Veftré Print page English

Saga Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands í 500 ár


Í dag var tilkynnt í húsakynnum Kunstforeningen Gammel Strand í Kaupmannahöfn að viðstöddum Hinrik prins og íslensku forsetahjónunum að hafist verði handa á þessu ári um ritun sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands í hartnær 500 ár. Við það tækifæri flutti forseti ávarp þar sem hann fagnaði þessum áformum enda hefði þessari sameiginlegu sögu Íslands og Danmerkur ekki verið gerð viðeigandi skil.
Myndir
Það eru íslensku sagnfræðingarnir Guðjón Friðriksson og dr. Jón Þ. Þór sem hafa tekið að sér verkið sem áætlað er að taki fjögur ár. Stefnt er að því að það komi samtímis út á dönsku og íslensku, í tveimur bindum. Við athöfnina gerði Jón Þ. Þór nánari grein fyrir efnistökum og umfangi verksins.
Að fjármögnun hinnar nýju sögu koma tveir sjóðir. Annars vegar danski sjóðurinn A.P. Møller og Hustru Chastine McKinney Møllers Fond til almene Formaal og hins vegar Styrktarsjóður Baugs Group. Hér er því um dansk-íslenskt samstarfsverkefni að ræða. Stjórnarformenn beggja sjóðanna, Mærsk McKinney Møller og Jóhannes Jónsson, voru til staðar er tilkynnt var um söguritunina, ásamt Ove Hornby framkvæmdastjóra danska sjóðsins.
 Frá ofanverðri 15. öld og fram til fullveldis Íslands hinn 1. desember 1918 var Kaupmannahöfn höfuðborg landsins og hafði þannig geysimikla þýðingu í íslenskri sögu, bæði stjórnsýslulega, efnahagslega og menningarlega. Samskiptin við Íslendinga skiptu líka máli fyrir vöxt og viðgang Kaupmannahafnar í aldanna rás. Um þetta efni hefur hins vegar aldrei verið skrifað í heild, hvorki á íslensku né dönsku og óhætt mun að fullyrða að Dönum sé þessi saga ennþá síður kunn en Íslendingum.
Í sögurituninni verður megináherslan lögð á hlutverk Kaupmannahafnar sem miðstöðvar stjórnsýslu, viðskipta, lista, verkmennta og andlegrar menningar, trúarlegrar og veraldlegrar, og þýðingu hennar fyrir hugmyndasögu Íslendinga. Ennfremur verður gerð rækileg grein fyrir Íslendingum í Kaupmannahöfn og þýðingu þeirra fyrir borgina og þeim Dönum sem önnuðust samskipti við Ísland og Íslendinga á hinum ýmsu sviðum.
 Sagnfræðingar Guðjón Friðriksson og Jón Þ. þór eru báðir þaulreyndir á sínu sviði og eftir þá liggja fjölmörg verk. Guðjón er fæddur 1945 og eftir hann liggja meðal annars saga Reykjavíkur, nokkrar ævisögur, þar á meðal ævisaga Jóns Sigurðssonar forseta, og saga fjölmiðlunar á Íslandi. Meðal viðurkenninga sem hann hefur fengið eru Íslensku bókmenntaverðlaunin þrisvar sinnum. Dr. Jón er fæddur árið 1944 og eftir hann liggja meðal annars Saga sjávarútvegs á Íslandi, fyrirtækjasögur, byggðasögur og ein ævisaga. Hann var forseti North Atlantic Fisheries History Association (NAFHA) frá 1995 til 2006 og er einn af ritstjórum og aðalhöfundum Sögu sjávarútvegs við Norður-Atlantshaf, sem kemur út á ensku á sumri komanda.   Hann er einn af ritstjórum Vest Nordens fælles historie og er prófessor að nafnbót við Háskólann á Akureyri.