrum landstjóra Kanada, um málefni Íslands og Kanada og vaxandi mikilvægi Norðurslóða en hún tók sem landstjóri á móti forseta í opinberri heimsókn hans til Kanada árið 2000 og kom sjálf í opinbera heimsókn til Íslands árið 2003 en sú heimsókn var liður í áherslu Kanada á framtíð Norðurslóða.
24.06.2016 Forseti á fund með Dagfinni Sveinbjörnssyni, Brynhildi Davíðsdóttur og Þorsteini Þorsteinssyni um þróun Hringborðs Norðurslóða, væntanlegt þing þess í Reykjavík í haust sem og árangurinn af þinginu sem nýlega var haldið á Grænlandi.
24.06.2016 Forseti tekur á móti ritsafninu Helgistaðir við Hafnarfjörð sem Hafnarfjarðarkirkja hefur gefið út en Gunnlaugur Haraldsson er höfundur verksins. Í ritsafninu er fjallað um sögu Hafnarfjarðarkirkju og Garðaprestakalls á Álftanesi frá upphafi kirkjuhalds fyrr á öldum til nútímans. Í stuttu ávarpi þakkaði forseti fyrir þetta merka framlag til sögu Íslands, kirkju og kristni sem og til sögu byggðanna í nágrenni Bessastaða.
23.06.2016 Forseti á fund með sendiherra Rússlands, Anton Vasiliev, um þróun samstarfs á Norðurslóðum og framlag einstakra héraða og svæða innan Rússlands til slíks samstarfs, m.a. með þátttöku í þingum Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle.
22.06.2016 Forrseti sendir heillaóskir til íslenska landsliðsins í knattspyrnu karla á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi. Fréttatilkynning.
21.06.2016 Forseti ræðir við Sally Ranney, forseta bandarísku orkustofnunarinnar AREI, um þróun samstarfs á Norðurslóðum og tækifærin sem felast i árlegum þingum Arctic Circle á Íslandi. Viðræðurnar fóru fram í málstofu þings stofnunarinnar sem haldið er i Colorado.
20.06.2016 Forseti hlýtur heiðursverðlaun bandarísku orkustofnunarinnar American Renewable Energy Institute en hlutverk hennar er að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku og taka þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Verðlaunin voru nú veitt í þriðja sinn en áður hafa Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, og Ted Turner, stofnandi CNN, hlotið þessi heiðursverðlaun. Fréttatilkynning.
20.06.2016 Forseti flytur ræðu við opnun AREDAY orkuþingsins, American Renewable Energy Day, sem haldið er í Colorado í Bandaríkjunum. Stofnun hreinnar orku í Bandaríkjunum, American Renewable Energy Institute, heldur þingið og sækir það fjöldi fortystumanna samtaka, rannsóknarstofnana, fyrirtækja og almannasamtaka sem einbeita sér að aukinni nýtingu sjálfbærrar orku og baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Meginefni þingsins er aðgerðir á grundvelli þess árangurs sem náðist á Loftslagsráðstefnunni í París. Í ræðu sinni lýsti forseti árangri Íslendinga í nýtingu jarðhita og vatnsafls, fjölþættri atvinnustarfsemi á sviði jarðhitanýtingar sem og samstarfi Íslendinga við lönd í Asíu og Afríku á þessu sviði. Einnig nefndi forseti hve ríkulegar jarðhitaauðlindir bíða nýtingar í Bandaríkjunum og vísaði til skýrslu MIT um þau efni. Vefsíða AREDAY stofnunarinnar.
18.06.2016 Forseti á fund með forseta Íslendingadagsins í Manitoba Robert Rousseau. Rætt var um vaxandi tengsl við Vestur-Íslendinga og einstaka áfanga á þeirri braut frá því að forseti fór í fyrstu heimsókn sína til Winnipeg og Gimli árið 1997 þegar ræddar voru ýmsar hugmyndir um aðgerðir á þessu sviði sem flestar hafa komið til framkvæmda. Hátíðarhöld vegna landafundanna árið 2000, Snorraverkefnið og margvíslegir menningarviðburðir hafa einnig skipt miklu máli sem og starfsemi ræðisskrifstofunnar í Winnipeg og sendiráðs Íslands í Ottawa. Gagnkvæmar heimsóknir Íslendinga til Kanada og fólks af íslenskum ættum til Íslands hafa einnig aukist mjög á síðustu tveimur áratugum.
17.06.2016 Forseti tekur á móti erlendum sendiherrum sem taka þátt í hátíðarhöldunum á þjóðhátíðardaginn. Sendiherrarnir koma frá fjölda ríkja og í hópnum eru bæði þeir sem hafa aðsetur á Íslandi og þeir sem þjóna frá öðrum löndum. Í móttökunni flutti forseti ávarp og þakkaði framlag sendiherranna til að treysta og efla samvinnu Íslendinga við erlend ríki. Þá vék forseti einnig að þeim breytingum sem orðið hafa á þeim samskiptum á þeim tíma sem hann hefur gegnt embætti forseta en Íslendingar njóta nú slíkra tengsla í öllum heimsálfum.
17.06.2016 Forseti sæmdi tólf Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Fréttatilkynning. Mynd.
17.06.2016 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum á Austurvelli, sækir messu í Dómkirkjunni og leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að styttu Jóns Sigurðssonar.
16.06.2016 Forseti ræðir við sendinefnd frá Chicago Council on Global Affairs sem heimsækir Ísland, Norður-Noreg og Grænland til að kynna sér málefni Norðurslóða og vaxandi samstarf í þeim heimshluta, einkum með tilliti til hlutverks Bandaríkjanna og þátttöku annarra ríkja í því samstarfi. Sendinefndin lýsti miklum áhuga á þátttöku ráðsins í þingum Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle, bæði þeim sem haldin eru árlega á Íslandi og þeim sem haldin eru í öðrum löndum.
16.06.2016 Forseti á fund með Vytautas Pinkus sendiherra Litháens sem senn lætur af störfum. Rætt var um eflingu tengsla við Eystrasaltsríkin á fyrstu embættisárum forseta og grundvöllinn sem þá var lagður að gagnkvæmum samskiptum þjóðhöfðingja landanna sem og þátttöku forseta í ýmsum viðburðum í Litháen á undanförnum árum. Samstarf Eystrasaltsríkja og Norðurlanda fæli í sér öfluga sveit átta ríkja í Norður-Evrópu og mikilvægt væri að treysta það samstarf.
16.06.2016 Forseti á fund með sendiherra Brasilíu Flavio Helmold Macieira sem senn lætur af störfum. Rætt var um þróun íslensks atvinnulífs og þjóðfélags á undanförnum árum sem og vaxandi áhuga vísindasamfélags og stjórnvalda í Brasilíu á málefnum Norðurslóða. Einnig var fjallað um undirbúninginn að Ólympíuleikunum sem haldnir verða innan tíðar í Brasilíu sem og stjórnmálaástandinu í landinu.
15.06.2016 Forseti situr fund í ráðgjafaráði Sustainable Energy for All sem haldinn er í Brussel, en ráðgjafaráðið var tilnefnt af Ban Ki-moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og Dr. Jim Yong Kim forseta Alþjóðabankans. Á fundinum var rætt hvernig hægt er að auka verulega á næstu árum hlutdeild hreinnar orku í orkubúskap veraldar, en slík breyting er nauðsynleg í ljósi samkomulagsins sem náðist á Loftslagsráðstefnunni í París. Á fundinum kynnti Rachel Kyte framkvæmdastjóri SE4All sérstaka framkvæmdaáætlun sem yrði kjarninn í verkefnum næstu ára. Forseti flutti ávarp í upphafi fundarins en þar töluðu einnig Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Jim Yong Kim forseti Alþjóðabankans. Síðari hluti fundar ráðgjafaráðsins fer fram á morgun. Myndir.
14.06.2016 Forseti er viðstaddur fyrsta leik íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi. Leikið var gegn Portúgal og lauk leiknum með jafntefli. Á eftir heilsaði forseti upp á leikmenn íslenska landsliðsins og óskaði þeim og þjálfurum til hamingju með úrslitin. Jafnframt óskaði forseti forystumönnum KSÍ til hamingju með þessa stóru stund í sögu íslenskrar knattspyrnu.
13.06.2016 Forseti afhendir heiðursverðlaun Grímunnar á hátíð leiklistarfólks sem fram fór í Þjóðleikhúsinu. Heiðursverðlaunin hlaut að þessu sinni Stefán Baldursson og ávarpaði forseti hann sérstaklega að þessu tilefni.
13.06.2016 Forseti tekur á móti afkomendum Magnus Ólafson sem í áratugi var í forystusveit Vestur-Íslendinga í Norður-Dakóta og hlaut á sínum tíma fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu tengsla við Ísland.
11.06.2016 Forseti sækir háskólahátíð á Akureyri þegar Háskólinn útskrifar nemendur á ýmsum fræðasviðum. Rektor háskólans, Eyjólfur Guðmundsson, og sendiherra Kanada, Stewart Wheeler, fluttu ræður við athöfnina svo og Birgir Marteinsson, fulltrúi kandídata. Í ræðu sinni þakkaði rektor forseta fyrir framlag hans til málefna Norðurslóða og uppbyggingu Arctic Circle. Rannsóknir og umfjöllun um Norðurslóðir væru meðal burðarása í starfi Háskólans á Akureyri.
10.06.2016 Forseti á fund með mannréttindastjóra Evrópuráðsins, Nils Muiznieks, og starfsmönnum hans um eftirlit með mannréttindum í ríkjum Evrópu, starfsemi Evrópuráðsins á þessum vettvangi, veikingu mannréttinda í nokkrum ríkjum Mið-Evrópu sem og tillögur hans um styrkingu mannréttinda á Íslandi, einkum í þágu fatlaðs fólks og innflytjenda.
09.06.2016 Forseti stýrir samræðum við stjórn og starfsmenn bandarísku og alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna Conservation International um aðferðir Íslendinga við nýtingu auðlinda hafsins, tækniþróun og nýjungar í sjávarútvegi sem og framlag Íslands til nýtingar jarðhita í öðrum löndum og þróun samstarfs á Norðurslóðum. Íslenskir vísindamenn og sérfræðingar fluttu stutt erindi og svöruðu fyrirspurnum og síðan fóru fram umræður um alþjóðlegt samstarf til að tryggja sjálfbærni í nýtingu auðlinda jarðar og nýjar aðferðir í alþjóðlegu samstarfi í því skyni.
08.06.2016 Forseti ræðir við þýskan útvarpsmann frá Deutschlandradio um lærdómana af glímunni við efnahagshrunið, samspil lýðræðis og markaða, menningu og þjóðfélagsþróun.
08.06.2016 Forseti á fund með sendinefnd starfsmanna Google í Evrópu sem heimsækja Ísland til að kynna sér nýsköpun og efnahagsþróun. Rætt var um breytingar á íslensku atvinnulífi, áhrif upplýsingatækni á þróun sjávarútvegs,  ferðaþjónustu og annarra greina sem og mikilvægi nýsköpunar í tæknigreinum.
