Hvatning til ungra Íslendinga
Í fyrstu opinberu heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur innanlands árið 1996 stofnaði forseti til sérstakrar viðurkenningar sem ber heitið Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga. Fyrstu hvatningaskjölin voru veitt vestfirskum ungmennum í heimsókn forseta til Ísafjarðar 31. ágúst 1996. Við þetta tækifæri sagði forseti meðal annars:
Hér er um að ræða hvatningu til ungs fólks sem er að alast upp í okkar landi og sýnir góðan árangur á fjölmörgum sviðum: í námi, leik, list, starfi, félagslífi, íþróttum og á ýmsum öðrum sviðum. Það er mikilvæg skylda forseta Íslands að láta í té slíka hvatningu og stuðla þannig að því að við látum í ljósi stuðning og hvetjum þau til að halda áfram á sömu braut.
Hér er ekki um að ræða verðlaun í eiginlegri merkingu heldur hvatningu sem er fyrst og fremst fordæmi fyrir aðra. Áður en ég kem að þeim fjórum vestfirsku ungmennum sem fyrstu hvatningarskjölin hljóta, þá langar mig að leggja áherslu á það að hér er ekki um keppni að ræða og þaðan af síður samkeppni, heldur eins konar táknrænan viðurkenningarvott fyrir það sem þau hafa verið að gera þótt fjölmargir aðrir kæmu einnig til greina.
Mig langar einnig að láta í ljósi þá ósk að um ókomna tíð fái ég að eiga samskipti við þau er hér eiga hlut að máli og þau sem kunna einnig í framtíðinni að fá slíka hvatningu, eiga við þau viðræður og fá fréttir af því hvernig lífshlaup þeirra gengur svo að bæði ég og þjóðin öll geti fylgst með því hvernig sú fjölmenna sveit ungra drengja og stúlkna sem þessa hvatningu hljóta á komandi árum reiðir af í ólgusjó lífsins.