Veftré Print page English

2000
Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga afhent ungmennum úr Rangárvallasýslu


Á hátíðarsamkomu í íþróttahúsinu á Hellu föstudaginn 7. apríl 2000 afhenti forseti Íslands ungmennum úr Rangárvallasýslu viðurkenningarskjölin „Hvatningu forseta Íslands til ungra Íslendinga.” Þau hlutu:


Anna Pála Sverrisdóttir,

Skógum, Austur Eyjafjöllum. Hún hefur sýnt góðan árangur í námi og fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir smásögur og ljóð, m.a. hlotið viðurkenningar í smásagnasamkeppni Æskunnar og Slysavarnafélags Íslands, Flugleiða og Ríkisútvarpsins. Hún var í liði Menntaskólans í Hamrahlíð í spurningakeppninni Gettu betur og keppti það lið til úrslita. Hún hefur einnig verið þátttakandi í jafnréttisbaráttu kvenna.


Ástþór Guðfinnsson,

Hvolsvelli. Hann hefur náð góðum árangri í námi þótt hann hafi átt við vanheilsu að stríða. Hann hefur sýnt mikla einbeitni, bjartsýni og kjark við erfiðar aðstæður og reynst öðrum góður félagi.


Björgvin Reynir Helgason,

Lambhaga, Rangárvöllum. Hann er margfaldur meistari í skáklistinni, bæði skólameistari, kjördæmameistari og sýslumeistari auk þess sem hann hefur reynst góður og háttvís nemandi. Hann hefur ekki látið áföll í fjölskyldunni buga sig og tekist á við verkefnin með bjartsýni og þrótti.


Björk Grétarsdóttir,

Hellu. Hún hefur sýnt góðan árangur í námi og íþróttum. Hún hefur einnig lagt stund á tónlistarnám, verið virk í leikfélaginu og sýnt háttvísi í allri framgöngu.


Elísabet Patriarca,

Sunnuhvoli, Hvolhreppi. Hún er góður íþróttamaður sem hefur unnið marga sigra í frjálsum íþróttum og glímu og er nú Íslandsmeistari í glímu í sínum aldursflokki. Hún er einnig áhugasamur tónlistarmaður, stundar nám í fiðluleik og hefur tekið virkan þátt í félagslífi skólans.


Guðni Rúnar Logason,

Neðri Dal, Vestur Eyjafjallahreppi. Hann hefur þrátt fyrir mikil veikindi sýnt einbeitni og staðfestu og er öll framganga hans vitnisburður um að sigrast á miklum erfiðleikum og takast á við lífið af bjartsýni. Eftir mikla hjartaaðgerð tekur hann nú fullan þátt í íþróttum með félögum sínum.


Helga Sæmundsdóttir,

Bjólu, Djúpárhreppi. Hún er háttvís og prúður nemandi sem náð hefur góðum árangri í námi. Hún hefur mikla leikhæfileika sem hún hefur sýnt m.a. á skólaskemmtun, æfir íþróttir af kappi og stundar nám í hljóðfæraleik.


Katla Gísladóttir, Leirubakka, Landi. Hún hefur sýnt góðan árangur við nám bæði í Laugalandsskóla og Tónlistarskóla Rangárvallasýslu. Hún hefur reynst félögum sínum hjálpsöm og hefur einnig náð góðum árangri í hestamennsku m.a. keppt á félagsmótum Geysis og á Landsmóti.


Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, Stórumörk, Vestur-Eyjafjöllum. Hún er afburðamanneskja í íþróttum og fjölhæf á því sviði og tekið virkan þátt í að byggja upp íþróttastarf og tómstundastarf í sinni heimabyggð. Hún tekur einnig þátt í kórstarfi í sínum skóla og hefur reynst skipulögð og traust námsmanneskja.


Sigþór Árnason, Hvolsvelli. Hann hefur sýnt forystuhæfileika í félagsmálum og er nú formaður nemendaráðs Hvolsskóla, auk þess að vera kappsfullur námsmaður og náð góðum árangri í sérstökum verkefnum á því sviði. Hann hefur einnig tekið virkan þátt í íþróttum og stundar nám í Tónlistarskóla Rangæinga.


Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga afhent ungmennum í Árneshreppi


Á hátíðarsamkomu í Árneshreppi miðvikudaginn 12. júlí 2000 hlutu eftirtalin ungmenni viðurkenningu forseta Íslands.


Linda Björk Guðmundsdóttir, 18 ára, Finnbogastöðum.

Linda hefur sýnt mjög góða námshæfileika og verið afar virk í félagsmálum.


Guðfinna Hávarðardóttir, 11 ára, Kjörvogi.

Guðfinna er afburða námsmaður og hefur verið til fyrirmyndar í allri framgöngu.


Þorgerður Lilja Björnsdóttir, 17 ára, Melum

.

