Veftré Print page English

Heiðursverðlaun Vestnorræna ráðsins


Forseti var sæmdur heiðursverðlaunum Vestnorræna ráðsins við hátíðlega athöfn sem fram fór í Runavik í Færeyjum.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þjóðþinga Færeyja, Grænlands og Íslands, og er þetta í fyrsta sinn sem það veitir slík heiðursverðlaun.

Í umsögn ráðsins kom fram að forseta eru veitt verðlaunin fyrir að efla sess vestnorrænu þjóðanna á alþjóðavettvangi og kynna um áraraðir málstað þeirra í viðræðum við erlenda þjóðhöfðingja og forystumenn ríkisstjórna, atvinnulífs og vísinda, einkum þar sem framtíð Norðurslóða er á dagskrá. Vestnorræna ráðið færir forsetanum sérstakar þakkir og sæmir hann verðlaununum á 30 ára afmæli samvinnu þjóðþinga Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga.

Athöfnin fór fram að loknum hátíðarkvöldverði sem lögmaður Færeyja Kaj Leo Holm Johannesen hélt til heiðurs forseta Íslands og Vestnorræna ráðinu í tengslum við þing ráðsins sem haldið er í Færeyjum í dag, 11. ágúst 2015.

Í stuttu ávarpi þakkaði forseti þennan heiður og áréttaði hina nýju stöðu sem vaxandi mikilvægi Norðurslóða hefði skapað Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Vinátta hinna vestnorrænu þjóða ætti sér djúpar rætur í sögu þeirra, lífsreynslu  og menningu. Samvinna þeirra væri enn mikilvægari nú þegar öll helstu forysturíki í efnahagslífi Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku stefndu að auknum áhrifum á Norðurslóðum. Sú samvinna sem fyrir þrjátíu árum hefði fyrst og fremst verið í þágu þjóðanna sjálfra hefði nú öðlast nýtt gildi á alþjóðavettvangi. Ávarp á dönsku. Ávarp á íslensku.

Forseti mun í dag, þriðjudaginn 11. ágúst, flytja sérstaka hátíðarræðu á afmælisþingi Vestnorræna ráðsins í Færeyjum en það sitja þingmenn frá þjóðunum þremur ásamt Kaj Leo Holm Johannesen lögmanni Færeyja, Kim Kielsen formanni landstjórnar Grænlands og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra Íslands.