Veftré Print page English

Ágrip af sögu fálkaorðunnar

Með konungsúrskurði frá 3. október 1903 var ákveðið, að skjaldarmerki Íslands skyldi vera "hvítur íslenskur fálki á bláum grunni." Fannst mönnum veglegra að nota þennan svipmikla, harðgera og tígulega fugl sem tákn landsins en þorskinn. Það hefur verið sagt, að íslensk skáld og íslenskir fálkar hafi samhliða um þriggja til fjögurra alda skeið haldið uppi hróðri landsins meðal erlendra þjóða. En þegar sá dagur rann, að erlendir höfðingjar hættu að skilja og meta íslensk skáld, þá héldu þeir áfram að dá fálkann um margar aldir og þóttu íslenskir fálkar konungsgersemi og eru eftirsóttir enn í dag. Veiðar með fálkum er eldforn íþrótt, talin upprunnin hjá hirðingjum í Asíu og fyrst einkum iðkuð í Túrkestan. Um 2000 árum fyrir Krists burð voru fálkar taldir höfðinglegar gjafir í Kína. Veiðiíþrótt þessi barst til Evrópu og var stórhöfðingjagaman þar um margar aldir eins og í Austurlöndum. Á Norðurlöndum voru slíkar veiðar tíðkaðar langt aftan úr heiðni. Það var því ekki að undra, þótt það varpaði nokkrum ljóma á hið fjarlæga Ísland að þaðan skyldu koma bestu veiðifálkar, sem völ var á og voru sendir sem gjafir milli konunga og keisara.

Fálkinn átti nokkra sögu sem opinber táknmynd Íslands: hvítur fálki á bláum grunni var skjaldarmerki Íslands. Fálkinn var í skjaldarmerki Íslands í sextán ár, frá 1903 til 1919. Eftir að breytt var til um skjaldarmerki Íslands árið 1919 og landvættamerkið leysti hann af hólmi er það af fálkanum að segja, að árið 1920 var gefinn út úrskurður um sérstakan íslenskan konungsfána og í honum var íslenskur fálki. Fána af þessari gerð notaði konungur við komu sína til Íslands 1921.

Þegar Kristján konungur X. og Alexandrine drottning heimsóttu Íslands sumarið 1921 var gefið út konungsbréf um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu, undirritað í Reykjavík 3. júlí 1921. Er fálkamynd einkennismerki orðunnar eins og nafn hennar bendir til. Í konungsbréfinu segir m.a. svo: “Oss hefur þótt rétt, til þess að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenningu, að stofna íslenska orðu, sem Vér viljum að sé nefnd “Íslenski fálkinn”.

Konungur Íslands var fyrsti stórmeistari fálkaorðunnar.

Hina upprunalegu orðu teiknaði Hans Christian Tegner, prófessor við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, í samvinnu við Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritara og Poul Bredo Grandjean skjaldarmerkjafræðing. Frumteikningar þeirra eru í vörslu forsetaembættisins.

Í konungsbréfinu voru settar fram hinar fyrstu reglur um fálkaorðuna. Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritari samdi frumdrögin en Jón Magnússon forsætisráðherra lagði margt til þeirra í endanlegri gerð. Reglurnar byggjast að mestu á norskum og dönskum fyrirmyndum en þó var þar að finna nýmæli: þannig var fálkaorðan frábrugðin dannebrogsorðunni dönsku að hana mátti veita konum.


Við hernám Danmerkur hinn 9. apríl 1940 varð hlé á orðuveitingum um nokkurt skeið. Orðunefnd beindi að gefnu tilefni þeirri fyrirspurn til forsætisráðuneytisins hvort orðuveitingavaldið hefði flust til ráðuneytisins sem handhafa konungsvalds með ályktun Alþingis frá 10. apríl. Í svari ráðuneytisins kom fram að þetta vald eins og annað hefði flust til Ráðuneytis Íslands með ályktun Alþingis.

Þótt talið væri að ráðuneytið hefði sem handhafi konungsvalds vald til að veita orður voru engar orður veittar meðan sú skipan hélst eða um tveggja ára skeið. Þann 17. janúar 1942 gaf ríkisstjóri Íslands út bréf um breytingu á konungsbréfinu frá 1921 um fálkaorðuna að ríkisstjóri færi með orðuveitingavaldið og að forsætisráðherra bæri að skipa mann í orðunefnd í stað orðuritara sem var jafnframt konungsritari. Fyrstu orðuveitingar samkvæmt þessum nýju reglum fóru fram þennan sama dag.


Svo virðist sem deildar meiningar hafi verið með stjórnvöldum á Íslandi og Danmörku varðandi orðuveitingavaldið sem Íslendingar töldu vera hjá Ráðuneyti Íslands samkvæmt ályktun Alþingis frá 10. apríl 1940. Kristján konungur X. veitti eina fálkaorðu eftir samþykkt þessarar ályktunar. Hinn 1. desember 1943 sæmdi hann Jón Hj. Sveinbjörnsson stórkrossi, „sem þann dag hafði verið ritari hans hátignar í 25 ár“.

Konungur veitti heiðursmerkið með þeirri athugasemd að ekki hefði náðst til orðunefndar.

Gefið var út forsetabréf í Ríkisráði 11. júlí 1944 á Þingvöllum. Þáverandi forseætisráðherra, dr. Björn Þórðarson, lagði til ýmsar breytingar en konungskórónan var numin brott sem og nafn konungs sem stofnanda. Einkunarorðum var breytt úr "Aldrei að víkja" í "Eigi víkja" og 17. júní 1944 kom í stað nafns stofnanda.

Með stofnun lýðveldisins árið 1944 varð forseti Íslands stórmeistari fálkaorðunnar.