Þorgerður er mjög góður nemandi og hefur sýnt þroska og dugnað í félagsmálum.


Þorsteinn Hjaltason, 15 ára, Bæ.

Þorsteinn hefur skilað góðum árangri í námi og hefur sinnt náttúru- og umhverfismálum sérstaklega.


Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga afhent ungmennum á samkomu á Hólmavík


Á hátíðarsamkomu á Hólmavík þriðjudaginn 11. júlí 2000 hlutu eftirtalin ungmenni viðurkenningu forseta Íslands. 


Guðmundína Arndís Haraldsdóttir 17 ára, Hólmavík.

Guðmundína Arndís hefur sýnt mjög góðan námsárangur, verið virk í félagsstörfum og stundar einnig tónlistarnám.


Jón Ingi Skarphéðinsson, 10 ára, Hólmavík

Jón hefur náð mjög góðum námsárangri og sýnt mikla leikni í skákíþróttinni.


Magnús Guðmundsson, 16 ára. Drangsnesi.

Magnús hefur verið virkur í félagsmálum og vakið athygli fyrir framúrskarandi árangur í íþróttum.


María Björk Einarsdóttir, 11 ára, Drangsnesi.

María hefur sýnt frábæran námsárangur, er jafnvíg á allar greinar, ekki síst tölvunám.


María Lovísa Guðbrandsdóttir, 18 ára, Hólmavík

María hefur með einstakri þrautseigju og dugnaði stundað nám sitt þrátt fyrir erfið veikindi og verið brautryðjandi og öðrum sannarlega fyrirmynd.


Ragna Ólöf Guðmundsdóttir 11 ára, Drangsnesi.

Ragna hefur sýnt að hún er gædd góðum listrænum hæfileikum, bæði skrifar hún ljóð og sögur og stundar myndlist og handmennt af mikilli næmni og þroska.


Sigvaldi Bergmann Magnússon, 16 ára, Hólmavík.

Sigvaldi er góður og efnilegur íþróttamaður, hefur náð frábærum árangri í skíðagöngu og unnið til margra verðlauna á landsvísu.


Þorsteinn Ingi Sveinsson, 15 ára, Borðeyri.

Þorsteinn hefur sýnt góða námshæfileika og náð góðum árangri í íþróttum og tónlist.

Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga afhent ungmennum á samkomu í Laugagerðisskóla, Ólafsvík og Stykkishólmi


Í opinberri heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu 3. og 4. október 2000 hlutu 16 ungmenni „Hvatningu forseta Íslands til ungra Íslendinga”.

Þau sem hlutu hvatningu eru:


Laugagerðisskóli:


Guðmundur Margeir Skúlason,
14 ára, frá Hallkelsstaðahlíð hefur sýnt frábæran árangur í íþróttum. Hann var fyrstur í sínum aldursflokki í kúluvarpi á ÍR-mótinu á liðnum vetri og einnig Íslandsmeistari í kúluvarpi innanhúss auk þess að vera héraðsmeistari í sinni heimabyggð í fleiri íþróttagreinum. Guðmundur hefur einnig reynst góður hestamaður og unnið verðlaun á þeim vettvangi.


Gunnhildur Jónsdóttir,
12 ára, frá Kolviðarnesi hefur reynst vera mikill námsmaður og samviskusöm í öllum greinum og er árangur hennar í stærðfræði sérstaklega athyglisverður. Gunnhildur hefur einnig náð góðum árangri í íþróttum einkum hlaupum og sundi.


Þorbjörg Dagný Kristbjörnsdóttir,
12 ára, frá Hraunsmúla hefur staðið sig einstaklega vel í námi og hlotið verðlaun fyrir frábæran árangur. Hæfileikar hennar njóta sín við allar námsgreinar.


Í Ólafsvík


Daði Hjálmarsson,
14 ára, frá Rifi hefur sýnt einstakt hugrekki og dugnað þrátt fyrir mjög erfið veikindi. Meðan hann gekkst undir meðferð var hann í daglegu sambandi við bekkjarsystkini sín og kennara með fjarskiptabúnaði frá sjúkrahúsinu og lét dvöl sína þar ekki raska sinni ró eða góðu sambandi við vini og félaga í heimabyggð. Daði hefur sýnt mikið æðruleysi og verið yfirvegaður í allri framkomu. Hann er ekki aðeins jafnöldrum sínum heldur okkur öllum til fyrirmyndar þegar erfiðleika ber að garði.


Gyða Kristjánsdóttir,
11 ára, frá Ölkeldu hefur sýnt með framgöngu sinni, ljúfu viðmóti og góðri skapgerð hvernig hægt er að hafa áhrif á allt sitt umhverfi ásamt því að ná góðum árangri bæði í námi og íþróttum.


