Fundur með forseta Víetnams
Á fundi forseta með Truong Tan Sang forseta Víetnams á fyrsta degi í opinberri heimsókn til Víetnams var ítarlega rætt um eflingu samvinnu milli Íslands og Víetnams á fjölmörgum sviðum. Reynsla Íslendinga á sviði fiskveiða og fiskvinnslu sem og tækninýjungar og skipulag í sjávarútvegi gætu verið mikilvægt framlag til þróunar sjávarútvegs í Víetnam. Einnig lýsti forseti Víetnams áhuga á að nýta þekkingu Íslendinga á sviði jarðhita til að styrkja nýtingu grænnar orku í Víetnam en allar þjóðir heims þyrftu að endurskipuleggja orkukerfi sín til að hamla gegn óafturkræfum loftslagsbreytingum. Þá var einnig lögð áhersla á þátttöku Víetnams í Sjávarútvegsskóla og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem og að kynna sér þróun velferðarkerfis og þjónustu við fatlaða á Íslandi. Á fundinum kom einnig fram áhugi beggja landa á að ljúka fríverslunarsamningi. Á fundinum minntist forseti Víetnams á þátttöku forseta Íslands á yngri árum í baráttu vestrænna ungmenna gegn Víetnamstríðinu og forseti Íslands áréttaði að sú barátta gæfi heimsókn sinni til Víetnams djúpa persónulega merkingu. Sú saga væri áminning til valdhafa nútímans um að mótmælendur á okkar tímum gætu orðið forsetar í framtíðinni. Mynd.