Hringferð Explorer. Hrein orka og sjálfbær sjávarútvegur
Forseti flytur fyrirlestur um borð í National Geographic Explorer í Akureyrarhöfn en skipið er á hringferð um Ísland. Frumkvæðið að fyrirlestrinum átti umhverfisstofnun Ted Turner, stofnanda CNN en hann er ásamt fjölskyldu sinni og fjölda umhverfissinna frá Bandaríkjunum meðal farþega í þessari ferð skipsins kringum Ísland. Skipið er sérhæft til ferða til einstakra svæða í náttúru jarðarinnar og er rekið í sameiningu af National Geographic tímaritinu og Lindblad Expeditions sem sérhæfir sig í sérstökum umhverfisferðum. Í fyrirlestrinum fjallaði forseti fyrst og fremst um þróun endurnýjanlegrar orku á Íslandi og skipulag fiskveiða, nýtingu auðlinda hafsins og þróun vísinda og tækni í tengslum við sjávarútveg. Fyrir þremur árum var forseti þátttakandi í ferð skipsins til Suðurskautslandsins en sú ferð var á sínum tíma skipulögð af Nóbelsverðlaunahafanum Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.