Reglur
um Íslensku menntaverðlaunin
1. gr.
Forseti Íslands stofnar til Íslensku menntaverðlaunanna í samræmi við yfirlýsingu sem forsetinn gaf í nýársávarpi 1. janúar 2005.
2. gr.
Íslensku menntaverðlaunin miðast einkum við starfsemi grunnskóla og eru veitt í eftirfarandi flokkum:
1. Skólum sem sinnt hafa vel nýsköpun eða farsælu samhengi í fræðslustarfi
2. Kennurum sem skilað hafa merku ævistarfi eða á annan hátt skarað fram úr
3. Ungu fólki sem í upphafi kennsluferils hefur sýnt hæfileika og lagt alúð við starf sitt
4. Höfundum námsefnis sem stuðlað hafa að nýjungum í skólastarfi.
Auk þessara flokka er einnig heimilt að veita sérstök verðlaun þegar rík ástæða er talin til þess að heiðra mikilvægt framlag til grunnskólastarfs eða menntamála.
3. gr.
Íslensku menntaverðlaunin skulu veitt ár hvert í maí eða byrjun júní og skulu þá veitt verðlaun í öllum fjórum flokkum. Hin sérstöku verðlaun eru eingöngu veitt þegar tilefni er til.
4. gr.
Auglýsa skal eftir tilnefningum og hafa allir rétt til að senda inn tilnefningar, þ.e. skólar, kennarar, foreldrafélög, nemendur, einstakir foreldrar, sveitarfélög, áhugafólk og allir aðrir sem áhuga hafa á skólastarfi.
Tilnefningarnar skal senda til skrifstofu forseta Íslands eða á netfangið: menntaverdlaun@forseti.is
5.gr.
Forseti Íslands skipar tvær dómnefndir:
a) fyrir 1. flokk og 4. flokk
b) fyrir 2. og 3. flokk
Hvor dómnefnd skal skipuð 5 einstaklingum til þriggja ára í senn en þó skal í fyrsta sinn velja með hlutkesti tvo úr hvorri nefnd sem fara úr nefndunum eftir tvö ár. Dómnefndarmenn geta komið til starfa á ný séu a.m.k. 5 ár liðin frá fyrri setu í dómnefnd.
Leitast skal við að dómnefndir endurspegli víðtæka og fjölþætta sýn á skólastarfið.
6. gr.
Dómnefndir skulu taka til meðferðar tilnefningar sem berast en einnig er nefndarmönnum heimilt að leggja fram tillögur. Alger trúnaður skal ríkja um störf dómnefndanna.
7. gr.
Niðurstöður dómnefnda ár hvert skulu bornar undir forseta Íslands til kynningar og staðfestingar.
8. gr.
Verðlaunahafar fá til eignar sérstaka verðlaunagripi sem gerðir eru af íslenskum listamönnum.
9. gr.
Íslensku menntaverðlaunin skulu afhent á sérstakri verðlaunahátíð. Leitað skal eftir samstarfi við fjölmiðla og/eða sveitarfélög um hátíðina. Lögð skal áhersla á að efni frá nemendum grunnskóla verði flutt á hátíðinni.
10. gr.
Sparisjóðirnir í landinu verða uns annað verður ákveðið styrktaraðili Íslensku menntaveðlaunanna.
Styrktaraðili ræður í samráði við skrifstofu forseta Íslands sérstakan starfsmann í hlutastarf til að aðstoða við kynningu, upplýsingaöflun, störf dómnefnda, verðlaunahátíð og önnur verkefni.
Bessastöðum 16. mars 2005
Ólafur Ragnar Grímsson