Veftré Print page English

2005
 
Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga afhent ungmennum í Hafnarfirði

Í opinberri heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar til Hafnarfjarðar 21. október 2005 hlutu 29 ungmenni „Hvatningu forseta Íslands til ungra Íslendinga.“ Hvatningin var afhent á fjölskylduhátíð í íþróttahúsinu við Strandgötu. Þau sem hlutu hvatningu eru:

Aðalheiður Lárusdóttir, 13 ára, Garðavegi 4. Hún er afbragðs nemandi og góður leiðtogi, keppandi í Stóru upplestrarkeppninni og hefur náð góðum árangri í píanóleik.

Aðalsteinn Sesar Pálsson, 12 ára,  Fífuvöllum 9. Hann er góður námsmaður og frábær vinur vina sinna.

Aran Nganpanya, 10 ára, Suðurhvammi 7. Hann er duglegur og jákvæður nemandi sem hefur náð góðum tökum á íslensku eftir að hann fluttist frá Taílandi; hann nær árangri í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur.

Auréja Zelvyté, 15 ára, Eyrarholti 20. Hún hefur staðið sig vel í íþróttum og námi, er virk í félagsstörfum og hefur sýnt frábæran dugnað við að tileinka sér íslensku eftir að hún kom frá Litháen.

Árni Pétur Jónsson, 10 ára, Mávahrauni 21. Hann hefur þrátt fyrir fötlun sýnt mikla lífsgleði og dugnað, býr yfir félagslegum styrk og hefur náð undraverðum árangri í námi.

Ásta Bjarndís Þorsteinsdóttir, 15 ára, Háukinn 4. Hún hefur sýnt þolgæði og æðruleysi þrátt fyrir erfiðleika, er metnaðarfull í námi og hefur þroskað viðhorf til lífsins.

Björgvin Már Jónsson, 12 ára, Skjólvangi 5. Hann hefur náð góðum árangri í fimleikum og fótbolta, stendur sig vel í námi og kappkostar fallegan frágang á allri vinnu.

Dagur Gunnarsson, 14 ára, Álfaskeiði 92. Hann er bæði músíkalskur og býr yfir listrænum hæfileikum, hann sýndi mikinn árangur þegar hann fór nýjar leiðir í vali á námsefni.

Díana Rut Kristinsdóttir, 14 ára, Hamrabyggð 26. Hún hefur þrátt fyrir lesblindu verið dugleg og áhugasöm í námi, æfir ballett, nútímadans og spuna með glæsilegum árangri og stundaði í sumar nám hjá Konunglega ballettinum í Kaupmannahöfn.

Erla Arnardóttir, 15 ára, Vesturbraut 20. Hún hefur sýnt framúrskarandi árangur í sundi, hún rífur sig eldsnemma á fætur oft í viku til að stunda æfingar.

Erling Óskar Kristjánsson, 13 ára, Dvergholti 1. Hann vann Stóru upplestrarkeppnina sem haldin var í Hafnarborg í fyrra og hrífur bæði börn og fullorðna með upplestri sínum. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika hefur hann reynst góður námsmaður og er bæði kurteis og hjálpsamur.

Eyrún Arnardóttir, 15 ára, Suðurhvammi 23. Hún býður sig gjarnan fram í sjálfboðastörf, bæði í umhverfismálum og félagslífi, tekur oft frumkvæði og hefur verið atkvæðamikil í ungmennaráði Hafnarfjarðar.

Gabríela Reginsdóttir, 12 ára, Skjólvangi 8. Hún hefur látið margt gott af sér leiða í umhverfismálum enda hefur skólinn hennar tengst Grænfánaverkefni Landverndar. Hún skilar einnig góðum árangri í námi og sýnir ávallt mikla prúðmennsku.

Gígja Jónsdóttir, 14 ára, Traðarbergi 9. Hún hefur fjölþætta listræna hæfileika, bæði í myndlist, tónlist og í dansi og hefur á margan hátt haft hvetjandi áhrif á starfið í sínum skóla.

Gunnhildur Skarphéðinsdóttir, 7 ára, Þrastarási 38. Hún flutti til Íslands í sumar og hefur sýnt að hún hefur haldið íslenskunni vel þrátt fyrir að búa erlendis frá tveggja ára aldri, kann einnig að lesa á bæði katalónsku og spænsku, er samviskusöm og dugleg, aðlagast vel nýjum bekkjarfélögum.

Hafdís Jónsdóttir, 14 ára, Burknavöllum 1c. Hún, stundar fimleika af kappi og skipuleggur tíma sinn vel, skilar heimavinnu ávallt með sóma og er ætíð kurteis.