08.06.2016 Forseti á fund með stjórn umhverfissamtakanna Conservation International sem halda stjórnarfund á Íslandi, m.a. til að kynna sér sjálfbæra nýtingu auðlinda sjávar, tæknivæddan sjávarútveg og nýtingu hreinnar orku. Samtökin hafa beitt sér fyrir verkefnum víða um heim og stjórnvöld í Frakklandi fólu þeim að annast sérstaka kynningu á loftslagsbreytingum í aðdraganda COP21 loftslagsráðstefnunnar í París.
07.06.2016 Forseti á fund með sendiherra Kanada, Stuart Wheeler, sem senn lætur af störfum. Rætt var um aukna samvinnu Íslands og Kanada í málefnum Norðurslóða og þátttöku kanadískra fulltrúa í fundum Arctic Circle, bæði á Íslandi og á Grænlandi sem og nýja stefnu stjórnvalda í Kanada í málefnum Norðurslóða. Einnig var fjallað um mikilvægi hinna traustu tengsla við fólk af íslenskum ættum í Kanada og fjölþætt samskipti Íslands við hin einstöku fylki í Kanada.
07.06.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Svartfjallalands, Borislav Banovic, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um efnahagsþróun landsins og mikilvægi sjálfstæðisviðurkenningarinnar af hálfu Íslands á sínum tíma, sambúðina við nágrannaríki og möguleika á að byggja upp aukin efnahagstengsl milli landanna. Mynd.
07.06.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Úkraínu, Andrii Olefirov, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var tengsl landanna á fornri tíð og þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum, samskipti landsins við Evrópu og vestræn ríki sem og baráttuna fyrir stöðugleika, friði og lýðræði. Þá var einnig rætt um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi vegna málefna Úkraínu og möguleika á því að Minsk samkomulagið skilaði jákvæðum árangri og stöðugleika í landinu. Mynd.
05.06.2016 Forseti sækir hátíðarhöld á sjómannadeginum í Grindavík og flytur hátíðarræðu við upphaf dagskrár þar sem heiðraðir voru aldnir sjómenn og veitt verðlaun í keppnisgreinum dagsins. Ræða forseta.
05.06.2016 Forseti sækir messu á sjómannadaginn í Grindavíkurkirkju en messan var haldin á undan sérstökum hátíðarhöldum við höfnina. 
05.06.2016 Forseti sækir sjómannadagsmessu í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem minnst eru látinna sjómanna og biskup Íslands predikar.
04.06.2016 Forseti tekur á móti stjórnendum og þátttakendum í Listahátíð í sérstakri móttöku sem haldin er á Bessastöðum til heiðurs Listahátíð.
03.06.2016 Forseti er viðstaddur opnun hátækniseturs Alvogen og Alvotech á svæði Háskóla Íslands en þar mun fjöldi innlendra og erlendra vísindamanna vinna að þróun og framleiðslu nýrra líftæknilyfja. Við athöfnina fluttu stjórnendur fyrirtækisins og rektor Háskóla Íslands ávörp.
03.06.2016 Forseti á fund með Stuart Gill sendiherra Bretlands sem senn lætur af störfum. Rætt var um samstarf landanna, þátttöku stjórnvalda og vísindasamfélags á Bretlandi í Hringborði Norðurslóða – Arctic Circle sem og um könnun á sæstreng milli Íslands og Bretlands en bresk stjórnvöld telja að slík orkutenging skipti miklu máli fyrir orkuöryggi Breta og aukna hlutdeild hreinnar orku. Einnig var fjallað um þá lærdóma sem sendiherrann hefur dregið af dvöl sinni á Íslandi.
31.05.2016 Forseti á fund með Lil Shepherd sem lengi hefur verið í forystu samfélags Vestur-Íslendinga í Utah og sérstaklega stuðlað að auknum samskiptum við íbúanna í Spanish Fork. Hún og eiginmaður hennar Terry Shepherd, sem einnig sat fundinn, dvelja nokkra mánuði á Íslandi á vegum Mormónakirkjunnar. Rætt var um eflingu samskipta Íslendinga við afkomendur þeirra sem fluttu til Utah fyrir meir en hundrað árum.
30.05.2016 Forseti á fund með forseta stjórnar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, Sven Erik Svedman, og Helgu Jónsdóttur meðstjórnanda. Rætt var um glímu Íslands við afleiðingar bankahrunsins, samskipti við stofnanir í Evrópu, þjóðaratkvæðagreiðslur og samspil markaða og lýðræðis.
30.05.2016 Forseti tekur á móti fulltrúum norrænna krammabeinsfélaga sem halda fund á Íslandi og ræðir um hinn mikilvæga þátt almannasamtaka í þróun heilbrigðiskerfis, forvörnum og fræðslu.
30.05.2016 Forseti flytur ávarp í upphafi ráðstefnunnar Startup Iceland þar sem fjallað er um nýsköpun og frumkvöðla. Ráðstefnuna sækja forystumenn í íslenskum nýsköpunargreinum og erlendir sérfræðingar og fjárfestar. Í ávarpinu rakti forseti þá ánægjulegu þróun sem orðið hefur á undanförnum árum að fjöldi nýsköpunarfyrirtækja hefur fest sig í sessi og frumkvöðlar náð að mynda samstarf sem skilað hefur árangri á alþjóðlegum vettvangi.
26.05.2016 Forseti tekur á móti dönsurum og fulltrúum San Francisco dansflokksins en móttakan er haldin til heiðurs Helga Tómassyni og listrænni stjórn hans á dansflokknum í 30 ár. San Francisco ballettinn tekur þátt í Listahátíð í Reykjavík með sérstökum sýningum í Hörpu.
26.05.2016 Forseti afhendir Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum en verðlaunin hlaut að þessu sinni fyrirtækið Nox Medical sem þróað hefur tæki til svefnrannsókna og lækninga. Einnig var Helga Tómassyni, ballettdansara og listrænum stjórnanda San Francisco ballettsins, veitt sérstök heiðursviðurkenning fyrir að hafa eflt orðstír Íslands á sviði menningar og lista. Útflutningsverðlaunin eru samstarfsverkefni Íslandsstofu og forsetaembættisins og velur sérstök dómnefnd verðlaunahafa.
24.05.2016 Forseti sækir hátíð JCI hreyfingarinnar á Íslandi sem haldin er í Þjóðmenningarhúsinu þar sem veittar voru viðurkenningar þeim sem tilnefndir voru til verðlaunanna Framúskarandi ungir Íslendingar. Forseti afhenti svo sigurvegaranum verðlaunin og þakkaði í ávarpi JCI hreyfingunni fyrir þetta framtak sem á undanförnum árum varpað hefði ljósi á þann árangur sem ungir Íslendingar væru að ná á fjölmörgum sviðum samfélags, íþrótta, vísinda og viðskiptalífs.
23.05.2016 Forseti á fund með sendinefnd þýska þingsins sem heimsækir Ísland í boði Alþingis en hana skipa þingmenn sem sérstaklega sinna tengslum við Ísland og önnur Norðurlönd. Rætt var um þróun Norðurslóða og mikilvægi víðtækrar samvinnu á þeim vettvangi, nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita, bæði í Þýskalandi og öðrum ríkjum Evrópu sem og reynslu Íslendinga af glímunni við fjármálakreppuna og hvaða afleiðingar hún hefði haft fyrir stjórnmálalífið í landinu.
22.05.2016 Forseti flytur ávarp og afhendir verðlaun á lokahátíð Nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem haldin var í húsnæði Háskólans í Reykjavík. Á hátíðinni fékk fjöldi nemenda verðlaun fyrir hugmyndir sínar. Í ávarpi þakkaði forseti frumkvæði Nýsköpunarverðlaunanna en þau hefðu opnað nýja sýn á að nýsköpun gæti farið fram vítt og breitt um samfélagið og hjá öllum kynslóðum.
21.05.2016 Forseti á fund með Alice Rogoff, útgefanda Alaska Dispatch, og Mead Treadwell, stjórnanda Pt Capital og fyrrum vararíkisstjóra Alaska um samstarf við Alaska á sviði tækniþróunar í sjávarútvegi sem og þróun samstarfs á Norðurslóðum en þau hafa bæði um árabil verið í forystu Norðurslóðasamstarfs.
21.05.2016 Forseti á fund með stjórnendum alþjóðlega lyfjafyrirtækisins TEVA og fulltrúum Actavis um samvinnu fyrirtækjanna og þróun lyfjaiðnaðar á komandi árum. Bæði fyrirtækin eru dæmi um hverju lítil lönd geta áorkað á þessu sviði en TEVA var stofnað í Ísrael og Actavis hefur verið öflug stoð í nýsköpun íslensks atvinnulífs.
21.05.2016 Forseti á fund með Martin Günthner, efnahagsráðherra Bremen, og fulltrúum Bremenhafnar ásamt sendiherra Þýskalands á Íslandi um samstarf og rannsóknir varðandi hugsanlega höfn í Finnafirði. Verkefnið var á dagskrá í opinberri heimsókn forseta til Þýskalands árið 2013, á fundum með kanslara Þýskalands Angelu Merkel og í sérstakri heimsókn forseta til Bremen.
21.05.2016 Forseti sækir sýningu á verkum kjólameistara sem stundað hafa nám við Tækniskólann.
21.05.2016 Forseti er viðstaddur setningu Listahátíðar í Listasafni Íslands.
21.05.2016 Forseti tekur á móti hópi íslenskra ræðismanna og ræðismanna Íslands í öðrum löndum og ræðir við þá um framlag ræðismanna til alþjóðasamskipta Íslendinga.
19.05.2016 Forseti tekur þátt í málstofu um nýsköpun og samstarf háskóla á Norðurslóðum sem haldið er í Háskóla Grænlands í tengslum við Grænlandsþing Arctic Circle.
19.05.2016

Forseti grænlenska þingsins Lars-Emil Johansen sæmdi forseta Nersornaat, heiðursorðu grænlenska þingsins, fyrir framlag hans og forystu í málefnum Norðurslóða og fyrir samstarf við Grænland. Athöfnin fór fram á lokafundi Grænlandsþings Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle sem haldið hefur verið í Nuuk.

Í ávarpi þakkaði forseti Íslands þann mikla heiður sem sér væri sýndur og lýsti samstarfi sínu við forystumenn Grænlands og hve mikilvæg staða Grænlands væri í framtíðarskipan Norðurslóða. Hann væri djúpt snortinn vegna ákvörðunar grænlenska þingsins um að veita sér þennan heiður. Myndir. Fréttatilkynning.

18.05.2016 Forseti situr Grænlandsþing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið er í Nuuk. Í ýmsum málstofum er fjallað um þróun atvinnulífs: ferðaþjónustu, flugsamgöngur, siglingar, vöruflutninga, fiskveiðar sem og fjárfestingar og alþjóðlegt samstarf á því sviði.
17.05.2016 Forseti flytur ræðu á opnunarfundi Grænlandsþings Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle Greenland Forum sem haldið er í Nuuk. Aðrir ræðumenn við opnunina voru Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, og Okalik Eegeesiak, formaður Frumbyggjaráðs Norðurslóða, Inuit Circumpolar Council. Á dagskrá þingsins í dag og næstu tvo daga verða málstofur um margvíslega þætti í efnahagsþróun Norðurslóða, áhrif frumbyggja á atvinnulíf og fjárfestingar, þróun ferðaþjónustu, siglinga, fiskveiða sem og umfjöllun um aðra nýtingu náttúruauðlinda, heilbrigðismál, nýsköpun og menntun. Setningarræða forseta. Fréttatilkynning Arctic Circle.