Hallmar Reimarsson,
16 ára, frá Ólafsvík hefur þrátt fyrir mikla erfiðleika og alvarleg veikindi sem hann hefur þurft að glíma við um langa hríð sýnt mikið æðruleysi, kjark og dugnað. Hallmar hefur orðið að gangast undir mjög erfiða læknismeðferð og langvarandi glímu við erfið veikindi en þrátt fyrir það einkennir bjartsýni viðhorf hans. Um leið og við þökkum honum fyrir það fordæmi sem hann hefur sýnt óskum við honum alls hins besta í framtíðinni.


Jóhanna Ósk Baldvinsdóttir,
16 ára, frá Ólafsvík hefur ætíð verið afburðanemandi og skilað frábærum námsárangri. Hún hefur stundað nám í Tónlistarskóla Ólafsvíkur og leikur einnig með lúðrasveit Snæfellsbæjar. Jóhanna hefur einnig tekið virkan þátt í starfi leikfélagsins og á margvíslegan hátt sýnt góða hæfileika.


Kristín Lilja Friðriksdóttir,
15 ára, frá Grundarfirði hefur náð góðum árangri í námi og íþróttum og sýnt mikinn félagslegan þroska ásamt því að standa sig vel í tónlistarnámi.


Sóley Fjalarsdóttir,
16 ára, frá Hellissandi er mjög samviskusamur nemandi sem einnig hefur náð góðum árangri í íþróttum. Sóley hefur verið í landsliðsúrvali í kvennaknattspyrnu unglinga en einnig keppt í hlaupum, stökki og spjótkasti bæði fyrir heimafélag sitt á Hellissandi og héraðssambandið.


Sædís Alda Karlsdóttir,
12 ára, frá Grundarfirði hefur náð góðum árangri í íþróttum og sýnt mjög glaðlega, jákvæða og skemmtilega framkomu og félagslegan þroska ásamt því að skila góðum árangri í námi.


Þorkell Máni Þorkellsson,
15 ára, frá Grundarfirði hefur sýnt mjög góða tónlistarhæfileika. Hann hefur útsett lög og stundar nám bæði á hljómborð og orgel jafnhliða því að vera virkur þátttakandi í félagslífi og skilað góðum árangri á öðrum sviðum í námi sínu.


Í Stykkishólmi:


Guðni Heiðar Valentínusson,
15 ára, frá Stykkishólmi hefur sýnt frábæran árangur í íþróttum. Hann hefur æft og keppt í frjálsum íþróttum um langa hríð. Þótt hann hafi fyrrum átt við erfið veikindi að stríða og verið langdvölum á sjúkrahúsi hefur hann ekki látið það aftra sér frá því að skila góðum árangri bæði í íþróttum og á öðrum sviðum. Hann lék í fyrra með úrvalsdeildarliði Snæfellsness í körfubolta og í sumar í drengjalandsliði Íslands.


Hrefna Dögg Gunnarsdóttir,
16 ára, frá Stykkishólmi hefur ætíð verið til fyrirmyndar í námi og félagsstörfum ásamt því að æfa íþróttir frá ungum aldri og ná góðum árangri á því sviði. Hún hefur verið í hópi bestu frjálsíþróttamanna í sínum aldursflokki og lék fyrr á þessu ári með unglingalandsliði Íslands í körfuknattleik á Smáþjóðaleikunum. Hrefna Dögg hefur einnig stundað tónlistarnám með góðum árangri og verið í forystu í starfi skátahreyfingarinnar í Stykkishólmi.


Jóhanna Ómarsdóttir,
17 ára, frá Stykkishólmi hefur þrátt fyrir örorku sína og mikil veikindi sýnt hvernig kjarkur og atorka geta skilað góðum árangri. Hún hefur stundað nám sitt með prýði og tekið virkan þátt í félagslífi skólans. Með eljusemi, iðni og meðfæddum hæfileikum hefur Jóhanna náð góðum árangri í píanóleik og tónlistarnámi og er ágætt dæmi um einstakling sem tekst að ná markmiðum sínum þrátt fyrir að leiðin að þeim sé ekki greið.


Lára María Harðardóttir,
16 ára, frá Stykkishólmi hefur alla sína skólagöngu verið góður nemandi og náð frábærum árangri á mörgum sviðum eins og til dæmis í stærðfræði ásamt því að vera virk í skátastarfi og stundað nám bæði í píanóleik og á blásturshljóðfæri.


Rúnar Ólason,
14 ára, frá Stykkishólmi glímir við alvarlegan nýrnasjúkdóm og hefur þurft að leggja mikið á sig til þess að lifa eðlilegu lífi. Hann hefur sýnt mikið æðruleysi í veikindum sínum og verið öðrum fyrirmynd í því hvernig hægt er með bjartsýni og vilja að horfa björtum augum til framtíðar þótt á móti blási. Um leið og við óskum honum allra heilla þökkum við honum fyrir að vera okkur hinum fyrirmynd í þessum efnum.