Samstarf við Kína
Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi þar sem rætt var um vaxandi samvinnu landanna, einkum á sviði jarðhitanýtingar og rannsókna á jöklum og náttúru, bæði Norðurslóða og Himalajasvæðisins. Kínverskar vísindastofnanir og fyrirtæki hafa verið öflugir þátttakendur í þingum Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, og áformað er að Kína verði á þinginu í október með sérstaka kynningu á stefnu sinni og áherslum í málefnum Norðurslóða, líkt og Frakkland, Bretland og Japan voru með á þinginu í fyrra. Þá var einnig fjallað um góðan árangur af samráðsfundi um Himalajasvæðið sem haldinn var í Bútan í febrúar sem og væntanlega ráðstefnu Norrænu-kínversku Norðurslóðamiðstöðvarinnar sem haldin verður í Sjanghæ í júní.