Haukur Heiðar Steingrímsson, 16 ára, Smyrlahrauni 27. Hann er einstakt prúðmenni og þótt hann hafi þurft að leggja mikið á sig við nám og önnur störf þá sér þess ekki merki í dagfari hans sem einkennist af gefandi framkomu og kærleika.

Heiðrún Traustadóttir, 11 ára, Suðurhvammi 9. Hún hefur fallega framkomu og er einstaklega góð við alla sem eru minni máttar, sýnir samnemendum sem öðrum mikinn kærleika.

Helga Arnardóttir, 12 ára, Miðvangi 153. Hún hefur látið margt gott af sér leiða í umhverfismálum og stuðlað að því að skólinn hennar hefur náð góðum árangri á því sviði, stendur sig vel í námi og sýnir ávallt mikla prúðmennsku.

Ingibjörg Kristjánsdóttir, 15 ára, Svöluhrauni 13. Hún er framúrskarandi námsmaður, býr yfir ríkum tónlistarhæfileikum og hefur reynst einn efnilegasti nemandi Tónlistarskólans í fiðluleik.

Ingileif Franzdóttir Wechner, 11 ára, Hringbraut 57. Hún hefur sýnt að hún er mjög skapandi einstaklingur bæði í leiklist og ballett og auk þess hefur hún náð góðum árangri í píanóleik.

Kristleifur Lúðvíksson, 10 ára, Blikaási 9. Hann hefur þrátt fyrir ýmsa erfiðleika náð góðum árangri í námi enda hefur eljusemi hans reynst þar vel.

Mirjam Yrsa Friðleifsdóttir, 10 ára, Dvergholti 3 Hún er hæfileikaríkur nemandi sem stundar námið af kostgæfni með vönduðum vinnubrögðum og nýtir einnig vel listræna hæfileika sína.

Radoslaw Mateusz Solarski - Radek, 12 ára, Hvammabraut 16. Hann kemur frá Póllandi en hefur aðlagast vel íslensku lífi og tekist á við mótlæti af æðruleysi og dugnaði.

Ragnar Torfi Teitsson, 15 ára, Stekkjarhvammi 3. Hann er Norðurlandameistari í skylmingum og er einnig að læra á klarínett í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, duglegur nemandi, viðmótsþýður og kurteis.

Signý Arnórsdóttir, 15 ára, Laufvangi 13. Hún er í unglingalandsliðinu í golfi enda stundar hún þá íþrótt af kappi ásamt því að skila góðum árangri í námi.

Sigrún Ella Einarsdóttir, 13 ára, Lyngbergi 25. Hún er ein af efnilegustu knattspyrnukonum landsins í sínum aldursflokki og hefur jafnframt sýnt framúrskarandi árangur í námi.

Sigurður Ágústsson, 15 ára, Suðurvangi 17. Hann er frábær íþróttamaður sem varð á þessu ári bikarmeistari, Íslandsmeistari og deildarmeistari í 4. flokki FH í handbolta.

Þórunn Káradóttir, 14 ára, Brekkuhlíð 10. Hún býr yfir fjölþættum hæfileikum í námi, tónlist og íþróttum og hefur einnig lagt mikið af mörkum í félagsmálum nemenda.


Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga

afhent ungmennum í Eyjafjarðarsveit

Í opinberri heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar til Eyjafjarðarsveitar 13. apríl 2005 hlutu 11 ungmenni „Hvatningu forseta Íslands til ungra Íslendinga.“  Hvatningin var afhent á fjölskylduhátíð í íþróttahúsi Hrafnagilsskóla. Þau sem hlutu hvatningu eru:

 

Axel Ingi Árnason, 15 ára, Ásum. Hann hefur sýnt mikla hæfileika sem laga- og textasmiður og hefur samið verk sem flutt hafa verið í skólanum, stundar auk þess myndlist með góðum árangri.
 

Caitlin O'Brien, 11 ára, Skógarseli. Síðan hún kom til Íslands frá Bretlandi hefur hún náð góðum tökum á íslensku og aðlagast vel íslensku samfélagi, auk þess sem hún er virkur þátttakandi í íþróttum.
 

Ebba Karen Garðarsdóttir, 11 ára, Garði. Hún er framúrskarandi íþróttakona og var m.a. valin íþróttamaður UMSE árið 2003 og í úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands. Hún hefur auk þess sýnt góðan árangur í námi og þverflautuleik.
 

Frans Veigar Garðarsson, 15 ára, Stokkahlöðum. Hann hefur sýnt mikla kunnáttu í tölvum og tónlist, stundar knattspyrnu af metnaði og hefur náð góðum árangri í námi, er hæfileikaríkur ungur maður.
 

Freyr Brynjarsson, 12ára, Hólsgerði. Hann hefur góða listræna hæfileika, stundar nám í trommuleik og hefur látið að sér kveða í söng og leiklist, er ávallt kurteis og sýnir öllum virðingu með jákvæðu viðhorfi.
 