16.05.2016 Forseti á fund í höfuðstað Grænlands Nuuk með starfsliði Arctic Circle og grænlenskum skipuleggjendum um undirbúning að Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle Greenland Forum.
14.05.2016 Forseti sækir tónleika sem haldnir eru í Hörpu í tilefni af 100 ára afmæli Karlakórsins Fóstbræðra. Fjölmargir íslenskir kórar og kórar frá Norðurlöndum og öðrum löndum tóku þátt í tónleikunum; alls sungu um 1000 karlar í hinum sameinaða kór. Í lokin flutti forseti ávarp og þakkaði Fóstbræðrum fyrir framlag þeirra til íslenskrar menningar og tónlistarlífs, hvernig söngur kórsins hefði fært Íslendingum fjölmargar gleðistundir og styrkt sjálfsvitund þjóðarinnar.
13.05.2016 Forseti tekur á móti stjórnarmönnum og fulltrúum fjölmargra íslenskra kóra og kóra frá Norðurlöndum, Sviss og Eistlandi sem taka þátt í kóramóti í tilefni af 100 ára afmæli karlakórsins Fóstbræðra. Í ávarpi ræddi forseti um framlag karlakóra til að efla íslenska menningu og þjóðarvitund á síðustu öld og hlut þeirra í að þróa íslenskt tónlistarlíf.
13.05.2016 Forseti er í viðtali við Fréttablaðið um forsetaembættið og forsetatíð. Hlýða má á viðtalið í heild sinni á visir.is.
13.05.2016 Forseti á fund með sendinefnd frá Qinghai héraði í Kína sem heimsækir Ísland til að kynna sér nýtingu jarðhita og aðra þætti efnahagslegrar þróunar. Rætt var um vaxandi samstarf Íslands og Kína á fjölmörgum sviðum, hvernig nýting jarðhita getur dregið úr mengun í kínverskum borgum og stuðlað að nýjum þáttum í landbúnaði og fiskeldi. Einnig var fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á bráðnun jökla í Himalajafjöllunum og hvernig hún mótar nú þegar náttúruskilyrði í Qinghai héraði. Rannsóknir á Norðurslóðum gætu því ásamt rannsóknum á Himalajasvæðinu verið mikilvægur þáttur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
12.05.2016

Forseti flytur ávarp í upphafi málþings sem Lögmannafélag Íslands efnir til um skyldur lögmanna gangvart samfélaginu. Ávarp.

12.05.2016

Forseti flytur ávarp við opnun sýningar sem haldin er í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska bókmenntafélags. Ávarp.

11.05.2016 Forseti á fund með forystumönnum Eyþings og Landsvirkjunar um uppbyggingu svæðisins á grundvelli hreinnar orku, sjálfbærni og nýsköpunar og skapa þannig tækifæri fyrir íbúana, sérstaklega ungt fólk, breikka grundvöll atvinnulífs og sýna í verki hvernig samfélög geta orðið til fyrirmyndar á vettvangi sjálfbærni og orkunýtingar. Verkefnið nýtur stuðnings fjölmargra aðila og verður kynnt á málþingi sem haldið verður í júní.
09.05.2016 Forseti birtir í dag yfirlýsingu vegna forsetakjörs. Yfirlýsing.
09.05.2016 Forseti á fund með Ágúst Þór Árnasyni, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, Gunnari Haraldssyni hagfræðingi og Arngrími Jóhannssyni flugstjóra um eflingu margháttaðs samstarfs við Grænland, bæði á sviði menntunar og atvinnulífs, nýja kynningarmiðstöð Norðurslóða á Akureyri og hlutverk Háskólans á Akureyri og bæjarins í Norðurslóðasamstarfi á alþjóðavettvangi.
08.05.2016 Forseti situr hátíðarafmæli Æskunnar, Barnahreyfingar IOGT á Íslandi, í tilefni þess að 130 ár eru liðin frá stofnun stúkunnar. Í ávarpi lýsti forseti þátttöku sinni í störfum barnastúkunnar Æskunar a sínum tíma og fjallaði um mikið framlag stúkunnar og IOGT hreyfingarinnar til heilbrigðra lífshátta á Íslandi, uppeldis og félagsþjálfunar.
05.05.2016 Forseti tekur á móti hópi eldri borgara í Garðabæ sem heimsækja Bessastaði og ræðir við þá um sögu staðarins. Heimsóknin var skipulögð af séra Friðriki Hjartar sóknarpresti.
01.05.2016 Forseti situr hádegisverð í konungshöllinni í Stokkhólmi ásamt konungsfjölskyldunni og öðrum gestum þeirra.
30.04.2016 Forseti situr hátíðarkvöldverð í konungshöllinni í Stokkhólmi sem haldinn er af konungshjónunum í tilefni af 70 ára afmæli Karls Gústafs konungs Svíþjóðar. Mynd.
30.04.2016 Forseti situr hádegisverð sem borgarstjórn Stokkhólms heldur í ráðhúsi borgarinnar í tilefni af 70 ára afmæli Karls Gústafs konungs Svíþjóðar.
30.04.2016 Forseti sækir guðþjónustu í kirkju konungshallarinnar í Stokkhólmi í tengslum við hátíðarhöld í tilefni af 70 ára afmæli konungsins.Að henni lokinni voru konungshjónin hyllt af mannfjölda fyrir utan konungshöllina og konungsfjölskyldan var viðstödd sýningu heiðursvarðar konungsins ásamt erlendum gestum.
29.04.2016 Forseti hefur þegið boð Karls Gústafs XVI konungs Svíþjóðar um að taka þátt í hátíðarhöldum í Stokkhólmi í tilefni af 70 ára afmæli konungsins. Fréttatilkynning.
28.04.2016 Forseti tekur þátt í hringborðsumræðum fulltrúa víða að úr veröldinni sem sækja málþing um lýðræði og stjórnarfar, The Reykjavík Roundtable on Human Rights: Democratic Accountability, State Sovereignty and International Governance. Hringborðið er skipulagt af EDDA rannsóknastofnuninni við Háskóla Íslands og Institute for Cultural Diplomacy í Berlín. Samræðurnar fóru fram í kvöldverði á Bessastöðum.
28.04.2016 Forseti á fund með Bjarna Tryggvasyni geimfara um þróun atvinnustarfsemi í tengslum við gervihnetti og um samstarf við íslenska háskóla og tæknisamfélag.
28.04.2016 Forseti flytur lokaávarp á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu sem haldin er í Hörpu en ráðstefnuna sækja um 800 þátttakendur frá 50 löndum. Á henni hefur verið fjallað um fjölþætta nýtingu jarðhita og framlag hennar til nýsköpunar í atvinnulífi og sjálfbærari framleiðsluhátta. Einnig hafa þátttakendur í ráðstefnunni heimsótt jarðhitagarðinn á Reykjanesi, orkuver og aðra starfsemi sem tengist nýtingu jarðhita. Með ráðstefnunni er Ísland í auknum mæli orðið alþjóðlegur áfangastaður í samvinnu á þessu sviði en heimsþing jarðhitans, World Geothermal Congress, verður haldið á Íslandi árið 2020. Í ávarpi sínu tengdi forseti saman árangurinn á loftslagsráðstefnunni í París og nýja stöðu jarðhitans á heimsvísu.
28.04.2016 Forseti á fund með Adnan Amin, framkvæmdastjóra IRENA, Stofnunar Sameinuðu þjóðanna á sviði hreinnar og endurnýjanlegrar orku. Rætt var um framlag Íslands til alþjóðlegs samstarfs í orkumálum, sérstaklega á sviði jarðhitanýtingar, verkefni IRENA og þá jákvæðu viðhorfsbreytingu sem orðið hefur um allan heim gagnvart nýtingu jarðhita og annarrar hreinnar orku í kjölfar loftslagssamkomulagsins sem gert var í París í desember.
27.04.2016 Forseti á fund með prófessor Michael Porter frá Harvard háskólanum sem kynnir á sérstöku málþingi alþjóðlegar mælingar á félagslegum og efnahagslegum framförum. Rætt var um samspil lýðræðis og efnahagslífs og hvernig glíman við fjármálakreppuna á Íslandi getur verið dæmasafn í alþjóðlegum rannsóknum. Þá var einnig rætt um nauðsyn þess að klassískar kenningar um lýðræði og samfélag yrðu á ný ríkur þáttur í umræðu um efnahagslegar framfarir. Prófessor Michael Porter tekur líka þátt í hinni alþjóðlegu jarðhitaráðstefnu sem haldin er á Íslandi en hann var á sínm tíma mikill hvatamaður að víðtæku samstarfi íslenskra fyrirtækja og stofnana á sviði jarðhita.
27.04.2016 Forseti tekur á móti erlendum fyrirlesurum og íslenskum aðstandendum alþjóðlegrar jarðhitaráðstefnu, IGC2016, sem haldin er á Íslandi. Ráðstefnuna sækja um 800 þátttakendur frá 50 löndum. Hún sýnir að Ísland er orðið öflug miðstöð fyrir samræður og samstarf um nýtingu jarðhita á veraldarvísu.
27.04.2016 Forseti afhendir lagnaverðlaunin, Lofsvert lagnaverk, sem er viðurkenning Lagnafélags Íslands, fyrir frábært lagnaverk í einstökum byggingum. Verðlaunin voru afhent í Eldheimum, gosminjasafninu í Vestmannaeyjum, og þau hlutu fyrirtæki og einstaklingar sem önnuðust lagnaverk í Eldheimum. Auk þess hlaut byggingin sjálf og arkitekt hennar sérstaka viðurkenningu. Í athöfninni flutti forseti ávarp þar sem hann þakkaði framtak Vestmannaeyinga við byggingu safnsins sem nú þegar er fjölsóttur áfangastaður þeirra sem heimsækja Vestmannaeyjar. Þá þakkaði forseti Lagnafélagi Íslands fyrir að standa svo myndarlega að þessum verðlaunum.
26.04.2016 Forseti á fund með Rachel Kyte, framkvæmdastjóra SE4ALL, samstarfsvettvangs Sameinuðu þjóðanna um þróun sjálfbærrar orku fyrir mannkyn á komandi áratugum. Forseti tók sæti í ráðgjafanefnd samráðsvettvangsins í boði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og Jim Yong Kim, framkvæmdastjóra Alþjóðabankans, og var rætt um nýtt hlutverk ráðgjafanefndarinnar í ljósi þess starfs sem fylgir í kjölfar loftslagsráðstefnunnar í París. Rachel Kyte, sem í áraraðir hefur verið í fararbroddi á alþjóðlegum vettvangi í málefnum sjálfbærrar orku, flytur einnig ræðu á IGC2016, alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu sem haldin er á Íslandi nú í vikunni.
