Opinber heimsókn til Litháens. Sjálfstæðisafmæli
Forseti hóf í morgun opinbera heimsókn til Litháens í boði forseta landsins Dalia Grybauskaite. Á morgun mun forseti Íslands halda hátíðarræðu á afmælisfundi litháenska þingsins í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að landið öðlaðist sjálfstæði.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytis og forsetaskrifstofu taka einnig þátt í heimsókninni og forseti Alþingis Einar K. Guðfinnsson verður viðstaddur hátíðarfund þingsins.
Opinber heimsókn forseta hófst með hátíðlegri athöfn við forsetahöllina í Vilnius þar sem forsetar landanna könnuðu heiðursvörð og þjóðsöngvar Íslands og Litháens voru leiknir. Að loknum viðræðufundi forsetanna og fundi íslensku sendinefndarinnar með forseta Litháens og embættismönnum héldu forsetarnir blaðamannafund.
Um hádegisbil leggur forseti blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða um þá sem létu lífið í baráttunni fyrir sjálfstæði Litháens. Að því loknu býður forsætisráðherra Algirdas Butkevicius forsetahjónunum og íslensku sendinefndinni til hádegisverðar.
Forseti mun svo síðdegis eiga fund með forseta litháenska þingsins Loreta Grauziniene og flytja fyrirlestur við Mykolas Romeris háskólann í Vilnius. Fyrirlesturinn fjallar um glímu lýðræðis og markaða í kjölfar hinnar evrópsku fjármálakreppu. Í kvöld býður forseti Litháens Dalia Grybauskaite til hátíðarkvöldverðar í forsetahöllinni til heiðurs íslensku forsetahjónunum.
Á morgun flytur forseti Íslands hátíðarræðu á sérstökum fundi þings Litháens sem haldinn er í tilefni þess að þá verða 25 ár liðin frá því landið endurheimti sjálfstæði sitt. Ræðumenn á hátíðarfundinum verða, auk forseta Íslands, forseti Litháens Dalia Grybauskaite, forseti þingsins Loreta Grauziniene, erkibiskup Vilniusborgar Gintaras Grušas og Vytautas Landsbergis, helsti forystumaður í sjálfstæðisbaráttu landsins. Fréttatilkynning. Myndir.