Veftré Print page English

Fundur með Ségolène Royal


Forseti á fund með Ségolène Royal, ráðherra umhverfis, sjálfbærni og orku í ríkisstjórn Frakklands, en hún heimsækir Ísland í boði utanríkisráðherra og iðnaðarráðhera og í framhaldi af fundum með forseta Íslands í Abu Dhabi og París fyrr á þessu ári. Á fundinum á Bessastöðum nú var áréttuð nauðsyn þess að halda áfram að efla samvinnu Íslands og Frakklands á sviði jarðhita og nýtingar endurnýjanlegrar orku, einkum með tilliti til kynningar á slíkum lausnum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í París í desember. Nýting jarðhita getur verið mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og styrkt sjálfstæði landa í orkumálum. Á fundinum kom fram ríkur vilji til að efla samstarf Íslands og Frakklands á þessu sviði og fagnaði forseti nýjum lögum í Frakklandi sem munu stuðla að breytingum í orkumálum í átt að hagvexti, byggðum á grænni orku. Jafnframt þakkaði hann ráðherranum og frönsku stjórninni fyrir metnaðarfullan og fjölþættan undirbúning að loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP21, sem haldin verður í París og féllst forseti á  að taka þátt í margvíslegum viðburðum og málstofum um jarðhita sem skipulagðar verða af frönskum stjórnvöldum og öðrum þátttakendum í ráðstefnunni. Ennfremur var ítarlega fjallað um myndun alþjóðlegs vettvangs sem styrkt gæti samstarf ríkja, rannsóknarstofnana, fyrirtækja og fjármálastofnana í því skyni að stórefla nýtingu jarðhita til húshitunar og orkuframleiðslu vítt og breitt um veröldina. Íslenskir og franskir aðlar munu á næstunni ræða ýmsar hugmyndir í þessu skyni.