Veftré Print page English

Staðastaður

 



Skrifstofa forseta Íslands hefur verið til húsa að Staðastað við Sóleyjargötu 1 í Reykjavík frá árinu 1996. Áður var skrifstofa forseta í Stjórnarráðshúsinu og enn fyrr í Alþingishúsinu.

 


Húsið að Sóleyjargötu 1 var reist árið 1912 og þar bjó fyrstur Björn Jónsson ritstjóri og ráðherra. Það er steinhús, teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt, f. 5. desember 1874, d. 14. febrúar 1917. Húsið nefndi Björn Staðastað en kona hans, Elísabet var dóttir Sveins Níelssonar prests á Staðastað á Snæfellsnesi. Í húsinu bjó um skeið Sveinn, sonur Björns, fyrsti forseti Íslands.

 


Magnús Guðmundsson ráðherra átti húsið um tíma og síðar Þorsteinn Sch. Thorsteinsson lyfsali. Seinna eignaðist Kristján Eldjárn forseti Íslands húsið. Staðastaður var friðaður af menntamálaráðherra 19. apríl 1991 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. Friðun tekur til ytra borðs.

 


Um tíma var Félagsvísindadeild Háskóla Íslands til húsa í Staðastað en á þeim árum var Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti, prófessor við deildina og hafði hann skrifstofu á sama stað og skrifstofa forseta er nú.