Veftré Print page English

Íslensku leiklistarverðlaunin

Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin

Íslensku leiklistarverðlaunin, Gríman, voru fyrst veitt sumarið 2003. Leiklistarsamband Íslands stendur að Grímunni en sérstök valnefnd skipuð fulltrúum helstu stofnana, félaga og samtaka leikhúslistamanna velur þá sem verðlaunin hljóta. Verðlaun eru veitt í fimmtán flokkum en jafnframt sérstök heiðursverðlaun til einstaklings sem þykir hafa sett mark sitt á íslenskt leikhús. Jafnframt er þeirri leiksýningu sem áhorfendur velja sem bestu leiksýninguna veitt sérstök áhorfendaverðlaun.

 


Markmið Íslensku leiklistarverðlaunanna eru:

 

  • Að standa fyrir uppskeruhátíð leiklistarinnar á Íslandi í tengslum við leiklistarþing í lok hvers leikárs, sem verður glæsilegur vettvangur þar sem leikhússfólki eru veittar fagviðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur á sviði leiklistar.

 

  • Að skapa nýjan og ferskan vettvang til þess að kynna íslenskt leikhús enn frekar fyrir almenningi með því að gera upp leikárið í fjölmiðlum og kynna rækilega það sem best var gert.

 

  • Að standa fyrir klassískri, fagmannlegri og skemmtilegri verðlaunahátíð þar sem sigurvegarar hvers verðlaunaflokks eru hylltir af starfsfélögunum og kynntir almenningi með stuðningi fjölmiðla.

 

  • Að auka metnað leikhússfólks, skapa heilbrigða og spennandi samkeppni og stuðla að faglegri vinnubrögðum og ríkari sérhæfingu í þeim starfstéttum er fást við leiklist.

 

  • Að auka hróður og orðstír leiklistar á Íslandi.

 

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari Íslensku leiklistarverðlaunanna.

Vefur Grímunnar