Jóhann Axel Ingólfsson, 14 ára, Uppsölum. Hann er fjölhæfur í leiklist og hefur bæði leikið með Freyvangsleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar. Einnig stundar hann píanóleik og hefur sýnt góðan námsárangur.
 

Katrín Þöll Ingólfsdóttir, 12 ára, Uppsölum. Hún hefur stundað júdó af kappi og náð góðum árangri í þeirri grein, stundar nám í þverflautuleik og hefur sýnt einbeitni og góðan vilja á fleiri sviðum.
 

Kristján Godsk Rögnvaldsson, 14 ára, Björk. Hann hefur sýnt framúrskarandi árangur í trompetleik og í öðrum námsgreinum, er ávallt reiðubúinn að leggja á sig ómælda vinnu til að ná markmiðum sínum.
 

Linda Brá Sveinsdóttir, 14 ára, Vatnsenda. Hún er ávallt reiðubúin að taka að sér verkefni í félagslífi nemenda, hefur jákvætt lífsviðhorf og náð góðum árangri í tónlist og öðrum greinum.
 

Skarphéðinn Páll Ragnarsson, 15 ára, Hóli. Hann er mikill hestamaður, hefur keppt í hestaíþróttum og stundað tamningar með góðum árangri. Hann hefur einnig beitt sér á fleiri sviðum, m.a. sýnt góðar framfarir í tónlist.

Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga

afhent ungmennum á Akureyri

 Í opinberri heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar til Akureyrar 11. apríl 2005 hlutu 23 ungmenni “Hvatningu forseta Íslands til ungra Íslendinga.” Hvatningin var afhent á fjölskylduhátíð í Íþróttahöllinni. Þau sem hlutu hvatningu eru:

 
Aðalbjörn Tryggvason, 15 ára, Bröttuhlíð. Hann hefur sýnt frábæran árangur á landsvísu í meðferð vélsleða og mótorhjóla og í íþróttum á því sviði ásamt því að búa yfir ríkulegri kunnáttu um meðferð véla og tækja.

 

Aldís Bergsveinsdóttir, 9 ára, Drekagili. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur sýnt mjög góða eiginleika við nám og í framkomu allri, lagt ríka rækt við að vera jákvæð og glöð, einstakur vinur sinna bekkjarfélaga.

 

Aleksandra Lapenko, 16 ára, Hafnarstræti. Hún hefur sýnt fádæma elju og dugnað við að tileika sér nýtt tungumál eftir að hún kom hingað frá Lettlandi og við að kynnast siðum og menningu Íslendinga. Hún hefur jafnframt reynst afburða nemandi í stærðfræði, hefur listræna hæfileika, vann m.a. til verðlauna í nýsköpunarkeppni grunnskóla í hönnun.

 

Andrea Ösp Karlsdóttir, 15 ára, Dalsgerði. Hún er afburðamanneskja í íþóttum og í fremstu röð í sundi, er m.a. í landsliðinu. Hún er einnig jákvæð, glaðleg og hæfileikarík.

 

Aron Einar Gunnarsson, 16 ára, Skarðshlíð. Hann er einn efnilegasti knattspyrnu- og handknattleiksmaður Íslands í sínum aldursflokki og hefur verið til fyrirmyndar öðrum við að sýna hverju dugnaður og einbeitni geta skilað.

 

Bergþór Steinn Jónsson, 15 ára, Stórholti. Hann er góður námsmaður sem ávallt er hjálpsamur og reiðubúinn að aðstoða aðra en hefur einnig staðið sig vel í íþróttum, er m.a. Íslandsmeistari í júdó í sínum aldursflokki.

 

Birgir Freyr Árnason, 13 ára, Hjallalundur. Hann hefur þrátt fyrir að vera heyrnarskertur sýnt góðan árangur, staðið jafnfætis öðrum í námi og starfi þótt hann eigi við fötlun að glíma. Mikill baráttumaður og fullur metnaðar, sýnir hvernig hægt er að sigrast á erfiðleikunum.

 

 

Einar Rafn Stefánsson, 11 ára, Heiðarlundi. Hann hefur reynst prúður og duglegur nemandi sem skilað hefur góðum árangri þrátt fyrir að þurfa að glíma við erfiða lesblindu. Jafnhliða námi hefur hann verið kappsamur við æfingar, bæði í handbolta og fótbolta.

 

Elísa Sól Pétursdóttir, 6 ára, Lögbergsgötu. Hún hefur þrátt fyrir alvarlegan taugasjúkdóm staðið sig eins og hetja í skólanum og tekið þátt í leik og námi með jafnöldrum sínum, beitt hjálpartækjum af skynsemi sér til stuðnings. Hún er glaðleg og gefst aldrei upp við að leysa verkefni sín af ánægju og gleði.

