Veftré Print page English

Opinber heimsókn til Singapúrs


Forseti hóf í gær þriggja daga opinbera heimsókn til Singapúrs. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tekur einnig þátt í heimsókninni ásamt Stefáni Skjaldarsyni sendiherra Íslands gagnvart Singapúr, embættismönnum frá utanríkisráðuneyti og forsetaskrifstofu, Guðna Jóhannessyni orkumálastjóra og Georg Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar. 

 

Eftir opinbera móttökuathöfn við forsetahöllina Istana áttu forseti Íslands og Tony Tan Keng Yam forseti Singapúrs fund þar sem m.a. var rætt um aukið samstarf á vettvangi Norðurslóða og mikilvægi þess að standa vörð um höfin og auðlindir þeirra. Báðar þjóðir byggðu afkomu sína á hafinu, þó með ólíkum hætti væri, og súrnun sjávar og ofnýting fiskistofna ógnaði heilbrigði og lífríki heimshafanna. Bráðnun jökla og íss á Norðurslóðum hefði einnig margvísleg áhrif á veðurfar, loftslag og hækkun sjávarborðs sem tefldi framtíð Singapúrs og annarra ríkja í tvísýnu.

 

Þá átti forseti jafnframt fund með Lee Hsien Loong forsætisráðherra Singapúrs. Á fundinum kom fram eindreginn vilji stjórnvalda í Singapúr til að auka samstarf við Íslendinga og efla þátttöku sína í málefnum Norðurslóða. Þá var einnig rætt um árangur Íslendinga í glímunni við afleiðingar fjármálakreppunnar. 

 

Heimsóknin til Singapúrs hófst í gærmorgun þegar forsetahjón og fyldarlið heimsóttu Þjóðargrasagarð Singapúrs þar sem sérstakt afbrigði orkídeu var sýnt og nefnt eftir forsetahjónum Dendodrium Grímsson-Moussaieff. Hefð er fyrir því að nefna sérstök afbrigði í höfuð á þjóðarleiðtogum sem heimsækja Singapúr. Alls munu vera um 60.000 orkídeur í grasagarðinum, 2000 mismunandi afbrigði og af þeim hafa um 500 verið sérstaklega ræktuð í rannsóknarstofum garðsins en það ferli tekur um fimm ár.

 

Í kjölfarið heimsóttu forseti, utanríkisráðherra og íslenska sendinefndin höfnina í Singapúr og hlýddu á kynningu hafnarstjórnar og fulltrúa stjórnvalda á gríðarlega umfangsmikilli starfsemi þessarar heimshafnar sem kalla má meginundirstöðu atvinnulífs í Singapúr og gegnir lykilhlutverki í vöruflutningum veraldar. Hafnaryfirvöld lýstu sérstaklega þeim aðferðum sem þróaðar hafa verið til að glíma við olíumengunarslys á sjó. Singapúr hefur m.a. kynnt þá vinnu á fundum Norðurskautsráðsins en landið hefur áheyrnaraðild að ráðinu. Í fundunum með hafnaryfirvöldum tóku einnig þátt Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og fleiri fulltrúar Íslands.

 

Í gærkvöldi buðu forsetahjón Singapúr til hátíðarkvöldverðar í forsetahöllinni til heiðurs forseta Íslands og forsetafrú. Ræðu forseta í kvöldverðinum. Ræða forseta Singapúrs. 

 

Í dag, fimmtudaginn 12. nóvember, hófst ráðstefna sem stjórnvöld í Singapúr og Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle bjóða til í sameiningu. Forseti Íslands flutti opnunarræðu ásamt Teo Chee Hean innanríkisráðherra Singapúrs. Á málþinginu er m.a. fjallað um lagalega umgjörð siglinga á Norðurslóðum, fjárfestingar í innviðum samfélaga á Norðurslóðum, alþjóðlega samvinnu á sviði vísinda og rannsókna á Norðurslóðum og hvernig auka megi og efla alþjóðlega samvinnu um málefni Norðurslóða. Meðal ræðumanna eru Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Sam Tan ráðherra mannauðsmála í Singapúr og sérstakur fulltrúi ríkisstjórnar Singapúr á vettvangi Norðurslóða, Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Hafsteinn Helgason frá verkfræðistofunni Eflu og Scott Minerd stjórnandi Guggenheim. Að auki taka þar þátt fulltrúar stjórnvalda í Singapúr, áhrifamenn um þróun siglingaleiða, vísindamenn og forystumenn á sviði stefnumótunar og fjárfestinga á Norðurslóðum. Þátttakendur koma m.a.  frá Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi, Japan, Kóreu, Noregi og Póllandi auk Íslands og Singapúr. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar má finna á heimasíðu Hringborðs Norðurslóða, www.arcticcircle.org.

 

Heimsókn forsetahjóna til Singapúrs lýkur á morgun, föstudaginn 13. nóvember með fjölþætti dagskrá. Forseti Íslands mun m.a. heimsækja Þjóðarháskóla Singapúrs, National University of Singapore, ræða við forystumenn skólans og loks flytja fyrirlestur og svara fyrirspurnum nemenda. Fyrirlestur forseta ber heitið Clean Energy, Climate and the Arctic.