Skólahald á Bessastöðum
Árið 1805 var Hólavallaskóli, sem þá var æðsta menntastofnun landsins, fluttur frá Reykjavík til Bessastaða. Árið 1841 eignaðist Bessastaðaskóli jörðina og var hún í umsjá skólans fram til ársins 1846 að skólinn fluttist á ný til Reykjavíkur.
Í Bessastaðaskóla settust eingöngu piltar, synir embættismanna og gildra bænda er höfðu ráð og metnað til að afla sonum sínum undirstöðufræðslu fyrir vistina þar. Voru 27 sveinar skráðir í skólann fyrsta veturinn í tveimur deildum. Smám saman fjölgaði skólapiltum og voru þeir 50 talsins síðasta veturinn. Skólanum var einkum ætlað að búa pilta undir frekara nám á háskólastigi og þar voru kenndar greinar eins og lærdómur kristilegrar trúar eða Religion, skilgreining Nýja Testamentisins, gríska, hebreska, latína, danska, mannkynssaga, landafræði, íslenskar stílæfingar, reikningur og mælingarfræði. Alls fengu Bessastaðasveinar 37 tíma í kennslu á viku.
Helstu andans menn Íslands á fyrri hluta 19. aldar voru kennarar við Bessastaðaskóla og bjuggu ýmist þar eða annars staðar á Álftanesi. Fyrsti rektor skólans (nefndur lector) var Steingrímur Jónsson og gegndi hann embættinu allt fram til 1810 þegar hann gerðist prestur í Odda og síðar biskup. Þar kenndi og frá upphafi Jón Jónsson í Lambhúsum er síðar varð rektor við skólann allt þar til Sveinbjörn Egilsson tók við um það leyti sem skólinn fluttist til Reykjavíkur. Aðrir kennarar voru annar Jón Jónsson, málfræðingur sem kenndi við skólann í tíu ár, Guttormur Pálsson, áður rektor Reykjavíkurskóla, sem aðeins kenndi fyrsta árið, Hallgrímur Scheving, sem vann að málvísindum, Árni Helgason í Görðum er síðar varð biskup (að nafnbót) og alþingismaður, Björn Gunnlaugsson skáld og náttúruvísindamaður og Gísli Magnússon málfræðingur er hóf kennslu síðasta vetur skólans á Bessastöðum.
Margir þjóðkunnir Íslendingar stunduðu þar nám, m.a. þeir Fjölnismenn Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason, Brynjólfur Pétursson og Tómas Sæmundsson.
Um skólahald á Bessastöðum má víða lesa, m.a. í Dægradvöl, endurminningum Benedikts Gröndal, og doktorsritgerð Hjalta Hugasonar prófessors, Bessastadaskolan, sem út kom í Uppsölum árið 1983.