Sendiherra Keníu
Forseti á fund með nýjum sendiherra Keníu á Íslandi, Joseph Kiprono Sang, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um þróun jarðhitanýtingar í Keníu sem skilað hefur miklum árangri á undanförnum árum og er landið í áttunda sæti á heimsvísu í nýtingu jarðhita. Áhugi er einnig hjá stjórnvöldum í landinu að efla samvinnu við Ísland á sviði sjávarútvegs og kynnast reynslu Íslendinga við að nýta jarðhita til að þurrka sjávarfang. Ennfremur var fjallað um margvísleg tækifæri til samstarfs milli landanna við að kynna öðrum þjóðum kosti og árangur jarðhitanýtingar, m.a. með tilliti til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og væntanlegra viðræðna um þau efni sem fram fara í París síðar á þessu ári.