Fundur með forseta Kóreu
Forseti átti fund í Seúl með Park Geun-hye forseta Kóreu þar sem fram kom eindreginn vilji Kóreu til að efla siglingar og rannsóknir á Norðurslóðum og taka virkan þátt í samstarfi og stefnumótun á svæðinu. Þá lýsti Park forseti sérstakri ánægju með þing Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle sem nú er haldið árlega í Reykjavík og stefnir Kórea að áframhaldandi þátttöku í þingunum.
Forseti Kóreu lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að auka samvinnu Íslendinga og Kóreumanna á sviði viðskipta og fjárfestinga með tilliti til breyttra aðstæða á Norðurslóðum og bauðst jafnframt til að greiða götu hvers konar hugmynda í þeim efnum. Hún nefndi einnig mögulega samvinnu á sviði hreinnar orku. Íslendingar væru forystuþjóð á sviði endurnýjanlegrar orku, Kóreumenn á sviði margvíslegra tæknilausna, jafnt með tilliti til orkusparnaðar, nýrra orkukerfa og nýrra orkulausna. Forsetinn hvatti til þess að hugmyndum um samstarf yrði fljótlega fundinn formlegur farvegur á vettvangi samskipta ríkjanna.
Forsetarnir voru sammála um að víðtækt samstarf á Norðurslóðum og efling hreinnar orku í efnahagslífi veraldar væru mikilvægt framlag til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Brýnt væri að samkomulag næðist á loftslagsráðstefnunni í París og nefndi forseti Kóreu að forseti Frakklands hefði nýlega heimsótt Kóreu í kjölfar þátttöku hans í Hringborði Norðurslóða - Arctic Circle.
Fundinn sátu einnig Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, embættismenn forsetaskrifstofu og utanríkisráðuneytis. Gerði íslenska sendinefndin m.a. grein fyrir áformum Íslendinga um uppbyggingu miðstöðvar fyrir björgun og leit sem yrði liður í auknu öryggi í siglingum á Norðurslóðum, en Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar er í fylgdarliði forseta og hefur kynnt þessar hugmyndir á ýmsum fundum.
Í hádeginu í dag bauð Alþjóðaviðskiptaráð Kóreu, Korea International Trade Association, til hádegisverðar í tilefni af heimsókn forseta Íslands. Hádegisverðinn sátu fulltrúar fjölmargra öflugustu fyrirtækja í Kóreu. Í ræðu sinni fjallaði forseti m.a. um viðskiptasamvinnu og samskipti Íslands og Kóreu á umliðnum árum og þá hlutdeild sem Norðurslóðir munu eiga í efnahagsþróun á þessari öld með nýjum siglingaleiðum milli Asíu og Evrópu. Í málflutningi forystumanna KITA kom fram mikill áhugi á því að efla viðskiptasamvinnu milli Íslands og Kóreu, ekki síst á sviði sjávarafurða. Þá svaraði forseti spurningum og jafnframt tóku til máls Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Hafsteinn Helgason frá verkfræðistofunni Eflu og Scott Minerd frá Guggenheim. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti ávarp við lok dagskrár og hvatti til aukinnar viðskiptasamvinnu milli þjóðanna, m.a. í ljósi fríverslunarsamnings milli Kóreu og EFTA, og nefndi í því samhengi fullvinnslu sjávarafurða og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
Í kjölfar hádegisverðarins kynntu kóresk skipafélög og skipasmíðastöðvar, Daewoo og Hyundai Glovis, fyrir forseta á sérstökum fundum margvísleg áform sem tengd eru breyttum aðstæðum á Norðurslóðum. Í máli forsvarsmanna Daewoo kom m.a. fram að þegar er unnið að byggingu allmargra sérstyrktra skipa sem siglt geta um hinar nýju siglingaleiðir á Norðurslóðum milli Asíu og Evrópu án þess að njóta liðsinnis ísbrjóta.
Á morgun mun forseti heimsækja Heimskautastofnun Kóreu, KOPRI, og kynna sér fjölþættar og viðamiklar rannsóknir sem vísindamenn stofnunarinnar stunda á náttúru og lífríki Norðurslóða.
Í heimsókn sinni til Kóreu tekur forseti einnig þátt í kynningu á nýju regluverki um framkvæmdir á Norðurslóðum þar sem tekið er tillit til umhverfis og hagsmuna íbúanna og á hugmyndum um þróun sérstakrar fjárfestingarsamvinnu á Norðurslóðum en Scott Minerd, stjórnandi Guggenheim, sem fjallaði um þessa þætti á þingi Arctic Circle í Reykjavík í október tekur einnig þátt í kynningunni í Kóreu. Myndir