Veftré Print page English

Alþjóðlegar sumarbúðir barna - CISV


Merki Alþjóðlegra sumarbúða barna - CISVCISV, Childrens International Summer Villages, Alþjóðlegar sumarbúðir barna eru alþjóðleg friðarsamtök, óháð stjórnmálum og trúarbrögðum. Dr. Doris Allen, bandarískur barnasálfræðingur stofnaði CISV árið 1951 en hugmynd hennar var að börn frá ólíkum löndum kæmu saman, lærðu að lifa saman á grundvelli umburðarlyndis og jafnréttis, lærðu að hugsa og draga ályktanir í anda alþjóðavitundar og vinna þannig að friði í heiminum.

Fyrstu íslensku börnin fóru til Svíþjóðar 1954 og svo hópar 1971, 1972 og árlega frá 1978 en full starfsemi hófst ekki fyrr en Íslandsdeild var formlega stofnuð 8. október 1981.


Á hverju ári fá íslensk börn og unglingar tækifæri til að taka þátt í sumarbúðum, unglingabúðum og unglingaskiptum. Þar hitta þau ungmenni frá öðrum löndum og deila með þeim skoðunum sínum, reynslu og þekkingu og kynnast siðum þeirra og menningu um leið og þau kynna sína eigin.


Samtökin vinna í anda og stefnu yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um rétt barnsins, sbr. 10 grein: "Barnið sé verndað gegn starfsemi, sem getur leitt til misréttis kynþátta, trúarbragða eða misréttis annars eðlis. Í uppeldi þess skal leggja áherslu á skilning, víðsýni og vináttu þjóða, frið og alheimsbræðralag, þannig að barnið viti að kraftar þess og eiginleikar ættu að koma meðsystkinum þess til góðs."


Markmið CISV á Íslandi:

  • Skipuleggja alþjóðlegar sumarbúðir hérlendis fyrir 11 ára börn.
  • Senda íslensk börn, ásamt fararstjóra, í alþjóðlegar sumarbúðir í öðrum löndum.
  • Skipuleggja unglingaskipti á milli CISV-fjölskyldna á Íslandi og í öðrum löndum.
  • Starfrækja unglingadeild fyrir þá sem hafa tekið þátt í alþjóðlegum sumarbúðum og fyrir aðra unglinga sem hafa áhuga á starfi CISV.
  • Skipuleggja námstefnubúðir fyrir unglinga á aldrinum 17-18 ára.
  • Taka þátt í samstarfi með öðrum félagasamtökum, sem hafa svipuð markmið á stefnuskrá sinni.

Verndari CISV á Íslandi er forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson.
 

Vefsvæði CISV á Íslandi