Veftré Print page English

Lionshreyfingin á Íslandi

 

Merki Lionshreyfinginnar á ÍslandiLionsklúbbarnir eru samtök, óháð stjórnmálaflokkum og trúmálafélögum. Tilgangur þeirra er að fylgjast með þörfum samfélagsins og finna leiðir til að fullnægja þeim, annað hvort með eigin átaki eða í samvinnu við aðra aðila og er sérstök áhersla lögð á líknar-, mannúðar- og menningarmál.

Lions Clubs International er stærsta alþjóðlega þjónustuhreyfing heims, stofnuð í Bandaríkjunum árið 1917. Hún starfar í um 180 þjóðlöndum og er fjöldi félaga um ein og hálf milljón karla og kvenna. Ísland er fjölumdæmi sem skiptist í tvö umdæmi. Í A-umdæmi eru 44 Lionsklúbbar, 1 Lionessuklúbbur. Í B-umdæmi eru 44 Lionsklúbbar. Um 2500 manns starfa í þessum klúbbum.

Íslenskir Lionsfélagar sinna ungum sem öldnum, sjúkum, sjóndöprum og fötluðum. Einnig ýmsum verkefnum tengdum umhverfismálum, skólamálum og menningu. Lionsmenn gefa tíma sinn og umhyggju eða afla fjár m.a. til tækjakaupa eða fjárstuðnings til þeirra sem minna mega sín.

Markmið Lionsklúbbanna:

  • Að virkja og efla anda skilnings meðal þjóða heims.
  • Að efla meginreglur heilbrigðs stjórnarfars og borgaralegra dyggða.
  • Að starfa af áhuga að aukinni velferð byggðarlagsins og á sviði félagsmála, menningar og almenns siðgæðis.
  • Að tengja klúbbana böndum vináttu, góðs félagsanda og gagnkvæms skilnings.
  • Að skapa vettvang fyrir frjálsar umræður um öll málefni, sem almenning varðar, að því undanskildu að ekki séu rædd meðal klúbbfélaga málefni stjórnmálaflokka né heldur sértrúarhópa.
  • Að hvetja félagslynda menn og konur til að þjóna byggðarlagi sínu án persónulegs ávinnings og hvetja til dugnaðar og eflingar siðgæðis í viðskiptum, iðnaði, opinberri starfsemi og einkarekstri.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er verndari Lionshreyfingarinnar á Íslandi.

6. mars 2007 sæmdi Jimmy Ross, alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar, forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni sérstakri heiðursorðu Lionshreyfingarinnar ,,Head of Stat" en hún er einungis ætluð þjóðhöfðingjum og þjóðarleiðtogum.

Vefsvæði Lionshreyfingarinnar á Íslandi