26.04.2016 Forseti tekur á móti sendinefnd frá bandaríska háskólanum National Defense University sem heimsækir Ísland til að kynna sér þróun hreinnar orku og hvernig hún hefur breytt íslensku hagkerfi. Tilgangur heimsóknarinnar er m.a. að skapa grundvöll fyrir álitsgerðir og tillögur um breytingar á orkukerfi Bandaríkjanna. Í ítarlegum samræðum ræddi forseti margvíslega þætti íslenskrar orkuþróunar og hvernig hún hefði skapað grundvöll fyrir aukna fjölbreytni í atvinnulífi, bætt lífskjör og aukið hagsæld.
25.04.2016 Forseti sækir hátíðarhöld í tilefni af fánadegi Færeyja og hlýðir á ræðu menntamálaráðherra Færeyja,Rigmor Dam.
25.04.2016 Forseti á fund með Sergei Stanishev, fyrrum forsætisráðherra Búlgaríu og formanni þingflokks jafnaðarmanna á Evrópuþinginu, sem heimsækir Ísland ásamt sendinefnd frá þingflokknum. Rætt var um glímu Íslands við fjármálakreppuna, samspil efnahagsmála og lýðræðis og hvernig skoða má ríkjandi stefnu á Vesturlöndum í ljósi hinnar íslensku reynslu. Fundinn sat einnig Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gestgjafi Stanishev. Í heimsókn forseta til Búlgaríu fyrir 10 árum áttu þeir Stanishev ítarlegar viðræður um þróun samsteypustjórnmála og málefna Evrópu.
24.04.2016 Forseti afhendir Ásgeirsbikarinn á Íslandsmeistaramótinu í sundi sem fram fer í Laugardalslauginni en bikarinn gaf forseti til minningar um Ásgeir  Ásgeirsson  forseta Íslands. Þá fylgdist forseti með lokakeppni í nokkrum greinum og afhenti einnig verðlaun í þeim.
23.04.2016 Forseti flytur ávarp á lokasamkomu EVE Fanfest sem CCP efndi til í Eldborgarsalnum í Hörpu en hátíðin er sótt af mörg hundruð þátttakendum víða að úr veröldinni. Í ávarpinu áréttaði forseti hvernig sagnahefð Íslendinga, þar sem samin hefðu verið ljóð og sögur fyrst og fremst fyrir okkur sjálf, væri nú burðarás í hinum mikla árangri CCP sem fengi til liðs við sig þátttakendur og hæfileikafólk víða að úr veröldinni til að skapa nýja heima og nýja sögu.
23.04.2016 Forseti afhendir Íslensku þýðingaverðlaunin við hátíðlega athöfn í Hannesarholti, fyrrum heimili Hannesar Hafsteins skálds og ráðherra. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Brynja Cortes Andrésdóttir fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino. Í ávarpi þakkaði forseti samtökum þýðenda fyrir aðild þeirra að stofnun sérstakra verðlauna fyrir erlenda þýðendur á íslenskum bókmenntum en þau verðlaun, sem bera heitið Orðstír, voru veitt í fyrsta sinn á síðasta ári.
22.04.2016 Forseti er sæmdur Kjaransorðunni við setningu Lionsþingsins sem haldið er í Mosfellsbæ. Kjaransorðan er æðsta viðurkenning Lionshreyfingarinnar og var veitt forseta fyrir margvíslegan stuðning hans við störf hreyfingarinnar. Orðan er kennd við Magnús Kjaran, stofnanda hreyfingarinnar á Íslandi.
22.04.2016 Forseti er viðstaddur setningu þings Lionshreyfingarinnar í Mosfellsbæ. Í ávarpi lýsti forseti framlagi Lionshreyfingarinnar til að styrkja samvinnu og góð málefni í byggðum landsins og þakkaði fjölþætt framlag hreyfingarinnar á alþjóðlegum vettvangi þar sem íslenskt Lionsfólk hefur verið virkir þátttakendur og notið margvíslegs trúnaðar.
22.04.2016 Forseti tekur fyrstu skóflustunguna að nýrri meðferðarstöð SÁÁ við athöfn sem fram fór á landi samtakanna að Vík á Kjalarnesi. Hinar nýju byggingar munu efla mjög starfsemi og þjónustu SÁÁ. Í ávarpi þakkaði forseti samtökunum fyrir framlag þeirra á undanförnum árum og áréttaði að árangur SÁÁ væri ekki aðeins mikilvægur fyrir Íslendinga heldur hefði hann einnig vakið verulega athygli víða um heim. Að lokinni athöfn sótti forsæti kaffisamsæti með vistmönnum á meðferðarstöðinni og forystumönnum samtakanna.
21.04.2016 Forseti veitir garðyrkjuverðlaunin á hátíðarsamkomu sem fram fer í Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi. Fyrst voru veitt heiðursverðlaun garðyrkjunnar og þau hlaut Björgvin Steindórsson forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar. Síðan voru veitt verðlaun í flokknum verknámsstaður garðyrkjunnar og komu þau í hlut Grasagarðs Reykjavíkur. Í ávarpi vakti forseti athygli á að gróðurhús eru orðin áfangastaðir erlendra ferðamanna og garðyrkjan og ylræktin burðarás í hinni vaxandi ferðaþjónustu. Það væri því mikilvægt að hlúa að þessari starfsemi og efla nám og aðstöðu í greininni. Jarðhitaver og gróðurhús væru ásamt perlum í náttúru Íslands meðal fjölsóttustu ferðamannastaða.
21.04.2016 Forseti afhendir umhverfisverðlaun Hveragerðis á hátíðardagskrá sem fram fer í Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi.  Verðlaunin hlaut fyrirtækið Fengur fyrir brautryðjandastarf á sviði endurvinnslu timburs og rúlluplasts. Verðlaunin voru nú veitt á 70 ára afmælisári bæjarins.
21.04.2016 Forseti sækir skátamessu í Hallgrímskirkju á sumardaginn.
20.04.2016 Forseti tekur á móti konum í Kvenfélagi Álftaness og mökum þeirra í tilefni af 90 ára afmæli félagsins. Í ávarpi ræddi forseti sambúð forsetasetursins við byggðina á Álftanesi; að Kvenfélagið hefði verið burðarár í góðum samskiptum og saga þess endurspeglaði á margbrotinn hátt þróun og árangur íslensks þjóðfélags.
20.04.2016 Forseti ræðir við Christiane Amanpour á alþjóðlegu sjónvarpsstöðinni CNN um lýðræði og stjórnskipun á Íslandi, viðbrögðin við fjármálakreppunni og Panamaskjölunum. Viðtalið á vef CNN.
19.04.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bangladess, hr. Muhammad Abdul Muhith, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um áhuga Bangladess á að kynnast aðferðum og tækni Íslendinga á sviði sjávarútvegs og fiskveiða sem og að fylgjast með breytingum á jöklum á Norðurslóðum þar eð hækkun sjávarborðs um rúman metra myndi hafa hrikalegar afleiðingar fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Einnig var fjallað um samvinnu ríkja á Himalajasvæðinu og í nágrenni þess varðandi bráðnun jökla í þeim heimshluta og áhrif hennar á vatnsbúskap og stórfljót.
19.04.2016 Forseti sendir samúðarkveðju sína og íslensku þjóðarinnar til Rafael Correa forseta Ekvadors vegna hinna mannskæðu jarðskjálfta í landinu. Í kveðjunni minnir forseti á að þótt einstaklingurinn geti verið smár frammi fyrir hamförum náttúrunnar séu mennirnir sterkir þegar þeir standi saman; hugur Íslendinga sé hjá fórnarlömbum jarðskjálftanna, ættingjum þeirra, vinum og öðrum sem eigi um sárt að binda. Fréttatilkynning.
18.04.2016 Forseti heldur blaðamannafund á Bessastöðum þar sem hann tilkynnir ákvörðun sína um að gefa á ný kost á sér til embættis forseta Íslands. Yfirlýsing.
18.04.2016 Forseti á fund með Guðmundi Alfreðssyni prófessor um rannsóknir og samstarf í Norðurslóðarétti en Guðmundur hefur verið í forystu alþjóðlegs samstarfs á þessu fræðasviði og skipuleggur m.a. málstofur um það á Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle í Reykjavík í haust. Einnig var fjallað um réttarstöðu og þjóðfélagsþróun á Grænlandi en Guðmundur hefur kennt við Háskólann í Nuuk auk háskóla í Evrópu og Kína.
16.04.2016 Forseti er viðstaddur opnun útskriftarsýningar meistaranema í myndlist og hönnun við Listaháskóla Íslands sem haldin er í Gerðarsafni. 
15.04.2016 Forseti flyttur ræðu og svarar fyrirspurnum í kvöldverði nemenda og kennara Cass viðskiptaháskólans í London sem verið hafa í námsdvöl á Íslandi og kynnt sér nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
15.04.2016 Forseti á fund með Guido Raimondi, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem rætt var um hlutverk dómstólsins og verkefni, þátt hans við að efla mannréttindi, réttarfar og lýðræði í löndum Evrópu sem og mikilvægi einstakra úrskurða fyrir breytingar á Íslandi. Fundinn sat einnig Róbert Spanó, dómari við réttinn. Mynd.
15.04.2016 Forseti er viðstaddur athöfn í Kvikmyndasafni Íslands þar sem börn og afkomendur Óskars Gíslasonar afhenda íslensku þjóðinni kvikmyndasafn Óskars en það geymir fjölmörg brautryðjendaverk í íslenskri kvikmyndagerð sem og mikilvægt safn heimildamynda. Í ávarpi áréttaði forseti framlag Óskars á upphafsárum íslenskra kvikmynda og við þróun þessa þáttar í íslenskri menningu og sögu.
14.04.2016 Forseti á fund með Pétri Ásgeirssyni sendiherra Íslands á Grænlandi um samstarf landanna og þingið Arctic Circle Forum sem haldið verður í samstarfi við grænlensku landstjórnina í næsta mánuði. Þar verður fjallað um fjölmarga þætti í þróun atvinnulífs á Norðurslóðum með þátttöku fulltrúa frá ýmsum ríkjum Norðurslóða ásamt fulltrúum frumbyggja á Norðurslóðum og stjórnvalda í Evrópu og Asíu.
14.04.2016 Forseti tekur á móti síðari hópi aldraðra frá dagvistuninni Múlabæ og starfsmönnum; ræðir við þau um sögu Bessastaða og muni og minjar á staðnum.
13.04.2016 Forseti á fund með sendiherra lýðveldisins Kóreu, hr. Hae-yun Park, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um góða samvinnu landanna í áratugi, mikilvægi viðskipta og árangurinn af heimsókn forseta til Kóreu á síðasta ári. Einnig var fjallað ítarlega um stefnu Kóreu í málefnum Norðurslóða en forseti landsins hefur beitt sér sérstaklega fyrir framgangi hennar. KOPRI, Heimskautastofnun Kóreu, er virkur þátttakandi í rannsóknum á Norðurslóðum og kóresk skipafélög vinna nú að nýjungum sem auðvelda munu skipum siglingar um Norðurslóðir. Mynd.
