Sveinn Björnsson
1944-1952
Fyrsti forseti lýðveldisins, Sveinn Björnsson, var fæddur í Kaupmannahöfn 27. febrúar 1881 og lést hann 25. janúar árið 1952. Eiginkona hans var Georgia Björnsson, fædd 18. janúar 1884, dáin 18. september 1957.
Sveinn var kjörinn ríkisstjóri af Alþingi 1941 og forseti Íslands, kjörinn af Alþingi á Þingvöllum við lýðveldisstofnun, 17. júní 1944. Þjóðkjörinn án atkvæðagreiðslu 1945 og aftur 1949. Sveinn lést í embætti árið 1952.
Sveinn Björnsson lauk stúdentsprófi árið 1900 og lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1907. Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur 1912-1920 en þá var hann skipaður sendiherra í Danmörku og gegndi hann því embætti fram til ársins 1924 og svo aftur 1926-1941.
Sveinn var einn af stofnendum Eimskipafélags Íslands 1914 og formaður þess 1914-1920 og 1924-1926. Stofnandi Brunabótafélags Íslands og forstjóri þess frá stofnun 1916-1920. Einn af stofnendum Sjóvátryggingarfélags Íslands haustið 1918, formaður þess 1918-1920 og 1924-1926. Einn af stofnendum Rauða kross Íslands 10. desember 1924 og fyrsti formaður hans til 1926.