Veftré Print page English

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta


Hér birtist skrá yfir ýmsa atburði í dagskrá forseta en auk þeirra sem hér eru nefndir er fjöldi annarra þátta sem ekki eru tilgreindir,  t.d. fundir með ráðherrum og embættismönnum, fulltrúum fyrirtækja og samtaka og fjölmörgum einstaklingum með margvísleg erindi og erlendum gestum sem til Íslands koma. Þá sækir forsetinn jafnframt fjölda menningarviðburða sem ekki eru raktir hér, s.s. leiksýningar, myndlistasýningar, tónleika og aðra mannfagnaði.

 

Árið 2008

 

Janúar

01.01.2008 Forseti flytur áramótaávarp sem sent er út í sjónvarpi (RÚV). Flutningur
01.01.2008 Forseti sæmir ellefu Íslendinga riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Fréttatilkynning. Mynd
01.01.2008 Forseti efnir til nýársmóttöku fyrir ráðherra, hæstaréttardómara, alþingismenn, sendiherra, ræðismenn, forystumenn ríkisstofnana og embættismenn, forystumenn félagasamtaka, stéttarsamtaka og atvinnulífs og aðra gesti.
03.01.2008 Forseti býður til jólatrésfagnaðar á Bessastöðum fyrir börn starfsmanna erlendra sendiráða, utanríkisráðuneytisins og forsetaembættisins, fjölskyldu og vini.
04.01.2008 Tímaritið Mannlíf velur forseta Íslending ársins 2007 og birtir viðtal við hann.
10.01.2008

Dorrit Moussaieff forsetafrú afhendir Eyrrarrósina, verðlaun fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, á Bessastöðum. Forsetafrúin er sérstakur verndari Eyrarrósarinnar.

12.01.2008 Sendiherra Lúxemborgar hr. Hubert Wurth afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd
12.01.2008 Sendiherra Austurríkis dr. Erwin Kubesch afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd
12.01.2008 Sendiherra Sviss hr. Denis Feldmeyer afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd
12.01.2008 Sendiherra Tékklands dr. Luboš Nový afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd
12.01.2008 Sendiherra Níger hr. Abdou Abarry afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd
21.01.2008 Forseti flutti ræðu á opnunarfundi Heimsráðstefnu um framtíð orkumála í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fréttatilkynning. Myndir
23.01.2008 Opinber heimsókn forseta til Katars. Myndir.  Fréttatilkynning
26.01.2008 Forseti opnar yfirlitssýningu á verkum færeyska listmálarans Mikines og sýningu á verkum Nínu Sæmundson í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. Ávarp.
29.01.2008 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem haldin er í tilefni af áttatíu ára afmæli samtakanna. Jafnframt afhendir forseti heiðursviðurkenningar.
30.01.2008 Forseti afhendir styrk úr vísinda- og rannsóknarsjóði Fræðslunets Suðurlands. Athöfnin fer fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands.
30.01.2008 Forseti sendir yfirvöldum mormónakirkjunnar samúðarkveðjur vegna andláts forseta hennar Gordon B. Hinckley. Hann ræktaði sérstaklega tengsl við Ísland, kom í heimsókn til landsins og var þátttakandi í hátíðarhöldum í Spanish Fork í Utah þegar þess var minnst að 150 ár voru liðin frá því að íslenskir landnemar settust þar að, en það er elsta landnám Íslendinga í Vesturheimi.
30.01.2008 Forseti skipar í dómnefnd Íslensku menntaverðlaunanna.
30.01.2008 Forseti situr hádegisverð í boði erlendra sendiherra á Íslandi þar sem fjallað er um stöðu Íslands í veröldinni, þróun heimsmála og helstu verkefni á alþjóðavettvangi. Einnig er fjallað um framlag Íslands til breytingar á orkunýtingu víða um heim og þróun íslensks efnahagslífs og viðskipta á undanförnum árum.
31.01.2008 Forseti afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2007 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin hlutu í flokki fagurbókmennta Sigurður Pálsson fyrir bókina Minnisbók og í flokki fræðirita og bóka almenns efnis Þorsteinn Þorsteinsson fyrir bókina Ljóðhús - þættir um skáldskap Sigfúsar Daðasonar.
31.01.2008 Forseti á fund með Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni fyrrverandi stjórnarformanni Landsvirkjunar um Global Roundtable on Climate Change en forseti átti ásamt Jeffrey Sachs þátt í að ýta því úr vör. Næsti fundur GROCC verður haldinn í New York bráðlega.
31.01.2008 Forseti á fund með formanni Bændasamtakanna Haraldi Benediktssyni og framkvæmdastjóra samtakanna Eiríki Blöndal um væntanlegt Búnaðarþing og stöðu landbúnaðarins.

Febrúar

01.02.2008 Forseti á fund með Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands og fulltrúum skólans um alþjóðlega lýðheilsuráðstefnu sem haldin verður á Íslandi í vor. Einnig var rætt um væntanlega ferð sendinefndar háskólans til Indlands í næstu viku en hún verður þar ásamt forseta á heimsþingi TERI.
01.02.2008 Forseti á fund um kynningu á ungu íslensku listafólki, einkum á sviði tónlistar, myndlistar og hönnunar en unnið er að útkomu bókar um það efni.
01.02.2008 Forseti á fund með Auði Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðingi og öðrum forystumönnum Mænuskaðastofnunar Íslands sem ætlað er að efla rannsóknir og tilraunir á sviði læknisfræði með víðtæku alþjóðlegu samstarfi.
01.02.2008 Forseti á fund med forstöðumanni Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna Ingvari Birgi Friðleifssyni þar sem rætt var um væntanlegt fræðsluþing skólans í Kína og þátttöku Indverja í því. Einnig var fjallað um greinargerð um jarðhita sem unnið er að á vegum loftslagsnefndar
Sameinuðu þjóðanna IPCC.
01.02.2008 Forseti ýtir úr vör söfnun ABC barnahjálpar ásamt börnum úr Rimaskóla sem komu til Bessastaða í þessu skyni. Söfnuninni nú er ætlað að styrkja barnaskóla í Kenýa og Pakistan.
02.02.2008 Forseti sækir þorrablót eldri borgara í Kópavogi og ávarpar gesti.
02.02.2008 Forseti tekur þátt í verðlaunahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík sem haldin er í Ráðhúsi Reykjavíkur en forseti er verndari hátíðarinnar. Þar verða heiðraðir þeir sem skarað hafa fram úr á þessum vettvangi.
02.02.2008 Forseti á fund með Davíð Á. Gunnarssyni fyrrum ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu um verkefni í heilbrigðismálum í þróunarlöndum og nýjar leiðir í þeim efnum.
03.02.2008 Forseti á fund með fulltrúum nefndar sem vinnur að hugmyndum og mótun tillagna um ímynd Íslands.
04.02.2008 Forseti á símafund með Lassi Heininen prófessor í Rovaniemi, Þorsteini Gunnarssyni rektor Háskólans á Akureyri og fleiri forystumönnum Rannsóknarþings norðursins um væntanlegt þing sem haldið verður í Alaska í september, dagskrá þess og skipulag, sem og hugmyndir um þarnæsta þing sem haldið verður í Noregi árið 2010.
07.02.2008 Forseti tekur þátt í mörgum fundum og viðburðum í Nýju Delí þar sem hann er meðal ræðumanna á setningarathöfn Delíráðstefnunnar um sjálfbæra þróun. Aðaláhersla á ráðstefnunni var lögð á baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Myndir. Fréttatilkynning.
09.02.2008 Forseti á viðræðufund með Soniu Gandhi, leiðtoga Kongressflokksins, á heimili hennar í Nýju Delhi. Mynd. Fréttatilkynning.
12.02.2008 Forseti tekur þátt í símafundi stjórnar Special Olympics þar sem meðal annars var rætt um árangurinn af heimsleikunum í Shanghai og undirbúning vetrarleikanna í Sun Valley í Bandaríkjunum árið 2009 sem og margvíslegar aðgerðir samtakanna til að styrkja íþróttastarf seinfærra og þroskaheftra víða í veröldinni. Heimsleikarnir í Shanghai hafa tvímælalaust orðið til að styrkja Special Olympics allverulega. Möguleikar samtakanna til þess að þjóna íþróttafólki með sérþarfir hafa aukist umtalsvert. Íþróttasamband fatlaðra á Ísland er aðili að Special Olympics og var með öfluga sveit þátttakenda á leikunum í Shanghai.
18.02.2008 Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Markmið þeirra er að verðlauna námsmenn sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verðlaunin hlaut verkefnið Rafskautanet fyrir fingurendurhæfi en það er unnið af Örnu Óskarsdóttur og Tinnu Ósk Þórarinsdóttur. Fimm önnur verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna. Fréttatilkynning
18.02.2008 Forseti tekur þátt í undirbúningsfundi aðila sem hafa verið að skipuleggja ráðstefnu um skipalestir á norðurslóðum í síðari heimsstyrjöldinni, Arctic Convoys.
18.02.2008 Forseti ræðir undirbúning að sérstöku málþingi sem haldið verður á næstunni um árangur Forvarnardagsins 2007, áherslur og svör sem ungmenni í öllum grunnskólum landsins létu í té.
19.02.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Malasíu á Íslandi, hr. Dato' Kamarudin bin Mustafa, sem afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukna áherslu Íslands á samstarfi við ríki í Asíu og lýsti sendiherra hvernig Malasía hefur nýtt sér árangur af reynslu Íslendinga í sjávarútvegi. Þá var einnig rætt um samstarf á ýmsum öðrum sviðum, svo sem menntun, rannsóknum og lyfjaframleiðslu. Mynd.
19.02.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Ungverjalands á Íslandi, hr. Lajos Bozi, sem afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um árangurinn af opinberri heimsókn forseta til Ungverjalands fyrir nokkrum árum og minntist forseti einnig þátttöku sinnar í hátíðarhöldunum árið 2006 þegar 50 ár voru liðin frá uppreisninni í Ungverjalandi. Jarðhitaauðlindir í Ungverjalandi skapa möguleika á samstarfi í orkumálum. Mynd
19.02.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Suður-Kóreu á Íslandi, hr. Byung-koo Choi, sem afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um traust viðskipti þjóðanna og möguleika á að auka samskipti á komandi árum. Mynd.
21.02.2008 Forseti flytur erindi um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á málþingi sem fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum efndi til í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Í kjölfar blaðamannafundarins átti netsjónvarpsmiðillinn Icastnews viðtal við forseta og má nálgast þær samræður á netslóðinni www.icastnews.com. Fréttatilkynning.
24.02.2008 Forseti á fund með Arnold Schwarzenegger ríkisstjóra Kaliforníu um nýtingu jarðhita í Kaliforníu og hvernig samvinna við íslenska vísindamenn, sérfræðinga og fyrirtæki gæti orðið þáttur í því að ríkið næði lögbundnum markmiðum sínum um minnkun mengandi útblásturs.
26.02.2008 Forseti afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins. Til þeirra var stofnað fyrir nokkrum árum. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum auk sérstakra heiðursverðlauna.
26.02.2008 Forseti tekur á móti hópi unglinga frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) sem komu í vettvangsheimsókn til Bessastaða.
27.02.2008 Forseti á fund með stjórn Hafnarsamlags Norðurlands á Akureyri þar sem fjallað er um nýja norðursiglingaleið. Líklegt er að á næstu árum muni bráðnun íss vegna loftslagsbreytinga opna nýja siglingaleið í norðri frá Asíu til Evrópu og Ameríku. Slíkar breytingar færa Íslandi margvísleg tækifæri.
27.02.2008 Forseti heimsækir Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit sem hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2007. Í upphafi heimsóknarinnar var dagskrá í íþróttasal skólans þar sem nemendur lásu upp og sungu, forseti flutti ávarp og svaraði fjölmörgum spurningum nemenda. Þá gengu forsetahjónin um kennslustofur skólans og kynntu sér starfsemi sem fram fer í ólíkum aldursflokkum. Að lokum snæddu þau hádegisverð í matsal skólans ásamt nemendum, skólanefndinni, sveitarstjórnarmönnum í Eyjafjarðarsveit og fulltrúum sparisjóðanna sem eru styrktaraðili Íslensku menntaverðlaunanna. Myndir.
28.02.2008 Forseti á fund með skipuleggjendum alþjóðlegrar ráðstefnu um sjálfbæra umferð, "Driving sustainability", sem haldin verður í Reykjavík í haust en fyrsta ráðstefnan þeirrar tegundar var haldin 2007 og skilaði miklum árangri. Þátttakendur eru vísindamenn, sérfræðingar, fulltrúar fyrirtækja og borga.
28.02.2008 Forseti á fund með forstöðumönnum Rauða krossins, Kristjáni Sturlusyni og Ómari Kristmundssyni, um árangurinn af landskynningu á sjálfboðastarfi Rauða krossins sem fram fór síðastliðið haust og þá lærdóma sem draga má af henni. Einnig var rætt um alþjóðaverkefni Rauða krossins bæði í Afríku og Palestínu sem og væntanlegan fund helstu aðildarríkja Rauða krossins sem haldinn verður á Íslandi í haust.
28.02.2008 Forseti á fund með bæjarstjóra Kópavogs, Gunnari I. Birgissyni, um væntanlega menningarhátíð í Kópavogi sem haldin verður í haust.
29.02.2008 Forseti á fund með Jóni Ólafi Magnússyni um loftslagsbreytingar og hugmyndir um leiðangur á Suðurskautið til að kanna nánar þær breytingar sem þar eru að verða með bráðnun íss.
29.02.2008 Forseti á fund með skipuleggjendum alþjóðlegrar fræðaráðstefnu um norðursiglingar í síðari heimsstyrjöldinni, Arctic Convoys, en ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands 9.-13. júlí næstkomandi.
29.02.2008 Forseti á fund um skipulag málþings um Forvarnardaginn 2007 þar sem kynntar verða niðurstöður úr svörum nemenda 9. bekkjar í öllum grunnskólum landsins. Ráðstefnan verður haldin í Reykjavík fimmtudaginn 3. apríl.

