Veftré Print page English

Ráðstefna við Tufts háskólann um Norðurslóðir


Forseti flytur setningarræðu á ráðstefnu Fletcher skólans við Tufts háskólann í Boston um Norðurslóðir, Warming Arctic International Inquiry, en hana sækja vísindamenn, sérfræðingar og fulltrúar stjórnvalda í Washington. Forsetinn mun einnig eiga fundi með stjórnendum Fletcher skólans og Kennedy skólans við Harvard háskóla um aukið samstarf að rannsóknum á Norðurslóðum.


Þá mun forseti eiga fund með dr. Daniel Schrag, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Harvard, Harvard University Center for the Environment (http://environment.harvard.edu/), og viðræður við prófessora, sérfræðinga og doktorsnema á sviði orku- og umhverfismála sem og í hafrannsóknum.


Ari Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og aðrir fulltrúar HR munu taka þátt í ráðstefnunni við Fletcher skólann en fundirnir með fulltrúum Fletcher og Harvard sýna vaxandi áhuga helstu háskóla í Bandaríkjunum á rannsóknum og vísindasamstarfi á Norðurslóðum. Nýlega var og undirritað samkomulag milli Háskólans á Akureyri og Kentucky háskóla um Norðurslóðasamstarf.


Innan fáeinna vikna munu Bandaríkin taka við formennsku í Norðurskautsráðinu og forseti mun í tengslum við ráðstefnuna í Boston eiga viðræður við John Holdren, stjórnanda vísinda- og tæknimála í Hvíta húsinu og formann bandarísku framkvæmdanefndarinnar í málefnum Norðurslóða, og David Balton sendiherra og aðstoðarráðherra í málefnum hafsins og fiskveiða.


Háskólarnir á Boston svæðinu hafa tekið virkan þátt í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, og undirbúa nú enn frekari þátttöku í næsta þingi þess sem haldið verður 16.-18. október í Hörpu.


Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu ráðstefnunnar, http://fletcher.tufts.edu/WarmingArctic.