Fundur með forseta Frakklands
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í dag, föstudaginn 17. apríl, fund með François Hollande forseta Frakklands í Élysée höll í París. Á fundinum áréttaði forseti Frakklands mikilvægi loftslagsráðstefnunnar sem haldin verður í París í desember, COP21, þar sem gerð verður úrslitatilraun til að ná víðtæku samkomulagi um áhrifaríkar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Forsetarnir voru sammála um að bráðnun íss á Norðurslóðum og þróun mála í þeim heimshluta fæli í sér mikilvægar röksemdir fyrir nauðsyn alþjóðlegs samkomulags í loftslagsmálum. Forseti Frakklands lýsti áhuga á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík 16.-18. október, nokkrum vikum fyrir Parísarfundinn, sem skapað gæti margvísleg tækifæri til að styrkja samstarf þjóða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Á fundi forseta Frakklands og Íslands var einnig rætt um mikilvægi þeirra rannsókna sem stundaðar hafa verið undanfarna áratugi á íslenskum jöklum og hvernig þær rannsóknir, ásamt þróun samstarfs á Norðurslóðum, leggja grundvöll að nýju samstarfi ríkja á Himalajasvæðinu, m.a. Kína og Indlands. Forseti Íslands greindi í því sambandi frá árangri ráðstefnunnar sem haldin var í Bútan í febrúar síðastliðnum. Þá væri reynsla Íslendinga af nýtingu jarðhita fordæmi sem æ fleiri þjóðir hefðu áhuga á að fylgja. Forseti Frakklands taldi brýnt fyrir frönsk fyrirtæki og vísindastofnanir að auka samstarf sitt við Ísland á þessu sviði.
Fyrr í dag áttu forseti Íslands og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra fund með Ségolène Royal, orku- og umhverfisráðherra Frakklands, þar sem rætt var um aukið samstarf milli landanna á sviði jarðhitanýtingar, bæði í Frakklandi og í öðrum heimshlutum, einkum í Afríku. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi hitaveitna í þróun borga á komandi áratugum og þá fjölþættu atvinnustarfsemi, bæði í ylrækt og fiskeldi, sem byggja má á jarðhita. Þá ítrekaði Ségolène Royal áform um að beita sér fyrir sérstakri kynningu á jarðhita í tengslum við loftslagssamningana sem fram fara í París í desember.
Í gær, fimmtudaginn 16. apríl, flutti forseti setningarræðu á fjölsóttri ráðstefnu sem Fransk-íslenska viðskiptaráðið efndi til í höfuðstöðvum Viðskiptaráðs Parísar (CCIP). Á ráðstefnunni var fjallað um samstarf landanna á sviði jarðhitanýtingar en vaxandi áhugi er í Frakklandi á þeim þætti orkumála. Ráðstefnuna sóttu sérfræðingar og fulltrúar franskra og íslenskra fyrirtækja. Auk forseta fluttu Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Laurent Fabius utanríkisráðherra Frakklands ræður á ráðstefnunni og forystumenn íslenskra og franskra jarðvarmafyrirtækja tóku þátt í pallborðsumræðum. Í lok ráðstefnunnar var undirrituð samstarfsyfirlýsing Háskólans í Reykjavík og INSA háskólans í Strasbourg sem og samningar annars vegar milli Mannvits og franska fyrirtækisins Clemessy og hins vegar milli Verkís og Clemessy.
Í kjölfar jarðhitaráðstefnunnar í gær átti forseti fund með Laurent Fabius utanríkisráðherra Frakklands. Á fundinum var einkum fjallað um hvernig Ísland gæti lagt lið í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar sem haldin verður í París í desember á þessu ári. Í þeim efnum var rætt um viðamiklar rannsóknir íslenskra vísindamanna á bráðnun jökla, árangur Íslendinga við nýtingu endurnýjanlegrar orku, einkum jarðhita, stóraukið mikilvægi Norðurslóða og loks hvernig íslenskir aðilar hafa á undanförnum misserum stuðlað að auknu samstarfi ríkja á Himalajasvæðinu en hlýnun jarðar kann að hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir þann stóra hluta mannkyns sem þar býr. Utanríkisráðherra Frakka lýsti miklum áhuga á samvinnu við Íslendinga á þessum sviðum og hvatti jafnframt til þess að samstarf landanna um nýtingu jarðhita yrði eflt á komandi árum. Fundinn sátu einnig Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra Íslands í Frakklandi.
17. apríl 2015