Mars

02.03.2008 Forseti flytur hátíðarræðu á Búnaðarþingi. Efni ræðunnar er sáttmáli um fæðuöryggi Íslendinga.
03.03.2008 Forseti sendir heillaóskir til nýkjörins forseta Rússlands Dimitri Medvedev. Fréttatilkynning
04.03.2008 Forseti veitir viðtal við sjónvarpsþátt um vistvæna orku sem verið er að vinna að á vegum orkufyrirtækja.
05.03.2008 Forseti afhendir sérstök heiðursverðlaun á hátíðarsamkomu þar sem menningarverðlaun DV í ýmsum greinum eru kynnt.
05.03.2008 Forseti á fund með David Carlson framkvæmdastjóra Alþjóðlega heimskautaársins International Polar Year og Þorsteini Gunnarssyni rektor Háskólans á Akureyri um árangurinn sem árið hefur skilað og hvernig unnt er að tryggja framhald mikilvægra rannsókna, einkum hvaða hlutverki Ísland getur gegnt í að samtengja rannsóknarstarf á Norðurslóðum með sérstöku tilliti til heimskautanna.
06.03.2008 Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú halda í opinbera heimsókn til Mexíkó eftir helgina og stendur hún dagana 11.-13. mars. Fréttatilkynning.
06.03.2008 Forseti á fund með fulltrúum bandarískra fjárfesta um skipulag heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum. Rætt var um þá lærdóma sem heilbrigðisþjónusta annarra landa getur sótt til Íslands og annarra Norðurlanda.
06.03.2008 Forseti ræðir við Svein Helgason fréttamann Ríkisútvarpsins um framboð Íslands til Öryggisráðsins.
07.03.2008 Hátíðarkvöldverður á Bessastöðum í boði forseta Íslands. Meðal gesta eru ráðherrar, erlendir sendiherrar, formenn stjórnmálaflokka og forystumenn ýmissa ríkisstofnana.
08.03.2008 Forseti tekur þátt í fundi Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins sem haldinn er á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Fundurinn bar heitið "Konur um heim allan - Samstaða og samstarf".
09.03.2008 Forseti á fund með utanríkisráðherra Líberíu Olubanke King-Akerele og fulltrúum Unifem á Íslandi. Rætt var um baráttuna gegn fátækt í Afríku og hvaða lærdóma þróunin á Íslandi á 20. öld getur fært smáum og meðalstórum þróunarríkjum.
11.03.2008 Fyrsti dagur opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Mexíkó.
Forseti situr fund Útflutningsráðs um viðskipti milli Íslands og Mexíkó ásamt fulltrúum fyrirtækja og sendiherrum. Þvínæst leggur hann blómsveig frá íslensku þjóðinni við minnismerki um frelsishetjur Mexíkó og er viðstaddur opinbera móttökuathöfn (sjá ræðu forseta við það tækifæri). Að loknum fundi forsetanna er viðræðufundur milli sendinefnda Íslands og Mexíkó og síðan er forseti viðstaddur undirritun tvísköttunarsamnings milli landanna. Að þeirri athöfn lokinni ávarpa forsetarnir fréttamenn en að því loknu er gengið til opinbers hádegisverðar til heiðurs forseta Íslands (sjá ræðu hans). Myndir.
12.03.2008 Viðtal við forseta um framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sent út í morgunútvarpi RÚV.
12.03.2008 Annar dagur opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Mexíkó.
Forseti situr morgunverðarfund  í Mexíkóborg um nýtingu jarðhita með fulltrúum fyrirtækja og stjórnvalda; einnig situr hann blaðamannafund þar sem undirritaður er samningur milli Latabæjar og Wal-Mart í Mexíkó. Forseti heimsækir tækniháskóla, ITESM, sem er deild Tækniháskólans í Monterrey, og heldur þar fyrirlestur um loftslagsbreytingar og reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita. Fyrirlesturinn
13.03.2008 Þriðji dagur opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Mexíkó.
Forseti fer til Veracruzríkis þar sem ríkisstjórinn Fidel Herrera Beltrán tekur á móti honum. Að lokinni móttökuathöfn á flugvellinum áttu forseti Íslands og Fidel Herrera fund ásamt embættismönnum og fulltrúum íslenskra háskóla og fyrirtækja á El Lencero búgarðinum. Þvínæst skoðaði forseti nýjan lystigarð við bókasafn Veracruzháskóla og sótti fund um samstarf Íslands og Veracruz með fulltrúum ríkisins og vísindamönnum. Þá flytur forseti fyrirlestur í Umhverfisstofnun Mexíkó í Xalapa um loftslagsbreytingar og reynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita, situr hátíðarhádegisverð í Mannfræðisafni Veracruz og tekur þátt í viðræðuþætti í sjónvarpinu þar. Myndir.
19.03.2008 Forseti á fund með skipuleggjendum Rannsóknarþings norðursins, NRF, sem haldið verður í Alaska í september en skrifstofa þess er í háskólanum á Akureyri.
19.03.2008 Forseti tekur á móti hópi grunnskólanemenda frá Katar sem eru í námsferð á Íslandi og munu ferðast um landið næstu daga, skoða náttúru þess og kynna sér þjóðfélagshætti. Forseti fór fyrr á árinu í opinbera heimsókn til Katar.
19.03.2008 Forseti sækir hátíð Íslensku tónlistarverðlaunana í Borgarleikhúsinu.
25.03.2008 Forseti heimsækir fyrirtækið 3X Technology á Ísafirði sem hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2006 fyrir ágætan árangur sem fyrirtækið hafði náð á skömmum tíma í sölu og markaðsetningu á sérhönnuðum tækjum og tækjalausnum fyrir matvælaiðnaðinn. Fréttatilkynning. Hlusta á útvarpsviðtal um heimsóknina.
26.03.2008 Forseti er í viðtali við sjónvarpsþáttinn Angry Planet sem sýndur er í mörgum löndum. Fjallað var um íslenska náttúru, þróun nýtingar hreinnar orku og þá lærdóma sem aðrar þjóðir geta dregið af reynslu
Íslendinga.
28.03.2008 Forseti á fund með Helga Björnssyni prófessor og Dagfinni Sveinbjörnssyni þróunarhagfræðingi um ferð þeirra með forseta til Indlands og viðræður við forystumenn í Sikkim héraði og indverska jöklafræðinga um áhrif loftslagsbreytinga á jöklana í Himalayafjöllum. Nauðsynlegt er að efla indverskar og alþjóðlegar rannsóknir á þessari þróun sem haft getur afgerandi áhrif á lífsafkomu rúmlega milljarðs jarðarbúa.
28.03.2008 Forseti á fund með Alexander Borodin um alþjóðlegan leiðangur um Suðurskautið á næsta vetri þar sem komið verður fyrir alþjóðlegum veðurathugunarstöðvum. Einnig var rætt um ráðstefnu sem haldin verður á Íslandi næsta sumar þar sem fjallað verður um norðursiglingar í síðari heimsstyrjöldinni, Arctic Convoys; auk þess rakti Borodin áform um djúpkafanir við Íslandsstrendur til að leita að flökum rússneskra skipa sem fórust í síðari heimsstyrjöldinni.
30.03.2008 Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegri ráðstefnu, Global Health, sem haldin er í Háskóla Íslands. Forseti flutti fyrirlestur um loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á heilsu og heilbrigði og hvernig alþjóðasamfélagið getur brugðist við þeim ógnum sem við blasa ef ekki tekst að koma í veg fyrir varanlegar loftslagsbreytingar.

Apríl

01.04.2008 Forseti flutti fyrirlestur á vegum Carnegie Council í New York, en sú stofnun er virtur alþjóðlegur vettvangur. Fyrirlesturinn sóttu sendiherrar ríkja hjá Sameinuðu þjóðunum og fjölmargir sérfræðingar og áhrifamenn í alþjóðamálum. Fyrirlestur forseta. Fréttatilkynning. Hljóðupptaka
02.04.2008 Forseti er í viðtali við síðdegisútvarp Bylgjunnar um aukna notkun rafbíla og hvernig hún getur sparað heimilum og þjóðarbúi verulega fjármuni.
03.04.2008 Forseti setur ráðstefnu um niðurstöður Forvarnardagsins, tekur þátt í umræðum og flytur ávarp í lok hennar.
04.04.2008 Forseti flytur ávarp á þingi VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
05.04.2008 Forseti á fund með Guðmundi Alfreðssyni þjóðréttarfræðingi um heimskautarétt, skipulegt nám í þeirri grein við Háskólann á Akureyri og samstarf fræðimanna á alþjóðlegum vettvangi.
06.04.2008 Forseti tekur á móti þátttakendum í ráðstefnu um afvopnunarsamninga sem East-West stofnunin heldur á Íslandi. Ráðstefnuna sækja sérfræðingar og embættismenn frá ýmsum löndum, m.a. Bandaríkjunum og Rússlandi.
06.04.2008 Forseti afhendir nýjan bikar á Íslandsmeistaramóti Sundsambands Íslands. Bikarinn ber heitið Ásgeirsbikarinn og er gefinn af forseta í minningu um Ásgeir Ásgeirsson forseta Íslands 1952-1968 en hann var mikill áhugamaður um sundíþróttina. Bikarinn er farandbikar sem veittur verður næstu 50 ár og leysir af hólmi bikar sem Ásgeir gaf fyrir 50 árum.
06.04.2008 Forseti sækir afmælissýningu Perlunnar en um þessar mundir er 25 ára afmæli leikhópsins. Sérstök kveðja frá forseta var birt í sýningarskrá. Afmæliskveðja forseta.
08.04.2008 Forseti sendir kveðju á hátíð sem haldin er í Osló vegna útgáfu Noregssögu Þormóðs Torfasonar. Haraldur Noregskonungur er viðstaddur hátíðina ásamt fræðimönnum og háskólafólki. Kveðja á íslensku. Kveðja á norsku.
08.04.2008 Forseti tekur þátt í heimsókn Al Gore í Hitaveitu Suðurnesja og Bláa lónið, og í vinnuhádegisverði sem haldinn var í boði Glitnis þar sem fjallað var um fjárfestingar í orkumálum, einkum jarðhita.
08.04.2008 Forseti flytur ávarp í upphafi fundar Al Gore um loftslagsbreytingar en fundurinn var haldinn í Háskólabíói á vegum Glitnis og Háskóla Íslands.
11.04.2008 Forseti flytur aðalræðu á ráðstefnu í Andorra og fjallaði hún um tækifæri smárra ríkja í hagkerfi veraldarinnar.
13.04.2008 Forseti tekur á móti stjórnendum í viðskiptaneti fyrirtækisins Össurar en þeir koma frá Evrópu, Bandaríkjunum og Kína. Starfsemin hefur eflst mjög um allan heim á undanförnum árum.
14.04.2008 Forseti afhenti ,,Hvatningu til ungra Íslendinga" á fjölskylduhátíð sem haldin var í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í tilefni af opinberri heimsókn forsetahjóna til Skagafjarðar. Nöfn þeirra sem hlutu Hvatninguna.
14.04.2008 Forseti flytur ræðu á fjölskylduhátíð í íþróttahúsinu á Sauðárkróki.
14.04.2008 Forsetahjónin hefja opinbera heimsókn í Skagafjörð með fjölþættri dagskrá á Sauðárkróki. Nánari lýsingu á dagskránni er að finna hér: Fréttatilkynning. Dagskrá. Myndir
15.04.2008 Forseti flytur setningarávarp á ráðstefnu sem haldin er í Háskólanum á Hólum. Ráðstefnan ber heitið: Sjálfbær þróun: Íslensk náttúra, menning og þekking í alþjóðasamhengi. Ráðstefnan er liður í fundaröð um framboð Íslands til Öryggisráðsins og forseti tók þátt í henni meðan á opinberri heimsókn til Skagafjarðar stóð.
17.04.2008 Forseti afhendir heiðursviðurkenningar Félags tónskálda og textahöfunda í lok hátíðartónleika sem báru heitið Bláu augun þín. Heiðursviðurkenningarnar hlutu Ólafur Gaukur Þórhallsson, Ólafur Haukur Símonarson og Gunnar Þórðarson.
18.04.2008 Forseti á fund með fulltrúum fyrirtækisins Greenstone sem áforma að reisa hátæknivætt netþjónabú í Þorlákshöfn. Undirritaðir voru samningar við Landsvirkjun og Farice um verkefnið. Rætt var um hvernig Ísland getur nýtt sér margvísleg tækifæri í upplýsingatækni en rekstur netþjónabúa þjónar í senn heimsmarkaði og laðar að margvísleg önnur fyrirtæki. Framboð á hreinni orku styrkir stöðu Íslands á þessum vettvangi.
18.04.2008 Forseti er viðstaddur opnun ljósmyndasýningar frá Mexíkó í Háskólanum í Reykjavík. Sýndar eru myndar Lindu Lasky af fornminjum og fólki víða í Mexíkó. Sendiherra Mexíkó á Íslandi Martha Bárcena og forseti fluttu ávörp við opnunina.
18.04.2008 Forseti á fund með Gunnari Birgissyni bæjarstjóra Kópavogs um menningarhátíð sem haldin verður í haust en hún er helguð Ekvador. Rætt var um dagskrá hátíðarinnar en nýlega fór sendinefnd frá Kópavogi til Ekvador og átti þar viðræður við fjölmarga áhrifamenn.
21.04.2008 Forseti tekur þátt í upptöku sjónvarpsþáttarins Principal Voices á CNN og ræðir við sjónvarpsfréttamanninn Charles Hodson. Þátturinn verður væntanlega sýndur á heimsrás CNN í júní.
22.04.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Angóla á Íslandi, dr. Domingos Culolo, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukna áherslu Íslands á samskipti við ríki Afríku og hvernig Ísland geti orðið að liði á ýmsum sviðum. Sendiherrann lýsti sérstökum áhuga á þjálfun fólks í sjávarútvegi og aðkomu að orkufjárfestingum í Angóla. Þá var rætt um lærdómana af baráttu Angóla við erlenda nýlenduherra og glímunni við borgarastyrjöld í landinu ásamt nauðsyn þess að friðsamleg lausn fyndist á deilumálum í álfunni. Mynd
22.04.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Páfagarðs á Íslandi, Monsignor Emil Paul Tscherrig, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um hina ríku hlutdeild kaþólskrar kirkju í sögu Íslendinga og fjölgun kaþólskra á Íslandi á undanförnum árum, mikilvægi þess að kaþólska kirkjan auðveldaði fólki af erlendum uppruna að laga sig að íslenskum aðstæðum. Einnig var rætt um heimsókn Jóhannesar Páls páfa árið 1989 en sendiherrann var meðal þeirra sem undirbjuggu heimsóknina af hálfu Páfagarðs. Einnig var fjallað um sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur og hugmynd forseta um að færa Páfagarði styttu af Guðríði til minningar um ferðir hennar fyrir um 1000 árum en hún var fyrsta manneskjan í veraldarsögunni sem heimsótti bæði Róm og Ameríku. Mynd.
22.04.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Albaníu á Íslandi, hr. Ruhi E. Hado, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukna samvinnu landanna og m.a. áhuga Landsvirkjunar á að taka þátt í nýtingu vatnsafls í Albaníu. Sendiherrann áréttaði einnig nauðsyn þess að Albanía yrði fullgildur aðili að samtökum vestrænna ríkja, bæði á sviði varnarmála og efnahagsmála. Mynd.
22.04.2008 Forseti á fund með Mahmoud Abbas forseta palestínsku stjórnarinnnar og sendinefnd hans á Bessastöðum. Rætt var um samningaferlið í Miðausturlöndum og horfurnar í friðarviðræðunum, afstöðu Bandaríkjanna og Ísraels og hvernig smærri þjóðir gætu lagt sitt af mörkum, m.a. með aðstoð við efnahagslega uppbyggingu og félagslega þróun. Lýsti Abbas áhuga á að Íslendingar létu að sér kveða í Palestínu og tækju þar þátt í ýmsum verkefnum. Að loknum fundi forsetanna ræddu þeir við fréttamenn og síðan var hádegisverður í boði forseta en þar voru á meðal gesta Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og formenn allra þingflokka ásamt formanni félagsins Ísland-Palestína. Myndir.
28.04.2008 Forseti á fund með Þórarni Jónassyni, hestabónda og stjórnanda ferðaþjónustunnar í Laxnesi, um þróun hestaferða á undanförnum áratugum og framtíð þessarar mikilvægu greinar ferðaþjónustunnar. Hestaferðir í Laxnesi fagna um þessar mundir 40 ára starfsafmæli.
30.04.2008 Forseti á fund með fulltrúum fjárfestingafyrirtækisins HydroKraft Invest sem er sameign Landsvirkjunar og Landsbankans um verkefni á sviði hreinnar orku í ýmsum löndum.

