Veftré Print page English

Opinber heimsókn forseta Frakklands


Forseti Frakklands François Hollande kemur á morgun, föstudaginn 16. október, í opinbera heimsókn til Íslands í boði forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og flytur stefnuræðu á þingi Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle í Hörpu. 

Í ræðunni mun forsetinn fjalla um tengsl Norðurslóða við alþjóðlegu loftslagssamningana sem fram fara í París í desember en frönsk stjórnvöld leggja nú ásamt öðrum forysturíkjum í veröldinni kapp á að ná árangri á þeim fundum.

Forseti Frakklands kemur til landsins í framhaldi af leiðtogafundi Evrópusambandsins. Í för með forsetanum er fjölmenn sendinefnd franskra embættismanna, vísindamanna og sérfræðinga auk Ségolène Royal umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands og Michel Rocard fyrrum forsætisráðherra Frakklands sem er sérstakur sendimaður forsetans í málefnum Norðurslóða. Auk þess koma til landsins og á þing Arctic Circle margir fulltrúar franskra fjölmiðla.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú munu fylgja forseta Frakklands og hluta af fylgdarliði hans í sérstaka skoðunarferð á íslenskt jöklasvæði þar sem vísindamenn munu útskýra áhrif loftslagsbreytinga á bráðnun jökla.

Að skoðunarferðinni lokinni verður fundur forseta Frakklands og forseta Íslands í Hörpu og því næst munu forsetarnir ávarpa blaðamenn klukkan 17:30. Í kjölfarið mun Frakklandsforseti eiga fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.

Forseti Frakklands flytur síðan stefnuræðu á allsherjarfundi þings Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle klukkan 18:15. Að ræðunni lokinni heldur forsetinn í Höfða þar sem hann hittir Frakklandsvini og annað áhrifafólk í samstarfi Íslands og Frakklands.

Að kvöldi föstudagsins 16. apríl kl. 20:00 bjóða íslensku forsetahjónin forseta Frakklands François Hollande og fylgdarliði hans til kvöldverðar á Bessastöðum. Þar verða einnig meðal gesta ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands, forseti Alþingis, fulltrúar íslenskra háskóla og menningarlífs auk forystumanna erlendra ríkja, vísindastofnana, umhverfissamtaka, frumbyggja og fyrirtækja sem sitja þing Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle.

Forseti Frakklands heldur síðan af landi brott að loknum kvöldverðinum.