Heiðursdoktor við Laval háskóla
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson var í gær, þriðjudaginn 24. febrúar, gerður að heiðursdoktor við Laval háskólann í Québec við hátíðlega athöfn í höfuðsal skólans. Í ræðu Denis Brière rektors kom fram að forseti væri gerður að heiðursdoktor vegna framlags hans til þróunar Norðurslóða, forystu um samstarf háskóla og vísindastofnana og frumkvæði að víðtækri þátttöku í mótun framtíðar Norðurslóða þar sem rannsóknir og þekking væri lögð til grundvallar.
Forseti Íslands þakkaði í ávarpi sínu þennan mikla heiður og áréttaði þá sannfæringu sína að stefnumótun á Norðurslóðum yrði að byggjast á rannsóknum háskóla og fræðasamfélags; vísindaleg þekking væri forsenda sjálfbærrar framtíðar.
Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec, flutti einnig ræðu við athöfnina en fyrr um daginn höfðu hann og forseti ákveðið á fundi sínum að Québec yrði formlegur aðili að Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem árlega heldur þing sitt í Reykjavík. Þátttaka Québec í Arctic Circle myndi fyrst og fremst miðast við að efla framlag háskóla og rannsóknarstofnana, styrkja þátttöku samtaka frumbyggja og umhverfissinna og kynna hina merku Norðuráætlun, Plan Nord, sem fylkið samþykkti fyrir fáeinum árum.
Þá ræddu forseti og forsætisráðherrann einnig um þá hugmynd að á næsta ári myndi Arctic Circle efna til málþings í Québec í samvinnu við stjórn fylkisins þar sem fyrst og fremst yrði fjallað um svæðaþróun á Norðurslóðum og árangurinn af Plan Nord lagður til grundvallar.
Að lokinni doktorsathöfninni bauð rektor háskólans til hátíðarkvöldverðar.
Á miðvikudag og fimmtudag mun forseti taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um þróun Norðurslóða á sviði velferðar, efnahagslífs, umhverfis, orku, loftslagsbreytinga og á fleiri sviðum. Málþingið er haldið í samvinnu Norrænu ráðherranefndarinnar, Laval háskóla og Québec fylkis. Þá mun forseti einnig heimsækja þing Québec og eiga fund með Jacques Chagnon forseta þess og fleiri forystumönnum fylkisins.
Á blaðamannafundi forseta og forsætisráðherra Québec í gærmorgun kom fram að samvinna Íslands og Québec, m.a. innan vébanda Arctic Circle væri vitnisburður um nýjar og árangursríkar aðferðir í samstarfi á Norðurslóðum.
25. febrúar 2015