Maí

02.05.2008 Forseti tekur á móti hópi danskra Oddfellowkvenna sem eru í heimsókn á Íslandi og voru í fylgd íslenskra kvenna í Oddfellowreglunni.
02.05.2008 Forseti á fund um íslenskt viðskiptalíf með fulltrúa bandarískra fjárfestingaraðila.
02.05.2008 Forseti á fund með sendiherra Kanada, Anna Blauveldt, um tengsl landanna, sameiginleg verkefni og hvernig hægt sé að minnast sameiginlegrar sögu Íslands og Kanada.
03.05.2008 Forseti tekur á móti forsetabifreið Sveins Björnssonar sem nýlega hefur verið endurgerð. Bifreiðin er af Packard-gerð, frá árinu 1942, og var fyrsta forsetabifreiðin, notuð á upphafsárum Sveins Björnssonar í embætti forseta Íslands. Hún var keypt notuð frá Bandaríkjunum en bifreið sömu gerðar hafði verið gjöf Roosevelts forseta til Sveins Björnssonar en hún var um borð í Goðafossi þegar skipið var skotið í kaf í nóvember 1944. Bifreiðin er eign Þjóðminjasafns Íslands en verður geymd á Bessastöðum og notuð og sýnd við sérstök tækifæri.
05.05.2008 Forseti tekur á móti Friðrik krónprins Danmerkur og Mary krónprinsessu á Bessastöðum. Heimsóknin stendur næstu daga. Dagskrá heimsóknarinnar.
08.05.2008 Forseti á fund með orkumálaráðherra Tyrklands dr. Mehmet Hilmi Güler og sendinefnd hans en ráðherrann er í heimsókn á Íslandi í boði iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar. Í viðræðunum tóku einnig þátt fulltrúar íslenskra orkustofnana, fjárfestingaraðila og orkufyrirtækja. Rætt var um fjölþætta möguleika á samvinnu Íslendinga og Tyrkja við nýtingu jarðhita, byggingu vatnsaflsvirkjana og í vetnismálum. Heimsóknin er í framhaldi af viðræðum sem forseti Íslands átti í Istanbul í Tyrklandi í fyrra við forseta Tyrklands, forsætisráðherra og orkumálaráðherra. Fréttatilkynning um heimsóknina í fyrra.
13.05.2008 Forseti sendir forseta Kína Hu Jintao samúðarkveðju vegna hinna hræðilegu hörmunga sem orðið hafa í kjölfar jarðskjálftanna í Kína. Atburðirnir hafi skapað öldu samúðar og stuðnings um allan heim. Hugur okkar sé með fjölskyldum og vinum þeirra sem létu lífið eða slösuðust alvarlega. Þess sé óskandi að komandi ár færi þeim á ný styrk og von. Fréttatilkynning.
14.05.2008 Forseti tekur á móti orku- og umhverfisnefnd norska Stórþingsins sem heimsækir Ísland. Rætt var um árangur Íslands og Noregs í nýtingu hreinnar orku og nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu á því sviði til að koma í veg fyrir varanlegar loftslagsbreytingar. Einnig var fjallað um rannsóknir á Norðurslóðum og brýn verkefni sem þar blasa við en þau knýja á um enn víðtækari samvinnu Noregs og Íslands en áður.
15.05.2008 Forseti tekur á móti forystusveit Listahátíðar, aðstandendum og stuðningsaðilum ásamt fjölmennri sveit listamanna sem tengjast Listahátíð í Reykjavík 2008. Að því loknu er forseti viðstaddur opnun Listahátíðar í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu.
16.05.2008 Forseti sækir opnun myndlistarsýninga á Akureyri, Egilsstöðum og Eiðum sem tengdar eru Listahátíð í Reykjavík. Skipulögð var sérstök hringferð á þessa viðburði, svonefnt Oddaflug.
16.05.2008 Forseti sækir fjölmargar myndlistarsýningar sem opnaðar eru á öðrum degi Listahátíðar í Reykjavík. Forseti er verndari hátíðarinnar.
16.05.2008 Forseti afhendir viðurkenningarskjöl vegna tilnefninga til leiklistarverðlaunanna Grímunnar. Athöfnin fór fram í Þjóðleikhúsinu og flutti forseti ávarp í upphafi.
20.05.2008 Forseti á fundi í Doha höfuðborg Katars með hans hátign emírnum af Katar, Sheikh Hamad Bin Khalifa Al Thani og Amr Moussa framkvæmdastjóra Arababandalagsins. Fréttatilkynning.
21.05.2008 Forseti tekur þátt í umræðuþætti á vegum sjónvarpsstöðvarinnar CNN og tímaritanna Time og Fortune. Þátturinn var tekinn upp í Doha, höfuðborg Katars, og er liður í umfjöllun CNN og tímaritanna tveggja um þróun orkumála, hagvöxt í heiminum á komandi áratugum og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Fréttatilkynning.
26.05.2008 Forseti tekur á móti þátttakendum í þingi Evrópusambands MS-félaga og ræðir um þróun heilbrigðisþjónustu og læknavísinda, hagsmuni MS-félaga og mikilvægi virkrar þátttöku almannafélaga í þróun heilbrigðisþjónustu.
27.05.2008 Forseti tekur á móti sendinefnd frá borginni Seattle í Bandaríkjunum sem er systurborg Reykjavíkur. Í sendinefndinni voru þátttakendur af íslenskum uppruna og embættismenn og forystumenn í Seattle, svo og Jón Marvin Jónsson ræðismaður Íslands í Seattle.
27.05.2008 Forseti á fund með Páli Á. Davíðssyni sérfræðingi við lagadeild Háskólans í Reykjavík um nýja miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, Eþikos, sem stofnuð hefur verið við Háskólann í Reykjavík.
27.05.2008 Forseti ræðir við blaðamann frá bandaríska tímaritinu Harper's um þróun lýðræðis á Íslandi, stöðu smárra ríkja í veröldinni, þróun í menningu, menntun og viðskiptalífi og hvaða lærdóma bæir, borgir og byggðarlög í Bandaríkjunum geta dregið af reynslu Íslands og annarra smærri ríkja.
28.05.2008 Forseti á fund með  Halldóri Guðmundssyni um bókakaupstefnuna í Frankfurt og kynningu á íslenskum bókmenntum í Þýskalandi. Forseti fer í opinbera heimsókn til Þýskalands í október og Ísland verður í heiðurssæti á kaupstefnunni árið 2011.
28.05.2008 Forseti á fund með bandaríska vísindamanninum Jeffrey M. Smith um erfðatækni og áhrif hennar á umhverfi og heilsufar en hann hefur ferðast víða um heim til þess að kynna rannsóknir sínar og fræðiritið Genetic Roulette sem helgað er lýsingu á þeim áhættuþáttum sem tengjast framleiðslu á erfðabreyttum matvælum.
28.05.2008 Forseti ræðir við Krista Mahr blaðamann frá tímaritinu Time um framlag Íslands til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og hvernig þekking við nýtingu jarðhita getur nýst öðrum þjóðum.
29.05.2008 Forseti heimsækir Hveragerði og Selfoss í kjölfar jarðskjálftanna sem urðu á Suðurlandi og kynnti sér afleiðingar skjálftanna, ræddi við íbúa, bæði í skólum þar sem fólk hafði safnast saman, á eilliheimilinu í Hveragerði og á heimilum íbúa en mikill fjöldi heimila var nánast í rúst eftir jarðskjálftana. Einnig ræddi forseti við björgunarfólk, hjálparstarfsmenn og lögreglu en fjölmennar sveitir frá Rauða krossinum og Landsbjörg voru á svæðinu.
29.05.2008 Forseti tekur á móti fulltrúum á þingi evrópskra veðurstofustjóra sem nú er haldið á Íslandi. Rætt var um nauðsyn aukinna rannsókna á veðurfari, einkum í ljósi loftslagsbreytinga og hamfara sem veðurofsi getur skapað víða um heim.
29.05.2008 Forseti tekur á móti hópi nemenda frá Harvard Business School en þau kynntu sér Ísland sérstaklega á liðnum vetri og var umfjöllun um Ísland meðal prófverkefna þeirra. Rætt var um stöðu landsins og tækifæri á komandi áratugum.
29.05.2008 Forseti á fund með Refaat Abdel-Malek forseta alþjóðlegu vatnsaflssamtakanna, International Hydropower Association, ásamt nokkrum forystumönnum íslenskra orkufyrirtækja. Rætt var um dagskrá alþjóðlegs fundar sem samtökin munu halda á Íslandi á næsta ári og mikilvægi vatnsafls til að mæta orkuþörf mannkyns á komandi áratugum. Einnig var fjallað um hvernig reynsla og þekking Íslendinga á þessu sviði getur nýst öðrum þjóðum, einkum með tilliti til þess að í Áfríku er stór hluti vannýtts vatnsafls í veröldinni.
30.05.2008 Forseti er viðstaddur undirritun samnings milli Orkuveitu Reykjavíkur, japanska fyrirtæksins Mitsubishi og þýska fyrirtækisins Balcke Durr. Efni samningsins er kaup á tveimur vélasamstæðum fyrir jarðgufuvirkjanir á Hengilssvæðinu og felur hann í sér stærsta samning um gufuaflsvirkjun sem Mitsubishi hefur gert og er jafnframt stærsti einstaki samningur sem Orkuveita Reykjavíkur hefur gert.
30.05.2008 Forseti ýtir úr vör Votlendissetri við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Votlendissetrinu er ætlað að efla menntun og rannsóknir í votlendisfræðum í samstarfi við alþjóðlegar rannsóknarstofnanir og háskóla víða um heim. Aðalráðgjafi við stofnun þess hefur verið stprófessor Bill Mitch við ríkisháskólann í Ohio í Bandaríkjunum en forseti heimsótti þann háskóla ásamt forystumönnum Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins árið 2007. Markmið Votlendissetursins er meðal annars að vernda hin einstöku votlendissvæði á Hvanneyri, efla rannsóknir og menntun á sviði votlendisfræða, efla þátttöku í alþjóðlegu rannsóknastarfi og gera votlendissvæðin aðgengileg til útivistar og fræðslu. Starfsemi þess getur síðan nýst í þágu annarra votlendissvæða á Íslandi.
31.05.2008 Forseti opnar Víkina - sjóminjasafnið í Reykjavík eftir gagngerar breytingar. Við það tækifæri voru varðskipið Óðinn og dráttarbáturinn Magni afhentir safninu til varðveislu. Forseti flutti ávarp við athöfnina þar sem hann fagnaði þessum merka áfanga í safnasögu þjóðarinnar. Mikilvægt væri að Íslendingar sýndu sjávarútvegi og útgerð frá fyrri tíð virðingu, þekktu þá sögu og drægju af henni lærdóma. Landhelgisstríðin hefðu verið lokaáfanginn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Án sigurs í þeim hefði efnahagsgrundvöllur hins unga lýðveldis verið ótraustur. Því væri fagnaðarefni að varðskipið Óðinn væri nú orðið hluti af sjóminjasafninu. Það minnti okkur á merka baráttusögu.

