Veftré Print page English

Bessastaðastofa

 

Danska stjórnin lét reisa allmörg steinhús á 18. öld sem öll standa enn: elst er Viðeyjarstofa, bústaður Skúla Magnússonar landfógeta, þá dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal sem byggð var úr rauðum sandsteini og loks var ráðist í byggingu tveggja steinhúsa samtímis; embættisbústaðar fyrir Bjarna Pálsson landlækni á Nesi við Seltjörn og Bessastaðastofu sem ætlað var að verða embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Bessastaðastofa var reist á árunum 1761-66 og byggingarkostnaður var 4.292 ríkisdalir og 77 skildingar.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson arkitekt lýsir Bessastaðastofu svo: "Engar upphaflegar teikningar hafa fundizt af Bessastaðastofu, hvorki hér á landi né í Danmörku, en ráða má af líkum, að húsameistarinn Jakob Fortling hafi teiknað húsið. Bessastaðastofa var hið veglegasta hús, 33 álnir og 3 tommur að lengd, 16 álnir og 16 tommur á breidd og nálægt 5 álnum á hæð með þakbrúnum. Veggir hússins voru hlaðnir úr tilhöggnum kalklímdum grásteini, 72 cm þykkir á stöfnum, en 85 cm á hliðum. Í miðju hússins var hlaðinn skilveggur stafna á milli, og í öndverðu deildu fjórir hlaðnir þverveggir og þrír múrbindingsveggir húsinu í níu misstór herbergi. Í miðjum vesturhluta hússins var forstofa og gengið í hana um útidyr, er horfðu móti kirkju. Þaðan lá stigi upp á loft og lítill hringstigi niður í kjallara. Á vinstri hönd var "stássstofa" og inn af henni lítil skrifstofa í norðvesturhorni hússins, en á hægri hönd "arinstofa" og inn af henni önnur skrifstofa í suðvesturhorni. Austanmegin í húsinu var eldhús og gengið í það um útidyr, er sneru að húsagarði. Á hægri hönd var svefnherbergi í norðausturhorni hússins, en á vinstri hönd borðstofa og inn af henni "amtsstofan" í suðausturhorni. Á loftinu voru fjögur herbergi, tvö í hvorum enda, og yfir því öllu nýtanlegt skammbitaloft, en matvælageymsla í kjallara.

 

 

Stafnar hússins voru hlaðnir upp að skammbitum og þakið hátt og gaflsneitt. Á húsinu var sperruþak úr tilhöggnum viði. Voru sperrurnar lengdar með skálkum við þakbrún og þakið brotið. Það var klætt einfaldri skarsúð með þverborðum á samskeytum og bikað utan. Á hliðum hússins voru þrettán 16  rúðu gluggar og fyrir þeim hlerar, en á stöfnum fjórir 9 rúðu gluggar inn á loftið, fjórir gluggar á þekjunni vestanverðri og tveir kjallaragluggar. Á húsinu voru tvennar útidyr, hvorar á sinni hliðinni, og fyrir þeim okahurðir yfirklæddar með strikuðu panelverki." (Sveitarstjórnarmál (2) 1992:72)

 

 

Verulegar breytingar voru gerðar á húsinu eftir að ríkisstjóri fékk það til umráða árið 1941 og enn frekar á árunum 1989-1990 þegar það var endurbyggt.