13.04.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ungverjalands, frú Anna Mária Sikó, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um samvinnu á sviði jarðhita, einkum varðandi lagningu hitaveitna og þróun ylræktar, en þau efni voru á dagskrá í heimsókn forseta til Ungverjalands á sínum tíma. Þá var einnig rætt ítarlega um stöðu Ungverjalands innan Evrópusambandsins, mismunandi viðhorf til þróunar sambandsins sem og vandamál sem fylgja vaxandi flóttamannastraumi í Evrópu. Mynd.
13.04.2016 Forseti á fund með sendiherra Serbíu, frú Suzana Boskovic-Prodanovic, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um möguleika Serbíu í nýtingu jarðhita og um samvinnu í orkuframkvæmdum á fyrri tíð. Einnig var fjallað um stöðu stjórnmála og efnahagslífs í Serbíu, vaxandi samstöðu í landinu sem og ólík viðhorf til samninga við Evrópusambandið í komandi framtíð. Mynd.
13.04.2016 Forseti tekur á móti fyrri hópi aldraðra frá dagvistuninni Múlabæ og starfsmönnum; ræðir við þau um sögu Bessastaða og muni og minjar á staðnum.
12.04.2016 Forseti afhendir Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi við hátíðlega athöfn sem fram fór á Grand hóteli í Reykjavík. Í lok athafnarinnar flutti forseti stutt ávarp.
12.04.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Malís á Íslandi, hr. Toumani Djimé Diallo, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um baráttuna gegn hryðjuverkaöflum í landinu og nauðsyn alþjóðlegrar samstöðu í því verkefni. Þá var einnig rætt um landeyðingu í Malí og hvernig reynsla Íslendinga á sviði landgræðslu gæti komið að góðum notum.  Mynd.
12.04.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Níger á Íslandi, hr. Amadou Tchéko, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um erfiðleika vegna glímunnar við hryðjuverkasveitir Boko Haram og samstarf nágrannalanda í þeirri baráttu sem og von stjórnvalda um traustari grundvöll efnahags á komandi árum. Þá var einnig rætt um hvernig Níger getur nýtt sér þjálfun í landgræðsludeild Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Mynd.
12.04.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Egyptalands á Íslandi, frú Mahy Hassan Abdellatif Mohamed, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um framlag Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi til þjálfunar á sviði fiskveiða, landgræðslu og jafnréttis kynjanna. Þá var einnig fjallað um þróun mála í Egyptalandi og stefnu nýrrar ríkisstjórnar varðandi styrkari stöðu kvenna og þróun sjávarútvegs. Mynd.
11.04.2016 Forseti sækir kynningarfund hjá Hugarfari, félags fólks með ákominn heilaskaða þar sem rætt var um reynslu þeirra sem hlotið hafa heilaskaða og nauðsyn úrbóta og þjónustu við þá. Einnig voru kynntar hugmyndir að baki tillögu að sérstöku Höfuðhúsi samkvæmt fyrirmyndum frá öðrum löndum.
10.04.2016 Forseti sækir kveðjumessu í Grafarvogskirkju þar sem sr. Vigfús Þór Árnason kveður söfnuðinn en hann hefur þjónað Grafarvogskirkju og Siglufjarðarkirkju í um fjörutíu ár. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, var einnig viðstödd kveðjumessuna. Að messu lokinni var kirkjukaffi á neðri hæð Grafarvogskirkju.
09.04.2016

Forseti á fund með fulltrúum tæknifyrirtækisins Videntifier sem stofnað var á grundvelli rannsókna við Háskólann í Reykjavík og fulltrúum kínverska fyrirtækisins Elofirst sem hyggja á samvinnu við Íslendinga á þessu sviði upplýsingatækni.

08.04.2016 Forseti á fund með Christos Sirros sérlegum fulltrúa Québec fylkis í Bretlandi og Stewart Wheeler sendiherra Kanada á Íslandi um undirbúning að Norðurslóðaþingi, Arctic Circle Forum, sem haldið verður í Québec í Kanada í desember, sem og þátttöku Kanadamanna í þinginu sem haldið verður á Grænlandi í maí næstkomandi. 
08.04.2016 Forseti á fund með fulltrúum Nora frá Færeyjum og Noregi, sem vinna að kynningu á hugmyndum um samtengingu raforkukerfis ríkja á Norðurslóðum þar eð ný tækni í sæstrengjum og reynsla Norðmanna opnar nýjar leiðir í þessum efnum. Rætt var um að kynna þessa sýn á þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í haust.
07.04.2016 Forseti stýrir fundi í ríkisráði þar sem staðfest voru skipunarbréf og verkaskipting í nýju ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar. Mynd.
07.04.2016 Forseti stýrir fundi í ríkisráði þar sem ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var veitt lausn. Jafnframt voru staðfest lög og stjórnvaldsathafnir.
07.04.2016 Forseti á fund með fulltrúum Jæja-hópsins sem að undanförnu hefur skipulagt mótmæli til að krefjast breytinga á stjórnarfari landsins.
07.04.2016 Forseti tekur á móti fulltrúum undirskriftasöfnunar sem afhentu skrá yfir nöfn rúmlega 30 þúsund einstaklinga til stuðnings kröfunni um afsögn forsætisráðherra.
05.04.2016 Forseti á fund með Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis um stöðuna á Alþingi í ljósi atburða síðustu daga og þeirra viðræðna sem forseti átti við formenn ríkisstjórnarflokkanna fyrr í dag.
05.04.2016 Forseti á fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins um þingrofsbeiðni forsætisráðherra sem og fyrirhugaðar viðræður við Sigurð Inga Jóhannesson varaformann Framsóknarflokksins um myndun nýs ráðuneytis.
05.04.2016 Forseti á fund með Yiannakis L. Omirou forseta þjóðþings Kýpur sem hér er í opinberri heimsókn til Alþingis. Rætt var um samstarf smærri þjóða í Evrópu sem og langvarandi deilur vegna skiptingar eyjarinnar. Einnig var fjallað um málefni flóttafólks í Evrópu sem mjög brenna á Kýpur og erfiðleika í samskiptum við Tyrkland.
05.04.2016 Forseti ræðir við fréttamenn í framhaldi af fundi með forsætisráðherra. Forseti gerði grein fyrir því sem fram fór á fundinum og lýsti afstöðu sinni til þingrofs. Jafnframt áréttaði forseti nauðsyn þess að sköpuð yrði sátt meðal þjóðarinnar með hag og heiður Íslands að leiðarljósi.
05.04.2016 Forseti á fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra sem óskaði eftir samþykki forseta við tillögu um þingrof. Fram kom að beiðnin naut ekki stuðnings Sjálfstæðisflokksins og tilkynnti forseti að hann gæti ekki samþykkt hana og myndi eiga fund með formanni Sjálfstæðisflokksins.
02.04.2016 Bessastaðir eru baðaðir bláu ljósi til að minna á alþjóðlegan dag einhverfu.
23.03.2016 Forseti á fund með Jóni Þór Hannessyni kvikmynadagerðarmanni um hugmyndir hans varðandi efnissöfnun í heimildarmynd.
23.03.2016 Forseti á fund með Baldvini Jónssyni og Guðna Ágústssyni um hugmyndir þeirra varðandi kynningu á matvælum frá Íslandi og öðrum ríkjum Norðurslóða og samvinnu fyrirtækja og samtaka að því verkefni.
22.03.2016 Forseti ræðir við fréttastofu RÚV um hryðjuverkin í Brussel og viðbrögðin við þeim.
22.03.2016

Forseti sendir samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til Philippe konungs Belgíu vegna þeirra skelfilega árása sem í dag voru gerðar á almenning í Brussel. Samúð Íslendinga sé með fjölskyldum þeirra sem biðu bana, ættingjum þeirra og vinum, sem og með þeim sem sárir eru. 

Hryðjuverkaárásirnar í dag séu atlaga að lýðræði okkar og siðmenningu, mannréttindum, jafnrétti og frjálsri umræðu. Brýnt sé að standa vörð um mannúð og bræðralag, lýðræði og jafnrétti sem skipa öndvegið í samfélagsskipan okkar, menningu og sögu. Fréttatilkynning.

22.03.2016 Forseti á fund með sendiherra Bandaríkjanna Robert Barber þar sem rætt var um þátttöku Bandaríkjanna í þingi Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í október sem og í málþingum Hringborðsins, Arctic Circle Forums, sem haldin verða á Grænlandi í maí og í Québec í desember. Bandaríkin fara nú með formennsku í Norðurskautsráðinu og er ætlunin að kynna áherslur og árangur í þeirri formannstíð.
22.03.2016 Forseti á fund með Sigurði Snæberg Jónssyni um hugmyndir hans að gerð heimildamyndar.
21.03.2016 Forseti afhendir Íslensku þekkingarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Sjóminjasafninu. Íslandsbanki hlaut þekkingarverðlaunin að þessu sinni og Björgólfur Jóhannsson var útnefndur viðskiptafræðingur ársins. Verðlaunin eru veitt af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
21.03.2016 Forseti á fund með Breka Karlssyni frá Stofnun um fjármálalæsi en hann kynnti tillögur um að efla fjármálalæsi meðal almennings og ungmenna. Stofnunin hefur unnið með ýmsum alþjóðasamtökum á því sviði og á nú í viðræðum við seðlabanka í nokkrum Evrópulöndum og ýmsa aðila á Íslandi um nýja nálgun á fræðslu á þessu sviði.
21.03.2016 Chicago, Chicago Council on Global Affairs, um væntanlega heimsókn sendinefndar á vegum stofnunarinnar til Íslands til að kynna sér þróun mála á Norðurslóðum en sendinefndin mun einnig heimsækja höfuðstöðvar Norðurskautsráðsins í Tromsø í Noregi. Á fundinum var einnig fjallað um aðra þætti í starfsemi stofnunarinnar og þróun mála í Bandaríkjunum.
21.03.2016 Forseti flytur ræðu á þingi stúdentaleiðtoga, Global Student Leadership Summit þar sem einkum er fjallað um framtíð orkumála, nýsköpun og nýtingu hreinnar orku. Þingið sækja nokkur hundruð stúdentar frá Bandaríkjunum og Íslandi.
20.03.2016 Forseti flytur erindi á málþingi sem haldið er á Dalvík í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns forseta Íslands. Á máþinginu var fjallað um störf Kristjáns á sviði fornleifafræði og í forsetatíð. Í erindi sínu lýsti forseti stöðu íslenskra þjóðmála í forsetatíð Kristjáns og varpaði ljósi á þær erfiðu ákvarðanir sem Kristján þurfti að taka varðandi stjórnarmyndanir og samskipti við forystusveitir stjórnmálaflokkanna. Forsetatíð Kristjáns Eldjárns væri góður vegvísir um þá ábyrgð sem fylgdi forsetaembættinu og hvernig forsetinn bæri lokaábyrgð á því að ríkisstjórn væri í landinu ef stjórnmálaflokkum á Alþingi tækist ekki að mynda hana.
19.03.2016 Forseti á fund með Carl Baudenbacher forseta EFTA dómstólsins um störf og stöðu dómstólsins, meðferð Icesave málsins og viðbrögðin við niðurstöðu þess. Einnig var rætt um þróun Evrópusambandsins og hugmyndafræðilegan og hagfræðilegan grundvöll þess. Mynd
17.03.2016 Forseti sækir ársfund Seðlabankans þar sem formaður bankaráðs, seðlabankastjóri og fjármálaráðherra fluttu stefnuræður.