Júní

01.06.2008 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum í tilefni af hundrað ára afmæli Hafnarfjarðar. Forseti sat hátíðarfund bæjarstjórnar í Gúttó en þar var fyrsti bæjarstjórnarfundurinn haldinn í júní 1908. Þvínæst var hátíðarsamkoma í Hafnarborg og í kjölfar hennar heilsaði forseti upp á bæjarbúa en mikið fjölmenni var á Strandgötu og var þar boðið upp á hundrað metra langa afmælistertu. Þá sótti forseti hátíðartónleika á Ásvöllum og í kvöld býður bæjarstjórn Hafnarfjarðar til hátíðarkvöldverðar.
01.06.2008 Forseti tekur þátt í messu í Dómkirkjunni á sjómannadaginn.
03.06.2008 Forseti afhenti Íslensku menntaverðlaunin við hátíðlega athöfn í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Verðlaunin hlutu: Í flokki skóla, Hvolsskóli á HvolsvelliMynd. Í flokki kennara, Arnhildur Borg. Mynd. Í flokki ungra kennara, Halldór B. Ívarsson. Mynd. Í flokki námsefnishöfunda, Pétur Hafþór Jónsson. Mynd. Ítarlegar greinargerðir um framlag verðlaunahafa fylgdu verðlaununum og er þær að finna við nöfn hvers verðlaunahafa. Myndasafn.
03.06.2008 Forseti á fund með Christian Angermayer, fulltrúa African Development Corporation, og forstöðumönnum Íslenskra fjárfesta hf. um fjárfestingar í Afríku og samstarf sem leitt getur til þróunar og efnahagslegrar velmegunar í álfunni.
04.06.2008 Forseti sækir sýningu Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu í Þjóðleikhúsinu en sýningin var sérstaklega valin úr hópi sýninga félaga í Bandalagi íslenskra leikfélaga síðastliðinn vetur.
04.06.2008 Forseti tekur á móti fulltrúum á þingi norrænna veðurfræðinga og ræðir um mikilvægi veðurrannsókna á Norðurslóðum, einkum í ljósi yfirvofandi loftslagsbreytinga, en þær gerast hraðar þar en annars staðar í veröldinni. Einnig sé nauðsynlegt að norrænir og evrópskir veðurfræðingar séu í fararbroddi alþjóðlegs samstarfs á þessum vettvangi.
04.06.2008 Forseti tekur við nýju ritverki Þorsteins Inga Sigfússonar prófessors og forstöðumanns Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Bókin ber heitið Dögun vetnisaldar – róteindin tamin. Hún kemur jafnframt út í Englandi og ber þar heitið Planet Hydrogen. Í bókinni er fjallað um nýja orkugjafa, einkum vetni og tækifæri í orkumálum framtíðarinnar. Ritið er byggt á áralöngum rannsóknum höfundar og þátttöku hans í víðtæku alþjóðlegu samstarfi, bæði háskóla rannsóknastofnana, stjórnvalda og alþjóðastofnana. Athöfnin fór fram í Háskóla Íslands og flutti forseti ávarp við það tækifæri, fjallaði einkum um forystu og leiðtogahlutverk Þorsteins á þessu svið og mikilvægi þess fyrir Ísland og veröldina alla.
05.06.2008 Forseti tekur á móti forystusveit Alþjóðasamtaka kvenna í atvinnulífi, World Association of Women Entrepreneurs, en framkvæmdastjórn þeirra heldur nú fund á Íslandi. Rætt var um mikilvægt framlag kvenna til atvinnulífs og efnahagsþróunar, bæði á Íslandi og víða um veröldina og hve mikilvægt væri að konur hefðu áhrif á nauðsynlegar breytingar á viðskiptamenningu og starfsstíl fyrirtækja.
05.06.2008 Forseti á fund um undirbúning ráðstefnunnar The Arctic Convoys: A Lifeline Across the Atlantic sem haldin verður á Íslandi í byrjun júlí en á henni verður fjallað um hinar sögulegu skipalestir í síðari heimsstyrjöldinni. Þær fluttu matmæli og aðrar birgðir frá Evrópu og Norður-Ameríku til norðurhluta Rússlands en þar var eina svæðið sem ekki var umlukið herjum nasista. Skipalestirnar áttu leið um Ísland og gegndu mikilvægu hlutverki í síðari heimsstyrjöldinni.
07.06.2008 Forseti tekur á móti vinarbæjarfulltrúum Álftaness en þeir eru frá Norðurlöndunum.
07.06.2008 Forseti tekur þátt í hátíðarsamkomu í Borgarleikhúsinu í tilefni af aldarafmæli kennaramenntunar og fræðslulaga. Ávarp forseta
07.06.2008 Forseti tekur á móti Drengjakór Reykjavíkur sem er á leið í söngferð til Barselóna. Kórinn flutti nokkur lög í sal Bessastaða.
08.06.2008 Forseti tekur þátt í athöfn í Grundarfirði þar sem staðfest er Green Globe vottun Snæfellsness og lýst metnaðarfullum áformum um hvernig hrinda megi henni í framkvæmd. Vottunin tekur til fjölmargra sviða, svo sem orkunýtingar, vatnsbúskapar, verndunar vistkerfa , endurheimtar votlendis, loftgæða og hávaðamengunar, fráveitumála og lágmörkunar úrgangs. Forseti flutti ávarp við athöfnina.
10.06.2008 Forseti á fund með sendiherra Suður-Kóreu á Íslandi Byung-koo Choi og sérstökum sendiherra í orkumálum Jae Hyun Shin. Rætt var um árangur Íslendinga á sviði orkumála og orkusparnaðar, nýja tækni til að draga úr mengun af völdum koltvísýrings og hvernig hægt væri að þróa nánari samvinnu Suður-Kóreu og Íslands á þessu sviði.
10.06.2008 Forseti tekur á móti hópi barna sem eru á leið í alþjóðlegar sumarbúðir á vegum samtakanna CISV. Hóparnir munu dvelja í búðum í ýmsum löndum.
10.06.2008 Forseti tekur á móti sveit frá Íslenska kraftlyftingafélaginu Metal, en keppnislið á vegum félagsins er á leið til landskeppni í Kanada.
10.06.2008 Forseti á fund með Donna Shalala fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna og rektor Miamiháskóla. Rætt var um bandarísk þjóðmál, þróun heilbrigðismála í Bandaríkjunum og möguleika á samvinnu íslenskra og bandarískra háskóla- og rannsóknarstofnana á sviði læknisfræði og heilbrigðisvísinda.
13.06.2008 Forseti afhendir heiðursverðlaun Grímunnar á hátíðarsamkomu í Þjóðleikhúsinu en þar eru veitt verðlaun Leiklistarsambands Íslands í ýmsum greinum leiklistar. Forseti er verndari Grímunnar. Verðlaunahafar 2008  
13.06.2008 Forseti á fund með Susan Fuhrman rektor Teachers College í Columbiaháskólanum í Bandaríkjunum og forystumönnun Háskólans í Reykjavík um samvinnu á sviði menntafræða og kennaraþjálfunar.
14.06.2008 Forseti er viðstaddur brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands en aldrei fyrr hafa jafn margir kandidatar útskrifast frá skólanum, rúmlega eitt þúsund manns.
15.06.2008 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum í Garði í tilefni af 100 ára afmæli byggðarlagsins. Hátíðardagskráin fer fram í Íþróttamiðstöðinni. Ávarp forseta
15.06.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Rúanda, hr. Claver Gatete, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukin tengsl Íslands við ríki í Afríku og áherslu Rúanda á að þróa upplýsingatækni og fjármálastarfsemi í landinu. Mynd.
16.06.2008 Forseti á fund með Denis Feldmeyer sendiherra Sviss á Íslandi. Rætt var um reynsluna af samstarfi innan EFTA og hin ólíku tengsl Íslands og Sviss við Evrópusambandið. Einnig var fjallað um hvernig rannsóknir á Íslandi og í Sviss geta nýst í ljósi loftslagsbreytinga til rannsókna á jöklum í öðrum heimshlutum, svo sem í Himalajafjöllum.
16.06.2008 Forseti á fund með Retno Marsudi sendiherra Indónesíu á Íslandi sem senn lætur af störfum og tekur við stjórn Evrópu- og Bandaríkjadeildar utanríkisráðuneytis Indónesíu. Rætt var um hinn mikla árangur sem varð af heimsóknum orkumálaráðherra og sjávarútvegsráðherra Indónesíu til Íslands og heimsókn iðnaðarráðherra Íslands Össurar Skarphéðinssonar ásamt fulltrúum íslenskra orkufyrirtækja til Indónesíu. Indónesía býr yfir einhverjum mestu jarðhitaauðlindum veraldar og mikill áhugi er á að efla samstarf við Ísland á því sviði. Sendiherrann ítrekaði boð til forseta Íslands um að heimsækja Indónesíu í tengslum við slíkt hugsanlegt samstarf.
16.06.2008 Forseti á fund með hr. Juhan Haravee sendiherra Eistlands á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um stuðning Eystrasaltsríkjanna við framboð Íslands til Öryggisráðsins, umsvif íslenskra fyrirtækja í Eystrasaltsríkjunum og hugsanlega heimsókn forseta Eistlands til Íslands á næsta ári.
16.06.2008 Forseti á fund með sendiherra Bosníu-Hersegóvínu dr. Faik Uzunovic þar sem rætt var um stöðu smáríkja í Evrópu og hvernig ólík reynsla Íslands og Bosníu-Hersegóvínu getur verið mikilvægt framlag til greiningar á möguleikum smárra ríkja á nýrri öld. Auk þess var rætt um tengsl Bosníu-Hersegóvínu við ríki í Miðausturlöndum.
16.06.2008 Forseti á fund með hr. Maris Klisans sendiherra Lettlands á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um farsæla sambúð Íslands og Eystrasaltsríkja, stuðning þeirra við framboð Íslands til Öryggisráðsins sem og hugsanlega heimsókn forseta Lettlands til Íslands á næsta ári.
16.06.2008 Forseti á fund með Waguih Hanafi sendiherra Egyptalands á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um hvernig tengsl landanna hafa aukist á undanförnum mánuðum, árangur af heimsókn forseta palestínsku heimastjórnarinnar til Íslands og framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
16.06.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Sri Lanka, hr. R.P. Jayasooriya, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um framlag Íslendinga til friðargæslu á Sri Lanka og nauðsyn þess að leita sé nýrra leiða til að koma á friði í landinu, draga úr hermdarverkum og tengja öll stjórnmálasamtök inn í lýðræðislega ákvarðanatöku. Einnig lýsti sendiherrann áhuga forseta Sri Lanka á að heimsækja Ísland á nýjan leik en hann heimsótti landið þegar hann gegndi embætti sjávarútvegsráðherra og telur að Sri Lanka geti lært margt af Íslendingum á því sviði. Mynd.
16.06.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Tælands, frú Cholchineepan Chiranond, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um vaxandi framlag tælenska samfélagsins á Íslandi á mörgum sviðum íslensks þjóðfélags sem og möguleika á nýtingu jarðhita í Tælandi, og þróun viðvörunarkerfis vegna jarðskjálfta, byggt á vinnu íslenskra vísindamanna og sérfræðinga. Mynd.
16.06.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Svasílands á Íslandi, frú Mary M. Kanya, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Sendiherrann lýsti glímu landsins við vaxandi útbreiðslu eyðni og þörf á aðstoð við þróun heilbrigðisþjónustu auk aðgangs að ódýrum lyfjum á þessu sviði. Mynd.
16.06.2008 Forseti setur alþjóðlega ráðstefnu um stöðu smáríkja "Small States - Emerging Power? The Larger Role of Smaller States in the 21st Century" sem haldin er í samvinnu utanríkisráðuneytisins og Smáríkjaseturs við Háskóla Íslands. Ávarp forseta.
17.06.2008 Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, hinn 17. júní 2008, sæmdi forseti Íslands ellefu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Fréttatilkynning. Mynd.
17.06.2008 Forseti opnar sýningu í Þjóðmenningarhúsinu á ljósmyndum úr safni Halldórs Laxness. Ávarp forseta
17.06.2008 Forseti tekur þátt í hátíðarhöldum á Austurvelli og leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að styttu Jóns Sigurðssonar.
18.06.2008 Forseti tekur á móti hópi þátttakenda í Snorraverkefninu frá byggðum Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Verkefnið fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir og hefur fjöldi ungmenna af íslenskum ættum í Vesturheimi komið til Íslands á þess vegum til að kynna sér sögu og menningu Íslendinga, samfélag nútímans og hitta ættingja sína á Íslandi.
18.06.2008 Forseti á fund með nýjum ræðismanni Íslands í Tógó og Nirði P. Njarðvík forstöðumanni hjálparsamtakanna Spes. Rætt var um þróunarverkefni sem Íslendingar hafa styrkt myndarlega í Tógó og felst í að byggja skóla fyrir börn. Ennfremur nánari tækifæri í samvinnu Íslands og Tógó á næstu árum.
19.06.2008 Forseti á fund með fjölmennri sendinefnd frá Abu Dhabi sem heimsækir Ísland til að ræða við orkufyrirtæki, banka, Bláa lónið og ýmis önnur fyrirtæki. Sendinefndin hefur einnig átt fund með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra. Hún kemur til Íslands í framhaldi af heimsókn forseta Íslands til Abu Dhabi fyrr á þessu ári.
19.06.2008 Forseti á fund með sendiherra Slóveníu á Íslandi, hr. Rudolf Gabrovec sem senn lætur af störfum. Rætt var um árangurinn af formennsku Slóveníu í Evrópusambandinu, stjórnmálaástandið í Mið-Evrópu og tengsl Íslands og Slóveníu.
19.06.2008 Forseti sendir ávarp sem flutt er við setningu þings Nordens Kvinneforbund á Akureyri en forseti gat ekki verið viðstaddur setninguna vegna útfarar Ólafs Skúlasonar biskups. Þingið sækja fulltrúar kvenfélaga á Norðurlöndum. Ávarp á norsku. Ávarp á íslensku.
20.06.2008 Forseti tekur á móti hópi áhrifafólks í stuðningssveit Guggenheim listasafnsins í New York. Fólkið er í heimsókn til Íslands til að kynna sér íslensk listasöfn og íslenska samtímalist.
20.06.2008 Forseti á fund með fulltrúum Lífeyrissjóðs lögreglu og slökkviliðs í Dallas, Texas, sem eru að kynna sér framleiðslu á hreinni orku, einkum jarðhita með tilliti til fjárfestinga sjóðsins í framtíðinni.
20.6.2008 Forseti á fund með sendiherra Bretlands, Alp Mehmet sem senn lætur af störfum. Rætt var um aukin samskipti Íslendinga og Breta á undanförnum árum, nýjar áherslur í varnarsamstarfi, aukin viðskiptatengsl landanna og þróunina í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins.
20.06.2008 Forseti á fund með Robert Arnason, forseta Íslendingadagsins í Gimli, um samfélag fólks af íslenskum ættum í Vesturheimi. Einnig var rætt um hvernig styrkja megi Íslendingadaginn og auka samvinnu milli hinna mörgu íslensku samfélaga í Bandaríkjunum og Kanada.
20.06.2008 Forseti á fund með Rattan Lal, einum helsta sérfræðingi veraldar í jarðvegsvísindum og nokkrum íslenskum vísindamönnum um alþjóðlegar rannsóknir á jökum og gróðurfari sem fram færu á svæði Vatnajökuls og í Himalayafjöllum. Með rannsóknunum fengist skýrari mynd af þróun jökla og gróðurfars vegna loftslagsbreytinga.
21.06.2008 Forseti afhendir Bessastaðabikarinn og verðlaunapeninga í róðrarkeppni Kajakklúbbsins Sviða á Álftanesi. Athöfnin fór fram á tröppum Bessastaðakirkju að lokinni keppni í kajaksiglingum kringum Bessastaðanesið.
21.06.2008 Forseti á fund með Peter Rajsingh, formanni Sameinuðu þjóða félags New York borgar um starfsemi félagsins og hátíðarsamkomu sem haldin verður síðar á árinu í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna i New York.
21.06.2008 Forseti á fund með hópi frá Environmental Defense Fund í Bandaríkjunum sem er að kynna sér íslenska náttúru. Á fundinum var rætt um árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og stjórnun fiskveiða, rætt um bráðnun jökla, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum, sem og yfirvofandi hættu á loftslagsbreytingum. Environmental Defense Fund er öflug áhrifastofnun í umhverfismálum í Bandaríkjunum.
22.06.2008 Forseti tekur á móti sendinefnd frá þingi Sádi-Arabíu sem heimsækir Ísland í boði Alþingis. Rætt var um framtíð orkumála, þróun olíuverðs, nýtingu hreinnar orku og ýmsa möguleika á samstarfi Íslands og Sádi-Arabíu.
22.06.2008 Forseti flytur ávarp á samkomu sem haldin er til heiðurs Steingrími Hermannssyni áttræðum. Ávarp forseta 
23.06.2008 Forseti á fund með stjórnendum norska orkufyrirtækisins StatoilHydro um samvinnu þeirra við Íslendinga en fyrirtækið tekur nú þegar m.a. þátt í íslenska vetnisverkefninu og íslenska djúpborunarverkefninu sem ætlað er að kanna möguleika á nýtingu háhita á fimm kílómetra dýpi. Einnig var rætt um hlutdeild hreinnar orku við að mæta orkuþörf nýrrar aldar, m.a. möguleika á nýtingu jarðhita á hafsbotni. Fundurinn var haldinn í embættisbústað sendiherra Íslands í Ósló.
24.06.2008 Forseti flytur ræðu á málþingi í Ósló sem haldið var á vegum Rannsóknarþings Norðurslóða og norsku rannsóknarstofnunarinnar Ocean Futures. Meðal þátttakenda á málþinginu voru norskir vísindamenn og sérfræðingar í málefnum norðurslóða, forystumenn almannasamtaka og á vettvangi norskra þjóðmála. Málþingið var m.a. haldið í tengslum við undirbúning að sjötta Rannsóknarþingi Norðurslóða sem haldið verður í Ósló árið 2010 en fimmta Rannsóknarþingið verður haldið í Alaska 24.-27. september næstkomandi.
30.06.2008 CNBC-sjónvarpsstöðin í Kanada og Bandaríkjunum tekur viðtal við forseta um þróun orkumála, samstarf á Norðurslóðum og íslenskt efnahagslíf.
30.06.2008 Forseti á fund með Bent A. Koch og öðrum stjórnarmönnum í Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde sem í áratugi hefur styrkt margvísleg verkefni. Rætt var um aukna samvinnu Íslands og Danmerkur á undanförnum árum og mikilvægi rannsókna á sameiginlegri sögu landanna, sem og um þær áherslur sem sett geta svip á samband ríkjanna á komandi árum.
30.06.2008 Forseti á fund með Lindsay O´Brian erfðafræðingi frá Ástralíu og konu hans Sólveigu Kr. Einarsdóttur um hugsanlegt samstarf vísindamanna í Ástralíu og á Íslandi um varðveislu þeirra sérkenna í landbúnaði og ræktun sem landfræðileg staða Ástralíu og Íslands hefur skapað þeim. Í því samhengi var fjallað um öryggismál varðandi innflutning á landbúnaðarafurðum og plöntum og aukið mikilvægi þeirrar sérstöðu sem eylönd geta notið á komandi áratugum.

Júlí

01.07.2008 CNBC-sjónvarpsstöðin í Kanada og Bandaríkjunum tekur viðtal við forseta um þróun orkumála, samstarf á Norðurslóðum og íslenskt efnahagslíf.
02.07.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bretlands á Íslands, hr. Ian Whitting, sem afhendir trúnaðarbréf á Bessastöðum.
02.07.2008 Breska sjónvarpsstöðin BBC tekur viðtal við forseta um hið alþjóðlega rannsóknarverkefni um bindingu koltvísýrings í íslensku basalti við Hellisheiðarvirkjun sem íslenskir, bandarískir og franskir vísindamenn vinna í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur. Einnig var rætt um áhuga alþjóðlegra fyrirtækja í upplýsingaiðnaði og gagnageymslu á samstarfi við íslensk orkufyrirtæki.
02.07.2008 Forseti á fund með viðskiptasendinefnd frá Kína sem hér er á vegum Glitnis og fjárfestingafélagsins Salt.
08.07.2008 Forseti á viðræður við hóp bandarískra áhrifamanna í byggingarlist, orkunýtingu og fjölmiðlun um baráttuna gegn loftslagsbreytingum, hvernig framganga háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja í Bandaríkjunum á undanförnum árum muni gera nýjum valdhöfum í Washington kleift að skipa Bandaríkjunum á skömmum tíma í forystu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.
08.07.2008 Forseti á fund með Eben Moglen prófessor við lagadeild Columbia háskóla í Bandaríkjunum og stofnanda Free Software Foundation um frjálst flæði upplýsinga og hvernig þróun í upplýsingatækni muni gera frjálsan aðgang að upplýsingum að hagkvæmustu leið fyrirtækja og einstaklinga til að styrkja framfarir og eigin stöðu.
10.07.2008 Forseti er viðstaddur dagskrá í tilefni af því að húsið að Fríkirkjuvegi 11 sem Thor Jensen byggði á sínum tíma fær nýtt hlutverk.
10.07.2008 Forseti flytur ávarp við setningu alþjóðlegrar ráðstefnu um skipalestir í síðari heimsstyrjöldinni, Arctic Convoys. Þær gegndu mikilvægu hlutverki í sigri Bandamanna. Ráðstefnan er skipulögð af Háskóla Íslands og Alþjóðaveri. Í henni tekur þátt fjöldi erlendra sagnfræðinga og annarra sérfræðinga. Auk þess hefur nokkur hópur eftirlifandi sjómanna sem voru í skipalestunum komið til landsins af þessu tilefni. Þúsundir sjómanna fórust þegar skipum þeirra var sökkt á þessum árum.
11.07.2008 Forseti tekur á móti þátttakendum í alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er til að minnast skipalestanna í síðari heimsstyrjöldinni, Arctic Convoys. Ráðstefnan er haldin á vegum Háskóla Íslands og Alþjóðavers með stuðningi sex sendiráða.
12.07.2008 Forseti er viðstaddur minningarathöfn í Fossvogi um þá sem létu lífið í síðari heimsstyrjöldinni þegar skipalestir frá Bandamönnum fóru um Ísland til norðurhluta Sovétríkjanna. Eftirlifandi sjómenn frá Íslandi, Rússlandi, Bretlandi, Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum lögðu blómsveig að minnismerki um skipalestirnar. Einnig lögðu sendiherrar erlendra ríkja ásamt forseta Íslands blómsveig að minnisvarðanum.
16.07.2008 Forseti á fund með formanni og framkvæmdastjóra Rauða krossins um alþjóðlega ráðstefnu hjálparsamtaka sem haldin verður á Íslandi í lok ágúst, söfnunardaginn Göngum til góðs og verkefni Rauða krossins í Afríku.
17.07.2008 Forseti tekur á móti hópi Vestur-Íslendinga frá Utah sem eru að heimsækja slóðir ættmenna sinna á Íslandi.
23.07.2008 Forseti ræðir við sendiherra ýmissa ríkja hjá Sameinuðu þjóðunum, í boði hjá sendiherra Íslands Hjálmari W. Hannessyni, um áherslur Íslands í framboðinu til Öryggisráðsins.
23.07.2008 Forseti flytur ræðu á jarðhitaráðstefnu í New York þar sem fjallað er um sóknarfæri í nýtingu jarðhita í Bandaríkjunum og víða um heim.  Ráðstefnan er haldin á vegum Jarðhitasambands Bandaríkjanna, Geothermal Energy Association, og sótti hana fjöldi vísindamanna, sérfræðinga, stjórnendur orkufyrirtækja og fulltrúar banka og fjárfestingasjóða.  Dan Reicher, framkvæmdastjóri loftslags- og orkusviðs Google og Alexander Karsner, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna voru ásamt forseta  aðalræðumenn ráðstefnunnar.
29.07.2008 Forseti tekur á móti hópi safnstjóra og listunnenda frá Bandaríkjunum og Mexíkó sem dvelja á Íslandi til að kynna sér íslenska nútímalist.
30.07.2008 Forseti á fund með borgarstjóranum í Los Angeles Antonio Villaraigosa þar sem rætt var um möguleika Kaliforníu í nýtingu á jarðhita og þróun alþjóðamála.

