Veftré Print page English

 

Snorri Sturluson átti Bessastaði á fyrra helmingi þrettándu aldar. Ekki er ljóst með hverjum hætti hann eignaðist jörðina en þegar veldi hans stóð hæst á öðrum fjórðungi þrettándu aldar átti hann miklar jarðeignir og rak stórbú víða um vestan- og sunnarvert landið. Frá því segir í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar, bróðursonar Snorra, að hann hafi um miðjan marsmánuð árið 1236 hrakist úr Borgarfirði suður á land undan öðrum bróðursyni sínum, Sturlu Sighvatssyni: "Snorri vildi þá ekki liði safna og fór hann brott úr Reykjaholti og suður á Bessastaði með allt skuldalið sitt" (Sturlunga saga 1988:376). Ári seinna fór hann utan til að leita réttar síns við hirð Noregskonungs og í Noregi dvaldi Snorri fram til 1239. Tveimur árum síðar, 1241, koma Bessastaðir enn við sögu Snorra því þá andaðist sambýliskona hans, Hallveig Ormsdóttir, og synir hennar tveir, Klængur og Ormur, kölluðu til arfs við Snorra. Þótti sinn veg hvorum í þeim efnum enda Snorri fastheldinn á fé; synirnir þóttust "eiga fé allt að helmingi en Snorri kallaði Bláskógaheiði ráða eiga, kvað og Bessastaði af sinni eigu keypta." (Sturlunga saga 1988:437) 23. september það sama ár var Snorri veginn í Reykholti. Af því vígi urðu mikil eftirmál, þeirra á meðal víg Klængs Ormssonar en fyrir það varð Órækja sonur Snorra m.a. að láta hálfa Bessastaði (Sturlunga saga 1988:456). Um Bessastaði er einnig getið í sögu Þórðar kakala. Sumarið 1247 segir af ferðum Þórðar og aðdráttum til bús: "Og er hann kom í Borgarfjörð tók hann undir sig sveitir allar og allt fé Snorra Sturlusonar og svo héraðið í Borgarfirði. Hann fór í Garða til Þorleifs og tók af honum trúnaðareiða og skipaði hann mest yfir héraðið. Sendi hann þá menn á Bessastaði og tók bú það til sín og hafði þaðan mölt mikil og flutti upp í Reykjaholt og ætlaði þar að sitja um háveturinn." (Sturlunga saga 1988:547)


Hákon konungur gamli Hákonarson
kallaði til arfs eftir Snorra Sturluson, sem hann taldi vera landráðamann við sig og brotlegan hirðmann, og fól Þorgilsi skarða Böðvarssyni, sonarsyni Þórðar bróður Snorra, að heimta þann rétt á Íslandi. Þorgils hafði því umráð Bessastaða þau ár sem hann sat í öndvegi á Íslandi, og eitt fyrsta verk hans árið 1252 var að sögn sögu hans að sækja
"landsleigu af Eyvindarstöðum og Bessastöðum" (Sturlunga saga 1988:589). Þegar Þorgils var veginn árið 1258 hverfa Bessastaðir um stund af söguspjöldum og er ekki getið um þá fyrr en öld síðar. Þá eru sestir þar hirðstjórar konungs, æðstu valdsmenn hans á Íslandi; Einar Laxness (1985:18) getur sér þess til að hinir fyrstu kunni að hafa verið Bótólfur Andrésson (1341), Ívar Hólmur (1345) eða Holti Þorgrímsson (1346). Eftir það sitja æðstu umboðsmenn erlends konungsvalds næstu aldir á Bessastöðum og af því sprettur orðið "Bessastaðavald", tákn um æðsta valdboð í landinu og ekki alltaf vinsælt.


Á 15. og 16. öld
festist í sessi titillinn
"höfuðsmaður" um þessa æðstu valdsmenn landsins. "Höfuðsmenn voru löngum sjóforingjar, sem sendir voru til landsins á herskipum til landvarna gegn útlendingum. Þeir voru hér að sumarlagi, en settu fyrir sig fógeta annan tíma ársins, og sátu þá yfirleitt á Bessastöðum.“ (Einar Laxness 1985:18). Ekki var þó alltaf hátt risið á staðarhöldurum á Bessastöðum ef marka má lýsingu Jóns Gissurarsonar í riti hans um Siðaskiptin: "Bessastaðir var langa tíma einstæðings jörð, utan kirkjan þar átti tvö kot: Bárugseyri, lögbýlisjörð, og Lambhús, heimaland þar í túninu; var þar þó aðsetur þeirra fóvetanna, svo þeir höfðu engin ráð önnur eður athvarf hér á Íslandi, hvorki jarðir né óðul, og aldrei riðu þeir frá Bessastöðum nokkurs staðar um landið, utan upp á alþing á sumrin, en flestir sýslumenn riðu heim til Bessastaða með sinn reikning af sínu sýslugjaldi fyrir alþing." (Einar Laxness 1985:19).


