Fundur og kvöldverður með borgarstjóra Ho Chi Minh
Forseti á fund með borgarstjóra Ho Chi Minh, Le Hoang Quan, sem að fundi loknum bauð forseta og fulltrúum Íslands til kvöldverðar. Fundurinn var upphaf að heimsókn forseta og íslensku sendinefndinnar til Ho Chi Minh borgar í lok annars dags opinberrar heimsóknar forseta til Víetnams. Á fundinum var m.a. rætt um hinn gríðarlega vöxt borgarinnar og þróun atvinnulífs og efnahags á þeim rúmu tuttugu árum sem liðin eru frá því forseti heimsótti borgina fyrst. Þá var einnig fjallað um margvíslega samvinnu við Ísland á grundvelli þeirra viðræðna sem fram fóru í Hanoi og með sérstöku tilliti til málþings um þróun sjávarútvegs sem verður fyrsti dagskrárliður heimsóknarinnar næsta dag. Borgarstjórinn hvatti íslensk fyrirtæki til að taka þátt í efnahagslífi borgarinnar og flutti ítarlega greinargerð um aukna hlutdeild fjölda fyrirtækja og margra ríkja í þróun borgarinnar á undanförnum árum. Lýsti hann mikilli ánægju með áhuga Íslendinga og ræddi einnig hve farsællega víetnamska samfélaginu á Íslandi hefði vegnað. Jafnframt lýsti borgarstjórinn áhuga á að sendinefnd frá Ho Chi Minh borg heimsækti Ísland. Myndir.