Ágúst

01.08.2008 Ólafur Ragnar Grímsson tekur við embætti forseta Íslands á ný við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Á undan athöfninni er helgistund í Dómkirkjunni sem hefst klukkan 15:30. Forseti hæstaréttar afhendir forseta kjörbréf. Að því loknu ganga forsetahjónin fram á svalir Alþingishússins og hylla ættjörðina. Athöfninni lýkur með ræðu forseta og flutningi þjóðsöngsins.
02.08.2008 Forseti og forsetafrú heimsækja Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið er í Þorlákshöfn, fylgjast með íþróttakeppni og ræða við mótsgesti.
03.08.2008 Forseti á fund með Gordon Reykdal ræðismanni Íslands í Edmonton í Kanada. Rætt var um hvernig tengsl milli Íslands og samfélags Vestur-Íslendinga í Kanada hafa aukist jafnt og þétt á síðari árum, Snorraverkefnið sem ætlað er ungu fólki hefur skilað miklum árangri og mikilvægt sé að halda áfram á þessari braut.
04.08.2008 Forseti hittir Antonio Villaraigosa borgarstjóra Los Angeles í Hellisheiðarvirkjun og sýnir honum virkjunina ásamt starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur. Rætt var um nýtingu jarðhita í Kaliforníu og möguleika á samvinnu Íslendinga og yfirvalda í Los Angeles og Kaliforníuríki. Einnig var borgarstjóranum kynnt niðurdælingarverkefnið sem íslenskir og bandarískir vísindamenn vinna að og felur í sér að koltvísýringi úr andrúmslofti sé dælt niður í borholur við Hellisheiðarvirkjun þar sem það breytist í fast efni.
07.08.2008 Forseti afhendir Myndstefsverðlaunin 2008 í Listasafni Íslands. Verðlaunin hlaut Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari fyrir ljósmyndir af náttúru Íslands, mönnum og dýrum. Tilnefningar til verðlaunanna voru frá aðildarfélögum Myndstefs og voru auk verðlaunahafans tilnefnd: Eggert Pétursson myndlistarmaður, Snæfríður Þorsteinsdóttir og Hildigunnur Gunnarsdóttir hönnuðir, Steinunn Sigurðardóttir tískuhönnuður, Studió Granda arkitektar, Vík Prjónsdóttir vöruhönnuðir, Vytautas Narbutas sviðsmyndahönnuður.
08.08.2008 Forseti á fund með sendiherra Kína Zhang Keyuan um ferð forseta á Ólympíuleikana og samvinnu Kínverja og Íslendinga á komandi árum.
09.08.2008 Forseti afhjúpar minnisvarða í Vogum á Vatnsleysuströnd um sjómennsku og útgerð en Vatnsleysuströnd var á tímum árabátaútgerðar ein stærsta verstöð landsins. Minnisvarðinn er útilistaverk eftir Erling Jónsson. Athöfnin er liður í Fjölskyldudegi sem haldinn er hátíðlegur í Vogum.
11.08.2008 Forseti á fund með Philip Gordon, sérfræðingi hjá Brookings stofnuninni í Bandaríkjunum, um þróun alþjóðamála og viðfangsefni sem blasa munu við nýrri ríkisstjórn í Bandaríkjunum, einkum á sviði orkumála og varðandi stefnumótun í málefnum Norðurslóða.
12.08.2008 Forseti á viðræður við hóp þekktra ljósmyndara frá Bandaríkjunum sem hafa ferðast um Ísland undanfarna daga í boði Microsoft og tekið myndir af náttúru landsins og mannlífi.
12.08.2008 Forseti á fund með fulltrúum forvarnarverkefnisins Ungmenni gegn fíkniefnum (Youth in Europe) sem byggt er á íslenskum rannsóknum og reynslu Reykjavíkurborgar en tæplega 20 borgir í Evrópu tengjast nú verkefninu. Einnig var rætt um góða reynslu af Forvarnardeginum á Íslandi síðastliðin tvö ár og hvernig hægt er að styrkja þessa samvinnu í framtíðinni.
13.08.2008 Forseti skoðar fornleifauppgröft á Hrísbrú í Mosfellssveit þar sem prófessor Jesse Byock hefur um áraraðir stjórnað alþjóðlegum hópi fornleifafræðinga og vísindamanna sem rannsakað hafa svæðið. Rústir af skála, kirkju, líkbrennslustaður og aðrar minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar varpa nýju ljósi á landnámstíð og tengjast náið frásögnum Egils sögu.
13.08.2008 Forseti á fund með forráðamönnum Heklu, umboðsfyrirtækis Mitsubishi, um samvinnu íslenskra aðila og Mitsubishi um nýtingu hreinnar orku. Fundurinn er í framhaldi af viðræðum forseta við Fukue, einn af heimsforstjórum Mitsubishi sem fram fór á Bessastöðum í maí. Fyrirtækið mun taka þátt í alþjóðlegu ráðstefnunni Driving Sustainability sem haldin verður á Íslandi í september en forseti er verndari ráðstefnunnar og mun flytja ávarp við setningu.
14.08.2008 Forseti á fund með áhugamönnum um gagnaflutninga og rekstur gagnavera á Íslandi.
14.08.2008 Forseti tekur þátt í myndbandsupptöku til hvatningar kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu.
14.08.2008 Forseti tekur við afmælisriti Lækjarskóla í Hafnarfirði sem fulltrúar nemenda og skólastjórnendur afhentu á Bessastöðum. Ritið lýsir litríku starfi skólans og var gefið út í tilefni af 130 ára afmæli hans.
15.08.2008 Forseti á fund með fjárfestum frá Indlandi og Bandaríkjunum um margvíslegt samstarf við Íslendinga, einkum verkefni á sviði hreinnar orku, lista og vísinda.
15.08.2008 Forseti á fund með Helgu Jónsdóttur bæjarstjóra Fjarðabyggðar um þróun atvinnumála, menntunar og vísindarannsókna í Fjarðabyggð og samstarf innlends og alþjóðlegs fræðasamfélags.
15.08.2008 Forseti á fund með sendiherra Króatíu á Íslandi Aleksandar Heina um samstarf smárra ríkja í Evrópu og afstöðu Króatíu til framboðs Íslands til Öryggisráðsins.
15.08.2008 Forseti á fund með Sigurði Óla Ólafssyni, nýjum forstjóra Actavis, um verkefni fyrirtækisins í framtíðinni og árangur á undanförnum árum, samstarf um forvarnarverkefnið Ungmenni gegn fíkniefnum sem fram fer í tæplega 20 borgum í Evrópu og ágæta reynslu af Forvarnardeginum á Íslandi undanfarin tvö ár.
18.08.2008 Forseti flytur setningarræðu á alþjóðlegu þingi samtaka jarðfræðinga og náttúruvísindamanna, International Association of Volcanology and Chemistry of the Earth's Interior, sem haldin er í Reykjavík og sækja hana um þúsund vísindamenn víða að úr veröldinni. Ræða forseta.
19.08.2008 Forseti heldur af stað til Kína.
20.08.2008 Forseti kemur til Kína og forsetahjón fylgjast með leik íslenska handknattleiksliðsins. Fréttatilkynning.
21.08.2008 Forseti heimsækir Ólympíuþorpið í fylgd forseta og framkvæmdastjóra Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, ræðir við kínverska forystumenn Ólympíuþorpsins, heimsækir íslenska keppendur og skoðar íbúðir þeirra og snæðir með íslensku þátttakendunum og forystusveit Íþrótta- og Ólympíusambandsins í matsal Ólympíuþorpsins.
22.08.2008 Forseti á fund með forseta Kína í Beijing. Fréttatilkynning.
24.08.2008 Forseti sækir glæsilega lokahátíð leikanna á aðalleikvangi þeirra og tekur að henni lokinni þátt í kvöldverði ÍSÍ til heiðurs íslensku þátttakendunum á Ólympíuleikunum.
24.08.2008 Forseti sækir úrslitaleik Ólympíuleikanna í handknattleik karla þar sem Ísland keppir við Frakkland og fylgist með íslenska liðinu taka við silfurverðlaununum.
24.08.2008 Forseti situr hádegisverð í boði Hu Jintao forseta Kína sem haldinn er til heiðurs þjóðhöfðingjum sem sækja lokaathöfn Ólympíuleikanna og forystumönnum Alþjóða Ólympíunefndarinnar.
25.08.2008 Forseti situr fyrir svörum í viðtali við kínverska sjónvarpið þar sem rætt var um Ólympíuleikana, loftslagsbreytingar, þörfina á nýtingu hreinnar orku, velferðarkerfið og lýðræðislegt samfélag.
25.08.2008 Forseti á fund með forystumönnum Sinopec, eins stærsta orkufyrirtækis Kína sem einnig er eitt af stærstu fyrirtækjum heims. Umræðuefnið er m.a. góður árangur af jarðhitaverkefni Íslendinga í Kína og fjöldi nýrra samstarfstækifæra í Kína og víðar í veröldinni.
25.08.2008 Forseti á fund með forystumönnum China Investment Corporation, eins helsta fjárfestingasjóðs Kína, um framleiðslu hreinnar orku á komandi árum og þróun samstarfs á sviði fjármálastarfsemi og fjárfestinga.
27.08.2008 Forseti veitir handknattleiksmönnum fálkaorðu á Bessastöðum.
29.08.2008 Forseti á fund með forseta Bangladess Iajuddin Ahmed í Dhaka. Fréttatilkynning.
30.08.2008 Forseti heimsækir Grameen banka í Dhaka og á fund með Mohammad Yunus, handhafa friðarverðlauna Nóbels.
30.08.2008 Forseti flytur ræðu við lok ráðstefnu um loftslagsbreytingar og fæðuöryggi í Dhaka í Bangladess. Ræða forseta.
31.08.2008 Forseti skoðar vatnasvið Bangladess og flotskóginn í Sunderban.

September

01.09.2008 Forseti á fund með Abdullah II, konungi Jórdaníu, í Amman. Fréttatilkynning.
03.09.2008 Forseti á fund með Mahmoud Abbas forseta Palestínumanna í Ramallah. Fréttatilkynning.
03.09.2008 Forseti á fund með Shimon Peres forseta Ísraels í Jerúsalem. Fréttatilkynning.
08.09.2008 Forseti flytur setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um heimskautarétt, "Looking beyond the International Polar Year: Emerging and Reemerging Issues in International Law and Policy in the Polar Regions." Ræða forseta
09.09.2008 Forseti vígir ásamt heilbrigðisráðherra nýbyggingu BUGL, Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, en henni er einkum ætlað að þjóna göngustarfsemi deildarinnar. Fjölmörg almannasamtök hafa lagt byggingunni lið og er hún fyrsta sérhannaða byggingin í þágu þjónustunnar við börn og unglinga sem eiga við geðraskanir að stríða.
10.09.2008 Forseti sækir landsleik Íslands og Skotlands í knattspyrnu karla sem fram fer á Laugardalsvelli.
10.09.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Aserbaídsjans á Íslandi hr. Fakhraddin Isa Oglu Gurbanov. Rætt var um samskipti Aserbaídsjans við nágrannaríkin, flókna stöðu í þeim heimshluta sem og nýleg átök Georgíu og Rússlands. Mynd.
10.09.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Tyrklands á Íslandi hr. Hayati Güven sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukna samvinnu Íslands og Tyrklands, áhuga íslenskra orkufyrirtækja á þátttöku í byggingu vatnsorkuvera og jarðvarmavera í Tyrklandi, aðild Istanbúl að forvarnarverkefninu Ungmenni í Evrópu - gegn fíkniefnum (Youth in Europe) sem stjórnað er frá Íslandi og byggt á rannsóknum íslenskra sérfræðinga. Mynd.
10.09.2008 Forseti á fund með fulltrúum Greenstone Group um stofnun gagnavera á Íslandi og þróun alþjóðlegs markaðar fyrir varðveislu stafrænna upplýsinga. Framboð á hreinni orku og lega landsins hentar einkar vel í þessu skyni.
11.09.2008 Forseti tekur á móti hópi alþjóðlegra fjárfesta sem hafa sérstakan áhuga á fjárfestingum sem beinast að því að hamla gegn loftslagsbreytingum með nýtingu hreinnar orku og minnkandi kolefnanotkun. Fjárfestarnir tengjast öflugum sjóðum og fyrirtækjum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
11.09.2008 Forseti á fund með Jacynthe Côté forstjóra Rio Tinto Alcan og Rannveigu Rist forstjóra Alcan á Íslandi um framtíð álvinnslu, bæði á Íslandi og á veraldarvísu.
15.09.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Finnlands hr. Hannu Hämäläinen sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukna samvinnu Íslands og Finnlands á undanförnum árum, málefni Norðurslóða og umsvif íslenskra fyrirtækja í Finnlandi.
15.09.2008 Forseti setur Breiðholtsdaga á samkomu eldri borgara í Félagsmiðstöðinni Árskógum og opnar um leið málverkasýningu heyrnarlausra. Heimsóttu forsetahjónin leikskólann Fálkaborg og tóku átt í kaffisamsæti í Fellaskóla.
16.09.2008 Forseti á fund með Guðmundi Alfreðssyni prófessor um þróun náms í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri og alþjóðlegar ráðstefnur um heimskautarétt sem áformað er að halda á Íslandi á næstu árum.
16.09.2008 Forseti á fund með Robert S. Kaplan sem er hagfræðingur við Harvard Business School um rannsóknir á árangri fyrirtækja og þróun viðskiptalífs bæði í Bandaríkjunum og smærri ríkjum, nauðsyn þess að safna fræðilegum dæmum um árangur einstakra fyrirtækja sem og erfiðleika í rekstri.
16.09.2008 Forseti í sjónvarpsviðtali vegna söfnunarþáttar fyrir Mænuskaðastofnun sem verður sjónvarpað föstudaginn 19. september.
17.09.2008 Forsetahjón bjóða til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Úganda Yoweri Museveni og frú Janet Museveni. Meðal gesta eru ráðherrar og embættismenn sem og sérfræðingar í orkumálum og sjávarútvegi. Ræða forseta.
17.09.2008 Opinber heimsókn forseta Úganda Yoweri Museveni hófst með móttökuathöfn á Bessastöðum í morgun. Að henni lokinni var fundur forsetanna og ræddu þeir við fréttamenn. Síðan var Hellisheiðarvirkjun heimsótt þar sem sérfræðingar héldu erindi um nýtingu jarðhita og orkumál. Síðdegis fara gestirnir í Þjóðminjasafnið og til fundar við utanríkismálanefnd Alþingis.
18.09.2008 Sjónvarpsstöðin Sky News á viðtal við forseta um nýtingu hreinnar orku, baráttu gegn loftslagsbreytingum og framtíðarnotkun rafbíla.
18.09.2008 Forseti á fund með framkvæmdastjóra Arababandalagsins Amre Moussa þar sem rætt er um þróun mála í Miðausturlöndum, vaxandi óvissu á alþjóðavettvangi og hvernig hægt er að stuðla að árangursríkum friðarviðræðum milli Ísraela og Palestínumanna.
18.09.2008 Forseti ekur nýjum rafbíl Mitsubishi sem settur verður á markað á næsta ári. Bíllinn er sá fyrsti sinnar tegundar og ætlunin er að byggja fjöldaframleiðslu rafbíla á þeirri tækni sem nýtt er í honum. Ísland er fyrsta landið í Evrópu þar sem Mitsubishi kynnir bílinn.
18.09.2008 Forseti fylgir forseta Úganda Yoweri Museveni í heimsókn til Grindavíkur, þar sem skoðað er fiskvinnslufyrirtækið Vísir og Saltfisksetur Íslands og þvínæst hlýtt á fyrirlestra sérfræðinga og fræðimanna um íslenskan sjávarútveg.
18.09.2008 Forseti á viðtal við Chris Paine sem vinnur að gerð sérstaks sjónvarpsþáttar um rafmagnsbíla og notkun þeirra í framtíðinni.
18.09.2008 Forseti á fund með Bertrand Piccard, frumkvöðli og brautryðjanda sem um þessar mundir stendur fyrir smíði á flugvél sem eingöngu verður knúin sólarorku.
18.09.2008 Forseti setur alþjóðlega ráðstefnu Driving Sustainability sem haldin er í Reykjavík. Þar er fjallað um vistvæna umferð, nýjar tegundir bíla og annarra ökutækja og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
19.09.2008 Forseti tekur á móti hópi kennara frá ýmsum Evrópulöndum sem eru að þróa námsefni um orkumál fyrir framhaldsskóla. Verkefnið ber heitið Saving my energy.
19.09.2008 Forseti er viðstaddur undirritun samninga milli íslenskra stjórnvalda og Mitsubishi um nýtingu rafbíla á Íslandi og eldsneytisvinnslu úr útblæstri frá álverum. Frétt frá Heklu hf. um þetta efni.
19.09.2008 Forseti sækir fyrirlestur framkvæmdastjóra Arababandalagsins Amre Moussa í hátíðarsal Háskóla Íslands.
19.09.2008 Forseti stjórnar fundi ríkisráðs á Bessastöðum.
19.09.2008 Forseti á morgunverðarfund með alþjóðlegum forstjórum Mitsubishi, fulltrúum fyrirtækisins í Evrópu og stjórnendum Heklu þar sem rætt er um samstarf Mitsubishi við Ísland á fjölmörgum sviðum, einkum varðandi nýtingu jarðhita og framleiðslu nýrra orkugjafa sem stuðlað geti að því að landið geti dregið verulega úr innflutningi á olíu og bensíni.
22.09.2008 Forseti flytur ræðu á World Leaders Forum við Columbia háskóla í New York. Ræða fjallar m.a. um sjálfbæran orkubúskap. Fjá fréttatilkynningu. Ræða forseta
22.09.2008 Forseti flytur opnunarræðu á umræðufundi um loftslagsbreytingar og alþjóðasamstarf á fjölþjóðlegri ráðstefnu sem Louise T.  Blouin stofnunin heldur í New York. Ráðstefnuna sóttu sérfræðingar og forystumenn víða að úr veröldinni.
25.09.2008 Forseti flytur ræðu og svarar fyrirspurnum á hádegisfundi Alaska World Affairs Council í Anchorage. Í framsögu sinni fjallaði forseti um aukið mikilvægi norðurslóða, nýtingu orkulinda, loftslagsbreytingar, nýjar siglingaleiðir og þróun réttarfars og alþjóðasamninga á norðurslóðum. Á eftir svaraði forseti fjölda fyrirspurna.
25.09.2008 Forseti heimsækir aðalskrifstofu Northern Forum í Alaska en það eru samtök fylkja og borga í löndum á norðurslóðum. Akureyri er aðili að samtökunum og mikill áhugi er á að auka tengsl Northern Forum við Ísland.
25.09.2008 Forseti á fund með Walter J. Hickel fyrrverandi ríkisstjóra í Alaska um aukið mikilvægi norðurslóða á komandi árum og um samvinu við Rússland og tengsl Íslands og Alaska.
25.09.2008 Forseti tekur í þessari viku þátt í Rannsóknarþingi norðursins sem haldið er í Anchorage í Alaska. Þingið sækir fjöldi vísindamanna, sérfræðinga, embættismanna og forystumanna í málefnum norðurslóða auk fjölmennrar sveitar ungra fræðimanna. Þátttakendurnir eru einkum frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kanada og Norðurlöndum. Fréttatilkynning.
26.09.2008 Forseti sækir fund Clinton Global Initiative í New York en hann sitja forystumenn í alþjóðamálum, vísindamenn og sérfræðingar, stjórnendur fyrirtækja og forystumenn almannasamtaka. Forseti tók þátt í umræðum um loftslagsbreytingar og orkumál og baráttu gegn fátækt í heiminum.
27.09.2008 Forseti opnar sýningu á ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar í Þjóðminjasafni Íslands. Ávarp forseta.
27.09.2008 Forseti tekur á móti hópi kvenna úr Rebekkustúkunni nr. 5 á Akranesi.
27.09.2008 Forseti afhendir forsetamerki skáta í Bessastaðakirkju en það er veitt fyrir einstakan árangur í námi og skátastarfi. Á eftir tók forseti á móti merkishöfum og fjölskyldum þeirra ásamt forystusveit skátahreyfingarinnar í Bessastaðastofu.
28.09.2008 Forseti afhendir á Bessastöðum heiðursverðlaun Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík. Þau hlaut kvikmyndaleikstjórinn Costa-Gavras sem meðal annars er frægur fyrir kvikmyndir sínar Z og Missing sem báðar lýsa fórnarlömbum herforingjastjórna og baráttu fyrir lýðræði.
28.09.2008 Forseti afhendir verðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda og flytur ávarp á hátíðarsamkomu sem haldin var í húsakynnum Marels. Rúmlega 3.000 nemendur í tæplega 80 grunnskólum sendu inn hugmyndir í keppnina. Vefur Nýsköpunarkeppninnar.

