Veftré Print page English

Vestnorræna ráðið. Hátíðarræða. Færeyjar


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun hátíðarræðu á 30 ára afmælisþingi Vestnorræna ráðsins sem haldið er í Færeyjum en ráðið skipa þingmenn frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þingið sitja einnig forystumenn ríkisstjórna landanna þriggja.


Í hátíðarræðunni lýsti forseti hinni nýju stöðu sem Ísland, Færeyjar og Grænland hefðu nú öðlast vegna aukins mikilvægis Norðurslóða og vaxandi áhuga allra helstu forysturíkja í efnahagslífi Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku á þátttöku í þróun nyrsta hluta jarðarinnar. Forseti sagði m.a.:


„Þetta eru þáttaskil sem færa okkur – Færeyingum, Grænlendingum og Íslendingum – í senn ríka ábyrgð og fjölda tækifæra. En þá skiptir líka máli að við vöndum okkur og berum gæfu til að nýta vináttu okkar, gagnkvæmt traust og sameiginlega reynslu til að efla samstöðuna; skiljum styrkinn sem felst í nánum tengslum og trúnaði; einkum þegar voldugustu ríki heims, fyrirtæki þeirra, stjórnvöld og stofnanir, vilja nú gerast athafnasöm á heimavelli okkar, svæðinu sem áður skóp okkur einangrun en er nú komið í brennidepil nýrrar heimsmyndar.


Samstarf þjóðþinga okkar, kjörinna fulltrúa lýðræðislegra samfélaga, á vettvangi Vestnorræna ráðsins í þrjátíu ár, er í þessum efnum traust undirstaða og grundvöllur til að fjölga enn frekar verkefnum, skýra og skilja sameiginlega hagsmuni, móta stefnu í þágu fólksins sem falið hefur þingmönnum umboð.

En Vestnorræna ráðið og samstarf stjórnvalda í löndunum þremur sækir ekki aðeins styrk í hina lýðræðislegu samræðu; saga okkar og lífsbarátta fólksins á fyrri tíð, glíman við hafið og óblíð öfl náttúrunnar, eru líka efniviður í sameiginlegan reynslubanka þegar við göngum til móts við þessa nýju framtíð.“


Forseti rakti síðan í ræðunni sex þætti sem myndu á komandi árum móta hið nýja mikilvægi vestnorrænnar samvinnu á vettvangi Norðurslóða. Þeir væru: 1) Hið stóra hafsvæði í nágrenni okkar á Norður-Atlantshafi skapaði ásamt legu Grænlands, Íslands og Færeyja nýtt heimspólitískt – geopólitískt – mikilvægi, gerði löndin að eins konar miðju í hinu Nýja norðri. 2) Hin langa reynsla í fiskveiðum og nýtingu auðlinda hafsins skipti einnig miklu máli. 3) Forræði á mörgum öðrum auðlindum verði sífellt verðmætara í hagkerfi 21. aldarinnar. 4) Vaxandi sjálfstjórn íbúa Norðurslóða muni stig af stigi verða grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana. 5) Virðingin fyrir náttúrunni sé samgróin sögu okkar, menningu og sjálfsvitund, verndun umhverfisins mótuð af lærdómum og lífsvisku kynslóðanna. 6) Vinátta og samkennd þjóðanna þriggja sé traust veganesti.


Háttíðarræðu forseta, sem flutt var á dönsku, má ásamt íslenskri og enskri útgáfu hennar nálgast á heimasíðu forsetaembættisins. Þar er einnig að finna þakkarræðu sem forseti flutti þegar hann tók við heiðursverðlaunum Vestnorræna ráðsins og ávarp forseta í kvöldverði lögmanns Færeyja.

Forseti á í dag fund í Færeyjum með fræðimönnum við Fróðskaparsetrið, háskóla Færeyja, þar sem rektor Fróðskaparsetursins Sigurður í Jákopsstovu tekur á móti forseta; sem og fundi með Hákun Djurhuus, forstjóra Orkuveitu Færeyja, SEV, og stjórnendum laxeldisfyrirtækisins Bakkafrosts.

Forseti situr einnig hádegisverð í boði borgarstjórans í Þórshöfn, Heðins Mortensen, og skoðar minjasafnið á Koltur í leiðsögn Björns Paturssonar.

 

11. ágúst 2015