Heiðursmerki Rauða kross Íslands
Frá árinu 1949 hefur forseti Íslands veitt Heiðursmerki Rauða kross Íslands en það fá þeir Íslendingar og erlendir ríkisborgarar er þess þykja verðir af störfum sínum að mannúðarmálum.
Það var Þorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali, þáverandi formaður Rauða kross Íslands, sem var frumkvöðull þess að efnt var til heiðursmerkisins. Sveinn Björnsson forseti hafði einnig áhuga á því en hann átti þátt í stofnun Rauða kross Íslands árið 1924 og var formaður félagsins fyrsta starfsárið. Stefán Jónsson teiknari og arkitekt í Reykjavík teiknaði merkið en Kjartan Ásmundsson gullsmiður og orðusmiður annaðist smíði þess.
Heiðursmerkið er í tveimur stigum. Fyrra stig er hvítsteindur kross, gullbryddur. Annað stig er eins og hitt nema fimmtungi minna og silfur í stað gulls.
Forseti Íslands skipar þrjá menn í nefnd sem gerir tillögur um veitingu heiðursmerkisins. Einn skal skipa eftir tillögu forsætisráðherra, annar er formaður Rauða kross Íslands en hinn þriðji formaður hinnar íslensku fálkaorðu. Forseti skipar einhvern þeirra formann nefndarinnar samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Veiting heiðursmerkja skal að jafnaði fara fram á stofndegi Rauða kross Íslands, 10. desember. Birta skal í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum hverjir heiðursmerkið hljóta.
Rauði kross Íslands ber allan kostnað af heiðursmerkinu. Við andlát þess er heiðursmerkið hefur hlotið ber erfingjum hans að skila formanni nefndarinnar merkinu aftur.