Október

01.10.2008 Forseti á fund með sendiherra Filippseyja frú Victoria S. Bataclan sem senn lætur af störum. Rætt var um aukna samvinnu Íslands og Filippseyja á nýtingu jarðvarma en bæði löndin geta framleitt hreina orku í stórum stíl. Einnig var rætt um að þau ríki sem byggja orkubúskap sinn í auknum mæli á hreinni orku hafi samstöðu í alþjóðlegum umræðum og samningum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
01.10.2008 Forseti á fund með sendiherra Grikklands á Íslandi hr. Iakovos Spetsios sem senn lætur senn af störfum. Rætt var um aukna samvinnu Grikklands og Íslands á undanförnum árum, árangurinn af opinberri heimsókn forseta Grikklands til Íslands, þróun Evrópusambandsins og stöðuna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
01.10.2008 Forseti setur Alþingi að lokinni guðþjónustu í Dómkirkjunni. Ræða forseta.
02.10.2008 Forseti tekur á móti hópi kanadískra fréttamanna sem eru í heimsókn á Íslandi og ræðir við þá um samband Íslands og Kanada, tengslin við byggðir Vesturíslendinga og mikilvægi málefna Norðurslóða á komandi árum.
02.10.2008 Forseti ýtir úr vör söfnun Rauða krossins Göngum til góðs á fjöldafundi nemenda og kennara í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Á samkomunni voru forystumenn Rauða krossins á Suðurlandi og einnig á landsvísu. Söfnunin fer fram næstu daga. Rauði krossinn hefur á undanförnum árum efnt til söfnunarinnar Göngum til góðs og hefur afrakstri hennar verið varið bæði til starfsemi Rauða krossins hér heima og á svæðum sem þarfnast hjálpar, einkum í Afríku. Forseti flutti ræðu á samkomunni og svaraði fyrirspurnum nemenda. Hann hvatti þá einnig til að taka þátt í sjálfboðastarfi Rauða krossins.
03.10.2008 Forseti tekur á móti hópi þýskra blaðamanna og ræðir við þá um samstarf Íslands og Þýskalands, verkefni við nýtingu hreinnar orku í Þýskalandi og samstarf ríkja á norðurslóðum. Einnig væntanlega útgáfu á Íslendingasögunum í nýjum þýðingum á þýsku og undirbúning að því að Ísland verði í heiðurssæti á Bókakaupstefnunni í Frankfurt árið 2011.
03.10.2008 Forseti tekur á móti íslensku keppendunum í Ólympíuleikum fatlaðra, Paralympics, sem fram fóru nýlega í Kína ásamt fjölskyldum þeirra, fararstjórum og forystusveit Íþróttasambands fatlaðra. Forseti óskaði keppendum til hamingju með árangurinn og áréttaði hvernig þátttaka Íslendinga í Ólympíuleikum fatlaðra á undanförnum áratugum hefði gefið þjóðinni nýja trú á getu einstaklinga. Fordæmi þeirra væri mikilvægt fyrir þá sem þyrftu að glíma við fötlun eða afleiðingar af slysum.
03.10.2008 Forseti ræðir við Stöð 2 um tilgang söfnunar Rauða krossins Göngum til góðs. Söfnunin fer fram um helgina.
03.10.2008 Forseti ræðir um Bessastaðaskóla við Felix Bergsson í tilefni af ráðstefnu sem haldin verður laugardaginn 4. október. Viðtalinu verður útvarpað á Rás 2 á laugardagsmorgun.
04.10.2008 Forseti flytur ávarp á málþinginu "Bessastaðaskóli - Vagga íslenskrar menningar" sem haldið var í Íþróttahúsinu á Álftanesi. Málþingið var einkum helgað áhrifum og arfi dr. Hallgríms Scheving. Í lok málþingsins var stofnað Félag áhugamanna um Bessastaðaskóla.
04.10.2008 Forseti tekur þátt í söfnun Rauða krossins Göngum til góðs og heimsækir söfnunarmiðstöðvar á Akranesi, í Mosfellsbæ og í Reykjavík, ræðir við stjórnendur söfnunarinnar í höfuðstöðvum Rauða krossins og tekur þátt í söfnun meðal almennings í Kringlunni.
05.10.2008 Forseti opnar sýningu í Gerðarsafni í tilefni af menningarhátíð í Kópavogi. Sýningin er helguð fornminjum og list í Ekvador. Ávarp.
08.10.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Nígeríu, frú Kemafor Nonyerem Chikwe sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd.
08.10.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Lesótó, frú Mannete Ramaili sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd. 
08.10.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Kostaríka, frú Pilar Saborio de Rocafort sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Mynd.
09.10.2008 Forseti tekur fyrir hönd Íslendinga við LennonOno friðarverðlaununum sem Yoko Ono afhenti í Höfða. Verðlaunin voru veitt íslensku þjóðinni fyrir framlag hennar til friðar og árangur í nýtingu hreinnar orku, sem hvort tveggja ætti að vera öðrum fordæmi. Við athöfnina fluttu Yoko Ono, forseti og borgarstjórinn í Reykjavík ávörp.
10.10.2008 Forseti flytur ávarp á setningu Alþjóða geðheilbrigðisdagsins sem fram fór á samkomu í Perlunni. Fjölmörg samtök og stofnanir kynna starfsemi sína á deginum og standa fyrir ýmsum atburðum næstu daga.
11.10.2008 Forseti tekur við fyrsta eintakinu af Þýsk-íslenskri orðabók sem kemur út á næstunni. Afhendingin fór fram í tengslum við opnun myndlistarsýningar í Listasafni Íslands.
11.10.2008 Forseti opnar sýningu á málverkum úr Würth safninu í Þýskalandi sem haldin er í Listasafni Íslands. Þar eru verk eftir ýmsa af frægustu málurum Evrópu.
13.10.2008 Forseti flytur ávarp í móttöku við upphaf íslenskra daga í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Ræðan var tekin upp fyrirfram og flutt af mynddiski. Ræðan á ensku.
13.10.2008 Forseti er í viðtali við Kastljós um erfiðleikana sem Íslendingar glíma við og þær áherslur sem nú ber að hafa í huga, tækifæri í framtíðinni og mikilvægi þess að styrkja trú ungu kynslóðarinnar á Ísland. Sjá vef RÚV og Kastljós.
14.10.2008 Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnunni The Role of Small States in International Peace and Security sem Ísland efndi til í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Ræðan var tekin upp fyrirfram og flutt af mynddiski. Ræða forseta.
14.10.2008 Forseti heimsótti höfuðstöðvar Sambands sparisjóða og Icebank og ræddi við starfsfólk á staðnum og starfsfólk sparisjóðanna úti á landi sem tengdir voru við fundinn með fjarfundabúnaði. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að sparisjóðirnir, fjórða stoðin í íslenska bankakerfinu, yrði áfram öflug enda ættu þeir rætur vítt og breitt í byggðum landsins og hefðu öflugt og hæft starfsfólk í sínum röðum. Þá heimsótti forseti Mjókursamsöluna og hélt fund með starfsfólki um stöðu Íslands á komandi árum, mikilvægi þess að eiga öflugan landbúnað sem sparaði þjóðinni dýrmætan gjaldeyri enda fæðuöryggi mikilvægur þáttur í stöðu þjóða eins og forseti benti á í ræðu við setningu Búnaðarþings nýlega. Þá svaraði forseti á báðum fundunum fjölmörgum spurningum fundarmanna.
15.10.2008 Forseti heimsótti í morgun Fjölbrautaskólann í Breiðholti, átti viðræður við forystumenn skólans, kennara og nemendur um erfiðleikana sem við er að glíma, sóknarfæri Íslendinga í framtíðinni og mikilvægi menntunar og verklegrar kunnáttu.

Í hádeginu sat forseti fund hjá Háskólanum í Reykjavík og ávarpaði fjölmennan hóp kennara og nemenda ásamt Svöfu Grönfeldt rektor og Ólafi Ísleifssyni lektor. Forseti lagði ríka áherslu á þau sóknarfæri sem fælust í getu, menntun og hæfni ungrar kynslóðar. Háskólar væru í vaxandi mæli aflvélar í hinu nýja hagkerfi 21. aldar og hinar miklu og jákvæðu breytingar sem orðið hefðu á háskólasamfélagi Íslendinga á síðustu árum styrktu stöðu okkar í framtíðinni. Upptaka frá fundinum á vef HR. Ávarp forseta.

Síðdegis heimsótti forseti Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra, og ræddi við vistmenn og starfsfólk um mikilvægi öflugrar velferðarþjónustu og hinn ótrúlega árangur sem lífsstarf elstu kynslóðarinnar hefði skilað.
16.10.2008 Forseti á fund með sendiherra Írans á Íslandi dr. Abdul-Reza Faraji Rad sem kynnti möguleika á samvinnu Íslendinga við Íran meðal annars á sviði jarðhita, lyfjaframleiðslu og flugrekstrar.
16.10.2008 Forseti heimsækir Marel og ræðir við starfsfólkið um hvernig bregðast eigi við þeim erfiðleikum sem við blasa en greinilegt er að fyrirtæki eins og Marel sjá margvísleg sóknarfæri á komandi árum, möguleikar þeirra til útflutnings hafa styrkst og vaxandi líkur eru á að fyrirtækið geti bætt við sig menntuðu fólki til starfa á Íslandi á komandi misserum. Fram kom að mikilvægt væri að fordæmi Marels og þróun þess yrði öðrum til eftirbreytni og hvatningar.

Þá heimsótti forseti vinnustofu Múlalundar og ræddi við starfsmenn um viðbrögð þeirra við atburðum síðustu daga og kynnti sér framleiðslu þessa verndaða vinnustaðar
16.10.2008 Forseti á fund með bandaríska vísindamanninum Wally Broecker við Columbia háskóla í New York um loftslagsbreytingar, eyðingu koltvísýrings og hið alþjóðlega tilraunaverkefni sem fram fer við Hellisheiðarvirkjun.
17.10.2008 Forseti heimsækir starfsfólk félagsmálaþjónustu Kópavogs og ræðir hvernig nýir erfiðleikar skapa aukin verkefni í félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Þvínæst átti forseti fund með stjórnendum fræðslumála og íþróttastarfs í bæjarfélaginu og kynnti sér hvaða áhrif atburðir undanfarinna vikna hafa haft á hugarfar nemenda, starfsemi í grunnskólum og starfsemi íþróttafélaganna.

Þá mætti forseti á afar fjölmennan fund í Menntaskólanum í Kópavogi og lagði þar áherslu á þann mannauð sem menntakerfið á Íslandi hefði skapað og margvíslegar áuðlindir íslands. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika gæti unga kynslóðin vænst bjartrar framtíðar á Íslandi. Þá átti forseti samræðustund með sveit eldri borgara í Kópavogi sem kom saman í félagsmiðstöðinni Gjábakka. Þar var fjallað um reynslu kynslóðarinnar sem nú er á efri árum. Ýmsir tóku til máls og minntu á þær miklu breytingar sem orðið hefðu á Íslandi á undanfarinni hálfri öld og hvernig þjóðin hefði ævinlega sigrast á djúpstæðum erfiðleikum.
18.10.2008 Forseti tekur þátt í afmælishátíð á Laugum í Þingeyjarsýslu í tilefni af 20 ára afmæli Framhaldsskólans. Í ávarpi sínu fjallaði forseti um mikilvægi fjölþættrar menntunar, þau miklu áhrif sem skólastarfsemi á Laugum hefði haft á síðustu öld og áréttaði að á tímum yfirstandandi erfiðleika væri nauðsynlegt að styrkja trú unga fólksins á framtíð Íslands. Þar gegndu skólar lykilhlutverki. Að lokinni afmælishátíð var sameiginlegur málsverður í skólanum.
18.10.2008 Forseti tekur þátt í hugmyndafundi sem Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, og Klak, nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, efna til í Háskólabíói. Markmið fundarins var að fá ungt fólk til að móta hugmyndir um möguleika Íslands og eigin tækifæri til nýsköpunar. Forseti lagði í ávarpi sínu áherslu á að Ísland eigi sér bjarta framtíð með frábærum lífsgæðum og spennandi möguleikum, einkum ef nýsköpun og fjölbreytni séu höfð að leiðarljósi. Auk forseta, fluttu ræður og ávörp á fundinum m.a. Björk Guðmundsdótir, Magnús Scheving, Guðjón Már Guðjónsson, Auður Eir Vilhjálmsdótir og Hrund Árnadóttir.
20.10.2008 Forseti heimsækir Verkmenntaskólann á Akureyri og á fund með fjölmennum hópi nemenda um tækifæri Íslendinga á komandi tímum, mikilvægi þess að styrkja skólakerfið og efla tiltrú æskunnar á Ísland og hvernig hægt er að nýta auðlindir og mannauð sem hér er að finna.

Næst fór forseti í Giljaskóla og ræddi við nemendur 7.-10. bekkjar og svaraði fjölmörgum spuringum um þróun mála að undanförnu, stöðu Íslands og framtíðina. Þá ávarpaði forseti nemendur og kennara í Háskólanum á Akureyri og tók þátt í ítarlegum samræðum um hvernig bregðast ætti við erfiðleikunum og nýta háskólasamfélag og rannsóknir í þágu nýrra tækifæra. Í hádeginu heimsótti forseti Brim og ræddi við starfsfólk frystihúss félagsins um styrkleikann sem sjávarútvegur hefur jafnan fært Íslendingum og svaraði einnig fjölda fyrirspurna.

 

Síðdegis átti forseti fund með bæjarstjóranum á Akureyri um samhæfð viðbrögð bæjarfélagsins, félagssamtaka og stofnana. Þá átti forseti fund með starfsfólki ráðhússins og öðrum embættismönnum Akureyrarbæjar um þá lærdóma sem draga mætti af þróun Akureyrarbæjar á undanförnum áratugum, um mikilvægi þess að varðveita hið trausta félagskerfi sem bærinn býr yfir. Þá heimsótti forseti Öldrunarheimili Akureyrarbæjar Hlíð og ræddi við íbúa og starfsfólk um þá lærdóma sem ævireynsla hinna eldri getur fært yngri kynslóðum.

