Veftré Print page English

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Forseti Íslands afhendir ár hvert Íslensku bókmenntaverðlaunin en til þeirra var stofnað af Félagi íslenskra bókaútgefenda í tilefni af 100 ára afmæli félagsins, 12. janúar 1989.

Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum, (a) fyrir frumsamið íslenskt skáldverk, og (b) fyrir önnur íslensk ritverk, fræðirit, frásagnir, handbækur eða hvert það verk annað sem ekki telst skáldverk eða fagurbókmenntir. Allir þeir sem gefa út bækur eiga þess kost að tilnefna verk til verðlauna og skulu taka fram við tilnefningu hvorum flokki verkið tilheyrir.

Félag íslenskra bókaútgefenda skipar tvær þriggja manna dómnefndir, eina fyrir hvorn flokk verðlauna, og tilnefnir einn formann í hvorri nefnd. Dómnefndir velja fimm bækur í hvorum flokki og koma þær til álita við veitingu verðlaunanna.

Val á verðlaunabókum er í höndum þriggja manna dómnefndar sem skipuð skal fyrir 5. desember ár hvert. Í henni sitja formenn dómnefndanna tveggja auk fulltrúa sem tilnefndur er af forseta Íslands. Sá er jafnframt formaður nefndarinnar. Verðlaunin afhendir forseti Íslands við hátíðlega athöfn eigi síðar en 15. febrúar.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1989.


Verðlaunahafar