17.03.2016 Forseti afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins á sérstakri athöfn þar sem einnig voru veitt verðlaun í öðrum flokkum. Samfélagsverðlaunin hlaut að þessu sinni Ljósið sem stutt hefur við krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra, endurhæfingu og aðbúnað.
16.03.2016 Forseti flytur erindi um Indland á fundi U3A samtakanna en þau eru fræðslu- og námsvettvangur eldri borgara og aðili að alþjóðasamtökunum International Association of Universities of the Third Age. Í fyrirlestrinum fjallaði forseti um þróun þjóðmála og samfélags á Indlandi allt frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar og til okkar daga og hvaða áhrif kynni af Indlandi gætu haft á sjónarhorn og lífsreynslu Evrópubúa.
16.03.2016 Forseti á fund með stjórnendum Icelandair um þróun flugs og ferðaþjónustu á Norðurslóðum og væntanlegt málþing Arctic Circle sem haldið verður á Grænlandi í maí og þingið sem haldið verður í Reykjavík í október. Fjallað var um mikilvægi þessa vettvangs til að styrkja nýjar víddir í stöðu Íslands sem alþjóðlegs ráðstefnulands sem og til að efla ýmsar atvinnugreinar sem tengjast Norðurslóðum.
16.03.2016 Forseti á fund í Húsi sjávarklasans á Grandagarði um nýjar leiðir til að kynna þann árangur sem Íslendingar hafa náð í vinnslu sjávarafla og þróun margvíslegrar tækni og nýjunga á sviði sjávarútvegs. Slík kynningarstarfsemi gæti tekið mið af því samstarfi sem þróast hefur á undanförnum árum á sviði jarðhitans og skapað hefur Íslandi sérstakan sess á alþjóðavettvangi á því sviði.
15.03.2016 Forseti á fund með starfsfólki Arctic Circle - Hringborðs Norðurslóða til undirbúnings málþinginu sem haldið verður á Grænlandi í maí og þingi Arctic Circle í Reykjavík í október.
15.03.2016 Forseti á fund með Jóni Ágúst Þorsteinssyni, stjórnarformanni ARK, Sigrúnu Hildi Jónsdóttur meðstofnanda og Sigríði Rögnu Sverrisdóttur framkvæmdastjóra Hafsins um verndun hafsvæða og nýtingu nýrrar tækni til að byggja skipaferðir og fiskveiðar á hreinni orku, forystu Íslendinga varðandi breytingar á því sviði og samstarf innlendra aðila um umhverfisvæna sýn á nýtingu hafanna.
15.03.2016 Forseti tekur á móti bandaríska skólakórnum UNC Clef Hangers sem heimsækir Ísland og syngur nokkur lög í sal Bessastaða.
14.03.2016 Forseti á fund með sendiherra Rússlands Anton Vasiliev um þátttöku einstakra svæða í Rússlandi í þingi Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í október sem og í málþinginu sem haldið verður í Québec í Kanada í desember en það verður einkum helgað svæðaþróun á Norðurslóðum. Þá var einnig fjallað almennt um þróun mála á Norðurslóðum.
14.03.2016 Forseti á fund með sendiherra Kanada Stewart Wheeler um þátttöku í málþingi Arctic Circle, sem haldið verður á Grænlandi í maí, og í þingi Arctic Circle sem haldið verður í Reykjavík í október. Þá var einnig fjallað um væntanlegt málþing í Québec í Kanada í desember sem sérstaklega verður helgað svæðaþróun á Norðurslóðum. Einnig var rætt um nýjar áherslur ríkisstjórnar Kanada í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og málefnum Norðurslóða sem og hinn sterka sögulega arf byggða Íslendinga í Kanada.
12.03.2016 Forseti sækir samkomu í Hörpu sem haldin er í tilefni af aldarafmæli Alþýðusambands Íslands.
12.03.2016 Forseti tekur á móti þátttakendum í HönnunarMars og erlendum sérfræðingum og fjölmiðlafólki sem sækir þennan vettvang íslenskrar hönnunar. Í ávarpi fagnaði forseti þeirri miklu grósku sem einkenndi íslenska hönnun og ítrekaði mikilvægi þess að ungir hönnuðir hefðu ávallt greiðan aðgang að vettvangi sem þessum. Nýsköpun væri sífellt mikilvægari þáttur í árangri þjóða og því skipti hlutverk HönnunarMars Íslendinga miklu.
11.03.2016 Forseti tekur á móti hópi AFS skiptinema frá mörgum löndum sem dvelja á ýmsum stöðum á Íslandi til að kynnast þjóðlífi og menningu. Rætt var um reynslu þeirra af íslensku samfélagi.
10.03.2016 Forseti á fund með Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, um þróun siglinga og vöruflutninga á Norðurslóðum, samstarf við Grænland og aðrar nágrannaþjóðir sem og siglingaleiðir til Bandaríkjanna og Norður-Noregs. Þá var og fjallað um málþing Arctic Circle, sem haldið verður á Grænlandi í maí, þar sem meðal annars verður rætt um þróun viðskiptalífs á Norðurslóðum, siglingar, ferðaþjónustu, sjávarútveg og fjárfestingar.
09.03.2016 Forseti veitir heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV en þau hlaut að þessu sinni skáldið Þorsteinn frá Hamri. Verðlaun voru einnig veitt í ýmsum flokkum lista við hátíðlega athöfn fram fór í Iðnó. Í ávarpi þakkaði forseti DV fyrir að efna til þessara verðlauna á hverju ári en Menningarverðlaunin væru hin einu í landinu sem tækju til svo margra sviða í íslensku menningarlífi og endurspegluðu grósku og nýsköpun á afgerandi hátt.
09.03.2016 Forseti tekur á móti þátttakendum í samstarfsfundi um alþjóðlegar veðurrannsóknir, GNSS4SWEC. Á fundinum er einkum fjallað um vaxandi tíðni ofsaveðurs og hvernig alþjóðlegt samstarf og gervihnattatækni getur stuðlað að nákvæmari spám og viðvörunum vegna hugsanlegs tjóns. Í ávarpi nefndi forseti hvernig vaxandi bráðnun íss á Norðurslóðum skapaði aukna tíðni ofsaveðurs í Asíu og öðrum heimsálfum og þess vegna hefðu rannsóknarstofnanir og stjórnvöld víða um lönd aukinn áhuga á samstarfi um rannsóknir á Norðurslóðum. Þing Hringborðs Norðurslóða, sem haldið væri árlega á Íslandi, hefði orðið vettvangur fyrir samhæfingu slíks samstarfs.
08.03.2016 Forseti er viðstaddur lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði þar sem nemendur úr grunnskólum lásu úr verkum Bryndísar Björgvinsdóttur og Guðmundar Böðvarssonar auk þess að flytja sjálfvalin ljóð eftir ýmsa höfunda. Forseti afhenti öllum keppendum viðurkenningu og flutti stutt ávarp þar sem hann þakkaði upplestrarkeppninni fyrir að efla sýn nýrra kynslóða á íslenskar bókmenntir. Forseta var svo afhent þakkargjöf fyrir stuðning hans við keppnina frá upphafi.
08.03.2016 Forseti á fund með Vilhjálmi Vilhjálmssyni forstjóra Granda og Svavari Svavarssyni um sjávarútveg á Norðurslóðum og framlag Íslendinga til að efla tæknivæddan og sjálfbæran sjávarútveg, m.a. með kynningum í tengslum við Hringborð Norðurslóða.
08.03.2016  Forseti tekur á móti fulltrúum úr ritstjórn Verslunarskólablaðsins en næstu daga kemur út 82. árgangur þess. Tekin var upp kveðja forseta til nemenda skólans.
08.03.2016 Forseti á fund með Jóni Sigurðssyni, forseta Hins íslenska bókmenntafélags, um útgáfur og viðburði í tilefni af 200 ára afmæli félagsins. Rætt var um framlag bókmenntafélagsins til íslenskrar sögu og menningar og mikilvægi þess að tryggja sess þess og starfsaðstöðu í framtíðinni.
04.03.2016 Forseti afhendir verðlaun fyrir tónlistarviðburð ársins í þremur flokkum á hátíð Íslensku tónlistarverðlaunanna sem haldin er í Hörpu. Sjónvarpað var frá verðlaunaathöfninni.
03.03.2016 Forseti á fund með Joao Armando Goncalves, formanni heimsstjórnar skátafélaga, WOSM, og forystumönnum Skátahreyfingarinnar um undirbúning að alþjóðlegu skátamóti sem haldið verður á Íslandi á næsta ári. Mótinu er ætlað að efla þjálfun skáta og verður sótt af þúsundum skáta frá fjölmörgum löndum.
02.03.2016
Forseti á fund með Braga Björnssyni skátahöfðingja og Fríði Finnu Sigurðardóttur aðstoðarskátahöfðingja um landsmót skáta sem haldið verður í sumar og um alþjóðastarf skátahreyfingarinnar og undirbúning alþjóðamóts skáta sem haldið verður á Íslandi árið 2017.
02.03.2016 Forseti situr fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle og hönnuðum Skapalóns sem unnið hafa að gerð nýrrar heimasíðu Hringborðsins þar sem veittar væru upplýsingar um þing og fundi sem og veitt aðgengi að dagskrám og upptökum af einstökum fundum Hringborðsins.
02.03.2016 Forseti flytur ávarp í upphafi málþings sem LYST efnir til í húsnæði Íslenska sjávarklasans. Málþingið ber heitið Future of Food og er þar fjallað um framtíðarþróun í framleiðslu sjávarfangs og annarra matvæla, einkum með tilliti til hreinleika og breyttra neysluhátta og nýjunga í upplýsingatækni.
01.03.2016 Forseti á fund með Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims, um sjávarútveg á Norðurslóðum, með sérstöku tilliti til þróunar hans á Grænlandi en áformað er að Hringborð Norðurslóða efni til sérstaks málþings á Grænlandi í maí í samvinnu við stjórnvöld landsins þar sem m.a. verður fjallað um þróun í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og á öðrum sviðum efnahagslífs, bæði á Grænlandi og öðrum svæðum Norðurslóða.
28.02.2016 Forseti er viðstaddur setningu Búnaðarþings þar sem m.a. voru veitt Landbúnaðarverðlaunin og hvatningarverðlaun Bændasamtaka Íslands.
16.02.2016 Forseti á fund með Kerry Brown ásamt fylgdarliði hans og Páli Ásgeiri Davíðssyni en þessi hópur vinnur að kynningarverkefni um bráðnun jökla. Rætt var um árangurinn í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og hvernig slíkt verkefni um jökla gæti eflt þann árangur enn frekar.
12.02.2016 Forseti á fund með Ajay Royan um nýskpun og þróun atvinnulífs og sýn hans á stöðu efnahagsmála á Vesturlöndum sem og þá lærdóma sem hann hefur dregið af viðræðum við ýmsa forystumenn í íslensku atvinnulífi. Einnig var fjallað um hlutverk Kanada á Norðurslóðum og samstarf ríkja á Himalajasvæðinu.