Á siðskiptaöld
komust Bessastaðir í brennipunkt átaka; þaðan fóru siðbótarmenn konungs í herferðir sínar til að snúa landsmönnum á rétta braut og í kjölfar siðskipta færðust jarðeignir á Suðurnesjum og víðar um landið undir Bessastaði í vaxandi mæli, m.a. í makaskiptum við biskupsstólana og önnur höfuðbýli. Meðal þeirra jarða voru stöndugar útvegsjarðir sem gáfu af sér drjúgar tekjur í landskuldum sem greiddar voru í fríðu, einkum skreið og smjöri.
"Þegar við bættust ýmis konar kvaðir og köll, sem Bessastaðamenn komu á landseta jarðanna, er ljóst, hversu mjög hið erlenda vald hafði styrkt stöðu sína í landinu." (Einar Laxness 1985:20). Páll Stígsson höfuðsmaður gekk einna harðast fram í því að efla Bessastaði og auka ítök staðarins um miðbik sextándu aldar. Hann lést þann 3. maí 1566 og er grafinn fyrir framan altarið í Bessastaðakirkju. Yfir gröfinni er "stór líksteinn af marmara, sem ekki á sinn líka á öllu Íslandi" (Hirðstjóraannáll) og sýnir Pál í öllum herklæðum. Á steininum er þessi áletrun:




Paulus Stigotus Danorum ex sanguine clarus: Justus castus amans religionis erat: Thenne Pouil Stiisen koningens aff Danmarck beffalningsmand offuer Islandt skickede huer mand laug og ret, oc fremmede (Sk)oler oc kircker aff gandske mackt döde paa Island Ano: 1566 then 3. dag maii







Latínutextinn er svona  í orðréttri þýðingu:
Páll Stígsson, Dana af blóði hreinn: Réttvís, skírlífur, unnandi trúar var hann; með hæfilegri umorðun svo: Páll Stígsson, hinn besti maður, af dönsku blóði. Hann var réttvís og skírlífur og unnandi trúarinnar.

 

Það fé sem safnaðist konungi og umboðsmönnum hans á Íslandi var varðveitt á Bessastöðum og þangað sóttu því erlendir sjóræningjar og ránsmenn. Á ensku öldinni svokölluðu, 15. öld, er oftar en einu sinni getið um áhlaup Englendinga að Bessastöðum og vilja Íslendinga til að efla þar nauðsynlegar varnir en þær hugmyndir komust þó ekki til framkvæmda. Frægasta ránstilraun á Bessastöðum er Tyrkjaránið svonefnda sumarið 1627.


Ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu fylgdu einveldistöku konungs í Danmörku. Hinn forni konungsgarður á Bessastöðum var þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungsvaldsins á Íslandi, landfógeta og amtmanns. Bessastaðastofa var aðsetur amtmanns eða stiftamtmanns til 1804 þegar Lærði skólinn, sem þá var æðsta menntastofnun landsins, var fluttur til Bessastaða þar sem skólinn starfaði óslitið til ársins 1846 að hann var aftur færður til Reykjavíkur.


Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, (1826-1907) fæddist á Bessastöðum og segir afburða skemmtilega frá uppvexti sínum, skólahaldi á Bessastöðum og mannlífi á Álftanesi í endurminningum sínum, Dægradvöl. Eftir að skólahaldi lauk á Bessastöðum 1846 sátu staðinn gildir bændur.


Grímur Thomsen skáld og alþingismaður fæddist á Bessastöðum árið 1820, sonur hjónanna Ingibjargar Jónsdóttur og Þorgríms Tómassonar gullsmiðs og skólaráðsmanns. Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen og þar bjuggu hann og Jakobína Jónsdóttir kona hans þar til Grímur lést árið 1896. Þá keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms. Fróðlegt er að lesa bréfasöfn þau sem Finnur Sigmundsson bjó til prentunar og varða Bessastaði: Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum (1947) geymir bréf til Gríms Thomsen á árunum 1838-58, Húsfreyjan á Bessastöðum (1946) geymir bréf Ingibjargar Jónsdóttur, móður Gríms Thomsen, til bróður síns Gríms amtmanns.


Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona eignuðust Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908. Sigurður sonur þeirra hjóna segir skemmtilega frá uppvexti á Bessastöðum í endurminningum sínum, Eins og gengur, sem út komu 1984.


Jón H. Þorbergsson bóndi (síðar á Laxamýri) bjó á Bessastöðum 1917-28 og Björgúlfur Ólafsson læknir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.