 

Heimsókn forseta til Akureyrar lauk með viðræðum við starfsfólk fyrirtækisins Blikkrásar um verkefni smiðjunnar og viðhorf starfsmanna gagnvart komandi tímum.
21.10.2008 Forseti heimsækir sparisjóðinn Byr og ræðir við stjórnendur og starfsfólk um stöðu sparisjóðsins, mikilvægi sparisjóðanna í framtíðaruppbyggingu íslensks fjármálakerfis og þau tækifæri sem kunna að skapast á komandi árum.
21.10.2008 Forseti ræðir við fréttamann japanskrar sjónvarpsstöðvar um atburði síðustu vikna, bæði á Íslandi og erlendis, möguleika Íslendinga til sóknar á komandi árum, auðlindir þjóðarinnar og ný tækifæri.
21.10.2008 Forseti á fund með bæjarstjóra og starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar um viðbrögð við þeim erfiðleikum sem nú steðja að og nauðsyn þess að efla samfélagslega þjónustu á þessum tímum.

Þá heimsótti forseti Flensborgarskóla, ávarpaði nemendur og svaraði fyrirspurnum. Fram kom að mikilvægt væri að ungt fólk ætti áfram kost á því að sækja menntun hvar sem væri í veröldinni, íslenskir framhaldsskólar og háskólar væru sterkir og lánasjóður námsmanna greiddi fyrir námi á komandi árum. Mannauður Íslands væri ríkulegur og auðlindir fjölþættar.

Þá heimsótti forseti Setbergsskóla og ræddi ásamt bæjarstjóra Lúðvík Geirssyni við nemendur 10. bekkjar og svaraði fjölmörgum spurningum þeirra. Í hádeginu heimsótti forseti starfsfólk Actavis og fjallaði í ávarpi sínu um nauðsyn þess að efla bjartsýni og sóknarhug þjóðarinnar með því að reynsla starfsfólks þeirra fyrirtækja sem skilað hefðu miklum árangri eins og Actavis yrði sem flestum kunn, einkum ungu fólki sem væri að huga að framtíðinni.

Loks heimsótti forseti félagsaðstöðu eldri borgara í Hafnarfirði þar sem rætt var um glímuna við margvíslega erfiðleika á liðinni öld, hvernig Hafnarfjörður hefði vaxið úr fátæku sjávarplássi í þann öfluga og fjölþætta bæ sem menn þekktu nú með glæsilegum skólum, íþróttaaðstöðu og öflugri velferðarþjónustu.
22.10.2008 Forseti heimsækir SPRON og á fund með stjórnendum sparisjóðsins og ræðir við starfsfólk í höfuðstöðvum SPRON um atburði síðustu vikna, mikilvægi þess að styrkja sparisjóðina í landinu og á hvern hátt sé hægt að nýta þann mannauð og þekkingu sem þróast hefur innan bankakerfisins. Á fundinum greindi forseti einnig, líkt og í vettvangsheimsókn til Glitnis og Byrs, frá reynslu sinni af samræðum við þúsundir landsmanna í vettvangsheimsóknum að undanförnu.
22.10.2008 Forseti heimsækir höfuðstöðvar Glitnis og á fund með fjölmennum hópi starfsfólks um þau verkefni sem blasa við í íslensku bankakerfi, reynsluna sem þjóðin hefur orðið fyrir að undanförnu og hve mikilvægt sé að nýta þann mikla mannauð, þekkingu og hæfni sem skapast hefur innan íslenska bankakerfisins á undanförnum árum og áratugum. Jafnframt átti forseti fund með stjórnendum bankans um þau verkefni sem framundan eru.
23.10.2008 Forseti ræðir við blaðamann frá sænska viðskiptablaðinu Dagens Industri um viðhorf Íslendinga gagnvart atburðum síðustu vikna, andann sem birst hefur í vettvangsheimsóknum forseta vítt og breitt um landið að undanförnu og þær auðlindir og tækifæri sem Íslendingar geta nýtt sér í framtíðinni. Viðtalið við forseta.
23.10.2008 Forseti á fund með prófessor Rajnish Mehra sem er indverskur að uppruna en hefur starfað í Bandaríkjunum í áratugi. Rætt var um stöðu ríkja í kjölfar kreppunnar í bankakerfi Vesturlanda, sérstaklega stöðu Íslands, Indlands og Bandaríkjanna.
23.10.2008 Forseti heimsækir Fjölblendi í Hafnarfirði sem smíðað hefur nýjan blöndung sem sparað getur eldsneyti og dregið úr mengun, dæmi um framlag íslenskra hugvitsmanna til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.
23.10.2008 Forseti heimsækir sprotafyrirtækið Gogogic sem vaxið hefur á undanförnum árum og sinnir fyrst og fremst hugbúnaðarlausnum í samvinnu við innlenda og erlenda aðila. Stjórnendur lýstu framtíðarsýn sinni og hvernig hægt sé að efla sprotafyrirtæki á komandi árum.
25.10.2008 Forseti tekur á móti hópi stúdenta sem eru þátttakendur í verkefninu IceMUN þar sem stúdentar fjalla um málefni sem eru á dagskrá Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá sjónarhóli aðildarríkja.
25.10.2008 Forseti er viðstaddur útskriftarhátíð Háskóla Íslands sem haldin er í Háskólabíói.
25.10.2008 Forseti flytur ávarp við setningu Kirkjuþings sem haldið er í fimmtugasta sinn. Ávarp forseta.
26.10.2008 Forseti tekur á móti fulltrúum á Kirkjuþingi, erlendum gestum þingsins, biskupum og forystumönnum íslensku þjóðkirkjunnar.
26.10.2008 Forseti sækir hátíðarmessu í Hallgrímskirkju í tilefni af fimmtíu ára afmæli Kirkjuþings.
27.10.2008 Forseti heimsækir bæjarskrifstofur Þorlákshafnar í framhaldi af heimsókn sinni í vatnsverksmiðju á staðnum og ræðir við bæjarstjóra og starfsmenn bæjarins um viðbrögð vegna þeirra erfiðleika sem nú blasa við Íslendingum.
27.10.2008 Forseti heimsækir nýja vatnsverksmiðju Iceland Glacial í Þorlákshöfn sem reist hefur verið undir forystu Jóns Ólafssonar athafnamanns. Rætt var við forystumenn fyrirtækisins um framtíðarmöguleika í vatnsútflutningi.
28.10.2008 Forseti heimsækir Landspítala-háskólasjúkrahús og ávarpar starfsfólk og svarar fyrirspurnum á tveimur fundum sem haldnir voru í matsölum Landspítala við Hringbraut og Landspítala í Fossvogi. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að varðveita þann góða árangur sem náðst hefur í uppbyggingu heilbrigðiskerfis á Íslandi. Hann getur orðið þjóðinni vegvísir um árangur á komandi tímum. Þrátt fyrir rýrari efnahag þjóðarinnar tókst á undanförnum áratugum að þróa hér heilbrigðiskerfi í fremstu röð.  Íslensk gildi og samfélagshugsjón voru tengd við þekkingu og reynslu sem sótt hefur verið um víða veröld. Forseti hvatti einnig starfsmenn heilbrigðisstofnana til að taka virkan þátt í þeirri samfélagsumræðu sem nú sé brýn.
28.10.2008 Forseti heimsækir Borgarholtsskóla, flytur ávarp og svarar fyrirspurnum á fjölmennum fundi með nemendum og kennurum skólans.
29.10.2008 Forseti heimsækir hönnunarfyrirtækið Prologus og kynnir sér starfsemi þess og framleiðslu, og tekur þátt í umræðu um hvernig efla megi samstarf og sókn íslenskra hönnunarfyrirtækja.
30.10.2008 Forseti sækir landsleik í kvennaknattspyrnu milli Íslands og Írlands. Sigur íslenska liðsins veitti því rétt til þátttöku í Evrópumeistaramóti og er það í fyrsta sinn sem íslenskt lið tekur þátt í slíku móti á vettvangi knattspyrnu.
30.10.2008 Forseti heimsækir höfuðstöðvar Útflutningsráðs og á fund með stjórnendum og starfsfólki ráðsins um þau verkefni sem blasa við á næstu misserum í kjölfar fjármálakreppunnar. Rætt var um tækifærin sem eru á fjölmörgum sviðum, hvernig hægt er að greiða götu fólks til nýrra starfa því víða eru sóknarfæri. Einnig var rætt um hvernig hægt er að styrkja á ný orðspor Íslands á erlendum mörkuðum.
31.10.2008 Forseti tekur þátt í söfnun Slysavarnafélagsins Landsbjargar ásamt hópi sjálfboðaliða og forystumanna samtakanna.
31.10.2008 Forseti heimsækir fyrirtækið Vaka sem framleiðir teljara fyrir fiskeldi og verslunarmiðstöðvar. Tæknin er byggð á íslensku hugviti og eru tækin smíðuð hér. Þau hafa þegar verið seld í hundruðatali til fjölmargra landa. Nýr samningur við Marine Harvest, stærsta laxeldisfyrirtæki heims með eldi í Noregi, Skotlandi, Chile og Kanada, er dæmi um þau sóknarfæri sem fyrirtækið hefur á komandi árum.

Nóvember

01.11.2008 Forseti flytur ávarp á hátíðarsamkomu í Þjóðmenningarhúsi í tilefni af tíu ára afmæli Barnahúss. Ávarp forseta.
01.11.2008 Forseti kynnir Forvarnardaginn ásamt borgarstjóranum í Reykjavík og forystumönnum ÍSÍ, skátahreyfingarinnar og UMFÍ, auk forstjóra Actavis. Kynningarfundurinn var í Austurbæjarskólanum í Reykjavík og var þar einnig sýnt myndband sem sýnt verður í öllum grunnskólum landsins á Forvarnardaginn 6. nóvember.
03.11.2008 Forseti á fund með fulltrúum hönnunarfyrirtækisins Magneat sem hannað hefur búnað sem auðveldar fólki að nota heyrnartól við farsíma og tónhlöður; dæmi um nýsköpun sem á sér stað í sprotafyrirtækjum.
03.11.2008 Forseti á fund með sendiherra Víetnams á Íslandi hr. Nguyen Xuan Hong sem senn lætur af störfum. Rætt var um tækifæri til að auka samvinnu Víetnams og Íslands, um framlag Víetnama sem búa á Íslandi til íslensks samfélags og um viðbrögð Íslendinga við þeim efnahagserfiðleikum sem við blasa.
04.11.2008 Forseti á fund með forystumönnum heimasíðunnar Indefence sem hafa beitt sér fyrir söfnun undirskrifta tugþúsunda Íslendinga í því skyni að styrkja málflutning okkar í Bretlandi og annars staðar í veröldinni.
04.11.2008 Forseti á fund með fulltrúum Hins íslenska norðurljósafélags þar sem þeir sögðu frá hugmyndum um sýningarskála sem kynna ætti norðurljósin og hvernig hægt er að virkja áhuga fólks víða um heim á norðurljósum til að efla ferðaþjónustu í landinu, sérstaklega á Suðurnesjum.
04.11.2008 Forseti á fund með sendiherra Suður-Afríku Ismail Coovadia sem senn lætur af störfum. Rætt var um þann árangur sem náðst hefur með aukinni samvinnu landanna á undanförnum árum og hvernig íslensk reynsla getur nýst víða í Afríku, bæði á sviði orku, heilbrigðismála, fiskveiða og félagslegrar og lýðræðislegrar þróunar.
05.11.2008 Forvarnardagurinn verður haldinn á morgun fimmtudaginn 6. nóvember í öllum grunnskólum landsins. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun í fyrramálið heimsækja Húsaskóla í Reykjavík klukkan 8:20 og Varmárskóla í Mosfellsbæ klukkan 9:10. Fréttatilkynning.
05.11.2008 Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sendi í dag nýkjörnum forseta Bandaríkjanna Barack Obama og fjölskyldu hans heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni. Fréttatilkynning.
05.11.2008 Forseti afhendir markaðsverðlaun ÍMARKS. Markaðsmaður ársins var valinn Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri fyrir starf sitt fyrir Leikfélag Akureyrar og Borgarleikhúsið. Markaðsfyrirtæki ársins var Össur sem náð hefur árangri víða um heim.
06.11.2008 Forseti mætir í viðtal á Útvarpi Sögu og ræðir um Forvarnardaginn, rannsóknir á því hvað skilar árangri í forvarnarstarfi og hvernig samvera með fjölskyldu, þátttaka í íþrótta- og æskulýðsstarfi og það að draga sem lengst að neyta áfengis skilar ótvíræðum árangri.
06.11.2008 Forseti heimsækir Húsaskóla og Varmárskóla og ræðir við nemendur 9. bekkjar um Forvarnardaginn og þau skilaboð sem í honum eru fólgin. Forvarnardagurinn fer nú fram í öllum grunnskólum á landinu. Fréttatilkynning. Vefsíða forvarnardagsins.
07.11.2008 Forseti afhendir starfsmenntaverðlaun Starfsmenntaráðs við hátíðlega athöfn í húsakynnum BSRB. Tilgangur verðlaunanna er að styðja nýsköpun og framþróun starfsmenntunar á Íslandi.
07.11.2008 Forseti á fund með fulltrúum fyrirtækisins Plasterplug sem hannað hefur sérstaka gifshnappa til holufyllingar á veggjum. Um er að ræða íslenska hönnun og árangur sprotafyrirtækis.
07.11.2008 Forseti á fund með fulltrúum hestafyrirtækisins Rífandi gangur sem veitir börnum og unglingum sem haldin eru ýmsum sjúkdómum þjónustu og þjálfun.
07.11.2008 Forseti á hádegisverðarfund með erlendum sendiherrum á Íslandi þar sem rætt var um atburði síðustu vikna, þróun hins alþjóðlega fjármálakerfis og tækifæri Íslands á komandi árum.
12.11.2008 Forseti situr fyrir svörum í viðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins þar sem rætt var um nýlegan fund forseta með erlendum sendiherrum, og vettvangsheimsóknir forseta til fjölmargra skóla, vinnustaða og velferðarstofnana víða um land að undanförnu.
12.11.2008 Forseti á fund með Þorsteini Gunnarssyni rektor Háskólans á Akureyri og Guðrúnu Rósu Þorsteinsdóttur starfsmanni Rannsóknaþings norðursins um niðurstöður þingsins sem nýlega var haldið í Alaska og undirbúning að því næsta sem haldið verður í Noregi árið 2010.
12.11.2008 Forseti ræðir við blaðamanninn Stephen Lacey frá tímaritinu Renewable Energy World um þróun jarðhitanýtingar á Íslandi og hvernig tæknikunnátta og reynsla Íslendinga getur nýst öðrum þjóðum.
13.11.2008 Forseti á fund með fulltrúum andlegs þjóðarráðs Bahá'ía á Íslandi um starfsemi hreyfingarinnar á alþjóðavísu og baráttuna fyrir mannréttindum.
13.11.2008 Forseti á fund með Auði Guðjónsdóttur um árangurinn af söfnun Mænuskaðafélagsins og áform um stofnun alþjóðlegrar rannsókna- og meðferðarmiðstöðvar á Íslandi.
13.11.2008 Forseti á fund með Gissuri Guðmundssyni sem nýlega var kosinn forseti Alþjóðasambands matreiðslumanna, WACS. Rætt var um þau tækifæri til landkynningar sem skapast á næstu árum í kjölfarið á því að Íslendingar voru valdir til forystu í alþjóðasambandinu.
13.11.2008 Forseti á viðtal við fréttamann frá Kyodo fréttastofunni í Japan um hina alþjóðlegu fjármálakreppu og stöðu Íslands, framtíðarþróun og auðlindir.
14.11.2008 Forseti sækir baráttusamkomuna NÚNA sem Samtök sprotafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og fleiri stóðu að. Fullltrúar fjölmargra sprotafyrirtækja kynntu árangur fyrirtækjanna, möguleika á að taka við nýju starfsfólki og framtíðarsýn. Einnig ávörpuðu samkomuna menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og Björk Guðmundsdóttir.
15.11.2008 Forseti er viðstaddur gangsetningu nýrrar vélasamstæðu í Hellisheiðarvirkjun sem stóreykur orkuframleiðslu virkjunarinnar. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur, borgarstjóri og fulltrúi Mitsubishi fluttu ávörp við gangsetninguna.
16.11.2008 Forseti afhendir verðlaun fyrir bestu íslensku kvikmyndina á Eddunni, hátíð sem haldin var í Háskólabíói og sjónvarpað í Ríkissjónvarpinu.
16.11.2008 Forseti er viðstaddur hátíðardagskrá á Degi íslenskrar tungu í Hátíðasal Háskóla Íslands. Á dagskránni voru kynntar tillögur að íslenskri málstefnu og menntamálaráðherra afhenti verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.
17.11.2008 Forseti tekur á móti myndbandi sem sýnir starfsmenn Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri fyrir um hálfri öld.
17.11.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Perú hr. Gilbert Chauny de Porturas-Hoyle sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um nýtingu jarðhita í Perú og þróun sjávarútvegs og hvar þekking og tæknikunnátta Íslendinga á þeim sviðum getur orðið að liði. Mynd.
17.11.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Grikklands hr. Antonios Vlavianos sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukin samskipti landanna á síðari árum í kjölfar opinberrar heimsóknar forseta Grikklands til Íslands og hliðstæðrar heimsóknar forseta Íslands til Grikklands. Mynd.
18.11.2008 Forseti ræðir við blaðamann frá tímaritinu Institutional Investor um þróunina í íslensku banka- og fjármálakerfi í ljósi hins alþjóðlega umhverfis og þróunarinnar í öðrum löndum.
18.11.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Búrkína Fasó frú Monique Ilboudo sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukin samskipti Íslands við ríki Afríku á undanförnum árum og hvernig smá og meðalstór ríki geta lært af reynslu hvers annars. Mynd.
18.11.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Úkraínu hr. Andrii Deshchytsia sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um aukin umsvif íslenskra fyrirtækja í Úkraínu, aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins við efnahagslífið í landinu og samstöðu ólíkra stjórnmálaflokka. Mynd.
18.11.2008 Forseti á fund með nýjum sendiherra Bosníu og Hersegóvínu frú Elma Kovacevic sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um möguleika á aukinni samvinnu landanna og samstöðu smárra ríkja í Evrópu. Mynd 
19.11.2008 Forseti á fund með fulltrúum framleiðanda heimildamyndar um leiðtogafund Reagans og Gorbachevs. Rætt var um mikilvægi fundarins, um sögu 20. aldar og þátttöku ýmissa embættismanna og samstarfsmanna þjóðarleiðtoganna.
20.11.2008 Forseti á fund með Thorvald Stoltenberg fyrrum utanríkisráðherra Noregs sem vinnur að tillögum um framtíðarverkefni í norrænni samvinnu.
20.11.2008 Forseti á fund með utanríkisráðherra Færeyja, Jörgen Niclasen, og sendiherrum Íslands í Færeyjum og Færeyja á Íslandi. Forseti flutti ráðherranum þakkir Íslendinga fyrir göfugmannlega aðstoð og vinarhug Færeyinga í garð íslensku þjóðarinnar. Einnig var rætt um stöðu þjóðanna á komandi árum og mismunandi tengsl þeirra við samtök Evrópuþjóða.
25.11.2008 Forseti á fund með Geir Gunnlaugssyni forstöðumanni Miðstöðvar heilsuverndar barna um niðurstöður alþjóðlegra ráðstefna sem haldnar hafa verið um heilsuvernd barna og útgáfu fræðsluefnis sem ætlað er íslenskum skólum.
27.11.2008 Forseti á fund með sendiherra Indlands hr. Sivaraman Swaminathan sem afhendir trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum en hann er fyrsti sendiherra Indlands sem hefur aðsetur á Íslandi. Forseti vottaði sendiherranum samúð vegna hryðjuverkaárásanna í Mumbai og fagnaði því að Indverjar hefðu nú opnað sendiráð í Reykjavík. Rætt var um samvinnu landanna á ýmsum sviðum, í vísindum, tækni og viðskiptum, og þátttöku forsetans í leiðtogafundum TERI en á næsta ári verða þeir helgaðir baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig var rætt um bráðun jökla í Himalayafjöllunum og nauðsyn rannsókna á því sviði. Ísland býr að einhverri elstu lýðræðishefð í veröldinni og Indverjar eru stærsta lýðræðisríki veraldar og því fæli samvinna landanna í sér fjölmörg tækifæri á alþjóðavettvangi fyrir auknu lýðræði og mannréttindum.
27.11.2008 Forseti ræðir við fréttamenn sjónvarpsins í Slóveníu um efnahagserfiðleika Íslendinga, hina alþjóðlegu fjármálakreppu, auðlindir landsins og sóknarfæri á komandi árum.
27.11.2008 Forseti ræðir við hóp nemenda í stjórnmálafræði frá Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi um forsetaembættið, lýðræðislegar hefðir á Íslandi og stöðu þjóðarinnar í framtíðinni.
28.11.2008 Forseti tekur á móti þátttakendum í lúterskri hjónahelgi sem unnið hafa á þeim vettvangi á undanförnum árum. Þátttakendur heimsóttu einnig Bessastaðakirkju.
28.11.2008 Forseti á fund með Lasse Heininen stjórnarformanni Rannsóknarþings norðursins, Þorsteini Gunnarssyni rektor Háskólans á Akureyri og Guðrúnu Rósu Þórsteinsdóttur starfsmanni þingsins um niðurstöður rannsóknarþingsins í Alaska, undirbúning væntanlegs þings í Noregi, starfsemi verkefnahópa og auknar áherslur á Norðurlöndum og í Evrópu á málefni norðurslóða.
30.11.2008 Forseti tekur þátt í athöfn á Akrvætnanesi er Ríkharður Jónsson knattspyrnumaður er gerður að heiðursborgara Akraness.
30.11.2008 Forseti er viðstaddur hátíðarguðþjónustu í Hafnarfjarðarkirkju þegar vígt var nýtt orgel.