12.02.2016 Forseti á fund með Vali Ingimundarsyni prófessor um björgun og skipasiglingar á Norðurslóðum í tilefni af alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður um það efni síðar í þessum mánuði en að henni standa m.a. Háskóli Íslands, Nordland háskóli í Noregi og ýmsir aðrir aðilar. Heiti ráðstefnunnar er Maritime Emergency Management and Transnational Co-operation in the High North.
12.02.2016 Forseti á fund með Geir H. Haarde sendiherra Íslands í Bandaríkjunum um samstarf landanna, helstu áherslur á því sviði, áhuga stjórnvalda og annarra aðila í Bandaríkjunum á framtíð Norðurslóða og samvinnu um úthöfin.
11.02.2016 Forseti á fund með starfsmönnum Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle og skipuleggjendum heimasíðu þingsins. Fjallað var um þjónustu heimasíðunnar við kynningu á viðburðum Arctic Circle á hverjum tíma svo og varðveislu heimilda um ræður og fyrirlestra og samræður á hinum fjölmörgu fundum og málstofum sem haldin eru á þingunum.
11.02.2016 Forseti sækir aðalfund Blóðgjafafélags Íslands, afhendir viðurkenningar einstaklingum sem gefið hafa blóð 150 sinnum og flytur ávarp um mikilvægt framlag blóðgjafa til íslensks heilbrigðiskerfis. Sjálfboðastarf af þessu tagi sé lykilhlekkur í öryggi heilbrigðiskerfisins.
11.02.2016 Forseti á fund með Helga Steinari Gunnlaugssyni sem stundar nám við kínverskan háskóla og vinnur að rannsóknum á samstarfi Íslands og Kína.
10.02.2016 Forseti hittir hóp einstaklinga sem búa sig undir að fara út í geiminn þegar slíkar ferðir hefjast fyrir almenna borgara. Þeir heimsækja Ísland til að kynnast náttúru landsins. Rætt var m.a. um þjálfun geimfaranna á Íslandi fyrir rúmri hálfri öld í aðdraganda ferða til tungslsins.
10.02.2016 Forseti afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin hlutu: Í flokki barna- og ungmennabóka Gunnar Helgason fyrir Mamma klikk!; í flokki fræðibóka og rita almenns efnis Gunnar Þór Bjarnason fyrir Þegar siðmenningin fór fjandans til; og í flokki fagurbókmennta Einar Már Guðmundsson fyrir Hundadaga. Auk forseta fluttu ávarp við athöfnina verðlaunahafar og formaður Félags íslenskra bókaútgefenda Egill Örn Jóhannsson. Mynd.
10.02.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Pakistans, frú Riffat Masood, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um möguleika Pakistans á að nýta jarðhita í þágu orkuframleiðslu, húshitunar og ylræktar sem og um nauðsyn samvinnu ríkjanna á Himalajasvæðinu varðandi bráðnun jökla, breytingar á vatnsbúskap og á fleiri sviðum. Mynd.
10.02.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kólumbíu, frú Sonia Duran Smela, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um árangur af friðarviðræðum í Kólumbíu og baráttu gegn skæruliðum; árangur sem skapað gæti grundvöll fyrir farsæla þróun efnahagslífs og aukna velsæld. Í því sambandi lýsti sendiherrann miklum áhuga á að kynna sér reynslu og þekkingu Íslendinga á nýtingu jarðhita og þróun arðbærs og sjálfbærs sjávarútvegs. Mynd.
09.02.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Belgíu á Íslandi, frú Nancy Rossignol, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vandamálin sem Evrópusambandið glímir við í kjölfar fjármálakreppunnar og aukins fjölda flóttamanna sem og um stöðu Íslands og Noregs utan bandalagsins. Mynd.
09.02.2016 Forseti á fund nýjum sendiherra Beníns á Íslandi, hr. Eusebe Agbangla, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Einkum var fjallað um eflingu sjávarútvegs í Benín og ósk landsmanna um að kynnast tækni og reynslu Íslendinga á því sviði sem og að fá aðgang að Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi til að byggja upp sérhæfingu og nýja forystusveit í þessari atvinnugrein. Þá var einnig rætt um hvernig saga Íslendinga frá fátækt fyrri áratuga til fjölþætts samfélags á nýrri öld gæti verið fróðlegt fordæmi fyrir aðrar smáar og meðalstórar þjóðir. Mynd.
09.02.2016 Forseti á fund með nýjum sendiherra Fílabeinsstrandarinnar á Íslandi, frú Mina Marie Balde-Laurent, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um markmið stjórnvalda um nýja áfanga í þróun efnahagslífs og velferðar sem og möguleika á nánara samstarfi við Ísland, einkum á sviði orkumála og nýtingar auðlinda sjávar. Mynd.
08.02.2016 Forseti er viðstaddur útför Ragnhildur Helgadóttur, fyrrum alþingismanns og ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
08.02.2016 Forseti ræðir við blaðamann Frjálsrar verslunar um þróun Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle, skipulag þess og ávinning slíkra þinga fyrir íslenska hagsmuni. Viðtalið mun birtast í hefti þar sem fjallað er um ráðstefnur og þing á Íslandi.
08.02.2016 Forseti á fund með Magnúsi B. Jóhannessyni sem kynnti hugmyndir um nýjungar í lánastarfsemi fyrir almenning sem og heimildarmynd um umhverfismál þar sem lýst er viðleitni einstaklings til að minnka kolefnisspor sitt.
06.02.2016 Forseti afhendir UT verðlaun Ský í lok UT dagsins sem haldinn var í Hörpu. Verðlaunin hlutu Skúli Eggert Þórðarson og Embætti ríkisskattstjóra fyrir forystu í tölvuvæðingu skattframtala og annarri starfsemi embættisins.
06.02.2016 Forseti afhendir viðurkenningar og flytur ávarp á Nýsveinahátíð sem haldin er af Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Á athöfninni voru heiðraðir iðnsveinar sem skarað hafa framúr í ýmsum greinum og Hjalti Einarsson tilnefndur heiðursiðnaðarmaður ársins 2016. Í ávarpi áréttaði forseti framlag iðnaðarmanna til uppbyggingar íslensks þjóðfélags og mikilvægi þess að efla iðnmenntun í anda þeirrar sýnar sem einkennt hefur forystusveit iðanaðarmannafélaganna.
05.02.2016 Forseti flytur ávarp og opnar sýningu á verkum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals á Kjarvalsstöðum. Opnun sýningarinnar var liður í Safnanótt.Ávarp forseta.
01.02.2016 Forseti á fund með Höllu Hrund Logadóttur, sem stýrt hefur Orkuskóla Háskólans í Reykjavík, um samstarf að eflingu menntunar í málefnum Norðurslóða sem gæti tengst samstarfi háskóla á vettvangi Arctic Circle.
30.01.2016 Forseti sendir ávarp sem flutt var á fundi Vestnorræna ráðsins sem haldinn var í Grindavík. Ávarp forseta.
26.01.2016 Forseti á fund með Hákoni Gunnarssyni og Rósbjörgu Jónsdóttur um alþjóðlega ráðstefnu um jarðhita, Iceland Geothermal Conference 2016, sem haldin verður í Reykjavík í apríl en hana munu sækja mörg hundruð sérfræðinga í jarðhita og orkumálum sem og fulltrúar orkufyrirtækja og alþjóðastofnana. Fyrsta ráðstefna af þessu tagi var haldin á Íslandi fyrir nokkrum árum og er ráðstefnuhaldið liður í þeirri viðleitni að festa Ísland í sessi sem miðstöð alþjóðlegrar umræðu um nýtingu jarðhita.
26.01.2016 Forseti afhendir Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Einar Gunnar Guðmundsson, formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs námsmanna, kynnti störf sjóðsins og Yrsa Úlfarsdóttir, fulltrúi nemenda í stjórninni, lýsti þeim verkefnum sem tilnefnd höfðu verið til verðlaunanna. Forseti afhenti höfundum allra verkefnanna verðlaunaskjöl og tilkynnti að verðlaunin hlytu að þessu sinni Birgitta Steingrímsdóttir og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir fyrir verkefnið Þekkirðu fuglinn?
25.01.2016 Forseti á fund með Rósu Björk Halldórsdóttur um kynningu  á listum, handverki  og menningu frumbyggja á Norðurslóðum í tengslum við þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle. Komið hefur verið á fót samstarfi um slíka kynningu víða á Norðurslóðum og voru verk þeirra kynnt á síðasta þingi Hringborðsins.
20.01.2016 Forseti á fund í Lausanne í Sviss með Frederik Paulsen sem stuðlað hefur að margvíslegu samstarfi á Norðurslóðum og rannsóknum á Suðurskautslandinu. Stofnun hans hefur verið þátttakandi í Arctic Circle frá upphafi og um þessar mundir skipuleggur hann alþjóðlegan vísindaleiðangur sem sigla mun á rannsóknarskipi hringinn í kringum Suðurskautslandið. Leiðangurinn hefst í lok þessa árs og mun standa í fjóra mánuði. Þá var einnig fjallað um samstarf ríkja á Norðurslóðum og nauðsyn þess að styrkja menntun og starfsþjálfun ungra frumbyggja á Norðurslóðum.
19.01.2016 Forseti er viðstaddur athöfn í tengslum við Heimsþing hreinnar orku og sjálfbærniráðstefnur í Abu Dhabi þar sem veitt eru sérstök verðlaun og styrkir til vísindamanna og rannsóknarstofnana sem vinna að þróun tækni til að framkalla regn með inngripum og áhrifum á skýjafar. Styrkirnir voru veittir í kjölfar alþjóðlegrar samkeppni og hlutu þá vísindamenn frá Japan, Þýskalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
19.01.2016 Forseti á fund í Abu Dhabi með dr. Sultan Ahmed Al Jaber, ráðherra í ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna og stjórnarformanni Masdar, um þróun samstarfs á Norðurslóðum og aukna nýtingu hreinnar orku í kjölfar hins sögulega árangurs sem náðist á loftslagsráðstefnunni í París. Masdar hefur frá upphafi verið aðili að Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle og hefur lagt áherslu á þátttöku í grænum orkuverkefnum víða um veröld.
19.01.2016 Forseti á fund með Tommy Remengesau forseta Palár þar sem rætt var um áform Palár um sérstakt verndarsvæði á hafinu kringum eyjarnar og nauðsyn þess að styrkja eftirlit með ólöglegum fiskveiðum. Reynsla og tækni Íslendinga í fiskveiðum og sjávarútvegi, skráning afla og upplýsingar um ferðir fiskiskipa og löndun, gætu gagnast mörgum eyríkjum sem kappkosta að vernda fiskimið sín og byggja upp tæknivæddan og sjálfbæran sjávarútveg. Mynd.
19.01.2016 Forseti heimsækir svæðisskrifstofu FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, en skrifstofan annast ráðgjöf í sjávarútvegi og landbúnaði í ýmsum löndum á Arabíuskaga. Fjallað var um reynslu starfsmanna af slíkri ráðgjöf og helstu áherslur á komandi árum. Mynd.
