Veftré Print page English

Samstarf við Kanada


Forseti hóf í gær fjögurra daga heimsókn til Kanada. Landstjóri Kanada, David Johnston, efndi á fyrsta degi heimsóknarinnar til hádegisverðar í Ottawa til heiðurs forseta Íslands. Þá heimsótti forseti í gær kanadíska þingið og átti fund með þingforsetanum Andrew Sheer. Áður hafði forseti verið viðstaddur fundi bæði í Öldungadeild og Neðri málstofu þingsins og var forseta sérstaklega fagnað af þingheimi í báðum deildum.

 

Aðalefni heimsóknar forseta til Kanada eru þróun samstarfs á Norðurslóðum og vöxtur atvinnulífs og viðskipta ásamt viðræðum um varðveislu sögulegra tengsla Íslands og Kanada en flestir íslensku landnemanna í Norður Ameríku settust að í Kanada.

 

Í Ottawa átti forseti einnig fund í gær með Leona Aglukkaq umhverfisráðherra Kanada sem síðastliðin tvö ár var í forsæti Norðurskautsráðsins í formennskutíð Kanada. Á fundinum var m.a. fjallað um sívaxandi áhuga forysturíkja í Asíu og Evrópu á þátttöku í stefnumótun og rannsóknum á Norðurslóðum sem og hið nýja Efnahagsráð Norðurslóða, Arctic Economic Council, sem stofnað var í formennskutíð Kanada. Þá var einnig rætt um þing Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem árlega er haldið í Reykjavík og er nú þegar orðinn fjölsóttasti alþjóðavettvangurinn um málefni Norðurslóða.

 

Í gærmorgun hélt forseti fyrirlestur um stöðu Norðurslóða í nýrri heimsmynd í Miðstöð nýsköpunar í alþjóðasamstarfi, Center of International Governance Innovation. Forseti mun einnig, við lok heimsóknarinnar flytja annan fyrirlestur um Norðurslóðir við háskólann í Toronto.

 

Þá mun forseti í dag og á morgun flytja ræður og taka þátt í málstofum á Alþjóðaefnahagsþinginu í Montréal, International Economic Forum of the Americas, en það er stærsti vettvangur forystufólks í kanadísku viðskiptalífi og sótt af stjórnendum fyrirtækja víða að úr Bandaríkjunum og Suður-Ameríku. Jafnframt mun forseti eiga sérstakan fund með Jean D’Amour samgönguráðherra Québec sem er ábyrgur fyrir stefnumótun á sviði vöruflutninga á sjó.

 

Forseti mun í heimsókninni einnig eiga viðræður við áhrifafólk á vettvangi samvinnu Íslands og Kanada, flytja ræðu á aðalfundi Íslensk-kanadíska viðskiptaráðsins sem haldinn verður á föstudag í Toronto og snæða hádegisverð með meðlimum í Íslensk-kanadíska vináttufélaginu í Toronto. Á fyrsta degi heimsóknar forseta til Kanada hitti hann einnig í Ottawa fjölmarga Íslandsvini á heimili sendiherra Íslands í Kanada, Sturlu Sigurjónssonar.