Veftré Print page English

Clinton heimsþingið


Forseti sækir í dag og á morgun Heimsþing Clintons, fyrrum forseta Bandaríkjanna, Clinton Global Initiative, og tóku þátt í opnunarfundi þess í New York í gær. Í lok síðustu viku tóku forsetahjónin einnig þátt í alþjóðlegu málþingi sem einn helsti þáttastjórnandi í bandarísku sjónvarpi Charlie Rose efndi til í Aspen, Weekend with Charlie Rose.

Bæði Heimsþing Clintons og Samræðuhelgi Charlie Rose eru sótt af forystufólki á vettvangi alþjóðamála, sérfræðingum, vísindamönnum, frumkvöðlum og stjórnendum alþjóðastofnana og fyrirtækja sem og fulltrúum almannasamtaka og umhverfishreyfinga. 

Á dagskrá fundanna eru ýmis brýn viðfangefni á sviði alþjóðamála, m.a. baráttan gegn loftslagsbreytingum, nýting hreinnar orku, þróun lýðræðis, alþjóðlegrar samvinnu og viðskipta, viðleitni til að draga úr átökum og stríðsógn, sem og uppgötvanir í vísindum og tækni sem geta á næstu árum orðið mannkyni til heilla.

Forseti mun einnig á morgun, þriðjudaginn 29. september, eiga fund með forsætisráðherra Bútans Tshering Tobgay um samvinnu landanna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, m.a. í framhaldi af þingi um þróun jökla og vatnsbúskapar á Himalajasvæðinu, Himalaya-Third Pole Circle, sem forseti átti frumkvæði að og haldinn var í boði stjórnvalda og konungsins í Bútan fyrr á þessu ári. Ríki á Himalajasvæðinu hafa vaxandi áhuga á að nýta sér reynsluna sem samvinna á Norðurslóðum hefur skapað á undanförnum áratugum.