Veftré Print page English

Opinber heimsókn til Víetnams


Forseti og forsetafrú hófu í dag þriggja daga opinbera heimsókn til Víetnams. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tekur einnig þátt í heimsókninni ásamt sendinefnd sem skipuð er embættismönnum frá utanríkisráðuneyti og forsetaskrifstofu auk forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, forstjóra Orkustofnunar og rektors Háskólans í Reykjavík. Í kjölfarið munu forseti og utanríkisráðherra einnig heimsækja Suður-Kóreu og Singapúr.

Með heimsóknunum verður lagður grunnur að víðtækari tengslum Íslands við Asíu en löndin þrjú gegna ásamt forysturíkjum álfunnar sífellt ríkara hlutverki í efnahagslífi veraldar. Einnig hafa Kórea og Singapúr verið virkir þátttakendur í þróun aukins samstarfs á Norðurslóðum, m.a. með öflugum sendinefndum á þingum Hringborðs Norðurslóða í Reykjavík. Bæði löndin eiga og áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

Í fjölþættri dagskrá heimsóknarinnar til Víetnams verður einkum lögð áhersla á að efla samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu en Víetnamar leggja nú mikla áherslu á aukna tæknivæðingu í fiskirækt og vinnslu. Þá verður jafnframt gengið frá samkomulagi milli þjóðanna um aukna samvinnu á sviði jarðhitanýtingar en mikill áhugi er á því í Víetnam að efla þann þátt í orkubúskap landsins. Þá munu Þjóðarháskóli Víetnams og Háskólinn í Reykjavík einnig ganga frá samkomulagi um aukna samvinnu.

Í Kóreu verður m.a. rætt um samvinnu þjóðanna á Norðurslóðum, skipasmíðar og siglingar í ljósi breyttra aðstæðna í heimsviðskiptum vegna bráðnunar hafíss á Norðurslóðum.

Asíuferð forseta og utanríkisráðherra lýkur með opinberri heimsókn til Singapúrs þar sem dagskrárefni varða m.a. samstarf eyríkja, loftslagsbreytingar og hækkun sjávarborðs, samstarf á Norðurslóðum, rannsóknir og menntamál.

Íslandsstofa hefur skipulagt dagskrár viðskiptasendinefnda sem fylgja forseta og utanríkisráðherra í heimsóknum til Asíulandanna þriggja, einkum Víetnams og Kóreu.

Í upphafi dagskrár forsetahjóna og utanríkisráðherra í dag lagði forseti Íslands blómsveig að minnisvarða um hetjur og fórnarlömb frelsisstríðanna og jafnframt við grafhýsi Ho Chi Minh. Þaðan var haldið að forsetahöllinni þar sem Truong Tan Sang forseti Víetnams tók á móti hinum íslensku gestum. Í kjölfar opinberrar móttökuathafnar hófst fundur forseta Íslands og forseta Víetnams en þann fund sátu einnig utanríkisráðherra Íslands og embættismenn.

Eftir hádegi heimsótti forseti Þjóðþing Vietnams og ræddi við Nguyen Sinh Hung forseta þingsins og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti fund með starfsbróður sínum Pham Binh Minh sem auk þess að vera utanríkisráðherra er einnig aðstoðarforsætisráðherra. Síðdegis heimsóttu forseti og sendinefndin Þjóðarháskóla Víetnams þar sem forseti flutti fyrirlestur sem bar heitið: The Clean Energy Economy - the Example of Iceland. Eftir fyrirlesturinn svaraði forseti fyrirspurnum nemenda og kennara. Frá Þjóðarháskólanum var haldið til fundar við Nguyen Tan Dung forsætisráðherra Víetnams og í kjölfarið var fundur með Nguyen Phu Trong aðalritara Kommúnistaflokks Víetnams.

Dagskrá fyrsta dags opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Víetnams lauk með hátíðarkvöldverði forseta Víetnam. Ræðu forseta Íslands í hátíðarkvöldverðinum má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.

Í fyrramálið, fimmtudaginn 5. nóvember, hefst dagskráin með ráðstefnu um sjálfbæran orkubúskap undir heitinu: The Future of Clean Energy. Þar munu forseti og utanríkisráðherra halda ræður auk Hafsteins Helgasonar frá Eflu, Guðna Jóhannessonar forstjóra Orkustofnunar, Ara Kristins Jónssonar rektors Háskólans í Reykjavík og Hauks Harðarsonar stjórnarformanns Arctic Green Energy en Haukur hefur verið búsettur í Víetnam um langt árabil. Þá munu Hoang Trung Hai aðstoðarforsætisráðherra og Vu Huy Hoang iðnaðar- og viðskiptaráðherra einnig flytja ræður á ráðstefnunni auk þess sem aðrir fulltrúar víetnamskra stjórnvalda og fyrirtækja sitja hana. 

Síðdegis á morgun verður haldið frá Hanoi til Ho Chi Minh borgar.

Frekari frásagnir af fundum forseta með ráðamönnum í Víetnam munu birtast á heimasíðu embættisins.