Veftré Print page English

Íslenski þjóðsöngurinn


Þjóðsöngur Íslendinga heitir Lofsöngur og er textinn eftir Matthías Jochumsson en lagið eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Var verk þetta fyrst flutt opinberlega við guðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík, sunnudaginn 2. ágúst 1874. Var þáverandi konungur Íslands, Kristján IX., viðstaddur messuna í tilefni af afhendingu stjórnarskrárinnar það sama ár.

Íslenska ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu við þjóðsönginn árið 1948 og að ljóðinu 1949. Menntamálaráðuneytið samdi við Wilhelm Hansen Musik-Forlag í Kaupmannahöfn um kaup á þessum réttindum fyrir milligöngu íslenska sendiráðsins og höfundarrétt að ljóðinu keypti ráðuneytið af erfingjum skáldsins.


Sveinbjörn SveinbjörnssonHöfundur lags

Sveinbjörn Sveinbjörnsson var fæddur að Nesi við Seltjörn 28. júní 1847, sonur Þórðar dómstjóra í Landsyfirréttinum Sveinbjörnssonar og seinni konu hans Kirstin Cathrine, dóttur Lauritz M. Knudsen, kaupmanns í Reykjavík. Sveinbjörn útskrifaðist úr Prestaskólanum 21 árs að aldri, stundaði síðan tónlistarnám fimm ár í Kaupmannahöfn, Leipzig og Edinborg. Kona hans var Eleanor, dóttir John Christie lögfræðings frá Banff og konu hans Williamina Peterson frá Aberdeen. Sveinbjörn og Eleanor bjuggu 29 ár í Edinborg, síðan um hríð í Winnipeg, en fluttust til Reykjavíkur 1922 og þaðan til Kaupmannahafnar 1924. Þar andaðist Sveinbjörn 23. febrúar 1927. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík.

 


 

séra Matthías JochumssonHöfundur texta

Þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson var fæddur að Skógum í Þorskafirði 11. nóvember 1835, sonur Jochums Magnússonar bónda þar og konu hans Þóru Einarsdóttur frá Skáleyjum. Hann stundaði verslunarstörf í Flatey og var síðan við verslunarnám um hríð í Kaupmannahöfn. Stúdent 1863. Lauk Prestaskólanámi 1865. Hann var prestur að Móum á Kjalarnesi, í Odda á Rangárvöllum og á Akureyri. Dvaldist í Englandi, Danmörku og Noregi 1871-1872. Var ritstjóri Þjóðólfs nokkur ár. Heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1920 og sama ár gerður að heiðursborgara á Akureyri. Séra Matthías var þríkvæntur. Konur hans voru Elín Sigríður Diðriksdóttir Knudsen, Ingveldur Ólafsdóttir Johnsen og Guðrún Runólfsdóttir. Séra Matthías andaðist á Akureyri 18. nóvember 1920. Í húsi hans á Akureyri er nú minjasafn um hann.