Desember

01.12.2008 Forseti tekur á móti Alþingismönnum, rektorum, deildarforsetum og forystumönnum stúdenta í öllum háskólum landsins í tilefni af 90 ára afmæli fullveldisins.
01.12.2008 Forseti tekur á móti bókinni Fánar Íslands. Í henni hefur Hörður Lárusson dregið upp myndir af þeim fánum sem íslenskur almenningur og aðrir gerðu tillögur um að yrðu þjóðfáni Íslendinga á öðrum áratug aldarinnar.
01.12.2008 Forseti situr málþing Alþingis um eftirlit löggjafarþingsins með framkvæmdavaldinu. Innlendir og erlendir sérfræðingar fluttu erindi um skipan þessara mála á Norðurlöndum.
01.12.2008 Forseti flytur ávarp á fjölmennri samkomu stúdenta og kennara á Háskólatorgi, nýrri byggingu Háskóla Íslands. Samkoman var haldin í tilefni af fullveldisdeginum. Í ávarpi sínu minnti forseti á að stúdentar hefðu verið í fararbroddi baráttunnar fyrir fullveldi á 19. öld og mikilvægt væri að háskólar og fræðasamfélag yrði drifkraftur í umræðunum um nýja tíma, hið nýja Ísland sem margir nefndu svo. Skoraði forseti á stúdenta og kennara við Háskóla Íslands að taka forystuna í slíkri umfjöllun, könnun og rannsóknum með sama hætti og skólasveinar á Bessastöðum hefðu á fyrri hluta 19. aldar tekið forystuna í baráttunni fyrir fullveldi. Brýnt væri að spyrja spurninga á gagnrýninn og öflugan hátt og leita svara, bæði hver og einn og þjóðin saman. Því aðeins tækist okkur að skapa betra samfélag, öflugra siðgæði og traustara lýðræði.
01.12.2008 Forseti sækir ráðstefnu Útflutningsráðs, Nýr dagur - ný hugsun, sem haldin er á fullveldisdaginn til að varpa ljósi á tækifæri Íslands í framtíðinni og leiðir til sóknar. Vefur Útflutningsráðs.
02.12.2008 Forseti ræðir við fréttamann kínverska sjónvarpsins um þróun fjármálakreppunnar á Íslandi og í veröldinni, viðbrögð Íslendinga, alþjóðlega samvinnu við stjórn peningamála og aukin samskipti Íslands og Kína.
03.12.2008 Forseti afhendir hvatningarverðlaun Öryrkjabandalagsins sem veitt eru einstaklingi, fyrirtæki og stofnun fyrir framlag til málefna fatlaðra og aukins skilnings á stöðu þeirra í samfélaginu.
03.12.2008 Forseti á fund með danska sérfræðingnum Claus Möller um hvernig skapa má baráttuanda og nýta sóknarfæri á komandi árum.
03.12.2008 Forseti á fund með forystumönnum Íþróttasambands fatlaðra um vetrarleika Special Olympics sem haldnir verða í Bandaríkjunum í febrúar. Einnig afhenti forystusveit íþróttasambandsins forseta viðurkenningarskjal fyrir þátttöku hans og framlag til heimsleika seinfærra og þroskaheftra, Special Olympics, sem haldnir voru í Kína í fyrra.
04.12.2008 Forseti tekur á móti hópi eldri starfsmanna Alþingis.
04.12.2008 Forseti tekur á móti hópi starfsfólks öldrunarheimilis Hrafnistu á Vífilsstöðum.
04.12.2008 Forseti heimsækir ásamt borgarstjóra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur Þjónustumiðstöð Breiðholtshverfis og ræðir við starfsfólk félagsþjónustunnar, skólakerfisins og lögreglu um viðbrögð við þeim erfiðleikum sem blasa við, hvernig hægt er að sameina krafta ólíkra aðila og aðstoða fólk sem á komandi mánuðum mun glíma við atvinnuleysi og aðra erfiðleika. Fjölmargar hugmyndir um nýjar leiðir og einstakar aðgerðir komu fram á fundinum.
05.12.2008 Forseti ræðir við blaðamann frá Condé Nast Portfolio um efnahagskreppuna á Íslandi, viðbrögð þjóðarinnar og framtíðarhorfur í ljósi hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu.
05.12.2008 Forseti tekur á móti hópi gesta frá Félagi Sameinuðu þjóðanna í New York og sendiráðum ýmissa landa hjá Sameinuðu þjóðunum.
05.12.2008 Forseti flytur ávarp í upphafi málþings um framtíð frjálsra félagasamtaka á óvissutímum. Málþingið er haldið í Háskóla Íslands og skipulagt af félagsráðgjafadeild og stjórnmálafræðideild skólans í samvinnu við samtökin Almannaheill, Rannsóknarsetur um barna- og fjölskylduvernd og Rannsóknarstöð um þjóðmál.
05.12.2008 Forseti á fund með dr. Helmut K. Anheiers prófessor í opinberri stefnumótun og félagslegri velferð og ritstjórum bókarinnar Stjórnun og rekstur félagasamtaka sem kom út í dag og er helguð starfsemi félagasamtaka á Íslandi. Rætt var um aukna hlutdeild frjálsra félagasamtaka í nýsköpun hugmynda, virkni almennings og þróun þjóðfélags.
06.12.2008 Forseti sækir jólatónleika í Laugardalshöll þar sem fjöldi íslenskra listamanna kom fram.
06.12.2008 Forseti afhendir viðurkenningar JC hreyfingarinnar til ungra Íslendinga fyrir framúrskarandi árangur.
06.12.2008 Forseti er viðstaddur opnun sýningar í Fjarskiptasafninu í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu sem nú starfar á vegum Þjóðminjasafns Íslands.
08.12.2008 Forseti á viðræður við Francesca von Habsburg, þekktan safnara á alþjóðlegri nútímalist og öflugan liðsmann íslenskra listamanna og nokkra forystumenn í íslensku listalífi um möguleika á öflugri kynningu á nútímalist.
08.12.2008 Forseti vottar söfnuði rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi samúð sína vegna andláts Alexei II patríarka og afhendir samúðarkveðjur til kirkjuráðs rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
09.12.2008 Forseti á fund með forráðamönnum alþjóðlegu ráðstefnunnar Driving Sustainability sem tvisvar hefur verið haldin á Íslandi um áformaða ráðstefnu á næsta ári og hvernig hægt er að nýta þennan vettvang til þess að efla umferð sem knúin er hreinum orkugjöfum og stuðla þannig að minni hættu á loftslagsbreytingum.
09.12.2008 Forseti á fund með sendiherra Indlands á Íslandi S. Swaminathan um fjölmörg tækifæri til að auka samvinnu Íslands og Indlands á komandi árum, einkum á sviði tækni, þekkingar, orkumála, rannsókna, lista og menningar.
10.12.2008 Forseti á fund með Viktor Tatarintsev sendiherra Rússlands á Íslandi um þróun samvinnu á norðurslóðum og hvernig hægt er að byggja á samvinnu Íslendinga og Rússa á þessu sviði á undanförnum árum, m.a. með tilliti til Rannsóknarþings norðursins og samvinnu fræðimanna og kjörinna fulltrúa.
10.12.2008 Forseti kveikir ásamt leikskólabörnum og skólabörnum á Álftanesi á jólatrjám við Bessastaðastofu.
11.12.2008 Forseti afhendir verðlaun í ratleik Forvarnardagsins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Ratleikurinn var samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Bandalags íslenskra skáta, innan vébanda Forvarnardagsins sem fram fór fyrr í haust. Mörg hundruð grunnskólanemendur sendu inn lausnir í ratleiknum og þrír þeirra hlutu verðlaun á Bessastöðum. Þau eru Stefán Valur Stefánsson Hlíðaskóla, Vala Rún Valtýsdóttir Laugalandsskóla og Vera Sigurðardóttir Grunnskóla Bláskógabyggðar. Nánari upplýsingar um ratleikinn og Forvarnardaginn má finna á www.forvarnardagur.is.
11.12.2008 Forseti ræðir við fréttamann sjónvarpsstöðvar Tokyoborgar í Japan um viðbrögð Íslendinga við hinni alþjóðlegu fjármálakreppu og hruni bankanna, framtíðarhorfur í efnahagslífi heimsins og sóknarfæri Íslendinga á ýmsum sviðum atvinnulífsins.
12.12.2008 Forseti opnar Bjartsýnisvefinn, bjartsyni.is, í húsakynnum netfyrirtækisins Gogogic. Fréttatilkynning.
15.12.2008 Forseti ræðir við bandaríska fræðimanninn Paul Hawken um þróun hins nýja hagkerfis, bæði á Íslandi og á heimsvísu, sjálfbærni og græna tækni. Hawken hefur verið á Íslandi í boði Bjarkar Guðmundsdóttur.
16.12.2008 Forseti er í viðtali við Ingva Hrafn Jónsson á sjónvarpsstöðinni ÍNN um hrun bankanna, efnahagserfiðleikana á Íslandi, sóknarfæri í íslensku atvinnulfíi, tækifæri nýrrar kynslóðar, orkumál og fleira. Þátturinn er sýndur kl. 20 á sjónvarpsstöðinni í dag þriðjudag.
18.12.2008 Forseti tekur á móti biskupi Íslands Karli Sigurbjörnssyni, Þorsteini Gunnarssyni arkitekt og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði sem afhentu forseta ný rit í ritröð um íslenskar kirkjur þar sem meðal annars er fjallað um Bessastaðakirkju.
18.12.2008 Forseti á fund með íslenskum og erlendum fulltrúum fyrirtækisins LS Retail sem selt hefur hugbúnað víða um heim.
19.12.2008 Forseti er viðstaddur úthlutun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Þórunn Valdimarsdóttir.
19.12.2008 Forseti heimsækir hugbúnaðarfyrirtækið Hugvit-GoPro sem var að fagna samningi um nýtt upplýsingakerfi sem fyrirtækið hefur þróað á undanförnum árum. Upplýsingakerfi GoPro eru notuð víða um heim.
22.12.2008 Forseti sendir fjölskyldu Halldóru Eldjárn fyrrverandi forsetafrúar samúðarkveðju vegna andláts hennar. Fréttatilkynning.
22.12.2008 Forseti tekur á móti hópi mótmælenda á Bessastöðum og ræðir við þá um kröfur þeirra og sjónarmið.
26.12.2008 Forseti sækir jólasýningu Þjóðleikhússins Sumarljós sem byggð er á skáldsögunni Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson en fyrir hana hlaut Jón Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005.
27.12.2008 Forseti sækir tónleika sem haldnir eru til stuðnings Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna og skipulagðir eru af Einari Bárðarsyni.
29.12.2008 Forseti ræðir við fréttamann sænsku sjónvarpsstöðvarinnar TV4 um efnahagserfiðleikana á Íslandi, hina alþjóðlegu viðskiptakreppu, sóknarfæri Íslendinga á komandi árum, lærdómana sem draga má af reynslu Íslands og annarra landa við endurskipulagningu hins alþjóðlega fjármálakerfis. Viðtalið verður sýnt í sænska sjónvarpinu laugardaginn 3. janúar fyrir hádegi.
29.12.2008 Forseti er viðstaddur afhendingu heiðursverðlauna Ásu Guðmundsdóttur Wright fyrir árið 2008 en þau hlaut Einar Stefánsson prófessor. Verðlaununum var nú úthlutað í fertugasta sinn.
30.12.2008 Forseti afhendir viðurkenningar Alþjóðahúss sem veittar eru þeim sem skarað hafa fram úr í störfum í þágu innflytjenda. Viðurkenningarnar hlutu Halldór Ho sem kom til Íslands í hópi flóttamanna frá Víetnam árið 1979, Edda Ólafsdóttir sem sinnt hefur málefnum innflytjenda á vegum Reykjavíkurborgar og félagið Móðurmál sem sinnir móðurmálskennslu tvítyngdra barna.
30.12.2008 Forseti er viðstaddur útför Halldóru Eldjárn fyrrverandi forsetafrúar og ritar minningarorð sem birt eru í Morgunblaðinu.
31.12.2008 Forseti stýrir fundi í ríkisráði þar sem staðfest eru lög og ýmsar stjórnarathafnir.