19.01.2016 Forseti á fund ásamt Árna Mathiesen framkvæmdastjóra sjávarútvegsdeildar FAO með Adnan Amin framkvæmdastjóra IRENA og öðrum stjórnendum stofnunarinnar um nýtingu hreinnar orku til þurrkunar á matvælum. Verkefnið yrði byggt á reynslu Íslendinga við að þurrka þorskhausa, hryggi og annað sjávarfang sem áður var fleygt en nú er flutt út sem matvæli. Slík aðferð getur einnig nýst við að tryggja að kjöt og ávextir öðlist geymsluþol án frystingar til allt að tveggja ára. Myndir.
19.01.2016

Forseti afhendir viðurkenningar til fulltrúa framhaldsskóla úr ýmsum heimsálfum sem og fulltrúum smárra fyrirtækja og annarra aðila sem tilnefndir voru til Zayed orkuverðlaunanna en hlutu ekki verðlaunin að þessu sinni. Mynd.

19.01.2016 Forseti á fund með James Michel forseta Seychelleseyja þar sem rætt var um alþjóðlegt samstarf á sviði sjávarútvegs með áherslu á sjálfbærni, tækniþróun og verndun hafanna. Þekking og tæknikunnátta Íslendinga sé á margan hátt gagnlegur reynslubanki sem aðrar þjóðir, einkum eyþjóðir, gætu nýtt sér. Mynd.
19.01.2016 Forseti flytur ræðu við upphaf alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er í Abu Dhabi um hagkerfi heimshafanna. Ráðstefnan nefnist Blue Economy Summit II og er sótt af fulltrúum eyríkja og alþjóðlegra samtaka sem vinna að sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. RæðaMyndir.
18.01.2016 Forseti flytur ávarp í móttöku sem haldin er í tengslum við Heimsþing hreinnar orku í Abu Dhabi. Móttökuna sækja fulltrúar ríkja, alþjóðastofnana og samtaka sem taka þátt í heimsþinginu. Forseti þakkaði stjórnvöldum í Abu Dhabi fyrir forystu þeirra í myndun fjölþætts alþjóðlegs samstarfs í þágu nýtingar hreinnar orku.
18.01.2016 Forseti á fund með dr. Ólafi Wallevik, prófessor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og forstöðumanni grunnrannsókna hjá Nýsköpunarmiðstöð, um þróun umhverfisvænnar steinsteypu og samstarfsverkefni í Kína og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fundurinn fór fram í tengslum við Heimsþing hreinnar orku í Abu Dhabi.
18.01.2016 Forseti á fund með Ban Ki-moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í tengslum við Heimsþing hreinnar orku sem haldið er í Abu Dhabi. Rætt var um hið sögulega samkomulag i loftslagsmálum sem náðist í París og mikilvægi aukinnar samvinnu á Norðurslóðum. Þá var einnig fjallað um framlag Arctic Circle til þeirrar samvinnu en Ban Ki-moon studdi stofnun Hringborðsins á sínum tíma og sendi ávarp á fyrsta þing þess í Reykjavík. Stóraukin áhersla á nýtingu hreinnar orku er kjarninn í árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og var á fundinum áréttað mikilvægi reynslu og þekkingar Íslendinga í þeim efnum.
18.01.2016 Forseti tekur þátt í setningarfundi Global Action Day sem haldinn er í Abu Dhabi og tileinkaður aðgerðum í orkumálum og baráttu gegn loftslagsbreytingum á grundvelli þess samkomulags sem náðist á Loftslagsráðstefnunni í París í desember.
18.01.2016 Forseti er viðstaddur hátíðarfund á Heimsþingi hreinnar orku þar sem veitt eru Zayed orkuverðlaunin í nokkrum flokkum, Zayed Future Energy Prize. Forseti er formaður dómnefndar verðlaunanna.
18.01.2016 Forseti er viðstaddur setningu Heimsþings hreinnar orku, World Future Energy Summit, sem haldið er í Abu Dhabi og er ásamt öðrum alþjóðlegum þingum burðarás í sérstakri viku sem helguð er umhverfismálum og sjálfbærni, Abu Dhabi Sustainability Week. Á setningarathöfninni fluttu ræður Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Enrique Peña Nieto forseti Mexíkó. Alls sækja þingið og aðra atburði vikunnar um 3000 þátttakendur víða að úr veröldinni.
15.01.2016 Forseti á fund með Heiðari Guðjónssyni og Agli Þór Níelssyni um ritverk sem miðar að því að kynna efnahagsþróun og atvinnulíf á Norðurslóðum.
15.01.2016 Forseti ræðir við fulltrúa verkefnisins Lífríki sem stefnir að því að merkja hvali víða um heim og nota upplýsingatækni til að skólanemendur, vísindamenn og almenningur geti fylgst með ferðum hvalanna. Verkefnið er byggt á íslenskri tækni og hefur vakið verulega athygli bæði hér og erlendis. Ætlunin er að ýta því úr vör á næstu misserum.
14.01.2016 Forseti sækir hátíðarfund, sem haldinn er í Fjölbrautaskóla Suðurlands, og afhendir rannsóknarstyrki úr Vísinda- og rannsóknasjóði Suðurlands og Menntaverðlaun Suðurlands.
14.01.2016 Forseti á fund með fulltrúum breska fyrirtækisins Atlantic Superconnection Corporation sem vinnur að athugun og kynningu á kostum þess að leggja sæstreng frá Bretlandi til Íslands í þeim tilgangi að styrkja kerfi hreinnar orku á Bretlandseyjum. Fjallað var um stöðu málsins á Bretlandi og á Íslandi, áhuga alþjóðlegra fjárfesta á þátttöku í fjármögnun strengsins sem og sjónarmið náttúruverndar á Íslandi og hagnað þjóðarinnar af slíkri tengingu. Áréttað var mikilvægi þess að kortleggja að hve miklu leyti núverandi orkuver á Íslandi myndu duga og hvers konar virkjanir þyrfti til viðbótar. Þá var einnig fjallað um reynslu Noregs á þessu sviði sem nýlega gerði samninga við Þýskaland og Bretland um slíka sæstrengi sem og þann hagnað sem sæstrengurinn frá Noregi til Hollands hefur þegar skapað án þess að ráðist væri í nokkrar nýjar virkjanir í Noregi.
13.01.2016 Forseti á fund með Unni Brá Konráðsdóttur sem er fulltrúi Alþingis í þingmannasamtökum Íslands, Grænlands og Færeyja. Rætt var um þróun Vestnorræna ráðsins og vaxandi mikilvægi Norðurslóða, þátttöku í fundum og þingum Arctic Circle sem og væntanlegan fund Vestnorræna ráðsins á Íslandi.
11.01.2016 Forseti tekur á móti hópi bandarískra guðfræðinema sem kynna sér starfsemi íslensku kirkjunnar, sess hennar í íslensku samfélagi, siði og venjur. Einnig var fjallað um áhrif kirkjunnar á íslenska sögu og menningu sem og lýðræðislegar kosningar innan hennar og þátttöku almennings í störfum kirkjunnar.
11.01.2016 Forseti á fund með Tómasi Knútssyni um árangur af starfi Bláa hersins og nauðsyn þess að halda áfram hreinsun strandlengjunnar í kringum Ísland og fjarlægja plast og annan þrávirkan úrgang sem skemmir hreinleika strandanna.
09.01.2016 Forseti sækir hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumeistara, sem haldinn er á Hilton hótelinu, og flytur ávarp í lok hans þar sem hann þakkar íslenskum matreiðslumeisturum fyrir mikinn árangur í þróun matargerðar, eflingu fjölþættra veitingahúsa og framlag þeirra til hins mikla vaxtar í ferðaþjónustunni á undanförnum árum. Mikilvægt væri að hlúa að menntun og þjálfun matreiðslumanna til að styrkja sess Íslands sem ferðamannalands og styrkja mannlíf og menningu.
08.01.2016 Forseti flytur ræðu í upphafi hátíðarkvöldverðar sem haldinn er í Kaupmannahöfn í tilefni af 100 ára afmæli Dansk-Islandsk Samfund sem verið hefur vettvangur margvíslegra verkefna í samvinnu Dana og Íslendinga. Jóakim prins og Marie prinsessa sátu einnig hátíðarkvöldverðinn ásamt forystumönnum félagsins fyrr og nú, Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta og fyrrverandi sendiherrum Íslands í Danmörku og Danmerkur á Íslandi. Veislustjóri var Uffe Ellemann-Jensen, fv. utanríkisráðherra Dana. Ræða forseta var flutt á dönsku. Ræða forsetaÍslensk útgáfa.
06.01.2016 Forseti er viðstaddur athöfn í Útvarpshúsinu þar sem veittar voru Menningarviðurkenningar RÚV. Auður Jónsdóttir hlaut viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins og fjórir styrkir voru veittir úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen. Þá var tilkynnt um orð ársins 2015 og Rás 2 veitti Krókinn fyrir tónlistarflutning á liðnu ári.
05.01.2016 Forseti á fund með starfsfólki Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle um væntanleg málþing í Québec og Grænlandi sem og undirbúning að þinginu sem haldið verður í Reykjavík í október.
05.01.2016 Forseti ræðir við blaðamann kínverska blaðsins People's Daily um samstarf landanna í tilefni af því að 45 ár eru liðin frá því tekið var upp stjórnmálasamband milli landanna. Rætt var um samstarf á sviði grænnar okru, einkum jarðhita, sem og rannsóknir á bráðnun íss á Norðurslóðum og hugsanlegar siglingar um norðurleiðina. Þá var einnig fjallað um þróun efnahagslífs og samfélags í Kína og hvernig samstarf landanna endurspeglar tækifæri stórra þjóða og smárra til að vinna sameiginlega að margvíslegum verkefnum.
04.01.2016 Forseti á fund með Árna Mathiesen, framkvæmdastjóra sjávarútvegsdeildar matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna FAO um mótun alþjóðlegrar stefnu um sjálfbæran sjávarútveg og hagræna nýtingu auðlinda hafsins. Þessi stefnumótun, sem nefnd hefur verið Blue Economy, hefur verið helsta áhersluefni FAO á undanförnum árum. Einnig var fjallað um þá kosti sem hafréttarsáttmálinn felur í sér til að skipuleggja ábyrgar og sjálfbærar veiðar um allan heim sem og hvernig reynsla, þekking og tækni sem Íslendingar búa að geti nýst á alþjóðlegum vettvangi.
03.01.2016 Forseti heldur jólatrésfagnað fyrir börn erlendra starfsmanna sendiráða á Íslandi, börn núverandi og fyrrverandi starfsmanna forsetaembættisins, þeirra sem aðstoða embættið á ýmsan hátt og fleiri.
02.01.2016 Forseti afhendir Íslensku bjartsýnisverðlaunin við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Ólafur Arnalds tónlistarmaður.
01.01.2016 Forseti tekur á móti ráðherrum, dómurum, alþingismönnum, sendiherrum, ræðismönnum, forystumönnum ríkisstofnana og embættismönnum, forystumönnum félagasamtaka, stéttarsamtaka og atvinnulífs sem og forystufólki íþrótta, menningar og lista.
01.01.2016 Forseti sæmir ellefu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fréttatilkynning
01.01.2016 Forseti flytur nýársávarp sem er útvarpað og sjónvarpað frá Bessastöðum. Ávarp forsetaEnsk þýðing.