Veftré Print page English

Sendiherra Pakistans


Forseti á fund með sendiherra Pakistans á Íslandi Abdul Hamid, sem senn lætur af störfum, þar sem sendiherrann gerði ítarlega grein fyrir því hvernig síbreytileg stefna Vesturlanda gagnvart Pakistan og nágrannaríkjum þess og skortur á skilningi á eðli ættbálkasamfélaga og trúarhefða hefði skapað margvíslega erfiðleika og hættuástand, gróðrarstíu fyrir öfgaöfl. Allt þetta hefði verið Pakistan mjög erfitt og tafið eðlilega og farsæla þróun í landinu. Þekking á menningu, sögu, trúarhefðum og ættbálkasamfélögum væri nauðsynleg forsenda farsællar alþjóðastefnu í þessum heimshluta. Ennfremur var fjallað um samstarf ríkja á Himalajasvæðinu varðandi rannsóknir á bráðnun jökla og afleiðingum hennar fyrir vatnsbúskap og efnahagslíf landanna en forseti skipulagði ásamt öðrum sérstaka ráðstefnu um það efni í Bútan fyrr á þessu ári.