Undirskriftasöfnun Þjóðareignar
Forseti tekur á móti forsvarsmönnum undirskriftasöfnunar Þjóðareignar þar sem hvatt er til þess að forseti vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu lögum um ráðstöfun fiskveiðiauðlinda til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hafi verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra. Nöfn 53.571 Íslendinga fylgdu með áskoruninni. Forseti vísaði af þessu tilefni til yfirlýsingar sem hann gaf út 9. júlí 2013 þar sem stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn voru hvött til að ná varanlegri og víðtækri sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslu til þjóðarinnar. Jafnframt lýsti forseti hvernig undirskriftasafnanir og meðferð mála varðandi fjölmiðlafrumvarp, lög um Icesave og sú söfnun sem nú væri afhent sýndu allar hve lifandi málskotsrétturinn væri í hugum þjóðarinnar. Almenningur í landinu hefði áréttað hann með ólíkum hætti og þessi fjögur dæmi væru skýr staðfesting þess.