Veftré Print page English

Málþing Arctic Circle í Alaska


Forseti flytur ávarp í upphafi málþings Arctic Circle, Arctic Circle Forum, sem haldið er í Anchorage í Alaska. Málþingið sem ber heitið Alaska Summit on Shipping and Ports er hið fyrsta í röð málþinga sem haldin eru á vegum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, í öðrum löndum. Hið árlega þing Arctic Circle Assembly er hins vegar haldið í Reykjavík í október á hverju ári. Auk forseta fluttu ávörp ríkisstjóri Alaska Bill Walker, öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski og Fran Ulmer, ráðgjafi John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða.

Í ávarpi sínu lýsti forseti hvernig öll helstu forysturíki í efnahagslífi heimsins væru nú þátttakendur í mótun framtíðar Norðurslóða og hvernig dagskrá væntanlegs þings Arctic Circle í Reykjavík endurspeglaði þennan nýja alþjóðlega veruleika sem og málþingið í Alaska nú og næsta málþing sem haldið verður í Singapúr í nóvember. Þátttaka þjóðarleiðtoga og fjölmargra forystumanna í efnahagslífi og vísindum í þingi Arctic Circle væri vitnisburður um þessa grundvallarbreytingu á stöðu Norðurslóða. Þá birtist í mörgum myndum vaxandi áhugi á nýjum siglingaleiðum og byggingu hafna til að þjónusta þær en meðal þátttakanda í málþinginu í Alaska er Hafsteinn Helgason verkfræðingur og stjórnandi verkefnisins um hugsanlega höfn í Finnafirði. Þá tekur Unnur Brá Konráðsdóttir varaformaður Vestnorræna ráðsins, samstarfsvettvangs Íslands, Færeyja og Grænlands, þátt í málþinginu. Mynd.