 

Eva Hafdís Ásgrímsdóttir, 14 ára, Möðrusíða. Hún hefur tekist á við erfiðleika í lífinu með kjarki og dugnaði, sýnt mikinn félagslegan þroska og ávallt tilbúin að hjálpa þeim sem á þurfa að halda. Hún er einnig ágætur námsmaður og kappsöm í íþróttum.

 

Guðbjörn Ólsen Jónsson, 15 ára , Ægisgötu. Hann náði góðum árangri þrátt fyrir glímu við erfiðleika, hefur unnið sér vinsældir bæði nemenda og starfsfólks skólans og tekur mikinn þátt í félagslífi, hefur sýnt listrænan áhuga.

 

Herdís Helgadóttir, 14 ára, Ránargötu. Hún hefur verið dyggur liðsmaður unglingastarfs Hjálpræðishersins og er einnig kröftug og kappsöm i skólanum, áræðin og samviskusöm og þorir að standa við sannfæringu sína.

 

Jan Erik Jessen, 16 ára, Dvergagili. Hann hefur sýnt framúrskarandi námsárangur og hefur eiginleika sem valda því hann er oft valinn til forystu þegar þarf að framfylgja hagsmunum nemenda, er fylginn sér, háttvís og rökfastur.

 

Jóhann Þór Hólmgrímsson, 12 ára, Möðrusíða. Í glímunni við erfiða fötlun hefur hann sýnt að hann er mikil hetja, kvartar aldrei og reynir að taka þátt í athöfnum jafnaldra sinna. Hann hefur ávallt sýnt æðruleysi. Vegna dugnaðar og jákvæðs hugafars hefur hann unnið sér hylli félaga sinna.

 

Kristín Rósa Jóhannsdóttir, 11 ára, Hjallalundi. Hún hefur þrátt fyrir fötlun og sjúkdóm sem hún glímdi við sýnt eljusemi og dugnað, kappkostað að stunda talþjálfun og hreyfiþjálfun, er vel skipulögð og ávallt jákvæð þótt erfiðleikar blasi við.

 

Kristín Jónsdóttir, 11 ára, Mosateigi. Hún er gott dæmi um einstakling sem lætur ekki erfiðan sjúkdóm hafa neikvæð áhrif á líf sitt og hefur reynst duglegur nemandi bæði í bóklegum og verklegum greinum, æfir píanóleik og sund og tekur þátt í íþróttamótum fatlaðra.

 

Magnús Arturo Batista, 13 ára, Bakkasíðu. Hann býr yfir mikilli elju og keppnisskapi sem skilaði þeim árangri að hann vann stóru upplestrarkeppnina á Akureyri á síðasta skólaári. Hann er kurteis og prúður og ávallt reiðubúinn að leggja mikið á sig til að ná settu marki.

 

Níels Erlingsson, 14 ára, Vanabyggð. Hann er hjartahreinn og heiðarlegur, kappkostar að koma vel fram við alla, hefur tekið virkan þátt í félagslífi, einkum í unglingastarfi Hjálpræðishersins og nýtur virðingar meðal félaga sinni fyrir góðsemi og vináttu.

 

Rósa Ösp Traustadóttir, 14 ára, Byggðavegi. Þrátt fyrir fötlun hefur hún ávallt fylgt sínum bekk frá fyrsta degi, er glaðvær og tekur virkan þátt í íþróttum fatlaðra, fyrirmynd sem sýnir hvernig hægt er að sigrast á erfiðleikum.

 

Sigrún María Óskarsdóttir, 10 ára, Reynilundi. Hún lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum en hefur tekist að vinna með fötlun sinni, er mikil baráttumanneskja sem stundar námið af kappi.

 

Silvía Rán Sigurðardóttir, 13 ára, Litluhlíð. Hún hefur sýnt fjölþætta hæfileika, er góður námsmaður, hefur gaman af leiklist og hefur tekið þátt í Íslandsmeistaramóti í fimleikum. Ágætt dæmi um fjölhæfan nemanda.

 

Steinn Gunnarsson, 15 ára, Hrafnagilsstræti. Hann hefur verið afburða námsmaður í öllum greinum, en einnig náð góðum árangri í íþróttum, er m.a. í landsliðsúrtaki i knattspyrnu, hefur auk þess góða hæfileika í tónlist og er frábær fyrirmynd hvar sem hann fer.

 

Zorana Kotaras, 12 ára, Snægili. Hún kom hingað í hópi flóttafólks frá Serbíu fyrir tveimur árum og hefur aðlagast nýja landinu vel, hefur náð góðum tökum á íslensku og er fróðleikfús og full metnaðar.