Veftré Print page English

Fundur með utanríkisráðherra Frakklands


Forseti á fund með Laurent Fabius utanríkisráðherra Frakklands í tengslum við ráðstefnu um jarðhitanýtingu sem haldin er í París. Einkum var fjallað um hvernig Ísland getur orðið að liði varðandi árangur loftslagsráðstefnunnar sem haldin verður í París í desember á þessu ári. Slíkt liðsinni gæti m.a. beinst að þeim rannsóknum á bráðnun jökla sem stundaðar hafa verið á Íslandi á undanförnum áratugum, árangri landsins á sviði endurnýjanlegrar orku, auknu mikilvægi Norðurslóða þar sem hlýnun jarðar er sérstaklega hröð sem og hvernig íslenskir aðilar hafa á undanförnum misserum stuðlað að auknu samstarfi á Himalajasvæðinu en hlýnun jarðar mun hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir þann stóra hluta mannkyns sem þar býr. Utanríkisráðherra Frakka lýsti sérstökum áhuga á samvinnu við Íslendinga á þessum sviðum og hvatti til þess að samstarf landanna um nýtingu jarðhita yrði eflt á komandi árum. Fundinn sátu einnig Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra Íslands í Frakklandi. Myndir.